Bali í Garðahverfi
„Bali var austasta jörðin í Garðahverfi og er hún í Garðahrauni, en svo nefnist hraunið Garðamegin við merkin, en Hafnarfjarðarhraun hinum megin. Áður mun allt hraunið hafa verið nefnt Garðahraun.
Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún (ÖS-KE). Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns hafði Bali verið tómthús og hafði það verið uppbyggt u.þ.b tíu árum áður en jarðirnar voru skráðar. Það var þó komið í eyði þegar Jarðabókin var skráð og samkvæmt henni myndi það aldrei byggjast aftur nema mikill fiskigangur kæmi inn í Hafnarfjörð.“ (Jarðabók ÁM-PV).
Í Lesbók Morgunblaðsins 1977 er m.a. fjallað um bæi í Garðahverfi. Þar segir: „Bali er austastur bæja í Garðahverfi og stendur á hraunbrúninni, þar sem hraunið hefur runnið lengst í vestur. Þar var örlítið tún, en landið er aðeins rúmir 6 hektarar og allt í hrauni. Skammt er niður í fjöru og Hallgrímur sá er þar bjó framundir 1916 hafði bátkænu og veiddi mikið, bæði þorsk og grásleppu. Venjulega var aðeins 1 kýr í Bala en eftir 1930 fór Ólafur H. Jónsson kaupmaður í Hafnarfirði að búa í Bala. hann hafði þar um tíma 8 kýr og nokkrar kindur og keypti þá hey. En á seinni árum var hann hættur að hafa skepnur. Nú er Bali í eigu Garðabæjar og íbúðarhúsið er leigt Elísabetu Brand íþróttakennara, en Ingi Guðmundsson leigir gripahúsin og hefur þar hesta.“
Ari Gíslason skráði örnefni í Garðahverfi: „Hluti af Garðahreppi er það, sem fyrr var prestssetrið Garðar og hjáleigur þess. Þetta eru nú margar jarðir með samliggjandi túnum. Upplýsingar eru aðallega frá Guðmanni Magnússyni, Dysjum.
Eins og fyrr segir, eru þessar jarðir samtúna, og hallar þeim frá hæðinni, sem heitir einu nafni Garðaholt, og mót vestri niður til sjávar. Fyrst við merkin móti Hafnarfirði er Bali. Þar er klettur, sem heitir Balaklettur. Þar upp af er Balatjörn, og úr henni er Balatjarnarlækur. Upp með hraunbrúninni, ofan við Balatjörn, skerst hraunnef fram í tjörnina. Það heitir Mónef. Þar ofan við veginn í hraunjaðrinum er græn flöt, sem heitir Hvítaflöt og hraunnef þar ofar. Bakkastekksnef. Ofar er gamall stekkur, sem heitir Bakkastekkur. Mýrin öll, sem nær frá Garðaholti að hrauninu heitir Dysjamýri. Nú hefur henni verið skipt milli býla í hverfinu.“
Kristján Eiríksson skráði örnefni í Garðahverfi: „Stuðzt var við lýsingu Gísla Sigurðssonar á Garðahverfi, og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra. Þessir voru heimildarmenn: Guðmann Magnússon, fv. hreppstjóri, á Dysjum (Austur-Dysjum). Hann er fæddur á Dysjum 5. desember 1908 og hefur búið þar alla tíð, og ætt hans hefur verið á Dysjum síðan fyrir 1860.
Jósef Guðjónsson í Pálshúsum. Hann er fæddur á Aðalbóli í Fremri-Torfustaðahreppi, V-Hún., 16. júní 1899. Hann kom að Pálshúsum árið 1919 og hefur búið þar síðan. Feðgarnir í Miðengi, Kristján Eyjólfsson og Ágúst Kristjánsson. Kristján er fæddur 9. september 1892 í Sviðholti á Álftanesi, og þar var hann alinn upp. Hann flutti í Miðengi 1928 og hefur búið þar síðan. Ágúst er fæddur í Miðengi 15. september 1931 og hefur alla tíð átt þar heima. Gísli Guðjónsson í Hlíð. Hann er fæddur á Setbergi 10. júlí 1891. Árið 1919 flutti hann að Hlíð og hefur búið þar síðan.
Tryggvi Gunnarsson í Grjóta. Hann er fæddur 14. janúar 1899 að Ragnheiðarstöðum í Flóa. Hann kom þriggja ára gamall að Miðengi í Garðahverfi, og var þar til 25 ára aldurs eða þar um bil. Þá flutti hann í Grjóta og hefur búið þar síðan. Ólafía Eyjólfsdóttir á Hausastöðum. Hún er fædd að Holti í Garðahverfi 17. desember 1890. Hún kom í Hausastaði 1895(?) og hefur að mestu átt þar heima síðan. Hefur sumt af henni verið fellt inn í þessa lýsingu, orðrétt eða því sem næst. Kristján Eiríksson skráði lýsinguna veturinn 1976 – 77.
Landamerki Garðahverfis eru úr steyptri vörðu á Balaklöpp vestan við Skerseyrarmöl. Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrði á leið til og frá Hafnarfirði. Úr vörðu á Hvíluhól er svo línan í vörðu á hraunbrún sunnan við Engidal Austasta jörðin í Garðahverfi er Bali, og er hún í Garðahrauni, en svo nefnist hraunið Garðamegin við merkin, en Hafnarfjarðarhraun hinum megin. Áður mun allt hraunið hafa verið nefnt Garðahraun.
Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. Beint framan hans var lítil tjörn, nefnd Innritjörn. Vestan Innritjarnar og Bala er Balatjörn, dálítil tjörn innan við malarkampinn. Hér áður ruddi tjörnin sig í gegnum kampinn, sem kallaður er Balamöl, þegar mikið var í henni. Var hún þá kölluð Balasíki. Svo sagði afi Guðmanns á Dysjum, og einnig nefnir Sveinbjörn Egilsson Balasíki í sjóferðasögu sinni. Balaklettur gengur í sjó fram innan (austan) við Balamöl. Vestan við hann var lending frá Bala.
Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u. þ. b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar. Álatjörn er suður af Bala, niður við malarkampinn. Í hana hefur borizt mikil möl á seinni árum. Austan hennar er Balaklöpp, áðurnefnd, og landamerkjavarða á henni. Lítil tjörn er fast vestan markalínunnar, fast austan við Balaklöpp. Skammt austan við þá klöpp lá gamli vegurinn til Hafnarfjarðar upp á hraunið og síðan niður af hraunbrúninni og með sjónum til Hafnarfjarðar. Út af Balaklöpp er skerjarani langt úti í sjó, sem nefnist Torfasker.
Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts. Þessi örnefni eru á hraunjaðrinum með henni: Norðan við Bala gengur Mónef fram í mýrina. Hér áður var tekinn upp mór í Dysjamýri, en því var hætt, þegar Guðmann man eftir. Mórinn mun hafa verið þurrkaður á Mónefi. Áður lá vegur af Mónefi yfir Dysjamýri. Hann var nefndur Dysjabrú. Hvítaflöt er gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar liggur upp á hraunið. Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G. S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“
Í „Fornleifaskráningu í Garðabæ“ árið 2009 má lesa eftirfarandi um Bala: „“Bali hefur verið tómthús, fyrir átta eður tíu árum fyrst uppbygt. … Nú er þetta býli öldungiss eyðilagt og í tóftarbrot komið og byggist aldrei nema stór fiskiganga inn á Hafnarfjörð komi,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703.
„Sýslumaður nefnir eigi býli þetta, en jarðabækurnar telja hér 3 smábýli, sem sé Garða kirkjueign (Lángeyri, Bali og Skerseyri), en prestur nefnir Lángeyri eingaungu,“ segir jarðaskrá Johnsens frá 1847.
„Balatún: Tún býlisins Bala. Er eiginlega í Garðahverfi, en þar sem hann er á Hrauninu verður hann hér með. Balatúngarður: Túngarður austan túnsins aðallega,“ segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar.
„Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. .. Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u.þ.b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931 og brennt á æfingu nýliða slökkviliðsins 2004. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar,“ segir í örnefnaskrá Garðahverfis. Nákvæm staðsetning býli þess
sem getið er í jarðabók er ekki þekkt, en samkvæmt lýsingu hefur það sennilega verið skammt frá hjalli sem er nú á þessum slóðum og er á hraunbrúninni.
Í lægð í hrauninu, um 220 m N af hjalli sem er við Balakletta skammt frá þar sem býlið Bali var áður, er lítil rétt hlaðin úr hraungrýti.
Réttin er skammt vestur af Balaafleggjaranum sem liggur af Garðavegi, um 90 m SV af útihúsi, 15-20 m N af útihúsi. Réttin er í grasigrónu hrauni. Nokkuð þýft er inni í aðhaldinu og í kring. Réttin er eitt hólf, sem er í laginu eins og hálfur hringur, en frá hólfinu liggur garðbrot til norðurs. Aðhaldið er hlaðið upp við hraunbrún ofan í lægð, og myndar hraunbrúnin austurvegg réttarinnar. Þó er búið að hækka og bæta í hraunbrúnina með hleðslum á tveim stöðum. Aðhaldið er um 15×9 m N-S að utanmáli. Það er hlaðið úr hraungrýti af öllum stærðum og er tilgengið og yfirgróið. Þykkt hleðslanna er 0,5-1 m og mest hæð er 1 m, en er víðast nokkuð minni.“
Heimildir:
-Jarðabók ÁM og PV 1703.
-Lesbók Morgunblaðsins – 31. tölublað (28.08.1977)
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Garðahverfi.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Garðahverfi.