Skoðaður var Gunnuhver á Reykjanesi sem og næsta nágrenni. Hverasvæðið er litskrúðugt og mikilfenglegt, en varasamt og síbreytilegt. Við hverasvæðið eru m.a. nokkrar tóftir og grunnur húss.
Reykjanes – grunnur húss Höyers.
Margir kannast við söguna af Gunnu Önundardóttur er hverinn er nefndur eftir. Hún segir af Guðrúnu og viðureign hennar við Vilhjálm á Kirkjubóli á Suðurnesjum. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Viðureign þeirra endaði með því stakkst ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver. (Hafa ber í huga að hverinn sá hefur átt það til að hlaupa til um svæðið og er því síbreytilegur.)
Hús Höyers og Eriku við Gunnuhver.
Tóftirnar við Gunnuhver eru eftir búsetu Anders Christian Carl Julius Höyer og konu hans, Eriku Höyer, á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá út á Reykjanes. Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir.
Reykjanes – Gunnuhver. Hús Höyers var nálægt bílastæðinu t.v.
Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Þar er volg jörð og þurfti ekki aðra hitun. Annar endi hússins var gróðurhús og innangengt í íbúðarhlutann. Þarna er vatnslaust, en Høyer bjargaði sér með því að þétta gufu úr hverunum “für Menschen, Hund und Blumen” segir í þýskri ferðabók (E. Dautert án ártals). Aðallega munu þau hjón hafa fengist við að búa til blómapotta úr hveraleir sem þau bökuðu/hertu við jarðhitann.
Anders C. Höyer.
Høyer var aðstoðarritstjóri garðyrkjublaðs “Politiken” fyrir komu sína hingað og líklega einnig á stríðsárunum (finn ekki heimild um það, en minnir ég hafi lesið). Þá skrifaði hann ævisögu konu sinnar fram að því að hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum. Árni Óla þýddi hana á íslensku (hún heitir „Anna Ivanowna“ og höfundur er skráður Erika Høyer). Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar, var lesin sem útvarpssaga. Erika var 15 árum yngri en Høyer. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð en hún varð eftir í Danmörku. Hann endaði sem “flugumferðarstjóri” á Melgerðismelum í Eyjafirði. Heimildir eru um Høyer í bók Árna Óla “Erill og ferill blaðamanns.”
Reykjanes – texti á skilti við fyrrum bústað Höyers.
Í bók eftir Erich Dautert (Islandfahrt) er sagt frá viðkynningu og innliti til hjónanna.
Einnig er að finna frásögn af heimsókn til þeirra í bókinni “Árin okkar Gunnlaugs” (Scheving) eftir konu hans (G.L. Grönbech). Kristján Sæmundsson tók saman upplýsingarnar um Höyer. Þá segir í Degi 16. mars 1955 um Höyer:“Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði„.
Gunnuhver – loftmynd.
„A. C. Höyer Jóhannesson afgreiðslumaður á Melgerðisflugvelli varð 70 ára í gær“.
Þegar A. C. Höyer kom hingað til Íslands áríð 1925, hafði hann þegar víða farið og reynt margt. Hann er fæddur í Árósum í Danmörku, af suður-józku foreldri, en uppalinn í Suður-Jótlandi undir þýzku krúnunni.
Bræðratunga í Biskupstungum.
Ungur lagði hann land undir fót og fór suður um Evrópu, gekk á búnaðarskóla í Berlín, og réðist til ræktunarstarfa á lettnaskum búgarði. En útlendingum var ekki vært þar þegar byltingin flæddi yfir, þótt þeir hefðu þraukað af styrjaldarárin. Þá hélt Höyer til Danmerkur með unga konu af lettneskum uppruna. Ætlunin var að fá jarðnæði í Danmörk, en það var ekki laust fyrir efnalítinn mann. Úr fjarlægð að sjá var nóg landrými á Íslandi. Höyer réðist vinnumaður að Bræðratungu í Biskupstungum, síðan á búgarði Thor Jensens, en árið 1927 hófu hjónin, Höyer og Erika, landnám sem þótti harla nýstárlegt hér á landi á þeim tíma.
Við Gunnuhver.
Landnám í Hveradölum og Reykjanesi.
Þau byggðu sér bæ við heitar Laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bílfarm af fallegum blómum og þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar. Þar höfðu þau hjónin garðrækt og seldu garðávexti og blóm til höfuðstaðarins. En þar var lífið erfitt, staðurinn einangraður og samgöngur strjálar.
Þar hófu þau leirmunagerð í smáum stíl til búdrýginda, en skorti verkfæri. Þau fóru til Danmerkur skömmu fyrir stríð til að afla sér þeirra, en lokuðust inni í Danmörk í styrjöldinni og komust ekki hingað út fyrr en árið 1946.
Leirgoshver við Gunnuhver.
Þriðja landnámið á Melgerðismelum.
Eftir viðdvöl í Reykjavík komu þau hingað norður, og litlu seinna réðist Höyer til Flugfélags Íslands og flugmálastjórnarinnar sem gæslumaður á Melgerðisflugvelli, og þar hafa þau hjónin átt heima síðan. Fyrst í húsakynnum vallarins, sem brunnu árið 1950 þeim til mikils tjóns, og síðan á nýbýli því, er Höyer hefur byggt og nefnir Melbrekku. Er það þriðja landnám hans hér á landi.
Frá 1947 til ársloka 1954 var mikil flugvélaferð um Melgerðisflugvöll og var nafn Höyers tengt henni á einn eða annan veg. Farþegar allir sáu þennan gráhærða, góðlega mann fyrst er þeir stigu á land, og síðastan manna, er þeir litu út um gluggana er vélin ók út á flugbrautina. Inni í skálanum við völlinn — meðan uppi stóð — hafði frú Erika veitingasölu, sem var mjög vinsæl af farþegum og fólki héðan úr bænum, sem gjarnan kom í heimsókn.
Melgerðisflugvöllur (MWL).
Nú eru flugvéladrunurnar yfir Melgerðisflugvelli þagnaðar, en Höyer hefur eftirlit með tækjum og eignum flugmálastjórnarinnar þar, því að völlurinn er enn nothæfur ef þörf krefur. En þótt árin færist yfir og landnám gerist erfiðara, er það samt fjarri skapgerð Höyers að leggja árar í bát. Nú rekur hann hænsnarækt á búi sínu og unir allvel við sitt.
Upplýsingaskilti um Höyer við Gunnuhver.
Sýslar við bú, þótt svalt blási.
Lífið í Lettlandi á stríðsárunum fyrri vandi þau hjónin ekki á lúxus, og það kom sér vel í vistinni í Hveradölum og á Reykjanesi. Ríkmannlegt hefur aldrei verið hjá þeim á Melgerðisvelli, en hlýlegt, og ævinlega nóg um bækur og blöð, enda eru þau hjónin bæði bókelsk og vel að sér í mörgum greinum. Bæði hafa þau ritað nokkuð og margir minnast sögu Eriku um Önnu, Ivanovnu, en þar er víða haldið meira en í meðallagi vel á penna.
Nú eru 70 ár að baki og trauðla hyggur Höyer á nýtt landnám. Hann segist líka kunna vel við sig í Eyjafirðinum og talar um að gott verði að hvílast að Möðruvöllum eða Saurbæ að afloknu dagsverki. En þótt elli sæki nokkuð á, er engin uppgjöf hjá honum nú frekar en fyrri daginn. Á mánudaginn blés svalt um Melgerðismela og lítt sá til fjalla fyrir fjúki. En þá stóð Höyer enn að starfi við búsýslu sína. Hann þarf að sinna um 100 hænur í kofa. Þær verða 200 næsta ár, segir hann.
Hún ætlar að endast honum, sjálfsbjargarhvötin.“
Í Litla Bergþóri, 2. tölublað (01.12.2012), bls. 20-23, er fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans“:
„Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó.
Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir.
Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru umsjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni.
„Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan.
Johannes Boeskov í dyrum gróðurhúss.
Fyrsta gróðurhúsið reis á Reykjum í Reykjahverfi árið 1923. Var það gert að frumkvæði Guðmundar Jónssonar skipstjóra og mágs hans Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns en báðir bjuggu þeir á Reykjum og höfðu þeir mikinn áhuga á ylrækt. Helsti hvatamaður þeirra var Daninn Johannes Boeskov sem starfaði sem vinnumaður á Reykjum. Á garðyrkjusýningu sem haldin var í Reykjavík 1924 mætti Johannes með afurðir gróðurhússins eða 14 tegundir af matjurtum og blómum sem vöktu töluverða athygli enda ýmislegt sem ekki hafði sést áður.
Johannes stofnaði árið 1926 garðyrkjubýlið Blómvang sem telst vera eitt fyrsta nýbýlið sem byggðist eingöngu á ylrækt.
Johannes lést af völdum voðaskots árið 1927.
Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfellssveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörmungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma.
Skáldævisaga Kúrlendings.
Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skellur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti
friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum.
Auðvitað hefur Höyer skrifað bókina“, sagði Árni Óla löngu seinna, enda reyndist Höyer eftir allt saman þrælvanur blaðamaður þótt hann væri í fjósverkum og öðru púli meðan hann dvaldi hér fyrir stríð. Hvað um það, Erica er enn viðurkennd í Danmörku sem rithöfundur fyrir þessa bók. Árni Óla þýddi hana 1942 og var hún ein mest auglýsta og selda bókin hér á landi það árið. Ég var að enda við að lesa hana núna sem kvöldsögu fyrir konuna mína og gefum við henni bestu meðmæli. Erica, hin unga og lífsreynda, var semsagt komin til unnusta síns er hallaði sumri 1927. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði þá um haustið og voru svo bjartsýn að ætla sér að búa í tjaldi á þessum stað meðan þau væru að hrófla sér upp kofa.
Landnámið í Hveradölum og á Reykjanesi.
Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk. En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir fyrrnefndur Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Erika Höyer – minningargrein.
Já margt átti eftir að henda þau hjón áður en yfir lauk. Fyrst fóru þau bókstaflega úr öskunni í eldinn, því þau fluttu út á Reykjanes og gerðu sér annað nýbýli við Gunnuhver þar sem allt ólgar og sýður og ekki þurfti upphitun í kofann. Hitinn streymdi upp um fjalirnar í gólfinu eins og í „Nature Spa Laugarvatn Fontana“ í dag. Þau gátu ræktað og gerðu það, en vegaleysið varð til þess að þau komu ekki afurðum frá sér. Síðar datt þeim svo í hug að búa til jurtapotta úr leir, sem þarna var við hendina. Þau hertu pottana ýmist við hverahita eða brenndu í ofni sem kyntur var með rekaviði, sem þau söguðu í búta og klufu. Þau spöruðu ekki erfiðið, það var eins og þau væru að keppast í „ræktinni“ og þyrftu að passa línurnar. Árni Óla heimsótti þau þarna og leist ekki á. Höyer var kátur að vanda en sagðist samt vera á förum til Danmerkur, sér hefði verið boðin staða hjá Politiken og ætti að verða aðstoðarritstjóri landbúnaðarútgáfu blaðsins. Þegar hér var komið sögu höfðu þau eignast son og var trúlega ekki gæfulegt til frambúðar að hokra þarna hjá Gunnuhver með stækkandi fjölskyldu.
Þarna við hverinn er nú skilti þar sem sagt er frá „síðustu ábúendunum“ en það voru þau hjónin. Því miður eru nokkrar missagnir í frásögninni, t.d. að Höyer hefði verið fæddur í „einhverjum fyrrum Eystrasaltshéruðum Prússlands og það skýrði hina sérstöku málakunnáttu hans“. Hið rétta mun vera að hann fæddist í Árósum á Jótlandi 1885 og var kominn til Kaupmannahafnar fyrir tvítugt. Sem ungur maður hafði Höyer starfað sem formaður Ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og á landsvísu og kynnst mörgum lykilmönnum í Jafnaðarmannaflokknum. Og ekki urðu kynnin minni er hann gerðist blaðamaður á þeirra vegum og þá líka hjá stærsta blaðinu Socialdemokraten. Hann var þá á uppleið, hafði eignast konu og tvo syni, en eitthvað fór úrskeiðis, hann skildi við konuna og fluttist til Lettlands. Hann dvaldi í Lettlandi árin 1923 til 1925, þar sem hann hitti Ericu og þar með tóku örlögin nýja stefnu. Annað sem missagt er á skiltinu er að Erica hafi orðið eftir í Danmörku eftir stríð en Höyer hafi komið einn til Íslands. Hið rétta er að hjónin komu saman og voru hér til dauðadags, en sonur þeirra varð eftir í Danmörku, þó hann væri aðeins 12 ára gamall er þau fluttu „heim“.
Í dönsku útvarpi og þýsku.
Þau fluttust sem sagt frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur 1937. Höyer komst strax inn á danska útvarpið og var mælt með honum sem fyrirlesara og fékk hann venjulega greiðslu fyrir, sem voru 100 krónur fyrir hvert erindi. Hann flutti þó nokkur erindi í Statsradioen fram að stríði og var mjög fundvís á efni sem þóttu nýstárleg í Danmörku á þessum tíma. T.d. hét einn þátturinn „Danskur veiðimaður og landnemi á Íslandi“, annar hét „Að eiga heima á eldfjalli“ o.s.frv. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna erindi um skipakirkjugarð við Ísland, rjúpnaveiðar og bindindismál, að ógleymdu erindi um íslenskan landbúnað, þar sem hann lýsir búskapnum í Bræðratungu og þótti takast vel upp. Hann var óþreytandi að bjóða efni, sumt var tekið en öðru hafnað, og þótti vel frambærilegur fyrirlesari. Það virkar því dálítið kómískt að lesa það í bók Jóhannesar flugstjóra, Skrifað í skýin, um Höyer að þegar hann var orðinn umsjónarmaður á flugvellinum á Melgerðismelum, hafi hann verið búinn að týna niður dönskunni, sem og öðrum tungumálum og verið næsta óskiljanlegur, þó að oft þyrfti hann að leiðbeina flugmönnum í lendingu gegnum talstöð. Flugstjórinn hefur ekki vitað að Höyer var ekki alls óvanur að handleika hljóðnema.
Erika Höyer.
Nú voru þau Erica og Höyer semsagt komin til Danmerkur eftir fyrri dvöl sína á Íslandi og það var ekki langt í næstu heimstyrjöld. Það var örlagadagur fyrir Höyer og fjölskyldu þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940. Höyer gekk þá strax Þjóðverjum á hönd og tók þátt í útvarpssendingu á þeirra vegum þar sem hann studdi „frelsun Danmerkur“. Þá var hann umsvifalaust rekinn frá útvarpinu, því að danska útvarpið hélt merkilegt nokk sjálfstæði sínu alveg þangað til í hreinsunum í ágúst 1943, þegar lögreglan var leyst upp og ríkisstjórnin fór frá. Í júlí 1941 varð Höyer fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin, en þau gáfu út blöð og tímarit í Danmörku. Danskir bændur voru hallir undir þjóðverja, enda þénuðu þeir á úflutningi til Þýskalands, sem var óþrjótandi markaður fyrir danskar landbúnaðarvörur.
Meðfram fréttaritarastarfinu kom Höyer líka að sendingum þýska útvarpsins á dönsku og flutti m.a. 10 erindi um landbúnaðarmál á þessum tíma. Í Berlín var Höyer fram að uppgjöf Þjóðverja, en Erica var í Danmörku með soninn. Þau lentu í yfirheyrslum í Danmörku í stríðslok en sluppu með skrekkinn, enda íslenskir ríkisborgarar og komu „heim“ með Drottningunni um miðjan janúar 1946, eins og segir í klausu í Morgunblaðinu.
Erika Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 1900-1982.
Ástandið í Danmörku hafði verið þrúgandi öll hernámsárin. Fyrsta stríðsveturinn 1939-40 höfðu Danir reynt að halda uppi hlutleysi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en 9. apríl 1940 var sá draumur úti. Ráðherrar voru rifnir upp á rassinum úr hlýjum sængurfiðunum og settir úrslitakostir, annað hvort að samþykkja hernámið eða fá sprengjuregn yfir Kaupmannahöfn. Þeir völdu fyrri kostinn með óbragð í munni eins og sagt er. Spennan fór vaxandi eftir því sem tíminn leið og þegar Þjóðverjum fór að ganga verr í stríðinu óx andstöðuhópum fiskur um hrygg í Danmörku og þeir voru tilbúnir á friðardaginn 5. maí 1945 með lista yfir handbendi Þjóðverja í styrjöldinni. Það var engin miskunn sýnd, 34.000 manns voru handteknir fyrstu dagana eftir friðardaginn, smalað aftan á vörubíla og keyrðir þannig um götur með uppréttar hendur og skammaryrði hengd um háls. Og múgurinn hrópaði krossfestum þá, eða eitthvað álíka. Mörgum urðu þessir frelsisvinir að sleppa vegna óljósra sannana, en margir fóru í fangelsi og 48 fengu dauðadóm fyrir landráð. Kamban var skotinn án dóms og laga og varð af því mikið milliríkjastapp, sem kunnugt er.
Braggalíf á Melgerðismelum og ekkjustand á Akureyri.
Þeim Ericu og Höyer þótti margt breytt á Íslandi eftir stríðið, ekki síst í garðyrkjunni, þar sem risnar voru stórar garðyrkjustöðvar með fleiri þúsund fermetrum undir gleri. Þó ætluðu þau sér enn að reyna að lifa á landsins gæðum og jarðhitanum. Þau fluttust norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum, en þar hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna á stríðsárunum. Þar komu þau sér fyrir í bragga, sem þau skiptu í tvennt, annars vegar íbúð og hins vegar afgreiðslusal fyrir flugið. Þar voru þau hjón umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum.
Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragginn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku.
Anders Christian Carl Julius Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 15 mars 1885-30 júní 1959.
Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarförina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Melbrekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“.
Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðruvallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana.
Erika Höyer – Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.
Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akureyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minningagrein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum.
Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslendingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði.
Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjónanna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir.
Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minningarbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköstum. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“.
Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni.“
Heimildir:
-Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963).
Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg,
1996).
-Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997.
-Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, [1942]).
-Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995.
-Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979).
-Garðyrkjuritið, 1953.
-Íslensk dagblöð á ýmsum tímum.
-Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit,
-Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðsson bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983).
Gangan tók 1 klst. Frábært veður.
Meginheimildir m.a.:
-Dagur, 16, mars 1955, Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði, bls. 16.
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.12.2012) – bls. 20-23.
-Íslendingaþættir Tímans, 24. tbl. 23.06.1982, Minning; Erika Höyer, bls. 4.
-Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.
Reykjanesviti.