Álaborg syðri

Tvær réttir eru ofan við Bæjarsker: annars vegar Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveginn og hins vegar Álaborgarréttin, sem er bæði eldri og nokkru ofar í Miðnesheiðinni.
BæjarskersréttStaðsetningin á Álaborgarréttinni er n: 64,01,667 v: 22,41,077. Réttin er um 500-600 metra ofan við Stafnesveginn, upp af skógræktarreit sem hallar aðeins til suðurs. Veggir réttarinnar eru nokkuð heillegir, grasivaxnir að hluta að utan og innan, en vel sést i hleðslur. Innra skipulag hennar er nokkuð ljóst, það er almenningur og út frá honum liggja minni hólf. Inngangur er í réttina í norður. Hleðsluhæð um 1 m að jafnaði en sumstaðar aðeins lægra. Steinastærð um 0.25-0.50 m. Rétt þessi er eldri en réttin sem er niður við Stafnesveg en sú rétt er tekin í notkun upp úr 1930, en fram að því hafði Álaborgarréttin verið notuð.

Álaborgarrétt

Bæjarskersréttin er grjóthlaðin, en að hluta til úr timbri. Staðsetningin er n: 64,01,687 v: 22,42,022. Hún er um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. Hleðsluhæð er um 1.20 m. Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim eða um 0.25-0.30 m. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarréttin notuð, sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Sigurður Eiríksson í Norðurkoti.
-Reynir Sveinsson á „Uppsölum“ í Sandgerði.

Álaborgarréttin

Rockville
Á Rockville-svæðinu svonefnda á Miðnesheiði, ofan við Sandgerði, er að finna allmargar minjar. Þar eru hin hlöðnu steinbyrgi fyrir tíma hersetunnar mest áberandi, auk nokkurra hrófa frá hennar tímum.
ByrgiEitt þeirra er staðsett n: 64,02,421 v: 22,38,559. Það er skammt frá norðurenda við veginn sem liggur austan Rockville svæðisins. Þar er eldri uppgróinn vegur sem liggur í austur eftir þeim vegi um 50 m, síðan til norðurs um 25 m í smá gróðurbelti. Tóftin er í smá halla á móti vestri. Byrgið virðist hlaðið upp á milli náttúrulegra steina sem þarna eru. Gólf byrgisins er grasivaxið og hleðslur grasivaxnar næst gólfi byrgisins. Hæsta hleðsluhæð er um 2 m á austurhlið. Hleðsluhæð sýnilegra steina er um 0.40 m, en hæð náttúrulegu steinanna er um 0.80 m. Steinastærð er 0.30-0.50 m. Inngangur í byrgið er á vesturhlið, en beint á móti inngangi er annar inngangur fyrir miðjum byrgisveggnum í austur. Sá er fremur þröngur. Óvíst er um aldur og notkun þessa byrgis.
Annað er staðsett n: 64,02,246 v: 22,38,621. Það er skammt frá nyrsta enda húsgrunns sem austast Byrgiá Rockville, um 120 m í norður eftir veginum sem liggur austan við svæðið, og um 200 m í austur. Þarna er landið mosavaxið og með nokkuð stórum steinum, og sker svæðið sig úr landinu í kring. Byrgið er hringlaga og í miðju þess er smá steinahrúga. Hleðslur byrgisins hafa hrunið, bæði inn í byrgið og utan við. Hleðsluhæð er um 0.40, steinastærð 0.25-0.50 m. Byrgið er opið til norðausturs. Steinarnir eru nokkuð mosavaxnir eins og landið í kring. Austan við hringlaga byrgið er hálskeifulaga hleðsluveggur, hleðsluhæð um 0.40 m og steinastærð 0.25-0.50 m. Byrgið er opið til suðausturs.
Þá er byrgi staðsett n: 64,02,239 v: 22,38,679. Það er frá nyrsta enda húsgrunns sem er austast á Rockville, um 120 m í norður eftir veginum sem liggur austan við svæðið, og um 200 m í austur. Þarna er landið mosavaxið og með nokkuð stórum steinum, og sker svæðið sig úr landinu í kring.
Byrgið Byrgisamanstendur af náttúrusteinum og veggjahleðslum sem hlaðnar hafa verið inn á milli náttúrusteina. Hleðslur byrgisins eru hrundar bæði inn í byrgið og utan við. Við vesturhlið byrgisins fyrir miðju er náttúrusteinn sem sker sig úr. Hann er um 0.75 m langur og 0.45 á breidd, og er skálaga gróp í steininn, til að safna vatni í.
Byrgi er n: 64,02,560 v: 22,38,788. Staðsetning þess er frá nyrsta og austasta húsgrunni Rockville um 530 m í norður eftir veginum sem liggur austan við svæðið skiptist vegslóðinn í norðaustur og norðvestur slóða. Mitt út frá skiptingu er byrgið um 170 m í norður. Byrgið er hringlaga. Neðstu steinar í byrgisveggum eru náttúrulegir, en á milli þeirra hefur verið hlaðið steinum. Nýjar steinahleðslur hafa verið hlaðnar ofan á eldri hleðslur og inn á milli. Steinastærð er 0.25-0.40 m, hleðsluhæð um 0.25-0.40 m. Náttúrusteinar í hleðslunni eru mosavaxnir, en minni mosi á hleðslusteinum. Inngangur í byrgið er frá norðri.
ByrgiByrgi er staðsett n: 64,01.996 v: 22.38.971. Það er skamt frá  suðurhlið vegarins sem er í kringum Rockville er varða sunnan við veginn. Um 40 m norðan við veginn á móts við vörðuna er byrgið á smá hól. Byrgið er hlaðið á litlum hól með smá gróðri í kring. Byrgisveggirnir eru grasivaxnir neðst um 0.30 m á hæð, en steinahleðslur í efri hluta, hleðsluhæð frá gólfi um 0.60 m. Steinastærð er allt frá smá steinum upp í að vera 0.30-0.50 m. Inngangur í byrgið er í vestur.
Fjárbyrgi er n: 64,01,928 v: 22,38.835. Það er við suðurhlið vegarins sem liggur í kringum Rockville innan um stórgrýti um 150 m í norðaustur frá vörðu Landmælinga Íslands, og um 25 m í frá veginum í suðaustur. Hleðslurnar eru innan um stórgrýti. Hleðslurnar hafa hrunið mikið, en þó er hægt að aðgreina smá hólf frá hrundu hleðslunum. Hleðsluhæð er um 0.50 m. Steinastærð er um 0.30-0.50 m.  Hleðslurnar eru mosavaxnar.

Byrgi

Byrgi er staðsett n: 64,02,035 v: 22,39.340. Það er um 15 m í vestur frá vegslóða sem er í norður suður vestan við Rockvillesvæðið, út frá brunni sem er við vegatálma sem settur hefur verið yfir slóðann. Byrgið er í smá bratta og og ber í lága hæð um 1-2 m í vestur. Byrgið er grjóthlaðið, það er hringlaga og hleðsluhæð um 0.30-0.40 m. Inngangur í byrgið er í austur. Steinastærð 0.20-0.40 m.
Byrgi. er loks staðsett n: 64,02,174 v: 22,39.327. Það er um 50 m frá nyrstu og vestustu húsaplötum Rockville í smá hæðóttu landi. Rétt norðan við L-laga vegaslóða sem liggur austur-vestur um 45 m niður á vegslóða sem er norður-suður vestan við Rockville. Um 1 m til hliðar og austan við tóftina eru fjórir stöplar þar sem staðið hefur fjarskiptamastur. Lýsing: Byrgið er grjóthlaðið, hleðsluhæð er um 0.30-0.90 m, steinastærð um 0.25-0.40 m. Inngangur er í byrgið í norðvestur. Smá grjóthrúga er um 1 m suðvestan við það og önnur um 2 m til hliðar við það í vestur.
Heimildir m.a:
-Sandgerðisbær

Rockville

Rockville.

 

Þingvellir

Í seinni tíð hefur æ meir verið rætt um mögulega aðkomu fornleifafræðinga að kynningum og leiðsögn um minjastaði, hvort sem um er að ræða óraskaða eða staði sem er verið að rannsaka. Vaxandi áhugi er á meðal fornleifafræðinga að skoða hvort og hvernig er hægt að tengja saman starf þeirra og áhuga almennings á því. Þeir virðast hafa áhuga á að nýta sér hugmyndir og reynslu annarra í þeim efnum.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði.

Við upphaf nútíma ferðamennsku á 17. og 18. öld voru fornleifar eitt af því sem fyrstu ferðamenn til Íslands bjuggust við að sjá. Óskýr greinarmunur var hins vegar á fornleifum og sögustöðum fram á 20. öld. Náttúran er og hefur ávalt verið í fyrsta sæti. Þó voru Þingvellir, vegna sögulegs samhengis, og Snorralaug, eiginlega hin eina sýnilega þekkta fornleif hér á landi, sjálfsagðir viðkomustaðir. Gullfoss og Geysir hafa og haft aðdráttarafl.
Áhyggjur af kaupum ferðamanna á íslenskum forngripum leiddu (ásamt öðru) til stofnunar Forngripasafnsins 1863. Ríkir Bretar komu hingað til lands til laxveiða og áhugi útlendinga á íslenskum forngripum fór vaxandi. “Eptir að Íslendínga sögur verða meir og meir þekktar í útlöndum, geta menn búizt við á hverri stund að menn búi til drama, hvar í Þíngvöllur er “leikflöturinn”. Það var a.m.k. skoðun og réttlæting Sigurðar málara fyrir að framkvæma rannsóknir á Þingvöllum. Hann dró m.a. upp hugmyndir sína um hvernig þinghaldið hafi gengið fyrir sig og aukin áhugi á fornsögunum þrýsti á aðgerðir. Áhugi útlendinga á íslenskri menningu leiddi og til þess að Íslendingar fóru að telja hana einhvers virði sjálfir.
Rannsóknir ferðamanna (fyrir ferðamenn) fóru smám saman að sjá dagsins ljós. Ferðabækur með almennum lýsingum (sérílagi Snorralaug) voru samdar og “Fyrsti vísindatúristinn”, Angus Smith, sem hingað kom til laxveiða í Elliðaánum, gerði rannsókn í Þingnesi 1872. Hann teiknaði m.a. upp svæðið og skrifaði um hvað það sem fyrir augu bar.

Stöng

Stöng í Þjórsárdal.

Collingwood kom hingað til lands í fylgd Jóns Stefánssonar, “Íslendingsins í London”. Þeir skoðuðu sögustaði, Collingwood dró upp og málaði marga þeirra. Afurðin kom út í bók hans “Pilgrimage to the Saga-Steads of Iceland (1899)”, sem í dag þykir meistaraverk þótt ekki hafi alltaf verið farið rétt með staðreyndir, s.s. meint leiði Kjartans Ólafssonar.
Á 20. öldinni dró úr fornleifarannsóknum, einkum eftir aldamótin 1900. Fjöldi erlendra ferðamanna jókst smátt og smátt. Íslensk ferðaþjónusta þróaðist fyrst og fremst í kringum kynningu á íslenskri náttúru, en nánast engar sýnilegar fornleifar voru aðgengilegar, auk þess sem lítið var að sjá á sögustöðum. Framan af öldinni takmarkaðist opinberar aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu við Þingvöll (merkingar á búðum) og Þjóðminjasafnið gaf út “Leiðarvísi 1914”. Guide á ensku var fyrst gefinn út 1960. Fyrstu leiðbeiningarnar miðaðu fyrst og fremst að innlendum ferðamönnum? Áhersla var þó lögð á verndun minja og staða fremur en kynningu. Friðlýsingar voru aðalatriðið og hugmyndafræði verndunar allsráðandi. Sýnilegar minjar hér á landi voru bæði óskýrar og flestum óskiljanlegar – og er það jafnvel fyrir flestum enn þann dag í dag. Liltar sem engar merkingar hafa verið settar upp á sögustöðum og þar hefur yfirleytt ekkert verið að sjá, ekki einu sinni sjoppa.

Öxarárfoss

Öxarárfoss.

Þjóðfélagsbreytingar urðu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Batnandi samgöngur innanlands og Íslendingar fóru í auknum mæli að ferðast um eigið land. Ferðafélög urðu algengari, “Árbók FÍ” kom fyrst út 1928 og síðan rit eins og “Landið þitt Ísland” (1966-68). Byggðasöfn voru stofnuð í flestum héruðum. Er bæjartóft á Stöng varð aðdráttarafl eftir uppgröft 1939 var hlífðarþak sett yfir strax um haustið, leiðarvísir var gefinn út 1947 (English summary) og þakið síðan endurnýjað 1957. Þjóðminjasafnið eignaðist gamla torfbæi og torfkirkjur, gerði hvorutvegggja upp og opnaði fyrir almenningi, s.s. Laufás, Glaumbæ, Burstafell, Gröf, Saurbæ og Núpsstað. Leiðarvísar um Hólakirkju var gefinn út 1950, Grafarkirkju 1954 og um bænhús á Núpsstað 1961 (English summary).
Pópúlarísering fornleifafræðinnar fór fram við nýja sýningu Þjóðminjasafnsins, sem opnuð var 1952-54, ritstörf og sjónvarpsþættir Kristjáns Eldjárns vöktu athygli og vaxandi áhugi almennings varð á verndun, einkum gamalla húsa. Fornleifauppgreftir á 8. áratugnum vöktu og eftirtekt, en lítil sem engin tenging var við ferðaþjónustu. Stigvaxandi fagmennska sérstakra leiðsögumanna varð almennt í kynningu náttúrustaða, s.s. við Geysi, Mývatn og á miðhálendinu. Þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli 1967 og áhersla varð á verndun Laxár og Mývatns. Þar varð minjaskráning Helga Hallgrímssonar frumkvæðisverk í fornleifaskráningu og Þjóðgarður var stofnaður í Jökulsárgljúfrum 1973. Vaxandi útgáfa myndabóka varð á erlendum málum um íslenska náttúru, en eina minjaritið í þeim flokki var bók Björns Þorsteinssonar um Þingvelli (1961, mikið breytt endurútg. 1986). Stangarbærinn var endurgerður við Búrfell 1977 á grundvelli rannsókna Harðar Ágústssonar. Landsvirkjun kostaði og hefur ekið húsið. Rústir í Herjólfsdal voru gerðar sýnilegar ferðamönnum að uppgrefti loknum, en eru nú orðnar hluti af golfvelli þeirra Vestmannaeyinga. Uppgrafnar rústir fyrir 1990 voru almennt ekki gerðar aðgengilegar ferðamönnum eða öðrum en fornleifafræðingum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Nýjar áherslu urðu eftir 1990. Rústakjallari var gerður í framhaldi af uppgreti og endurgerð Bessastaðastofuá Bessastöðum, þó með takmarkað aðgengi. Vaxandi umræða og meðvitund meðal fornleifafræðinga og safnamanna varð um gildi þess og nauðsyn að kynna minjastaði, en ekki var sýnilegt fjarmagn til þess og lítið frumkvæði og áhugi var meðal ferðaþjónustuaðila, a.m.k. til að byrja með.
Sem dæmi um hugmyndir og aðgerðir síðustu 15 ára má nefna að rústir voru jafnan gerðar sýnilegar að rannsókn lokinni, s.s. Hofstaðir í Garðabæ og Neðri Ás og tilgátuhús voru reist, t.d. Eiríksstaðir og kirkja í Vestmannaeyjum. Sýningar voru í Reykholti, Aðalstræti, Hofstöðum í Garðabæ og kynning á uppgrefti urðu algengir, m.a. með leiðsögumönnum (Gásir, Skriðuklaustur og Aðalstræti). Merking og kynning ógrafinna minja urðu regla og skilti voru sett upp við gönguleiðir og á leiðum hestamanna. Niðurstöður fornleifarannsókna hafa orðið aðgengilegar á veraldarvefnum og kynntar á almennum sýningum. Fastasýning hefur verið sett upp í Þjóðminjasafni og sögusýning í Perlunni, auk landafundasýningar í Þjóðmenningarhúsi. Vaxandi áhersla er og á kynningu (á meðan og á eftir) við hönnun fornleifarannsókna.
Viðhorf stjórnvalda hefur verið að mótast í gegnum “Menningartengda ferðaþjónusta” (tíu ára gamalt lykilhugtak) og þau hafa opinberað vaxandi viðurkenningi á gildi og nauðsyn minjanýtinga. Skýrsla samgönguráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu kom út 2001 þar sem lögð er áhersla á tungumálið og bókmenntir, en minjarnar sjálfar urðu þar afskiptar. Þó er fornleifafræði talin hafa þýðingarmikið (en ómótað) hlutverk í þágu ferðaþjónustunnar hér á landi. Lagt er til að horft verði til tilgátuhúsa og nauðsyn rannsókna þar sem forgangsröðun staða er í fyrirrúmi.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns
konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri.
Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin
er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V Danakonungs. Kortið er á pappír (95 cm x 69 cm). Í handritaskrá Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (AM 477 fol.) eru nefnd
fleiri kort með þessu sem ekki finnast lengur í safni Árna Magnússonar.

Mörg álitamál eru um þátttöku fornleifafræðinga í tengslum við ferðaþjónustuna. Ættu fornleifafræðingar t.d. yfirhöfuð að skipta sér af ferðaþjónustu? Margir myndu svara því neitandi, m.a. vegna þess að þeir eru ekki sérfræðingar í því – fornleifafræðingar eru ekki skemmtikraftar – aðrir eru betur til þess fallnir, þeir hafa nóg með sína peninga að gera í rannsóknir, þeir bera ábyrgð gagnvart vísindasjóðum sem styrkja rannsóknir og mega ekki sólunda fé og þeir verða að varðveita fræðilegan hreinleika greinarinnar. Aðrir eru jákvæðir og telja að fornleifafræðingum beri siðferðileg skylda til að veita almenningi (þ.m.t. ferðamönnum) aðgang að rannsóknum sínum og rannsóknaniðurstöðum, rannsóknafé komi (eftir ýmsum leiðum) úr vasa almennings, vísindi séu skemmtileg og vísindamenn þar með skemmtikraftar, það gæti haft jákvæð áhrif á rannsóknarstarf – skerpir sýn á hvað er áhugavert og mikilvægt – og gæti verið grundvöllur áframhaldandi og aukins stuðnings við fornleifarannsóknir. Þar þurfi ekki síst að koma til beinn stuðningur ferðaþjónustunnar.
Ferðaþjónustan og fornleifarannsóknir hafa ólíkar þarfir. Ferðaþjónusta vill t.a.m. svör við spurningum sem ferðamenn hafa (Ingólfur og Leifur heppni), hún vill skýrar línur og einfaldanir – engar vífilengjur eða varnagla, geta sýnt skiljanlegar fornleifar og telur að endurgerðir séu betri en óskiljanlegar rústir. Þá séu leikarar betri en tafsandi prófessorar. Fornleifafræðingar vilja helst ekki segja neitt sem þeir geta ekki staðið við og þeir vilja ekki fjalla um fyrirbæri sem ekki eru fornleifafræðileg (Ingólfur og Leifur heppni). Þeir geta og vilja miðla flóknum hugmyndum og sýna fornleifar eins og þær eru (brotakenndar og óskiljanlegar).

Hnadritasýning

Handrit.

Hægt væri að fara bil beggja. Millileiðir eru til þar sem bæði krefjandi og skemmtilegt væri að finna aðferðir til að miðla raunverulegum rannóknarniðurstöðum sem samt nýtast ferðaþjónustu. Þar þarf gæði að vera grundvallarhugtak. Gæði rannsókna og miðlunar geta þó vel farið saman og hluti gæðanna gæti falist í því hvernig rannsóknin nýtist til kynningar og fyrir ferðaþjónustu. Gæði myndi aukast meðal ferðamanna og þekking þeirra á menningu og sögu aukast. Ferðamaður sem ekkert veit getur sætt sig við og haft gaman af lélegri/ósannri kynningu, en vel upplýstum ferðamanni er misboðið með lélegri/ósannri kynningu. Gæði ferðaþjónustu hlýtur að felast í metnaði Íslendinga til að bjóða upp á vandaða afþreyingu fyrir ferðamenn. Þá verður ábyrgð ferðaþjónustu í menntun þjóðarinnar/erlendra ferðamanna að teljast einhver. Ferðalag er menntun og því hlýtur fræðlsan að vera praktísk álitamál. Mest nauðsyn að mennta ferðamenn áður en þeir koma á staðinn? Margvísleg form miðlunar eru fyrir hendi, s.s. heimasíður sérstaklega ætlaðar ferðamönnum, almennar heimasíður, fræðirit fyrir almenning. kennsla í grunn- og framhaldsskólum, námsefni, námsferðir og sýningar. Kannski að framangreint geti orðið aðalvettvangur einhverra fornleifafræðinga í framtíðinni?

Hafnir

Hafnir – uppgröftur í skála fyrir norrænt landnám.

Praktísk álitamál lúta einnig að uppgrefti. Meta þarf hvernig aðgangur að uppgrefti eigi að vera á meðan á honum stendur. Ferðamenn eiga að geta horft á uppgröftin, geta etv lesið á skilti, og ferðamenn eiga að geta fengið leiðsögn og aðra þjónustu (salerni, bílastæði, póstkort, pulsa og kók) á vettvangi. Ganga þarf þannig frá uppgraftarstað að gestir geti séð hvað þar var – og að hægt verði að nýta staðinn í ferðaþjónustu. Tyrfa þarf yfir svo útlínur sjáist. Leysa þarf vandamál við aðgengi, koma í veg fyrir troðning og skemmdir á fornleifum og eða truflun á rannsókn svo eitthvað sé nefnt. Þá þarf að gera ráð fyrir kostnaði er af kann að hljótast svo undirbúa megi og veita góða þjónustu.
Ljóst er að fornleifafræðingar eða sérstakir leiðsögumenn munu í framtíðinni koma að kynningum og leiðbeiningum til áhugasamra ferðamanna starfa sinna vegna. Þeir búa yfir mikilli þekkingu á viðfangsefninu og gat nýtt sér það, bæði til að efla þekkingu annarra á störfum þeirra og ekki síður til að fá viðbrögð fólks á þeim. Hvorutveggja gæti orðið greininni til framdráttar.
Það hefur jafnan verið haft á orði að ef heimamenn hafa ekki áhuga á sögu sinni og minjum geta þeir varla ætlast til að aðrir hafi það.

-Byggt á yfirliti Orra Vésteinssonar við kennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Hafnarfjörður

Í bók Trausta Valssonar,“Skipulag byggðar á Íslandi – frá landnámi til líðandi stundar„, er m.a. fjallað um samspil skipulags við náttúrufarsþætti og hversu mikilvægt er að fulltrúar skipulagsyfirvalda taki tillit til náttúru- og umhverfisþátta:
Bók Trausta Valssonar um skiplag byggðar„Á Íslandi er meira um beint samspil mannlífs, atvinnulífs og byggða, við náttúruöflin en í flestum öðrum löndum. Þess vegna einkennast skipulagsverkefni á Íslandi meira af því en víðast annarsstaðar, að gera athuganir á náttúrunni þegar í upphafi, þegar skipulag er undirbúið.
Þetta er reyndar stefna í skipulagsfræðum, sem hefur sótt mikið á hvarvetna í heiminum, m.a. vegna þess að heimurinn og einstök svæði, hafa verið að uppgötva að mikil þörf er á að stefna að sjálfbærni í uppbyggingu samfélaganna. Þessi sjálfbærni gengur t.d. út á það að ekki sé gengið það mikið á umhverfið að það bíði skaða af, hvort sem um er að ræða vatn, loft eða gróðurfar, eða jafnvel félagslegt umhverfi eða efnahagslegt umhverfi.
Mörgum finnst sem hér sé kominn leiður stimpill á þau verefni sem skipulagsmönnum eru fengin í hendur vegna þess að þetta leiðir oft til þess að það verður að setja ákveðnar takmarkanir á starfsemi til þess að hún skemmi ekki út frá sér.
Í raun er það hinsvegar svo að með þessu er verið að forða því að óhapp verði og tryggja umhverfisgæði, þannig að þótt þetta leiði því miður oft til þess að hömlur eru settar á margskonar starfsemi, þá er hinn yfirgrípandi tilgangur raunverulega mjög jákvæður.
Það að þetta sé orðið höfuðnauðsyn er staðfest með tiltölulega nýjum lögum þar sem gert er að skyldu við allar stórar framkvæmdir í landinu, að gera svokallað umhverfismat á framkvæmdinni til þess að sjá hvort hún fer of langt í því að skemma umhverfið.
Um leið verður að muna að þessi matsferill er til þess ætlaður að leiðbeina mönnum við að skipuleggja og hanna viðkomandi framkvæmd þegar frá upphafi þannig, að hún sé ekki til þess líkleg að valda miklum skaða.
Hugmyndafræði þessa ð láta það verða að stóru atriði í öllu skipulags- og framkvæmdastarfi að taka tillit til náttúrunnar, er sá grunntónn nú er ríkjandi.
Fyrri tíma tákn og þörf áminningSaga samspils við náttúruna er mjög afdráttalaus í íslenskri sögu og er þess vegna mjög gott að læra af henni. Til þess að lesandinn sé vel í stakk búinn til að skillja þessa tegund af sögu sem varðar samspil byggðarinnar í landinu við náttúruna, þá fjallar hin Fyrsta bók, sem svo er kölluð í þessu riti, um náttúrna og það mótandi afl sem hún er í allri okkar byggðasögu.
Náttúran er í fyrsta lagi það mótandi afl sem hefur búið til landið sjálft og síðan búa í henni frumöfl og þeir náttúrufarsferlar sem hafa áfram haldið að sverfa landið, slípa það og móta.
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, þegar maðurinn lifði nánast eingöngu af því sem náttúran og landið gaf, voru hinar ýmsu náttúrufarsaðstæður fyrir búsetu langmikilvægast af öllu því er varðar það hvernig byggðarmynstrið varð til og mótaðist í aldanna rás.
Norðmenn urðu með fyrstu þjóðum til að taka náttúrufarsþætti með inn í nútíma skipulagsvinnu. Er þetta m.a. vegna þess að þeir þurfa oft að skipuleggja byggð í brattlendi og þar sem hætta er á snjóflóðum og skriðuföllum. Einnig er mikilvægt að huga vel að hvar sólar nýtur í svo norðlægu landi.
Á Íslandi hefur stundum verið unnið að gerð náttúrufarsúttekta í aðdraganda skipulags. Mjög er þó mismunandi hvaða náttúrufarsforsendur eru mikilvægastar eftir því í hvaða mælikvarða er unnið, og fyrir hverskonar byggð og hverskonar aðstæður er skipulagt.“
Ljóst er af nýlegum dæmum að skipulagsyfirvöld í hinum einstöku byggðalögum Reykjanesskagans horfa lítt til umhverfisþátta skipulagsmálanna – virðast einfaldlega lítt meðvituð um gildi þeirra, þrátt fyrir kynningar og nýstefnur í þeim málum. Sem dæmi má nefna að hús eru byggð ofan á fornar þjóðleiðir, verðmæt útivistarsvæði eru lögð undir afgangsúrræði og algerlega hefur gleymst að meta heilstætt gildi áþreifanlegra minja um búsetu- og atvinnusögu svæðanna til lengri framtíðar. Sjá t.d. Selhraun – minjar.

Heimild:
-Trausti Valsson – Skipulag byggðar á Íslandi – frá landnámi til líðandi stundar, 2002, bls. 23-24.

Grindavík

Járngerðarstaðahverfi í Grindavík 1946.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson lýsir hýsingu jarðarinnar Herdísarvík í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:

Herd-998

Herdísarvík – herforingjaráðskort 1903.

„Nú skal minzt gömlu bæjarhúsanna, ásamt útihúsum, sem stóðu vestast á túninu á bakka tjarnarinnar. Öll eru hús þessi nú horfin. Á þessum umgetna stað við tjörnina mun Herdísarvíkurbærinn, ásamt fleiri og færri útihúsum hafa verið búinn að standa um aldir. Þess sjást hvergi merki, að bærinn hafi annars staðar verið, en vitað er, að byggð í Herdísarvík er mjög gömul. A þessum staö í túninu við tjörnina var Herdísavík. Á þessum stað lifði og starfaði fólkið, — og dó, kynslóð eftir kynslóð. Þarna bjó fólkið í nýjum bæ eða gömlum bæ, byggði upp og endurbætti. Þarna bjuggu oft stórbændur til lands og sjávar, og flestum mun hafa vegnað þar vel efnalega, enda var haft að orðtaki austur þar, að „Herdísarvíkin fæddi sofandi sína.“
Mun ég nú lýsa bæjar- og útihúsum, sem á áðurnefndum stað stóðu, eins og þau litu út, þegar ég tók við þein 1927, og voru svo, þar til þau voru rifin eða féllu, eftir að ég fór þaðan 1933. herd-1000
Bæjarhúsin þrjú snéru stöfnum mót suðri. Vestast stóð baðstofan, hliðarveggir úr grjóti, hlaðin undir syllur, framslafn úr timbri nokkuð niður fyrir glugga, sem var með sex rúðum, norðurstafn úr timbri, jafn risi, en sléttur grasbali fyrir neðan í tóftarstað, á þeim stafni gluggi með fjórum, stórum rúðum, annar helmingur hans á lömum. Þessi gluggi var, auk þess sem opnanlegir gluggar eru ætlaðir til, öryggis-útkomustaður fyrir fólkið, þegar svo bar við, að sjór gekk á land og fyllti svo bæjarhús, að útgöngu var ekki auðið um bæjardyr, þar eð þær ásamt frambænum öllum lágu mun lægra en baðstofa. Öll var baðstofan þiljuð í hólf og gólf, skarsúð úr þykkum og breiðum borðum á sperrum, þiljur og gólf sömuleiðis af breiðum og plægðum borðum. Þessi baðstofa var rifin 1934, þá um sjötíu ára gömul, ófúin, nema eitthvað af undirviðum, sem sjór var svo oft búinn að leika um öll þessi ár. Inni var baðstofunni skipt í þrennt: til endanna afþiljuð herbergi, tveggja rúma lengd hvort, en í miðju var gangur, sem svaraði til einnar lengdar, var þar lítill kvistur á vestursúð, undir honum stór skápur, á honum var tekinn til matur og kaffi skenkt. Úr þessum gangi lágu fjórar tröppur til bæjardyra. Austan við baðstofu var frambærinn, með heilu þili.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Vestast á þilinu voru háar dyr og inn af þeim afþiljaður gangur, og úr honum miðjum göng til baðstofu, en innst úr ganginum var gengið inn í stórt eldhús, og var í því stór eldavél. Utarlega í ganginum voru dyr til hægri, sem lágu til stofu, stóð þar alltaf uppbúið gestarúm. Loft var uppi yfir frambænum, vel til hálfs. Fjögurra rúðna gluggi var á stafni ofarlega fyrir loftið, en sex rúðna niðri fyrir stofu. Þriðja húsið, með stafni mót suðri, var búrið, með litlu hálfþili, og tók ekki eins langt fram og hin húsaþilin. Öll voru hús þessi byggð af rekaviði að öllu leyti, öll voru þau járnvarin utan, en torf á járni á frambæ og búri. Veggir allir þykkir, hlaðnir úr grjóti. Þá voru aðeins sunnar á hlaðinu, nær tjörninni, tvö hús, sem snéru stöfnum til vesturs. Var syðra húsið smiðja, en hið nyrðra hjallur; hliðarveggir hlaðnir af grjóti, þiljaðir stafnar jafnt sperrum, en minna klæddir hið neðra. Loft var yfir hjallinum óllum: Norðan við hjallinn var stór grunnur undan húsi, hlaðinn af grjóti, og stóð þar áður geymsluhús, venjulega nefnt „pakkhús“.

Herdísarvík

Herdísarvík – teikning GS; nýrri bærinn.

Eitt milliþil var í húsi þessu og var minni karmurinn notaður sem smíðahús, en sá stærri fyrir matarforða heimilisins, aðallega kaupstaðarvarning, sem oft var nokkuð mikill, þar eð venja var að fara aðeins eina kaupstaðaríerð á ári. Hús þetta tók af grunni með öllu sem í var í aftaka sunnanveðri með óvenjulega miklu stórbrimi hinn 25. febrúar 1925, og var talið, að sjór hefði ekki í marga áratugi, jafnvel frá því er Bátsenda tók af, gengið svo á land hér sunnanlands sem í þessu flóði. Sjórinn tók húsið í heilu lagi af grunni, því að vel var viðað og traustlega byggt, og setti niður fyrir fjósdyrum úti (fjósið stóð þá austan undir bænum), svo að ekki var hægt að koma kúnum úr fjósinu, fyrr en út féll og hægt var að fara með þær út um bæjardyr. Það, sem bjargaði kúnum frá drukknun, var það, að þær náðu fótfestu með framfótum uppi í veggnum, fyrir básunum, og stóðu þar með upp úr sjó að framan, en svo mikill var sjór í fjósinu, að á básunum náðu þær ekki niðri, og var svo meira en eina stund. Semi dæmi þess, hve hafrótið var mikið og að sjór, sem á land gekk, hefur átt rætur langt undan landi, má geta þess, að þegar sjór féll út, kom í ljós, að mikið af smákarfa og keilu, hafði skolað á land, og keila fannst í bæjardyrum og öðrum húsum, sem sjór braut upp og flæddi inn í.

herd-1002

Herdísarvík um 1900.

Eftir þetta flóð var „pakkhúsið“ flutt upp og norður fyrir tún og sett á sléttan hraunbala og stóð þar enn fyrir fáum árum, en mun hafa lítið verið notað nú í seinni tíð. Nýtt fjós var byggt næsta vor og fært vestast á túnið, fjær tjörninni.
Vestan undir baðstofunni var matjurtagarður, annars voru kartöflur aðallega ræktaðar í gömlum fjárréttum og borgum, svo og í Skiparéttinni, sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Eins og fyrr segir, eru öll þessi hús, sem hér hafa verið talin, rifin eða fallin, en rústir sumra þeirra munu lengi enn sjást.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Hið nýja íbúðarhús, sem byggt var á jörðinni 1932, var sett niður, ekki „utan garðs“, en nyrzt og efst á túnið, mjög skammt frá útihúsum, sem þar voru fyrir. Í þessu nýja húsi dó skáldið Einar Benediktsson eftir nokkurra ára veru þar, farinn mjög að heilsu og kröftum.
Hér hefur náttúran skrifað sína sögu sem annars staðar, hér hefur hún mótað myndir og rúnir á steintöflur sínar, og hér hefur fólkið, öld eftir öld, lesið og ráðið þær rúnir og lifað eftir. Hér hefur fjármaðurinn reikað með hjörð sína um haga úti, talað við fé sitt og talað við náttúruna, og oft fengið svar við hljóðum spurningum. Nú er svo komið hér sem víða annars staðar á afskekktum jörðum, að nú er enginn orðinn eftir til að tala við náttúruna, svo að nú talar hún „ein við sjálfa sig.“ – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík – byggt 1932.

Herdísarvík

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Herdísarvíkurlandi eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

„Austasta örnefni í Herdísarvík með sjó er Breiðibás. Hann er að finna með því, að ganga um 8 mínútur austur með sjó frá eystra túninu. Vestar en í miðjum Breiðabás, sem er allvítt malarvik milli hraunflúða, sem ganga í sjó fram beggja megin, er steinn í lögun svipaður saumhöggi á steðja, með sýlingu í miðju. Steinn þessi er á þurru með lágum sjó, og er landamerkjasteinn milli Herdísarvíkur og Stakkavíkur, úr honum bein lína í vörðu á brún Mosaskarðs, austarlega, sem síðar mun getið verða. Af Breiðabás er haldið vestur á bóginn, og verður þá fyrst fyrir eyðibýlið Herdísarvíkurgerði. Þar á túninu stóðu fram á seinustu ár tvö stór fjárhús, Langsum og Þversum, nú sennilega rústir einar. Eystra húsið snéri gaflhlöðum til austurs og vesturs, hitt til suðurs og norðurs. Niður undan miðju túninu eru malarvik í flúðirnar, og heita þau Básar.

Herdísarvík

Herdísarvík – Langsum og Þversum í Austurtúninu. Skökk efst.

Vestast í fyrrnefndum flúðum er gömul vör (lending), Skökk. Ekki var hægt að fara í vör þessa nema ládautt væri. Þar má enn sjá kjalarför í klöppunum eftir setningu skipa. Í norður frá Gerðistúninu, ofan garðs, er Sundvarða eystri, og átti hún, þegar sundið var tekið, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli, og síðar mun nefndur (á austanverðu sundinu er blindsker, sem Prettur heitir og brýtur á í brimi).

Vestan við Gerðistúnið er Dalurinn, gamall skiptivöllur, þar sem formenn skiptu afla í ,“köst“. Norðan við hann voru sjóbúðir, byggðar hlið við hlið. Símonarbúð, þá Bjarnabúð og austast Gíslabúð. Þá vestar og nær sjó Hryggjabúð. Búðir þessar eru víst engar uppi standandi lengur. Vestur af síðast talinni búð var Skiparéttin, umgirt háum og þykkum grjótveggjum á fjórar hliðar. Þar gengu sjómenn frá skipum sínum milli vertíða.

Herd-996

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Framan undan búðunum er Bótin, aðallending Herdísarvíkur, en upp af henni er hár og þykkur malarkambur, Herdísarvíkurkambur. Liggur hann sem gleiður bogi um Bótina, en svo lágur er hann vestan til, að í aftakaveðrum af hafi gengur sjór yfir hann og fyllir tjörnina, sem er innan við og liggur upp að túninu, svo að stundum fyllti öll hús, sem við tjörnina stóðu, svo að úr þeim varð að flýja með allt, sem komizt varð með, lifandi og dautt. Aldrei mun þetta hafa valdið slysum á mönnum eða skepnum, en tjóni olli það oft bæði á húsum og munum, svo og matbjörg.
Nú fyrir nokkrum árum hafa öll hús verið flutt efst á túnið, en þar eru þau í minni hættu. Innan við Kambinn er, eins og fyrr segir Herdísarvíkurtjörn. Milli heimatúns og Gerðistúns er grjótgarður mikill, Langigarður, ætlaður sem aðhald fyrir stórgripi Herdísarvíkur á graslendi því, sem er milli túna. Sá garður mun hafa verið hlaðinn af sjómönnum í landlegum. Við hlið, austur úr heimatúninu, við tjörnina, var sjóbúð, Ólabúð, nú sennilega ekki lengur til. Austarlega í túninu er klettastapi, sem gengur fram í tjörnina, Hestaklettur, austan við hann Hestavik.

Herdísarvík

Sjóbúðir í Herdísarvík.

Vestast og efst í túninu, þar sem nú eru gripahús og heyhlaða, var Krýsuvíkurbúð, en hún var, eins og nafnið bendir til, sjóbúð Krýsuvíkurmanna. Heimajarðarbændur í Krýsuvík gerðu þar (í Herdísarvík) út tvö skip og áttu því sem aðrir útgerðarmenn sína búð. Sunnan undir heyhlöðu og gripahúsum er Urðin. Þar er sem saman hafi verið safnað á lítinn blett mikilli dyngju af lábörðum steinum, nokkuð misstórum, en mest af þeim má teljast björg svo stór, að enginn mun hafa fært þau þar saman nema Ægir karl, en athyglisvert virðist það, að þau skuli hafa hlaðizt þarna upp í mörg lög á smábletti, en sjást hvergi svipuð, fyrr en niður við sjó.

Herdísarvík

Herdísarvík – Herdísarvíkurtjörn.

Milli Urðarinnar og gamla bæjarstæðisins er smátjörn, Kattartjörn. Þornar hún upp að mestu á sumrin; sést þá, að botninn er að mestu gróinn; vex þar upp þétt og kröftug gulstör, og stingur þessi stararblettur mjög í stúf við annan gróður þar og allt umhverfi. Bendir þessi litli stararblettur á, að þarna hafi starengi verið áður en elzta hraunið rann? Sem fyrr er sagt, stóð gamli bærinn á tjarnarbakkanum, nærri vestast í túninu. Framan undan bænum er smáhólmi í tjörninni, Vatnshólmi. Lítil trébrú var út í hólmann, og var vatn sótt þangað fyrir bæ og fjós, þar sem vatnið bullaði upp undan hólmanum á alla vegu, kalt og ferskt úr iðrum jarðar. Suðvestur af Vatnshólmanum gengur smátangi út í tjörnina, Sauðatangi. Þá eru talin örnefni í næsta umhverfi bæjarins og austan við hann. Suðvestur af Herdísarvíkurtjörn eru nokkrar smátjarnir og heita Brunnar. Milli þeirra og tjarnarinnar er Steinboginn, steinstillur, sem settar hafa verið þarna niður til að stytta leið niður á vesturkambinn, ef hátt var í tjörnunum. Spölkorn suður af Brunnum, nær sjó, er Sundvarða vestri. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.