Hafnarfjörður

Í ár [2013] eru liðin 250 ár frá fæðingu Bjarna Sívertsen en hann hefur oftar en ekki verið kallaður faðir Hafnarfjarðar. Sívertsenshúsið, Vesturgötu 6, er elsta hús bæjarins. Það hefur verið gert upp í upprunalega mynd og er þar sýnt hvernig yfirstéttarfjölskylda í Hafnarfirði bjó í byrjun 19. aldar, auk þess sem varpað er ljósi á merkilega sögu Bjarna Sívertsens og fjölskyldu hans.

Bjarni SivertsenHver var Bjarni Sívertsen?
Saga þessi byrjar á bænum Nesi í Selvogi fyrir réttum 250 árum en þá kom þar í heiminn lítill drengur sem síðar hlaut nafnið Bjarni en hann var sonur hjónanna Sigurðar Péturssonar og Járngerðar Hjartardóttur. Við fæðingu barna velta menn því oft fyrir sér hvað mun á daga þeirra drífa á lífsleiðinni. Á þessum tíma var barnadauði tíður og því var alls óvíst að Bjarni litli kæmist til manns. Hann var sonur fátækra bænda og því má segja að æfi hans hafi í raun verið ákveðin fyrirfram.
Á 18. öld og reyndar á þeirri 19. líka var það svo til óþekkt að menn færðust á milli stétta enda var það almennt viðurkennt að hver stétt ætti aðeins að fást við þau viðfangsefni sem henni bæri. Bjarni var, eins og áður segir, fátækur bóndasonur og eðli málsins samkvæmt átti hann að verða kotbóndi líkt og faðir hans. Bjarni hlaut fábreytta menntun í æsku eins og algengt var með bændasyni á þessum tíma og undir eðlilegum kringumstæðum hefði æviskeið hans átt að verða keimlíkt ævi venjulegs kotbónda. Hann hefði átt að taka við búi foreldra sinna, búa í torfkofa, kvænast konu úr sömu stétt, eignast fjölda barna sem fæst kæmust á legg, deyja í týru af grútarlampa úr hor eða elli um fimmtugt og að lokum enda í týndri gröf við einhverja litla sveitakirkju. En sú varð nú ekki raunin og varð æviskeið Bjarna alls ólíkt þessari döpru lýsingu.

Klifrað upp metorðastigann
Í ljóðinu Hótel jörð eftir Tómas Guðmundsson er dvöl okkar mannanna á jörðinni líst á skemmtilegan hátt. Þar kemur fram að sumir láta sér linda það að lifa úti í horni óáreittir og spakir á meðan aðrir lenda í stöðugri keppni um að koma sér að og krækja sér í nógu þægilegt sæti.
Þegar æviskeið Bjarna er skoðað kemur í ljós að hann var í þeim hópi sem sóttist eftir meira í lífinu en því sem sjálfkrafa kom og tilheyrði frekar þeim sem hópi sem reyndi eftir megni að krækja sér í þægilegt sæti. Bjarni hóf ekki búskap sjálfur heldur gerðist vinnumaður hjá Jóni Halldórssyni lögréttumanni í Nesi og Rannveigu Filippusdóttur konu hans.
Rannveig SivertsenÞegar Bjarni hafði starfað um hríð hjá Jóni og Rannveigu sem vinnumaður gerðist hann ráðsmaður þeirra og sá um rekstur búsins. Seint á 18. öld gerðist svo sá hörmulegi atburður að Jón drukknaði í miklum flóðum ofan Ey
rarbakka, varð Rannveig þá ekkja en Bjarni rak áfram búið fyrir hana. Skömmu síðar eða árið 1783 kvæntist Bjarni Rannveigu. Nokkur aldursmunur var á þeim hjónum, Bjarni var þá um tvítugt en Rannveig var orðin 39 ára. Eftir brúðkaupið hófu þau hjónin búskap á Bjarnastöðum í Selvogi og bjuggu þar allt til ársins 1794. Bjarna hafði þarna tekist hið ómögulega, það er að flytjast á milli stétta. Hann var að vísu enn bóndi en tilheyrði nú stétt ríkra landeigenda í stað fátækra leiguliða.

Spurningin sem menn spyrja sig enn þann dag í dag er hvernig fór hann að þessu, hvað gerði hann, eða gerði hann ef til vill ekkert? Var það kannski Rannveig sem sá hvaða hæfileikum Bjarni var búinn og ákvað að nýta sér þá. Þá kemur einnig til greina að ástin hafi einfaldlega kviknað og viðskiptasjónamið engu skipt. Þessum spurningum verður án efa aldrei svarað til fullnustu en niðurstaðan var sú að bæði stóðu mun betur að vígi eftir en áður og hver veit nema þau hafi einnig verið hamingjusamari.

Bóndi verður kaupmaður
Bjarni lét þó ekki hér við sitja heldur hélt hann áfram í leit sinni að betra sæti. Þegar hann og Rannveig höfðu búið á Bjarnastöðum í sex ár lét hann næst til skarar skríða. Nú ætlaði hann einum stalli ofar og vildi gerast kaupmaður. Árið 1789 gerði hann samning við norska lausakaupmenn, bræðurna Hans og Frederik Ryland og gerðist umboðsmaður þeirra. Samkvæmt verslunarlögunum frá 1787 höfðu lausakaupmenn frjálsan rétt til að stunda viðskipti í landinu en utan kaupstaðanna máttu þeir einungis versla í fjórar vikur í hverri höfn. Norsku bræðurnir, eins og aðrir lausakaupmenn versluðu hér einungis á sumrin en samningur þeirra við Bjarna gekk út á það að á haustin fékk hann þær afgangs vörur sem ekki höfðu selst um sumarið til að selja í umboðssölu yfir veturinn.

thilskipSkemmst er frá því að segja að D. Chr. Petersen Eyrarbakkakaupmaður kærði þessa verslun landeigandans Bjarna fyrir dönskum yfirvöldum og var hún dæmd ólögleg og var Bjarna gert að hætta henni. Kæra Petersens er lýsandi fyrir tíðarandann á þessum tíma. Þarna erum við aftur komin að kjarna málsins, menn tilheyrðu ákveðinni stétt og samfélagið ætlaðist til þess að menn héldu sig þar. Bjarni sætti sig ekki við þessi málalok og ákvað vorið 1793 að sigla til Kaupmannahafnar í þeim tilgangi að verða sér úti um verslunarréttindi og lán til að geta hafið verslunarrekstur. Óhætt er að segja að Bjarni hafi verið réttur maður á réttum stað því þetta sama ár voru verslunarhúsin í Hafnarfirði tekin af Muxoll kaupmanni sem keyrt hafði sinn rekstur þar í gjaldþrot og ekki var búið að úthluta verslunarleyfinu í bænum.
Bjarni fékk 4.000 rd rekstrarlán auk þess sem hann skuldbatt sig til að taka við Hafnarfjarðarversluninni frá og með 24. apríl 1794. Bjarna hafði nú aftur tekist hið ómögulega, það er að klifra upp stéttastigann í annað sinn. Til að fullkomna klifrið breytti hann nafni sínu úr Bjarni Sigurðsson og skrifaði Bjarni Sívertsen undir skuldabréfið að danskra sið.

Veldi Bjarna og Rannveigar
akurgerdi 1836Umsvif og áhrif Bjarna jukust hratt í Hafnarfirði og til merkis um það keypti hann konungsjarðirnar Akurgerði og Ófriðarstaði (síðar Jófríðarstaði) árið 1804 og ellefu árum síðar keypti hann einnig jörðina Hvaleyri og var hann þá kominn með yfirráð yfir stærstum hluta lands í firðinum. Þessa aðstöðu sína notaði hann meðal annars til að láta keppinauta sína í verslun í firðinum greiða sér rífleg lóðargjöld.
Skömmu fyrir aldamótin hóf hann einnig samhliða verslunarrekstrinum útgerð á þilskipum frá Hafnarfirði. Hann vissi að margar þjóðir höfðu verið við veiðar við Ísland og gengið vel. Því þarf ekki að undra að Bjarni hafi velt því fyrir sér hvers vegna Íslendingar gætu ekki hagnast á þessum veiðum eins og Bretar eða Hollendingar svo dæmi séu tekin.

Sivartsenshusid-IÓfriðarstaði keypti Bjarni í þeim tilgangi að reisa þar skipasmíðastöð. Árið áður hafði hann gert tilraun með skipasmíði í fjörunni við Akurgerði og tókst svo vel til að hann afréð að reisa skipasmíðastöðina. Árið 1806 sannaði svo þessi skipasmíðastöð nauðsyn sína því þá um vorið kom póstskipið hingað til lands mikið laskað eftir óveður sem það hreppti á leið sinni til landsins. Var gert við skipið í skipasmíðastöð Bjarna í Hafnarfirði og var það eini staðurinn hér á landi sem réð við það verkefni. Á næstu áratugum óx stöðugt veldi og auður Bjarna og Rannveigar en auk verslunarinnar sem þau ráku í Hafnarfirði opnuðu þau einnig verslanir í Reykjavík og Keflavík. Jafnhliða verslunarrekstrinum ráku þau öfluga þilskipaútgerð að ógleymdri skipasmíðastöðinni.

Bjarni bjargar þjóðinni
Um haustið 1807 lét Bjarni úr höfn í Hafnarfirði á skipi sínu De tvende Söstre en samferða honum var meðal annarra Magnús Stephensen konferensráð. Ferð þeirra var heitið til Kaupmannahafnar en þá hafði sú frétt ekki borist til landsins að stríð geisaði á milli Dana og Englendinga. Skemmst er frá því að segja að 19. september hertóku Englendingar skip Bjarna og þau sem í samfloti voru og færðu til hafnar í Skotlandi. Samkvæmt æviminningum Bjarna voru Íslandsförin 15 sem Englendingar hertóku þetta haust. Það var fyrirséð að ef skipin fengju ekki að flytja vistir til Íslands myndi ekkert annað en hungursneyð bíða þjóðarinnar.

sivartsenshusid-IITil að reyna að koma í veg fyrir þetta sneru Bjarni og Magnús sér til Sir. Josephs Banks, sem var breskur náttúrufræðingur og mikill Íslandsvinur eftir að hann heimsótti landið 1772. Banks var mikilsmetinn maður í Englandi og forseti Konunglegu bresku vísindaakademíunnar 1778-1820. Bjarni taldi það lífsspursmál fyrir þjóðina að Íslandsförin fengju að sigla með vistir og annað til Íslands. Í endurminningum sínum lýsti Bjarni sjálfur atburðunum í London á eftirfarandi hátt: „Síðan fengum við honum [Banks] okkar bónarbréf til höndlunarráðsins um það, að Íslensk höndlunarskip yrðu frígefin, og að þau, meðan á stríðinu stæði, mættu fara á milli landa, því annars mundi fólk á Íslandi ei geta lífi haldið.“
Bjarna Sívertsen tókst með aðstoð Magnúsar og Banks að fá öll skipin utan eitt látin laus síðla sumars 1808. Helstu rökin sem þeir beittu voru að öll skipin utan það eina sem ekki fékkst látið laust hefðu verið tekin fyrir 4. nóvember en þann dag sögðu Englendingar Dönum formlega stríð á hendur. Fyrir þessa vinnu sína og önnur afrek í þágu Íslands, eins og það var orðað, var Bjarni Sívertsen sæmdur Riddarakrossi Dannebrog-orðunnar 11. apríl 1812 af Friðriki VI, konungi Danmerkur og Íslands. Eftir það var hann ávallt kallaður Bjarni riddari.

Úti er ævintýri

sivartsenshus-IIIÞað var þó eins með þetta ævintýri og önnur að allt tekur enda og miðvikudaginn 24. ágúst 1825 lést Rannveig Filippusdóttur í Sívertsenshúsinu í Hafnarfirði. Í kjölfarið var búi þeirra hjóna skipt upp og dróst verslun Bjarna þá mikið saman. Skömmu síðar hætti Bjarni verslunarrekstri sínum í Hafnarfirði og fluttist alfarinn til Kaupmannahafnar þar sem hann giftist í annað sinn. Seinni kona Bjarna var dönsk og hét Henriette Claudie, fædd Andersen. Eignuðust þau saman eina dóttur. Tveimur árum síðar, eða í júlí 1833 andaðist Bjarni í Danmörku, þar sem hann þrátt fyrir glæstan feril, hvílir nú í týndri og ómerktri gröf líkt og margir íslenskir kotbændur frá hans tíð.

Elsta húsHafnarfjarðar
Sívertsens-húsið er elsta hús Hafnarfjarðar byggt á árunum 1803-05 af Bjarna Sívertsen ,,föður Hafnarfjarðar”. Húsið sem er múrað í binding var fyrst reist í Danmörku en síðan flutt til Íslands og reist á Akurgerðislóðinni þar sem það stendur enn. Upphaflega var húsið íbúðarhús Bjarna Sívertsen og fjölskyldu hans en síðar hefur það gengt ýmsum hlutverkum uns það var gert upp í upprunalega mynd og gert að safni til að heiðra minningu Bjarna Sívertsen og Rannveigar Filippusdóttur. Á sjötta áratug 20. aldar komu upp hugmyndir um að flytja húsið í Hellisgerði, gera það upp og opna í því safn um Bjarna og sögu hans. Ekkert varð úr þessum áformum á þeim tíma en árið 1964 flutti Bjarni Snæbjörnsson ræðu á klúbbfundi hjá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar um húsið. Lagði hann eindregið til að klúbburinn beitti sér fyrir varðveislu og endurreisn þess og í febrúarmánuði 1965 heimilaði Bæjarstjórn Hafnarfjarðar Rótarýklúbbnum að endurbyggja hús ið og ákvað jafnframt að greiða úr bæjarsjóði ¼ kostnaðarins enda átti allt verkið að vera unnið í samráði við þjóðminjavörð og bæjarverkfræðing. Bæjarstjórn tók húsið uppá sína arma endanlega árið 1973 og ári síðar var það vígt sem sýningahús á vegnum Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Úr dagbók Henry Holland í Íslandsferð 1810
sivartsenhus-IVSkemmtileg lýsing er til af því þegar Englendingurinn Henry Holland kom til Hafnarfjarðar árið 1810 en þá stóð veldi Bjarna þar hvað sterkustu fótum. „Það er einkennilegt að koma til Hafnarfjarðar. Háir og úfnir hraunkambar fela staðinn fyrir komumanni, þar til hann kemur fram á hraun brúnina, en þá opnast fyrir honum fjarðarbotn, og við hann standa 15–20 íbúðarhús úr timbri, lík reykvísku húsunum, en líta þó yfirleitt betur út. Þetta er Hafnarfjörður.
Helzti maðurinn þar á staðnum er Bjarni Sívertsen, vel efnaður kaupmaður. Hann var um þessar mundir í Englandi eða öllu heldur á heimleið þaðan, en kona hans, frú Rannveig Sívertsen, var heima ásamt tveimur börnum þeirra, syni og dóttur. Sonurinn er fríður unglingur, hógvær, kurteis og vel menntaður. Hann talar vel ensku en hefir þó aldrei til Englands komið, en bæði systkinin hafa dvalizt nokkur ár í Kaupmannahöfn. Við vorum kynntir þeim á dansleiknum í Reykjavík og þáðum þá heimboð til fjölskyldunnar, þegar leið okkar lægi um Hafnarfjörð. Minnugir þess héldum við beina leið til húsa Sívertsens kaupmanns. Þar var okkur tekið með svo hjartanlegri gestrisni, að okkur hlýnaði um hjartarætur.
Heimili Bjarna Sívertsens er hið langfegursta, sem við enn höfum séð á Íslandi. Það er ekki nóg að segja að það sé fallegt, heldur er það beinlínis glæsilegt, bæði að húsgögnum og öðrum innra búnaði og umgengni. Í setustofunni eru þrír stórir speglar, og tveir að auki í stærsta herberginu, Miðdegisverðurinn var framúrskarandi vel framreiddur. Þar var á borð borið stórt fat með kindakjötssmásteik ásamt Lundúnabjór, einnig voru á borðum pönnukökur, búnar til af frábærri kunnáttu, kryddaðar með kúrennum auk annars góðgætis. Við sváfum í æðardúnssængum, þvoðum okkur úr Windsor-sápu, – í stuttu máli nutum þess munaðar, sem engan okkar hefði dreymt um, að fyrir hittist á ferðalagi um Ísland.“

Heimild:
Fjardarpósturinn, 39. tbl. 31. árg. Fimmtudagur 24. október 2013, bls. 7,8 og 10.

hafnarfjordur fyrrum

Þorbjörn

Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn.

Grindavík

Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Heimild:
-Huld I, bls. 60-61.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Jarðfræði

Úrkoma, sem fellur á Reykjanesskagann, hripar niður um lek berglög, safnast fyrir neðanjarðar og sytrar svo hægt í átt til sjávar. Þetta vatn kallast grunnvatn. Við ströndina mætir ferska grunnvatnið söltum sjónum. Sjórinn er eðlisþyngri, svo að grunnvatnið myndar 30 – 100 m þykka ferskvatnslinsu sem flýtur ofan á honum. Neðst í grunnvatnslinsunni er lag af ísöltu vatni og er það þykkast úti við ströndina þar sem berggrunnur er afar lekur og sjávarfalla gætir mest.

JarðfræðiÁ Reykjanesskaga eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku (heit innskot). Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi. Í Svartsengi er t.d. heitur jarðsjórinn notaður til að hita upp kalt vatn fyrir hitaveitu á Suðurnesjum auk þess sem hann er nýttur fyrir gufuaflstöð til raforkuframleiðslu. Hluta af söltu afrennslisvatninu er veitt í Bláa Lónið en afganginum er dælt aftur niður um borholu.

Jarðskjálftar eru tíðir á Reykjanesskaganum. Upptök þeirra eru einkum á örmjóu belti sem sker eldstöðvakerfin og stefnir nærri í austur. Líta má á þetta belti sem flekaskilin sjálf. Á Reykjanesskaganum eru þrjú eldstöðvakerfi og þar sem beltið sker þau eru eitt eða fleiri háhitasvæði á yfirborði jarðar: Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Vestast á jarðskjálftabeltinu er gliðnunarhreyfing ráðandi og mikið um væga jarðskjálfta sem verða ekki stærri en 4-4,5 stig á Richter. Eftir því sem austar dregur verður aftur á móti víxlgengishreyfingin, sem einkennir Suðurlandsundirlendið, greinilegri. Þar geta jarðskjálftar orðið sterkari eða allt upp í 6-6,5 stig á Richter. Um miðhluta Reykjanesskagans fara jarðskjálftar aftur á móti ekki upp fyrir 5-5,5 stig á Richter.

Á Reykjanesskaga eru átta jarðskjálftamælar sem veita hagnýtar upplýsingar um upptök og eðli skjálftavirkninnar auk þess að auðvelda Almannavörnum eftirlit með svæðinu. Hitaveita Suðurnesja kostar þrjá þessara mæla. Á Reykjanesskaga virðast skiptast á róleg og óróleg jarðskjálftatímabil. Sögulegar heimildir eru mismiklar en um og fyrir aldamótin virðist hafa verið mikil ókyrrð á og við Reykjanes. Ennfremur voru miklar skjálftahrinur á tímabilunum 1929-1935 og 1967-1973. Svo virðist sem slík óróleikatímabil geti gengið yfir Reykjanesskaga á 30-40 ára fresti.

Heimild m.a.:
-http://www.bluelagoon.is/Gjain/Almenn_jardfraedi/Island/

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Þorlákshöfn

Á svæði nálægt gamla Þorlákshafnarbænum má, auk leifar bæjarins, m.a. sjá aðrar rústir bæja og verbúða, gömul tún, túngarða o.fl.
Á landnotkunaruppdrætti eru auðkennd sérstaklega Sigríðarbær, Thorlakshofn-1Ingileifarbær, brunnur í túni, túngarður, Erlendarkot og Helgubær. Ætlunin var að ganga um Þorlákshöfn með það fyrir augum að skoða m.a. nefndar bæjartóftir, Selvogsgötu, Langabásvörðu, Smalavörðu, Þrívörður, Miðmundarbyrgi, Hákarlabyrgi, Hafnavörðu, Réttarstekk, Hraunbúðir, brunninn og túngarðana umhverfis bæina, Þorlákshól, Hlíðarendavörðu og Skeiðsvörðu.
Áhugasamir Þorlákshafnarbúar komu með í förina til að skoða þessar elstu fornminjar bæjarins.
Þorlákshöfn er kennd við Þorlák biskup helga.  Sögn er, að Þorlákur biskup hafi stigið þar á land, er hann kom frá biskupsvígslu 1178, af því sé nafnið komið.
Í fornleifaskráningu frá árinu 1999 kemur m.a. eftirfarandi fram um byggð í Þorlákshöfn: „Elstu heimildir um Þorlákshöfn eru frá 14. öld.
thorlakshofn-7Máldaga Þorlákshafnarkirkju er getið í Vilchins máldagasafni frá 1397. Í máldaga Hjallakirkju frá árinu 1400 segir að Hjallakirkja eigi hús og skipstöðu í Þorlákshöfn. Þá hefur verið útgerð í Þorlákshöfn jafnhliða búskap. Árið 1570 var hálfkirkjan í Þorlákshöfn talin eiga í Melsmýri. Aðstæður við Þorlákshöfn hafa sennilega ráðið mestu um fyrstu byggðina og hefur þar a.m.k. frá 14. öld, og sennilega allt frá fyrstu tíð, verið verstöð.
Skálholtskirkja eignaðist Þorlákshöfn snemma, eins og margar útgerðarjarðir um Suðurnes, og 1509 átti hún þrjá fjórðu hluti í reka á Skeiði, milli Ölfusárósa og Þorlákshafnar. Getið er um geymslumann skreiðar í Þorlákshöfn og var hann á vegum Skálholtsbiskups. Um það leyti hefur verið útskipun frá Þorlákshöfn og er það m.a. staðfest er í fógetareikningum frá 1553. 

thorlakshofn-8

Regluleg verslun hófst síðan í Þorlákshöfn á seinni hluta 18. aldar og var þar löggilt verslunarhöfn árið 1875.
Þorlákshafnarbærinn, verstöðin, verslunarhús og önnur mannvirki munu ávallt hafa verið á sama stað, upp frá vörunum, Þorláksvör, Suðurvör og Norðurvör. Þar voru til langs tíma mannvistarleifar eftir margra alda búskap, útgerð og verslun.
„Í bæjarröðinni voru allmörg hús, geymsluhús austast en baðstofa, hlaðin úr höggnu grjóti, vestast. Fjós var vesta í móti, og hesthús, en heyhlaðan, ærhús og fleiri byggingar að bæjarbaki. Suður af eystri hluta bæjarhúsanna stóð tveggja hæða timburhús og fleiri hús áföst, austan við það, en stórt geymsluhús aðeins sunnar“.
thorlakshofn-9Við bæjarstæðið munu hafa staðið nokkur kot eða hjáleigur, s.s. Sigurðarhús (Rass), Gíslahús, Einarshús eða Jóns Brandssonar hús, Hóll, Gjáhús og Helgahús
Brunnur var á hlaðinu, milli kálgarðsins og áðurnefnds timburhúss, þar sem nú er Hafnarskeið 6. Annar brunnur, Fjósabrunnur, var vestur frá fjósadyrum (nú framan við Hafnarskeið 7). Hraunbúðabrunnur var austan við Hraunbúðir, í litlum hringlaga hól með fyrhyrndri dæld í miðju. Stétt var að brunninum.“
Hálfdán Jónsson lögréttumaður á Reykjum í Ölfusi ritaði þetta um Þorlákshöfn: „Þorlákshöfn hefir sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslegu vígslu. Þar heitir og enn nú að framanverðu við bæinn Þorláksvör, Þorlákssker og Þorlákshóll, þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá kyndilmessu og í 14 vikur þar eftir yfir fjörutíu skip stór og smá; mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti.“
Önnur sögn er, að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi hún heitið Elliðahöfn. Það er staðfest með dómi 1774.  En samkvæmt dómnum mun höfnin hafa heitið  Elliðahöfn í fyrstu, eða eftir að hún var mönnum byggð, og máski fram yfir lát Þorláks biskups helga 1193. – Næstum sex öldum síðar er enn fólk í Ölfusi og Flóa, sem kannast við hið forna heiti Elliðahöfn.

thorlakshofn-10

Þorlákshöfn var að fornu fari ein af hinum mestu hlunnindajörðun Árnessýslu. Í jarðabók Árna Magnússonar Páls Vídalíns 1708 segir m.a.: “Rekavon er hér góð af viðum og hvölum á Þorlákshafnar-skeiði”. Þá var þar sölvatekja mikil, er sveitamenn fyrr á tímum sóttu þangað, stundum um langa leið. Gamlar sagnir herma, að á hallæristímum, td. eftir móðuharðindin, hafi það gerst, að Skagfirðingar hafi komið suður yfir fjöll til sölvakaupa í Þorlákshöfn. Sölin í Þorlákshöfn voru talin mikið góð, jafnvel betri en annars staðar austanfjalls. Mikið að Þorlákshafnarsölvunum var flutt í sjálft staðarbúið í Skálholti. Þar voru þau sem annars staðar notuð til matar og manneldis.
thorlakshofn-11Trjárekinn var löngum mikill í Þorlákshöfn.  Svo lengi, sem biskupsstóllinn átti jörðina, má sjá það af heimildum frá 16., 17. og 18. öld, hve viðarrekinn var oft feikimikill og löngum fluttur upp að Skálholti. Þar var hann notaður til húsagerðar, viðhalds húsa og búsmuna og annarra smíða. Einnig var rekaviðurinn oft seldur sveitamönnum, þegar biskupsstóllinn áleit sig aflögufæran þeim nytjagögnum.

thorlakshofn-12

Það voru lítil skilyrði til búsetu fyrir sjómennina í Þorlákshöfn. Túnið sjálft og suður af því, svo nefnt Þorlákshafnarnes var eina gróna landið um langan aldur og höfðu heimabændur það fyrir búpening sinn. Utan þess svæðis og ofan við það var næsta nágrennið mestmegnis foksandur með melgrastoppum, klappir og hraun.
Um miðja vegu milli Skötubótar og Hafnarness stóð Þorlákshafnarbærinn uppi á allháum sjógarði eða uppfyllingu sem hét Sjógarður og sneri stöfnum mót suðri. Í bæjarröðinni voru allmörg hús, geymsluhús austast, en baðstofa hlaðin úr höggnu grjóti vestast. Fjós var þar vestan í móti og hesthús, en heyhlaða, ærhús og fleiri byggingar að bæjarbaki. Suður af eystri hluta bæjarhúsanna stóð tveggja hæð timburhús og fleiri hús áföst austan við það, en stórt geymsluhús aðeins sunnar. Stór kálgarður var sunnan við bæinn og brunnur á hlaðinu milli kálgarðs og áðurnefnd timburhúss.
thorlakshofn-6Suður frá bænum voru verbúðir og geymsluhús þeim tilheyrandi upp frá Suðurvör, og norðan við bæinn voru einnig verbúðir og geymsluhús upp frá Norðurvör, enda var Þorlákshöfn mikil verstöð um aldir.
Vestan við bæinn, kálgarðinn og Suðurvarar-byggingarnar var stórt slétt tún. Bar þar hæst Þorlákshól breiðan og langan frá norðri til sðurs. Vestur frá fjósdyrum var Fjósaflöt og norðan við hana Fjósatjörn og Fjósabrunnur. Nyrst á túninu norðan við Fjósaflöt var Kirkjuflöt nú að mestu undir byggingum.
Nú er búið að umturna öllu bæjarstæðinu, svo að ekkert er eftir nema hluti af Þorlákshól.
Kirkjan stóð stuttan spöl norðvestur frá gamla bænum, þar sem hann hefur sjálfsagt staðið öldum saman, allt til að sá síðasti var rifinn til grunna sumarið 1962. Við kirkjuna hefur verið grafreitur og garður hlaðinn kringum hann. Kemur það fram í einni heimild 1673, að garður sé umhverfis kirkjuna. Mætti því ætla, að þá hafi verið þar öðru hverju grafið í honum.

thorlakshofn-13

Þegar kirkjan var fallin og menn hafa séð fram á, að hún yrði ekki endurbyggð, var upp úr tóft hennar reist sjóbúð, er var ávallt síðan kölluð kirkjubúðin. Vísuðu dyr hennar, sem voru til vesturs, á Geitafell. Kirkjubúðinni var haldið við og notuð af sjómönnum í meira en heila öld, allt fram yfir síðustu aldamót. Þá var hún rifin og jöfnuð við jörðu.
Það voru því aðrar ástæður en landbúskapur, sem lágu til þess, að sókn sjómanna til Þorlákshafnar var meiri en annarra verstöðva. Ástæðurnar voru einkum tvær, önnur var sú að lendingarnar voru taldar þar betri en alls staðar annars staðar á nærliggjandi svæðum. Var því oftar mögulegt að komast til róðra á næstu fiskimið. Þar af leiðandi urðu þar að jafnaði betri hluti en í öðrum verstöðvum austan fjalls, enda segir í Jarðabók Árna og Páls 1708, að þar sé “verstaða merkilega góð”.

thorlakshofn-14

Hin ástæðan var sú, að þar var langöruggasta landtakan og hættuminnst mönnum, skipum og afla. Stundum kom það fyrir að með öllu var ólendandi við Loftstaðasand, Stokkseyri og Eyrarbakka, svo að menn urðu frá að hverfa og var þá oft eina lífsvonin að leita til Þorlákshafnar. Margar sögur eru til af því að opnu skipin austan Ölfusár leituðu til Þorlákshafnar, þegar ólendandi var í heimaverstöðvunum og náðu á slysalaust landi í Þorlákshöfn. Var hún í slíkum tilfellum stundum nefnd þrautalending eða “lífhöfn” hinum sjóhröktu mönnum.
Elztu verbúðirnar í Þorlákshöfn voru hlaðnar úr thorlakshofn-15sandsniddu að utan, en hlaðnar úr grjóti að innan, brimbörðu og lásléttu. Veggirnir voru ekki hærri en það að utan, að það mátti sitja á þeim, enda hölluðust þeir mikið frá. Í hverri búð voru þrír bálkar hvoru megin og einn fyrir stafni, og hver bálkur um þrjár álnir á lengd. Við hver bálkaskipti var stoð, sem gekk frá þverbitanum og niður í gólf.  Þverbitinn var alltaf úr sveru rekatré. Engar sperrur voru, heldur rekadrumbar reistir upp á endann og bustuðu efst. Þeir voru hafðir svo þéttir, að þeir námu alveg saman og sett mold ofan á og loks sandsnidda, en hún varð að vera tvö fet á þykkt, svo að toldi saman.
Í gólfinu voru hellur og urðu þær að halla út að dyrunum, svo að runnið gæti út bleytan, því að stundum komu menn rennandi blautir inn. Upp úr mæninum var túða. Yfir hverjum bálk voru hnefastór göt og látin gjörð þar í með líknarbelg á.

thorlakshofn-16

Í hinum gömlu verstöðvum á 18. öld, þar sem fjölmenni var mikið samankomið og lausningjalýður slangraði um, vildi stundum bera við, að gripdeildir og ýmsir óknyttir væru hafðir í frammi ásamt drykkjuskap og slarki. Þótti þá yfirvöldum brýn nauðsyn, að gapastokkur væri hafður á slíkum stöðum eða í grennd við þá.
Samkvæmt gömlum munnmælum var gapastokkur í Þorlákshöfn. Hvenær hann hefur verið settur þar upp, veit nú enginn. Trúlega hefur það verið gert í samráði við sýslumann og Skálholtsbiskup, eftir að stóllinn hafði eignarrétt á jörðinni, til þess að halda þar uppi skikkan og tyfta höttóttan lýð, sem þar var stundum saman kominn. Að líkindum hefur gapastokkur verið þar alla 18. öldina. Hann hefur verið hafður þar sem refsandi ámining öllum þeim mörgu, er þar voru og þangað komu á vetrarvertíðum, enda stundum máski þurft að grípa til hans, þegar fjölmennið var þar sem mest.  Árið 1703 eru heimilisfastir í Þorlákshöfn yfir 60 manns auk allra útróðrarmanna á vertíðinni.

thorlakshofn-17

Gapastokkurinn í Þorlákshöfn hefur að líkindum verið í kirkjuþilinu að vestanverðu við inngöngudyrnar, svo lengi sem kirkjan var þar uppistandandi. En gömul munnmæli voru, að eftir það hefði hann verið settur upp norðanvert við Þorlákshól, nokkurn spöl frá sjálfum bænum. Voru hálsjárnin og fótajárn fest í tré, er stóð upp á endann í meira en mannhæð og gekk í jörð niður. Þar stóð svo þetta refsitæki sem þögil áminning öllum þeim, er komu heim á hlað í Þorlákshöfn. Sagnir voru um það, að á sumardaginn fyrsta og á lokadaginn fyrr á tímum hefðu menn stundum í brennivínsdrykkju verið settir í gapastokkinn fyrir óspektir og látnir þar dasast um stundarsakir.

thorlakshofn-18

Hvenær hætt var að nota gapastokkinn í Þorlákshöfn, er nú ekki lengur vitað. Uppi mun hann trúlega hafa verið fram um aldamótin 1800 eða eitthvað lengur. Hálsjárnin voru enn til í Þorlákshöfn fram yfir 1840, og voru þá sem ónýtt brotajárnsrusl. Þau sá þá og handlék Hávarður Andrésson, síðar á Tannastöðum, er var þá sjómaður í Þorlákshöfn. Höfðu þá ungir menn stundum í galsa gripið þau og brugðið þeim á háls félaga sinna, er færi gafst. Voru þá leifar þessa gamla refsitækis þegjandi vottur þess, að sá aldarandi var orðinn breyttur, er gaf valdsmönnum rétt til þess að beita því miskunnarlaust, þótt máski um litlar sakir væri að ræða.

thorlakshofn-21

Lendingar voru tvær í Þorlákshöfn; Norður- og Suðurvör, og voru þær um mitt Hafnarnes austanvert. Varir þessar höfðu tvo stóra kosti. Þann fyrstan að siglingaleiðin að þeim var hrein og skerjalaus. Og hinn, sem oftar skipti sköpum um gildi þeirra, að þar var sjór ekki ófær nema rok væri af suðaustri eða um 30 gráður hvoru megin við þá átt.
Í heimild segir m.a.: „“Austur frá Spori er vík sem heitir Stekkjar-bót. Réttarstekkur er stutt upp af Stekkjarbót. Stekkurinn er sýndur á aðalskipulagskorti. Hann er um 70 m austan við Nesbraut þar sem hún beygir til suðurs.
Rétt fyrir 1890 voru reist í Þorlákshöfn fjögur smábýli eða tómthús. Þau voru yfirleitt kennd við konurnar sem í þeim bjuggu, enda voru þær alljafna heima, en menn þeirra í atvinnu utan heimilis. Syðst í túninu, suðaustur frá þessum bæjum [Helgubæ & Erlendarkoti], er stór hóll, sem snýr endum  austur og vestur, algróinn, með miklum rústum. Þar stóð Ingileifarbær austan til hólnum. Þar bjuggu Ingileif Símonardóttir og Einar Guðmunds-son.

thorlakshofn-22

Tómthús þessi voru í byggð fram um aldamótin 1900. Tóftin er mæld inn á kort frá Ölfushreppi.“
Hraunbúðir, tóftin, eru á grasigrónu svæði og eru einna heillegustu sjóbúðaminjar í Þorlákshöfn.
Í Þorlákshöfn var hálfkirkja fram um 1770 og hafði svo verið a.m.k. í 250 ár og sennilega í allt að 400 ár. Kirkjugarður var norðan við bæjarhúsin og voru flutt þaðan að Hjalla bein er upp komu í jarðraski við hafnarframkvæmdir 1962. Í heimild frá 1673 er getið um garð umhverfis kirkjuna. Kirkjuflöt er örnefni er mun hafa verið nyrst á túninu. Þegar kirkjan var fallin var byggð sjóbúð í tóftinni, nefnd Kirkjubúðin (sjá síðar).
Verbúðir og geymsluhús voru suður frá bænum, ofan við Suðurvör. Aðrar verbúðir og geymsluhús, Hjallabúðir, voru norður af bænum, thorlakshofn-23ofan við Norðurvör. Annars voru sjóbúðirnar þarna allt að 25 talsins um tíma, ofan við lendingarnar. Þær voru sumar að nokkru grafnar inn í hóla og hæðir, að innan hlaðnar úr grjóthnullungum, þ.e. sjóbörðu grjóti, með sandi og mold milli laganna. Byggingarformið var líkt og fjós voru byggð til sveita framundir aldamótin 1900. Í hverri þeirra voru venjulega 14-16 menn.
Réttarstekkur er upp af Réttarbót austur frá Spori. Um var að ræða fráfærurétt. Langveggir eru enn sýnilegir.
Skeiðisvarða er austur á miðjum Kampi. Hafnarvarða er fallin, við hlið Þorlákshafnarvita. Langabásvarða er á hól upp af miðjum Langabás, um 250 metra frá sjó og er 18 m há. Þrívörður stóðu á hól, en eru nú fallnar. Smalavarða er stór varða nokkru norðan Þorlákshóls. Hlíðarendavarða er við götuna upp að Hlíðarenda, litlu vestar en núverandi vegur, vörðubrot á klapparhól við norðurenda Unabakka.

thorlakshofn-24

Prestavarða er ofan við Leirar en hún markar upphaf leiðarinnar að Hrauni, miðsvæðis milli Skötubótar og Miðöldu.
Á skilti við gamla Þorlákshafnarbæinn er eftirfarandi áletrun: „Þorlákshafnarbærinn stóð uppi á allháum sjógarði. Sneri bærinn stöfnum mót suðri. Hann var byggður 1880-1885. Í bæjarröðinni voru allmörg hús. vestan við bæinn var stórt slétt tún. Bar þar hæst Þorlákshól, langan og breiðan frá norðri til suðurs. Stór hluti hólsins hefur veriðs léttaður undir mannvirki og nú er aðeins hluti af honum eftir. Þorlákshafnarbærinn var rifinn árið 1962. Í Ráðhúsi Ölfuss er hægt að skoða líkan af bænum eftir Sigurð Sólmundsson.

thorlakshofn-25

Nafnið Þorlákshöfn er, sem fyrr sagði, dregið af Þorláki helga sem var biskup í Skálholti 1178-1193. Til eru tvær sagnir um uppruna nafnsins. Önnur sagan segir að Þorlákur hafi fyrst stigið hér á land þegar hann kom frá biskupsvígslu árið 1178. Hin sögnin er að eigandi jarðarinnar sem þá hét Elliðahöfn hafi heitið á Þorlák helga að hjálpa sér þegar hann lenti í sjávarháska og síðan gefið Skálholti jörðina. Lítið er til af rituðum heimildum um Þorlákshöfn fyrr en um 1400 þegar Skálholtsstóll var orðinn eigandi hennar en menn hafa giskað á að útræði hafi hafist í Þorlákshöfn rétt eftir að menn settust að í Ölfusi.“
Fjögur smábýli eða tómthús voru reist í Þorlákshöfn um 1890. Þau voru Helgubær, Magnúsarkot eða Kotið, Erlendarkot, Ingileifarbær og Sigríðar, Siggu- eða Guðmundarbær. Tóftir þeirra sjást enn.
Á skilti við Helgubæ stendur m.a.: „Í Helgubæ bjuggu Helga Jónsdóttir og Magnús Símonarson en húsið hefur einnig verið  kennt við hann og thorlakshofn-26kallað Magnúsarkot eða Kotið. Síðustu íbúar Helgubæjar voru Gísli Jónsson og Ólöf Stafánsdóttir en Gísli byggði reisulegt hús sem búið var í fram yfir 1920, þá var það rifið og flutt til eyrarbakka ogs íaðn á Selfoss þar sem verslunin Höfn var til húsa fram yfir 1970 en verslunin dró nafn sitt af upprunalegum stað hússins, Þorlákshöfn.
Um 1820 voru hjáleigubýli Þorlákshafnar ökk komin í eyði, þar sem landgæði voru ekki næg til að fóðra búfénað bónda og leiguliða. Sextíu árum síðar gaf Jón Árnason, þáverandi eigandi Þorlákshafnar, leyfi til að endurbyggja hjáleigukotin með þeim skilmálum að íbúarnir héldu engar skepnur á landinu. Voru kotin þess vegna kölluð þurrabúðarkot eða tómthús. Íbúar þeirra sóttu sjó á vertíðum og unnu ýmis tilfallandi störf þess á milli svo sem vegavinnu, uppskipun og kaupavinnu.

thorlakshofn-27

Flest voru tómthúsin fjögur í byggð á sama tíma og voru þau yfirleitt kennd við konurnar sem í þeim bjuggu.“
Eftir að kirkjan í Þorlákshöfn lagðist af var reist sjóbúð upp úr tóft hennar og var hún æ síðan nefnd Kirkjubúð. Dyr búðarinnar snéru í vestur og vísuðu að Geitafelli.
Kirkjubúðinni var haldið við og notuð af sjómönnum í meira en eina öld, allt fram undir aldamótin 1900. Þá var hún rifin og jöfnuð við jörðu. Kirkjan hefur staðið þar sem nú er Hafnarskeið 8.
Sveitarfélagið Ölfus hefur nú sett upp söguskitli við allnokkra merkisstaði í bænum, m.a. marga þá er skoðaðir voru í þessari ferð. Styrkur til þess verkefnis mun hafa fengist frá Menningarsjóði Suðurlands og Þjóðhátíðarsjóði. Verður verkið að teljast sérstaklega eftirtektarvert því það bæði gefur áhugasömu fólki ýmsar upplýsingar um staðina og hvetur aðra til að kynna sér svæðið í sögulegu samhengi.

thorlakshofn-28

Á skilti við gamla kirkjureitin stendur: „Fram til 1770 var hálfkirkja í Þorlákshöfn en ekki er vitað með vissu hve lengi kirkjan stóð. Messað var í kirkjunni á vertíðum enda langt fyrir sjómenn að fara að Hjalla í Ölfusi, en þangað sóttu íbúar í Þorlákshöfn messur utan vertíðar þar sem veður og færð voru mun betri yfir sumartímann.
Umhverfis Þorlákskirkju og norðan við Þorlákshafnarbæinn var kirkjugarður. Árið 1962 komu upp bein í jarðraski vegna hafnarframkvæmda. Beinin voru flutt að Hjalla og jarðsett þar. Í vestanverðu þili kirkjunnar var gapastokkur og hefur hann líklega verið settur upp eftir að Skálholtsstóll eignaðist jörðina. Gapastokkur var tól, notað til refsingar og niðurlægingar afbrotamönnum. Hann var búinn til úr klofnum og götuðum stokk eða viðarborðum. Á honum voru festingar sem voru settar um háls fanga og ökkla eða úlnlið, eftir gerð stokksins.

thorlakshofn-31

Hérlendis voru gapastokkar notaðir til refsingar fyrir minniháttar afbrot og óhlýðni, svo sem brot á lögum um lausamennsku, flakk og betl en þeir komust þó ekki í almenna notkun fyrr en um miðja 18. öld. Á messudögum voru brotamenn gjarnan settir í stokkana, þeim til skammt og öðrum til viðvörunar. Gapastokkurinn var fluttur norður fyrir bæjarhól Þorlákshafnarbæjarins þegar kirkjan lagðist af. Þar stóð hann sem áminning fyrir alla þá sem komu heim á hlaðið og munu drukknir menn hafa verið settir í stokkinn á tyllidögum til að víman rynni afþeim. Á Íslandi voru gapastokkar aflagðir með tilskipan árið 1809 en óvíst er hvenær hætt var að nota stokkinn í Þorlákshöfn. Hálsjárnin voru enn til um 1840 og gripu galsafengin ungmenni í þau til að gera at í félögum sínum.“

thorlakshofn-30

Á skilti við Sýslu stendur: „Áður en frystihús Meitilsins var reist á Sýslu hafði þessi klöpp fleiri en eitt hlutvek. Festarhringur var í Sýslu og hafa þar eflaust verið budnin kaupför sem lágu við festar úti á legunni. Varningur skipanna hefur þá verið settur upp á Sýslu. Sumir vilja meina að nafnið sé tilkomið vegna þessara uppskipunar og þá dregið af athöfninni að sýsla eitthvað.
Áður fyrr var Sýsla grasi gróin og var þá glímuvöllur vermanna sem komu þar saman til að „glíma af sér sýsluna“. Sá sem tapaði var dæmdur til að hreinsa skít og annan óþverra fram til vertíðarloka og var hann í háði nefndur „sýslumaður“.
Inn í klöppina að austanverðu gekk nokkuð djúp og víð sprunga, gekk hún saman efst en sjór féll að henni og frá og var hún þurr á fjöru. Þar munu sjómenn, sérstaklega úr Norðurvröinni, hafa gert þarfir sínar og var þá haft á orði að menn væru „á setunum í Sýslu“. Í flóði féll þar að og hreinsaðist þá klöppin jafnharðan. Segja má að þarna hafi verið fyrirtaks vatnssalerni frá náttúrunnar hendi.“
Á skilti við
Hraunbúðir má lesa eftirfarandi texta: „Hraunbúðir eru einna heillegustu sjóbúðaminjarnar í Þorlákshöfn. Stærsti hlutinn eru tvö samhliða hús sem snúa í norðvestur-suðaustur með inngangi í suðausturenda. Við suðvesturgafl húsanna er önnur minni tóft sem snýr eins og hinar og mun hún hafa verið smiðja. Norðvestan við smiðjutóftina eru hringlaga tóft sem líklega var beitukofi. Allir veggir tóftanna eru hlaðnir úr torfi og grjóti.

thorlakshofn-35

Sjóbúðirnar í Þorlákshöfn voru iðulega grafnar inn í hóla eða hæðir og hlaðnar með hleðslugrjóti. Oft voru búðirnar hriplekar. Fleiri óþægindi hrjáðu verbúðamenn en einna verstar voru rotturnar. Þær komu út úr veggjunum þegar ljós voru slökkt og leituðu að æti. Styggðust þær, stukku þær upp um alla veggi og djöfluðust í þekjunni lengi nætur. Eina nóttina vöknuðu menn í Hraunsbúð við ægilegt sársaukaýlfur og fundu rottu fasta í öngli. Skal engan undra að menn hafi séð og heyrt drauga í öllum skúmaskotum fyrir tíma rafmagnsins.
thorlakshofn-36Eftir þarsíðustu aldamót [1800] var farið að byggja búðirnar undir súð og seinna voru þær byggðar með steinlímdum veggjum og klæddar að innan með timbri. Þá voru jafnvel eldavélar í sumum þeirra.“
Við Brunninn, einn af nokkrum, stendur á skilti: „
Við brunn milli Hraunbúða og tómthúsanna stendur m.a.: „Þó nokkrir brunnar hafa verið í Þorlákshöfn. Ekki hafa þeir þó verið sérlega gjöfulir því í þeim gætti sjávarfalla og voru þeir oft þurrir nema hátt stæði í sjó og þá var vatnið gjarnan of salt og heldur lítið. Geta má líkum að því að fólk hafi gjarnan hist við brunnana og tekið þar tal saman. Kannski hefur Þorlákshafnar-Sigga nýtt tækifærið og spáð fyrir þeim sem sóttu vatn úr brunni.
Þorlákshafnar-Sigga eða Hafnar-Sigga var einsetukona sem er talin fædd að saurbæ í Ölfusi árið 1729. Sigga var mikil að vallarsýn, þrekmikil og hafði karlmannskrafta. Hún þótti forn í lund og gædd hinu mesta orðkynngi. Enginn vildi hafa formælingar hennar yfir sér og fékk hún því oftast vilja sínum framgengt.

thorlakshofn-35

Sér til framfærslu smíðaði Hafnar-Sigga smágripi kostagóða og spáði fyrir um framtíð manna. Hún las í lófa sjómanna sem þorðu ekki annað en að gera henni allt til hæfis svo þeir fengju góða spá. Menn gerðu aðeins gys að Siggu einu sinni. Hún var vinum sínum afar trygg og í þakklæstisskyni færðu sjómenn henni gjarnan smálegt við endurkomu á vertíð í Þorlákshöfn. Að vertíð lokinni flakkaði Sigga um sveitir, seldi þar handavinnu sína, spáði fyrir sveitarfólki og aflaði vista til næsta vetrar. Hún safnaði álftafjöðrum sem hún svo skipti fyrir tóbaki og brennivínskút hjá kaupmanninum á Eyrarbakka. Kúturinn dugði Siggu yfir veturinn, sér í lagi af því að gestir hennar bættu stundum á hann.
Dag einn á vetrarvertíð árið 1819 urðu menn þess varir að ekki rauk úr eldhússtrompinum á koti Siggu og var hún þá dáin í rúmi sínu, hafði hlotið snöggt en milt andlát á tíræðisaldri. Hafnar-Sigga var síðasta manneskjan sem fékk greftrun í gamla grafreitnum í Þorlákshöfn.“

thorlakshofn-34

Á skilti við Siggubæ má lesa: „Siggubær eða Sigríðarbær liggur á vesturenda sama hóls og Ingileifarbær. Tóftin snýr í austur-vestur. Hægt er að greina þrjú hólf, eitt í vesturenda tóftarinnar og tvö í austurendanum, inngangur hefur svo verið á suðurhlið. Veggirnir eru hlaðnir úr torfi og grjóti. Milli Siggubæjar og Ingileifarbæjar eru um 17 metra langt svæði sem er hærra en umhverfið og má gera ráð fyrir að einnig hafi þar staðið hús. Siggubær var kenndur við síðustu ábúendurna, þau Sigríði Einarsdóttur og Guðmund Guðmundsson.“
thorlakshofn-37Við Ingileifarbæ stendur:
„Í Ingileifarbæ bjuggu Ingileif Símonardóttir og Einar Guðmundsson, oft nefndur Einar Guð til aðgreiningar frá öðrum nöfnum sínum. Í báðum bæjunum var búið fram yfir aldamótin 1900. Ingileif var systir Magnúsar Símonarsonar í Helgubæ. Synstkinabrúðkaup var í Hjallakirkju 13. júlí 1890 þar sem Ingileif giftist Einar og Magnús kvæntist Helgu Jónsdóttur.
Einar var gáfaður og margfróður maður og liggur eftir hann merkilegur kafli um líf og starf sjómanna í Þorlákshöfn um 1870.“
Á skilti við Miðmundabyrgið stendur: „
Miðmundabyrgi er rúst tveggja hákarlabyrgja. Litlar upplýsingar eru til um hákarlaveiðar í Þorlákshöfn frá fyrri tíð. Í úttekt sem gerð var á brytaskemmu Skálholts árið 1663 er telinn einn nýr 30 faðma ólavaður, ætlaður hákarlaútvegi í Þorlákshöfn.

thorlakshofn-33

Í skjali frá 1771 má sjá að ábúendur í Þorlákshöfn hafa ekki leyfi til að stunda hákarlaveiðar og fara þeir fram á að fá slíkt leyfi þótt veiðar hafi ekki verið stundaðar síðustu 73 árin þar á undan. Heimild frá 1840 greinir frá að í Þorlákshöfn hafi verið skjótfenginn og mikill hákarlsafli sem hafi svo farið minnakdi eftir að þilskipaveiðar hófust, hákarlaveiðarnar lögðust þó ekki af alveg af því á árunum 1860-1870 fóru menn í nokkrar legur í byrjun vertíðar.
Verkun hákarls var misjöfn eftir landsvæðum en örnefni í Þorlákshöfn benda til að hann hafi verið lagður í gryfjur og látinn kasast í vikur eða mánuði áður en hann þótti neysluhæfur.“
thorlakshofn-36Við Lat má lesa m.a.:
„Latur er ættaður austarlega af Urðum og var notaður sem viðmið um sjófærð og veður, þannig þurfti 9-12 áratog til að róa fyrir Lat í góðu veðri en þegar verra var í sjó voru áratogin 90-100. Fólk gekk gjarnan út að Lat sér til skemmtunar og heilsubótar á meðan hann var enn á sínum upphaflega stað.
Latur var fluttur á núverandi stað þann 19. nóvember 2004. Taið er að hann sé um 60 tonn að þyngd og þurfti að nota þrjár stórar vélar og bíl af stærstu gerð með öflugan tengivagn til að flytja steininn.“
Síðasti bærinn á Þorlákshól var byggður 1880-85 og rifinn 1962. Líkan af bænum má sjá í ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Sigurður Sólmundarson gerði líkanið árið 1991.
Aðrar minjar, sem skoðaðar voru í ferðinni, voru m.a. skipasteinn með áletruninni H.J – 1881, thorlakshofn-32vestan hús eldriborgara, letursteinn með áletruninni JJ 1970, að baki húss nr. 3 við C-götu og hestasteinn eða skipasteinn aftan við ráðhúss bæjarins. Stendur hann þar í umferðareyju ásamt ankeri. Ekki er að sjá áletrun á þeim steini.
Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi, tók á móti þátttakendum í ráðhúsinu. Sýndi hann m.a. allmerkilegar ljósmyndir og teikningar á veggjum þess er gefa vel til kynna hvernig Þorlákshöfn hefur litið út fyrrum. Þar á meðal voru teikningar eftir Guðmund frá Miðdal er sýndu gömlu húsaþyrpinguna og sjóbúðirnar fyrrnefndu. Sigurður er greinilega áhugasamur um sögu staðarins sem og um mikilvægi varðveislu gamalla minja, sem enn má sjá í Þorlákshöfn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Þorlákshafnar.
-Sigurður Jónsson.
-Jóhann Davíðsson, B-götu 9.
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.
-Fornleifaskráning fyrir Þorlákshöfn 1999.

thorlakshofn-5

Meðalfell

Fjall, andstætt fjörunni, er landform sem gnæfir yfir umliggjandi landslag. Hæð ein sér nægir ekki því fjall er venjulega hærra og brattara en hæð. Á Reykjanesskaganum eru fá fjöll, en þess fleiri fell.
Í rauninni er einungis stigsmunur á Festisfjallfjalli og felli – þau síðarnefndu eru jafnan lægri. Þannig eru t.d. Festisfjall (190 m.y.s) og Lyngfell (162 m.y.s.) ofan við Ísólfsskála svo til samföst, en hið síðarnefnda örlitlu lægra. Örskammt frá eru tvö fjöll, Fiskidalsfjall (204 m.y.s) og Húsafjall (174 m.y.s.). Þarna gætu mörkin virst vera nálægt 160 m.y.s., en skammt vestar er Sýlingarfellið (188 m.y.s), sem skv. því ætti að vera fjall. Fagradalsfjallið rís þó undir nafni (385 m.y.s.). Kistufellið skammt austar ætti því að vera fjall því það er 335 m.y.s. Helgafell er einnig um 340 m.y.s. og Húsfell 278 m.y.s.  Það virðist því engin ein regla gilda um framangreindar nafngiftir, þ.e. fjall annars vegar og fell hins vegar – a.m.k. ekki á Reykjanesskaganum. Margir líta framhjá framangreindu og telja að fjall sé bara fjall og fell sé bara fell, en svo einfalt er það nú ekki. Fjöllin (fellin) eru bæði mörg og margvísleg.
Keilir gæti talist fjall (379 m.y.s) sem og Esja. Það fjall stendur við Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Útsýni yfir fjallið hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu, og til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum og síðþýðum snjósköflum í fjallinu. Hæsti tindur Esjunnar er 914 m.y.s. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Esja er reyndar syðsta blágrýtisfjall á Íslandi.

Móskarðshnúkur

Blágrýti er tegund basalts, grátt með bláan blæ. Það er dulkornótt svo kristallar sjást ekki greinilega. Það er algengasta gosberg jarðarinnar og Esjan því dæmigerður fulltrúi dæmigerðustu fjalla jarðar. Það að vera dæmigerð getur varla talist áhugavert – eða hvað? Hafa ber í huga að Esjan býður upp á fjölbreytilegstu gönguleiðir landsins þar sem blágrýti slær í takt við líbarít og móbergsmyndanir. Himinn og haf aðskilja þær tvær bergtegundir eins og síðar á eftir að koma í ljós.
Basalt er basískt storkuberg (gosberg) samansett af plagíóklasi, ólivíni, pýroxeni og seguljárnsteins-steindum. Gjarnan er í því einnig basaltgler. Basalti er skipt í þrjá flokka eftir gerð; blágrýti, grágrýti og móberg. 70% af heildaryfirborði jarðar er talið vera basalt. Við eldgos úr möttli jarðar myndast basalt. Grágrýti (einnig nefnt grásteinn eða dólerít) er smákornótt basalt.
Móberg er hins vegar bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni. Bergtegundin er algeng á Íslandi, ekki síst á Reykjaneskaganum, og eru mörg íslensk eldfjöll úr móbergi, sum hver með hraunlagi efst, sem er til marks um að gosið hafi náð upp úr jöklinum eða vatninu Slík fjöll kallast stapar.
KeilirVið gos undir vatni storknar kvikan mjög hratt og nær ekki að mynda samfellt berg. Móbergið verður þannig í raun til eftir að gosi er lokið. Gjóskan límist þá saman fyrir tilstilli holufyllinga sem verða til við ummyndun á glerinu í gjóskunni.
Til eru nokkrar tegundir af móbergi eftir því hvernig það hefur myndast; bólstraberg, móbergstúff og þursaberg. Öll bestu vatnsvinnslusvæði á Íslandi eru í grágrýtis- og móbergsmyndununum þar sem berg er gropið.
Fjöll (fell) á Reykjanesskaganum draga gjarnan nöfn af sögum (fornsögum/þjóðsögum) eða kennileitum (lögun/nýtingu). Þannig dregur Svartsengisfell nafn sitt af svörtum sauði Hafurs-Bjarnar, Þórðarfell af nafni bróður hans, (G)Núpshlíðarháls af föður honum og Festisfjall þjóðsögunni af festi tröllkonu. Skógfellin og Vatnsfell draga nöfn af nýtingunni fyrrum sem og Kálffell, Keilir og Kistufell af löguninni og Sundhnúkur af kennileitinu áleiðis inn á lendingar Grindvíkinga. Helgafell er að líkindum kennt við kirkju er átti að hafa verið í Helgadal. Þar mótar fyrir rústum, sem hingað til hefur verið sýnd ótrúlega vanræksla af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.
EsjaHér að framan var getið um nafnið 
„Esja“. Í Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.
En h
vernig verða fjöllin til? Það eru til margar gerðir af fjöllum; há og lág, brött og aflíðandi, hvöss og slétt að ofan, dökk fjöll og ljós, stök og í fjallgörðum og svona mætti lengi telja. Ástæðan fyrir þessum fjölbreytileika er sú að fjöllin hafa myndast við mismunandi aðstæður, úr mismunandi kviku og síðan er mismunandi hvernig náttúruöflin hafa leikið þau í gegnum aldir og árþúsundir.
Fjöll geta myndast við það að meginlandsflekar rekast saman (fellingafjöll). Líka við eldgos, ýmist stök fjöll eða fjallhryggir. Mörg fjöll á Íslandi hafa orðið til við eldgos. Sum þessar fjalla eru virk sem þýðir að ennþá er talinn möguleiki á eldgosum þar, en önnur er kulnuð.
Gígur HáleyjardyngjuFjöll sem myndast við eldgos geta verið margskonar. Ef gosið stendur yfir mánuðum eða árum saman og upp kemur mikið þunnfljótandi hraun myndast dyngja, sem er flatur hraunskjöldur en ekki hátt fjall. Skjaldbreiður er stærsta dyngjan á Íslandi. Á Reykjanesskaganum er Þráinsskjöldur stærsta dyngjan, en auk hans má sjá dyngur eins og Sandfellshæð, Hrútargjárdyngju, Heiðina há, Skálafell á Reykjanesi. Háleyjarbungu o.fl.
Eldkeilur, eins og Öræfajökull og Snæfellsjökull, eru dæmi um aðra tegund eldfjalla. Eldkeilur myndast þegar oft gýs á sama staðnum en þá hlaðast upp strýtulaga eldfjöll þar sem hraun- og gjóskulög eru á víxl.
Jöklar geta líka myndað fjöll eða réttara sagt þá geta þeir grafið í sléttlendi (sem hefur myndast þegar hraun rann í eldgosum) og breytt því í fjöll og firði. Þannig hafa til dæmis firðirnir og fjöllin á Aust- og Vestfjörðum myndast. Dæmi um slíka myndun má einnig sjá í Esjufjöllum.
Jöklar koma líka við sögu við myndun móbergsstapa, eins og til dæmis Keilir, því móbergsstapar og móbergshryggir myndast við eldgos undir jökli.
SveifluhálsSíðasta ísöld hófst fyrir um 2,8 milljónum ára og lauk fyrir um 10.000 árum. Það var þó ekki stanslaus vetrarkuldi allan þann tíma heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið. Það er ekkert sem að bendir til þess að eldgos hafi verið óalgengari á ísöld en þau eru í dag. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að á því tímabili þegar ísöld var að ganga í garð hafi eldgosum fækkað vegna aukins þrýstings frá upphleðslu íss. Að sama skapi voru eldgos tíðari þegar ísöld lauk og þrýstiléttir varð vegna ísbráðnunar. Í stuttu máli:

Ísöld gengur í garð  = fækkun eldgosa
Ísöld stendur yfir = ástand eðlilegt
Ísöld lýkur = fjölgun eldgosa
Nútími = ástand eðlilegt

Þorbjarnarfell (Þorbjörn)

Í bók Þorleifs Einarssonar Myndun og mótun lands má lesa um eldvirkni á ísöld. Þar segir meðal annars: „Þegar í upphafi ísaldar var eldvirknin einkum bundin við miðbik landsins og færðist, er á leið, á mjó belti suðvestan-, sunnan- og norðanlands og eru þar nú aðaljarðeldsvæði landsins. En auk þess voru allmikil eldsumbrot við utanverðan Skagafjörð og á Snæfellsnesi og hafa eldsumbrot haldist á síðarnefnda svæðinu fram á nútíma.
Gosbergið varð ólíkt að ytri gerð eftir því hvort það kom upp á auðu landi á hlýskeiðum eða undir jökli á jökulskeiðum þótt kvikan væri hin sama.
Á hlýskeiðum runnu grágrýtishraun langar leiðir og oft langt út fyrir gosbeltin. Þessi hraun komu ýmist frá gossprungum, eldkeilum eða dyngjum. Dæmi um eldkeilur sem gusu á ísöld og eru virkar enn í dag er Snæfellsjökull“, sem sést vel frá Reykjanesskaganum í góðviðrum.
Þorbjarnarfell er dæmi um móbergsstapa sem myndaðist á einu af jökulskeiðum síðustu ísaldar – og jafnvel því fyrra.
Á kuldaskeiðum ísaldar mynduðustu hins vegar móbergsfjöll við gos undir jökli, sem fyrr sagði, ýmist móbergshryggir sem hljóðust upp á sprungum en náðu yfirleitt ekki upp úr jöklinum eða móbergsstapar sem hlóðust upp úr jöklinum. Þessi fjöll setja mikinn svip á landslagið enn þann dag í dag. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveifluháls, Núsphlíðarháls, Fagradalsfjöllin, Skógfellin og Þórðarfell ásamt Sandfelli og samraðandi fjöllum (Súlum og Sandfelli), en dæmi um móbergsstapa er bæði Keilir og Fjallið eina – svo eittvað sé nefnt.
Hér hefur ekki verið fjallað um Hengil og nærliggjandi fjöll, enda efni í alveg sérstaka umfjöllun. Þrátt fyrir það má sjá að fjöllin hafa upp á ýmislegt að bjóða þeim er þangað vilja sækja – engu síður en fjölskúðug fjaran.

Heimildir m.a.:
-www.visindavefur.is

Trölladyngja?

Bláfjöll

Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla. Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið.
BrakUm var að ræða sömu flugvél og Jóhannes Snorrason, flugstjóri, og félagar nefndu „Bresku Gránu“ og miklar sögur fóru af í „flugheiminum“ á fimmta áratug 20. aldar, ekki síst eftir sögulegt flug austur á Egilsstaði með viðkomu á Akureyri þar sem minnstu mátti muna að flugvélin væri skotin niður af sjóndöprum eða skelkuðum samherjum á styrjaldarárunum.
Hlynur Skagfjörð Pálsson fv. rekstrarfultrúi og starfsmaður í Bláfjöllum á árunum 1991-2006 hafði samband við FERLIR og vildi upplýsa um hreyfil og annað brak úr flugvélinni, „skammt norðan við Reykjavegarstikurnar. Ég hef ekki öruggar heimildir fyrir því hvaða vél þetta var en hef talið þetta vera “Gránu” þeirri er Jóhannes Snorrason var u.þ.b. skotinn niður í yfir Eyjafirði í stríðinu. Hún var sögð hafa endað lífdagana á hraunsléttu í Bláfjöllum“. Forvitnin var sem sagt vakin.
Skv. upplýsingum Karls Hjartarsonar átti brakið úr vélinni á sléttu hrauni í ca. 15-20 mín. gang vestur af skíðaskálanum í Bláfjöllum. Hreyfill úr vélinni væri þar, gluggastykki og meira brak.
Karl sagði að Arngrímur Jóhannsson hefði sótt annan hreyfilinn af „Gránu“ á sínum tíma og einnig hreyfil úr flugvél ofan við Grindarskörðin. Hann hefði verið af Hudsonvél. Báðir væru þeir nú væntanlega við flugskýli í Mosfellsbæ.
Leifar „Gránu“ má skv. framangreindu nú sjá á hraunsléttu vestan Bláfjalla. „Grána“ þessi á að hafa fæðst Avro Anson. Sú tegund flugvéla var nefnd eftir breskum aðmíráli frá því á 18. öld (Georg(e) Anson barón. Hann var fæddur 1697 og dó 1762). Fyrstu Anson flugvélinni var flogið árið 1935. Yfir 11.000 vélar voru smíðaðar. Þær voru í notkun allt fram til 1968.
BláfjöllAð þessu sinni var stefnan tekin 10° norðan við vestur norðan Strompana. Haldið var inn á Strompahraunið, framhjá hellakerfunum og miðað á Þríhnúka. Harðfennisskán þakti mosa og lægðir svo auðvelt var að ferðast um svæðið á tveimur jafnfljótum. Áður en komið var inn á slétt helluhraunið var gengið fram á djúpt jarðfall. Undir sást stór hraunrás. En þar sem ljós var ekki með í för var horfið frá því að skoða rásina, en GPS-hnit tekin. Að sögn Björns Hróarssonar er þarna um hluta Langhellis að ræða, um 100 metra frá aðalopinu. Þessi rás hafi jafnan verið talin með meginrásinni.
Eftir 1.200 m göngu  var komið að brakinu á sléttri hraunhellunni. Stjörnuhreyfillinn sást vel sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga. Ekki var að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Það gæti þó verið ef þeim yrði snúið við, en ekki var snert við neinu í þessari ferð.
BláfjöllÁ meðan á skoðun stóð sveimaði ljósleitur fálki (táknmynd flugsins) yfir staðnum. Hann tók kolldýfu og beygði jafnskótt af, flaug að gígbarmi skammt frá og tillti sér þar – fylgdist greinilega vel með öllu sem hreyfðist.
FERLIR hefur það jafnan fyrir sið að láta allt óhreyft á vettvangi. Dæmi eru um að fólk, sem tekið hefur með sér hluti úr óhappaflugvélum, til minningar um atburðinn eða einungis komur þess á slysavettvang, hefur sjálft orðið fyrir óhappi skömmu síðar.
Þannig má nefna dæmi um komu FERLIRs í Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma.
Einn félaganna vildi ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Hann var talinn frá því. Skömmu síðar gerði hann sér ferð á vettvang með það fyrir augum að taka með sér hlut úr flugvélinni. Á leiðinni til baka týndi hann gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann fór til baka og skilaði hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Fyrir fimm árum gengu FERLIRsfélagar fram á hluta af trégrind „Gránu“ austsuðaustan Þríhnúka, u.þ.b. 200-300 metrum vestan við vettvanginn. Í öðrum ferðum síðar um svæðið hefur ekkert borið á grindinni. Hún gæti því hafa verið fjarlægð eða fokið í lægð.

Jóhannes Snorrason er fæddur 12 nóvember 1917, á Flateyri, en ólst upp á Akureyri. Hann fékk ungur áhuga á flugi og var í hópi ungra manna á Akureyri sem stofnuðu Svifflugfélag Akureyrar árið 1937. Þeir hófust strax handa og smíðuðu renniflugu (svifflugu) af gerðinni Grunau 9, eftir þýskri teikningu. Jóhannes lærði síðan að fljúga þessari renniflugu og hóf þannig flugmannsferil sinn.
Í bók sinni „Skrifað í skýin“ (1981) segir Jóhannes frá ferðum sínum á „Bresku gránu“.
Flugfélag Íslands átti aðeins eina Beechcraftflugvél til farþegaflugs eftir að Waco sjóflugvél félagsins hlekktist á á Hornafirði. Vorið 1944, eða í bryjun marsmánaðar, bilaði hreyfill Beechcraftvélarinnar, sem Örn Ó. Johnson flaug, austur á Egilsstöðum þar sem hann var að sækja veika konu. Breska herliðið á Reykjavíkurflugvelli hafði mörgum flugvélum á að skipa og voru Bretarnir jafnan mjög vinsamlegir þegar leita þurfti til þeirra. Nú stóðu flugvélar hersins í röðum á flugvellinum. „Afgömul og ósköp þrytuleg Avro Anson flugvél var meðal flugvéla berska flughersins á Reykjavíkurflugvelli. Hún leit út eins og búið væri að margskjóta hana niður og líma sman aftur. Þarna stóð hún sunnanundir skýlisvegg með slapandi vængi og það gljáði á hana í rigningunni. Hefði hún mátt mæla hefði það vafalaust orðið: „Æi leyfið mér að hvíla í friði“.
Flugvél þessi fékkst að láni. „Við gáfum henni strax nafnið „Grána“ og festist það við hana þann stutta tíma sem hún átti eftir að vera í heilu lagi.“
Þá var flogið af stað til Egilsstaða með tvo rafgeyma og varahlut í biluðu flugvélina. Fimm voru um borð, þrír Bretar auk tveggja Íslendinga. Í stuttu máli var snúið við, enda kannski eins gott því breski flugmaðurinn virtist vart vita í hvaða átt hann átti að fljúga til að komast austur á land. Hann hafði tekið stefnuna á Snæfellsnesið þegar ís tók að myndast á framrúður og tvísýnt var hvort flugvélin komist yfirleitt yfir jökulinn. Þegar í ljós kom að flugið var ekki áhættunnar virði var snúið til baka og lent á Reykjavíkurflugvelli.
Bláfjöll Strax næsta dag var ákveðið að leggja aftur á stað, og var nú veðrið betra. Sama áhöfn var um borð og daginn áður. Eftir sögulega ferð þar sem áhöfnin skildi ekki „hvernig í ósköpunum flugvélin hékk saman eð hvernig flugstjórinn hélt henni á sæmilega réttum kili inn fyrir Ólafsfjarðarmúlann…“. Herskip lá rétt norðan Hríseyjar, „sem ávallt hélt vörð um fjörðinn, og þar höfðu menn vakandi augu með óvinaflugvélum, sem stöku sinnum komu í heimsókn. Við stefndum aðein svinstra megin við herskipið, og hafði ég ekki sérstaklega áhyggjur af því… Nú vorum við á herflugvél, greinilega merktri, og varla myndu þeir fara að agnúast við sína eigin menn… Ég hafði ekki virt þetta fyrir mér nema örfáar sekúndur, þegar ég sá rauðglóandi kúnahríð koma upp með okkur hægra megin. Ég öskraði í flugstjórann að þeir væru að skjóta á okkur, en hann gretti sig og yppti öxlum, hefir sennilega haldið að ég væri að gera að gamni mínu.
Nú var ástandið hreint ekki glæsiegt, við flugum í aðeins 1500 feta hæð á hægfleygri vél, höfðum enga möguleika á að tala við landstöðvar eða skipið, og hlutum þvía ð vera dauðadæmt skotmark. Ekki leið á löngu þar til kúlnahríðin var beggja megin flugvélarinnar og fyrir framan hana. Mátti greinilega heyra geltið í vélbyssunum betur en drunurnar í hreyflum vélarinnar. Okkur var öllum ljóst, að við vorum komnir í hinn mesta lífsháska, svo til beint yfir herskipi, þrælvopnuðu nýtísku loftvarna- og vélbyssum og skotið af þeim öllum á þetta hægfara krossviðar- og strigaskrifli, á okkur bjargarlausa og bráðsaklausa.
Það var vægast sagt óhungnanlegt að horfa á eldrákirnar… Við flýðum allt hvað af tók og lækkuðum flugið í um það bil 600 fet. Þegar skipið var horfið og við sennilega komnir úr skotfæri við þetta spúandi eldfjall, héldum við, að við hefðum sloppið með skrekkinn, en það var öðru nær. Nú tóku loftvarnarbyssur á landi að skjóta á okkur og sprungu kúlur allt í kringum flugvélina.“
Bláfjöll Þeir félagar komu flugvélinni þrátt fyrir þetta, og mikið meira, inn á flugbrautina. Flugvélin var ekki ferðafær fyrr en gert hafði verið við hana til bráðabirgða og límdur dúkur yfir kúlnagötin. „Næsta dag héldum við ferðinni áfram til Egilsstaða, og kom sjúka konan þar um borð…“. Varahluturinn var skilinn eftir ásamt yfirvélamanni, Brandi Tómassyni. Á leiðinni tl baka kviknaði í flugvélinni, en áhöfninni tókst að slökkva eldinn. Þegar lent var á Reykjavíkurflugvelli kom í ljós að klæðningin hafði rifnað undan öðrum vængnum á allstórum kafla svo skein í ber rifin.
„Ekki leið langur tími þar til Grána fórst á Bláfjöllum, en breskir flugmenn á leið til Hornarfjarðar flugu of lágt yfir fjallgarðinn með fyrrnefndum afleiðingum, en héldu þó lífi.
Í Bláfjöllum liggja nú leifar gömlu Gránu grafnar í hraun og mosa.“ FERLIR sannreyndi það í þessari ferð, 61 ári eftir að síðasta áfangastað flugvélarinnar „Bresku Gránu“ var náð þarna á hraunsléttunni – þar sem beinar línur austur af Þríhnúkum og suður af Stóra Kóngsfelli skerast.
Árið 1941 fór Jóhannes til Kanada og lauk námi til atvinnuflugmanns hjá Flugskóla Konna Johannesson í Winnipeg. Í miðri heimsstyrjöldinni síðari, 15. október 1943, hóf Jóhannes störf sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands. Þá var nýkomin til landsins fyrsta fyrrnefnda tveggja hreyfla flugvél Íslendinga, Beechcraft 18D. Fyrsta verkefni hans þar var að fljúga þeirri flugvél með Erni Johnson, flugstjóra og framkvæmdastjóra Flugfélagsins og síðar forstjóra Flugleiða. Seinna á stríðsárunum flaug Jóhannes mikið deHavilland Dragon Rapide flugvélum Flugfélagsins.
Breska grana-221 Jóhannes var flugstjóri í fyrsta millilandaflugi Íslendinga með farþega árið 1945. Var það til Skotlands og farkosturinn Catalina flugbátur. Með þessu flugi var lagður hornsteinn að þessum mikilvæga þætti í samgöngumálum Íslendinga.
Af öðrum flugvélategundum sem Jóhannes flaug á sínum flugmannsferli má nefna Grumman Goose, Douglas DC-3, DC-4, DC-6, Vickers Viscount og síðast Boeing 727 þotu.
Á ferli sínum þótti Jóhannes afar farsæll og öruggur flugmaður. Hann varð yfirflugstjóri Flugfélags Íslands árið 1946 og gengdi því hlutverki þar til hann lauk ferli sínum 7. nóvember 1980, þá í þjónustu Flugleiða. Var þá 37 ára atvinnuflug að baki og 30.000 flugtímar, og þar eru taldar með sekúnturnar sem hann flaug Grunau 9 í Eyjafirði.
Mikil breyting varð á farkostum frá því að framangreind flugferð Jóhannesar með „Bresku Gránu“ fór fram árið 1944 þar til hann lauk ferlinum á „stapilli“ Boeing 727 árið 1980 – 36 árum síðar.
Gangan tók 1 klst og 1 mín. Frábært veður, blankalogn og stilla í kvöldsólinni.
Þess má geta sett hefur verið á fót Flug og -sögusetur Reykjanesbæjar, sem nú er orðin deild innan Þjóðminjasafnsins. Formaður þess er Hjálmar Árnason Alþingismaður. Húsnæði fyrir safnið hefur ekki legið á lausu. Í stjórn safnsins er m.a. Arngrímur Jóhannsson.

Heimildir m.a.:
-http://www.flugsafn.is/frumkvodlar_JS.htm
-Jóhannes Snorrason, „Skrifað í skýin“ – AB 1981, bsl. 129-141.

Brak

Fjara

 Nærtækastu útivistarsvæði Grindavíkur, sem og allra annarra sjávarbyggðalaga á Reykjanesskaganum, eru fjaran annars vegar og heiðar og fjöllin hins vegar. Hér er ætlunin að gera fjörunni svolítil skil.
Fullt tunglFjara er nafnið á breytilegum mörkum lands og sjávar. Þar sem sjávarfalla gætir verður þessi ræma ýmist breiðari eða mjórri en ella. Sjávarföll sjást mjög greinileg í sjó.
Sjávarföll eru afar regluleg. Þegar sjávarmálið er hæst eru flóð, háflóð eða hásjávað. Þegar sjórinn tekur að lækka verður fjara eða sé útfall. Um sex klukkustundum og fimmtán mínútum eftir að útfall byrjar stendur sjórin lægst, þá er fjara, háfjara, lágfjara eða lágsjávað. Sjávarföll breytast einnig reglulega eftir því hvernig stendur á tungli. Þau eru einna mest á tveggja vikna fresti þegar tunglið er fullt eða nýtt. Þá er sagt að stórstreymt sé. Minnst eru svo sjávarföllin um viku eftir stórstreymi, og er þá sagt að sé smástreymt. Aðdráttarafl tungls og sólar á jörðinia valda sjávarföllum, og hefur tunglið mun meira að segja. Þessir hnettir toga í jörðina, og fer það eftir afstöðu þeirra hvar togkrafturinn verkar mest.
ÞangUmhverfið í fjörunni er á margan hátt sérstakt og gerir hana að einstæðu búsvæði fyrir lífverur. Hún liggur á mörkum tveggja ólíkra heima og ber einkenni beggja. Sá umhverfisþáttur sem fyrst og fremst breytist þegar haldið er niður eftir fjörunni eða upp eftir henni er auðvitað vætan, eða með öðrum orðum það hversu oft og hversu lengi í senn fjaran er á kafi eða á þurru. Lífríki fjörunnar er mikið en ætla mætti að það fyndist álíka mikið af sjávarlífverum og landverum en svo er ekki, sjávarlífverur ráða ríkjum í fjörunni. Sumar þeirra lifa helst ekki nema í fjörunni sjálfri, fjaran er aðalkjörlendi þeirra
Umhverfi fjörunnar er mjög misjafnt, sumstaðar er sandur og möl en svo er sumar fjörur þaktar brimnúnum hnullungum. Þannig að fjörunum er skipt niður í ákveðna flokka eftir hvernig þær eru gerðar.
Þangfjörur eru einn af þessum flokkum og eins og nafnið gefur til kynna þá er það þangið sem setur svip sinn á þessar fjörur. Þangfjörur finnum við helst þar sem brim er ekki mikið og þar sem fjörubeðurinn er klappir eða nokkuð stórir hnullungar. Þangfjörur eru ein útbreiddasta fjörugerðin hér við land, en þó er lítið um þangfjörur við suðurströnd landsins. 

Fjörugrjót

Þangfjörur eru mjög auðugar af lífi, þar þrífast margar tegundir þörunga og dýra. Hrúðukarlafjörur er þar sem brim er mikið og undirlagið klappir en við þessar aðstæður er hrúðukarlinn það sem mest ber á. Hann situr vel fastur og þarf ekki að óttast það að brimið slíti hann upp. Fáar aðrar tegundir þola þetta. Fjörusvertan lætur þó brimið ekki á sig fá og litlar klappir svartar ofan við hrúðukarlana, og í sprungum þar leynast klettadropar. Fjörur af þessu tagi má kalla hrúðurkarlafjörur. Hnullungafjörur fyrir opnu hafi eru þær fjörur sem innihalda hnullunga sem eru brimnúnir og hafa skarpar brúnir máðst af á löngum tíma. Öldurótið hreyfir hnullungana nema þá stærstu. Ef brim er ekki því meira geta þörungar vaxið á stærstu steinunum, helst ofarlega á þeim þar sem ekki er hætta á því að fá högg frá smáum steinum sem brimið hreyfir. Búsvæði fyrir dýr í þessum fjörum finnast á milli hnullunga langt undir yfirborðinu.
Skjóllitlar sandfjörur eru þar sem fjaran er fyrir opnu hafi. Í þessum Skeljar og hrúðurfjörum er oft mikið brim og sandurinn því á mikilli hreyfingu. Þessar fjörur sýnast alveg lífvana, en við þær má oft sjá seli. En við nákvæma skoðun kemur í ljós ótrúlega mikið af örsmáum dýrum sem hafast á milli sandkorna. Í sandfjörum fyrir opnu hafi er það mikil endurnýjun á sjónum milli sandkornanna að til súrefnisskorts kemur varla. Kræklingsleirur myndast þar sem er sandur eða möl og gott skjól, við þessar aðstæður verður kræklingu oft mjög áberandi. Þessar fjörur eru yfirleitt sléttar og flatar og mjög stórar um sig. Fjörufuglar sækja mikið í kræklingsleirur. Beðurinn í kræklingsleirum er stundum svo gljúpur að sum dýr geta grafið sig ofan í hann og komið sér þar fyrir. Sandmaðksleirur myndast þar sem skjól er gott og beðurinn mjög fíngerður, fínn sandur eða möl, en við þessar aðstæður verður sandmaðkurinn sú lífvera sem mest ber á. Sandmaðksleirur eru rennisléttar og flatar og mjög stórar um sig. Mestar eru þær innst í fjörðum og vogum. Oft er mikið af fuglum á sandmaðksleirum. Sjávarfitjar myndast ofarlega í fjörum, þar sem skýlt er, og hefur jarðvegur með háplöntugróðri sums staðar náð að myndast. Gróðurinn er fábreyttur. Sjávarfitjungurinn svonefndi, sem er grastegund, er oftast ríkjandi. Á sjávarfitjum er oft mikið af smátjörnum.

Fjaran

Lífríki þessara tjarna er nokkuð sérstætt, en misjafnt en það er seltumagnið sem ræður hvers konar plöntur og dýr finnast þar. Sjávarfitjar mynda aðeins hluta fjörunnar á hverjum stað, því neðan við þær taka aðrar fjörugerðir við, þangfjörur eða leirur. Árósar og sjávarlón eru svæði sem bæði hafa fjörur. Árósar er það svæði þar sem sjór og ferskt vatn mætast. Lífríki árósa er að mestu leyti ættað úr sjónum. Sjávarlónin eru svæði sem sumpart líkjast árósum. Þetta eru vötn eða vogar sem tengjast sjónum, en þessi tengsl eru takmörkuð miðað við það sem gerist í opnum árósum. Lífríkið er mjög fábreytt vegna lítillar seltu

Fjörudýr
Kræklingurinn er eitt allra algengasta dýr fjörunnar hérlendis eins og víða erlendis. Þó er hann enn algengari neðan fjörunnar. Hann gerir raunar óvenju litlar kröfur til umhverfisins. Í fjörum er hann bæði að finna í klettafjörum fyrir opnu hafi þar sem brim er oft mikið, í venjulegum þangfjörum og við árósa. Það má oft sjá þess merki að kræklingurinn kann sérlega vel við sig þar sem ferskt vatn rennur til sjávar, við lækjarsprænur í fjörunni eða við árósa. Kræklingurinn situr fastur við við undirlag sitt með sérstökum þráðum sem hann spinnur. Kræklingurinn er í hópi svonefndra síara, en það eru dýr sem sía örlitlar fæðuagnir úr sjónum með sérstökum líffærum.

Aða

Kræklingurinn er mikið lostæti að mati manna og ýmissa dýra. Margir fuglar eru gráðugir í krækling, ekki síst æðarfuglinn, en einnig ýmsir vaðfuglar og máfar. Þótt kræklingurinn sé eitt algengasta fjörudýr hér við strendur er það þó svo að langmest af þeim kræklingi sem Íslendingar leggja sér til munns á síðari árum er erlend, niðursoðin vara.
Marflær eru krabbadýr sem eru mjög algeng í fjörum og af þeim eru margar mismunandi tegundir. Algengastar eru svokallaðar fjöruflær, en þarna eru á ferð eina átta tegundir sem eru svo líkar innbyrðis að það er aðeins á færi sérfræðinga að greina þær í sundur. Þegar lágsjávað er safnast fjöruflær fyrir undir steinum, þangi eða reköldum. Þar helst raki, en fjöruflærnar þola þurrt loft aðeins í skamman tíma. Sumar marflær í fjöru ganga um á réttum kili, en skríða ekki á hliðina eins og fjöruflærnar.
Bogkrabbinn er dæmi um sjávardýr sem er að finna bæði í fjörunni sjálfri og á sjávarbotni neðan fjöru. Það eru einkum smáir krabbar sem halda til í fjörunni, og eingöngu að sumri til. Þegar haustar halda allir bogkrabbar niður úr fjörunni. Bogkrabbinn er rándýr eins og flestir aðrir krabbar. Hann grípur bráð sína með klónum á gripfótunum og heldur henni að munninum, þar sem sterkir kjálkar aðrir munnlimar vinna á henni. Bogkrabbar hafa tíu fætur, þar með taldir hinir stóru gripfætur fremst á bolnum sem eru raunar ekki notaðar til gangs.

Krossfiskar eru flokkaðir í tvo flokka, stórkrossa og roðakrossa. Stórkrossinn verður fimmtán sentimetrar eða meira í þvermál, en roðakrossinn vart meira en átta sentimetrar. Báðir krossfiskarnir eru fimm-arma, en algengt er þó að rekast á krossfiska með færri arma. Krossfiskar eru búnir fjölmörgum smáum sogfótum á neðra borði. Þeir hreyfa sig úr stað með þessum sogfótum, en eru mjög hægfara. Krossfiskar eru rándýr, sem einkum leggjast á samlokur. Þeir skríða yfir bráð sína, festa sogfætur við báða skeljahelminga og taka síðan til við að toga skeljarnar í sundur.

Fjaran er allt árið

Ásamt þessum dýrategundum má nefna svona helstu tegundir sem finnast við íslenskar fjörur eins og hrúðukarla, slöngustjörnur, skollakroppur og þangflugur.
Fjörur eru margvíslegar að gerð til dæmis eftir gerð undirlags, halla og brimasemi, seltu, hitastigi sjávar. Það eru klettafjörur, malarfjörur, hnullungafjörur, sandfjörur og leirur.
Brim og undirlag hefur líklega langmest áhrif á hvers konar lífríki er að finna í fjörunni.
Skjólsælar fjörur geta verið með leir eða fíngerðum sandi. Þær virðast snauðar við fyrstu sýn en ofan í leirnum leynist oft fjölskrúðugt lífríki. Vaðfuglar hópast í leirfjörur í leit að æti vor og haust.
Bóluþang er brúnþörungur. Plantan er 40 til 90 cm há. Blöðin eru 1 til 2 cm breið með greinilegri miðtaug. Blöðin kvíslgreinast með tiltölulega reglubundnum hætti. Á bóluþanginu eru hnöttóttar loftfylltar blöðrur sem eru tvær og tvær (stundum þrjár) saman, sín hvorum megin miðtaugarinnar. Blöðrurnar eru oftast ofan til á þanginu en stundum er þær í þéttum röðum niður eftir allri plöntunni. Bóluþangið er brúnt en stundum grænleitt eða brúnleitt.
Fjörugrös eru rauðþörungar, 5 til 20 cm há. Upp af festuflögu, sem festir þau við klappir og stóra steina, vex flatur stilkur sem breiðist út í blævængslaga plöntu. Fjörugrösin eru kvíslgreind með sléttum greinum sem eru 0,5 til 1 cm á breidd og eru greinarendarnir oftast bogadregnir. Þau eru dökkrauð, oft næstum svört á lit, sérstaklega neðri hluti plöntunnar. Þar sem þau vaxa í mikilli birtu verða efri hlutar plöntunnar gulleitir eða grænleitir.
Útlit og stærð fjörugrasa er talsvert breytilegt eftir því hversu brimasöm fjaran er þar sem þau vaxa. Í brimasömum fjörum vaxa þau stundum mjög þétt, eru lágvaxin og mynda þekju sem líkist grófri mosaþekju. Stundum slær af þeim ljósbláum bjarma sem stafar af ljósbroti í greinunum. Talið er að fjörugrös geti orðið að minnsta kosti 6 ára gömul. Hugsanlegt er að festurnar séu enn eldri en nýjar plöntur geta vaxið aftur og aftur upp af sömu festunni.
Önnur tegund rauðþörunga, sjóarkræða, getur líkst fjörugrösunum en hana má greina frá fjörugrösum á því að greinar hennar eru rennulaga.
Kólgugrös eru 5 til 25 cm langir, óreglulega greinóttir rauðþörungar. Oftast er einn stofn sem er þéttvaxinn hliðargreinum sem greinast aftur. Ystu greinarnar eru holar að innan en stofngreinarnar stinnar og gegnheilar. Stofngreinarnar eru dökkrauðar eða svartar en ytri greinarnar rauðar. Á vorin og sumrin upplitast ytri greinarnar og verða gul- eða grænleitar.
SkúfþangKólgugrös eru fjölær. Fyrsta árið vex upp ein grein. Næsta ár verður hún að stofngrein en aðrar greinar vaxa út úr henni neðan til. Síðan bætast enn við greinar árið þar á eftir. Talið er að kólgugrös geti orðið þriggja til fjögurra ára gömul.
Marhálmur er grastegund sem vex í sjó, er oftast 30 til 70 cm á lengd en getur orðið meira en einn metri. Ofan í botnleirnum vaxa jarðlægir stönglar og upp af þeim blaðþyrpingar með reglulegu millibili. Blöðin eru löng og bandlaga og bogadregin fyrir endann. Þau eru 2 til 4 mm á breidd og með einum til þremur æðastrengjum. Blöð marhálms eru dökkgræn á litinn en jarðlægu stönglarnir eru hvítir eða ljósgrænir. Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.
Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.
Maríusvunta er blaðlaga grænþörungur sem er 5 til 15 cm á lengd og 3 til 10 cm á breidd. Maríusvunta getur þó orðið miklu stærri eða allt að 60 cm í þvermál, helst verður hún svo stór á mjög lygnum stöðum. Hún festist við klappir og grjót með lítilli skífulaga festu og upp af henni er mjög stuttur stilkur. Eitt heilt blað situr á stilknum. Það er bylgjótt og heilrennt, fagurgrænt á litinn og glansar þegar ljósið fellur á það. Þegar blaðið eldist slitnar það, étin eru á það göt og blaðið verður óreglulegt í lögun.
Maríusvunta er lík nokkrum öðrum tegundum af grænum himnum sem vaxa í fjörunni, m.a. grænhimnu og marglýju. Þær eru báðar talsvert þynnri en maríusvunta og við smásjárskoðun á þversneið af blaðinu sést að maríusvunta er gerð úr tveimur frumulögum en hinar einungis úr einu.
Skúfþang er blaðlaga brúnþörungur. Blöðin eru kvíslgreind og slétt, með fremur ógreinilegri miðtaug. Skúfþangið getur verið mjög breytilegt í útliti. Algengasta afbrigðið er 30 til 90 sm langt með 1 til 2 cm breiðum, sléttum blöðkum. Afbrigði sem vex í skjólsælum fjörum er breiðara og er með stórum aflöngum loftblöðrum sem liggja tvær og tvær saman, sín hvorum megin miðtaugarinnar. Annað afbrigði sem lifir í fjörupollum efst í fjörunni í fremur brimasömum fjörum er um 20 til 40 cm langt og hefur mjóar greinar, sem eru um og innan við ½ cm á breidd. Á klöppum í mjög brimasömum fjörum er enn eitt afbrigði skúfþangs sem hefur tiltölulega stóra og kröftuga festu, þykkan stilk og er lágvaxið.
Söl eru rauðþörungar. Plantan hefur lítinn stilk sem er sjaldan lengri en 5 mm. Upp af stilknum vex oftast eitt en stundum fleiri blöð (stofnblöð). Út úr jöðrum stofnblaðsins vaxa hliðarblöð sem eru aflöng og þynnri en stofnblaðið. Heildarlengd sölva er venjulega 20 til 30 cm. Söl eru dökkrauð á lit þar sem þau vaxa í fullsöltum sjó. Söl sem vaxa í fjörunni geta hins vegar upplitast og orðið gul eða græn. Sérstaklega ber á því ef þau lenda í sterku sólarljósi eða ef þau vaxa í seltulitlum sjó, til dæmis nálægt árósum. Neðsti hluti plöntunnar er þó alltaf rauður.
SölSöl vaxa aðallega snemma á vorin. Algengast er að þau vaxi upp af brotum af gömlum stofnblöðum, sem hafa orðið eftir frá fyrra ári (sölvamóðir). Söl byrja að þroskast seinni hluta mars og eru venjulega fullsprottin í lok maí eða byrjun júní. Lítill vöxtur er síðan yfir sumarið en þá safna sölin í sig forðasykrum. Um haustið byrja plönturnar síðan að slitna. Fyrst falla hliðarblöðin af en smám saman slitnar einnig af stofnblaðinu og lifir aðeins hluti af því yfir veturinn. Næsta vor vaxa ný hliðarblöð aftur út frá jöðrum gamla stofnblaðsins. Þannig getur hver planta lifað í nokkur ár. Eftir að vöxtur hættir í byrjun sumars, fara ýmsar ásætur, dýr og plöntur að taka sér bólfestu á sölvunum og er venjulega mest um ásætur á blöðunum í lok sumars.
Klettafjörur og stórgrýtisfjörur er helst að finna þar sem nokkurs brims gætir og þar sem fjaran er fyrir opnu hafi. Þar er fjölbreytt líf bæði dýra og þörunga.
Brim og undirlag hefur líklega langmest áhrif á hvers konar lífríki er að finna í fjörunni.
Þar sem brim er mikið eru flestar lífverur fastar við botninn en hreyfanlegar lífverur geta þó þrifist þar í skjóli undir þanginu. Eftir því sem brimið minnkar eykst fjöldi hreyfanlegra lífvera í fjörunni.
Dvergþang er smávaxinn brúnþörungur. Það er 5 til 10 cm hátt, ljósbrúnt á lit eða gulleitt. Greinarnar eru 1 til 4 mm breiðar, rennulaga og án miðtaugar. Greinarnar kvíslgreinast. Dvergþang er fest við botninn með lítilli, skífulaga festu. Enginn stilkur er á dvergþangi.
Dvergþang vex hægt eða 3 til 4 cm á ári þegar vöxtur er mestur. Talið er að dvergþangið geti orðið 4 ára gamalt.
Allra efst í fjörunni ofan við þörungana eru grjót og klappir iðulega þaktar skófum sem oft eru svartar og líkjast tjöruskán á steinunum. Skófirnar geta þó verið margvíslegar á litinn, grænar, gráar, appelsínugular eða hvítar. Oft mynda þær skorpur á steinunum en geta einnig verið smáar fíngerðar hríslur eða blaðlaga og festar við steininn með stilk.
Til eru allmargar tegundir skófna sem lifa efst í fjörunni en flestar þeirra er einnig að finna annars staðar. Þó eru til tegundir eins og fjörusverta (Verrucaria maura) sem bundin er við efri hluta fjörunnar og myndar þar þunna svarta skán á klöppunum. Græna flæðaskófin (Verrucaria mucosa) lifir um alla fjöruna niður að neðstu fjörumörkum og er eina tegund skófna sem lifir í neðri hluta fjörunnar hér við land. Hún er dökkgræn á litinn.
FlétturSkófir, sem eru einnig kallaðar fléttur, eru í raun ekki sjálfstæðir einstaklingar heldur sambýli svepps og þörungs. Sveppurinn í hverju sambýli er einstakur og er ekki að finna nema í einni fléttutegund. Þörungurinn er hins vegar ekki eins trygglyndur og getur sama þörungategundin fundist í mörgum fléttutegundum.
Í sambýlinu sér þörungurinn alfarið um ljóstillífun og nýmyndun lífræns efnis. Sveppurinn nærist á forðanum sem þörungurinn myndar. Á móti ver hann þörunginn fyrir beit, of sterku ljósi og heldur honum rökum.
Klapparþang er blaðlaga brúnþörungur sem er 10 til 30 cm hár. Það er fest við botninn með skífulaga festu. Upp af festunni er sívalur stilkur sem endar í greinóttum blöðum. Blöðin eru ½ til 1 cm breið með greinilegri miðtaug. Þau eru kvíslgreind og eru sjaldan með loftblöðrum sem eru aflangar, tvær og tvær saman sín hvorum megin miðtaugarinnar. Greinar klapparþangsins eru uppsnúnar og er það greinilegast á efstu greinunum. Klapparþangið er brúnt eða gulbrúnt á litinn en getur orðið rauðleitt eftir langvarandi þornun. Það er fjölært og getur orðið a.m.k. 5 ára gamalt.
Klóþang er að stofni til kvíslgreint, sem sést vel ef maður skoðar endagreinarnar, en vegna hliðarsprota sem vaxa út úr stofninum virðist plantan fljótt á litið óreglulega greinótt. Greinarnar eru flatvaxnar. Loftfylltar bólur eru með mismiklu millibili á greinunum. Bólurnar eru venjulega þéttastar nálægt endum greinanna en gisnari eftir því sem neðar dregur. Á hverju ári myndast ein ný loftbóla rétt neðan við enda greinanna. Greinar klóþangs verða um einn cm á breidd og plantan sjálf er oftast 0,5 til einn metri á lengd en getur orðið allt að tveimur metrum. Á vorin vaxa litlir uppblásnir belgir út úr hliðum greinanna. Það eru æxlunarfærin sem detta af þegar plantan æxlast um sumarið.
Klóþang er oftast gulbrúnt á að líta, þar sem það liggur í fjörunni, en ef því er velt við sést að neðstu hlutar þess, sem eru í skugga, eru ólífugrænir. Talið er að klóþang geti orðið meira en 100 ára gamalt.
Kóralþang er kalkkenndur rauðþörungur. Það er oftast 3 til 8 cm langt en getur orðið 12 cm. Plantan vex upp af skorpulaga festu sem hefur óreglulega lögun og getur verið allt að 7 cm í þvermál. Hún er greinilega liðskipt, gerð úr stuttum kalkkenndum, sívölum liðum. Greinarnar eru gagnstæðar og og sitja þétt eins og fanir á fjöður. Þær eru lengstar neðst, næst festunni en styttast eftir því sem nær dregur toppi. Litur kóralþangs er fjólublár, rauður eða bleikur, oftast þó hvítur á endum greina og við liðamót. Æxlunarfærin eru perulaga og sitja á endum greinanna. Það eru æxlunarfærin sem detta af þegar plantan æxlast um sumarið.
Kóralþang er fjölær planta. Þegar vöxtur er hraðastur vex hún um 0,2 til 1 mm á mánuði. Heildarársvöxturinn er þó sennilega sjaldan meiri en 1 til 3 mm við það hitastig sem ríkir hér við land.
Sagþang er fremur stórvaxinn brúnþörungur. Það er oftast 40 til 70 cm hátt en getur orðið meira en einn metri á hæð. Það er fest við klappir eða steina í fjörunni með heilli, óreglulegri festuflögu. Upp af henni vex sívalur stilkur sem flest út í greinótt blöð sem eru 2 til 3 cm á breidd. Sagþangið er oftast kvíslgreint en er stundum með víxlstæðar greinar. Greinileg miðtaug er í blöðunum og beggja vegna hennar eru blöðin með litlum, hvítum hárskúfum sem sjást vel þegar blaðið þornar. Jaðar blaðanna er áberandi sagtenntur, með tennur sem vísa upp. Sagþang þekkist vel af tönnunum. Það er gulleitt, ljósbrúnt eða ólívugrænt. Á greinunum eru engar loftfylltar bólur. Sagþang er fjölær planta sem lifir í 2 til 5 ár Hún vex um 4 til 12 cm á ári.
Sjóarkræða er rauðþörungur sem er 5 til 10 cm á hæð með greinum sem eru um 0,4 til 0,8 cm á breidd. Hún vex upp af skífulaga festu. Sjóarkræða er óreglulega kvíslgreind og eru greinarnar rennulaga. Þegar sjóarkræðan er fullvaxin eru separ á greinunum og eru flestir þeirra inni í rennunni. Greinarnar eru stinnar og geta verið uppundnar eða hlykkjóttar. Sjóarkræða er dumbrauð, svört eða rauðbrún á litinn. Ef hún lendir í sterku sólarljósi getur hún upplitast og orðið ljósrauð eða gulleit. Þar sem sjóarkræða vex mjög þétt líkist hún samfelldri mosaþembu.
Önnur tegund rauðþörunga, fjörugrös, líkist sumum afbrigðum sjóarkræðunnar. Munurinn á tegundunum felst í að greinar sjóarkræðunnar eru rennulaga en fjörugrasanna flatar. Separnir á blöðum sjóarkræðunnar afhjúpa einnig tegundina.
Eins og sjá má hefur fjaran upp á fjölmargt að bjóða – engu síður en fjöllin.

Heimildir m.a.:
-http://nams.is/hafid/+fjaran
-http://fa.is/deildir/Liffraedi/VIS/VIS/hafid/fjaran.

Fjaran

Herdísarvíkurhraunshellir

Haldið var niður Herdísarvíkurhraunið sunnan við Sængurkonuhelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a. um Sængurkonuhelli: „Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.“ Sú gamla gata er enn djúpt mörk í helluhraunið.
Í annarri örnefnalýsingur segir að : „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Í fyrstu virtist „skútinn“ sá ‘arna varla merkilegur; en ryðbrunnið vaskafat innan við annars sléttgólfaðan munnann gaf þó ákveðna vísbendingu. Þegar áræðnir hellamenn frá HERFÍ könnuðu gripinn reyndist þar fyrir innan um a.m.k. 150 metra langur hellir með hinum ýmsu litbrigðum og hraunmyndunum, s.s. hraunstráum og dropsteinum.
Við fyrirhugaða könnun á Herdísarvíkurhraunshelli var átta metra langur stigi hafður með í farteskinu – minnug þess að í síðustu ferð þangað (Herdísarvíkurhellir I) niður eftir dugðu fjórir metrarnir skammt niður í hyldýpið.
Ekki er var óraunhæft að álykta að þarna væri um að ræða sömu rás og Sængurkonuhellir hafði fóður úr. Klifið er við Sýslustein og Klifhraun austan við. Sængurkonuhellir er skammt austan undir hraunbrúninni svo allt virtist þetta koma heim og saman.
Nú var sem sagt ætlunin að klifra niður í djúpt jarðfallið skammt ofan við ströndina austan Herdísarvíkur. Í þeim tilgangi átti stiginn að koma að góðum notum.
En enn einu sinni reyndist stiginn hins vegar of stuttur (sjá lokatilraunina – Herdísarvíkurhellir III).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Herdísarvíkurhraunshellir

Herdísarvíkurhraunshellir.

Staðarborg

Gengið var um ofanverða Kálfatjarnarheiði ofan og vestan Lynghóls. Reynt var að fylgja varðaði leið er horfið var frá í fyrri ferð um ofanverða heiðina, auk þess sem ætlunin var að skoða mannvistarleifar neðar í heiðinni; vestan og norðvestan Lynghóls.
VarðaVörður mynduðu, líkt og áður, tvöfalda röð til vesturs norðan núverandi Reykjanes-brautar. Þær staðfestu enn frekar að svo til bein leið hafi fyrrum legið yfir heiðarnar milli Kúagerðis og Vogastapa, allnokkru ofan Vatnsleysustrandar-vegar.
Þegar vel var að gáð mátti finna vörður og vörðubrot svo að segja á hverjum hól í heiðinni. Sumar voru grónar, en aðrar stóðu enn stöndugar. Á klapparholti suðaustan Lynghóls (Lynghólsborgar/ Þórustaðaborgar II) mátti sjá leifar enn einnar fjárborgarinnar, sennilega frá Landakoti. Bæjarhúsið þar neðanvert blasti við frá hólnum. Á öðrum hól skammt norðvestar mátti sjá a.m.k. fimm hlaðin skjól eftir refaskyttur í heiðinni. Auk þess mátti sjá leifar af enn eldri hlaðinni refagildru á hólnum miðjum. Vænta mátti minjaleifa í gróningum þar sem vörður eða vörðuleifar voru á hólum, en engar slíkar var hægt að staðsetja með óyggjandi hætti. Á sumum staðanna þyrftu þó að fara fram frekari rannsóknir áður en hægt væri að kveða á um hvort þar leyndust minjar eður ei. Fjárframlög til slíks ‘atarna liggur þó væntanlega ekki á lausu (eða fenginni reynslu).
Þar sem staðið var á efsta hólnum í heiðinni, þeim er bar við brún séð frá bænum, voru minjar. Erfitt var að sjá hvaða tilgangi þeir hafa þjónað. Um var að ræða einfaldar steinaraðir, 6×10 steinar, á tveimur stöðum á klapparhól. Svo virtist sem einhver hafi þarna verið að undirbúa vörðugerð eða einhverja aðra mannvirkjagerð í heiðinni.
Á næstunni verður vestanvert svæðið ofan Vatnsleysustrandar skoðað miklu mun nánar. Eflaust á þá ýmislegt áður meðvitað, en mönnum nú horfið, eftir að koma í ljós.Vatnsstæði
Í örnefnalýsingu (1976) fyrir Kálfatjörn lýsa bræðurnir Ólafur Erlendsson og Gunnar Erlendsson þessu vsæði svo: „Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu þeirra hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargagni. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang, sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka. Lýsingar á merkjum milli fjörupartanna kunna mönnum nú að þykja smásmugulegar. Það gat þó gilt 1-2 mánaða eldsneyti, hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eður ei.

Hleðslur

Staðarborg, fjárborg hringlaga, mjög vel hlaðin – er friðlýstar minjar. Ólafur hefur heyrt þá sögn um Staðarborg, að presturinn á Kálfatjörn hafi látið fjármann sinn hlaða hana, er hann stóð yfir fé. Munnmæli eru um, að fjármaðurinn hafi heitið Guðmundur og verið frá Knarrarnesi. Hann þótti frábær hleðslumaður, en sérsinna. Sagt er, að hann hafi ekki viljað nýta þá steina, er aðrir báru til hans og viljað vera einn um valið. Sýnt er, að mestallt grjótið hefur hann tekið úr einni og sömu klöpp þar ekki allfjarri. Hann ætlaði að hlaða borgina upp í topp og er hún farin að draga mjög í sig ofan til. Þegar prestur komst að þessu harðbannaði hann slíkt og lét Guðmund hætta hleðslunni.
Á borginni voru áður lágar dyr svo að stórgripir kæmust ekki inn í hana. Upp úr 1920 lenti trippi inn í borgina og til að ná því út var rifið fyrir ofan dyrnar og eru þær nú heilar upp úr.
SkjólSkammt norður af borginni er mikil hæð, sem kallast Þorsteinsskáli. Smá tóftarbrot er á henni. Alllangan spöl til útsuðurs frá Staðarborg er nokkuð stór hóll, er Lynghóll nefnist. Suðaustur frá Þorsteinsskála, ekki alllangt frá steypta veginum, er vörðubrot á hól; þar heitir Marteinsskál. Til austurs – landnorðurs frá Marteinsskála, skammt frá veginum, er hóll, sem sker sig mjög frá umhverfinu, sökum stærðar og hæðar. Hann heitir Stóri-Hafnhóll. Annar litlu minni er til norðurs frá honum, Litli-Hafnhóll.“
Ekkert er minnst á örnefni á framangreindu svæði í lýsingunni. Skammt norðan klapparhólsins, sem refaskyttuminjarnar eru á, mátti sjá vatnsstæði í gróinni lægð milli klapparhóla. Vörðubrot voru allt um kring. Líklegt má telja að þarna hafi fyrrum verið vatnsstæði fyrir Lynghólsborg/Þórustaðaborg II, enda ekki langt að fara.
Þarna í brúnunum er víða gróið í bollum. Telja verður mjög líklegt að heiðin hafi verið algróin fyrrum. Það skýrir væntanlega þá staðreynd að hvarvetna, sem borið er niður í heiðinni, má finna leifar mannvistar og búsetu frá því fyrr á öldum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. 

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Kálfatjarnarhverfi.

Varða

Kópavogsdysjar

Í bókinni „Rannsókn á Kópavogsþingstað“ eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er fjallað um fornleifauppgröft á þingstaðnum 1973-1976. Í inngangi eru raktar heimildir um svæðið sem og helstu minjar. Þar er m.a. minnst á fjögur kuml nálægt þingstaðnum, þ.e. Hjónadysjar, Systkinaleiði, Þorgarðsdys og Kuledys.
Kopavogsdysjar„Þingstaðurinn í Kópavogi er einn af þekktari þingstöðum landsins, og þá aðallega fyrir Kópavogseiðana svonefndu, sem þar voru unnir árið 1662. Talsverðar rústaleifar eru sjáanlegar á staðnum fyrir uppgröft, en að auki minna dysjar umhverfis staðinn á aftökur þær, sem þar áttu sér stað. Hjónadysjar eru enn allmikil þúst rétt austan við Hafnarfjarðarveginn. Vegavinnumenn rákust á dysina árið 1938, og fundu hauskúpu með miklu hári og aðra beinagrind hauslausa. Huldu þeir dysina aftur og var hún ekki rannsökuð frekar. Systkinaleiði munu nú vera undir Fífuhvammsveginum. Þorgarðsdys er rétt við gamla götuslóðann upp Arnarnesið, og efst á því er Kulesdys, dys Þjóðverja, sem dæmdur var til dauða fyrir manndráp.
Í AI V, bls. 56-7 segir: „Þann 23. febrúar 1582 var kveðinn upp dauðadómur á Kópavogsþingi yfir þýskum manni, Hinrik Kules, sem hafði vegið Bjarna Eíriksson á Bessastöðum. Sést dys hans, Kulesdys, enn efst á Arnarnesinu.“
Kopavogsdysjar-2Hinn 25. júní 1841 kom Jónas Hallgrímsson skáld við í Kópavogi á ferð sinni suður á Vatnsleysuströnd. Sýndi bóndinn þar, Árni Pétursson, honumgamla þingstaðinn, sem hann sagði vera í túninu og nefndi Þinggerði. Þá benti hann Jónasi á dysjar þeirra, sem teknir höfðu verið af lífi og var fróður um afdrif þess fólks.
Matthías Þórðarson krifaði grein um Kópavogsminjar í Árbók fornleifafélagsins 1929, en hann var þá þjóðminjavörður. „Suðaustan þjóðvegarins, rétt við Kópavogslækinn, hafa fundist fjórar dysjar, tvær og tvær saman. Eru þær nefndar hjónadysjar, sem er nær þingstaðnum (nr. 3 á uppdrætti Matthíasar) og systkinaleiði (nr. 4 á uppdrættinum) Þær síðarnefndu hafa nú horfið undir veginn.
Kopavogsdysjar-3Um Kule segir Matthías: „En hinn var dauðadómur yfir þýzkum manni, er Hinrik Kules hét. Var sá dómur kveðinn upp af sex mönnum, og samþyktur af Þórði lögmanni, 23. febr. 1582 »á almennilegu þriggja hreppa þingi« í Kópavogi. Þessi Hinrik Kules hafði vegið íslenzkan mann, Bjarna Eiríksson, á Bessastöðum sjálfa jólanóttina og ekki lýst víginu að lögum, svo það var dæmt morð og níðingsverk. En því er þessa dóms minnst hér, að sagt hefur verið, að dys sú, sem er efst á Arnarneshálsi, vestan við gamla veginn, sé dys dansks manns, er tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp. Skiljanlegt er að þjóðerni mannsins hafi skolast í frásögnunum, mann fram af manni í 3 aldir, og er ekki ólíklegt að þarna liggi Hinrik Kules. Dys þessi er nú að mestu grasi gróin.
Kopavogsdysjar-4Fleiri dysja verður vart í Kópavogi og sennilega eru þar nokkrar að auki, sem ekki eru kunnar nú. Verður sakmálasaga þessa þingstaðar ekki rakin hér, en getið nokkurra mála, sem kunn eru af annálum og dómabókum.“
Þá segir: „Árni prófessor Magnússon hefur getið þess í syrpu sinni, er hann nefnir Chorographica Islandica (213 svo í handrs. hans), að í Hraunhelli, er svo heitir, »fyrir sunnan Efferseyjarsel gamla«, hafi legið »þjófar (maður og kona) circa 1677, eða nokkru fyrr, hver þar fyrir ströffuð urðu á Kópavogsþingi 1677, þann 3. decembris«. Þau hafa sjálfsagt verið tekin af lífi þann dag samkvæmt dómi, dæmdum þar áður, líklega samdægurs, en af því er segir í Valla-annál og síðar skal tekið fram, er óvíst að aftaka þeirra hafi farið fram á sjálfum þingstaðnum. Hins vegar er þó líklegt, að dysjar tvær við Kópavogslæk séu leiði þeirra, því að þær eru nefndar »hjónadysjarnar«. Skal þeirra getið síðar.“
Kopavogsdysjar-5Í skýrslu frú Þuríðar Mathiesen segir m.a.: „Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“
Þegar litið var eftir dysjunum árið 2011 voru þær allar horfnar nema Kulesdysin efst á Arnarsneshæðinni.

Heimild:
-Rannsókn á Kópavogsþingstað, Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1986.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929, Matthías Þórðason, Kópavogsminjar, bls. 3-4 og 29-30.

Kópavogur

Frá Kópavogi.