Stóribolli
Gengið var á Stórabolla (Stórabollahnúk/Kóngsfell).
Lagt var af stað frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða, gengið áleiðis upp í Kerlingarskarð og síðan vent til norðausturs upp mosahlíðina undir Bollunum með stefnu á gíginn (Stórabolla). Loks var haldið upp eftir vestanverðri gígskálinni ofanverðri og áfram upp á hnúkinn. Efsti hlutinn er tiltölulega greiðfær í aflíðandi sandmulningi uns komið er að stórri vörðu efst á kollinum. Þar sem staðið er í u.þ.b. 550 m.h.y.s. er útsýnið einkar tilkomumikið; til norðurs að Þríhnúkum, austurs Bláfjöllum og að Heiðinni há, suðurs að Hvalhnúk og Ásunum og vesturs Miðbolla, Syðstubollum og Brennisteinsfjöllum.
Skoðum áður skráða leiðarlýsingu um svæðið er birtist í MBL árið 1980: „Ekið sem leið liggur áleiðs eftir veginum til Krýsuvíkur, en beygt út af honum til vinstri og stefnt til Bláfjalla og ekið eftir þeim vegi að neyðarskýli sem er skammt frá veginum á hægri hönd. Þar hefst gangan.
Um þessar slóðir liggur Selvogsgata, gömul þjóðleið, upp í gegnum Grindarskörð og niður í Selvog sem og Reykjavegurinn, leiðin frá Reykjanesvita til Nesjavalla. Grindarskörð eru mynduð af nokkrum gígum sem standa á hlíðarbrúninni og hafa verið kallaðir bollar. Lengst til hægri eru Syðstubollar, þá Tvíbollar eða Miðbollar og lengst til vinstri og þeirra stærstur er Stóribolli (551 m.y.s.) og þangað er ferðinni heitið að þessu sinni.
Frá bílastæðinu er haldið út á hraunið og stefnan tekin lítillega austur fyrir Stórabolla, um s.k. Kristjánsdali og sneiðingur tekinn upp hlíðina. Rétt er að veita athygli hrauninu sem gengið er um, en þar má víða finna e-ð sem gleður augað.
Þegar upp á hlíðarbrúnina er komið kemur í ljós að gígurinn Stóribolli er í raun samfastur við lítið fjall, sem stundum hefur verið nefnt Kóngsfell, en Stórabolla nafninu verið skellt á allan pakkann í tímanns rás.
Kóngsfells-nafnið er á e-u flakki á kortum og ekki í vísan að róa hvort ætlað Kóngsfell sé Stóribolli, eða hvort lítið fjall skammt frá sem ýmist er nefnt Litla-Kóngsfell eða Kóngsfell, sé umrætt Kóngsfell. Stóra-Kóngsfell sem er rétt við Bláfjöllin fær þó að hafa sitt nafn í friði. Til fróðleiks má þó geta þess að á herforingjaráðskorti frá árinu 1910 er nafnið „Konungsfell“ sett á fjallið. Á það kort er reyndar Selvogsgatan (Suðurfararvegur) settur um Kerlingarskarð, sem jafnframt er nefnt Grindarskarð. Á kortinu eru öll landamerkin dregin í nefnt Konungsfell.
Rétt er að ganga upp á Stórabolla (Kóngsfell?) og berja augum útsýnið sem er yfir hraunið allt um kring. Hraun úr Stórabolla hafa runnið allt að Helgafelli og að Undirhlíðum.
Af Stórabolla er haldið vestur með Grindarskörðunum og að Selvogsgötu / Reykjaveginum og þeirri leið fylgt að niður þar sem gangan hófst. Á niðurleiðinni má ekki sjá ýmislegt sem gleður augað og rétt að benda á að víða markar fyrir götunni í hrauninu.“
Í Hellahandbókinni eftir Björn Hróarsson segir að illa gæti farið ef eldgos yrði í nágrenni Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Spurning sé ekki hvort heldur hvenær hraun muni renna á ný til þessara bæja. Því megi telja það „undarlegan sofandahátt“ að ekki séu stundaðar alvöru rannsóknir á hraunrennslu á Íslandi. „Töluverðum fjármunum er varið í snjóflóðavarnir og jarðskjálftarannsóknir meðan rannsóknum á hraunrennsli hefur lítt eða ekki verið sinnt. Hætt er við að Hafnfirðingar muni dag einn vakna upp við vondan draum af þeim sökum,“ segir Björn í Hellahandbókinni.
Hættan er raunveruleg. Eldvirkni á Reykjanesskaga kemur í hrinum, oft með 500 ára virkni og 500 ára sem hún liggur niðri. Eldvirknin hefur nú legið niðri frá því um 1477. Miðað við 500 ára regluna þá gæti farið að líða að næstu hrinu eldsumbrota. Þá er líklegt að hraun renni þar sem hraun er nú þegar. Búrfellshraun er 7.200 ára gamalt og ekki þar með sagt að þar geti ekki gosið á morgun en það getur líka liðið hundrað eða þúsundir ára.
Þá eru bullandi virk eldstöðvakerfi þarna í nágrenninu, í Stórabolla, Litlabolla og Þríhnúkum.
Eldgos urðu í Stórabolla og Litlabolla fyrir 1.000 og 2.000 árum og runnu í þá átt þar sem hverfin í Garðabæ og Hafnarfirði eru nú. Eldgos getur orðið hvenær sem er og það getur orðið löng bið, það veit enginn.“
Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra – Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).“
Staldrað við í Grindaskörðum
Fyrr á tímum lá aðalleiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs, fyrir norðan Valahnúka, um Grindaskörð, Hvalskarð og þaðan til byggða í Selvogi. Í daglegu tali er þessi leið nefnd Selvogsgata. Hún er á ýmsan hátt torsótt. Meðfram henni er lítið sem ekkert vatn að finna, hún liggur að mestu um gróðurlaus brunahraun og í Grindaskörðum kemst hún í 400 m.y.s. Með breyttum samgönguháttum lagðist umferð um Selvogsgötuna niður að mestu og hin síðari ár hefur verið lítið um mannaferðir í Grindaskörðum. Þó munu gangnamenn eiga þar leið um vor og haust, rjúpnaskyttum bregður fyrir á haustin í leit að bráð og svo kemur fyrir að einstaka göngumaður sé þar á flakki sér til gagns og ánægju.
Um þessar mundir er unnið að vegargerð frá Krýsuvíkurveginum fyrir sunnan Hafnarfjörð áleiðis að skíðalöndunum við Bláfjöll. Vegurinn mun liggja rétt fyrir norðan skörðin og við það opnast aftur þetta svæði sem hefur til þessa verið falið fyrir svo mörgum.
Vegurinn nær nú ekki lengra en að Lönguhlíð og þar skiljum við bílinn eftir og tökum stefnuna á Grindaskörðin. Á vinstri hönd höfum við hraunið úfið og ógreiðfært en á hina hlíðar fjallsins þaktar lausum skriðum. En milli hrauns og hlíðar er gott að ganga. Þar eru harðir, sléttir og grasigrónir balar, sem ættu að reynast tilvalin tjaldstæði handa þeim, sem hafa hug á lengri dvöl.
Eins og sjá má á korti eru Grindaskörðin milli Lönguhlíðar og Kristjánsdalahorns. Þar eru þrír hnúkar sem heita Stóribolli, Tvíbollar (á kortinu nefndir Miðbollar) og Syðstubollar. Á þessu svæði öllu hefur verið mikil eldvirkni áður fyrr og eru Stóribolli og Tvíbollar gamlir gígar, sem hafa lagt til megnið af því hrauni, sem þekur svæðið fyrir norðan og vestan skörðin. Fyrir ferðamanninn eru Tvíbollar einna forvitnilegastir og þangð tökum við stefnuna. Þegar komið er upp á gígbarminn kemur í ljós að gígskálarnar eru tvær. Unnt er að ganga brúnirnar allan hringinn, en þó er nokkuð laust undir fæti á stöku stað. Enginn hefur rannsakað þetta svæði betur er Jón Jónsson jarðfræðingur.
Álit hans er að meginhluti þeirra hrauna, sem þekja svæðið frá Grindaskörðum og norður að Undirhlíðum og Helgafelli, sé komið frá Stórabolla og Tvíbollum. Hann segir Stórabollahraunið eldra og liggi það víða undir Tvíbollahrauninu. Samkvæmt mælingum munu þessi hraun vera nokkurn veginn jafnstór, þekja um 18 ferkm. Hvort og vera um 0.36-0.37 km að rúmmáli. En þegar farið er að athuga aldur Tvíbollahrauns nokkru nánar, koma fram sterkar líkur til þess, að það hafi runnið eftir landnám norrænna manna hér á landi, því undir því hefur fundist á einum stað hið svokallaða landnámslag, en það er öskulag, sem talið er að sé frá því um 900.
Útsýnið af Bollunum er frábært í einu orði sagt. Hraunbreiðurnar til norðurs blasa við fyrir fótum manns, og gamla Selvogsgatan hlykkjast milli hraunhólanna í áttina að Valahnúkum. Og í einni sjónhending greinir maður byggðina á Innnesjunum, allt frá Hafnarfirði til Kjalarness. Og ekki spillir fjallasýnin með Snæfellsjökul sem útvörð í vesturátt. Þótt útsýnið til suðurs sé ekki eins tilkomumikið, hefur það samt glögga mynd af hinu gífurlega hraunhafi sem þekur þennan hluta Reykjanesskagans, enda telur Jón Jónsson að á sama tíma og Tvíbollahraunið rann, hafi á annan tug gíga við Grindaskörð og þar fyrir suðvestan, verið virkir.
Þótt við höfum ekki farið lengra en upp í Grindaskörðin, er margt annað að sjá og skoða, sem athyglisvert er, þótt ekki hafi verið minnst á það hér. T.d. er margir fallegir og sérkennilegir hellar í hraununum fyrir norðan skörðin og má það nefna hellana í Dauðadölum og Kristjánsdölum. Við höldum til baka sömu leið að bílnum. Það hallar undan fæti og leiðin sækist greitt. Og þá er gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”.“
Þegar gengið var niður og norður eftir hrauntröð Stórabolla komu í ljós nokkur gróin jarðföll. Neðsta og minnsta jarðfallið vakti þó einna mesta athygli. Í því virðist vera op, sem gæti verið inngangur í hraunrás milli jarðfallanna. Könnun hennar bíður betri tíma.
Þá á enn eftir að skoða inn í lítið jarðfall neðst í rásinni, en í það liggja þröng göng.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild m.a.:
-Mbl dags. óviss 1980 júlí.