Kleifarvatn

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.

Reykjanesskagi

Kleifarvatn.

Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur um. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – landhelgun á Litlu-Grindavík, lítilli eyju í vatninu.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Festisfjall

Langflestar hæðir og ásar ofan Grindavíkur hafa fellsnefnur, en þó eru þar til einstök fjöll. Festarfjall (Festisfjall) er brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er burt. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu.

Festarfjall-27

Áður hafi FERLIR farið um Skálasand frá Lambastapa yfir á Hraunssand við Hraunsvík að Hrólfsvík, en nú var leiðin tilbakagengin með það að markmiði að skoða nánar hinar fjölbreytilegu og margvíslegu jarðmyndanir í þessum þverskornu merkilegheitum, sem Festarfjallið og Lyngfellið eru. Einungis er hægt að ganga fjörunar undir fellunum á lágfjöru, en gæta þarf vel að brimlagi og flóðahættu því auðvelt er að lokast inni á Skálasandi ef og þegar aðstæður eru óhagstæðar. Þá þarf að varast að ganga og nálægt berginu vegna stöðugs grjóthruns.
Á jarðfræðikorti ÍSOR er Festarfjallið talið einn af athyglisverðari stöðum á Reykjanesskaganum: „Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti.
Festarfjall-28Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur.
Festarfjall-29Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.“
Í verndunartillögum frá 2002 segir m.a.: „Skammt austan við Hraunsvík er Festarfjall þar sem sjávarrof hefur sorfið helminginn af móbergsfjalli. Í Festarfjalli og bergstálinu vestan þess eru merkilegar opnur. Í Hraunsvík er hraunlag með mesta magni hnyðlinga sem þekkist hérlendis. Jökulberg á milli móbergs (með hnyðlingum) og hrauns. Greinilegar jökulrákir á móberginu. Hnullungabergslag í móbergi, hraunstraumur (gangur) hefur troðið sér þar inn á litlu dýpi. Festin í Festarfjalli er berggangur sem gengur upp í gegnum móbergið og tengist hraunlagi ofar. Litlu vestar eru áberandi gaspípur í berginu. Skjólgóð sandströnd er neðan Festarfjalls og er talsvert varp í björgunum og í grastorfum (lundi, rita, fýll). Ógnir: Vegagerð og námavinnsla.
Landnotkun: Einhver efnistaka er ofan vegar við Hraunsvík og við Festarfjall. Tillaga er um verndarsvæði í Hraunsvík.“

Í þjóðsögu er fjallsins getið. „Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag. 

Í þessari ferð FERLIRs var ætlunin m.a. að hlusta eftir rödd úr fjallinu. Þegar staldrað var við í sjávarhelli rétt austan við syðsta bergganginn, sem skagar út úr fjallinu, mátti heyra eftirfarandi, endurtekið nokkrum sinnum með lágum og dimmum rómi:

Í Festarfjalli oss býr
á Hraunsbónda hug snýr
heitir ey[eið] björg.
Verði orð fleiri
bara einu of mörg
þætti vér miður
ef nefnds dóttir heyri
fellur þá festin niður.

Festarfjall-30Jón Trausti skrifaði eftirfarandi um Festarfjall á leið hans frá Grindavík til Krýsuvíkur: „Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur. Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum. Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.“
Frábært veður. „Þegar veðrið er gott í Grindavík er það hvergi betra“ [Guðbergur Bergsson].
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Rauðskinna I 45.
-isor.is
-Verndun jarðminja á Íslandi – Tillögur vegna náttúruverndaráætlunar 2002, Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson. Unnið af Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins, Reykjavík, nóvember 2002.
-Lesbók Morgunblaðsins, Jón Trausti, 6. nóv. 1949, bls. 508.

Grindavík

Festarfjall og Hraunssandur.

Lónakotssel

Hér að framan hefur verið reynt að geta þeirra helstu upplýsinga, sem tiltækar eru um sel á Reykjanesi.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Orra Vésteinssyni, kennara, er sérstaklega þökkuð aðstoð við undirbúning samantektarinnar. – ÓSÁ

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hraun

Gengið var af stað fimm dögum fyrir umsnúning, hvort sem um var að ræða stystan dag, lengstu nótt eða umbirtingu nýrrar vefsíðu (www.ferlir.is). Veðrið var frábært þennan laugardagsmorgun. Sólarupprásin gyllti stilltan heiðbláan Grindavíkursjóinn sunnan Hrauns. Lognið var algert. Snær þakti jörð svo varla var auðan blett að sjá.

Vatnsheiði

Einungis gamlir garðar, tóftir og önnur mannanna verk stóðu upp úr – og reyndu að njóta augnabliksins. Kristallarnir er þöktu jörðina glitruðu í sólarljósinu líkt og  óteljandi demantar. Vestar reyndi dimmur kólgubakki að gera sig breiðan.
Ætlunin var að ganga austur með ströndinni, skoða Gamlabrunn og 15. aldar kapellu ofan Hrólfsvíkur. Jafnframt var ætlunin að nota sjónvitin til nýrra uppgötvanna, feta sporið upp Skarðið með Berjageira ofan Hálsgeira milli Húsafells og Fiskidalsfjalls og upp að gígopum Vatnsheiðar þar efra, dyngnanna þrigga ofan Hópsheiðar við Grindavík. Vatnsstæði það sem heiðin dregur nafn sitt af suðvestan undir þeim stærsta. Úr honum liggur greinileg hraunrás í sveiga til suðurs. Nokkur gróin jarðföll eru í rásinni. Eitt þeirra, það næsta Húsafelli, hefur vakið sérstaka forvitni FERLIRs. Ætlunin var að skoða þar niðurí. Einnig að komast niður í K-9, op á neðstu dyngjuhæðinni. Þá var og ætlunin að huga að hlöðnum refagildrum, gamalli leið milli Grindavíkurbæjanna og Ísólfsskála með ofanverðri Hrafnshlíð um Svartakrók og Stórusteina sem og gamalli leið milli Hrauns og Þórkötlustaða.
Vættur Efri-hellir, hinn þjóðsagnakenndi „Tyrkjahellir“, er hluti Vatnsheiðardyngnanna. Krosshlaðin refagildra kúrir í Slokahrauni sem og ýmsar aðrar minjar er geyma þjóðsögulega leyndardóma.
Ætlunin var að taka hús á Sigga (Guðjóni) Gísla á Hrauni (fæddur 1923), en hann var ekki heima. Þegar staðið er við Hraunshúsið eins og það er í dag má vel sjá hvar gamla gatan lá vestur eftir heimatúninu í átt að Hliðinu þar sem vegurinn lá yfir að Þórkötlustaðarhverfi. Enn eldri stígur (Eyrargata) lá til suðvesturs um hlið á hlöðnum garðinum og yfir Slokahraunið, framhjá Hraunkoti og niður í sendna fjöruna við Klöpp og Buðlungu. Enn mótar fyrir henni í hrauninu, norðan margra herðslugarða og -byrgja.
Heimabrunnurinn er neðan kálgarðs, en gamli bæjarhóllinn er skammt suðaustan við núverandi hús. Þegar Siggi og fleiri voru að jafna fyrir viðbyggingu við fjárhúsin kom m.a. upp stoðsteinn, sem nú er norðvestan við íbúðarhúsið („Litla-Hraun“). Af ummerkjum á steinum að dæma virðist húsið hafa verið allmyndarlegt. Steinninn hefur að öllum líkindum verið undir framgaflinum, en heimildir eru um kirkju á Hrauni á 17. öld.
NíanÍ yfirliti yfir sögu Grindavíkur samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703. Í upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703. Áttrært skip Skálholtstóls á Hrauni fórst 8. mars 1700, en þrjú skip frá Grindavík fórust með áhöfn þann dag, en það fjórða brotnaði. Skiptapar voru og á Hrauni árin 1632 og 1641. Um miðja 19. öld var heimræði frá Hrauni aflagt vegna erfiðra lendingarskilyrða og var eftir það róið úr Þorkötlustaðanefi.
Vatnsöflun var erfið í Hrauni og sökum áfoks spilltust tún og hagar. Ekki var unnt að hafa nokkra skepnu heima við á sumrum og var farið langar leiðir með hesta á beit í dagslok, enda þótt nota ætti þá næsta dag. Vetrarbeit í fjöru var léleg á vetrum vegna þess hve há fjaran er og lítið útgrynni. Reki var allgóður á fjörum Hrauns og þar var selveiði nokkur. Í Hraunsvík voru góð skötu- og ýsumið. Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9.

Tyrkjahellir

Skóg til kolagerðar brúkaði jörðin 1703 í almenningum sem aðrar jarðir í sveitinni. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmaskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti. Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík. Um eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum. Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.” Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði. Sigurður Gíslason býr nú (2006) á allri jörðinni og er þar annars vegar stundaður sauðfjárbúskapur og hins vegar námavinnsla jarðefna. Jafnframt eru önnur hlunnindi jarðarinnar nytjuð.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Skammt austan við gamla bæjarhólinn, sem nú hýsir fjárhúsin, eru gömu fjárhús, líklega frá því um aldarmótin 1900. Vörslugarður heimatúnanna sést enn vel. Honum var lengi haldið við, enda fékk bóndinn á Hrauni „Dannebrogsorðu“ fyrir hleðslu hans og fleiri garða við hraun fyrrum á 18. öld. Í þá tíð vildi Danakóngur hvetja þegna sína, ekki síst á Íslandi, til uppbyggingar og framþróunar á ýmsum sviðum – stundum með góðum árangri. Garðarnir standa að mestu enn – og minningin lifir. Sambærilegir garðar í Járngerðarstaðarhverfi og í Staðarhverfi fóru í ferðalag á fjórða áratug 20 aldar. Grjótinu úr þeim var kastað upp á vörubílspalla, enda lá það vel við – snyrtilega upp raðað og beið þess að menn kæmu og hirtu það. Grjótinu var síðan sturtað undir bryggjurnar, sem þá voru í byggingu og urðu grundvöllur framþróunar byggðarlagsins. Það má því segja að grjótið hafi gengið í endurnýjun lífdaga, enn og aftur með tilhlýðilegum árangri – eða a.m.k. tilgangi.
Skammt austan fjárhústóftanna eru leifar af gamalli refagildru. Enn austar er Gamlibrunnur á Hraunssandi. Hraunssandur virðist lítt áhugaverður, nema þegar krían er þar á varptímanum og sækir með harðræði að forvitnum vegfarendum. Hraunsmenn hafa löngum staðið vörð um kríuvarpið og stuggað eggglöðum frá. Deilur við nágrannana, sem vildu nýta varpið, er flestum löngu gleymdar. Þó lifa enn nokkrar smellnar sögur, sem síðar verða kannski birtar – í bók.
BerjarimiÍ Gamlabrunn sóttu m.a. Þórkötlustaðabúar vatn fyrrum. Vatnið í honum þótti gott. Í dag er einungis lítið op efst á brunninum, en ef höfðinu er stungið niður um það má sjá formlegar hringlaga hleðslur. Dýptin er nú um 80 cm, en talsverður sandur hefur sest í botninn.
Milli brunnsins og kapellunnar ofan við Kapellulág (ofan Hrólfsvíkur) er nokkuð stór þúst, um 60 cm há. Hún er gróin og sker sig nokkuð úr umhverfinu. Strandlínan er nú næstum komin að henni, en ekki er ólíklegt að undir bungunni kunni að leynast mannvistarleifar. Utar gæti fyrrum hafa verið byggingar, en sjórinn nú tekið til sín. Kapellan sem og brunnurinn bendir til nálægðar við meiri byggð fyrrum.
Einhverra hluta vegna var kapellutóftin tekin sem dys sú, sem enn sést ofan Hrauns í byrjun 20. aldar og komst þannig á skráningarspjöld sögunnar.
„Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
VatnsstæðiðHann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.“
Kristján Eldjárn gróf í “dysina” á Hraunssandi 1958. Þar reyndist vera kapella frá 14. eða 15. öld. Hann hafði mikinn áhuga á fyrrnefndum manngerðum hól vestan við Hraun, en gafst ekki tími til frekari rannsókna.
Kapellunni hefur lítt sómi verið sýndur í seinni tíð. Ryðgað járndrasl er umhverfis tóftina, sem var orpin sandi eftir uppgröftinn.
Fiskidalsfjall (202 m.y.s.) er eitt fárra „fjalla“ á Reykjanesskaganum, önnur fjöll eru fell. Vestan þess er Húsafell (172 m.y.s.). Milli þeirra er Berjageiri. Haldið var upp með honum. Neðar var ein af fjarskiptastöðvum NATO (Bandaríkjamanna) allt fram á sjöunda áratug 20. aldar. Leifar hennar sjást enn mitt upp í geiranum, grunnar tveggja húsa og fæstur og festingar mastranna á víð og dreif. Nú eru þana sandnámur Hraunsmanna.
VatnsstæðiðEfst í geiranum eru minjar eftir vatnsþró varnarliðsmannanna í loftskeytastöðinni. Borhola hefur verið þar og vatni dælt upp. Síðan hefur það verið sjálfrennandi um lögn niður geirann. Vatnið þótti gott og vildu sumir Þórkötlustaðabúar að fá að nýta holuna eftir að herinn hvarf á braut.
Loftur Jónsson segir m.a. um þetta svæði: „Alla mína vitneskju  um örnefni í Hraunslandi hef ég frá Magnúsi Hafliðasyni, þeim fróma manni.
Berjageiri er næstum þríhyrnd gróðurtorfa utan í hlíðinni á Fiskidalsfjalli, þar sem það snýr að Húsafjalli, og nær aðeins niður í rætur fjallsins. Rýmið á milli fjallanna heitir SKARÐ. Þegar menn ferðuðust þarna um gengu þeir ýmist niður Skarð eða upp Skarð eftir því í hvora átt þeir fóru.
Bandaríkjamenn (Nato-Varnarmáladeild) tóku eignarnámi einhverja hektara lands neðan við Skarð á árunum milli 1950 og 1960.  Þarna á melunum var ekki stíngandi strá og allra síst krækiber, í mesta lagi óx þarna geldingahnappur. Það var sáð þarna grasfræi á milli vélaskemmanna þannig að í dag gætu menn haldið að þarna hefðu þeir tillt niður fæti á gróðurlendi.
Þar sem húsin voru byggð var eiginlega efsti hluti Hraunssands.  Þar sem dæluhúsið stóð þá eru menn komnir í Vatnsheiði.
Á unglingsárum mínum og síðar átti ég mörg spor um þessar slóðir og landið þarna er mér í fersku minni.“
Hraunsmenn hafa verið að reyna að nýta sér efni bakatil í fjöllunum (fellunum). Stórusteinar voru þar, þ.e. stórt grjót er hrunið hafði úr efri brúnum, en þeir voru færðir í nýjan varnargarð í Járngerðarstaðahverfi. Það eru því engir „Stórusteinar“ til lengur, en örnefnið lifir með varnargarðinum. Hann mætti því að ósekju heita „Stórusteinagarður“.
Skammt norðar er stórt jarðfall. Um er að ræða hluta af hrauntröðinni úr miðgíg Vatnsheiðardyngjunnar. Þrátt fyrir leit fannst engin leið inn í rás úr jarðfallinu.
Skoðað var hið hrikalega gígop efstu dyngjunnar á Vatnsheiði sem og vatnsstæðið, sem heiðin ber nafn sitt af suðaustan undir því.

Minjar

Ætlunin var að fara niður í K-9. Búið var að forfæra 12 m langan stiga upp að opinu, en þegar til átti að taka reyndist dýptin vera rétt rúmlega það. Það var því ákveðið, af öryggisástæðum, að bíða með niðurför. Samkvæmt upplýsingum afkomanda Hraunsbóndans á þarna niðri að vera um 300 metra löng göng, en Hellarannsóknarfélagsmenn hafa talið þau mun syttri.
K-9 var nefndur svo eftir að jarðýtu, Catepilar 9, var ekið um Vatnsheiðina er jörðin opnaðist skyndilega undir henni á þessum stað. Ýtustjóranum tókst að koma sér og farartækinu á jarðfastan stað, en litlu mátti muna að illa færi. Dýptin er, sem fyrr sagði, um 12 metrar.

K-9

K-9.

Þá var stefnan tekin á „Tyrkjahellinn“ eða Efri-helli á hæðarbrúninni vestan Húsafells. Á leiðinni voru tvær vörður. Þær munu vera við gömlu efri leiðina, sem fyrr var minnst á, milli Skála og Járngerðarstaða. Þá var farið ofan við Hrafnshlíð, með hæðunum vestanverðum og síðan af Vatnsheiðinni niður á Hópsheiði þar sem alfararvegur lá heim að bæjum.
KapellanUm Efri-helli er sagt að í hann hafi Grindvíkingar ætlað að fljýja kæmi Tyrkir aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin suðvestan Húsafjalls.
Tvö op eru á hellinum. Það vestara er auðveldara umleikis. Þar fyrir innan er rúmgóður hellir. Nú er mold í botni sem er afrakstur moldroks af heiðinni sem og vatnsfærslu niður á við.
Rýmið gefur vel tilefni til að hýsa álitlegan fjölda.
Í aðdraganda jólanna las einn þátttakendanna, Gugga Erlings, jólasögu frá fyrri hluta fyrri aldar („Stórkostlegastur allra“, Þóra Stefánsdóttir þýddi, birtist í 50. tbl. Vikunnar 18. desember 2001). Efnisinnihaldið var vel við hæfi en þar sagði frá ungu grenitré er vaxið hafði við hliðina á gömlu og óálitlegu lauftré. Litla grenitréð, sem átti framtíðina fyrir sér, vildi ekki að gamla lauftréð, sem hafði gefið öðrum laufin af sér til ýmissa nota, skyggði á það. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir allt – að lokum, fannst fólki mikið til fórnlundar gamla trésins koma. Líf er líf – hvers stofa sem það er.

Gamli brunnur

Gengið var niður af heiðinni inn á Slokahraun, sem rann úr Moshól undir Hagafelli á sínum tíma, í mjórri ræmu niður heiðina og myndaði nesið milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis; Sloka.  Niðurlútur hraunkarl fylgdist vel með mannaferðum. Í hrauninu er krosshlaðin refagildra, sem nú var barin augum. Inngangarnir hafa verið fjórir. Líklega er þarna um að ræða þá tegund af gildrum er trégrindur þjónuðu síðar er yrðlingar voru teknir úr grenjum og refaskyttan reyndi með ámótlegu væli þeirra að laða foreldrana að til hirðingar.
Á heiðinni sem og í hrauninu mátti víða sjá fótspor eftir ref í snjónum.
Eldri refagildra er neðar í Sandleyni. Loks voru skoðaðar gamlar götur vestan heimatúnsgarða hrauns, s.s. Eyrargatan og fyrsti akvegurinn yfir að Þórkötlustöðum.
Dysin sú, sem minnst var á í tengslum við kapelluna á Hraunssandi, er ofan túngarðs. Sigurður Gíslasyni, bóndi á Hrauni, sagði FERLIR á sínum tíma frá þessum á grónum hraunhólnum norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum. Hann sagði aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem að framan greinir.
Ekki er þó loku fyrir það skotið að hleðslurnar á hólnum kunni að hafa þjónað þeim tilgangi að vera mið inn í Hraunsvörina, sem er þarna neðan við. Líklega hefur sundvarða verið þar á millum, sem nú er horfin, eða varða á þessum hól hafi tekið mið í eitthvert kennileitið efra, s.s. Þorbjörn.
Frábært veður, sem fyrr sagði. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/04.pdf
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.
-„Stórkostlegastur allra“, Þóra Stefánsdóttir þýddi, birtist í 50. tbl. Vikunnar 18.desember 2001.

Vatnsheiðarvatnsstæði

Frykkjarsteinn

Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurgatan gamla.

Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkrar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn að vetrarlagi.

Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda.
DrykkjarsteinnÁtti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan. 

Ljóð hefur verið ort um Drykkjarsteininn í Drykkjarsteinsdal. Það er eftir Símon Dalaskáld og er svona:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að hann hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót.“
Þegar FERLIR var á ferð um dalinn s.l. sumar hafði þornað í báðum skálum hans, enda óvenjumikil þurr- og og hlýviðri það sumarið.

-Sagan er úr Rauðskinnu, bls. 120, II. bindi.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Kastið

Skoðuð hafa verið nokkur flugvélaflök á Reykjanesskaganum, s.s. við Stórkonugjá, í Breiðagerðisslakka, Kistufelli í Brennisteinsfjöllum, Langahrygg og Kastinu í Fagradalsfjalli, við Húsatóttir, í Stapatindum í Sveifluhálsi og í Kerlingargili í Lönguhlíðum. Í eftirfylgjandi yfirliti verður getið um helstu upplýsingar um einstök flugvélaflök jafnóðum og þær berast. Eftirfarandi upplýsingar eru teknar út úr einstökum fyrirliggjandi FERLIRslýsingum. Sá, sem hefur varið mestum tíma í vettvangsskoðanir, rannsóknir og skráningar á einstökum flugslysum er þó Eggert Norðahl.

Núpshlíðaháls
Brak úr Hudson-vélinni vestanvið NúpshlíðarhálsÞegar gengið var um Núpshlíðarháls, var gengið fram á brak úr flugvél í hálsinum ofan við Hraunssel. Í fyrstu var ekki vitað úr hvaða vél brakið er eða hvenær hún fórst á þessum stað. Nú hefur komið í ljós að um var að ræða Hudson-vél, sömu tegundar og fórst í Brennisteinsfjöllum (Kistufelli). Hún tilheyrði 269. flugsveit Breta. Slysið er, skv. slysaskýrslunni dags. 10.06.1943, staðsett í Driffelli. Flugstjóri var J. Coles, en auk hans voru í vélinni J.J. Hill, L. Franklin, J.E. Robbins og F.G. Crofts. Þeir fórust allir. Vélin var í eftirlitsflugi er hún fórst. Sjá má brak úr vélinni á Núpshlíðarhálsi skammt ofan við Hraunssel á víð og dreif í mosahrauninu milli hlíðarinnar og Stórahrúts.

Fagradalsfjall – Langihryggur
Slysavettvangur í LangahryggFriðþór Eydal sagði að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 12 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02.11.1941. Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni „M Samtöl I“ (AB Reykjavík 1977) er þeir gengu á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna eins og venjan var haustið 1941 áður en Bandaríkin voru komin opinberlega í styrjöldina. Ekki var farið að jarðsetja Ameríkana í Fossvogskirkjugarði fyrr en í janúar 1942.

Langihryggur

Brak í Langahrygg.

Talsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gili, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 146:
„Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið „74-P-8“ hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafsit í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.

Langihryggur

Langihryggur – slysavettvangur.

Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir „74-P-3“ og „74-P-9“ lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10.

Langihryggur

Langihryggur – slysavettvangur.

Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í vegf yrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.“
Magnús Hafliðason frá Hrauni lýsti aðkomunni á slysstað í viðtali við MBL 1977.

Fagradalsfjall – Langhóll
Slysstaður í LanghólFlugvélin, sem norðaustan við Langhól í Fagradalsfjalli er af breskum Sunderland flugbát. Áhöfnin komst lífs frá slysinu.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 153:

„Aðfararnótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 „KG-G“ úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík.

Langhóll

Brak í Langhól.

Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.“
Flakið af flugvélinni var lengi vel í hlíðinni, m.a. skyttuturninn. Jón Guðmundsson á Skála og Hafliði á Hrauni lýsa aðkomu þeirra á vettvang annars staðar á vefsíðunni.

Fagradalsfjall – Kastið
Frá slysstað í KastinuÍ hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943. Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni.

Hernám

George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja
Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson
frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld
frá Ríkisútvarpinu.

Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Brennisteinsfjöll – Kistufell
Hreyfill í KistufelliÞá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðvesturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.

Sveifluháls – Hulstur

Huldur

Brak úr flugvélinni.

Um var að ræða Canso, kanadískan flugbát (Canadian-Vickers Canso A). Brak úr vélinni sést enn efst við gróðurröndina, að mestu komið undir mosa.
Kanadískur flugbátur, svonefndur „Canso“ (systur Catalinaflugbátsins), fórst í Stapatindum á Sveifluhálsi þann 19. desember 1944 á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Átta manna áhöfn flugvélarinnar beið bana þarna á hálsinum þennan örlagaríka dag.
Flugvélin var úr 162. flugsveit Hins konungslega kanadíska flughers, RCAF. Einkennisnúmer hennar var 11061 „L“ Vélin var að koma úr eftirlitsflugi og áhöfnin var að búa sig undir lendingu á Reykjavíkurflugvelli þegar slysið varð. Talið var að flugvélin hafi lent í niðurstreymi við Fjallgarðinn.

Hulstur

Flakið fannst dreift yfir snarbratta fjallshlíðina. Hafði vélin rekist utan í fjallið um það bil 80 metra frá fjallsbrúninni. Höggið var svo mikið að djúpsprengjurnar og eldsneytið hafði sprungið og brunnið og áhöfnin látist samstundis. Leitarflokkur fann lík áhafnarinnar, sem voru jarðsett með hernaðarlegri viðhöfn í Fossvogskirkju-garði.
FERLIR gerði leit að leifum vélarinnar í tindunum ofan við svonefnt Hulstur skammt sunnan við Huldur. Upp úr því liggur bjúglaga dalur (vinstra megin) svo til upp á toppa. Ofarlega (nær efst í gróðurþekjunni) í dalnum fundust leifar af vélinni. Meginbrakið er þó efst í hálsinum skammt sunnar, ofarlega í skriðu, sem þar er.

Grindavík – Húsatóttir

Brak við Húsatóftir

Ákveðið að reyna nú að finna þýsku orustuvélina, sem hrapaði í byrjun seinni heimstyrjaldar yfir Húsatóttum og Helgi Gamalíelsson hafði sagt FERLIR frá fyrir u.þ.b. ári síðan.
Að sögn Helga átti þarna að vera byssa úr vélinni, auk braks. Flugmaðurinn hefði stokkið út í fallhlíf, en faðir hans, Gamalías, hefði læðst að flugmanninum þar sem hann sat á hraunhól og reykti eftir niðurkomuna og náði að handsama hann. Flugmaðurinn hefði verið vopnaður skammbyssu með beinskefti og hefði hún verið til á Stað lengi eftir það. Fólkið í Staðarhverfi sá aumur á Þjóðverjanum og kom honum fyrir í úthýsi við Móa. Þegar spurðist út um veru hans þar hefði breski herinn komið og sótt hann. Helgi hafi síðar sjálfur dregið flugvélaskrokkinn heim á hlað.

Húsatóftir

Húsatóftir – brak.

Við leit í hraunkantinum, sem Helgi hafði bent á á sínum tíma, fannst staðurinn þar sem flugvélin hafði komið niður. Hún hafði greinilega lent efst í kantinum og brunnið þar. Talsvert brak er enn úr vélinni á staðnum og í nágrenni hans. Óvirk byssukúla lá þar hjá, auk hluta úr hjólastelli og skrokk. Byssan var þó hvergi sjáanleg. Hið undarlega var þó að í stað millimetramáls virtust tommumál vera á róm og öðru skrúfkyns, er benti til þess að brakið væri úr amerískri vél. Þarf að skoða betur.
Síðar var haldið í hraunið skammt vestan við Húsatóttir. Grafið var í haug, sem þarna er, auk þess sem skoðað var í sprunguna ofan við hauginn, uppi á hraunbrúninni. Þar voru bæði kúlur og skothylki. Við athugun á staðnum kom í ljós að skrúfur og rær voru með tommumáli. Þar með gat vélin ekki hafa verið þýsk.

Húsatóftir

Slysstaðurinn.

Við nánari eftirgrennslan er þarna að öllum líkindum um flak amerískrar P-47 flugvélar er hrapaði til jarðar, skv. dagbók hersins, um eina mílu vestur af Grindavík þann 13. júní 1944 kl. 08:55. Flugmaðurinn, annar liðþjálfi Thomas J. Latham, komst út í fallhlíf og komst lifandi frá óhappinu. Hluti af flakinu hefur verið hulið með jarðvegi, en annað er vel sýnilegt.
Sigurður Viðarson frá Grindavík (býr nú í Hafnarfirði) hafði samband vegna flugvélarinnar.
„Ég rak augun í lýsingu á vefsíðunni sem þið funduð flugvélaflakið af þýsku vélinni. Faðir minn Viðar Valdimarsson rafvirki í Grindavík fór fyrir um 35 árum síðan með Helga Hjartarsyni fyrrum rafveitustjóra að þessu flaki og tók mynd af byssunum sem stungist höfðu í bergið þegar hún fórst.

Húsatóftir

Brak úr vélinni slidesmynd.

Ég mundi alltaf svo vel eftir þessari mynd hjá pabba og fann hana í slidesmyndasafninu hans fyrir 3 árum síðan og ákvað í framhaldi af því að reyna að finna flakið, en pabbi mundi nú ekki nákvæmlega hvar þetta var enda langt um liðið og hann var þá tiltölulega nýkominn til Grindavíkur þegar þetta var og áttaði sig ekki almennilega á hvar þetta var. Ég ræddi við Didda rafvirkja og vissi hann hvar það var og benti mér á, fann ég flakið en engar byssur sá ég. Ég ræddi betur við Didda og hann sagði mér að þær væru alveg við flakið þannig að ég fór aftur og fínkembdi svæðið en fann þær því miður ekki. Annað hvort hafa þær verið fjarlægðar af einhverjum eða lent undir grjótruðningi, en hruflað hefur töluvert við svæðinu rétt við flakið vegna fiskeldisins. Diddi man vel eftir þeim og sagði að þær hefðu verið svo kyrfilega fastar í berginu að þær yrðu ekki fjarlægðar nema með heilmikilli aðgerð. En faðir minn á allavegna mynd af byssunum.“

Breiðagerðisslakki
Áhafnameðlimur sem komst af í BreiðagerðisslakkaÞýska flugvélin í Breiðagerðisslakka sást nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. Þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af liðsmönnum landhersins. Þeir voru tveir á ferð til Hafnarfjarðar í jeppa þegar hann bræðurnir Hafsteinn og Þórir frá Ásláksstöðum, sem gengu fram á hann neðan við Arnarbæli, komu með hann niður á veginn þar sem mætast elsti Keflavíkurvegurinn, lagður 1912, og gamli
Keflavíkurvegurinn, lagður 1930, sem beygir þar niður með ströndinni fyrir ofan sumarhúsabyggðina í Knarrarnesi, þar sem heita Auðnar. Báðir hinir bandarísku flugmenn voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið.

Eldvarpahraun

Eldvörp

Eldvörp – á slysstað.

Í sléttu Eldvarpahrauni skammt norðan Sundhnúkahraun austan Eldvarpa, í sléttu mosahrauninu, er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina. Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Heyrst hafði af því að flugvél, svonefnt „Fljúgandi virkið“, hafi nauðlent ofan við Húsatóftir á fimmta áratugnum. Vélin hafi skemmst lítið og áhöfnin sloppið heil á húfi.

Eldvörp

Brak á slysstað.

Að sögn Friðþór Eydals er líklegt að þarna hafi verið um B-17 vél að ræða, fjögurra hreyfla, sem nauðlenti ofan við Tóftir í apríl 1943 á leið til Keflavíkurflugvallar, en hann hafði þá nýlega verið opnaður fyrir flugumferð. Vélin var nokkuð heil eftir óhappið, en var síðan bútuð niður og flutt á brott, en enn má sjá þarna hluti úr henni, sem fyrr sagði. Brak úr P-47 flugvél er hrapaði vestan Húsatófta, sést einnig enn ef grannt er skoðað.
Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni.

Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
Kringlótta brotið á myndinni er úr hliðinnni á kúlulaga byssuturni í botni vélarinnar rétt aftan við vænginn er skyttan, sem sat milli tveggja 50 cal. Browning vélbyssa sem hann miðaði með því að snúa kúlunni. Kúluna mátti draga upp svo botninn næmi við botn vélarinnar þegar þurfti ekki að sitja í honum eða í flugtaki og lendingu. Slíkur byssuturn var yfirleitt ekki í öðrum vélum sem leið áttu hér um.“
Myndin af vettvangi í apríl 1943 staðfestir að hér er um sömu vél að ræða – við svipaðar aðstæður og þegar brakið af henni fannst í mars 2006.

Orrustuhólshraun
Brak í Orrustuhólshrauni

C-64 herflugvél fórst þann 22. okt. 1944 um kl. 15:00 á Skálafellssvæðinu. Með herflugvélinni fórust fimm manns; fjórir farþegar og flugmaðurinn, John. J. Custy, fyrsti liðþjálfi 33. bardagasveitar ameríska hersins hér á landi. aðrir voru Robert R. Richt, Anthony P. Colombo, Leonard T. Damerval og Floyd C. Van Orden, allt hermenn. Þegar vélin brotlenti kviknaði í brakinu skv. upplýsingum úr slysaskráningarskýrslu um atvikið.
Vísbending kom frá Karli Hjartarsyni um að flakið af flugvélinni væri í gjótu í Orrustuhólshrauni. Samkvæmt henni átti að leggja norðvestast í gamalli malarnámu milli Skíðaskálans og annarrar skammt austar, en úr henni er hægt að aka upp á Ölkelduháls. Þar þangað væri komið átti að ganga með stefnu að bústöðunum undir hlíðum Skarðsmýrarfjalls, þó heldur meira til vesturs við þá.

Hellisheiði

Brak á slysstað í Orrustuhrauni.

Eftir u.þ.b. 300 metra gang birtist flakið í gjótunni. Svo virðist sem vélin hafi stungist þarna niður og brak úr henni lítið dreifst. Greinilegt var að eldur hafði kviknað í brakinu. Sjá mátti m.a. annað hjólastellið og annan hjólbarðann. Merki á hvorutveggja gáfu til kynna að um ameríska vél hefði verið að ræða. Á hvorutveggja voru áletranir. Hjólbarðinn bar „logo“ líku gamla Flugfélagsmerkinu og inni í hjólskálinni var eftirfarandi áletrun: „HAYS Industries inc. – Jackson Mich U.S.A.“.
Orrustuhóll er í u.þ.b. 500 metra fjarlægð í austri. Sagnir eru um af flugvél hafi farist við Orrustuhól. Þá áttu hermenn á Núpafjalli að hafa séð blossa þegar flugvélin skall í jörðina. Þarna mun um sömu flugvél vera að ræða.

Skálafell

Skálafell

Skálafell – slysstaðurinn.

Í Mbl. 9. mars 1948 er sagt frá hvarfi Anson-flugvélar í eigu Loftleiða er var á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þann 7. s.m. Tveimur dögum síðar fannst flakið með dularfullum hætti. Með henni fórust fjórir menn, þ.a. þrír frá Vestmannaeyjum (sjá umfjöllun um fréttina undir Lýsingar í Skrár (Núpafjall – Hverahlíð – Anson)).

Flugvélin mun hafa borið einkennisstafina TF-RVL og var með sjólendingarbúnað.
Samkvæmt lýsingum Björns Indriðasonar á flakið af Ansonvélinni að vera neðst í suðaustanverðu Skálafelli. Þar hefði verið brak fyrir allnokkrum árum.

Skálafell

Slysstaðurinn í Skálafelli.

Sá maður, sem tók þátt í leitinni að flugvélinni á sínum tíma var Smári Karlsson, flugstjóri. Hann sá hvar hún hafði brotlent í Skálafelli. Að sögn Smára kom vélin niður í öxlina er hallar út úr fellinu til austurs – að Hveragerði. Upp af öxlinni tekur toppur Skálafells við og undir henni er rót fellsins. Brakið hafði dreifst víða um hlíðina. Sjálfur hefði hann ekki komið á slysstaðinn, en hann taldi ólíklegt að nokkuð brak úr vélinni væri enn sýnilegt á vettvangi. Loftleiðamenn hefðu eflaust tekið mest af því til rannsókna, auk þess sem mjög veðrasamt er þarna á öxlinni.
Við skoðun á vettvangi, öxl Skálafells að austanverðu, var ekki að sjá nein ummerki eftir slysið (2006).

Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Eggert Norðdahl, Flugsaga Íslands – í stríði og friði – I, Örn og Örlygur 1991, bls. 153 og 246.
-Friðþór Eydal

Við Grindavík

Flugslys norðan við Grindavík.

Vegavinnubúðir

Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1831 er Sandakravegur sýndur milli Voga-Stapa og Slögu ofan við Ísólfsskála.
Kort Björns frá 1831Skv. uppdrættinum ætti vegurinn að hafa legið yfir norðanvert Arnarseturshraun að Litla-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hraunssvæðið norðvestan Litla-Skógfells og rekja Sandakraveginn, sem markaður er í slétta hraunhelluna, frá Skógfellinu að Sandhól og til baka niður frá norðanverðu Litla-Skógfelli að Snorrastaðatjörnum (Vatnsgjám) austan Háabjalla. Gatan hafði áður verið rakin niður (suður) frá Voga-Stapa (skammt austan fyrsta akvegarins til Grindavíkur 1913-1918), um Selbrekkur (Sólbrekkur) og áfram undir aðliggjandi vestlægum grónum brúnum Háabjalla. Þar beygir gatan til austurs að Snorrastaðatjörnum. Spurningin var, sem eftir stóð, ef tekið er mið af uppdrættinum fyrrnefnda, hvort leið hafi legið yfir Arnarseturshraunið norðanvert eður ei.
Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns, en frumgerðin er enn í Kaupmannahöfn. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir. [Taka verður þó mið af nákvæmari staðsetningum síðari tíma og munar stundum töluverðu].
Gata að vegavinnubúðunumBjörn hafði lokið háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann var kennari við latínuskólann á Bessastöðum. Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Gerði við vegavinnubúðirnar

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga á mælingaleiðangrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.
Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af Myndanir í Arnarseturshraunilandinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar. Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd Í Arnarseturshraunistærra kortsins með færri nöfnum. Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.
Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðangrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum.
SandakravegurKortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Flóraður stígur um Stóru-Aragjá

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.
Með framangreint að leiðarljósi var byrjað að leita að mögulegum götum þvert í gegnum norðanvert Arnarseturshraun. Greiðfærasta svæðið var hins vegar sunnan við eðlilega leið millum Voga-Stapa og Litla-Skógfells.
Þegar komið var yfir að Litla-Skógfelli var þegar haldið inn á Sandakraveginn. Millum Skógfellanna er gatan djúpt mörkuð í slétta hraunhelluna.

Byrgi refaskyttu

Sandakravegur er vel markaður í hraunhelluna áleiðis að Litla-Skógfelli. Þá hverfur hún skyndilega í mosann. Vörðurnar, sem nú eru, virðast hafa komið til seinna. Vegurinn virðist hafa legið beint að miðju fellinu, enda þar verið hinn ákjósanlegasti áningarstaður. Síðan hefur hann legið með fellinu til austurs og inn á núverandi Skógfellastíg. Þegar staðið er uppi á Litla-Skógfelli og horft yfir undirlendið til norðurs mátti glögglega sjá hvar „eðlilegasta“ leiðin hefur legið; annars vegar eftir Skógfellastígnum og hins vegar niður með austanverðum hraunkanti Arnarseturshrauns áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Líklega hefur sú leið fremur verið valin af kunnugum. Um er að ræða bæði gróna og slétta leið, ýmist með hraunkanti og/eða gjám. Þessi leið er svolítið styttri en t.a.m. núverandi Skógfellastígur, sem liggur niður í Voga. Sandakravegurinn lá hins vegar ekki niður í Voga, heldur var leið milli Njarðvíkna og Skála. Leiðirnar koma þó aftur saman á öðrum stað, þ.e. skammt austan Snorrastaðatjarna. Þar liggur gata sú, sem fylgt hafði verið niður með hraunkantinum og niður um gjár, inn á Skógfellaveginn og fylgir honum síðan á u.þ.b. 100 metra kafla. Þá eru aftur gatnamót þar sem Sandakravegurinn af Skógfellavegi áleiðis niður að miðjum Snorrastaðatjörnum að austanverðu.
Varða við SandakraveginnÞegar „Skógfellastíg“ var fylgt yfir hraunhaft norðan Litla-Skógfells var komið að stórri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá af stígnum niður með gróinni hraunbrúninni. Auðvelt var að rekja götuna niður sléttu og um gjár. Á brún Stóru-Aragjá (Brandsgjá) var t.a.m. varða. Við hana var gatan flóruð, þrep fyrir þrep, niður gjána. Þaðan lá hún glögglega niður að austanverðum Snorrastaðatjörnum. Niður Litlu-Aragjá var gengið um gróið haft og götunni síðan fylgt áfram áleiðis að tjörnunum. Þegar komið var að austustu tjörninni virtist gatan hafa legið yfir hana (nú var reyndar óvenjumikið vatn í tjörnunum). Handan hennar sást gatan vel. Vestan veið núverandi skátaskála er vestasta tjörnin hvar mjóst. Þar er og grynnst. Gatan liggur að þeim  stað og sást síðan vel handan hans. Þaðan lá gatan að vestanverðum undirlátum Háabjalla, áleiðis að norðanverði Seltjörn og síðan upp heiðina að Voga-Stapa.
Gengnir voru 12 km og margt gaumgæft. Ljóst er að á leiðinni milli Litla-Skógfells og Snorrastaðatjarna eru nokkrar mosagrónar vörður er vísa leiðina. Svo var að sjá að ferðalangar hafi ekki lagt í Arnarseturshraunið með öllum þeim varnöglum er það hafði upp á að bjóða. Þeir virtust hafa farið öruggu leiðina, með gróningum og hraunköntum, þvert á Snorrastaðatjarnir – þar sem þær eru grynnstar. Leiðin í heild hefur verið nokkuð greiðfær og nánast hindrunarlaus. Á leiðinni að tjörnunum var gengið fram á tvö hlaðin byrgi refaskyttna nálægt grenjum.
Af framangreindu má sjá að uppdregin leið Björns Gunnlaugssonar af Sandakravegi millum Slögu og Voga-stapa, hefur verið nokkuð nærri lagi. Ljóst er að á þeim „scala“, sem umræddur uppdráttur er, hefur verið erfitt að teikna leiðina með mikilli nákvæmni, en þegar hún er skoðuð „í heildina litið“ má telja nokkuð víst að leiðin hafi legið um Snorrastaðatjarnir.
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 44 mín.
Heimildir m.a.:
-http://kort.bok.hi.is/kort.php?a=g&cat=8

Snorrastaðatjarnir (Vatnsgjár)

Þorbjarnastaðir

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum þar sem hann kemur út úr Kapelluhrauninu að vestanverðu og liðast í gegnum Selhraunið við tjarnirnar ofan við Straumsvík, neðan Gerðis.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjaarnarstaðir – brunnur.

Fallegar veghleðslur, sem enn hafa fengið að vera óhreyfðar, eru við veginn þar sem hann beygir niður með tjörnunum. Svipaðar hleðslur má einnig sjá með elsta hluta vegarins vestan Rauðamelsnámunnar í landi Óttarstaða. Ætlunin var að fylgja að mestu Alfaraleiðinni áleiðis að Lónakotsmörkum, en skoða þó hinar ýmsu minjar, sem eru beggja vegna hennar á þeiri leið.
Tóftir bæjar og útihúsa eru í Gerði. Þar er nú aðstaða Starfsmannafélags Ísals í uppgerðu húsi. Fallegar hleðslur eru með tjarnarbakkanum að norðvestanverðu. Álverið hefur nýlega keypt megnið af landinu ofan við sjálft sig, bæði af Skógrækt ríkisins og Hafnarfjarðarbæ, sem reyndar verður að telja mikil mistök af hálfu þess síðarnefnda.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Við bakkana má t.d. sjá hlaðin byrgi veiðimanna við tjarnirnar, hlaðin gerði til ullarþvotta, bryggju til slíkra verka og þar má einnig sjá hvernig ferskvatnið streymir undan hrauninu. Sagt er að Kaldá komi þarna upp, en hvað sem því líður er jafnan stöðugt rennsli ferskvatns á þessum stað. Bændur á Þorbjarnarstöðum sóttu vatn í “leysingarnarvatnið” og nýttu það til ýmissa nota. Á bökkum tjarnanna að vestanverðu má sjá tóftir útihúsa og hlaðna garða er mynda gerði.

Vörslugarðurinn um Þorbjarnastaði er tvöfaldur. Líklegt má telja að hann hafi verið hlaðinn vegna nægilegs framboðs af grjóti er verið var að rækta túnin, til að nýta til fjárrekstrar af heimatúninu í réttina norðan við túnin eða til að stækka hið ræktaða svæði með tilkomu girðinga.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir fóru í eyði árið 1930, en þar hafði áður búið Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda og hreppsstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Geysi í Haukadal (Tortu og Helludal), fyrrum Áslákssstöðum á Skeiðum. Ein dóttirin bjó í Urriðakoti.
Börn Þorbjarnastaðahjónanna voru ellefu að tölu. Eitt þeirra var Ingveldur Þorkelsdóttir, húsfreyja í Teigi í Grindavík, mikil öndvegiskona líkt og annað það fólk er hún átti kyn til. Þorbjarnastaðabörnin hlóðu m.a. Þorbjarnastaðaborgina undir Brunntorfum og stendur enn, heil að mestu.

Ofan við Alfaraleiðina, ofan Þorbjarnastaða, er réttin. Hún er nokkuð heilleg. Þorbjarnastaðir notuðu, auk hennar, bæði heimaréttina, norðan vörslugarðsins, sem og vorréttina skammt norðaustar, undir vesturbrún Kapelluhrauns.

Vorrétt

Vorréttin.

Hún stendur enn og er nokkuð heilleg. Þessi rétt er með tveimur dilkum, líklega fyrir sauði, enda að mestu verið notuð sem rúningsrétt. Þá er og líklegt, miðað við mannvirkin, að hún hafi verið notuð sem stekkur og fráfærurétt um tíma. Ofar er nátthagi og styrkir það því þá tilgátu.

Miðmundarholt (-hóll), er skammt vestar. Á því er há og myndarleg varða, eyktarmark. Skammt vestan hennar eru gatnamót Alfaraleiðar og Straumsselsstígs. Sjást mótin vel, en þau eru ómerkt. Ofar má sjá vöru við selsstíginn, en handan hraunhryggs er hlaðið skjól við stíginn. Annars er selsstígurinn vel markaður í hraunið á kafla, einkum þar sem hann liggur um slétt ofanvert Selshraunið og hefur sameinast stígunum áleiðis upp í Gjásel og Fornasel, sem munu hafa verið sel frá Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin – varða.

Nýlega var grafið í tóftir Fornasel og kom í ljós að þar reyndust vera minjar frá því á 14. eða 15. öld (BE).
Fallegar vörður varða Alfaraleiðina í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Leiðin liggur framhjá Gvendarbrunni, vatnsstæði á tiltölulega sléttu hrauni, en norðvestan þess er hlesla fyrir fjárskjóli.
Þá liggur leiðin áfram til vesturs, um krókóttan stíg. Skammt vestan Gvendarbrunnsmá sjá móta fyrir tveimur föllnum vörðum, sem telja má að hafi verið nokkuð stórrará sínum tíma. Líklegt má telja að þær hafi haft ákveðin tilgang fyrrum, sem í dag verður að telja óljósan. Þær eru þó nálægt landamerkjum Óttarstaða og Straums.

Óttarsstaðaborg

Kristrúnarborg / Óttarsstaðaborg.

Skammt austan Smalaskálahæða er varða við Alfaraleiðina. Þar liggur Óttarstaðaselsstígurinn þvert á leiðina. Að þessu sinni var beygt til hægi og stígnum fylgt að Óttarstaðaborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundir Sveinssyni, um 1870. Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Í þeim vestanverðum var nýlega komið fyrir líki konu er myrt var í bæ Ingólfs, hins fyrsta skráða landnámsmanns á voru landi. Það mál upplýstist.
Gengð var til baka um gamla Keflavíkurveginn, framhjá Rauðamelsnámunum og að upphafsstað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Vilborgarkot

Haldið var að Elliðakoti og Vilborgarkoti síðdegis í dimmasta skammdeginu. Norðanáttin blés grimmt á vinstri vangann, en sólin litaði himininn rauðan bæði á bak og fyrir. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði örnefnalýsingu fyrir Elliðakot og Vilborgarkot. Hér verður lögð megináherslan á síðarnefnda kotið.

Elliðakot

Elliðakot.

„Ég fór með Karli Nordahl að Elliðakoti 18. júlí 1978. Þar eru aðeins húsarústir eftir. Húsgrunnurinn stendur enn, en húsið brann 1949. (Sjá meira um Elliðakot HÉR). Karl segir, að afi hans hafi byggt það 1887. Það var timburhús, en Elliðakot hafði þá verið í eyði. Krakkar, sem þar gistu, kveiktu í húsunum. Ósinn, sem Tryggvi nefnir Dugguós, kallar Karl Gudduós. Það er lækurinn, sem rennur frá Selvatni í Hólmsá og ræður merkjum Elliðakots til vesturs. Á herforingjaráðskortinu er lækur, nefndur Urðar-lágarlækur. Karl segir, að enginn lækur hafi verið til með því nafni. Lækurinn hafi alltaf heitað (svo) Sellækur, en Urðarlágar eru upp með læknum. Hrútslækur rennur í norðvestanvert Selvatn úr Sauðhúsamýri.
TóftNorðan við Nátthagavatn er engjastykki, sem nefnt er Nátthagi. Austan við Nátthagavatn er ávöl hæð, Klifin. Karl sagði, að kvísl rynni í Leirdal, þegar mikið vatn væri í Fossvallaá, en hún rennur um dragið milli Vatnahæðar og Vatnaáss. Þar sem Fossvallaá rennur í Hólmsá, heita Fossvellir. Heiðin upp af Leirdal er Elliðakotsheiði. Þar langt til austurs, fyrir norðan Lyklafell, er Klakkur, 247 m á hæð.
Við Elliðakot er grjótveggur, sem Skúli bóndi á Úlfarsfelli hlóð. Þegar komið er að Elliðakoti, er Dyngja fyrir ofan bæjarrústina. Fram við bæinn er Nónholt [(á teikningum Nónás)], ávalur ás í þá eyktarstefnu frá bænum.
Nátthagaá fellur frá uppsprettum við Syðstubrekkur, norðan við Hólmsá. Þegar komið er upp fyrir Litla-Lyklafell, þá er hér Sleðaás. Þar uppi er vindbelgur, rétt austan við veginn. Efrivötn eru fyrir ofan Vatnaás, en Neðrivötn fyr[ir] neðan hann. Fyrir neðan Vatnavelli er Syðri-Fossvallakvísl. 

Tóft

Norðan við Vatnásinn (svo) er Fossvallaklifið. Og nálgumst við þá upptök Fossvalláar, skammt frá Stangarhóli og Litla-Lyklafelli.
Ég ók með Karli Nordahl upp veginn fyrir ofan Elliðakot, ásinn, sem farinn er, heitir Dyngja. Vegurinn var hroðalegur, og komumst við ekki lengra en upp á háhrygginn og snerum þar við. Þegar ekinn er vegurinn að Elliðakoti, þá er til vinstri Gudduós og síðan Nónholtið og Miðmundahóll. [(Miðmundarhóll á teikningu.)]
Vilborgarkot (og Geirland): Ég kom með Karli að Vilborgarkoti 18. júlí 1978.  Hann sagðist muna eftir Vilborgarkoti í byggð. Vilborgarkot fór úr byggð 1905. Síðast bjó þar Pétur Ólafsson, flutti að Elliðakoti og bjó þar í 10 ár, síðan í Þormóðsdal.
Geirland er í landi Lækjarbotna. Milli Klifanna fyrir Beðslétturofan Geirland eru Klofningar. Árfarvegurinn við Lögberg, norðan við foss þar í ánni, er nafnlaus. Karl segir, að Klofningar tilheyra (svo) ekki Lækjarbotnum. Miðmundamýri er fyrir neðan Geirland, en Miðmundahóll fyrir ofan. Geirland fór í eyði. Ólafur Sigurjónsson (sonur Ólafs í (svo)) hefur kindur í Geirlandi. Geirland var keypt úr landi Lækjarbotna 1927. Sigurjón Ólafsson bílstjóri reisti nýbýli og keypti af Guðmundi Sigurðssyni á Lækjarbotnum.“
Að þessu sinni var stefnan tekin á Vilborgarkot undir suðaustanverðu Vilborgarholti (Litla-Kotási). Kotið hefur verið reist í nokkrum bratta. Sex stafnar hafa verið á framhlið mót suðaustri, þar af einn hálfur (þ.e. með efri hluta). Austast hefur verið fjárhús og innan og á bak við bæinn hlaða. Vestan hennar er garður utan um heykuml. Hlaðan hefur verið mikið mannvirki, djúphlaðin með stóru grjóti í veggjum. Smiðja hefur verið milli fjárhússins og íbúðarhúsa. Veggir standa heillegir, grónir að utan.
Enn má glögglega sjá húsaskipan í Vilborgarkoti. Vestan við bæinn eru leifar að útihúsi, líklega hesthúsi. HlaðanAustan við bæinn eru tóftir tveggja húsa, þar af er annað tvískipt. Annað, það austara, hefur væntanlega verið sauðakofi, en hið tvískipta gæti hafa verið útibúr og reykkofi.
Milli bæjarins framanverðan og matjurtargarðs er heimtröð. Suðaustar má sjá leifar túnræktar, heillegar beðasléttur í mýrarslakka. Hlaðinn túngarður umlykur heimatúnið. Hlaðið hefur verið um brunn neðan og vestan við heimtröðina.
Ekki er að sjá að ábúendur í Vilborgarkoti hafi haft úr miklu að moða, en bæjarhúsin eru táknræn mynd fyrir 19. öldina og því verðmæt sem slík. Auðvelda þyrfti aðgengi að minjunum með tilheyrandi upplýsingum.
Ofan við bæjarstæðið eru grónar lægðir millum hóla. Nú eru þar forfallnir sumarbústaðir. Líklegt má telja að þarna hafi verið heyjað fyrrum fyrir Vilborgarkot.
Bæjarleifarnar í Vilborgarkoti eru nú (2008), skv. örnefnaskránni, orðnar rúmlega eitt hundrað ára, sem gefur þeim friðunarrétt skv. gildandi lögum. Bæjarhúsin og útihúsin eru mun eldri, sem og túngarðurinn.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Guðlaugur R. Guðmundsson skráði – Örnefnalýsing fyrir Elliðakot og Vilborgarkot.

Útihús

Í lýsingu segir: „Sel frá Ölfusvatni: Gamlasel var í kvos sunnan undir Selhól í Ölfusvatnshólum.
Rennur Ölfusvatnsá Gamlaselþar rétt hjá og er Kaldá þar komin í ána. Þetta sel er ævagamalt. Þarna handhjuggu fylgdarmenn Þórðar kakala Þorstein Guðnason, fylgdarmann Gissurar Þorvaldssonar, …“
Sunnan frá Mælifelli gengur rani að ánni. Vestan í þessum rana, við Seltanga, eru tættur Nýjasels. Hér er talið hafa verið síðast haft í seli í Grafningi, árið 1849. Síðasta selstúlkan var Anna Þórðardóttir, síðar húsfreyja að Villingavatni (1850-1888). Nýjasel er móti norðvestri við smátjörn á mýrarbletti sem er alveg við selið. Selið var meira en klukkutíma gangur að því frá Ölfusvatni. Var fénu beitt í Laka. „Er þetta eina selið sem er vitað með vissu, hvenær var síðast notað, en það var 1849. …“
Tóftirnar í báðum selstöðunum eru greinilegar. Þegar selstaða Gamlasels er skoðuð má sjá þar selstöðuminjar á þremur stöðum, allt frá upphafi landnáms til loka 18. aldar.

Gamlasel

Gamlasel.