Bergsprungur og misgengi í nágrenni Reykjavíkur – Jón Jónsson

Misgengi

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Bergsprungur og misgengi í nágrenni Reykjavíkur“ í Náttúrufræðinginn árið 1965:

Inngangur

Jón Jónsson

Grein sú sem hér fer á eftir er byggð á athugunum, sem segja má að hali byrjað með jarðfræðilegri kortlagningu af nágrenni Reykjavíkur, sem við Tómas Tryggvason unnum að sumarið 1954. Fékk ég þá í minn hlut suðurhluta svæðisins, en á því koma sprungur og misgengi hvað bezt fram.
Verulegur skriður komst þó ekki á þessar athuganir fyrr en Vatnsveita Reykjavíkur óskaði eftir rannsóknum á þessu svæði í sambandi við vatn fyrir Reykjavíkurborg.
Rannsóknum þessum er að sjállsögðu engan veginn lokið, því enn er mörgum spurningum ósvarað. Það sem hér fer á eftir ætti þó að geta gefið nokkra hugmynd um hvernig málin standa nú, þ. e. við áramótin 1964—1965.

Berggrunnur

Sprungur
Á meðfylgjandi korti er gerður greinarmunur á ferns konar bergi nefnilega 1) fornu blágrýti (basalti), sem mestmegnis eru hraun, sem runnið hafa á tertier tímabilinu, en því lauk fyrir um það bil einni milljón ára, 2) berggrunn yngri enn frá tertier, en á þessu svæði eru það aðallega grágrýtishraun runnin á hlýviðrisskeiði — (interglacial) eða skeiðum milli ísalda, 3) hraun runnin eftir að jökla síðustu ísaldar leysti af þessu svæði og loks, 4) myndanir, sem væntanlega eru frá því seint á tertier eða snemma á kvarter (Mosfell).

Mosfell

Mosfell.

Á það skal bent, að nokkuð af því bergi, sem hér er talið vera frá tertier kann að vera nokkru yngra, frá mótum tertier og kvarter eða frá því snemma á kvarter, en nákvæm takmörk þessara tímabila eru í raun og veru ekki til, og skiptir í því sambandi, sem hér kemur til greina heldur ekki máli. Það sem hér hefur þýðingu er munur eldri, tertiera eða árkvarterra, og yngri, interglaciala, giaciala og postgiaciala bergmyndana og verður nánar rætt um það síðar.

Tertiera basaltmyndunin

Esja

Esja – Djúpagil.

Hið forna berg blasir við sjónum m. a. í Esjunni. Það er að langmestu leyti byggt upp af: hraunlögum, sem hlaðist hafa hvert ofan á annað í fjölda eldgosa, sem oftast nær hafa líklega verið sprungugos, eins og þau sem þekkt eru frá vorum dögum. Millilög í tertiera basaltinu á þessu svæði eru yfirleitt mjög lítið áberandi. Oftast nær eru aðeins þunn lög al rauðu gjallkenndu bergi milli þeirra, og er það efra og neðra borð hvers hrauns. Þó koma fyrir lög af eins konar móbergi eða brúnleitum sandsteini milli basaltlaganna og einnig lög af jökulbergi (tillit) sem vitna um tilveru jökla einnig á þessum tíma. Verður það ekki rakið nánar hér. Í tertierabasaltinu og millilögum þess er mikið um sekundera mínerala þ. e. a. s. mínerala, sem myndast hafa í berginu á löngum tíma og nú fylla holur og sprungur í því. Þetta eru aðallega zeolitar (geislasteinar), kalsit (siliurberg), jaspis og kvarts.

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Þessir mineralar fylla allar holur í berginu og gera það þétt. Þetta veldur því að mjög litlir möguleikar eru á að vinna kalt vatn úr þessu bergi með borunum. Það berg, sem hér er talið vera tertiert, kemur fram, fyrir utan Esjuna einnig í Grímarsfelli, Úlfarsfelli, Hafrahlíð og fjöllunum þar í kring, eins og kortið sýnir. Auk þess kemur það fram báðum megin Viðeyjarsunds, í Gufunesi og lítilsháttar í Geldinganesi. Einnig sér í það við Gelgjutanga vestan við Elliðavog. Sunnar er mér ekki kunnugt um að það komi fram, hins vegar er tiltölulega grunnt á það víða, t. d. í Reykjavík.

Mosfell

Mosfell.

Mosfell í Mosfellssveit virðist hafa nokkra sérstöðu á þessu svæði, og hefur ekki verið unnt að taka endanlega afstöðu til þess spursmáls, hvort telja beri það til tertiera bergsins eða hins yngra. Það er að mestu úr bólstrabergi, en talið er að það myndist einkum þar sem hraun rennur í vatn eða þar sem eldgos hafa orðið undir jöklum. Það virðist ekki ólíklegt að Mosfell sé fornt eldfjall myndað við gos undir jökli og þá væntanlega á einhverri af hinum fyrstu ísöldum hins kvartera jökultíma. Bergið í Mosfelli er lítið eða ekkert holufyllt og
gæti það komið heim við þá skoðun, sem hér hefur verið látin í ljós.

Grágrýtið
Sprungur
Eins og getið er um hér að framan, er berggrunnur sá sem á kortinu er talinn vera yngri en frá tertier að langmestu leyti grágrýti, en það nafn er almennt notað í daglegu tali um gráleitt dóleritiskt ólívínbasalt, sem myndar þann grunn sem höfuðborgin nær eingöngu stendnr á og sem teygir sig út um nes og eyjar í nágrenni hennar. Grágrýti þetta eru hraun, sem að minnsta kosti að mestu leyti eru komin frá Borgarhólum á Mosfellsheiði, en þeir eru gígur hinnar fornu dyngju. Þó er líklegt að grágrýtið á suðurhluta svæðisins, sé komið frá öðrum eldstöðvum, en ekki verða færðar á það sannanir að svo komnu máli, og takmörk þessara bergmyndana eru algerlega óþekkt.

Borgarhólar

Í Borgarhólum.

Eins og kunnugt er, eru grágrýtishraunin urin af jöklum síðustu ísaldar og eru því eldri en hún. Af legu grágrýtishraunanna er ljóst, að þau hafa runnið í landslagi, sem í stórum dráttum hefur verið orðið mótað eins og það er nú. Þannig hafa hraunstraumar miklir fallið norður að Esju og vestur dalinn sunnan við hana. Þetta sést m. a. af því að ofurlítið grágrýtissvæði er vestast í dalnum milli Múla og Skálafells vestan við Stardalsá, og hefur grágrýtishraunið þá flætt upp í dalsmynnið áður en það hélt áfram vestur. Það hefur svo runnið út dalinn norðan við Mosfell og út fyrir það sem nú er sjávarströnd, en lellin og minni hæðir hafa staðið upp úr og gera svo enn. Að sjálfsögðu hafa jöklar og önnur eyðandi öfl unnið sleitulaust á grágrýtishraununum um langan tíma og mikið af þeim er því án efa farið veg allrar veraldar fyrir löngu. Upprunaleg þykkt grágrýtishraunanna hefur því hvergi varðveitzt fram á þennan dag.

Gelgutangi

Gelgjutangi.

Á nokkrum stöðum sér í þær myndanir, sem grágrýtið hvílir á. Meðal þeirra má nefna sandsteinslögin vestan við Elliðavog, en þar hefur grágrýtishraun runnið yfir mýrajarðveg, og má finna þunnt mólag hið næsta undir grágrýtinu, en undir því eru sandlög og líklega jökulurð. Þau lög virðast þar ná niður á hið forna berg, tertiera bergið, sem kemur fram við Gelgjutanga. Sandsteinslög þessi eru fremur laus í sér, en þó eru í þeim allhörð lög innan um. Sandlög koma fram undir grágrýtinu sunnan Viðeyjarsunds og í Viðey sjálfri og einnig sér þar í jökulberg.

Brimnes

Brimnes (HWL).

Norðan við Brimnes á Kjalarnesi kemur jökulberg fram undir grágrýtinu í fjörunni vestan við Klifberg. Í því eru skeljar og grágrýtið er þarna að mestu sem bólstraberg. Hvort tveggja bendir til að hraunið hafi hér runnið út í sjó, en líklega hefur þar þó verið mjög grunnt. Greinilegar leyfar gervigíga má sjá þarna í berginu. Í gljúfri Leirvogsár norðan við Mosfell sér í undirlag grágrýtishraunsins. Það hefur þar runnið yfir grjóteyrar og má þar sjá vatnsnúna smásteina hanga fasta neðan í grágrýtinu. (Jónsson, 1960). Svo virðist sem Fossvogslögin alkunnu séu inni í grágrýtinu, en vel geta þau fyrir það verið frá sama tíma og lögin við Klifberg, enda eins að útliti. Víða hafa fundizt setlög undir grágrýtinu við boranir, en ekki verður það rakið hér. Þykkt grágrýtisins er að sjálfsögðu mjög mismunandi, en lítið er um hana vitað nema út við sjó á nokkrum stöðum og svo þar sem borað hefur verið, en einnig þar er nokkur vafi á, því flestar boranirnar eru gerðar með höggbor eða gufubornum og kjarnar eru ekki til.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Í Reykjavík sjálfri er oft bólstrabergslag, stundum alþykkt, undir hinu venjulega grágrýti. Líklegt virðist að bólstrabergið sé myndað af grágrýtishraunum, sem runnið hafi í sjó út en venjuleg grágrýtishraun myndast fyrst þegar hraunin hafa fyllt svo hátt að þau renna á þurru.
Lítið er enn þá vitað um millilög í grágrýtinu sjálfu, enda er ekki talið líklegt að mikið sé um þau. Hraunin eru dyngjuhraun, og líklegt virðist að gosin hafi verið svo þétt á meðan eldstöðvarnar voru virkar að lítil von sé um að gegnumgangandi setlög hafi haft tíma til að myndast. Þó hafa mörg hraunin án efa ekki náð að þekja nema nokkurn hluta svæðisins, og geta þá millilög hafa myndast á ýmsum stöðum. Þau geta svo hafa orðið undir síðari hraunflóðum. Við Rauðhóla var t. d. borað í gegnum sandlag frá 12—22 m dýpi. Ekkert náðist í kjarna af þessurn sandi og vitum við því ekki hvernig hann var. Millilag í grágrýtinu kemur fram skammt vestan við Árbæjarstíflu.
Sprungur
Á nokkrum stöðum á því svæði, sem hér er um að ræða, kemur fyrir bólstraberg á yfirborði. Sums staðar tilheyrir það án efa grágrýtinu, en á öðrum stöðum er vafasamt hvort svo er. Á Brimnesi er bergið efst venjulegt grágrýti en neðri hluti bergsins allur er myndaður sem bólstraberg. Athuganir á staðnum og smásjárrannsóknir á berginu sýna að um einn og sama hraunstraum er að ræða.

Hvaleyri

Hvaleyri.

Bólstrar í grágrýtinu koma einnig fyrir í Engey austanverðri, sunnan megin við Kópavog, við austanverðan Arnarnesvog og við sjóinn fyrir neðan Garða á Álftanesi. (Sbr. Jarðfræðikort af nágrenni Reykjavíkur eftir Tómas Tryggvason og Jón Jónsson). Syðst á Selási kemur bólstraberg líka fram, en það virðist vafasamt hvort það tilheyrir grágrýtinu. Við borun eftir köldu vatni sem Garðahreppur lét gera við Vífilsstaðavatn var komið í bólstraberg á um 9 m dýpi niðri í grágrýtinu og hélst það til botns í holunni á 32 m dýpi. Í húsgrunnum á Flötunum í Garðahreppi kemur bólstraberg og móbergsbréksia sums staðar fram. Í Hvaleyrarhöfða við Hafnarfjörð er einnig bólstraberg undir venjulegu grágrýti, en hvorugt hefur enn þá verið bergfræðilega rannsakað.
Mikill hluti grágrýtisins er nú hulinn jökulruðningi frá síðustu ísöld og jarðvegi. Jökulruðningurinn er víðast hvar þunnur, en getur þó orðið nokkrir metrar. Undantekning er að sjálfsögðu jökulalda sú, sem liggur um þvert Álftanes (sbr. áður nefnt jarðfræðikort).

Mosfellsheiði

Sprunga á Mosfellsheiði nálægt Borgarhólum.

Ekki er vitað hvenær Borgarhóladyngjan hætti gosum, en hætt hefur hún sennilega verið áður en síðasta ísöld gekk yfir. Ekki er heldur vitað, hvenær gos hófust á þessum stað, en ekki virðist ólíklegt, að þau hafi verið á fleiri en einu hlýviðrisskeiði milli ísalda.
Grágrýtið, sem komið hefur frá Borgarhólum er gráleitt, dóleritiskt ólivinhasalt eins og áður segir. Það er fremur lítið um holur í því nema örsmáar, en séð gegnum stækkunargler eða í smásjá er það fullt af smáhlöðrum. Þætti mér líklegast að þær væru til orðnar á eftirfarandi hátt: Þegar hraunið kólnar og kristallast losnar gasið úr því, vegna þess að gasið getur ekki gengið inn í kristallana. Þetta heldur áfram þar til hraunið er storknað. Það gas sem síðast losnar úr hrauninu myndar þessar smá blöðrur. Svo að segja engir dílar (fenokrist) eru í grágrýtinu og það er yfirleitt merkilega litlar breytingar á samansetningu þess, hvort heldur um er að ræða hraun frá Borgarhólum eða, sem ætla má, að sé annars staðar að komið. Sama máli virðist gegna um það sé snið tekið í gegnum það, eða a. m. k. bendir snið það, sem tekið var í Rauðhólum til þess, að svo sé.

Nútíma hraun

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Ekkert hraun hefur komizt jafn nálægt höfuðstaðnum og hraun það, sem runnið hefur út í Elliðavog. Hraun þetta er að því er Þorleifur Einarsson telur komið úr gígum austan við Bláfjöll, nefnist gígurinn Leitin og verður hraunið því nefnt Leitahraun. Austan til er það mjög hulið yngri hraunum, en kemur fram vestan við Draugahlíðar, og fellur þaðan um Vatnaöldur, Sandskeið, Fossvelli og Lækjarbotna vit í Elliðavatn og þaðan eftir fornum farvegi Elliðaánna í sjó út.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Rauðhólar eru gervgígir í þessu hrauni. Mór hefur fundizt undir því rétt fyrir ofan brúna á Suðurlandsvegi. Hann hefur verið aldursákvarðaður og reynzt vera 3500±S40 ára samkvæmt niðurstöðum af C14 ákvörðun. Þegar sprengt var fyrir stiflugarðinum við Árbæ fundust að sögn Sigurðar Ólafssonar, verkfræðings, kol undir hrauninu þar. Hefur þar því verið skógur eða kjarr þegar hraunið rann.
Milli Heiðmerkur og Selfjalls hafa runnið mikil hraun norður eftir. Þau ganga undir einu nafni Hólmshraun. Það er þó um a.m.k. 5 mismunandi hraunstrauma að ræða. Sá elzti þeirra kemur fram rétt austan við Gvendarbrunna og hefur skammt austar fallið nærri því þvert yfir Leitahraunið.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Hraun þetta er því yngra en Leitahraun og þar með öll Hólmshraunin. sem verða hér nefnd Hólmshraun I—V. Hraun I er þá hið elzta og V það yngsta. Vestan og sunnan Heiðmerkur eru fleiri hraunstraumar, en ekki verður það rakið nánar hér. Þó skal getið hrauns þess sem komið hefur úr Búrfelli og því verður nefnt Búrfellshraun hér, en gengur undir ýmsum nöfnum á ýmsum stöðum, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Það hefur fallið vestur vestan við Vífilsstaðahlíð og önnur álma vestan við Sléttuhlíð, en sú þriðja hverfur undir yngri hraun vestan við Kaldársel. Það er ekki ástæðulaust að hafa í huga að hér í nágrenninu hafa orðið a. m. k. fá eldgos á skemmri tíma en um 5800 árum. Líkur benda til að þau séu margfalt fleiri. Engar sagnir eru til um neitt þeirra, það mér er kunnugt.

Bergsprungur og misgengi
Sprungur
Það er alkunnugt að Reykjanesskagi er allur sprunginn mjög. Sprungur þessar og sprungukerfi stefna yfirleitt frá norðaustri til suðvesturs. Þetta er hluti af sprungukerfi því, er liggur um landið þvert í þessari stefnu, en þannig stefna einnig svo að segja allar gossprungur og gígaraðir á Suður- og Suðvesturlandi.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

Það er ekki vafa bundið, að þetta stendur í sambandi við neðansjávar hrygg þann, er liggur að endilöngu Atlantshafi, en einmitt á honum eru aðaljarðskjálftasvæði þess og einnig eldfjöll, Sprungukerfi þau, sem hér verða tekin til meðferðar, eru aðeins lítill hluti af þeim sprungum, sem liggja að Reykjanesskaga endilöngum. Það er erfitt að draga víðtækar ályktanir af athugunum á aðeins nokkrum hluta svæðisins, og varhugavert að taka svona hluta út úr sambandinu við aðalsprungukerfið. Þetta hefur þó tímans vegna orðið að gera. Á hitt skal þó jafnframt bent, að æskilegt hefði verið að kortleggja sprungukerfin á skaganum öllum nákvæmlega, og allt norður undir jökla. Að því mun og verða unnið framvegis eftir föngum.

Sprungur

Vestan Hvaleyrarholts og Stórhöfða við Hafnarfjörð eru víðáttumikil hraun, sem ná út allan skagann. Þarna er um að ræða fjölda hrauna, hve mörg þau eru veit enginn. Sunnan og vestan við áðurnefnda staði verður ekki vart við tektoniskar sprungur í hraunum þessum, fyrr en kemur nokkuð langt frá fjöllunum, þ. e. þeirra gætir ekki í hinum yngstu hraunum.

Höfuðorgarsvæðið

Höfuðborgarsvæðið – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Um þveran Bleiksteinsháls norðan við Hvaleyrarvatn liggur misgengi, sem er mjög greinilegt skammt vestan við Gráhelluhraun og rétt vestan við hliðið, sem þar er á sauðfjárgirðingunni. Misgengi þetta nefnist Bláberjahryggur, en er raunar enginn hryggur í orðsins réttu merkingu. Þessu misgengi má fylgja frá því rétt norðan við vesturenda Hvaleyrarvatns og að hrauninu, sem áður er getið, en það er syðri kvísi Búrfellshrauns (Hafnarfjarðarhrauns). Sýnilegt misgengi á þessari leið er mest 3—4 m og er austurbarmur sprungunnar lægri (sbr. kortið). Austan við hraunkvíslina heldur misgengið áfram um Setbergshlíð og Urriðavatnsdali, en ekki sézt votta fyrir því á hrauninu sjálfu, en það þýðir augljóslega það, að misgengið hefur ekki verið virkt svo nokkru nemi frá því að hraunið rann. Verður nánar vikið að þessu síðar.

Setbergshlíð

Setbergshlíð og Gráhelluhraun neðar.

Í Setbergshlíð er misgengið verulegt, og á há-hæðinni milli hraunkvíslanna er það a. m. k. 7 m. Þegar kemur austur yfir eystri kvísl Búrfellshrauns, þá er fallið hefur niður með Vífilsstaðahlíð, hverfur misgengið, en sér þó votta fyrir áframhaldi sprungunnar, og liggur hún austan við Vífilsstaðavatn. Svo er ekki hægt að rekja hana með vissu, en líklegt er, að hún liggi um mýrasundið vestan við Rjúpnahæð og Vatnsendahæð. Mundi hún þá liggja um austanvert Breiðholtshvarf. Þó skal það tekið fram að óvísst er með öllu, að sprungan haldi þannig áfram. Það má vel vera að hún haldi ekki áfram austar í beinu framhaldi af því sem nú hefur verið lýst.

Það er ekki óvenjulegt að sprungur hverfi og taki sig svo upp aftur nokkuð á hlið við fyrri stefnu. Þessi brotlína verður framvegis nefnd Bláberjahryggsmisgengið. Vestan við þetta misgengi, þar sem það liggur um Setbergshlíð, er annað misgengi. Þess verður fyrst vart austan við vesturálmu Búrfellshrauns. Svo má rekja það um norðurhornið á Nónhæð og austan við mýrina austur af Urriðavatni. Svo sér fyrir því austan í Urriðavatnsholti, en frá því er það horfið. Um austanvert Urriðavatnsholt er enn eitt misgengi og liggur vegurinn yfir það á tveim stöðum. Einnig sér fyrir því sem sprungu í Vífilsstaðahlíð og stefnir hún á Vífilsstaðavatn austanvert. Þetta eru vestustu brotlínurnar, sem sannanlega eru á þessu svæði.
Sprungur
Næsta misgengi fyrir austan Bláberjahrygg liggur um vestanverðan Stórhöfða, Hvaleyrarvatn, hæðina norðaustur af því og um Setbergshlíð, en verður svo ógreinilegt er austar dregur að ekki er hægt að rekja það. Misgengi liggur og um hátind Stórhöfða, en ekki verður það rakið alla leið austur að Gráhelluhrauni.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Skammt austur af Stórhöfða eru enn tvö misgengi. Það eystra liggur um Fremstahöfða, á takmörkum grágrýtis og Búrfellshrauns. Þessi misgengi sjást ógreinilega í Sléttuhlíð, en koma betur fram í Setbergshlíð austanverðri.
Misgengi þau, er hér hafa verið talin, sjást ekki í Búrfellshrauni að því austasta einu undanskildu. Eftir að hingað kemur taka misgengin að verða svo greinilega að enginn getur verið í efa um tilveru þeirra. Um Hjalla er aðal misgengið sem er mest áberandi milli Búrfellshrauns og Elliðavatns.
Mesta sýnilega misgengi á þessum slóðum er við Vatnsendaborg og Arnarbæli og þar er það samtals um 65 m. Það er athyglisvert að einnig Búrfellshraun er brotið og misgengið um þessa línu og raunar líka um sprungu, sem er nokkru vestar en aðalmisgengið. Við þá sprungu er misgengið í hrauninu sjálfu 2,73 m en í grágrýtinu þar austur af a. m. k. 6,88 m. Hefur misgengið pvi verið til áður en hraunið rann og verið virkt eftir að það rann.

Helgadalur

Helgadalur.

Aðalmisgengið mældist vera 7,24 m og er það meðaltal af nokkrum (8) mælingum. (1. mynd). Hér sést líka að misgengið hefur verið til áður en hraunið rann, því hraunið hefur runnið austur með því áður en það næði framrás vestur með Vífilsstaðahlíð. Um 250 m austan við aðalmisgengið er enn misgengi, sem í hrauninu nemur 1,80 m. Samanlagt misgengi í hrauninu er því um 12 m.

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Við öll þau misgengi sem þegar eru talin er austurbarmur sprungunnar lægri, sbr. kortið. Um 150—200 m austan við Gjárétt er misgengi sem nemur 1, 72 m og snýr öfugt við hin, þannig að austurbarmur sprungunnar er hærri. Um 400 m austar er misgengi, sem snýr eins og hið síðastnefnda og nemur 1,60 m. Rétt vestan við Búrfellsgíginn, í hrauntröðunum, sem frá honum liggja, er misgengi er nemur um 2 m og snýr eins og hin tvö þ. e. að vesturbarmur sprungunnar er lægri. Búrfell sjálft er brotið um þvert af misgengissprungu, sem liggur um Helgadal, Kaldárbotna, Gvendarselshæð og Undirhlíðar. Misgengi þetta er víða (1—8 m og sums staðar 10 m eða þar yfir. Austurhlíð sprungunnar er hér aftur lægri. Það er þessi sprunga, sem Kaldá raunverulega kemur úr. Þetta misgengi er augljóslega yngra en Búrfell og Búrfellshraunið eins og aðalmisgengið um Hjalla.
Það er athyglisvert að um 1,5—2 km sunnan við Kaldárbotna, en þar er vatnsból Hafnarfjarðar, heldur þessi sama sprunga gosið hrauni. Það hraun er hið yngsta þar í grennd.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Misgengin um Hjalla má rekja norður að Elliðavatni að vestanverðu (sjá kortið), og á nokkrum stöðum ofan við Heiðmörk koma þau fram, þar sem grágrýtisholt standa upp úr hraununum. Sprungukerfið er því allbreitt, eða allt að 5 km, ef dregin er lína hornrétt á sprungustefnuna frá misgenginn norðvestan við Vatnsenda og suðaustur yfir Heiðmörk. Sprungur þessar má sumar rekja lengra norður eitir. Ein þeirra liggur um vestanvert Rauðavatn og takmarkar Selás og Skyggni að austan. Vegurinn, sem liggur frá suðvesturenda Rauðavatns og að norðurenda Elliðavatns og um Vatnsendahæð, Fylgir þessu misgengi milli Elliðaár og Rauðavatns. Við austurenda Rauðavatns er annað misgengi. Bæði þessi misgengi má rekja norður yfir Grafarheiði og Reynivatnsheiði norður að dalnum, sem Úlfarsá fellur eftir. Mjög greinileg misgengissprunga liggur um þvert Grafarholt og er sýnileg báðum niegin í því, en er mest áberandi sunnan í holtinu ofan við Bullaúgu. Í vestanverðri Grafarheiði er gapandi gjá og önnur um 1 km austar (sjá kortið). Sprunga liggur svo um austanverða Reynisvatnsheiði og Langavatnsheiði. Hún liggur um Langavatn þvert, því sem næst beint norður a£ Höfða, en hverfur miðja vega milli Langavatns og Hafravatns. Misgengi má sjá rétt vestan við Lækjarbotna og sprungukerfi liggur um Selfjall, Sandfell, Lakaheiði og Miðdalsheiði t. d. skammt vestan við Lyklafell, og eru þar nokkrar gapandi gjár. Sömuleiðis eru augljós misgengi um Vatnaöldur og Bolaöldur, en ekki verða þau tekin til athugunar hér.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Hingað til hefur aðeins verið fjallað um sprungur og misgengi í bergi, sem er yngra en frá tertier. Í þessu bergi hefur verið hægt að rekja sprungurnar langar leiðir, og þær koma ósjaldan fyrir sem gapandi gjár. Breidd gjánna er þó yfirleitt ekki mikil, og oftast nær innan við 1 m nema þar sem vernlegt misgengi er líka. Á línu frá Búrfelli niður eftir hraunkvíslinni vestan við Vífilsstaðahlíð um 2 km leið frá gígnum er samanlögð sprunguvídd 5,66 m eða 2,83 m á km. Þessar sprungur eru allar í Búrfellshrauni. Samanlagt misgengi í hrauninu reyndist 11,77 m á þessari leið, og eru þá aðeins talin með þau misgengi þar sem austurbarmur sprungunnar er lægri.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Mesta misgengi um Hjalla reyndist vera um 65 m, eins og áður er getið. Utan þeirra bergmyndana, sem samkvæmt kortinu eru taldar vera yngri en frá tertier, má og finna misgengi og brotlínur. Þannig liggja varla færri en 8 brotlínur um Úlfarsfell og er nokkurt misgengi við þær allar (sjá kortið). Ekki hefur tekist að finna með vissu, hversu mikið misgengi er við vestustu sprunguna í Ulfarsfelli, en um 2. sprungu vestan frá tabð er misgengi, er nemur 2,5 m, um 3. sprungu 6 m, 4. 9,0 m, um 5. sprunguna 5 m og um 6. sprunguna vestan frá talið er misgengið samtals 24 m. Um 7. sprunguna er það 30 m og um þá 8. 25 m. Þetta eru mælingar gerðar annað hvort beint með hallamæli eða með loftþyngdarmæli. Samanlagt verða þetta rúmir 79 metrar. Þessi misgengi eru öll vel sýnileg og mælanleg í fjallinu. Mest áberandi er 24 metra misgengið, sem liggur um fellið þvert skammt vestan við hátind þess, og svo vestasta misgengið. Bæði þessi brot eru sýnd á korti okkar Tómasar, þó aðeins annað sem misgengi. Skammt austan við hátind fellsins er og misgengi, sem virðist vera um 30 m, og er þá gengið út frá jökulbergslagi, sem þar kemur fram. Milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar er líklegt að misgengi séu, en hvergi sést til þess á því svæði og verður því engum getum að því leitt, hvernig því er háttað eða hversu mikið það kann að vera. Í Hafrahlíð sjálfri eru hins vegar vel sýnileg og nákvæmlega mælanleg misgengi. Það vestasta er 22 m og er vestan í fjallinu. Hitt er skammt austar, í háhömrunum, og nemur rúmlega 12 metrum samtals. Það kemur fram á um 40 m breiðu svæði, sem er mjög brotið.
Sprungur
Austar í Hafrahlíð virðast vera fleiri misgengi, en ekkert þeirra sést svo greinilega að óyggjandi sé. Um fjallið ofan við Þormóðsdal liggja a. m. k. 4 misgengi milli Borgarvatns og Bjarnarvatns. Vesturbrún Bæjarfellsins og Þverfells er mynduð af þessu misgengi, sem vel gæti numið nokkrum tugum metra, en ekki hefur hingað til verið hægt að mæla. Örstutt austan við aðalmisgengið er annað minna en alveg samhliða því. Stendur bærinn í Þormóðsdal í tungunni milli þeirra. Þau koma saman rétt fyrir neðan bæinn, og liggur kvartsnáma sú, sem þar var einu sinni, í þessu misgengi. Kvartsið og aðrir „míneralar“, sem þarna var og er enn að finna, eru myndaðir sem sprungufyllingar í misgenginu.

Reykjafell

Reykjafell.

Vestast í Reykjafelli er misgengi, sem eltir stefnunni að dæma mun vera skammt vestan við bæinn að Suður-Reykjum. Vestast í Skammadal koma fram jökulbergslög, 6—8 m þykk. Líklega eru það sömu lög og nefnd eru T2 í grein minni Jökulberg í nágrenni Reykjavíkur (Náttúrufræðingurinn árg. 30, 1960 bls. 55—67). Þau eru brotin af misgengissprungunni. Misgengið reyndist vera þarna um 59 m og er vesturhliðin sigin. Haldi þessi sprunga áiram, eins og gera má ráð fyrir, er hún á svæðinu milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar að austanverðu.
Í gljúfri Reykjaár, skammt austan við Suður-Reyki er misgengi, er nemur um 21 m, og má sjá það í árgljúfrinu. Það gæti verið sama misgengi og áður er getið vestast í Hafrahlíð og einnig kemur fram norðan í Reykjafelli. Rétt austan við bæinn að Suður-Reykjum er líklega enn eitt misgengið, en ekki verða færðar á það óyggjandi sannanir.
A.m.k. 6 misgengi eru í Æsustaðafjalli (sbr. kortið), en ekki hefur reynst mögulegt að mæla nema eitt þeirra. Það er 4. misgengið vestan frá talið, og nemur það 17 metrum. Misgengi er og um Skammadal austanverðan (sjá síðar).
Í Helgafelli eru a. m. k. 2 misgengi. Það eystra virðist vera um 50 m, en þó er sú mæling nokkuð óviss. Vestra misgengið hefur ekki tekizt að mæla. Við Helgadal er misgengi fremst (vestast) í Katlagili og liggur það um Grímarsfell þvert. Brot og óverulegt misgengi virðist vera í gilinu næst vestan við Helgadal og eins í gili Norður-Reykjaár. Nemur það misgengi 6—8 metrum. Brot og misgengi má og rekja um Grímarsfell þvert, sbr. kortið.

Bergsprungur, lindir og uppsprettur

Lækjarbotnar

Vatnsveitan í Lækjarbotnum.

Í Lækjarbotnum norðan við Gráhelluhraun austan við Hafnarfjörð var áður vatnsból Hafnarfjarðar. Þar koma allstórar lindir undan hrauninu. Þær eru vatnsmeiri en svo, að líklegt sé að raunveruleg upptök þeirra séu í hrauninu. Til þess er aðrennslissvæði þeirra of lítið. Skammt suður af hinu forna vatnsbóli liggur misgengissprunga um dalinn þveran. Á Ásfjalli nefnist misgengishjallinn Bláberjahryggur, eins og áður er getið (sjá kortið). Mér virðist yfirvegandi líkur fyrir, að vatnið komi mestmegnis úr þeirri sprungu.
Annað misgengi liggur um Nónhæð norðanverða og má rekja það að Gráhelluhrauni. Í beinu áframhaldi af því eru lindir við Urriðavatn og einnig er þar borhola, sem gerð var og notuð á stríðsárunum.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum.

Núverandi vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Það vatn kemur beint úr misgengissprungu þeirri er klýfur Búrfell, myndar vesturbrún Helgadals sker þvert yfir Kaldárhnúk og heldur svo áfram suður eftir Undirhlíðum og Sveifluhálsi.

Helgadalur

Helgadalur.

Vatn nokkurt er að jafnaði í Helgadal, og má sjá það renna suðvestur eftir gjánni í átt að vatnsbólinu og á það vafalaust greiðan gang að því, þar sem sprungan liggur í gegnum fjallið. Vestan við þetta misgengi er 17,5 m niður á grunnvatnsborð. Í Búrfellsgjá, sem raunar eru fornar hrauntraðir, en engin gjá í venjulegri merkingu, er vatn sýnilegt í sprungu skammt austan við réttina. Austan við Vífilsstaðavatn eru nokkrar allstórar lindir. Að því er virðist eru þær á sprungum þeim sem áður er getið um (sbr. kortið).
Mesta misgengi á öllu þessu svæði er það, sem einu nafni er nefnt Hjallar. Þeir ná frá Búrfellshrauni norður að Elliðavatni. Misgengin ná raunar lengra suðvestur eftir, eins og áður er getið, og lengra en kortið sýnir. Allt þetta svæði er mjög sprungið og misgengið. Ein sprunga liggur eftir suðurbakka Elliðavatns, og þar er röð af uppsprettum, sem fylgja sprungunni austur eftir. Sunnan við vatnið innan girðingar í Heiðmörk eru einnig margar lindir og sumar stórar. Uppsprettur þessar eru á mjög áberandi hátt tengdar sprungunum (sjá kortið).

Elliðavatn

Elliðavatn.

Vestan við bæinn Elliðavatn eru og nokkrar lindir, og eins eru margar lindir norðan og austan í grágrýtistangangum sunnan og austan við Hrauntúnstjörn, sem svo er nefnd á korti herforingjaráðsins. Þær koma fram á mótum hrauns og grágrýtis og eru án efa tengdar sprungum í grágrýtinu. Undan hrauninu hjá Jaðri kemur fjöldi linda, sem að jafnaði eru ærið vatnsmiklar. Vatn þessara linda og eins Gvendarbrunna sjálfra kemur án efa úr sprungum í Grágrýtinu.
Við Silungapoll eru stórar lindir og virðist líklegt að eins sé ástatt um þær, þ. e. að þær séu tengdar sprungum í grágrýtinu. Svæðið þar í kring er hulið ungum hraunum og þar af leiðandi verða ekki færðar sönnur á að um sprungur sé að ræða. Við Lækjabotna er ein lítil lind uppi í gljúfri skammt frá skátaskálanum. Hún kemur út úr bólstrabergi og móbergsþursa. Hún þrýtur þó alveg í langvarandi þurrkum, svo sem sumarið 1962. Í hvammi rétt sunnan við Suðurlandsveg við Lækjabotna er og lítil lind, sem ekki er vitað að þornað hafi.

Silungapollur

Silungapollur.

Hún virðist koma undan grágrýti. Við Nátthagamýri eru margar lindir og sumar stórar. Koma þær sumar upp niðri á sléttu meðfram hlíðinni, en aðrar og þar á meðal sú vatnsmesta koma út úr hlíðinni og að því er virðist milli grágrýtislaga. Smálind er við austurbakka Rauðavatns, en þar er líka misgengi. Bullaugu eru stórar lindir, tengdar misgengi, sem liggur um Grafarholt þvert, og sunnan í því og sunnan við það myndar lítinn sigdal (Graben).

Úlfarsá

Úlfarsá.

Meðfram Úlfarsá að sunnan eru allmargar lindir og sumar stórar (sbr. kortið). Ein lítil lind er rétt við bæinn Engi, og er sú tengd áður nefndu misgengi um Grafarholt. Nokkru austar og skammt frá ánni er Tvíbytna, mjög falleg lind og með verulegu vatnsmagni. Nokkrar stórar lindir eru svo meðfram ánni, eins og áður er sagt. Flestar eru þær í landi Reynisvatns. Á suðurströnd Hafravatns austan til er ein lítil lind við vatnið. Hún er að því er virðist tengd áður nefndri sprungu, sem liggur um þvert Langavatn (sjá kortið). Í dal sunnan við Grímarsfell koma nokkrar smálindir út undan grágrýtinu, en suðurhlið dalsins er úr því bergi, norðurhlið hans er aftur á móti úr eldra bergi.

Borgarvatn

Borgarvatn.

Lítið er yfirleitt um lindir utan grágrýtissvæðisins, þó er ein uppi á fjallinu norðaustur af Borgarvatni og án efa tengd misgenginu, sem myndar vesturbrún Bæjarfells. Sunnan megin í Skammadal austanverðum koma nokkrar lindir út úr fjallshlíðinni allofarlega. Líklega koma þær allar úr spungum, sem þarna eru þó lítið beri á þeim í landslaginu og ljóst er að ein þeirra kemur beint út úr berginu. Nánari athuganir á þessu svæði standa yfir.
Að því sem hér að framan hefur verið sagt virðist mega ráða, að sprungur og misgengi hafi afgerandi þýðingn fyrir lindir á þessu svœði þannig að langflestar lindanna koma úr sprungum eða standa í meira eða minna beinu sambandi við þær.
Vatnið í Gvendarbrunnum kemur því ekki, eins og álitið hefur verið, undan hrauninu í eiginlegum skilningi heldur miklu dýpraúr jörðu og af stærra svæði en sem hraunið nær yfir. Nýlega gerðar ísótópa athuganir, sem Eðlisfræðistofnun Háskólans hefur gert á vatninu, staðfesta þessar niðurstöður.

Grunnvatn og grunnvatnsborð

Leitarhraun

Raufarhólshellir í Leitarhrauni.

Bergið í tertieru basaltmynduninni er yfirleitt orðið svo þétt að teljast verður ólíklegt að mögulegt sé að vinna úr því verulegt magn af köldu vatni með borunum. Samkvœmt þessu eru það eingöngu hinar yngri bergmyndanir, sem líklegar eru til að vinna megi úr neyzluvatn með borunum og þá umfram allt hin interglaciala grágrýtismyndun. Af þessu er enn fremur ljóst, að nauðsyn hin mesta er á því að kannalegu hins tertiera bergs undir grágrýtinu þ. e. með öðrum orðum að kortleggja landslagið eins og það var áður en grágrýtishraunin tóku að renna yfir það — að kortleggja „pre-doleritiska“ landslagið á þessu svæði.
Þetta má gera að nokkru með jarðeðlisfræðilegum mælingum, segulmælingum, viðnámsmælingum og jarðsveiflumælingum, en fullvissa fæst aðeins með borunum þar sem borkjarni er tekinn.

Bullaugu
Nokkrar slíkar borholur eru þegar til og nýjar bætast við. Þannig má geta þess að Hitaveita Reykjavíkur hefur látið gera rannsóknarboranir í landi Reykjavíkur. Fyrsta holan af þessu tagi var boruð við Rauðhóla 1962, önnur samtímis við Árbæjarstíflu, sú þriðja við Ártún, og var henni lokið 1963.

Bullaugu

Bullaugu – loftmynd.

Fjórða holan er við Skyggni, rétt norðan við stífluna við Elliðavatn, og um þessar mundir (áramót 1964—65) er verið að bora í Gufunesi. Auk þess hefur svo Vatnsveita Reykjavíkur látið bora eina holu við Selás og tvær við Bullaugu. Ekki er enn þá búið að vinna úr þessu efni. Ennfremur hefur Vatnsveita Reykjavíkur látið bora samtals 13 höggborsholur í Heiðmörk og 3 við Bullaugu. Höggborsholurnar í Heiðmörk eru flestar rannsóknarholur, en þær sem boraðar hafa verið við Bullaugu verða væntanlega virkjaðar. Ein af holunum, sem boraðar voru í Heiðmörk er efst í mörkinni um 30 m hærra en Gvendarbrunnar. Þessi borun leiddi í ljós að grunnvatnsborð var þarna óverulega hærra en yfirborð vatns í Gvendarbrunnum. Önnur hola neðar í mörkinni gaf sama árangur. Þetta bendir til, að hœð grunnvatnsborðs sé svipuð á öllu sprungusvæðinu.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar.

Undantekningar eru þó til (sbr. neðan). Ennfremur virðist ljóst að grunnvatnsstraumarnir í grágrýtinu stjórnast fyrst og fremst af „pre-doleritiska“ landslaginu og af sprungunum. Við Kaldárbotna hafa verið boraðar tvær holur. Þær sýna að vestan við misgengið, sem vatnið kemur úr er grunnvatnsborð nær 20 m lægra en í Kaldárbotnum.
Kaldá

Kaldárbotnar.

Þetta er eitt hið ljósasta dæmi um áhrif misgengis á legugrunnvatnsborðs. Borholan við Rauðhóla er 221,’5 m djúp og holan við Skyggni 332,7 m. Botnhiti í Rauðhólaholunni reyndist 10°C og holunni við Skyggni 7,4°C.  Á vegum Jarðhitadeildar Raforkumálaskrifstofunnar var borað við Kaldársel 986 m djúp hola og hitastig þar reyndist 2—5°C allt niður í 740 m dýpi. Þetta lága hitastig verður naumast skýrt á annan hátt en að það stafi af því, að mjög mikið af köldu vatni streymi gegnum berglögin. Í 272 m djúpri borholu við Árbæjarstíflu er botnhitinn hins vegar um 60°C. Meginhluti þeirrar holu er í tertieru basalti og holan er utan við sprungusvæðið. Aðgengilegasta skýringin á þessu virðist sú að mjög mikið kalt vatn streymi einmitt eftir sprungunum suðvestur eftir skaganum og um hin ungu berglög á þessu svæði.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar.

Það er og alkunna að á öllu svæðinu frá Þingvallavatni, Hengli og Hellisheiði að austan og Esju að norðan út allan skagann rennur sáralítið vatn til sævar ofanjarðar.

Lyklafell

Skammt norðan Lyklafells.

Eins og áður er vikið að er sprungukerfi það, sem hér er aðallega rætt um aðeins hluti af öðru stærra. Áberandi sprungur og misgengi eru um Sandfell austan við Lækjabotna, lítill sigdalur og gapandi sprungur eru í heiðinni vestur af Lyklafelli. Norðaustur af Vífilsfelli inn Vatnaöldur og að endilöngum Bláfjöllum ganga sprungur og misgengi, og eins er misgengi í Húsmúla og um Litla Reykjafell. Þar fyrir austan taka svo við hin miklu misgengi og sprungukerfi um Hellisheiði, og fjöllin þar suðvestur af um Hengil og Grafningsfjöll og norður yfir Þingvelli. Stórfellt misgengi liggur um austanverðar Botnssúlur og annaðnokkru austar um Gagnheiði. Þar myndast því sigdalur. Misgengið um Botnssúlur má rekja norður eftir um Kvígyndisfell, Egilsáfanga norður Kaldadal, en norður eftir honum má rekja sigdali og vafalítið er hann að nokkru leyti myndaður við sig. Þessi sömu misgengi ná norður yfir Hafursfell og sennilega norðuf undir Eiríksjökul. Áframhald Almannagjár liggur gegnum Ármannsfell og Jórukleif. Milli Lágafells og Mjóafells er misgengissprunga. Sigdalurinn milli Almannagjár og Hrafnagjár (Bláskógar) er sigdalur í öðrum eldri og stærri sigdal. Suðvestureftir má rekja misgengið um Botnssúlur með sæmilegri nákvæmni alla leið suður að Selvogi (sjá kort).

Almannagjá

Almannagjá.

Samkvæmt upplýsingum sem frú Adda Bára Sigfusdóttir, veðurfræðingur, hefur góðfúslega látið mér í té, er afrennsli Þingvallavatns, Sogið, mun meira en gera mætti ráð fyrir, sé reiknað með vatnasvæði þess eins og það kemur fyrir á topografisku korti. Aðrennsli Þingvallavatns er svo að segja eingöngu neðanjarðar eftir sprungunum, og ég efast ekki um að skýringin á þessu mikla vatnsmagni sé einmitt sú, að aðrennslissvæðið sé í raun og veru miklu stærra en það virðist vera og fremur háð sprungukerfunum en sjálfu yfirborði landsins.
Hvernig svo sambandið milli svæðisins þar norður og austur frá og þess við Reykjavík, Hafnarfjörð og utar á Reykjanesskaga kann að vera skal að þessu sinni ósagt látið, enda liggja ekki fyrir nein sönnunargögn varðandi það. Ég tel þó að fyllsta ástæða sé til að hafa í huga þann möguleika, að þegar um grunnvatn er að ræða séu svæðin hvort öðru háð, og vel virðist mér mega hafa það í huga þegar reynt er að gera sér grein fyrir innstreymi hins heita vatns í Reykjavík.
Samkvæmi því sem hér hefur verið sagt, virðist auðsætt að öruggasta leiðin til að vinna kalt neyzluvatn fyrir byggðina á þessu svæði öllu, sé með borunum í grágrýtismyndunina á sprungusvæðinu.

Sprungur

Hrafnagjá – misgengi.

Hér að framan hefur verið sýnt fram á hið nána samband milli sprungnanna og lindanna. Af því leiðir einnig, að hætta kann að vera á því, að óhreinindi komist í grunnvatnið sé ekki fyllstu varúðar gætt í því efni. Alvarlegasta hættan stafar án nokkurs efa frá olíu, en ef olía kemst í vatnsból, getur hún, þó um örlítið magn sé að ræða, eyðilagt það um langan tíma, jafnvel í áratugi.

Sprungur

Hraunsprunga.

Langflest hús eru nú kynt með olíu og oft er frágangi á olíugeimum við hús mjög ábótavant, ekki á þetta hvað sízt við um sumarbústaði. Vélaverkstæði, alls konar benzín- og olíusölur hafa mikið magn af olíu og varla fer hjá því að nokkuð fari til spillis á hverjum stað. Þvottastæði fyrir bifreiðir ber að telja með þessu. Allt þetta er háskalegt fyrir vatnsbólin og ætti því ekki að leyfa neina slíka starfsemi nema undir strangasta eftirliti á öllu sprungusvæðinu og undir engum kringumstæðum í námunda við vatnsbólin sjálf eða við opnar sprungur eða gjár.
Í öðru lagi ætti ekki að leyfa bráðabyrgðabyggingar (sumarbústaði) á þessu sama svæði nema búið sé svo um frárennsli og olíugeyma að óyggjandi sé að óhreinindi þaðan geti ekki komist í vatnsbólin. Í þessu sambandi eru það eðlilega sprungurnar sjálfar, sem ber að varast, en einmitt á þeim eða alveg við þær hafa margir þegar valið sér land undir sumarbústaði. Það vill löngum brenna við að fólk noti gjár og sprungur til að kasta í alls konar óþverra. Slíkan sóðaskap má með engu móti líða.

Tektoniskar sprungur og gossprungur

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – Katlagil framundan.

Sambandið milli sprungnanna og lindanna hefur verið rakið hér að framan. Skal nú vikið að öðru atriði, sem hingað til hefur ekki verið tekið til meðferðar, en það er sambandið milli sprungugosa og tektoniskra sprungna.

Fjallsgjá

Fjallsgjá – misgengi.

Hér að framan var þess lauslega getið að misgengissprunga sú, er liggur um Búrfell — Helgadal — Kaldárbotna og Undirhlíðar, hafi einnig gosið hrauni. Á þessu misgengi eru stór gígalirúgöld beint vestur af Helgafell svo sem 1—1,5 km suður frá vatnsbólinu, og hafa þaðan runnið hraun austur og norður milli Helgafells og norðurenda Gvendarselshæðar. Smá hraunspýja hefur og fallið vestur sunnan við Kaldárbotna og staðnæmst örskammt austan við Kaldársel, og önnur örmjó hefur fallið vestur af hæðinni á móts við suðurenda Helgafells. Eftir Undirhlíðum endilöngum liggur sigdalur og í honum hefur gosið og smáhraun runnið þar út úr sprungunni vestan megin dalsins, án þess að til gígmyndana hafi komið. Þetta er sama misgengi og liggur um Kaldárbotna og Helgadal eins og áður er getið.

Sprungur

FERLIRsfélagar á ferð um sprungusvæði Reykjanesskagans.

Það er alvanalegt á Reykjanesskaga að tektoniskar sprungur hafi gosið hrauni og sýnir það hin nánu tengsl milli sprungnanna og eldgosa á þessu svæði öllu. Sem dæmi má nefna Stampa á Reykjanesi, gígaröð þá, sem Ögmundarhraun hefur komið úr, gígaraðir við Sveifluháls, Vesturháls, Trölladyngju og víðar. Því skal hér slegið föstu að alls engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu lokið á Reykjanesskaga. Sömuleiðir skal á það bent, að gos í námunda við það svœði, sem hér hefur verið umrœtt, geta haft alvarleg áhrif á vatnsból í námunda við gosstaðinn. Að ógleymdum öðrum hættum beinum og óbeinum.

Nútímahraun

Nútímahraun á höfuðborgarsvæðinu.

Lítið er vitað um gostíðni á Reykjanesskaga, og rannsóknir varðandi það spursmál eru skammt á veg komnar. Það er þó ljóst að mikill fjöldi hrauna hefur komið frá eldstöðvum milli Brennisteinsfjalla og Bláfjalla eftir að ísa leysti af því svæði, en frá þeim tíma má ætla að liðin séu 10 000-15 000 ár. Leitahraunið (Elliðaárhraunið) er samkvæmt CH aldursákvörðun 5300 ± 340 ára gamalt. Nú eru hins vegar Hólmshraunin öll, a. m. k. 5 að tölu, sannanlega yngri. Þetta þýðir að jafnaði a. m. k. eitt gos á 1000 árum, en engar sagnir eru til um gos á þessu svæði, svo ég viti. Lausleg athugun á svæðinu frá Húsafelli að Selfjalli virðist benda til þess að á þeirri leið séu nokkuð á annan tug hrauna, sem öll hafa runnið eftir ísöld. Eru þá Hólmshraunin öll og Búrfellshraun (Hafnarfjarðarhraun) ekki talin með.
Miklar líkur eru til þess að gos á þessu svæði mundu hafa áhrif á efnasamsetningu grunnvatnsins. Á það skal bent í þessu sambandi að í Japan hefur verið hægt að segja fyrir eldgos út frá rannsóknum í efnasamsetningu grunnvatnsins allt að 9 mánuðum áður en gosið hófst. Af þessu leiðir að ærin ástæða er til að fylgjast vel með efnasamsetningu neyzluvatns á þessu svæði. Þetta gildir fyrst og fremst um vatnsból á sunnanverðu svæðinu, Kaldárbotna og Gvendarbrunna. Bullaugu eru hvað þetta snertir bezt sett þessara staða.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.09.1965, Bergsprungur og misgengi í nágrenni Reykjavíkur, Jón Jónsson, bls. 75-95.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. ISOR