Básendaflóðið 1799 – Lýður Björnsson
„Sjávarflóð hafa oft valdið stórtjóni og ekki síst á síðustu árum. Flóðbylgja skall Asíu olli mjög miklu manntjóni en flóðbylgjurnar haustið 2005 fyrst og fremst eignatjóni. Jarðskjálfti olli fyrrnefndu flóðbylgjunni (slíkar flóðbylgjur nefnast tsunami á japönsku og alþjóðamáli) en fellibyljir flóðunum við Karíbahaf. Tilfæra mætti miklu fleiri dæmi um tjón af völdum sjávarflóða og hafa Íslendingar hlotið sinn skerf af slíku, ekki síst sjófarendur. Elsta íslenska dæmið um að Ægir hafi reynt á þolrif þeirra mun að finna í Grænlendinga sögu. Þar segir frá 25 skipum mönnuðum mönnum sem hugðu á landnám á Grænlandi. Þau lentu í mjög miklum hrakningum. Suðureyskur maður var á einu skipanna og orti svonefnda Hafgerðingadrápu við þetta tækifæri. Þar er þetta stef:
Mínar biðk munka reyni
meinalausan farar beina,
heiðis haldi hárrar foldar
hallar dróttinn yfir mér stalli.
Tveir náttúrufræðingar á 19. öld, Japhetus Steenstrup og Jónas skáld Hallgrímsson, töldu jarðskjálfta orsök hafróts þessa og hefði orðið hafgerðingar þá væntanlega svipaða merkingu og japanska orðið tsunami. Ekki gátu þessir náttúrufræðingar fært veigamikil rök að þessu áliti og er enn með öllu óvíst hvaða náttúruhamfarir voru þarna á ferðinni.1 Ekki er ætlunin að fjalla hér um hafgerðingar þessar eða önnur sjávarflóð við Ísland að undanskildu því flóði sem nafnkunnast hefur orðið, Básendaflóðinu aðfaranótt hins 9. janúar 1799.
Fyrst verður staðurinn kynntur og íbúar hans þessa örlaganótt. Eftirfarandi lýsing á Básendum er birt í Suðurnesjaannál sr. Sigurðar B. Sivertsens: Básendar eru sunnarlega á vestanverðu Miðnesi, Rosmhvalanesi, og sunnan við alla byggðina þar. Þeir eru í Stafneslandi, og 8-10 mín. gangspölur milli. Fjörur og sandauðn er umhverfis Básenda, með litlum grasflesjum, frá síðustu öld, að austan- og norðanverðu. Þær eru þó aftur að brotna, eða blása og gróa á víxl, allt heim að túni á Stafnesi. En sjór mylur framan af. Frá Básendum skagar nesið nokkuð lengra til suðuráttar, með boðum miklum, skerjum og lónum. Þá er Kirkjuvogshverfið (Hafnahr.) í suðaustur, en vogur milli, og gengur langt inn í landið til norðausturs …
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt, svo sem bás austur og inn í landið. Skipaleiðin inn á leguna var nokkuð löng, milli skerja, og í líkri stefnu. Á fyrri öldum hefur vafalaust verið graslendi á báðar hliðar, og fyrir botni lónsins. Höfnin hefur þá verið á básenda.2
Lýsingin getur um höfn að Básendum enda var þar verslunarstaður að minnsta kosti frá 1484 til 1800. Undir lok 18. aldar var Hinrik Hansen, tengdasonur Íslands, kaupmaður á Básendum. Hann bjó á Básendum enda hafði verslunin þar verið opin allan ársins hring í nærfellt fjóra áratugi þegar hér var komið sögu.
Kaupmaður bjó í sérstöku húsi ásamt eiginkonu sinni Sigríði Sigurðardóttur frá Götuhúsum í Reykjavík, fjórum börnum þeirra hjóna, Símoni, Jóhanni Friðriki, Pétri og Maríu Lisbet, og vinnikonu. María var yngst barnanna. Synirnir urðu síðar mikilsmetnir borgarar í Reykjavíkurkaupstað og einnig Hans Símon, eldri bróðir þeirra, sem virðist hafa búið erlendis þennan vetur. Þrjú önnur vinnuhjú og einn niðursetningur voru á Básendum þennan vetur og á vegum kaupmanns. Þau áttu heima í kotbæ skammt frá kaupmannshúsinu.3 Eftir þessa lýsingu skal athyglinni beint að atburðunum aðfaranótt hins 9. janúar 1799, Básendaflóðinu.
Hinrik Hansen kaupmaður sendi Sigurði Péturssyni, sýslumanni og skáldi, lýsingu á atburðum þessarar nætur og er lýsingin dagsett hinn 16. mars 1799. Skjal þetta er varðveitt. Það er á dönsku. Vigfús Guðmundsson gaf það út nokkuð stytt í Blöndu og á íslensku. Þar er þýðanda ekki getið og hefur Vigfús því væntanlega sjálfur fært lýsinguna úr dönsku dragtinni og í íslenzku flíkurnar . Rétt þykir að birta lýsinguna hér í heild þó að löng sé enda gefur hún mjög góða mynd af atburðunum á Básendum þessa nótt:
Lotningarfull frásaga – (Ærbödig Pro Memoria)
Vegna ástæðnanna verð eg að bera fram fyrir héraðsdómarann tjónið hræðilega, sem varð í byrjun þessa árs á verzlunarstaðnum Básendum, er eg hafði náðarsamlega í hendur fengið. Út af því er eg nú fjárþrota með óþroskuð börn og óþægilegan aðbúnað. Til að gera héraðsdómaranum þetta skiljanlegt, tek eg mér leyfi til að segja söguna sanna, eins og hún gerðist. Sést þá hversu ofurefli sævarins, hefur eyðilagt verzlunarstaðinn og margskonar fjármuni mína, og í hvílíkum dauðans vandræðum eg var staddur, með mínum nánustu, meðan allt var að eyðileggjast. Þessi hörmulega saga er þá svona: Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver aptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmeginn, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við óttuðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndis úrræði, því þá hefðum við öll farizt.
Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundi þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn.
Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn.
Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill.
Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautir náðum að næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur-sem vorum nærri örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki-með mestu alúð og hjartagæzku. Létu og það allt gott í té, er þau gátu. Í baðstofu þessa ráðvanda manns höfðum við aðsetur og aðbúnað í 14 daga. Voru þar alls 19 manns, þar af 10 börn, en þó var baðstofan ekki nema 3 stafgólf ( Fag = 2 álnir) á lengd, 31/ 2 alin á vídd og 3 álnir á hæð, af gólfi upp í mæniás. Þrátt fyrir alúð mannsins og góðvilja vildum við ekki lengur níðast á gestrisni hans. Til þess líka að rýmkva um okkur, fórum við á eyðijörðina Stafnes, og bjuggum um okkur í baðstofunni íslenzku, sem þar var. Síðan höfum við haft þar okkar fátæklega aðsetur. Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var, líka.
Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess að setja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaðar). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar ekki þarf hér eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.
Að lokum vil eg láta það álit mitt í ljósi, að landskjálfti hafi hér verið í verki með veðri og sjó. Benda til þess ýmsar vörutegundir, sem eg hefi fundið lítið skemmdar undir grundvelli (ned i Grunden). Þvílíkt gat varla orðið án mikils hristings og sérstaklegrar aukahreyfingar jarðvegsins.
Þar eg er skuldunautur hátignarinnar, er átti veð og íhlutunarrétt í húsum á verzlunarstaðnum Básendum, verð eg að biðja yður, hr. sýslumaður, að koma hér við tækifæri og framkvæma löglega skoðun á rústunum og fjártjóninu.
Stafnesi 16. marz 1799.
H. Hansen.
Konan sem fórst í flóðinu hét Rannveig Þorgeirsdóttir, 79 ára niðursetningur sem hafði lengi verið rúmföst.4 Frásögn kaupmanns sýnir að veður hafi rokið upp um kl. 2 eftir miðnætti og gekk veðrið af suðri til vesturs . Nokkru síðar, óvíst hve löngu, opnaði kaupmaður dyr eldhúsmegin og flæddi sjór þá inn í húsið. Nánar verður vikið að þessu atriði síðar í greininni.
Sýslumaður lét gera úttekt á tjóninu og er virðingagerðin dagsett 9. maí 1799. Þar eru hús ýmist sögð vera gjörónýt eða stórskemmd. Auk þessa voru sex bátar sem kaupmaður átti og hafði gert út til fiskveiða gjörónýtir, af sumum þeirra var kjölurinn einn eftir. Úttektin segir eftirfarandi um flóðhæð og landbrot af völdum flóðsins: Hversu mjög sjórinn gekk á land og hve hátt risu flóðöldur má ráða af því, að sjórinn komst 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn (274 metra ef miðað er við þriggja álna faðm), og rekadrumbur hefur skolazt upp á þakið á einu verzlunarhúsanna, og liggur þar enn, 4 álnum ofar grundvelli. Verzlunarstaðurinn sýnist alveg óbyggjandi til frambúðar, því grundvöllurinn virðist vera 1-2 álnum lægri en áður.5
Þess skal getið áður en lengra er haldið að Básendakaupstaður var ekki endurreistur og lögðu stjórnvöld þó allhart að Hansen kaupmanni að byggja þar upp á nýjan leik.
Einhver verslun var þó á Básendum árið 1799. Hansen fluttist til Keflavíkur. Hann skuldaði konungi yfir 2.000 ríkisdali og sótti um að fá skuldina gefna eftir. Konungur féllst á að gefa hálfa skuldina eftir og að veita eins árs gjaldfrest á hinum helmingnum ef kaupmaður byggði aftur upp á Básendum. Síðar var fallið frá því skilyrði. Hansen kaupmaður andaðist árið 1802 og kom í hlut sona hans að greiða eftirstöðvar skuldarinnar.6
Tjón varð mun víðar en á Básendum aðfararnótt hins 9. janúar 1799. Jón Espólín segir pakkhús hafa eyðilagst á Eyrarbakka og þar dreifði sjórinn viðum og varningi um Breiðumýri ofan verslunarstaðarins. Einnig velti sjórinn um öllum stakkstæðum á Eyrarbakka, gróf grundvöll undan flestum húsum þar, spillti vörum og braut malarkambinn. Hús brotnuðu og hey og búpening tók út, 63 hross, 58 kindur og 9 kýr. Alls olli flóðið tjóni á 52 býlum í hinum forna Stokkseyrarhreppi og þar brotnuðu 27 bátar.
Tuttugu og níu menn urðu að flýja heimili sín. Tjón varð einnig í Þorlákshöfn og Selvogi. Í Grindavík spillti flóðið 5 hjáleigum, þar brotnuðu 6 skip og 8 að auki skemmdust og 100 fjár fór í sjóinn. Fiskigarðar og túngarðar á Nesjum sópuðust heim á tún og þar brotnuðu 8 bátar, tveir bátar eyðilögðust í Höfnum, tveir í Njarðvík og fjórir í Útskálasókn. Sjór gekk á land á Vatnsleysuströnd og braut tíu báta. Flóðið spillti mörgum jörðum á Seltjarnarnesi og eyðilagði þar yfir 20 báta. Þrjátíu og sex bátar skemmdust eða eyðilögðust í Borgarfjarðarsýslu og sextán að auki í Mýrasýslu. Verbúðir eyðilögðust við Álftanes og í Hítárnesi. Í Staðarsveit gekk sjór 300-1.500 föðmum lengra á land en venja var í stórstreymi, þar eyðilögðust hús og 50 fjár flæddi. Fjórtán kirkjujarðir Staðarstaðar spilltust. Búðakaupstað tók af að mestu, þar brotnaði eitt hús alveg, gat kom á annað og sjórinn gróf undan hinu þriðja. Sextán bátar brotnuðu í Staðarsveit, en tíu að auki höfðu brotnað fyrr um veturinn í Neshreppi.
Flutningaskip Hans Hjaltalíns, kaupmanns á Búðum og Stapa, slitnaði upp og brotnaði undir Sölvahamri, verslunarhús brotnaði í Ólafsvík. Tveir bátar eyðilögðust á Hellissandi og fimm að auki á Skógarströnd. Þar brotnuðu þrír bæir. Hús fuku í Dalasýslu. Þar braut sjórinn land og tók hjalla og fiskmeti. Átján bátar brotnuðu í óveðrinu í Dalasýslu svo að vitað var. Tekið er fram að veðurofsinn hafi verið minni á Vestfjörðum og um Norðurland. Hvalsneskirkja og Neskirkja við Seltjörn fuku og kirkjurnar í Kirkjuvogi og á Kálfatjörn skemmdust. Jón Espólín hefur eftirfarandi um tjón af völdum veðursins í grennd við Reykjavík eftir Geir biskupi Vídalín: að 5 álnum hefði sjór gengit hærra, þverhnýptu máli, en í ödrum stórstraumsflódum; braut sjórinn þvert yfir um nesit fyrir innan Lambastadi, svo at hvorki var fært hestum né mönnum; lét biskup mæla þar, ok voru 3 hundrud fadma tírædir; spilltust til ónýtingar á nesinu 18 skip eda meira, med þeim sem í Videy ok í Engey voru; kot braut á Kjalarnesi ok nokkra báta, ok vedr spillti vídar húsum. Tók af Breid á Skipaskaga med húsum ok túnum, en sjórinn brauzt inn undir pallskörina, fékk bóndinn brotid gat á badstofu-þekjuna, ok komit þar út mönnum, en vard at brjóta sik inn í adra búd, til at koma þeim af sundi, týndist margt þat er hann átti, en honum bættist þat aptr af örleik manna.7
Heimildir geta ekki um spjöll í Reykjavík af völdum flóðsins enda hefur hafnarsvæðið gamla verið í nokkru vari.“
Heimild:
-Lýður Björnsson.
1. Ísl. fornr. IV., bls. 245, meginmál og fyrsta neðanmálsgrein.
2. Suðurnesjaannáll er prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri sr. Jóns Thorarinsens og hefur hann lagt sitt af mörkum til lýsingarinnar. Höfundurinn, sr. Sigurður B. Sivertsen, var prestur í Útskálasókn 1837-1886 og sr. Jón ólst upp í Höfnum. Báðir hafa því væntanlega þekkt Básenda mjög vel.
3. Vigfús Guðmundsson: Básendar við Faxaflóa, Blanda III., bls. 50-52, 57, önnur neðanmálsgrein. Sigurður Pétursson er bæði titlaður héraðsdómari og sýslumaður í skjalinu. Hið rétta er að hann var sýslumaður í Kjósarsýslu og héraðsdómari í Gullbringusýslu, sem var eina sýsla landsins sem naut umsýslunar slíks embættismanns.
Skiptingin átti rætur að rekja til konungsbréfs frá 1781 og ágreinings Skúla landfógeta Magnússonar og Guðmundar Runólfssonar lögsagnara um starfsvið. Landfógeti hafði með höndum fjármál og löggæslu í Gullbringusýslu. Sjá Kaupstaður í hálfa öld, bls. 117.
4. Vigfús Guðmundsson: S. st., bls. 54-58 og neðanmálsgrein á bls. 58. Vigfús segir
Rannveigu vera Þorgilsdóttur en sr. Jón Thorarinsen, útgefandi Suðurnesjaannáls, sem tekur frásögn Vigfúsar upp í annálinn, hefur breytt föðurnafni hennar á tveimur stöðum.
Er þar væntanlega um leiðréttingu að ræða, sjá Rauðskinnu hina nýrri III., bls. 43 nm., neðanmálsgreinar 2-3.
5. Vigfús Guðmundsson: S. st., bls. 58-61.
6. Vigfús Guðmundsson: S. st., bls. 64-68.
7. Jón Espólín: Íslands Árbækur í sögu formi, XI. deild, bls. 96-97.