Skátalundur – skátaskálinn við Hvaleyrarvatn
Í Foringjanum 1968, blaði skáta, er frétt „Frá Hafnarfirði“ um skátaskálann við Hvaleyrarvatn, Skátalund, eftir Eirík Jóhannesson:
„Frá St. Georgsgildinu hérna í Hafnarfirði er það helzt að frétta, að við héldum árshátíðina okkar um síðustu helgi, ásamt Hjálparsveitinni eins og undanfarin ár. Það sýnir að góð samvinna og vinátta er þar ríkjandi. Þarna munu vera allt að 150 eldri skátar, sem að nokkru leyti starfa saman að hugðarefnum sínum. 30. apríl sl. héldum við í Gildinu aðalfund, en þá um leið voru teknir fimm nýir félagar inn í Gildið, við hátíðlega athöfn. Að því loknu var spiluð félagsvist af miklu fjöri, en á milli þessara atriða var sungið mikið að vanda.
Svo sem lög mæla fyrir fór fram stjórnarkjör á fundinum og hlutu þessir kosningu: Gildismeistari: Eiríkur Jóhannesson. Varagildismeistari: Frú Ásthildur Magnúsdóttir. Gjaldkeri: Svavar Jóhannesson. Ritari: Kristinn Sigurðsson og meðstjórnandi: Frú Sigurlaug Jónsdóttir.
Í vor sem leið, strax og vegir urðu færir, var hafizt handa að vinna við skálann við Hvaleyrarvatn. Hann hafði ennþá ekki fengið nafn eða hlotið vígslu, en nú var að því stefnt að slíkt gæti farið fram snemma á þessu sumri.
Í allan fyrravetur og fram á sumar var skálinn mikið notaður af skátum þæði frá Hafnarfirði og nágrenni. Okkur er það mikið gleðiefni að skátar vilja leggja leið sína þangað um helgar, og einnig í sambandi við sveitarútilegur á flötunum þar í kring. Einnig finnst bæði ljósálfa- og ylfingaforingjum hentugt að hafa þar áningarstað í dagsferðum.
Að vetrinum, þegar vatnið er ísi lagt, og snjór þekur jörð, má sjá bæði yngri og eldri skáta iðka þar vetraríþróttir af kappi.
Svo að ég segi ykkur meira um okkar ágæta skála, þá var hann hátíðlega vígður þriðjudaginn 25. júní, að viðstöddum drjúgum hóp gildisfélaga og velunnurum gildisins, og má þar nefna Axel Kristjánsson forstjóra, og fulltrúa B.Í.S. Franch Michelsen, samstarfsmann okkar. Að lokinni þessari hátíðlegu vígslu, þar sem skálinn fékk nafnið: „Skátalundur“, héldu gildiskonur öllum viðstöddum veglega veizlu, sem var þeim góðu konum til mikils sóma.
Til gamans má geta þess, að fleiri komu en boðnir voru, því meðan notið var góðgjörða, kom fönguleg dilkær með tveimur fallegum lömbum og kíkti inn til okkar, öllum til sannrar ánægju.
Að lokinni þessari ágætu veizlu var farið í leiki, sungið og skemmt sér lengi kvölds, unz haldið var heim í hinu fegursta sumarveðri.
Ég læt hér staðar numið, en ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar allra félaganna í St. Georgsgildi Hafnarfjarðar, að senda ykkur, kæru gildisfélagar út um land, okkar beztu gildiskveðjur ásamt ósk um gott vetrarstarf. – Hafnarfirði, 22/11 ’68 / Eiríkur Jóhannesson.
Heimild:
-Foringinn, 5.-9. tbl. 01.12.1068, Frá Hafnarfirði – Skátaskáli við Hvaleyrarvatn, Eiríkur Jóhannesson, bls. IX.