Suður-Reykir

Í Jarðabókinni 1703 segir að á Suðurreykjum sé „selstaða góð“. Í örnefnalýsingu fyrir Suður-Reyki, eins og nafnið er nú skrásett, segir að „norðan undir Þverfjalli er Forarmýrin og norðan úr henni rennur Forarmýrarlækur.
Í Forarmýri sést Beitarhúsmóta fyrir áveitumannvirkjum sem einhver bóndi sem var á Reykjum skömmu fyrir aldamótin [1900] lét gera. Forarmýrarháls er vestan við og undir þeim hálsi eru Selbrekkur. Neðst í Selbrekkum var sel og sjást rústir þess enn“. Upplýsingar þessar virðast vera teknar úr Fornleifaskrá fyrir Mosfellshrepp, gerð af Þjóðminjasafni Íslands. Í skránni er selið ekki staðsett. Þá segir: „Norðan til við Selbrekkur er Fuglaþúfa á meldragi og skammt í austur frá henni eru tóftir af sauðahúsi. Hætt var að nota sauðahúsin að Suður-Reykjum um aldamótin [1900] og mun Finnbogi Árnason síðastur hafa notað þau“. Þetta kom m.a. fram í viðtali við Oddnýju Helgadóttur í október 1989.
Dalurinn ofan við Suðurreyki heitir Húsadalur. Nær hann inn að Forarmýri. Neðan frá mýrinni rennur Varmá niður dalinn Hún kemur úr Bjarnarvatni innan við Reykjaborg. Ýmsir þverlækir eru í dalnum. Skammt ofan við bæinn eru nokkur sumarhús umhverfis talsvert gil, sem þar er. Trjárækt hefur verið stunduð við bústaðina svo víða eru allhá tré.

SauðakofiÍ gilinu norðan megin við ána er skjólgóður hvammur. Skammt ofan við hann er gróin tóft. Líklega hefur þarna verið stekkur um tíma.
Húsadalurinn er vel gróinn, einkum að norðanverðu. Vestasti hluti dalsins hefur eflaust fyrrum verið framlenging á heimatúninu. Reykjafell er norðanvert og Reykjaborg sunnanvert. Hamrar hennar blasa við mót vestri. Vestan Reykjaborgar er Hádegisfell, lægra. Innar eru Þverfell að austanverðu og Bæjarfell að sunnanverðu. Milli Bæjarfells og Reykjaborgar er fyrrnefnt Bjarnarvatn.
Miðja vegu í dalnum eru rústir fjárhúsa (beitarhúsa). Annað er norðan við ána og hitt sunnan við ána. Síðarnefndu rústunum hefur verið raskað, en þó má enn sjá stærð þeirra og lögun sem og vegghæð, sem hefur verið óvenju mikil. Litlu A-laga húsi hefur verið komið fyrir í tóftinni með Suðurreykjaseltilheyrandi raski. Skammt norðaustar eru óreglulegar hleðslur, nokkuð stórar. Nyrst í þeim eru leifar af hlöðnu húsi. Þarna gæti hafa verið sauðhús og sauðagerði.
Fjárhústóftin norðan árinnar horfir mót suðri. Veggir eru grónir og standa. Vestan við og fast við hana er minna afhýsi með op mót suðri. Tóftin ber með sér að vera ekki mjög gömul; bárujárn hefur verið í þaki, a.m.k. undir það síðasta. Skammt ofar, fast við ána, hefur verið hlaðinn garður, nú gras- og mosavaxinn.
Og þá var bara að feta sig inn dalinn, yfir mýri, sem reyndar var frosin að þessu sinni, og upp að Selbrekkum þangað til Bæjarfellið var svo til beint í suður. Forarmýrarlækurinn kemur þar niður og sameinast Varmá. 

SuðurreykjaselSkammt ofan og utan við mótin eru tóftir selsins. Þær eru mjög grónar og ekki auðvelt að greina rýmaskipan í fljótu bragði, en þó má gera það með lagni. Meginhúsið, baðstofan, er austast, en utan í því að vestanverðu hafa verið eldhús og búr sitt hvoru megin við innganginn í baðstofuna. Allar dyr hafa verið mót vestri. Selið er vel staðsett í dalnum í skjóli fyrir austanáttinni eins og svo algengt var um selstöður á Reykjanesskaganum. Neðan (sunnan) við selið eru stekkjartóftir, aflangur til suðurs. Stekkurinn hefur verið nokkuð stór, en er nú gróinn. Ekki mótar fyrir hleðslum nema með rannsókn, líkt og í selstæðinu. Op var mót suðri.
Forarmýrinn er nú að gróa upp og er hin myndarlegasta starmýri. Vestari hluti hennar er slétt og ekki langt að bíða að hún verði að túni.
Vel mætti beita hestum á mýrina og opinbera þannig tóftirnar til frekari skoðunnar. Ljóst er að bóndinn á Suðurreykjum hefur viljað nýta aðstöðuna til hins ítrasta og því farið með selstöðuna svo fjarri bæ sem unt var, a.m.k. um tíma. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar.
Telja má líklegt að seinna hafi selstaðan verið færð neðar með ánni og þá væntanlega upp í fyrrnefnt gil þar sem skjól er svo að segja fyrir öllum áttum, góður hagi og óþrjótandi vatn.

TóftBeint upp af Selbrekkum, á berri melhæð er einmanna tóft. Horfir hún til norðvesturs. Tóftin, sem er gróin, er nokkuð heilleg og standa veggir t.a.m. enn. Ekki er gott að kveða á um hlutverk hússins, en það gæti þess vegna hafa verið sauðahús eins og segir í örnefnalýsingunni. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir fólk á leið inn með Reykjafelli og niður með Norðurreykjaá í Helgadal og síðan í Reykjadal (Norðurreykjum). Berangur er nú umhverfis tóftina, en telja má líklegt að svæðið hafi verið mun grónara fyrrum.
Annars má telja líklegt að Húsadalurinn sé ekki mikið nýttur til útivistar þrátt fyrir fjölmargar áframhaldandi leiðir úr honum, s.s. til suðausturs að Bjarnavatni austan við Þverfell, yfir í Torfdal til norðausturs, til suðurs upp að Borgarvatni og áfram niður í Þormóðsdal eða til norðurs og niður með Norðurreykjaá, sem fyrr er lýst.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Suður-Reyki – 1991.Mýrarrauði

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Herdísarvík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948 er lýsing Herdísarvíkur eftir Ólaf Þorvaldsson. Hér lýsir hann svæðinu frá Olnboga að Seljabót, auk Gamlavegi:
herdisarvik-997„Olnboginn sprengir allar öldur, sem að honum sækja, og leysir þær upp í brimúða, sem stígur hátt til lofts eins og ægilegur goshver, og er oft tilkomumikið á að horfa. Þegar hvasst er af suðvestri og vestri og sjór stór, er talið, að Olnboginn „verji víkina“, — hann er brimbrjótur Herdísarvíkur, hann þarf ekkert viðhald, og ólíklegt, að úr sér gangi fyrst um sinn. Norðvestur af Olnboganum, nokkuð uppi á hrauninu, sem má teljast slétt þar um slóðir, eru tveir langir, en lágir hólar, Langhólar. Á Olnboganum sveigist ströndin til vesturs, og er samfellt berg á alllöngum kafla, Háaberg. Skammt frá brún þess, austar en á miðju, er stakur hóll, Hvíthóll. Þegar Háabergi sleppir, sem mun láta nærri að sé um 20 mín. gang vestan Hvítháls, lækkar bergið, og landið breytist, er sléttara og samfelldari gróður, og er þá komið á Seljabót. Vestan hennar gengur hár brunahryggur í sjó fram, Seljabótarnef. Þar eru landamerki milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, þaðan beina línu í Sýslustein, sem síðar mun nefndur.

Gamlivegur-21

Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík. Á sléttum hellum á Seljabót sjást enn fornar refagildrur úr hraunhellum. Af Seljabót held ég svo austur hraun og fer Gamlaveg, sem liggur frá eystra horni Geitahlíðar, „niður á milli hrauna“, niður á Seljabót austast; er þá Seljabótarbruni á hægri hönd, en Kolhraun á vinstri. Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið. Þá er austarlega kemur á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, Herdísarvík í Árnessýslu eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 133-134.

Herdisarvik-998

Herdísarvíkurfjall.

Gljúfrasteinn er nafnið á húsi skáldsins, Halldórs Laxness, ofarlega í Mosfellsdal. Húsið dregur nafn sitt af stórum grágrýtissteini skammt frá því.
Gljufrasteinn-1Þegar Halldór var að alast upp á Laxnesi þarna skammt frá tók hann tryggð við steininn eins og sjá má í frásögn hans, steininn minn helgi, sem hann ritaði 18 ára gamall: „Hvergi hef ég fundið bergmál við helgimáli hjarta míns nema í einum steini í heimahögum mínum. Aðeins í einum grásteini sem stendur uppá dálitlum hól og ber við himin í holtinu fyrir ofan bæinn heima.“
Í útvarpsviðtali löngu síðar var Halldór spurður að því hvort sú saga væri sönn að hann hefði skrifað söguna undir steininum. Skáldinu varð orðvant, en sagði síðan: „Nei, ekki var það nú, en sagan er góð og óþarfi að skemma góða sögu. Mér fannst alltaf eitthvað við stein þennan, hvort sem eitthvað hafi búið í honum eða ekki.“

Gljúfrasteinn

Gljúfrasteinn. Steinnin v.m. á myndinni.

 

Grásteinn

„Grásteinn nefnist klofinn steinn við Vesturlandsveg austan Grafargils og hafa álfar verið sagðir búa í honum.
Grásteinn 1989Vegna vegaframkvæmda á árunum 1970-1971 var hann fluttur þangað sem hann stendur nú, en óhöpp voru sett í samband við þann flutning og álfasögur kviknuðu og fengu byr undir báða vængi.
Af þessum sökum var Grásteinn tekinn með við fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands á svæðinu árið 1983. Af því leiddi að steinninn var talinn njóta verndar þjóðminjalaga. Var Vegagerð ríkisins bannað að færa steininn aftur nema hún fengi samþykki fornleifanefndar fyrir því. Vegna áforma um að breikka Vesturlandsveg óskaði vegagerðin eftir slíkri heimild árið 1998, og fékk hana, en með því skilyrði, að áður skyldi leita allra leiða til að komast hjá því að hrófla við steininum.
Grásteinn 1989Álitamál er hvort steinninn eigi að vera verndaður, en kastljósi fjölmiðla hefur fremur verið beint að deilunni um tilvist álfa í honum. Tilgangurinn með þeirri athugun, sem hér verður greint frá, var að grafast fyrir um hvort Grásteinn tengdist þjóðtrú að því leyti, að hann heyrði með réttu og lögum samkvæmt undir þjóðminjavörsluna.
Segja má að hér kristallist ýmis vandamál sem minjavarslan í landinu stendur andspænis vegna síaukins eftirlits með skipulags- og umhverfismálum.
Elsta heimild um Grástein mun vera ítarleg örnefnalýsing sem Björn Bjarnason í Gröf (síðar Grafarholti) ritaði fyrir jörð sína og gaf Landsbókasafninu 2. maí 1918. Ekki er annað sagt um steininn í þeirri lýsingu en hvar hann stóð.
Grásteins virðist svo hvergi vera getið síðan fyrr en í sambandi við vegaframkvæmdirnar við Vesturlandsveg árið 1971 – og þá í fyrsta sinn í tengslum við huldufólk.

Grásteinn 2008

Greindi frá því á forsíðu Vísis hinn 29. júlí það ár hvernig álfatrú tengd steininum hafði áhrif á vegavinnuna. Hafði hann þá verið fluttur af þeim stað sem hann stóð frá fyrstu tíð:
„Vegavinnumennirnir fullyrða nú, að þeir sem áttu þátt í að flytja steininn um áramótin hafi allir orðið fyrir einhverjum óhöppum og slysum. – Sá kvittur kom upp fyrir skömmu að nú ætti að flytja steinana á nýjan leik, en vegavinnumennirnir eru ekki hrifnir af þeirri hugmynd, og þeir, sem Vísir talaði við, sögðu afdráttarlaust, að þeir myndu neita að koma nálægt því verki.“
Í grein á innsíðum blaðsins segir m.a. að steinarnir séu þrír að tölu: „Klettarnir voru fluttir úr stað um síðustu áramót, en þá voru þeir í vegi fyrir framkvæmdunum. Þrjár kröftugar jarðýtur sáu um um að róta þeim til, en ekki nógu langt, því að nú eru klettarnir fyrir enn einu sinni.“
Fram kemur í vitaði með umfjölluninni að þrír menn hafi slasast eftir að þeir áttu við steinana, þar af einn alvarlega á fæti. Stærsti steinninn hafi heitið Grásteinn 2008Grásteinn en sá minnsti Litli bróðir. Kristín Bæringsdóttir, húsfreyja í Grafarholti í 29 ár kannaðist ekki við að huldufólk tengdist steinunum að öðru leyti en því að fólk hefði sagt að í svona stórum steinum hlyti að vera huldufólk. Í endurminningum Skúla Pálssonar í Laxalóni kemur fram að 90 þúsund laxaseiði hefðu brepist þegar jarðýtustjóri tók í sundur vatnsinntak fiskeldis hans í nóvember árið 1970, daginn eftir að Grásteinn hafði verið færður til. Sumir töldu ástæðuna fyrst og fremst hafa verið að ræða fljótræði ýtustjórans. Ágúst Ólafur Georgsson, þjóðháttafræðingur, hafði sumarið 1980 efir Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð II, að Halldór Laxnes, skál í Gljúfrasteini, teldi að umræddur steinn væri álagasteinn. Â Fornleifadeild Þjóðminjasafnsins setti steininn í svokallaðan A-flokk fornleifa í fornminjaskrá, þ.e. með þeim minjum sem hafa mest minja- og varðveislugildi.
Grásteinn 2008Grásteinn var aftur í fréttum í júní 1994 vegna þess að hann var fyrir áformuðum vegaframkvæmdum, er breikka átti Vesturlandsveginn. Í fréttþættinum 19.19 á Stöð 2 sagði frá því hinn 20. júní það ár að færa þyrfti steininn um 25 m leið, en Erla Stefánsdóttir, sem þjóðkunn sé fyrir tengsl sín við huldufólk, sæi hús í báðum steinunum og í þeim litlar verur glaðlegar. Var haft eftir Erlu að þessar verur hefðu flutt í steininn eftir að hann var síðast færður.
Var nú kyrrt um þetta mál til ársins 1998 að vegagerðin vildi ráaðst í framkvæmdir við Vesturlandsveg. Við mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar vegarins benti Árbæjarsafn á að veglínan færi nærri Grásteini, en taka yrði tillit til hans með því að hann væri á Fornleifaskrá Reykjavíkur.
Verkfræðistofa komst að raun um að færa þyrfti Grástein. Borgarminjavörður féllst á þá niðurstöðu.
Grásteinn varð enn á ný fréttaefni í janúar 1999, þegar leyfi til að flytja hann var fengið. Helgi Hallgrímsson, vegamálstjóri, sagði í Morgunblaðinu að steinninn væri fluttur til af tveimur meginástæðum, annarsvegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti væri að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.
Í sömu grein er haft eftir Sigurði Sigurðssyni, dýralækni, sem býr í grennd við steininn, að þegar hann var færður fyrra sinnið hefði hann klofnað og snúist, þannig að það sem áður sneri upp snúi nú niður.
Grásteinn 2008Málið snýst ekki um hvort álfar búi í Grásteini í Grafarholti, heldur hvort álagatrú á hann eigi rætur sínar að rekja svo langt aftur í tíma að hann skuli telja með fornleifum í skilningi 16. greinar þjóðminjalaga og þar með heyra undir þjóðminjavörsluna. Heimildakönnun bendir eindregið til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Grásteini fyrr en í lok árs 1970. Af því leiðir að Grásteinn getur hvorki talist til fornleifa fyrr en í fyrsta lagi árið 2070. – þegar álagtrú á steininn á sér að minnsta kosti aldarlanga sögu – , né heyrt undir þjóðminjavörsluna í landinu, nema hann verði friðlýstur skv. 16. og 18. gr. þjóðminjalaga.
Grásteinn er og hefur fyrst og fremst verið áberandi kennileiti í landslaginu frá ómunatíð. Ekkert bendir til að hann hafi tengst trú álfa fyrr en í seinni tíð. Engar sagnir eru þekktar um hann eldri en 30 ára. Steinninn stendur ekki á upphaflegum stað, en hefur verið færður, a.m.k. tvisvar, við lagningu Vesturlandsvegar árin 1970 og 1971. Bjargið er talið vera um 50 tonn að þyngd, en þegar því var bylt klofnaði það.
Grásteinn var fluttur mánudaginn 18. október 1999 um 37 m til norðurs og vesturs. Flutningurinn tók um fjórar klukkustundir. Allt gekk vel utan hvað ein tréskófla brotnaði. Stærra bjargið vóg 35 tonn og hið minna 15 tonn. Álfanna vegna var þeim komið fyrir á sama hátt og þau stóðu síðast, – á hvolfi.“

Heimild:
-Ragnheiður Traustadóttir, Grásteinn í Grafarholti, um minjagildi ætlaðs álfasteins – Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 151-164.

Grásteinn 2008

Gíslaborg

Gengið var að Gíslaborg í Vogaheiði, Hringnum, Lyngólsborg og Auðnaborg í Strandarheiði.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Gíslaborg er rústir gamallar fjárborgar á grónum hól. Norðaustan hans eru Gíslholtslágar. Í þeim er ferhyrnd hleðsla, nokkur stór. Ekki liggur í augum uppi hvaða tilgangi þetta mannvirki gegndi, en einn heimamanna, sem var með í för sagðist hafa heyrt að þarna hafi í heiðni verið blótstaður og gæti þetta því verið altari frá þeim tíma. Hann gat þess sérstaklega að þetta væri einungis ágiskun hlutaðeigandi.

Hringurinn

Hringurinn.

Norðaustar er Brunnastaðalangholt. Suðaustan undir því, í svokölluðum Langholtsdal, er falleg hálfhrunin fjárborg, sem heitir Hringurinn eða Langholtsbyrgið. Þótt borgin standi í nokkurri lægð rís hún þó hæst á smáhæð í lægðinni. Best er að nálgast hana úr suðri.
Skammt ofan við Hringinn er klapparhryggur, sem heitir Smalaskáli. Á eystri enda hans er Smalaskálavarða.
Norðaustan hringsins er Hlöðuneslangholt og Lynghóll norðaustan þess. Á sléttlendi neðan hólsins eru rústir gamallar fjárborgar, sem nú er orðin allgróin. Erfitt er að koma auga á borgina svo vel hafa þær samlagast umhverfi sínu. Norðvestan við Lyngholt er Arnarbæli og Kúadalur skammt suðvestar.
Austar eru Geldingahólar með Vatnshólinn í miðið. Gengið var vestan við Nyrðri-Geldingahólinn að löngu grónu holti, nefnt Borg.

Hringurinn

Hringurinn.

Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólnum.
Auðnaborgin er skammt norðaustar í grasmóa sunnan í grónum hól. Hún er nú nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af a.m.k. tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru til um nafn hans.
Gengið var norður um Fögrulág með Skálholt á vinstri hönd og niður á Þórustaðastíg þar sem hann liggur upp í heiðina ofan Strandarvegar.
Auk fyrrnefndra fjárborga eru fleiri slíkar í heiðunum milli Reykjanesbrautar og Strandavegar. Nokkru austan við Auðnaborg er t.a.m. Þórustaðaborgin og austan hennar Staðarborgin. Skammt vestan Vogavegar er einnig Gvendarborg. Þær eru því a.m.k. sjö talsins. Ekki tekur nema u.þ.b. tvær klukkustundir að ganga svæðið frá Gvendarborg í vestri að Staðarborg í austri.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Höfði

Illugi Jökulsson tók eftirfarandi saman um Einar Benediktsson. Frásögnin birtist í Vísi árið 1980:
„Einar Benediktsson hefur alla tíð verið umdeildur, jafnt sem skáld og sem manneskja. Nú, 40 árum eftir dauða sinn, er honum enn í lófa lagið að vekja upp heitar deilur og óvægnar, rétt eins og meðan hann var í fullu fjöri. Aldrei verður honum borið á brýn að hafa verið meðalmenni, hversu sem mönnum þykir annars til um hann.
Einar-25Einar Benediktsson fæddist á Elliðavatni 31. október 1864, af merku foreldri. Faðir hans var Benedikt Sveinsson, dómari í Landsyfirréttinum og skörungur í stjórnmálum, og móðir hans Katrín Einarsdóttir. Þau skildu er Einar var barn að aldri og bjó Einar lengst af hjá föður sínum. Hann varð síðan stúdent frá lærða skóla Reykjavíkur 1884 og sigldi til Kaupmannahafnar til náms í lögfræði. Námsferill hans varð slitróttur vegna veikinda og lauk hann ekki námi fyrr en árið 1892.
Vegna ýmissa áhugamála hans utan lögfræðinnar og svo talsverðrar hneigðar til að njóta lystisemda Hafnarlífsins náði hann aðeins 2. einkunn og kom honum það í koll síðar er hann fór að leita embættis. Telur Sigurður Nordal það hafa haft sín áhrif á örlög hans. Síðan segir Sigurður: „Eins og að líkum lætur, kom Einar til Reykjavíkur haustið 1894 með tvær hendur tómar. Faðir hans hafði gert vel að kosta hann til náms og var ekki aflögufær fram yfir það, enda Einar kominn á þann aldur, að honum var ætlandi að sjá sér farboða. En höfuðstaðurinn var líka fátækur og allt annað en vænlegur vettvangur embættislausum lögfræðingi. Var fram að þessu eins dæmi að nokkur lögfræðingur reyndi að draga fram lífið í Reykjavík án málaflutningsréttinda við yfirréttinn, eða nokkurrar fastar stöðu, eins og Einar færðist í fang. Hann sótti um ýmis sýslumannsembætti árangurslaust en fékk loks málflutningsréttindin 1898, eftir fjögurra ára dvöl í Reykjavík.
Vitað er, að Einar fór, undir eins og hann var kominn til Reykjavíkur, að fást við þau lögfræðistörf, sem honum var heimilt að stunda og munu hafa verið fábreytt og lítt févænleg, en auk þess kaup og sölu fasteigna. Annars fara meiri sögur af öðrum störfum hans en brauðstritinu. Samt er haft eftir honum, að árstekjur hans á Reykjavíkurárunum hafi komist upp í 25 þúsund krónur. Þetta var þá mikið fé, eins og ráða má af því, að 1902 seldi Einar stórhýsið í Glasgow fyrir einmitt þessa upphæð og árslaun ráðherra íslands, frá 1904, voru alls 12000 kr. En jafnvel þótt þessi sögusögn um tekjur Einars kunni að vera eitthvað orðum aukin, er áreiðanlegt, að síðari ár sín í Reykjavík hafði hann allgóð fjárráð og fór ekki dult með. Þegar hann kvæntist, 1899, stofnaði hann ríkmannlegt heimili eftir því sem þá gerðist hér á landi. Hann fór í kostnaðarsöm ferðalög, bæði utan lands og innan, ýmist einn eða með konu sína, og barst yfirleitt allmikið á. Það var því alls ekki til þess að bæta afkomu sína, sem hann sótti um Rangárvallasýslu 1904 og fékk veitingu fyrir henni. Enda lét hann þá svo um mælt, að embættislaunin væru sér ekki meira en hæfilegir vasapeningar“.
Einar-26Nú er nauðsynlegt að fara býsna fljótt yfir sögu. Einar var umsvifamikill í Rangárvallasýslu en lét af sýslumannsembættinu þegar árið 1907, vegna þess að hann meiddist fæti og þoldi því ekki þau miklu ferðalög á hestum sem embættinu voru nauðsynleg. Hann fluttist því aftur til Reykjavíkur sem á þessum árum var ört vaxandi bær og var það mjög að skapi Einars sem hugði á stórar framkvæmdir. Sigurður Nordal segir: „Ekki er að efa, að hann hafi ætlað sér að bera þar ríflegri hlut frá borði en tiltök voru hér heima. En hitt er jafnvíst, að nú hugsaði hann um annað og meira: að færa Íslendingum heim í garð það stórfé, sem eitt gat dugað þjóðinni til viðreisnar. Aðstaða til að hrinda þessu áleiðis var allt of óhæg með búsetu á Íslandi. Einar fluttist þegar haustið 1907 til Edinborgar og átti síðan fjórtán ár lengstum heimili erlendis“.
Nú er þess að geta að Einar gat lítils stuðnings vænst af valdsmönnum á Íslandi. Hann hafði litla stjórnarhylli og hafði snemma vakiö tortryggni og fjandskap þegar fyrsti orðrómur gekk um fossakaup hans. Flýtti Alþingi sér þá að gera ráðstafanir til að takmarka leigu og sölu fallvatna. Þó hann hefði einatt mikið fé umleikis var fjárhagur hans ekki traustari en svo að áföll fyrirtækja hans snertu hann illa. Nordal segir: „Hann átti sér í rauninni ekki annan bakhjall en trúna á stórfellda framtíðarmöguleika Íslands, gáfur sinar og persónutöfra“.
Einar Benediktsson mæddist í mörgu. Hann hugði á stórframkvæmdir en lítið eða ekkert tókst honum. Hann stóð í blaðamennsku um tíma og kostaði ýmis blöð, hann drap niður fæti í pólitík og tók upp merki föður síns í baráttunni gegn Valtýskunni, og telja má hann einn aðalstofnanda Landvarnarflokksins. Hann barðist ötulega fyrir sjálfstæði en mun þó hvorki hafa verið skilnaðar- né lýðveldissinni og þótti nokkuð til um sinn kóng. Þá vildi hann beita sér fyrir því að Íslendingar tækju upp loftskeytatækni Marconis og fékk stuðning til þess erlendis frá. Að vísu varð Stóra norræna ritsímafélagið ofan á en Sigurður Nordal telur að öll þessi umsvif og trúnaður sá og rausn, sem hið auðuga Marconifélag sýndi honum, hafi átt sinn þátt í því að koma róti á hann, sannfæra hann um, hverju hann gæti orkað einn síns liðs, og ýta svo undir hann að leggja á tæpari vöð.
Valgerdur-25Efalítið er Einar Benediktsson einna kunnastur nú fyrir fossamálið en linnulaust frá 1906 til 1925 reyndi hann að vekja athygli Íslendinga á þeim möguleikum sem í vatnsorkunni fælust og sýndi þar stórhug svo undrum sætir. Hann vildi hefja orkuframleiðslu úr fallvötnunum og var árið 1914 stofnað hlutafélagið Titan til virkjunar Þjórsár. Það var gert í samvinnu við Norðmenn og var fyrirtæki þetta þvílíkrar stærðar að erfitt er að henda reiður á, jafnvel nú. Ýmissa orsaka vegna fóru öll þessi tröllauknu áform út um þúfur, m.a. vegna kreppu sem skall á í Noregi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Voru það ekki fyrstu vonbrigði Einars, né hin síðustu. Loks stóð svo Einar um margra ára skeið í allslags fyrirtækjamakki við Breta, hann leitaði að gulli hér á landi og vildi leggja Grænland undir íslensk yfirráð. Alls staðar var sama sagan: Vonbrigði. Enda má leiða að því rök að hreint og klárt fjármálavit Einars hafi ekki verib nándar nærri ámóta og hugsjónir hans. Eins og gefur að skilja fjallar bók Sigurðar Nordals að miklu leyti um kvæði Einars, enda þau líklega óbrotgjarnasti minnisvarðinn um hann. Um þau eru ekki tök á að margræða hér. En gefum nú Sigurði Nordal seint og um síðir orðið:
„Einar Benediktsson kvæntist árið 1899, þá tæplega hálffertugur, en Valgerður kona hans réttra átján ára. Einar og Valgerður eignuðust sex börn og lifðu fimm þeirra föður sinn.
Frú Valgerður var glæsileg kona og sómdi sér vel við hlið manns síns. Þótt Einar væri umhyggjusamur heimilisfaðir, var staða hennar oft allerfið vegna tíðra búferlaflutninga og mikilla fjarvista húsbóndans. Annars ferðuðust þau hjónin líka talsvert saman, og á utanvistarárunum komu þau stundum með alla fjölskylduna heim til Íslands.
Um áramótin 1921-22, þegar telja má að Einar væri alkominn heim, settist hann að í Þrúðvangi við Laufásveg en það hús átti tengdamóðir hans. Þar stóð heimilið nokkur ár með miklum brag rausnar og híbýlaprýði. En smám saman tóku hagir Einars að þrengjast, og þegar tengdamóðir hans þurfti sjálf á húsi sínu að halda haustið 1927, urðu þau Valgerður í bili að flytjast í lítið leiguhúsnæði. Þau fóru bæði til Noregs undir árslokin, og varð Valgerður þar eftir, þegar Einar hvarf heim til Íslands. Voru þau þá skilin að samvistum, þótt lögskilnaður þeirra væri ekki gerður fyrr en síðar.
Katrin-25Frá 1928 til- 1930 var Einar áfram í Reykjavík og bjó við heldur órífleg kjör. En nú var komin til sögu sú kona, sem átti eftir að verða stoð hans og stytta til æviloka, frú Hlín Johnson. Hún hafði um fermingaraldur heyrt og séð Einar Benediktsson fyrir norðan, hann jafnan síðan verið henni hugfólgnari en aðrir menn og skáldskapur hans að sama skapi. En þau hittust ekki að máli fyrr en því nær 40 árum síðar. Þá hafði Hlín átt mikil örlög, verið gift og eignast átta börn, misst mann sinn, dvalist nokkur ár í Kanada, tekið sér ferð á hendur til Argentínu og unnið fyrir sér og börnum sínum af óbilandi kjarki og dugnaði. En upp úr 1930 voru þau uppkomin, og frá þeim tíma helgaði hún Einari líf sitt og starf.
Í árslok 1930 fóru þau Einar og Hlín utan, alla leið suður til Túnis, og komu úr því ferðalagi vorið 1932. Þá réb Einar því, að þau settust að á hinu forna stórbýli, Herdísarvik, sem ásamt Krýsuvík, var eignarjörð hans. Þar komu þau sér upp litlu og vistlegu húsi og höfðu nokkurn búskap. Þó að Einari væri á seinustu Reykjavíkurárum sínum stundum svo fátt skotsilfurs, að hann seldi smám saman þær bækur sínar, sem honum var ekki fast í hendi með, átti hann lengi nokkrar fasteignir, og kom það honum í góðar þarfir síðar. Árið 1935 gaf Einar Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, bækur sínar og húsgögn til minningar um föður sinn.
Herdísarvík var á þessum tíma mjög afskekkt, langt til næstu bæja og vegir þangað ógreiðfærir.
Fyrstu ár sín í Herdísarvík kom Einar stöku sinnum til Reykjavíkur, og um sjötugsafmæli sitt fór hann síðustu utanför sína, til Hafnar, og var þá enn hinn ernasti. En eftir þetta fór kröftum hans smáhnignandi, án þess að hann þjáðist né legðist rúmfastur. Mátti heita, að dauðinn, sem honum hafði staðið svo mikill beygur af á fyrri árum, sýndi skáldinu það tillæti að nálgast hægt og hljóðlega. Hann andaðist 12. janúar 1940, liðlega hálfáttræður.“

Heimild:
-Vísir 12. apríl 1980, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

Jóhannes Reykdal

ÚRDRÁTTUR:

„Rafmagnið útrýmdi fljótlega öllum öðrum ljósgjöfum hvar sem það kom vegna yfirburða sinna, bæði hvað snertir birtumagn, þægindi og verð, og hafa rafljósin með sanni orðið ljós hins nýja tíma.“

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

1. Híbýli manna hér á landi allt fram á þessa öld buðu ekki upp á mikla innanhússbirtu. Þykkir veggir torfbæjanna áttu að veita sem besta vörn gegn kula og dragsúg og á meðan ljósop voru raunveruleg op, eins og margt bendir til að þau hafi verið fyrst á landnámsöld, máttu þau hvorki vera mjög stór né mörg.
2. Mjög lítið er vitað með vissu hvernig ljósopum eða gluggum var háttað á húsum hér á öndverðu. Á meðan dagsbirtu naut við barst ljós að utan inn um ljóra. Ljóri, sem er samstofna orðinu ljós, var ljósop eða reykop sem var yfirleitt í þekjunni yfir langeldinum. Í ramma var settur skjár og var hann hafður til aðþétta reykopin þannig að þau gæfu samt svolitla birtu.

Gluggi

Steindur gluggi.

3. Glergluggar munu fyrst hafa verið nefndir í Páls sögu biskups þar sem þess er getið að hann hafði með sér tvo glerglugga og færði dómkirkjunni í Skálholti þegar hann kom heim árið 1195. Á 13. öld er alloft getið um glerglugga í íslensku fornbréfasafni og víðar, en eingöngu í kirkjum. Á venjulegum bæjarhúsum fara gluggar að tíðkast á síðari hluta miðalda í Skandinavíu, en á Íslandi líkega ekki fyrr en á 18. öld.

4. Helsti birtugjafinn í húsum landnámsmanna eftir að skyggja tók hefur að öllum likndum verið langeldurinn, sem upphaflega var á miðju skálagólfi.
5. Dagsbirtan, sem inn í húsin barst gegnum ljósop, var látin nægja á sumrin ásamt birtu sem lagði af eldum er á gólfinu brunnu á fyrstu öldum byggðar í landinu. Af seinni alda heimildum að dæma mun ljós ekki hafa verið kveikt sérstaklega til að lýsa upp vistarverur fólksins nema á svonefndum ljósatíma.

Langeldur

Langeldur.

6. Það var nokkuð á reiki hvenær ljósatími byrjaði að hausti. Algengast virðist hafa verið að ljós væru látin loga innahúss á kvöldin frá miðjum september fram í miðjan mars. Víða var miðað við tiltekinn atburð, t.d. göngur eða réttir. Ljósatíma lauk almennt á vorin um miðja góu eða í góulok.
7. Allt fram á 19. öld urðu tiltölulega litlar breytingar á ljósfærum hér á landi og notkun þeirra. Helstu ljósfærin voru kolur, lýsislampar og kerti.

Gluggi

Gloggi á torfbæ.

8. Algengast var að kalla einfaldan lampa kolu, en væri hann tvöfaldur nefndist hann lampi. Kolur gátu verið úr ýmsum efniviði, einkum steini, en lampar voru nær alltaf úr málmi.
9. Elstu ljósfæri sem fundist hafa við fornleifarannsóknir hér á landi eru kolur úr steini, einnig nefndar lýsiskolur. Víða er sagt frá slíkum ljósfærum í fornsögum og að líkundum hafa þær verið helsta ljósfæri sögualdarmanna.
10. Lýsislampar eru taldir hafa komið til sögunnar um miðja 17. öld.

Víkingaheimar

Kola í Víkingaheimum.

11. Algengast var að nota fífukveiki í kolur og lýsislampa og þóttu þeir langbestir. Fífunni var safnað í ágústmánuði eða þegar hún var fullsprottin.
12. Lýsi var það ljósmeti sem notað var í kolur og á lampa fram á þessa öld. Algengast var að nota sellýsi á lampa og kolur. Hákarlalýsi þótti mjög gott þar sem það fékkst.

Tólgarkerti

Tólgarkerti.

13. Kertaheitið er dregið af latneska orðinu ceratus, sem þýðir með vaxi á. Til forna voru kertin búin til úr býflugnavaxi. Kertavaxið varð að flytja inn erlendis frá og var því afar dýrt. Eftir að farið var að nota tólg til kertagerðar var komið efni sem allir áttu aðgang að og ekki þurfti að kaupa dýrum dómum.
14. Olíulampinn var fundinn upp árið 1855 af bandarískum efnafræðingi. Til Íslands fóru þeir að berast að marki á árunum 1870-1880. Fyrstu olíulamparnir voru nefndir flatbrennarar, þ.e.a.s. lampar með flötum kveik.

Lýsislampi

Lýsislampi.

15. Steinolíuampar voru hafðar í baðstofu fyrst eftir að þeir fóru að berast til landsins. Sjaldan var nema einn slíkur lampi á hverjum bæ. Í edhúsi, göngum eða útihúsum voru lýsislamparnir notaðir áfram. Einnig var algengt að menn reyndu sjálfir að búa sér til olíulampa. tekin voru lítil glös, flöskur eða jafnvel blekbyttur, sem tappi var settur á (tvinnakefli), gat borða í gegnum tappann og látúnspípa sett þar í. Kveikur úr bómullargarni var hafður í pípunni og varð að skara hann upp með nál. Þessi lampaglös voru nefndar týrur.
16. Eldfæri lndnámsmanna tóku litlum breytingum fram á 19. öld. Það var eldstál og tinna. Slegið var með stálinu á tinnuna og hrökk þá neisti í fnjóskinn og tendraði eld.

17. Eldspýtur voru fundnar upp á fyrri hluta 19. aldar.
18. Gas sem ljósagjafi áti sér stutta sögu á íslandi í byrjun þessarar aldar og mun varla hafa verið notaður utan Reykjavíkur.

Eldspýtur

Eldspýtur.

19. Rafmagnsljós komu með rafmagnsdýnamó Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði árið 1904.
20. Segja má að ljósfæri landsmanna hafi tekið sáralitlum breytingum í um þúsund ár. Á söguöld hefur langeldurinn verið aðal ljósgjafinn ásamt ljórunum. Elstu eiginlegu ljósfærin, sem við þekkjum, eru lýsiskolurnar sem voru í notkun alveg fram á þessa öld, lítið breyytar. Tvöföldu lýsislamparnir, sem sennilega fóru að tíðkast hér á 17. og 18. öld, eru líklega eina tækninýjungin sem fram kemur á þessu sviði fram á 19. öld. Kertin voru alla tíð einkum notuð í kirkjum og til hátíðarbrigða. Steinolíulamparnir sem hingað fóru að berast í lok 19. aldar valda straumhvörfum á heimilum manna og eru fyrstu boðberar væntanlegrar tæknibyltingar sem breytti á örskömmum tíma fornu bændasamfélagi með rætur í rótgróinni járnaldarmenningu í nútímaþjóðfélag.

-Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi – 1987 Frosti F. Jóhannsson (bls. 195-366).
-Ljósfæri og lýsing – Guðmundur Ólafsson.

Jóhanne Reykdal

„Reykdalsstíflan“ ofan Hörðuvalla.

Kvarnarsteinar hafa verið notaðir hér á landi frá fyrstu tíð, jafnvel fyrir norrænt landnám ef marka má frásögn Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings v/landnámsskálann í Vogi, Höfnum – sjá umfjöllun í Víkurfréttum 19. mars 2010.
KvarnarsteinnKvarnarsteinn er úr kvörn, sem korn var malað í. Skiptir þá ekki máli hvort kornið, sem malað var með honum, var innflutt eða ekki. Kvarnarsteinar voru tveir, hvor ofan á öðrum, og var smíðaður um þá trékassi. Kornið var látið í gatið í miðjunni og efri steininum snúið. Þá malaðist kornið milli steinanna og sáldraðist ofan í kassann.
Á Efri-hellu ofan við bæinn Hraun í Grindavík, sunnan Húsafells, má enn sjá hraunhellusvæði þar sem kvarnarsteinar Grindvíkinga voru unnir fyrrum (mynd að ofan). Þótt mikið hafi verið fjarlægt af hraunhellum þarna síðari árin í garða og „sólarvé“ má þó enn sjá leifar handverksins á staðnum. Í raun ætti að friða staðinn m.t.t. þessa.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn; kvarnasteinn.

 

Krýsuvík

Ólafur Einarsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1986 um síðustu ábúendurna í Krýsuvíkursókn.
Hjónin í Stóra Nýjabæ héldu lengst út og komu öllum sínum seytján börnum til manns:
Storinyja-1
Stytzta og fljótfarnasta leiðin til Krýsuvíkur, að minnsta kosti fyrir þá, sem á höfuðborgar-svæðinu búa, er að aka til Hafnarfjarðar, suður og niður Hvaleyrarholtið og beygja við fyrstu vegamót til vinstri, halda síðan þvert yfir Kapelluhraun, þar til að Snókalöndum kemur. Aka þá til hægri og halda ferðinni áfram upp í Vatnsskarð og enn áfram eins og leið liggur meðfram Kleifarvatni, allt þar til kemur að Krýsuvík. En hún var, eins og mörgum er kunnugt, höfuðból Krýsuvíkursóknar, en fór í eyði um síðustu aldamót. Bærinn stóð undir samnefndu fjalli (Bæjarfelli) stuttan spöl frá Krýsuvíkurkirkju.
Um það bil 10 til 15 mínútna gangur var frá höfuðbólinu til Stóra-Nýjabæjar, sem var austan við Stóra-Kambafell á Austurengjum. Stóri-Nýjibær er þekktastur fyrir, að ábúendur, Guðmundur Jónsson frá Hiíð í Selvogi og kona hans, Kristín Björnsdóttir frá Herdísarvík, bjuggu þar myndarbúi og héldu lengst út við búskapinn allra þeirra, sem í Krýsuvíkursókn bjuggu. Þess ber að geta, að Guðmundur Jónsson frá Selvogi missti föður sinn, þegar hann var á fermingaraldri, með sviplegum hætti. En faðir hans féll niður um ís á Hlíðarvatni og drukknaði. Mikill harmur hefur það verið syninum. Og varð hann að taka að sér forsjá heimilisins strax eftir fermingu. En sú þolraun, sem föðurmissirinn hlýtur að hafa orðið syninum unga, mun óefað hafa mótað hann og hert, enda var Guðmundur alla tíð mikill búforkur, jafnhliða því að vera afbragðs formaður á vetrarvertíðum um áratugi.
Storinyja-2Næsti bær við Hlíð í Selvogi, var Herdísarvík. Það gat því varla hjá því farið, að þau Kristín frá Herdísarvík og Guðmundur frá Hlíð kynntust. Tókust með þeim ástir þegar á unglingsárum. Og voru þau gefin saman í hjónaband í Krýsuvíkurkirkju af séra Eggert Sigfússyni á Vogsósum, þann 8. september 1895. Hún 18, en hann 29 ára að aldri. Eins og fram hefur komið, var Guðmundur í Stóra-Nýjabæ afburða búforkur og jafnhliða því mikill formaður. Gerði út bát frá Herdísarvík árum saman í félagi við Símon á Bjarnastöðum í Ölfusi og var ennfremur formaður í Grindavík í þrjár eða fjórar vertíðir fyrir Júlíus Einarsson, ættaðan þaðan.
Undirritaður ræddi við þau Nýjabæjarsystkini, Hrafnhildi Guðmundsdóttur og Sigurð Guðmundsson. Þau voru sammála um, að ekki hafi verið einmanalegt á heimili þeirra í Nýjabæ. Alltaf nóg að gera, segir Sigurður. Auðvitað gat það verið erfitt á stundum, t.d. var um fimm kílómetra gangur milli að Krýsuvíkurbergi og þangað þurfti oft að fara til fugla- og eggjatöku frá heimili þeirra og austur að Herdísarvík var vegalengdin um það bil 10 kílómetrar. Og sama var að segja um leiðina vestur að Ísólfsskála, hún er svo til jafn löng. Þessi nefndu býli voru næstu nábúar okkar og oft heimsótt, þegar vel stóð á, og veður hamlaði ekki, segir Sigurður að lokum.
Storinyja-3Það voru Nýjabæjarhjónin, frú Kristín Bjarnadóttir, heimasætan frá Herdísarvík og Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Selvogi, sem lengst héldu út. Þau hófu búskap að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1893 og fluttu þaðan alfarin 1933 til Hafnarfjarðar og bjuggu á Jófríðarstöðum 8B, allt til æviloka. Þegar á það er litið að Nýjabæjarhjónin þraukuðu lengst af við búskapinn í Krýsuvíkursókn, á erfiðleikaárum eftir fyrri heimsstyrjöldina, þá lýsir það skapgerð þeirra og dugnaði.
Í viðtali, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: „Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?
Ég hefi reynt að halda í horfinu, segir Guðmundur, og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.“
Það var kreppan, sem skapaðist í heiminum eftir fyrri heimsstyrjöldina, sem svarf að Nýjabæjarheimilinu, eins og fleirum. En Guðmundur í Nýjabæ var ekki á þeirri reiminni að gefast upp, eða að óska eftir aðstoð. Ekki sótti hann um lán úr Kreppulánasjóði, og enga aðstoð þáði hann vegna ómegðar.
Þau Nýjabæjarhjónin komu öllum sínum sautján börnum vel til manns. Og öll urðu þau myndar- og dugnaðarfólk. Það verður að teljast þrekvirki.
Sautján afkomendur ög allt dugnaðarfólk. Það er hvorki meira né minna en ein til tvær skipshafnir. Hve mikils virði er það þjóðfélaginu, þegar að hjón frá afskekktu byggðarlagi skila slíku ævistarfi?“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 47.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.