Bárðartóft

Bárðartóft er ofan Mosfellsdals, í sunnanverðu Bárðarholti norðan Jónsselslækjar. Tóftin hefur látið verulega á sjá vegna ágangs hesta. Hún er eitt rými, auk lítils bakrýmis (sennilega svefnbálkur). Framgafl hefur snúið mót suðvestri.

Bárðartóft

Bárðartóft.

Í Örnefnalýsingu segir: “Þarna nokkuð ofan við Gljúfrastein, fast við veginn, er Grænaborg, […] þar skammt ofar, rétt við Jónsselslæk, er Bárðartóft. Þar sést bálkurinn, sem Bárður lá á. Þetta er beint vestur af Skákunum” í tungunni ” sem eru milli Köldukvíslar og Jónsselslækjar […] yfir dyrunum lá hella.” Skv. fornleifaskráningu 1980 er tóftin “á smáþýfðu graslendi, sem hallar” í suður “niður að læknum”. Lækurinn “rennur milli tveggja holta” og ofan og norðan “við tóftina er grýtt og gróðurlítið holt”, líklega Bárðarholt “sem Bárðartóft er syðst á” skv. Örnefnalýsingu. Um 2 m vestan tóftarinnar er “grunnur vatnsskorningur. Nánar tiltekið er þetta beint sunnan við þjóðveginn, um 1 km austan við Gljúfrastein og um 1,5 km suðaustan við Laxnes.”

Lýsing

Bárðartóft

Bárðartóft.

Rústin er um 8 x 5 m að stærð en innri brúnir veggja og þar með innanmál eru óörugg. Breidd veggja er þó um 1,5 m. Við norðausturgaflinn er talsvert þýfi og grjót og hefur hann því líklega verið í þykkara lagi fremur en að þarna hafi verið bakhús. Ytri veggjabrúnir eru óljósastar á þessum gafli. Hæstur er langveggurinn norðvestan megin, um 0,7-0,8 m en veggurinn á móti er illa farinn og hefur á kafla næstum jafnast við gólfið. Inngangur er á suðvesturgafli og stefnan suðvestur-norðaustur. Um bálkinn og helluna í Örnefnalýsingu er einnig getið í Menningarminjaskrá en skrásetjari sá ekki móta fyrir þessu. (Ágúst Ó. Georgsson).

Aðrar upplýsingar
Um Bárðartóft sagði Halldór Laxness:
„Einhver einsetukall bjó þarna í kofa”. Þetta virðist ekki mjög gömul rúst eða frá því í kringum aldamótin 1900.”

Í “Athugasemdir Guðmundar Þorlákssonar á Seljabrekku við handrit Ara Gíslasonar” segir: “Bárðarholt er holtið, sem Bárðartóft er syðst á. Það er norðan við Jónsselslæk og stefnir þvert á Langholt.”

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006/2 – Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands.
-Örnefnalýsing Laxness – Ari Gíslason.
-Athugasemdir Guðmundar Þorlákssonar á Seljabrekku við handrit Ara Gíslasonar.
-Laxnes – munnleg heimild.

Bárðartóft

Bárðartóft.