Sveinn Sigurðsson fjallaði um heimsókn í Selvog í Eimreiðinni árið 1948 undir fyrirsögninni „Heimsókn á helgan stað“.
„Helgisögnin um verndarengil sjómannanna, þann er birtist á ströndinni í Selvogi, er ævagömul. Enginn veit, hve gömul hún er. En eina dimma ofviðrisnótt á hafinu rak skip fyrir stormi og stórsjó upp að þessari strönd. Skipverjar vissu ekki, hvar þeir voru, en þeir treystu guði og báðu hann verndar, í skilyrðislausu trúnaðartrausti, eins og börn. Foringinn hét að láta reisa þar kirkju sem þá bæri að landi, ef þeir fengju að halda lífi. Og sjá! Framundan rofaði til, frá einhverri annarlegri og undursamlegri birtu. Þeir sáu land fyrir stafni. Og engill stóð á ströndu í ljómandi birtu þess bliks, sem af honum stafaði. Það blik vísaði sjómönnunum leiðina gegnum brim og boða — og þeir komust heilu og höldnu til lands. En á hólnum ofan við víkina, þar sem engillinn birtist, var síðan reist kirkjan til dýrðar honum, sem leitt hafði sjómennina hrjáðu og hröktu heila að landi — og í þakklætisskyni fyrir bænheyrsluna og verndina. En víkin, þar sem bjarta veran birtist, neðan Strandarkirkju, heitir síðan Engilsvík.
Eitthvað á þessa leið er helgisögnin um það, hvernig Strandarkirkja í Selvogi varð til. Um aldir hefur verið heitið á þessa kirkju, þegar hætta var á ferðum. Þau áheit voru og eru gerð af farmönnum og fiskimönnum, sem um höfin fara, og einnig af öðrum, sem á landi lifa og sjaldan eða aldrei koma á sjó. Menn og konur úr öllum stéttum heita á Strandarkirkju. Og mjög er sú trú útbreidd og almenn, að gott sé á hana að heita. Enda nema áheitin orðið mikilli upphæð á íslenzkan mælikvarða. Og nú er Strandarkirkjuhóllinn að verða fjölsóttur staður. Menn fara þangað pílagrímsferðir á öllum árstímum, en einkum þó á sumrin. Og þær ferðir munu aukast mjög, þegar vegurinn um Krýsuvík og Selvog er fullgerður.
Ég kom í Strandarkirkju 8. ágúst, á þessu sumri, í fyrsta sinn. Við vorum sjö í hóp — og veðrið var fagurt. Einn úr hópnum var fæddur á Vogsósum og hafði alizt þar upp bernskuárin, en farið ungur utan og ekki vitjað þessara bernskustöðva í hálfa öld — fyrr en nú. Ferðin varð honum því sannnefnd pílagrímsför — en okkur hinum einnig. Það varð ekki komizt hjá því, að Við yrðum þess vör, er við nálguðumst hólinn, þar sem kirkjan stendur hvít og látlaus — og einmanaleg, — að við vorum að koma á helgan stað. Og þegar inn í kirkjuna kom, varð þessi helgikennd enn ákveðnari.
Altaristaflan í Strandarkirkju er eftirmynd altaristöflunnar í Reykjavíkurdómkirkju, og stendur á henni ártalið 1865. Í horni töflunnar standa stafirnir S. G., en Sigurður Guðmundsson málari gerði myndina. Á silfurskjöld, sem festur er á umgerð myndarinnar, standa þessi orð á latínu: »Sit tibi nomen Jesu pectori infixum“, að því er bezt varð séð, e n letrið er ekki vel skýrt. Sé rétt lesið, myndu orðin út leggjast eitthvað á þessa leið: „Nafn Jesú sé greypt í brjóst þér “ eða „nafn Jesú sé þér fast í huga“. Er taflan falleg, þó að myndin sé ekki tiltakanlega vel máluð, enda ef til vill eitthvað máð af raka, sem gætir nokkuð í kirkjunni, svo sem bezt mátti sjá í gluggakistúm. Á kirkjulofti fundum við gamla hreppsnefndargerðabók frá árunum 1885—’89, með margskonar fróðleik, og ætti bók sú heima Þjóðskjalasafninu, og verður vafalaust þangað send úr kirkjunni áður en langt um líður. Þá höfðu og leiðin í kirkjugarðimim á hólnum, þar sem kirkjan stendur, sína sögu að segja, þó að leiðarvísar um þau væru alltof fáir.
Bílvegurinn í Selvog, um Ölfus og vestur Selvogsheiði, var greiðfær í sumar nema síðasti kaflinn, stuttur spölur, sem vafalaust verður fullgerður á þessu hausti. Frá endimörkum vegarins á Nesi er aðeins um tíu mínútna gangur að Strandarkirkju. Heim að Vogsósum er einnig bílfært svo að segja alla leið. Bærinn stendur við Hlíðarvatn og ósinn, sem skiptir sveitinni í tvennt. Vestan óssins og vatnsins, yzt í sveitinni, er hið forna stórbýli Herdísarvík, þar sem Einar skáld Benediktsson lifði síðustu ár ævi sinnar. Austan óssins og vatnsins stendur Vogsósabærinn og byggðin á Strönd og Nesi. Frá Vogsósum séð ber Strandarkirkju við hafsbrún í suðri. Þar stendur hún hvítmáluð og snotur til að sjá, en eyðisandar umhverfis, sem nú hafa verið græddir upp að nokkru fyrir fé úr hennar eigin sjóði, hinum langstærsta, sem til er í eigu nokkurrar einnar kirkju á landinu. Sjóður þessi nemur nú um 600 þúsund krónum. Svo er áheitunum fyrir að þakka.
Silungsveiði var mikil í Hlíðarvatni áður fyrr — og fuglalíf- varp var þar í hólma til skamms tíma, og sagði okkur bóndinn á Vogsósum, að fyrir ári síðan hefðu í hólmanum verið mörg æðarhreiður. En í vor, þegar gætt var í hólmann, sást þar ekki einn einasti fugl á lífi. Afklipptir vængir, fuglshausar og -lappir lágu þar á víð og dreif. Hefur minkur grandað fuglinum og lagt varpið í auðn. Sömu söguna er allsstaðar að heyra af þeim vágesti, þar sem hann hefur náð að setjast að villtur og auka kyn sitt.
„Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur, sonur hans, bjó að Vogi“, segir í Landnámu. Ýmsar ósamhljóða sagnir eru til um það, hvenær kirkja var fyrst sett á Strönd. Ein sögnin er sú, að Gizur hvíti hafi fyrstur reist þar kirkju, samkvæmt heiti, er hann vann í sjávarháska um að gera þar kirkju sem hann næði landi heill á húfi. önnur sögn er, að kirkjan á Strönd hafi fyrst verið reist í tíð Árna biskups Þorlákssonar (Staða-Árna, 1269—1298), og vegna áheita skipbrotsmanna, sem náðu landi í Selvogi að tilvísan hvítklædds manns, er stóð á ströndu og benti þeim réttu leiðina í land. Segja sumar sagnir, að formaður skipbrotsmanna hafi verið Árni biskup Þorláksson sjálfur. Sagan er ekki líkleg, því á dögum Staða-Árna átti Erlendur lögmaður sterki Ólafsson Strönd, ásamt fleiri jörðum í Selvogi, og er ósennilegt að þeir hafi átt nokkra samvinnu um að reisa þar kirkju, þar sem þeir voru andstæðingar miklir í staðamálum. Enda er til vitnisburður Þorbjarnar Högnasonar, út gefinn á Strönd 13. maí 1367, fyrir því, að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu. Segist Þorbjörn fyrir 60 vetrum og áður oft hafa lesið og heyrt lesinn máldaga Strandarkirkju, sem hafi þá verið orðin svo rík, að hún átti 30 hundraða í heimalandi og „alla veiði i fuglbergi“, o. fl. Vel má vera, að upphaf Strandarkirkju sé að rekja alla leið til papa, þó að ekki verði nú færðar sönnur á þá tilgátu.
Jörðin Strönd var í fjórar aldir, eða frá 1300 og fram um 1700, eitt af höfuðbólum sömu höfðingjaættarinnar. Var það ætt Erlends lögmanns sterka, en hann andaðist árið 1312, og er að líkindum grafinn á Strönd. Einn afkomenda hans og þeirra aðsópsmestur var Erlendur, lögmaður sunnan og austan, Þorvarðarson. Hann varð lögmaður 1521, rak stórbú á Strönd, bjó þar sjálfur öðru hvoru, lézt þar árið 1575 og er grafinn í Strandarkirkjugarði. Byggð var fjölmenn í Selvogi um margar aldir. Á árunum 1677—1680 eru þar 42 búendur, en eftir 1700 tekur heldur að fækka fólki þar. Séra Eiríkur á Vogsósum, hinn fjölkunnugi, Magnússon, var þar prestur frá 1667—1716, og hafa sögurnar um hann gert garðinn frægan. Um annan Vogsósaklerk, sem uppi var löngu síðar, séra Eggert Vigfússon (1840—1908), eru og ýmsar sögur, þó 30 ekki væri hann fjölkunnugur talinn sem séra Eiríkur, fyrirrennari hans.
Fyrstu skjalfestu sannanirnar fyrir því, að mjög snemma á öldinni hafi verið tekið að heita á Strandarkirkju, eru í Vilchinsmáldaga frá 1397. Þar er tekið fram, að Halla Jónsdóttir hafi gefið kirkjunni „tvö hundruð og fimm aura fyrir skreiðartíund, sérdeilis fyrir heitfiska, svo margir sem þeir verða“. Elzta lýsing á kirkjunni, sem nú er til, er frá dögum Odds biskups Einarssonar, eftir að Grímur Einarsson hafði látið byggja hana upp árið 1624. Árið 1696 leggst jörðin Strönd í eyði, en kirkjan stóð ein eftir á sandinum. Árið 1703 skipar Jón biskup Vídalín að byggja upp kirkjuna, sem orðin sé þá hrörleg mjög. Frá vísitazíuferð Jóns biskups Árnasonar til Strandarkirkju, 15. júní 1736, er til lýsing hans á kirkjunni, þá nýlega endurbyggðri. Sjálfur verður Jón biskup eigandi jarðarinnar Strönd um þessar mundir. En með gjafabréfi ekkju hans frá 15. júlí 1749 er Strönd gerð að ævinlegu „beneficio“ Selvogsprestum til uppeldis.
Oft hafa verið gerðar tilraunir til að fá kirkjuna flutta frá Strönd, en allar hafa þær tilraunir mistekizt. Um miðja 18. öld verður séra Einar Jónsson prestur í Selvogsþingum. Vill hann láta flytja kirkjuna og ritar um það bréf Pingel amtmanni og Ólafi biskupi Gíslasyni. Í bréfinu, sem er sent með vilja og vitund Illuga prófasts Jónssonar, lýsir séra Einar því, hversu óheppilegt sé að hafa kirkjuna þar sem hún stendur, á eyðisandi og langt frá bæjum. Féllust ráðamenn algerlega á tillögu Einars um að láta flytja kirkjuna, og skipaði biskup svo fyrir, að verkið skyldi hafið vorið 1752. En hér fór öðruvísi en ætlað var. Séra Einar flosnaði upp frá prestsskap, biskup lifði stutt eftir að hann hafði fyrirskipað kirkjuflutninginn, Illugi prófastur Jónsson, sem mælt hafði eindregið með flutningunum við biskup, lézt skömmu síðar — og Pingel amtmaður missti embættið vegna vanskila 8. maí 1752. Allir þeir, sem að því unnu að fá kirkjuna flutta, urðu þannig í vitund almennings fyrir refsivendi máttarvaldanna, en kirkjan stóð sem áður óhagganleg á Strandarsandi. Aftur átti að flytja kirkjuna að boði Finns biskups sumarið 1756, en úr framkvæmdum varð aldrei neitt. Aftur á móti var gert við kirkjuna, þar sem hun stóð, bæði 1758 og aftur 1763. Þannig var haldið áfram að halda kirkjunni við á sama staðnum, því sóknarmenn vildu ekki hlýðnast skipunum valdamanna um að færa hana úr stað. Stóð sama kirkjan á Strönd, með mörgum umbótum, í 113 ár, frá 1735 og til 1848, að séra Þorsteinn Jónsson lét rífa hana og reisa timburkirkju í staðinn.
Eftir það hættu allar tilraunir til að láta flytja kirkjuna, enda höfðu þær jafnan mistekizt. Með flestum menningarþjóðum mundi fornfrægt guðshús sem Strandarkirkja vera undir stöðugri gæzlu kirkjuvarðar og kirkjunni haldið sem bezt við, en þess þó jafnframt gætt að varðveita sem bezt gömul einkenni hennar. Hvergi er önnur eins vernd um þjóðfræga staði og sagnríka sem í Englandi. Slíkir staðir eru í opinberri gæzlu, og allt er gert til að friða um þá og varðveita frá glötun. Í Westminster Abbey eru verðir þann tíma, sem kirkjan er opin almenningi, en það er venjulega frá kl. 10—6 daglega. Þessi fræga kirkja, full af sögulegum minjum, er talin upp runnin frá aldamótunum 500—600 e. Kr. Helgisögn er til um það, að sjálfur Pétur postuli hafi vígt hina fyrstu kirkju þarna á Tempsároakkanum, þar sem Westminster Abbey nú stendur. St. Páls dómkirkjan í London er opin almenningi daglega, en leiðsögu veita verðir, ef óskað er. Sagan segir, að Díönuhof hafi verið á staðnum löngu áður en kristnin kom til sögunnar. En snemma a 7. öld lætur Aðalbert konungur í Kent reisa þarna guðsbús, og til þeirra tíma er rakinn uppruni kirkjunnar. Í báðum þessum kirkjum eru varðveittar leifar margra beztu sona þjóðarinnar og minningar um þá.
Kirkjugarðurinn umhverfis Strandarkirkju geymir leifar margra merkismanna, svo sem Erlends lögmanns og Eiríks prests hins fróða, sem einna vinsælastur mun, úr þjóðsögum, allra íslenzkra kunnáttumanna fyrr og síðar. Litlar eða engar upplýsingar eru nú til um legstaði merkra manna í garðinum. Kirkjan sjálf er að vísu snotur, bæði innan og utan, en henni mætti halda betur við. Gluggakistur eru votar af sagga, og málningu þyrfti að endurnýja. Ýmislegt mætti gera til að auka prýði kirkjunnar og umhverfis hennar. Einnig þyrfti að koma fyrir í kirkjudyrum áheitaskríni, hvar í menn gætu lagt skerfi sína án þess að þurfa að leita uppi hlutaðeigandi kirkjuyfirvöld. Því áheitin á Strandarkirkju munu halda áfram. Þau hafa jafnvel aukizt undanfarinar – Margra alda reynsla kynslóðanna fyrir því, að áheitin verði til gæfu og óskir og þrár þeirra uppfyllist, sem á náðir hins helga verndarengile kirkjunnar á Strönd leita, hefur látið eftir sig glögg merki. Frásagnirnar um tákn þau og stórmerki, sem tengd eru Strandarkirkju og áheitunum á hana, myndu fylla margra binda bók, ef saman væru komnar í eina heild. Og þó yrði alltaf margfalt meira eftir, sem engar sagnir eru um og enginn kynni frá að greina. Strandarkirkja er fyrir löngu orðin í vitund íslenzkrar alþýðu helgur jarðteiknastaður, þar sem dásamlegir hlutir gerast. Því á að sýna henni alla þá lotningu og ræktarsemi, sem henni ber. Látum hana njóta þess friðar og þeirrar fegurðar, sem í mannanna valdi stendur að veita og með öðru getur stuðlað að því, að vitranir geti gerzt og hlið himinsins megi opnast yfir vorri ófullkomnu jörð.
En til þess að friðað verði áfram um Strandarkirkju, ekki síður en verið hefur allan þann tíma, sem hún hefur staðið einmana á afskekktri strönd, er nauðsynlegt að hafa um hana alla þá gæzlu, er firri hana átroðningi og skemmdum. Vegurinn um Krýsuvík og Selvog er nú langt kominn. Gert er jafnvel ráð fyrir, að honum verði lokið á þessu ári. Enginn vafi er á því, að mikið af þeirri gífurlegu umferð, sem nú er um Hellisheiði, færist þá yfir á þenna veg. Að minnsta kosti verður svo yfir vetrartímann.
Þá verður fjölsótt að Strandarkirkju og fullrar gæzlu og leiðsagnar þörf á þeim fjÖlsótta stað. Og einhverntíma kemur að því, að vegleg ný kirkja verði reist á hólnum, í stað þeirrar litlu og lágu, sem nú er þar. Það verður þegar Ísland er orðið þess megnugt að eiga sér háreist musteri. Hingað til hafa landsmenn verið of fátækir af jarðneskum auði til að reisa slík sýnileg tákn um lotningu sína og þökk til hins æðsta. En að koma til Strandarkirkju er að lifa upp í anda kvöl kynslóðanna og leit þeirra að líkn og náð. Það er sem maður skynji umkomuleysi þeirra, en jafnframt vonarneistann, sem lýsti í myrkrinu og hefur bjargað lífi þjóðarinnar til þessa dags.
Að koma til Strandarkirkju er að sjá sögu lands og þjóðar í leiftursýn líðandi stundar. – Sveinn Sigurðsson“
Heimild:
-Eimreiðin, 54. árg. 1948, 3-4. hefti, bls. 252-258.
Klukka Strandarkirkju.