Afstapahraun

Forfeður okkar Íslendinga voru víkingar. Víkingaöldin var tímabilið frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. skv. upplýsingum Orra Vésteinssonar, fornleifafræðings og kennara við Háskóla Íslands. Lengd tímabilsins var mismunandi eftir svæðum.

Víkingur

Víkingur.

Víkingaöldin einkenndist fyrst og fremst af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi. Þessir norrænu menn er fóru í víking voru nefndir víkingar. Þeir voru ekki sérstök þjóð, ekki fremur en bifhjólamenn eða fjallgöngumenn nú. Það að fara í víking var bara spurning um lífsstíl. Þess á milli voru þetta friðsemdarinnar menn, bændur og fiskimenn, líkt og t.d. bankamenn eru í dag.
Í forníslensku merkir hugtakið víkingur „sjóræningi, maður sem stundar sjóhernað“, en einnig er til kvenkynsorðið viking „herferð á sjó“ (sbr. „að fara í víking“). Orðið er algengt í vestnorrænum mállýskum (íslensku, norsku) en sjaldgæfara í austnorrænum (dönsku, sænsku). Hugtakið komst inn í Evrópumál úr norrænu, en hélt merkingu sinni. Adam frá Brimum, þýskur klerkur sem skrifar á latínu um 1075, segir til dæmis: „ipsi vero pyratae, quos illi wichingos appellant“ (þeir voru sannlega sjóræningjar, sem þeir nefna víkinga) sem bendir til þess að norrænir menn hafi notað orðið sem samheiti við pirata, „sjóræningi“. Enski sagnaritarinn Ælfric þýðir orðið með svipuðum hætti.

Vikingur

Víkingur.

Fornmenn lögðu þann skilning í íþróttir að þær væru margvíslegir og aðdáunarverðir hæfileikar sem hægt væri að rækta með sér, svo sem handverk, listir, leikir, lögspeki og bókvísi. Hægt er að greina tilhneigingu til að eigna yfirstéttinni íþróttaiðkun því ekki kemur fram að verslun og bústörf teljist til íþrótta.
Í heimsókn Þórs til Útgarða-Loka í Snorra Eddu er talað um íþróttir þegar sagt er frá átkeppni, kapphlaupi, kappdrykkju og glímu. Rögnvaldur kali Orkneyjajarl og Haraldur konungur Sigurðarson yrkja um hestamennsku, sund, skáldskap, tafl, rúnir, bókvísi, smíðar, skíðamennsku, róðra og hörpuleik sem íþróttir sínar, og frægur er mannjafnaður Noregskonunganna Eysteins og Sigurðar í Magnússona sögu Heimskringlu þar sem þeir miklast af glímu, sundi, skautahlaupi, bogfimi, skíðakunnáttu, lögprettum og mælsku – sem íþróttum.
Knattleikir koma víða fyrir í Íslendingasögum og hafa verið leiknir á ís eða sléttum velli með knatttré og knetti, líkt og enn er gert meðal gelískra þjóða og kallað hurling. Þekktar eru frásagnir Gísla sögu og Eglu af slíkum leikjum þar sem kappið verður svo mikið að leiðir til mannvíga. Oft er stutt á milli íþrótta og leikja í Íslendingasögum því þar er talað almennt um leika hvort sem átt er við íþróttir eða jafnvel einhvers konar leiklistariðkun. Hornskinnaleikur og hnútuköst hafa þótt til skemmtunar fallin, sem og tafl og glímur.

Víkingar

Víkingar.

Um viðhorf til líkamans almennt er ekki gott að segja því að hinar rituðu sögur eru mjög gegnsýrðar af nýplatónskum hugmyndum um mannslíkamann sem taka að ryðja sér til rúms á 12. og 13. öld. Þó virðist ljóst að menn hafa dáðst að líkamsfegurð, þá ekki síður en nú, og má hafa þessa vísu úr Helgakviðu Hundingsbana II til marks:

Svo bar Helgi
af hildingum
sem íturskapaður
askur af þyrni
eða sá dýrkálfur
döggu slunginn
er öfri fer
öllum dýrum
og horn glóa
við himin sjálfan.

Víkingar

Víkingar.

Um íþróttir fornmanna má lesa í bók Dr. Björns Bjarnasonar frá Viðfirði, Íþróttir fornmanna á Norðurlöndum. Þá skrifaði Þorsteinn Einarsson margt um sögu íþrótta á Íslandi, sérstaklega um vetraríþróttir og glímu sem hann tengdi við sams konar fangbrögð meðal gelískra þjóða.
Á seinni öldum hefur hugtakið fengið útbreiðslu í öðrum tungumálum (svo sem ensku) sem samheiti yfir norræna menn á tilteknum tíma sem kallaður hefur verið víkingatími eða víkingaöld, um 800-1050. Sú merking er líklega komin frá Engilsöxum, en fornt enskt kvæði, Wiðsið, notar hugtakið wicing þannig að um almennt orð yfir norræna menn virðist vera að ræða. Þá finnst hugtakið wicinga cynn í engilsaxneskum heimildum, sem bendir til þess að litið hafi verið á víkinga sem tiltekna þjóð fremur en stétt manna sem stundaði vissa iðju (það er sjórán). Hinum megin við Norðursjóinn má sjá svipaða notkun hugtaksins í frísneskum lagahandritum frá 13. öld.

Víkingar

Víkingar.

Hugtakið víkingaferð er tengt orðinu víkingur og er raunar samheiti við það í einni merkingu þess („herferð á sjó“). Oft er sagt frá víkingaferðum í Íslendingasögum og öðrum norrænum miðaldaheimildum og virðast þær hafa verið eins konar blanda af verslunar- og ránsferðum. Slíkar heimildir fjalla hins vegar ekki um samtímann heldur fyrri tíma og þegar þær eru festar á blað er víkingaferðum að mestu lokið. Í erlendum heimildum er fyrst getið um víkingaferð þegar norrænir sjóræningar réðust á klaustrið í Lindisfarne 793, en ránsferðir af þessu tagi hófust eflaust nokkru fyrr. Varðveittar heimildir frá þessum tíma voru hins vegar gjarnan skrifaðar í grennd við klaustur og veittu klausturránum meiri athygli en árásum á venjulega bændur.

Víkingar

Víkingar.

Á svipuðum tíma hófst innflutningur norrænna manna til Orkneyja, Hjaltlands, Suðureyja og Manar, en líta má á hann sem undanfara þess að Færeyjar, og síðar Ísland, uppgötvuðust og þar hófst byggð norrænna manna. Á þessum eyjum var naumast um ránsferðir að ræða, heldur markvisst landnám sem líklega tengist landþrengslum heima fyrir.
Samkv. rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar á uppruna Íslendinga voru 61.5% kvenna frá Bretlandi, en 80.5% karla frá Skandinavíu. Það segir okkur að hinir norrænu „víkingar“ hafi komið við á Bretlandseyjum, áður en þeir héldu til Íslands, og valið fallegustu konurnar úr kvennastóðinu þar, en skilið þær óásjálegri eftir, a.m.k. kosti miðað við þá ásýnd, sem nú er á kvenfólki þessara landa hvað útlit varðar.

Víkingar

Víkingar.

Víkingar frá Danmörku og Noregi réðust reglulega á England, Frísland og Niðurlönd á fyrri hluta 9. aldar, en þar er erfitt að greina á milli ránsferða og herferða sem farnar voru í pólitískum tilgangi. Víst er að víkingar frá Danmörku og Noregi settust að bæði á Írlandi (í Dyflinni), Norður-Englandi (í Jórvík) og á austurströnd Englands (Danalög). Ýmsir víkingaforingjar fengu lén í Fríslandi á 9. öld og í upphafi 10. aldar fékk norrænn víkingaforingi, Rollo, erfðalén á norðurströnd Frakklands, sem síðan nefnist Normandie.
Víkingaöldin er kennd við víkinga, norræna sæfara, sem bundust margs konar samtökum og sigldu þúsundum saman til framandi landa, rændu og rupluðu, versluðu, háðu styrjaldir, fundu ný lönd, náðu sér í kvenfólk, settust að og ræktuðu jörðina, allt eftir aðstæðum.

Víkingar

Víkingar.

Tíðarfarið á víkingaöld var nokkuð gott og fólksfjölgun talsverð á Norðurlöndum sem leiddi af sér landþröng og því átti ungt fólk erfitt með að stofna heimili. Landþröngin var mest einkum vestan fjalls um Sogn og Harðangur í Noregi. Það varð svokallað innra landnám í Austur Noregi vegna breyttra samfélagshátta (breytt skipun þjóðfélagsins meðal annars vegna þess að vald héraðshöfðingja þvarr) og hlýinda, sums staðar fjölgaði íbúum um helming.
Landþröngin í Noregi varð kveikjan að ránsferðum Norðmanna suður á Bretlandseyjar um 800.
Það höfðu orðið miklar tækniframfarir í siglingalist og hernaði sem gerði það kleift að Norðmenn gátu farið í víking. Víkingar sóttust eftir alls kyns auðæfum í landi og lausum aurum. Danir fylgdu fljótt í fótspor Norðmanna og fóru í víking en það hafði átt sér nokkurn aðdraganda.

Víkingar

Víkingar.

Kveikjan að vopnvæðingu Dana var sú að keisarinn Karlamagnús hafði stofnað í stríðum við Mára á Suður-Spáni franskt-þýskt stórveldi seint á 8. öld og Danir urðu að stöðva sókn Karlungaríkisins norður á bóginn, þannig að Danir voru vel til þess búnir að fara í víking.

Sagnfræðingum hefur reynst afar erfitt að útskýra þær miklu framfarir í verkkunnáttu sem urðu forsendur landnáms í Vesturvegi. Um 400 e.K. áttu norðmenn ekki annan skipakost en litla róðrabáta, lítt fallna til úthafssiglinga. Afar lítið er vitað um það hvernig tækniþekkingin breyttist á árunum 400-800 e.K. Líklegasta ástæðan er sú að norðmenn hættu sér alltaf lengra og lengra út á sjó og stækkuðu báta sína hægt og bítandi.

Víkingar

Víkingar.

Talið var áður að jörðin væri eins og pönnukaka í laginu og sigla mætti út af heimsenda. Þeir Norðmenn sem sigldu út á sjó hlutu að taka eftir því að jörðin væri hnöttótt því það kemur bunga á hafið þegar maður fjarlægist land. Þeir gætu hafa ályktað svo að jörðin væri hnöttótt og því hafi þeir þorað að sigla lengra og lengra frá landi.
En ekkert er vitað um það svo þetta er bara kenning. Um 800 óx þekking norrænna manna mikið í landafræði, siglingalist og hernaði, þeir smíðuðu bæði stærri skip og einnig góð skip til hernaðar svokallaða knerri sem voru mjóir, liprir og léttir svo það væri auðvelt að flýja á þeim og leggja að ströndum. Skip urðu aðalsamgöngutæki Norðurlandamanna og verslun þeirra og samgöngur efldust til muna. Skipin voru mikil tæknibylting á víkingatímanum en útfrá kröfum nútímans eru þau ansi ófullkomnir farkostir. Siglingin á skipunum gekk misjafnlega og til vöruflutninga á úthöfunum voru þau lítt hæf. Það var erfitt að stýra þeim til réttrar hafnar.

Víkingar

Víkingar.

Í upphafi 10. aldar dró úr víkingaferðum og fljótlega upp úr því misstu víkingakonungar fótfestu sína á Bretlandseyjum. Seinasti víkingakonungurinn, Eiríkur Haraldsson konungur í Jórvík, féll árið 954. Á Írlandi hélst ríki víkinga í Dyflinni hins vegar fram til um 1170.
Sumir vilja líta á herleiðangra danskra og norskra kónga gegn Englandi á árunum 991-1085 sem hluta af víkingaferðum, en þeir voru þó annars eðlis þar sem á ferð voru konungar sem leituðust við að leggja undir sig annað ríki, sem þeim tókst öðru hvoru.
Vitað er að norrænir menn fóru einnig í ránsferðir í austurveg, allt til Rússlands þar sem fundist hafa grafreitir og aðrar minjar um norræna menn. Þar voru þeir hins vegar ekki nefndir víkingar heldur varjagi (væringjar) í slavneskum heimildum og rus í grískum, slavneskum og arabískum heimildum. Líkt og í vesturvegi er erfitt að greina milli ránsferða, markvissra herferða eða innflutnings, en víst er að mest verður vart við víkinga í austurvegi á 9. og 10. öld, en eftir það fóru áhrif þeirra að minnka.

Víkingar

Víkingar.

Norrænir menn mynduðu sérstaka lífvarðasveit við hirð keisarans í Konstantínópel og nefndust þeir væringjar. Eftir að Normannar lögðu undir sig England 1066 fjölgaði hins vegar Engilsöxum í þessum lífverði, en hlutur norrænna manna fór minnkandi.
Benda má á að í Rómverja sögu, sem er íslensk miðaldaþýðing á verkum sagnaritarans Sallustiusar og stórskáldsins Lucanusar, er orðið víkingur notað sem þýðing á rómverska hugtakinu tyrannus, „harðstjóri, einvaldur“.
Víkingar voru ekki góðhjartaðir. Í forníslensku merkir hugtakið víkingur „sjóræningi, maður sem stundar sjóhernað“, en einnig er til kvenkynsorðið viking „herferð á sjó“ (sbr. „að fara í víking“). […] Á seinni öldum hefur orðið fengið útbreiðslu í öðrum tungumálum (svo sem ensku) sem samheiti yfir norræna menn á tilteknum tíma sem kallaður hefur verið víkingatími eða víkingaöld, um 800-1050.

Víkingar

Víkingar.

Íslenskir sagnfræðingar nota orðið „víkingur“ í fornri merkingu orðsins en hún er einnig aðalmerking hugtaksins í nútíma íslensku. Íslensk orðabók segir um orðið „víkingur“: „norrænn sæfari sem stundaði kaupskap, sjórán og strandhögg á víkingaöld“. Eins og eðlilegt er í íslenskum texta byggist stutta svarið hér á undan á þessum skilningi á orðinu.
Erlendir fræðimenn nýta sér gjarnan víkingahugtakið í titlum á bókum sínum, kannski til að vekja athygli kaupandans, en gera síðan á hinn bóginn skýran greinarmun á sjóræningjunum og hinum friðsamari Norðurlandabúum í skrifum sínum.

Víkingaskáli

Víkingaskáli.

Víkingar í íslensku merkingunni voru ekki þjóð í venjulegum skilningi eða afmarkað samfélag heldur fremur sérstök stétt norrænna manna. Þeir vöktu ótta vegna ránsferða sem óneitanlega voru margar grimmilegar – oft ýktu þó kristnir sagnaritarar grimmd hinna heiðnu ræningja. Sjófærni víkinga, vopn og vopnaburður vöktu líka aðdáun. Víkingar voru fyrst og fremst ræningjar og fórnarlömb þeirra bjuggust ekki við neinum góðverkum af þeirra hálfu frekar en frá öðrum ræningjum í sögunni (hinn þjóðsagnakenndi Hrói höttur að sjálfsögðu undanskilinn og sennilega Fjalla-Eyvindur líka).

Vikingar

Víkingar.

Auk þess að stela öllum verðmætum, námu þeir oft fólk á brott í þrældóm.
Árabilið 800-1050 er oft nefnt „víkingaöld“ eða „víkingatími“. Sumir teygja þó tímamörkin lengra fram í söguna og samfélagshættir víkingaaldar lifðu lengur á afmörkuðum stöðum, til dæmis á Orkneyjum samkvæmt Orkneyingasögu. Á þessum rúmum tveimur öldum stunduðu norrænir menn þó margt fleira en rán og rupl. Þeir námu lönd þar sem lítil eða engin byggð var fyrir og reyndu að koma á fót sjálfbærum samfélögum þar sem landbúnaður, veiðar og verslun voru undirstöðurnar. Það tókst ekki alls staðar, svo sem í Norður-Ameríku, og á Grænlandi stóð norræn byggð aðeins í nokkrar aldir. Þetta heppnaðist hins vegar dável í Færeyjum, á Íslandi og víðar. Á svæðum sem norrænir menn lögðu tímabundið undir sig, til dæmis á Bretlandseyjum og í Normandíhéraði í Frakklandi, höfðu þeir mikil áhrif á menningu, tungumál og samfélagsgerð. Sjófærnin, sem gjarnan er kennd við víkinga, nýttist vel við landnám, veiðar og verslun.

Vikingar

Víkingar.

Hollusta norrænna manna var ekki við þjóð eða föðurland, enda slík hugtök vart til þá á Norðurlöndum, samfélögin stéttskipt mjög og meðal annars mótuð af þrælahaldi. En verslun blómgaðist og norrænir menn höfðu viðskiptatengsl allt frá Grænlandi til Rússlands og Miklagarðs (Istanbúl). Landbúnaður stóð með miklum blóma en það leiddi meðal annars til útrásar og landnáms norrænna manna vegna landskorts. Friðsamleg samskipti voru því reglan en ekki undantekningin þótt Íslendingasögurnar beini athyglinni yfirleitt að meira krassandi hlutum. Engin ástæða er því til að ætla annað en að norrænir menn hafi verið góðhjartaðir á við aðra menn, meðan þeir voru látnir í friði.
Ritmál víkingaaldar var rúnaletur.

Vikingar

Víkingar.

Athyglisvert er að velta fyrir sér hvernig við Íslendingar höfum litið á víkingana, ekki síst út frá Íslendingasögunum. Þær hefjast oft á atburðum fyrir landnám Íslands og segja frá víkingaferðum þangað til aðalsöguhetjurnar nema hér land. Í Egils sögu halda þeir bræðu Kveld Úlfur og Þórólfur iðulega í víking frá Noregi áður en sagan berst til Íslands með Skalla-Grími, syni Kveld-Úlfs. Þegar sögurnar segja frá afkomendum landnámsmanna, er tónninn oftast annar. Af frægustu köppum Íslendingasagnanna er Egill Skalla-Grímsson sá eini sem fer í raunverulega víkingu. Aðrar hetjur fara að sjálfsögðu til annarra landa í eins konar manndómsvígsluför, en berjast yfirleitt gegn ræningjum. Ólafur pá Höskuldsson í Laxdælu, Gunnar Hámundarson í Brennu-Njáls sögu, Grettir Ásmundarson í eigin sögu og Þorgeir Hávarsson í Fóstbræðra sögu berja allir á víkingum, sumir í liði með konungum eða höfðingjum sem eru að verjast yfirgangi þeirra. Ekki er minnst á víkinga í Gísla sögu Súrssonar og Leifur heppni, eitt helsta stolt okkar út á við, var friðsamur kristniboði.

Vikingar

Víkingar.

Upphaf Hallfreðar sögu vandræðaskálds segir frá grimmdarverkum víkingsins Sokka, fjöldamorðum og ránum flokks hans. Sokki hlýtur að lokum makleg málagjöld. Eru þar að verki faðir og föðurbróðir Hallfreðar og nema þeir síðan land á Íslandi.
Af ofangreindu má sjá að höfundar Íslendingasagna hneigjast til að greina Íslendinga frá víkingum. Svipað viðhorf til víkinga má finna í Landnámabók, eins og lesa má í 98. kafla (Sturlubókar) um undantekninguna sem sannar regluna, „góðhjartaðan“ víking:

Víkingar

Víkingar.

Ölvir barnakarl hét maður ágætur í Noregi; hann var víkingur mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður.
Einn versti atburður sem hent hefur þjóðina er Tyrkjaránið svonefnda, þegar alsírskir sjóræningjar námu á brott yfir 300 manns og drápu rúmlega 40 árið 1627. Þjóðsaga af prestinum og galdramanninum Eiríki Magnússyni (1638-1716), segir frá því þegar Eiríkur kemur sjóræningjum fyrir kattarnef:
Einu sinni kom ræningjaskip að landi fyrir ofan fjall. Ræntu víkingar fólki og fé, bæði um Grindavík og annarstaðar. Komu fimmtán víkingar vopnaðir í Selvog. Gjörðist fólk mjög felmtsfullt.
Séra Eiríkur kvað bezt að ganga til kirkju, hvað sem svo ætti yfir að ganga. Hlýddu allir ráðum hans því þetta var á helgum degi.

Vikingar

Víkingar.

Þegar prestur hafði lokið embætti undraði alla að víkingar voru ekki komnir, og fóru að litast um. Fundust þá víkingar á hól nokkrum skammt frá og voru þeir allir dauðir. Höfðu þeir orðið ósáttir og drepizt á sjálfir. Heitir hóllinn síðan Ræningjahóll.
Um kvöldið gjörði ofviðri svo skip víkinga rak til hafs og kom þar síðan aldrei að landi.

Á þessum tíma hefur víkingur verið samheiti fyrir ógnvænlega ræningja en nú til dags virðist sem hugtakið sé notað í allt annarri merkingu. Hér á landi eru reglulega haldnar víkingahátíðir og lengi vel stóð til að byggja „landnámsþorp“ í Njarðvík þar sem „víkingaskipið“ Íslendingur á að vera aðal sýningargripurinn, þrátt fyrir þá staðreynd að ekki hafi myndast nokkurt þéttbýli að ráði á Íslandi fyrr en á 17. öld, eins og lesa má í svari Gunnars Karlssonar við spurningunni. Nú hefur hugmyndinni um „landnámsþorp“ verið breytt og í staðinn á að rísa „víkingaheimur“ í Njarðvík.

Víkingar

Víkingar.

Hér liggja fjárhagslegir hagsmunir að baki, hin markaðssinnaða heimsvæðing hefur komið víkingum í tísku. Þeir eru nokkurs konar ímynd nútíma kaupsýslumanna, víðförlir, fljótir í förum og kappsamir. Auðvitað vekja hátíðir og söfn athygli á fleiri og friðsamlegri hliðum á samfélagi norrænna manna á víkingaöld og orðið „víkingur“ hefur líka jákvæða merkingu í íslensku máli: „dugnaðarmaður, maður sem afkastar miklu“ (Íslensk orðabók) – svo ekki sé minnst á íþróttafélögin tvö. En ber okkur Íslendingum ekki að varast að samsama okkur um of ræningjum og ofbeldismönnum með því kenna hátíðir, söfn og kraftakarla við víkinga? Kannski málar höfundur hér skrattann á vegginn en sennilega mundum við ekki kunna því vel að Alsírsbúar hreyktu sér af Tyrkjaráninu? Það voru ekki víkingar sem sigldu til Norður-Ameríku heldur fólk í leit að landi til að hefja búskap og stofna siðað samfélag.

Rúnasteinar

Rúnasteinar frá víkingatímanum.

Í húsagerð notuðu víkingar þann efnivið sem var í boði á hverjum stað. Á Íslandi voru hús byggð úr mold, torfi, grjóti og rekaviði. Sá viður sem þurfti í burðargrind húsa var innfluttur. Annars staðar þar sem skógar voru miklir, eins og í Noregi, voru húsin úr timbri en einnig voru byggð steinhús.
Elstu híbýli víkinga eru kölluð langhús. Það var eitt stórt rými sem síðan var oft hólfað niður í tvö eða fleiri herbergi. Á Norðurlöndunum og víðar voru sums staðar byggð önnur minni hús umhverfis aðalbygginuna sem voru þó aðskilin, þ.e. ekki tengd öðrum húsum. Á Íslandi þróaðist húsagerðin þannig að á 11. öld urðu húsin stærri og samsett úr nokkrum smærri húsum, svosem eldhúsi eða skála, stofu, salerni og búri, sem tengd voru saman gegnum skálann. Slíkir bæir hafa einnig fundist í Noregi.

Stöng

Stöng í Þjórsárdal.

Dæmi um slíkan bæ er Stöng í Þjórsárdal. Árið 1974, á 1100 ára afmæli byggðar á Íslandi, var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd, rétt hjá þeim stað þar sem upphaflegi bærinn stóð. Þar er hægt að sjá hvernig var umhorfs á heimilum víkinga.
Sú húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands var óðum að víkja fyrir nýrri í þeirra gömlu heimabyggðum. Í Svíþjóð og Noregi voru svo kölluð stokkhús og bindingsverkshús óðum að ryðja sér til rúms en á Skotlandseyjum vann steinninn á. Þannig áttu Íslendingar eftir að skapa sér sína eigin húsagerð, torfbæinn, sem í raun átti sér ekki sinn líka í nágrannalöndunum en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld.

Stöng

Stöng endurgerð.

Elsta gerð híbýla hér á landi er svo kallað langhús, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er Stöng í Þjórsárdal sem lagðist í eyði í Heklugosi árið 1104. Stöng var grafin upp árið 1939 en í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd.
Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Einkenni gangabæja voru göngin sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Gröf í Öræfum, sem fór í eyði í Öræfagosi árið 1362, er elsta heimildin um gangabæ. Gangabæir héldust að mestu óbreyttir til um 1900. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaði.
Torfbæirnir voru misjafnlega stórir en eins og í nú, fór stærð bæjanna eftir efnahag íbúanna. Þannig var torfbærinn að Skálholti í Biskupstungum um 1271 m² árið 1784 en í Litlagerði í Grýtubakkahreppi í S-Þingeyjarsýslu aðeins um 51 m² árið 1828. Hægt er að hugsa sér að bæirnir á ríkustu jörðunum hafi verið sannkallaðar hallir á íslenskan mælikvarða.

Víkingar

Víkingar.

Óvíða eru aðstæður til rannsókna á byggingasögu verri en á Íslandi. Ástæðuna má rekja til þess að hið íslenska byggingaefni hefur staðist tímans tönn mun verr en í mörgum öðrum löndum. Aðalbyggingarefni torfbæjanna frá upphafi og fram á 20. öld var mold, torf og grjót að utan en timbur til innansmíðar.
Fyrsta stigið við byggingu torfbæja var að hlaða veggi eða gera tóft. Grafa þurfti fyrir tóftinni en misjafnt virðist hafa verið hve djúpt var grafið. Þó segir í sumum heimildum að grafa eigi niður fyrir frost. Grjótið, sem notað var við að hlaða tóftina, var ótilhöggvið en efni þess og lag fór eftir nánasta umhverfi.
Stöng
Grjótið gat verið stórt eða smátt, grágrýti, blágrýti, hraungrýti eða sandsteinn, það gat verið slétt eða hrjúft, ólögulegt eða vel kanntað. Gott hleðslugrjót var góð eign enda var það notað aftur og aftur en torfbæirnir voru í raun í stöðugri enduruppbyggingu þar sem hver bær stóð ekki í lengi. Grjóthleðslan var undirstaða torfveggjanna sem hlaðnir voru ofan á. Torfveggjahleðsla var mun flóknari heldur en grjóthleðslan en bæði stein- og torfveggjahleðsla hefur lengi verið sérstakt fag hér á landi og var það falið mönnum sem kunnu til verka, einkum þó þegar byggja átti vönduð hús. Þó er líklegt að flestir laghentir karlmenn hafi kunnað veggjahleðslu.
Moldin var í raun aðalbyggingarefnið, hvort heldur um var að ræða torf- eða steinveggi. Moldinni var troðið þétt milli steins og torfs og gegndi því bæði hlutverki sem burðarás og einangrunarefni.

Víkingar

Skáli.

Torfið, sem notað var við bygginguna, var venjulega rist á vorin áður en grasið byrjaði að gróa á ný. Grasið var þá venjulega blautt í sér og því þurfti að þurrka torfið. Verkfærin, sem notuð voru við torfristuna, voru svokallaður torfljár og páll sem var eins konar skófla.
Þegar búið var að hlaða tóftina var hafist handa við að smíða grindina, sem m.a. hélt uppi þakinu. Í raun má segja að íslensk torfhús, einkum þau sem heldra fólk bjó í, hafi verið timburhús að innan en torfhús að utan. Líklegt er að meginhluti efnisins í innansmíðina hafi framan af öldum verið rekaviður.

Vikingar

Skáli.

Þó eru til heimildir um að menn hafi snemma keypt timbur frá Noregi og er líklegt að viður hafi verið fluttur inn til Íslands í einhverju mæli allar miðaldir og á einokunartímanum 1602-1787. Þrátt fyrir þennan timburinnflutning til landsins hefur skortur á viði til húsagerðar sett varanlegan svip á íslenska torfbæinn. Væntanlega hefur verið notað mismikið timbur í húsbyggingar eftir efnahag húsbyggjenda og eftir tímum. Þannig hafa menn stundum séð þjóðveldisöldina (930-1264) sem eins konar gullöld Íslendinga. Gott dæmi um það er Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal, sem áður er getið, en þar er vel viðað og hátt til lofts en bent hefur verið á að ólíklegt sé að í Þjórsárdal, sem liggur 70 km frá sjó, hafi verið kleift að byggja svo vel viðaðan bæ á 11. öld.

Vikingar

Skáli.

Á eftir grindarsmíðinni var hafist handa við þakgerðina. Yst var grastorf, því næst mold, þá þurrtorf og að lokum hella eða hrís sem var innsta lagið. Helluþökin voru að vonum mjög þung og því þurfti meira timbur en ella í grindina en þau höfðu þann kost að þau láku ekki. Í mörgum tóftum hafa fundist leifar helluþaka en lítið hefur fundist af leifum hrísþaka enda eyðast þau með tímanum. Gluggar voru á þekjunni til þess að hleypa inn birtu en gluggar voru m.a. gerðir úr líknarbelgjum húsdýra, eða fósturhimnum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá um 1750 segir að þær séu „svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.“
Gólfin í torfbæjunum voru moldargólf blönduð kolasalla en hellur voru þó yfirleitt lagðar í anddyri og á hlaði.

Víkingar

Víkingar á nýrri strönd.

Helstu vistarverur fólks voru þiljaðar en þegar líða tók á aldirnar virðist sem það hafi dottið upp fyrir, kannski vegna timburskorts. Líklegt er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi veggir verið þiljaðir og á síðustu árum baðstofunnar á 19. og 20. öld.
Torfhúsin voru ekki endingargóð og voru því í stöðugri enduruppbyggingu. Svo virðist sem menn hafi verið misjafnlega færir í húsasmíðinni eftir landshlutum ef marka má Ferðabók Eggerts og Bjarna en þar segir m.a. að þó svo að Strandamenn séu góðir trésmiðir „þá eru þeir harla lélegir húsasmiðir, því að naumlega munu nokkurs staðar jafnilla hýstir bæir og á Ströndum, einkum norðan Trékyllisvíkur“.
Um verkfæri íslenskra smiða fram á 19. öld er lítið vitað en líklegt er að þau hafi verið svipuð og frænda okkar Norðmanna. Algengasta verkfæri smiða hefur verið öxin sem notuð var við frumvinnslu timbursins. Þá hafa svo kallaðar sköfur og skeflar verið algegnir en þeir voru e

ins konar undanfarar hefilsins. Smiðirnir notuðu bora sem þeir kölluðu nafra. Borinn hefur verið mikilvægt áhald hér á landi þar sem trénaglar voru notaðir fram á 17. öld en járnnaglar urðu ekki algengir fyrr en á 18. öld. Elsta heimild um notkun sagar hér á landi er frá 1470 en ekki er vitað hvenær hún kom til landsins. Þannig eru til heimildir um að þegar Brynjólfskirkja var reist um 1650 hafi stórviðarsög verið notuð við að saga viðinn í hana.
Norrænir menn á tímum víkinga borðuðu mikið lamba- og nautakjöt, einnig hrossakjöt, og voru þá langflestir hlutar dýrsins nýttir einsog menn þekkja sem borðað hafa þorramat.
Þeir neyttu einnig fisks, kornvara, mjólkurvara og eggja villifugla. Lítið var um grænmeti en sums staðar borðuðu menn ber og epli þar sem þau uxu. Bökuð voru brauð, menn borðuðu skyr og ósaltað smjör.

Hvalreki

Hvalreki fyrrum.

Matvæli eins og kjöt og fiskur voru gjarnan þurrkuð eða reykt. Ýmsar matvörur voru geymdar í mysu og var hún einnig drukkin sem svaladrykkur, þá oft þynnt með vatni.
Sjá má minjar víkinganna hér á landi. Þeir rændu t.d. fallegu kvenfólki og fluttu það til sinna heimahaga. Í dag ber íslenskt kvenfólk þess glöggt vitni. Þá eiga Norðurlandaþjóðirnar það sameiginlegt að spila í Víkingaóttói – „alltaf á miðvikudögum“.

Upplýsingar m.a. af Vísindavef Háskóla Íslands.

Víkingar

Víkingaskip í legu.

Grímshóll

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum.

Grímshóll

Stapagata og Grímshóll á Vogastapa.

Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

Jón Árnason I 14

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Hengill

Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1939 um „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra„: „Í annálum er þess getið, að útileguþjófar hjeldu til í Henglafjöllum. Ekki er þó tekið til hvar í fjöllunum þeir hafi verið, en yfirleitt er afrjettur Grafningsmanna og Ölfusinga nefndur Henglafjöll í fyrri tíðar ritum. Þeirra er getið tvisvar að mig minnir, og hafa að líkindum verið piltar, þó það sje ekki í frásögur fært. Í Nesjum í Grafningi höfðu þeir einu sinni vetursetu sína, en voru teknir og þeim refsað.
henglafjoll-223Þegar jeg var unglingur heyrði jeg sagt frá því, að útilegumenn hefðu verið í Henglinum; þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þeir skipshöfn, sem hefði gert einhver níðingsverk, en aldrei heyrði jeg hver þau hefðu átt að vera.
Tóku þeir sjer nú stöðu í þessum helli og höfðust þar við, sumir sögðu í tvö ár, en aðrir aðeins eitt sumar, en hvort sannara er verður ekki vitað. Og ekki vissu menn heldur, hve margir þeir væru — jafnvel 6 eða 7, og tvær hlutakonur voru með þeim, að því er sagt var, og eru ef til vill líkur fyrir því. Þeir höfðu með sjer langan kaðal eða stjórafæri og drógu konurnar upp í hellirinn og föng sín jafnóðum og þeir öfluðu þeirra, en það var mest sauðfje Ölfusinga og Grafningsmanna.
Nú þótti sveitamönnum hart á barið að verða að þola slíka óhæfu, en fengu ekki að gert um sinn. Er frá leið þá gerðu þeir ráð sitt op tóku sig saman eitt haust litlu fyrir fjallreið og lögðust í leyni margir saman úr háðum sveitum, Ölfusi og Grafningi — sem að vísu var þá sama þingssóknin — og biðu þess að hellisbúar færu úr hellinum í smalatúr og ætluðu þeim svo stundirnar og var þess skamt að bíða. Fóru nú allir úr hellinum, en sveitamenn skipuðu sjer sem fljótast fyrir hellisbergið að neðan og komu hellismenn innan skamms með fjárhóp. En nú var ekki greitt aðgöngu og enginn vegur að ná hellinum. Sveitamenn veittu strax svo harða aðsókn, að hinir hjeldust ekki við, enda var liðsmunur ákaflegur, því sveitamenn höfðu verið milli 50 og 60. Fjárrekstur útilegumanna tvístraðist brátt, enda gáfu menn þá engan gaum að fjenu.
henglafjoll-224Hellismenn tóku nú að flýja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af hinum mesta ákafa og mest þeir, sem fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan og vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Þar eru melar og skriður, segja kunnugir menn; eru þar kölluð „Þjófahlaupin“ enn í dag sem örnefni síðan. Allir voru hellismenn drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði, því undan hlupu þeir slíku ofurefli meðan þeir gátu uppi staðið sökum mæði.
Nú voru hellismenn allir unnir, en fylgiskonur þeirra voru enn í hellinum. Þær höfðu veitt hart viðnám, en svo er haft eftir þeim mönnum, sem í atförinni voru, að svo ilt sem hefði Verið að sigra hellisbúa. Þá hefði þó hálfu verra verið að vinna fylgikonur þeirra. En samt að lokum urðu þær teknar og fluttar burtu og er ekki getið að þær sýndu neinn mótþróa eftir að þær komu undir annara manna hendur.
Jón hjet maður, sem kallaður var „yddú“, Jónsson hins harða í Ossabæ, Sigurðssonar Þorkelssonar Jónssonar. Jón var fæddur 1777. Hann var hverjum manni flinkari, ófyrirleitinn og harðfengur í meira lagi, nokkuð ertinn og kappsfullur, starfsmaður mikill og þrekmaður hinn mesti. Ekki fara sögur af honum í æsku. Hefir hann líklega alist upp hjá foreldrum sínum. Þegar hann var um tvítugsaldur var hann vinnumaður í Reykjakoti. Þá var það eitt sinn í fjallgöngum, að Jón kleif upp í þennan umtalaða hellir útilegumannanna. Ekki getur þess, að Jón fyndi þar neitt merkilegt. En öskuleifar litlar voru í einum stað utan við hellisopið, enda hefir alt verið tekið burt þaðan, hafi nokkuð verið að taka, þegar útilegumenn voru unnir.
henglafjoll-225Nú var Jón í hellinum og hafði tvisvar gert tilraun að komast niður, en hikað við. Sá Jón nú, að ekki dugði að vera þar til lengdar og rjeð því til enn að nýju og komst með naumindum alla leið niður fyrir hellisbergið og ómeiddur að öllu leyti. Hafði hann svo sagt, að ekki mundi hann leggja upp í aðra för í þann hellir. Hefir þetta verið kringum aldamótin 1800, eftir því sem næst verður komist, og vita menn hjer ekki til að síðan hafi neinn maður farið upp í þennan hellir.
Það er og haft eftir Jóni „yddú“, að þegar útilegumennirnir komu með fjárhópinn, að þá hafi sveitamenn skipað sjer alt í kring og slegið hring um þá, en þó sluppu þeir allir til að byrja með, og byrjuðu þá strax eltingar. Það hafði og verið mestur tálmi hjá hellismönnum, að þeir voru illa skóaðir, en sveitamenn betur bimir til handa og fóta, og mest höfðu hellismenn fallið fyrir grjótkasti og bareflum, er hinir höfðu, en eiginleg vopn voru fá eða engin.
Sögu þessa hafði Jón „yddú“ eftir Jóni harða föður sínum og Sigurði Þorkelssyni afa sínum, en Jón „yddú“ sagði aftur Hávarði gamla Andrjessyni, en þeir voru samtíða á Völlum meir en 20 ár, en Hávarður sagði oft gömlum karli, sem enn er á lífi. Jón „yddú“ var hrekkjóttur í uppvexti, en svo fimur, að til þess var tekið. Ilann var og ágætur vinnumaður til hvers er taka þurfti, og eru fáeinar smásagnir til um hann.
Ólafur hjet maður Sigurðsson. Hann bjó í Húsagarði á Landi, ókvæntur var hann og átti ábýlisjörð sína. Hann var að langfeðgatali kominn frá Torfa í Klofa og Lofti ríka (fæddur nálægt 1848). Fremur var hann lítill vexti og ekki mjög efnilegur, tileygður og nærsýnn, hagorður vel og fróður um margt, glettinn og gamansamur og ágætur í viðkynningu. Ólafur var vermaður í Þorlákshöfn í margar vertíðir og þótti allgóður háseti. Hann sagði þeim, er þetta skrifar, svo frá — þeir voru lagsmenn 1894 og 1895: Að í Dalseli undir Eyjafjöllum hefði verið kerling ein, sem Vilborg hjet. Hún hefði dáið um 1800 og verið þá talin 100 ára, hefir eftir því verið fædd um 1700, líklega þó nokkuð seinna. Hún hefði verið fædd í hellinum í Henglinum (Skeggjanum) og verið dóttir einhvers af útilegumönnum þeim. sem getið hefir verið. Hún hafði verið mjög undarleg í skapi, vildi aldrei um útilegumenn tala, giftist ekki og átti aldrei barn. Þegar húsmóðir hennar ól börn sín, var kerling jafnan hin reiðasta og kvað maklegt þó húsmóðirin fengi að kenna á sínum hlut, því þetta væru sjálfskaparvíti, og verða þar að auki að stríða við þessa óþægu krakka í viðbót og hafa aldrei næði til nokkurs hlutar.
Ólafur trúði þessu um kerlingu og kvaðst hafa þetta eftir þeim mönnum, er vel mundu hana, en hvort þar hefir verið rjett sagt frá í alla staði, skal hjer ósagt látið.
Hefi jeg svo engu við að bæta um hellirinn, því jeg hefi aldrei orðið svo frægur að skoða hann, því til þess þarf að gera sjer sjerstaka ferð, ef vel ætti að vera. En sjálfsagt hefir hellir þessi verið notaður oftar sem nokkurskonar þrautalending í vandræðum, þegar stór hegning eða líflát lá við smávægilegum afbrotum – Þ. S.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939, bls. 30-31.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Útilegumannahellir

„Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellir sem í eru mannvistarleifar. En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum.

henglafjoll-226Heimildir skýra svo frá; Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.

Til eru sagnir um að í þessum helli hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhöfn af einhverju skipi en verið reknir fyrir einhver níðingsverk. Heimildir segja að þeir hafi hafist við í þessum helli í eitt sumar eða tvö ár, en það er ekki vitað með vissu. Talið er að um hafi verið að ræða 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á sauðfé sem þau stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðar fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. „Þjófahlaup“ í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru ýmist drepnir vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.

henglafjoll-227Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hruninn, fallinn bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.

Eins og heimildir greina frá þá er verulega erfitt að klífa upp í þennan helli. Alls ekki ráðlagt fyrir fólk að reyna uppgöngu án sérhæfðar búnaðar og kunnáttu. Bergið fyrir framan hellinn er bæði mjög bratt og laust í sér.

Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson „Tannastöðum“ skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“

Heimild:
-http://www.olfus.is/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/hengill/

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Búri
Hraunhellar eru rásir sem hraunbráðin rann eftir og tæmdust síðan.
Hraun renna ýmist í tiltölulega grunnum farvegum, svokölluðum hrauntröðum, nærri yfirborði hraunsins eða bráðin rennur neðanjarðar og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins og sameinast honum. Við þetta lyftist yfirborð hraunsins og það getur þykknað verulega á stóru svæði auk þess sem svonefndir „troðhólar“ myndast. Þessa sér til dæmis víða stað meðfram Keflavíkurveginum.

Búri

Búri – svelgurinn.

Surtshellir í Hallmundarhrauni í Mýrasýslu er stærsti íslenski hellirinn. Surtshellir er einnig lengsti hellir á Íslandi um 1.970 metra langur. Í beinu framhaldi af Surtshelli til norðausturs er Stefánshellir en lokað er á milli hellanna vegna hruns. Samtals eru þeir 3.500 metrar á lengd. Þessi háttur, að hraunkvikan „troðist inn í“ hinn bráðna hluta hraunsins líkt og vatn í belg, er sennilega mun algengari en hinn fyrrnefndi, einkum þegar um rúmmálsmikil hraun er að ræða.Þegar hraun rennur eftir hrauntröð myndast þegar í stað storkin skán á yfirborði þess. Þegar skánin þykknar getur hún orðið að föstu þaki yfir hraunrásinni sem helst stöðugt þótt lækki í hraunstraumnum undir. Hraunhellar eru sem sagt rennslisrásir eða „pípur“ sem hafa tæmst að meira eða minna leyti.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Hunangshella
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni.
Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta. Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna.

-Jón Árnason I 611

Hunangshella.

Hunangshella.

Hraundríli
Hraundrýli – hornito á máli eldfjallafræðinnar – eru nokkurs konar strompar eða strýtur í kringum göt í þaki hraunrása.
HraundrýliHraundrýli myndast við það að lofttegundir, sem losna úr bráðinni, streyma út um gatið með miklum hraða og bera með sér hraunflyksur sem límast í kringum loftrásina.
Hraundrýli má sjá á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum. Þekktust og nærtækust eru líklega hraundrýlin á Strokkamelum í Hvassahrauni, örskammt sunnan Reykjanesbrautar, og Tröllbörnin undir Lögbergsbrekkunni (Lækjarbotnum), við Suðurlandsveginn, en einnig eru t.d. há, stór og falleg hraundrýli í Eldvarparhrauni ofan við Grindavík og í Hnúkunum ofan við Selvog.
Hraundrýli geta verið allhá og mjó, eða lægri og gildvaxnari, og stundum mynda þau röð yfir hraunrás sem undir er.
Hraundrýli eru algeng á hraundyngjum, til dæmis í Surtsey og á Selvogsheiði (Hnúkunum). Þar er bæði hátt og fallegt hraundrýli og einnig annað stórt og mikið um sig. Opið er inn og hefur það verið notað sem skjól. Utan við það eru tættur.
Tröllabörnin í eina tíð notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Landsvæði umhverfis Tröllabörn og þar með talið hraundrýlin sjálf var friðlýst sem náttúruvætti árið 1983.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is

Hraundrýli

Hraundrúli í Hnúkum.

Knarrarnesheiði

Ætlunin var að skoða neðanverða Strandarheiði frá Geldingahólum og Knarrarnesholti í áttina að Hlöðunes- og Brunnastaðalangholtum í vestri. Vitað var að Vatnshóll væri þarna á millum og austur af Nyrðri-Geldingahól væru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Þá voru gerðar vonir um að berja mætti þarna ýmislegt fleira augum er ekki hefur þótt augljóst.
MannvirkiGengið var frá Reykjanesbraut niður með svonefndum Skrokkum. Norðan þeirra mátti sjá hleðslur á klapparhól, auk þess sem vörður og vörðubrot voru hvarvetna. Þegar komið var niður að Auðnaborg var stefnan tekin upp (suður) stíg er þar lá vestan hennar, Auðnaselsstíg. Í örnefnalýsingu segir m.a. um borgina og selsstíginn: “Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg. Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.”
VarðaUm stíginn segir: „Þá liggur fyrir Klofgjá og blasir við Klifgjárbarmur og rétt þar fyrir ofan er Auðnasel og Höfðasel og Breiðagerðissel. Til selja þessara lá aðeins einn stígur Auðnaselsstígur.” Auðnaselsstígur lá skáhallt frá Auðnum til selsins og hefur þá vísast legið 400-500 m austan við Þyrluvörðu  og um 2 km vestan við þar sem Marteinsskáli sést frá Reykjanesbrautinni. Þyrluvarðan er rétt norðan brautarinnar áður en komið er að Langholtunum. Auðvelt er að fylgja stígnum um heiðina upp með Auðnaborginni og áfram áleiðis upp í selið.
SkjólgarðurSkammt suðvestar var komið að Geldingahólum. Um Nyrðri-Geldingahól liggja landamerki. Knarrarnesselstígur liggur upp með hólnum vestanverðum. Í örnefnalýsingu fyrir Knarrarnes segir m.a.: “Heiman frá Knarrarneshliði lá Knarrarnesselsstígurinn upp alla Heiðina í Knarrarnessel.”  Slóðinn hefur verið um 1 km vestan við Þyrluvörðu og um 1 km austan við línuvegsafleggjarann. Líkt og með Auðnaselsstíginn var tiltölulega auðvelt að fylgja Knarrarnesselsstígnum áleiðis upp heiðina.

Landamerki

Þegar gengið var um heiðina, mót blóðrauðu sólarlaginu, voru rifjaðar upp þær breytingar, sem orðið hafa á samfélagi voru bæði nú og fyrrum. Líkja má hvorutveggja við kúfvendingar. Meðan efnahagskreppan núverandi kippir landsmönnum skyndilega u.þ.b. 12 ár aftur í tímann má segja að slíkt og hið sama hafi gerst fyrir u.þ.b. 120 árum – þegar grundvellinum var skyndilega kippt undan fyrri tíma búskaparháttum er ráðið hafði ríkjum allt frá landnámsöld. Þegar seljabúskapurinn lagðist af urðu öll mannvirki honum tengdum skyndilega óþörf sem og vinnuaflið er hann hafði krafist svo lengi. Vinnuaflið lá hins vegar ekki lengi í dróma heldur leitaði á önnur mið; útvegurinn naut góðs af og þorpsmyndun hófst hér á landi.
Í ljósi þessa má lesa eftirfarandi frétt er birtist í Mbl 1992: „Ekið á kind á Reykjanesbraut – Lausaganga bönnnuð frá árinu 1992. Ekið var á kind á Reykjanesbraut í Vatnsleysustrandarhreppi í vikunni en þar hefur lausaganga búfjár verið bönnuð frá 1. desember 1992.

Heiðin

Að sögn Karls Hermannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hefur mikið verið kvartað vegna kinda við Reykjanesbraut. Bílstjóri er bótaskyldur gagnvart fjáreiganda, þótt laugasaganga sé bönnuð, að sögn Reynis Haukssonar tryggingarmanns, vegna ákvæða umferðarlaga um hlutlæga ábyrgð gagnvart öðrum. Bætur lækki aðeins ef sá er hafi búféð í vörslu sýni af sér vanrækslu.
Ásgeir Eiríksson, fulltrúi hjá sýlsumanni, segir þetta haf verið vandamál fyrr en sumar. Ekki hafi verið leitað til lögreglunnar um smölun fjárins. Í samþykkt um búfjárhald í hreppnum segir í 5. gr. að lausagöngufé skuli handsama og skrá. Eigendum sé skylt að sækja gripi sína og greiða áfallinn kostnað og tjón, þar með talinn kostnað við handsömun gripanna. Þrátt fyrir ríkjandi bann gengur margt fé laust í Strandarheiði og alveg niður í byggð í Vogum, og er hér einkum um fé Grindvíkinga að ræða.“
Hér, líkt og um aldir, skella Vogamenn skuldinni á Grindvíkinga. Í dag hefur öllu lausafé á svæðinu verið komið fyrir í beitarhólfum.
Rjúpan lét í sér heyra í heiðinni umrætt sinni. Til gamans er hér rifjuð upp frásögn um hinn merka fugl í Mbl rjúpaárið 1934: „
Rjúpunni fjölgar og fækkar – Talsvert hefur verið af rjúpu hjer á Reykjanesskaga að undanförnu, og hefir fjöldi manna hafði herferð gegn henni. Er sagt að sumir liggi úti í tjöldum á Strandarheiði og víðar, aðeins til þess að brytja niður þessa vesalinga. Sagt er að sumar skyttur hafi skotið um 30 rjúpur á dag og hafi veiðin verið nokkuð jöfn enn sem komið er. Rjúpan heldur sig nú helst fram við sjó, en ekki upp um fjöll, og var það gamalla manna mál að það boði harðan vetur, er hún hegðar sjer svo.“ Spurningin er hvort áður ætlaðar mannvistarleifar eftir refaskyttur á klapparhólum strandarinnar gætu hugsanlega hafa verið eftir rjúpnaskyttur. Það skýrir a.m.k. hleðslur víða er virðast vera án tengsla við möguleg greni.
Verkefnið framundan er og að ganga hluta Strandarheiðar frá Ásláksstaðaklofningum um Brunnastaðalangholtin til vesturs að Vogavegi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Mbl – 4. nóvember 1934.
-MBL – 8. sept. 1995.
-Örnefnalýsingar fyrir Auðna og Knarrarness.

Auðnaborg

Hamrahlíð

Eftirfarandi umfjöllun um kotbýlið Hamrahlíð undir Úlfarsfelli birtist í fréttatíma Ríkissjónvarpsins að kveldi 26. október 2022 undir fyrirsögninni „Kotbýlið grafið upp – ný byggð við Vesturlandsveg„:

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

„Kotbýli almúgans eru síður viðfangsefni fornleifafræðinga en heldri manna híbýli. Verið er að grafa upp eitt þeirra undir hlíðum Úlfarsfells áður en athafnabyggð verður reist. Þar fæddist konan sem gætti brauðsins dýra hjá Halldóri Laxness.

Nærri sautján hektara atvinnubyggð

Hamrahlíð

Hamrahlíð – ný byggð.

Við hinn fjölfarna Vesturlandsveg milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar hefur kotbýli verið grafið upp í landi Blikastaða þar sem fyrirhugað er að reisa stóra verslunar- og athafnabyggð.

Milli golfvallarins á Korpúlfsstöðum og Úlfarsfells frá Vesturlandsvegi niður að laxveiðiánni Korpu er búið að skipuleggja land á tæpum sautján hekturum á vegum Reita fasteignafélags.

Margt hefur komið í ljós

Hamrahlíð

Hamrahlíð – gulur hringur.

Og eins og lög gera ráð fyrir þarf að skrá fornleifar áður en byggt í samráði við Minjastofnun. Fornleifafræðingar á vegum Antikva eru nú að leggja lokahönd á margra mánaða uppgröft. Þarna var búið frá því upp úr 1850 til 1920.

Hvað holur eru þetta?

Hamrahlíð

Hamrahlíð – hola.

„Hér erum við með eldunarholur og menn hafa verið að elda eitthvað hér eða vinna með mat.

Hamrahlíð

Lilja Björk Pálsdóttir.

Við erum ekki með neinar hlóðir eða neitt uppbyggt eldstæði en við erum hins vegar með þessar holur,“ segir Lilja Björk Pálsdóttir fornleifafræðingur hjá Antikva, „í þessari sem er 35 sentimetrar að dýpt þá erum við með alla vega sex lög af móösku og með brenndum beinum og viðarkolum. Það sést mjög vel á gólfunum að þau ganga upp að þessum holum þ.a. menn hafa staðið hérna mikið fyrir framan þessa holu að bardúsa.“

Og alltaf finnst eitthvað nýtt, þarna kemur í ljós hnífsblað, sem einhvern tíma hefur komið sér vel.

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Kotbýlið hét Hamrahlíð og var hjáleiga frá Blikastöðum og voru híbýli og útihús sambyggð.

Hamarhlíð

Hermann Jakob Hjartarson.

Hermann Jakob Hjartarson fornleifafræðingur hjá Antikva stjórnar uppgreftrium: „Við höfum fundið ýmsa muni en mest af leirkerjum, diska, bolla en líka glerflöskur, nokkuð mikið af brýnum líka, skeifur þ.a. það hefur greinilega verið með hesta hérna, og ljá líka.“

Flestir bjuggu í kotbýlum og þau þarf að rannsaka frekar

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Fáar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á kotbýlum. Þær þurfa að vera miklu fleiri, segir Hermann:

„Tvímælalaust finnst mér að, þetta er náttúrulega ennþá stærri partur af sögunni heldur en allt annað sko. Það voru flestir á þessum stað á þessum tíma sko að vera kotbændur.“

Sagan af brauðinu dýra

Hamrahlíð

Guðrún Jónsdóttir.

Í Hamrahlíð bjó Friðrik nokkur sem sektaður var fyrir að stela kræklingabeitu og hýddur fyrir að stela dönskum spesíum. Þar bjó líka Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður. Í Hamrahlíð fæddist dóttir hans, Guðrún Jónsdóttir vinnukona. Halldór Laxness gerði henni ógleymanleg skil í Innansveitarkróniku sinni og hún varð aðalpersóna í stuttri sögu hans: Sagan af brauðinu dýra. Samkvæmt henni lenti Guðrún í margra daga villum á Mosfellsheiði þegar hún var að sækja brauð fyrir húsbændur sína. Þótt svöng væri snerti hún ekki á brauðinu. Um ástæðu þess svaraði hún ungum Halldóri Laxness:

Því sem manni er trúað fyrir því er manni trúað fyrir, segir þá konan,“ las Halldór Laxness í Ríkisútvarpinu 1978.“

Guðrún JónsdóttirSigurður Hreiðar gat þess í athugasemdum á fésbókinni að „Gunna „Stóra“ geymdi ekkert svona hverabrauð. Sú sem það gerði hét Björg Jónsdóttir, þá 16 ára vinnukona í Nýjabæ í Krýsuvík, bjó síðar á Aðalgötu í Keflavík og var amma Gunnars Eyjólfssonar leikara.
Halldór vantaði eitthvað mergjað til að skálda inn í Innansveitarkróníkuna og heimfærði þessa dyggð upp á Gunnu stóru – sem ugglaust var líka dyggðugt hjú.  Björg átti síðast athvarf á Æsustöðum í Mosfellsdal, hafi ég lært rétt.“

Halldór hafði þann sið að skrá hjá sér sagnir og athugasemdir er hann varð áskynja á ferðum síðum. Oftlega notaði hann þessi uppköst sín við skáldsöguskrifin, líkt og dæmin sanna, flest tekin úr sögulegu samhengi síns eigin raunveruleika.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-https://www.ruv.is/frett/2022/10/26/kotbyli-grafid-upp-ny-byggd-vid-vesturlandsveg?term=fornleifa&rtype=news&slot=1
-Sigurður Hreiðar á facebook.

Hamrahlíð

Hamrahlíð – uppgröftur.

Reykjanes
Virkt gosbelti Íslands liggur eftir flekaskilunum endilöngum. Landið vestan megin við flekaskilin tilheyrir Ameríkuflekanum en landið austan megin Evrópuflekanum. Flekana rekur í sundur frá flekaskilunum um það bil 1 sm á ári þannig að bergið, sem einu sinni myndaðist þar, hefur flust austur og vestur á firði. Þar og á Austfjörðum er nú elsta berg á Íslandi, um 15 milljón ára gamalt.
Jarðfræði

Íslandi gýs að meðaltali á 5 ára fresti og verða eldgosin eingöngu á virka gosbeltinu. Smám saman dragast eldstöðvarnar út af beltinu, þannig að það gýs æ sjaldnar úr þeim þar til þær deyja út að lokum.

Komið hefur í ljós að sumar eldstöðvar tengjast þannig að þær virðast fá sams konar kviku. Þess vegna er eldstöðvum á Íslandi skipt upp í u.þ.b. 30 aðskilin eldstöðvakerfi. Innan hvers eldstöðvakerfis geta verið margar eldstöðvar en aðeins ein megineldstöð. Sum eldstöðvakerfi fá kviku sína beint úr kvikulaginu en önnur fá kvikuna úr grunnstæðum kvikuhólfum.

Ætla má að jarðskorpan undir Íslandi sé um 10 km þykk. Hún er þó mun þynnri undir flekaskilunum heldur en undir Aust- og Vestfjörðum. Undir skorpunni er svokallað kvikulag en þar er bergið bráðið að hluta til og leitar bráðin upp um sprungur í átt til yfirborðsins. Sums staðar nær kvikan að safnast saman og mynda kvikuhólf sem geta náð töluvert upp í jarðskorpuna. Slík hólf eru undir öllum helstu eldfjöllum landsins og nefnast þau megineldstöðvar.

Þgar Reykjanesskaginn er athugaður má lesa þar ákveðna jarðsögu. Greinilega má sjá hvar Reykjaneshryggurinn kemur í land hjá Reykjanestá en þar er stór sigdalur sem sýnir hvar flekaskilin eru. Enn fremur gefa stórar sprungur til kynna hvernig landið rifnar í sundur. Búast má við gosi á Reykjanesskaga á u.þ.b. þúsund ára fresti en gostímabilin geta spannað 300 til 400 ár.

Jarðfræði
iðnesið og svæðið suður af Reykjanesbæ er alsett hraunum sem runnu áður en jökull lagðist yfir landið en hann náði mestri útbreiðslu fyrir u.þ.b. 18.000 árum. Þessi hraun hafa orðið fyrir miklum ágangi. Þegar þau runnu var loftslag svipað og nú en síðan lagðist jökull yfir hluta þeirra. Jafnfram því lækkaði yfirborð sjávar um 100-150 m þannig að hraunin lentu uppi á miðju landi. Jökulár fluttu bræðsluvatn til sjávar og þegar jökla leysti hækkaði sjávarmál allt upp í 10 m yfir núverandi sjávarmál.

Meðan jökull lá yfir Reykjanesi urðu eldgos tíð. Þá mynduðust móbergsstapar og móbergskeilur sem standa upp úr hraunsléttunni sem þekur skagann. Fjöll, sem eru keilulaga eða lík hrúgöldum, hafa ekki náð upp úr jöklinum en hin, sem eru með hraunsléttu efst, gefa til kynna þykkt jökulsins þegar þau mynduðust. Meirihluti Reykjanesskagans er hraunslétta, gerð úr hraunum sem runnið hafa eftir að jökullinn tók að bráðna fyrir u.þ.b. 18.000 árum. Mikill hluti þessarar hraunsléttu er dyngjur sem urðu flestar til á fyrri hluta tímabilsins. Þær eru víðáttumiklir, lágreistir hraunskildir og er Þráinsskjöldur ein stærsta dyngjan, 130 km2. Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir nafninu Reykjaneseldar.

Heimild m.a.:
-http://www.bluelagoon.is/Gjain/Almenn_jardfraedi/Island/

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjanesskagans.