Á vefsíðu FÍ 2019 er m.a. viðtal við Magréti Sveinbjörnsdóttur í tilefni af útgáfu Árbókar ferðafélagsins um „Mosfellsheiði – landslag, leiðir og saga„;
Árbók FÍ 2019.
„Eitt af því sem setur ímyndunaraflið af stað hjá mér þegar ég geng um Mosfellsheiði eru rústir sæluhúsanna sem þar er að finna. Eftir að hafa lesið frásagnir af hrakningum á ferðalögum og draugagangi í sæluhúsum er auðvelt að sjá fyrir sér dramatískar senur frá ferðalögum fyrri alda þegar fólk varð að komast af án GPS, GSM og goretex!“ Þetta segir Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari frá Heiðarbæ og vefritstjóri á skrifstofu Alþingis. Hún er einn þriggja höfunda Árbókar Ferðafélags Íslands 2019, en bókin nýja hefur einmitt Mosfellsheiðina í háskerpu, landslag, leiðir og sögu.
Ferðafélag Íslands gaf út sína fyrstu árbók árið 1928 en hún hefur komið út árlega í óslitinni röð og er einstæður bókaflokkur um landið okkar og náttúru.
Mosfellsheiði – kort.
Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum sem eru kulnuð eldstöð. „Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum,“ segir Margrét. „Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á heiðina. Fuglalíf er þar nokkuð fjölskrúðugt og ber þar mest á mófuglum. Endur og álftir verpa við heiðartjarnir og rjúpur og hrafnar sjást víða á sveimi.“
Höfundar Árbókar FÍ 2019; Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason.
Margrét reit árbókina nýju í félagi við þá Bjarka Bjarnason, rithöfund og smala á Hvirfli í Mosfellsdal en hann er einnig forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, og Jón Svanþórsson, rannsóknarlögreglumann og göngugarp í göngu- og útivistarfélaginu Ferlir. Þeir þekkja báðir mjög vel til á heiðinni eins og Margrét. Bjarki hefur ritað ýmislegt um sögu og náttúru Mosfellssveitar, þar á meðal heiðarinnar.
„Við Bjarki slitum barnsskónum hvort sínu megin heiðarinnar og höfum löngum smalað þar fé,“ segir Margrét, „farið þar í göngu- og reiðtúra og þekkjum vel til örnefna og sögu svæðisins.“
Mosfellsheiði 1914 – kort; Jón Svanþórsson.
Hún bætir því við að Jón hafi á undanförnum árum gengið fjölmargar leiðir á heiðinni, rakið sig eftir vörðum og hnitsett þær sem skiptir verulegu máli varðandi það að tryggja ferðalög á nútímavísu. „Hann hefur talið um 800 vörður á heiðinni frá Þingvallavegi í norðri að Engidalsá vestan við Hengil í suðri. Langflestar þeirra standa við gamlar þjóðleiðir, þar af eru 100 vörður við Gamla Þingvallaveginn.“
„Í bókinni höfum við Bjarki og Jón lagt áherslu á að á heiðinni sé að finna leiðir við allra hæfi, það er einfalt og aðgengilegt að komast að flestum þeirra og í þeim tilgangi lýsum við nokkrum lykilstöðum, þar sem lagt er upp í ferðirnar og auðvelt er að skilja bíla eftir,“ segir Margrét.
Nýjar leiðir – troðnar leiðir – týndar leiðir
Þingvallavegur dagsins í dag.
Þótt Mosfellsheiði blasi nú við fleirum en nokkru sinni – með býsna vinsælan akveg til Þingvalla, þá eru höfundar engu síður á því að heiðin sé vel falin útivistarperla í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Það er nú líka oft þannig að það þarf að horfa ögn betur á umhverfið en unnt er á rösklega hundrað kílómetra hraða til að uppgötva það sem allir í raun sjá – en enginn tekur eftir.
Um Mosfellsheiði liggja fjölmargar leiðir frá ýmsum tímaskeiðum Íslandssögunnar og hún er kjörinn vettvangur fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.
Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.
„Ekki spilla síðan fyrir þær fjölmörgu sögur sem tengjast heiðinni og ferðum um hana frá fyrri tíð, en vegna þess að yfir Mosfellsheiði liggja leiðir til Þingvalla kemur heiðin við sögu í ferðalýsingum flestra þeirra erlendu ferðabókahöfunda sem hingað komu á fyrri öldum. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus – en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi,“ segir Margrét.
Kaffi Heiðablómið og Borgarhólar
Heiðarblómið.
Yfirleitt er það nú þannig að þeir sem þekkja vel til í víðfeðmu landi eiga sér yfirleitt einhvern uppáhaldsstað, leynda perlu. „Sá staður á heiðinni sem kemur þeim sem ekki hafa komið þangað áður hvað mest á óvart eru Borgarhólarnir, gömul eldstöð úr grágrýti. Þar eru grösugir hvammar innan um lága kletta, gott útsýni, ljómandi gott skjól og alveg örugglega fyrirtakshljómburður. Þar langar mig að halda útitónleika með kórnum mínum, Söngfjelaginu, hver veit nema það verði einhvern tíma að veruleika,“ segir Margrét.
Skammt frá Borgarhólum var snemma á síðustu öld kaffihús uppi á miðri heiði við Háamel. Kaffi Heiðablómið hét þetta kaffihús sem var merkisberi nýrrar samgöngubyltingar og fól í sér bjartsýni á hreyfingu fólks milli staða. Það var danskur veitingamaður, Hartvig Nielsen að nafni, sem hóf þar veitingasölu sumarið 1913.
Tóftir Heiðarblómsins.
„Hann var greinilega markaðsmaður, því hann valdi húsinu stað mitt á milli tveggja alfaraleiða; hinnar gömlu Seljadalsleiðar og nýja Þingvallavegarins sem svo var nefndur á þeim tíma,“ segir Margrét. Það er nú þannig að ekkert er eins forgengilegt og tískan og tíminn gerir það nýja óvenjuhratt að því gamla enda gengur nú Nýi Þingvallavegurinn undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn.
„Reksturinn lifði því miður ekki lengi, aðeins eitt sumar eða tvö. Rústirnar eru hins vegar ennþá vel sýnilegar. Ég myndi gefa mikið fyrir að geta ferðast rúm hundrað ár aftur í tímann og fengið mér þar hressingu!“
Bæklingurinn sem breytist í heila árbók
Mosfellsheiðarleiðir.
Þegar vikið er að tilurð bókarinnar segir Margrét að upphaflega hugmyndin hafi verið sú að gefa út veglegt gönguleiðakort eða -bækling.
„Sú hugmynd hafði reyndar kviknað á tveimur stöðum á svipuðum tíma; í spjalli okkar Bjarka og Jóhannesar bróður míns, bónda á Heiðarbæ, í smalamennskum á heiðinni og í gönguferðum Jóns og Ómars Smára Ármannssonar í útivistarfélaginu Ferlir,“ segir Margrét.
„Síðan vildi svo vel til að leiðir lágu saman, einhverju sinni hringdi Jón í Bjarka til að spyrja hann um örnefni á heiðinni og upp úr því spjalli fórum við að ræða að snjallt gæti verið að leggja saman krafta okkar. Síðan eru liðin allmörg ár – ýmist á göngu þvers og kruss um heiðina, þar sem við höfum rakið okkur eftir misgreinilegum slóðum og vörðubrotum, eða heima yfir hinum ýmsu heimildum og kortum, á spjalli við staðkunnuga og þannig mætti lengi telja.“
Mosfellsheiði – gamla sæluhúsið við gömlu Seljadalsleiðina.
Margrét segir að hugmyndin hafi smám saman vaxið og þar hafi komið að þau sömdu við Ferðafélagið um útgáfu á gönguleiðabók með sögulegum innskotum og nokkuð ítarlegum inngangsköflum um jarðfræði, náttúru, vörður, vegagerð og sæluhús.
„Þegar við vorum að því komin að skila handritinu vorið 2017 varpaði framkvæmdastjórinn Páll Guðmundsson fram þeirri hugmynd að bæta í og skrifa heila árbók, sem kæmi út vorið 2019. Við þurftum nú aðeins að hugsa okkur um, ekki síst vegna þess að það þýddi að útgáfan myndi dragast um tvö ár – en auðvitað var þetta líka mikill heiður, því það hlaut að þýða að Ferðafélagið hefði trú á verkefninu.“
Sæluhúsið við „Gamla-Þingvallaveginn“.
Margrét, Bjarki og Jón voru þakklát traustinu og grófu meira í fortíðina og bættu á garðann. „Inngangskaflarnir voru auknir og endurbættir allverulega og fleiri köflum bætt við, þar til útkoman varð fullburða handrit að árbók.“
Margrét segir að seinni hluti handritsins, ítarlegar lýsingar á 23 leiðum með kortum, myndum og hnitum, hafi síðan orðið að bókinni Mosfellsheiðarleiðir sem komi út í kjölfar árbókarinnar. „Þó að megináherslan þar sé á lýsingar gönguleiða er leiðunum einnig lýst með tilliti til þeirra sem kjósa að fara ríðandi, hjólandi eða jafnvel á skíðum yfir heiðina.“
Ljósmyndir segja meira en mörg orð
Jón Svamþórsson í Gamla sæluhúsinu við Seljadalsleið 2014.
Gríðarlega fallegar ljósmyndir prýða nýju árbókina og segja þær meira en mörg orð. „Við vorum svo ljónheppin að fá til liðs við okkur ljósmyndarana Sigurjón Pétursson og Þóru Hrönn Njálsdóttur, sem hafa farið ótalmargar ferðir á heiðina til að ná réttu myndunum, í réttri birtu og frá réttu sjónarhorni,“ segir Margrét. „Sumum myndunum þurfti vissulega að hafa meira fyrir en öðrum, eins og til dæmis myndunum sem þau náðu loks eftir margar ferðir að greni í jaðri heiðarinnar; af tófu og yrðlingum.“
Jón Svanþórsson hafði ferðast um Heiðina um langt skeið með það að markmiði að staðsetja þar örnfni og minjar, auk þess sem hann hafði lagt mikla vinnu í að rekja hinar fornu leiðir um Heiðina.
Mosfellsheiði – Þrívörður.
„Í Árbókinni er einnig nokkuð mikið af eldri, sögulegum myndum, sem höfundar hafa aflað á ljósmyndasöfnum og víðar. „Þá höfum við notið sérfræðiþekkingar og áratugareynslu Guðmundar Ó. Ingvarssonar, sem sá um kortagerð fyrir báðar bækurnar. Ritstjórinn Gísli Már Gíslason braut um árbókina og hönnuðurinn Björg Vilhjálmsdóttir mun hanna gönguleiðabókina. Við höfum með öðrum orðum notið þess að hafa valinn mann í hverju rúmi.“
Öll heimsins vandamál leyst á góðri göngu
Mælisteinn við gömlu Þingvallaleiðina.
„Ég átta mig betur og betur á því eftir því sem árin líða hversu mikilvæg óspillt náttúra er – og hvað útivera í náttúrunni gefur mér mikinn kraft og hugarró,“ segir Margrét um ást sína á ferðalögum á tveimur jafnfljótum. „Ég slaka óvíða jafn vel á og á göngu. Svo getur maður líka leyst öll heimsins vandamál á göngu, ýmist í samræðum við góða göngufélaga eða einn með sjálfum sér,“ segir rithöfundurinn.
„Það skiptir öllu máli að við verndum þá einstöku náttúru sem við erum svo lánsöm að hafa aðgang að hér á Íslandi – með hóflegri og skynsamlegri nýtingu, þannig að við skilum jörðinni í sama og helst betra ástandi til komandi kynslóða.“
Heimild:
-https://www.fi.is/is/frettir/mognud-mosfellsheidi-i-arbok-ferdafelagsins
-Mosfellsheiði í Árbók Ferðafélagsins, 30.04.2019.
Uppgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.