Aurafundur á Skildinganesi
Peningar fundust nýlega [des. 2008] á Skildinganesi. Fundarstaðurinn var utan gamals sjóvarnargarðs norðvestan í Skildinganesi. Í fyrstu virtist vera um mjög gamla mynt að ræða.
Fundarmenn voru steinhleðslumennirnir Guðjón S. Kristinsson, torf- og grjóthleðslumeistari og skrúðgarðyrkjumaður, og bróðir hans, Benjamín Kristinsson, húsasmíðameistari og bátasmiður, auk þræls. Þeir eru að vinna við endurgerð garðsins, sem hefur látið á sjá vegna sjávargangs og ótíða. Þegar Guðjón var að færa stóran stein frá garðinum með gröfu kom sjóðurinn í ljós. Við fyrstu sýn virtist vera um forna mynt að ræða, eins og áður sagði, en við nánari skoðun kom í ljós hvers kyns var.
Það var starfsfólk Fornleifastofnunar Íslands, sem upplýsti um peningafundinn. Stofnunin er m.a. með verkefni fyrir Árbæjarsafn, sem hefur umsjón með minjavörslu í umdæmi Reykjavíkur.
Rætt var við Oddgeir, fornleifafræðing hjá FÍ, í aðstöðu fyrirtækisins að Bárugötu 3. Starfsfólk var þá í óða önn að telja aurana. Um var að ræða eftirfarandi; Mynt; 10 aurar og 5 aurar, allir með ártalinu 1981.
Tveir bréfmerkimiðar fundust og á vettvangi; 1. Brúnn pappír með saumarönd – prentað með svörtum stöfum; Iceland – 10 AURAR – 2.000 pieces. Handskrifað; 200 Kr. Nr. á miðanum; 38.
2. Brúnn pappír með saumarönd – Prentað með svörtum stöfum; Iceland – 10 AURAR – 2.000 pieces. Nr. á miðanum; 101.
Bútar úr þunnum grænlitum léreftspoka með saumi.
Vettvangurinn er norðvestan við Reynisstaði á Skildinganesi. Rætt við Guðjón og Benjamín á vettvangi. Þeir bentu á staðinn, sem peningarnir fundust á. Um er að ræða stað fast við gamlan grjóthlaðinn sjóvarnargarð, steinsteyptan að utanverðu að seinni tíma hætti. Fundarstaðurinn er nokkra metra utan við norðurenda garðsins. Peningarnir höfðu verið skorðaðir undir steininum fyrrnefnda, fast við garðinn. Pokinn, eða pokarnir, höfðu rifnað og lá myntin að mestu í haug undir grjótinu. Við rót á staðnum kom í ljós að sumir höfðu skolast spölkorn utar, en safnið virtist hafa haldist nokkurn veginn á sama stað.
Við skoðun auranna var ljóst að þarna var um lítil verðmæti að ræða í verðlausri mynt. Í millitíðinni hefur krónan gjaldfallið hundraðfalt og gengið auk þess hraðfallið. Tíuaurin er því orðinn að 0.1 aur og reyndar enn meir, eða 0.01 aur. Nú þarf því hundrað aura til að mæta einum eyri. Því má með sanni segja að heildarverðmæti sjóðsins, m.v. núverandi gengi, geti verið u.þ.b. 5 aurar. Verðmæti hans í kopar gæti þó verið miklu mun meiri eða 5 kr.
En verðmætin eru ekki alltaf metin í krónum og aurum. Þrátt fyrir ódýrðina rak forvitni áhugasama að leita uppruna auranna. Í því sambandi var m.a. rætt við sérfræðing hjá Seðlabanka Íslands. Sá sagði að hér væri bara um „ekki mál“ að ræða – og „bara gleyma þessu. Líklega hefði einhver losað sig við poka, sem hann hafi átt heima hjá sér, enda verðlaust, nema magnið af koparnum hafi ekki verið þess meiri. Mynt í svona pokum var afhent viðskiptavinum svo uppruni pokanna gæti verið verið svo til hver sem er. En þetta væri bara ekkert mál – nóg hlyti að vera af áhugaverðari málum“.
Þegar þetta er skrifað er það eina, sem umleitanin hefur skilað er það að peningafundurinn staðfestir enn betur en áður tilvist örnefnisins „Skildinganes“.
Hver sá, sem hefur einhverju við uppruna auranna að bæta, t.d. um tilkomu þeirra undir steininum stóra handan gamla sjóvarnargarðsins á Skildingarnesi, er beðinn um að hafa samband – ferlir@ferlir.is.
Sjóvarnargarðurinn er gamall túngarður frá Skildinganesjörðinni. Mannvirkið er nokkurrra alda gamalt. Við norðurenda garðsins má sjá grónar leifar af áframhaldi hans, en þann hluta, sem nú sést lét Skildinganesbóndinn hjá upp skömmu eftir aldamótin 1900. Hann er nú friðlýstar fornleifar skv. þjóðminjalögum. Elsta húsið á svæðinu var byggt árið 1863, Skildinganes 13 eða Reynisnes. Þar á eftir kemur Skildinganes 15, Reynisstaður, byggt árið 1874.
Jörðin á nesinu var nefnd Skildinganes og það þorp sem smám saman byggðist úr landi hennar nefnt Skildinganesþorp. Seinna var farið að nefna byggðina eftir firðinum sjálfum.
Skildinganesið er eitt af heilsteypustu minjasvæðum í Reykjavík og er þar að finna fornleifar og fornminjar. Í landi Skildinganess falla tvö svæði undir borgarvernd, Skildinganeshólar og mólendið umhverfis þá og strönd Skerjafjarðar meðfram Ægissíðu og Skildinganesi.
Ekki er vitað með vissu hvenær byggð hófst á Skildinganesi en jarðarinnar er fyrst getið í heimildum árið 1553. Þá er hún talin sjálfstæð jörð og í eigu Skálholtsstóls. Þó svo að Skildinganes væri sjálfstæð jörð var hún talin með Reykjavíkurlandi fram til 1787. Það ár fékk Reykjavík kaupstaðarréttindi og var þá allt bæjarlandið mælt upp.
Skildinganesjörðin var þá í fyrsta sinn afmörkuð og voru landamerki milli Skildinganess og Reykjavíkur talin vera sunnan frá Skerjafirði við Lambhól upp í Skildinganeshóla og þaðan austur í vörðu við Öskjuhlíð og þaðan í Skerjafjörð við Hangahamar.1 Skildinganes heyrði undir Seltjarnarneshrepp til ársins 1932 er það var innlimað inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Talsvert var um kot í landi Skildinganess þegar byggð tók að rísa á þessum slóðum á 19. öld. Þetta voru allt lítil og lágreist kot. Um langan aldur var tvíbýli í Skildinganesi og voru býlin nefnd Austurbær og Vesturbær. Austurbærinn var síðar rifinn en húsið að Skildinganesi 13 er talið vera gamli Vesturbærinn endurbyggður. Byggingarár hússins er nokkuð á reiki. Í Fasteignamati er húsið talið byggt árið 1863 en því hefur einnig verið haldið fram að það sé byggt heldur seinna eða á árunum 1869 – 1871. Sigurður Jónsson í Görðum segir í endurminningum sínum að húsið sé endurbyggt en ekki er vitað hvenær sú endurbygging átti sér stað né hvers eðlis hún var.
Á fyrsta og öðrum áratug 20. aldarinnar kom upp sú umræða að leggja Skildinganes undir Reykjavík og voru meðal annars lögð fram lagafrumvörp þess efnis en þau náðu ekki fram að ganga. Hugmyndir um höfn í Skerjafirði urðu einnig háværar skömmu eftir aldamótin 1900 og stofnuðu nokkrir eigendur Skildinganesjarðarinnar hlutfélag í þeim tilgangi, hlutafélagið Höfn. Frumvarp um hafnargerð í Skerjafirði var lagt fram árið 1907 á Alþingi en það fellt. Hugmyndin um hafnargerð í Skerjafirði kom aftur upp á yfirborðið árið 1913, þegar hlutafélagið “The Harbours and Piers Association Ltd.” með Einar Benediktsson skáld í broddi fylkingar keypti landið sem félagið Höfn ætlaði undir samkonar starfssemi. Mikill kraftur var í félaginu til að byrja með og hóf félagið byggingu bryggjunnar sama ár. En ákvörðun bæjarstjórnar um að gera höfn norðan við miðbæinn og upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar setti strik í reikningin og hætt var við öll áform um hafnargerð í Skerjafirði.
Um 1922 eignaðist Eggert Classen stóran hluta Skildinganessjarðarinnar og um 1927 hóf hann að skipta landinu niður í lóðir sem hann seldi síðan. Það var upphafið að þéttbýlismyndun í Skildinganesi.
Þegar Eggert keypti stóran hluta af Skildinganesjörðinni á árunum 1922 – 23 stóðu tvö hús á jörðinni, gamli Vesturbærinn og hlaðið hús. Ekki er vitað hvenær hlaðna húsið var byggt en talið er það hafi verið byggt um 1874. Eggert lét setja kvist á húsið og byggja við það inngönguskúr en auk þess lét hann byggja við það á þrjá vegu og gera á því endurbætur. Þessum breytingum mun hafa verið lokið árið 1924 en þá flutti Eggert í húsið ásamt fjölskyldu sinni. Hann skýrði húsið svo upp og nefndi það Reynisstað eftir Reynisstað í Skagafirði þaðan sem hann átti ættir að rekja. Húsið er í dag númer 15 við Skildinganes.
Eins og áður segir þá tilheyrði Skildinganes Seltjarnarneshreppi en árið 1932 var það lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Miklar breytingar urðu á byggð í Skildinganesi með tilkomu breska hersins á Íslandi árið 1940. Bretar ákváðu að byggja herflugvöll seinni hluta árs 1940 í Vatnsmýrinni í Reykjavík og brátt teygði hann sig út á Skildinganes og inn í þá byggð sem myndast hafði í Skerjafirði. Vegna flugvallarins þurfti að flytja nokkuð af húsum í burtu og götur voru aflagðar. Í raun var byggð í Skildinganesi skipt í tvennt með tilkomu flugvallarins. Í dag er talað um Litla-Skerjafjöð og Stóra-Skerjafjörð. Svæði það sem er hér til umfjöllunar er í Stóra-Skerjafirði.
Reykjavík 2003
Minjasafn Reykjavíkur
Skýrsla nr. 99.