Lágafell

Lágafell

Á Lágafelli stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen síðustu æviár sín.

Lágafell

Lágafell – hermenn í nágrenninu á stríðsárunum.

Nokkur þúsund hermenn bjuggu í bröggum í Mosfellssveit í síðari heimsstyrjöldinni (frá Lágafelli að Suður-Reykjum og Hafravatni). Ein eftirminnilegasta ljósmyndin frá þeim tíma er af nokkrum hermönnum við loftvarnabyssu á lágri hæð í virki norðvestan við Lágafellskirkju. Byssan er horfin og mennirnir einnig, en eftir stendur gróið virkið til áminningar um hinu válynda tíma í sögu mannkynsins, ekki bara hér á landi heldur og um gjörvalla heimsbyggðina.
Á skilti við Lágafellskirkju stendur: „Hér að Lágafelli var bænhús seint á miðöldum en Lágafellskirkja var vígð árið 1889 og er að stofni til sú sama og hér stendur. Endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1956 og 1979. Lágafellskirkja tekur 160-180 manns í sæti.

LágafellLágafell er gömul bújörð og prestar Mosfellinga sátu hér í kringum aldamótin 1900. Á þriðja ártaug 20. aldar eignaðist athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) jörðina og bjó hér á efri árum sínum í íbúðarhúsi sem stendur enn. Á 5. áratugnum keypti Mosfellshreppur hluta af Lágafellslandi og var því skipt niður í nokkur nýbýli þar sem búskapur var um nokkurt skeið. Stór hluti af þéttbýliskjarna Mosfellsbæjar hefur risið í landi Lágafells.“
Meðfylgandi ljósmynd er af Mosfellingum árið 1901 eftir messu að Lágafelli. Guðrún Þorláksdóttir og Sigurður Guðmundsson héldu þá gullbrúðkaup sitt hátíðlegt þennan dag.

Lágafell

Lágafell – Lágafellshúsið (þinghúsið).

Myndin er af Þinghúsinu, eins og það var kallað. Myndin er tekin úr turni Lágafellskirkju. Ártal óvíst.
Í Sögu Kjalarnesprófastsdæmis segir að presturinn sr. Jóhann Þorkelsson hafi flutt að Lágafelli árið 1885 og búið í eigin húsi og sama hafi gengt um eftirmann hans, sr. Ólaf Stephensen sem þjónaði Mosfellingum á árunum 1890-1904. Ólafur þessi gerði samning við Lestarfélag Lágafellssóknar um viðbyggingu við hús sitt árið 1898.
Þegar maður veltir fyrir sér hvenær Lágafellshúsið er byggt má gera ráð fyrir að það hafi verið einhvern tíma í kringum byggingu og vígslu kirkjunnar, en Lágafellskirkja var byggð árið 1888 og vígð árið eftir 1889.

Lágafell

Lágafell – þinghúsið.

Í ritinu Bókasafn í 100 ár, saga Lestarfélags Lágafellssóknar og Héraðsbóksafns Kjósarsýslu, kemur fram að kirkjan og þinghúsið hafi lengi verið einu samkomustaðir sveitarinnar. Á árunum 1898-1922 fór öll félagsstarfsemi Mosfellinga fram í Lestrarfélagshúsinu eða þangað til Brúarland var byggt árið 1922.

Viðbyggingin sem Lestrarfélagið byggði var kallað Þinghúsið eftir að Mosfellshreppur festi kaup á henni.

Viðbyggingin var haldið við húsið með langri járnslá sem lá þvert í gegnum það. Segir í sögu bókasafnsins að íþóttamannslegir drengir hafi notað þessa slá til ýmissa æfinga um leið og þeir sóttu sér lesningu í bókasafnið í húsinu.

Húsið var flutt árið 1968 á þann stað þar sem það stendur nú, í Hlíðartúni, nánar tiltekið við Lágumýri 6.

Lágafell

Lágafell (MWL).

„Lágafell í Mosfellssveit er í landnámi Þórðar skeggja, en hann nam land á milli Úlfarsár og Leiruvogs“ (Landnámabók I, bls. 48). Jörðin Lágafell er fyrst nefnd í skrá um jarðir sem komið hafi undir Viðeyjarklaustur eftir að Páll ábóti kom til Viðeyjar. Lágafell er þar skráð 20 hundraða jörð. Skrá þessi er gerð 1395.
Árið 1541 er hin nýja kirkjuskipan samþykkt um Skálholtsbiskupsdæmi. Konungur hafði slegið eign sinni á klaustureignir í löndum sínum og svo varð einnig hér á landi. Þróunin gat því ekki orðið á annan veg en að Lágafell yrði krúnujörð.

Lágafell

Lágafell 1895.

Árið 1547 fær Jón Bárðason „lífsbréf“ af konungi fyrir ábýlisjörð sinni „Laugefeldt“ [Lágafelli] (Dipl. Isl. XI, bls. 593). Í Fógetareikningum Kristjáns skrifara og Eggerts Hannessonar frá 1547-1552 er Lágafell skráð, leiga og landskylda jarðarinnar. Leigan, landskylda og skreiðargjaldsreikningar þessir eru af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum, öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi og af Skóga- og Merkureignum (Dipl. Isl. XII).
Sumarið 1703 skrifuðu þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín jarðabók Mosfellssveitar og í henni er eftirfarandi lýsing Lágafells: Eigandinn kóngl. Majestat. Ábúendur Jón Ólafsson, býr á hálfri, annað Þorvaldur Teitsson, býr á hálfri. Landskuld i c. Betalast með fríðu uppá sama taxta sem áður greinir að kvikfjenaður sje hjer í sveit af Bessastaðamönnum í landskuldir tekinn.

Lágafell

Lágafellskirkja 1889.

Við til húsabótar leggja ábúendur. Leigukúgildi iii. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eður Viðeyjar. Kúgildin uppýngja ábúendur. Kvaðir eru mannslán um vertíð, eitt af allri jörðinni, og gjalda ábúendur það til skiptis. Í tíð Heidemanns voru tvö mannslán, ef tveir bjuggu á jörðunni, og gaf hann þá tíu fiska þeim, er í það sinn ekki fjell til að gjalda mannslánið. Hestlán til alþingis tvö ef tveir ábúa og hestar eru til, og í tíð Jens Jurgenssonar kveðst Jón Ólafsson hafa til látið í þessa kvöð hross sex vetra gamalt, og það síðan aldrei aftur fengið og öngvan betaling fyrir. Dagslættir tveir í Viðey, gjaldast in natura ella leysast með tíu fiskum og fæðir bóndinn sig sjálfur nema hvað einu sinni á dag er í tje látinn lítill mjólkurmatur.

Lágafell

Lágafellskirkja um 1960.

Hríshestar tveir, sinn af hverjum. Tveir hestar af digulmó og stundum fjórir. Torfskurður í mógröfum síðan Heidemanns tíð að aflögðust megin skipaferðir, en þessa kvöð hefur umboðsmaðurinn Páll Beyer í næstu tvö ár ekki kallað. Skipaferðir allt fram á Heidemanns tíð, en aflögðust þá upp hófst forpachtningin, og skip kom ekki lengur í Seyluhöfn.
Timbur í Þingvallaskóg að sækja á tveimur hestum og fæða sig sjálfur. Þessi kvöð hófst og endist í Heidemanns tíð. Húsastörf á Bessastöðum í Heidemanns tíð, stundum í samfelda þrjá daga, og var hvorki gefinn matur nje drykkur. Fóður um vetur, aldrei minna en ein kyr að þriðjúngi og aldrei meira en ein kýr að fullu.

Lágafell

Lágafell 1940.

Er þessi kvöð í fyrstu so upp komin, að í tíð foreldra þeirra, sem nú eru á lífi, voru frá Viðey skikkuð tvö lömb á bæ í sveitina og síðan smáaukið. Þessi kvöð hefur nú í ár ekki kölluð verið og ekki meir í fyrra en eins lambs fóður.
Kvikfjenaður hjá Jóni viii kýr, ii kvígur veturgamlar, ii úngkálfar, xvii ær með lömbum, i geld, vi sauðir gamlir, vi þrevetrir, vii tvævetrir, xiiii veturgamlir, ii hestar, i foli veturgamall, ii hross, i unghryssa; hjá Þorvaldi vi kýr, ii kvígur veturgamlar, i naut þrevett, ii úngkálfar, xii ær með lömbum, ii sauðir tvævetrir, xi veturgamlir, i hestur, iii hross, i únghryssa.
Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal. Vatnsból meinlega erfitt, þá snjóvetrar eru (Jarðabók Árna og Páls).

Lágafell

Lágafell – herforingjaráðskort 1909.

Af ritheimildum að dæma hefur verið samfelld byggð á Lágafelli að minnsta kosti frá því á 14. öld. Á ljósmynd sem tekin var af Lágafellsbænum árið 1895 sést að þá voru þar enn torfhús en samkvæmt túnakorti frá 1916 og ljósmynd frá fyrri hluta 20. aldar höfðu þar hins vegar verið byggð þrískipt steinhús á þeim tíma. Á túnakortinu sjást líka útihús með áfastri rétt sem stóðu vestar en bæjarhúsin. Kálgarðar eru norðan og sunnan við húsin. Nú eru bæði torfhúsin og steinhúsin horfin og sléttað hefur verið yfir gamla bæjarstæðið á Lágafelli. Hluti þess er undir kirkjugarðinum og sennilega undir veginum að kirkjunni.

Lágafell

Lágafell – loftmynd 1954.

Fyrstu vísbendingu um bænhús eða kirkju að Lágafelli er að finna í Fógetareikningum þar sem greint er frá tveimur kirkjukúgildum að Lágafelli og að séra Jón hafi fengið landskuldina eða eina kú í kaup. Í reikningunum frá árunum 1547-1548 segir: „Jtem med Lagefeldt ij kýrckequelld. landskyldt en ko. thenne tog sere Ioen ij sin kop.“ Í reikningunum frá 1548-1549 er orðalagið nánast eins: „Jtem mett Lagefeldt ij kýrckequellder landskyldt j c tog sere Ion thene ko j sit kop.“ Í reikningum frá 1549-1550 segir síðan: „Jtem mett Lagefeld ij kirkekior landskyldt er j c. tog sere Ion thene landskyldt j sit kop.“

Lágafell

Lágafellskirkja 2020. Saga Lágafellskirkju hefst með konungsbréfi frá árinu 1774 þar sem skipað var að sameina Mosfells- og Gufunessóknir í eina. Þessi tilskipun var afturkölluð tveim árum síðar. Hugmyndin kom fram aftur rúmri öld síðar eða 1886 þegar Magnús Stephensen, landshöfðingi, gefur út tilskipun um að sameina sóknirnar og leggja af kirkjurnar á Mosfelli og í Gufunesi en reisa nýja kirkju á Lágafelli.

Í kirknamáldögum frá því um 1600 kemur fram að bænhús og kirkjukúgildi hafi verið bæði að Lágafelli og Varmá en að þau séu aflögð.

Einungis eru því heimildir um kirkju á Lágafelli um miðja 16. öld og gæti það bent til þess að notkun hennar hafi einskorðast við stutt tímabil. Óljóst er hvar þessi miðaldakirkja hefur verið staðsett en væntanlega hefur kirkjustæðið verið nálægt bæjarstæðinu.
Því fer fjarri að kirkja hafi verið samfellt á Lágafelli allt frá 16. öld en hins vegar var ráðist í byggingu nýrrar kirkju árið 1887 og var hún vígð 1889. Lágafellskirkja var endurbyggð og endurvígð árið 1931 og aftur á sjötta áratugnum og stendur hún enn.

Heimildir m.a.:
–Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Skýrslur jóðminjasafnasins 2006.
-Antikva, Fornleifaskráning, Lágafell, 2022.

Lágafell

Lágafell – Gamla þinghúsið (Lágafellshúsið) við Lágumýri 6 árið 2023.