Hamarinn

Menn trúðu því að voldugar landvættir byggju í landinu. Skjaldamerkið ber þess glöggt vitni. Mikilvægt var að gera þær ekki reiðar og til dæmis var bannað að sigla að landinu á víkingaskipum með ógnandi drekahöfðum. Í Landnámu segir: “Það var upphaf hinna heiðnu laga, að menn skyldu eigi hafa höfðuð skip í haf, en ef þeir hefðu, þá skyldu þeir af taka höfuðið, áður en þeir kæmu í landsýn og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu svo að landvættir fældust við.”
Dys við Garðshús í GrindavíkLandsmenn hafa líka lengi trúað að huldufólk og jafnvel tröll byggju í klettum, hólum og fjöllum. Svæði, sem eru þessum verum kær, verða menn að umgangast af mikilli varkárni og þeir voru stundum kallaðir álagablettir. Strangar umgengisreglur hafa jafnan gilt um þessa staði – og ekki að ástæðulausu.
Álagablettir voru fyrstu friðlýstu svæðin. Til eru margir Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Álagablettir munu vera margfalt fleiri á Íslandi en byggð ból, þótt flestir séu þeir nú gleymdir.
Þótt Grindavík sé ekki stór bær eru þar t.a.m. margir álagablettir
. Einn álagablettur sem er nokkrir þeirra eru inni í miðjum bænum. Þessa bletti mátti aldrei slá. Óhöpp yrðu ef blettur væri sleginn. Í þessum tilvikum er einungis um gróna hraunhóla að ræða, en margir álagablettir eru á og við gróin tún. Í fornleifaskráningu (ÓSÁ) fyrir Úlfarsá segir m.a. um svonefnda Álagabrekku: “Þau álög voru á brekkunni að ekki mátti slá hana, þá átti besta kýrin að deyja og hjónin á bænum líka. Þetta þótti ganga eftir árið 1918. Þá bjó Jón Kristjánsson lagaprófessor á Úlfarsá og sló brekkuna. Þá fékk kýrin nagla í vélindað og drapst. Svo kom spænska veikin og þau hjónin dóu bæði. Að sögn mun lítill flatur hóll um 10 m vestan við inngang íbúðarhússins á Úlfarsá vera til kominn þannig að þar hafi verið grafin öll föt einhvers sem látist hafi úr spænsku veikinni. Um 1975 voru vistmenn að slá hólinn þegar kona fótbrotnaði á tröppunum á Úlfarsá. Ári síðar endurtók sagan sig. Þá datt lítill drengur í tröppunum og hjó sundur á sér vörina.”
Fátt hefur staðist jafn vel tímans tönn og trú Íslendinga á helgi álagablettanna sem finna má í hverri sveit og skipta hundruðum í landinu öllu. Enn þann dag í dag njóta staðir þessir friðhelgi og til eru bæði gamlar og nýjar sögur af óhöppum og slysförum sem tengjast brotum á bannhelginni.
Álagahóll við fiskverkunarhús Þorbjarnar í GrindavíkÍ Þjóðminjalögunum eru álagablettir taldir til fornleifa sbr.; “álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð”. Það er skýrt af þessari skilgreiningu að fornleifar eru ekki aðeins öll mannvirki heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum, hvort heldur sem eru vöð eða álagablettir.  Þessari víðu skilgreiningu hefur verið fylgt við gerð fornleifaskrárinnar og í anda hennar eru einnig skráðir staðir eins og orrustustaðir, skilgreinanlegir staðir þar sem atburðir, sem tengjast sögu og bókmenntum Íslands,  hafa átt sér stað og staðir þar sem draugar hafa átt að hafa  búið.
Fornleifar eru fyrst og fremst minjar um manneskjuna, þ.e. bústaði, framkvæmdir, verkfæri, hluti hvers konar og einnig geta fornleifar verið náttúrulegir hlutir sem minningar tengjast, t.d. álfasteinar1. Fólk finnur fornleifar víðsvegar, t.d. grafnar í jörðu, í hellum, á hafsbotni, jafnvel liggjandi á víðavangi og inn í húsum.
Allir minjar sem eru eldri en 100 ára njóta verndar Fornleifaverndar ríkisins og hefur sú stofnun ein heimild til að gefa leyfi til rannsókna og hvers konar annarrar meðhöndlunar.
Þegar hlutirnir hafa hins vegar verið skráðir inn á safn þá njóta þeir verndar Þjóðminjasafnsins.
Byggðasöfn hafa mörg hver sýnt fornleifar frá sínu svæði enda uppfylla húsakynni þeirra þau skilyrði sem þjóðminjavörður setur.
Álagablettur við ÚlfarsáMikil áhersla er lögð á að einungis fornleifafræðingar komi að málum þegar þarf að hreyfa við minjum, þetta er vegna þess að umhverfi fornleifanna segir oft jafnmikla sögu og fornleifarnar sjálfar. Óþjálfað auga getur ekki greint þetta og þegar búið er að raska umhverfinu þá verður aldrei aftur snúið.
Dæmi til skýringar:
Segjum að lítið bein finnist hér í bæjarlandinu. Þegar beinið er rannsakað þá kemur í ljós að það er af dýri sem einungis er að finna í Norður Ameríku. Nú er beinið aldursgreint og kemur í ljós að það er mjög gamalt, mögulega frá því um árið 1000.
Þetta er mjög spennandi, en auðvitað gæti einhver bandarískur hermaður hafa tapað beininu hér, fundið það í jörðu heima hjá sér og átt sem lukkugrip. En ef beinið hefur verið grafið upp úr jörðu af fornleifafræðingum sem hefðu skráð nákvæmlega fundarstaðinn sem er t.d. undir öskulagi sem við þekkjum sem Reykjaneselda frá 13 öld, þá er þetta bein stórmerkilegur fundur, vegna þess að það tengir okkar svæði við landkönnun Norrænna manna vestur um haf. Ef óvanir hefðu fjarlægt beinið úr jörðu þá hefðum við aldrei getað fullyrt að beinið bendi á þessi tengsl.
Smiðjuhóll á ArnarnesiÞað sem virkar sem lítt spennandi þúfur og órækt í okkar augum getur hulið merkar minjar frá liðinni tíð. Mjög stór hluti af þeim minjum sem hafa fundist komu í ljós vegna ýmiskonar framkvæmda og einnig vegna jarðvegseyðingar. Vandinn í dag er að jarðvegstæki eru svo stórtæk og fljót að hætta er á að menn taki ekki eftir ef þeir grafa í gegnum minjar. Því er afar mikilvægt að fara varlega þegar ráðist er í framkvæmdir.
Smiðjuhóll við gamla Arnarnesbæinn er dæmigerður álagablettur. En hvers konar álög er þarna um að ræða?
Skv. upplýsingum Gunnars Benediktssonar, þess er manna fróðastur er um minjar í landi Garðabæjar kemur m.a. fram að “Smiðjuhólsins (m. greini) er getið í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug R. Guðmundsson (Gbæ 2001, bls.139). Hólsins er og getið lauslega í örnefnaskrá Gísla pól Sigurðssonar, sem þó er líklega ekki hin “opinbera” gerð skrárinnar. Til hennar (hinnar “opinberu”) vísar Guðlaugur í fyrrn. bók. Er augljóslega fyllri. – Frásögnin í bók Guðlaugs þykir mér benda til þess að þar kunni að hafa verið huslað hræ miltisbrandsdauðrar skepnu. Slíkir staðir urðu oft að álagablettum eða taldir hættulegir eftir að tilefnið gleymdist. Ég hef ekki komið að hólnum sjálfur. Hafði reyndar lítinn áhuga á álagablettum þar til að upp fyrir mér rann hugsanlegt samband blettanna við miltisbrandinn. Það gerðist við lestur þjóðsagna frá Vesfjörðum, þar sem  það er nánast sagt berum orðum (Hattadalur í Áftafirði v/Djúp).

Smiðjuhóll á Arnarnesi

Ég fór að athuga ljósmyndir sem ég tók í námunda við Arnarnestúnið gamla í sumar og þar má sjá töluverðan hól í jaðri byggðar, vestur af beygjunni, sem er sunnarlega í götunni. Hóllin virðist inni á milli lóða syðst á gamla Arnarnestúninu eins og ég þykist muna eftir því. Það hefur ekki verði byggt nema á smá hluta þess. (Hinu má ekki gleyma að hugsanlega sé þetta “afgangur” frá gatna- eða lóðagerð síðari tíma). Enginn annar hóll er þarna sjánlegur, sem mér finnst koma til greina, eftir að ég sá þennan.” Umræddur hóll er inni á afskiptu svæði milli hús 24 og 26 við Hegranes.
Miltisbrandur er smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Bacillus anthracis. Hann kemur fyrir í villidýrum og húsdýrum en getur smitast yfir í fólk sem kemst í snertingu við smituð dýr, hræ eða mikið magn af miltisbrandsgróum. Enn eru engin dæmi um að sýkt fólk beri smit. Miltisbrandur finnst um allan heim, en er þó fyrst og fremst algengur hjá jurtaætum þó hann geti borist í menn og fugla
.
Þekkt eru 89 afbrigði af miltisbrandi.
Ekki er langt síðan hross á Vatnsleysuströnd drápust eftir að hafa komist í snertingu við miltisbrand.

Miltisbrandur er þekktur sjúkdómur um heim allan frá fornu fari. Páll A. Pálsson hefur fjallað um miltisbrand á Íslandi í Bók Davíðs, Háskólaútgáfan, 1996, bls. 545-558). Páll kallar sjúkdóminn miltisbruna og bendir á að hann hafi gengið undir ýmsum nöfnum hér á landi svo sem miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem áttu uppruna í Afríku. Fyrir skömmu kom upp miltisbrandsblandaður jarðvegur við uppgröft í landi Hraunsholts í Garðabæ. Mikill viðbúnaður var settur af stað í gær vegna hugsanlegrar hættu og framkvæmdir voru stöðvaðar (sjá Miltisbrandur).

Ljóst er að dæmin sanna þegar að svonefndir álagablettir hafa í sumum tilvikum a.m.k. átt tilurð sína að rekja til urðunar sýktra hræja fyrrum og frekari röskun á álagablettum á eftir að fjölga slíkum dæmum.

Heimildir m.a.:
-ismennt.is
-wikipedia.org
-influensa.is

Skjaldarmerki Íslands

Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Þingvellir

Í LANDNÁMSBÓK (Sturlubók), 100. kafla, segir m.a.: “Þorgrímur Grímólfsson var bróðurson Álfs; hann fór út með honum og tók arf eftir hann, því að Álfur átti ekki barn. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds goða og Össurar, er átti Beru, dóttur Egils Skalla-Grímssonar. Móðir Þorgríms var Kormlöð, dóttir Kjarvals Írakonungs.”
Thingvalla-3Nefndur Þóroddur var á Þingvöllum er Þorgeir Ljósvetningagoði hvað upp úrskurð um að kristni skyldi framvegis verða trú landsmanna.
Sagan segir að hraun hafi runnið á Hellisheiði, er Alþingi var haldið, skammt frá Þingvöllum og stefnt í átt að bæ eins kristna höfðingjans [Þórodds goða]. Töldu heiðnir menn að þetta væri merki um að guðirnir reiddust. Á þá Snorri Þorgrímsson á Helgafelli að hafa mælt „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ og þótti sýna mikla skynsemi.
Í Íslendingabók Ara fróða (rituð um 1130) segir um framangreindan atburð árið 999 eða 1000:
“Ó
lafur konungur Tryggvason, Ólafssonar, Haraldssonar hins hárfagra, kom kristni í Noreg og á Ísland. Hann sendi hingað til lands prest þann, er hét Þangbrandur og hér kenndi mönnum kristni og skírði þá alla, er við trú tóku. En Hallur á Síðu Þorsteinsson lét skírast snemmhendis og Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdali og Gissur hinn hvíti Teitsson, Ketilbjarnarsonar, frá Mosfelli, og margir höfðingjar aðrir; en þeir voru þó fleiri, er í gegn mæltu og neituðu. En þá er hann hafði hér verið einn vetur eða tvo, þá fór hann á braut og hafði vegið hér tvo menn eða þrjá, þá er hann höfðu nítt. En hann sagði konunginum er hann kom austur, allt það, er hér hafði yfir hann gengið, og lét örvænt, að hér myndi kristni enn takast. En hann varð við það reiður mjög og ætlaði að láta meiða eða drepa okkar landa fyrir, þá er þar voru austur. En það sumar hið sama komu utan h ðan þeir Gissur og Hjalti og þágu þá undan við konunginn og hétu honum umsýslu sinni til á nýjan leik, að hér yrði enn við kristninni tekið, og létu sér eigi annars von en þar myndi hlýða.
Thingvalla-4En hið næsta sumar eftir fóru þeir austan og prestur sá, er Þormóður hét, og komu þá í Vestmannaeyjar, er tíu vikur voru af sumri, og hafði allt farist vel að. Svo kvað Teitur þann segja, er sjálfur var þar. Þá var það mælt hið næsta sumar áður í lögum, að menn skyldu svo koma til alþingis, er tíu vikur væru af sumri, en þangað til komu viku fyrr. En þeir fóru þegar inn til meginlands og síðan til alþingis og gátu að Hjalta, að hann var eftir í Laugardali með tólfta mann, af því að hann hafði áður sekur orðið fjórbaugsmaður hið næsta sumar á alþingi um goðgá. En það var til þess haft, að hann kvað að lögbergi kviðling þennan: Vil ég eigi goð geyja; grey þykir mér Freyja.
En þeir Gissur fóru, uns þeir komu í stað þann í hjá Ölfossvatni, er kallaður er Vellankatla, og gjörðu orð þaðan til þings, að á mót þeim skyldi koma allir fulltingismenn þeirra, af því að þeir höfðu spurt, að andskotar þeirra vildu verja þeim vígi þingvöllinn.
En fyrr en þeir færu þaðan, þá Thingvalla-6kom þar ríðandi Hjalti og þeir, er eftir voru með honum. En síðan riðu þeir á þingið, og komu áður á mót þeim frændur þeirra og vinir, sem þeir höfðu æst. En hinir heiðnu menn hurfu saman með alvæpni, og hafði svo nær, að þeir myndu berjast, að eigi um sá á milli. En annan dag eftir gengu þeir Gissur og Hjalti til lögbergs og báru þar upp erindi sín; en svo er sagt, að það bæri frá, hve vel þeir mæltu. En það görðist af því, að þar nefndi annar maður að öðrum votta, og sögðust hvorir úr lögum við aðra, hinir kristnu menn og hinir heiðnu, og gengu síðan frá lögbergi. Þá báðu hinir kristnu menn Hall
á Síðu, að hann skyldi lög þeirra upp segja, þau er kristninni skyldu fylgja; en hann leystist því undan við þá, að hann keypti að Þorgeiri lögsögumanni, að hann skyldi upp segja, en hann var enn þá heiðinn.
En síðan er menn komu í búðir, þá lagðist hann niður Þorgeir og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð; en morguninn eftir Thingvalla-7settist hann upp og gjörði orð, að menn skyldu ganga til lögbergs. En þá hóf hann tölu sína upp, er menn komu þar, og sagði, að honum þætti þá komið hag manna í ónýtt efni, ef menn skyldu eigi hafa allir lög ein á landi hér, og taldi fyrir mönnum á marga vega, að það skyldi eigi láta verða, og sagði, að þáð mundi að því ósætti verða, er vísavon var, að þær barsmíðir gjörðust á
milli manna, er landið eyddist af. Hann sagði frá því, að konungar úr Noregi og úr Danmörku hefðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gjörðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi. En það ráð gjörðist svo, að af stundu sendust þeir gersemar á milli, enda hélt friður sá, meðan þeir lifðu. „En nú þykir mér það ráð,” kvað hann, „að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggja hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slfta og friðinn.” En hann lauk svo máli sínu, að hvorirtveggja játtu því, að allir skildu ein lög hafa, þau sem hann réði upp að segja. Þá var það mælt í lögum, að
allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka, þeir er áður voru óskírðir á landi hér; en um barna útburð skyldu standa hin fornu lög og um hrossakjötsát. Skyldu menn blóta á laun, ef vildu, en varða fjórbaugsgarði, ef vottum um kæmi við. En síðar fáum vetrum var sú heiðni af numin sem önnur.
Þennan atburð sagði Teitur oss að því, er kristni kom á Ísland.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 30. júní 2000, bls. C8-C9.
-Landnáma (Sturlubók).
-Íslendingabók.

Þingvellir

Þingvellir.

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Eldborg

Eldborgin í dag.

Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjura

na eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.

Mávahlíð

Mávahlíð – stígur.

Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Hálsar

Hraunin milli Hálsa – loftmynd.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.

Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var frá Grænavatni að Austurengjahver (Stórahver), um Vegghamra að Stóru-Eldborg, þaðan um Borgarhraun niður á Krýsuvíkurbjarg vestan við Bergsenda, eftir bjarginu (13 km) að Selöldu, upp að Arnarfelli og yfir að Bæjarfelli með viðkomu í Krýsuvíkurkirkju. Loks var haldið upp að Augum og hringnum lokað við Grænavatn.

Grænavatn

Grænavatn.

Krýsuvík er mikið jarðhitasvæði. Þar eru bæði leir- og gufuhverir en einnig sprengigígar. Stærsti sprengigígurinn á svæðinu er Grænavatn.
Í grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem nefnist Náttúruvernd og birtist árið 1950 í tímariti Náttúrurfræðingurinn segir hann m.a. frá Grænavatni:
“Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Vatnið er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.”
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Hafa þeir eflaust komið að Austurengjahver, en einnig í Hveradal (Seltún) og Baðstofu. Sveinn þórðarson segir frá því að bændur hafi í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby  brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.

Seltún

Seltún – brennisteinn.

Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann.

Bora þurfti því eftir brennisteininum.  Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.
Gengið var í syðri Kálfadalinn. Þar er fallegur hraunfoss, Víti. Haldið var yfir að Vegghömrum vestan Geitahlíðar, niður með henni og yfir að Stóru-Eldborg.
Eldborgir eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar árið 1987. Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Á leiðinni áleiðis niður á Krýsuvíkurbjarg um Litlahraun var rifjað upp ýmislegt um Krýsuvíkina. Hún er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði m.a. Krýsuvíkur prestakalli.
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi.
KrýsuvíkurkirkjaMeð órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: ” Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.” Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvík sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

“Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.”
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Tóft, sem blasti við efst á Krýsuvíkurheiði er ein minjanna um Magnús. Þar er sagt að hann hafi setið yfir sauðum á unga aldri að undirlægi Árna sýslumanns.
Skoðaðar voru minjarnar í Litlahrauni og síðan haldið vestur með Krýsuvíkurbjargi. Frábært útsýni er af bjargbrúninni svo til alla leiðina.
Skoðaðar voru minjarnar við Selöldu, upp við Arnarfell og kíkt inn í Krýsuvíkurkirkju áður en haldið var upp að Augunum. Þau eru tveir sprengigígar með vatni í, þó mun minni en Grænavatn. Þjóðvegurinn liggur milli þeirra.
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=471
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-http://saga.khi.is/torf/2002/nyibaer/
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1089

Graenavatn-221

Grænavatn.

Valahnúkar

Gengið var frá Kaldárseli á Helgafell, um Valahnúka með viðkomu í Valabóli og síðan stolist um Kaldárhnúka á leiðinni til baka.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og ekki leið á löngu áður en þær lögðust af í Álftaneshreppi og síðan á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.

Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Áð efst á Helgafelli.

Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni. Að þessu sinni var haldið suður fyrir fjallið og niður og í gegnum gataklett, sem þar er. Niðurgangurinn er auðveldur. Þegar komið var niður á jafnsléttu var gengið til austurs með sunnanverðu fjallinu, upp á Valahnúka þar sem heilsað var upp á tröllin, og niður að Valabóli þar sem áð var um stund. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir.

Frá Valabóli var gengið niður í Helgadal, sem áður var vinsæll útivistarstaður, einkum af hálfu skátanna, upp á Kaldárhnúka og komið niður í Kaldárbotnum þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa. Venjulega er svæðið girt af, en vegna mikilla snjóa var girðingin á kafi og leiðin því greið um hnúkana.

Valaból

Valaból.

Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins.
Neðar sprettur Kaldá fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, allmerkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Straumsselsstígur vestari

Gengið var að þessu sinni í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn liggur upp í hraunið vestan við Þorbjarnarsstaði og sést hann glögglega frá Reykjanesbrautinni. Hann liggur yfir Alfararleiðina, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól og upp Seljahraunið og áfram skammt frá Toppuklettum. Í þeim er hlaðið gerði. Þar taka Flárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést heim að Straumsseli.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Tóttirnar bera þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.
Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella-neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs.
Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumsselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselsshellar.

Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Það var um tíma notað sem rétt. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir stígnum. Gangan tók um 1 og ½ klst í einstaklega fallegu veðri.
Sjá meira MÉR og HÉR.

Straumssel

Straumselsvarða.

Illaklif

Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. “Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.” Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Gudnahellir-2Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. Það var laugardaginn, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Brast á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt. Fimm vermannanna urðu úti við hól [hér eftir nefndur Vermannahóll] við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. (Sjá meira HÉR.)

Hóllinn fyrrnefndi er austast á Illaklifi. Á honum hafa verið settir steinar ofan á steina á nokkrum stöðum. Bautarsteinn stendur efst á hólnum. Þeir hafa reyndar verið tveir og er hinn fallinn á hliðina. Verðugt væri að merkja hólinn til minningar um þá sem þar urðu út árið 1857.
Gudnahellir-3Þarna gerðist mikil harmsaga. “Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.
Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.
Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk. Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn. Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði.
Þá herti veðrið enn og létust Vermannaholl-21nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Voru þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni. En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér. Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.
Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að Vermannaholl-22vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi. Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjóast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Gudnahellir-4Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.”

Í Sögu Mosfellsbæjar er m.a. fjallað um útilegumenn í Mosfellssveit. Þar segir m.a. frá Guðnahelli í Illaklifi.
“Þess voru dæmi að fólk yfirgaf mannlegt samfélag og varð útilegumenn sem héldu sig gjarnan nærri mannbyggð. Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. “Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.” Ári síðar fundust Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir “við helli í Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld, ” segir í Setbergsannál. Í Alþingisbókum segir að þau hafi fundist í einum helli suður undir Örfiriseyjarseli í Kjalarnesþingi og tekin þar með þýfi af nautakjöti og öðrum hlutum. Ekki er vitað hvar bólstaður þeirra var nákvæmlega en lítið er um hella í Mosfellsheiði sem nýta mátti sem mannabústaði. Helst hafa menn getið sér þess til að útlagaranir hafi búið í þessum hellisskúta undir Illaklifi sunnan við Leirvogsvatn. Hellirinn er um sjö metrar að lengd, fimm á breidd og lofthæð er víða innan við tveir metrar. Hann hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.

Guðnahellir

Guðnahellir.

 

Reykjavík

“Norrænt landnám á Íslandi hefst með Ingólfi Arnarsyni og telst frá því, er hann reisti byggð í Reykjavík sumarið 874.
ondvegissulur-2Hin fáorða saga hans sýnir vel, að hann 
hefir ekki hrapað að því að nema land á afskekktu eylandi lengst vestur í Atlantshafi. Nokkrum árum áður fór hann þangað til þess að kynnast landinu. Þá tók hann land í Álftafirði hinum syðra í Austfjörðum. Þar dvaldist hann eitt ár og kannaði landið. Segir sagan, að honum hafi litist landið betra suður en norður. Þessi stutta setning sýnir að hann muni hafa látið kanna allvíða og má vel vera að þeir hafi þá komist alla leið suður í Hornafjörð.
Næsta vetur sat hann í Noregi og gekk þá til véfréttar um forlög sín, en véfréttin vísaði honum til Íslands. Hefir Ingólfur verið trúmaður mikill og treyst á handleiðslu guðanna. Sést það einnig á því, að þá er hann sigldi að Íslandi næsta sumar, þá varpaði hann öndvegissúlum sínum fyrir borð og hét á guðina að láta þær koma þar að landi er hann skyldi byggja. Þetta var helgiathöfn og um leið afsalaði hann sér ákvörðunarrétti um hvar hann skyldi nema land. Ákvörðunin var falin guðunum. Ekki er þess getið hvar þetta gerðist, en ekki er ólíklegt að það hafi verið í nánd við Vestrahorn, og hafi Ingólfur vænst þess, að öndvegissúlurnar ræki beint til lands. Það hefir aðeins verið fróm og mannleg ósk, ef hann hefir litið Hornafjörð áður um sumar í sólskini, því að sú sjón mundi vekja löngun hjá öllum að eiga þar heima. En nú voru það guðirnir sem réðu, og austanfallið hreif öndvegissúlurnar þegar og bar þær allhratt vestur með landi. Vera má, að Ingólfur hafi ekki viljað missa sjónar á þeim og hafi þess vegna tafist við að fylgja þeim eftir. Fram að þessu höfðu þeir fóstbræður haft samflot, en nú bar Hjörleif undan og sigldi hann rakleitt vestur með landi. Hann treysti ekki á forsjá guðanna, enda varð honum að því. Ingólfur hefir farið mjög hægt yfir og þegar komið var vestur að Öræfum, mun hann sennilega hafa misst sjónar á öndvegissúlunum, enda hafa þá verið komnar dimmar nætur. Þá tekur hann sér vetursetu hjá Ingólfshöfða; þar var þá höfn og gat hann haldið skipi sínu óskemmdu um veturinn. En það var lífsspursmál fyrir hina fyrstu landnámsmenn, að gæta vel skipa sinna, svo að þeir gæti komist aftur af landi burt, ef þeim litist ekki á sig hér. Um vorið sendir hann svo tvo af mönnum sínum vestur með sjó, 
 til þess að leita öndvegissúlnanna. Þessi leit mun hafa staðið í tvö ár, en þá fundust súlurnar í Reykjavík.

Öndvegissúlur

Öndvegissúlur.

Ýmsir hafa haldið því fram, að þetta muni vera skröksaga öndvegissúlurnar hafi ekki getað hrakið meðfram allri suðurströnd Íslands, síðan fyrir Reykjanes og inn Faxaflóa, og alla leið inn í Sund. En nú vill svo til, að þetta er ekki einsdæmi. Nokkrum árum seinna varpaði Þórður skeggi öndvegissúlum sínum í hafið á svipuðum slóðum og Ingólfur. Má marka þetta á því, að hann veitti súlunum ekki eftirför, heldur tók land í Lóni og hugðist bíða þar frétta af því hvar þær hefði borið á land. Sú bið varð nokkuð löng, því að 15 ár bjó hann að Bæ í Lóni, áður en hann frétti til súlnanna. Þær hafði ekki borið á land í námunda við hann, heldur höfðu þær borist vestur með öllu landi, fyrir Reykjanes, inn Faxaflóa og seinast komið á land í Leirvogi í Mosfellssveit. Þessu höfðu guðirnir ráðið, og Þórður fór að vilja þeirra. Hann lagi þegar á stað, er honum barst fréttin, fékk landskika hjá Ingólfi og reisti bú að Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og er sá bær enn við hann kenndur. Þessir tveir menn voru sanntrúaðir og treystu guðunum í blindni, eins og sjá má á því, að annar var þrjú ár á hrakningi áður en hann fann hinn útvalda stað, en hinn hljóp frá vildisjörð eftir 15 ára búsetu, til þess að setjast að á stað, sem í engu virtist komast til jafns við hinn upphaflega bústað, — aðeins vegna þess, að guðirnir bentu honum á, að þar ætti hann að vera. En sögurnar af öndvegissúlunum eru merkar að öðru leyti, því að þær eru elsta vitneskja um hafstrauma við Ísland.”

Heimild:
-Árni Óla – Sjómannablaðið, Forsjónin valdi Reykjavík, 37. árg. 1974, bls. 1-2.

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Seldalur

Gengið var frá Bleiksteinshöfða norðvestan við Hvaleyrarvatn, um Kaldársel og endað við Kershelli.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Bleiksteinshöfði ber nafn af hinum bleika lit er slær á brekkuna. Hún er í rauninni melar. Höfðinn er einn af mörgum á þessu svæði, s.s. Húshöfði, Selhöfði, Stórhöfði, Fremstihöfði og Miðhöfði. Að þessu sinni var gengið niður að Hvaleyrarseli suðaustan við Hvaleyrarvatn. Þar höfðu Hvaleyrrabændur í seli fram undir aldamótin 1900, en þá varð þar hörmulegur atburður er selsráðskonan fannst illa leikin við vatnsborðið. Var talið að nykur, sem bjó í vatninu, hafi orsakað lát stúlkunnar. Ássel er þarna skammt austar.
Gengið var yfir að tóftum vestan í Húshöfða, beitarhúsi frá Ófriðarstöðum, og síðan haldið upp á Selhöfða. Á honum eru leifar fjárborgar og væntanlega stekks. Sunnan undir höfðanum, í Seldal, er hlaðið gerði, gæti hafa verið stekkur. Seldalur hefur verið vel gróinn áður, en er nú að mestu flag.

Rauðshellir

FERLIRsfélagar við Rauðshelli.

Gengið var upp á Húshöfða. Af honum er ágætt útsýni yfir Stórhöfðastíginn þar sem hann liggur suður um hraunið sunnan fjallsins. Haldið var niður af höfðanum sunnanmeginn og hraunkantur Stórhöfðahrauns rakinn upp í Kaldársel.
Í Kaldárseli var litið á staðinn þar sem gamla selið hafði staðið norðan við Kaldá, haldið austur með Lambagjánni að Helgadal og kíkt í Rauðshelli. Þar var þá mannfagnaður mikill, enda hellirinn tilvalinn staður til samkomuhalds.
Selvogsgatan var rakin niður Mosa og með suðurbrún Smyrlabúðarhrauns að Kershelli norðan Sléttuhlíðar.

Rauðshellir

Rauðshellir.