Í BA-ritgerð Gunars Gímssonar um „Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél“ í maí 2020 segir m.a. um Ródólfsstaði:
Ródólfsstaðir
Mögulegar minjar um Ródólfsstaði sunnan undir Ródólfsstaðahæðum.
Elsta heimild um eyðibýlið Ródólfsstaði er í Ármanns rímum Jóns Guðmundssonar lærða árið 1637 en í einni rímunni gerir sauðaleitarmaður sér ferð „til Rotólfs austur//í rjóðri skógar byggði“ (Ármanns rímur, 1948, bls. 8). Setningin „Rotólfsstaðir norður undan Miðfellsfjalli“ er síðar rituð á lausan miða og er stungið inn í drög af Jarðabókinni, innan kaflans um Þingvallasveit, því þar þótti miðinn best eiga við (JÁM II, bls. 363). Í sóknarlýsingunni 1840 skrifar séra Björn Pálsson: „Bótólfsstaðir og Bæjarstæði í Miðfellshrauni“ og merkir býlin hér um bil mitt á milli Miðfells og Skálholtsvegar á korti (Björn Pálsson, 1979, bls. 186).
Brynjúlfur Jónsson.
Brynjúlfur Jónsson lýsir Ródólfsstöðum svohljóðandi í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1905: Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhornið vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skamt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn. (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 46–47). Brynjúlfi þykir nafn bæjarins merkilegra en rústirnar sjálfar og telur þær hljóta að hafa heitið Ródólfsstaðir en ekki Rótólfsstaðir, þar sem hann telur þær kenndar við einhvern Róðólf en nafnið hafi síðar orðið að „Ródólfi“. Dettur Brynjúlfi helst í hug Róðólfur (eða Hróðólfur) biskup en bætir svo við að „auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja“ (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 47).
Mjóanes.
Ekki verður séð að Brynjúlfur hafi vitað af þjóðsögulegum uppruna nafnsins í Ármanns rímum. Hann getur þá ekki sérlega nákvæmlega til um staðsetningu bæjarins en tæpum 30 árum síðar skrifar Ásgeir Jónasson úr Hrauntúni: Norðaustur af Fjallsenda eru Ródólfsstaðahæðir efri og neðri. Sú neðri er lág, og austur af henni er hóll mikill, er Rani heitir. Efri hæðin er gamall eldgígur, snýr frá austri til vesturs; vestur af henni er hæðardrag. Á því er stór og fallegur móbergshellir, sem vert mundi vera að athuga. Á milli hæðanna, sunnan grjótbala, er sagt, að verið hafi bærinn, sem hæðirnar bera nafn af, en óglöggt sáust þar tóftir síðast á nítjándu öld (sbr. þó árb. 1905, bls. 46–47). (Ásgeir Jónasson, 1932, bls. 81) Jónas Halldórsson í Hrauntúni, faðir Ásgeirs, telur hins vegar að Ródólfsstaðir hafi varla getað verið býli, enda sé ekkert þar til að lifa við og einnig skóglaust (Jónas Halldórsson, 1921).
Gamla þjóðleiðin upp á Skálholtsveg frá Miðfelli.
Jónas segir það í miðri ritdeilu við Guðmund Davíðsson vegna þjóðgarðsáforma en Guðmundur notaði munnmæli um eyðibýli á örfoka landi til marks um að þar hafi eitt sinn verið glæstir skógar, sem byggt hafi verið í en hafi eyðst vegna ágangs manna. Því væri vert að friða landið og leyfa því að gróa upp (Guðmundur Davíðsson, 1919). Jónas Halldórsson sá hins vegar fram á að missa býlið sitt vegna þjóðgarðsmyndunar og því hefur hann mögulega séð ástæðu til að slá á hugmyndir um forna byggð á uppblásnum svæðum. Eyðibýlið svokallaða var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 1927 þar sem það er kallað Ródólfsstaðir eftir túlkun Brynjúlfs.
Pétur Júlíus Jóhannsson. Pétur fæddist í Skógarkoti þar sem foreldrar hans voru síðustu ábúendur. Síðar bjó hann um tíma í Mjóanesi. Snemma varð ljóst að Pétur J. Jóhannsson ætti öðrum mönnum fremur aðgang að námu, sem nú er eflaust lokuð, en það er vitneskja um leyndardóma Þjóðgarðsins á Þingvöllum í smæstu efnum. Bestu menn hafa skrifað öndvegisrit í þessari grein og er þar fjölmörgu til skila haldið. En Pétur vissi fleira. Því varð það að ráði að hann fengi í hendur loftmyndir af þjóðgarðinum. Þar skrásetti hann örnefnin öll, sem honum voru kunn, vel á sjöunda hundrað innan þjóðgarðsmarkanna. Þingvallanefnd sýndi Pétri verðskuldaðan sóma af þessu tilefni. Nú er verkið varðveitt hjá Landmælingum Íslands. Mun það verða fræðibrunnur, þeim er ausa vilja af á komandi tíma. Með þeim hætti lét Pétur J. Jóhannsson okkur hinum í té heimild, sem hvergi er til nema þar.
Ekki er fjallað um eyðibýlið á opinberum vettvangi á næstu áratugum að Pétri J. Jóhannssyni undanskildum, sem hafði eftir sögusögnum að býlið hefði staðið vestan undir Ródólfsstaðahæð (Gunnar Þórisson og Pétur J. Jóhannsson, 1983, bls. 186). Sumarið 2012 fór félagið Ferlir að hæðinni og staðsetti mögulegar rústir sunnan undir henni, þar sem þótti líklegt að búið hefði verið í stuttan tíma (Ómar Smári Ármannsson, 2012). Þar sáust ummerki um grónar tóftir og garð. Austan tóftanna sást skúti með hleðslum við opið, sem gæti hafa verið fjárskjól (Ómar Smári Ármannsson, munnleg heimild, 4. október 2019).
Nokkur efi var um tilvist Ródólfsstaða og að vissu leyti er sá efi enn til staðar. Landsvæðið norðan Miðfells er afar illa farið vegna ágangs fólks og fjár og erfitt er að gera sér í hugarlund að nokkur hafi viljað búa þar miðað við núverandi gróðurfar. Þar sem Ródólfsstaðir koma úr Ármannsrímum er spurning hvort býlið sé nokkuð meira en þjóðsaga. Aftur á móti eru tvær selstöður á þessu svæði, hvor við sinn fjárhelli. Heimildir um Ródólfsstaði eru að auki það margar að ekki er hægt að slá tilvist þeirra algjörlega af. Ef gert er ráð fyrir að allar heimildirnar séu óskeikular ætti að leita að litlum, ferhyrndum túngarði með tóftum vestan í. Staðsetningin ætti þá að vera milli Efri- og Neðri-Ródólfsstaðahæða, vestan undir þeirri efri, sunnan grjótbala og austan hraunholu.
Ekki er hægt að segja til með vissu hvort Ródólfsstaðir hafi hér verið staðsettir, að því gefnu að Ródólfsstaðir hafi í raun verið meira en þjóðsaga. Mögulega gæti þó mannvirkið, sem hér er, verið ein af þeim rústum sem Brynjúlfur Jónsson (1905, bls. 46–47) segir standa vestan í ferhyrndum túngarði. Tvö til þrjú mismunandi kolalög geta þá bent til þess að þarna séu tvö eða þrjú byggingarskeið og útlínur mannvirkisins á yfirborðinu séu leifar yngri rústa, til dæmis seljarústa líkt og túlkað hefur verið á Grímsstöðum, Litla-Hrauntúni og Hrafnabjörgum. Við frekari leit að Ródólfsstöðum ætti að einblína á þetta svæði og skoða vel alla staði þar sem trjágróður vex. Sérstaklega ætti að leita að ummerkjum túngarðs, t.d. sunnan tvískipta mannvirkisins.
Mjóanessel.
Mögulega gætu minjar leynst um 30 metrum vestan þess en þar mótar fyrir rétthyrndri dæld á yfirborðslíkani, sem er um 13 metrar að lengd. Þar gæti verið mannvirki hulið birkigróðri en borkjarnarannsóknir gætu skorið úr um hvort þar séu fornleifar eða gróið rofabarð. Svæðið ætti að skoða að vetri til en mögulega gætu snjóskaflar auðveldlega safnast upp við brekkuræturnar og torveldað heilsársbúsetu. Einnig ætti að rannsaka betur skútann sem meðlimir Ferlis telja vera fjárhelli en var ekki skoðaður í þessari umfjöllun, enda er fordæmi um selstöður við fjárhella á þessum slóðum. Ráðgátan um Ródólfsstaði telst enn óleyst en hafi þeir í raun verið til er líklegt að þeir hafi verið hér, enda samræmist staðsetningin örnefnum og heimildum, auk þess sem fornleifar eru á staðnum.
Mjóanessel – fjárhellir (Selshellir).
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1905 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi eftirfarandi um athugun sína á nálægum stað ofar í hrauninu: “Rótólfsstaðir – Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhornið vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skammt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn.
Mjóanessel – fjárhellir.
Hið merkilegasta við þessa rúst er nafnið: »Rótólfsstaðir«, sem auðsjáanlega á að vera Ródólfsstaðir (o: Róðólfsstaðir). Þar eð menn vita eigi af manni með því nafni hér á landi í fornöld, öðrum en Róðólfl biskupi, þá kemur manni ósjálfrátt í hug, að hann muni í fyrstu hafa sezt að á þessum stað, álitið hagkvæmt fyrir trúboðið að búa nálægt alþingi. En svo hafi hann brátt flutt sig að Lundi og síðast að Bæ, eftir því sem reynslan sýndi honum hvað bezt kæmi í hald. Auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja. En hvað sem um það er, þá hygg eg að Ródólfsstaðir bendi á það, að snemma á öldum hafi mannsnafnið verið borið fram Ródólfr, en ekki Róðólfr, sem síðar varð, og að d í þessu bæjarnafni hafi snemma orðið að t og það síðan haldist. Annars er líklegt að þar hefði komið ð fyrir d eins og í mannsnafninu. Og sú breyting (ð fyrir d) virðist hafa verið komin á áður rit hófust hér á landi.”
Mjóanessel – fjárhellir.
Ekki er að sjá að Gunnar hafi skoðað Mjóanesselið, sem skammt norðvestan Ródólfsstaðahæða, og eini vel gróni bletturinn í heiðinni.
Jarðabókin 1703 segir um Mjóanes (Miófanes): „Selstöðu sæmilega á jörðin í sínu landi, sem enn nú er og brúkuð“ (bls. 361). Um Rófólfsstaði (bls. 363) segir: „Rotólfsstaðir norður undan Miðfellsfjalli“.
Jóhann Jónsson og Rósa Jónsdóttir í Mjóanesi.
Rætt var bóndann á Mjóanesi, Jóhann Jónsson. Hann kvað selið í Karhrauni hafa verið frá Mjóanesi, en hann kynni ekki frekari deili á því, þ.e. hvenær það hafi verið í brúkun eða hvenær það lagðist af. Selstígurinn frá bæ væri þó enn vel greinilegur, a.m.k. á köflum, einkum hið efra. Þá hafi þjóðleiðin, Hraungatan, legið upp frá norðanverðu Miðfelli og fast upp með selinu að austanverðu að Gjábakka. Hún væri augljós, þótt lítt væri farin hin síðari ár.
Mjóanessel.
Þjóðleiðin var gengin að þessu sinni, frá lítilli hestarétt við þjóðveginn ofan norðanvert Miðfell. Á kortum er Fjárhellir merktur á hæð austan götunnar, en að stenst ekki. Þar eru tvo op, hvort við annað. Hið vestara geymir u.þ.b. 60 metra langan helli. Fremst eru nöguð bein kindar.
Í Mjónesjaseli er hins vegar hinn ágætasti fjárhellir. Í honum eru hleðslur. Ofan á hraunbólunni er gróin varða; selsvarða. Framan við hellisopið eru fjögu samliggjandi rými, auk einnar stakrar. Hlaðinn stekkur er skammt suðaustar. Eldri minjar má mögulega greina við selstöðuna. Ekki er hægt að útiloka að selið hafið verið byggt upp úr eldri minjum, en það virðist ekki hafa verið endurbyggt og því líklega verið í notkun í tiltölulega skamman tíma sem slíkt, mjög líklega frá því um miðja 19. öld til loka selstöðunnar um 1870. Gerð rýma og samsetning bendir til seinni tíma byggingarhátta.
Vatnsbólið frá selinu hefur verið skammt suðaustan við það. Þar eru nú uppþornaðir flekkir í mældarlægð.
Mjóanessel. Hér sést gamla þjóðleiðin vel ofan við selið sem og áframhald selstígsins inn á leiðina.
Með vísan í Brynjúlf varðandi nefndan Róðólf biskup og ferða hans á Alþingi mætti ætla að „Róðólfsstaðir“ hafi aldrei verið bær, einungis „sæluhús“ í takmarkaðan tíma að sumri. Af þeirri ástæðu væri vel þess virði að gefa Mjóanesseli meiri gaum en verið hefur, en þess hefur vart verið getið í heimildum til þessa. Sem fornleif er hún a.m.k. enn óskráð, sem slík. Þá gefur sóknarlýsing séra Björn Pálssonar frá 1840: „Bótlfsstaðir og Bæjarstæði í Miðfellshrauni“ og merkir býlin hér um bil mitt á milli Miðfells og Skálholtsvegar, byr undir báða vængi. Þá er Mjónessel beint „norður undan Miðfellsfjalli“. Ródólfsstaðahæðir eru skammt austan selsins. Pétur J. Jóhannesson taldi einnig að eyðibýlið hefði staðið vestan undir Ródólfsstaðahæð[um].
Þá er vert að minnast þess að „staðarnafnið“ var jafnan kennt við kirkjustaði þótt nöfn þeirra bentu ekki til þess. Má í því sambandi benda á Staðarselið í Selvogsheiði, en það var frá kirkjustaðnum Strönd í Selvogi.
Allar nánari upplýsingar um svæðið í heild eru vel þegnar…
Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.