Fornleifar og ritheimildir
Nauðsynlegt er fyrir fornleifafræðinga og aðra fræðimenn að vita hvaða ritaðar heimildir fjalla um fornleifar. Um er að ræða bæði beinar heimildir og óbeinar.
Beinar heimildir eru t.a.m. hvers konar lýsingar á fornleifum og staðsetningu þeirra, textar sem gagngert fjalla um fornleifar, s.s. Fornleifaskýrslur, Corographia Árna Magnússonar, óprentaðar ritgerðir Jóns Grunnvíkings, prestaskýrslur frá 1817 (sem var fyrsta heilstæða ritið um fornleifar á Íslandi) er kom út í riti Árnastofnunar (Frásögur um fornaldarleifar), sóknalýsingar af nærri öllu landinu, sögustaðarit Christians Kaalunds (upphaflega gefið út á dönsku, en síðar á íslensku) og Árbók hins íslenzka fornleifafélags (geymir m.a. í fyrstu rannsóknarskýrslur og skrár, en breytist um 1910. Þá kom inn meira af örnefnum og þjólegum fróðleik – eitt helsta rit fornleifafræðilegra upplýsinga). Auk Árbókarinnar má finna upplýsingar um uppgrefti og rannsóknir í doktorsritgerðum og ýmsum sérprentunum, t.d. í formi greinaskrifa. Prentaðar skráningarskýrslur eru til allnokkrar. Má þar helstar telja skýrslu Þorsteinns Erlingssonar (Ruins of the Sagatime), Daniels Bruuns (ísl. útg.; Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár) og Sveinbjörns Rafnssonar og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um skráningu á hálendisbyggðum (1980). Í dag eru fornleifaupplýsingar helst gefnar út í fjölritaðum skýrslum, en einnig eru til fjölmörg óprentuð skráningargögn á Þjms, s.s. handbækur og minnisblöð. Uppgraftarskýrslur hafa sumar verið prentaðar, fjölritaðar eða eru til í handriti og auk þess hefur lengi verið haldin svonefnd Aðfangaskrá í Þjms og öðrum söfnum. Í hana eru skráðir gripir sem söfnin hafa fengið. Raunin er samt sú að tiltölulega fáar stofnanir geyma upplýsingar, en hins vegar getur reynst mjög erfitt að finna upplýsingarnar hjá þeim, sem það gera. Upplýsingarnar eru víðast hvar ekki aðgengilegar og til að komast í þá fáu gagnabanka, sem til eru, s.s. Sarp, þarf aðgangsleyfi til.
Örnefnaskrár eru einnig beinar heimildir. Elstu örnefnalýsingar má finna í „Safni til sögu Íslands“, einkum í öðru bindinu er kom út árið 1987. Í Árbókinni eru prentaðar örnefnaskrár og í héraðssöguritum og víðar má finna örnefnalýsingar um afmörkuð svæði eða jarðir. Örnefnastofnun geymir flestar örnefnaskrár, sem gerðar hafa verið og hefur beitt sér fyrir ritun þeirra, staðfestingum og leiðréttingum. Yngstu útgáfurnar hafa verið færðar upp í vélrit – stafrænt safn. Margar kynslóðir örnefnalýsinga eru til fyrir sömu jarðir og svæði og þeim ber ekki alltaf saman. Þá er rústa, sem ekki hafa örnefni ekki alltaf getið í slíkum skrám. Og þótt rústir sjáist ekki eða eru horfnar geta örnefnin gefið vísbendingu um að þarf hafi verið fornleifar. Lýsingarnar eru jafnan takmarkaðar við ákv. svæði, jarðir eða býli.
Óbeinar heimildir eru oft á tíðum heimildir um samhengi fornleifanna, vísbendingar um staðsetningu fornleifa eða textar með lýsingum á fornleifum. Má þar nefna ævisögur, ferðasögur og frásagnir. Í lýsingum er oft fjallað um eða sagt frá stöðum og minjum þótt ekki hafi beinlínis verið ætlunin að staðfesta tilvist þeirra.
Jarðabækur hafa verið margskonar í gegnum tíðina. Fógetareikningar frá 16. öld eru sennilega elstu skrárnar, Jarðaskjöl (s.s. sölubréf, landamerkjaskrár og erfðaskiptabréf), Jarðabækur 1686 og 1695 (ná yfir allt landið og eru í raun fornleifaskráning yfir jarðir, sem þá voru í byggð) og Jarðabók Árna og Páls 1702-14 (sem var miklu ítarlegra rit um jarðagildi en áður, stutt stöðluðum lýsingum á hverri einustu jörð landsins og oft getið um eyðibýli, möguleika á nýbýlabyggingum og seljum, hvort sem eru í notkun eða eyði. Ritið er gullnáma og traust heimild. Hins vegar þarf að hafa í huga að yfirleitt eru ókostir jarða ýktir og dregið úr kostum af ótta bænda við skattheimtu konungs). Yngri jarðabækur eru t.d. Jarðatal Johnsens (1847), Brauðamat (heildarúttekt á prestaköllum – til prentað í einu eintaki 1850), Fasteignamat (fyrst 1918, mjög ítarlegt þar sem allar byggingar eru skráðar) og Búkollur (rit átthagafélaga og búnaðarsambanda, oft stöðluð með myndum af jörðunum, húsum og ábúendum, auk texta um það helsta sem að þeim lýtur, s.s. Sunnlenskar byggðir, Sveitir og byggðir í Múlasýslum).
Kort ýmis konar geta verið góðar heimildir um fornleifar. Íslandskort frá 16. og 17. öld og Landshlutakort Knopfs 1723-33 eru fyrstu skipulegar mælingar landakorta er sýna bæi og jafnvel örnefni. Strandmælingar frá 18. öld eru nokkuð nákvæmar og sýna bæði hafnir og bæi með strandlengjunni. Mælingakort Björns Gunnlaugssonar og Landamerkja- og lóðakort frá 19. öld eru til á Þjóðskjalasafni, Landsbókasafni og hjá Landmælingum ríkisins. Reyndar er ekki til heilstætt safn og því getur verið erfitt að hafa upp á þeim. Herforingjaráðskortin dönsku frá 1902 eru nokkuð nákvæm og fagurlega gerð, líkt og gerendur hafi fundið samsvörun með landinu, sem þeir voru að mæla upp. Þau eru til bæði í 50.000 hlutum og 100.000 hlutum. Á þeim sjást t.d. göngu- og reiðleiðir, eyðibýli o.fl.
Túnakort er önnur gerð korta. Elstu eru frá 1886 (frá Bændaskólanum á Hólum), en túnakort eru til um allt landið 1915-22. Þau voru tæki fyrir bændur til að hjálpa þeim að skipuleggja starf sitt. Búnaðarfélögin söfnuðu upplýsingum um túnastærðir. Árið 1915 var byrjað að gera túnakort fyrir allt landið þar sem m.a. staðsetning húsa er sýnd. Þau eru því mjög góð heimild því þá voru nær öll hús (öll útihús) úr torfi og grjóti. Þau eru og heimild um staðsetningu mannvirkja voru í notkun í upphafi 20. aldar. Þau gefa og vísbendingar um byggingar margar aldir aftur í tímann. Nú eru túnakort jafnan gerð eftir loftmyndum, en túnræktun er sennilega sá þáttur sem hvað mest hefur breytt ásýnd Íslands síðustu 50-60 árin.
Loftmyndir hafa verið teknar skipulega af landinu frá 1950 þótt eldri myndir séu til, m.a. frá stríðsárunum. Nokkrar kynslóðir mynda af sömu svæðum og stöðum gefa breytingar til kynna. Oft má sjá á þeim garðlög og byggingar úr torfi og grjóti, sem síðan hafa horfið og koma ekki fram á nýrri myndum.
Amerísku kortin svonefndu voru gerð á 6. áratug 20. aldar (1:50.000). Þau voru gerð eftir loftmyndum og sem slík nokkuð nákvæm. Vinnan fór hins vegar fram úti í Virginíu þar sem örnefni og annað var færti inn af Herforingjaráðskortunum dönsku. Mennirnir, sem það gerðu, komu aldrei hingað, svo bera vill við að nöfn hafi verið rangt staðsett og örnefni beinlínis röng. Þá virðast þeir hafa ruglast á skurðum og girðingum, en stígar eru yfirleitt rétt færðir, enda mikilvægir hernaðarlega. Staðfræðikort landamerkja tóku við af þessum kortum, en að mörgu leyti byggð á dönsku kortunum. Gróðurkort með landamerkjum ná til hluta landsins. Náttúrufræðistofnun hefur annast gerð þeirra, en áður gerði Rala það. Elstu kortin sýna einnig landamerki með þarfir landbúnaðarins í huga. Til eru slík kort af Snæfellsnesi, Suðvesturhorninu, Borgarfirði og Þingeyjarsýslum.
Fornrit og prentaðar frumheimildir eru t.a.m. Íslendingasögur, samtíðarsögur og annálar (Annálar 1400-1800. Annales islandici posteriorum sæculorum I-VII, Reykjavík 1924-1998). Þetta eru miðaldaheimildir, sem og annálar 19. aldar og einstök rit, uns fréttablöðin tóku við hlutverki þeirra. Þegar handrit eru notuð er mikilvægt að nota viðurkenndar útgáfur. Segja má að „Íslensk fornrit“ séu „standardútgáfa“ slíkra rita og viðurkennd sem slík. Byrjað var á á útgáfu þeirra 1933.
Fornbréfasafn með máldaga, jarðasölubréf, landamerkjabréf, stóls- og fógetareikningum kom út í 16 bindum, fyrst um miðja 19. öld. Um er að ræða safn framangreindra rita, auk skráa yfir kirkjur, firði, erfðir o.m.fl. Þau ná fram til 1570, en yngri skjöl eru enn óútgefin.
Alþingisbækur (Alþingisbækur Íslands I‑XVII, Reykjavík 1912‑1990) eru nótabækur, sem dómasöfn taka síðan við af. Þau hafa oft verið notuð í landamerkjamálum. Manntöl eru til frá 1703, 1801, 1816, 1845 og 1910 (reyndar er 1910 eintakið í útgáfu). Auk þess má leita í kikrjubókum þar sem skráð er hvar fólk var fætt. Stundum er það eina heimildin um að tiltekinn staður hafi verið til eða í byggð.
Héraðssögurit eru t.d. sýslu- og sóknalýsingar (flestar frá um 1840 og til útgefnar), átthagafræði frá fyrri hluta 20. aldar, saga byggðarlaga, t.d. Eyrarbakka (oft hefðbundin sagnfræði, en stundum er að finna í þeim upplýsingar um bæi og hús – misjafnar að notagildi), þættir – t.d. Úr Byggðum Borgarfjarðar og Borgfirsk blanda, sagnaþættir ýmis konar, þjóðhættir og lýsingar, persónufróðleikur, staðhættir, þjóðsögur, sagnfræði og sagnir af fornleifum.
Tímarit sögufélaga, s.s. Goðasteinn, Súlur, Árbók Þingeyinga, Múlaþing, Blik ofl. segja sögur af fornleifum, fræðirit, t.d. Landnám á Snæfellsnesi, Landnám í Vestur-Skaftafellssýslu og Skagfirsk fræði.
Ævisögur eru mikilvægar, einkum sjálfsævisögur. Margar eru komnar frá fólki, sem var að alast upp er leið á 19. öldina. Þær gefa oft lýsingar á húsaskipan eða staðháttum (Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson).
Af Ferðasögum og landfræðilegum lýsingum má nefna Ferðabók Eggerts og Bjarni (1752-54), Olaviusar (1777), Sveins Pálssonar (Dagbækur og ritgerðir 1791-1797, útg. 1945) og Þorvaldar Thoroddsens (Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898, útg. í Kaup. 1913-15). Erlendir leiðangrar voru nokkrir og fylgdu bækur í kjölfarið, s.s. Horrebows, Stanleys, Hendersons og margra fleiri. Útlenskar lýsingar og ritgerðir voru oft af sömu fornleifunum, s.s. Snorralaug, við Mývatn, Skálholt eða á Þingvöllum, þótt vissulega séu þar undantekningar á.
Rannsóknarleiðangrar voru einnig nokkrir með fylgjandi ritum, s.s. Gaimard og co (1836) og margir í kjölfar Öskjugoss 1875. Árbók Ferðafélagsins getur um fjölmargar fornleifar víða um land og Ólafur Jónsson gerði landfræðirit um Ódáðahraun í þremur bindum. Þar getur hann um náttúru, brennisteinsnám og fornleifar. Yngri rannsóknir eru t.d. orkurannsóknir, en á þeim svæðum má oft finna fornleifar. Sama má segja við vegagerð og aðrar framkvæmdir.
Fornleifaskráning sveitarfélaga er nýtilkomin, en þær skrár eru víða aðgengilegar í heftum og skýrslum.
Staðbundnar þjóðsögur teljast til fornleifa og geta gefið miklar heimildir um þær. Þjóðsögum safnaði t.a.m. Jón Árnason, Ólafur Davíðsson og Sigfús Sigfússon, en auk þess má finna þjóðsögur í ritum s.s. Grímu, Rauðskinnu, Gráskinnu ofl. Þematísk heimildasöfn geyma lýsingar af fornleifum, ritflokkurinn „Göngur og réttir“ (fimm binda safn um fjallskil, itgerðir eftir fjallkónga og leitarmenn, stundum lýst landslagi og jafnvel fornleifum), „Skriðuföll og snjóflóð“ (heildarsamantekt um efnið, sýnir staðsetningu minja, sem farið hafa undir flóð), „Íslenzkir sjávarhættir“ (lýsingar á verstöðvum og sjávarjörðum) og „Útilegumenn og auðar tóftir“ (samantekt um sögu útilegumanna og fornleifar þeim tengdum) svo einhver rita í þessum flokki séu nefnd.
Óprentaðar heimildir eru t.d. Fornbréfasafnsefnið eftir 1570, búnaðarskýrslur, byggingabréf, úttektir, landamerkjaskjöl, lög um landamerki (1882), landamerkjabækur, erfðaskjöl, útsvarsreikningar, Jarðamat, Brunabótamat og Manntöl. Um mikið magn efnis er að ræða og frekar óaðgengilegt eins og fyrir því er komið í dag, en getur verið afar gagnlegt.
Af teikningum má nefna málverk og riss frá 18. og 19. öld, bæjateikningar, uppmælingar á bæjum og jafnvel ljósmyndir, bæði af bæjum og svæðum. Til eru t.d. myndir af flestum nýjustu torfbæjum á Íslandi áður en hætt var að búa í þeim eða skömmu á eftir.
Ótalinn er allur sá fróðleikur um fornleifar, sem finna má á Netinu, og unninn er úr framangreindum heimildum, s.s. á Vísindavef HÍ.
Ljóst er að úr nægu ritefni, bæði birtu og óbirtu, er að moða – ef og þegar tími vinnst til.
-Framangreint er byggt á fyrirlestri Orra Vésteinssonar í Fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006 – ÓSÁ.