Njarðvík

Í Jarðamati á Íslandi 1858 eru nefndir eftirfarandi bæir í Innri-Njarðvík: Innri-Njarðvík, Stapakot (hjáleiga), Móakot, Hákot, Hólmfastskot, Ólafsvöllur, Tjarnarkot og Narfakot.

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Í Faxa, 3. tbl. 1984, fjallar Guðmundur A. Finnbogason um „Fróðleik um Njarðvík„. Þar segir m.a.: „Njarðvík innri. Þar var tvíbýli. Á I býlinu var Egill Sveinbjarnarson húsbóndi, ógiftur, þá 36 ára gamall. Vel skýr og fróður, siðprúður skikkanlegur. Þar voru og bræður Egils, Jón og Ásbjörn, báðir ókvæntir, vel skýrir og fróðir. Jón sagður sniðugur, Ásbjörn skikkanlegur dánumaður, afi Ásbjarnar Ólafssonar er lét byggja kirkjuna. Þar voru 7 manns í heimili. Þar á heimili var elzta kona í sókninni, Ingveldur Tumadóttir, 75 ára niðursetningur, vel fróð. meinhæg.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Á býli II í Njarðvík-Innri, bjuggu hjónin Guðmundur Guðmundsson, 45 ára ekki illa að sér, skikkanlegur og Helga Jónsdóttir 54 ára húsmóðir, ekki vel fróð, og gangssöm. Hjá þeim voru 9 manns í heimili.
Stapakot, þar var tvíbýli. 1 býli, Árni Þorgilsson, 41 árs húsbóndi, vel að sér, forstandur. Hans kona, húsmóðir, Guörún Sigmundsdóttir, 35 ár, vel fróð í andlegu, forstandug. 7 menn í heimili.
Stapakot, II býli, Jón Þórðarson húsbóndi, 39 ára, ekki ófróður, meðallagi skikkaður. Sigríður Jónsdóttir, húsmóðir, 38 ára, í meðallagi skýr, meinhæg. 11 manns í heimili.

Njarðvík

Grænás – Áki Grenz.

Móakot, Þorsteinn Bjarnason, 33 ára húsbóndi, í meðallagi skýr og fróður, forstandugur. Guðrún Halldórsdóttir, húsmóðir, 25 ára, sæmilega kunnandi, meinlítil. 5 manns í heimili.
Hólmfastskot, Magnús Grímsson, 32 ára húsbóndi, í meðallagi upplýstur, skikkanlegur. Ingibjörg Guðmundsdóttir, 38 ára húsmóðir, sæmilega upplýst, meinlítil. 4 í heimili.
Hákot, tvíbýli. I býli, Jón Jónsson, 50 ára húsbóndi, ekki mjög illa að sér. Hegðun bætir sig. Guðbjörg Jónsdóttir, húsmóðir, ekki mjög illa að sér, sæmilega skýr, meinhæg. 3 í heimili.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort 1919.

Hákot, II býli, Jón Þórðarson, 41 árs húsbóndi. Ekki vel að sér, meinlítill. Guðrún Bjarnadóttir, 38 ára húsmóðir, sæmilega kunnandi, meinhæg. 5 manns í heimili.
Tjarnarkot, Jón Guðbrandsson húsbóndi. 41 árs, skýr og fróður, vandaður dánumaður. Margrét Jónsdóttir, 56 ára húsmóðir, sæmilega upplýst, skikkanleg. 3 í heimili.
Narfakot, Snorri Gissurarson, húsbóndi 58 ára, skýr og fróður, forstandugur. Margrét Jónsdóttir, 55 ára húsmóðir, (var ljósmóðir), skikkanleg. 10 manns í heimili. Margrét kona Snorra, tók á móti 37 börnum í Njarðvíkum á árunum 1776 til 1800.“

Faxi

Faxi í júni 1970 – forsíða.

Í Faxa í júní 1970 fjallar Guðmundur A. Finnbogason um „Njarðvíkinga á 19. öld„, fyrri hluti:
„Þórukot í Ytri Njarðvíkurhverfi er, að ég bezt veit, fyrsta læknissetur hér á Suðurnesjum. Árið 1873 var Þórður Guðmundssen læknir skipaður aukalæknir á Rosmhvalanesi. Var Þórður lausamaður til heimilis í Þórukoti hjá þeim Birni og Vigdísi.
Þórður læknir var fæddur 14. marz 1848, sonur Þórðar Guðmundsen, sýslumanns á Litla-Hrauni og konu hans, Jóhönnu Lárusdóttur Knútsen. Tveir bræður Þórðar læknis voru vel þekktir barnakennarar hér á Suðurnesjum á síðustu áratugum 19. aldar, voru það þeir Oddgeir Guðmundsen kennari á Vatnsleysuströnd, seinna prestur í Vestmannaeyjum, og Þorgrímur Guðmundsen, barnakennari, Gerðum í Garði, seinna í Reykjavík. Þórður læknir var um kyrrt í Þórukoti nokkuð á annað ár og flyzt þaðan út í Garð. Fór hann að búa þar með ráðskonu sinni, Sólveigu Bjarnadóttur, bjuggu þau í nýja barnaskólahúsinu í Gerðum, en þar var Þorgrímur bróðir Þórðar þá til heimilis.
Þórður GuðmundssonÁrið 1878 flytja þau Þórður og Sólveig að Hákoti í Innra Njarðvíkurhverfi, var það af yfirvöldunum talið heppilegra að hafa lækninn staðsettan sem mest miðsvæðis í læknishéraðinu. Þaðan fluttu þau hjón eftir eitt ár heim að Innri-Njarðvík, voru þar í húsmennsku hjá hjónunum Jóel Jónssyni og Elínu Árnadóttur, er bjuggu þar á öðru býli.
Sólveig Bjarnadóttir, ráðskona Þórðar, var Skaftfellingur, fædd að Fossi á Síðu. Vigdís Hinriksdóttir, kona hans, 12. september 1828 (var hún því nær 20 árum eldri en Þórður). Foreldrar Sólveigar voru Bjarni Einarsson og kona hans, Rannveig Jónsdóttir. Var Sólveig ekkja, hafði verið gift Sveini Péturssyni frá Lóni í Skaftafellssýslu. Þau Sveinn og Sólveig bjuggu í Keflavík um og eftir 1860. Meðal barna þeirra var Rannveig, er giftist Magnúsi Guðnasyni, voru þau foreldrar Friðriks Magnússonar heildsala í Reykjavík.
Oddný SigurbjörgMagnús og Rannveig bjuggu 6 ár í Innra-Njarðvíkurhverfinu, var það á árunum 1882—1887, fluttu þau þaðan út í Keflavík. Eins og fyrr segir, var Sólveig Bjarnadóttir yfirsetukona (ljósmóðir), tók hún á móti börnum í Keflavík, Garði og Njarðvíkum. Á árunum 1878—1885, dvaldi hún í Innra-Njarðvíkurhverfinu, tók hún á móti 25 börnum í sókninni. Síðasta barnið, er hún tók á móti, var Magnús, annað barn þeirra hjóna Ólafs Magnússonar og Oddnýjar Guðmundsdóttur, er þá bjuggu í Smiðshúsum í Ytra Njarðvíkurhverfi. Hafði Oddný nýlega tekið við ljósmóðurstörfum í sókninni.
Árið 1878 flytja þau Ólafur og Oddný að Narfakoti, þar sem þau bjuggu þar til Ólafur dó, 7. maí 1902. Árið eftir flutti Oddný með börnum sínum til Keflavíkur og þar átti hún heima það sem eftir var ævinnar.

Njarðvík

Njarðvík – tóftir Hólmsfastkots og Ólafsvallar.

Þegar Oddný tók á móti fyrsta barninu hér í Njarðvíkum, átti hún og Ólafur heima í Ólafsvelli, var það árið 1883, og þann 1. september það ár er hún sótt út að Þórukoti til Steinunnar Arinbjarnardóttur frá Tjarnarkoti, er þar bjó með manni sínum, Sæmundi Sigurðssyni frá Barkarstöðum í Fljótshlíð, fæddist þann dag sonur, var hann skýrður daginn eftir og látinn heita Arinbjörn.
Mér hefir verið sagt, að þau Ólafur og Oddný hafi verið mestu sómamanneskjur. Oddný var merk kona, traust og faræl í starfi sínu og dugmikil ljósmóðir, eru þeir býsna margir, Suðurnesjabúar og víðar um landið, er sáu fyrst þessa heims ljós í hinum mjúku og traustu móðurhöndum Oddnýjar. Hafi hún þakkir mínar og annarra, er þess nutu.
Guðfinna EyjólfsdóttirÞórður og Sólveig bjuggu í Innri-Njarðvík fram á árið 1884, en árið áður hafði Þórður sagt af sér læknisstarfinu og í Suðurnesjaannáli séra Sigurðar Sívertsen segir: Vorið 1883: Með ýmsum tíðindum má telja, að læknir vor, Þórður Guðmundsen, hefur sagt af sér embætti sínu. Og í sama annál segir árið 1885: Einn maður að nafni Ólafur Helgason, flutti héðan úr Garði alfarinn til Vesturheims og var hann samferða fyrrverandi lækni vorum, Þórði Guðmundsen.
Ýmsar sagnir gengu um Þórð lækni og veru hans hér í Njarðvíkum. Voru það samtíðarmenn hans, sem frá því kunnu að segja. Var Þórður talinn nokkuð drykkfelldur og þá ekki alltaf í sínu fari, eins og bezt hefði verið á kosið. En hitt var þó, sem meira máli skipti, að hann var talinn ágætur læknir, og þó sérstaklega snillingur til hjálpar sængurkonum. Sagt var, að þó Þórður væri mikið undir áhrifum víns, er hann kom þar, sem vandi var á ferð, þá hefði algjörlega runnið af honum og að hann hefði þá gert sín læknisverk vel og dyggilega.
HólmsfastskotHinn góðkunni sómamaður, Magnús Magnússon, er bjó í Hólmfastkoti í rösk 50 ár, ólst upp frá 9 ára aldri í Innri-Njarðvík hjá þeim hjónum, Ásbirni Ólafssyni og Ingveldi Jafetsdóttur. Var Magnús sem unglingur samtíða Þórði lækni í Njarðvík og þekkti hann mæta vel. Kunni hann sem von var frá ýmsu að segja varðandi Þórð. Meðal annars sagði Magnús frá því, að þegar hann með öðrum börnum og unglingum var að leika sér á ísilagðri tjörninni, hafi Þórður stundum komið til þeirra dálítið drukkinn og verið með peninga í vösunum. Fór hann að kasta þeim út á svellið og sagði, að sá sem fyrstur næði í, mætti eiga. Kom þá náttúrlega fjör í mannskapinn og þótti jafnt veitanda sem þyggjendum ánægja að.

Njarðvík

Njarðvík – Garðbær.

Á þeim árum voru peningar mikils virði og þá ekki sízt í augum barna og unglinga, og ekki í tízku að hafa þá að leikfangi. Þótti þeim þetta atferli Þórðar því undrunarvert og minnisstætt, þar sem hver eyrir var í þeirra vitund helgur dómur, og allur frómleiki þá í heiðri hafður og flest öllum í blóð borinn. Því var það, að þótt börnin og unglingarnir tækju með fögnuði það sem til þeirra var kastað, fannst þeim með sjálfum sér þau ekki eiga það. Fóru þau því strax daginn eftir heim til Þórðar og vildu skila því til hans, því þau héldu að honum hefði ekki verið sjálfrátt gerða sinna, en þá segir Þórður við þau: „Þið megið eiga þetta, ég vissi vel hvað ég var að gera.“ Urðu þá allir glaðir og ánægðir.
Björn Þorgilsson og Skömmu eftir að Þórður tók við læknisembættinu, meðan hann dvaldi í Þórukoti, sendi hann frá sér eftirfarandi tilkynningu í Þjóðólfi 19. ágúst 1873 (orðrétt): „Þeir er vitjaði mín, hér eftir eða þyrftu að sækja mig, vildi góðfúslega hafa hest meðferðis handa mér til að ríða á, annars liggr það í augum uppi að hljóti ég sjálfur að leggja til hest, verða ferðir mínar, þegar svo ber að, þeim mun dýrari fyrir hlutaðeigendur. Þórukoti við Ytri-Njarðvík, 23. júlí 1873. Þórður Guðmundsen.“
Eins og fyrr var á minnst, var Guðfinna Eyjólfsdóttir. móðir Finnboga, föður míns, vinnukona hjá þeim Birni og Vigdísi í Þórukoti. Var það á árunum 1869 til 1873. Þessi 4 ár í Þórukoti voru henni minnisstæð alla tíð til æviloka. Líkaði Guðfinnu vel hjá þeim hjónum, og hafði um þau margar og góðar endurminningar.
Guðfinna vann ásamt öðrum vinnukonum að heimilisverkum, bæði innan bæjar og utan, eftir því sem með þurfti. En eitt var það starf þar á heimilinu, er henni einni var ætlað að leysa. Var það hjúkrunarstarf. Átti hún að annast um og hjúkra tveimur karlmönnum, sem þar lágu rúmfastir. Voru þeir veikir af limafallssýki, (eða rotnunarveiki).
Björn JónssonVar þessi voða sjúkdómur þó nokkuð áberandi hér um slóðir á þessum árum, bæði fyrr og seinna. Var hann talinn smitandi og sérstaklega varhugavert að hafa mjög náið samband eða snertingu við hina sjúku. En einhverjir urðu að hjálpa þessu harmkvæla fólki, sem barðist vonlausri baráttu árum saman. Var það því mikil reynsla fyrir Guðfinnu, þá rúmlega tvítuga stúlku, að hafa þetta hjúkrunarstarf í sínum verkahring, og þá ekki hvað sízt, þurfa að horfa upp á þjáningar þessara sjúklinga og geta ekkert að gert þeim til lækninga. En allt sem í hennar valdi stóð rétti hún þeim til líknar og huggunar. Þau meðul, er hún gat veitt, voru hennar hlýju hendur samfara huggunar- og bænarorðum. Þótt hennar framlag næði skammt þeim til líkamlegrar lækningar, var það samt mikilvægt smyrsl á sárustu þjáningar þessara sjúku manna. Kunnu þeir vel að meta og þakka það, sem fyrir þá var gert.
Vigdís og VilborgSagði Guðfinna, amma mín, að þeir hefðu oft beðið heitt og innilega til Guðs, að henni yrði ekkert meint af nærveru sinni við þá. Hafa bænir þeirra áreiðanlega verið heyrðar, því aldrei snerti þessi skaðvæni sjúkdómur heilsu Guðfinnu. En alla hennar ævi voru örlög þessara manna henni sérstaklega minnisstæð, og hafa þau áreiðanlega átt sinn þátt í því, að veita henni næman skilning og tilfinningu á kjörum þeirra, er urðu fyrir veikindum, slysum, eða öðrum raunum, því kom það í hennar hlut oft seinna á lífsleiðinni, að til hennar væri leitað vegna sjúkra. Þótti nærvera hennar og góð ráð gefast vel, og heyrði ég oft sem unglingur, eftir að Guðfinna amma mín var dáin, samtíðakonur hennar minnast hennar af miklu þakklæti og virðingu, fyrir þá hjálp, er hún hafði veitt þeim og fjölskyldum þeirra.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld Bjarnason (1844-1916).

Gestkvæmt var í Þórukoti eins og á öðrum stærri býlum hér í þá daga. Margan gest að garði bar gæða mestu hjóna. Veittu beztu veitingar, varma, — og festu skóna. Einn af þeim mörgu gestum, er bar að garði í Þórukoti, var hinn landskunni Símon Dalaskáld. Heimsótti hann Suðurnesjamenn alltaf af og til síðustu tugi nítjándu aldarinnar og fram á annan tug þessarar aldar. Hefur honum, sem fleirum, þótt gott að heimsækja Þórukotshjónin, og hefur skapazt vinátta þeirra á milli, því að í ljóðabókum Símonar eru ljóðabréf frá honum til Björns í Þórukoti. Og eitthvað hafa þeir Björn bóndi og hann látið ljóðadísina leika sín í milli.
Ber þessi vísa Símonar gott vitni um það:

Bóndi stóð við byrtingsrann,
búinn hrósi líða.
Björn í Þórukoti kann
kvæðaglósur smíða.

Er þetta kjarninn úr ljóðabréfi Símonar til Björns i Þórukoti og það sem honum hefur legið á hjarta að segja Birni frá.
Oddur V. GíslasonEins og fyrr er að vikið, hafa þeir séra Oddur Gíslason á Stað í Grindavík og Björn í Þórukoti verið góðir vinir, og hefðu samskipti þeirra ein, þótt ekkert annað hefði verið um að ræða, nægt til að halda minningu Björns lengi uppi. En eins og kunnugt er gekk séra Oddur á undan með góðu eftirdæmi við ýmsar framfarir og nýbreytni, er stuðlað gátu að bættri menningu og betri afkomu fólksins, þar með hans þrotlausa starf í orði og verki að öryggis- og björgunarmálum sjómannastéttarinnar. Hafa þeir félagar, hann og Björn í Þórukoti, áreiðanlega átt þar samleið á mörgum sviðum, og við þær aðstæður hafa skapazt gagnkvæmt traust þeirar í milli. Engum treysti Oddur betur en Birni í Þórukoti, til að standa á eigin fótum, sér til aðstoðar, þegar honum mest lá á, er hann tók sína djörfu en þörfu ákvörðun til framkvæmdar að sækja sér konuefnið heim í föðurgarð hennar suður í Hafnir, sem löngu frægt er orðið.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Árið 1881, þ. 20. janúar, dó Björn Jónsson í Þórukoti, 58 ára að aldri. Var hann jarðsunginn frá kirkjunni í Innri-Njarðvík þ. 5. febrúar af sóknarprestinum, séra Stefáni Thorarensen á Kálfatjörn. Var þetta frostaveturinn mikla og voru frosthörkur miklar og víkin öll ísi lögð, og segir í Annál, að Stakksfjörður hafi allur verið ísi lagður frá Hólmsbergi og inn að Keilisnesi. Lík Björns Jónssonar var flutt frá Þórukoti á ís yfir víkina inn að kirkjunni. Var útfararkostnaðurinn kr. 300,00.
Í Suðurnesjaannáli séra Sigurðar Sívertsens segir í febrúar 1881: Í fyrra mánuði deyði nafnkunnur bóndi, Björn Jónsson, í Þórukoti í Njarðvíkum, hafði hann áður verið auðmaður mikill, en mjög gengið af honum nú.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Í Þjóðólfi í febrúar 1881 segir: „Þann 20. janúar s.l. dó hinn merki bóndi Björn Jónsson í Þórukoti, 58 ára að aldri“.

Eftir röska 3 mánuði, frá láti Björns, eða þ. 11. maí 1881, fór fram uppskrift að dánarbúi hans. Voru þar viðstaddir fyrir hönd ekkjunnar, sýslunefndarmaðurinn, Ásbjörn Ólafsson, Innri-Njarðvík, og fyrir hönd tengdasonar þeirra, Þorgilsar Þorgilssonar, var Ársæll Jónsson, bóndi á Höskuldarkoti, og svo hreppstjórinn, Jón Breiðfjörð í Hólmabúð í Vogum. Voru þarna uppskrifuð og verðlögð 124 númer, er búinu tilheyrðu. Kenndi þar margra grasa, sem vonlegt var, úr þessu stóra og myndarlega búi, sem þar hafði staðið í rösk 20 ár. Eins og fyrr segir var Björn með ríkustu bændum hér um slóðir. Voru jarðeignir dánarbúsins þessar: Ytri-Njarðvík og Þórukot. Böðmóðsstaðir í Laugardal, virtir á kr. 1500,00, og Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd, sem voru virtir á kr. 1300,00. Ekki var nú verðið á hlutunum hátt, jafnvel þótt þeir væru góðir og gagnlegir, og tæpast með réttu hægt að segja, að verðlag þeirra væri nútíma verðbólguverð. Af þessum 124 númerum voru 108 verðlagðir frá 50 aurum til 9 króna hver.

Kópa

Stapakot – lendingin í Kópu.

Langverðmætasta uppskriftarnúmerið var einn áttæringur með allri útreiðslu, var hann verðlagður á 300 krónur.
Eftir lát Björns bjó Vigdís, ekkja hans, á Þórukoti í nokkur ár. Hafði hún nöfnu sína og dótturdóttur hjá sér. En árið 1888 flytja þær alfarnar til Hafnarfjarðar. Vigdís Þorgilsdóttir giftist þar síðar, Guðmundi Helgasyni sparisjóðsstjóra. Hjá þeim dó Vigdís Hinriksdóttir, 11. okt. 1909, þá 88 ára að aldri. Hún var jörðuð þ. 21. sama mánaðar og lögð til hynztu hvíldar í kirkjugarðinum að Görðum, var hún þá komin aftur á sínar fæðingar- og bernskuslóðir.

Stapakot

Stapakot – tóftir.

Ekki höfðu ættingjar Björns og Vigdísar að fullu sagt skilið við Njarðvíkurnar, því árið 1894 komu að Þórukoti til búsetu þau Björn Þorgilsson, dóttursonur þeirra og kona hans, Helga Sigurðardóttir. Björn og Helga bjuggu í Þórukoti í 5 ár en fluttu þaðan alfarin 1899 austur að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, þar sem þau bjuggu síðan í rösk 20 ár.

Stapakot

Stapakot – loftmynd 2022.

Á þeim árum er Björn Þorgilsson bjó í Þórukoti, var Finnbogi faðir minn drengur innan við fermingu hjá foreldrum sínum í Hákoti hér í Innra hverfinu. Á hann margar ánægjulegar endurminningar um Björn frá þeim tímum. Lýsir hann honum sem myndarlegum manni, fjörmiklum, glaðlynd og ævinlega tilbúinn að gera að gamni sínu við krakkana, er sóttu eftir að njóta góðrar nærveru hans, og ekki spillti það ánægjunni, að Björn spilaði ágætlega á harmoniku. Spilaði hann á böllum, sem þá voru haldin í barnaskólanum hér, en sá skóli stóð nokkra faðma í norður frá Akri. Var í því húsi, þótt lítið væri, all rúmgóð skólastofa. Voru dansleikirnir haldnir í þeirri stofu. Var þar oft dansað af miklu fjöri fram á nætur. Skemmti fólk sér innilega og átti músikin frá Birni þar ekki minnstan þátt í. Voru þessar ánægjustundir í litla barnaskólanum hressandi aflgjafi í daglegu striti þeirra, tíma, og entist lengi hjá þeim, er þeirra nutu. Eftir að Björn fluttist austur undir Eyjafjöllin, hélt hann samt sinni tryggð við æskustöðvarnar.

Njarðvík

Njarðvík – tóftir sjóbúðar.

Enn í dag liggur þráðurinn frá þeim Birni og Vigdísi hingað suður í Njarðvíkur, því skammt frá Þórukoti þar sem þau bjuggu, býr nú fósturdóttir Björns Þorgilssonar og konu hans. Tóku þau hana til fósturs á fyrsta ári og ólst hún upp hjá þeim í Stóru-Mörk, meðan Björn lifði, en fór skömmu síðar með Helgu fóstru sinni til Vestmannaeyja. Þessi fósturdóttir þeirra er Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, kona Óskars Jónssonar kennara. Eru þau hjón vel virtir borgarar hér í Njarðvíkum, eiga þau heima á Holtsgötu 32 hér í Ytri Njarðvík.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Hefur hér að framan verið minnst nokkuð á tvo af þeim fjórum Þórukotsbændum, er borið hafa nafnið Björn þar á síðastliðnum 200 árum. En sá síðasti af þeim nöfnum og fjórði í röðinni, sem gert hafa þar garðinn frægan á þessum tveim öldum, var hinn góðkunni Björn Þorleifsson, er átt hafði þar heima samfleytt í rösk 78 ár, er hann lézt þar haustið 1968, nær 84 ára að aldri.“

Faxi

Jólablað Faxa 1970 – forsíða.

Í jólablaði Faxa 1970 er framhald Guðmundar A. Finnbogassonar á „Njarðvíkingum á 19. aldar„: „Árið 1801 voru skráðir 119 íbúar í Njarðvíkursókn. Vatnsnes var þá ekki skráð sem byggt býli. Þá voru í báðum Njarðvíkurhverfum 15 búendur á 11 býlum.
Í Innra hverfinu voru 69 íbúar, 8 búendur á 6 býlum. Í Ytra hverfinu voru 50 íbúar, 7 búendur á 5 býlum. Tvíbýli var í Innri-Njarðvík, Stapakoti, Ytri-Njarðvík
og Höskuldarkoti.
Árið 1820 hafði íbúum Njarðvíkur aðeins fjölgað um 3 (frá 1801), þá búa 65 manns á 9 býlum í Innra hverfinu og 47 manns á 5 býlum í Ytra hverfinu. Vatnsnes var þá ekki enn skráð.
Árið 1830 eru íbúar í sókninni orðnir 154, þá er Vatnsnes fyrir 6 árum skráð og er þar tvíbýli og 9 manns á báðum heimilunum. Þá eru í Innra Njarðvíkurhverfi 9 býli með 65 íbúum og í Ytra hverfinu 5 býli með 63.

Guðmundur A. Finnbogason

Guðmundur A. Finnbogason og Guðlaug Bergórsdóttir.

Árið 1840 búa 117 manns í Innra hverfi, 58 í Ytra hverfi og 10 á Vatnsnesi. Næstu tíu árin fækkar í sókninni um 7 manns og árið 1850 búa 124 í Innra hverfi, 45 í Ytra hverfi og 9 á Vatnsnesi, samtals 178 manns. Næsta áratuginn fjölgar í sókninni um 39 rnanns, og árið 1860 búa 137 í Innra hverfinu, 66 í Ytra hverfi og 14 á Vatnsnesi, samtals 217 manns.
Frá 1860—1870 verður fólksfjölgunin 35 manns og við fólkstal í Njarðvíkursókn, þann 1. október 1870, (fyrir 100 árum), 155 íbúar í Innra hverfi, 78 í Ytra hverfi, 233 í báðum Njarðvíkurhverfum. 18 íbúar voru þá á Vatnsnesi eða samtals í sókninni 251.

Næstu 10 árin stóð íbúatala nær óbreytt og árið 1880 búa 161 í Innra hverfi, 67 í Ytra hverfi og 25 á Vatnsnesi, samtals 253. Næsta áratuginn fjölgaði um 20 íbúa í sókninni, varð sú aukning öll í Ytra hverfinu. Varð íbúatalan í sókninni þá sú hæsta, sem hún varð á nítjándu öldinni. Árið 1890 bjuggu 160 íbúar í Innra hverfinu, 90 í Ytra hverfinu og 23 á Vatnsnesi, samtals 273 í allri sókninni.

Njarðvík

Njarðvík – útihús frá Stapakoti.

Svo kom síðasti tugur aldarinnar með sín miklu fiskileysisár, og þá fækkaði fólkinu í Njarðvíkursókn, hvorki meira né minna, en um 90 manns og var þá fólkstalan árið 1900 orðin 183, og þá komin niður í að vera aðeins 5 manns fleiri en hún var hálfri öld áður, árið 1850.
Ennþá fækkaði fólkinu, þótt 20. öldin kæmi og árið 1910 búa 72 í Innra hverfi, 39 í Ytra hverfi eða 111 manns í Njarðvíkum báðurn og 14 á Vatnsnesi, samtals 125 manns.
Fólkið sem flutti burt, fór flest til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þá var skútuöldin í uppsiglingu og eftir aldamótin var hún í fullum blóma. Svo kom togaraútgerðin í kjölfar hennar. Var þá ekki í önnur hús að venda, þegar sjávaraflinn brást á opnu bátunum hér á grunnmiðunum.

Stekkjarkot

Njarðvík – Stekkjarkot; dæmigert kotbýli, upphaflega sjóbúð.

Nokkrar fjölskyldur fluttu til Ameríku og ílentust þar. Svo liðu tímar og aftur fjölgaði fólkinu í Njarðvíkursókn, en það er önnur saga.
Í dag er þar margt um manninn og í báðum Njarðvíkurhverfum að meðtalinni nýlendu þeirra, er nefnist Grænás, voru í árslok 1969 1.522 íbúar.
Á manntali fyrir réttum 100 árum, þann 1. okt. 1870, voru sem fyrr segir: 251 íbúi skráður í Njarðvíkursókn. 13.3 karlmenn og 118 konur. Af þeim voru 50 á aldrinum 0—9 ára, 47 voru 10—19 ára, 44, 20—29 og 62 30—39 ára, og 31 voru 40—49 ára, 9, 50—59 og 6, 60—69 ára. Einn karl og ein kona voru eldri.

Njarðvík

Njarðvík – minjar.

Í Innra-Njarðvíkurhverfi voru eftirtalin býli og búendur: Stapakot 1. býli: Þórður Árnason (56 ára) og Elín Klemensdóttir, kona hans (53 ára), (9 manns í heimili.
Stapakot 2. býli: Ari Eiríksson (34 ára) og kona hans Kristjana Jóhannsdóttir (35 ára), (7 í heimili).
Móakot: Bjarni Bjarnason (28 ára) og kona hans Ástríður Asgrímsdóttir (36 ára), (6 í heimili).
Innri-Njarðvík 1. býli: Pétur Lárus Guðmundsson Petersen (38 ára) og kona hans Anna Margrét Þorgrímsdóttir (32 ára), (12 i heimili).

Grænaborg

Njarðvík – Grænaborg; fjárborg frá Stapakoti.

Innri-Njarðvík 2. býli: Kristján G. Schram (36 ára) og kona hans Margrét Pétursdóttir (32 ára). Húsfólk þar: Jón Þorleifsson (61 árs) og kona hans Margrét Einarsdóttir (31 árs), (10 í heimili).
Innri-Njarðvík 3. býli: Ásbjörn Ólafsson (38 ára) og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir (30 ára). Þurrabúð: Eggert Jónsson (42 ára) og kona hans Kristrún Þorvaldsdóttir (42 ára), (23 í heimili).
Alls voru þá skráðir til heimilis í Innri Njarðvík og gengu þar um stéttar á staðnum 44 heimamenn.
Hákot: Pétur Bjarnason (38 ára) og kona hans Kristín Jóhannsdóttir (34 ára), 16 í heimili.
Hólmfastskot: Grímur Andrésson (30 ára) og kona hans Kristrún Arnadóttir (29 ára), 9 í heimili.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – fyrir tíma skógræktar.

Ólafsvöllur: Guðmundur Bjarnason (33 ára) og kona hans Guðrún Andrésdóttir (26 ára), 8 í heimili.
Garðbær: Þórður Sveinsson (69 ára) og kona hans Guðbjörg Guðmundsdóttir (57 ára), 4 í heimili.
Tjarnarkot 1. býli: Arinbjörn Ólafsson (35 ára) og kona hans Kristín Björnsdóttir (34 ára), 16 í heimili.
Tjarnarkot 2. býli: Bjarni Bjarnason (43 ára) og kona hans Guðrún Árnadóttir (46 ára), 10 í heimili. Samtals í Tjarnarkoti 26 manns.
Narfakot 1. býli: Jón Magnússon (35 ára) og kona hans Halla Arnadóttir (36 ára), 12 í heimili.
Narfakot 2. býli: Jón Þórðarson (35 ára) og kona hans Margrét Jónsdóttir (28 ára), 8 í heimili. Samtals 20 manns í Narfakoti.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot: Jón Gunnlaugsson (41 árs) og kona hans Rósa Ásgrímsdóttir (43 ára), 5 í heimili.
Samtals í Innra hverfi 155 manns.“

Í „Fornleifaskrá Reykjanesbæjar“ frá 2008 segir um Innri-Njarðvík: „Annað [merkilegt] slíkt svæði er að finna við tjörnina í Innri – Njarðvík.
Bæjarrústir Ólafsvalla og Hólmfastskots eru þar að finna, ásamt fallegum gerðum, stórum öskuhaug og vel varðveittum brunni. Rústirnar eru heillegar og umhverfið er snoturt“. Meira var nú ekki að finna í fornleifaskránni um minjar í Innri-Njarðvvík.

Heimildir:
-Í Jarðamati á Íslandi 1858.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Fróðleikur um Njarðvík, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 78-84.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1970, Njarðvíkingar á 19. öld, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 87-94.
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1970, Njarðvíkingar á 19. öld; Guðmundur A. Finnbogason, bls. 179-181.
-Fornleifaskrá Reykjanesbæjar, Sandra Sif Einarsdóttir og Bjarni F. Einarsson, 2008.

Njarðvík

Innri-Njarðvík (MWL).

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Eyrarbakki

Minnisvarði um drukknaða frá Eyrarbakka

Eyrarbakki

Eyrarbakki – minnismerki um drukknaða sjómenn.

Til minningar um sjómenn sem farist hafa frá Eyrarbakka.
Á stallinum stendur: Björgunarsv. Björg.

Verkið er eftir Vigfús Jónsson og stendur þar sem verslunarhús og pakkhús stóðu áður nálægt gatnamótum Hafnarbrúar og Nesbrúar.

B. Hafrún ÁR 28
Hafrún ÁR 28
Til minningar um skipverja á vb. Hafrúnu ÁR 28 sem fórst 2. mars 1976.

Ágúst Ólafsson
f. 12. nóv. 1949

Guðmundur E. Sigursteinsson
f. 18. nóv. 1957

Haraldur Jónsson
f. 3. apríl 1955

Eyrarbakki

Eyrarbakki – minnismerki um b. Hafrúnu, ÁR 28.

Ingibjörg Guðlaugsdóttir
f. 6. júlí 1937

Jakob Zóphóníasson
f. 24. febr. 1931

Júlíus Rafn Stefánsson
f. 25. febr. 1955

Karl Valdimar Eiðsson
f. 5. júní 1943

Þórður Þórisson
f. 11. des. 1943

Hugrún ÁR Eyrarbakki
Lát akker falla ég er í höfn.
Ég er hjá frelsara mínum.
Far vel, þú æðandi dimma Dröfn.
Vor Drottinn bregst ekki sínum.

Eyrarbakki

Eyrarbakki – minnismerki um b. Hafrúnu, ÁR 28.

Á meðan akker í Ægi falla
ég alla vinina heyri kalla
sem fyrri urðu hingað heim.

H.A. Tandberg. Þýð. Vald. V. Snævar

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

Rafstöð á Eyrarbakka
Til minningar um rafstöðina á Eyrarbakka 1919-1947.
Kasthjól af síðasta rafal rafstöðvarinnar.

Verkið stendur við aðalgötuna í gegnum þorpið.

Eyrarbakki

Eyrarbakki – minnismerki um rafstöðina á Eyrarbakka 1919-1947.

Stokkseyri

Páll Ísólfsson tónskáld (1893-1974)

Stokkseyri

Stokkseyri – Páll Ísólfsson; minnismerki.

Páll Ísólfsson (12. október 1893 – 23. nóvember 1974) var íslenskt tónskáld, orgelleikari, píanóleikari, hljómsveitarstjóri og söngstjóri. Páll gegndi fjölda starfa og var einn helsti forystumaðurinn í íslenskum tónlistarmálum á 20. öld.

Páll fæddist á Stokkseyri. Til Reykjavíkur kom hann árið 1908 og lærði tónlist hjá Sigfúsi Einarssyni. Hann lærði á orgel hjá Karl Straube í Leipzig (1913-18). Páll fór síðan til Parísar til frekara náms árið 1925 og nam þar hjá Joseph Bonnet. Að því loknu hóf Páll störf við tónlist á Íslandi. Hann varð forystumaður í íslensku tónlistarlífi um áratugi og orgelsnillingur. Páll var stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur frá 1924-1936 og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík 1930 til 1957. Hann var organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík 1926-1939 og síðan við dómkirkjuna í Reykjavík frá 1939-1967.
Trúlega er -Brennið þið vitar- þekktasta lag Páls Ísólfssonar. Það lag er í Alþingishátíðarkantögu Páls frá árinu 1930.

Stokkseyri

Stokkseyri – minnismerki um drukknaða sjómenn frá Stokkseyri.

Minnismerkið er á auðri lóð á milli húsa nr. 5 og 7 við Hásteinsveg á Stokkseyri. Við fótstall þess er steinn: „Páll Ísólfsson – tónskáld – 1893-1974“.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn frá Stokkseyri

Minnisvarðann teiknaði Elfar Þórðarson. Hann afhjúpaði Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir á Sjómannadaginn, 5. júní 1998. Á hann er letrað: „Minnisvarði um drukknaða sjómenn frá Stokkseyri“.

Minnisvarðinn stendur á Kirkjutorgi við Stokkseyrarkirkju.

Ragnar Jónsson (1904-1984)

Minnisvarðinn „Kría“ er um Ragnar Jónsson í Smára eftir Sigurjón Ólafsson.

Minnisvarðinn stendur í trjálundi við gatnamót Eyrarbakkavegar og Gaulverjabæjarvegar.

Stokkseyri

Stokkseyri – minnismerki um Ragnar í Smára.

Eyrarbakki

Nálægt gatnamótum Hafnarbrúar og Nesbrúar á Eyrarbakka er skilti: „Hús dönsku verslunarinnar„. Á því er eftirfarandi texti:

Eyrarbakki

Eyrarbakki – skilti.

„Verslunarhús dönsku verslunarinnar stóðu á þessu svæði frá því seint á 17. öld þar til þau voru rifin vorið 1950. Þetta var þyrping átta húsa umhverfis húsagarð, byggð og endurbyggð á löngum tíma frá því 1755-1896. Talið að elstu uppistandandi húsin hafi verið byggð á fyrri hluta 19. aldar. Byggingar voru fleiri og meiri á Eyrarbakka en á öðrum verslunarstöðum landsins. Bryggja var fram undan húsunum og var hún tekin upp á vetrum.

Eyrarbakki

Eyrarbakki – skilti.

Umdæmi Eyrarbakkaverslunarinnar var víðáttumest og fjölmennast af öllum verslunarumdæmum landsins. Það spannaði þrjár sýslur; Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skafatfellssýslu. ar bjuggu 20% þjóðarinnar árið 1703. Auk þess var Eyrarbakki verslunarhöfn Skálholtsstaðar sem var um aldir höfuðstaður Suðurlands.

Eyrarbakki

Eyrarbakki – skilti um „Síðasta flaggmanninn“.

Á lokaskeiði verslunarrekstrar í húsunum gengu þau undir heitinu Vesturbúðin. Það var til aðgreiningar frá annarri verslun í þorpinu, Austurbúðinni. Hóllinn sem húsin stóðu á gengur undir heitinu Vesturbúðarhóllinn. Skarðið sem brotthvarf húsanna myndaði í byggðamunstur þorpsins hefur verið líkt við sár. Niðurrif húsanna var eitt stærsta menningarslys á landinu á 20. öld.“

Skammt frá skiltinu um „Hús dönsku verslunarinnar“ er skilti um „Síðasta flaggmanninn“ á Eyrarbakka. Á því stendur:

„Kristinn Gunnarsson, síðasti flaggmaðurinn, er hér að störfum. Brimflögg voru í notkun á Eyrarbakka fram yfir 1960. Þau voru notuð til að vara sjófarendur við ef sundin versnuðu snögglega eða urðu ófær og var þá flaggað frá.

Brimflöggin voru þrjú. Flaggað var hvítu ef allt var í lagi, rauð flaggi ef það var varasamt en svörtu flaggi ef sundin urðu ófær.“

Eyrarbakki

Eyrarbakki – Hús dönsku verslunarinnar; skilti.

Lambton

Ýmsar herminjar eru í landi Sólvalla og Reykjalundar í Mosfellsbæ. Raunar er aðeins einn braggi enn þá uppistandandi en auk hans má sjá 31 vel varðveitta braggagrunna, bílagryfju, vatnsból og veg.

Limbton

Camp Limbton í Mosfellsbæ.

Braggarnir tilheyrðu Camp Lambton Park sem var eitt fjölmargra braggahverfa sem komið var upp í Mosfellssveit fljótlega eftir komu hersins til Íslands árið 1940. Að norðvestan rann Camp Lambton Park saman við Camp Clayton Park og voru samtals 144 braggar í þessum tveimur hverfum þegar mest var. Þarna höfðu fyrst Kanadamenn og síðan Bandaríkjamenn aðsetur. Í þeim hluta Camp Lambton Park sem hefur varðveist voru liðsforingjabúðirnar.
Auk braggahverfa til íbúðar risu á nokkrum stöðum braggasjúkrahús. Eitt þeirra var Álafoss Hospital, staðsett skammt frá Camp Lambton Park og Camp Clayton Park. Þegar spítalinn hóf starfsemi voru þar 250 sjúkrarúm en í neyðartilvikum var hægt að taka við allt að 550 sjúklingum. Starfsmenn voru tæplega 200. Spítalinn var staðsettur þar sem Reykjalundur er nú og er því horfinn en minjar í nágrenninu minna á hann.

Limbton

Camp Lambton í Mosfellsbæ – uppdráttur af braggahverfinu.

Stapagata

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 er m.a. fjallað um „Mannvirki og minjar vestan Voga„:

kristjanstangi-221

Minjar á Kristjánstanga.

Kristjánstangi gengur út í miðja Vogavík. Þar stóð salthús í eina tíð.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), „anleggs-húsum“ Knudtzons gróssera reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Ánlegg“ nefndust salt- og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátai, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár.
Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk.
Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin“ sem rís þar í hverfinu á þessari öld.

Stapi

Stapabúð og Hólmabúð undir Stapa.

Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma.
Kerlingabúðir voru nokkru utar.
Um Reiðskarð lágu forun reiðgöturnar upp Stapann.
Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku.
Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar.
Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar.
Strákar heita þrjár vörður, gömul mið nær Njarðvíkum.

Kópa

Kópa – Stapakot.

Kópa er vík við bergshalann, ytri enda Stapans hjá Stapakoti í Innri-Njarðvík. Fiskimiðin eyðilögð.— Hernám Englendinga. Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894.
„Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883.

Stapabúð

Stapabúð.

Þorlákshöfn

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp „Útræði í Herdísarvík í Selvogi„. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:

herdisarvik-930

Herdísarvík – sjóbúðir.

„Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

Herdísarvík

Herdísarvík – Langsum og Þversum í Austurtúninu.

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd.

herdisarvik 931

Herdísarvík – eldri bærinn.

Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
HerdísarvíkGamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Ölfus

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Hjalli-2Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Þegar svæðið ofan við Þóroddsstaði var skoðað kom m.a. í ljós hringlaga gerði. Að sögn bóndans hafði svæðið allt verið sléttað út fyrir allnokkru og því erfitt að gera sér grein fyrir gamla bæjarstæðinu af einhverjum áreiðanleik.

Hjalli-3

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata.

Um hlaðið á Þóroddsstöðum liggur Suðurferðagata um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Frá Þóroddsstaðahlaði þarf að stefna fyrst vestar en í meginstefnu, yfir gaddavír og að vörðubroti (N63°7´55 / V21°16´42). Hér er beygt til hægri, farið yfir Hvanngil ofan gljúfra, og stefnt milli Fremra- og Efra-Háleitis. Norðan Háaleita er best að fylgja vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann (beygja við N64°00´06 / V21°16´55) þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð. Þá er stutt að Lofti, þar sem einn farvegur Hengladalsár rann undir þjóðveg 1 (við 40 km steininn).
Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.

Suðurferðagata

Suðurferðagata.

Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910.
Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar.
Leiðin er ágætis dæmi um veg frá síðustu öldum þar sem hún er sýnileg. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
-Eiríkur Einarsson. Örnefnaskrá. Hellisheiði. Örnefnastofnun.
-Örnefnaskrá. Örnefnalýsing Þóroddsstaða. Örnefnastofnun.
-Hengill og umhverfi – Fornleifaskráning 2008, Kristinn Magnússon.

Hjallakirkja

Í Hjallakirkju.

Ostagerð

Í Búnaðarritinu árið 1915 er m.a. fjallað um ostagerð til forna:
„Sögur feðra vorra bera ljóslega með sér, að mikið hafi verið um ostagerð í fornöld, enda leiðir það af sjálfu sér, þar sem kvikfjárrækt var þá margfalt meiri hér á landi en nú. Víða er getið um sel og selstöður í fornsögunum, og í seljunum var gert smjör, skyr og ostur úr mjólkinni. í „Gullöld Íslendinga“ (J. J.) segir:
ostur-1„Ostar voru hversdags fæða í fornöld, og voru þeir gerðir í sérstökum mótum (ostakista), misjöfnum að stærð“. Engum blandast hugur um, að forfeður vorir höfðu mikla ostagerð, en hitt vita menn eigi, hvernig osturinn var gerður. Hinn norski gerlfræðingur dr. 0. J. Olsen Sop hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn og Íslendingar hafi einungis gert einskonar súrost í fornöld. Hann telur líklegt, að mjólkinni hafi verið safnað í stór keröld; þar hafi hún súrnað, og við súrinn eða gerðina hafi mjólkin skilist þannig, að draflinn settist á botn kersins, smjörið eða rjóminn flaut ofan á, og drykkurinn var á millum laga.

Ostur

Ostageymsla.

Nú vitum vér, að ostarnir voru gerðir í mótum, og er því líklegt, að rjóminn hafl verið veiddur ofan af drykknum, draflinn því næst verið veiddur upp úr honum og látinn í mót. Af fornsögum vorum verður því miður ekki séð, hvernig ostar voru gerðir til forna, en allar líkur eru til þess, að vér höfum tekið ostagerðina í arf af Norðmönnum, og þess vegna hafi ostar hér á landi verið gerðir líkt og í Noregi. Í Noregi eru enn gerðir hinir svonefndu gamalostar; það eru einskonar súrostar, og dr. Sop álítur, að þessir ostar hafi verið gerðir til forna bæði hér og í Noregi. Ennfremur telur hann líklegt, að vér höfum týnt niður þessari ostagerð skömmu eftir að vér komumst undir Dani; og ekki er ósennilegt, að súrostagerðin hafi einmitt dáið út á því tímabili. Ferðasaga Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ber það með sér, að ostagerð hér á landi hafi að mestu leyti verið fallin í gleymsku og þá um miðja átjándu öld. Þó er þess getið í ferðasögunni, að einstöku búkonur á Austurlandi geri allgóða osta, sem ekki eru seigir og harðir, eins og íslenzkir ostar séu venjulega.
skyr-1Ég vil geta þess, að margar núlifandi gamlar konur vita, hvernig súrostur var gerður ; auðvitað segja flestar þeirra, að þær hafi tekið sagnirnar að erfðum. En sagnirnar benda til, að þessi íslenzka súrostagerð sé náskild gamalostagerðinni í Noregi. Íslenzkur súrostur var alment gerður þannig: Samfenginni mjólk eða undanrennu var safnað í kerald og látin súrna; svo var mjólkin hituð, en þá skildist draflinn og mysan. Draflinn var látinn í ostamót, sem fóðrað var innan með líndúk. Þegar búið var að þjappa draflanum í mótið, var bundið lok á það, og mótið með öllu saman seytt í mysu nokkrar klukkustundir. Að svo búnu var osturinn tekinn úr mótinu og látinn þorna á hjalllofti í nokkur dægur, og loks látinn brjóta sig í búrinu. Á haustin voru ostarnir stöku sinnum fluttir upp til fjalla og látnir liggja vetrarlangt í fönn. Ostarnir voru þá hafðir í skjóðum, og þær í vatnsheldum ílátum. Í íslenzkum fornbréfum og öðrum ritum sést, að ostar voru fyr og siðar látnir upp í opinber gjöld, og má af því ráða, að ætíð hafl verið nokkuð um ostagerð hér á landi.

Ostur

Tilbúnir ostar.

Menn þykjast vita með vissu, að lyfjaostagerð á Norðurlöndum sé mikið yngri en súrostageiðin. Það lítið sem vér Íslendingar kunnum í lyfjaostagerð er líklegt að vér höfum lært af Dönum; en hve langt er síðan að byrjað var að gera lyfjaosta hér á landi, er erfitt að segja um. Árið 1780 kom út bæklingur um smjörgerð og osta, eftir Ólavíus sekretera. í þessum bækling er aðallega getið um lyfjaostagerð, og það má þar skilja á mörgu, að höfundi hafi verið kunnugt um, að íslenzkar konur kynnu nokkuð til með hana. Þremur eða fjórum árum síðar ritar Björn Halldórsson prófastur „Arnbjörgu“. Hann minnist þar mjög lítið á ostagerð, en vísar til bæklings Ólavíusar sekretera, og telur illa ráðið, hve íslenzkar húsfreyjur hafi hagnýtt sér lítið þennan ostagerðarritling. Mér vitanlega er þetta alt og sumt, sem ritað hefir verið um ostagerð á íslenzka tungu alt fram að síðustu aldamótum.“
Í Tímariti kaupfjelaga og samvinnufélaga árið 1912 segir m.a. um súrost: „
Og á borðum bæði ríkra og fátækra er ætíð súr rjómi eða súr mjólk, til þess að bæta aðra rjetti. Þar að auki er sjerkennilegur súrostur, hjá fátæklingum úr áfum, hjá hinum ríkari úr samfenginni mjólk eða rjóma. Þessi súrostur er alveg hið sama og skyrið hjá forfeðrum okkar og nú hjá Íslendingum. Hann er borðaður í öllum máltíðum sjerstakur eða blandaður í aðra rjetti.“

Heimild:
-Búnaðarrit, 29. árg. 1915, 2. tbl., bls. 81-83.
-Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 6. árg. 1912, 2. tbl., bls. 101.

Ostagerð

Ostagerð.