Bænhús og kirkjur

Kapella

Á miðöldum voru hátt á annað þúsund bænhús og kirkjur á Íslandi.

Kapellulág

Kapella í Kapellulág.

Elstu húsin eru frá seinni hluta víkingaaldar og hafa nokkur þeirra verið grafin upp, m.a. á Stöng í Þjórsárdal, Neðra Ási í Hjaltadal og Þórarinsstöðum í Seyðisfirði. Elstu húsin eru öll lítil, innanvið 5 m á lengd, og eru lítið frábrugðin yngri bænhúsum og smákirkjum sem grafnar hafa verið upp, t.d. á Varmá í Mosfellssveit og Kúabót í Álftaveri, eða standa enn, eins og bænhúsinu á Núpsstað. Það bænhús hefur verið varðveitt og er haldið við. Í sama stærðarflokki eru einnig vegakapellur frá miðöldum en tvær slíkar hafa verið grafnar upp, ein á Hraunssandi austan við Hraun ofan við Grindavík og önnur í Nýjahrauni (Kapelluhrauni) í Hafnarfirði, ofan við Straumsvík. Fyrrnefnda kapellan var grafin upp af Kristjáni Eldjárn o.fl. á sjötta áratug 20. aldar og sú síðarnefnda um svipað leiti af sömu aðilum. Í fyrstu var haldið að tóftin við Hraun væri dys, en við uppgröftin kom bænhúsið í ljós. Á báðum stöðunum fundust ýmsir gripir. Bænhúsið við Hraun var að nýju orpið sandi eftir uppgröftin, en bænhúsið í Nýjahrauni var endurhlaðið, reyndar ekki ferkantað eins og tóftin leit út, heldur sporöskjulagað. Þá var það ekki hlaðið úr grjótinu, sem hin gamla rúst hafði gefið af sér, heldur að mestu með grjóti úr nágrenninu. Einungis gólfið er upprunalegt. Öðruvísi og mun stærri kirkjur hafa verið grafnar upp í Skálholti og á verslunarstaðnum Gásum en engin sóknarkirkja hefur enn verið rannsökuð á Íslandi. Yfirstandandi uppgröftur í Reykholti miðar að því að stoppa í það gat.

Rannsóknin

Kapelluhraun

Kapella í Kapelluhrauni.

Rannsókn á kirkjum og bænhúsum er grunnrannsókn sem miðar að því að skrá og kortleggja allar kirkjur, öll bænhús og alla kristna grafreiti á Íslandi. Á grundvelli ritheimilda, örnefna og fornleifafunda (einkum mannabeinafunda) er reynt að staðsetja kirkjur, bænhús og grafreiti eins nákvæmlega og hægt er og þar sem mannvirkjaleifar eru sýnilegar á yfirborði eru þær mældar upp. Skráning er langt komin á Suður- og Austurlandi og benda fyrstu niðurstöður til að hægt verði að staðsetja rúman helming slíkra staða, en aðeins í undantekningartilvikum eru tóftir enn sýnilegar. Áhersla er lögð á að staðsetja kirkjur og bænhús í samhengi við bæjarstæði, leiðir og landamerki en í ljós hefur komið að þó að sóknarkirkjur séu undantekningalítið á hlaði bæjar eru smákirkjur og bænhús ýmist á hlaði, í túni, við túnjaðar eða fjarri bæ, jafnvel við gamlar þjóðleiðir líkt og bænhúsin við Hraun og í Nýjahrauni ofan við Straumsvík.

Stjórnandi rannsóknar er Orri Vésteinsson, Háskóla Íslands.

Heimild:
-www.instarch.is/instarch

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.