Auðnaborg – hestaslóðin – Gamlivegur – Sauðholt

Auðnaborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um Auðnaborg og nágrenni í heiðinni milli Vatnsleystrandarvegar og Reykjanesbrautar: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.

Hestaslóðin

Hestaslóðin flóraða ofan Breiðagerðis.

Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfi.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúsapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Ásláksstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“

Auðnaborg

Auðnaborg.

Hestaslóðin flóraða sést á u.þ.b. 100 metra löngum kafla ofan Breiðagerðis. Svo virðist sem kaflinn hafi átt að verða hluti af Eiríksveginum svonefnda ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur, mjög líklega unninn í atvinnubótavinnu á sínum tíma.

Á framangreindu svæði eru u.þ.b. 10 fjárborgir, s.s. Staðarborg, þrjár borgir sunnan og suðaustan hennar, Þórustaðaborg, Borgin ofan Breiðagerðis, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sauðholt

Sauðholt – beitarhús.

Í heiðinni, milli Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, eru þrjár samliggjandi beitarhúsatóftir á grónum klapparhrygg, svonefndum Sauðholt. Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Fjallað verður um tóftirnar í Sauðholtum síðar.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum„, Áfangaskýrslu I, er Auðnaborginni lýst: „“Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Þær eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestast á svæðinu er tóft A. Hún er einföld og er um 6×4 m að stærð. Hún snýr norðaustur suðvestur. Inngangur er inn í hana úr suðvestri. Mögulegt er að tóftin hafi verið tvískipt en hún er ógreinileg í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin er gróin og ekki sést grjót í veggjum.

Auðnaborg

Auðnaborg – teikning.

Tóft B er fast norðvestan við tóft A og er hún uppi á hæsta hólnum. Hún er um 3×3 m að stærð og er einföld. Inngangur er í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m en tóftin er gróin og ekki sést í grjót í veggjum. Fast norðan tóft B er afar ógreinileg tóft C. Hún er einföld, er um 3×2 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð um 0,3 m. Ekki sést í grjót í veggjum. Tóftin er opin til suðvesturs. Um 2 m norðan við C er tóft D, líklega stekkurinn sem talað er um í Örnefni og gönguleiðir. Hann er einfaldur og er um 3×4 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Inngangur er í norðurhorni. Mesta hleðsluhæð tóftar D er um 0,5 m. Hún er algróin og nokkuð hlaupin í þúfur. Gróður er hvað dekkstur á henni sem bendir líklega til þess að styst sé síðan hún var í notkun og að hún sé líkega yngri en aðrar tóftir á svæðinu. Neðan við hólinn sem tóftir B og C eru á, til norðausturs, er lítil renna E sem kann að vera manngerð. Hún er um 3×1 m að innanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Suðvestan við tóftirnar er stór og grjóthlaðin rétt F sem skiptist í 4 hólf. Réttin er um 36×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð réttar er um 1,2 m og sjást 6 umför. Víðast eru þó hleðslur lægri.“

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Um Alfaraleiðina segir: „Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina, Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […]

Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.

Almenningsvegur ofan Vatnsleysu.

Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.

Alemmningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina.
Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs.“

Hvorki er minnst á kafla „Hestaslóðarinnar“ fyrrnefndu né beitarhús á Sauðholtum í fornleifaskráningunni.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.