Austurgatan og Fríkirkjan – skilti
Á upplýsingaskilti við gatnamót Austurgötu og Linnetsstígs í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:
„Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi árið 1908 var ekkert skipulag á byggðinni og fáaer eiginlegar götur í bænum, einungis slóðar og troðningar.
Þremur árum síðar var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum bæjarins nöfn og tölusetja húsin. Varð úr að nefndarmenn gáfu flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð „hverfi“ og hús númeruð innan þeirra. Á því svæði sem Austurgatan stendur í dag var svokallað Austurhverfi á þeim tíma. Austurgatan var lögð á árunum 1914-1918. Á svæði þar sem Austurgatan stendur í dag standa við götuna 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf. Húsin við Austurgötuna mynda einstaklega heildstæða götumynd byggðar frá upphafi 20. aldar og þó að gatan hafi byggst upp að mestu leyti á þessum árum erugerð og stíll húsanna mjög fjölbreytt.
Segja má að Austurgatan sé dæmigerð fyrir gamla Hafnarfjörð þar sem byggðin, hraunið og mannlífið mynda áhugaverða heild. Við götuna standa, eða hafa staðið, hús með merkilega sögu auk tveggja álfakletta.
Nyrst við götuna stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.
Litlu sunnar er komið að húsi Ólafs borgara sem áður stóð neðar í lóðinni en hefur nú verið flutt upp að götu. Húsið var byggt árið 1872 sem verslunar- og íbúðarhús.
Gegnt því húsi stendur gamla símstöðin, sem byggð var eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríksisins, árið 1922. Þar var rekin símstöð allt til ársins 1962.
Fríkirkjan stendur á kletti yfir götunni en hún er elsta kirkjan í Hafnarfirði, byggð árið 1913. Kirkja þessi er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún var t.d. síðasta tvílyfta timburkirkjan sem byggð var á Íslandi, sú fyrsta sem var raflýst, frá henni lágu á sínum tíma hæstu tröppur landsins og fyrstu útvarpsmessunni hér á landi var útvarpað frá henni árið 1926.
Húsið númer 26 við Austurgötuna er byggt af Hjálpræðishernum sem sjómanna- og gistiheimili. Þar rak bærinn um tíma tvær sjúkrastofur en árið 1927 var allt húsið tekið á leigu undir berklahæli. Árið 1935 hófts rekstur elliheimilis og almenningsmötuneytis í húsinu en Hafnarfjörður varð annað sveitarfélagið á landinu, á eftir Ísafirði, til að reka elliheimili.
Emil Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóri og ráðherra, lét byggja eftir eigin teikningu húsið nr. 37 við götuna en það er talið dæmigert fyrir teikningar hans í nýbarrokkstíl með gaflsneiddu þaki. Auk þess að vera íbúðarhús hefur þar verið ýmist starfsemi í gegnum árin, s.s. húsgagnabólstrun, hárgreiðslustofa og sparisjóður.
Við suðurenda götunnar er brúin yfir Hamarskotslæk en hún er í raun stíflan sem Jóhannes Reykdal reisti þegar hann stóð að stofnun fyrstu almenningsrafveitu landsins árið 1904. Þá notaði hann fallorku lækjarins til að knýja níu kílóvatta rafal. Rafveitan var tengd í sextán hús og fjóra ljósastaura í bænum.“
Minnisvarði um Örn Arnarson reistur í Hafnarfirði
Í Tímanum 1973 má lesa eftirfarandi um fyrirhugaðan minnisvarða um Örn Arnarsson í Hafnarfirði. Gísli Sigurðsson, minjavörður Byggðasafnsins, segir frá:
„Á sumri komanda verður sett upp i Hafnarfirði minnismerki um skáldið Örn Arnarson. Hann var búsettur i Hafnarfirði um árabil og er öðrum fremur talinn skáld íslenzkrar sjómannastéttar. Minnismerkið verður sett upp við Reykjavíkurveg, en uppistaða þess er gamalt og stórt ankeri.
Í það verður fest viðeigandi keðja og verður þessu komið fyrir á stalli, þar sem einnig verður plata með nafni skáldsins. Að öðru leyti er ekki enn búið að ákveða endanlega hvernig minnismerkið verður.
Ekki er vitað úr hvaða skipi ankerið er, en það er gamalt og miklu stærra en svo, að það geti verið úr skútu. Gripurinn hefur verið gerður upp og sett á hann ryðvarnarefni og nýr tréstokkur smiðaður, en hinn upprunalegi er fyrir löngu fúnaður, en járnböndin eru til.
Magnús Stefánsson, en það var skírnarnafn skáldsins var fæddur á Langanesi, og stundaði sjósókn framan af ævi, en vegna heilsubrests varð hann að hætta sjómennsku og eftir það vann hann átakaminni störf i landi. En hann gleymdi ekki sínu fyrra starfi og sízt gömlum starfsfélögum, sjómönnunum, eins og kvæði hans bera með sér. Sjómennirnir gleyma heldur ekki skáldi sínu og á Sjómannadaginn eru kvæði hans sungin. Má t.d. nefna kvæðið „Íslands Hrafnistumenn.“ – Tíminn, 20.11.1973, Minnisvarði um Örn Arnarson, bls. 1.
Minnisvarðinn var afhjúpaður á horni Reykjavíkurvegar og Austurgötu árið 1974 – á fæðingarstað skáldsins.
Fríkirkjan
Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður 20. apríl, 1913 en formlegur afmælisdagur er jafnan miðaður við sumardaginn fyrsta, sama upp á hvaða mánaðardag hann ber. Það er vegna þess að þann dag árið 1913, sem þá bar upp á 24. apríl, var fyrsta guðsþjónustan haldin í Góðtemplarahúsinu.
Kirkjan var síðan vígð þann 14. desember sama ár og hafði þá tekið aðeins rúma þrjá mánuði að byggja hana.
Þegar söfnuðurinn varð 30 ára var birt ítarleg umfjöllun um hann í Lesbók Morgunblaðisns. Umfjöllun blaðsins var birt sunnudaginn 18. apríl 1943. Hér grípum við niður í grein Finnboga J. Arndal í fyrrgreindri Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann skrifar m.a. um tilurð safnaðarins og kirkjuna:
„Söfnuðurinn var stofnaður 20. apríl 1913. Stofnfundurinn var haldinn þann dag í Barnaskólanum í Hafnarfirði. Var boðað til hans af nokkrum Hafnfirðingum, sem áhuga höfðu fyrir því að kirkja yrði reist í Hafnarfirði. Það mál hafði að vísu verið rætt og athugað um allmörg ár af sóknarmönnum Garðasóknar, en af ýmsum ástæðum, en þó sérstaklega vegna fjárhagslegra vandkvæða, átt erfitt uppdráttar fram að þeim tíma.
Samkvæmt lögum safnaðarins skyldi nafn hans vera: Hinn evangelisk- lútherski fríkirkjusöfnuður í Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppum.
Bæjarstjórn samþykti 15. júlí 1913, að leigja söfnuðinum lóð þessa, en tæpu ári síðar samþykti bæjarstjórnin, að söfnuðurinn skyldi framvegis halda lóð þessari afgjaldalaust.
Á safnaðarfundi 26. júlí s.á. var samþykt að ráðast í að byggja kirkjuna. Skyldi hún vera úr timbri, járnvarin. Var þá engin kirkja til í Hafnarfirði, eins og fyr er að vikið.
Seint í ágústmánuði var svo kirkjusmíðin hafin. Hafði verið tekið tilboði frá s.f. Dvergur í Hafnarfirði um smíðina og var þar lofað að gera sjálfa kirkjuna og bekki í hana og leggja til efni, hvorttveggja fyrir kr. 7900.00, en undanskilin var múrsmíð, málning, leiðslur og hitunartæki. Aðalumsjón með kirkjusmíðinni hafði trjesmíðameistarinn Guðmundur Einarsson, Davíð Kristjánsson trjesmíðameistari gerði teikningu af kirkjunni.
Kirkjusmíðinni miðaði vel áfram og var henni lokið að öllu snemma í desembermánuði sama ár.
Árið 1931 fór fram gagngerð viðgerð á kirkjunni. Var kórinn þá stækkaður að mun og turninn hækkaður og honum breytt verulega. Þess utan var kirkjan máluð utan og innan. Teikningar af hinum nýja kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trjesmíðameistari, en smíðið framkvæmdi Haukur Jónsson trjesmíðameistari í Hafnarfirði og fjelagar hans. Málningu alla framkvæmdi Kristinn J. Magnússon, málarameistari í Hafnarfirði.
Eftir þessa miklu aðgerð og breytingar var kirkjan sem ný orðin. Einn af safnaðarmönnum, Jóhannes J. Reykdal versmiðjueigandi á Setbergi, gaf alt timbur sem fór í stækkun kórsins og Kvenfjelag safnaðarins kostaði málningu á kirkjunni að innan að öðru en kórnum. Um sama leyti gaf það fjelag kolaofn í kirkjuna, stóran og fullkominn, er mun hafa kostað um kr. 1.100.00.
Undir kórgólfi er kjallari, sem notaður er sem líkhús og til geymslu. Kirkjan rúmar í sæti um 350 manns.
Um leið og kirkjan var reist var lögð í hana rafmagnsleiðsla enda þótt að litlar líkur væru fyrir því, að raforka væri þá fáanleg til lýsingar kirkjunni, því um þær mundir gat rafmagnsstöð Hafnarfjarðar ekki fullnægt þörfum bæjarbúa.
Kirkjan var síðast endurbætt árið 1998.“ -Samantekt JGR / síðast breytt 11. júní 2010.