Mannvistarleifar í hellum

Arngrímshellir

Á Reykjanesskaganum eru þekktir um 600 hellar og skjól. Líklega er rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notað undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verk.

Húshellir

Í Húshelli.

Hellarannsóknarfélaginu er kunnugt um alla kunna hella og skjól á svæðinu. Einnig hvað í þeim er að finna. Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu Þjóðminjalöganna, þar sem segir að „til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.“
Skv. framangreindu mætti skipta hellum, skútum og skjólum á Reykjanesskaganum í tvo flokka, þ.e. a) án fornleifa og b) með fornleifum sbr. framangreint. Síðarnefnda flokkunum væri síðan hægt að skipta í tvo undirflokka; I) hella með titeknum mannvistarleifum, s.s. hleðslum, áletrunum, bælum o.fl. og II) þjóðsagnakennda hella.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – hleðslur.

Undir síðarnefnda aðalflokkinn teljast u.þ.b. 100 fjárskjól á Reykjanesskaganum. Mörg þeirra hafa verið í notkun fram yfir aldamótin 1900. Má þar nefna Strandarhelli, Bjargarhelli, Gaphelli, Eimuból og Strandarselsból á Strandarheiði, Fjallsendahelli, Stekkshellir og Litlalandshelli í Ölfusi, Breiðabáshelli og Seljabótarhelli í Herdísarvíkurhrauni, Arngrímshelli (Gvendarhelli) og Krýsuvíkurhelli í Klofningum, fjárskjól í Bæjarfelli, Arnarfelli, við Vigdísarvelli og Ísólfsskála sem og í Katlahrauni, Fjárhella í Kálffelli, við Hvassahraun, Lónakot, Óttarsstaði, Straum og Þorbjarnarstaði í Hraunum, fjárskjól ofan við Ás og í Kaldárseli, Selgjá og Búrfellsgjá og þannig mætti lengi telja.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Undir fyrrnefnda undirflokkinn teljast t.d. hellar eins og Gíslhellir við Rauðamel, Gullbringuhellir, Húshellir, Skjólið í Strandarheiði, Oddshellir í Kálffelli, Útilegumannahellar og Brauðhellir í Eldvörpum, Hestshellir og Dátahellir í Arnarseturshrauni, Sæluhúsið undir Lat, Loftsskúti og Brugghellir ofan við Hvassahraun, Helluhellir og Smalahellir við Kleifarvatn og t.d. Áni undir Hlíðarfjalli. Annars er letur og áletranir í mjög fáum hellum á Reykjanesskaganum (borgar sig ekki að upplýsa hvar).
Einn stærsti og fallegasti manngerði niðurgangurinn í helli á svæðinu er í Skjólinu í Strandarheiði og í Þorsteinshelli norðan við Selgjá. Óvíst er í hvaða tilgangi Skjólið var notað, en við það er bæði stekkur, tóft og fjárskjól. Gólfið innanvert er slétt og á því miðju er eitt einasta bein – sem segir svo sem ekkert. Þorsteinshellir er hins vegar augljóst tvískipt fjárskjól.
Undir seinni undirflokkinn teljast t.d. Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni, Draugshellir í Ölfusi, Draugahellir í Valahnúk, Dauðsmannskúti í Kóngsfelli, Litlihellir við Selfjall, Rauðshellir við Helgafell og Strandarhellir, Dúnknahellir við Hraunssand og Smíðahellir við Selatanga og Sængurkonuhellir í Illahrauni.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ljóst er að mannvistarleifar í hellum á Reykjanesskaganum hljóta að tengjast bæði fjárbúskap og ferðum manna á milli byggðalaga. Auk þess tengjast þeir athöfnum manna, s.s. veiðum, hvort sem um var að ræða rúpna-, refa- eða hreindýraveiðum. Minjar alls þessa má sjá í hellunum. Hellarnir og skjólin eru þess vegna tilvalin rannsóknarefni fyrir áhugasama fornleifa- og/eða þjóðfræðinga á höfðuborgarsvæðinu, sem ekki vilja fara of langt til efnisöflunar.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Minna má á að ekki er langt síðan að FERLIRsfélagar fundu niðurgang í Bjargarhelli. Um slíkan „gang“ er getið í gömlum þjóðsögum og er þá jafnan átt við Strandarhelli, sem er þar skammt frá. Ekki er ólíklegt að ætla að einhverjir hafi ruglað hellunum saman, enda hvorutveggja fjárskjól. Annars væri fróðlegt fyrir einhvern fræðinginn að taka fyrir „nafnafrávikskenninguna“ í tíma og rúmi. Eflaust gæti ýmisleg nýmæli komið út úr því. Margt óþarflegra hefur verið gert í fræðunum í gegnum tíðina. Með rannsókninni væri hægt að sameina hugmyndir og kenningar í ýmsum fræðigreinum.

Gíslhellir

Gíslhellir.