Ásláksstaðahverfi á Vatnsleysuströnd

Ásláksstaðir

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru“. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati“ Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.“

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
„Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.“

Í „Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum“ segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

„Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina“.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.