Eftirfarandi fróðleikur um „Jólin – hátíð ljóssins„, birtist í jólablaði Fjarðarfrétta 2022:
„Fjarðarfréttir boða yður mikinn fögnuð – Á morgun eru vetrarsólstöður, hin forna hátíð, er boðar upprisu ljóssins.
Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Þeir halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi. Jól eru haldin um gjörvallan hinn kristna heim og víða annars staðar þar sem kristni er jafnvel í miklum minnihluta. Hátíðin er ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag, þann 25. desember, og sumir þeirra hafa heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, en það gera alls ekki allar kristnar þjóðir. Í austurkirkjunni (grísk kaþólsku og orþódox) eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar.
Sólarupprás við Kálfartjarnarkirkju.
Í Biblíunni er hvergi getið á hvaða tíma árs Jesús fæddist. Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna, sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífsgjafa (hér á landi um 21. desember). Kristnir menn ákvörðuðu síðar að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því náðist málamiðlun; heiðnir glötuðu ekki miðsvetrarhátíðinni þótt þeir skiptu um trú.
Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla um miðsvetrarskeið, og kallað jól. En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil-Söxum hétu mánuðirnir desember og janúar dól. Og í fornnorrænu hét einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) ýlir, og er það nafn dregið af jól.
Sólarupprisa.
Flestir telja að sólhvarfahátíð, Jólin, sem haldin eru helg þann 25. desember, séu komin í stað jóla heiðingjanna.
Fyrst í stað hélt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn héldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum vegna þess að sólin hækkaði aftur göngu sína á himnafestingunni. Og þessi breyting var réttlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar; Krists.
Allt frá því, er kristni var lögtekin hér á landi, munu jólin hafa verið mesta trúarhátíð kirkjuársins. Hefir þar eflaust valdið nokkru um, að fyrir voru áður, í heiðni, hátíðir og siðir, að nokkru trúarlegs eðlis, til þess að fagna hækkandi sól. Menn glöddust yfir því að myrkasti tími ársins var liðinn, dagur smálengdist og sól hækkaði á lofti.
Upprisa sólarinnar.
Alltaf var unnið mikið á sveitaheimilum í gamla daga, en aldrei þó eins og á Jólaföstunni. Það þurfti mörgu að koma í verk fyrir jólin og lögðu sumir saman næstum nótt og dag.
Skömmu fyrir jólin var farið í kaupstað með prjónlesið og var mönnum í mun að koma sem mestu á markaðinn. Bændur komu heim með kaffi, sykur og fleira, sem heimilin þörfnuðust til hátíðarbrigða.
Öldum saman hafa jólin, hér á landi, verið dýrlegasta hátíð ársins. Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir að á sjöttu öld séu íbúar Thule í norðrinu í myrkri, um vetur – í 40 daga. Þegar 35 þeirra eru liðnir, sendu þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjaði veislufögnuður hjá öllum. Þá var fæðingardagur Krists enn ókunnur á þeim slóðum.
Upprisan…
„Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið“, endurhljómar í kristnum ritum. Völdu menn honum loks fæðingardag, „þegar sólin ber sigur á myrkrinu og færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.“
Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: „Jól er mun eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla og er dregið af orðinu sól. Kom það síðar í stað veturnáttablóts heiðingjanna.“
En hvað svo sem öllum vangaveltum og söguskýringum líður – Gleðileg jól með hækkandi sól.“
Ómar Smári Ármannsson tók saman.
Heimildir m.a.:
Vetrarsólhvörfum fagnað að jólasið.
– Fornir jólasiðir; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1925.
– Jól og heiðni; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1931.
– Heiðin jól og kristin jól; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949.
– Ljóssins hátíð fyrir 75-80 árum; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1957.
– Jólin og heiðnar venjur; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1957.
– Jól á fyrri tíð; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1962.
Heimild:
-Fjarðarfréttir 20. des 2022, Jólin – Hátíð ljóssins, bls. 25.
Vetrarsólhvörf á Sveifluhálsi. Sólin (jólin) í hendi höfundar 21. desember. Kleifarvatn fjær.