Íslandssaga

Í „Íslandssögu til okkar daga“ eftir þá Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson er m.a. fjallað um landnám Íslands.

Landnám og menjar

Ísland var nær ósnortið af mönnum og grasbítum, þegar víkinga bar þar að strönd, svo að landnámssaga þess er skráð mannvistarleifum út um holt og hæðir. Jarðvegsmyndun hefur verið ör sökum veðrunar og öskufalls í eldgosum, en á síðustu öldum hefur gosið um fimmta hvert ár einhvers staðar á landinu. Eldsumbrot hafa skilið eftir sig greinanleg lög í jarðveginum. Gjóskulögin skipta jarðveginum þannig eftir aldri og tímasetja fróðleik um lífríkið á liðnum öldum.

Íslandskort

Íslandskort frá því um 1000.

Allmikið eldgos hefur orðið við Vatnaöldur um 900 og skilið eftir sig í jarðvegi svonefnt landnámslag. (Eftir sama gos má sjá ummerki í ísnum á Grænlandsjökli, sem færa má með nokkurri vissu til ársins 898.) Þegar landnámslagið féll, hefur landið verið lítt byggt og frumgróður þess ríkjandi, en hann breyttist mjög við búsetu manna; birkiskógur hvarf, en bygg, bruggjurtir, arfi og ýmsar aðrar plöntur námu land; og gróður eyddist á jaðarsvæðum, þar sem hann átti erfitt uppdráttar.

Víkingaskip

Farkostur landnámsmanna.

Fornmannagrafir og rústir mannvirkja benda einnig til þess að fáir hafi siglt til Íslands fyrr en um 900, enda urðu skip í Norðvestur-Evrópu ekki almennilega hæf til slíkra ferða fyrr en á 9. öld, og fáir áttu erindi til Íslands fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar, þegar víkingar fóru hrakfarir á Bretlandseyjum. Þá urðu ýmsir víkingar að sætta sig við það að hlaupa eftir sauðum og strita við búskap, og landnámsöld hófst á Íslandi.
Hin langa sigling út til Íslands skolaði ránsandann úr víkingunum. Þeir komu fámennir, 20-30 manns á hverju skipi, og héldu sjaldan samfloti á langri siglingu. Þegar þeir náðu höfn á Íslandi, urðu þeir að vera sæmilega prúðir í framgöngu, ef þeim átti að verða líft í landinu.
Landnámið var friðsamlegt; landið er stórt og skiptist í héruð af fljótum og fjallgörðum, svo að menn þurftu ekki að troða hver öðrum um tær fyrstu áratugina. Hvergi er vitað um nein hernaðarmannvirki, hvorki við hafnir, ferjustaði né einstaka bæi, fyrr en löngu síðar.
Heiðnar grafir, um 300 talsins, hafa fornleifafræðingar kannað hér á landi, og teljast þær frá 10. öld, nema gripir úr einni gætu verið frá því um 850 og úr annarri frá upphafi 11. aldar.

Landnám

Landnám fyrir „landnám“.

Hinir framliðnu hafa verið heldur lágvaxið fólk, meðalhæð karla um 170 sentimetrar (169 eða 171 eftir því hvaða stöðlum er beitt) og kvenna 155 sm eða rúmlega það. Engar stórhöfðingjagrafir og engir kristnir grafreitir hafa fundist á Íslandi frá 10. öld. Grafirnar benda til þess að á fyrsta stigi byggðarinnar hafi íburðarlítill efnahagsjöfnuður ríkt í landinu eins og jafnan í nýbyggðum. Heiðnar grafir á Íslandi eru sem heild líkastar norskum gröfum af fátæklegri gerð frá sama tíma og mundu ekki þykja framandlegar, þótt þær hefðu fundist þar í landi.
Í Eyjafirði og Rangárvallasýslu hafa fundist flestar heiðnar grafir, en mjög fáar í sumum héruðum öðrum. í Skaftafellssýslum og víðar hafa eldgos, stórflóð, sandfok og aðrar hamfarir eytt gröfum eins og öðrum mannanna verkum. Það á þó ekki sérstaklega við um Borgarfjörð eða Breiðafjörð, einhver bestu héruð landsins, þar sem heiðin kuml hafa bæði fundist fá og fátækleg. Heiðnin virðist ekki hafa staðið djúpum rótum víða vestan lands, og þar hafa menn líklega keppst við að smala forfeðrum sínum í kristinna manna reiti eftir kristnitöku, eða gert forna kumlateiga að kirkjugörðum þar sem þeir voru nálægt bæjum. Slíkt kann að hafa verið algengt hér, þar sem svo lítil átök urðu milli kristni og heiðni.

Byggð og nöfn

Skáli

Skáli frá því um 1000.

Örnefni um gjörvallt Ísland vitna um norrænan uppruna þjóðarinnar. Nokkur kenna staði við heiðin goð, flest við Þór: Þórs-höfn, -mörk og -nes. Njarðvíkur eru heiti á fengsælum útgerðarstöðum, og Freysnes bendir til þess að frjósemisguðinn Freyr hafi í árdaga byggðar átt sér vini á Íslandi.

Víkingar

Víkingar á nýrri strönd.

Allmörg örnefni benda þó til Bretlandseyja. Af keltneskum stofni eru bæjarnöfn kennd við Beccan, Ciaran, Nial og Patric: Bekansstaðir, Kjaransvík, Njálsstaðir; en Patreksfjörður á að bera nafn af því að landnámsmaður frá Suðureyjum hét á heilagan Patrek í hafvillu. Valþjófsstaður ber heiti af engilsaxnesku mannsnafni, Walþeow; en Trostansfjörður vísar á mannsnafnið Dorstan (sbr. Tristan), sem er komið úr tungu Pikta, frumbyggja Skotlands. Dímon er heiti á nokkrum fellum og telst dregið af Dímun (tvífell). Írafell, Katanes, Kumbaravogur og Bretavatn eru staðir kenndir við fólk frá Írlandi, Katanesi á Skotlandi (Caithness), Kumbaralandi (Cumberland) og Bretlandi. En fróðlegt væri að vita hvort Breta- og Kumbaranöfnin festust við staði á Íslandi á 10. eða 15. öld.
Fólk af ýmsu þjóðerni hefur sest að hér á landi í árdaga, en þess ber að gæta að norrænir menn á Bretlandseyjum mægðust þar við heimafólk. Þannig komust írskar nafngiftir inn í norrænar ættir, og sú blóðblöndun, sem mannerfðafræðin vitnar um, gat bæði gerst fyrir og eftir landnám.

Landnám

Landnám Íslands – kort.

Í íslenskum bæjarnöfnum felst ýmis fróðleikur um sögu bæjanna. Þau skiptast m.a. í náttúrunöfn og stöðunöfn. Náttúrunöfnin eru dregin af einkennum landslagsins umhverfis bæinn eins og Hólar og Skálholt; Reykjavík var nafn á bæ, sem stóð við vík sem rauk úr. Skarð var heiti á stórbýlum undir fjalli, bæði við Breiðafjörð, í Landsveit og víðar, en -vellir eru aðsópsmiklar jarðir víða um land, svo sem Möðruvellir í Eyjafirði og Stóruvellir á Landi. Þessi nöfn, og fjölmörg önnur sem vísa til landslags (Ás, Múli) eða annarra staðhátta (Ferja, Höfn), bera ekkert aldursmark, enda merking þeirra óbreytt allt frá landnámsöld; af þeim, eða samsetningum þeirra, verður fátt ráðið um aldur jarðanna.
Stöðunöfnin lúta að stöðu bæjarins í sveitinni. Allt til 1800 var hér að störfum frumstætt bændasamfélag, sem baslaði einkum við kvikfjárrækt og barðist við þrotlitla efnahagskreppu eða stóð í návígi við matvælaskort og hungurdauða.

Landnám

Skip landnámsmanna.

Seint á 10. öld tóku landþrengsli að hrjá það og leiddu til Grænlandsferða, en engra breytinga. A 12. öld óx fiskmarkaðurinn innanlands sökum kröfu kirkjunnar um fiskát á föstum. Þá óx byggð við góðar hafnir, sem lágu að fengsælum miðum; þar fjölgaði kotum og smábýlum, sem enduðu mörg nafn sitt á -kot, -gerði, -sel, -búð. Þau eru frá yngra skeiði byggðarsögunnar en náttúrunöfnin, sem geta verið allt frá landnámsöld. Kot er smábýli, sem ýmist er reist í landi eyðijarðar eða byggt úr landi stórbýlis og dregur nafn af því eða landslagi: Akrakot, Klettakot, Urriðakot. Gerði merkir girðingu eða umgirt svæði. Innan þess hafa risið kofar, og þar hafa sest að menn, sem gættu akra og húsdýra; víða urðu þar til hjáleigur og sjálfstæð heimili, og jafnvel höfuðból eins og Hraungerði í Flóa í Árnessýslu, en þar í sveit er hraun náttúrunafn.

Sagnir um upphaf byggðar

Rúnasteinn

Rúnasteinn frá Gotlandi.

Fornleifafræðin, íslenskan, örnefni og jarðvegsrannsóknir eru samkvæða um það að framtakssamt fólk hafi flutt búferlum frá Noregi og Bretlandseyjum til Íslands seint á 9. öld og fyrri hluta 10. aldar, en áður var það eyðieyja. Þar varð til ríkisvaldslaust bændasamfélag, sem sýslaði einkum við kýr, hross og sauði og ræktaði með erfiði bygg til bjórgerðar í veðursælustu sveitunum sunnanlands og vestan. Húsakynni þessa afreksfólks, sem tengdi Atlantshafið við sögusvið Evrópu, eru dável kunn, áhöld þess og farartæki, en einstaklingar birtast á vettvangi í rituðum heimildum.
Nafnið Ísland birtist á rúnaristu frá Timans á Gotlandi sem telst frá fyrri hluta 11. aldar. Ristan segir að félagarnir Ormiga og Úlfar hafi komið til Grikklands, Jórsala, Íslands og Serklands (en svo nefndust lönd Araba). Menn voru orðnir víðförulir í þann tíð. Á engilsaxnesku landabréfi frá svipuðum tíma er dregin aflöng eyja norður af Noregi og nefnd Ísland. Þá er Íslendinga getið í páfabréfum allt frá 1022 og riti Adams af Brimum um sögu Hamborgarbiskupa, sem lokið var skömmu eftir 1070.

Landnám

Landnám.

Íslendingar komust á atburðaskrár í Evrópu á 11. öld, en 9. og 10. öldin er forsögulegur tími íslenskrar sögu. Í Íslendingabók leitast fyrsti íslenski sagnaritarinn, Ari fróði Þorgilsson (1068-1148), við að setja íslenskri og norrænni sögu kristið tímatal. Honum veittist það auðvelt um sína daga, en málið varð þjóðsagnakennt, þegar kom aftur á 10. öld. Hann segir: Ísland byggðist fyrst úr Noregi . . . í þann tíð . . . er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannliga er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. Íslendingabók (íslenzk fornrit I, 1968), bls. 4-5. Þetta var þjóðsaga, en við vitum ekki betur. Ari fullyrðir, „að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan“. Þessi 60 ár (870-930) hafa verið nefnd landnámstíð í íslenskri sögu, en menn hafa eflaust flust til landsins eftir þann tíma.

Ingólfur

Ingólfur í Landnámabók.

Landnáma
Landnáma, safnrit um 430 landnámsmenn, forfeður þeirra og afkomendur, hefur orðið til að stofni fyrir 1100. Seint á 11. öld var mikið skipulagsstarf unnið í landinu, eignakönnun gerð og menn skyldaðir til að tíunda eignir sínar; þá hefur verið skráður í ýmsum héruðum fróðleikur um landnám og ættir, sem síðar var safnað á bækur. Landnámsmannatalið hvílir á arfsögnum, lærdómi og skáldskap. Þar bregður m.a. fyrir þekkingu á Gamla testamentinu. Landnámssagnir voru hagnýt fræði, því að í landnáminu fólst upphaf eignarréttarins, en söfnun þeirra á bók var einnig metnaðarmál, og allt fram um 1300 voru samdar nýjar gerðir Landnámu til styrktar hefðar- og valdsmönnum. Í einni gerðinni (Melabók) segir í eftirmála, að „vér þykjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því að vér séim komnir af þrælum eða illlmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar“.
Þegar Landnáma var upphaflega skráð, vissu menn fátt með sannindum um atburði á 9. og 10. öld og urðu ósammála um margt og þurftu að skrifa því meira sem þekkingin var brotakenndari. Í tvær aldir sýsluðu helstu höfðingjaættirnar við það að eignast Landnámu, en þá urðu skjöl og ríkisvald öruggari bakhjarl í valdabaráttunni en vafasamar sagnir um landnám.

Landnám

Landnám.

Ættvísi var mikil hagsmunafræði í ríkisvaldslausu landi. Hver ættborinn maður varð að þekkja sem gerst ætt sína og geta svarið af sér þræla og illmenni eða sakafólk, en skyldur og réttindi gátu erfst allt í 5. lið. Allt frá upphafi byggðar hafa íslendingar þekkt grundvallarhugmyndir óðalsréttar, enda lögfestu þeir snemma að aðalbólin eða stærstu jarðirnar skyldu ganga óskiptar beinum erfðum í karllegg ættarinnar.
Hafvillusögn hefur gengið í minni manna á 12. öld, en samkvæmt henni voru ónafngreindir farmenn á leið frá Noregi til Færeyja, þegar þá hrakti útnorður í haf, uns þeir tóku land við Austfirði. Þetta gerðist fyrir för Ingólfs. í annarri gerð sögunnar var þarna á ferð færeyskur maður, Naddodur víkingur. Einhverra hluta vegna átti Naddodur síðar andstreymt í hópi landkönnuða, og sænskur víkingur búsettur á Sjálandi, Garðar Svavarsson, tróð sér fram fyrir hann í heimildum.

Landnám

Landnám.

Garðar á að hafa siglt í kringum landið og haft vetursetu norður á Húsavík við Skjálfanda. Eftir för hans nefndist landið Garðarshólmur að austnorrænum hætti, sbr. Borgundarhólmur. Þrír förunautar Garðars eiga að hafa orðið eftir, þegar hann sigldi burt, og verið fyrsta norræna fólkið, sem settist að á landinu. Af þeim er Náttfari nafngreindur, en með honum þræll og ambátt. Síðar sigldi Uni, sonur Garðars, til Íslands og fór þar erindum Haralds hárfagra að sögn. Hann var drepinn vegna kvennamála, sem urðu efni í Íslendingasögu, sem er glötuð, en hefur í eina tíð stuðlað að sögnum um landkönnuðinn Garðar Svavarsson.
Flóki Vilgerðarson, Hrafna-Flóki, nefndist norskur víkingur. Hann notaði hrafna sem siglingatæki eins og Nói gamli dúfur. Flóki telst hafa siglt til landsins með búfé og skyldulið og ætlaði að setjast þar að. Honum láðist að afla vetrarforða, svo að búsmalinn horféll vorið eftir. Þá flýði Flóki til Noregs og gaf landinu hið kaldranalega nafn Ísland. Flóki á síðar að hafa sest að norður í Fljótum.

Forsendur landnámsins

Gröf

Heiðin gröf.

Á síðasta fjórðungi 9. aldar vegnaði víkingum báglega á Bretlandseyjum og í Noregi. Þá minntust margir þess að hafa heyrt getið um eyju norðvestur í hafi lítt byggða. Óbyggt land norður í Dumbshafi skorti aðdráttarafl hjá fólki, sem átti sér einhverra úrkosta völ. Hér var engu að ræna, engir bændur til að skattleggja og engin verðmæti að finna til útflutnings, hvorki grávöru, tannvöru né dýra málma. Hver sem settist hér að varð að lifa á veiðum, sölvum og fjallagrösum fyrstu árin, meðan búfénu, sem menn urðu að flytja með sér, fjölgaði svo, að einhverja nyt væri af því að hafa. Haffært skip hefur verið milljóna virði á landnámsöld, á við nokkrar bújarðir. Á Íslandi var þá ekki annað að hafa en kjarri vaxið land, gott til beitar, og nokkur hlunnindi í veiðum og viðarreka. Ef skipið dýra átti ekki að fúna í naustum, hafa menn orðið að sigla austur um haf með grjót í kjölfestu fyrstu áratugi landsbyggðarinnar. Landnám á Íslandi var fjárfesting, sem ekki var á færi annarra en milljónunga, en þeir hafa hikað lengi við leiðangurinn, af því að þeir eygðu litla von til þess að hann borgaði sig.
Líklega hefur einhverjum norskum farmönnum hugkvæmst, þegar þrengja tók að þeim á Bretlandseyjum seint á 9. öld, að gera út á Ísland, sigla þangað með fólk og fénað til þess að koma þar upp byggð og markaði. Auðvitað hafa þeir tekið talsvert fyrir snúð sinn, svo að öreigar og þrælar hafa ekki fengið far, nema þrælahaldarar hafi fylgt.

Landnám

Landnám.

Ungir bændasynir og vonsviknir víkingar hafa verið stofninn í landnámsliðinu. Landnámuhöfundar um 1100 hafa ekki talið, að það hafi þótt nein hetjudáð á víkingaöld að sigla til íslands og hlaupa þar eftir búsmala. Rögnvaldur Mærajarl er látinn segja við Hrollaug son sinn, landnámsmann í Hornafirði: „Hefir þú það skap, er engin styrjöld fylgir. Munu vegir þínir liggja til Íslands.“ Svo kom að vegir margra lágu til íslands, en þar urðu menn lengi að sætta sig við að strita í sveita síns andlits. Höfðingjar uxu fyrst úr grasi á Íslandi á 10. öld, og seint á þeirri 11. urðu til á vegum kirkjunnar fyrstu stórhöfðingjarnir, menn sem höfðu milljónatekjur og fundu fremur til sín sem aðalsmenn en bændur.
Landnemarnir sigldu til Íslands í dálitlum hópum, nokkrir tugir manna, ein eða tvær skipshafnir undir forystu karls eða konu, og reyndu að hafa samflot og samstarf um landnám og helguðu sér til eignar landsvæði, sem skiptist í jarðir, þegar búsmalinn óx. Landnemahóparnir voru stéttskiptir, greindust í forystusveit, fylgdarlið og þræla.
LandnámForystusveitin hlaut jarðnæðið, varð bændastétt, og á hennar ábyrgð var búskapurinn rekinn. Frumbyggjarnir þurftu að reisa allt frá grunni og lifa nær eingöngu á veiðum, fjörugróðri og grösum, meðan búféð var fátt, en það gekk ört fram, eins og sagnir Landnámu herma. Kýrin Brynja „gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni kominn,“ þegar hún fannst í Brynjudal í Hvalfjarðarbotni. Um Hafur-Björn, landnámsmann í Grindavík, segir, að fé hans „tímgaðist svo skjótt . . . að hann varð skjótt vellauðigur“. Landnámið í Grindavík varð ekki fyrr en undir 940, því að Hafur-Björn og bræður hans höfðu flúið þangað undan gosi í Eldgjá 934.
Íslendingar hafa snemma orðið ríkir af ull og fundið góðan markað fyrir ullarvörur erlendis, því að klæði virðast hafa verið dýr á 10. öld. Um 1100 var eyrir silfurs (um 27 g) jafnmikils virði og 48 álnir (alin = 49 sm) vaðmáls af einfaldri gerð. En sex álnir vaðmáls hétu samt „eyrir“, og hafa menn skilið það svo, að á 10. öld hafi vaðmálseyririnn verið jafnmikils virði og eyrir silfurs. Silfur hefur verið ódýrt á Norðurlöndum á víkingaöld sökum framboðs, en vaðmál dýrt; íslenskt klæði hefur þá verið vel þegin vara og íslendingar orðið iðnaðarþjóð þegar á 10. öld. Pá hafa konur verið settar við tóvinnuna, sem var mikið ánauðarverk.

Skáli

Skáli.

Bændabyggð
Þegar landi var náð urðu landnemarnir að reisa sér skýli yfir fólk og fénað, og skýlin urðu að bæjum ef búsetan varð varanleg. Sumir landnemar eiga að hafa varpað öndvegissúlum sínum fyrir borð, þegar þeir sáu landið rísa úr sæ, og numið þar land sem þær rak á fjöru. Þetta er þjóðsaga. A fjörum lágu víðast hrannir af rekaviði, svo að óhugsandi hefur verið að finna þar einstaka rekabúta.
Byggðin á Íslandi hefur hvergi verið mjög þétt. Hvergi er neitt yfirburðahérað, sem skákar öllum öðrum að landkostum. Við skástu landbúnaðarhéruðin hafa náttúruöflin lítt lagt sig fram að hlaða upp sæmilegar hafnir. Landkostir á Islandi buðu höfðingjum hvergi einveldi í heilum landshluta sem hefði hernaðarlega yfirburði yfir aðra. Menn gátu farið í snöggar árásarferðir hvert á land sem var, en til að hersitja héruð skorti matföng. Með tímanum varð hvert hérað yfirleitt háð einum höfðingja, heimamanni að uppruna, en lítið um landvinninga utanheimahéraðs.

Landnám

Landnám.

Á fyrstu öldum byggðarinnar teygði hún sig miklu lengra inn í landið og hærra en síðar varð. Á Mývatnsöræfum suður af Sellandafjalli var búið á 10. öld í um 460 m hæð yfir sjávarmál, og einnig á Hraunþúfuklaustri í 410 m hæð og 20 km norður af Hofsjökli. Á Hrunamannaafrétti (350 m y.s.) og í Þjórsárdal tók af byggð í Heklugosi 1104, en í Hrafnkelsdal á Austurlandi (420 m y.s.) hafði hana eytt nokkru áður.
Margt bendir til þess að fólksfjölgun hafi verið mjög ör á fyrstu áratugum byggðarinnar og landið verið numið á tiltölulega skömmum tíma um 900. Það liggur á mörkum hins byggilega heims, svo að hálendisbyggðin hefur oft orðið skammæ, gróður ekki þolað ágang búfjár og breyst víða í auðn. Sagt er að búsmali hafi snemma leitað til fjalla og fólk fylgt á eftir, en ull hélst betur á fé ofan skógarmarka. Undan vetrarríkinu hörfuðu menn víða aftur niður fyrir láglendismörkin, og meginhluti byggðarinnar hefur ávallt staðið neðan 200 m hæðarlínu.
Á landnámstíð er talið að um 40% landsins hafi verið þakin gróðri, en í dag um 20%. Lætur þá nærri, að á hverjum degi í „íslands þúsund ár“ hafi fimm til sex hektarar gróðurlendis breyst í auðn. Skógar eyddust þó örar en graslendið. Meðan ísland var „viði vaxið á milli fjalls og fjöru“, ætla menn að um 20% landsins hafi verið skógur og kjarrlendi en nú aðeins 1%, og hefur mikið af skóglendinu eyðst á fyrstu öldum byggðar.

Landnám

Landnám.

Margt gat orðið gróðrinum að tjóni: uppblástur (t.d. á Rangárvöllum og víðar), flóð bæði í sjó og vötnum (m.a. á Markarfljótsaurum og undir Eyjafjöllum, Stóraborg), eldgos (Hekla, Skaftáreldar, hraun á Reykjanesskaga o.v.), framhlaup jökla (í Öræfum og norður á Ströndum), skriðuföll (Skriða í Hörgárdal 1390, Skíðastaðaskriða 1545 o.fl.), og jarðskjálftar hafa hrist gróðurþekjuna af bröttum fjöllum. Frumorsök gróðureyðingarinnar hefur þó oftast verið ofbeit og harðindi, sem hafa fylgt miklum hafís við strendur landsins.
Veðráttan hefur ávallt verið dálitlum breytingum háð, og lítils háttar lækkun á meðalhita ársins hefur oft skipt sköpum fyrir afkomu fólks. Margs konar heimildir veita nokkra hugmynd um árferði á liðnum öldum. Vitneskja um hafískomur og hallæri bendir t.d. til kalds loftslags, og frjókorn í jörðu veita upplýsingar um gróðurbreytingar. Þá má styðjast við erlendar rannsóknir, einkum á ískjörnum úr Grænlandsjökli. Allt ber að sama brunni um það að loftslag hafi verið milt fyrstu aldir Íslandsbyggðar, e.t.v. ámóta og það hefur best orðið á 20. öld, en á 12. og 13. öld hafi kólnað tilfinnanlega.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Harðæri hafa jafnan verið tímabundin, og menn hafa keppt að því í búskap sínum að sigrast á þeim, koma sér í góðærum upp birgðum til mögru áranna. Bændur á vildarjörðum björguðust jafnan bærilega, en harðærin fóru í manngreinarálit og léku kotunga hart, og á jaðarsvæðum byggðarinnar var hættast við að fólk félli úr harðrétti.
Bærinn, heimili bóndans, var neyslueining samfélagsins á Íslandi, og mannfjöldi á heimilinu ákvarðaðist að verulegu leyti af stærð jarðarinnar og kostum til kvikfjárræktar, hve stórum bústofni hún gat framfleytt, aðallega af sauðfé og nautgripum. Öll meginhéruð landsins voru svipuðum kostum búin, svo að þar risu alls staðar stórbýli með tilheyrandi leigujörðum. Korn var ræktað með erfiði sunnan lands og vestan og kostaði þyngd sína í smjöri, en kornyrkja hefur þó verið allmikilvæg búgrein í einstökum sveitum og kornið einkum notað til ölgerðar.

Landnámshöfðingjar
Sagnir herma að höfðingjar, sem réðu fyrir traustu liði frænda og bandamanna, hafi staðið fyrir landnáminu. Margir þeirra voru mótaðir af stórbúskap í Noregi, en fóru þaðan af því að tvísýnt var orðið um höfðingsskapinn. Hagsæld þeirra á Íslandi hvíldi á mannafla og landnýtingu. Leigubúskapur hefur að líkindum hafist strax og kvikfé og mannfjöldi leyfði.

Reykjavík

Reykjavík – landnámsbæjarstæðið.

Suðvestanvert Ísland hefur jafnan verið kjarnasvæði til búskapar og stjórnsýslu. Þar fann Ingólfur allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða og tók sér búfestu í Reykjavík. Þar var góð höfn og skipaleið með landi fram sem tengdi byggðina við grannsveitir. Undirlendi var nóg á nesinu, laxár og veiðivötn skammt undan, selalátur og gnægð fiskjar uppi í landsteinum. Eyjar voru fyrir landi til margra hluta nytsamlegar: Viðey og Engey, varpeyjarnar Lundey og Þerney, og Akurey, sjálfvarin fyrir ágangi búfjár, þar sem hægt var að rækta bygg til ölgerðar.
Hvaðan sem landnemarnir voru kynjaðir, voru þeir allir mótaðir af háttum manna á víkingaöld: metnaðarsýki, þrælahaldi og hetjudýrkun, eins og lýst er í Íslendingasögum.

Heimild:
-Íslandssaga til okkar daga, Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Sögufélag, Reykjavík 1991, bls. 17-29.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Ómar Smári Ármannsson

„Félagi minn og FERLIRsfélagi, Ómar Smári Ármannsson, á stórafmæli í dag, 20. ágúst. Hann fæddist á sólríkum föstudegi um miðja síðustu öld. Hann ólst frjáls upp í fjörum Grindavíkur, en lenti í bílsslysi fimm ára gamall þar í miðjum bænum og þurfti að liggja á Landsspítalanum, mjaðmagrindarbrotinn, í u.þ.b. sex mánuði.
Með einstökum dugnaði tókst honum með hækjustuðningi að læra að ganga á ný með undarverðum árangri. Sex ára var hann kominn upp á Þorbjörn án stuðnings.

Klöpp

Gamli Klapparbærinn árið 2020.

Við félagarnir höfum síðustu áratugina gengið um Reykjanesskagann þveran og endilangan – nánast skoðar sérhvern fermetra. Bæði ferðirnar og allar þær merku uppgötvanir sem gerðar hafa verið hafa bæði veitt okkur sem og öllum öðrum meðfylgjandi mikla ánægju. Áður óþekktar uppgötvanirnar á leiðum okkar eru ótæmandi. En þrátt fyrir samveruna, nálægðina, öll þessi árin áttaði ég mig á því að ég þekkti þennan annars stórmerkilega mann bara ekki neitt, sem upplýsti mig um hversu lítillátur hann hefur verið um sjálfan sig í gegnum tíðina. En eftir allmörg viðtöl við systkini, vini, frændur, frænkur og samstarfsfólk í gegnum tíðina kom m.a. eftirfarandi í ljós (hann kemur eflaust til með að afneyta einhverju eða jafnvel öllu).

Ómar

Nemendafélag Flenborgar.

Ómar er fæddur Grindvíkingur og á því ekki langt að sækja dugnaðinn og seigluna, barnabarn Árna í Klöpp, síðar Teigi í Grindavík og Ingveldar frá Þorbjarnarstöðum í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.
Sex ára fluttist hann með systkinum og móður til Hafnarfjarðar og vann þar við blaðaútburð frá 7 ára aldri; bar t.d. út MBL, Alþýðublaðið, Tímann og Þjóðviljann, öll blöðin samtímis, allt til 11 ára aldurs.
Við uppskipun úr togurum starfaði hann á gagnfræðis- og menntaskólaárunum þegar færi gafst frá námi í í Flensborg, auk sumarstarfa hjá Áhaldahúsi Hafnarfjarðabæjar.

Flensborg

Flensborg – Ómar og Palli (Páll Þorleifsson) húsvörður ásamt samnemendum.

Fyrsta hálfa 7. árið árið stundaði hann nám í barnaskóla Lækjarskóla, en fluttist upp í Öldutúnsskóla eftir ármótin þar sem frábærir kennarar tóku á móti honum. Í ellefu ára bekk hallaði undan fæti þar sem honum og kennaranum linnti ekki sem skyldi. Í tólf ára bekk fékk hann nýútkrifðan kennara, sem síðar varð skólastjóri Flataskóla í Garðabæ, með þeim árangri að hann varð efstur í sínum árgangi það árið. Í Gagnfræðiskóla Flensborgar dafnaði drengurinn enn frekar undir góðri leiðsögn, ekki síst húsvarðarins Páls Þorleifssonar. Ómar varð Inspector Scholae mótatkvæðalaust og tilnefndi t.d. sjálfan sig jafnframt sem formaður árshátíðarnefndar það árið – þar sem enginn virtist hafa haft áhuga á að taka starfið af sér. Árshátín tókst með miklum ágætum. Í lok skólaársins ákvað nemendaráðið að ráðstafa tekjum þess í að gefa skólanum nýtt hljóðkerfi í sameiginlegan sal.

Ómar Sári Ármannsson

Ómar að störfum sem Inspector Scholae í Flensborg.

Vorið 1974 sótti Ómar um sem afleysingarmaður hjá Lögreglunni í Reykjavík – daginn eftir stúdentsprófið frá Menntaskólanum í Flensborg (þar sem hann var m.a. Inspector Scholae síðasta árið, ritstjóri skólablaðsins Draupnis og formaður árshátíðarnefndar).
Hann starfaði sumarið eftir sem afleysingamaður í lögreglunni með nokkrum þeim skrautlegsutu karekterum, sem hver og einn nýr starfsmaður gæti ekki annað en lært margt af. Sú saga er saga út af fyrir sig.

Ómar Smári

Ómar Smári, stúdent.

Um haustið sótti Ómar um í lögfræðideild HÍ og sat þar þar hundleiður um veturinn, eða eins og hann sjálfur komst að orði: „Þvílíkt torf (með fullri virðingu fyrir heilbrigðri skynsemi; hlustandi á Gunnar Scram, Guðrúnu Erlendsdóttur og Ólaf Jóhannesson þylja upp lagagreinar framan við auða töflu fulla af annars lítt áhugasömu gapandi fólki um hin ýmsu réttaráhrif íslenskra laga og reglugerða“, auk þess sem verkamannalaun erfiðis sumarsins höfðu ekki einu sinni náð að fjármagna vitleysuna vegna stighækkandi bensínkostnaðar.

Vorið eftir sótti hann um auglýst afleysingastarf hjá Lögreglunni í Reykjavík, og fékk.

Ómar

Ómar á slysavettvangi.

Þann 1. júní árið 1975 byrjaði hann á ný sem afleysingarmaður í lögreglunni í Reykjavík – á næturvakt B-vaktar Magnúsar Magnússonar, aðalvarðstjóra. Magnús var einstakur maður og frábært fólk var þar að störfum. Eftirminnilegasti okkar manni voru þó „allir gamlingarnir er leiddu leiðsögn nýliðanna af fenginni reynslu – milli spila- og skákrauna þeirra á kvöld- og næturvöktum, án þess þó að leggja mikið að mörkum. Nýliðarnir fengu því þess fleiri tækifæri til að læra þess meira af ríkulegri starfsreynslu; önnuðust eftirlitið, fóru í öll útköllin og þurftu að skrifa allar skýrslurnar á margföldum hraða í framhaldinu. Þessu ánægjulega erfiði fylgdi mikil reynsla á skömmum tíma“.

Ómar

Ómar – mynd af umferðarslysavettvangi.

Ómar lét af störfum um haustið, enda til þess ætlast af „afleysingarmönnum“ þess tíma. Vorið eftir sótti hann enn og aftur um sem „sumarafleysingamaður“ í lögreglunni – og fékk.

Hann starfaði sem fastráðinn lögreglumaður í almennu deild Lögreglunnar í Reykjavík frá 1. júní 1976 – þar af m.a. sem starfandi á fjarskiptamiðstöð, síðan í Slysarannsóknardeild um skeið sem og í Umferðardeild, m.a. með þjálfun í Þjóðvegavegaeftirliti allt í kringum landið.

Lögreglan

B-vaktin 1975. Höfðu nóg að gera að nætulagi.

Árið 1979 lauk hann prófi frá Lögregluskóla ríkisins 1979 með hæstu einkunn. (Hann rifjaði eftirfarandi upp í stuttu viðtali: „Man eftir því sérstaklega árið áður, þegar nýráðnum lögreglunemum var gert að fara í Lögregluskólann, að mín var þar hvergi getið. Bankaði upp á hjá Bjarka Elíassyni, þáverandi yfirlögregluþjóni á þriðju hinnar fjarlægu hæðar lögreglustöðvarinnar, og spurði hvers vegna minnar návistar væri ekki getið í skólanum það árið. Hann horfði á mig um stund og spurði undrandi: „Ég hélt bara að þú værir búinn með skólann?!“…

Ómar Smári

Ómar Smári, lögregluþjónn.

Ómar var skipaður lögreglumaður í lögreglu ríkisins 29. febrúar 1980 (í almenn deild Lögreglunnar í Reykjavík. Þar lærðu lögreglumenn meira á einum mánuði en lögreglumenn í öðrum lögregluliðum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, gerðu á einu ári). Þetta var krefjandi, en jafnframt lærdómsríkt, starf fyrir ungan mann. Við erfið aðkallandi úrlausnarverkefni reyndi á lagabókstafinn annars vegar og heilbrigða skynsemi hins vegar; dómgreindin verður aldrei látin í askana. Margar eru sögurnar til af ýmsu, sem aldrei komust á skýrslueyðublöð ritvélanna. Hafa ber í huga að allar lögregluskýrslur þessa tíma voru ritaðar á tvírituð eyðublöð í fingurrituðum ritvélum. Ef slegið var rangt á hnapp þurfti að byrja skýrslugerðina að nýju. Síðar komu rafmagnsritvélarnar til sögunnar með hjálpar-„tippexinu“

Guðmundur Hermannsson

Guðmundur Hermannsson hafði gegnt kennslustarfi slysarannsókna í Lögregluskólanum á árunum 1980-1989. Hann ákvað að fela fyrrum nemanda sínum, Ómari, að taka við þessari menntun lögreglumanna alls landsins, er leið að starfslokum hans.
Kennslan í Lögregluskólanum varð ein sú ánægjulegasta á ferli hlutaðeigandi. Hann starfaði við Lögregluskólann um 12 ára skeið samhliða störfum hans í útkallssdeild Slysarannsókna. Svo vel tókst til við kennsluna að einungis einn nemandi var felldur á lokaprófi, enda ekki starfinu bjóðandi.
Ómar var skipaður rannsóknarlögreglumaður í lögreglu ríkisins 15. mars 1980 (rannsóknardeild Lögreglunnar í Reykjavík). Hann sótti námskeið í Lögregluskóla ríkisins fyrir rannsóknarlögreglumenn í maí 1984, lauk þriggja mánaða námi í lögreglu- og stjórnunarfræðum hjá FBI í Bandaríkjunum í des. 1985.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Meginhluti námsins var stjórnun, afbrotafræði, þjálfun, möguleg kólnun, mikilvæg þátttökuvirkjun og uppbyggileg jákvæðrar viðleytni innan löggæslunnar. Námið var undir leiðsögn Háskólans í Virginiu, prófað var á vegum háskólans og gaf námið 16 eininga til háskólanáms. Lauk náminu með ágætiseinkunn. Námið sem slíkt var einstaklega lærdómsríkt. Þarna var nemendum gefinn gostur á að takast á við erfið viðfangsefni á hinum ýmsu og krefjandi sviðum starfans…

Ómar varð félagi í Evrópudeild FBI-NAA (FBI-National Academy Associates). Hann sótti 12 upprifjunarnámskeið á þess vegum um löggæslumálefni líðandi stundar og framþróun á öllum sviðum löggæslunnar á árunum 1985-2005, auk óteljandi funda með hlutaðeigandi um hin og þessi krefjandi málefni líðandi stundar. Ýmis úrlausnarverkefni komu til framkvæmda í framhaldinu, íslensku samfélagi til heilla.

Lögreglan

Þátttaekendur í ráðstefnu FBI-NA í Reykjavík 1994.

Ómar Smári sá um og annaðist árlega ráðstefnu Evrópudeildar FBI-NA hér á landi 1994. Um var að ræða stærstu samhæfðu löggæsluráðstefnu hér á landi fyrr og síðar. Þátttakendur voru um 160 talsins. Ráðstefnan lukkaðist vonum framar – þrátt fyrir alla erfiðleikana er takast þurfti á við. Ómar hefur jafnan verið fáfróður um hans hlutverk í ráðstefnunni, en þó má lesa á opinberum vefmiðlum stórkostulegar lýsingar, bæði frá aðdraganda ráðstefnunnar og frá ráðstefnunni sjálfri.
Ómar var skipaður aðalvarðstjóri 15. maí 1987 (í Umferðardeild Lögreglunnar í Reykjavík). Hann sótti námskeið í Lögregluskóla ríkisins í radarmælingum í okt. 1987. Hafði þá skömmu áður látið þýða og samhæfa norska kennslubók um „Radarmælingar“ íslenskum aðstæðum í faginu. Sú bók varð lögfræðingum embættisins til mikillar aðstoðar við að fylgja eftir kærum vegna hraðabrota í umferðinni vegna einstakra þrætumála og meðferð þeirra fyrir dómstólum.

Umferðardeild

Umferðardeild.

Ómar var settur aðstoðaryfirlögregluþjónn í eitt ár frá 1. ágúst 1988 (forvarnadeild Lögreglunnar í Reykjavík). Meginviðfangsefni deildarinnar voru almannatengsl, fíkniefnavarnir, áfengisvarnir, barna- og unglingamálefni, slysavarnir, leyfismál og afbrotavarnir. Starfsfólkið náði m.a. með frábæru starfsfólki annarra stofnanna þeim markmiðum í samhæfingu samskiptastofnana (m.a. Barnaverndarstofu) að hækka og lögbinda sjálfræðisaldurinn við 18. ár, koma á, í samvinnu við þá, opinberri ökurferilsskrá og punktakerfi í umferðarlögum, lögðu tímabundið bann á framhaldsskólaskemmtanir vegna sérstaklega slæms ástands, herfilegrar áfengisdrykkju og slagsmála nemenda (með þeim árangri að fundað var alvarlega um efnið og sáttum náð með skriflegu samkomulagi um ásættanlegra fyrirkomulag). Allt framangreint verður að telja árangur út af fyrir sig í annars kerfissnúnu valdakerfi ríkisins.

Omar

Arnþór Ingólfsson, aðstoðaryfirlögregluþjón og Ómar ásamt félögum þeirra í umferðardeild LR.

Fölmiðlar voru andsnúnir nýjum hugmyndum í þá daga, líkt og nú. Lögreglu tókst þó að samræma mikilvægustu viðhorfin er fólust m.a. í því að það væri þeim, líkt og lögreglunni, í hag að upplýsingastreymið væri hið áríðanlegasta. Í kjölfarið birti Morgunblaðið lengi vel „Dagbók lögreglunnar“, sem síðar varð almenn að kröfu annarra fjölmiðla. Alla tíð eftir það voru samskipti lögreglu og fjölmiðlafólks byggð á gagnkvæmum skilningi. Samskiptin fólust m.a. í reglulegum fundum hlutaðeigandi, sem skipti verumáli í ljósi tíðarandans.

Breiðholt

Lögreglan opnaði fyrst lögreglustöð í Eddufelli, síðan í Drafnarfelli og loks í Mjódd með það að markmiði að upphefja óeðlilegt ástand í hverfinu.

Upp komu t.d. sérstaklega slæmt unglingavandamál í efra Breiðholti og víðar. Lögreglan kallaði til fulltrúa félagasmála- skóla- og verslunarsamtaka á svæðinum. Viðkomandi voru krafnir upplýsinga um hvaða einstaklinga væri að ræða. Allir aðilar báru fyrir sig þagnarskyldu. Á þeim fundi lagði lögreglan hins vegar fram handskrifaðan lista og spurði – kannist þið við þessa einstaklinga? Í ljós kom að allir framangreindir voru að fást við sama vandamálið – tiltölulega fáa tiltekna einstaklinga. Viðbrögð lögreglunnar voru eftirfarandi; „ef þið komið í alvöru að vinnunni um að uppræta vandamálið munum við opna lögreglustöð í Eddufelli og fylgja eftir lausninni„. Dæmið gekk upp með áþreifanlegum árangri – þökk sé hinum frábæru lögreglumönnum, sem valdir voru til verkefnisins.

Lögreglan

Hluti B-vaktar Lögreglunnar í Reykjavík 1979.

Forvarnardeildinni hjá LR var síðar breytt eftir að Ómar hafði látið þar af störfum og loks aflögð með öllu – illu heilli…
Áður höfðu verið stofnuð hverfa- og íbúasamtök er fylgdu eftir nauðsynlegri eftirfylgni með tilvist foreldraröltsins í hverfum borgarinnar. Lögreglan gengdi þar lykilhlutverki í frábærrri samvinnu við stjórnendur í hverfunum. Hægt væri að segja margar sögur af dugnaði fólksins, er að verkefninu kom.
Við  enn nánari eftirgrennslan kom m.a. eftirfarandi í ljós varðandi framhaldið:
Ómar sótti „námskeið“ í Lögregluskóla ríkisins fyrir yfirmenn í lögreglu í febrúar 1988. Hann lét hafa eftir sér að „Námskeiðið hafi verið ágætt – svona út af fyri sig“.
Hann var félagi í IXCPP (Ineternational Society of Crime Prevention Practitioners) árið 1989. Námskeið í vettvangsstjórunun hjá Almannavörnum ríksins með réttindi vettvangsstjóra árið 1990 og sótti námskeið í stjórnun á vegum embættis lögreglustjóra árið 1993.

Ómar

Ómar ásamt félögum við útskrift.

Ómar var skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglu ríkisins 1. september 1989 (í forvarnadeild og 1. júlí 1997 og í rannsóknardeild embættisins eftir að það hafði verið sameinað LRH (Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eftir að Rannsóknarlögregla ríkisins hafði formlega verið lögð undir embætti. Segja má að Ómar hafi átt einna stærstan þátt í þeirri skipulagsbreytingu). Í kjölfarið var bæði einstökum lögregluembættum sem og Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu falið að rannsaka og upplýsa öll stærri afbrot – með umtalsverðum árangri. Mikill fjöldi ránsmála fylgdi t.d. í kjölfarið á höfuðborgarsvæðinu, en starfsfólkinu tókst með mikilli elju að upplýsa nánast hver og einasta.

VíðistaðirÓmar sótti námskeið hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í maí 1995 um stjórnun. Var staðgengill yfirlögregluþjóns rannsóknardeildar frá 1. júlí 1997 til 2007. Skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn við nýtt lögreglustjóraembætti vegna skipulagsbreytinga á höfuðborgarsvæðinu frá 1. janúar 2007, og þá sem stjórnandi rannsóknardeildar embættisins, fyrst sem stjórnandi auðgunarbrotadeildar en síðar sem stjórnandi allra deilda. Á þeim tíma komu m.a. upp nokkur manndrápsmál, er öll voru leyst farsællega.
Síðar varð hann gerður að stöðvarstjóra vegna nýtilkominna skipulagsbreytinga á Stöð-5 (Aðalstöð), stöðvarstjóri á Stöð-3 (Kópavogi) (og jafnframt stöðvarstjóri á Stöð-2 (Hafnarfirði) um 1. og ½ árs skeið) frá árinu 2007 og síðar aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar LRH frá árinu 2014 – eftir að hafa gefið eftir sviðið fyrir komandi yfirlögregluþjón.

Ómar

Ómar Smári á einni ráðstefnunni af mörgum.

Ómar sótti námskeið um árangursstjórnun í Lögregluskólanum á vegum fjármálaráðuneytisins 17. okt. 2000, var formaður öryggisnefndar rannsóknardeildar embættis lögreglustjórans í Reykjavík 1999-2001 og formaður starfsmannaráðs embættis lögreglustjórans í Reykjavík 2000-2002, stundaði og lauk stjórnunarnámi fyrir yfirmenn í lögreglunni á vegum Lögregluskólans og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands í sept. 2003 og í júní 2004.

Maðurinn var nokkuð áberandi í fjölmiðlum um tíma. Samskipti við fjölmiðla voru í gegnum tíðina stór hluti af störfum hans, hvort sem var á vettvangi atburða eða í eftiráskýringum þeirra. Á löngum starfsferli bar ekki skugga þar á – svo orð sé á gerandi, heldur þvert á móti.

Ómar

Ómar

Eftir að forvarnardeildin var stofnuð þótti öðrum stjórnendum þægilegt að geta vísað spurningum blaða- eða fréttamann til hennar. Innkoman á þann vettvang kom því ekki til af engu. Honum fannst bæði sjálfsagt og eðlilegt að einhver svaraði fyrirspurnum f.h. embættisins. Hafa ber í huga að fyrirspyrjendur einstakra fjölmiðla voru jú einungis að reyna að sinna vinnunni sinni, þ.e. að upplýsa almenning um málavexti hverju sinni. Þetta samstarf reyndi á stundum á traust og skilning af beggja hálfu.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Þótt mörgum hafi, í miðri orrahríðinni, þótt ágengni fjölmiðlanna full ágeng og óþægileg, var hann jafnan á annarri skoðun. „Okkar hlutverk er mikilvægt, en þeirra hlutverk er ekki síður mikilvægt“, var eftir honum haft.
„Ég átti jafnan mjög gott samstarf við aðra og var, að eigin mati, vonandi, almennt vel liðinn í gegnum tíðina, bæði af vinum og öðrum, sem síðar, jafnvel eftir nokkrar þrætur, urðum vinir, enda jafnan haft að leiðarljósi að koma með sanngjörnum hætti fram við aðra líkt og þeir eiga skilið – þannig þeir fengju að njóta sín af eigin verðleikum.

Omar

Frétt frá fundi Ómars og Sniglanna 1988. Sjá  https://tianbifhjolaklubbur.blogspot.com/1988/07/fundur-logreglunnar-og-sniglanna.html

Bifhjólasamtökum Sniglanna var t.d. uppsigað við lögregluna um tíma, en eftir að ég fékk að mæta á almennan félagsfund þeirra eitt kvöldið, skiptast á skoðunum og rífast með orðum sem varla gætu átt heima á prenti varð niðurstaðan sú að við, bifhjólasamtökin og lögreglan, tækjum höndum saman í baráttunni við fækkun slysa í umferðinni. Það var síðan gert með eftirminnilegum hætti. Í kjölfarið var mér sá sómi sýndur að verða gerður að heiðursfélaga í Sniglunum nr. 900. Mér hefur jafnan þótt vænt um viðurkenninguna enda áttum við og stjórnarmeðlimir samtakanna jafnan hið ágætasta samstarf um margra ára skeið.“

Ráðandi dómsmálaráðherrar voru ekki alltaf par hrifnir af „skýringum lögreglu“ á einstökum viðfangsefnum því stundum skaraðist heilbrigð skynsemi og pólitík í daglegri umfjöllun álitamála. Ómar lagði t.d. áherslu á að lögregluyfirvaldið ætti allt heima hjá staðarlögreglu er byggi yfir bæði staðbundinni og yfirgripsmikilli þekkingu í stað stofnana úti bæ, ætti auðveldara með að bregðast við staðbundnum ógnunum o.s.frv. Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem varð síðar lögð niður sem slík og sameinuð starfsstöðvuum einstakra lögreglustöðva.

Hafnarjörður

Hafnarfjörður – pólitík

Ómar tók um tíma þátt í pólitísku starfi innan bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. „Já, það er rétt. Frumkvæðið var reyndar ekki mitt. Til mín leituðu fyrrum skólafélagar og kennari úr menntaskólanum í Flensborg, Ingvar Viktorsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Tryggvi Harðarsson.

Hafnarfjörður

Kosningasigur 1990.

Guðmundur Árni var þá orðinn potturinn og pannan í starfi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Áður hafði Árni Gunnlaugsson boðið Ómari að vera ofarlega á framboðslista Óháðra borgara í bænum. Flokkur hans náði ágætum árangri. Málið var að Árni hafði stutt móður hans á erfiðleikaárum hennar og  taldi sig eiga honum gjöld að gjalda. Þá höfðu fulltrúar Alþýðuflokksins, bæði í bæjarstjórn og í nefndum og ráðum, lagt sig fram við að styðja við bakið á öllum þeim er minna máttu sín í bæjarfélaginu. „Hvernig var hægt að hafna slíkum beiðnum fyrrum skólafélaga og velgjörðarfólks er höfðu slík gjöfug markmið?“ að sögn Ómar.

Ómar

Sigurlisti Alþýðuflokksins 1994.

Það var mikill uppgangur í bænum á þessum tíma.
Ómari var falið að veita formennsku í nokkrum nefndum og ráðum, s.s. vímuvarnarnefnd, umferðarnefnd, félagsmálaráði, nefn Stætós, menningarmálanefnd sem og afmælisnefnd bæjarins. Þetta var lærdómsríkur tími. Lærdómurinn fólst m.a. í því að virða skoðanir allra þeirra er voru öndverðum meiði til jafns við skoðanir samflokksfólks.

Á starfstímanum í lögreglunni stundaði Ómar nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands á árunum 2004-2007 og lauk því með BA-gráðu.
Árið 2007 stofnaði okkar maður eitt merkasta afrek sitt; gönguhópinn FERLIR („Fe“ stóð fyrir ferðahóp, „RL“ stóð fyrir Rannsóknardeild Lögreglunnar, „i“ stóð fyrir í og „R“ stóð fyrir Reykjavík.Tilgangur hópsins var á þeim tíma langt á undan sinni samtíð; þ.a. að drífa áhugasamt starfsfólk út af skrifstofunum út í umhverfið allt umleikis með öllum þeim óteljandi möguleikum sem það hefur upp á að bjóða.
Afurðin varð með mikilli fyrirhöfn að stofnun og viðhald vefsíðunnar www.ferlir.is er einbeitt hefur sér að sögu, minjum, náttúru og margbreytileika Reykjanesskagans.

Omar

Ómar – við útskriftina í Háskóla Íslands.

Ómar var um tíma formaður Félags yfirlögregluþjóna, í stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur, í ritstjórn Lögreglumannsins og ritstjóri Lögreglublaðsins, auk þess sem hann hafði í millitíðinni starfað í mörgum nefndum fyrir hönd lögreglunnar og bæjarfélags sitt, Hafnarfjörð. Hann hefur m.a. átt sæti í nefndum og verkefnahópum vegna starfs, s.s. samstarfsnefnd um lögreglumálefni, verkefnastjórn dómsmálaráðuneytsins í vímuvörnum og Slysavarnarráði Íslands. Þá hefur hann tekið þátt í fjölmörgum fundum og ráðstefnum um löggæslumálefni, bæði hér á landi og erlendis í gegnum tíðina.

Strandarkirkja

Vígsla örnefna- og minjakort af Selvogi við Strandarkirkju. FERLIR gaf kirkjunni skiltið.

Ómar lauk starfsævinni innan lögreglunnar á föstudegi með því að afhenda verðugum arftaka axlarspælana sína, skömmu eftir hádegi í lok júlímánaðar, faðmaði hann, óskaði honum góðrar framtíðar og beygði af leið.
Ágústmánuðurinn var framundan. Síðan hefur hann ekki heimsótt starfstöðvarnar. Hann lét þó hafa eftirfarandi eftir sér: „Ég hef síðan ekki heimsótt gömlu ástkæru starfsstöðina við Hverfisgötu sem og aðrar síðan (eftir að hafa, reynslumikinn starfsmanninn, verið „aflífaður“, bara hent út sem si svona, kominn á tíma, einungis vegna þess að tilteknum aldursmörkum hafði verið náð – skv. óréttlátu lagaákvæði!?)“. Stórnvöld hafa hingað til brugðist eldra fólki. Allir þurfa að eiga möguleika til vinnu, með einum eða öðrum hætti. Þegar að lögbundum starfslokum kemur þurfa vinnuveitandi og atvinnurekandi að staldra við og semja um tímabundið vinnuframlag þar sem metin er heilsa og reynsla viðkomandi hverju sinni. Allt of mörgu ágætisfólki með mikla starfsgetu hefur hingað til verið hent fyrir arnstapann, að óskerju.“
Ef lýsa ætti mannkostum þessa mikla auðlings myndi vefsíðan öll varla duga til.
Takk fyrir samveruna öll þessi ár, kæri vinur og til hamingu með afmælið – Vinur og ferðafélagi.

Ómar

Ómar – mynd af umferðarslysavettvangi.

FEELIR

Föstudaginn 1. maí árið 2020 varð FERLIR tuttugu og eins árs. Þennan dag fyrir jafnmörgum árum hittust nokkrir starfsfélagar í Lögreglunni í Reykjavík við Kaldársel. Ætlunin var að skoða nærumhverfið með tillliti til sögu svæðisins, minjar og náttúru þess; hvort sem varðaði flóru eða fánu. Jafnframt var takmarkið að nýta áhugavert svæði, Reykjanesskagann (fyrrum landnám Ingólfs) til hreyfingar og útivistar, ekki síst sem tilbreytingu frá hinu daglega amstri vinnunnar.
Selvogs-Jói mætti þá við öllu búinn (sjá opnumynd) að teknu tilliti til áður birtrar auglýsingar um fyrirhugaða ferð; „ætlunin er m.a. að feta yfir læki, kafa í hella og fara á fjöll“

Hver FERLIRFERLIRsferðin rak síðan  aðra í framhaldinu. Í dag eru þær orðnar fleiri en sex þúsund talsins – með hlutfallslega miklum uppsöfnuðum fróðleik, að ekki sé talað um öll hreyfingarígildin (lýðheilsugildin).

Fljótlega var FERLIRsvefnum komið á fót, í árdaga allra vefsíðugerða. Til þess fékkst styrkur til kaupa á fartölvu frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans til að vinna texta, myndir og birta. Alla tíð síðan hafa öll sveitarfélögin í fyrrum landnámi Ingólfs, utan Grafningshrepps, auk einstakra fyrirtækja, stutt viðhald vefsíðunnar (þ.e. greitt tilfallandi hýsingargjöldin frá ári til árs). Þeim hefur á móti staðið til boða að nota allt efni hennar þegnum sínum að kostnaðarlausu, hvort sem um er að ræða í leik eða starfi. Það á jafnframt við um alla aðra er áhuga hafa á útivist og vilja fræðast um fólkið er byggt hefur landssvæðið fram til þessa.

Á þessu tímabili hefur reynst nauðsynlegt vegna tækniframfara og hýsingarkrafna að uppfæra vefsíðuna þrisvar sinnum, nú síðast með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar. Vandinn hefur jafnan falist í að nýta eldra uppsafnað efni og aðlaga það að breyttum breytanda. Hingað til hefur tekist að yfirstíga slíka erfiðleika, þökk sé hæfileikaríku tæknifólki…

Vonandi mun áhugasömu fólki um svæðið nýtast innihald vefsíðunnar til langrar framtíðar.

HÉR má sjá nokkrar ljósmyndir frá fyrstu FERLIRsferðunum…

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

Kind

Á vefsíðunni hefur af og til verið fjallað um einstaka staði, minjar eða minjasvæði á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs).

Umleitun

Tilgangurinn með umfjölluninni er hefur m.a. verið að fá viðbrögð fólks, sem hugsanlega kann að búa yfir vitneskju um hvorutveggja – og jafnvel ýmislegt umfram það. Með því hefur verið hægt að safna bæði ábyggilegum og áður óþekktum upplýsingum um sérhvert umfjöllunarefni. Hafa ber í huga að einstakir staðir hafa í gegnum tíðina verið nefndir fleiru en einu nafni og jafnvel þótt sumir telji það nafn, sem þeir þekkja, vera hið eina rétta, kann raunin að vera bæði önnur og hvorutveggja. Upplýsingar geta því stundum orðið misvísandi, en þó ávallt upplýsandi. Orð geta verið stafsett með mismunandi hætti. Óbrinnishólahraun hefur t.a.m. verið ritað sem „Óbrennishólahraun“ og „Óbrynnishólahraun“. Þá þarf stundum bara að láta reyna á hvað kann að vera líklegast og réttast þótt nafnið sjálft geti í raun verið aukaatriði í öllu því, sem það hefur upp á að bjóða. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir, sem búa yfir upplýsingum um efnið, láti í sér heyra – þótt ekki sé fyrir annað en að fá „hugskeyti“ frá fólki er veit um staði, sem öðrum eru nú gleymdir, en því þykir sérstaklega áhugaverðir.

VitneskjaFERLIR hefur þegar skoðað og safnað upplýsingum um 440 sel eða selstöður á Reykjanesskaganum, yfir 90 fjárborgir, um 180 brunna og vatnsstæði, um 240 gamlar leiðir, 90 hlaðnar refagildrur, um 660 hella, skúta og fjárskjól, um 80 letursteina, um 90 hlaðnar réttir, um 25 skotbyrgi, um 230 sæluhús og sögulegar tóttir, um 25 hlaðnar vegavinnubúðir, um 190 sögulegar vörður auk vara, nausta, grenja o.fl. o.fl. o.fl. o.fl. á svæðinu. Margt hefur og uppgötvast við eftirgrennslan og skipulegar leitir. Allt myndar þetta heildir búskapar- og atvinnusögu svæðisins. Miklar upplýsingar hafa fengist frá áhugasömu og margfróðu fólki á Reykjanesi, sem hefur skráð, gefið út og/eða þekkir til staðanna. Er því sérstaklega þakkaður skilningurinn og alúðin við miðlun efnis. Þessa fólks verður alls getið ef og þegar „Bókin mikla – Reykjanesskinna“ kemur út.
Ef áhugasamir lesendur telja sig enn búa yfir upplýsingum um einstaka staði, sem ástæða er til að skoða, varðveita og skrá, eru þeir beðnir að hafa samband við netfangið ferlir@ferlir.is.
Handan

Ferlir

2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.

FERLIR-100 – Ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

FERLIR-200 – Ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).

FERLIR-300 – Í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið “ af „skráningarskyldum“ minjum.

Húshólmi

Boðið upp á veitingar í Húshólma.

FERLIR-400 – Skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.

FERLIR-500 – Þrátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.

Njarðvíkursel

Innri-Njarðvíkursel.

FERLIR-600 – Ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.

FERLIR-700 – Minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð.

Grindavíkurvegur

Byrgi vegavinnumanna við Grindavíkurveg.

Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að „opinbera“ minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri „opinberun“, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).

Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2021. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3000 talsins…

Ferlir

Ferlir á ferð í Selvogi.

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess„, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs:

Ritun Landnámu

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1067/1068 – 1148).

Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.

Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á Íslandi.

Víkingaskip

Farkostur landnámsmanna.

Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á Íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.

Hauksbók

Hauksbók á sýningu í gamla Landsbókasafninu.

Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, Hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.

Styrmisbók

Styrmisbók.

Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“.
LandnámÞessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Sjá meira um landnám Ingólfs HÉR.

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé við erfiðar aðstæður.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast.

Landnám

Við upphaf landnáms.

Landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarli, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hrolleifur bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.

Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.

Stardalur

Stardalur – fyrrum bæjarstæði Múla?

Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.

Esjuberg

Esjuberg.

Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.

Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.

Eilífsdalur

Eilífsdalur.

Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.

Brynjudalur

Brynjudalur – tóftir Múla?.

Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ekki í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.

Steinröðarstaðir

Steinröðarstaðir.

Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25).

Skálholt

Skálholt – teikning; Kalund.

Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að;
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
ÞingnesHér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Landnám

Í „Landnámu“ er greinargóð lýsing á landnámi Ingólfs – hins fyrsta norræna landnámsmanns.

Landnám

Landnám Íslands – póstkkort Samúels Eggertssonar.

Samkvæmt henni ræður Ölfusá og Sogið að suðaustan og austanverðu, þá Ölfusvatn, sem síðar nefndist Þingvallavatn, þá Öxará. Öxará rennur milli Búrfells og Súlna og fellur úr Myrkravatni, sem er skammt norður af Búrfelli. Norðaustur af Myrkravatni er Sandvatn, vestan undir Súlum, en úr því fellur Brynjudalsá, og ræður hún takmörkum landnáms, en síðan Hvalfjörður og þá haf allt að vestan og sunnan til mynnis Ölfusár.

Landnám

Landnámið.

Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, var hinn fyrsta vetur með honum eftir að hún kom til landsins. Þá hún síðan af honum Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum í staðinn heklu flekkótta og vildi þá kalla, að hún hefði keypt landið svo að síður væri hætta á að rift væri gjöfinni. Land það, er Steinunn eignaðist, var afar víðáttumikið, náði frá Ósabotnum yfir allt Rosmhvalanesi, Miðnes, Garðskaga, Njarðvík og alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eflaust hefur hún búið suður á Rosmhvalanesi, líklega á Gufuskálum, því alla Vatnsleysuströndina gaf hún aftur úr landi sínu.

Landnám

Landnám Ingólfs á Reykjanesskaga.

Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíguvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi. Hrollleifur í Heiðabæ kúgaði Eyvind til þess að hafa við sig landaskipti. Fluttist Hrollleifur þá suður í Kvíguvoga og bjó þar síðan, en Eyvindur bjó nokkra vetur í Heiðabæ og fór síðan suður á Rosmhvalanes til Bæjarskerja.
Sagnir eru og af fleiri landnámsmönnum er fengu af upprunalegu landi Ingólfs.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur son hans bjó að Vogi.
Molda-Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

Skarðsbók

Skarðsbók Landnámu.

Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.
Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.
Herjólfur hét maður Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfur land á milli vogs og Reykjaness.

Sjá meira um landnám Ingólfs HÉR.

-Landnáma – Sturlubók.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Stardalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn Reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin ellefu í Stardal og nágrenni:

Stardalur – Selstöður sunnan undir Svínaskarði (Stardal)

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Sunnan undir Svínaskarði á jörðunum Stardal, Sámsstöðum og Hrafnhólum var höfð selstaða frá ellefu bæjum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls sem sjá má í töflu 1. Selstöður gætu hafa verið fleiri því á svæðinu er að finna mikið og gott beitiland. Bærinn Stardalur stendur við mynni samnefnds dals, norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Sámstaðir eru um 1,5 km neðar með Leirvogsá neðan við klettabeltinu Stiftamt. Hrafnhólar eru svo um 2,5 km neðar einnig norðan við Leirvogsá sunnan undir Haukafjöllum á móts við Skeggjastaði uppá hól, en bærinn stóð áður aðeins ofar með ánni undir brekkunum.

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Heimildir eru um 11 selstöður bæja undir Svínaskarði en flestir voru í Mosfellssveit eða 7 talsins og 4 í Kjalarneshrepp. Árið 2010 tilheyra 7 af þessum bæjum Reykjavík, en 4 í Mosfellsbæ eins og sjá má í töflu 5. Af þeim 11 selstöðum sem heimildir eru fyrir eru nú aðeins þrjár sjáanlegar og fylgja þeim enn örnefni bæjanna sem nýttu þau, en þetta eru Þerneyjarsel, Varmársel og Esjubergssel.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur var framan af í eigu Brautarholtskirkju og Þerneyjarkirkju. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal. Í máldaga Þerneyjarkirkju til ársins 1269 segir að kirkjan eigi helming í selför í Stardal og afrétt. Samkvæmt Jarðabókinni var Stardalur ekki byggður fyrr en um 1674 en þar segir; „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram. Sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið.“… „Hitter almennilega kunnugt úngum og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“ Árið 1704 er Stardalur í konungs og tveir ábúendur eru á jörðinni.“

Sámsstaðir

Bærinn Sámsstaðir í Stardal – byggðist upp úr fyrrum selstöðu.

Hrafnhólar voru líka eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls er gerð og þar er jörðin nefnd „…Hafnhoolar, sumir kalla Hafnabjörg, og segja það nafn eldra.” Þá er jörðin sögð forn eyðijörð og veit engin hversu lengi þar til sextán árum áður að byggður var nýr bær fram á fardaga 1703 að jörðin lagðist aftur í eyði. Jörðin var í konungseign þegar Jarðabókin var gerð sumarið 1704 og dýrleiki hennar óviss.

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð á milli Hrafnhóla og Stardals sem heyrir nú undir Stardal. Við gerð Jarðarbókarinnar 1704 voru Sámsstaðir eign konungs og brúka ábúendur konungsjarða alla grasnaut og talað er um eina selstöðu á jörðinni Esjubergssel.

Blikastaðir standa á láglendu mýrlendi skammt norðan Lágafellshamra, austan við Korpúlfsstaðaá, sunnan við Leiruvoga á móti Víðinesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjuberg stendur á skriðuvæng uppi undir rótum Esju og uppaf bænum er Gljúfurdalur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Í Jarðabókinni kemur einnig fram þar sem fjallað er um Sámstaði að Esjubergssel var talið í landi þeirra ….„sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa,…“. En Sámsstaðir var talin forn eyðijörð sem engin vissi hver hafði verið eigandi að og konungur hafði eignað sér og nýtt „…um langa æfi…“.

Þerneyjarsel - uppdráttur

Þerneyjarsel – uppdráttur.

Gufunes stendur skammt vestan við bæinn Eiði á litlu flatlendu nesi á milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Gufuness er getið í Landnámu og virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð. Þar var komin kirkja um 1150 og var þar til 1886 þegar hún var lögð niður. Gufunes varð eign Viðeyjarklausturs eftir 1313 og varð konungseign við siðaskipti. Gufunes var keypt af bæjarsjóð Reykjavíkur árið 1924 ásamt Eiði, Knútskoti og Geldinganesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Helgafell stendur undir útsuðurhorni Helgafells. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmársel

Varmársel – uppdráttur.

Korpúlfsstaðir standa á sléttum melum skammt í suðvestur frá Blikastöðum, vestan við Korpúlfsstaðaá. Korpúlfstaða er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Þeir voru sjálfstæð jörð árið 1234, þá orðnir eign Viðeyjarklausturs, og urðu konungseign um siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lambhagi er jörð suðvestan undir rótum Hamrahlíðar, austan við Korpúlfsá þar sem hún fellur í bug og fer að stefna norður. Lambhagi hefur orðið eign Viðeyjarklausturs á tímabilinu 1378-1395 og konungseign við siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lágafell stendur vestan undir Lágafelli. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur.

Móar standa á flatlendi neðan þjóðvegar, sunnan frá Esjubergi nær sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur hjeðan brúkast hjá Esjubergsseli og vita menn ei hvort að láni Esjubergsmanna eður eign þessarar jarðar.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmá stóð skammt í vestur frá Helgafelli, vestan Varmár, skammt í landsuður upp frá Leiruvogum, austan við núverandi Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Í Jarðabókinni er ekki getið um sel eða selstöðu en erþess getið í Örnefnalýsingu fyrir Stardal; „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Skrauthólar

Skrauthólar 1909 – herforingjaráðskort.

Skrauthólar standa hátt nálægt Esju, austan Vallár. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða er, hefur hjeðan lengi brúkuð verið frí þar sem heitir undir Haukafjöllum, nálægt Hrafnhólum.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Þerney er í vestur frá Álfsnesi ekki stór en grasivaxin. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Máldagi kirkjunnar í Þerney með sundum í Kjalarnesþingi, sem Magnús biskup Gissurarson setti um 1220 segir svo; „Kirkia a at helmingi selfor j Stardal ok sva afreit. Ok sva þess hlutar fiorv j krossa vik er þerney fylger, halft þriðia kvgilldi bvfiar.“ Í máldaga Þerneyjarkirkju sem Árni biskup Þorláksson setti haustið 1269 segir; „Kirkia a helming j selfor j Starrdal: og svo afret.“

Stardalur

Sel við Stardal og nágrenni.

Af þessum máldögum og síðar má sjá að ekki hefur verið búið í Stardal fyrrum.

Á þessu landsvæði sunnan undir Svínaskarði eru nú þrjár sýnilegar selstöður. Tvær þeirra Varmársel og Þerneyjarsel eru norðan við Leirvogsá austan við Tröllalágar. Esjubergssel er töluvert ofar og nær Svínaskarði á rana út frá Skopru sem gengur útí Esjubergsflóa. Tóftirnar eru allar grasi og mosavaxnar.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum.
Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 15-19.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sléttuhlíð

Í deiluskipulagi fyrir Sléttuhlíð, frístundabyggð ofan Hafnarfjarðar, frá árinu 2023, segir m.a. um sumarbústaðabyggðina undir hlíðinni:

Hamarskotshellir

Hamarskotsselshellir.

„Svæðið er Sléttuhlíð sem er við Setberg-Hamarkot, í Hafnarfirði. Í kringum 1553 er ritað um jörðina Hamarskot í fógetareikningum. Árið 1579 eru landamerkjadeilur á milli Hamarkots og Setbergs. Í Jarðarbók frá árinu 1703 er Garðakirkja eigandi að Sléttuhlíð og selstöð sem heitir Hamarkotssel og helli sem heitir Kethellir. Hafnarfjarðarbær keypti jörðina Hamarkotstún árið 1912.
Sumarið 1926 úthlutaði fasteignanefnd Hafnarfjarðar fyrstu lóðunum fyrir sumarbústað á svæðinu, þeim Jóni G. Vigfússyni og Magnúsi Böðvarssyni.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon (1892-1980).

Um svipað leyti hófst skógrækt á svæðinu. Með þessu hófst skógrækt og uppgræðsla í hlíðunum sem var að miklu leyti ógróin þegar fyrstu bústaðirnir risu, en eitthvað var um kjarrlendi í hraunhvammi í norðurenda hlíðarinnar. Árið 1941 voru girðingar settar upp sem hjálpuðu mikið til við uppvöxt gróðurs þar sem fjárbeit var enn almenn.
Kringum 1940 fjölgaði eftirspurn eftir landi fyrir sumarhús og var þá úthlutað nokkrum lóðum. Árið 1950 bættust einnig nokkur sumarhús við eftir að vatsnveitan var leidd í stokk.
Á svæðinu er einnig að finna gróðurspildur, kallaðar Landnemaspildur sem hefur verið úthlutað til einstaklinga eða félagasamtaka sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur haft umsjón með.
Þar hefur í áranna rás vaxið upp myndarlegt skógræktarsvæði. Landnemaspildum var fyrst úhlutað árið 1979 og svo aftur um 1990. Auk þess hefur mikið verið plantað í Gráhelluhrauni.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – hlið að bústað Jóns Gests.

Svæðið samanstendur af láglendu, hraunyfirborði og hlíðum, hlíðarnar mynda einskonar skeifu sem snýr á móti suðri. Láglendið er hraun, Selhraun sem er eldri en 4000 ára, mosavaxið með gjallkarga á yfirborði. Hlíðarnar eru víðast hvar aflíðandi og voru mestallar set sem hafði að geyma óhulið berg og þurrlendisjarðveg. Á svæðinu er að finna jarðmyndanir eins og hrauntraðir og jökulrákir. Svæðið liggur á bilinu 50-100 m.y.s. Hæðstu toppar Sléttuhlíða eru 96 m og 110 m.y.s. Grunnvatnshæðin við Sléttuhlíð er um 60 m.y.s.

Mikið hefur verið gróðursett á svæðinu af skógarplöntum og setur það mikinn svip á ásýnd svæðisins.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests 20225.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur úthlutað landnemaspildum til skógræktar og ásamt því hafa sumahúsaeigendur gróðursett mikið á svæðinu. Í dag er að finna á svæðinu dæmigerða skógrækt frá 1930-1980 og notaðar hafa verið tegundir eins og; sitkagreni, blágreni, stafafura, bergfura, lerki og birki. Trén dafna vel og eru orðin um 10-15 m há.

Landnemaspildum var úthlutað fyrst 1979 til 20 ára í senn, eftir þann tíma var möguleiki á að endurnýja samning til 20 ára í viðbót. Samkvæmt samningum er öll mannvirkjagerð bönnuð á úthlutaðri spildu og er svæðið ætlað til útivistar og skógræktar. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í umboði Hafnarfjarðarbæjar hefur haft umsjón með landnemaspildum. Á svæðinu eru um áætlaðar um 60 spildur, stærðir eru frá 6500-115.000 m2.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða.

Söguminjar er að finna í jaðri svæðisins til norðurs, suðurs og ofan á hlíðunum. Um er að ræða vörður, sel, stekki og gönguleiðir sem tengjast fjárbúskap fyrri tíma. Engar minjar eru í Sléttuhlíðinni sjálfri. Minjarnar sem er að finna á svæðinu eru ekki friðlýstar. Þjóðleiðin Selvogsgata er staðsett að hluta til innan svæðisins og einnig eru þar nokkrar aðrar minniháttar leiðir sem notaðar voru á fyrri tímum.“

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er minningagrein um Jón Gest Vigfússon, rituð af Hákoni Bjarnasyni. Í henni segir m.a.:

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns gests 2025.

„Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 kom það í hans hlut að verða ritari félagsins fyrstu 10 árin. Mun ekkert skógræktarfélag landsins eiga jafn greinagóðar og vel ritaðar fundargerðir sem þær, er Jón Gestur færði með sinni fögru rithönd. Síðar gegndi hann formannsstörfum í félaginu um tveggja ára skeið, en úr stjórn gekk hann 1964.
Það var ekki að ófyrirsynju að Jón Gestur var með í félagsstjórninni frá upphafi. Um 1935 fékk hann stórt land til ræktunar í Sléttuhlíð, um 5 km veg austur af bænum. Landið var ekki álitlegt við fyrstu sýn, óræktarmóar og grágrýtisklappir í hlíðinni, en þrautnagaðar valllendisgrundir við hlíðarræturnar.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð skilti á bústað Jóns Gests og eiginkonu.

En þar voru samhent hjón að verki ásamt stórum barnahópi, sem breyttu þessu landi í gróðursælan unaðsreit þar sem þau dvöldu allar stundir, sem fært var. Eitt sinn er ég kom til Jóns Gests og við gengum um landið sagði hann við mig eitthvað á þessa leið: „Ég kæri mig ekki um stærra land, en ég vil sýna mönnum hvað gera má án allt of mikillar fyrirhafnar svo að þetta megi verða öðrum fordæmi. Jón Gestur fann ekki til fyrirhafnarinnar, sem hefur verið ærin, í gleði sinni yfir því að hafa slíkt land undir höndum. Þau voru orðin ærið mörg sporin hans úr Hafnarfirði í Sléttuhlíð áður en sæmilegur vegur náði þangað. Á þessum stað má nú sjá hvernig allt umhverfi Hafnarfjarðar gæti litið út, ef bæjarbúar og bæjarstjórn vildu feta í fótspor hans.“

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests.

Í Morgunblaðinu 1980 er jafnframt minningargrein Ólafs Vilhjálmssonar um Jón Gest Vigfússon: „Hér verður rakinn í stórum dráttum hinn félagslegi þáttur Jóns Gests að skógræktarmálum og er nú komið að öðrum ekki veigaminni þætti og á ég þar við landnám hans og trjárækt í Sléttuhlíð sem sýna og sanna hve skógræktarhugsjónin var hans mikið hjartans mál. Það mun hafa verið árið 1925 sem Jón nam land þarna. Var þá öll hlíðin að mestu uppblásin og sundur skorin rofabörðum en á stöku stað lítilsháttar birkikjarr.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – aðkoman að bústað Jóns Gests.

Á þessum fyrstu árum Jóns í Sléttuhlíð var mjög erfitt að fá trjáplöntur nema þá helst reyni og björk en árið 1937 mun Jón hafa fengið fyrstu sitkagreniplönturnar sem setja nú mestan svip á þennan fagra lund þó aðrar trjátegundir skarti þar einnig vel.
Hver sá bær sem ætlar sér að ala upp heilbrigða og hrausta borgara kemst ekki af með götur einar og steinlögð torg, hann þarfnast ekki síður þess hreina lífslofts sem gróðurlundir veita. Takmark Hafnfirðinga hlýtur því að vera að breyta hæfilega miklum hluta bæjarlandsins í iðgræna trjálundi til skjóls, hollustu og fegurðar fyrir þá er í framtíðinni byggja þennan bæ, þar hefur Jón Gestur vísað veginn, okkar hinna er að fylgja fordæmi hans.“

Í ár, 2025, eru eitt hundrað ár liðin frá frumkvöðlastarfi skógræktarlandnámsmannanna í Sléttuhlíð. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur nú splæst í skilti af minna tilefni – sjá t.d. Kaldársel 100 ára.

Sjá meira um Sléttuhlíð HÉR.

Heimildir:
-Sléttuhlíð í Hafnarfirði, deiluskipulag; frístundabyggð, greinargerð og skipulagsskilmálar 09. feb. 2023.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981, Jón Gestur Vigfússon, bls. 58.
-Morgunblaðið, 236. tbl. 24.10.1980, Minning; Jón Gestur Vigfússon Hafnarfirði, Ólafur Vilhjálmsson, bls. 22.

Sléttuhlíð

Ágústmorgunhafgolan í leik undir Sléttuhlíð.

Helgusel í Bringum

Í ritgerð Ástu Hermannsdóttir til MA-prófs í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2014 er m.a. fjallað um rannsóknir á seljum á hluta Snæfellsness og jafnframt almennt um „sel og seljabúskap“ hér á landi. Síðarnefndi hlutinn er fyrir margt athyglisverður og verður efni hans því getið að hluta til hér á eftir.

Ásta Hermannsdóttir

Ásta Hermannsdóttir.

„Seljabúskapur var lengi framan af lítt rannsakaður á Íslandi en á síðustu áratugum hafa farið fram fornleifarannsóknir sem miða að því að gera bragarbót þar á. Ritgerðin miðar að því að líta yfir farinn veg og benda á þá staðreynd að seljabúskapur var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis og þess vegna má gera ráð fyrir mismun og margbreytileika í seljabúskap á landsvísu. Alhæfingar um ýmsa þætti seljabúskapar á Íslandi og hugmyndir um einsleitni í seljabúskap eiga ekki við og nauðsynlegt er að skoða sel og seljabúskap hvar sem er í sínu landslags-, samfélags- og efnahagslega samhengi. Í síðasta hluta ritgerðarinnar er sýnt fram á hve mikilvægt samhengi seljabúskaparins er í rannsóknum á honum og hvernig breytingar í því kerfi sem hann var hluti af höfðu áhrif á seljabúskapinn.

Inngangur

Kringlumýri

Kringlumýri – líklega ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.

Seljabúskapur er búskaparform sem nokkuð hefur verið fjallað um og rannsakað á Íslandi og þá sérstaklega á síðustu áratugum. Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa aukist á þessum tíma en fáar þeirra eru þó mjög umfangsmiklar og veldur það því að umfjöllun um sel og seljabúskap er oft byggð á takmörkuðum raungögnum (en. empirical data). Þótt sel séu skráð við fornleifaskráningar eins og aðrar minjar er því þó sjaldnast svo farið að í úrvinnslu þeirra felist frekari rannsókn á minjunum. Rannsóknir á seljabúskap hafa því ekki sótt mikið í þau yfirgripsmiklu gögn sem venjubundnar fornleifaskráningar skilja eftir sig.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.

Seljabúskapur var ekki stakstætt kerfi heldur hluti af flóknara samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis en einnig landsins alls. Grundvöllur seljabúskaparins lá í þessum þáttum og breytingar á þeim hafa í gegnum aldirnar haft áhrif á breytingar í seljabúskap og ekki síst endalok hans.

Í hluta ritgerðarinnar verður fjallað um þær íslensku fornleifarannsóknir sem beinst hafa að seljum og seljabúskap í það minnsta að hluta. Einnig er sagt frá nýlegum fornleifarannsóknum á sama efni á hinum Norðurlöndunum til að setja rannsóknir á Íslandi í stærra samhengi.

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Umfjöllunin um sel og seljabúskap er alls ekki ætluð til alhæfingar um sel og seljabúskap á Íslandi heldur þvert á móti til þess að vekja umræður og skoðanaskipti og benda á að seljabúskapur var flóknari og margbreytilegri en hingað til hefur verið gengið út frá. Tilgangur ritgerðarinnar er að draga fram þá staðreynd að seljabúskapur, framkvæmd hans og umfang, hefur ekki verið eins alls staðar á landinu og að við eigum enn margt ólært um þetta forna búskaparform. Auk þessa er ætluð hliðarafurð ritgerðarinnar að sýna fram á að fornleifaskráning getur gefið af sér heildstæðar rannsóknir og það þarf ekki alltaf stórtæka uppgrefti til að geta skapað nýja þekkingu: fornleifaskráning er fornleifarannsókn.

Fornleifarannsóknir á seljum

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Í þessum hluta verður fjallað um fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi og beinst hafa að hluta til eða öllu leyti að seljum. Teknar verða saman helstu upplýsingar um rannsóknirnar og niðurstöður þeirra og í lokin metið hvað fræðimenn telja sig nú vita um sel og seljabúskap á grundvelli fornleifafræðinnar og með hjálp sagnfræðinnar og á hvaða sviðum upplýsingar vantar.
Seljarústir er misjafnlega auðvelt að þekkja en yfirleitt er miðað við að rústirnar séu nokkuð frá bæ, ekki sé mikil mannvistaruppsöfnun á staðnum nema vísbendingar séu um búsetu þar fyrir eða eftir að seljabúskapur var þar stundaður, um fleiri en eina rúst sé að ræða og góð vísbending er ef aðhald eða einhvers konar innrekstrarmannvirki er á staðnum. Örnefni eru mikið notuð þegar sel eru skráð og geta þau bæði bent á staði sem nauðsynlegt er að leita á við fornleifaskráningu en einnig geta þau gefið vísbendingar um hlutverk rústa sem hafa áður óljóst eða óþekkt hlutverk. Til dæmis getur fengist vísbending um hlutverk þekktrar rústar með áður óþekkt hlutverk ef upplýsingar um seljaörnefni koma fram í nýjum heimildum eða viðtölum við heimildamenn.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði.

Ætíð verður þó að skoða slíkar upplýsingar með gagnrýnum hætti í samhengi við fornleifarnar og umhverfi þeirra. Heimildamenn eru mikilvægur viskubrunnur um sel, ekki síst á þeim stöðum þar sem seljabúskapur hélst sem lengst. Sums staðar er þó svo komið að fáir sem engir eru eftir sem hafa þekkingu á seljabúskap ákveðinna svæða ekki síst hvað varðar staðsetningu seljanna og tilhögun búskaparins enda er hann sums staðar lagstur af að nær öllu leyti fyrir 1800.

Hefðbundin sýn á sel og hugtakanotkun

Arasel

Ara(hnúka)sel.

Áður en lengra er haldið verður hér sett fram hin hefðbundna sýn á seljabúskap á Íslandi og í kjölfarið verða skýrð nokkur hugtök og orð sem koma fyrir í ritgerðinni og notkun/merking þeirra í henni til að fyrirbyggja misskilning.

Seljabúskapur á Íslandi
Merking orðanna sel, selstaða og seljabúskapur er ekki almennt þekkt í dag. Fæstir vita hvað felst í þessum orðum séu þeir undanskildir sem tilheyra elstu kynslóð landsins. Enn síður veit fólk hve mikilvægur þáttur selin voru í búskap þjóðarinnar. Í Íslenskri orðabók segir um sel: „útihús í högum langt frá bæjum þar sem búfénaður er látinn ganga á sumrin“ og um selstöðu: „það að hafa búpening í seli > selstaða langt á fjöllum uppi“.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Samkvæmt þessum skilgreiningum ná orðin sel og selstaða ekki yfir nákvæmlega sama hlutinn heldur í raun yfir byggingar annars vegar (sel) og svæði eða jafnvel athafnir hins vegar (selstaða). Ljóst er að ekki er alltaf farið með þessi hugtök á þennan hátt en reynt verður að ganga hér í takt við ofangreindar skilgreiningar eins og hægt er. Í öllu falli voru sel/selstöður til þess fallin að fara þangað með búsmala – kindur og kýr – á sumrin. Þetta var gert til að koma skepnunum frá heimatúninu svo hægt væri að rækta það upp og slá um sumarið. Í selstöðunum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu, eldhús, geymsla/búr og jafnvel fleiri rými.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Víða er talað um að í seli hafi verið þrjú hús eða rými (sjá t.d. Hitzler). Auk þessara rýma gefur augaleið að líklegt er að flestar ef ekki allar selstöður hafi haft einhvers konar aðhald eða innrekstrarmannvirki til þess að halda utan um skepnurnar á meðan á mjöltum stóð. Í Búalögum frá 17. öld er talað um að þrjár konur eigi að vera í seli ef þar eru 80 mjólkandi ær og 12 kýr (Búalög). Svipuð tala kemur fram víða en oft er einnig nefndur til sögunnar smali sem sjá skal um féð (sjá t.d. Jónas Jónasson 1945:62).

Skýring hugtaka og orða

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstaða: svæði þar sem seljabúskapur hefur farið fram. Getur verið eitt eða fleiri sel.
Sel: fornleifar í selstöðu sem eiga saman og mynda þar með eitt sel, þ.e. frá sama tíma, sama bæ o.s.frv. Skipting fornleifa á milli selja er yfirleitt byggð á túlkun fornleifanna á yfirborði.
Kvíarúst: einföld, aflöng rúst eða aflöng rúst með tveimur löngum rýmum samhliða notuð til mjalta.
Rúst/tóft/hús: fornleifar sem eru samfastar og hafa verið ein bygging.
Rými: hólf/herbergi innan rústar/tóftar/húss.
Aðföng: auðlindir í náttúrunni sem hægt hefur verið að nýta við hverja selstöðu.

Seljarannsóknir á Íslandi

Hraunssel

Hraunssel.

Áhugi íslenskra fræðimanna á seljabúskap og minjum um hann virðist ekki hafa verið mikill fyrr en á síðustu áratugum 20. aldar. Ástæðan getur verið sú að seljabúskapurinn er víða nálægur í tíma en hann var við lýði fram undir og jafnvel fram á 20. öld sums staðar á landinu. Þrátt fyrir að fornfræðingar og áhugamenn um fornminjar á Íslandi í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. færu víða um, skráðu og rannsökuðu virðast sel og seljabúskapur ekki hafa fangað áhuga þeirra. Líklega má að miklu leyti rekja það til stefnu þess tíma sem að mestu leyti snerist um að minjar sem tengdust Íslendingasögunum og gömlu handritunum væru þær sem vert væri að rannsaka. Sel og seljabúskapur voru yfirleitt ekki stór þáttur í hetjusögum fornaldar og hafa rannsóknir á þeim því ekki þótt spennandi kostur.

Hraunssel

Hraunssel – selsstígurinn.

Á áttunda áratug 20. aldar fóru seljarannsóknir að fá byr í seglin og hefur vegur þeirra aukist mjög á síðustu 10-15 árum. Í raun má segja að seljarannsóknir séu í tísku og er líklegt að áhuga fræðimanna á seljum nú sé hægt að rekja til þess að vitundarvakning hefur orðið í að skrásetja minjar gamla bændasamfélagsins og vitneskju þar að lútandi áður en kynslóðin, sem nú gengur sín síðustu spor, hverfur alveg. Seljabúskapurinn er hluti af þessu gamla bændasamfélagi sem hverfur nú hratt. Fátt er ritað um seljabúskapinn, lítið eða nær ekkert af gripum tengdust honum sérstaklega þannig að ekki eru minjar hans geymdar á söfnum landsmanna. Víða er einnig svo langt síðan seljabúskapur lagðist af að elstu menn muna vart hvenær síðast var haft í seli, hvað þá hvar rústir seljanna er að finna. Vitneskjan er þó ekki alltaf svona gloppótt og þar sem seljabúskapur hélst lengst eru bæði til ritaðar og munnlegar heimildir fólks sem þekkti seljabúskapinn af eigin raun.

Egon Hitzler

Egon Hitzler

Egon Hizler og Gísli Sigurðsson.

Varla er hægt að byrja umræðu um rannsóknir á seljum án þess að minnast á doktorsritgerð Egon Hitzlers frá áttunda áratug síðustu aldar. Hitzler er þýskur fræðimaður sem dvaldist hér á landi sem sendikennari við Háskóla Íslands á árunum 1974-79. Rannsókn Hitzlers, sem unnin var á sjöunda og áttunda áratugnum, var sú fyrsta sem fjallaði nokkuð heildstætt um sel og seljabúskap á Íslandi. Ritgerðin var gefin út á þýsku og hefur ekki verið þýdd á íslensku þannig að innihald og niðurstöður hennar eru ekki öllum aðgengileg.
Rannsóknin er eitt fyrsta dæmið um rannsókn á seljum og seljabúskap þar sem ekki var einungis unnið með heimildir þótt þær væru stærsti hluti verkefnisins heldur voru einnig nokkur sel skoðuð á vettvangi. Þannig má segja að fyrsta fræðilega úttektin á seljum, sem gæti að einhverju leyti talist fornleifafræðileg, sé hluti af þessu doktorsverkefni.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Hitzler reynir í doktorsritgerð sinni að setja saman heildstæða mynd af seljabúskap á Íslandi og notar til þess mestmegnis ritaðar heimildir. Hann dregur margvíslegar ályktanir af þeim og m.a. kemst hann að því, eins og ýmsir aðrir, að selhúsin hafi verið þrjú. Hitzler skoðar mismunandi hliðar seljabúskapar, s.s. mannvirki, skipulagningu, upphaf og endi, auk þess að skoða sel á ýmsum tímum út frá heimildum. Kafli VI í doktorsritgerð Hitzlers fjallar um vettvangsskoðun hans á meintum seljarústum í Sauðadal í Austur-Húnavatnssýslu. Með þeirri skoðun vildi hann reyna að svara því hvort seljabúskapur hefði eitthvað breyst á svæðinu á 18. og 19. öld, eða frá því að Jarðabók Árna og Páls var rituð. Því svarar Hitzler játandi og kemst að þeirri niðurstöðu að breytingarnar hafi að mestu leyti byggst á breyttu eignarhaldi og þar af leiðandi skiptum á seljum og byggingu nýrra selja.

Sveinbjörn Rafnsson

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson, f. 1944.

Árið 1990 kom út ritið Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum eftir Sveinbjörn Rafnsson. Í því er gerð grein fyrir rannsóknum sem fram fóru á 8. og 9. áratug síðustu aldar en þær miðuðu að því að skrá byggðaleifar og grafa í nokkrar þeirra til að reyna að varpa ljósi á byggðasögu svæðisins í samhengi við ritaðar heimildir.

Guðrún Sveinbjarnardóttir
Fyrsta alvöru fornleifarannsóknin á Íslandi, sem beint var að seljum að hluta eða öllu leyti, var rannsókn sem Guðrún Sveinbjarnardóttir vann fyrir doktorsritgerð sína, Farm abandonment in Medieval and Post-Medieval Iceland: an interdisciplinary study, á árunum 1979-1985. Í þeirri rannsókn skrásetti Guðrún eyðibýli, meint eyðibýli og sel á þremur stöðum á landinu: í þremur dölum í Berufirði, undir Eyjafjöllum og í Austur- og Vesturdal í Skagafirði. Auk þess að skrá staðina voru tekin borkjarnasýni og grafnar prufuholur á mörgum þeirra til að staðfesta að um mannvistarleifar væri að ræða sem og að kanna aldur og umfang rústanna sem þar var að finna.

Guðrún Sveinbjarnardóttir

Guðrún Sveinbjarnardóttir (f. 1947).

Gjóskulög voru notuð til aldursgreiningar þegar slíkt var mögulegt. Einnig voru gerðar fornvistfræðilegar rannsóknir á sýnum sem tekin voru á nokkrum rannsóknarstaðanna. Niðurstöður rannsóknarinnar setti Guðrún fram í áðurnefndri doktorsritgerð sinni en sá hluti gagnanna sem sneri að seljum kom þó lítið við sögu í ritgerðinni sjálfri. Aftur á móti birti Guðrún þær niðurstöður í grein sem kom út í Acta Archaeologica og nefnist „Shielings in Iceland: an Archaeological and Historical survey“ (1991). Í greininni útlistar Guðrún sögulegan bakgrunn seljabúskapar á Íslandi í stuttu máli og gerir þar á eftir grein fyrir öllum þeim selstöðum sem hún skráði í rannsókn sinni. Þessi atriði voru skráð fyrir hverja selstöðu: stærð og lögun, staðsetning, heimabær, elstu heimildir og aldur, sem yfirleitt fékkst út frá heimildum, auk þess sem stundum er skráð lega, lýsing á ástandi rústar eða annað slíkt. Teikningar eru af mörgum seljanna en nær engar ljósmyndir.

Acta Archaeologica

Acta Archaeologica 1991.

Heilt á litið er það sem fram kemur í greininni nokkuð upplýsandi. Niðurstöður rannsóknarinnar eru ræddar stuttlega í lok greinarinnar og er hægt að draga þar fram nokkur aðalatriði. Guðrún telur að verulegar vísbendingar séu um seljabúskap á svæðunum þremur og að ekki hafi verið langt á milli selja og heimabæja. Að sama skapi telur hún að norska módelið, að skipta seljum upp í tegundir eftir fjarlægð frá bæ og athöfnum í selinu, eigi ekki við á Íslandi. Svæðin hafa öll að geyma nokkuð ungar seljaminjar og eru byggingar á stöðunum um 1-2 að meðaltali og fjöldi rýma um. Í sambandi við fjölda rýma nefnir Guðrún að líklegt sé að gamla hugmyndin um að þrjú rými í seljum hafi verið venjulegur fjöldi hafi ekki alltaf átt við rými í byggingu heldur vinnusvæði. Ein helsta niðurstaða Guðrúnar er sú að sel hafi í fyrstu tíð verið staðsett nær bæjum en þau hafi síðan verið færð hærra upp í landslaginu.

Sandssel

Eyjasel.

Þessi fyrsta rannsókn er að nokkru leyti brautryðjandaverk í skilningi íslenskra fornleifafræðinga á seljarústum en þarna er í fyrsta sinn komin skrá yfir seljarústir, einkenni þeirra, útlit og staðsetningu á ákveðnum svæðum. Niðurstöður greinarinnar gefa líka tóninn fyrir það sem á eftir kom í seljarannsóknum á Íslandi þótt fáir hafi tekið upp atriði eins og færslu selja frá láglendi hærra upp í landið og rými sem hugsanleg vinnusvæði í stað afmarkaðra, fastra húsrýma. Reyndar segir framarlega í greininni að
„Hingað til hafa engar fornleifafræðilegar vísbendingar um sel verið til frá neinu tímabili á Íslandi“. Þótt hægt sé að neita þessari staðhæfingu á grundvelli þess að vísbendingarnar hafi verið til í formi jarðfastra minja, það hafi bara enginn tekið sig til og túlkað þær, er það rétt að enginn fornleifafræðingur hafði fram að þessu nýtt sér sel sérstaklega sem efnivið í rannsóknir hér á landi.

Ragnheiður Traustadóttir

Ragnheiður Traustadóttir

Ragnheiður Traustadóttir.

Rannsóknin í Urriðakoti er framkvæmdarannsókn vegna nýs íbúðahverfis við Urriðavatn í Garðabæ. Svæðið var skráð á árunum 2005-2006 og fóru eftir það fram forrannsóknir og heildaruppgröftur á minjum á hluta svæðisins á árunum 2007-2011. Bæjarstæði Urriðakots, bæjar sem er a.m.k. frá fyrri hluta 16. aldar, er stutt frá uppgraftarsvæðinu. Grafnar voru tvær rústaþyrpingar, yngri og eldri, og opnað á milli þeirra og nokkuð út fyrir rústirnar víða. Eldra svæðið er frá 10.-12. öld og samanstendur af litlum skála, fjósi, vinnsluhúsi og soðholu. Yngra svæðið, miðaldasvæðið, er frá því eftir 1226 með byggingu sem samanstendur af baðstofu, eldhúsi og sambyggðri baðstofu og búri og auk þess tilheyrir hugsanlega einnig skemma þessu skeiði. Ragnheiður Traustadóttir túlkar bæði skeiðin sem sel en þó eru ekki öll kurl komin til grafar í rannsókninni þar sem lokaskýrslu um hana hefur ekki verið skilað.

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir.

Eldra selið telur Ragnheiður vera kúasel enda hefur fjósið rúmað 16-18 bása en skálinn er mjög lítill, aðeins um 12 m á lengd. Vinnsluhúsið er áfast fjósinu og er það nokkuð stórt, um 4×12-13 m. Ekkert eldstæði er í skálanum og gólflög eru mjög þunn.
Miðaldasvæðið er frá því eftir 1226 eins og sagði hér að ofan en Ragnheiður álítur þó að það hafi farið úr notkun á 14. öld.

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir
Uppgröftur á svokölluðu Koti á Rangárvöllum hefur verið í gangi frá árinu 2008. Um er að ræða eina rúst, garðlag og aðhald við það og voru rústirnar skráðar árið 2005 og könnunarskurðir teknir árið 2006. Margrét segist hafa talið frá upphafi að um sel væri að ræða og að sú hugmynd hafi ekkert breyst þótt enn sé lítið vitað um starfsemi í húsinu.

Margrét Björk Magnúsdóttir

Esjubergssel

Esjubergssel.

Seljarannsóknir Bjarkar í Reykjavík eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða samantekt og skráningu á seljum í Reykjavík og hins vegar er um að ræða könnunarrannsókn og aldursgreiningu nokkurra selja á Kjalarnesi. Til grundvallar í fyrri hluta rannsóknarinnar voru lagðar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, örnefnaskrár og fleiri ritheimildir. Innan borgarmarka Reykjavíkur er 81 jörð og voru sel og selstöður þeirra allra skráðar upp úr heimildum (en hluti þeirra hafði þegar verið skráður á vettvangi.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Auk heimildaskráningarinnar var leitað að nokkrum seljum sem ekki höfðu verið skráð á vettvangi áður á Kjalarnesi og greind ýmis atriði tengd þeim seljum sem skráð höfðu verið á vettvangi, þ.e. gamlar skráningar og nýjar, s.s. fjarlægð frá bæ í loftlínu, dýrleiki heimajarðanna, fjöldi húsa og rýma. Meðaltal húsa í vettvangsskráðum selstöðum er 1,42 hús og meðaltal rýma er 3. Meðalvegalengd frá bæ að seli er 8,6 km en algengustu fjarlægðirnar eru um 12 km, 7 km og 2 km.

Smærri rannsóknir
Bjarni F. Einarsson ritaði um Hólasel í Eyjafirði, Fornasel í Straumsvík, sel við Úlfljótsvatn og sel á Síðuheiðum Hólasel í Eyjafirði.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Rannsókn í Fornaseli var afsprengi samvinnu Fornleifafræðistofunnar ehf. við Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar en selið er í landi Hafnarfjarðar. Á árunum 1999 og 2000 voru grafnar þrjár prufuholur í rannsóknarskyni í Fornasel, hver í sína rústina, en skráð voru þrjú hús og tveir stekkir á svæðinu. Holurnar voru grafnar í því skyni að reyna að fá sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar og kanna ástand fornleifanna á staðnum. Eitt C-14 sýni var greint og benda niðurstöður þess og keramik, sem fannst í sama lagi, til þess að lagið sé með 95% öryggi frá 1550-1630. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að líklega hafi verið haft í seli í Fornaseli allt frá um 1600 og fram á 19. öld. Húsin á staðnum virðast hafa verið endurbyggð að minnsta kosti þrisvar sinnum en ólíklegt er talið að öll hafi þau verið í notkun í einu eða að hlutverk þeirra hafi haldist óbreytt allan þann tíma. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu en rigningarvatni hefur verið safnað í vatnsból fast við rústirnar.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Haustið 2010 voru grafnar tvær prufuholur, hvor í sína rústina, í meint sel við Fossá við Úlfljótsvatn. Rústirnar fundust árið 2005 og þóttu fornlegar og áhugaverðar og styrkti Orkuveita Reykjavíkur umrædda rannsókn. Markmið rannsóknarinnar var að ná í sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar sem og gjóskulög, einnig til aldursgreiningar. Auk þess átti að kanna hvort hægt væri að lesa út úr gólflögum upplýsingar, t.d. um hvort húsið hafi verið mannabústaður eða ekki. Þrjár rústir voru skráðar á svæðinu 2005 og voru grafnar prufuholur í tvær þeirra eins og fyrr sagði. Eitt C-14 sýni, úr húsi 2, var aldursgreint og var niðurstaða greiningarinnar sú að sýnið væri með 95% öryggi frá 900-920 eða 960 – 1040 e. Kr..

Albína Hulda Pálsdóttir

Albína Hulda Pálsdóttir.

Af gjóskusýnunum er það að segja að svart lag, sem lá vel yfir gólfi húss 1, var greint sem Katla 1500 og er ljóst af því að húsið er yfirgefið einhverju áður en sú gjóska féll. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þarna hafi fólk hafst við um lengri eða skemmri tíma í lok 10. aldar eða í byrjun 11. aldar. Talið er hugsanlegt að ekki hafi einungis farið fram venjulegur seljabúskapur á staðnum heldur hafi mannvist við Fossá tengst auðlindum á svæðinu, s.s. slægjum og mýrarauða.

BA og MA ritgerðir íslenskra fornleifafræðinema Auk ofantalinna rannsókna hafa fjórir íslenskir nemar í fornleifafræði skrifað lokaritgerðir, BA eða MA, sem fjallað hafa um eða komið hafa inn á sel á mismunandi hátt.

Albína Hulda Pálsdóttir – Segðu mér sögu af seli: Fornleifafræðileg úttekt á íslenskum seljum Í BA ritgerð sinni fjallar Albína um sel og seljabúskap á Íslandi. Hún fer yfir sagnfræðilegar heimildir viðkomandi seljum sem og fyrri rannsóknir, bæði íslenskar og norrænar. Hún kemur einnig inn á spurninguna hvernig hægt sé að þekkja sel frá öðrum fornleifum.

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Helstu fornleifafræðilegu nýjungar ritgerðarinnar liggja í greiningu á seljum sem skráð höfðu verið í Ísleifu, gagnagrunn Fornleifastofnunar Íslands ses., þegar ritgerðin var skrifuð. Þar leitaðist Albína við að skoða fjölda selja út frá heimilda- og vettvangsskráðum rústum en auk þess að athuga seljarústir gerðar- og landfræðilega út frá rústum sem skráðar höfðu verið á vettvangi. Aðallega var skoðaður fjöldi hólfa og flatarmál seljanna, fjöldi rústa, aðrar fornleifar tengdar seljunum, dýrleiki heimajarðar og stærð selja, vegalengd milli sels og bæjarhóls og staðsetningar í landslagi út frá hæð yfir sjávarmáli. Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru að stærð og útlit selja er misjafnt (en þó er fjöldi rústa yfirleitt 1-3 og fjöldi hólfa oftast 3 þótt meðalfjöldi sé 4,66. Sel virðast yfirleitt vera á jaðri hins byggilega hluta landslagsins, í tilfellum Norðaustur- og Suðurlands t.d. um 200 m/y.s., og að meðaltali eru um 2 km á milli sels og meints bæjarhóls heimajarðar í loftlínu. Að lokum er vert að nefna að Albína telur að ekki sé hægt að þekkja sel frá öðrum minjum á einfaldan hátt og auk þess falli þær sagnfræðilegu heimildir, sem til eru um sel og seljabúskap, ágætlega að niðurstöðum sem fornleifafræðin hefur komist að.

Ómar Smári Ármannsson – Sel og selstöður á Reykjanesskaganum – vestan Esju: Heimildir, fjöldi, staðsetning, gerð og aldur Í BA ritgerð sinni fjallar Ómar Smári um sel og selstöður á Reykjanesskaga, vestan Esju, bæði út frá sagnfræðilegum heimildum og vettvangsskoðun á fornleifum.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Markmiðið með rannsókninni er að safna saman heimildum um sel og selstöður á þessu svæði, staðsetja þær, kanna fjölda þeirra, gerð mannvirkja, reyna að aldursgreina þær út frá heimildum og bera þær saman. Aðaluppistaðan í ritgerðinni er upptalning á þeim seljum sem á svæðinu eru, sagnfræðilegar upplýsingar um þær og fornleifafræðilegar ef rústirnar hafa verið staðsettar á vettvangi. Eiginleg fornleifaskráning var ekki gerð á seljunum en yfirleitt fylgja myndir og jafnvel teikningar og gróf lýsing á rústunum og því sem á svæðinu er að finna. Selstöður á Reykjanesinu hafa sín sérkenni,t.d. nokkra hella, og víða eru selstígar sem enn eru mjög greinilegir. Að öðru leyti má draga helstu niðurstöður ritgerðarinnar varðandi rústirnar saman í nokkur atriði: víða eru misgamlar tóftir og þar af leiðandi fleiri en ein kynslóð selja á staðnum, sum selin virðast færast nær bæjum með tímanum en önnur eru endurbyggð á sömu eða svipuðum slóðum, þrískipt rými eru mjög algeng og seljarústirnar eru yfirleitt einfaldar og frekar litlar en þó virðast eldri rústir vera einfaldari, óreglulegri og minni. Ómar Smári skoðar auk rústanna sjálfra hugsanlegar ástæður endaloka seljabúskapar í stuttu máli og setur fram nokkrar tillögur þar að lútandi.

Sædís Gunnarsdóttir – The transhumant landscape of Saurbæjarhreppur. A study of shielings, dependent farms and their locations in connection to the mother settlements.

Sædís Gunnarsdóttir

Sædís Gunnarsdóttir.

Í MA ritgerð sinni fjallar Sædís um landslag búfjár og ferðir þess í landslaginu (en. transhumant landscape) og skoðar hún hvaða þættir móta þetta landslag. Aðalrannsóknarefni hennar eru bæir, hjáleigur og sel, staðsetningar þeirra í landslaginu og vinna með þær staðsetningar í GIS (Geometric information system). Viðfangsefnið var Saurbæjarhreppur í Eyjafirði og skoðaðir voru eftirfarandi þættir fyrir hvern og einn stað: staðsetning, hæð yfir sjávarmáli, halli svæðisins, næsti nágranni og fjarlægð á milli svæða. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að í raun sé enginn ákveðinn munur á staðsetningum bæja og hjáleiga en að sel séu hins vegar staðsett í öðrum hlutum landslagsins. Helsti munurinn á staðsetningu selja og hjáleiga er hæð yfir sjávarmáli og halli svæðisins, auk fjarlægðar frá bæ. Selin eru mun hærra í landslaginu þar sem meiri halli er og fjær bæ en hjáleigurnar. Sædís bendir á að þennan mun á staðsetningum hjáleiga og selja mætti nýta til þess að greina á milli rústa sem ekki er vitað hvort eru sel eða hjáleigur. Að öðru leyti eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að það sé aðallega byggðamynstur sveitarinnar sem hafi áhrif á landslag búfjárins, auk aðgangs að beitarsvæðum í fjalllendi og virði jarðanna; stærri og eldri jarðir séu þannig oft með aðgang að fjalllendi þar sem sel þeirra eru staðsett en minni jarðir hafi sel nær bæjunum sjálfum.

Stefán Ólafsson – Smávegis um rústaþyrpingar í Kelduhverfi.

Stefán Ólafsson

Stefán Ólafsson – Smávegis um rúsatþyrpingar í Kelduhverfi.

MA ritgerð Stefáns fjallar ekki beinlínis um sel heldur flokkunarkerfi sem hann hefur þróað til þess að gera grein fyrir þeim minjastöðum í Kelduhverfi sem: a) hafa mjög líklega verið býli, b) hafa mögulega verið býli og c) hafa ólíklega verið býli. Flokkunarkerfið nýtir fjölda rústa og garðlög til að greina á milli mikillar eða lítillar búsetu og heilsárs- eða árstíðabundinnar búsetu. Enda þótt ritgerðin fjalli um þetta ákveðna efni þá kemur Stefán aðeins inn á sögu seljarannsókna þar sem hluti staða í gagnagrunninum, sem hann vinnur með, eru sel eða staðir skráðir sem sel. Stefán tekur saman helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum en segir að lokum að rannsóknir, sem byggjast á því að staðsetja og greina seljarústir á yfirborði líkt og Guðrún Sveinbjarnardóttir gerði að hluta og verkefnið Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi snýst um, hafi gefið óljósar niðurstöður og að „… þekking á seljum [sé] í raun jafn þokukennd og áður“.

Sel á öðrum vettvangi

Dyljáarsel

Í Dyljárseli í Eilífsdal.

Fyrir utan rannsóknir á seljum og seljabúskap á Íslandi og ritgerðir um sama efni hafa fornleifaskráningaskýrslur að geyma upplýsingar um sel og seljabúskap víða um land. Við venjubundna fornleifaskráningu getur fornleifafræðingur rekist á hvaða tegundir minja sem er, þar á meðal sel. Skráningar sem þessar beinast þó ekki að seljum sérstaklega og mun því ekki verða leitað fanga þar í þessari ritgerð. Auk þess hafa sel og seljabúskapur án efa vakið áhuga leikmanna og því er hægt að búast við einhverjir utan fornleifafræði hafi tekið saman upplýsingar um sel og seljabúskap og minjar þeirra á ákveðnum svæðum. Ekki verður leitast við að komast yfir slíkar samantektir þar sem ekki er um raunverulegar fornleifarannsóknir að ræða þótt þær geti án efa búið yfir upplýsingum sem gætu reynst áhugaverðar og merkilegar.

Hver er staða þekkingar á seljum í dag?

Brynjudalur

Þórunnarsel í Brynjudal.

Þær fornleifafræðilegu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum hingað til hafa veitt nokkra innsýn í sel og seljabúskap á Íslandi en þó er mörgum spurningum enn ósvarað. Helstu atriði, sem skoðuð hafa verið, eru rústirnar sjálfar, hæð þeirra yfir sjávarmáli, fjöldi húsa og rýma, fjarlægð frá bæ og dýrleiki heimajarða. Hugsanlegri notkun norska módelsins, þ.e. skiptingu selja í mjólkursel, aðfangasel, alsel og jafnvel heimasel, sumarsel og millisel hér á landi hefur verið velt upp af nokkrum rannsakendum en engin ákveðin afstaða virðist vera til notkunar þess hér á landi. Í flestum tilfellum er samstaða um að í seli séu þrjú hús/rými og oftast kvíar eða annað aðhald auk þess. Þau eru oftast fjarri bæjum, nálægt góðum beitarhögum og ám/lækjum þótt til séu undantekningar á því eins og öðru.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Seljarústir eru yfirleitt í smærri kantinum og er gengið út frá því að í seljum sé að jafnaði ekki mikil mannvistaruppsöfnun þannig að bæjarhólar og aðrir slíkir mannvistarhólar finnast þar yfirleitt ekki. Margir nota túngarða sem breytu þegar verið er að áætla hvort um sel eða bæ er að ræða og þá er reglan sú að við sel séu ekki túngarðar.
Uppgröftur á seljum hefur gefið meiri og ítarlegri upplýsingar varðandi starfsemina þar en til voru áður og eru vísbendingar um að mun fleira hafi farið fram í þeim en hinn hefðbundni mjólkurbúskapur sem þekktur er frá seinni öldum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Hugmyndinni um að fleiri auðlindir en beit og mjólkurvinnsla hafi verið nýttar á meðan á seljatímanum stóð hefur verið velt upp í sumum rannsóknanna en lítið hefur verið fjallað um í hve miklum mæli nýting á auðlindum gæti hafa verið, t.d. hvort mjólkurvinnslan hafi verið stærsti hlutinn eða hvort nýting annarra auðlinda hafi gegnt stærra hlutverki en hingað til hefur verið talið. Hér spilar líka tíminn inn í og það verður að segjast að allt of fáir hafa velt því upp í alvöru hvort seljabúskapur hafi breyst í tímans rás.

Í tengslum við þetta má líka benda á að ekki er alltaf gerður nægilegur greinarmunur á kynslóðum þeirra selja sem verið er að vinna með í rannsóknum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Það skiptir máli hvort rústir, sem verið er að rannsaka, eru frá sama tíma eða ekki. Ef t.d. 12 rústir eru í selstöðu þá getur verið um fleiri en eina og fleiri en tvær kynslóðir selja að ræða. Ekki er nóg að skrá mikinn fjölda selja og segja að tölfræðilega séu mörg sel á vissum stöðum án þess að meta hvort um mismunandi kynslóðir er að ræða. Slíkar alhæfingar eru í líkingu við það að segja að á vissu svæði séu mörg eyðibýli en gera ekki greinarmun á eyðibýlum frá 11. og 19. öld. Að sama skapi þarf að skoða þann möguleika að margir bæir hafi notað sama selið eins og Birna Lárusdóttir hefur rætt um að hugsanlega hafi átt sér stað í Reykjahverfi í Norðurþingi.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Að síðustu er sláandi hve fáir hafa fjallað um mun á seljum milli sveita, t.d. staðsetningu þeirra og rústunum sjálfum. Staðarval er greinilega mjög breytilegt eftir landsvæðum en athygli rannsakenda hefur aðallega beinst að því að skoða staðsetningu með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli. Ljóst er að landslag hvers svæðis hlýtur að hafa mikil áhrif á staðarval en fleira þarf þó að skoða og bera saman á milli svæða. Er það bara landslagið sem hefur áhrif á staðsetningu seljanna? Er húsagerðin mismunandi? Er hún mismunandi á ákveðnum tímum eða hefur hún alltaf verið það? Eru sömu auðlindir nýttar í sama magni? Eru ákveðnar byggingar tengdar ákveðnum athöfnum bara að finna á sérstökum svæðum? Þannig mætti lengi telja.

Pálstóftir

Pálstóftir.

Rannsakendur þurfa að viðurkenna að það er munur á milli svæða og að mínu mati er ógerningur að alhæfa á landsvísu margt sem viðkemur seljum. Ýmsir þættir tengjast án efa á milli svæða eða yfir landið allt, t.d. gæti hluti ástæðunnar fyrir því af hverju seljabúskapur leggst af í síðasta lagi í byrjun 20. aldar átt við allt landið eða stór landsvæði. En ég tel að í fæstum tilvikum sé hægt að alhæfa um sel og seljabúskap á stórum landsvæðum þar sem landslag er mjög ólíkt.
Auðvitað þarf mun fleiri og viðameiri rannsóknir á seljum og seljabúskap til að svara ofangreindum spurningum, auk annarra, t.d. varðandi upphaf og endalok seljabúskapar, áhrif hans á samfélagið og stöðu þeirra sem í seljunum voru en ég tel þó mikilvægt að fræðimenn fari að velta þeim upp í rólegheitum. Fleiri rannsóknir munu án efa verða gerðar á næstu árum enda eru sel í tísku um þessar mundir sem rannsóknarefni. Væntanlega mun með hverri rannsókn safnast ný þekking í sarpinn enda eigum við enn margt ólært um sel og seljabúskap á Íslandi í tíma og rúmi.

Seljarannsóknir á Norðurlöndum á síðustu árum

Urðarsel

Urðarsel í Svarfaðarárdal.

Sel hafa ekki einungis verið rannsökuð á Íslandi á síðustu áratugum heldur einnig á hinum Norðurlöndunum en seljabúskapur er einmitt landnýtingarform sem barst að öllum líkindum hingað til lands með landnámsmönnunum. Ein umtalaðasta seljarannsókn Norðurlanda er rannsókn Reintons, norsks sagnfræðings, þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um mismunandi gerðir selja í Noregi (nefnt norska módelið hér að framan og eftirleiðis). Samkvæmt Reinton eru í Noregi til þrjár yfirgerðir selja: heimasel, millisel og fjar- eða fjallsel, tvö hin síðarnefndu einnig nefnd sumarsel. Heimaselin voru oft stoppistöðvar á leið í sumarselin. Hver bær gat haft fleiri en eina gerð sels. Undir yfirgerðunum þremur eru síðan undirgerðir sem ráðast að mestu leyti af landslagi hvers svæðis fyrir sig og eru þær þrjár helstu alsel, mjólkursel og sláttusel.

Birnustaðasel

Birnustaðasel í Dýrafirði.

Nöfn undirseljanna skýra sig að nokkru leyti sjálf. Alselin voru algengust og þannig nýtt að verið var þar allt sumarið og afurðir ekki fluttar heim á bæ fyrr en um haustið. Margs konar verk voru unnin í selinu, ekki bara tengd búsmala heldur einnig nýting á auðlindum í nágrenninu. Í mjólkurseljum var aðaláherslan á mjaltir ánna og var mjólkin yfirleitt flutt heim og unnin áfram þar. Sláttuselin höfðu það hlutverk helst að safna heyi til vetrarfóðurs. Sel af þessari gerð virðast ekki hafa verið algeng víða en nýting sláttu- og mjólkurselja hefur verið takmarkaðri en nýting alselja. Þótt rannsóknir Reintons eigi við miðaldir þá voru sel til í Noregi á víkingatímanum þegar land er numið á Íslandi og enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að nýting á beitarlandi hafi breyst mikið frá 800 til 1350 e. Kr. þótt selhúsin hafi örlítið breytt um svip. Þannig er allt eins líklegt að seljagerðir Reintons geti átt sér stoð í raunveruleikanum allt aftur á víkingaöld.

Sogasel

Sogasel – Á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs eru 443 sel og selstöður. Selstaðan í Sogagíg var lánuð Kálfatjörn frá Krýsuvík um tíma í skiptum fyrir skipsuppsátur.

Á Grænlandi hafa einnig farið fram rannsóknir á seljum og var gróðurfar selstöðu í Vatnahverfi í Eystribyggð rannsakað nýlega með frjókorna- rannsóknum og tengdum aðferðum. Þannig var uppbygging selsins tímasett og áhrif þess á vistkerfið skoðuð auk þess sem breytingar á landnýtingu í selstöðunni voru greinanlegar í frjókornaritum. Að ákveðnu leyti byggist umræða rannsóknarinnar á rannsókn Albrethsens og Kellers sem birt var 1986 en þeir kortlögðu mögulegar seljarústir við Eiríksfjörð í Eystribyggð og ræddu m.a. tengsl rústanna við norska módelið sem nefnt var hér að framan. Selið, sem Ledger og félagar rannsökuðu, var sett á laggirnar um 1050-1150 og verður greinileg aukning á landnýtingu þannig að farið er að slá meira og safna heyi um 1225-1325. Höfundar telja það benda til þess að starfsemi selsins hafi breyst í þá átt að slá og safna vetrarfóðri á meðan beit hafi jafnvel verið færð fjær selinu eða að selstaðan hafi einfaldlega þróast yfir í býli.

Sel og seljabúskapur

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; fornt sel frá Hofstöðum.

Þótt fornleifarannsóknir á seljum hafi gefið af sér nýjar upplýsingar, sumar sem ýtt hafa undir nýja hugsun varðandi sel og seljabúskap, eru þó enn mörg göt í þekkingunni sem mikilvægt er að fylla í með fleiri og víðtækari rannsóknum. Seljarannsóknir á Íslandi hafa víða gefið upplýsingar um aldur seljanna og jafnvel að einhverju leyti umfang búskaparins í þeim. Hafa margar rannsóknanna hingað til verið uppgreftir af mismunandi stærðum og eru prufuholurannsóknir algengastar. Slíkar rannsóknir gefa þó alltaf takmarkaða niðurstöðu eins og gefur að skilja og er því varla hægt að gera ráð fyrir að annað komi út úr þeim en aldur og eðli rústanna. Undantekningin á þessu er ef tekin eru sýni til annars konar rannsókna, s.s. frjókorna- og skordýrarannsókna, líkt og gert hefur verið í rannsóknum á seljum Reykholts. Færri seljarannsóknir hafa grundvallast á fornleifaskráningu en slíkar rannsóknir hafa það fram yfir uppgraftarrannsóknir að hægt er að rannsaka minjar á stærra svæði og fá þannig yfirlit yfir heilar sveitir eða aðrar ákjósanlegar einingar. Hins vegar getur verið erfiðara að aldursgreina rústir með nokkurri nákvæmni eða gera sér grein fyrir hvað fram hefur farið á staðnum þegar um skráningarrannsóknir er að ræða. Það er því ljóst að mismunandi rannsóknaraðferðir gefa af sér ólík gögn og hefur hver aðferð sína kosti og galla.

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur á selstöðu, sem hvergi var getið í rituðum heimildum.

Mestum upplýsingum hefur hingað til verið safnað um aldur selja, fjölda rústa og rýma í seljum, hæð yfir sjávarmáli, dýrleika jarða og fjarlægð frá bæ. Slíkar upplýsingar eru góðar og gildar og gefa t.a.m. hugmynd um tengsl jarðastærða við seljabúskap, áhrif landslags á staðsetningar selja og umfang seljabúskaparins út frá rústum seljanna. Hins vegar hefur sjaldan verið fjallað um mannlega þætti seljabúskaparins, þ.e. hvaða fólk var í seljum og hver staða þess var, eða breytileika seljabúskaparins. Það er nefnilega svo eins og fram kom í fyrsta hluta þessarar ritgerðar að gætt hefur hugmynda um ákveðna einsleitni í seljabúskap á Íslandi og hvort sem það er orsök eða afleiðing þess að selin eru oft ekki skoðuð í tengslum við samhengi þeirra, hvort sem er landslag, efnahag eða samfélag, þá er ljóst að þetta er eitt vandamála seljarannsókna á Íslandi – það gleymist að setja selin í samhengi og gera ráð fyrir mismun og margbreytileika seljabúskaparins.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Seljabúskapur var hluti af flóknu samfélags- og efnahagslegu kerfi sem tekið hefur mið af þörfum samfélagsins en einnig hvers bæjar fyrir sig á hverjum tíma. Því er mikilvægt að skoða seljabúskap í tengslum við samhengi hans á hverju svæði fyrir sig. Einungis með því er hægt að fá innsýn inn í hvaða hlutverki þetta búskaparform gegndi og hvaða þættir höfu helst áhrif á það. Þótt grunnhugmyndin á bakvið seljabúskapinn virðist hafa verið sú sama á landsvísu benda rannsóknir eins og sú á Pálstóftum til þess að vinnsla í seljum hafi að einhverju leyti tekið mið af umhverfinu og þeim auðlindum sem í því voru. Rannsóknir á þessum þætti seljabúskapar gætu að mínu mati hjálpað til við að varpa ljósi á fjölbreytileika hans á Íslandi. Enn vantar þó meiri raungögn um seljabúskap á mismunandi svæðum til þess að hægt sé að skoða hvaða þættir voru ólíkir og hvaða þættir voru líkir í seljabúskap á Íslandi og hvað í samhengi seljanna hafi valdið þessum breytileika.

Sel á Íslandi – eðli og umfang

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Seljabúskapur er æði gamalt fyrirbæri á Íslandi þótt skilningur á hugtakinu og því sem það stendur fyrir minnki með hverri kynslóð og trúlega hafa fæstir þeirra, sem fæddir eru á seinustu áratugum 20. aldar eða seinna, nokkra þekkingu á því. Ljóst er þó að seljabúskapur hefur haft stóru hlutverki að gegna í landbúnaði og þar með afkomu Íslendinga og er því vert að rannsaka fyrirbærið nánar. Í umræðunni hér á eftir verður leitast við að skoða ýmis atriði tengd seljabúskapnum, allt frá upphafi hans til endaloka. Farið verður yfir umfang hans og eðli, kjarna hans og aðra mögulega starfsemi í seljunum samhliða kjarnanum og að lokum verður seljahugtakið sjálft skoðað.

Upphaf og eðli

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Seljabúskapur er talinn hafa komið með landnámsmönnunum til Íslands og hugsanlegt er að hann hafi hafist strax í upphafi byggðar. Í Landnámabók er sagt frá landnámsmanninum Birni austræna í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit en hann er sagður hafa haft „selför upp til Selja“. Vísbendingu um eina aðra selför er að finna í Landnámu en þar er Geirmundur heljarskinn sagður hafa haft selför í Bitru. Íslendingasögurnar segja einnig frá selförum sögupersóna og ber þar helst að nefna frásagnir í Hrafnkels sögu Freysgoða, Laxdæla sögu, Vatnsdæla sögu, Grettis sögu Ásmundarsonar og Hallfreðar sögu vandræðaskálds. Erfitt er þó að meta sannleiksgildi þessara frásagna þegar kemur að því að reyna að átta sig á aldri seljabúskapar á Íslandi og eðli hans í upphafi. Líklegt verður þó að telja að seljabúskapurinn hafi í fyrstu fylgt norskum hefðum enda hafi hann verið hluti af landbúnaði Noregs í langan tíma fyrir landnám Íslands. Þó má gera ráð fyrir ákveðinni aðlögun búskaparformsins að umhverfinu á Íslandi, bæði landslagi og samfélagi. Elsta heimild um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni er frá því 1140 en þótt víða séu selfarir nefndar í safninu eftir það fylgja sjaldnast meiri upplýsingar en að ákveðinn bær eða kirkja eigi selför á tilteknum stað.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Áhugavert er að velta upp þeirri staðreynd að sé farið í gamlar heimildir, s.s. Íslenzkt fornbréfasafn, þá er hugtakið selför helst notað í tengslum við seljabúskap. Hins vegar er mun algengara í yngri heimildum að talað sé um selstöður. Til að mynda er orðið selstaða notað í Jarðabókinni og er það mun algengara en selför, í það minnsta í skrifum um Hnappadals- og Snæfellsnessýslu. Að sama skapi eru orðin sel og selför notuð í Grágás en sætur og setur í Jónsbók og má líklega rekja þá orðnotkun til norskra lagabálka. Þessi breyting á orðnotkun ein og sér vekur forvitni og er vert að velta því fyrir sér hvort einungis er um breytt orðaval að ræða í tímans rás sem þýði í raun ekki neitt eða hvort breyting hafi orðið á seljabúskapnum, hugsanlega á landsvísu þar sem ekki ekki virðist endilega vera landsvæðamunur á notkun þessara orða, hvort heldur er á eðli búskaparháttanna eða framkvæmd.
Þessari spurningu verður ekki svarað hér en mig langar þó að benda á tengingu sem orðin selstaða og selstöð hafa vissulega við orðið verstöð.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Bendir orðnotkunin til ákveðinnar vinnslueiningar og þess að selstaðan sé útstöð frá sínum heimabæ. Þannig er selstaðan efnahagsleg eining innan býlisins og gegnir ákveðnu hlutverki í örheimi býlisins. Þótt staðreyndin virðist vera sú að orðið selför hafi verið notað á fyrstu öldum en síðar selstöður í meira mæli yfir þessa búskaparhætti er ekki þar með sagt að tilvist seljabúskaparins sem efnahagsleg eining og útstöð hafi breyst í eðli sínu. Hins vegar er hægt að velta því upp hvort seljabúskapur hafi í upphafi verið stundaður meira af menningarlegum og jafnvel pólitískum ástæðum en brýnni þörf og hvort breytt orðaval geti stafað af meiri efnahaglsegum ávinningi af seljabúskapnum á seinni öldum og mikilvægi hans að því leyti – hann hafi þannig verið sambærilegur við verstöðvar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Vísbendingar eru um að seljabúskapur hafi ekki verið stöðugur í gegnum aldirnar heldur hafi hann víða lagst af um tíma á ákveðnum stað og síðan verið tekinn upp aftur, jafnvel áratugum ef ekki öldum seinna. Ástæður þessa eru óljósar en í Íslenzku fornbréfasafni má lesa um deilur manna í millum vegna þess að aðili hefur hafið seljabúskap á gamalli selstöðu sem hann ekki hefur notkunarleyfi fyrir. Ljóst er að fyrst óvissa var um hver ætti tilgreinda selstöðu hlýtur annaðhvort að vera að endurnýjun hafi verið slík á svæðinu að upplýsingarnar hafi glatast eða þá að svo langur tími sé liðinn frá því síðast var haft í seli á viðkomandi stað að vitneskjan um selstöðurnar sé við það að glatast. Af þessu að dæma, sem og skráðum fornleifum auk aldursgreininga líkt og í Þórsárdalsseli sem fjallað var um í II. hluta ritgerðarinnar, er ljóst að víða eru nokkrar, jafnvel margar, kynslóðir selja á sama stað. Þær geta verið til komnar af því að nýjar byggingar voru reistar á stöðugum selstöðum þegar þurfa þótti eða vegna þess að gamlar selstöður voru teknar aftur í notkun og nýjar byggingar byggðar í stað þess að lappa upp á þær sem fyrir voru. Þannig geta sýnilegar kynslóðir selja verið bæði dæmi um samfellu í seljabúskap en einnig rof.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Sums staðar hafa bæir og/eða kirkjur átt fleiri en eina selstöðu. Sést þetta í Íslenzku fornbréfasafni þar sem t.a.m. Grenjaðarstaðarkirkja í Suður-Þingeyjarsýslu á tvö sel; selför til Kringluvatns og hálfa selför „í skarði uppi“. Ekki er ljóst hvort um mismunandi tegundir selja hefur verið að ræða eða hvort búsmalanum hefur einfaldlega verið skipt upp til að nýta betur landið eða vegna landþrengsla í selstöðunum. Annar möguleiki er einnig að selstöðurnar hafi ekki verið nýttar samtímis heldur til skiptis. Ástæðuna fyrir slíkri nýtingu er erfitt að sjá en mögulega hefur það verið vegna viðkvæms gróðurs eða nýtingar ákveðinna auðlinda í hvorri selstöðunni fyrir sig. Í Noregi var þekkt að bæir ættu fleiri en eitt sel og flyttu sig á milli þeirra á ákveðinn hátt sem bundinn var í hefðir. Engar vísbendingar eru þó enn um að þetta hafi verið gert hér á landi.

Í rannsóknum Guðrúnar Sveinbjarnardóttur á seljum Reykholts í Borgarfirði hefur þó komið í ljós að staðurinn átti fleiri en eitt sel. Var eitt þeirra, Faxadalur, í notkun líklega allt frá 11./12. öld og fram á þá 19. Engar vísbendingar var að finna um að selið hefði nokkurn tíma lagst af á þessu tímabili. Tvö önnur sel Reykholts hafa verið rannsökuð, Reykholtssel og Norðurtungusel, en þau voru ekki í notkun á sama tíma og virðist Norðurtungusel hafa verið leigt út á seinni öldum en seljabúskap þar lauk ekki fyrr en um miðja 19. öld. Ekki er ljóst hvers vegna Reykholt hafði í seli að því er virðist á tveimur stöðum í einu og engar vísbendingar fundust um ólíka starfsemi á stöðunum.

Umfang seljabúskapar

Fornasel

Fornasel í Hraunum. Forsenda fyrir seljabúskapnum var nálægð við vatnsstæði, læk, á eða vatn.

Af ofangreindri umræðu má sjá að varla er hægt að búast við því að seljabúskapur á Íslandi hafi verið byggður á landlægu kerfi sem var eins alls staðar, bæði í framkvæmd og eðli. Án efa hefur umfang seljabúskaparins verið mismunandi, svo sem áherslur, staðsetningar og annað. Erfitt er að áætla umfang hans á hverjum stað út frá fornleifum, hve margir voru í selinu á hverjum tíma og hve mikið var gert þar, nema með uppgrefti á þeim í heild sinni. Út frá rústum á yfirborði er hugsanlega hægt að meta hvort húsin þykja lítil eða stór, mörg eða fá, og draga þannig ályktanir varðandi umsvif á staðnum en slíkar ályktanir eru þó einungis getgátur sem dregnar eru upp í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir hendi eru.

Fornasel

Fornasel í Strandarheiði.

Heimildir um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni eru margar en þó ekki margvíslegar. Oft er einungis sagt að umtalaður bær eða kirkja eigi selför á ákveðnum stað og síðan ekki söguna meir. Þó er hægt að lesa út úr öllum færslunum í heild að selfarir hafa verið mikilvæg ítök, líkt og skógarhögg eða reki, og að seljabúskapur virðist ekki hafa verið stöðugur alls staðar heldur hafa sel fallið úr notkun og síðan verið tekin í notkun á ný eins og nefnt var hér að framan. Í Fornbréfasafninu er nefnt að farið hafi verið með kindur, kýr, hross og jafnvel geitur í sel. Hrossin eru þarna líklega vinnudýr, m.a. til að flytja heim á bæ afurðir sem framleiddar voru í selinu en ólíklegt verður að teljast að hryssur hafi verið færðar í sel til mjalta eins og annar búsmali þótt neysla kaplamjólkur sé þekkt.

Baðsvellir

Baðsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur kom inn á seljabúskap í meistararitgerð sinni um búskap og rekstur í Reykholti. Fjallar hann um seljabúskap og eðli hans út frá Íslendingasögunum og öðrum heimildum og kemst að þeirri niðurstöðu að tvö kerfi seljabúskapar hafi tíðkast á Íslandi: 1) fámennar selfarir þar sem aðaláhersla var á beit og mjólkurvinnslu og 2) fjölmennar selfarir þar sem meirihluti fólks á bænum fór í selið og vann þar fleiri störf en þau sem viðkomu beit og mjólkurvinnslu.

Telur Benedikt þetta kerfi líkjast fulseterbruk (ís. alsel) kerfinu í Noregi og að kerfin tvö hafi verið notuð hér á landi þegar á miðöldum. Verð ég að segja að mér finnst að þær vísbendingar fyrir tvöföldu kerfi í seljabúskapnum allt frá upphafi seljabúskapar og a.m.k. fram á 17. öld, sem Benedikt dregur fram, beri að taka alvarlega. Þó verð ég að slá varnagla við frásagnir í annálum um selfarir á 17. öld sem hægt er að túlka bæði sem fjölmennar selfarir en einnig þannig að heimilisfólk hafi verið í heimsókn í selinu.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Þótt síðari tíma hugmyndir um seljabúskap séu að mestu leyti byggðar á hugmyndum um fámennar selfarir, sauðfé og mjólkurvinnslu þá er næsta víst að þessi hugmynd á ekki við um öll sel í gegnum alla Íslandssöguna og líklegast er að hugmyndir þessar séu sprottnar upp úr frásögnum fólks sem síðast var í seljunum auk frásagna fræðimanna eins og Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. Segir Jónas að í seli hafi einungis verið ein selráðskona og smali en ef fé var margt hafi selráðskonan tekið með sér eina eða tvær unglingsstúlkur til viðbótar. Gera verður ráð fyrir að hafi seljabúskapur borist strax með fyrstu landnámsmönnum og síðan áfram með þeim sem seinna komu þá hafi hann ekki verið einsleitur heldur jafnvel hver gert hlutina á þann hátt sem hann þekkti og vildi. Þannig er mögulegt að seljabúskapur hafi með tímanum þróast yfir í tvöfalt kerfi sem þótti henta íslensku samfélagi.

Segja má að það sem fram kemur í Íslenzku fornbréfasafni um seljabúskap stangist ekki á við hugmyndir Benedikts um tvöfalt kerfi í seljabúskap á Íslandi. Þó ýtir það frekar undir hugmyndir um fámennari selfarir þar sem hvergi er fjallað greinilega um stórtækari selfarir eða starfa í seljunum.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er þó öll sagan sögð með rituðum heimildum og er Íslenzkt fornbréfasafn auðvitað einungis safn bréfa sem varðveist hafa og ómögulegt að segja hvað hefur staðið í bréfum sem glötuð eru. Að sama skapi eru allar hugmyndir okkar um seljabúskap á Íslandi byggðar á götóttum heimildum fyrri alda og orðmörgum lýsingum seinni alda selfara. Hér þyrfti fornleifafræðin að koma til skjalanna og hjálpa til við að stoppa í götin og reyna að varpa frekara ljósi á umfang seljabúskapar og starfann í seljunum.
Fornleifafræðilega séð er kenningin um tvöfalt kerfi í seljabúskapnum vandkvæðum háð því óljóst er hvort og hvernig hægt er að greina slíkt kerfi í fornleifunum. Líklegt er að bæði fámennar og fjölmennar selfarir hafi skilið eftir sig minjar þar sem selja- búskapurinn virðist alltaf hafa kallað á að hafa kvíar/aðhald og geymslu og/eða vinnslurými. Hér verður því gengið út frá að minni selfarirnar sjáist glöggt í fornleifunum og möguleikinn á fámennum selförum sem eru ósýnilegar í fornleifafræðilegu tilliti útilokaður. Slíkar athafnir, þ.e. mjaltir og meðhöndlun búsmala þar sem engar varanlegar byggingar eru, kýs ég að kalla ekki seljabúskap.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Annar möguleiki varðandi fjölmennar selfarir er einnig sá að einhver hluti fólksins hafi farið fram og til baka yfir daginn og einungis lítill hluti selfólksins hafst við í selinu yfir nóttina. Slíkan möguleika þarf þó að skoða í tengslum við hvert sel fyrir sig með tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðgengis að selinu. Í sumum seljum eru rústir þó fleiri og/eða með stærri rýmum og er það vísbending um fjölmennari selfarir þar sem fólk dvaldi allt í selhúsunum. Sem dæmi um slíkt má nefna Svelgsársel neðra í Helgafellssveit  en þar eru þrjú rými sem gætu komið til greina sem íverurými og gætu einhver þeirra jafnvel verið samtíða. Nálægt því seli fannst einnig heystæði sem hugsanlega hefur verið heyjað í á seltímanum.
Þegar litið er á fornleifarnar virðast ekki forsendur fyrir að skipta selstöðunum í Helgafells- og Eyrarsveit í tvo hópa, fámennar og fjölmennar selfarir, og í reynd má spyrja hvort nokkuð vinnst með slíkum bókhaldsæfingum.

Þorlákshafnarsel

Í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli).

Upplýsingar um fjölda fólks í seljum eru áhugaverðar og geta gefið hugmynd um hve mikil framleiðni selsins var og hve mikið af auðlindum í nágrenni þess gætu hafa verið nýttar en það segir þó ekki alla söguna. Ekki er mikilvægast að skoða hve margt var í seljunum hverju sinni heldur frekar hver tilgangur og áhrif seljanna voru í efnahagslegum og samfélagslegum skilningi.

Til er frásögn af ferðalangi á fyrri hluta 19. aldar sem er á ferð nálægt seli Þorlákshafnar sunnan við Hellisheiði og kemur þar við til að fá sér að drekka því hann er þyrstur og sér reyk í selinu. Þannig er líklegt að í seljunum hafi ekki óviðkomandi verið bannaður aðgangur heldur hafi þau verið vinnslustöð og dvalarstaður fólks þar sem gestir og gangandi voru velkomnir. Aðrar seinni tíma frásagnir segja einnig frá gestakomum í selin, sérstaklega um helgar, og var þá oft glatt á hjalla. Ekki síður væri mikilvægt að rannsaka stöðu þeirra sem í seljunum voru, ekki bara hve margir voru þar heldur hverjir. Var selfólkið eingöngu hraust vinnufólk á góðum aldri eða fóru húsbændur í selin líka? Voru liðléttingar skildir eftir heima á bæ ef margir fóru í sel eða var þeim einnig fengin vinna þar?

Hvað fór fram í seljum?

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusli.

Eins og fram hefur komið hér að framan snýst grunnhugmyndin um seljabúskap á Íslandi um beit búpenings, mjaltir og mjólkurvinnslu í seljunum. Fólk dvaldist í seljunum frá fráfærum á vorin og fram eftir sumri og voru afurðirnar, sem til urðu í selinu, fluttar heim á bæ með reglulegu millibili. Nauðsynlegt var að hafa aðgang að vatni til þess að þrífa ílátin, sem nota þurfti við mjólkurvinnsluna, auk þess sem íveruhús, eldhús og geymsluhús voru talin hinn venjulegi húsakostur í seljum.
Því hefur verið haldið fram að í seljum hafi ekki verið eldstæði, heldur sé slíkt vísbending um heilsársbúsetu: „Mér finnst ólíklegt að seljafólk hafi ómakað sig á að halda eldi lifandi í húsum sínum yfir hásumarið“ eru orð sem Gunnar Karlsson hafði um eldstæði sem fannst á Pálstóftum. Sé Íslenzkt fornbréfasafn skoðað kemur í ljós að staðhæfing þessi getur vart staðist þar sem greinilegt er að í seljum var eldiviður nauðsynlegur, ekki síst í ljósi þess að hita þarf mjólk – flóa hana – til þess að hægt sé að gera úr henni skyr. Sést þetta einnig á því að eigendur jarða gefa leyfi fyrir eldiviðartöku eins og selin þurftu. Að auki er ljóst að ýmis önnur not voru höfð af eldstæðum en til þess að ylja sér við eingöngu og tel ég að ekki nokkur fornleifafræðingur myndi halda því fram að eldstæði væri skýrt merki um heilsársbúsetu þar sem gera má ráð fyrir að eldstæði geti fundist á flestum stöðum, ef ekki öllum, þar sem menn hafa á annað borð hafst við.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólstaðasel.

Í hinni hefðbundnu sýn á seljabúskapinn sá kvenfólkið um öll mjólkurverk og annað sem þeim tengdist í selinu en smalinn sá um að koma búsmalanum í og úr haga á milli mjalta. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp af selförum í eldri heimildum er þó óljósara hver gegndi hvaða hlutverki í seljabúskapnum. Þó eru til nokkur dæmi um frásagnir af verkaskiptingu í seljum. Í Hrafnkels sögu Freysgoða segir frá konum sem mjólka í seli Hrafnkels auk þess sem Einar smali á að viða heim öllum sumarviði á meðan hann er í seli. Í Laxdæla sögu segir frá húskörlum sem stunda heyverk í seli en þó lítur út fyrir að það sé eftir að seljatímanum lýkur og í Grettis sögu segir frá Auðuni á Auðunarstöðum sem fer í sel og kemur heim með mat þaðan, m.a. skyr. Þessar frásagnir ríma þó við verkaskiptingar í yngri heimildum.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Þorlákshafnarsel II). Selstöðunnar er hvergi getið í skráum heimildum.

Fornleifarannsóknir á Íslandi hafa því miður ekki gefið miklar upplýsingar um það sem fram fór í seljunum, helst sökum þess hve fá sel hafa verið grafin upp. Upplýsingar, sem þó hafa safnast, eru áhugaverðar og gefa að nokkru leyti nýja sýn á verkefni selfólksins. Ber þar helst að nefna niðurstöður uppgraftarins á Pálstóftum sem fjallað var um í I. hluta þessarar ritgerðar en þar fundust vísbendingar um að skartgripasmíði hafi verið stunduð í selinu auk þess sem gæsabein benda til þess að gæsir hafi verið veiddar í nágrenninu og nýttar í selinu og/eða fluttar heim á bæ. Þótt vísbendingar finnist í seljum um hvað þar fór fram getur fornleifafræðin ekki sagt okkur hver vann hvaða störf og því er ekki hægt að vita hvort hlutverk kynjanna í seljabúskapnum hefur breyst í aldanna rás. Líklegt er þó að ekki einungis kyngervi hafi ráðið verkum fólks í seljum heldur einnig staða og aldur. Mætti því ef til vill spyrja hvort siðir og venjur hafi stjórnað því hvort ákveðnir heimilismenn færu í selið og hvort veran í selinu hafi verið eftirsótt eða ekki, hvort hún hafi verið virðingarverð og veitt fólki upphafningu – eða jafnvel þvert á móti.

Kjarni seljabúskapar og önnur starfsemi

Ölfus

Núpasel.

Enn bendir flest til þess að grunnurinn í seljabúskap á Íslandi hafi verið búsmalinn, beitin og mjólkurvinnslan sem honum tengdist þótt rannsóknir eins og sú á Pálstóftum hafi náð að víkka þá sýn nokkuð. Færslur í Íslenzku fornbréfasafni gefa sterklega til kynna að búsmalinn sé kjarni selfararinnar. Þannig er minnst á búsmala eða sauðfé/kýr/geitur/hesta víða þar sem meira er sagt um selfarir en bara það að ákveðin kirkja eða jörð eigi selför á tilteknum stað  og hvergi í heimildum er getið um að kjarni þess sem fram fór í seljum hafi verið annað en ofangreint.
Hér verður ekki skilið á milli kúaselja annars vegar og fjárselja hins vegar enda ekki litið svo á að vinna í seljunum hafi verið mjög ólík hvort sem haldnar voru þar kýr, ær eða geitur.

Sognsel

Sognsel.

Sé litið til fornleifafræðinnar blasir við ákveðið vandamál þegar skoða á þennan meinta kjarna seljabúskaparins, beitina og mjólkurvinnsluna, eins og Gavin Lucas hefur bent á í tengslum við rannsóknina á Pálstóftum. Tilvist rennandi vatns eða annarrar góðrar vatnsuppsprettu er ágæt vísbending þegar kemur að því að draga ályktanir um mjólkurvinnslu á staðnum. Sé slíkt ekki fyrir hendi er ólíklegt að mjólk hafi svo nokkru nemi verið unnin á staðnum en þó verður að gera ráð fyrir tímanum í þessu samhengi og taka mark á því að landið er síbreytilegt og lækir og vatnsuppsprettur geta horfið í tímans rás.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Grunn vatnsstæði áttu það til að þorna upp þegar líða tók á sumarið.

Auk þessa er mögulegt að rigningarvatni hafi verið safnað eða brunnar grafnir. Yfir höfuð er eina leiðin að segja til um tilvist búsmala í seljum, þegar einungis er um yfirborðsrannsóknir að ræða, að skoða hvort mannvirki eru á staðnum sem tilheyra búsmala, s.s. kvíar, aðhöld, garðar eða slíkt. Séu þess konar mannvirki ekki til staðar er ekki hægt að vita með vissu hvort búsmali hafi verið haldinn á viðkomandi stað. Með uppgrefti er hins vegar hægt að segja meira og geta ýmsar greiningar komið þar að góðum notum, s.s. greiningar á skordýrum, örformgerðargreiningar á jarðvegi þar sem m.a. er hægt að greina úrgang dýra og frjókornagreiningar þar sem hægt er að merkja breytingar á nýtingu lands, t.d. vegna beitar. Auk þessa er mögulegt að finna ílát og önnur merki um mjólkurvinnslu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Vandamálið liggur þó ef til vill í því að þótt engar vísbendingar finnist er ekki hægt að slá því föstu að búpeningur hafi hvergi komið nærri í starfsemi selsins. Fræðilega séð getur því komið upp áhugaverð staða. Aðalgerandi seljabúskaparins að því er virðist, búsmalinn, getur verið ósýnilegur í fornleifunum sem vekur spurningar um hvernig skuli í því ljósi haga umfjöllun um sel. Var stundaður seljabúskapur án búsmala? Vangaveltur í tengslum við þessa síðustu spurningu verða teknar upp aftur síðar en fyrst skal hugað að öðrum starfa í selinu, ótengdum búsmalanum.
Nokkrar vísbendingar má finna í rituðum heimildum um að önnur aðföng eða ítök hafi verið nýtt á meðan á seltímanum stóð en þurfti í selinu sjálfu en slíkar vísbendingar eru þó ekki sterkar. Til að mynda má gera ráð fyrir að allar frásagnir af heyverkum í seljum teljist sem aðfanganýting fyrir heimabæinn þar sem hey teljast til vetrarfóðurs.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft; sennilega kolagröf.

Frásögur af eldiviðartöku, hrísrifi og torfristu eru erfiðari viðureignar þar sem um nýtingu í seljunum eingöngu gæti verið að ræða. Ljóst er að þótt fáar séu heimildirnar þá hefur nýting auðlinda í nágrenni selja sums staðar tíðkast og líklegt er að mjög víða hafi eldiviður fyrir selið verið fenginn úr nánasta umhverfi þess. Fyrir utan smávægilegar vísbendingar hér og þar er ágæt frásögn rituð af sr. Guðlaugi Sveinssyni þar sem hann lýsir ýmsum verkum í seljum í lok 18. aldar sem ekki einungis virðast vera draumsýn hans á seljabúskapinn heldur eiga sér stoð í raunveruleikanum. Þannig fjallar Guðlaugur um hrístekju, kolagjörð, fjallagrasatekju og heyverk sem verk sem vert er að vinna í seli samhliða umhirðu búsmalans og mjólkurverkum.

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið. Selstöður voru ekki einungis nýttar fyrir búsmala heldur og til kolagerðar, fuglatekju og jafnvel grasaferða.

Þótt vísbendingar um að ítök og auðlindir í nágrenni selja hafi verið nýtt meðan á seltímanum stóð séu litlar og víða engar er ekki þar með sagt að slíkt hafi ekki verið gert. Hugsanlegt er að slíkt hafi verið svo sjálfsagt að ekki hafi þótt vert að nefna það. Einnig getur verið að sums staðar hafi nýtingin verið í svo litlum mæli að ekki hafi þótt ástæða til að nefna hana og enn annars staðar getur auðvitað verið að selfólkið hafi einungis haft með búsmalann að gera og ekkert annað. Að mínu mati er það þó mjög mikil einföldun að gera ráð fyrir að ekkert annað hafi farið fram í seljum en mjólkurvinnsla og þegar greinilegar auðlindir eru í næsta nágrenni við sel verður að teljast líklegt að þær hafi verið nýttar að einhverju marki. Í ljósi þess að víða eru greinilegar auðlindir í nágrenni selja verður einnig að velta upp þeirri spurningu hvort seljum hafi að einhverju leyti verið valinn staður með nýtingu þeirra í huga.
Þó svo að skráningar á seljum geti sjaldnast gefið miklar vísbendingar um hvað í seljunum fór fram finnst mér sjálfsagt að líta á umhverfi seljanna til þess reyna út frá því að áætla hvaða auðlindir hafi verið hægt að nýta á svæðinu.

Seljabúskapur án búsmala?

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól og fyrrum selstaða.

Eins og áður sagði bendir ekkert til annars en að sel hafi verið mjög ákveðin gerð af vinnslustöð þar sem búsmali og mjólkurvinnsla voru í forgrunni en líklega þó með nýtingu annarra auðlinda í bland að meira eða minna leyti. Notkun orðsins sel á Íslandi yfir staði og vinnslustöðvar, sem ekki uppfylla þessi meginskilyrði, á sér því engan stuðning í raunveruleikanum eftir því sem næst verður komist. Þetta á við hvort sem litið er til fyrstu alda Íslandsbyggðar eða seinni alda. Notkun og tilbúningur hugtaka eins og „kolasel“ í íslensku samhengi þar sem enginn búskapur fór fram heldur einungis kolagjörð og hugsanlega skyldar athafnir er því ekki heppileg og ætti að forðast því það grefur undan hugtakinu sel og því sem það stendur fyrir.

Hvað er sel í fornleifafræðilegum skilningi?

Gljúfursel

Gljúfursel.

Helsta vandamálið, þegar kemur að fornleifafræði og seljum, er hvernig þekkja skuli seljarústir á yfirborði. Það getur reynst misjafnlega erfitt og fer mikið eftir landsvæðum hve greinilegar rústirnar eru og hve auðvelt er að greina þær frá öðrum rústaþyrpingum, s.s. kotbýlum. Að geta skilið á milli sels og rústaþyrpingar með annað hlutverk liggur að miklu leyti hjá viðkomandi fornleifafræðingi og skiptir þá miklu að sá hinn sami hafi reynslu og þekki vel til minja á svæðinu sem verið er að rannsaka. Þetta á ekki einungis við þegar skráðar eru rústir með áður óþekkt hlutverk eða áður óþekktar rústir heldur einnig þegar skráðar eru þekktar rústir með meint þekkt hlutverk samkvæmt munnmælum því ekki er alltaf víst að þekking á hlutverki rústanna hafi borist rétt milli kynslóða. Annað sem getur valdið vandamálum er að fornleifar hafa oft gegnt fleiri en einu hlutverki í gegnum tíðina og getur reynst erfitt að greina þau hvert frá öðru á yfirborði. Til að mynda er mjög þekkt að beitarhús eða bæir hafi verið byggð á gömlum selstöðum og jafnvel bæði beitarhús og bæir. Í þeim tilfellum getur reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt að greina undir öllu kraðakinu elstu rústirnar.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir utan þetta eru seljarústir svo mismunandi að sel lítur ekki alltaf út eins og sel. Hér kemur til þekking fornleifafræðingsins á minjum á svæðinu eins og fram kom hér að framan. Það er erfitt að skýra hver grunnurinn í hugsanaganginum var en reyni maður að ráða í það hafði líklega mest að segja staðsetningar, landslagið umhverfis og svo rústirnar sjálfar. Yfirleitt samanstóð rústaþyrpingin af einni stórri rúst með þremur til fjórum rýmum auk kvía/aðhalds og jafnvel fleiri rústa eða mörgum litlum rústum og kvíum/aðhaldi. Einn stað skráðum við sem hafði örnefnið Sel (í landi Berserkseyrar) en þá rúst töldum við í raun ekki vera sel og var sú ályktun dregin af staðsetningu, umhverfi og útliti rústarinnar en engar aðrar rústir voru í nágrenni hennar. Það má því ætla að þessir þrír þættir hafi mikið með það að gera hvort um er að ræða sel eða ekki, a.m.k. í tilfelli Helgafells- og Eyrarsveitar. Ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að í seli hljóta yfirleitt að vera minnst tvær rústir: marghólfa rúst með íverurými, geymslu og/eða vinnslurými og kvíarúst.

Hvassahraunssel

Tóftir í Hvassahraunsseli.

Erfitt er að búa til uppskrift af því hvernig seljarústir eiga að líta út. Þó hefur verið reynt að tína til ákveðin atriði sem hægt er að nota til að greina á milli selja og býla. Eitt er að ekki eru bæjarhólar í seljum. Það gefur augaleið að þessi punktur hefur eitthvað til síns máls enda var í flestum tilfellum einungis hafst við í seljum á sumrin og því er ekki mikil mannvistaruppsöfnun í þeim. Á móti kemur að margar sögur eru til af fólki, sérstaklega í seinni tíð, sem bjó í millibilsástandi í eitt eða fleiri ár í seljum. Ef slíkt hefur gerst í sama selinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar er allt eins víst að mannvistaruppsöfnun hafi aukist og því hafi selið farið að líkjast meira bæ að því leyti. Engu að síður er selið áfram sel þótt það hafi verið bær á þessum ákveðna tímapunkti. Hér kemur því aftur upp vandamálið með breytileg hlutverk fornleifanna og áhrif mismunandi hlutverka á þær.

Næsta víst er að sé gengið út frá umræðunni hér að ofan varðandi kjarna seljabúskaparins er ljóst að eitt mikilvægt atriði verður undantekningarlítið að vera í seljum en það eru kvíar eða aðhald til þess að halda utan um búsmalann á meðan mjólkað er.

Villingavatn

Villingavan – Gamlasel í Gamlaselsgili.

Komi fornleifafræðingur að rústum með óþekkt hlutverk þar sem ekki eru kvíar eða aðhald er ólíklegt að sá hinn sami myndi túlka rústaþyrpinguna sem sel.
Líta verður á minjasvæðið sem heild og skoða rústirnar í samhengi við umhverfið – rannsaka menningarlandslagið. Þannig þarf að leggja saman gerðir rústanna, staðsetningu þeirra og umhverfi, auðlindir í nágrenninu, aðgengi og fjölda rústa. Ég vil ekki taka undir að hæð yfir sjávarmáli sé endilega atriði sem gott er að nota til að skilgreina sel á landsvísu en hitt er annað mál að sel eru líklega oftast staðsett ofar í landslaginu og lengra inn til landsins en heimabæir þeirra. Í Helgafellssveit þýðir þetta ekki marga metra yfir sjávarmáli en hins vegar yfirleitt nokkrum kílómetrum lengra inn til landsins, annaðhvort inn í dalina við fjöllin eða á sléttuna upp af ströndinni. Svona hefur landslag hvers svæðis áhrif á hvar seljum hefur verið valinn staður.

Selflatir

Selið á Selflötum í Grafningi.

Bestu tilfinninguna gefur það auðvitað ef gengið er að selinu eftir gömlum leiðum, þjóðleiðum og selgötum, og mest gefandi væri að ganga frá hverjum heimabæ í viðkomandi sel. Það er þó því miður sjaldnast í boði þegar verið er að vinna fornleifaskráningu, aðallega tímans vegna. Sums staðar verður þó að ganga nokkurn spöl að seljunum sem gefur tækifæri til að ganga í gegnum landið og fá tilfinningu fyrir menningarlandslaginu og samhengi seljanna við landslagið.

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

Seljarústir geta verið margar eða fáar í hverri selstöðu og eru líklegustu áhrifavaldarnir í þeim efnum án efa samfella í seljabúskap, kynslóðir selja, umfang seljabúskaparins og nýting fleiri en eins bæjar á selstöðunni. Fjallað var um þessi atriði hér að framan en mig langar að nefna þau hér örstutt aftur til að leggja áherslu á hve ólíkar rústaþyrpingar selja geta verið og ekki megi gleyma þeim möguleika að um margar og jafnvel aðskildar kynslóðir geti verið að ræða í sömu selstöðunni. Einnig getur sama selstaðan hafa innihaldið sel margra bæja frá sama tíma.

Sel og seljabúskapur á Íslandi

Selvogsheiði

Selvogsheiði – minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Af umræðunni hér að framan má sjá að seljabúskapur á Íslandi hefur verið flóknari og margslungnari en frásagnir Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili gefa til kynna og það er langt því frá að við höfum á honum fullkominn skilning og þekkingu. Seljabúskapur hefur líklega fylgt landnámsmönnum hingað til lands strax í upphafi og hefur án efa tekið mið af þeim venjum sem hver og einn þekkti. Líklegt er því að seljabúskapurinn hafi ekki alls staðar verið eins í upphafi byggðar. Þessi mismunur á seljabúskapnum hefur haldist í gegnum tíðina en helgast líklega mest af landslagi hvers staðar og þeim áherslum sem hver og einn hafði í seljabúskapnum, þ.e. skepnufjölda og nýtingu annarra auðlinda. Ekki verður vart við neina stórfellda, landlæga breytingu á seljabúskap á Íslandi en breyting orðavals frá selför í selstöðu gæti bent til þess að einhvers konar breyting hafi orðið á búskaparháttunum þótt einnig gæti verið um nokkurn veginn merkingarlausa breytingu á orðnotkun að ræða. Seljabúskapur virðist hafa getað lagst af í nokkur ár eða jafnvel áratugi og síðan verið tekinn upp aftur. Á því eru engar haldbærar skýringar en líklega hafa aðstæður á hverjum bæ ráðið því eða breytingar á náttúrufari.

Litlalandssel

Litlalandssel – mjólkurafurðirnar voru geymdar í hellisskútanum.

Hvað varðar seljabúskapinn sjálfan, umfang hans og verkin sem unnin voru í selinu er ljóst að kjarni seljabúskaparins hefur verði búsmalinn og mjólkurvinnslan sem honum fylgdi. Vinnslustaður, sem ekki byggðist á búsmala, ætti því ekki að kallast sel. Þó eru vísbendingar um að búsmalatengd vinna sé ekki sú eina sem hafi verið unnin í seljum og því eru miklar líkur á að víða hafi önnur aðföng verið nýtt úr nágrenni seljanna, bæði til hagnýtingar í seljunum sjálfum en einnig til að flytja heim á bæ. Líklegt er að til hafi verið fámennar og fjölmennar selfarir þar sem fjöldi fólks í selinu hefur haft áhrif á hve mikil afköst selsins voru hverju sinni.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Hitt er svo annað mál að aðalatriðið er ekki endilega hve margir voru í selinu hverju sinni heldur frekar hvaða hlutverki selin gegndu í efnahags- og samfélagslegu tilliti. Þannig hafa selin að því er virðist ekki verið jaðarfyrirbæri heldur staðir sem jafnvel voru „í leiðinni“ og gestagangi vel tekið. Áhugavert væri að skoða hverjir voru í seljunum, hvaða starfa þeir höfðu og hvaða stöðu seljabúskapurinn hafði í samfélaginu – hvort vistin í seljunum var eftirsótt eða ekki. Að mínu mati ættu fræðimenn framtíðarinnar að spyrja sig spurninga af þessu tagi auk þess að reyna að setja seljabúskapinn á hverjum stað í samhengi við landslag, samfélag og efnahag til þess að auka skilning á honum á hverju svæði fyrir sig því seljabúskapur hefur ekki alltaf eða alls staðar verið það sama og seljabúskapur þótt kjarni hans hafi verið búsmalinn og störf honum tengd.

Samfélag og efnahagur

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Seljabúskapurinn er partur af búskap bæja og spila þar líklega stórt hlutverk bæði hefðir og efnahagslegur ávinningur. Ekki var þó nóg að hafa einungis hugsjónina að vopni þegar kom að seljabúskap heldur þurfti bæði að hafa aðgang að landsvæði og mannskap til að geta stundað hann. Það var því ekki á allra færi að stunda seljabúskap þótt viljinn væri hugsanlega fyrir hendi. Engum sögum fer þó af því hvort bændur á minni bæjum, kotum og hjáleigum hafi haft áhuga á því að stunda sjálfir seljabúskap. Það er þó líklegt þar sem dæmi eru um í Jarðabókinni að hjáleigur megi nýta selstöðu með heimajörðinni.

Forsendubrestur
Ef reynt er að svara fyrri spurningunni er ljóst að eitthvað hlýtur að hafa sett af stað snjóboltann sem svo að lokum varð til þess að farið var að leggja niður selstöður; slíkt gerist ekki upp úr þurru. Grunnforsendur seljabúskaparins hljóta að hafa brostið eða í það minnsta breyst á einhverjum tímapunkti og ýtt þróuninni af stað. Líklegast er að hér sé um marga samverkandi þætti að ræða. Sé litið á framangreind atriði varðandi endalok seljabúskapar í samhengi við umræður um fólksfækkun og fiskleysi í Ferðabók Eggerts og Bjarna, auk ítarlegrar umfjöllunar Hitzlers um endalok seljabúskapar, er hægt að draga upp eftirfarandi mynd sem gæti skýrt upphaf þróunarinnar.

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Þessi skýring er byggð bæði á land- og svæðisbundnum upplýsingum en vísbendingarnar eru fáar og því verður víða að geta í eyðurnar.
Á árunum 1200-1500 eru vísbendingar um að smjörverð hafi hækkað ört og því er líklegt að blómatími seljabúskaparins hafi verið á þeim tíma þar sem smjör var ekki eingöngu ætlað til heimabrúks heldur einnig til að borga skuldir, t.d. við jarðeigendur, og nota sem gjaldmiðil í verslun og öðrum viðskiptum eins og síðar verður fjallað um.

Nessel

Nessel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt rannsóknum Jóns Jóhannessonar á verðlagi smjörs var vætt smjörs um árið 1200 metin á 30 álnir en strax þegar Jónsbók var lögtekin árið 1281 var verðið komið upp í 48 álnir. Á 15. og 16. öld fór verðið upp í hæstu hæðir og komst í 80 álnir. Rekur Jón þessar verðhækkanir til aukinnar eftirspurnar innanlands og utan. Ekki einungis var það vegna matarvenja Íslendinga heldur var smjör einnig gjaldmiðill sem notaður var til að borga biskupstólum, klaustrum og jarðeignamönnum auk þess sem smjör varð útflutningsvara í síðasta lagi árið 1480 og líklega nokkuð fyrr (Jón Jóhannesson 1958:144). Í klaustrum og víðar söfnuðust upp gríðarlegar birgðir smjörs sem urðu umtalsefni erlendra manna á ferð um Ísland. Árið 1555 kom út í Róm bók Olaus Magnusar um fólkið í norðri, Historia de Gentibus Septentrionalibus. Hefur hann skrifað um Ísland einhverju áður en bókin kom út þar sem klaustrin voru þá enn við lýði en um smjörbirgðir á Íslandi segir hann: „… in Iceland may be found such an abundant supply of salted butter, owing to the numerous herds of cattle and the luxuriant pastures, that there are insufficient barrels and kegs to hold it all … [it is stored] partially for consumption at home, but more particularly for barter with merchants. … Tubs of this plentiful butter are to be found in the monastery which the people in their own tongue call Helgafell. Its economy is based on butter and dried fish, an equivalent of richer treasures“.

Nærsel

Nærsel í Efri-Þormóðsdal.

Af þessum skrifum Olausar má sjá að smjör hefur verið mikið verðmæti um og fyrir miðja 16. öldina og þá er fiskurinn það einnig. Lýsing þessi er án efa nokkuð ýkt, sérstaklega fyrri hluti hennar, og er ólíklegt að allt þetta smjör sé afurð kúa heldur er líklegra að þarna sé um bæði sauða- og kúasmjör að ræða. Burtséð frá því er samt nokkuð ljóst að smjörframleiðsla hefur enn á þessum tíma, undir miðja 16. öld, verið töluverð og smjör notað sem gjaldmiðill í verslun og viðskiptum. Má í ljósi þessa gera ráð fyrir að seljabúskapur hafi enn staðið með blóma þegar hér er komið sögu og mest af smjörinu framleitt í seljunum.
Sé litið á klaustrin og eignir og viðskipti þeirra í smjöri er hægt að velta upp þeim möguleika að endalok klaustranna gætu hafa haft áhrif á seljabúskap landsmanna. Þegar klaustrunum var lokað hafa án efa losnað gríðarlegar smjörbirgðir og það hefur hugsanlega haft áhrif á verðlag og eftirspurn eftir smjöri fyrst á eftir. Enn fremur hætti fólk að borga klaustrunum með smjöri og því hefur þörfin fyrir það sem gjaldmiðil minnkað þar sem ólíklegt er að konungur hafi tekið við miklum borgunum í smjöri en hann tók við miklu af eignum klaustranna. Hugsanlegt er að tengsl endaloka klaustranna og smjöreignar þeirra hafi haft enn meiri áhrif í sveitum þar sem margar jarðir voru í eigu klaustranna.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sé litið á útflutning á ný eru til tölur frá 1585 um útfluttar vörur frá Nesvogi í Helgafellssveit. Sjávarafurðir eru mesti og verðmætasti hluti útflutningsins en þó er einnig að finna landbúnaðarvörur á listanum. Þannig er verðmæti útfluttra vara metið á 569 vættir og eru 496 af þeim tilkomnar vegna skreiðar. Þar á eftir kemur lýsi með 33,5 vættir og lax með 13 vættir. Vaðmál og löng höld eru 12 vættir og smjör síðan 8,5 vættir. Auk þessa voru einnig flutt út 120 kg af blautfiski, 4 kindur og uxi sem öll samanlagt hafa nokkuð minna heildarverðmæti en smjörið. Smjör er því fimmta verðmætasta útflutningsvaran í Nesvogi en þó er villandi að nota slíkt orðalag þar sem verðmæti smjörs er ekki nema 0,017% af heildarverðmæti skreiðarinnar og 0,015% af heildarútflutningsverðmæti.
Árið 1625 eru til tölur yfir útflutning frá landinu í heild og eru þá fiskafurðir 75,1% heildarútflutningsverðmæta en ullarvörur og ýmsar vörur um 14% og eru smjör, æðardúnn og skinn þar undir, u.þ.b. 2% verðmætisins. Greinilegt er að fiskur er langtum mikilvægasta útflutningsvaran og gera má ráð fyrir að vegur hans í útflutningi hafi vaxið jafnt og þétt frá því að skreið varð útflutningsvara á 14. öld og tók við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara Íslendinga. Verðlag fisks virðist hafa verið frekar hátt fram undir 1550 en á milli 1550 og 1600 varð verðfall sem hefur líklega haft einhver áhrif á íslenskan fisk þótt óvíst sé hve mikil þar sem hann var seldur á sérstökum markaði í Evrópu.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Hvað forsendur seljabúskaparins varðar má gera ráð fyrir að í upphafi hans hér á landi hafi hann gegnt bæði efnahagslegu og samfélagslegu hlutverki eins og rætt hefur verið um fyrr í þessari ritgerð. Þótt líklegt sé að stór hluti afurða seljanna hafi verið nýttur til heimabrúks og til að borga skuldir við eigendur jarða er líklegt að smjör og/eða aðrar mjólkurafurðir hafi verið notaðar í viðskiptum að einhverju leyti jafnvel frá upphafi. Hugsanlegt er þó að með hækkandi smjörverði á tímabilinu 1200-1500 hafi mikilvægi smjörs í viðskiptum aukist og þess vegna hafi forsendur seljabúskaparins og mikilvægi hans í tengslum við ákveðna þætti í afkomu býlisins færst í meira mæli yfir á viðskiptahlutann en neysluhlutann. Sé þetta rétt hefur það haft mikil áhrif á seljabúskapinn þegar fiskur fór að taka algerlega yfir í magni og verðmæti því þá hafði seljabúskapurinn blásið út en afurðirnar voru farnar að falla í verði.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Líklegt er að með aukinni áherslu á fisk sem verslunar- og viðskiptavöru hafi staða smjörs í sama tilgangi breyst og mikilvægi þess minnkað. Í kjölfarið á því er líklegt að áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskap hafi einnig minnkað. Hvenær nákvæmlega þessi breyting verður er erfitt að segja en í Ferðabók Eggerts og Bjarna kemur fram að þeim þykir merkilegt að áður fyrr hafi fiskveiðar verið minni en í þeirra tíð þegar nær allir stunda sjóinn. Þá hafi landbúnaður verið aðalatvinna fólks en „hann er nú í mesta vesaldómi“. Ferðabókin er auðvitað skrifuð um miðja 18. öld en tónninn í þessari umræðu Eggerts og Bjarna gefur til kynna að alllangt sé síðan þessi breyting varð.
Líklegt er því að þessi áherslubreyting frá landbúnaði yfir í fiskveiðar verði um 1600 þegar verð er farið að hækka aftur á fiski og fiskgengd er enn þá mikil. Helgi Þorláksson hefur velt upp svipuðum hugmyndum um endalok seljabúskaparins og tengt þær m.a. við útflutningsverslun. Nefnir hann að þýskir kaupmenn hafi gjarnan keypt smjör en danskir einokunarverslunarmenn ekki haft á því mætur. Þetta styður það sem sett var fram hér að framan að breytingar um 1600 hafi verið grunnurinn að forsendubresti seljabúskaparins en einokunarverslun Dana hófst einmitt árið 1602.

Selvogsheiði

Tóftir á Selvogsheiði.

Eggert og Bjarni láta í veðri vaka að á 17. öld hafi fiskveiðar á Snæfellsnesi orðið til þess að landbúnaðinum hnignaði og eftir að stórabóla gekk yfir á árunum 1707-1709 hafi mannfæð verið slík að útróðrar frá bæjum lögðust niður. Landbúnaðurinn hafi þó verið kominn í slíkar ógöngur að mikla vinnu hefði þurft að leggja af mörkum til að ná honum í fyrra horf og í stað þess að leggja í slíkt, vegna þess að menn voru orðnir vanir því að borða mestmegnis fisk, hafi bændur sent fólk í ver og jafnvel farið sjálfir. Nú – um miðja 18. öld – sé svo komið að mestur vinnukraftur fari í sjósókn og því geti komið harðindaár ef fiskurinn bregst þar eð landbúnaðurinn sé ekki nægur til að geta tekið við sveiflunum í fiskinum þótt tíðarfar sé honum hagstætt.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel) í Selvogsheiði.

Líklegt er þó að ekki sé öll sagan sögð hjá Eggerti og Bjarna þegar kemur að niðurníðslu í landbúnaði og er ekki eingöngu fiskveiðum Íslendinga eða almennu dugleysi þeirra í landbúnaði um að kenna. Á 15. öld hófst Litla ísöldin á norðurslóðum og hefur kólnandi veðurfar henni tengt haft áhrif á fólk, dýr og ekki síst gróðurfar. Í tengslum við minnkandi landgæði í kjölfar kólnandi veðurs getur verið að menn hafi tekið þá ákvörðun að flytja vinnuafl frá landbúnaðinum yfir á fiskveiðar og þess vegna hafi fiskveiðarnar sjálfar ekki verið aðalástæða þess að vinnuaflsflutningurinn átti sér stað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Í tengslum við rannsóknir á veðurfari og kólnun á norðurslóðum hefur því verið velt upp að stöðug kólnun og stök slæm ár hafi ekki endilega verið verst heldur það þegar forspárgildi veðursins var orðið lítið, ekki var hægt að gera ráð fyrir nokkurn veginn stöðugu veðurfari og þ.a.l. hafi ákvarðanir verið teknar sem gátu dregið dilk á eftir sér. Slíkar ákvarðanir í tengslum við gróðureyðingu eru t.d. þær að breyta búskaparháttum þannig að stjórna ekki beit búfjár með smölum og auka með því hættuna á því að það gangi of nærri viðkvæmum svæðum. Í kjölfar kólnandi veðurs og versnandi gróðurfars, auk hugsanlegrar gróðureyðingar á köflum, getur verið að búsmala hafi verið fækkað og að það hafi einnig haft áhrif á seljabúskapinn.
Til að taka saman umræðuna hér að ofan eru vísbendingar um að fram að ritun Jarðabókarinnar hafi tilvist og mikilvægi seljabúskaparins fylgt eftirfarandi atburðarás: að hátt smjörverð á árunum 1200-1500 hafi skapað umhverfi fyrir blómaskeið seljabúskaparins. Í kjölfar aukinnar áherslu á fisk í verslun og viðskiptum minnkaði eftirspurn eftir smjöri og í samvinnu við breytta veðráttu og færslu vinnuafls frá landbúnaði yfir á fiskveiðar minnkaði áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskapnum um 1600. Víða leggst hann af í kjölfarið en þó ekki alls staðar.

Seljabúskapur hvers bæjar fyrir sig

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar grunnstoðir seljabúskaparins voru fallnar, eða í það minnsta orðnar valtar, voru án efa sérstakar aðstæður á hverjum bæ fyrir sig sem ákvörðuðu hvort og hvenær seljabúskapur bæjarins var lagður niður. Slíkar ástæður geta hafa legið í aðstæðum á bænum sjálfum og/eða í seljalandinu. Ástæður eins og mannekla, ónýt selhús, erfitt aðgengi að selinu og breytt gróðurfar geta allar hafa átt við, hver í sínu tilviki eða jafnvel saman. Í sumum tilfellum getur verið að forsendubresturinn hafi verið nægur til þess að hætta seljabúskap en svo hefur ekki verið hjá öllum. Erfitt er að greina nákvæmlega út frá rústum á yfirborði endanlegar ástæður þess að hvert sel fyrir sig fór í eyði en þó eru ákveðnar vísbendingar um hvað olli því að seljabúskap var hætt.
Á heildina litið legg ég til þá skýringu að við áherslubreytinguna um 1600 hafi hann farið mjög halloka þegar mannskap á bæjunum var skipt niður á verk. Á 17. öld voru harðindi og plágur sem leiddu til fólksfækkunar, þótt það komist ekki með tærnar þar sem stórabóla hefur hælana, og þá hafi seljabúskapurinn víða verið lagður af til að geta sett meira vinnuafl í fiskveiðar. Hins vegar lagðist það sem fram fór í seljunum ekki niður heldur voru mjólkandi ær og kýr hafðar heima á bæ í heimakvíum eða færikvíum þar sem það átti við og þeim beitt á engjar og haga nærri bæjunum. Auðlindir hafa einnig verið nýttar áfram en þó á annan hátt, m.a. með sérstökum ferðum, s.s. grasaferðum. Að færa færa mjólkandi ær – og kýr þar sem það átti við að kýr væru enn í seli á þessum tíma – heim á bæ krefst þess auðvitað að landrými sé fyrir slíka búskaparhætti heima við.

Lokaorð

Krosssel

Krosssel.

Seljabúskapur á Íslandi var mun flóknara og margbreytilegra fyrirbæri en sú mynd gefur til kynna sem Jónas Jónasson dregur upp í Íslenzkum þjóðháttum (1945). Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa hjálpað til við að varpa nýju ljósi á seljabúskap Íslendinga. Oft er þó umfjöllun um seljabúskap byggð á takmörkuðum raungögnum og því munu nýjar rannsóknir vonandi bæta meiri þekkingu í sarpinn á komandi árum. Margt er enn órannsakað og þá ekki síst mannlegi þátturinn – staða og hlutverk selfólksins. Mín von er að umfjöllunin hér að framan um birtingarmyndir seljabúskaparins, mismun og fjölbreytni veki upp hugmyndir og kveikjur að nýjum rannsóknarverkefnum sem geta hjálpað til við að geta í eyðurnar varðandi þetta mikilvæga og margbreytilega búskaparform fortíðarinnar.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Seljabúskapurinn kom að öllum líkindum með landnámsmönnunum og var hann ekki einungis stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af hefð sem tekin var með heiman að. Selin verða að hefð í nýja landinu og tíðkast líklega um allt land. Sniðið á búskaparháttunum og seljunum sjálfum hefur þó verið misjafnt þótt kjarninn hafi alltaf verið búsmalinn og mjólkurvinnsla honum tengd. Ekki síst hefur landslag haft áhrif á staðsetningar og nýtingu seljanna og má ekki gera of lítið úr mögulegum þætti auðlinda í nágrenni þeirra í þessu samhengi. Venjan virðist hafa verið að fólk fór í selin með búsmalann og dvaldi þar yfir seltímann, eins og tíðkaðist í alseljum í Noregi. Einhver fór svo á milli með afurðir hvort sem sá var staðsettur heima á bænum eða í selinu.
Seljabúskapurinn var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi bæjarins, sveitarinnar og landsins alls. Selin voru því ekki einungis efnahagsleg eining innan býlisins heldur líka samfélagsleg. Þau voru staðir þar sem gestir voru velkomnir og staðsett við alfaraleiðir hafa þau verið áfangastaðir fleira fólks en bara selfólksins. Ekki síst hafa selin haft pólitíska þýðingu og menn bæði helgað sér land með þeim, jafnvel langt frá bæ, og einnig sýnt vald sitt út á við með því að hafa selin á sjónrænt mikilvægum stöðum. Seljabúskapurinn hefur því margar hliðar sem vert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig og þannig það kerfi sem hann var hluti af.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum.

Landslag og jarðnæði sveitanna eru að öllum líkindum helstu áhrifaþættir varðandi endalok seljabúskaparins eftir að forsendubrestur tengdur auknum fiskveiðum, minnkandi mikilvægi smjörs, manneklu og breyttum landgæðum kemur af stað því ferli sem endalokin voru. Þannig höfðu breytingar á því efnahags- og samfélagslega kerfi sem seljabúskapurinn var hluti af áhrif á seljabúskapinn og hrundu af stað endalokum hans. Munurinn á endalokum seljabúskapar í þessum tveimur samliggjandi sveitum sýnir að óvarlegt er að alhæfa um seljabúskap á landsvísu og gera ráð fyrir einsleitni í umræðum um hann. Ekki þarf að skoða stærra svæði en þetta til að rekast á greinilegan mun sem grundvallast á samhengi seljabúskaparins.
Umfjöllunin hér að framan sýnir að hægt er að nýta fornleifaskráningu sem rannsóknaraðferð í fornleifafræði og að fornleifaskráning getur gefið miklar og áhugaverðar upplýsingar sé hún vel unnin og hugað að atriðum eins og nákvæmum staðháttalýsingum og skráningu mikilvægra atriða fyrir hverja tegund minja, eins og vatnsuppsprettum og nálægum auðlindum í tilfelli selja. Fornleifarannsóknir þurfa ekki að grundvallast á uppgrefti til að geta skilað nýjum og áhugaverðum niðurstöðum: fornleifaskráning er fornleifarannsókn!“

Sjá má ritgerðina í heild HÉR.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.