Fimmta Minja- og söguskiltið af sex í Grindavík verður afhjúpað við Hópið laugardaginn 11. október n.k. Staðsetningin sem og dagskráin verða auglýst á www.grindavik.is er nær dregur.
Í Manntali 1880 var bæjarstæðan að Hópi nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á hinum ýmsu tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má og sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness, auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa.
Ætlunin var að fylgja Kjartani Óskarssyni, þaulkunnugum, eftir um strandlengjuna frá Þorlákshöfn að Nesi í Selvogi. Kjartan, sem fæddur er 1946, er uppalinn í Nesi í Selvogi, auk þess sem hann hefur gegnt vitavarðastarfi í Selvogsvita frá árinu 1962. Víst var að ýmislegt myndi bera á góma – og ekki allt fyrirséð.
Samhliða því að fylgja bergbrúninni var rakin gamla þjóðleiðin minni Þorlákshafnar og Selvogs. Hún er vörðuð svo til alla leiðina. Önnur gömul þjóðleið, Suðurleiðin, er allnokkru ofar í heiðinni, en ætlunin að ganga hana fljótlega frá Þorlákshöfn að Strandarhæð ofan við Selvog. Í Sögu Þorlákshafnar segir m.a.: „Gata lá frá Þorlákshöfn út í Selvog. Lá hún norðan undir klapparhól, sem ber við loft frá Þorlákshól séð. Á hól þeim stóðu Þrívörður. Þær eru nú fallnar. Nokkru norðar frá Þorlákshól í stefnu rétt sunnan við Selvogsheiði er stór varða, sem heitir Smalavarða, ekki við neina götu. Frá Þorlákshöfn í stefnu norðan við Hnúka á Selvogsheiði var götuslóði sem hét Lyngheiðarvegur. Við götuna upp að Hlíðarenda, en hún er litlu vestar en núverandi vegur, eru innan við Unubakka þrjú vörðubrot á klapparhól. Þær heita Hlíðarendavörður. Þær sjást greinilega frá veginum. Fleiri vörður eru meðfram götunni, samanber Hlíðarenda.“
Frá Þorlákshöfn út í Selvog voru áætlaðir 15 km, en þeir reyndust 16.7 þegar á leiðarenda var komið. Vilji menn göngutúr þótt regn sé á, þá má ætla að þessi leið sé heppilegust til þess arna af öllum kortsins leiðum, því að ströndin er vissulega stórfengleg í úðvaða brimi og slagveðri. En hættulaust er ekki þótt jafnlent sé, því að menn freistast til að skoða skúta og klettaskorur. Hvorugu var til að dreifa að þessu sinni, því hvorki rigndi né reyndu þátttakendur að stinga tám fram af bjargbrúninni – þótt oft hefði verið ærin tilefni til.
Þorlákshöfn á land að sjó, austan frá Miðöldu í Hraunsmörkum, vestur að Þrívörðum í Selvogsmörkum. Strandlengjan ofanverð austan við Þorlákshöfn er sendin. Elzta nafn á allri þessari sandströnd (austan Þorákshafnar) er Vikrarskeið, samanber Laxdælu, en heitir nú Skeið eða Skeiði, og Hraunsskeið enn austar.
Vestan Þorlákshafnar er ströndin í fyrstu grjótvarin, en utar tekur við standberg í sjó fram. Bergið er hæst ofan við Keflavík og Háaleiti, en þegar nær dregur Bjarnavík og Álum austan við Selvogsvita lækkar bergið til muna.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorlákshöfn segir m.a. um þetta svæði: „Í nestánni fyrir sunnan Sporið er Hafnarvarða. Var hún hlaðin mjög stór, enda við hana miðaðar fiskileitir. Nú er hún hrunin að mestu, en viti, Þorlákshafnarviti, reistur við hlið vörðunnar. Frá Hafnarvörðu liggur ströndin í vestur, og hækkar smám saman. Vestan vörðunnar er vik nokkurt sem heitir Vörðukriki. Um fjöru verður þar dálítið lón. Það heitir Þanglón. Suðaustur frá Hafnarnesi, sem nefnt verður síðar, er blindsker eða grynning nokkuð frá landi, og heitir Kúla. Þar er um 12 faðma dýpi.
Vestur frá Hafnarvörðu, sem í daglegu tali var nefnd Varða, og oftast með greini, er mjög mikil stórgrýtisurð með sjónum vestur að Hafnarbergi. Stórgrýti þetta heitir Urðir. Klappabrún milli Urða og sjávar heitir Flesjar. Var það nafn einkum notað þegar við það voru miðuð fiskimið. Meðfram Urðum eru nokkur sker rétt upp við land. Aðeins eitt þeirra hefur nafn, það heitir Flesjasker. Það er rétt vestan við Vörðukrika.
Austarlega á Urðum er mjög stór, flatur klettur, og hallast upp að minni klettum. Hann heitir Latur. Það fór mjög eftir veðri og sjó hve mörg áratog þurfti til að róa Lat fyrir Geitafell. Einstígur heitir þar sem ströndin hækkar, svo að verður hreint standberg, sem sjórinn hefur ekki náð að hlaða stórgrýti upp á, eins og hann hefur gert á Urðunum. Vestur frá Einstíg er Þorlákshafnarberg, eða Hafnarberg, en af heimamönnum oftast nefnt Berg. Það nær vestur að Keflavík. Austantil er Bergið með mörgum nefjum og básum, nafnlausum. En er vestar kemur, er langt á milli nefja og lítil[s]háttar fjara undir berginu. Þar heitir Langibás. Upp af miðjum Langabás er allstór varða um 200 til 300 metra frá sjó, á hól og er 18 m há. Hún heitir Langabásvarða. Vestan við Langabás er nef, sem í bókum og kortum er nefnt Hellrar og Hellranef, en ég hef ekki fengið það staðfest af kunnugum. Steindrangar tveir, um 1,5 m á lengd og um 0,5 m í þvermál, nefndir Bræður, lágu á Bergsbrúninni vestan við Hellranef. Annar þeirra reis upp á endann í ofsabrimi snemma á árinu 1918. Voru fiskileitir miðaðar við hann árum saman. En nú er hann aftur lagstur útaf. Nú verður allstór bás í bergið, og vestan hans nef sem heitir Þyrsklingsnef, en líka nefnt Tittlingsnef. Það er sama nefið og Hálfdan Jónsson nefnir Mávagnýpu í lýsingu Ölfushrepps 1703. Þessi tvö nef standa bæði á löpp yst og gat gegn um þau. Þau eru mjög lík að stærð og útliti. [Sjórinn færir steinbörg auðveldlega til á berginu. Á göngunni mátti sjá mörg þeirra, og sum mjög stór, sem eiga eftir að ferðast talsverða vegarleng innan skamms tíma]. Vestan við Þyrsklingsnef verður stórt vik inn í ströndina, allt vestur að Þrívörðum, sem eru í mörkum Þorlákshafnar og Selvogs. Vik þetta heitir Keflavík, og þó aðallega miðbik þess. Vestantil við Þyrsklingsnef heita Sigfjörur. Þar er svolítil fjara undir berginu, og verður að síga eftir því sem þar berst á land.
Fyrir vestan Sigfjörur er krosssprunginn klapparhóll fram á bergsbrúninni. Hann heitir Hlein. Ofan við Hlein eru nokkrir klapparhólar, en annars er Sandurinn jafnlendur. Vestan við Hlein, í sjálfri Keflavík í þrengri merkingu, lækkar ströndin, berg er ekki, og fært niður í fjöruna. Þar er allmikill fjörugróður. Vestantil á Keflavík eru nokkur smávik inn í ströndina. Þau heita í heild Básar. Sumir þeirra hafa nöfn, Bakkabás, Bjarnastaðabás, Þorgrímsstaðabás. Í Básunum höfðu ábúendur jarða þeirra sem nöfnin benda á, rétt til sölvatekju, segir Þórður J. Símonarson frá Bjarnastöðum, en rétt til að hirða smærri spýtur, fyrir að bjarga stærri reka undan sjó, segir Björn Sigurðsson, sem lengi var vinnumaður í Þorlákshöfn.“ Kjartan sagði ströndina, einkum bergið, gróft og harðgert. Þegar einstök svæði þess voru skoðuð í smærra samhengi virtist það töfrum hlaðið. Og það þrátt fyrir að bæði Þrívörðum og Hlein hefði nú verið raskað; þær fyrrnefndu af mönnum og þeirri síðarnefndu af sjávarguðinum og öldum hans.
Strandlengjan frá Þorlákshöfn vestur á Selatanga er að mestu óröskuð og frábær gönguleið sem allt of fáir fara um. Í ljós koma að á þessari leið er fjölmargt að skoða, bæði falleg og merkileg náttúrufyrirbæri en einnig sögulegir staðir. Líklega má sjá á þessari leið allar útgáfur hraunreipa, sem til eru hér á landi, horfa á hvernig hvert litbreytilegt hraunlagið hefur hlaðist ofan á annað og sjórinn hefur náð að fletta ofan af þeim, hverju á fætur öðru, auk þess sem landnemaplöntur með öllum sínum litbrigðum setja skrúðugan svip á annars svarleitt basaltið. Þar er skarfakálið einkar áberandi, auk þess sem sáð hefur verið melgresi í sanflákana ofan bergsins. Það breytir litum líkt og annar gróður er hausta tekur.
Áður en lagt var stað var gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”. Þjósagan segir frá því að landnámsmaður í Selvogi hafi þurft að gera ráðstafanir til að verjast ágangi fólks, en seinni tíma ágangur – og öllu alvarlegri – átti eftir að herja á sveitina.
Sandurinn sem er á svæðinu ofan bergsins hefur að megninu til borist upp úr fjörunni austan byggðarinnar í Þorlákshöfn, en talið er að hluti áfoksefnanna sé komin frá Ölfusárós. Sandur hefur borist þaðan með austanvindi, vestur undir Selvogsheiðina og alla leið vestur í Selvog.
Eftir 1950 var byrjað að sá melgresi og bera á kambinn sem liggur með sjónum austur frá þorpinu. Kamburinn var þá grýttur og nokkuð sléttur í sjó fram. Melgresið fangaði megnið af sandinum sem barst upp úr fjörunni og með því móti byggðist upp mikill sjóvarnargarður sem nú bindur milljónir rúmmetra af sandi og stöðvar hann megnið af sandinum sem berst upp úr fjörunni svo sandskriðið vestur eftir er hætt að mestu. Hinsvegar er gríðarlegt magn af sandi á vestanverðu svæðinu frá því að sandburðurinn upp úr fjörunni var óheftur og á hann eftir að valda erfiðleikum á uppgræðslusvæðinu. Af ummerkjum, svo sem stefnu sandskafla og lögun steina sem sandfokið hefur slípað til, má ráða að meginstefna sandskriðsins sé til suðvesturs og út í sjó.
Upphaflega var sandsvæðið umhverfis Þorlákshöfn girt árið 1935. Lengd girðingarinnar var 21,8 km og friðaði hún um 7.800 ha. Umsjónaraðili er garðyrkjustjóri Þorlákshafnar. Landgræðslugirðingin náði frá Ölfusá að Nesvita í Selvogi. Hún lá til austurs frá Hamraendum, sunnan við Hraun og fyrir ofan sandana, neðan við Hlíðardalsskóla, Breiðabólsstað, Litlaland og Hlíðarenda, yfir Selvogsheiði og til sjávar austanvert við Nes í Selvogi.
Fyrstu árin þar á eftir voru litlar sem engar aðgerðir. Árið 1952 var hafist handa við gerð skjólgarða á leirunum austan við þorpið, því mesta sandfokið kom þaðan. Skjólgarðarnir drógu úr sandskriði en yfirborð landsins milli garðanna lækkaði svo nú er þar oftast vatn. Undanfarin á hefur einkum verið sá í nágrenni við fyrirhugaðan Suðurstrandarveg vestab Þorlákshafnar.
Fyrstu árin eftir þetta átak var sáð melfræi í sjávarkambinn þar sem unnt var fyrir grjóti en hann var þá nokkuð sléttur í sjó fram. Ennfremur barst fræ frá varnargörðunum sem festi rætur í sjávarkambinum. Þarna hefur melgresið byggt upp einn merkasta sjó og sandvarnargarð hér á landi, margra metra háan, er bindur milljónir rúmmetra af foksandi.
Jafnframt því sem unnið hefur verið að því að stöðva fokið frá fjörukambinum og leirunum austan Þorlákshafnar, hefur verið lögð áhersla á sáningar næst þorpinu. Einnig hefur gróður verið styrktur við norðurjaðar áfoksgeirans, þ.e. á nyrsta hluta uppgræðslusvæðisins.
Árlegur kostnaður Landgræðslunnar við heftingu sandfoks umhverfis Þorlákshöfn hefur að meðaltali verið um tvær til fimm milljónir króna þar til 1996 og 1997 er kostnaður varð nærri 20 miljónir. Auk aðgerða Landgræðslu ríkisins hefur Ölfushreppur unnið að margháttuðum uppgræðsluaðgerðum í næsta nágrenni þorpsins.
Landgræðsla á sér langa sögu í Þorlákshöfn. Reyndar hafa verið ýmsar tegundir plantna og ólíkum aðferðum beitt við uppgræðsluna. Fyrir liggur því allgóð reynsla sem nú er unnið eftir. Hér verður aðeins drepið á nokkrar þeirra aðferða sem beitt hefur verið og árangur þeirra.
Án efa er melgresi sú tegund sem lang best dafnar á sand svæðinu. Engin planta heftir sandfok eins vel og melgresið, né stenst veðráttuna við suðurströndina betur. Melgresið safnar í sig foksandinum og myndar ýmist breiður eða melhóla. Sandlagið þykknar smásaman þar sem melgresið vex og verða hólarnir oft 3-5 m háir.
Yfirleitt kemur að því að hólarnir verða óstöðugir og vindur tekur að rífa sand úr hliðum þeirra og melgresið lætur undan síga.
Nauðsynlegt hefur reynst að bera áburð á melsáningar í nokkur ár eftir að sáð er. Einnig hefur þurft að bera árlega á þau svæði þar sem sandágangurinn er mestur, t.d. kambinn milli þorpsins og Ölfusárósar.
Árið 1989 var gerð tilraun með sáningu á 60 kg af lúpínufræi með TF-NPK. Fræinu var dreift á vestanverðu landgræðslusvæðinu. Flogið var með norðrurjaðri sandsvæðisins og síðan beygt til suðurs í átt að sjó. Fræið spíraði seint en lúpína er nú að breiðast út þar sem fræinu var dreift. Á síðustu árum hefur lúpínu verið plantað víða umhverfis Þorlákshöfn. Árangurinn af því er allgóður, en eftir á að koma í ljós hversu ört lúpínan breiðist út. Árið 2001 var gerð tilraun með að bera á 75 hektara, með dráttarvélum, út frá vegstæði Suðurstrandarvegar og skilaði sú dreifing góðum árangri þar sem áborið svæði var mun gróskumeira en óáborin svæði.
Kjartan upplýsti að fyrir tiltölulega fáum árum hefði ofanverð strandlengjan verið endalausir sandflákar, en eftir að svæðið var girt af og sáð hafði verið í það hefði orðið gerbreyting á.
Þegar leiðin er gengin eru framangreind þögul uppgræðslan annars vegar og hávaðasamt sæhljóðabergið hins vegar – hvorutveggja ágengir athyglisveiðarar. Ef báðir eru hunsaðir um stund má sjá ýmislegt, sem ella afmissist, s.s. hniðjur, rek og rekavið, einstaka fornfálegt leikfang, glerkúlur, plastkúlur, belgi, dufl og skótau frá ýmsum tímum.
Kjartan upplýsti að fyrir tiltölulega fáum árum hefði ofanverð strandlengjan verið endalausir sandflákar, en eftir að svæðið var girt af og sáð hafði verið í það hefði orðið gerbreyting á.
Vestan Þorlákshafnar eru allt of sýnilegar minjar þriggja tilrauna með laxeldi og hörrækt. Starfsstöðvarnar standa þar nú sem minnismerki, ein af mörgum, um misheppnaðar mótvægisaðgerðir í atvinnumálum þjóðarinnar. Önnur slík minnismerki um allt land eru refabúin. Líklega verða virkjanir og orkuveitur önnur slík þegar til lengri framtíðar litið – því augljóst virðist, er gengið er um svæði það sem að ofan greinir, að orkuöflun framtíðarinnar verður fyrst og fremst með nýtingu frumefnanna, þ.e. lofts, ljóss og vinds. Þegar einhverjum gáfumanninum dettur það í hug munu spretta upp liltar heimilsorkustöðvar er gera munu hápsennumöstur og -jarðstrengi óþarft með öllu.
Jæja, við fyrrverandi Þrívörður var talið tilefni til að staldra við og skoða örnefnalýsingu austasta bæjarins í Selvogi, Ness. Þar segir m.a.: „Þá er komið að Þrívörðum, þar sem voru þrjár vörður á berginu á landamerkjum Selvogs og Þorlákshafnar. Þær eru nú horfnar. Um Þrívörður er bergið farið að lækka og hægt að ganga þar niður um skörð, en bunga er milli þeirra og Háaleitis. Fyrir austan Þrívörður tekur við Keflavík. Þar átti Hjallakirkja reka.
Vestar er Sigbás. Þar var eggja- og fuglatekja á bletti. Háaleiti er þar sem bergið er hæst. Á því var varða, sem lengi vel var haldið við af sjómönnum úr Þorlákshöfn. Varðan var höfð fyrir mið. Fyrir framan heita Forir eða Háaleitisforir. Þar var mikill fiskur og sótt þangað bæði úr Þorlákshöfn og Herdísarvik.“ Til gamans má geta þess að á Háaleiti trjónir nú háleitt markmið einhvers bílstjóra, sem (ekki) hefur náð lenga og skilið ökutækið þar eftir. Hlaðið hefur verið umhverfis það, væntanlega úr fyrrnefndu kennileiti.
„Austan við Bjarnavík er Viðarhellir undir berginu. Þar var mikill reki. Gat er í bergið yfir hellinum og hægt að síga niður í hann. Bjarnavík er allbreitt vik í bergið, og er djúpt þar. Eyþór heyrði sagt, að Bjarni riddari hefði haft þar legu fyrir skip.“
Viðarhellir sést ekki ofan af bergbrúninni, einungis frá sjó. Kjartan sagði færeyskan kútter hafa strandað í vikinu 1930. Þrjátíu manns hefðu verið um borð og hefðu nokkrir þeirra farist. Þá hafi mb. Helgi Hjálmarsson úr Reykjavík rekið þar upp nokkru seinni. Þrír menn hefðu verið um borð. Tveir, skipsstjórinn og óbreyttur, komust að Viðarhelli, en sá þriðji hvarf í hafið. Lík hans fannst við Eyrarbakka nokkru síðar. Hinir tveir gátu klifrað upp á bjargbrúnina og lögðu berfættir af stað til Þorlákshafnar. Annar þeirra, skipstjórinn, hefði fest fót sinn í fjörunni, en félagi hans aðstoðaði hann upp á bjargbrúnina og áfram til bæjarins. Félagar í björgunarsveitinni hefðu klifrað niður og skoðað hellinn, en slíkt væri ekki á færi aukvisa.
„Nokkuð austur af Bótum [Austari bót og Vestari bót] heita Gren (ft.). Þar var tófugren við kampinn. Þar eru klappir og urð, grenjalegt land. Heita Álar þar fyrir austan. Það eru geirar á milli klappa í fjöru, þang og þari í. Þar er útgrynni farið að minnka. Tekur bergið að lækka úr því, og engin fjara er undir. Nokkru austar en Álar er klettur fram í sjó, sem kallast Nípa.“
Ofan Ála, allangt ofan strandar, er stórt járndufl. Kjartan sagði það hafa rekið upp í fjöruna 1970. Þá hafi verið gerður leiðangur að því og verðmæti hirt af því. Líklega hefði verið um eitthvert Faxaflóaduflanna að ræða, sem slitnað hefði frá festum. Í óveðrinu mikla, sem gekk yfir þetta landssvæði árið 1991, hefði það flotið spölkorn inn á heiðina.
Ofan við Ála er Hvítisandur og Hvítasandshóll, að sögn Kjartans. Áður var þarna skeljasandur, en eftir að svæðið var ræktað upp hvarf hvíti liturinn að mestu. Ekki er að sjá skeljasandsfjöru í Álunum.
Ofan við Álana eru leifar af mb. Verði frá Reykjavík. Báturinn fór þar upp 1956, sennilega 18. febrúar. Fimm menn voru um borð. Þeir fórust allir. Lík tveggja bátsverja fundust, en leifar þriggja skipsverja hafa aldrei fundist, þrátt fyrir mikla leit dögum saman eftir slysið. Báturinn hafði verið í Þorlákshöfn, en farið þaðan í afleitu veðri, en líklega orðið fyrir vélarbilun og þá rekið upp á ströndina. Í óverðinu 1991 brotnaði hluti (skutur) bátsins og rak upp yfir kampinn. Kjölstykki má sjá þar skammt vestar.
Þegar komið var að Selvogsvita varð rödd Kjartans innilegri (honum þótti greinilega vænt um vitann). „Á Selvogstanga var reist 15 m há járngrind árið 1919. Á hana var látið 3,3 m hátt ljóshús og 200° díoptrísk 1000 mm linsa og gas-ljóstæki. Inn á milli hornstoða grindarinnar var komið fyrir steinsteyptri gashylkjageymslu en efst undir svölum var skýli utan um stiga upp í ljóshúsið. Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. Eftir aðeins rúm 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita.
Árið 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarsvari.“ Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.
Kjartan, sem er með lyklavöldin, opnaði hurð vitans. Innanvert birtust undraverkin. Eftir að hafa útskýrt hvernig þrívarin vörn hans virkaði var haldið upp grámálaða tréstiga, hvern af fætur öðrum. Fyrir fólk, sem gengið hafi 17 km, var það sumu þrekraun. Efst trjónaði „djásnið“, ljóskúpullinn, sem prýtt hafði gamla vitan utar á ströndinni. Sköpunarár hans varð 1917, komið á járngrind 1919 og síðan hífður upp í núverandi vitaturn 1930. Útsýnið úr turnkrónunni, yfir Hafnarberg annars vegar, og Selvog hins vegar er, er og verður eftirminnilegt.
Kjartan sýndi þátttakendum einkar áhugavert plagg – og sennilega einstakt núorðið. Á því stóð; „REGLUR um komur gesta í vita landsins: Vitaverðum er heimilt að veita gestum leyfi til að skoða vitann á tímabilinu frá því hálf stund er liðin frá sólaruppkomu þar til hálfri stundu fyrir sólarlag.
Gestir skulu, áður en þeir fara inn í vitann, rita nöfn sín, og heimili í gestabók vitans. Eigi mega þar koma fleiri en 3 gestir í senn. Skulu þeir, áður en en þeir ganga upp í vitann, þurrka vandlega af fótum sér á gólfmottunni; bannað er að rita eða roispa nöfn eða annað á veggi og rúður. Gæta ber og þess, að enginn snerti við nokkru því, er til vitatækjanna heyrir. Gestirnir mega ekki vera í blautum utanyfirfatnaði né hafa með sér stafi, regnhlífar, svipur eða annað því um líkt inn í vitann: Bannað er að reykja tóbak, svo og að hrækja, nema í hrákadalla. Neftóbak má eigi hafa um hönd í ljóskerinu. Hundar og kettir mega ekki koma inn í vitann.
Ölvuðum mönnum og óhreinlega til fara er bannað að koma í vitann.
Einhver vitaþjónanna skal ávallt vera gestunum í vitanum og ber honum að koma kurteislega fram við þá og skýra þeim frá öllu, sem þeir óska um vitafærin, en um fram það er honum ekki heimilt að veita óviðkomandi mönnum neina vitneskju um rekstur vitans.
Hverjum gesti ber að greiða vitaþjóninum 25 aura fyrir ómak hans.
Í stjórnarráði Íslands 3 maí 1910 – Björn Jónsson (vitundarvottur; Jón Hermannsson).“
Ekki er vita til þess að reglurnar frá 1910 hafi verið numdar úr gildi, enda kannski eins gott því bæði var hundur (tík) með í för, þátttakendur með stafi og engin gólfmotta til staðar.
„Á kampinum við Nesvita var bær, sem hét Snjóhús. Þegar hann man eftir, voru öll hús fallin, en kálgarðar voru í tóftunum, kallaðir Halldórsgarðar. Þar sem vitinn stendur, ganga klappir fram í sjó, og heitir þar Snjóhúsavarða. (Í skrá G. S. eru ýmsar myndir nafnsins tilfærðar: Snjóthús-, Snóthús-, Snjóhús-, Snjóshús- og Snjólfshúsvarða.) Eyþór man eftir vörðunni þarna; á henni var sundmerki. Selvogsviti var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur.
Skammt austan við Snjóhúsavörðu taka við klappir, og þar austur af eru Bætur. Þær eru þrjár, Vestastabót, Miðbót og Austastabót. Var talað um að fara „austur á Bætur“. Á Bótunum var skorið þang til eldsneytis og beitt fé.“
Snóthúsavarða er horfin, en enn má leifar af Fornagarði liggja að henni, en varðan átti að vera austurmörk garðsins. Innan hans,nær ströndinni, vestan vitans, er gróinn hóll, leifar Snjóthúss, eins af 10 kotbýlum í Neslandi (1703).
„Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið.
Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigunum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi. Af bæjarstæðinu í Nesi er eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Bærinn stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes . Stundum voru þar fleiri bæir.
Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“
Á leiðinni var gengið um Nestúnið, framhjá fyrrum bæjarstæði Litla-Leðurs og Stóra-Leðurs. Minjar síðarnefnda kotbýlisins er verulegar á meðan þess fyrrnefnda hafa verið „túnsléttaðar“. Vestar má sjá leifar Bartakots og Þórðarkots. Kjartan sagðist muna enn eftir baðstofunni í Þórðarkoti. Vestar er tóftir Klappar í Bjarnarstaðarlandi:
Að ofanverðu við Nes má sjá vörðuröð. Þar kemur fyrrnefnd gata frá Þorlákshöfn niður í Selvog. Venjulega tók um 4 klst að ganga leiðina, sem virðist furðu bein af þjóðleið að vera.
Að lokinni göngu bauð frú Sigríður, eiginkona Kjartans, þátttakendum í íslenska kjötsúpu á veitingastað þeirra hjóna í Selvogi. Þar voru málin og enn og aftur reifuð (meira síðar).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.
-Örnefnalýsing fyrir Nes.
-Vitar á Íslandi.
-Saga Þorlákshafnar.
-Kjartan Óskarsson.
Vitneskja um „fornar“ eða „gamlar“ götur á Reykjanesskaganum eru tiltölulega nýjar. Þeirra er ekki getið í fornum heimildum, enda hafa að öllum líkindum þótt svo sjálfsagðar að ekki tæki að fjalla um þær sérstaklega.
Fyrstu „ferðamennirnir“ hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúrustaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík. Að öðru leyti þótti Reykjanesskaginn líkastur auðn, líkt og Sveinn Pálsson lýsti í ferðabók sinni seint á 19. öld; „hér er ekkert merkilegt að sjá…“
Þrátt fyrir heimildarleysið hafa landsmenn ferðast af nauðsyn milli tiltekinna staða með ströndinni og stranda á millum um aldir – eða allt frá landnámi á 9. öld, eða jafnvel lengur. Þegar meiri festa komst á samfélagsmyndina og tilteknir staðir urðu ráðandi forðabúr svæðisins og aðrir ákveðnir stjórnsýslustaðir komust á fastar og hefðbundnar ferðir starfsfólks að og frá þeim, sem og fólks er sótti þangað varning, stundum í löngum lestum, s.s. að Seltöngum og í aðrar verstöðvar og verslunarstaði.
Yfirleitt var reynt að velja greiðfærustu leiðirnar á milli staða, jafnvel þótt lengri væru en þær beinustu. Reynt var að krækja framhjá úfnum og torfærum hraunum, sléttlendi frekar valið fyrir fótgangandi tvífætlinga og gróðurræmur fyrir fjórfætlinga. Vel var gætt að því að „halda hæð“ svo ekki væri verið að fara að óþörfu upp og niður hæðirog lægðir. Slíkt krafðist orku, en mikilvægt var að lá fyrirliggjandi orkuöflun nýtast sem best í ferðinni hverju sinni. Hver fylgdi öðrum. Smám saman mynduðust mjóar götur í harða hraunhelluna þar sem umferðin var mest og samfeldust. Hafa ber í huga að ný hraun voru að renna um Skagann fram á ofanverða 12. öld og hiti hefur verið í þeim allt fram á framverða 13. öld. Helluhraunið milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur er gott dæmi um breytta þjóðleið vegna eldgosa á nútíma. Einnig Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (kapelluhraun), auk hraunanna ofan við Grindavík (Sundhnúkahraun, Illahraun og Afstapahraun sem og Eldvarpahraunin síðustu).
Eftir að hafa skoðað þær mörgu „gömlu“ götur á Reykjanesskaganum hefur vaknað grunur um að hlutar sumra þeirra séu hluti af mun eldri, almennari og lengri leiðum – gleymdum götum, sem legið hafa frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin. Þar hefur t.a.m. Krýsuvíkurleiðir, sem á seinni aldarmisserum hafa verið skráðar sérstaklega vegna tengsla, vitneskju eða áhuga manna á þeim, einungis verið hliðarstígar af almennari leiðum sem og margar aðrar götur, þ.á.m. Þórustaðastígurinn, Breiðagerðisstígurinn, Hrauntungustígurinn, Skógargatan o.fl.. Líklegt er, miðað við ummerki, að Krýsuvíkurleið með Suðurströndinni hafi verið ein aðalleiðanna frá og til sveitanna Sunnanlands.
Svo hefur einnig veirð um Sandakraveg, hluta Skógfellastígs, gata um Brúnir sunnan Keilis, götur með Hálsunum, gata að og frá Selsvöllum svo og gata um Lambafell og Mosa sem annar hluti að vestanverðri Alfaraleiðinni til Reykjavíkur, heimkynna allsherjagoðans, og síðan Álftaness, aðseturs yfirvaldsins. Þessar götur eru hvað mest klappaðar í hraunhelluna.
Sumar sjást nú einungis að hluta eða á köflum og líklegt má telja að elstu göturnar liggi utan þeirra leiða er síðar voru farnar með fé eða til almennra ferðalaga milli svæða. Þær eru nú þaktar mosa og öðrum gróðri og bíða opinberunnar.
Ætlunin er að gaumgæfa nánar framangreindar grunsemdir á næstunni. Sá er einna duglegastur hefur verið að leita að kennileitum og tengslum er Ásbjörn Harðarson, starfsmaður Vegagerðarinnar. Þá hafa nokkrir gaumgæft tiltekin svæði, s.s. Vatnsleysuströndina. Þar hefur Sesselja Guðmundsdóttir verið fremst í flokki áhugasamra.
Fyrstu upplýsingarnar um gamlar alfaraleiðir langsum eftir Skaganum birtust á fyrri hluta 19. aldar, en eftir það eru framkomnar upplýsingar fyrst og fremst endurtekningar, en yfirleitt lítið verið gert að því að leita uppi, rekja og sannreyna áþreifanlegar upplýsingar. Þá virðist áhugafólk hafa haft lítið þor til að koma með kenningar byggðar á uppgötvunum þess. Vörður hverfa á löngum tíma, einkum eftir að hætt er að nota götur, og það grær smám saman yfir þær. Djúp förin á klöppinni gróa þó ekki og þau virðast halda sér um langa tíð. Einstakir búsetukjarnar, s.s. Krýsuvík, hafa varla verið í alfaraleið þótt slík leið hafi áreiðanlega legið þar í gegn eða skammt undan, s.s. við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn).
Of fáir ferðafærir vísinda- og fræðimenn hafa hingað til lagt áherslu á framangreind fræði með grunnkenningar fræðigreinanna að leiðarljósi. Áhugasamir einstaklingar hafa því dregið vagninn hingað til. Á því þarf að verða gagnger breyting.
Mikil vitneskja liggur fyrir hjá nokkrum um hinar gömlu (og nýrri) götur á Reykjanesskaganum, en það er líka margt óunnið áður en nýjar upplýsingar um fornar leiðir verða opinberaðar.
Gamlar leiðir, s.s. Selvogsgatan, Dalaleið, Undirhlíðavegur og Stórhöfðastígur voru einungis fáar af mörgum. Vesturleiðin (hinn gamli Vesturlandsvegur) hefur lítil ræktarsemi verið sýnd á meðan Suðurleiðinni (um Grafning og Hellisheiði) hefur verið betur við haldið. Ekki síst vegna krafna um virkjanir á þessum svæðum og frekari vegagerð er orðið mikilvægara en áður að staðsetja og skrá þessar gömlu þjóðleiðir. Tilvistin þarf að vera meðvituð eftirkomandi kynslóðum sem ein af hinum mikilvægu arfleifðum þeirra.
Oft hefur verið haft á orði að Hafnarfjörður væri álfabær – og það þrátt fyrir að nánast öngvir íbúanna hafi sannanlega séð álfa. Og hvergi á landinu eru til færri skráðar sögur af álfum en í Hafnarfirði. Þær, sem til eru, tengjast Hamrinum (Hamarkotshamri) og Hellisgerði. Álfaörnefni eru þó til í bænum, s.s. Álfaskeið, Álfaberg og Álfholt, en engin huldufólksörnefni. Munnmælasögur af álfum og huldufólki tengjast oft hólum og klettahæðum. Kona ein í bænum sem taldi sig vita af huldufólki í kletti við hús sitt átti það til að setja út mjólk í könnu á kvöldin að vetrarlagi. Morgun einn var kannan tóm en fagrar skeljar, sem aðeins finnast í fjörum suðlægra landa, höfðu verið skildar eftir að launum fyrir mjólkina.
Álfar eru sagðir búa í hraunhólum við horn Álfaskeiðs og Arnarhrauns. Svæðinu var þyrmt þegar umhverfið var lagt undir byggingar og vegi. Álfaberg var hins vegar undir Setbergstúninu, en eftir að grafið var þar fyrir húsum og klappir við þau urðu berar og aðgengilegar munu álfar hafa tekið sér þar bólfestu í sátt við mennina. Álfarnir í Álfabergi eru vinalegir. Þeir fá af og til ýmislegt lánað hjá mennskum íbúunum – tímabundið. Nú er talið að u.þ.b. helmingur íbúanna við Álfaberg séu álfar. Álfholt var fyrrum berar klappir á Holtinu. Svæði á því var þyrmt þegar myndaðist íbúðabyggð. Þrátt fyrir nafnið fer engum sögum af álfum í holtinu.
Margir Hafnfirðingar, sem annað hvort hafa leikið sér í Hamrinum eða verið þar á ferð, telja sig hafa séð þar hvítklædda veru. Þegar miðillinn Margrét frá Öxnafelli bjó við Tjarnargötuna taldi hún sig sjá huldufólk af konungakyni í Hamrinum.
Hvítklædda konan í Hamrinum, höll álfanna (huldufólksins) er sögð svipuð ljóma og vera með silfurbelti. Einnig hefur fólk orðið vart við fallegan söng nálægt Hamrinum en hvergi séð lifandi sálu og því aðeins hægt að skýra sönginn á þann hátt að þar hafi álfar komið við sögu.
Eftirfarandi frásögn er byggð á reynslu konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Leiddi hvítklædd kona hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur hefur rennt stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.
Mörg dæmi finnast um það á Íslandi að vegastæðum hafi verið breytt vegna óhappa sem rakin hafa verið til álfa eða huldufólks. Við Merkurgötu í Hafnarfirði þrengist akvegurinn t.d. mjög við álfaklett sem skagar út í götuna.
Til er huliðsheimakort þar sem byggðir huliðsvætta í Hafnarfirði hafa verið skráðar eftir leiðsögn Erlu Stefánsdóttur sjáanda. Þar segir: „Hafnarfjörður er bær manna og hulduvera. Um leið og hægt er að skynja álfaverur í hverjum húsagarði er hraunið sérlega lifandi, með dvergum, jarðdvergum og allskyns álfaverum“.
Hellisgerði er sagt krökt af álfum, en ekki eru til aðrir sagnir um að fólk hafi séð álfa þar en sú er fyrrverandi bæjarstjóri upplýsti eitt sinn um. Hann var þar á ferð með eiginkonu sinni eitt kvöldið í yndislegu veðri er hann heyrði kallað á hjálp með mjóróma röddu. Eftir að hafa litið í kringum sig sá hann lítinn skrýtinn álf fastan á milli steina. Bæjarstjóri leysti álfinn úr prísundinni og fékk að launum hann eina ósk…
Önnur saga er til er átti sér stað skammt frá Hellisgerði. Guðbergur Jóhannsson, málari, sagði svo frá: „Ég er að nokkru leyti upp vaxinn í Hafnarfirði. Þegar það atvik gerðist, er ég ætla nú að segja frá, átti ég heima í vesturbænum, þar sem nú heitir Kirkjuvegur, á þeim stað, sem hús Sigmundar heitins Jónssonar stóð. Þá er það eitt sinn, þegar ég er vel á legg kominn, að öldruð kona, er ég þekkti, fékk mig til að ganga með sér út í hraun. Ætlaði hún að leita að litunarmosa.
Nú leggjum við af stað, gamla konan og ég, og göngum norður eftir hrauninu, þar til halla tók niður Víðistaðadalinn. Sunnan við hann eru háir klettar. Þegar þar er komið, segir gamla konan: „Hér skulum við setjast niður. Ég ætla að fá mér í nefið“. Eftir stutta stund segir gamal konan: „Langar þig ekki að sjá huldukonuna“. Ég svara eitthvað á þá leið, að það muni vera nógu gaman. Gamla konan segir mér þá að horfa undir handlegg sér á klett einn, sem var þar allnærri. Sé ég þá dyr á klettinum þeim megin, er að okkur vissi, og eftir litla stund opnast hurðin, og út gengur kona ein í svörtu pilsi og treyju, og var hvorttveggja snjáð; köflótta dúksvuntu hafði hún framan á sér.
Þegar hún er nýlega komin út úr klettinum, flettir hún upp svuntunni, tekur bæði hornin saman með vinstri hendi, eins og sveitakonur gerðu, þegar þær tíndu upp tað, og fer að tína mosa á dyrakampinum hjá bústað sínum og lét í svuntu sína. Ég horfði á þetta nokkra stund. Síðan gekk konan inn í klettinn aftur, dyrnar luktust aftur, og allt komst í það horf, sem áður var.“
Talið er að dýr skynji yfirskilningslega verur betur en mennirnir og það þrátt fyrir að þau sjái umhverfi sitt einungis í svart/hvítu.
Ef þú, lesandi góður, lumar á álfa- eða huldufólkssögu úr Hafnarfirði, eða annars staðar á Reykjanesskaganum, væri gaman að fá hana inn á ferlir@ferlir.is.
Heimild m.a.:
-Guðni Jónsson. 1957. Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bls. 54-55.
Gengið var frá Minni-Vatnsleysu að Þórustöðum. Skoðuð var stórgripagirðingin vestan Vatnsleysu, en hún liggur í beina línu frá hæðinni vestan bæjar niður að sjó.
Einmana ryðgaður mjólkurbrúsi, merktur MSR, stóð þar uppréttur á mosavaxinni hæð, líkt og hann vildi enn um sinn minna á hina gömlu búskapahætti. Staldrað var við vatnsstæði á milli kletta austan Flekkuvíkur og síðan haldið yfir túnið með viðkomu við Flekkuleiði og skoðaður rúnasteinninn, sem þar er. Litið var á Stefánsvörðu efst á Almenningsleiðinni, en í henni er letursteinn eftir þá feðga, Jón og Magnús, sem hlóðu hana á sínum tíma. Austan við Litlabæ var gengið að stórgripagirðingunni gömlu, sem þar liggur frá austri til vesturs og komið að gamalli refagildru skammt ofan hennar. Þaðan var haldið yfir og niður fyrir Kálfatjörn, þar sem ætlun var að skoða letursteininn frá 1674.
Sjórinn er búinn að róta grjóti yfir hann að nýju. Hann fannst þó eftir nokkra leit, en er nú að færast neðar í fjörukambinn. Skoðaðar voru tóttir suðvestan sjóbúðanna. Við þær er greinilega gamall brunnur eða vatnsstæði, hlaðið undir hól. Þegar komið var að Þórustöðum blasti við hópnum hinn fallegasti brunnur, hlaðinn niður og í kringum opið, ca. 7-8 metra djúpur. Myndaði brunnurinn fallegan forgrunn við gamla hrörlega bárujánshúsið á hólnum ofan við hann.
Golfararnir á Kálfatjarnarvelli gerðu hlé á iðju sinni þegar FERLIRsfólkið gekk þvert yfir völlinn á bakaleiðinni, tóku niður derhúfur og lutu höfði – fullt lotningar yfir að til væri fólk er getur gengið lengra en að endimörkum vallarins…
Liðin eru 100 ár frá því að húsið Höfði var tekið í notkun. Húsið á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Það var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin, hannað í Austur -Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. segir í frétt frá Reykjavíkurborg.
Í tilefni afmælisins var húsið opnað almenningi þann 24. september til og með sunnudagsins 27. september frá kl. 13-16 árið 2009. Boðið var upp á leiðsögn um húsið og jafnframt var opnuð sýning þar sem rakin var í máli og myndum byggingarsaga hússins, sem og saga atburða og íbúa þar. Varnlegt skilti með upplýsingum um sögu þess hefur verið reist fyrir utan Höfða.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að mikill áhugi sé fyrir Höfða meðal borgarbúa en á menningarnótt hafi 900 manns heimsótt þetta sögufræga hús. Nú gefist aftur tækifæri til að skoða húsið og kynna sér áhugaverða sögu þess.
Margir sögufrægir einstaklingar hafa búið í húsinu. Eftir Brillouin bjó Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Lengstu búsetu átti fjölskylda Matthíasar Einarssonar læknis, en dóttir hans Louisa Matthíasdóttir, átti eftir að gera garðinn frægan með málaralist sinni.
Frá árinu 1938 og fram yfir stríð var Höfði aðsetur ræðismanns og síðar sendiherra Bretlands. Meðal þeirra sem heimsóttu Höfða á stríðsárunum voru Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og söng- og leikkonan Marlene Dietrich. Frá miðri 20. öld bjó fjöldi manna í Höfða um lengri eða skemmri tíma og þar var einnig atvinnurekstur.
Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það á næstu árum endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar.
Frægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Þá ber einnig að geta þess að Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og var yfirlýsing þess efnis undirrituð í Höfða í ágúst 1991.
Heimild:
-Mbl.is – Ferðalög | mbl.is | 23.9.2009 | 13:57.
Ritið byggist á efni sem leiðsögumenn fluttu á sagnakvöldum víðs vegar á Suðurnesjum á tímabilinu desember 2005 til apríl 2006. Erindin eru látin halda sér að mestu leyti eins og þau voru í flutningi.
Þessu riti er ætlað að opna augu fólks og vekja áhuga á þessum forvitnilegum slóðum. Eftir að hafa kynnt sér efni þess í ró og næði heima fyrir, er einkar hentugt að taka það með sér í bílinn, aka á einhvern þeirra staða, sem fjallað er um, og njóta síðan leiðsagnar þess um sögu, minjar og landslag í þægilegum og hressandi göngutúr.“
Um er að ræða forvitnilegan fróðleik og áhugavert efni.
Ritið, sem var gefið út í takmörkuðu upplagi, er nú til sölu á ferðamannamiðstöðum á Suðurnesjum og öllum betri bókabúðum.
Ritstjóri Sagnaslóða á Reykjanesi I er Sigrún Jónsd. Franklín.
„Mjög var því nú haldið að landsmönnum, að þeir stunduðu kappsamlega sjóinn. Árið 1760 kvartar rentukammerið yfir því, að skýrslur vanti frá sýslumönnum um sjósókn, og árið eftir biðr það amtmann Magnús Gíslason að hafa góðar gætr á því, hvernig sjór sé sóttr, og jafnframt hvetja menn til iðni og atorku í þessu efni.
Segir það, að mjög sé kvartað yfir tómlæti manna, einkum um vertíð. Þannig hafi það verið sagt, að mjög fáir hafi farið til sjávar í Húnavatnssýslu árinu áðr, og megi slíkt eigi eiga sér stað. Um þessar mundir var sá maðr forstjóri fyrir konungsverzlun hér á landi, er Ryberg hét. Hann stakk upp á því, að setja umsjónarmenn yfir fiskiveiðarnar, og nefndi til þess Hákon kaupmann á Búðum. Átti hann að hafa 300 rd. að launum — enn það eru meir enn 4000 kr. eftir því er peningar gilda nú — og ferðakostnað að auki, er hann væri á eftirlitsferðum sínum. Ryberg stakk enn fremr upp á því, að“ sveitamönnum væri bannað að kaupa fisk og lýsi af sjávarmönnum, enn skipað að róa sjálfum til að afla þessa. Að sýslumönnum og hreppstjórum væri boðið að kynna sér á vorin 1 vertíðar lok, hvernig fiskazt hefði, og færa aflaupphæðina hjá hverjum og við um langan tíma alt þangað til 1792. Hann gaf þá skýrslu (2. apríl 1763), að á landinu væri 48918 manns; af þeim væri 14308 karlmenn 15—55 ára að aldri, sem gæti stundað sjó, enn aðeins 5861 maðr fáist þó við sjóróðra.
Allar þessar ráðstafanir, sem áðr hafa verið taldar, urðu að svo litlum notum, að jafnvel stjórnin sjálf sá ekki annað fært enn að selja útveg þann, er konungr átti í Gullbringusýslu (1769), og hafði þá um nokkur undanfarin ár orðið svo mikill skaði á honum, að meiru nam enn því, er skip, sjóbúðir og veiðarfæri seldust. Vóru þá mannslán í Gullbringusýslu og Mosfellssveit 107 að tölu, og fengu landsetarnir eftir það að borga þau með ákveðnu verði. Þess var eigi að vænta, að fiskiveiðar landsins tæki framförum meðan verzlunin var í því ástandi, er hún þá var í. Bæði var það, að alt var flutt í minsta lagi, er nauðsynjavara hét, og á sumar hafnir komu eigi skip svo árum skifti, svo sem í Strandasýslu 1764 og nokkur ár þar á undan; urðu menn þá að hella niðr lýsinu, enn hafa hrosshár í færi og trénegla skipin, því að bæði vantaði hamp og járn, og mun líkt hafa komið fyrir víðar, þó þess sé ekki sérstaklega getið.
Árið 1770 vóru þrír menn sendir hingað, til að ransaka hag landsins og leggja ráð á, hvernig hann yrði bættr.
Einn af mönnum þessum var Íslendingrinn Þorkell Fjeldsted. Eitt af erindum þeim er stjórnin fékk þeim að framkvæma, var að kynna sér fiskiveiðar Íslendinga, og einkum leggja ráð á, hvernig bætt yrði úr þeirri óreglu, sem sagt var að tíðkaðist, að fleiri menn reri á skipi hverju enn nauðsyn bæri til; hvernig mönnum yrði komið til að hafa jafnan nóga báta og skip um vertíð. Hvar gerlegt væri að verka saltfisk, og ef sjómenn vantaði, hvernig hægast væri að fá þá úr sveitinni. Vóru þá fyrst talin skip og bátar á landinu með vissu og vóru þau 1771 að tölu. Nefndarmenn kváðu tilhæfulaust, að það tíðkaðist, að fleiri væri hásetar, enn þörf gerðist. Þeir réðu og til að mönnum væri í sjálfsvald sett, hvert eða hvar þeir vildu róa, enn engan skyldi til þess neyða, að“ allir skipsáróðrar væri afnumdir, og að“ hver mætti eiga skip, sem vildi og gæti, enn þó eigi minna enn fjögra manna far; allr fiskr væri saltaðr enn eigi hertr, og skyldi því verzlunarfélagið láta kenna saltfisksverkun á hinum helztu fiskihöfnum. Þeir kváðu og nauðsynlegt, að 2 til 4 efnilegir drengir væri látnir sigla til Noregs úr hverri sýslu, til að læra á Sunnmæri sjómensku og netabrúkun. Töldu þeir þorskanetin góð og nauðsynleg veiðarfæri, sem óskandi væri að yrði almenn. Tillögur þessar vóru margar hyggilegar og landsmönnum að flestu hagfeldar, enda tók stjórnin sumar af þeim til greina.“
Heimild:
-Um fiskiveiðar Íslendinga og útlendinga við Ísland að fornu og nýju, eftir séra Þorkel Bjarnason – Tímarit Hins íslenska bókenntafélags, 4. árg. 1883, bls. 196-197.
Í 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“. Þá segir jafnframt að „Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík“.
Steinunn gamla, sem svo var nefnd, gæti hafa búið á eyjunum við Skotland eða dvalið þar – til þess bendir nafnið Njáll á öðrum syni hennar og heklan sem hún galt með fyrir land Ingólfs. Annar sonur hennar hét Arnórr. Maður Steinunnar var Herlaugur Kveldúlfsson, sagður bróðir Skalla-Gríms, og virðist hann hafa verið látinn er hún kom til Íslands. Mikil vígsár voru þá í Noregi. Í það minnsta kom hún án hans til landsins. Trúlega hefur Steinunn numið land sitt hér frá u.þ.b. 880-891, sennilegast þó um 890, því líklegt má telja að Ingólfur hafi látist á bilinu 900-905. Hann fór nokkrar ferðir til Noregs eftir að hann settist að í Reykjavík um 874 og trúlega hefur Steinunn fylgt honum til baka í einhverri þeirra því talið er að eiginmaður hennar hafi verið drepinn af mönnum Haraldar hárfagra ásamt frændum hans um 890. Ingólfur var einmitt staddur á heimaslóðum sínum í Fjörðum í Noregi um 890 eða 891. Kveld-Úlfur fluttist búferlum um þetta leyti (891), en lést á leiðinni til Íslands, þá orðinn gamall maður.
Þegar hingað til lands var komið fékk Steinunn Rosmhvalanesið í skiptum fyrir hekluna. Gufi Ketilsson af Akranesi hafði freistast til að setjast að í Gufunesi í landi Ingólfs í Reykjavík (Þórðarbók/Melabók Landnámu) en í óþökk landnámsmannsins. Þetta hefur væntanlega verið fyrir 900. Eftir að Ingólfur hafði rekið Gufa á brott fór hann á Rosmhvalanes og vildi taka sér bólfestu á Gufuskálum í Leiru en þau Steinunn „keyptu saman“ að hann færi þaðan á brott og vermannastöð yrði þar ávallt frá Hólmi. Samkvæmt þessu hefur Steinunn þá enn verið lifandi.
Eftir landakaupin ól Steinunn upp frænda sinn, Eyvind og gaf honum síðan hluta úr landnámi sínu, landið frá Hvassahrauni að Vogastapa, innsta hlutann af hinu forna Rosmhvalanesi sem á 9. öld náði þá líka yfir Vatnsleysuströndina sem kom í hlut Eyvindar er bjó í Vogum. Hann fluttist að Bæjarskerjum að lokum, eins og fram kemur í Landnámu. Vilja sumir meina að þar hafi Steinunn þá búið fyrrum.
Byggð hefur hafist á austanverðu Rosmhvalanesi með því að menn reru þaðan til fiskjar í byrjun. Um það vitna Gufuskálar, Miðskálar og Útskálar í Garði. Upp frá því hafa síðan jarðir byggst. Af Egilssögu að merkja hefur Rosmhvalanesið verið allbyggt nálægt 939. Ljóst er þó að ysti hluti Nessins innan Skagagarðsins virðist hafa byggst síðast enda var erfiðast að sækja þaðan sjó vegna skjóleysis við landið. Nokkur rök eru þess vegna til að þær jarðir sem bestar höfðu lendingar hafi byggst allsnemma og ekki var verra ef sæmilegt vatnsból voru nærri slíkum jörðum. Ein af slíkum jörðum var Hólmur í Leiru. Þar virðist hafa verið greiðara að ná í vatn en víða annars staðar á svæðinu. Í fjörunni undan Gufuskálum var og er enn sístreymandi vatn, volgt en ekki kalt, og hefur því ekki frosið á vetrum. Á landnámsöld hefur vatnið e.t.v. verið heitara og á stigið upp af því gufa. Sennilega hefur útstreymi þetta staðið ofar í fjörunni svo greiðara var að komast að því en er í dag. Ljóst er að í vatnsleysinu á Suðurnesjum var aðgangur að slíku vatni allt árið gulls í gildi. [Rétt er að geta þess að vatn hefur víða verið að finna á Suðurnesjum. Þess bera bæði kaldavermsl og vatnsstæði glögg merki. Eitt slíkt, hlaðið umhverfis, er t.a.m. ofan við Gufuskála og annað ofan við Hólm, auk þess tjarnir voru ofan strandar utan Bergvíkur].
Aðgangur að nægu vatni gat því verið full ástæða til að ábúandi á Hólmi gerði allt sem í hans valdi stóð til að hindra fasta búsetu á Gufuskálum. Þetta gætu því verið allgóð rök fyrir því hvers vegna Steinunn „keypti“ Gufu brott af staðnum. [Það að Steinunn hafi þurft að „kaupa“ hann úr landnámi sínu, bendir til þess að Ingólfur hafi annað hvort ekki verið til staðar eða að hún hafi ekki sest þar að fyrr en um 900]. Efamál er hvort bátalending hafi fyrrum verið betri á Gufuskálum en á Hólmi, en nú er þar ólíku saman að jafna, enda þéttist byggðin síðar mest um Hólm. Ýmislegt bendir til þess að upplýsingar í Melabók um Gufu Ketilsson séu réttar og að Steinunn hafi kannski ekki búið ýkja langt frá Gufuskálum, jafnvel þar til að byrja með.
[Við þetta má bæta að utan við núverandi íbúðarhús á Hólmi, nálægt hinu gamla bæjarstæði, er bátslaga blettur með grjóti umgerðis. Blettur þessi var lengi vel afgirtur og mátti aldrei hrófla við honum, ella hlytist verra af].
Heimild m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-Skúli Magnússon – Faxi, 3. tbl. 2007, bls. 15.
Sigríður B. Guðmundsdóttir á Görðum var heimsótt. Hún er fædd og uppalin á Görðum. Við hornið á íbúðarhúsinu lá steinn með áklöppuðum keltneskum krossi. Sigríður sagði son hennar, Guðmund, hafa fundið steininn fyrir stuttu þarna skammt frá húsinu. Kirkjugarðurinn er vestan við það. Í gömlum heimildum er getið um Garðalind, aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna austast í hverfinu. Austan kirkjugarðsins lá Lindargata að Garðalandi. Skv. þeim átti lindin að vera undir stórum þríhyrndum steini, sem hvíldi á þremur öðrum. Áður hafa verið gerðar tilraunir til að hafa uppi á lindinni með hliðsjón af lýsingunni, en það ekki tekist.
Sigríður fylgdi FERLIR austur fyrir kirkjugarðinn á Görðum þar sem enn má sjá hinar gömlu hleðslur umhverfis hann. Gengið var niður fyrir garðinn og síðan skammt til norðurs. Þar vestan við kirkjugarðinn er stór þríhyrndur steinn. Vestan við hann er hlaðin rás og yfir hana steinbrú, sennilega á hinni gömlu Lindargötu.
Fast vestan við steininn er hlaðin þrep niður að lindinni, sem er undir þessum stóra steini. Hún er í nokkurs konar skál undir honum. Frá lindinni til norðurs er gamall flóraður stígur. Ofan og fast við steininn hefur verið gert múrsteinshlaðið byrgi. Sigríður sagði að þar ofan í hafi verið sett dæla fyrir löngu síðan og vatninu úr lindinni dælt heim að bæ. Hlaðna rásin vestan við lindina er enn nokkuð heilleg. Sunnan við Garðalind er gömul hlaðin tótt.
Þá sýndi Sigríður FERLIR Völvuleiði á hæðinni austan Garðaholts. Þar er völva sögð hafa verið dysjuð. Sigríður kunni ekki frekari sögu af henni. Beggja vegna hæðarinnar eru grafnar skotgrafir.
Sigríður sagðist ekki vita hvar Garðahúsabrunnur og Miðengisbrunnur væru, en benti á Guðjón frá Pálshúsum, sem er næsti bær sunnan við Garða. Vestan við Pálshús, niður við sjávarkambinn, var bærinn Bakki, sem enn sést móta fyrir þar á kambinum. Norðan við hann er “Jobbasteinninn”, sem fannst fyrir ári síðan.