Grindavík

Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Frá 11.mars 1973:

Tómas og hulda“Skammt þar frá sem vatnspósturinn stóð er annað apparat sem raunar er tengt líka en það er úrkomumælir Veðurstofunnar. Hvort sem þetta eru góð eða vond skipti stendur þessi mælir hjá glæsilegu húsi, fallega máluðu, og nýlegu og kannski mannst þú, Tómas, eftir fornfálegra húsi hér í þann tíð er vatnspósturinn var hér?”
“Ég man nú eftir þokkalegu byggðu húsi í gamla stílnum. Hér bjuggu Árni Björnsson og Guðbjörg. Árni var þekktur formaður, að vísu fyrir mína tíð, aflamaður mikill. Þau áttu eina dóttur, Jóhönnu, sem giftist Guðmundi Erlendssyni. Hann var, þegar ég var drengur, orðinn þekktur formaður og mikill aflamaður. Þau hjónin eignuðust tvo drengi. Guðmundur ferst 1932 á skipi er Óskar Björn hét. Aðeins einn maður bjargaðist. Þetta var á rúmsjó. Hann bjargaðist á þann hátt að öll skip voru kominn að landi og búið að setja þau í naust en seinni hluta dags var einum formanni, eftir að hafa hvílt sig eftir róðurinn um morguninn, var honum hugsað til veiðifæra sem hann átti í sjó og og fannst veður hafa skánað, setti skip sitt til sjávar og fer út á miðinn og þar sem hann varð var á sjónum var það eitt, ekki veiðifærin, heldur skip Guðmundar heitins, marrandi á kafi, og hann verður þess var að það er einn maður lifandi um borð og honum tókst að ná honum og líki Guðmundar heitins og í dag á þessari stundu er verið að jarðsetja gömlu vinkonu mína, Jóhönnu, hér á Stað í Grindavík.
VorhusÝmsar minningar eru tengdar þessu húsi, Neðri-Grund, það heitir húsið. Þetta fólk var skylt mér og var okkar vinafólk.
Hér rétt fyrir framan okkur er hús sem heitir Efri-Grund. Það var eins og Neðri-Grund, byggt í öðrum stíl þá. Líka byggt í gamla stílnum. Þar bjuggu gömul hjón, Kristján og Kartín. Þau áttu tvö börn. Annað var ég búinn að geta um, Guðmundur Kristjánsson, sá er bjargaðist af skipi Magnúsar heitins Guðjónssonar er hann fórst hér á sundinu, söngmaður mikill og hafði mikla rödd. Þetta hús stóð við barnaskólann, sem við komum að rétt bráðum. Við áttum það til að hlaupa yfir kálgarðinn hjá þeim og þá heyrðist stundum í gamla manninum. Mig undrar að samskiptin hafi ekki orðið verri en þau voru.
Hér er Vorhús og tengt brunninum sem við neGamli barnaskólinnfndum áðan. Brunnurinn hét Vorhúsabrunnur. Í glugganum er Ráðhildur Guðjónsdóttir, dóttir Guðjóns frá Hliði. Þegar ég var drengur bjuggu hér gömul hjón, Guðmundur og Sigurveig. Þá var Vorhúsabrunnurinn notaður fyrir templara.
Kippkorn í burtu er grá steinkumbaldi. Þetta hafði ekki ákveðið nafn, heldur fleiri en eitt. Fyrst var þetta byggt sem rafstöð og kallað Rafstöðin. Eiríkur Ormsson setti upp fyrir okkur Grindvíkinga rafal og það voru leiddar leiðslur um þetta pláss og það var veitt ljósi einmitt frá þessum steinkubalda. Lengi kölluðum við þetta Rafstöðina. Síðan eru komin ein 45 ár.

Karlsskáli

Þegar það leggst niður og verður ekki rekstrahæft á erfiðleikaárunum. Auka þurfti vélarkostinn, hann hafði gengið úr sér, og það hefur þurft að kaupa sennilega aðra ljósasamstæðu þarna inn og ekki var haft efni á því um 1930 og þetta lagðist alveg niður og við voru bara hér í myrkri og lifðum bara með olíulampa og engin útiljós allt þangað til rafmagnið kom 1946 og ‘7 kom. En í millitíðinni fær þetta hús annað nafn og kallað Smiðjan en þá var hér ungur maður frá Vík, Gunnar Gíslason. Hann lærði járnsmíði og setti hér upp smiðju. Þá var það kappsmál hjá okkur strákunum að fá að komast hingað inn og stíga smiðjubelginn og við voru fúsir að gera það fyrir ekki neitt því okkur fannst þetta nokkur virðing og virðin að fá að gera þetta. Hann var skemmtilegur og mjög spaugsamur við okkur krakkana og sagði okkur sögur á meðan.
Staldrað er við á dálitlu plani. Hér stóð hús og það var barnaskólinn þar sem við fengum alla okkar uppfræðslu utan okkar heimilis. Skólinn var byggður nokkuð fyrir 1930, man ekki áratalið, og var alveg fram í Seinni heimsstyrjöld, eini skólinn hér í byggðalaginu. Ég gekk ekki í annan skóla.

Kvenfélagshúsið

Margar minningar eru tengdar þessum skóla hjá aldursflokkum á mínu reki og eldri. En hann var orðinn allt of lítill og margsetinn, svo margsetinn þegar ég kom í hann að við gátum ekki verið í skólanum nema annan hvern dag. Okkur fannst það ágætt að leika okkur hinn daginn og sniglast þá í kringum sjóinn. En manni finnst það núna, kominn á þennan aldur, að hafa átt þess kost að vera á hverjum degi og læra heldur meira. Í grenndinni stóðu þessi hús hér í kring. Við áttum það til að angra þetta fólk, en mig furðar hversu lítið við urðum varir við það af þeirra hálfu. Fjær, austar, stendur Byggðarendi, en það var það langt frá að við máttum aldrei fara þangað. Þarna stóð annað hús þegar ég var ungur, öllu lágreistara og byggt með gömlu lagi, nokkurs konar baðstofustíl, en snéri eins og þetta er núna. Þá bhuggu þar Eiríkur Guðmundsson og Rósa Samúelsdóttir. Þau áttu mörg börn, allt dugnaðarfólk. Einn sonurinn hefur unnið með mér, bæði á sjó og á landi. Sumt flutti til Reykjavíkur og býr þar.
Ég minntist á Krosshúsanautið og maður tók það fegins hendi þegar maður fékk kjöt að borða. Krosshúsanautið var hluti af tilverunni eins og ég hef minnst á áður.
Grænmálað lítið hús stendur hér fyrir framan. Þetta er heitir Garðshorn, Tröð, Sjávarhóll og AkrahóllKarlsskáli. Karl Ágúst Guðmundsson og Guðrún Steinsdóttir kona hans byggðu húsið. Guðrún býr þartna ein núna, löngu orðin ekkja. Þau áttu mörg börn, drengirnir 5 og þrjár dætur. Drengirnir voru með okkur í skóla, ekki nema nokkrir metrar héðan í skólann. Ingibergur, einn drengjanna, drukknaði hér í innsiglingunni fyrir nokkrum árum. Ingólfur er hafnarstjóri núna og Karl stundar sjó og gerir út sinn bát.
Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, kenndi hér í þessum skóla. Hann var kennari og skólastjóri í 43 ár. Hann byrjaði á mínum aldursflokk og ég held að það hafi verið á fyrstu kennsludögum hans þegar ég kom fyrst í skólann. Hann kenndi síðan í nýja barnaskólanum, sem stendur hér ofar í byggðalaginu. Okkur þótti ákaflega vænt um hann.
Hér er Hæðarendi skammt frá barnaskólanum. Það hefur tekið ýmsum breytingum en þegar ég man fyrst eftir mér bjuggu hér Ólafur og Kristín Snorradóttir ættuð neðan af Strönd en Ólafur var ættur af Akurhúsum. Stundum var eins og hugur var á undan framkvæmdum og skeði sumt spaugilegt í kringum það.

Þorvaldsstaðir

Gunnar Ólafsson var næsti liður og hann var sami hugmaðurinn, bæði til sjós og lands. Stundum kom fyrir að hann kom ekki heim heilu vikurnar. Nú er þriðji ættliðurinn þarna, Björgvin Gunnarsson, sem frægur er núna með Grindvíking, var lengi með Hrafn Sveinbjarnarson, mikill aflamaður. Ég man t.d. eftir því að Ólafur var spurður hver hefði verið fyrsta bylta sem hann hafði fengið, hann var dettinn ekki síst í myrkrinu hér í kring. Hann sagði að versta byltan sem hann hafði fengið á æfinni þegar yrðlingurinn hefði bitið hann. Svona voru nú tilsvörin. Það var smáloft uppi í húsinu. Gunnar hafði klöngrast þangað upp. Faðir hans kom þá inn og í flýtinum dettur hann niður og ofan á föður sinn. Þá sagði Ólafur: “Ætlarðu að drepa hann föður þinn?” “Og nei, ekki var það nú meininginn”, svaraði hann.
Seinasta húsið sem við höfum hérna almennilega í augsýn frá gömlu skólalóðinni er Ás. Í því bjó Guðrún Þorvarðadóttir, fyrsti hvatamaður að stofnun Kvenfélagsins. Hún var kona mjög lág vexti og því mun fylgnari sér. Á veggjum Kvenfélagshússins hangir stór og mikil mynd af henni sem viðurkenning og þakklætisvottur frá kvenfélagskonum henni til handa. Klemens Jónason, afi minn, og Halldóra, amma mín, bjuggu þarna lengi svo margar minningar eru tengdar þessu húsi.

Ásgarður

Nú förum við í vestur, inn á Hellubraut. Til vinstri handar, þar sem nú er grænn blettur, stóð lengi vel hús, sem hét Holt. Það var síðan rifið og flutt til Njarðvíkur þegar við Grindvíkingar áttum svolítið erfitt uppdráttar í kringum frá 1930-1950 og íbúatalan fór niður á við, úr 502 árið 1930 í 498 árið 1950. Í þessu húsi bjuggu þegar ég man eftir mér Valgerður Jónsdóttir frá Akurhúsi og Sveinn ættaður úr Staðarhverfi. Sveinn var sjómaður og var einn af þeim er fórst með Guðjóni heitnum Magnússyni. Guðjón bjó í húsinu hér næst, Baldurshagi. Það var strax stórt og myndarlegt hús eins og það er í dag. Með Guðjóni fórust 9 vaskir menn. Í Baldurshaga hefur búið Jón Gíslason, einn af Víkurbræðrum, var lengi dugandi formaður, og Valgerður Jónsdóttir frá Akrahól, þau búa hér enn.
Þegar gerast sjóslys í Reykjavík og stærri bæjum er ekki að sjá en daglegt líf haldi áfram. En hér marka slík slys djúp spor í svona lítið byggðalag því þetta kemur inn á hvert einasta heimili. Lífið sjálft og starfð hélt áfram. Aðstoð og hjálpsemi milli manna var enn meiri og fólkið varð nátengdara eftri svona slys. Fólkið sótti styrk sinn í trúna og ég held að það lengi enginn vafi á að svo er enn þann dag í dag. Þegar allt leikur í lyndi köstum við fram af okkur beislinu, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Miðdagur

Nú er gengið eftir krákustíg og fornir mosagrónir grjótgarðar sem skipta landamerkjum milli þeirra húsa sem hér standa. Hér eru engin götunúmer. Túnblettirnir eru þau sömu en húsunum hefur verið gerð góð skil og byggð upp. Hér er Bjarg. Í minni tíð var hér torfbær. Hér bjuggu hér Einar og Guðrún. Frá þeim er komið margt fólk og gott. Einar var vel gefinn maður og átti gott með að kveða og yrkja; Vellir, Vík og Vallarhús, Vorhús, Gjáhús, Akurhús,  Byggðarendi, Bjarg og Hlið, best er að Krosshús fylgi með. Stundum fór þetta út í gáska. Bilað hafði í honum annað augað og hann átti erfitt með fótavist því hann var mjög þungur maður. Einhverju sinni var Eiríkur Tómasson frá Járngerðarstöðum að leika sér að kveðast á. Sá ungi maður sást eitt sinn á gangi með dömu hér út með sjó. Þá varð þetta til hjá Einari; í Gerðavalla grænum krók, garpur sást með Mundu. Unga manninum fannst hann þurft að borga fyrir sig; Einar ríkur rangindum, ratar líka miðin, Óðni líkur ásýndum, á sér strýkur kviðinn.
Síðan þegar Einar og Guðrún dóu bjuggu hér börn þeirra, Guðríður sem giftist Jóni Sigurðssyni. Guðríður var hér ljósmóðir og Jón sjómaður. Laufey var dóttir þeirra. Nú seinni árin hafa orðið hér mörg umskipti.”

Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Frá 11.mars 1973.

Grindavík

Grindavík.

 

Ármúli

Á bak við Ármúla 32 í Reykjavík skagar óraskað holtasvæði inn á malbikað bílastæði þrátt fyrir að bæði er full þörf fyrir svæðið undir bílastæðið og ekki er að sjá annað en að holtið hafi annars staðar verið lagt undir byggingarm götur og bílastæði. En ástæða er fyrir öllu og er þessi bleðill engin undantekning. HuldumannasteinninnÁ honum eru tveir klapparsteinar og er annar öllu hærri og stærri. Klofið hefur verið framan af honum. Þegar samantekt Þórunnar Traustadóttur um steininn var skoðuð kom eftirfarandi í ljós:
“Fyrir 60 – 70 árum síðan, meðan Reykjavík var enn smábær og byggðin mest vestan Rauðár, fékk Þorbjörn nokkur Jónsson leigða lóð á Grensási rétt fyrir ofan Múla (nálægt Ármúla 32) þar sem hann rak síðar hænsnabú. Það var mikið grjót á landinu og fékk hann nokkra menn til liðs við sig til þess að fjarlægja það. Það gekk sæmilega, þeir þurftu að sprengja hluta af grjótinu því það var svo stórt. Einn steinninn var þó öðrum stærri og undan honum kom örlítil uppspretta. Það leið að því að mennirnir hugðust fjarlægja þennan stein og boruðu því í hann eina holu til þess að koma fyrir sprengiefni en þeir ætluðu að sprengja hann næsta dag. En um nóttina dreymdi Þorbjörn mann einn og var sá frekar höstugur og spurði hvers vegna Þorbjörn gæti ekki látið bæinn sinn í friði. Þorbjörn kannaðist ekkert við manninn og spurði hvar hann ætti heima. Sagðist maðurinn þá eiga heima í steininum og bætti við ,,Ef þú hróflar nokkuð við steininum, þá mun illa fara”.

Huldumannasteinninn

Þegar Þorbjörn vaknaði morguninn eftir ákvað hann að láta steininn óáreittan því hann væri hvort eð er ekki fyrir neinum.
Árið
1940 keyptu bakarar hænsnabúið af Þorbirni og réðu danskan mann, Einar Tönsberg, til þess að veita því forstöðu. Um leið og Þorbjörn afhenti hænsnabúið varaði hann við því að hrófla við steininum og sagði að þarna væri álagasteinn. Nú leið nokkur tími en þá ákváðu bakararnir að færa út kvíarnar og stækka og hreinsa hjá sér túnið því enn var talsvert grjót í landinu og svo var það stóri steinninn í miðri lóðinni. Einar Tönsberg mundi vel sögu Þorbjörns og minnti á að þetta væri álagasteinn og varaði við því að við honum yrði hróflað. Bakararnir brostu góðlátlega og vildu ekki trúa að neitt slæmt mundi gerast þó þeir létu sprengja steinninn. Þetta var um vorið 1942 og þann 20. maí voru boraðar tvær holur í steininn því fljótlega átti að sprengja hann.
HuldumannasteinninnEn þá brá svo við að hænurnar hættu að verpa. Eiginkona Einars, Ingibjörg hafði fært nákvæmt bókhald um varpið í hænsnabúinu svo þau sáu á örfáum dögum að eggjum í búinu fækkaði úr tæplega 400 eggjum í ekki neitt.
Nú voru góð ráð dýr. Fyrst hélt Einar að eitthvað væri að fóðrinu eða alvarlegur sjúkdómur kominn upp hjá hænunum. Hann fékk til sín dýralækni og lét rannsaka fóðrið en allt reyndist í besta lagi. Hænurnar voru einfaldlega komnar í verkfall.
Einari var títt hugsað til steinbúans þessa dagana. Hann mundi vel aðvörunarorð Þorbjörns og reyndi allt sem hann gat til þess að fá bakarana til þess að breyta ákvörðun sinni og leyfa steininum að standa. Loks tók hann þá ákvörðun að hreyfa ekki við steininum en þá höfðu hænurnar verið í verkfalli í tvær vikur. Það var eins og við manninn mælt, þegar Einar hafði ákveðið sig voru 5 egg í hænsnahúsinu næsta morgun. Síðan jókst varpið jafnt og þétt og tveimur vikum síðar var ástandið í hænsnahúsinu orðið eðlilegt á ný.

Huldumannasteinninn

Nú eru liðin mörg ár og hænsnabúið löngu horfið. Þarna eru nú margskonar verkstæði og þjónustufyrirtæki og líklegt má telja að eigendur þeirra hafi lítið orðið varir við huldumanninn en steinninn stendur enn og ber merki borgarminja og það er hægt að skoða hann á lóðinni milli Ármúla 32 og Síðumúl 17. Mikið væri gaman ef þessu heimili huldumannsins væri sýnd meiri virðing og aðeins snyrt í kring hjá blessuðum karlinum.
Frásögn þessi er unnin upp úr grein eftir Árna Óla sem birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 1949 og síðar í bókinni “Horft á Reykjavík” sem Ísafoldarprentsmiðja h.f. gaf út 1963.
Einnig ræddi undirrituð við Ingibjörgu Tönsberg, eiginkonu Einars Tönsberg og kann ég henni bestu þakkir fyrir leiðbeiningarnar.”

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/thtraust2/HA-huldum.htm

Huldumannasteinninn

Hraun

Í mars 1931, tæpum 5 mánuðum eftir að slysavarnardeildin Þorbjörn í Grindavík var stofnuð, og aðeins viku eftir að heimamenn höfðu fengið tilsögn í meðferð fluglínutækja, strandaði skip skammt austan við Grindavík.
Cap Fagnet á strandstað 1931Aðfaranótt 14. mars 1931 varð heimilsfólk á Hrauni þess vart að togari hefði strandað þar framundan bænum. Skipið, sem hét Cap Fagnet og var frá Frakklandi, tók niðri alllangt frá landi en barst síðan yfir skerjagarðinn og festist skammt frá ströndinni. Skipverjar þeyttu eimpípu skipsins og gáfu þannig til kynna að þeir væru í nauðum staddir. Stormur var og mikið brim, sem gerði það að verkum að hvorki var hægt að koma báti frá skipinu né sigla að því. Það lá því ekki annað fyrir en að nota fluglínutæki hinnar nýstofnuðu deildar.
Maður var strax sendur frá Hrauni til Grindavíkur og slysavarnardeildin var kölluð út. Formaðurinn, Einar Einarsson í Krosshúsum, brá strax við og kvaddi sér menn til fylgdar, þá Eirík Tómasson, Járngerðarstöðum, og Guðmund Erlendsson, Grund. Fluglínutækin voru sett á flutningabifreið, sem sendiboðinn kom á, ásamt ljósum því dimmt var af nóttu, og haldið áleiðis að Hrauni. Ekki var bílfært alla leiðina á strandstað og varð því að bera tækin síðasta spölin.
Fluglínubyssan, sem notuð varÞegar var hafist handa við að taka upp bjargtækin og festa byssuna. Á meðan beðið var björgunar freistuðu skipverjar á Cap Fagnet þess að láta línu reka í land. en þær tilraunir mistókust og þótti skipverjum tvísýnt að takast mætti að koma sambandi milli skips og lands.
Um fimmleytið var undirbúningsstarfi lokið. Þá voru allmargir björgunarmenn komnir á vettvang er hjálpuðu við það sem þurfti. Nú var línunni skotið úr byssunni og tókst skotið mjög vel. Því hefur verið lýst svo: “Einar og Guðmundur verða sammála um miðunina. Allt er tilbúið fyrir skotið. Guðmundur …tekur í gikkinn. Hamarinn smellur fram og sprengir púðurskotið í byssunni. Á sama andartaki kveikir það í eldflauginni og hún þýtur af stað með háværu hvisshljóði. Í fyrsta skipti hefur verið skotið úr línubyssu til björgunar á Íslandi. Mennirnir fylgjast spenntir með eldflauginni þar sem hún klýfur loftið. Skotið heppnast prýðilega. Línan kemur yfir skipið, rétt fyrir framanstjórnpallinn. Það er auðvelt fyrir skipsmenn að ná til hennar. Þeir verða reyndar að sæta lagi að ná henni, en skjótt er hún í þeirra höndum. Samband er fengið við land.”
Björgun skipbrotsmannanna 38 af Cap Fagnet í björgunarstól í land gekk að óskum og var henni lokið um kl. 7. Allir voru þeir ómeiddir en gegnblautir. Vegna þess hve skipið ruggaði mikið í briminu þótti ekki ráðlegt að strengja björgunarlínuna eins og æskilegt hefði verið af ótta við að lína kynni að slitna. Skipsmenn drógusr því örðu hverju niður í sjóinn þegar skipið valt að landi. Blotnuðu þeir við það en sakaði ekki að öðru leyti.
Vegna brims og aðfalls, svo og vegna þess að skipið færðist nokkuð úr stað, varð að færa björgunartaugina meðan á björgun stóð og tafði það nokkuð.
Ekki mátti tæpara standa með björgun skipverja, því aðeins örfáum mínútum eftir að sá síðasti var kominn í land valt skipið enn meira á skerinu. Þá braut stöðugt á því og brátt fór yfirbyggingin að  brotna. Síðar um faginn skrikaði það út af skerinu og sökk og brotnaði brátt í spón. Ekki hefði þuft að spyrja að leikslokum ef hinna nýju fluglínutækja hefði ekki notið við.

Heimild:
-Einar S. Arnarlds – Mannslíf í húfi.

Cap Fagnet

Björgun áhafnar Cap Fagnet.

Krýsuvík

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1961-1970.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810 – færð yfir til umhverfis nútímans.

Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.

Krýsuvíkurkirkja

Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.
Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mum hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.

Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”. Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”

-Úr Krýsuvíkurkirkja að fornu og nýju – Ólafur Þorvaldsson – Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Krýsuvík

Krýsuvík í lok 19. aldar.

Stafnes

Á a.m.k. átta stöðum á Reykjanesskaganum má finna skráðar minjar af lögréttum, þinggerðum og dómhringjum. Þær eru eftirfarandi:

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

-Stafnes – lögrétta – skráð 1854
-Hvalsnes – lögrétta – skráð 1854
-Jófríðarstaðir – þinggerði – skráð 1703
-Hausastaðir – dómhringur – skráður 1820
-Ráðagerði – dómhringur – skráður 1840
-Hofstaðir – dómhringur – skráður 1840
-Kópavogur – þinggerði – skráð 1841
-Þingnes – dómhringur – skráður 1840

Sagt verður nánar frá framangreindum minjum síðar.

Heimild m.a.:
-AF og OV – Saga – Tímarit Sögufélagsins – 1992.
Þingnes

Dalssel

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Dalssel

Tóft í Dalsseli.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Bent var á Odsshelli og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er greinilega mjög gamalt. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum. Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur.

Selsvellir

Vogarétt á Selsvöllum.

Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar; Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn og fyrrum Krýsuvík. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er fjallað um framkvæmdir í Krýsuvík, s.s. vegagerð, garðyrkjubú, kúabú og raforkuvinnslu. Þar segir m.a.:

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

“Þegar menn tóku að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Kýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík hefur verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar hafa erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.sl. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tímum, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.
Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktarland milli Sveifluháls og Geitahlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurn tíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnaruymdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi.
Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka framkvæmdir í stórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og húsbyggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðustu áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marsmánuði síðsatliðnum. Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta við 1000 fermetrum. Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búreksturinn í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.
Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”

Vinnuskólin

Vinnuskólapiltar á leið í sundlaugagerð við Bleikhól. (HH)

Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fjósbyggingin og súrheysturninn standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkahraun er um 1900 ára m.v. raunaldur (MÁS). Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík. Norðan við Sundhnúkahraunið er Skógfellahraun (>2800 ára) og Arnarseturshraun (779 ára), en austan við það er Dalahraun (>3200 ára).

Sundhnúkahraun

Hraunrás í Sundhnúkahrauni.

Sundhnúkaröðin, sem er um 9 km löng gígaröð, er á Náttúruminjaskrá. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum. Eflaust klæjar einhverjum gröfumanninum eða verktakanum í fingurnar þegar hann ber gígaröðina augum, líkt og þegar félagi þeirra bar Melhólinn og gígaþyrpinguna í kringum hann augum á sínum tíma, sælla minninga. Melhóllinn er í rauninni framhald af Sundhnúkaröðinni, en þó yngri. Frá honum kom mest af því hrauni er myndaði nýjasta hraunið ofan við Grindavík sem og hraunranann Slokahraun milli Þórkötlustaðahverfis og Hrauns.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun – hraunrás.

Gígarnir í Sundnúkaröðinni eru dæmigerðir sprungureinagígar. Best er að virða þá fyrir sér af austanverðu Stóra-Skógfelli í góðu skyggni (sem reyndar nýtur 364 daga ársins). Þaðan sést vel hvernig gosið hefur á reininni og gjall- og klepragígarnir hrígast upp. Í rauninni er þó um svonefnda blandgíga að ræða, þ.e. bæði gjall- og klepragíga, þótt gjallið spili þar aðalhlutverkið. Gjallgígur er bara gígur úr gjalli, grófstorknuðum gosefnum er þeytast afllítið stutta vegalengd og ná að storkna í millitíðinni, en klepragígur er gígur sem hleðst upp úr seigfljótandi kvikuslettum. Gjall- og klepragígar myndast í blandgosi. Gjallið er frauðkennd, basísk eða ísúr gjóska sem verður til í kvikustrókavirkni þegar kvikuslettur þeytast upp úr gígnum og storkna áður en þær lenda. Kleprar eru myndaðr úr seigfljótandi kvikuslettum sem slettast upp úr gígnum en ná ekki að storkna áður en þær lenda.

Sundhnúkur

Rásir í Sundhnúkahelli.

Ágætt dæmi um klepragíg er Eldborg undir Geitahlíð, en slíkir gígar verða að öllu jöfnu hærri en gjallgígar. Ekki er alltaf mikill munur á gjall- og klepragíg, en þó má vel sjá munin ef vel er að gáð. Flestir gígarnir í Sundhnúkaröðinni, einkum þeir smærri, virðast vera gjallgígar, en þeir stærstu blandaðir. Frá Stóra-Skógfelli má sjá yfir í Sundhnúk, megingígin austan Hagafells. Handan hans, í suðuröxl Hagafells eru gígar sem og einstaklega falleg hrauntröð. Síðan raða gígarnir sér til norðausturs. Á móts við Stóra-Skógfell virðist hafa orðið víxlverkun á sprungureininni og hún færst til austurs og síðan haldið áfram þaðan til norðausturs. Á norðanverðri sprungureininni hafa orðið til minni gígar, en einkar fallegir. Það er vel þess virði að rölta um svæðið dagsstund og skoða gersemirnar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahellir.

Nú var hins vegar ætlunin að skoða eina afurð hraunsins; hellana og skútana. Björn Símonarson hafði lýst einum hellanna á eftirfarandi hátt: “Við rætur Svartsengis er hellir þar sem Sundhnúkahraunið kemur niður mesta brattann og út á flatlendið. Hann er ekki langur en heldur ekki fullkannaður. Opið er frekar djúpt og gólfið rennislétt, eftir um 20 metra endar aðalrásin. Um það bil miðsvæðis í hellinum er gat í mittishæð, um 40 x 40 cm og er þó nokkur rás þar fyrir innan, frekar lág og það er þessi hluti sem er ekki full kannaður.”
Byrjað var að skoða hraunið norðan Svartengisfells (Sýlingafells, en svo nefnist fellið frá sjó séð). Með í för var Björn Steinar Sigurjónsson, en hann ásamt félaga sínum, Guðmundi Árnasyni, skoðuðu svæðið fyrir u.þ.b. 20 árum og fundu þá nokkra hella.

Sundhnúkur

Klepragígur í Sundhnúkum.

Sundhnúkur er stærsti, eða öllu heldur hæsti, gígurinn í hinni löngu gígaröð. Hraunið hefur runnið niður hlíðina og myndað slétt helluhraun að norðanverðu. Þar neðarlega í hlíðinni er hellir sá, sem Björn Símonar skoðaði á sínum tíma. Einhverjir höfðu tekið sig til og hlaðið umhverfis stórt opið. Niðri var drasl, sem skilið hafði verið eftir. Gólfið er slétt. Lofthæðin er um 3 m breyddin um 7 metrar og lengdin um 20 metrar. Hann lækkar eftir því sem innar dregur. Til vinstri í rásinni er fyrrnefnt op. Það víkkar lítillega skammt innar, en svo er að sjá að það þrengist aftur. Það verður þó ekki ljóst fyrr það hefur verið skoðað að fullu, en það verður ekki gert nema af vel mjóvöxnum manni.
Holrúm virðist vera undir sléttu gólfinu vestast í hellinum. Fróðlegt væri að kíkja þar undir með aðstoð járnkarls.
Næsti hellir var u.þ.b. 25 metrum sunnan við fyrstnefnda hellinn. Hann er þar í jarðfalli. Rásin er tvískipt og um 50 metra löng.

Sundhnúkahraun

Karlinn í Sundhúkahrauni.

Í þriðja hellinum er rásin um 30 m löng. Tl hliðar í henni er hægt að fara upp í heila hraunbólu.
Fjórði hellirinn er með stórt op. Botninn er sendinn. Til hægri er rás. Úr henni er hægt að komast inn í lágan sal með rauðbrúnu sléttu gólfi.
Fimmti hellirinn býður upp á þrjár leiðir. Til suðurs er löng rás. Botninn er sendinn, en svo er að sjá að fínn sandur, sem fokið hefur upp frá Vatnsheiðinni, hafi náð að safnast í lægðir og þessa hella norðan í Sundhnúknum. Rásin er ókönnuð, en hún er a.m.k. 30 metra löng. Efri rásin er um 15 metra löng. Hún endar eftir að komið er upp úr fallegri og rúmgóðri rás. Í þriðju rásinni, einnig með sendinn botn, er op til vinstri. Liggur hún niður á við, í kjallara. Í honum liggur lág rás áfram inn undir hraunið. Hún er ókönnuð.
Sjötti hellirinn hafði að geyma þröngar rásir, en mjög fallegar. Þær eru ókannaðar.

Sundhnúkar

Sundhnúkahraun – loftmynd.

Svæðið vestan Sundhnúks er þakið rásum og hraunæðum. Í rásunum þeim eru margir hellar og skútar. Einn hellir, sem Björn lýsti, og hann hafi séð fyrir tveimur áratugum, á að vera með fallegum rauðum hraunfossi, auk margra litafbrigða. Opið er lítið og vandfundið, enda fannst hann ekki í þessari ferð. Það á að vera norðvestur af Sundhnúk. Líklegt má telja að fleiri ferðir verði farnar á þetta svæði á næstunni. Nauðsynlegt er að vera í góðum galla og með bæði vettlinga og húfu til hlífðar.

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs; “Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn:  Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
KlifshaedarhellirNú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
Við nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m Hruthraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er
inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.

Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson -Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Setbergssel

Vestan við Kershelli sér niður á grassvæði. Þarna var selstaða Setbergs í Garðahreppi hinum forna (nú að mestu í Hafnarfirði).

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur) gamla liggur niður um selstöðuna og áfram í gegnum hana uns hún sveigir að Þverhlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.
Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir, öðru nafni fyrrnefndur Ketshellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir, öðru nafni Selshellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Skammt sunnar má sjá hlaðinn stekk selstöðunnar. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir. Hamarkotsselsfjárhellir hægra megin.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Kershellir

Í Kershelli.

Um það bil 50 metrum austar og nær Smyrlabúðarhrauni, steinsnar frá Selvogsgötunni er hinn eiginlegi Kershellir í jarðfalli. Honum lýsti Ólafur Þorvaldsson á leið sinni um Selvogsgötuna.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Hann gat réttilega um að menn úr félaginu Hvati hafi helgað sér hellinn laust eftir aldamótin 1900, sem varð til þess að margt manna lagði þangað leið sína til að skoða hann. Kölluðu þeir hann Hvatshelli, sem varð til þess að Kershellisnafnið féll í skuggann um árabil.

Kershellir

Kershellir. Setbergssel og Hamarkotssel fjær t.v.

Ólafur gefur eftirfarandi lýsingu: Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.

Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jafnframt skoða mikið á skömmum tíma.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.