Arnarfell – vettvangsskoðun
Þegar komið var á svæðið birtist vörður, annar enn og aftur, en sennilega í síðasta sinn. Hann gerði komumönnum kunnugt um að ekki mætti ganga um Arnarfellssvæðið og það þótt kvikmyndatökum væri lokið og búið að flytja mest af hafurtaskinu, sem henni fylgdi, á brott. Auk þess væri ekkert merkilegt að sjá á svæðinu. FERLIRsþátttakendum var skemmt, en stóðust ekki mátið, skiptust á lögmætum og réttlátum skoðunum við vörðinn, sem að lokum gafst upp, sneri sér undan, bandaði frá sér með hendinni og sagði: „Farið’i þá að fuckings fjallinu“.
Vörðurinn hafði þá a.m.k. lært eitthvað af útlendingunum, þótt ekki væri nema eitt notadrjúgt orð.
Hinum nýlagða vegslóða var fylgt að Arnarfelli. Í honum er talsvert efni, sem þarf að fjarlægja, sem og í athafnaplaninu við þjóðveginn. Forvitnilegt var að sjá „álagasteininn“, sem minnst hefur verið á áður, er jarðýtan bilaði þegar komið var að honum. Hann stendur upp úr planinu að norðvestanverðu og er hann það eina sem minnnir á, og mun minna á umhverfið, sem þarna var. Munnmæli herma að þarna undir steininum hafi andast vegfarandi er leið átti þar um fyrr á öldum. Auðvitað ber eftirlifendum að sína slíkum stöðum virðingu, og það jafnvel þótt þeir sjái oft sjálfir um að minna á sig þegar ástæða þykir til.
Álagasteinn þessi var við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er tekin var undir planið einhverra hluta vegna því það hefði mátt að ósekju vel vera skammt austar við veginn. Þá hefði þjóðleiðin gamla fengið að halda sér. Eflaust hefur bæjarstjóri Hafnfirðinga gefið henni auga er hann átti erindi í Krýsuvík nýlega.
Þegar komið var á athafnasvæðið kom í ljós að undir það síðasta hafði neðrihluti norðausturhlíðarinnar verið grafin meira og minna út með skotgröfum. Allt gróðurendið var orpið holum og náðu þær upp á fellsöxlina að austanverðu. Gróðurinn hafði verið sviðinn, en þó ekki það mikið að hann gæti náð sér upp að nýju þarna í skjólinu neðst í fellinu, en uppgröfturinn gerir það að verkum að svæðið verður aldrei samt á eftir. Og það jafnvel þótt torfbútar væru til staðar til yfirlagningar. Þarna þarf að slétta út hlíðina að hluta og sá í hana að nýju. Við það mun hún fá annað útlit en verið hefur. Áður hafði FERLIR verið kynnt að ekki yrði grafið með slíkum hætti í umhverfið svo sú yfirlýsing gekk a.m.k. ekki eftir.
Ofar í hlíðinni, þar sem skotbyrgðið var og nú hafði verið fjarlægt, utan steypusletta og -brota hingað og þangað, var mikið traðk á umtalsverðu svæði.
Stígur hafði verið gerður upp fellsöxlina og sumsstaðar höggvið í bergið til að auðvelda gönguna. Efst var mikið traðk, einkum þar sem gróðurinn er viðkvæmastur. Búð var að flytja svolítinn áburð upp á toppinn, en greinilega átti eftir að lagfæra umtalsvert rask á miðju fellinu. Eríksvarðan hafði verið látin í friði – að mestu.
Ljóst er að talsverð vinna verður að koma svæðinu í samt lag á nýjan leik. Hins vegar má segja að raskið hefði getað verið meira og verra í svo umfangsmiklu verki sem kvikmyndatakan var því ef hún hefði átt að endurskapa raunveruleikann væri svæðið í heild alls ekki svipur hjá sjón.
FERLIR tók myndir af Arnarfellssvæðinu áður en kvikmyndatakan hófst. Það eru því til ágætar heimildir um hvernig svæðið leit út áður. Nú voru teknar myndir af svæðunum, sem verst urðu úti – áhorfendum til fróðleiks. Þær má einnig sjá á myndarsíðu vefsíðunnar.
Frábært veður í fögru og sagnaríku umhverfi.