Íslendingur

Vestmannaeyingurinn Gunnar Marel Eggertsson skipasmíðameistari ákvað að smíða eftirlíkingu af Gaukstaðaskipinu sem er á safni í Noregi.

Gauksstaðaskip

Gauksstaðaskipið.

Hann byrjaði að byggja skipið í Héðinshúsinu í Reykjavík árið 1994. Skipið sem Gunnar smíðaði er 23,5 m á lengd og 5,5 m á breidd. Mastrið er 14,5 m. + toppurinn sem er 18 metrar. Seglið er 13o m2. Skipið tekur 25 farþega og 5 manns í áhöfn. Skipið getur gengið upp í 12 mílur. Það hefur 2 Yammar vélar.
Gunnar Marel fæddist í Vestmanneyjum 1954. Skipasmiður var hann orðinn einungis 25 ára gamall. Hann hefur skipstjóraréttindi og hefur mikla reynslu af sjómennsku. Þegar hann fékk fréttir af fyrirhugaðri siglingu víkingaskipsins Gaia frá Noregi til Washington í Bandaríkjunum fékk hann áhuga á að taka þátt í siglingunni. Hann sigldi síðan með Gaia frá því í maí og þangað til í október 1991. Seinna tók hann þátt í öðrum leiðangri Gaia frá Washington til Rio de Janeiro þar sem Umhverfisráðstefnan var haldin og opnuð við komu skipsins þangað.
Gunnar Marel byrjaði á smíði Íslendings í september 1994 og lauk verkinu 16. maí 1996. Íslendingur er byggður á málum Gaustaðaskipsins.

Íslendingur

Íslendingur í Víkingaheimum.

Gunnar Marel Eggertsson var með fyrirlestur um víkingasiglingar, smíði víkingaskipa og siglingar þeirra fyrir Atlandshafið í Víkinni í Keflavík þann 23. nóv. s.l. Hjá honum kom m.a. fram að víkingaskipin væru týndur hlekkur í sögunni.  Þekkingin á smíði þeirra og sjóhæfni hefði glatast, en mikið af henni hefði opinberast að nýju eftir fund víkingaskipanna í Noregi og Danmörku. Skip hans, Íslendingur, væri eftirlíking af Gaukstaðaskipinu. Sú tegund skipa hafi verið vinsæl frá 700-1200 (víkingatímabilið) og jafnvel lengur, en svo virðist sem afturhvarf hafi verið í byggingu þeirra eftir það. Eiginleikar skipsins (Íslendings) eru þeir bestu sem þekkist í skipum í dag.

Knörr

Knörrinn Skuldelev I er stærsta skipið á Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu. Það er yfir 16m langt og um 5m breitt með yfir 20 tonna lestarrými.

Knerrir munu mest hafa verið notaðir í siglingum til Íslands því þeir gátu borið mikið magn og mikinn þunga. Norsk heimild kveði á um að 400 menn hafi farið með slíku skipi til Íslands í einni siglingu. Gunnar telur það vel hafa getað staðist. Langskipin gátu verið allt upp í 50 metra löng. Íslendingur er um 23 m langur, litlu styttra en Gaukstaðaskipið. Ástæðan var sú að ekki var til lengra tré í kjölinn. Lengd trjáa í kjöl hefur eflaust ráðið lengd og stærð skipanna á hverjum stað. Tréð í kjöl Íslendings kom frá Svíðþjóð. Það vó þá um 5 tonn. Efnið í kjölinn kostaði 2.5 millj. kr.
Um 700 var fyrst settur kjölur í skip. Það gerðu Norðmenn. Aukin kjöllengd þýðir aukinn hraði. Þá komust þeir yfir höfin og pirruðu m.a. Englendinga. Um 850 urðu skipin líkt og Íslendingur og þannig var það út víkingatímann. Kjölurinn er þykkastur um miðjuna og í rauninni mjög hugvitsamlega hannaður. Hann var og þykkastur neðst, en mjókkaði upp. Þetta var t.d. gert til að koma í veg fyrir hliðarskrið.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Hægt var að róa skipunum á 5-7 mílna hraða, en þeim var aldrei róið og siglt með seglum samtímis. Gaukstaðaskipið hefur verið þannig hannað að stefnið “safnaði loftbólum undir sig”. Þannig lyftist skipið í siglingu og viðnámið varð minna. Knerrir voru einnig byggðir með það fyrir augum að safna loftbólunum undir byrðinginn til að lyfta þeim upp og draga úr viðnámi þeirra stóru skipa. Það var gert með því að hafa botninn V-laga að hluta beggja vegna. Víkingaskip veltur ekki vegna byggingarlags þess. Byrðingurinn er misþykkur, þykkastur um miðjuna (32 mm), þynnstur til endanna (16 mm). Skipið flýtur mest um miðjuna. Endarnir “hanga” svo að segja á miðbikinu.

Víkingaskip

Handverk við smíði víkingaskips.

Eik var notuð í víkingaskipin – höggvin snemma. Gaukstaðaskipið og Ásubergsskipið eru t.d. úr eik og Íslendingur að hluta til, en eftir að ekki var nægilega mikið til af stórri eik munu skipin hafa vera smíðuð úr furu.
Mastur Íslendings er 18 metrar. Seglið er úr bómull og vegur um 500-600 kíló, um 130 m2. Erfiðast við seglið er að draga það upp með handaflinu og síðan að strekkja böndin. Það er venjulega gert með því að strekkja það bandið sem er hlémegin hverju sinni. Hampur var í böndum skipanna. Í dag fæst hann einungis á einum stað í litlu þorpi í Danmörku.
Gunnar sagði að ekki lægju fyrir áreiðanlegar upplýsingar um efni seglanna. Hann hefði heyrt af því að seglbútur hefði fundist upp á lofti í gömlu húsi og var álitið að hann hefði verið úr segli víkingaskips. Þessum bút var hent eftir því sem hann komst næst.
Í málum Gaukstaðaskipsins er mikið talað um töluna 16; í tengslum við rými, ræðara og árar hvoru megin og fjölda mann um borð. Einnig voru 16 borð í byrðingi o.s.frv.

Víkingaskip

Handverk við smíði víkingaskipa.

Lengsta langskip, sem endurgert hefur verið á Norðurlöndum er 34 metra langt. Um 70 manns voru í áhöfn meðalstórs langskips (2×32, skipsstjóri, stýrimenn og hálmsmenn). Sjálfur hefur hann siglt með 90 manns um borð á Ísl. Fjórir til fimm vanir menn geta þó stjórnað skipinu á siglingu í sæmilegu veðri. Í verri veðrum þarf fleiri, jafnvel tvær vaktir samtímis.
Gunnar taldi að fram til 930 hafi um 20.000 manns verið flutt með skipunum til Íslands. Þá voru hér um 30.000 manns. Þetta hafi verið miklir flutningar á erfiðri siglingaleið. Skipin voru 4-5 daga í siglingu milli Noregs og Íslands, ef ekki var komið við í Færeyjum. Þau fóru 12-15 mílur á klst., á sama hraða og vindurinn. Logn var því um borð.

Víkingaskip

Víkingaskip.

Hafurtask áhafnameðlima hefur viktað 8-10 tonn. Einn kistill (32) voru fyrir hverja tvo róðramenn. Sátu þeir á þessum kistlum sínum þegar róið var. Íslendingur ber um 30 tonn. Skipið sjálft vegur um 8 tonn, sem er um meðal víkingaskip.
Skyldir, sem hver og einn áhafnameðlimur kom með, voru bundnir með ákveðnu lagi á skipið, 32 á hvora hlið.
Ballest var úr fjörugrjóti og blýi, ca. 8 tonn. Mannskapurinn var einnig að hluta til ballestin.
Áhöfnin vildi helst taka land í sandfjöru, láta flatreka. Hún gat þá gengið nær þurrum fótum í land. Húfurinn (borð nr. 10) tók á móti og þunginn hvíldi á honum, þykkasta borðinu. Með því var skipið hallalaust að kalla. Orðatiltækið “mikið í húfi” komið þaðan.

Gunnar Marel Eggertsson

Gunnar Marel Eggertsson.

Annað orðatiltæki: “fer mikið í súginn”, er komið frá súgnum, verkfæri, sem notaður var til að koma hinum 5000 járnnöglum í skipið. Allt járn var dýrmætt á þeim tíma.
Yfirleitt voru 4-5 skip í smíðum í einu til forna. Tréð nýttist vel, ekki þurfti mörg tré í eitt skip því 16 borð voru hvoru megin og þau heil yfir. Yfirleitt var veturinn notaður til skipasmíðanna.
Skipin voru mjög tæknilega smíðuð, sem fyrr segir, og mjög góð sjóskip. Miklu meiri kunnátta lá að baki smíði þeirra, en við gerumokkur grein fyrir. Um 1200 virðist þessi mikla þekking hverfa og nær ekki að þróast eftir það. Seinni tíma skip þróuðust út frá öðrum forsendum, s.s. skip Kólumbusar. Þau voru ekki ekki eins góð sjóskip og víkingaskipin, en gátu borið meira. Skip Kólumbusar var því nokkurs konar “koffort” miðað við víkingaskipin.

Víkingaskip

Víkingaskip.

Halda mætti að erfitt hafi verið um eldun umborð, en svo var ekki. Sandur var í tveimur bilum og í þeim opinn eldur eða kol – nógur ferskur matur um borð.
Gunnar sagði að það hafi komið mönnum á óvart að sjá að víkingaskipin, sem grafin hafi verið upp hafi verið máluð að hluta. Þannig var Gaukstaðaskipið málað við efsta borð. Skipið var mikið skreytt með útskurði, einkum eftir endurlöngum borðum.
Fram kom hjá Gunnari Marel að skipin hefðu venjulega verið byggð til 10 ára. Íslendingur hefði t.a.m. látið mikið á sjá á einu ári. Reynslan sýndi að skipin væru fljóð að grotna niður að ákveðnum tíma liðnum. Hann benti á að bæði Ásubergs- og Gauksstaðaskipin væru nú mjög viðkvæm. Viðirnir hefðu einungis þunna skel er héldi þeim saman, en að innan væru þeir orðnir að dufti. Varla mætti hnerra í návist þeirra.

ÓSÁ tók saman.

Íslendingur

Íslendingur.

Búri

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2006 – í tilefni af útgáfu stórvirkisins “Íslenskir hellar” eftir Björn Hróarsson.

BúriÞað þarf varla að taka það fram að Björn Hróarsson er fremsti hellakönnuður landsins. Undanfarin 25 ár hefur hann leitað að hellum með félögum sínum, skoðað þekkta hella, safnað efni og undirbúið útkomu þessa mikla rits, sem nú birtist lesendum. Hann hefur ferðast um landið þvert og endilangt í frístundum sínum og varið ómældum tíma í rannsóknir og ljósmyndun á “undirheimum” Íslands.

“Það er hvorki hægt að skoða, virða, nýta né vernda heim sem ekki er vitað um,” segir Björn Hróarsson , jarð- og hellafræðingur og höfundur Íslenskra hella, tveggja binda bókar um samnefnt fyrirbæri. Með bókinni leitast hann við að kynna þjóðinni undirheima Íslands í máli og myndum.

Fátt gleður áhugamenn um hella meira en að uppgötva nýja undirheima. Í fyrra bindi Íslenskra hella segir Björn frá leiðangri sínum og fylgdarfólks á síðasta ári í hellinn Búra, sem reyndist ekki allur þar sem hann var séður.

Búri

Búri er einn af mestu og mikilfenglegustu hraunhellum jarðar þótt hann væri í þrettán ár aðeins talinn um 40 metra langur. Það var 13. júní 1992 að Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fann og heimsótti niðurfallið sem Búri gengur út frá. Upp frá niðurfallinu gengur um 40 metra langur og mjög hruninn hellir en til suðurs varnaði stórgrýti allri för. Jafn reyndum hellamanni og Guðmundi Brynjari þótti ekki mikið til koma enda grunlaus um að hafa sett í þann stóra. Nefndi hann hellinn.

Það var síðan 10. september 1994 að Guðmundur Brynjar heimsótti Búra á ný og tók til við að forfæra grjót syðst í niðurfallinu. Eftir nokkrar klukkustundir var komin töluverð gjóta en ekki árennileg, þröng og laust grjót allt um kring. Þar sem Guðmundur Brynjar var einn á ferð lét hann staðar numið en holan kallaði þó til hans á stundum. Sumarið eftir kom hann að gjótu sinni á ný og hafði útbúið prik til að stinga myndavél niður í gjótuna og smellti af tveim ljósmyndum. Örlögin höguðu því svo að báðar myndirnar mistókust.

Hellafiðringur gerir vart við sig
Föstudaginn 6. maí 2005 gerði hellafiðringurinn vart við sig hjá Birni, eins og svo oft þegar frídagar eru framundan. Þessi tilfinning að komast frá skrifborðinu, út á og undir hraunbreiðurnar tók völdin og nú héldu Birni engin bönd. Helgina framundan skyldi nota til hellarannsókna. Búri var einn þeirra hella sem Björn hafði ekki komið í en vildi heimsækja þótt lítill væri til að lýsa í þessari bók. Hringt var í Guðmund Brynjar og spurst fyrir um Búra og óskað eftir fylgd daginn eftir. Guðmundur Brynjar var hins vegar upptekinn en í lok samtalsins nefndi hann grjóttilfærslur sínar syðst í niðurfallinu og gjótuna sem enn beið könnunar. Mátti heyra að Guðmundur Brynjar batt vonir við að þar undir leyndist eitthvað frásagnarvert.
Björn hafði næst samband við Ómar Smára Ármannsson hjá gönguhópnum Ferli og spurðist fyrir um dagskrá Búrimorgundagsins. Reyndist hún óráðin en eftir söguna um ókönnuðu holuna í Búra var ákveðið hvert stefna skyldi daginn eftir.

Stórt hraun og litlir menn
Klukkan tíu að morgni laugardagsins 7. maí var haldið út á Leitahraun að leita niðurfallsins sem Búri gengur út frá. Hraunið reyndist stórt en mennirnir litlir og eftir tveggja tíma göngu hafði niðurfallið ekki fundist svo stefnan var tekin á Gjögur, Fjallsendahelli og Árnahelli. Eftir þá heimsókn var haldið til baka, Björn tók sig þá út úr hópnum og tveim klukkustundum síðar gekk hann fram á niðurfall Búra og hóaði í ferðafélagana.
Búri reyndist, eins og Guðmundur Brynjar hafði lýst honum, nokkuð stór um sig en mikið hruninn og um 30 metra langur. Ljóst var samt að um mikla hraunrás hafði verið að ræða, allt að tíu metrar voru milli hellisveggja og lofthæðin um sjö metrar þar sem mest er.

Þá var farið syðst í niðurfallið og fljótlega fannst holan sem Guðmundur Brynjar hafði búið til með grjótburði ellefu árum áður. Eftir að hafa fjarlægt nokkuð af grjóti til viðbótar renndi Björn sér ofan í þrönga dimma og kalda holuna á vit ævintýranna. Við blasti mikill salur og í honum tignarlegar ísmyndanir. Nokkuð sem Guðmundur Brynjar hefði fest á filmu áratug áður hefðu myndirnar heppnast. Hátt í tíu metra lofthæð er í íssalnum og yfir tíu metrar milli veggja, glæsileg veröld. Björn fetaði sig yfir ísinn og upp mikla grjótbrekku handan hennar. Þar, um 100 metra innan við opið, virtust öll sund lokuð í fyrstu enda hellirinn mikið hruninn.
Urð og grjót, upp og niður
BúriBjörn tók nú til við sömu iðju og Guðmundur Brynjar forðum, að forfæra grjót. Um stundarfjórðungi síðar tróð hann sér niður um gjótu þá sem hann hafði búið til og áfram hélt hellirinn. Ekkert er skemmtilegra en vera einn í helli sem enginn hefur áður í komið og enginn veit hvað hefur að geyma. Þrátt fyrir stórgrýti og torfærur miklar greikkaði Björn sporið og hljóp við fót. Tvær þrengingar töfðu för en síðan hækkaði til lofts og hellirinn varð stærri og stærri. Urð og grjót, upp og niður, út og suður, æstur hugur. Þegar komið var nokkur hundruð metra inn í hellinn tóku við miklar hvelfingar. Á annan tug metra var á milli lóðréttra hellisveggja og einnig yfir 10 metrar til lofts. Aftur þrengdist hellirinn og stækkaði svo á ný og engan endi að finna. Þegar Björn var kominn eitthvað yfir 500 metra inn í hellinn fór hann að hafa áhyggjur af samferðafólki sínu eða var öllu heldur farinn að hafa áhyggjur af þeim áhyggjum sem það myndi hafa af sér.
BúriÁfram var þó haldið en þegar Björn gerði sér grein fyrir því að stærð hellisins væri slík að ólíklega myndi finnast botn í bráð ákvað hann að snúa við. Aðeins eitt vasaljós var með í för og hugurinn hafði borið Björn lengra inn í undirdjúpin en skynsamlegt var. Þótt vont sé að snúa frá hálfkláruðu verki varð hann að láta sig hafa það enda ótækt að valda samferðafólkinu frekari áhyggjum. Hægar var farið yfir til baka og betur kíkt í kringum sig. Ljóst var að um mjög merkan hellafund var að ræða. Eftir að hafa lent í vandræðum með að finna leiðina til baka, gjótuna þröngu þar sem grjótið hafði verið forfært, komst Björn þó í íssalinn á ný og út undir bert loft, þreyttur en kátur.
Eftir hellaferðina fór Björn til Þorlákshafnar, heimsótti Guðmund Brynjar og búralegur lýsti hann hellinum sem Guðmundur Brynjar hafði fundið þrettán árum áður án þess að vita af því.

Glæsileikinn með ólíkindum
BúriSunnudaginn 8. maí 2005 var aftur haldið í Búra. Saman í för voru Albert Ólafsson, Björn Hróarsson, Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir, Jóhanna Guðmundsdóttir, Ómar Smári Ármannsson og Viktor Guðmundsson. Íssalurinn skartaði sínu fegursta sem daginn áður og undruðust hellafararnir stærð og mikilfengleika hellisins. Þegar gengið hafði verið nokkuð á aðra klukkustund var komið að “indjánanum” eða stærðar steini sem tyllir sér milli gólfs og loft og hefur lögun ekki ósvipaða og fjöður. Á þessum stað sneri Björn við daginn áður. Aðeins um hundrað metrum innar tók við upprunalegt gólf og á löngum köflum er hellirinn ekkert hruninn og allur hinn glæsilegasti. Gífurlegar hvelfingar eru í honum og aðeins örfáir hraunrásarhellar hér á landi sambærilegir að stærð. Þótt einstaka hrun sé í hellinum á þessum kafla verður hann sífellt heillegri eftir því sem innar dregur og veggir hans ótrúlega glæsilegir. Enn innar tók við gífurleg hvelfing en síðan snarlækkar til lofts og frá þessari hvelfingu halda göngin áfram en lofthæðin er “aðeins” fjórir til fimm metrar. Glæsileikinn er hins vegar með ólíkindum og allt stráheilt þótt allir Suðurlandsskjálftar í um 5000 ár hafi látið þarna til sín taka. Í rásinni er fallegur hraunfoss, nærri mannhæðar hár.

Á vit ævintýranna
Enn kom hellirinn á óvart og nú sem aldrei fyrr. Þegar komið var á að giska rúman kílómetra inn stóðu hellamenn á gati. Því betur ekki alveg í bókstaflegri merkingu en þótt þakþykktin sé örugglega mikil og þótt hæð hellisins sé um ellefu metrar skammt frá þessum stað blasti nú við mikill svelgur. Hann er alveg lóðréttur, um 5 metrar í þvermál og 17 metra djúpur. Niðri í undirdjúpunum, þess vegna á um 50 metra dýpi í hrauninu, mátti glögglega sjá hvar hellirinn heldur áfram – á vit ævintýranna. Engin lína eða sigtæki voru með í för auk þess sem farið var að draga af mannskapnum enda ekkert áhlaupaverk að koma sér á þennan stað og morgunljóst að annan daginn í röð þyrfti að snúa frá hellinum án þess að hafa farið hann á enda.
Búri Svelgurinn er með miklum hrauntaumum og hinn glæsilegasti og á sér ekki hliðstæðu í öðrum hraunhelli á Íslandi.

Svelgurinn vekur margar spurningar sem enn er ósvarað. Ljóst var að þótt hellirinn væri ekki fullkannaður og enginn vissi hvert hann lægi eða hvað hann hefði að geyma þá var hann samt sem áður einn stærsti og merkilegasti hraunhellir á Íslandi. Ferðin til baka gekk vel en það voru þreyttir hellafarar sem upp komu.

Laugardaginn 21. maí var haldið í Búra á ný með það að markmiði að fara niður hraunfossinn innst í hellinum og kanna hvað þar væri undir. Leiðangursmenn voru Ásbjörn Hagalín Pétursson, Björn Hróarsson, Daði Hrannar Aðalsteinsson, Guðmundur Brynjar Þorsteinsson og Pétur Ásbjörnsson yfirklifrari. Vegna klifurbúnaðar og þess að hellafararnir bjuggust allt eins við langri hellaferð voru þungar byrðar á baki. Þrátt fyrir það hröðuðu menn sér inn hellinn og að svelgnum mikla. Innarlega í hellinum sést víða hvar hrun er þakið hrauni. Greinilegt er að töluvert hrun hefur átt sér stað í hellinum meðan þar var enn hraunrennsli. Síðan hefur hækkað í hraunánni og hún húðað stórgrýtið. Eru steinarnir með því þynnri hraunhúð því ofar sem þeir eru og ólíklegt að þeir hafi lengi verið á kafi. Líklegra er að rennslið niður hellinn hafi lent í teppu skamma stund og þá hækkað svo í hraunánni að hún náði að húða grjótið. Er þetta enn eitt dæmið um að hrun í hellum á sér yfirleitt stað skömmu eftir að þeir myndast en eftir það hrynur lítið eða ekkert.

Búri Við svelginn hófu þeir feðgar, Pétur og Ásbjörn, að undirbúa ferðalagið niður hraunfossinn. Sprungur eru nokkrar og því auðvelt að koma fyrir festingum og ekki leið á löngu þar til línan lá traust niður á botn svelgsins. Björn Hróarsson fór fyrstur fram af brúninni og lét sig síga til botns utan á glæsilegum hraunfossinum. Ekki var hann raunar kominn langt þegar Pétur Ásbjörnsson kallaði á eftir honum: “Gaman að hafa kynnst þér!” Birni varð ljóst áður en botni var náð að svelgurinn væri dýpri en menn höfðu áætlað ofan frá. Mæling gaf síðan til kynna að hraunfossinn er um 17 metra hár. Lofthæðin í svelgnum er því rétt um 20 metrar. Fóru nú félagarnir niður í svelginn einn af öðrum og er þetta náttúruundur hið ótrúlegasta, hvar og hvernig sem á það er litið. Fara má undir veggi svelgsins, gegnt fossinum, og upp stórgrýtisbrekku fáeina metra en ekki fannst leið áfram eftir rásinni.
Vel má vera að þarna mætti með réttum áhöldum færa til grjót og finna leiðina áfram en það tókst ekki að þessu sinni. Þar sem leiðin lokast inn frá svelgnum eru um fimm metrar niður á neðsta hluta svelgsins en þar hefur hraunið greinilega haldið áfram niður og þá líklega þaðan áfram eftir hellisrás. Hver hún er, hvar hún er og hvort hún er enn til staðar er hins vegar óvíst með öllu. Vel gekk að klifra upp fossinn, taka saman klifurdótið og arka út hellinn.

Búri kortlagður
BúriHellaferðin tók rúmar sex klukkustundir og enn kom Búri á óvart.
Búri var kortlagður 17. og 18. júní 2005. Þeir Björn Hróarsson og Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fengu til liðs við sig fimm þaulreynda breska hellamenn til verksins, Ed Waters, Hayley Clark, James Begley, Phil Collett og Phil Wharton. Kortið er meðfylgjandi og reyndist hellirinn 980 metrar á lengd. Enn eru þó ókönnuð göng út frá hellinum en þau eru í um 8 metra hæð frá gólfi og er eftir að klifra þangað.

“Íslenskir hellar” eftir Björn Hróarsson er 674 blaðsíður í tveimur bindum og prýdd fjölda ljósmynda, sem flestar eru teknar af höfundi. Útgefandi er Vaka-Helgafell – Edda útgáfa 2006.

Í eftirmála tiltekur Björn þá aðila er styrktu hann til verksins. Umhverfisráðuneytið íslenska lagði t.a.m. eitt hundrað þúsund krónur. Umhverfisráðherra fékk í viðurkenningaskyni “fyrsta eintak bókarinnar” afhent við formlega athöfn. Með því fékk ráðuneytið fjórðung af styrknum endurgreiddan.
Ef ráðuneyti umhverfismála hefði einhvern snefil af sómatilfinningu eða yfirlýst opinber markmið um framþróun í umhverfismálum myndi fulltrúi þess, jafnvel ráðherrann sjálfur, verðlauna þetta mikla verk með sérstöku fjárframlagi (a.m.k. einni milljón króna) – og þætti engum mikið. Hið mikla bókmenntaverk er vel þess virði, enda hefur hvergi í veröldinni verið gefið út rit um alla þekka hella heils lands líkt og hér um ræðir.

Það þarf nú varla að taka það fram að Búri er á Reykjanesskaganum.

Úr bókinni

Ólafsvarða

Eftirfarandi brot úr frásögn birtist í Menningarblaði Lesbókar Morgunblaðsins laugardaginn 3. febrúar 2001. Höfundurinn, Hanna María Kristjánsdóttir, var nemi í þjóð- og fjölmiðlafræði við HÍ.
Rafn Símonarson með líkamsleifar Ólafs Þorleifssonar 1931Hinn 21. desember árið 1900, eða fyrir rétt rúmum 100 árum, fór Ólafur Þorleifsson, bóndi í Miðhúsum á Vatnsleysuströnd að leita að kindum uppi á Strandarheiðinni. Hann kom aldrei til baka. Árið 1931 fann Rafn Símonarson, bóndi í Austurkoti, líkamsleifar Ólafs ofan í djúpri og dimmri gjá. Gjáin er örskammt ofan við brún Stóru-Aragjár, um 2.5 km ofan við núverandi Reykjanesbraut.
“Vatnsleysuströndin er ekki þekktust fyrir landbúnað fyrr á árum heldur hina geysimiklu útgerð sem þaðan var stunduð. En á flestum bæjum, þar sem grasnytjar voru, stunduðu ábúendur nokkurn búskap með útgerðinni. Flestir áttu sauðfé og voru sumarhagar þess á Strandarheiði en þar þóttu nokkuð góðir bithagar. Eftir heiðinni endilangri liggja sprungubelti sem einkennast af opnum sprungum og gjám og oftast er grunnur sigdalur á milli. Þessar gjár eru margar mjög tilkomumiklar þar sem annar gjárveggurinn er miklu hærri heldur en hinn svo munar mörgum metrum. Því er heiðin torfarin og víða hættuleg eftir að snjó festir á jörðu… Daginn sem Ólafur fór frá konu sinni, Valgerði Björnsdóttur fæddri 3. júní 1857, og tveimur dætrum sínum, þeim Jórunni 11 ára og Þóreyju 6 ára, var mikill snjór en veðrið annars ágætt. Þegar leið á daginn tók hins vegar að þykkna upp og með kvöldinu gerði svartasta byl sem stóð þó ekki mjög lengi. Þennan sama dag voru Vogamenn að leita kinda á heiðinni og sáu þeir Ólafsgjámann nálægt Dalselsenda skömmu áður en bylurinn skall á. Töldu þeir síðar víst að maðurinn hafi verið Ólafur. Miðað við fótspor sem fundust og talin voru vera Ólafs hefur hann verið á réttri leið þegar veðrið skall á en vegna blindhríðar og myrkurs fallið ofan í eina af hinum mörgu sprungum sem leynast á þessari leið á Strandarheiðinni. Daginn eftir var leitað að Ólafi og einnig á aðfangadag en án árangurs. Leitinni var hætt í bili en hélt svo áfram um áramótin. Þá var snjórinn farinn sem hulið hafði jörðina og gert leitarmönnum erfitt fyrir. Leitað var í marga daga, bæði í gjám og sprungum en allt kom fyrir ekki. Ólafur var horfinn og fannst ekki hvernig sem leitað var. Í langan tíma eftir slysið höfðu menn, sem gengu þarna um, það fyrir vana að svipast um í gjánum um leið og þeir gengu yfir þær en aldrei sást neitt sem bent gat til hvar maðurinn væri niðurkominn.
Næsta vor var maður að nafni Kristján Jónsson úr Grindavík á ferð um heiðina. Hann gekk frá Vatnsleysu og yfir til Grindavíkur. Á leiðinni þóttist hann hafa séð staf og fataræfla liggjandi á stalli í gjá einni. Hann gaf þessu ekki nánar gætur en hafði þó orð á því þegar hann kom heim. Þetta fréttist fljótlega niður á Vatnsleysuströnd og fóru þá Teitur Þorleifsson, bróðir Ólafs, sem bjó á Hlöðversnesi, og Benedikt Pétursson, bóndi á Suðurkoti í Vogum, til fundar við Kristján. Hann hafði hins vegar ekki lagt staðinn á minnið og treysti sér ekki til að finna hann aftur. Það var því ekki hægt að leita af neinu viti eftir þessum vísbendingum og allri leit hætt upp frá því.

Ólafsvarða

Árið 1930, rétt um 30 árum síðar, voru menn úr hreppnum að leita kinda uppi á heiðinni. Mikill snjór var sem gerði mönnunum erfitt fyrir. Þeir urðu oft að stoppa til að hreinsa snjó úr ull kindanna sem gerði þeim erfitt um gang og svo urðu þeir að fara varlega því snjórinn huldi margar hættur. Rekstrarmenn sáu að kindur féllu ofan í gjá eina og engin leið að bjarga þeim nema að síga niður, bæði vegna myrkurs og fátt sem hægt var að festa hendur eða fætur á. Þegar mennirnir komu til byggða báðu þeir Rafn Símonarson um að síga niður í gjána. Rafn hafði alltaf verið hræddur við þessar sprungur en í þetta sinn fannst honum hann verða að síga niður af einhverri ástæðu. Snemma næsta morgun var lagt af stað og þeir fóru fimm saman útbúnir nauðsynlegustu áhöldum. Þegar að gjánni kom voru fest bönd utan um Rafn og hann látinn síga niður eftir hlið gjárinnar. Hann seig niður í djúp svartnættis, myrkurs og kulda og fannst það ekki mjög aðlaðandi. Þó fannst honum svolítið ævintýralegt að vera kominn tólf til fjórtán metra ofan í jörðina, lifandi og í fullu fjöri. Þegar hann var kominn ofan í gjána þar sem kindurnar voru verður honum litið upp fyrir sig og sér þá, sér til mikillar undrunar, staf sem stungið hafði verið í bergið. Honum brá í fyrstu við þessa sýn og hann hugsaði um alla þá menn sem gengið höfðu um heiði þessa og aldrei komið til baka. Þegar hann ætlaði að skoða stafinn betur fannst honum sem hvíslað væri að þetta væri stafur Ólafs Þorleifssonar sem mikið var leitað en aldrei fannst og hér hlytu því leifar hans að liggja.

Kvöldsetur í Vogaheiði

Rafn kallaði til félaga sinna að hann hefði fundið göngustaf sem hann héldi að væri stafur Ólafs. Þeir svöruðu að það gæti tæplega verið því það væri svo langt síðan það slys átti sér stað. Rafn hugsaði með sér að þeir hefðu sjálfsagt svarað honum svona til að honum myndi ekki bregða og missa jafnvægið og traðka þá kannski á beinunum sem leynst gætu þarna niðri. Rafn bjargaði kindunum eins og hann átti að gera en aðgætti um leið hvort hann fyndi einhverjar vísbendingar en það var töluverður snjór þarna niðri og því ekkert að sjá. Rafn og félagar hans tóku stafinn með sér heim og ákváðu að fara aftur á þennan stað og rannsaka hann betur um leið og snjórinn færi.
OlafsgjaUm vorið, hinn 21. júní 1931, fóru þeir svo af stað. Þegar þeir komu að gjánni leist þeim betur á þetta því allur snjór var horfinn og mun auðveldara að leita. Vorsólin skein og lýsti upp dimmar og drungalegar sprungur heiðarinnar. Þar sem áður var nístingskuldi og myrkur var nú kominn vorylur og birta. Þeir hófust handa, bönd voru fest á Rafn og hann látinn síga niður í gjána til að leita Ólafs sem fór að heiman frá konu og dætrum glaður og heill heilsu en kom aldrei til baka. Þegar Rafn var kominn um það bil tíu metra ofan í gjána leit hann niður fyrir sig og sá þá hvar beinin lágu á litlum stalli sem stóð út úr berginu. Stallurinn var svo lítill ummáls að ekki var hægt að standa á honum á meðan verið var að tína beinin upp. Hann þurfti því að hanga í böndunum á meðan hann gerði það. Þegar Rafn hafði tekið allt sem á stallinum var sá hann að fótleggi og fótabein vantaði. Þau höfðu dottið fram af stallinum og lágu á jörðinni nokkru neðar. Rafn gaf því félögum sínum merki um að láta sig síga neðar. Rafn sagði að pallurinn þar sem beinagrindin var hafi verið svo lítill að ekki hafi verið unnt að sitja þar nema að láta fæturna hanga fram af. Lærleggirnir lágu líka þannig að endar þeirra stóðu út af pallbrúninni. Annar lærleggurinn var brotinn en lá þó þannig að brotin féllu saman og sennilega hefur Ólafur lærbrotnað um leið og hann féll ofan í gjána. Að öðru leyti voru beinin mjög lítið fúin, næstum allar tennurnar voru til dæmis fastar í kjálkunum.

Ólafsvarða-3

Á stallinum voru einnig leifar af fötum. Þetta sýnir vel hvað hlutir geta varðveist ótrúlega vel niðri í jörðinni þar sem hæfilegur kuldi og loft fær að leika um þá, en víða niðri í þessum gjám er snjór stóran hluta ársins.
Á meðan Rafn var að tína upp beinin velti hann því mikið fyrir sér hvað Ólafur hefur þurft að ganga í gegnum áður en hann lést. Hann hefur fallið ofan í gjána og líklega lærbrotnað við það að lenda á syllunni. Þegar stafurinn hans fannst stóð hluti hans út úr berginu. Ólafur hefur sennilega stungið honum í glufu í berginu og reynt að hífa sig upp en stafurinn brotnað við það. Þá hefur ekkert annað verið að gera en að bíða, bíða eftir því að deyja… Kvalirnar sem Ólafur þurfti að þola af meiðslum sínum voru eflaust litlar miðað við þær hugsanir sem kvöldu sálu hans. Það má þó ætla að Ólafur hafi látist fljótlega eftir að hann féll í gjána þar sem hann svaraði ekki köllum leitarmanna daginn eftir
Ólafur Þorleifsson var fæddur í Austurkoti hinn 10. júlí 1861 og var því aðeins 39 ára gamall þegar hann lést í desember árið 1900. Leifar hans voru bornar að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og síðan fluttar að Kálfatjörn þar sem Ólafur var jarðaður að viðstöddu fjölmenni hinn 30. júní 1931… Gjáin, sem Ólafur féll í og týndi lífi sínu, er nokkuð fyrir austan Arahnjúk og kallast nú Ólafsgjá og þar hjá er einnig Ólafsvarða…”
Heimildir:
Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Vogar: Guðmundur B. Jónsson.
Kirkjubók, Kálfatjörn 1894-1920.
Kristján Hannesson (munnleg heimild, 21. janúar 2001, handrit í fórum höfundar). Keflavík.
Rafn Símonarson (1936, 16. febrúar). Þrjátíu ár í gjáarsprungu. Vitinn, tímarit Ungmennafélagsins Þróttar, Vatnsleysustrandarhreppi.
Höfundurinn [Hanna María Kristjánsdóttir] er nemi í þjóðfræði og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.
Vogaheiðin í síðdegisvetrarsólinni

Víkingar

Í bókinni “Íslensk þjóðmenning” (1987) fjallar Haraldur Ólafsson um skip víkinganna. Þar segir hann að lengi vel hafi “menn tæpast neinar raunsannar hugmyndir um gerð þeirra skipa sem mjög víða er getið í fornum íslenskum heimildum. Þar er talað um knerri, langskip, skútur, ferjur o.s.frv., en gerð þessara skipa, stærð og burðarþol, var nokkurri þoku hulin. Það var ekki fyrr en með skipafundunum miklu í Noregi á ofanverðri 19. öld að sönn mynd fékkst af skipagerð norrænna manna. Þekking nútímanna á skipum víkingatímans jókst auk þess verulega á 7. áratug síðustu aldar er skipin í Hróarskeldufirði við Sjáland náðust upp.

Víkingaskip

Víkingaskip.

Norsku fornleifafræðingarnir A.W. Brögger og Haakon Shetelig hafa lýst öllu því helsta sem vitað var um skip víkingatímans fram til 1950 og studdust þar við hin merku skip sem kennd eru við Gokstad, Oseberg og Tune (Brögger o.fl., 1950. Vikingeskibene. Crumlin-Pedesen, O., 1970. Skibstyper, Kult.hist. leks. XV.482-91). Bergristur og smábátar höfðu fram að þeim tíma gefið mönnum bestu hugmyndirnar um forna skipasmíði, ásamt íslensku fornritunum. Nefnd skip höfðu varðveist furðu vel.
Þessi þrjú skip voru öll um og yfir tuttugu metrar á lengd og 4-5 metrar á breidd miðskipa. Þau bera vitni mikilli tækni við skipasmíði og var bæði hægt að sigla þeim og róa. Þau eru vafalítið góðir fulltrúar skipasmíða af betri gerðinni í Noregi á víkingatíma.
Árið 1893 var nákvæm eftirlíking af Gokstad-skipinu smíðuð í Noregi og sigli yfir Atlantshafið til Ameríku. Það tók fjórar vikur að sigla frá Björgvin til Nýfundnalands. Skipið hreppti illviðri á leiðinni en stóð af sér all sjóa og reyndist hið öruggasta í öllum veðrum (Brögger o.fl., 1950. Vikingaskipene, 128-31).

Gauksstaðaskip

Gauksstaðaskipið.

Þekking mann á skipakosti víkingatímans jókst að miklum mun þegar könnuð voru skip sem sökkt hafði verið í Hróarskeldufirði í Danmörku einhvern tíma á árunum 1000-1050. Hróarskelda var þá mikilvægur verslunarstaður og vafalaust hefir skipunum verið sökkt til þess að loka siglingaleiðinni til bæjarins vegan yfirvofandi árásar ránsmanna. Sundið inn til staðarins er grunnt og þröngt og til að hindra að skip kæmust þangað var fimm skipum sökkt þar sem heitir Peberrenden við bæinn Skuldelev. Miklu grjóti var hlaðið í skipin og yfir þau og myndaðist þar neðansjávarhryggur sem fiskimenn á þessum slóðu þekktu vel.
Á árunum 1957-59 var farið að rannsaka þessar minjar og stóð danska Þjóðminjasafnið fyrir þeirri rannsókn. Það kom brátt í ljós að hér var um merkilegan fund að ræða. Þarna voru skip frá víkingatíma og hófst nú undirbúningur ítarlegrar rannsóknar. 1962 var stálþil reist í kringum skipin og sjó dælt úr þeirri kví sem þá myndaðist. Á fjórum mánuðum tókst að ná upp fimm skipum sem eftir uppgröftinn voru sett saman úr þúsundum trjábúta. Þau eru nú varðveitt í sérstöku safni í Hróarskeldu.

Knörr

Knörrinn Skuldelev I er stærsta skipið á Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu. Það er yfir 16m langt og um 5m breitt með yfir 20 tonna lestarrými.

Skipin fimm eru hvert með sínu lagi. Þau gefa glögga mynd af farkosti Norðurlandabúa undir lok víkingatíma. Um er að ræða knörr, tvö langskip, kaupfar og ferju.
Knörrinn er hinn eini sinnar gerðar sem fundist hefur (mynd). Þetta er sterkbyggt skip og hefir verið notað til úthafssiglinga. Á þess konar skipum hefir verið farið um Atlantshafið allt til Íslands og Grænlands og til Ameríku. Skipið er gert úr furu, eik og linditré, sennilega smíða í Noregi sunnanverðum. Í stefnu og skut hefir verið lágt þilfar en um miðbik skipsins var varningi komið fyrir. Hvergi virðist gert ráð fyir skýli fyrir fólk. Á skipinu var rásegl. Lengd Knarrarins er 16.5 m, breidd miðskips er 4.5 m og hæð frá kili að borðstokk 1.9 m. Knörrinn er það skip sem líklegast er að notað hafi verið til Íslandssiglinga. Hann er kaupskip og futningaskip.

Ásubergsskip

Ásubergsskipið – langskip.

Langskip voru notuð til hernaðar og ólíklegt að á þeim hafi verið farið til Íslands þótt ekki sé það útilokað. Séu knörr og langskip borin saman er augljóst að knörrinn er að skip sem bar langtum meira og hefir þar að auki farið betur í sjó. Sum þeirra skipa, sem notuð voru til Íslandssiglinga, hafa ef til vill verið allmiklu minni en venjulegir knerrir.
Eins og segir hér að framan var knörrinn farmskip og kemur það heim og saman við það sem þóttust um hann vita af rituðumheimildum. Um það segir Lúðvík Kristjánsson:
“Fræðimenn hafa almennt ályktað af þeim fróðleiksmolum, sem ísl.

Gauksstaðaskip

Gauksstaðaskipið – uppgröftur.

Fornrit varðveita í máli og myndum um knörrinn, að hann hafi verið stuttur að tiltölu við lengdina, a.m.k. í smanburði við langskipin, allborðhár miðskipa, en þó reistur í stafni, einsigldur með þversegli. Farmrýmið var miðskipa og þar stóð siglan, en hana mátti fella, ef þurfa þótti. Fyrir framan og aftan farmrúmið voru róðrarúm, en þau tengdu gangpallar, er voru meðfram síðum beggja vegna, utan við búlkann. Knörrinn var farmskip, og við það var gerð hans miðuð. Hann var sjóborg í samanburði við langskipið, en þungur í vöfum og þess vegna ekki til að fleyta honum langar leiðir á árum.”
Sé aftur vikið að skipunum frá Skuldelev þá fundust þar, auk knarrarins, tvö langskip. Langskipin voru löng og lág. Hið minna er 18 m á lengd, breiddin er 2.6 m og hæðin miðskips 1.1. m. Það er úr aski og gátu 24 menn setið undir árum. Einnig var á því siglutré. Stærra skipið er úr eik og hafa 40-50 manns getað verið undir árum á því. Lengd þess er 28 m. Erfitt er að meta breiddina þar sem það er verr farið en hin skipin. Með rúmlega fjóra tugi manna undir árum hefir það náð mikilli ferð.
Um það hefir verið deilt hvort norsku skipin, sem kennd eru við Tune, Gokstad og Oseberg, hafi verið ætluð til úthafssiglinga. Tilraunin með Gokstadskipið sýnir að það var vel haffært og gat borið rúmelga 30 tonn. Hins vegar er líklegt, að Tuneskipið og Osebergsskipið hafi einkkum verið ætluð til siglinga innan skerja eða á styttri leiðum milli landa.

Víkingaskip

Víkingaskipasteinn.

Skipin, sem kennd eru við Skuldelev, sýna betur en önnur skip, sem fundist hafa og eru frá víkingatíma, hvernig háttað var skipasmíðum á Norðurlöndum áúthallandi víkingatíma. Knörrinn er sá eini, sem fundist hefur svo óyggjandi sé. Í Björgvin hafa fundist viðir úr skipi, sem talið er að hafa verið knörr. Þar er þó um svo litlar leifar að ræða að illmögulegt er að gera sér ljósa grein fyrir því skipi, en það hefir verið af svipaðri stærð og knörrinn úr Hróarskeldufirði.”
Víkingar smíðuðu einkum tvær gerðir skipa, langskip og knerri. Langskip voru helst noturð til siglinga með ströndum fram og til eyja. Þau ristu grunnt, voru bæði létt og hraðskreið.
Langferða- og flutningaskip sem sigldu á milli landa voru knerrir. Þeir voru þungir í vöfum og djúpsigldir breiðir og borðháir. Knerrir fóru því vel í sjó. Í botni skipsins var svefnstaður manna og þar var farangri og varningi komið fyrir.

Víkingaskip

Steinrissa af víkingaskipi, sem fannst við fornleifauppgröftinn að Stöð í síðasta mánuði, hefur líklegast verið verndargripur fyrir erfiða ferð yfir hafið. Danskir sérfræðingar hafa að undanförnu grandskoðað steininn. Þeir efast ekki um að teikningin sé af skipi en þykir hún óvenjuleg.

Um 800 smíðuðu víkingar sér stærri og fleiri skip en áður höfðu þekkst, og þá óx þekking í landafræði og siglingarlist. Í seinni tíma umfjöllun um víkingaskipin segir m.a. að nú til dags eru víkingaskip taldin “ófullkomnir farkostir, yfirtjölduð með einni stórsiglu miðskips, einu ránsegli og stýrisár.

Sigling á þessum skipum gekk ærið misjafnlega og til vöruflutninga á langleiðum um úthaf voru þau lítt hæf, því að erfitt var að stýra þeim til ákveðinnar hafnar. Reynsla síðustu ára hefur hins vegar sýnt að skipin voru hin bestu sjóskip og segja má að þau hafi grundvallast á þeirri siglingartækni er best þykir í skipasmíðum nútímans.

Íslendingur

Íslendingur í Víkingaheimum.

Nútímamenn hafa nokkrum sinnum smíðað eftirlíkingar af skipum víkinga.”
Víkingaskip (knörr og langskip) eru ein þeirra “verkfæra”, sem landnámsmenn notuðu, m.a. til að komast til eyjarinnar. Margir komu með það að markmiði að setjast að í nýju landi. Sumir voru samskipa með öðrum eða hafa haft fleiri en eitt skip. Telja má sennilegt að allt það sem þeir komu með hafi síðan verið notað, einnig skipin.

Víkingaskip entust í u.þ.b. 10 ár og jafnvel lengur. Þá hafa þau eflaust verið notuð í annað, t.d. klæðningar, húsagerð, áhaldagerð o.fl. Skipin voru flest úr eik, en einnig öðrum viðartegundum. Veikasti hlekkurinn í þeim voru böndin, sem byrðingurinn var bundinn með. Þau voru úr hampi og fúnuðu. Ekki var hægt að binda skip upp að nýju nema rífa það frá grunni. Það var líka erfitt því í einu skipi voru þúsundir járnhnoðnagla. Járnið var dýrmætt og notað aftur þegar það gafst.

-Úr Íslensk þjóðmenning – Upphaf Íslandsbyggðar – Haraldur Ólafsson, riststj. Frosti F. Jóhannsson – Reykjavík 1987, bls. 81-89.

Afstapahraun

Víkingaskip í Afstapahrauni.

krýsuvíkurvegur

FERLIR sendi Vegagerð ríkisins eftirfarandi ábendingu:

“Sennilega er til lítils fyrir litla manninn að senda fulltrúa hinnar miklu Vegagerðar póst sem þennan. En það má þó alltaf reyna…
ReykjanesbrautinMálið er að hinu nýju vegir gera alls ekki ráð fyrir að fólk vilji stöðva ökutæki sín og ganga út frá þeim, t.d. á sögulega staði, minjasvæði eða að tilteknum náttúrufyrirbærum (eða bara til að komast í skjól þegar sólin skín eða til berja á haustin). Nýleg dæmi má nefna hinn nýja Suðurstrandarveg og Reykjanesbrautina (sem og Suðurlandsveg um Svínahraun).  Báðar brautirnar virðast hafa verið hannaðar af hreyfihömluðum. Hvergi er hægt að leggja ökutækjum með það fyrir augum að ganga sér til hressingar eða ánægju. Ef einhver ætlar að ganga frá Suðurstrandarvegi í Viðeyjarfjárborgina, Einbúa eða inn með vestanverðu Fagradalsfjalli (þar sem sögulegir atburðir gerðust í síðari heimstyrjöldinni, t.d. í Kastinu), verður sá hinn sami annað hvort að leggja ökutæki sínu við Ísólfsskála eða upp á Siglubergshálsi, sem er auðvitað alveg út úr kortinu. Ef sá hinn sami vildi ganga upp í Ólafsgjá ( sjá t.d.
http://ferlir.is/?id=6904) eða í selin í Voga- og Strandarheiði þarf hann að leggja við Hafnahóla eða Vogaafleggjara, sem lengir leiðina um allnokkra kílómetra. Af Svínahraunsveginum er nú orðið ómögulegt að komast út af svo hægt sé að ganga upp í Eldborgir eða Leiti.
Hvers vegna er ekki tekið mið af landslaginu í upphafi og gerð lítil bílastæði, s.s. fyrir 1-3 bíla svo hægt sé að leggja og ganga þaðan að tilteknum stöðum utan þeirra, eða bara til öryggis ef bíll skyldi bila á þessum leiðum?”

Suðurstrandarvegur

Opnun Suðurstrandarvegur. Hvergi hægt að leggja við veginn.

 

Litla-Mosfellssel

“Tilgangurinn með verki Hitzlers var að koma þekkingunni um seljabúskapinn á Íslandi á fastan grundvöll og varpa ljósi yfir þennan þátt íslenskrar menningarsögu, eins og þegar hafði verið gert í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu og reyndar sunnar og austar í Evrópu einnig. Þar hafa mikil verk um þetta efni verið gefin út á öldinni og lætur höfundurinn í ljós undrun á því, að hið sama skuli ekki hafa veriðgert á Íslandi. Hann kennir því um, að hér á landi var seljabúskapurinn að heita má algjörlega horfinn um aldamótin [1900] og farið að fenna í sporin, þegar áhugi á þessu vaknaði í Skandinavíu á millistríðsárunum vegna þess að búskaparhættir þar voru óðum að breytast og selin að týna tölunni.

Egon Hitzler

Egon Hizler og Gísli Sigurðsson.

Það er enginn vafi á því, að seljabúskapur skipti í eina tíð miklu máli hér á landi. Um það vitnar hinn miklu sægur orða í málinu, sem á rætur sínar að rekja til hans, örnefnaforðinn og seljarústir víða um land. Með hjálp þeirra auk margkyns ritaðra heimilda, munnlegra heimilda og vettvangsransókna reynir höfundur að draga upp mynd af þróuninni frá fyrstu tíð og fram á þennan dag.

Helstu ritaðar heimildir frá miðöldum eru máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar í fornbréfasafninu auk Landnámu, Íslendingasagna og lögbókanna. Frá síðari tímum er jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns drýgst. Ferðabækur og Íslandslýsingar frá 18. og 19. öld veita einnig mikinn fróðleik, einkum um lífið og störfin í seljunum, sömuleiðis ritgerðir, sem skrifaðar voru á síðari hluta 18. aldar og um aldamótin 1900 til þess að reyna að blása nýju lífi í seljabúskapinn. Sýslulýsingar byggðar á spurningalistum Bókmenntafélagsins 1839-1873 gefa nokkra innsýn í ástandið á 19. öldinni og svör við spurningalista Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1962 um fráfærur varpa nokkru ljósi yfir síðasta skeið seljabúskapar hér á landi um aldamótin 1900.

Egon Hitzler

Egon Hitzler og Gísli Sigurðsson. Gísli fór með Egoni og sýni honum sel í nágrenni Hafnarfjarðar.

Höfundur leitar heimilda frá fyrstu tíð og er megintilgangurinn að komast að eðli og sérkennum íslensks seljabúskapar. Í síðustu köflunum er hins vegar leitast við að rekja sögu seljabúskaparins og gera grein fyrir útbreiðslu og þýðingu hans. Í þriðja kafla er t.a.m. athyglisverð tilraun til þess að meta vinnuálag í seljunum. Með því að bera saman bússmala (mjólkandi kýr og ær) skv. jarðabókinni á allmörgum bæjum með sel við upplýsingar um búsmala á nokkrum bæjum á síðari hluta 19. aldar fæst sú niðurstaða, að fjöldi áa hefur vaxið mjög miðað við kýr og þar með hefur vinnuálagið vaxið og erfiðleikar og kostnaður í sambandi við hjúahald.

Enn mikilvægari verður jarðabókin í sambandi við rannsóknina á þróun og útbreiðslu seljanna. Þótt höfundur hafi farið yfir alla jarðabókina og reiknað út hlutfallið milli selstaða og býla í þeim sýslum, sem jarðabókin telur yfir (meðaltalið reyndist 23 af hundraði og munurinn á sýslum frá ca. 10 af hundraði í Rangárvalla- og Eyjafjarðarsýslu upp á rúmlega 50 af hundraði í Dalasýslu) þá hefur hann ekki gert nákvæma rannsókn á landinu í heild, heldur valið úr svæði, sýslurnar Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu, til nákvæmrar athugunar og samanburðar við eldri og yngri heimildir (V. kafli). Forsendan fyrir valinu er sú að eftir athugun á öllum gögnum í fornbréfasafninu kemur í ljós að úr þessum sýslum hafa varðveist fleiri skjöl um selstöður en í öðrum sýslum (IV. kafli). Til samanburðar fyrir tímabilið eftir skráningu jarðarbókarinnar þrengir hann enn valið og tekur Sauðadal í Húnavatnssýslu á milli Vatnsdals og Svínadals (VI. kafli).

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Elsta heimild um selstöðu þar er máldagi Hjaltabakkakirkju frá 1318, en skv. heimildarmönnum var síðast haft þar í seli aldamótaárið eða 1904. Fjölmargar seljarústir eru í dalnum og hefur höfundur því getað rakið sögu seljanna frá miðöldum og fram á síðasta áratug, síðasta spottann á göngu um dalinn með staðkunnugum heimildarmönnum og ljósmyndavél sér við öxl.
Með þessari aðferð gefur höfundur hugmynd um umfang seljabúskapar í upphafi 18. aldar, en ekki beinlínis um útbreiðslu hans, gefur dæmi um það hversu langt aftur og fram má rekja sögu sumra selja og sýnir fram á að breytingar hafa átt sér stað á eignaraðild, nýtingarrétti, staðsetningu o.fl. Nokkra hugmynd um útbreiðslu selja gefur hins vegar kortið á bls. 93, sem sýnir bæjarnöfn með nafnliðum sel eftir heimildum frá 19. og 20. öld. Það er þó langt í frá að öll kurl séu komin til grafar þar. Auk þess sem gera má ráð fyrir að eins brot af seljunum hafi orðið að býlum má reikna með að bæjarnöfn séu ekki einhlít vitni [sbr. bæjarnafnið Stardalur). Sel urðu ekki endilega að býlum þar sem þau voru flest heldur þar sem landkostir voru bestir. Á suðurkjálkanum, þar sem sem voru tiltölulega mörg sel, er t.a.m. ekkert bæjarnafn sem vitnar um slíkan uppruna. [Hafa ber þó í huga Straumsel, sbr. framangreint]. Ennfremur má benda á að ekki eru talin býli sem komin voru í eyði um miðja 19. öld.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Hverjar eru niðurstöður höfundar? Miðaldagögnin eru fyrst og fremst skjöl sem kveða á um eignar- eða nýtingarrétt, máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar. Þau ná yfir fimm aldir, frá 1140-1570, og sýna að selstöður hafa lotið sömu reglum og hlunnindi, þannig var hægt að selja, gefa eða leigja selstöðu og kom oftast ítak fyrir ítak. Á grundvelli þess er seljunum skipt í fjórar tegundir, þ.e. 1. sel í heimalandi, sem mun vera það upprunalega, 2. sel í sel- eða seljalandi, á eigin jörð, en fjarri heimalandi, 3. réttindi eða ítak í landi annarrar jarðar, 4. leigusel. Fyrsta örugga dæmið um það er frá 16. öld. Máldagar spegla ástand, sem er býsna stöðugt, en hvernig koma aðstæður í upphafi 18. aldar heim og saman við aðstæður á miðöldum? Samanburður sýnir að þótt rekja megi réttindi til selstöðu langt aftur í miðaldir þá hafa þó miklar breytingar átt sér stað. Samanburðurinn við Sauðadal gefur til kynna að sveiflur hafa átt sér stað. Seljabúskapurinn í byrjun 18. aldar er sýnilega í afturför. Af 188 selstöðum sem nefndar eru í sýslunum þremur eru 70 niðurlagðar. [Þessi hlutfallsskipting kemur vel heim og saman við samanburð á heildarfjölda selja á Reykjanesi við Jarðabókina 1703].

Færikvíar

Færikvíar.

Rannsókn Egon Hitzlers staðfestir þá mynd sem menn hafa gert sér um þróun búskaparhátta á Íslandi, að þeir hafi haldist lítt breyttir, en verið undirorpnir nokkrum sveiflum og að yfirleitt hafi heldur sigið á ógæfuhliðina. Þannig virðist seljabúskapur hafa staðið með meiri blóma á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, t.a.m. virðist heyöflun hafa skipt miklu máli og bendir ýmislegt til þess að verulegur hluti heimilsfólks hafi dvalist í seljunum um tíma á sumrin. Hins vegar hefur höfundur ekki fundið dæmi um það að heyjað hafi verið í seljum á 19. öld. Þá getur eyðing skóga hafa átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Ef horft er til seljanna á Reykjanesi og landshátta þar með hliðsjón af framansögðu er raunhæft að álykta að ekki hafi verið heyjað í seljum þar. Þau eru yfirleitt í hraunum eða utan í þeim og gras er einungis að sjá næst eða í kringum selin eftir áburð búsmalans. Sjaldnast eru um samfelld grassvæði að ræða, nema ef vera skyldi á Selsvöllum og hugsanlega á Baðsvöllum. Þar er þó sagt (sjá meðfylgjandi skrif Guðrúnar Ólafsdóttur) að seljabúskapur hafi lagst af vegna ofbeitar. Líklegast er, miðað við aðstæður, sem eru allólíkar aðstæðum annars staðar á landinu, að einungis hafi verið um sumarbeit að ræða í og við selin á Reykjanesi. Hitt er einnig athugunarvert að eldiviður hafi verið ein forsenda seljabúskaparins. Það gæti að hluta til skýrt hinn mikla fjölda selja á Reykjanesi miðað við aðra landshluta því jafnan var, a.m.k. framan af, næg hrístekja og runnagróður í eldri hraununum á skaganum, s.s. í Almenningum, í Skógarnefi ofan við krosstapana og jafnvel á Selvogsheiðinni. Víða annars staðar á landinu voru “áreiðanlegir” lækir eða jafnvel ár, en víðast hvar á Reykjanesi urðu bændur að treysta á úrkomu til að halda við vatnsbólum og brunnum í hraununum].

Kárastaðasel

Kárastaðasel.

Auk harðanandi veðráttu og rýrnunar landgæða hefur verðlag eflaust haft sín áhrif. Hækkað verð á smjöri og aukin eftirspurn hafa líklega bæði ýtt undir fækkun selja með því að sel voru þá gerð að föstum bylum og fjölgun vegna þess að ný sel hafa verið tekin upp eða gömul tekin upp að nýju. Eftirspurnin eftir vinnufólki hefur eflaust einnig haft áhrif. Í Noregi er yfirleitt talið að kostnaður í sambandi við vinnufólk og skortur á vinnuafli hafi verið ein meginástæðan fyrir því að sel lögðust af. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær, sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skiptu minna máli.

Selvogsheiði

Selsminjar í Selvogsheiði.

Í síðasta kaflanum reynir höfundur að setja íslenska seljabúskapinn í alþjóðlegt samhengi. Það kemur víst engum á óvart að hann virðist vera sama eðlis og sá sem í Noregi kallast sæter (seter) bruk, í Þýskalandi Alm-Alp- eða Sennwirtschaft. Helstu einkenni hans eru að búsmalanum er haldið til haga fjarri heimahögum til þess að létta af þeim og tryggja betri beit. Unnið er úr afurðunum í seljunum og þær fluttar til heimabæjar annað hvort að hausti eða við og við. Dæmi eru einnig um að önnur fæðu- eða forðaöflun hafi átt sér stað. Höfundur hefur ekki fundið neitt, sem sérkennir íslensku selin nema hvað helst að yfirleitt er lítill, ef nokkur, hæðarmunur á heimabæ og seli hér á landi, enda staðhættir aðrir en í Noregi og Ölpunum. Á þeirri forsendu hafnar hann líka kenningu Lars Reitons (1946), að hér á Íslandi hafi mátt finna vor-, sumar- og haustsel líkt og sums staðar í Ölpunum og Noregi. Vorselin og haustselin gegndu því hlutverki að létta af heimahögum á meðan fjallagrösin voru ósprottin eða farin að sölna.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Höfundur lýkur bók sinni á þeirri frómu ósk, að hann hafi lagt grundvöll sem nýta megi til framtíðarrannsókna á sérstökum þáttum sem enn þurfi nánari athugunar við og bíði fræðimanna í öðrum greinum og með öðrum aðferðum en fílólógískum og sagnfræðilegum. Vissulega vakna ýmsar spurningar við lestur bókarinnar. Fengur væri að uppgrefti á einhverjum seljarústum. Rannsóknir á örnefnum, þjóðsögum og munnmælum tengdum seljum gætu einnig varpað ljósi yfir þenann þátt menningarsögu okkar. En hvað sem því líður þá verður ekki annað sagt en að Egon Hitzler hafi með bók sinni rennt traustum stoðum undir þær niðurstöður, sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1961) og Þorvaldur Thoroddsen (1908-22) voru búnir að setja fram fyrr á öldinni”.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Hitzler byggir lýsingar sínar og athuganir að meginefni á heimildum úr þremur sýslum norðanlands. Þótt seltíminn og verklag í seljum hafi ekki verið svo ólíkt á milli einstakra landshluta hafa aðstæður á hverjum stað þó áreiðanlega sett mark sitt á hvorutveggja, líkt og var með aðra atvinnuhætti eða jafnvel talað mál. Ekki er því alveg hægt að heimfæra niðurstöður Hitzlers ógagnrýnislaust upp á selbúskapinn á Reykjanesi því aðstæður þar hafa verið ólíkar öðrum hluta landsins þótt ekki væri fyrir annað en hraunin, takmarkað landrými eða beitarmöguleika og heyjanir. Líklegt má þó telja að verklagið sjálft hafi verið svipað um land allt, ef ummerkjum í seljunum að dæma virðist húsakostur yfirleitt hafa verið fremur rýr á Nesinu ef bornar eru t.a.m. saman tóftir í seljum norðanlands.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi umfjöllun var um vörðuna Kölku í dálknum “Víkverji skrifar” í Morgunblaðinu árið 1949. Kalka var fyrrum áberandi kennileiti á Háaleiti, gíg, norðvestan Njarðvíkna.
“Ýms gömul og hálf gleymd örnefni hafa komið í ljós í sambandi við tillögurnar um nafnið á  KalkaKeflavíkurflugvelli og þótt ekki fáist nafn á flugstöðina, þrátt fyrir alla fyrirhöfnina, sem þessar nafnatillögur hafa kostað, þá hefir það þó áunnist, að grafa upp þessi gömlu nöfn.
Góður og gegn Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson í Nýlendu í Miðneshreppi, segir í brejfi frá vörðu, sem stóð eini sinni þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur og kalka var nefnd. Glöggir menn á íslenskt mál vita ekki af hverju nafn þetta er dregið, en sumir geta sjer til, að það sje komið af kalki og tekur Magnús, að vel geti verið að þarna hafi verið kalkvinnsla til forna, þótt nú sje gleymt.
KeflavíkurflugvöllurBrjef Magnúsar í Nýlendu er á þessa leið: “Kæri Víkverji! Nafnið Keflavíkurflugvöllur er orðin hefð í málinu enda, enda þótt flugvöllurinn sje aðallega á Háaleiti og Mosunum í Miðnesheiði, en teygi anga sína niður fyrir Njarðavíkur-Ása og lítið eitt suður í Hafnaheiði.
Á Háaleiti stóð varða, gild en ekki há, mosavaxin af elli. Hún var nefnd Kalka. Á hverjum einasta fjallskilaseðli sem borinn var bæ frá bæ á Miðnesi frá 1885-1905 (og eflaust fyrir og eftir þann tíma) stóðu þessi orð: “….og mætið allir við Kölku á Háaleiti kl. 9 f.h. og skiftið ykkur eftir því, sem fjallkóngur mælir fyrir” o.s.frv. Kalka var því merkileg að þessu leyti, og kann að hafa verið það að fleiru leyti þó mjer sje það ekki kunnugt. Nú er Kalka horfin slík er hún var, en upp er risið á Háaleiti nýtt, glæsilegt hótel, sem vantar nafn. Auðvitað heitir hótelið “Kalka” og ekkert annað. Það er gömul íslenska, stutt og laggóð. – Magnús Þórarinsson.”

Njarðvík

Það má telja víst, að flugstöðin í Keflavík verið kölluð blátt áfram Keflavík, eða Ísland og af þessum tveimur nöfnum er það síðara betra. En þrátt fyrir það verða birt hjer nokkur nöfn, sem stungið hefur verið upp á síðustu dagana: “Gimli”, “Atlantic”, Leiti, Einbúi, Björg, Eldey, Thule, Fálkinn, Fortuna, Eldorado, Gammur, Gandur, Svanasetur, Svanavellir, Alda, Bára, Skýjaborg.

Er þá nóg komið. Á morgun verður flugstöðin vígð.”
Nokkrum dögum síðar birtist eftirfarandi í sama dálki;

 Kalka.

Kalka.

“Nokkrar umræður hafa orðið um vörðuna Kölku á Háaleiti, þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur.
Nú hefir aldraður maður, Eríkur Torfason, bent á skýringu um uppruna nafnsins á vörðunni, sem er mjög sennilegt. Eiríkur hefir það eftir Magnúsi Bergmann, sem bjó í Leiru, greindur maður og skýr, að Kalka sje þannig til kominn, að endur fyrir löngu hafi kaupmenn í Keflavík látið reisa vörðuna og kalkað hana. En vörðuna hafi þeir notað til þess, að gá að ferðum kaupskipa á vorin. Hafi þeir riðið, eða gengið að vörðunni er skipa var von, með sjónauka sína, því þarna sjáist vel út á sjóinn í björtu veðri.
Kemur þessi skýring heim við það, sem Magnús Þórarinsson sagði frá, að hvítt hafi verið við vörðuna, en það stafar af því, að hún hefir á sínum tíma verið kölkuð til þess, að hún sæist betur. Og af því stafi nafnið.”

Heimild:
-Morgunblaðið 8. apríl 1949.
-Morgunblaðið 21. apríl 1949.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Óttarsstaðasel

Gengið var að Óttarstaðafjárborginni (Kristrúnarborg). Borgin er mjög heilleg,

Brennisel

Brennisel – kolagröf fremst.

Skammt austan við borgina er Slunkakríki, rauðamölshóll í djúpri hraunkvos. Á hólnum stóð eitt sinn listaverk, en er nú niðurnítt. Gengið var upp að Brenniseli, en á leiðinni var leitað að öðru kolaseli, sem fannst fyrir u.þ.b. tveimur árum, en týndist aftur. Það kom í leitirnar skammt norðan við Brennisel. Það virðist vera mun eldra. Brenniselið er með fallegri fyrirhleðslu og tótt í gróinni kvos. Fast austan hennar er hlaðið fjárskjól. Í tóftinni er talsvert hrís. Erfitt er sjá tóftina eftir að runnar fara að laufgast í byrjun sumars.

Álfakirkja

Álfakirkja í Hraunum.

Haldið var upp í Álfakirkjuna og hún skoðuð. Norðan undir henni er hlaðið fjárskjól með fyrirhleðslum. Álfakirkjan var talinn einn helgasti staður álfanna í Hraunum. Hraunamenn trúðu því að álfarnir héldu verndarhendi yfir fénu er leitaði skjóls í skútanum.
Þá var haldið til suðurs upp í Lónakotssel. Í selinu eru fjögur hús, þrír stekkir og fjárskjól í hraunkvos. Fjárskjólið er niður og utan í hraunkvosinni vestan við selið. Í henni er einnig einn stekkjanna eða gömul rétt. Norðaustan seljanna er stekkur og annar sunnan þeirra. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Þá var haldið yfir að Óttarstaðaseli. Vestan þess er Tóhólaskúti, hlaðið fjárskjól. Selið sjálft er einungis eitt hús með þremur rýmum (dæmigerð selstaða á Reykjanesskaganum). Sunnan þess er þrískiptur stekkur og lítil rétt. Enn sunnar er Rauðshólsskúti, hlaðið fjárskjól. Norðnorðaustan hans er hlaðinn nátthagi. Norðan selsins er Norðurskjól, svo til alveg við Óttarstaðaselsstíginn. Stígnum var fylgt til norðurs. Á leiðinni var komið við í Sveinsskúta, hlaðið fyrir fjárskjól, og Bekkjakúta, einnig hlöðnu fjárskjóli í hraunkvos. Komið var niður á Alfararleiðina og henni fylgt til vesturs uns hringnum var lokað.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gálgaklettar

Gengið var um Gálgahraun, en hraunið sem og Klettahraun eru nyrstu hlutar Garðahrauns. Eftirfarandi lýsing er m.a. byggð á lýsingu Jónatans Garðarssonar um svæðið. Um Hraunin lá svonefndur  SelurFógetastígur, frá Reykjavík til Bessastaða, Garðagata og Móstígur.
“Nyrsti hluti Búrfellshrauns nefnist Garðahraun og skiptist í Engidalshraun og Klettahraun sem er líka nefnt Klettar. Allra nyrst er Gálgahraun þar sem hraunið gengur fram í Lambhúsatjörn og Skerjafjörð. Þetta er gott útivistarland og margt að sjá í hrauninu og fjörunni. Gróðurfar er fljölbreytt, klettamyndir stórfenglegar, djúpar gjótur og grunn jarðföll setja svip á landið og ströndin er heillandi. Við hraunjaðarinn eru fallegir bollar og hraunstrýtur og klettar af öllum stærðum. Myndarlegustu klettarnir bera einkennandi nöfn eins og Stóriskyggnir og Litliskyggnir og skammt frá þeim eru Vatnagarðarnir. Frægastir eru Gálgaklettar, eða Gálgar, sem eru þrír stórir hraundrangar sem standa í þyrpingu. Það eru Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, sem segja má að sé þríklofinn klettur og þar af leiðandi allt eins nefndir einu nafni Gálgaklofningar.

Hraunkarl

Við Gálgana átti að vera staður sem kallaðist Gálgaflöt. Munnmæli herma að þar hafi sakamenn sem hengdir voru í gálgunum verið dysjaðir. Grasi grónir balar norðan við Gálgakletta eru grænni en aðrir staðir nærri klettunum. Ekki er ljóst hvar Gálgaflötin var en þessir balar koma sterklega til greina. Ritaðar frásagnir af því að mannabein hafi fundist við Gálgakletta bera þess vitni að þar hafi menn verið dysjaðir þó aðrar skráðar heimildir séu ekki fyrir hendi.
Áður fyrr þótti hraunið ekki mjög heillandi eða árennilegt öðrum en þeim sem þekktu það vel. Álftanesgata eða Fógetagata eins og hin forna alfaraleið út á Álftanes var nefnd, lá í krókum gegnum hraunið eftir ruddri slóð.

Fógetastígur

Gatan var ágæt yfirreiðar í björtu veðri en gat reynst hættuleg og valdið óhugnaði hjá fólki í dimmviðri, regni og vetrarhríð. Gatan var líka nefnd Gálgahraunsstígur nyrðri og Sakamannastígur. Þessi nöfn voru nægjanlega skuggaleg til að setja hroll að ferðalöngum sem áttu leið um þessa grýttu og torfæru götu eftir að rökkva tók. Gatan er enn nokkuð augljós og auðvelt að rekja sig eftir henni þar sem hún fetar sig upp á hraunið nærri Eskinesi við botn Arnarvogs yfir hraunið og að hraunbrúninni rétt norðvestan við Garðastekk. Hraunið þótti það villugjarnt að um tíma gat Arnes Pálsson falist þar á 18. öld, en hann var kunnur þjófur sem lagðist út og var samtíða Fjalla Eyvindi og Höllu. [Arnes dvaldist í Arnesarhelli við Hraunsholt, nokkru austar, undir norðurbrún Flatahrauns.]
Þeir sem kunnu að nýta það sem hraunin gáfu af sér töldu þau afar gjöful. Hraunið tilheyrði Garðakirkju og fengu leiguliðar kirkjunnar að beita þar sauðfé sínu. Víða í grasgefnum lautum í hraunjaðrinum og út með ströndinni var ágætist útibeit fyrir sauðfé hvort heldur var að sumri eða vetri. Auðvelt var að útbúa fjárskjól í hraunskútum og má finna minjar um smala- og fjárskjól ásamt hlöðnum byrgjum á nokkrum stöðum. Þegar skyggnst er ofan í jarðföll, sprungur í hraunjöðrum og klettaborgum sjást þessar grjóthleðslur, eða vallgrónir torf- og grjótveggir. Stundum var hlaðið upp við sprungur og reft yfir til að nýta náttúrlegar aðstæður sem best. Slíkar minjar er hægt að finna í Klettahrauni og Gálgahrauni, t.d. á Grænhól, við Garðastekk og við Eskines.
 GálgahraunHraunið gat verið ágætis beitiland en það var ekki hættulaust að nýta það. Sauðamenn fylgdu sauðfénu og gættu þess að það færi sér ekki að voða því víða leynast glufur í hrauninu sem geta valdið skaða. Á vetrum var fénu beitt í fjörunni á hólmum og flæðiskerjum. Það var því mikilvægt að gæta að sjávarföllum og koma fénu í land áður en féll að. Féð gekk í fjöru frá Gálgaklettum inn að Eskinesi og þar rak oft ferskan marhálm sem var á við töðugjöf þegar hálmurinn var nýr. Fjárkynið sem undi sér best í Klettunum var kallað Klettafé. Það var á útigangi í hrauninu nema þegar rekið var á fjall yfir hásumarið. Hraunið var leitótt og erfitt yfirferðar og féð styggt og meinrækt að sögn Ólafs Þorvaldssonar, sem bjó í Ási við Hafnarfjörð. Þetta leiddi til þess að iðulega kom fyrir að eitthvað af fénu komst ekki á fjall og var í hrauninu allt árið.

 Gálgahraun

Nokkur örnefni og kennileiti minna á þessa tíð, þ.á.m. eru Garðastekkur og Garðarétt, ásamt túnflekk og húsatóftum í hraunjaðrinum á móts við Prestaþúfu. Beitin hefur án efa átt sinn þátt í að eyða kjarrgróðri sem eflaust hefur vaxið í hrauninu í öndverðu. Birki og víðir eru að ná sér á strik á stöku stöðum í hrauninu en það er að mestu vaxið lyngi, mosa og hverskyns lággróðri.  Hálmskurður var stundaður aðallega í Lambhúsafjöru í Lambúsatjörn. Skorinn Marhálmurinn var notaður þegar illa áraði og heyfengur af skornum skammti og þótti góð búbót því nautgripir voru sólgnir í hann. Hálmur sem rak á Lambhúsafjörur var góður sem undirlag í rúm og til að útbúa dýnur. Hann var stundum notaður sem stopp í söðla og hnakka og jafnvel í sængur. Marhálmurinn var algjörlega ónýtur sem eldsneyti en þegar farið var að byggja timburhús var hann mikið notaður til að einangra milli þilja. Hann var seldur til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og notaður í íshúsin, einkum Nordalsíshús og Ísbjörninn.

 Gálgahraun

Guðmundur Þóroddson í Lásakoti á Álftanesi hafði atvinnu af því að hirða marhálm í Skógtjörn, þurrka hann og flytja á tveimur hestum til kaupenda. Marhálmur vex í minna mæli nú en áður og hvarf að mestu veturinn 1918-19. Hálmurinn er mikilvæg fæða álfta sem Álftanes dregur væntanlega nafn sitt af. Margæsir sem staldra hér við á vorin og haustin á leið sinni til og frá vetrastöðvunum í Bretlandi en sumarsvæði hennar eru í Grænlandi og Kanada sækjast í marhálminn. Það eru fleiri fuglar sem sækja í tjarnirnar á Álftanesi í grennd við Gálga- og Klettahraun. Fuglalífið er ákaflega fjölbreytt og tegundafjöldinn óvenju mikill.
 GálgahraunTalsverð búbót var af torfristu og mótekju en fjörumór þótti mun betri eldsmatur en hálmurinn. Garðhverfingar höfðu leyfi til að skera þang í fjöru en rekaþangið var betra og þornaði fyrr en þang sem var skorið í sjó. Það var ekki eins salt og brann líka betur. Mór og þang var þurrkað á þurrkvöllum í hrauninu og á hlöðnum þurrkgörðum. Það var síðan geymt í hlöðnum grjótbyrgjum. Þegar þangið var vel þurrt var það bundið upp í sátur sem voru bornar á bakinu heim á bæina. Þegar allt annað þraut var lyng rifið og notað sem eldsmatur og það litla sem fékkst af kvisti var líka tekið.
Jón Jónsson jarðfræðingur segir í bókinni frá Fjöru til fjalls að sjávarstaða hafi verið lægri en nú er þegar Búrfellshraun rann. Eskines er kvísl eða hrauntangi sem gengur lengst út í Arnarvog og hefur stöðvast á þurru landi telur hann. Nesið hefur brotnað á undangenginni öld og sjór flæðir nú yfir stóran hluta þess á stórstraumsflóðum.

Tóft

Húsatóftir sem eru að eyðast sjást enn á Eskinesi. Erfitt er að henda reiður á hvort þetta er gömul verbúð eða kotbýli, en líklegast er að þetta sé hús sem Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum lét reisa um 1870. Hann ætlaði að koma upp æðarvarpi í Eskinesi. Samkvæmt frásöng Ólafs Þorvaldssonar lét hann reisa kofa í hraunjaðrinum og þar eru vallgrónar minjar, þannig að það má vera að tóftirnar á nesinu séu af eldra húsi. Séra Þórarinn flutti karl og konu í kofann og lét þau hafa hænsnfugla hjá sér sem áttu að lokka æðakollurnar til að verpa í hreiðrin sem útbúin höfðu verið. Þetta hafði ekki tilætlaðan árangur og gafst Þórarinn upp á þessari tilraun stuttu seinna. Norðan við Eskineseyrartá eru tvö eða þrjú flæðisker sem sauðfé sótti mjög í á sínum tíma. Þar varð verulegur fjárskaði um 1900 þegar 40-50 kindur úr Hafnarfirði og Garðahverfi flæddi til dauðs.
Þrátt fyrir dulúð, drunga og harðneskjublæ sem fylgir óneitanlega Gálgahrauns- og Klettahrauns nöfnunum eru margir heillandi staðir á þessum slóðum.

 Gálgahraun

Þeir sem vilja kynnast þessu merka hrauni nánar ættu að gefa sér tíma og fara nokkrar ferðir um hraunið. Það er margt að sjá og um að gera að skyggnast eftir minjum og áhugaverðum stöðum.
Ekki má gleyma strandlengjunni sem er síbreytileg og tjarnirnar í Vatnagörðunum eru mjög sérstakar. Það er auðvelt að fara um hraunið allan ársins hring og hægt leita skjóls ef vindur blæs og regnið lemur. Þarna hafa skáld og myndlistarmenn eins og Kjarval, Pétur Friðrik, Eiríkur Smith og Guðmundur Karl oft leitað fanga. Þeir sem hafa gaman af því að taka ljósmyndir ættu að finna ógrynni af skemmtilegum mótífum í klettum og klungrum.”
Selir léku sér í lygnunni á austanverðri Lambhúsatjörninni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir:
-Ólafur Þorvaldsson, Áður en fífan fýkur.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jón Jónsson, Frá fjöru til fjalls.

Gálgahraun

Jól

“Þegar líður að jólum og jólasveinar fara á kreik vakna margar spurningar, sérstaklega hjá yngstu kynslóðinni. Ein þeirra sem oft berst Vísindavefnum er hvar jólasveinninn eigi heima? Það eru ýmsar hugmyndir í gangi um heimkynni jólasveinsins og skiptir þá máli hvort átt er við þennan alþjóðlega sem ferðast um á hreindýrasleða eða þá þrettán bræður sem heimsækja íslensk börn.
jolasveinar-356Um heimkynni íslensku jólasveinanna er fjallað um í bók Árna Björnssonar um sögu jólanna. Þar segir á blaðsíðu 106: Í elstu heimildum er þess hvergi getið hvar Grýla og jólasveinarnir eiga heima, en það hefur jafnan þótt liggja í hlutarins eðli, að þau byggju uppi í fjöllum. Ein sögn frá Austurlandi hermir reyndar að þeir komi utan af hafi á skinnbátum, séu dökkir yfirlitum og skipti sér niður á bæi á jólaföstunni. Nærtæk er sú ályktun að á bak við þessa sögn leynist forn og brengluð munnmæli um skipbrotsmenn frá byggðum sama eða eskimóa.
Á seinni hluta 20. aldar fór fólk í ýmsum héruðum að staðsetja heimkynni Grýlu og jólasveina í nálægum fjöllum. Þannig hafa Borgfirðingar ýmist talið þau eiga heima í Skessuhorninu eða Hafnarfjalli, Hólmarar í Ljósufjöllum, Hjaltdælingar í Hólabyrðu, aðrir Skagfirðingar í Tröllaskaga, Svarfdælingar í Kerlingu, Mývetningar í Dimmuborgum, Borgfirðingar eystra í Dyrfjöllum, Héraðsbúar í Brandsöxl, Skaftfellingar í Síðufjalli, Biskupstungnamenn í Bláfelli, Selfyssingar í Ingólfsfjalli, Hvergerðingar í Reykjafjalla og Reykvíkingar hafa að sjálfsögðu fundið þeim bústað í Esjunni. Þessi búsetumál verður fólk og fjölmiðlar að koma sér saman um á hverjum stað.
jolasveinn-257Eins og upptalningin hér ber með sér er almennt álitið að íslensku jólasveinarnir búi upp til fjalla og þá líklega í helli. Þar býr einnig Grýla móðir þeirra, faðirinn Leppalúði og jólakötturinn.
Almennt virðast heimilisaðstæður töluvert aðrar hjá erlenda jólasveininum. Hann er ekkert endilega tengdur fjöllum eða hellisskúta heldur býr hann gjarnan í húsi og hefur þar verkstæði. Hann er fluttur úr foreldrahúsum og í mörgum sögum á hann eiginkonu þó svo að hún ferðist ekki með honum á sleðanum þegar hann er í embættiserindum. Auk þess hefur hann oft hjálparmenn, gjarnan álfa, sem vinna á verkstæði hans við að útbúa gjafir.
Almennt er talið að jólasveinninn lifi á norðlægum slóðum, en menn eru ekki á eitt sáttir um nákvæmlega hvar. Í Norður-Ameríku og reyndar víðar, er algengt að telja heimili jólasveinsins vera á norðurpólnum og þá átt við hinn raunverulega norðurpól, nyrsta punkt jarðarinnar eða næsta nágrenni hans. Þessi hugmynd kemur fyrir í ótal sögum, teiknimyndum, kvikmyndum og svo framvegis og er nokkuð föst í sessi.
Evrópubúar og sér í lagi Norðurlandabúar, virðast ekki álíta að jólasveinninn búi á norðurpólnum. Í Noregi er jólasveinninn, eða julenissen gjarnan talinn eiga heima í bænum Drøbak en fleiri staðir þar í landi koma líka til greina. Í Danmörku og á Grænlandi er jólasveinninn gjarnan tengdur við bæinn Uummannaq á norðvesturströnd Grænlands. Grænland fékk aukið alþjóðlegt vægi sem heimkynni jólasveinsins eftir að ársfundur jólasveina í Danmörku árið 2003, sem sóttur var af 130 jólasveinum, meyjum og aðstoðarmönnum frá 12 löndum, lýsti því yfir að í Grænlandi og hvergi annars staðar ætti jólasveinninn heima.
jolasveinn-258Finnar eru hins vegar sannfærðir um að jólasveinninn, eða joulupukki eigi heimkynni sín þar í landi og hafa gert nokkuð í því að koma þeirri hugmynd á framfæri. Þar mun jólasveinninn eiga heima í fjalli sem kallast Korvatunturi. Hins vegar er hann með vinnuaðstöðu og tekur á móti gestum í bænum Rovaniemi þar skammt frá og þangað berast honum þau bréf sem stíluð eru á hann í Finnlandi.”
Menn verða seint sammála um það hvar jólasveinninn á heima, eins og kannski má ráða af þessu svari sem þó gefur aðeins nokkur dæmi um möguleg heimkynni hans. Kannski er auðveldast að svara spurningunni um það hvar jólasveinninn býr með því sem stundum er sagt; að hann búi í huga og hjörtum þeirra sem á hann trúa.”

Heimild:
-visindavefurinn.is (sótt 25. 11. 2014)

Heimildir og myndir:
•Árni Björnsson. 2006. Saga jólanna. Ólafsfjörður: Tindur.
•A Fairytale of Christmas.
•I come from Greenland, says Santa á Guardian.co.uk.
•Julenissen á Wikipedia.
•North Pole, Alaska á Wikipedia.
•Santa Claus declared a Canadian citizen á Toronto Sun.
•Santa Claus House.
•Santa Claus, Indiana á Wikipedia.
•Santa Claus Village.
•Write to Santa á About.com.