Herdísarvík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948 er lýsing Herdísarvíkur eftir Ólaf Þorvaldsson. Hér lýsir hann svæðinu frá Olnboga að Seljabót, auk Gamlavegi:
herdisarvik-997“Olnboginn sprengir allar öldur, sem að honum sækja, og leysir þær upp í brimúða, sem stígur hátt til lofts eins og ægilegur goshver, og er oft tilkomumikið á að horfa. Þegar hvasst er af suðvestri og vestri og sjór stór, er talið, að Olnboginn “verji víkina”, — hann er brimbrjótur Herdísarvíkur, hann þarf ekkert viðhald, og ólíklegt, að úr sér gangi fyrst um sinn. Norðvestur af Olnboganum, nokkuð uppi á hrauninu, sem má teljast slétt þar um slóðir, eru tveir langir, en lágir hólar, Langhólar. Á Olnboganum sveigist ströndin til vesturs, og er samfellt berg á alllöngum kafla, Háaberg. Skammt frá brún þess, austar en á miðju, er stakur hóll, Hvíthóll. Þegar Háabergi sleppir, sem mun láta nærri að sé um 20 mín. gang vestan Hvítháls, lækkar bergið, og landið breytist, er sléttara og samfelldari gróður, og er þá komið á Seljabót. Vestan hennar gengur hár brunahryggur í sjó fram, Seljabótarnef. Þar eru landamerki milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, þaðan beina línu í Sýslustein, sem síðar mun nefndur.

Gamlivegur-21

Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík. Á sléttum hellum á Seljabót sjást enn fornar refagildrur úr hraunhellum. Af Seljabót held ég svo austur hraun og fer Gamlaveg, sem liggur frá eystra horni Geitahlíðar, “niður á milli hrauna”, niður á Seljabót austast; er þá Seljabótarbruni á hægri hönd, en Kolhraun á vinstri. Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið. Þá er austarlega kemur á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, Herdísarvík í Árnessýslu eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 133-134.

Herdisarvik-998

Herdísarvíkurfjall.