Arnesarhellir við Elliðaár
Í Huld, safni alþýðlegra fræða íslenskra, er m.a. fjallað um Arnes Pálsson útilegumann. Þar er frásögnin „eptir handriti séra Jóns Yngvaldssonar á Húsavík (± 1876) rituðu eftir sögn séra Arnórs Jónssonar í Vatnsfirði (± 1853), en Arnes sagði honum sjálfur kringum 1790. Í handritinu er líst ástæðu fyrir útilegu Arnesar eftir að hann varð uppvís að þjófnaði, („ei fæ jeg sagt hvílíkum“ var haft eftir sýslumanni), leitinni að honum á Akrafjalli og vist hans með Fjalla-Eyvindi. Að lokum segir: „Tvö seinustu árin, sem Arnes lá úti, hafðist hann optast við í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni, unz ellibilun knúði hann að gefa sig alveg á vald byggðamanna kringum 1790 og var þá að nafninu settur í tugthúsið, en af því þá var verið að frumbyggja dómkirkju í Reykjavík, en Arnes var þjóðhagi, var hann hafður þar við smíðar og dó fjörgamall í Engey 7. september 1805 eins og segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar II, bls. 247.“
Uppdráttur er til af Elliðaánum, teiknaður af Sigurði Guðmundssyni málara 1880 eftir mælingum H. Guðmundssonar. Þessi uppdráttur er upphaflega frá árinu 1869 og gerður út af deilu, sem reis vegna veiðiréttinda í ánum og laxakistum. Á þennan uppdrátt eru m.a. teiknaðar gamlar götur, sem lágu nánast í beinu framhaldi af því, sem nú er Bústaðavegurinn, fyrst yfir vestari álinn á Ártúnsvaði. Þaðan fyrir sunnan Ártún og í Reiðskarð, en það er fyrir austan Ártún og liggur þar nú stígur upp.
Ekki er vitað hvenær farið var að búa í Ártúni, en þess er getið í máldögum árið 1379 og er þá talið í eigu Neskirkju.
Árið 1906 keypti Reykjavíkurbær bæina Árbæ, Breiðholt, Selás og Ártún í sambandi við áætlanir um að taka neysluvatn úr
Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík. Bauð bærinn Þorbirni og Jónu að setjast að í Ártúni. Þar voru fyrir mjög hrörleg hús og hófust þau strax handa við byggingu núverandi húsa. Íbúðarhúsið að Ártúni svipar mjög til húsa sem byggð voru austur um sveitir eftir jarðskjálftann mikla árið 1896. Þau eru nú flest horfin af sjónarsviðinu. Allt þar til Elliðaárnar voru brúaðar árið 1883 lá þjóðleiðin til og frá Reykjavík um tún Ártúns. Í Ártúni var ferðamönnum seldur viðurgerningur og var það vinsæll áningastaður.
Í Landnámabók er nefndur Elliðaárós, eins og nafnið sé eintala, (ekki *Elliðaáaós), en á síðari tímum er alltaf talað um Elliðaár, t.d. í Skarðsárannál frá um 1640 (við árið 1582) (Annálar I:168), Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (II. b.) (eða Hellisár í sumum heimildum, t.d. sóknarlýsingu, Gullbringu- og Kjósarsýsla, 148).
Elliðaárnar renna að nokkru í tveimur kvíslum, og á fyrsta korti sem gert var af þeim frá 1880, er hvor kvísl um sig neðantil merkt Elliðaá þar sem þjóðvegurinn úr Reykjavík lá yfir þær. (Elliða-ár frá upptökum og að árósum 1880. Birt í Elliðaárdalur. Land og saga, bls. 66-67). Bærinn Árland neðra er nefndur í heimildum í lok 14. aldar, hefur líklega upphaflega aðeins heitið Á hin neðri, síðar Ártún, og Árbær Á hin efri (Árland efra) (Ólafur Lárusson, Byggð og saga, 192-197). Í Landnámu er nafnið talið dregið af skipinu Elliða sem Ketilbjörn gamli Ketilsson á Mosfelli átti (Ísl. fornrit I:384). Mannsnafnið Elliði er nefnt í nafnatali frá 17. öld. Alltaf er talað um Elliðavatn, ekki *Elliðaárvatn, svo að bærinn Elliðavatn hefur e.t.v. heitið Elliði upphaflega og þá verið kenndur við eitthvað í náttúrunni sem líktist skipi.
Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing;), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða.
Samkvæmt framanskráðu má ætla að svæðið næst Ártúni hafi verið raskað verulega á síðustu aldafjórðungum, en í handritinu framangreinda segir: „…í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni“. Þar sem því svæði hefur lítið verið raskað, nema næst Elliðaáavirkjuninni, er til vinnandi að reyna að finna þennan tilgreinda „Arnesarhelli“.
Annar hellir, kenndur við Arnes, er við Hraunsholt í Garðabæ.
Heimild:
-Huld – safn alþýðlegra fræða íslenskra, 1890-1898, I, bls. 37.
-Örnefnastofnun Íslands.