Gvendarbrunnur

Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði er getið um þrjá hella eða skúta á tiltölulega afmörkuðu svæði í Óttarsstaðalandi. Fyrst segir frá Sjónarhólshelli sunnan undir Sjónarhól þeim er áheldur Sjónarhólsvörðu; „fjárhellir í stórum krika. Hann hefur verið yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður“. Rétt norður af hólnum eru tvær vörður; Ingveldarvörður. Ekki er vitað hvernig stendur á nafngiftinni. Jakobsvarða er austar, á Jakobshæð. Norðan undir hæðinni er ævargamall stekkur eða rétt. Enn mótar vel fyrir hleðslunum.

Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir.

Vestan við Rauðamel, sem nú er horfinn, en í staðinn komin djúp malargryfja, er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi eða leifar eftir smalahús. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, „hellir, sem fé lá í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnanum“: Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla; Borgin, fráþví fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skógargata (seljagata Óttarsstaða) lá suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra (gryfjan), en Suðurnesjavegurinn liggur á milli Rauðamelanna. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elsta veginn (Alfaraleiðina) milli Innnesja og Útnesja. „Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir“.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsskjól.

Í annarri örnefnalýsingu segir að Smalaskálahellir sé ofan við Jakobsvörðu, „upp undir vegi, neðan Smalaskála. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel“. Í þessari lýsingu er hvorki minnst á Sjónarhólshelli né Gvendarbrunnshelli, en getið bæði um Sjónahól og Sjónarhólshæðir „upp af Vatnagörðum“, sem eru á vesturmörkum Óttarsstaða að Lónakotsmörkum. Við þau, Óttarsstaðamegin er Vatnagarðahellir (Vatnagarðafjárskjól/-skúti). Hellisins er getið bæði í lýsingum fyrir Óttarsstaði og Lónakot. Lónakotsfólkið mun þó hafa nýtt hann fyrir fé og stundum jafnvel til annars. Í örnefnalýsingu fyrir Straum er bæði getið um Gvendarbrunnshæð og Gvendarbrunn, en ekki um Gvendarbrunnshelli. Hann er rétt utan við austurmörk Straums, en mörkin liggja bæði um hæðina og brunninn.

Smalaskálaskjól

Smalaskálaskjól.

Gengið var fyrst frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhólshelli. Hann er reyndar suðaustan við Sjónarhól, a.m.k. miðað við nútímaáttir. Hlaðið er fyrir skúta sunnan í stóru ílöngu jarðfalli. Um er að ræða mikla hleðslu. Skútinn hefur verið allgott skjól og rúmar fjölda fjár.
Þá var gengið til suðausturs, áleiðis að Smalaskála. Ofan við Reykjanesbrautina, samhliða henni, liggja bæði gamli Keflavíkurvegurinn sem og gamli Suðurnesjavegurinn. Keflavíkurvegurinn hefur að vísu verið lagður ofan í Suðurnesjaveginn, en sumsstaðar má sjá þann síðarnefnda hlyggjast út undan þeim fyrrnefnda.

Gvendarbrunnshellir

Gvendarbrunnshellir.

Upp undir Suðurnesjaveginum eru hleðslur fyrir skúta í grónu jarðfalli. Varða er skammt frá því. Gróið er fyrir opið og birkihríslur loka honum að hluta. Skúti þessi er norðvestan við Smalaskála, „upp undir (gamla) vegi“. Hér gæti verið um svonefndan Smalaskálaskúta að ræða.
Þá var haldið áfram til suðausturs vestan Rauðamels, í áttina að Gvendarbrunnshæð. Gengið var yfir á Alfaraleiðina og henni síðan fylgt til vesturs uns komið var að Gvendarbrunni. Austar eru Draugadalir og vestar eru Löngubrekkur. Brunnurinn er, eins og fyrr var lýst, „stór hola í klöpp“. Umhverfis holuna er gróið gras og einhver tíma hefur verið þar varða, sem nú er fallin. Hleðsla undir girðinguna á mörkum Óttarsstaða og Straums liggur þarna upp hraunið. Norðvestan við brunninn, undir hæðinni, er vel gróið. Þar er Gvendarbrunnshellir. Nokkrar hleðslur eru fyrir skúta og þar hefur verið þokkalegt fjárskjól þótt það hafi verið mót suðri.
Hraunið þarna er stórbrotið, en tiltölulega auðvelt yfirverðar. Ekki er ólíklegt að á svæðinu kunni að leynast ýmislegt forvitnilegt. T.d. var gengið fram á rýmilegan skúta í hrauninu skammt norðvestan Smalaskála (Smalaskálahæðar). Hann er niðri í litlu jarðfalli. Í því vex myndarleg birkihrísla. Þegar farið var niður í jarðfallið og undir hrísluna kom opið í ljós. Fyrir innan er hið ágætasta skjól.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Þórkötlustaðir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi m.a. um skálatóft við Austurbæinn á Þórkötlustöðum í Grindavík.
Thorkotlustadir-220„Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni, og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst stóð framundan þeim vegg svo sem ‘/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var stæðilegur grjótveggur, rúml. 1 al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim öllum var eldslitur.

Thorkotlustadir-221

Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg. En auðséð var, að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mest alt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tók við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefði verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum eldaskála. Þrepið ætlað til að sitja á, en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur.

Thorkotlustadir-222

Eldfjallaaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera, að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefir á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“
Hið síðastnefnda getur reyndar ekki staðist því hraunin, sem nú mynda Þórkötlustaðanes að vestan og Slokahraun að austan er um 2400 ára og eru hlutar Sundhnúkahrauns.
Hlaðan fyrrnefnda var vestan Austurbæjar. Austan hans var hins vegar Miðbær og Austari Austurbær, auk eldiviðarskúrs. Sjávargangstígur lá niður að vörinni milli húsanna og sést hann enn. Mótar og enn fyrir undirstöðum þessara húsa. Milli núverandi Austurbæjar og Vesturbæjar má sjá hluta skálatóftarinnar, auk sjávargötunnar vagnfæru er lá niður að vörinni fyrrnefndu.
Þegar skálasvæðið var skoðað mátti augsýnilega greina hlaðinn langvegg utan hlöðunnar, sem rifin var á fimmta áratug síðustu aldar.

Heimild
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, bls. 47.Thorkotlustadir-223

Hraun

Eftirfarandi „Aldarminning“ um Hafliði Magnússon bónda á Hrauni í Grindavík birtist í Þjóðviljanum 14. ágúst 1947. Greinin er eftir Elías Guðmundsson.
Haflidi Magnusson„Þegar við sem runnið höfum langleið æviskeiðsins og komnir erum á efri ár, stöldrum við á hinum ýmsu sjónarhólum og lítum um öxl, þá mun það oftast vera atvikaspursmál eða tilviljun hvar auga hugans nemur staðar. Það er sagt og mun rétt vera að þangað leitar augað sem eitthvað er að sjá, eitthvað sem ber af því hversdagslega eða gnæfir yfir það algenga.
Af sjónarhólnum mínum í dag er það hið gamla og mörgum kæra höfuðból Hraun í Grindavík í Gullbringusýslu sem augað staðnæmist á. En orsök þess er sú að þennan mánaðardag fyrir eitthundrað árum er hann fæddur maðurinn sem lengst dvaldi þar þeirra karlmanna sem ég hef þekkt.
Hraun er merkilegur staður, stórbýli á sinnar sýslu mælikvarða, dálítið afskekkt, sést naumast frá öðrum bæjum þó skammt sé á milli, stendur lágt, aðeins fá fet yfir sjávarmál, þar er gróðursnautt land þegar útfyrir túnið kemur eins og víðast á Suðurnesjum. Þó er þetta fegursti staður Gullbringusýslu, en sú fegurð liggur fyrst og fremst í þeirri stórfenglegu umgerð sem náttúran hefur lagt svo rausnarlega til efnið í og smíðað svo dásamlega úr gömlu goshrauni, himingnæfandi háfjöllum og dimmbláu hafi, oftast skreyttu hvítfölduðum holskeflum sem aldrei þreytast í áflogunum við nesin og tangana.

75 ára gamalt ástarævintýri
Það segir sig sjálft að staður sem Hraun í Grindavík á mikla sögu, sögu sem fyllt gæti margar bækur ef hún væri skráð, þó ekki væri á langdregnu skáldamáli. Á stað eins og Hrauni, þar sem dvöldu 30—sigridur jonsdottir40 manns að minnsta kosti á vetrarvertíðum, fólk á öllum aldri, karlar og konur, gerizt vitanlega mikill fjöldi ævintýra sem vert væri að bjarga frá gleymsku. En ég hugsa nú ekki hærra en það að minnast í fáum orðum og mjög lauslega á eitt ástarævintýri sem gerðist á Hrauni fyrir nálægt 75 árum.
Þá býr þar gamall búhöldur og bændahöfðingi, Jón Jónsson hreppstjóri og dannebrogsmaður, sem þar hafði þá búið um langan aldur við hina mestu rausn og talinn maður ríkur. Jóni er þannig lýst að nokkuð væri hann einrænn í háttum, kallaður sérvitur, en að ýmsu leyti afburða gáfum gæddur og svo fundvís á föngin í skauti Ægis að um hann mynduðust hinar furðulegustu kynjasögur. En hvað sem sannleiksgildi þeirra sagna líður, þær verða ekki raktar hér, þá er svo mikið víst að Jón á Hrauni bar af samtímamönnum sínum í Grindavík um sjósókn og aflasæld. Jón var tvíkvæntur, með fyrri konu sinni átti hann engin börn, en með þeirri síðari, Guðbjörgu Gísladóttur ættaðri undan Eyjafjöllum, sem hann sextugur giftist þrítugri. Átti hann 2 dætur er til fullorðinsára komust, Sigríði og Guðbjörgu, en aðeins önnur þeirra, Sigríður kemur hér við sögu.
Um þær mundir er Jón dannebrogsmaður á Hrauni kvæntist síðari konu sinni Guðbjörgu, fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík piltur er hlaut nafnið Hafliði, foreldrar hans vóru hjónin Margrét og Magnús er þá bjuggu þar. Hafliði ólst upp hjá foreldrum sínum á Járngerðarstöðum. Strax í bernsku hneigðist hugur Kafiiða að sjónum, og þótti hann þegar á ungum aldri liðtækur háseti í erfiðu skiprúmi.
Kristin haflidadottirRúmlega tvítugur að aldri réðist Hafliði vinnumaður til Jóns bónda á Hrauni, en þá er heima sætan Sigríður gjafvaxta og tvímælalaust einn álitlegasti kvenkostur á Suðurnesjum: Hugir þeirra Sigríðar og Hafliða hneigðust brátt saman, en það fannst vandamönnum dannebrogsmanns-dótturinnar allmikil fjarstæða að hún færi að eiga blásnauðan vinnupiltinn og lögðu ýmsar hindranir á leið þeirra. En Sigríður var á allt annarri skoðun, hún þverbraut allar hefðbundnar erfðavenjur í þessum efnum og gekk í hjónaband með Hafliða sínum hvað sem hver sagði. Þegar athugað er hve lítill var réttur og takmarkað frelsi kvenna hér á landi fyrir þremur aldarfjórðungum, verður það ljóst að þetta átak Sigríðar var meira en venjuleg kona var fær um að gera.
Blóðnætur eru hverjum bráðastar, var eitt sinn mælt og svo reyndist hér um tengdafólk Hafliða. Furðulega fljótt náði hann fullum sáttum við það allt og vann fyllsta traust þess, og reyndist dugnaður hans og manndómur með mörgum ágætum hæfileikum þar áhrifaríkt læknislyf.
Þegar hér er komið sögu var Jón bóndi svo ellimóður orðinn að hinn ungi tengdasonur varð að taka við bústjórn og formennsku og þótti það í mikið ráðizt af svo ungum manni að setjast í sæti slíks mikilmennis sem Jón var, en aldrei hefi ég heyrt annars getið en að Hafliði hafi skipað þennan sess með sóma og er það full sönnun þess að hann var enginn miðlungsmaður.
Hafliði á Hrauni, eins og hann var venjulega nefndur, var í meðallagi að vexti, fríður sínum, ennið hátt, kinnarnar rjóðar, augun dökkblágrá, vel sett, lýstu góðlátlegu glaðlyndi og spilandi fjöri, enda var honum svo létt um allar hreyfingar að lengst ævinnar færði hann sig naumast úr einum stað í annan öðruvísi en hlaupandi. Þrátt fyrir glaðlyndið og léttleikann var hann þó þéttur fyrir og hélt hlut sínum er hann átti áleitni éða andstöðu að mæta.
Þá skemmtun eina veitti Hafliði sér, aðra en lestur bóka og blaða að hann greip stundum í spil með piltum sínum á vetrum í landlegum og var þá sem ávalt hrókur alls fagnaðar, en ástríða varð honum spilamennskan eins og dæmi voru til um sómamenn. Tóbaks neytti Hafliði ekki, en vín mun hann aðeins hafa bragðað í hópi beztu vina en aldrei svo mikið að á honum sæi.

Fast þeir sóttu sjóinn
Það hef ég engan heyrt efast um að Hafliði á Hrauni hafi borið manna hæst merki aflamanna og sægarpa í Grindavík á síðari tugum síðustu aldar og það allt fram yfir síðustu aldamót. Hafði Hraun i grindavikGrindavík þó mannvali góðu á að skipa á þeim árum til sjósóknar og hefur það eflaust ennþá, mér er það ekki eins kunnugt í seinni tíð. I þeim sannmælum góðskáldsins um Suðurnesjamenn: „fast þeir sóttu sjóinn“ hafa Grindvikingar ávalt átt sinn ríflega bróður part. Það eitt heyrði ég fundið að formennsku Hafliða á Hrauni að sumum hásetum fannst hann stundum um of þaulsætinn á sjónum, en trausts og virðingar naut hann alla sína löngu formennskuævi og aldrei skjátlaðist honum stjórnin þó fast væri sótt og öldur Grindavíkur oft háreistar.
Full 45 ár var Hafliði formaður á Hrauni en á miðri fertugustu og sjöttu vetrarvertíðinni kenndi hann nokkurrar vanheilsu, lét hann þá af formennsku en við henni tók Gísli sonur hans.
Óþarft er að taka það fram að skólamenntunar naut Hafliði vitanlega ekki, fremur en almennt gerðist á þessum árum, en hann var fús á að afla sér fróðleiks, bókhneigður, las mikið og naut þess vel því hann var gæddur óvenjulega traustu minni.
Í minningum mínum um það fólk er ég hef kynnzt verða þau Hraunshjón, Sigríður og Hafliði ávalt meðal hinna merkustu manna, en samlíf þeirra hjóna verður þó ávalt skemmtilegasti og fegursti þátturinn úr þeirra löngu og gæfuríku ævi.
Sigríður réri með bónda sínum
hraunhafAldrei munu konur hafa stundið sjóróðra í Grindavík svo teljandi sé nema Sigríður á Hrauni, sem reri með manni sínum á sumrin nokkuð fram eftir ævnni, en sjóinn sótti Hafliði hvern dag árið um kring þegar veður leyfði. Fiskiróðrar Sigríðar var mér sagt að hefðu endað á þann hátt að einn dag er verið var á sjónum með handfæri, þá kom stór hvalur upp á yfirborð sjávarins rétt við síðu bátsins, en þá var þannig ástatt um Sigríði að hún var komin langt á leið meðgöngutíma eins barns síns. Þetta varð hennar síðasti róður. Ekki mun Sigríður hafa verið margorð um þennan atburð, hún var ekki æðrugjörn.
Ungur að árum naut ég þeirrar ánægju að hafa náin kynni af þessum ágætu hjónum, Sigríði og Hafliða. Sá kærleikur, virðing og traust er þau báru hvort til annars, öll sín mörgu sambúðarár og sem aldrei féll á nokkur skuggi, eru eitt hið fullkomnasta sinnar tegundar sem ég hef kynnzt hjá hjónum.
Aldrei gerði Sigríður á Hrauni eldhúsverkin að aðalstarfi sínu. Ekki var hún heldur mjög fast bundin við umönnun barna sinna á meðan þau voru ung, um þau annaðist að miklu leyti Guðbjörg móðir hennar ásamt annarri góðri konu, Halldóru að nafni, er eins og fleiri vinnuhjú dvaldi lengi á Hrauni og lézt þar í elli. En synd væri að segja það að verkaskiptingin á Hraunsheimilinu væri á þennan veg af því að Sigríði hafi skort ástúð eða umhyggju börnum sínum til handa.
Sigríður var kona í stærra lagði á líkamsvöxt, þrekmikil, góðl. og staðfesta voru hennar sterkustu einkenni. Svo virðist sem henni léti betur útivinna en innisetur, og af því að hún var mikill dýravinur leiddi það eins og af sjálfu sér að skepnuhirðing varð hennar aðalstarf megin hluta ársins. Enda hefur það lengi verið venja á Suðurlandi, að þar sem bæði var sóttur sjór og stundaður landbúnaður þá önnuðust konur fénaðarhirðingu á meðan karlar unnu sjávarverk in. En segin saga var það að þegar Hafliði hafi lokið sjávarverkum, og þegar landlegur voru, gekk hann að hirðingaverkunum með Sigríði, en að þeim loknumog þegar í bæinn var komið, tók Sigríður rokkinn sinn eða prjóna eða aðra handa vinnu, en Hafliði bókina og las upphátt fyrir bæði og aðra þá er vildu hlýða. Af framansögðu er það ljóst að þegar Hafliði var ekki á sjónum voru þess varla dæmi að þau hjónin sæust öðruvísi en bæði á einum og sama staðnum.

Aldrei bjuggu þau Sigríður og Hafliði nema á hálfu Hraun; „Þar var alltaf tvíbýli frá því ég man fyrst eftir og er það ennþá. Lengst af var heimili þeirra stórt, um og yfir 20 manns að minnstakosti á vetrarvertíðum: Það var skemmtilegt heim að sækja Hrauns-hjónin og eiga samræður með þeim; konan var eigi síður en bóndinn góðum vitsmunum gædd, minnug og fróð. Í þeim efnum sem öðrum studdu þau hvort annað, enda áttu þau ávalt gnægðir umræðuefna, skemmtunar, fróðleiks og uppbyggingar.
Elias gudmundssonBezta lýsingu og sannasta mynd af Hafliða finnst mér vera að finna í tveimur formannavísum sem ortar voru um hann skömmu fyrir síðustu aldamót af hagyrðing einum er í Grindavík dvaldi á þeim árum. Að vísu orti sá maður um alla þáverandi formenn Grindavíkur, en vísurnar um Hafliða eru þessar: „Sínum knör af kappsemi, korða börinn heppnasti Hrauns úr vör hann Hafliði halda gjörir með liði. Aflamaður mesti þar, menntir hraður ástundar.
Innist glaður alstaðar að sér laðar þjóðirnar.“ Sigríður og Hafliði eignuðust 7 börn sem náðu fullorðinsaldri; 3 syni og fjórar dætur, eitt barn misstu þau ungt. Börnin sem upp komust voru þessi, talin eftir aldursröð ofan frá, synirnir sér og svo dæturnar. Synir: Jón, Gísli og Magnús. Dætur; Þóra, Engilbert, Margrét og Kristín. Af þessum 7 systkinum eru nú aðeins 4 á lífi: Gísli og Magnús, bændur á ættaróðali sínu, Hrauni. Margrét húsfreyja á Stærribæ, Grímsnesi Árness. og Kristín, gift kona, býr á Barónsstíg 24 í Reykjavík.
Það má með sanni segja um Sigríði og Hafliða að þau höfðu barnalán í bezta lagi. Ráðvandara sómafólki hef ég ekki kynnzt.
Nú þegar við minnumst aldarafmælis Hafliða á Hrauri, veit ég að við öll sem höfðum kynni af honum í lifanda lífi sendum honum og Sigríði hugheilar þakklætiskveðjur í gegnum tjaldið ógagnsæja og hlökkum til samfundanna við þau í ókunna landinu. Mætti landi voru auðnast að fóstra mörg hjón þeim lík.“

Heimild:
-Þjóðviljinn 14. ágúst 1947, bls. 3.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun.

Gráhnúkaskjól

Norðvestan undir Gráhnúkum, nokkru sunnan hraunmóta Hellisheiðahrauns og Brunans, verður fyrir mikið bjarg, sem hrapað hefur niður úr einum Gráhnúknum og hallast þar upp að.

Gráhnúkaskjól

Gráhnúkasjól.

Litlir skútar eru beggja vegna bjargsins, milli hnúks og bjargs. Hér lagðist til hvílu aðfaranótt 20. desember 1921 Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi, en hann hafði verið við skipasmíði á Eyrarbakka um haustið. Guðbjartur ætlaði að ná skipi vestur í breiðafjarðarbyggðir fyrir jól og fór því fótgangandi suður. Hann var einn á ferð yfir Hellisheiði í harðnandi frosti og byl og bar smíðatól sín. Lausafé talsvert hafði hann á sér. Úr Neðri-Hveradalabrekku hrekst hann hingað undan veðri í stað þess að stefna norður til Kolviðarhóls.
Guðbjarts var oft leitað þegar um veturinn og einnig sumarið eftir. Þótti með ólíkindum að hann skyldi ekki finnast. Komst jafnvel sá kvittur á kreik að honum hefði verið ráðinn bani til að komast yfir fjármunina og líkið síðan falið. Margir töldu sig verða vara við Guðbjart á Hellisheiði í illviðrum.

Gráhnúkaskjól

Í Gráhnúkaskjóli.

Valdimar Jóhannsson, síðar bókaútgefandi, dvaldist í orlofi sínu á Kolviðarhóli í júlí 1937. Verður honum gengið suður á Þrengslaleið og stansar við bjargið undir Gráhnúk. Af rælni tekur hann að róta í mosa í skútanum og finnur sög og fleiri tól og loks mannsbein. Fór hreppstjóri til og staðfestist að hér voru líkamsleifar Guðbjarts, svo og allt það sem hann hafði haft með sér, peningaseðlarnir að vísu illa farnir eftir 16 ár. Var Guðbjartur jarðsettur að Skálmarnesmúla 14. ágúst þá um sumarið.
Skútinn er undir svonefndum Stakahnúk, spölkorn ofan við Þrengslaveg. Enn má sjá bein við skútann. Gegnt honum mót vestri er Lambhóll.
Mál þetta var umtalað í sveitum Ölfus fyrir u.þ.b. 85 árum síðan. T.d. var talið að Guðbjarti hafi verið fyrirkomið vegna fjármuna, sem hann hafði meðferðis. Þá var vinnuveitandi hans sakaður um hlutdeild í hvarfi hans vegna þess að hann átti að hafa svikið hann um laun. Fleira mætti nefna, en þessi frásögn er ágætt dæmi um sögusagnir er komast á kreik er óráðið er um afdrif fólks. En svona er nú mannanna hugaleikfimi – og hefur lítið breyst í aldanna rás.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 2003.

Gráhnúkaskjól

Gráhnúkaskjól.

Hraun

Magnús Hafliðason, útvegsbóndi frá Hrauni í Grindavík, lézt 17. desember 1983, 92 ára að aldri.
Magnús var fæddur á Hrauni 21. nóvember 1891. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Jónsdóttur og Magnus HaflidasonHafliða Magnússonar og ólst upp í stórum systkinahópi, aðallega við sjósókn. Fyrri kona hans var Katrín Gísladóttir frá Urriðafossi í Flóa og eignuðust þau fjögur börn, þrjár dætur og einn son. Soninn misstu þau er hann var um tvítugt, en dætur þeirra eru enn á lífi. Árið 1948 giftist hann öðru sinni, Önnu Þórdísi Guðmundsdóttir frá Kálfárvöllum í Staðarsveit á Snæfellsnesi, eftir að hafa misst fyrri konu sína. Magnúsi og Önnu varð ekki barna auðið. Magnús var þekktur, bæði í heimsveit sinni og víðar, fyrir sjómennsku, björgunarstörf og fleira. Sjóinn sótti hann allt fram á efri ár, er heilsa hans brast og hann og Anna Þórdís fluttust á Elli- og vistheimilið Grund í Reykjavík.

Í Morgunblaðinu 6. júní 1982 birtist eftirfarandi viðtal við Magnús.
„Mikið þótti mér alltaf gaman að róa á áraskipunum“, – segir Magnús Hafliðason sem reri frá Grindavík í byrjun aldarinnar. Þeir eru ekki margir í dag sem þekkja af eigin raun sjósóknina á opnu „skipunum“ um aldamótin. Einn þeirra, Magnús Hafliðason, hittum við að máli á Minni-Grund við Blómvallagötuna. Þar býr hann nú ásamt síðari konu sinni, Önnu Guðmundsdóttur, kominn á tíræðisaldur. Þegar blaðamann ber að, býður Magnús til sætis og leggur frá sér bókina Menn og minningar eftir Gylfa Gröndal.
„Já, ég uni mér nú helst við lestur, því fæturnir eru hálf ónýtir að verða. Ég komst lítið á þeim um tíma en er nú farinn að hugsa mér til hreyfings aftur. Annars er best að tala varlega. Þið magnus haflidason-2blaðamennirnir hafið nefnilega orð á ykkur fyrir að ýkja, svona eitthvað smávegis að minnsta kosti,“ segir Magnús og glettnin skín úr augum hans.
Magnús Hafliðason fæddist á Hrauni í Grindavík árið 1891 og bjó þar óslitið fram til ársins 1977 þegar hann, 85 ára gamall, fluttist að Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.
„Hérna er allt gert fyrir okkur og okkur líður alveg prýðilega. Við erum heppin að fá að vera hér. Þetta er besti staðurinn sem við gátum lent á fyrst við þurftum að hrökklast frá Hrauni. Mig langaði ekkert að fara frá Hrauni. Ég hefði viljað vera þar lengur, en hún Anna mín veiktist og þá var ekki um annað að ræða.“

magnus haflidason-3

Við báðum Magnús að segja okkur frá því umhverfi og þeim aðstæðum sem hann óx upp við. „Pabbi var útgerðarbóndi sem gerði út frá Hrauni. Heiman frá okkur var um hálftíma gangur í lendinguna. Það var oft napurt að ganga um hraunið í nóttinni með línuna á bakinu. Þetta var óttaleg vegleysa. Ég var yngstur sjö systkina, en eitt hafði dáið á fjórða ári. Þó að við fólkið á Hrauni værum vel bjargálna, þættum við líklegast fátæk í dag. Við höfðum bæði kindur og kýr en lifðum aðallega á sjónum, því það er engin hagbeit þarna í kring. Ég ólst upp við það að allir færu á sjó og það þótti sjálfsagt að menn gerðu það. Á þessum tíma voru öngvir skólar, aðeins einn kennari sem kenndi öllum hópnum á staðnum sex mánuði á ári.“
—  Getur þú rifjað upp fyrstu sjóferðina?
„Það get ég já, þó heldur væri það nú lítil sjóferð. Ég var sjö ára og pabbi reri með okkur rétt út fyrir vörina, þar sem ég dró þrjá þyrsklinga. Upp frá þessu fór ég að smáróa með færi og þetta ágerðist alltaf. Í þá daga voru allt áraskip, mestallt áttæringar, tírónir með ellefu manna áhöfn. Það var jafnan lagt upp mjög snemma og lent að kveldi. Lending þarna var vond og oft mjög brimasöm, þannig að í dag þættu þetta varla viðunandi aðstæður. Það var ekkert skjól því skipin voru alfarið opin og öngva hlýju að hafa nema af árinni. Og ekki var nú heldur langt róið, enda fiskurinn nærri. Við byrjuðum ævinlega að leggja línu strax á morgnana og sátum venjulega yfir í klukkustund eða svo, og sat þá hvur við sína ár.“
—  Hvernig var skipseign og aflaskiptingu háttað?
magnus haflidason-5„Sumir áttu skipin einir og aðrir í félagi. Pabbi gerði alltaf út sjálfur með sitt eigið skip, en síðan tókum við Gísli bróðir við af honum. Með okkur reru sveitamenn og aðrir aðkomumenn, en það var mjög algengt að á hvurju skipi væru aðeins tveir eða þrír heimamenn og síðan aðkomumenn. Fyrst reru þeir bara upp á hlut sem þeir verkuðu sjálfir, en síðan komu til sögunnar svokallaðir útgerðarmenn, sem í þá daga var notað um menn sem reru á vertíð upp á ákveðna peningaupphæð sem var alfarið óháð því hvurnig aflaðist. Ógæfu okkar í dag má rekja til þeirrar tilhögunar sem þarna hófst. Nú fara menn bara ekki til fiskjar nema þeir fái ákveðið verð fyrir, óháð öllum aðstæðum, og stofna sífellt til verkfalla. Ég held nú að okkur sé hollara að selja á því verði sem markaðurinn gefur fyrir fiskinn, þó oft sé bölvaður tröppugangur á honum blessuðum.
Þegar ég var að byrja til sjós sem ungur maður, var siður að lesa sjóferðabæn fyrir róður þegar komið var á flot. Þessu var hætt þegar vélarnar komu í skipin. Þá þurfti víst ekki að biðja fyrir sér Hraun 1924-2lengur því vélarnar þóttu svo traustar. Áður var ekki siður að róa á sunnudögum, en sá siður lagðist líka niður með tilkomu vélarinnar.
Þessi breyting varð um svipað leyti og ég kvæntist fyrri konu minni, Katrínu Gísladóttur, en hún lést árið 1945 eftir 25 ára hjónaband. Þetta var á árunum í kringum 1920 og ég mun hafa verið tæplega þrítugur að aldri. Við fengum frekar seint vél í okkar bát, eða ekki fyrr en 1928. Það voru allir svo hræddir við þetta vegna skrúfunnar og hjá okkur var vélin varhugaverðari sökum lendingarinnar sem var óvenju brimasöm. Vélarnar komu fyrr þar sem lendingin var góð.
Ég hef ekkert nema af góðum félagsskap að segja í sjómennskunni á þessum árum. En menn höfðu metnað til að koma skip um sínum sem fyrst á flot, það vantaði ekki. Okkur þótti nú karlmannlegra að vera með fyrri skipum, en svo komu einhver lög sem sögðu fyrir um hvunær mætti róa og hvunær ekki. Það var nú sosum prýðilegt að fá þau lög.“
— Margur á þínu reki hefur komist í’ann krappan um dagana.
Hraun-21„Uss, við lentum aldrei í neinu — aldrei ég. Ég hef ekki enn komist í’ann krappan. Það varð oft strekkingur og stormur. Ég minnist þess að í mars 1916 fóru 4 skip og 38 menn björguðust. Hann rauk bara upp úr hvítalogni á norðan. Þann dag þurftum við að lenda annarstaðar en vant var og sumstaðar drukknuðu menn víst. En ég hef haft mjög gaman af sjónum um dagana og mikið þótti mér alltaf gaman að róa á áraskipunum með samheldnum og góðum mannskap. Sjórinn var alltaf við túngarðinn og gekk oft upp í tún hjá okkur í brimaveðri, en hann var alltaf fallegur, sjórinn.“
— Hvernig líst þér á sjómennskuna í dag?

Hraun-loftmynd

„Þetta er ekkert líkt því sem var, væni minn, en samt verða slysin ekkert síður. Þau eru voðaleg, þessi slys. Ég reri einar fimmtíu vertíðir án þess að nokkuð sérstakt kæmi upp, svona sem blaðamatur, sjáðu. Það þurfti líka alltaf aðgæslu og það tíökaðist ekki að fjasa útaf smáslettum. Ég er ekki frá því að það sé einhver óstjórn á hlutunum í dag. Þeir skemmdu alveg vertíðina í vetur með einhverju banni og svo gefa þeir þá skýringu að sjórinn sé kaldur. Nú, hann hefur varla kólnað svo mjög frá því sem hann var á minni tíð. Og svo fjölga þeir bara skipunum þó þau séu alltof mörg og ráðherrann ræður ekki við neitt, enda hafa ráðherrarnir fæstir á sjó komið og vita ekki hvurnig þessu hagar til. Ég held þeir ættu frekar að reyna að nota eitthvað þessa fiskifræðinga okkar.“
— Gerir þú þér einhvern dagamun á sjómannadaginn?
„Nei, ég fer ekkert. Ég er bíllaus og kemst ekkert gangandi. Ég dúsa bara heima, enda er ég ekki lengur neinn sjómaður. Það lifir enginn upp aftur það sem hann er búinn að lifa. Mér þótti gaman á sjónum og langar alltaf aftur í huganum, en svona valtur á fótunum er ég engum til gagns. Annars er ekkert að mér nema þessi fótafúi.“

Heimild:
-Morgunblaðið 6. júní 1982, bls. 36-37.
-Morgunblaðið 24. desember 1983, bls. 3.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Hamarinn

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Hamarsins í Hafnarfirði:

Hamarinn

Hamarinn – fyrrum námusvæði.

„Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Á Hamrinum eru jökulminjar. Hann setur mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamrinum tengjast sögur um álfa og huldufólk. Stærð náttúruvættisins er 2,1 ha.“

Í auglýsingu um friðlýsingu Hamarsins í Hafnarfirði frá árinu 1984 segir:

Hamarinn

Hamarinn – „Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil“.

„Samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971 hefur [Umhverfisstofnun] að tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkt fyrir sitt leyti að friðlýsa Hamarinn í Hafnarfirði sem náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru sem hér greinir:
Mörkin fylgja hnitapunktum í hnitakerfi Reykjavíkur frá árinu 1951 og eru beinar línur milli eftirtalinna punkta:

Hamarinn

Hamarinn – útsýni yfir Austurgötu.

Frá punkti merktum nr. 1 á uppdrætti norðvestur hússins nr. 22A við Öldugötu (x=22922.71, y=9011.07) liggja mörkin til suðvesturs að punkti nr. 2 (x=22949.18, y=8969.19). Þaðan liggja þau til vesturs að punkti nr. 3 norðan Flensborgarskóla (x=23102,05, y=8984.12), og áfram til vestur að punkti nr. 4 norðan Flensborgarskóla (x=23122.15, y=8990.52). Þar beygja mörkin til norðurs að punkti nr. 5 sunnan hússins nr. 8 við Lækjargötu (x=23093.32, y=9102.42), og síðan til norðausturs að punkti nr. 6 sunnan hússins nr. 18 við Lækjargötu (x=22998.06, y=9125.53). Þaðan til suðausturs að punkti nr. 1.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd ríkisins], að láta planta trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.
2. Svæðið er einungis opið gangandi fólki og skal það gæta góðrar umgengni.
3. Náttúruverndarnefnd Hafnarfjarðar hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar.

Hamarinn

Hamarinn – náttúruvætti; kort.

Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Hafnarfjarðar. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessar auglýsingar í Stjórnartíðindum.“

Menntamálaráðuneytið, 10. apríl 1984 – Ragnhildur Helgadóttir.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/hamarinn-hafnarfirdi/
-Stj.tíð B, nr. 188/1984. Sérpr. nr. 454.

Hamarinn

Hamarinn – Flensborgarskóli.

Hrútargjárdyngja

Í Náttúrufræðingnum 1997-1998 er m.a. fjallað um „Hraun í nágrenni Straumsvíkur“:
hrutagjardyngja-222„Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun í dag. Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út.
Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvík. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútagjárdyngja
Hrutagja-223Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 1997-1998, 3.-4. tbl., bls. 174.

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Geitafellsrétt

Gengin var óhefðbundin leið frá Þrengslavegi að Strandarhæð. Leiðin er greiðfær og auðveld yfirferðar. Hallar undan, einkum seinni hlutann.

Selvogsheiði

Gengið um Selvogsheiði.

Byrjað var á því að ganga að Sandfelli og áfram yfir slétt mosahraunið að Geitafelli, með því að austan og sunnanverðu uns komið var að Seljavöllum. Þaðan var haldið suðvestur með Réttargjá að gömlu hlöðnu Geitafellsréttinni. Geitafellsréttin var frádráttarrétt Ölfus- og Selvogsbúa. Réttin hefur ekki verið notuð lengi, en stendur þarna heilleg og löngum einmana undir gjáarveggnum. Umhverfið er allt hið fegursta og skjólgott undir gjáarveggnum. Skömmu áður en komið var að réttinni mátti sjá gamlar hleðslur utan í hraunhól.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Í auglýsingu í Ísafold 22.09.1875, bls. 143-144 er m.a. minnst á Geitafellsréttina: „Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdæminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprætingar fjárklaðans í suðrhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjareigendr þá.. sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er úr þessu lögsagnarumdæmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Mun almenn skoðun á réttarfénu, fyrren það er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. þ. m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s. m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar í stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar.“

Strandarhæð

Við Gapa.

Gengið var með Merarbrekkum að slysavarnarskýlinu undir Heiðinni há og kíkt á Kjallarahelli, sem er skammt ofan við það. Ekki var gengið á Svörtubjörg og komið við Eiríksvörðu að þessu sinni (hlaðin árið 1710), en þess í stað var haldið í átt að Staðarsel (Strandarseli), fráfæruseli við efri rætur þeirra. Leiðin lá framhjá hlöðnu Selvogsréttinni norðan við Hnúkana með viðkomu í Hellholti og Hellholtshellir skoðaður, Hafri, Hruni svo og nokkrir aðrir. Áður höfðu ferðalangar áð í Selvogsréttinni þar sem gangnamenn fyrrum höfðu verið svo vinsamlegir að skilja eftir svolítið af kjarngóðum hákarli, reyktum rauðmaga og brennivíni fyrir ferðalúna vegfarendur.

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

Þá var haldið niður að Eimubóli (Eimustekkur er í Eimuhelli) og Vindásseli, gengið yfir Vörðufell og skoðuð hlaðna Vörðufellsréttin (hætt að nota 1924) og Markavarðan með krossmarkinu (landamerkjavarða), auk litlu smalavarðanna, sem tengjast þjóðsögunni um endurheimtur.
Á þessu svæði eru miklar og merkilegar mannvistaleifar, ekki síst í hellum og skútum. Hafa þær væntanlega tengst seljabúskapnum í heiðinni, sem hefur skilið eftir sig miklar og merkilegar minjar.

Eimusel

Hleðslur í Eimuseli (Eimubóli).

Þarna er fjölmargt að skoða þótt ekki virðist það vera við fyrstu sýn, a.m.k. ekki séð neðan frá þjóðveginum.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Á leiðinni að Strandarhelli var komið við í Ólafarseli, sem liggur undir hraunkrikanum syðst í Vörðufellshrauni. Skammt austar liggur gömul þjóðleið. Loks var skoðað í Strandarhelli, Bjargarhelli og í Gaphelli (Gapstekk).
Gangan tók u.þ.b. 8 klst. Veður var frábært og björt júlínóttin gaf ferðinni skemmtilegt yfirbragð.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Bústaðir

Flestar ef ekki allar jarðir landsins eiga, eða áttu, sín merki á mörkum. Enn má t.d. sjá landamerkjasteina í borginni, þótt einn og einn hafi verið færður úr stað eða jafnvel á milli svæðs, sbr. landamerkjasteinnin, sem var við Háskóla Íslands og er nú við Árbæjarsafn. Steinn, eða klöpp á móti honum, má enn sjá í vestanverðri Öskjuhlíð.
Söðulsteinn hét steinn á mörkum Bústaða, Klepps og Kópavogsjarðanna (Digraness). Hann var nefndur svo vegna lögunnar sinnar, þ.e. hann mun hafa verið Söðulsteinnsöðullaga. Lína lá úr honum til vesturs að Hanganda í botni Fossvogar. Sú lína voru suðurmörk Laugarnessjarðarinnar. Lína úr henni til austurs markaði jörðina Bústaði að norðanverðu, Digraness að sunnanverðu og lá að norðausturmörkum Breiðholtsjarðarinnar. Úr Söðulsteini lá lína til norðnorðausturs að Þrísteinum, sem var varða á Laugarholti eða Laugarási, eins og það holt hefur verið nefnt í seinni tíð. Í Þrísteina lágu einnig norðurmörk Bústaða frá ósum Elliðaáa.
Söðulsteinn var annað af tveimur landamörkum Laugarness sem enn sjást. Vesturmörk Laugarness miðuðust við stein er síðar var nefndur Stúlknaklettur eða Stúlkuklettur. Munnmæli segja að einhvern tíma hafi vanfær stúlka horfið úr Laugarnesi en fundist við þennan stein, ásamt tveimur stúlkubörnum.
Í bók Þorgríms Gestssonar, Mannlíf við Sund (1998), kemur fram að Söðulsteinn hafi af lítt skiljanlegum ástæðum staðið af sér mestallt rask og breytingar í þúsund ár og standi enn rétt ofan við Bústaðaveg. Þó má ætla að helmingur steinsins hafi einhvern tíma sprungið frá og brotin fjarlægð því hann er ekki lengur söðulbakaður eins og hann hefur sjálfsagt verið í upphafi, miðað við nafngiftina.
Söðulsteinn var færður á núverandi stað eftir að bílstjórar höfðu kvartað yfir því að hann hindraði útsýni þegar ekið var inn á gatnamótin. Auk þess hafði þá a.m.k. tvisvar verið ekið á steininn. Steininum gæti hafa verið snúið við tilfærsluna.
Meira er um Sölustein í „Reykjavík fyrri tíma“ eftir Árna Óla. Hann fjallaði áður um steininn í grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1961 (bls. 363). Þar lýsir hann einnig framangreindum landamerkjum.
Söðulsteinn „Eftir að Reykjavíkurbær hafði eignast Laugarnes og Klepp, hófust landamerkjadeilur við H. Th. A. Thomsen kaupmann, sem þá var eigandi Bústaða. Í þeim deilum er minnst á Söðulstein, „mjög einkennilegan stein“, sem sé rétt við þjóðveginn gamla, sem lá um Bústaðaholtið niður á Öskjuhlíð.
Héldu margir því fram að þetta væri landamerkjasteinn milli Bústaða og Laugarness…
Steinninn er rétt austan við vegamót Réttarholtsvegar og Bústaðavegar, beint niður af endanum á raðhúsinu Réttarholtsvegi 81-97. Það er enginn vafi á að þetta er Söðulsteinn. Hann er á sínum stað eftir því sem segir frá í landamerkjamálunum. Og hann er „mjög einkennilegur“, ljós á litinn og úr öðru efni en annað grjót þarna á holtinu. Hann er um 2 metra á lengd, en hálfu mjórri. Annar gafl hans er sléttur og líkist mest bæjarburst. hryggur er eftir honum endilöngum, en ofan í miðjan hrygginn er laut, svo að hann er „söðulbakaður“, og má vera að hann hafi fengið nafn sitt af því. Og hann hefir staðið rétt norðan við gamla þjóðveginn.
Það er einkennileg hending, að Söðulsteinn skyldi ekki „verða fyrir“ þegar öllu var umbylt í holtinu, að hann skyldi lenda milli vegar og byggingalóðar. Það er eins og bending um, að hann skyldi varðveitast. Og þótt hann geti ekki talist frægur, finnst mér rétt að bærinn leggi á hann verndarhönd, þótt ekki væri til annars en að geyma þennan „einkennilega stein“ og örnefnið. Þau eru ekki svo mörg örnefnin, sem hlíft hefir verið“.
Svo er að sjá sem Þorgrímur hafi m.a. fengið upplýsingar um Söðulstein frá Árna Óla.
Í Lesbók Mbl 25. janúar 1948 er getið um Söðulstein. Þar segir: „Þá er í þessum landamerkjaþrætum einnig minst á Söðulstein, „mjög einkennilegan stein“, rjett við þjóðveginn gamla, heldur til austurs frá Bústaðaborg“. Árni Óla hafði það eftir Valdimar Kr. Árnasyni að gamli þjóðvegurinn hafi legið vestar og neðar í holtinu en var 1961. Þeir skoðuðu vettvanginn saman. Þá var enn sýnilegur stuttur bútur af veginum, sem nú er að sjálfsögðu horfinn.
Borgaryfirvöld hafa orðið við óskum Árna, fært steininn og gætt þess að honum væri þyrmt – að hluta.
Ekki þyrfti að koma á óvart þó að í Söðulsteini búi álfar, þó svo að þess hafi ekki sérstaklega verið getið í heimildum.

Heimildir m.a.:
-Mannlíf við Sund. Þorgrímur Gestsson, Íslenska bókaútgáfan ehf, 1998.
-Lesbók MBL 25. janúar 1948.
-Lesbók MBL 25. júní 1961, bls. 363 (ÁÓ).
-Reykjavík fyrri tíma – Árni Óla (1985), II. bindi, bls. 434-435.

Bústaðir

Bústaðir fyrrum.

Brimketill

„Einu sinni bjó skessa, Oddný, með Hróari tröllkarli sínum í Háleyjabungu á Reykjanesi; þau vóru nátttröll.
Þau áttu son Brimketillsem Sölvi hét. Manga var nágrenni þeirra í einum katli Staðarhrauns ofanverðu. Hún var eldri, vitrari og allra tröllkerlinga elst, enda eru mörg viðurkennd staðarnöfn í nágrenninu við hana kennd.

Eina nóttina leggur Oddný af stað og yfir þverar Víkur og Bása um Staðarberg og austur á syllu þar yrst á berginu er Ræningjasker heitir, og fann þar hvalkálf rekinn á land, bindur hann í bagga og færist undir fetla og gengur síðan af stað heimleiðis.
Er nú ekki getið ferða hennar fyrr en hún er komin inn eftir Staðarbergi fyrir innan Klaufar. Þar sest hún niður um stund til hvíldar og horfði til hafs. Þar sem enn var nokkur stund af annars kyrrlátri nóttu ákvað hún að baða sig í berglaug einni er þar var undir bergbrúninni; hvíldi sig þar um stund, lét líða úr sér og gleymdi þá bæði tíma og stað. Loks ákvað Oddný að halda ferð sinni áfram, en í sömu mund og hún steig upp fyrir bergbrúnina kom sólin upp við Mönguketil í Staðarhrauni – og varð hún þarna samstundis að steini. Lengi vel var hár bergdrangur á brúninni fyrir ofan laugina, fremst á berginu, en sjórinn hefur nú brotið hann smám saman niður svo varla markar fyrir lengur. Eftir stendur hins vegar enn staðföst laugin, nú nefnd Brimketill.
Nöfn básanna, milli laugarinnar og fyrrum heimilis þeirra í Háleyjabungu, bera arfleifð þeirra vitni; Oddnýjarlaug, Sölvabás og Hróarbás.“

Oddnýjarlaug

Oddnýjarlaug / Brimketill.