Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.
Stafneshverfi.
Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Stafnesviti.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.
Ari Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“
Austur-Stafnes.
Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.
Vestur-Stafnes.
Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Stafnes – minnismerki um Jón forseta.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.
Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Stafnes – Norðlingavör.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
Spöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.
Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Stafnes – túnakort 1919.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.
Stafnes – Vallarhús.
Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –
Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Stafnes – Grund.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Stafnes – loftmynd 1954.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
Stafnes – Stórarétt.
Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Stafnesbrunnur.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
Stafnes – Ögmundagerði.
Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.
Stafnes – sundmerki.
Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.
Stafnes – Hólakotsstekkur.
Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.
Stafnes – Bali.
Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.
Stafnes – Nýlenda.
Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“
Stafnes – Heiðarbær.
Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.
Stafnes – Hólakot.
Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.
Stafnesgarðar.
Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.
Stafnes – Refamýri.
Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.
Vallarhúsabrunnur.
Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.
Nýlendubrunnur.
Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.
Stafnes – Refatjörn.
Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.
Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.
Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“
Stafnesvegur.
Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.
Stafnes – lögrétta.