Kaldársel

Gengið var um Kaldársel. Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Þá var haldið um Lambagjá upp í Helgadal þar sem nokkrir hellar voru barðir augum. Loks var gengið upp í Valaból og síðan um Valahnúka niður að Kaldárseli.

Kaldárssel

Í fjárskjól við Kaldársel.

Kaldársselssvæðið er nokkuð sérstakt, þótt ekki sé fyrir annað að það er bæði á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og innan Reykjanesfólksvangs. Auk þess er það eitt helsta útivistarsvæði Hafnfirðinga.

Lengi vel mátti sjá leifar veggja tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Loks voru þær sléttaðar út. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.
Kaldársel átti sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður sögum smábýla á þeim tíma. En sögu á þetta fona býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. Kaldársel dregur nafn sitt af litlu ánni, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra frá Kaldá.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru sumarbúðir KFUM og K. Kvæðið er svona:

Kaldársel

Kaldársel – Helgafell fjær.

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin við Hvaleyrarvatn.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er, að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873.

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli um nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.
Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkra byggingar og önnur mannvirki.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.
Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt.
Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það samt.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Húsin voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamótin 1900. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert heillegt hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Margt er að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru félagsmanna KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum. Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop.
Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Valaból

Músarhellir í Valabóli.

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir. Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli, suðaustur af Kaldárseli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Framundan til suðausturs eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.

Kaldá

Kaldá í Kaldárbotnum.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru til hliða og framundan húsunum sunnanverðum, en þau hurfu ekki svo til alveg fyrr en KFUM og K húsið hafði risið í Kaldárseli árið 1925. Þegar síðan var byggt við litla húsið voru útihúsin sléttuð.
Sem fyrr sagði tilheyrði landið áður Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Gengið var að fjárhellunum norðan Kaldársels. Á Standinum er fjárborg, önnur af tevimur, sem þar voru. Hin, sú eystri, var fjarlægð á sínum tíma, sennilega verið notuð undir vatnsstokkinn. Gamlar sagnir eru til af hellum þessum. Þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Fjárhús undir Fremstahöfða.

Hellarnir, 6 talsins, fundust aftur tiltölulega nýlega á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.

Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Hraunið, sem kom úr Búrfelli, er um 7.000 ára. Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbotnum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður. Í vor voru í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið.

Kaldársel

Hleðsla undir vatnsleiðsluna.

Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal. Frá brúninni sjást nokkur misgengi. Eitt er t.d. eftir endirlangri Smyrlabúð og áfram út með Hjöllunum. Annað er í norðurbrún Helgadals og liggur í átt að Búrfelli. Kíkt var í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans voru í vor og síðan aftur í sumar þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í. Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.

Tvö nöfn eru á Rauðshelli; gamla nafnið er dregur nafn sitt af litnum, og einnig nafnið Pólverjahellir. Sumir hafa talið að hann væri svo nefndur eftir Pólverjum á skipi í Hafnarfjarðarhöfn, sem gist hafði í hellinum því hún fékk ekki inni í Hafnarfirði, en hið rétta er að ungir drengir úr Pólunum í Reykjavík, nefndir Pólverjar, dvöldu þarna um tíma.
Svo óheppilega vildi til að þegar hópurinn hafði komið sér fyrir innst í Rauðshelli heyrðust armæður og kvenstafir frá pari, sem lagst hafði til hvílu á bak við stóra steina í hellinum. Þar reyndust vera komin frú grýla og herra leppaúði. Báru þau sig illa yfir rúmraskinu og var því ákveðið að hverfa út úr hellinum svo þau gætu a.m.k. sofið þar enn um sinn.

Kíkt var í opið á Hundraðmetrahelli og síðan gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins. Þegar gengið var upp í gegnum hellinn var enn einn úr jólafjölskyldunni vakinn; kertasníkir. Hafði hann lagt sig yst í Fosshelli, en vaknað við umgang fólksins. Lét hann í sér heyra, en lagðist síðan til hvílu á ný, enda enn langt til jóla.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Frá Helgadal sést vel yfir að Búreflli í austri. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Þegar gengið er niður í Helgadal sét vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, upp í austanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Þegar komið var á jafnsléttu var gengið til suðurs með austanverðuverðu fjallinu, upp í Valaból. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir. Á Valahnúkum eru steingerð töll – í alvöru.

Kaldársel

Jólasveinn í einum fjárhellanna.

Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.

Kaldársel

Forynjur í einu fjárskjólanna.

Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.
Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“ Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.

Allnokkru ofan við hellana í Helgadal er Rjúpnadalahraun. Í því, norðan við Húsafell, er hlaðin refagildra. Fjárskjól er í norðvestanverðu í Húsfelli og eru sagnir eru til um það. Framan við það eru gamlar hleðslur.

Frá Valabóli var gengið áleiis niður í Kaldárbotna þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa.

Valaból

Í Valabóli.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna. Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.
Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni.
Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Hundraðmetrahellir

Hundraðmetrahellir.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í dag nýtur Kaldársel ýmissa forréttinda. Í fyrsta lagi nýtur svæðið verndunar þar sem það er innan Reykjanesfólksvangs og hefur verið það í um 30 ára skeið. Í öðru lagi er Kaldársel innan vatnsverndar höfuðuborgarsvæðisins og í þriðja lagi nýtur Kaldársel og nágrenni sérstakrar verndar skv. þjóðminja- og náttúruverndarlögum.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldársel

Kaldársel.

Búrfellskot

Tekið verður hús á Þormóðsdalsbóndanum Þorsteini Hraundal og frú. Af því tilefni var gengið að draumóranámum Einars Benediktssonar utan í Búrfelli, beggja vegna Seljadalsár, upp með hinum forna Seljadalsvegi er lá áleiðis til Þingvalla áður en Konungsvegurinn 1907 kom til, yfir steinhlaðnar brýr norðan Leirtjarnar og vestan Silungatjarnar, að Nærseli, fjárborg skoðuð sem og gömul fjárhústóft utan í Grímannsfjalli áður en kveðju var kastað á Þormóðsdalsbóndann (og frú) að lokinni gönguferð.

Tóftir Búrfells(kots) - Hafravatn fjær

Áður en lagt var af stað voru rifjaðar upp örnefnalýsingar fyrir Þormóðsdal og Miðdal yfir göngusvæðið. Heimildarmaður og skrásetjari þessara lýsinga var Tryggvi Einarsson í Miðdal, en hann þekkti einnig vel til í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi fæddist í Miðdal árið 1901 og átti þar heima alla sína tíð.
„Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita. Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt. Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir; vestan undir Gapa er Gapamýri.

Gamla þjóðleiðin ofan Búrfells(kots)

Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall að svonefndum Efri-Sukkum. Á austanverðu Þormóðsdalsfjalli er laus klettur, er Grettir heitir.
Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.“
Og þá heim að Miðdal: „
Norðan við gamla Miðdalstúnið var mýri sem Mómýri hét (nú ræktað tún), mótak var þar gott, mórinn svartur og harður. Ruðningur 4 til 6 stungu mórinn 6 til 9 stungur niður. Ofan við Mómýri er Móholt. Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri. Austur af Búrfellsmýri eru Hringholtin, en austan við Hringholtin er mýri sem Hringur heitir. Sunnan við Hring er urðarhjalli sem Klif heitir. Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói, þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. 

Brúin norðaustan Leirtjarnar

Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita. Norðan í Búrfelli eru grónir hjallar er Tjaldstaður heitir. Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss  í Seljadalsá. Norð-austan við Búrfell er Fellsmýri. Austan við áðurnefndan Hring eru Leirtjarnarmelar, þar er jarðfastur bergdrangur sem Grettir heitir. Sunnan við Leirtjarnarmela er Leirtjörn. Sunnan við Leirtjörn er Leirtjarnarurð, þar er fjárrétt og Stekkur. Suð-austur af Leirtjörn er allstór mýri er Leirtjarnarmýri heitir. Austur af Leirtjarnarmýri eru hólar sem Leirtjarnarhólar heita. Norður úr Leirtjörn rennur Leirtjarnarlækur eftir mýri er Leirtjarnarlækjarmýri heitir. Frá Leirtjarnarlæk inn með Seljadalsá er mýrarkriki er Breiðiklofi heitir. Austan við Breiðaklofa er hóll sem Þúfhóll heitir. Austan við Þúfhól er mjótt mýrardrag niður að Seljadalsá sem Oddnýjarklofi heitir. Nokkru innar með Seljadalsá er mjótt gróðurdrag sem Mjóiklofi heitir, þar tekur við Silungatjarnarhæð. Fyrir sunnan Silungatjarnarhæð er Silungatjörn. Fyrir sunnan Silungatjörn er Silungatjarnarurð. Austan við Silungatjarnarhæð er Silungatjarnarlækur sem rennur  í Seljadalsá. Austan við Silungatjörn er Silungatjarnarmýri. Sunnan við Silungatjarnarmýri eru Silungatjarnarbrúnir. Austan við Silungatjarnarmýri er áverandi hóll er Moshóll, heitir. Nokkru innar með Seljadalsá þrengist verulega að Seljadalsá, þar heitir Þrengsli. Austan við Þrengslin er Seljadalur.“

Önnur brú á gömlu þjóðleiðinni til Þingvalla

Tryggvi minntist á Búrfellskot. Í Jarðabókinni 1703 er bærinn nefndur Búrfell. Tóftir bæjarins, sem verður að teljast kot, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða, sjást enn vel utan í suðvesturhlíð Búrfells. Gamla þjóðleiðin frá Reykjavík og austur á Þingvöllu lá neðan við bæinn og áfram áleiði upp hlíðina að Búrfellshálsi. Gatan var rakin áfram um hálsinn. Ætlunin var að rekja hana allt upp að vaði á Seljadalsánni norðaustan við Silungatjörn.
Norðan Leirtjarnar sést gatan vel. Gott útsýni er suður yfir vatnið, að Gildruhálsi. 

Haldið var yfir hina hlöðnu brú yfir mýrardrag norðnorðaustan tjarnarinnar. Handan hennar lá gatan upp á örfoka melhæð, niður hana að handan og liðaðist síðan með lágum hæðum til norðausturs. Skammt vestan Silungatjarnar var komið að annarri hlaðinni brú yfir bleytufláka. Handan hans var komið inn á nýjan veg að sumarbústaðabyggð við vatnið, en með þrautseigju var hægt að rekja gömlu götuna áfram um lúpínusvæði og afgirta einstaka sumarbústaðareiti. Hún lá svo til alveg að tjörninni, mjög greinilega, en fjarlægðist hana síðan er nær dró Seljadalsánni. Þegar að ánni var komið lá gatan að vaði og síðan áfram áleiðis inn að Þrengslum.

Hluti hinnar gömlu þjóðleiðar um sumarhúsabyggð vestan Silungatjarnar

Reyndar er alveg ótrúlegt hversu einstaklingar hafa fengið frjálsar hendur að raska þessrai fornu þjóðleið. Verður bæði við Þjóðminjasafnið (áður fyrr) og Fornleifavernd ríkisins að sakast í þeim efnum – því einungis svolitla meðvitund (andstæða sofandaháttar) hefði þurft til að vernda þennan kafla leiðarinnar, sem annars er að mestu óraskaður.
Við vaðið var beitt til norðurs, að Nærseli, norðan Seljadalsár, ofarlega í Neðri-Seljadal. Á litlum grónum „bleðli“ norðan árinnar mótar fyrir tóftum. Kargaþýfi er á svæðinu, en kvöldsólin opinberaði allan sannleikan um hinu horfnu húsaskipan. Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
NærselNeðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.
Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft „selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft „dagslættir í Viðey“. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða.

Seljadalur

Seljadalur (Nærsel) – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): “ Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….“
Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá “fjærsel“? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu. 

Haldið var norðvestur með norðanverðum Seljadal, að tóftum fjárhúss og fjárborgar. Jarðýtu hafði verið ekið niður mýrlendið skammt vestan fjárhússtóftarinnar (sauðahússins) og má telja mildi að ekki hafi verið farið yfir hana. Greinilegt er að þarna standa til verulegar framkvæmdir því búið er að koma fyrir miklu magni svína- og hænsnaskíts innan nýrrar girðingar.

Fjárhústóft (sauðahús) frá þormóðsdal

Líklegt má telja að þarna eigi innan skamms að „lagfæra“ hlíðina norðanverða og gera hana að bitvænni högum fyrir hross. Dalsbóndinn mun vera þarna að verki. Vonandi er hann vel meðvitaður um minjar að svæðinu, hvort sem um er að ræða Nærselið, fjárhúsið eða fjárborgina. Og auðvitað hlýtur Fornleifavernd ríkisins, sem jafnan vakir yfir framkvæmdum sem þessum, að hafa gert viðhlítandi fyrirbyggjandi ráðstafanir svo varðveita megi menningarminjarnar á svæðinu??!!
Aftur var tekið hús á Þormóðsdalsbónda. Hafði hann þá hitað kaffi fyrir þátttakendur og bar vel á beina. Þá gekk hann með þeim að námusvæðinu og benti á fyrrum námuop, sem nú hefur verið lokað með fyrirgjöf. Sagðist hann hafa fyrrum séð op á námugöngum, bæði norðan og sunnan Seljadalsár. Göngin norðan árinnar hefðu verið mun lengri. Leifar járnbrautarteina hefðu verið innan við opin. Göngin sjálf hefðu ekki verið stærri en svo að meðalmaður hafi þurft að ganga um þau hokinn. Rutt hefði verið fyrir opin til að koma í veg fyrir slysahættu. Auðvelt væri hins vegar að moka þau út að nýju, ef einhverjum sýndist svo.
Bóndinn benti FERLIR á leifar járnbrautarteina í ánni neðan við námusvæðið. Þá hefur fyrrum bónda hugkvæmst að nota þá í girðingarstaura því styttur úr þeim má sjá uppi í hlíð Búrfells þar sem núverandi girðing liggur nú. 

Lefar brautarteina við gömlu gullnámuna við ÞormóðsdalLítið hefur verið fjallað um gullvinnsluna við Þormóðsdal (Miðdal), en í Öldinni okkar (1905) er sagt frá því er gull fanst við rætur Öskjuhlíðar. Þar segir m.a.: „Það varð uppi fótur og fit í Reykjavík laugardagsmorguninn 1. apríl, þegar sú fregn barst um bæinn, að gull hefði fundizt í mýrarkrikanum vestan undir Öskjuhlíðinni rétt fyrir sunnan gamla Hafnarfjarðarveginn.“ Gullfréttin flaug víða. Áhöfn á breskum togara, sem legið hafði í höfninni, sigldi til Englands með fréttina. Reiknað var með að erlendir gullgrafarar myndu senn streyma til Reykjavíkur. Bæjarstjórn hélt fund um málið. Skipuð var nefnd um rannsókn málsins. Gullsarf. reyndar í ofurlitlu magni, var lagt fram. Námasvæðið var afmarkað og hlutafélagið Málmur stofnað. Stofnendur voru níu menn, en mönnum var frjálst að kaupa sér hluti í félaginu. Stefnt var að því að kaupa bor og hefja frekari leit að gulli á svæðinu. Ekkert varð úr verki og framkvæmdin dagaði uppi. Ekki er vitað hvað varð um hlutaféð, 100-250 þús. kr. Árið 1908 birtist frétt um að hlutafélagið Málmur væri komið í fjárþröng. Fram kom að búið væri að verja 24 þús. kr. til vélakaupa og rannsókna og að félagið væri komið í 4500 kr. skuld. Hvað varð um mismuninn er enn ekki vitað, tæpri öld síðar.
Talið var að gullævintýrið í Öskjuhlíðinni hafi verið búið til til að afla hlutafjár í einhverju, sem ekki var til. Hið litla gull, sem sýna átti tilefnið, hafi í raun og veru komið úr gullnámu við Þormóðsdal.
Frábært veður. Gangan tók
2 klst og 2 mín. (Kvöldsólin sveipaði Seljadalinn og Nærselið dulúðlegri birtu).

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal.
-Öldin okkar.
-Þorsteinn Hraundal.

Silungatjörn og nágrenni í kvöldsólinni

Straumssel

Almennt var hætt að hafa í seli eftir miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar.

Straumssel-122

Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Heimild:
-Jónatan Garðarson.

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.

Snókalönd

Gengið var um hraunsvæðið sunnan Stórhöfða. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að skoða Snókalöndin, óbrennishólma inni í Brunanum (Nýjabrun/Hábruna), sem mun heita eftir Nýjahrauni því er síðar var nefnt Kapelluhraun og rann árið 1151.
Gömul gata liggur inn í Snókalöndin frá Stórhöfðastíg skammt sunnan SnókalandsastígurBrunabrúnarinnar, milli hlaðins garðs á henni og hlaðins gerðis utan í hraunnefi skammt sunnar. Varða við götuna þar sem hún liggur inn á Brunann vísar leiðina. Frá henni er gatan augljós yfir nýja hraunið og inn í vestari Snókalöndin. Á leiðinni þangað er fallega hringlaga formað hraunbrigði á hægri hönd. Hraunið virðist hafa runnið áfram framhjá fyrirstöðu og þá myndað „garða“ beggja vegna er síðan hafa runnið saman neðar.
Snókalöndin eru þakin kjarri og lyngi. Þau eru hvað fegurst á haustin þegar litadýrðin er hvað mest.
Úr vestari hluta Snókalanda liggur gata yfir að þeim austari, sem er mun stærri. Nær suðurenda hans næstum því að gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Allt umleikis er mosavaxinn og torfær Bruninn, sem fyrr segir.
Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“.

Snókalönd

Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Aðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Varða

Varða við Stórhöfðastíg.

Grjóthleðsla

Námskeið í „grjóthleðslu í gömlum stíl“ var haldið í Vogunum á vegum Miðstöð Símenntunnar á Suðurnesjum.
Á námskeiðinu, sem tók tvo vinnudaga, var m.a. ætlunin að „hlaða frístandandi og fljótandi veggi úr náttúrulegu grjóti. VeggurAuk þess var ætlunin að kenna öll grundvallaratriði grjóthleðslu. Nemendur áttu að læra að hlaða horn og bogaveggi og að „toppa“ grjótvegg. Þetta var að mestu verklegt námskeið og gert var ráð fyrir töluverðu líkamlegu puði!“
Hér er fyrri degi námskeiðsins lýst, öðrum til fróðleiks.
Mæting var kl. 08:30 við félagsheimilið í Vogum. Þar tóku fulltrúar MSS og sveitarfélagsins Voga á móti þátttakendum, 24 talsins, nákvæmlega á sólarúrsslaginu. Þorvaldur Örn Árnason lýsti verkefni dagsins og kynnti leiðbeinendur til sögunnar, Guðjón S. Kristinsson, torf- og grjóthleðslumeistara og skrúðgarðyrkjumann, og bróður hans Benjamín Kristinsson, húsasmíðameistari og bátasmiður. Báðir hafa þeir starfað lengi við grjóthleðslur og þekkja orðið bæði allar hliðar grjóts sem og hornin fjögur (ef svo mörgum er til að dreifa). Verbúðin við Bolungarvík sem og tilgátubærinn á Eiríksstöðum eru t.a.m. handverk þeirra, grjóthleðslur á Akranesi, endurhleðsla Skálholtsvörðu, steinbogabrú í Áslandi, grjótveggur við Mosfell í Grímsnesi, kirkjugarðsveggur að Búrfelli í Grímsnesi og svo mætti lengi telja.
Byrjað að rífaGuðjón sagðist hvorki ætla að halda langa né lærða ræðu um efnið. Þátttakendur myndu fljótlega finna það á eigin skinni. Málið væri bara að byrja og þreifa sig síðan áfram. Hæfnin kæmi með reynslunni. Ræðan tók innan við eina mínútu. Mættu margir lærðir taka sér það til fyrirmyndar, þ.e. viðhafa færri orð en þess fleirri handtök. Handverkið var jú það sem mestu skipti hér á landi fyrrum – með allri virðingu fyrir rituninni, sem var reyndar að 2/3 hluta handverk. Það gleymist oft þegar handritin eru dásemuð sem mikil „þjóðargersemi“ að aðrar áþreifanlegar fornleifar, t.a.m. hleðslur, eru það engu að síður. Þær eru einnig hin áþreifanlegu tengsl nútímafólksins við uppruna sinn, forfeður þeirra, sem þraukað höfðu við þeirra tíma húsaskjól svo það mætti njóta alls þess sem dagurinn í fag hefur upp á að bjóða.
Nánari upplýsingar með námskeiðslýsingunni höfðu verið þessar: „Skoða og meta grjóthleðslur í Vogum og á Vatnsleysuströnd, svo sem vörður, túngarða, sjóvarnargarða, fjárborgir, gripahús, sjávarhús og íbúðarhús. Læra að endurhlaða og lagfæra grjótveggi, garða og vörður. Lagfæra nokkrar tegundir af hleðslum sem þarfnast lagfæringa
Tileinka sér lög, reglur og viðhorf um vernd fornminja. Aukin þekking á einkennum, þróun og varðveislu menningarlandslags á Íslandi. Virkja og efla fólk til minjaverndar og að halda við gömlum hleðslum og læra að hlaða nýjar hleðslur í gömlum stíl.“
Um var að ræða fyrsta námskeiðið af nokkrum fyrirhuguðum. „Lengd námskeiðs: 2 heilir dagar (2×8 klst.). Hámark 10 manns í hópi.“ Vegna mikils áhuga var þátttakendum fjölgað í 24 og stóðu þó 6 utangarðs.
Samstarfsaðilar að verkefnu þessu voru Sveitarfélagið Vogar, Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps (sem er farið að beita sér af auknum þunga á svæðinu) og Fornleifavernd ríkisins (illu heilli reyndar, en óhjákvæmilega), auk þess sem námskeiðið var styrkt af Menningarráði Suðurnesja. Þátttökugjald var kr. 4000-. Ætla mætti, að fenginni reynslu, að greiða þyrfti fólki fyrir alla vinnuna, sem leggja þurfti að mörkum. Ánægjan vó hins vegar þyngra en þreytan – auk þess sem þátttakendur nutu bæði hóflegrar og skynsamlegrar leiðsagnar, húsaskjóls og máltíða meðan varði.
EndurgerðTil forna og allt fram á 20. öld var grjót aðalbyggingarefnið á Suðurnesjum. Gamlar grjóthleðslur setja hvarvetna svip á menningarlandslagið. Hleðslur þessar voru lagfærðar árlega meðan þær voru í notkun og byggingar endurbyggðar reglulega. Eftir að hætt var að viðhalda þessum hleðslum hafa þær gengið mjög úr sér. Bæði hafa rofaöflin séð um niðurbrot þeirra sem og maðurinn. Frostverkun, jarðskjálftar og vatns- og vindrof hafa leikið hleðslurnar grátt í gegnum aldirnar, en auk þess hafa margar hleðslur verið fjarlægðar vegna framkvæmda. T.d. var bæði grjót í vörðum og görðum endurnýtt í bryggjur á árdögum þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Þá hurfu mörg áberandi og vönduð mannvirki sem sérhverju sveitarfélagi hefði verið mikill sómi af í dag.
Ekki var ætlunin að hreyfa neitt við mjög gömlum hleðslum eða minjum sem eru sérstakar, né heldur að grafa upp fornleifar, heldur að rannsaka og lagfæra hleðslur af algengu tagi sem eru í yngri kantinum og áberandi í landslaginu.
Þegar á vettvang var komið; að löngum gömlum grjóthlöðnum garði utan við Minni-Voga, mátti sjá hvar hann hafði fallið að mestu. Garðurinn hafði fallið út til hliðanna, auk þess sem gróður hafði með tímanum lagst smám saman að honum.
Í lýsingum um garðhleðslur segir m.a.: „
Gamla lagið sem tíðkast hefur gegnum aldirnar. Neðsta steinalag látið standa u.þ.b. 10-15 sm. undir yfirborði jarðvegs. Stærstu steinarnir neðst og fyllt á milli steinalaga með mold og torfi. Mold /torf rækilega þjappað. Í dag ef jafnan skipt um jarðveg undir hleðslum (sett frostfrítt efni) og í fyllingu veggjar er notast við frostfrítt efni. Þannig ættu veggir að standa um ókomna tíð ef rétt er staðið að hleðslu.“
Hér var ekki ætlunin að takast á við torfhleðslur, en um þær segir m.a.: „Torf – Klambra: Tígullaga hnaus hlaðinn í vegg með strengtorfi . Notað í húsahleðslur og aðra veggi. Kvíahnaus: Ferkantaður hnaus notaður í vegghleðslur húsa , túngarða o.fl. Snidda: Notuð í lægri veggi, túngarða, vegkanta og fleira. Strengur: 5-10 sm. þykk torfmotta (einsog túnþaka) 30-40 sm. breið,  lengd 1-3 m. Notuð í vegghleðslur og á milli klömbruhnausa.“
MinjarGuðjón lýsti því hvernig garðurinn hafði verið gerður; lega hans mótuð með röð stórra steina að utanverðu og minni að innanverðu. Hér var garðurinn hlaðinn á klöpp með grunnu moldarlagi á millum (nægilega litlu til þess að frostverkunin hefði ekki áhrif).
Allt grjót var fjarlægt úr veggnum; mosagrónir steinar á ysta lagi lagðir til hliðar því þá átti að nota aftur í ysta lagið. Ýmsar minjar frá ýmsum tímum fundust inni á milli steinanna, t.d. hluti af ári.
Síðan var byrjað að hlaða frá grunni; sérhver steinn metinn og veginn uns hann féll sem flís við rass á réttan stað í veggnum. Smærri steinar fylltu millilagið. Hallinn inn á utanverðum veggnum var lítill, en þess meiri að innanverðu, enda minni steinar notaðir þar. Smám saman tók endurgerður veggurinn á sig mynd fyrirrennara síns. Gæta þurfti og vel að stefnu, breidd og hæð. Að því athuguðu varð til heilstæð veggmynd að nýju.
Eflaust munu íbúar Voga, sem og aðrir, líta á endurgerðan vegginn sem fornleif, enda erfitt að sjá að um endurbyggingu sé að ræða.
Deginum lauk með því að þátttakendur gengu um garða og hleðslur Norðurkots á Vatnsleysuströnd, en þær eru í senn bæði heillegar og vel vandað til þeirra í upphafi.

Heimildir m.a.:
-http://www.mss.is

http://simnet.is/stokkarogsteinar

Grjóthleðsla

Brennisteinsfjöll

Gengið var upp í Brennisteinsfjöll (Fjöllin) með það fyrir augum að endurfinna op á hraunhellunni norðnorðvestan Kistufells og staðsetja það. Opið fannst fyrir nokkrum árum, en virðst síðan hafa lokast. Þrátt fyrir ítrekaðar leitir hefur það ekki fundist á ný.
Brennisteinsfjoll-128Á loftmynd mátti og sjá op er gæti verið áhugavert norðan megin-hrauntraðarinnar úr Kistufellsgígnum. Þá var og ætlunin að skoða niður í annað op, sem einnig fannst fyrir nokkrum misserum, en ekki hafði gefist tækifæri til að fara niður í fram að þessu vegna skort á viðeigandi búnaði. Um það átti að vera hægt að komast niður í mikið gímald. Þá var og ætlunin að skoða nánar nýfundið op, sem Guðni Gunnarsson, formaður HERFÍ og fleiri fundu á austurbrún Eldborgarhrauns fyrir skömmu. Til að komast niður í það þurfti einnig viðeigandi búnað. Að þessu sinni var haldið áleiðis upp Kerlingarskarð, beygt upp Þverdal og komið upp í Fjöllin um Miðskarð. Vesturskarð er ofar og vestar og Austurskarð hefur jafnan verið nefnt Kerlingarskarð. Á göngunni um Brennisteinsfjöllin var eftirfarandi um jarðfræði þeirra rifjuð upp: „
Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó.
Brennisteinsfjoll-123Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðar-stapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Í Brennisteinsfjallareininni eru sprungugos ráðandi, en dyngjur koma þar einnig fyrir og er Kistufell þeirra mest. Í fjallendinu er gos- og sprunguvirkni samþjöppuð á belti sem er einungis um 1200 metra breitt frá Eldborgum undir Geitahlíð uns kemur norður á móts við Bláfjöll að það víkkar og óljóst verður hvar mörk liggja, en þar er komið langt norðaustur fyrir jarðhitasvæðið. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.
Brennisteinsfjoll-124Brennisteinsnám var stundað í fá ár eftir 1876 og fyrir 1883. Menjar þess eru námuskvompur í rúmlega 2000 ára gömlu hrauni og tveir tippar stærstir þar framan við. Jarðhitamerki er að finna miklu víðar en sýnt er á eldri kortum Jón Jónsson (1978), Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson (2001).
Á jarðhitakortinu er sýndur virki jarðhitinn og kaldar ummyndunarskellur, aðgreindar eftir því hvort um er að ræða mikla eða væga ummyndun. Mikil ummyndun einkennist af ljósum leirskellum, en væg fremur af rauðum leir, upplituðu bergi og minni háttar útfellingum. Væg ummyndun er fyrst og fremst bundin við jarðmyndanir frá ísöld, en nær þó einnig til hrauna í Brennisteinsfjoll-125Brennisteinsfjöllum sjálfum.
Yfirborðsmerki um jarðhita finnast á rein sem nær frá því á móts við Kerlingarskarð í norðaustri til suðvesturs á móts við Kistufell. Þessi rein er 4 km löng, um 1 km breið og öll í sprungubelti Brennisteinsfjalla. Virkur jarðhiti er á þrem blettum á litlu svæði: Í hinum fornu námum er gufuhver, við suðumark, með brennisteinútfellingu og gufur allt að 93°C heitar í námuskvompunum í kring. Í hraunbungu 200-300 m norðar eru gufur á dálitlu svæði og mestur hiti 60°C. Við hraunjaðar um 300 m norðaustan við námusvæðið er 22°C hiti í ljósri leirskellu, en sú sem meira ber á sunnar niðri í brekkunni upp af Hvamminum er köld.
Eldvirkni á Reykjanesskaga hefur sýnt sig að vera lotubundin sé litið á síðustu 3000 ár. Hver lota gengur yfir á um það bil 400 ára tímabili með gosum í nokkrum af eldstöðvakerfum skagans. Á milli líða um 800 ár þegar ekki gýs, en þess í stað kemur jarðskjálftavirkni með höggun á sniðgengjum.

Brennisteinsfjoll-126

Síðasta lota hófst fyrir landnám í Brennisteins / Bláfjallafjallakerfinu og lauk þar árið 1000. Eftir fylgdi Trölladyngjukerfið með gosvirkni á 12. öld og síðan Reykjanes- og Svartsengiskerfin með gosum á 13. öld. Líkt gekk til fyrir 2400-2000 árum. Vitað er að eldvirkni var á Reykjanesi, í Trölladyngju og Brennisteinsfjöllum fyrir rúmlega 3000 árum, en tímabilið þar á undan er miður þekkt. Goshlé á Reykjanesskaga hefur nú varað í rúmlega 750 ár.
Sprungureinin fyrrenfnda, sem kennd er við Brennisteinsfjöll, nær frá sjó í suðri og norðaustur á Mosfellsheiði og er svæðið eitt af fallegustu jarðeldasvæðum landsins og enn lítt spillt af mannavöldum. Ung brot, sem hreyfst hafa eftir ísöld, eru mörg og sum stór. Jarðskjálftar eru fremur tíðir í sprungureininni og geta verið kröftugir.

Brennisteinsfjoll-127

Jón Jónsson birti árið 1978 tímamótaskýrslu um jarðfræði Reykjanesskagans. Með skýrslunni eru kort í kvarða 1:25.000 og ná þau frá Reykjanesi austur í Ölfus. Þrátt fyrir þetta og þær rannsóknir sem hér er gert grein fyrir er margt í jarðfræði svæðisins sem þarfnast frekari rannsókna. Meðfylgjandi kort er í sama mælikvarða og kort Jóns, enda erfitt að sýna jarðmyndanir á korti í minni mælikvarða því sumar gosmyndanir hafa takmarkaða útbreiðslu.
Vegir ná ekki inn á svæðið og því tímafrekt að komast að og frá rannsóknarsvæðinu. Útivinna við rannsóknir var aðallega unnin að hausti til, en þótt svæðið sé nálægt Reykjavík gat verið erfitt að finna hentuga daga til rannsókna. Best er að ganga um svæðið í norðanátt, en í öðrum áttum liggur yfirleitt skýjabakki með þokum yfir fjöllunum.
Brennisteinsfjoll-129Síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og er talið að síðasta jökulskeið hafi staðið yfir í um 100.000 ár. Á þeim tíma mun megnið af þeim jarðlögum sem byggja upp fjallabálkinn frá Lönguhlíð, um Bláfjöll og norður í Hengil hafa myndast. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Mikið er um slíkar myndanir í Brennisteinsfjöllum. Ástæða þess að þarna hefur myndast hærra land en umhverfis er sú að við gos undir jöklum ná gosefnin ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvunum, sem móbergsfjöll. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun og mynda þunnar breiður sem fylla smám saman upp í dali og lægðir milli móbergsmyndana. Eldri hluti jarðmyndana var ekki kortlagður sérstaklega í þessari úttekt á svæðinu, enda einkum verið að kanna umhverfi jarðhitasvæðisins.

Brennisteinsfjoll-131

Allar bergmyndanir á rannsóknarsvæðinu í Brennisteinsfjöllum eru basalt. Ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði og þar sem engar borholur eru á svæðinu er ekkert vitað um gerð berggrunnsins fyrir utan það sem sést í fjallahlíðum. Jarðmyndanir eru allar frá Brunhes segulöld, þ.e. eru yngri en 780.000 ára og sennilega talsvert yngri en það, en aldursgreiningar vantar til staðfestingar á aldri myndana. Dyngjur á Reykjanesi eru flestar fremur gamlar og liggja sumar á jöðrum eða utan eldstöðvakerfanna (Heiðin há, Leitin, Selvogsheiði).
Nútímahraun á Reykjanesi hafa verið kortlögð af Jóni Jónssyni (1977, 1978). Jón flokkaði hraun eftir aldri og gerð, og mældi í þeim hlutfall steinda. Síðan Jón vann sitt verk hafa bæst við nokkrar nýjar aldursgreiningar og aukin þekking á öskulögum hefur auðveldað aldursgreiningu jarðlaga. Í þessari skýrslu er númerum Jóns og heitum á hraunum og eldstöðvum haldið (Jón Jónsson 1978), enda ástæðulaust að breyta þeim. Kortlagninu Jóns á hraunum hefur fremur lítið verið breytt, en þó hafa jaðrar sumra hrauna verið dregnir dálítið öðruvísi.

Brennisteinsfjoll-130

Hraunum sem hefur verið skipt upp er sérstaklega getið. Á jarðfræðikortum af höfuðborgasvæðinu (í kvarða 1.25.000) sem gefin voru út 1993–2000 (Helgi Torfason o.fl 1993, 1997, 1999, 2000) var nöfnum hrauna breytt á nokkrum stöðum og sett ný auðkenni á hraunin í stað númeranna sem Jón notaði, og er þess getið þar sem það á við.
Gos á Brennisteinsfjalla-sprungureininni falla á tvær eða þrjár afmarkaðar skákir en Freysteinn Sigurðsson (1985) hefur greint þennan hluta í fjórar skákir (gosreinar) og þá austustu sem dyngjurein. Hér er þetta dálítið einfaldað og mynda nokkrar gossprungur vestustu skákina sem liggur frá Eldborgu við Geitahlíð norður að Þríhnúkum (tvær hjá FS 1985), en mið-skákin liggur frá Svartahrygg norður í norðurenda Rauðuhálsa í vesturhlíðum Bláfjalla. Þá liggur sakleysisleg skák um Heiðina há, Leitin austan Bláfjalla og í eldvarpið Eldborgu, þaðan sem Kristnitökuhraunið kom árið 1000 (dyngjurein hjá FS 1985).
Mest hafa gosin verið í vestustu skákinni. Ekki hefur gosið á vestara gosbeltinu á Brennisteinsfjoll-133sögulegum tíma norðar en í Eldborg austan Bláfjalla. Má leiða líkum að því að kvika hafi sest að í iðrum Hengils í stað þess að koma upp á yfirborð og er það ástæða hins mikla jarðhitasvæðis sem þar er.
Aldur (byggður á öskulaga-rannsóknum) og upptök margra hrauna á Brennissteinsfjallasvæðinu hefur verið ákvarðaður, sbr. meðfylgjandi:
H-138 – Selvogshraun – sunnan Kistufells – eldra en 1226
H-149 – Kóngsfellshraun – vestan Kóngsfells um 950 = Húsfellsbruni yngri
H-150 – Húsfellsbruni – Eldborg, við Drottningu um 950 = Húsfellsbruni yngri, Hólmshraun V
H-142 – Svartihryggur – Svartihryggur um 950 – sennilega sama gos og H-150
H-129 – Breiðdalshraun – Kistufell eftir 900
Brennisteinsfjoll-132H-130 – Kistuhraun  – Kistufell eftir 900 álíka gamalt og H-129
H-139 – Yngra Hellnahraun – í Grindarskörðum 875 eldra en H-138, e.t.v. 950 – Tvíbollahraun, Tvíbollar, Grindarskörð 875
H-140 – Stórabollahraun, Stóribolli dyngjuhraun, Skúlatúnshraun
H-203 – Við Tvíbolla – e.t.vv sama og H-140
H-127 – Vörðufellsborgahraun  – Vörðufellsborgir, 1300-1400
H-118 – H-123 – H-135 – Brennisteinshraun, yngra gígaröð vestan jarðhita vestan brennisteinsnáma
H-116 – Kálfadalshraun, norður af Geitahlíð > 2400-2600
H-146 – Þríhnúkahraun, yngra Þríhnúkarhraun við Kristjánsdalahorn
H-200 – vestan Draugahlíða
Brennisteinsfjoll-134H-202  -vestan Draugahlíða, undir H-200
H-136 – Brennisteinshraun, eldra Gígar norðan Kistufells vestan brennisteinsnáma
D-24   – Strompahraun, Strompar dyngjuhraun
H-137 – „Gamlahraun“, gömul gígaröð N Kistu
H-132 – NV Kistu > 3200-3400
H-143 – S Þríhnúka e.t.v. fleiri gos en eitt
H-141 – SA Grindarskarða
H-128 – Hvannahraun, Eldborg dyngjuhraun
H-121 – SV Vörðufells
H-123 – SV Vörðufells
H-125 – sunnan Vörðufells
H-115 – Sláttudalur
H-112 – Stóra Eldborg
H-126 – vestan Sandfjalla
D-16   – Herdísarvíkurhraun í Brennisteinsfjöllum dyngjuhraun
D-17   – Í Herdísarvík dyngjuhraun > 4500
Brennisteinsfjoll-135H-134  – Kistufellshraun Kistufell
H-204  – austan Kistufells hrauntætlur á móbergshálsi
H-201  – austan Stórabolla
D-23   – Heiðin há, Heiðin há dyngjuhraun
D-21   – Í Herdísarvík dyngjuhraun >9000

Dyngjurnar á Reykjanesskaga eru flestar gamlar. Þær einkennast af þunnum hraunstraumum sem runnið hafa á löngum tíma og oft langar leiðir. Bergið í dyngjuhraunum getur verið ýmist dílótt eða dílalaust og oft erfitt að rekja hraunstrauma frá þeim. D-16 Herdísarvíkurhraun kemur fram í tveimur óbrinnishólmum suðvestan við Kistu. Þetta er hraun frá gamalli dyngju sem Jón hefur rakið meðfram ströndinni til austurs. Sennilega er dyngjan sjálf í Brennisteinsfjöllum, e.t.v. norðan undir Vörðufelli. D-23.
Heiðin há er gömul dyngja, sú Brennisteinsfjoll-137stærsta frá nútíma á Reykjanesskaga (170 km2 og um 6,8 km3 að rúmmáli). Gígsvæðið er við Kerlingarhnúk og er gígurinn fylltur af hraunum, en hraunstrýtur (hornito) marka útlínur hans. Þessi dyngja er austarlega í sprungurein er tengist Brennisteins-fjallasvæðinu (eða annarri sem þá tengist Bláfjöllum, sbr. Leitin), og er hún nokkuð austan við megin-eldlínuna. Hraun frá Heiðinni há ná niður að Þorlákshöfn. Sumir hraunstraumanna eru plagíóklasdílóttir en aðrir dílalausir, sama gegnir um ólivín. Grafið var öskulagasnið niður á dyngjuna norðan við Svartahrygg og sást þar að hún er eldri en 3.000 ára, sennilega enn eldri. D-24 Strompar er dyngja rétt sunnan við skíðaskálana sem eru í Bláfjöllum. Í hrauninu frá Strompum eru fallegir hraunhellar, myndaðir í hrauná sem hefur runnið frá gígunum til norðurs. Þessi dyngja er í norðurhlíðum D23 og því er hún greinilega yngri og hefur Jón Jónsson lýst henni vel (1976, 1978). 

Brennisteinsfjoll-138

Eldvörpin eru 7 og eitt sýnu stærst og telur Jón að hraun við bæinn Hólm (Hólmshraun II) gæti verið komið frá þessari eldstöð. D-25 Leitahraun er eitt þekktasta hraun við Reykjavík og hefur runnið frá gíg austan við Bláfjöll og niður í Elliðavog fyrir um 5.000 árum. Leitahraun er dyngja og á austustu rein Brennisteinsfjallanna. Leitahraun er ekki á meðfylgjandi korti, en er úr þessarri sprungurein; upptök þess eru rétt austan við Bláfjöll.
Frá gossprungum renna yfirleitt apalhraun með greinilegar hraunbrúnir sem eru oft auðveldari viðfangs til að kortleggja en dyngjuhraunin, sem eru þunnfljótandi og oft erfitt að greina jaðra þeirra auk þess sem þau geta runnið mjög langar leiðir í ræfilslegum straumum. Þar sem gossprungur eru gjarnan langar og ekki gýs alltaf eftir þeim endilöngum getur verið mjög erfitt að sjá hvaða gos hafa orðið á sama tíma eða í sömu goshrinu.

Brennisteinsfjoll-139

Til þess að rekja sögu goshrina á svæðinu þarf mun ýtarlegri rannsóknir en fram hafa farið til þessa. Við aldursgreiningu hrauna var stuðst við öskulög í jarðvegi, innbyrðis afstöðu hraunanna og aldursgreiningar með geislakoli (C14) sem gerðar hafa verið á nokkrum stöðum. Vísað er til skýrslu Jóns Jónssonar (1978) varðandi lýsingar á hraununum.
Aldur hraunanna er lágmarksaldur í flestum tilvikum, því grafið var niður á hraunin og greind þau öskulög sem fallið hafa á hraunið eftir að það rann. Frekari rannsóknir munu geta fært aldur hraunanna aftar, en sjaldnar framar í tíma. Grafið var undir nokkur hraun til að sannreyna að þau væru söguleg, en slíkur gröftur er oft mikil og tímafrek vinna.
Brennisteinsfjoll-140Forsöguleg hraun eru mörg í þessari sprungurein, á bilinu 25–30 sem eru þekkt, en sennilega eru þau fleiri. Flest hafa þau komið af fjallshryggnum sem kenndur er við Brennisteinsfjöll og hafa þau runnið til beggja átta og út í sjó við suðurströndina. Nokkur hraun hafa runnið inn á næstu sprungurein vestanvið, kennda við Krýsuvík, og sum jafnvel yfir hana og til sjávar sunnan við Hafnarfjörð.
Eftirfarandi hraun eru talin úr öðrum gosum en Jón gerði ráð fyrir:
H-200 er nokkuð gamalt hraun sem komið hefur upp við móbergsháls, þar sem kemur upp úr vestasta “Grindarskarðinu”. Þetta hraun hefur runnið til norðurs niður á láglendi og hverfur undir H-139 (Tvíbollahraun).
H-201 er skammt austan við Tvíbolla og hverfur undir yngri hraun.
Brennisteinsfjoll-140H-202 er lítill hraunbleðill sem liggur undir H-200 og sést aðeins á litlum bletti.
H-203 er ungt hraun sem liggur við Tvíbolla og hefur verið talið hluti af því gosi. Landnámslagið er ofan á þessu hrauni og það því eldra en gosið í Tvíbollum. Þetta hraun gæti verið sama og H-140, úr Stórabolla. Stutt er milli þessara gosa og því erfitt að greina hraunin sundur þarna.
H-204 er lítið hraun norðaustan við Kistufell. Það hefur komið upp á móbergshálsi sem er mikið brotinn. Ekki náðist að skoða þetta hraun, en það virðist hverfa undir H-134 og er því gamalt. Erfitt er að greina sundur hraun við Þríhnúka, þar sýnir Jón Jónsson (1978) fleiri hraun en hér er gert. Þar sem erfitt getur verið að tengja saman gígaraðir langar leiðir getur verið að færri gos hafi verið í sprungureininni en hér er lýst.
Tvö hraunanna verið færð til sögulegs tíma. Annað er Kistuhraun (H-130) sem hefur gosið á sama Brennisteinsfjoll-142tíma og Breiðdalshraun (H-129) og hefur verið aldursgreint (Jón Jónsson 1978). Hitt er lítið hraun við gígaröð sem nefnist Svartihryggur og er einnig sögulegt. Landnámslagið frá 870–880 liggur undir báðum hraununum. Á þessari sprungurein hefur gosið a.m.k. 10 sinnum á síðastliðnum 1100 árum og er ekki ósennilegt að gosin hafi komið í hrinum eins og í Kröflueldum og sýnt hefur verið fram á að hafi gerst í Krýsuvík (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988; Haukur Jóhannesson o.fl. 1991). Sennilega hefur verið goshrina á svæðinu um 950, en nákvæmari rannsóknir þarf til að greina gosin betur í sundur Brennisteinsfjöll eru eina háhitasvæðið í vestara gosbeltinu sem ekki hefur verið rannsakað með borunum og er óraskað. Nýting svæðisins getur því annað hvort orðið til útivistar eða til virkjunar jarðhitans, t.d. til framleiðslu á raforku.
Útivistarfólk telur yfirleitt að ekki fari saman nýting jarðhitasvæða til virkjunar og nýting til Brennisteinsfjoll-141útivistar. Þeir sem vilja nýta orkuna telja slíkt geta samrýmst og benda á að vegir auðveldi aðgengi inn á falleg og spennandi svæði. Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum (myndir 8 og 9). Þá er mikill kostur að gróður er lítill á svæðinu og jarðmyndanir skýrar. Slíkar minjar eru óvíða svo ósnortnar og nálægt byggð og svæðið því einstakt að því leyti. Sumar gosmyndanir á svæðinu eru einstakar, s.s. Þríhnúkagígur, Kistufell o.fl. Á brún Lönguhlíðar eru tveir stórir dyngjugígar frá síðustu ísöld og sá þriðji austan við Stórabolla. Þessir gígar eru skýrir og fallegir og er verndargildi þeirra hátt. Svona svæðum nálægt þéttbýli fækkar sífellt og með auknum ferðamannastraumi verða þau æ áhugaverðari og verðmætari þeim sem vilja njóta útivistar og kyrrðar náttúrunnar.
Brennisteinsfjoll-145Eldri myndanir sem liggja undir nútímahraunum sjást vel í jöðrum fjallanna. Við rannsóknir með borunum í Brennisteinsfjöllum þarf að fara varlega við vegalagningu, því erfitt mun er að leggja þar vegi sem ekki verða til mikilla lýta í landinu. Þá þarf að huga að því að erfitt verður að leggja rafmagnslínur eða aðrar leiðslur án verulegra spjalla á náttúrunnni. Ekki er unnt að leggja vegi inn á svæðið án þess að fara yfir hraun sem runnið hafa á sögulegum tíma eða gígaraðir nema úr vestri, eftir Lönguhlíð. Ef lagðir eru vegir inn á svæðið opnast það fyrir ökutækjum og aðgengi verður auðveldara, en um leið hverfur öræfakyrrðin og tign sú er hvílir yfir svæðinu. Þó ekki sé það tilgangur þessarar skýrslu að meta verndargildi svæðisins er nauðsyn að benda á það strax að um mjög sérstakt svæði er að ræða.“
Áður hafði verið gengið um sunnanverð Brennisteinsfjöllin og þeim verið gerð skil.
Frábært veður. Gangan tók 9 klst og 9 mín. Gengnir voru 24 km.

Heimildir m.a.:
-Helgi Torfason, Náttúrufræðistofnun Íslands, Magnús Á. Sigurgeirsson, Geislavörnum ríkisins, Brennisteinsfjöll – Rannsóknir á jarðfræði svæðisins, janúar 2002.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Tjarnhólatjörn

 Lagt var af stað í FERLIRsferð nr. 1185. Markmiðið var að finna „síðasta selið í dalnum“, sel frá Fremri-Hálsi í Kjósarhreppi.
FERLIR hafði áður leitað uppi, skoðað og skráð 250 selstöður í fyrrum landnámi frumbyggjans, Ingólfs Fellsendi - tóftir gamla bæjarins nærArnarssonar, á Reykjanesskaganum; frá ósum Ölfusár í austri, Botnsdal í norðri, Garðskagatáar í vestri og Reykjaness í suðri. Það var því lengi von á a.m.k. einu enn. Skv. fyrri upplýsingum núlifandi fólks var talið að eyðibýlið Sauðafellskot hafi verið sel frá bænum, en við nánari leit (og aðstoð Örnefnastofnunnar) komu fram óljós vísbending um að seltóftir kynnu að leynast við svonefnt Selgil innan við Hrútagil, efst í Seldal. Þar, efst í dalnum, mátti einnig sjá örnefnið Selskarð. FERLIR hafði, þegar hér var komið, dregið þann lærdóm af örnefnaskrám, að ástæðulaust væri að véfengja vísbendingarnar (að öllu jöfnu). Þá hefur það allnokkrum sinnum komið fyrir að minjar, sem ekki er getið um í lýsingum, hafa fundist við leitir og það jafnvel þrátt fyrir að staðkunnugir hafi fullyrt að engar mannvistarleifar væru að finna. Oftar en ekki hefur FERLIR þó notið liðsinnis heimafólks, sem gat gengið að tilteknum minjum á sínu landssvæði vísum, án þess að reynt hafi verið að festa staðsetningu þeirra á blað – enda enginn spurt um þær.
Merkjavarða ofan FellsendaSeldalur er milli Stóra-Sauðafells og Skálafellshálsar. Efst í dalnum eru Tjarnhólar ofan við Tjarnhólatjörnina. Vestan þeirra er Selskarð. Ólíklegt er að nafngiftirnar hafi komið af engu. Ætlunin er að ganga um svæðið og athuga hvort þar kynnu að leynast selminjar.  Skv. þegar fyrirliggjandi upplýsingum áttu í Seldal bæði að vera gömul rétt og tóftir í nátthaga.
Í örnefnaskrá Stardals í Kjalarneshreppi segir: „Frá Rjúpnagili austur eru flóar með smáhólum og tjörnum. Þetta svæði heitir Tjarnhólar. Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel. Í Selgilið kemur Hrútagil frá vinstri. Seldalur heitir lægðin með gilinu.“
Í örnefnalýsingu um Fremri-Háls segir m.a. að „skammt fyrir vestan Réttarlæk er Réttarhóll. Þar var lengi rétt, nú aflögð“. Einnig er næsta nágrenni lýst til nánari viðmiðunar; „Beint upp af Þórufossi, austan Grafarmýrar, er Pyttaflói. Á milli eru nafnlausir mosaflákar. Í Laxá er Sýsluhólmi. Haraldur telur, að því nafni hafi heitið hólmi skammt austan við Sýslulæk, en sá hólmi er nú horfinn. Leifar réttar við Réttarhól
Sýslulækur kemur úr Selflóa og Pyttaflóa og rennur í Laxá nálægt sýslumörkum. Þar sem lækurinn fellur í Laxá, eru smáhólmar, sem breyta sér í sífellu. Þeir eru stundum nefndir Sýsluhólmar. Selflói liggur meðfram Stóra-Sauðafelli, sem er sunnanvert við Kjósarskarð, en svo nefnist láglendið allt milli fjalla. Milli Selflóa og Pyttaflóa eru grámosavaxnar hæðir, nafnlausar. Allt áðurnefnt mýra- og flóasvæði, þ.e. Grafarmýri, Pyttaflói og Selflói, er oft nefnt einu nafni Hálsflói. Flóalækur kemur upp í Selflóa og rennur eftir honum vestur í Hálsá. Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot (Sauðafell). Skammt neðan við, þar sem Flóalækur kemur í Hálsá, er Uppspretta, þar sem sprettur upp hálfskolplitað, kalt vatn, stundum af nokkrum krafti. Uppspretta þessi er kringlótt, u. þ. b. 1 m. í þvermál. Um 4-500 m. þar neðar með Hálsá er Háavarða. Vestan við Háuvörðu, meðfram Hálsá, er Langalaut. Hún nær að Hvömmum, grasivöxnum brekkum meðfram ánni. U.þ.b. 200 m norðan Háuvörðu er Stekkur undir KastalaTvívörðuholt, sem dregur nafn af tveimur vörðum, sem þar standa. Norðvestur af því er Kýrholt. Nyrzt á brún Hvammanna eru tóftir Margrétarkots.“
Og þá er aftur komið að fyrsta viðmiðinu; Sauðafellskot við norðurmynni Seldals. Í fyrstu var ætlunin að ganga upp (suður) dalinn, en við nánari lestur var ákveðið að ganga upp frá bæjarhlaðinu á Fellsenda.
„Fyrir vestan Stóra-Sauðafell er Seldalur. Við botn hans eru Tjarnhólar. Þar er tjörn og upptök Hálsár, sem síðan rennur niður Seldal. Laugin er volg uppspretta við Hálsá í Seldal, um 200 m. sunnan við Hrútagil, það gil gengur í boga úr Seldal í suður og síðan í vestur. Eftir því rennur lækur, sem ekki er nefndur sérstaklega. Botnar eru mýrarflóar suðvestur af Tjarnhólum og Seldal.“
Í örnefnalýsingu fyrir Fellsenda segir m.a. um Tjarnhóla og nágrenni: „Nokkru austar eru fjórir hólar, er heita Tjarnhólar.  Þeir standa þétt, tveir og tveir, og sund á milli. Vestan við þá er Tjarnhólasund. Ef komið er frá Einbúa, er fyrst komið í sundið, það er næst honum. Norðan hólanna er Tjarnhólatjörn og austur og norður af henni Tjarnhólaflói.  Í austurátt frá Tjarnhólum eru brekkur, sem Háubrekkur heita.“
Fremri-Hálslýsingin heldur áfram: „Næsta gil fyrir norðan Hrútagil, við mynni Seldals, heitir Grímugil. Það er grösugt. Vestan þess tekur við Fannahlíð, sem nær vestur að Þvergiljum í landi Írafells. Fjallið allt vestan Seldals, sem Hrútagil skerst inn í, nefnist Skálafellsháls. Háfjallið, upp af Hrútagili er nefnt Efribrún. Neðan hennar að norðaustanverðu er Fannahlíð, sem að framan getur. Neðan Fannahlíðar er Neðribrún. Vestast í Fannahlíð er Fannahlíðarhorn. Frá Hálsá, þar sem hún kemur úr Seldal, eru þessi nöfn fyrir neðan brún (Neðribrún): Frá Hálsá fyrir neðan Seldal og heim að Eystrihæð heitir Steinshlíð. Eystrihæð Forn rétt við Bæjargiliðer fyrir sunnan ána á móti Háuvörðu. Réttarlækur kemur úr fjallinu heiman við Eystrihæð. Í því gili er Háifoss (gilið hefur ekki sérstakt nafn). Þar upp undir brún heitir Kór, því að hamraveggurinn þar minnir á kór í kirkju. Skammt vestan við Réttarlæk er Réttarhóll. Þar var lengi rétt, nú aflögð. Við réttina var Nátthagi. Þar var torfhleðsla, sem nú hefur verið sléttuð. Fyrir ofan Nátthaga, nær fjalli, er Nátthagahóll. Fyrir vestan hann er Nátthagagil. Fyrir vestan það er Kastalinn, allmikill grjóthóll. Þá tekur við Kastalagil. Beint niður undan Kastala er Heimrihæð. Einbúi er stakur klettahóll neðarlega á Heimrihæð, u. þ. b. 100 m. frá ánni…. Margrétarkot er á hæðarrana austan við ána. Mótar þar fyrir tóftum.“
Framangreint gæti virst ágætt vegarnesti og greinargóð vísbending hvar minjar væri að finna á svæðinu. En þar reyndist þrautin þyngri. Bæði var það vegna þess að landslagið er svolítið sérstakt og auk þess höfðu þátttakendur ekki komið áður inn á svæðið. Reynslan hefur sýnt að ákjósanlegast er að fara a.m.k. þrisvar sinnum um tiltekið svæði, skoða staðhætti, bera saman ritaðar skrár og heimildir við kennileiti og huga að fjarlægðum.

Dýralíf við bæjarlækinn að Fremra-Hálsi

Oft er nauðsynlegt að lesa örnefnalýsingar mjög vandlega með hliðsjón af því að þær eru jafnan ritaðar við eldhúsborðið heima í bæ og þá jafnan af gömlu fólki, sem hefur ekki um allnokkurt skeið farið um svæðið, sem það er að skrá. Oft verða því fjarlægðir misvísandi og orð eins og „spölkorn“ eða „handan“, „ofar“ og „innar“ verða að miklum vafamálum þegar á vettvang er komið, auk þess sem áttir vilja misritast. Þannig eru t.d. lækir stundum sagðir á pappírnum renna í vestur, en á vettvangi renna þeir í austur. Áreiðanlegustu og nákvæmustu upplýsingarnar koma jafnan frá fólki, sem gengið er með um svæðin og skráð eftir þeim jafnóðum. Þannig verða hólar réttvísandi hver við annan, en ekki „handan“ við eitthvað óljóst.

Möguleg tóft í Seljadal gegnt Hrútagili

Jæja, hvað um það. Fellsendi mun hafa byggst í kringum 1848-1849 enda er hans ekki getið í Jarðabókinni 1703. Öll hús eru orðin hrörleg, enda virðist jörðin ekki lengur vera í ábúð. Haldið var upp hálsinn eftir gömlum götusneiðingi, framhjá tóftum gamla bæjarins ofan (norðan) núverandi bæjarstæðis. Bæjarlækurinn rennur þar í aflíðandi flúðum, en neðan þeirra kemur Djúpiskurður í hann. Skv. örnefalýsingu áttu þar að vera óljósar tóftir af Vigdísarkofa, gamalli rúst. „Talið var, að þar hafi verið einsetumaður um skeið“. Árið 1981 bar lítið á rústinni, en sást þó enn. Nú virtist hún horfin í kargaþýfið.
Ofar blöstu Tjarnhólar við. Suðaustan þeirra var varða á steini, líklega landamerkjavarða á mörkum Fellsenda og Fremra-Hálsar. Önnur var á aflíðandi hól alllangt í norðvestri, á markalínu Kjósarsýslu og Árnessýslu. Þegar komið var upp að austasta hólnum blasti Tjarnhólatjörn við og Tjarnhólaflói vestan, norðan og austan hennar.
Haldið var fyrst upp að vörðunni á hólnum í vestri og síðan niður flóann, áleiðis niður Seldalinn. Á móts við Hrútagil, austan Hálsár, virtist móta fyrir tóft í grónum fláa. Erfitt var að fullyrða hvort um mannvistarleifar hafi verið að ræða, en vestan árinnar hefur legið gömul þjóðleið, enda auðveld yfirferðar. Henni hefur nú verið að hluta til spillt með slóða er gerður var þegar háspennulína um dalinn var sett upp.
Hornmörk Stardals, Fellsenda og Fremri-Hálsar, auk sýslumarkaÞegar komið var niður í Sauðafellskot virtist af aðstæðum að dæma að þar væri hinn ákjósanlegasti staður fyrir selstöðu; við læk, í skjóli og gróinn hóll að baki, tilvalinn fyrir stekk og kví. Haldið var áfram niður að Fremra-Hálsi eftir gamla Kjósaskarðsveginum.
Tekið var hús á Ingibjörgu Jónsdótturr og Jóni Steinari Vilhjálmssyni að Fremra-Hálsi. Ingibjörg er fædd og uppalin á staðnum. Foreldrar hennar fluttu að Fremra-Hálsi árið 1927. Þá var fráfærum hætt, að hennar sögn. Benti hún þátttakendum bæði á Réttarhól og Kastalann, sem þeir höfðu gengið framhjá á leið sinni niður að bænum.
Réttarhóll er innan girðingar, á ystu (syðstu) mörkum. Norðan í honum eru leifar af hlöðnum garði, réttinni. Augljóst var að túnið hafði verið sléttað að hólnum og þar með aðrir hlutar réttarinnar farið undir túnið. Skammt ofar, utan girðingar, mátti sjá stutt veggbrot.
Kastalinn er milli Réttarhóls og bæjarhúsanna, að vestanverðu, ofan og utan girðingar. Um er að ræða myndarlegan bólstabergsstand, mikið brotinn. Ingibjörg hafði upplýst að undir honum væri stekkur, sem ekki væri getið um í heimildum. Svo reyndist vera. Mannvirkið er ílangt, um 7 metrar að lengt, og mjótt, um 1.20 m. Efst er ferkantað gerði, lítið. Af mannvirkinu að dæmi hefur ekki verið fjármargt að Fremra-Hálsi fyrrum.
Tóftir Sauðafellskots (Sauðafells), sels frá Fremra-HálsiÁ leiðinni til baka að bænum var kíkt í bæjargilið. Þar kom í ljós hlaðið gerði (rétt) undir bergstalli, sunnan lækjarins. Ingibjörg sagði mannvirkið ævagamalt og þess væri heldur ekki getið í örnefnaskrám, einhverra hluta vegna.
Aðspurð um þann hluta lýsingar Stardals er segði að „þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel“, sagði hún að lýsingin gæti verið rétt að hluta. Sauðafellskot hefði líklega verið sel áður en það óx upp í kot. Það fór snemma í eyði. Þess er t.a.m. ekki getið í heimildum frá 17. öld. Tóftirnar eru ekki ólíkar seltóftum, auk þess sem staðsetningin gæti vel passað við selstöðu frá Fremra-Hálsi. Ummerki um aðra slíka annars staðar í landi bæjarins hefði a.m.k. ekki fundist.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Fremriháls; „Selstöðu á jörðin í heimalandi„. Einnig segir um býlið Sauðafell; „Hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi. Bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið…. Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru snú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. ÞAR ER NÚ SELSTAÐA FRÁ HÁLSI.“ Í örnefnalýsingu fyrir Fremra-Háls segir m.a.: „Selflói liggur meðfram Stóra-Sauðafelli, sem er sunnanvert við Kjósarskarð, en svo nefnist láglendið allt milli fjalla“. Hér er átt við flóasvæðið austur af Sauðafellskoti.
Niðurstaðan er að nokkru athyglisverð. Venjulega óx selstaða upp í það að verða að koti, s.s. Straumssel, Vigdísarvellir og Selkot, en hér er komið dæmi um að kot hafi orðið að selstöðu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fremri-Háls.
-Örnefnalýsing fyrir Fellsenda.
-Hluti úr örnefnalýsingu Stardals.
-Ingibjörg Jónsdóttir – Fremra-Hálsi.
-Jón Steinar Vilhjálmsson-Fremra-Hálsi.
-Magnús Jónason – Stardal.
-Jarðabók ÁM 1703 (417-418) og (419).

Stóra-Sauðafell

Óttarsstaðasel

Gengið var vestur eftir Alfaraleiðinni frá Gerði, um Draugadali, frammeð Smalaskálahæð og að Gvendarbrunni undir Gvendarbrunnshæð. Þaðan var haldið spölkorn eftir leiðinni til vesturs uns komið var að gatnamótum Rauðamelsstígs eða Skógargötu, eins og hann stundum var nefndur, auk Óttarsstaðaselsstígs. Stígurinn liggur upp frá Óttarsstöðum, um Kothól og framhjá Borginni (Kristrúnarborg/Óttarsstaðaborg) og áfram upp Bekki að selinu skammt austan við Þúfhól.

Tóhólaskúti

Tóhólaskúti.

Einn tilgangurinn með göngunni að fara upp að Tóhólaskúta og skoða hvort þar gæti verið um að ræða sama fjárskjólið og nefnt er Skógarnefsskúti í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun. Í þeirri lýsingu á skútinn reyndar að vera í Skógarnefinu, en skv. upplýsingum Brunnastaðabræðra (Kristmundssona) á skútinn að vera svo til á mörkum Hvassahrauns og Óttarsstaða, skammt fyrir ofan Lónakotsmörkin, en neðan við Skógarnefsbrúnina. Mörkin liggja um Krossstapana og er brúnin skammt ofan við efri stapann. Undir þeim, skammt vestar, eru Skógarnefsgrenin.
Þá átti opið á Skógarnefsskúta að snúa mót suðri, en Tóhólaskútinn snýr opi mót austri eða norðaustri. Samt þótti ástæða til að gaumgæfa þetta enn og aftur.
Þegar komið var að gatnamótum Rauðamelsstígar, eða Óttarsstaðaselsstígar, og götu, hér nefnd Skógargata, sem liggur upp í Skógarnefið, var henni fylgt til suðurs. Þrjár vörður eru við gatnamótin, allar fallnar.
Gróið er yfir Skógargötuna fyrstu metrana, en þegar kemur að fyrstu vörðunni fer hann að verða greinilegri.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Gatan er vörðuð alla leiðina upp í Skógarnef og áfram upp í gegnum það. Skammt vestan við götuna, vestast í svonefndum Tóhólarana, er Tóhólaskúti. Áður hefur verið þar myndarleg hleðsla fyrir ílangan skúta innundir skeifulaga hraunhól, en miðhleðslan fallið niður. Enn má þó sjá hleðslurnar beggja vegna. Varða er á hól skammt sunnar, en engin ofan við skútann.
U.þ.b. 200-300 metrar eru þaðan í mörk Hvassahrauns svo varlega verður að telja að þarna geti verið um sama skúta að ræða og fyrr greinir. Sjá má vörður í hrauninu nálægt mörkunum, en á því hafði verið leitað fyrrum. Nú stendur til að leita það aftur fljótlega og þá með meiri nákvæmni. Um afmarkað svæði er að ræða.
Stígur liggur frá Tóhólaskúta áleiðis að Óttarsstaðaseli. Honum var fylgt að selinu, litið á Þúfhólsskjólið, seltóftirnar, Óttarsstaðaselshelli syðri, nátthagann og vatnsstæðið áður en haldið var niður Óttarsstaðaselsstíginn. Á leiðinni niður hann var kíkt á Meitlaskjólið, Sveinsskúta og Bekkjaskúta.
Fyrir ferðina hafði Tóhólaskúti verið hnitaður inn á kort og þá virtist staðsetning hans geta gengið Skógarnefsskúta í verustað, en við þessa nánari vettvangsathugun kom í ljós að það verður að teljast hæpin ágiskun.
Haustlitirnir settu svip sinn á hraunin með öllum þeim tilbrigðum sem kvöldsólin ein gat stuðlað að.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Garðastekkur

Gengið var að Garðastekk eða Garðarétt undir vesturjaðri Garðahrauns. Hún er eitt elsta mannvirkið á Álftanesi. Þegar gengið var upp á hraunkantinn ofan við réttina kom nokkuð merkilegt í ljós – fjárborg, sú 90. sem FERLIR hafði til þessa skoðað á Reykjanesi. Hún er greinilega mjög gömul. Erfitt er að koma auga á hana, en í birtunni að þessu sinni þar sem sólin skein lágt úr suðri, sást hún mjög vel. Borgarinnar er ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Garðastekkur er í raun gróinn tóft vestan við Garðaréttina. Örnefnið hefur síðan færst yfir á réttina eftir að hún var hlaðin í hraunkantinum.

Garðahraun

Fjárborg í Garðahrauni.

Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni. Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. Þar sem klettarnir klofna á móti norðri hafa þeir að öllum líkindum verið hengdir. Ef grannt er skoðað má sjá grópir efst í klettunum beggja vegna klofsins. Í heim hefur gálginn sennilega hvílt er sakammaninum var ýtt fram af á milli klettanna.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Haldið var suður í hraunið og var þá komið að Álftanesgötu, öðru nafni Fógetastíg. Gatan lá til Bessastaða. Skammt ofan við Garðastekk eru gatnamót og heitir tröðin að stekknum Álftanesstígur en frá hraunbrúninni að Görðum lá Garðstígur, sem enn mótar fyrir.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavíkurkirkja

Gamla Grindavíkurkirkja, við Kirkjustíg, varð aldargömul þann 26. september [2009].
Þennan dag árið 1909 var kirkjan vígð í Járngerðarstaðahverfi. Hönnuðurinn var Rögnvaldur Ólafsson. Hún þjónaði söfnuðinum allt þar til núverandi kirkja Grindavíkurkirkja um 1923tók við hlutverki hennar 26. september 1982. Áður hafði kirkjustaðurinn verið á Stað í Staðarhverfi. Elstu skráðar heimildir um kirkju þar eru frá 1640.

Í tilefni af afmæli gömlu Grindavíkurkirkju var gengin kirkjugatan frá Stað að gömlu kirkjunni í Járngerðarstaðahverfi. Álitlegt söguskilti, hannað af FERLIR og Martak, var sett upp við kirkjuna á þessum tímamótum að frumkvæði Grindavíkurbæjar og myndir af gömlum kirkjugripum var komið fyrir í kirkjunni. Auk þess var heitt á könnunni fyrir aðkomandi gesti í gömlu kirkjunni.

GunnlaugurÁ safnaðarfundi í júni 1888 var rætt um, hvernig stuðla mætti að betri kirkjusókn. Töldu menn þá nauðsynlegt, að kirkjan yrði flutt í miðja sveit. Á almennum safnarfundi þremur árum síðar að samþykkt var með öllum atkvæðum að fá kirkjuna flutta sem allra fyrst. Það var þó ekki fyrr en í formlegri atkvæðagreiðslu safnaðarins 23. nóvember árið 1906 að samþykktur var flutningur Staðarkirkju í Járngerðarstaðahverfi.
Í júní 1909 samþykkti sóknarnefndin að láta rífa gömlu kirkjuna á Stað þá um haustið og selja timbrið úr henni. Árið áður hafði verið ákveðið að ný kirkja yrði reist á flötunni fyrir norðan barnaskólann (Templarann). Lagt var til að vegur yrði gerður frá sjónum að skólahúsinu til að hægara yrði að flyta efniðvið að kirkjustæðinu. Grafreitur Grindvíkinga er ennþá í Staðarhverfi.

Grindavíkurkirkja

Tryggvi Árnason, trésmiður úr Reykjavík, bauðst til að reisa kirkjuna ásamt grindvískum smiðum, s.s. Guðjóni í Hliði og Engilbert á Hrauni, og útvega allt efni til hennar að frádregnum ofni, málningu og málverki. Kostnaðurinn átti að verða 44.475 krónur. Verkið hófst vorið 1909 og um haustið var kirkjuhúsið við Kirkjustíg tilbúið. Heildarkostnaður varð um 50.000 krónur. Var kirkjan vígð af þáverandi biskupi, Þórhalli Bjarnasyni, þann 26. september 1909. Sonur hans, Tryggvi Þórhallsson, lék á orgel og stjórnaði kirkjusöng, og mun það eitt með öðru hafa sett eftirminnilegan svip á kirkjuvígsluna. Fyrsta embættisverkið í kirkjunni var þegar Fanney Guðjónsdóttir frá Hliði (f: 13. júní 1909 d.1988) var skírð, við vígsluathöfnina. Guðjón Einarsson frá Hliði, faðir Fanneyjar, smiður og útgerðarmaður, tók m.a. þátt í byggingu kirkjunnar.
GrindavíkurkirkjaKirkjan þótti „einkar snotur“ og bæði rismikil og björt. Var hún byggð úr timbri og klædd að utan með járni. Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var hins vegar flutt á „fornminjasafnið“. Á því, nú Þjóðminjasafni Íslands, eru nú 16 gripir úr Staðarkirkju, s.s. textílar (höklar, altarisklæði og patínudúkur), altaristafla, predikunarstóll, ljóshjálmur, stjakar, söngtafla og skarbakki.

Orgelið

Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð málverk eftir Ásgrím Jónsson er sýnir Krist stilla vind og sjó. Hún var sett upp í kirkjunni árið 1910. Einar  G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið, M. Hörügel, árið 1912. Það var síðan flutt upp í skóla og notað þar uns Ólafur Rúnar Þorvarðarson, kennari, kom því í geymslu um 1980 er til stóð að henda því, en því var bjargað af bílpallinum á síðustu stundu. Orgelið er nú á geymsulofti á bæjarskrifstofunum.
Dagbjartur Einarsson, bóndi á Velli, gaf kirkjunni rikkilín og hökkul og nokkrar konur í hreppnum tóku sig saman og gáfu kirkjunni altarisklæði. Tveir ljóshjálmar og sex vegglampar voru keypt fyrir samskot. Með tímanum var kirkjunni færðar fleiri veglegar gjafir, s.s. minningarspjald um Gísla Jónsson frá Vík, sem ekkja hans, Kristólína Jónsdóttir, gaf. Ramminn var gerður af Ríkharði Jónssyni. Um 19050 eignaðist kirkjan skírnarfont úr grárri marmarasteypu, gerðan af Ásmundi Sveinssyni, til minningar um hjónin Eyjólf Björnsson og Vilborgu Þorsteinsdóttur frá Krosshúsum. Nokkru síðar eignaðist kirkjan fagurlega útskorinn stól eftir Ríkharð Jónsson. Orgelin voru þrjú frá upphafi. Annað orgelið, rafmagnsorgel, var keypt nýtt árið 1951. Mun það „tvímálalaust verið eitthvert hið frábærasta hljóðfæri, sem til [væri] í kirkju hér á landi“. Árið 1968 eignaðist kirkjan svo vandað ellefu radda pípuorgel frá Þýskalandi. Flestir gripanna prýða nú hina nýrri kirkju Grindvíkinga.

Altaristaflan

Á safnaðarfundi árið 1933 lagði Sigvaldi Kaldalóns, læknir, til að kirkjan yrði máluð að innan, mislitar rúður settar í gluggana og blómum plantað í kringum hana.
Þann 17. júlí 1910 urðu prófastur, prestur og sóknarnefnd ásátt um, að hin nýja kirkja sóknarinnar skuli heita Grindavíkurkirkja og sóknin þá Grindavíkursókn. Um tíma var kirkjan kynnt með kolaofni og síðar olíuofni. Bar hún þess merki, skorstein ofan við gráturnar.
Þegar Grindavíkurkirkja var vísteruð af prófasti vorið 1950, höfðu miklar viðgerðir farið fram á húsinu, og þótti prófasti kirkjan „í alla staði hið fegursta og vandaðsta guðshús vel hirt og vel um gengið“. Á næstu tveimur árum var lóð kirkjunnar sléttuð og lögð grasþökum. Umhverfis var steypt vönduð girðing um 1956 og lögð breið gangstétt frá hliði að Kirkjutröppum. Seinna var sett blómabeð meðfram kirkjunni og þremur bekkjum komið fyrir á kirkjulóðinni. Um 1960 var skipt um járnklæðningu á kirkjunni og hún máluð að utan og innan, settir í hana nýir gluggar og máttarviðir endurnýjaðir.

En kirkjan var þá þegar orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Íbúafjöldinn nálgaðist þúsund, og var nú svo komið, að við guðsþjónustur á stórhátíðum og ýmsar aðrar athafnir varð fólk að standa úti undir vegg og hlusta á það, sem fór fram inni, úr hátalara, sem komið var fyrir úti.
Hinn fyrsta nóvember Stóll1972 tók þáverandi sóknarnefndarformaður, Einar Kr. Einarsson, fyrstu skófustunguna að nýrri kirkju og um um haustið 1982 var byggingunni lokið. Sunnudaginn 12. september fór síðasta guðsþjónustan fram í gömlu kirkjunni, sem þá var formlega lögð niður sem sóknarkirkja, 73 þremur árum eftir að hún var fullbyggð.
Tíðarhlið var á kirkjugötunni frá Stað, skammt suðvestan Járngerðarstaða. Þar skiptu kirkjugestir m.a. um skó og geymdu aðra í litlum skúta.

Kirkjan var fastheldin á þjóna sína, þá séra Brynjólfur Gunnarsson (1909-1910), Brynjólfur Magnússon (1910-1947) og séra Jón Árni Sigurðsson (1947-1982). Sr. Örn Bárður Jónsson þjónaði nýju kirkjunni til 1990, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, síðar bæjarstjóri, þjónaði frá 1990 til haustins 2007 er sr. Elínborg Gísladóttir var skipuð sóknarprestur. Séra Jónas Gíslason, leysti Jón Árna af í veikindum á áttunda áratugnum (Jónas fermdi t.d. í gömlu kirkjunni börn fædd 1960, vorið 1974).

Kirkjan var afhelguð við messu í henni 12. september 1982.

Einkarekið dagmæðraheimili, Kirkjukot, var í húsinu á árunum frá byrjun árs 1989 til febrúar 2001 þegar leikskólinn Krókur opnaði við Stamphólsveg.
Álfhildur H. Jónsdóttir var síðasti Grindavíkurkirkjaforstöðumaðurinn þegar dagmæðraheimili var starfrækt í gömlu kirkjunni. Hún færði Grindavíkurbæ nýlega gestabók úr Kirkjukoti frá 1993 þar sem stendur: ,,Í tilefni af miklum ferðamannastraum útlendinga sl. sumar sem koma að skoða Kirkjukot, þá var ákveðið að fá gestabók fyrir kotið. Við fáum líka Íslendinga hingað til okkar og allir eru mjög hrifnir af barnaheimili í kirkju.“
Álfhildur minnist þess að allt að 30 börn hafi verið samtímis í Kirkjukoti, allt frá því að þau byrjuðu að ganga til 6 ára aldurs. Tíminn með börnunum í kirkjunni var mjög ánægjulegur í alla staði.
AA-samtökin hafa haft athvart í kirkjunni með fundi sína sem og önnur félagsstarfsemi í bænum.
Karitas Una og Bjarný hafa unnið muna- og myndaskrá um munina, sem voru í Grindavíkurkirkjunni gömlu og hafa verið varðveittir í nýju kirkjunni. Hún er til sýnis í gömlu kirkjunni.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Spáð hafði verið leiðindarveðri á göngutímanum, en Guð sá um sína. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur.
-Staðhverfingabók.
-Ólafur Rúnar Þorvarðarson.
-Jóna Kristin Þorvaldsdóttir .

Upplýsingaskilti