Eftirfarandi er frásögn Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi minjavarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar, af ferð suður í Voga á Vatnsleysutrönd:
„Einu sinni vissi ég til þess, að ung hjón sem að segja mátti að væru á götunni, fóru suður í Voga í Vatnsleysustrandarhreppi til þess að líta á laust húsnæði sem þau töldu sig hafa séð auglýst í blaðaauglýsingu. Þetta var algjör misskilningur, því að átt var við húsnæði í Vogahverfinu í Reykjavík.
Lónakotsbærinn.
En í blöðunum sá ég að auglýst var eftir kennara við Stóru-Voga-skóla og svo alveg sömu villuna að hnýtt var aftan við . . . á Vatnsleysuströnd. En þetta byggðarlag, Vogarnir, er bara alls ekki á neinu, hvorki á Vatnsleysuströnd né annars staðar, en auðvitað er staðreynd að þeir eru í Vatnsleysustrandarhreppi. Og í þessum hreppi eru tvenn afmörkuð byggðarlög, Vogar og Vatnsleysuströnd og svo veit ég ekki . . . en nánast ætti þá að telja þriðja bæjarhverfið, þarna „innbæina“, og verður síðar komið að því.
Ekki er einasta það, að Vogarnir og Vatnsleysuströndin séu afmörkuð byggðarlög, heldur eru þau að mörgu leyti andstæður.
Vatnsleysuströnd – kort.
Úr Vogunum er tiltölulega stutt og auðvelt að sækja vinnu til Keflavíkur eða í Njarðvíkurnar, nú eða þá á Völlinn, ef svo vill verkast. Þarna í Vogunum fjölgar því heldur íbúunum og hús eru byggð. Á Ströndinni er þetta öfugt, þar fækkar fólki og býli leggjast í eyði.
En auk þess að reyna að kveða niður þetta með Voga á Vatnsleysuströnd þá er nokkuð á reiki hvenær og hvar sé komið á hina eiginlegu Vatnsleysuströnd. Sumir telja sig komna þangað strax þegar er komið í álverið eða a.m.k. rétt framhjá því. En það er mikill misskilningur.
Hvassahraun – brugghellir.
Komið hefur fyrir að ég sé leiðsögumaður þegar farið er þarna suðurum. Ekki er það traustvekjandi þegar ég byrja míkrófónsmalið með því að segja að ég viti ekki hvað hann heiti fyrsti hraunflákinn sem leiðin liggur um. Annað hvort hafi hann ekkert heiti og að gerð hraunsins sé það sem nefnt er helluhraun, nú, eða þá að hér sé ákveðin nafngift, með stórum staf og þetta heiti Hellnahraun.
En fljótlega erum við komin í Kapelluhraunið, sem er gjörólíkt hinu, miklu úfnara og aðeins með mosagróðri, og því auðvitað ekki nærri eins gamalt og hitt. Um kapelluna, sem hraunið er kennt við, mætti margt segja, en hér verður aðeins minnst á eitt. Það er, að 1950 fannst þarna í tóttinni líkneski af kaþólskum dýrling, heilagri Barböru. Hún var einkum ákölluð við jarðskjálfta, eldsvoða og þessháttar ófyrirséða stórhættu. Hinum megin við veginn eru kerskálar álversins, taldir lengstu hús landsins en getur þá kapellan talist styzta húsið? Nú hefur verið látið töluvert stærra líkneski í tóftina.
Kapella í Kapelluhrauni.
Þegar Kapelluhrauninu sleppir komum við að þeirri hraunbreiðu sem á þessari leið er stærst, gróðursælust, elzt og mestri tilbreytni er gædd, af þeim hraunflákum sem leiðin liggur um. Hér má til að minnast á byggðarlagið Hraunin eða í Hraununum. Í samtali við elzta innfædda Hafnfirðinginn, kveðst hann muna eftir tólf bæjum þarna, og finnst mér það ótrúlega mikið. Aldrei voru þarna neinar stórjarðir, en helzt mætti þá nefna Óttarstaði, þar sem oftast var fleirbýli. En ein bygging þarna hefur fengið „andlitslyftingu“ og er þar átt við húsakynnin í Straumi.
Straumur.
Straumur er aðsetur listamanna. Íbúðarhúsið er í sama stíl og elztu byggingar á Laugarvatni, enda var víst á báðum stöðum þetta sett í samband við Bjarna Bjarnason, skólastjóra í Hafnarfirði og síðan á Laugarvatni, en hann var með landbúnaðarrómantík, svona í og með. Til Hraunabæjanna taldist líka Lónakotið, þótt það sé nokkru fjær vegi en hinir bæirnir. Það var í byggð fram á miðja þessa öld, sem nú senn kveður.
Ýmsir muna þrjár eða fjórar vísur eftir sr. Árna Helgason stiptprófast í Görðum. Ein er þessi:
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa’ og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.
Erum við nú ekki komin á Vatnsleysuströndina? Nei, hreint ekki, Hraunbyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en nú er þetta víst allt saman Hafnarfjarðarland, og svo er það að við komum í hreppinn með langa nafninu, þegar við förum úr Lónakotslandi.
Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots..
„Fyrst“ er þá þar eyðibýlið Hvassahraun. Við höfum næstum lokið leiðinni um Almenninginn og sjáum nú mjög greinilega hvernig miklu yngra hraun, Afstapahraunið, hefur steypst niðuryfir hitt. Hér höfum við því sem sagt bæði örnefnin Hvassahraun og Afstapahraun. Sumir halda að Afstapahraunið sjálft hafi fyrst heitið Hvassahraun, en þetta er upplagt vangaveltuefni fyrir grúskara. Afstapahraunið er jafnvel enn úfnara og ójafnara en Kapelluhraunið. Þegar við höfum næstum lagt allt þetta hraunhröngl að baki, komum við í Kúagerði svokallað, þ.e. smávegis gróðurteygingar, en vegurinn er svo breiður að hann hefur næstum kæft það. En þarna hafa orðið svo mörg umferðarslys, að komin er þar vandlega hlaðin varða, með krossi efst. Hér er um tvo vegi að velja, og er ekkert áhorfsmál að við veljum þann eldri og mjórri, og auðvitað rómantískari. Brátt höfum við hægra megin næstum heila húsþyrpingu, en það er býlið Stóra- Vatnsleysa.
Minni-Vatnsleysa – flugmynd.
Minni-Vatnsleysa, með svínabúinu stóra, er svo lengra út með sjónum. (Eða er þar kannske ekkert svínabú lengur?) Svo er þarna eitt útvegsbóndabýlið ennþá, með húsum en engum íbúum, en það er Flekkuvík. Ég hætti nú brátt þessum skriftum, en a.m.k. er eftir svarið við því hvenær við erum komin á Ströndina. Það er þegar komið er á samfelldu túnin, og er það þá víst fyrst Litlabæjartúnið. Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sem sagt, Vatnsleysuströndin er sá hluti hreppsins þar sem hvert túnið tekur við af öðru. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Svo eru það sviplítil svæði sem um er að ræða unz komið er í Vogana.
Kálfatjarnarkirkja.
Hér var aðeins ætlunin að spyrna við fótum þegar sézt eða heyrist talað um Voga á Vatnsleysuströnd, og hvar hin eiginlega Vatnsleysuströnd sé. Smávegis sönn frásögn úr þessu byggðarlagi að lokum: Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“
-Magnús Jónsson, fv. minjavörður, Hafnarfirði.
Brunnur í Flekkuvík.