Viðey

Talið er að byggð hafi verið hafin í Viðey þegar á 10. öld en lítið er vitað um sögu eyjarinnar fram til 1225 þegar Viðeyjarklaustur var stofnað. Varð klaustrið eitt það ríkasta á landinu og átti fjölda jarða og þar af megnið af núverandi borgarlandi. Í átökum siðaskiptanna var klaustrið rænt af mönnum hirðstjóra Danakonungs vorið 1539 og markaði það endalok þess.

Viðey

Viðey – kort.

Næstu tvö hundruð ár var Viðey hjáleiga frá Bessastöðum og þar rekið þurfamannahæli. Um miðja 18. öld fékk Skúli Magnússon landfógeti eyna til ábúðar. Fékk hann Danakonung til að reisa Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta og lauk smíði hennar 1755. Er Viðeyjarstofa fyrsta steinhúsið á Íslandi og eitt elsta hús sem varðveist hefur á landinu.
Skúli lét einnig reisa kirkju við hlið Viðeyjarstofu og var hún tilbúin 1774. Viðeyjarkirkja er næstelsta kirkja landsins. Skúli bjó í eynni til dauðadags 1794.
Árið 1793 flutti fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn Ólafur Stephensen til Viðeyjar. Bjó hann í Viðeyjarstofu til dauðadags árið 1812. Þá tók sonur hans, Magnús Stephensen dómstjóri, við búsetu í eynni en árið 1817 keypti hann Viðey af Danakonungi. Magnús flutti prentsmiðju til Viðeyjar sem var starfrækt hér frá 1819-1844. Magnús Stephensen andaðist árið 1833 en eyjan var í eigu afkomenda hans út 19. öld.

Eggert Briem

Eggert Eiríksson Briem (1879–1939).

Árið 1901 hófu Eggert Briem og kona hans Katrín Pétursdóttir stórbúskap í Viðey. Reistu þau stórt og fullkomið fjós og seldu árlega um 200 þúsund lítra af mjólk til Reykjavíkur.
Árið 1907 var útgerðarfyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co. stofnað. Var það alltaf kallað Milljónafélagið. Miðstöð þess var á austurenda Viðeyjar og á skömmum tíma myndaðist þar reisulegt þorp með fjölda íbúðar- og fiskverkunarhúsa og bestu bryggjunni við Faxaflóa.
Milljónafélagið varð gjaldþrota árið 1914 en áfram hélt fiskverkun á Sundbakka. Árið 1924 gerði Kárafélagið eyjuna að útgerðarstöð sinni. Þá fjölgaði þorpsbúum og urðu þeir flestir 138 árið 1930. Ári síðar lagið félagið upp laupana og þá tók að fækka í þorpinu. Árið 1943 stóð það autt og yfirgefið.
Búskapur hélt áfram í Viðey fram á sjötta áratuginn en þá lagðist búseta af í eynni og voru stofan og kirkjan illa farin þegar Þjóðminjasafnið tók húsin að sér árið 1968. Íslenska ríkið gaf Reykjavíkurborg húsin árið 1986 og lauk endurbótum á þeim árið 1988.
Viðey

Gvendarborg

Fjárborgir eru hringlaga byrgi sem ætluð voru sauðfé sem skjól á fyrri öldum, oftast hlaðnar úr grjóti en stundum líka úr torfi. Hleðslan er borghlaðin þannig að hún dregst smám saman að sér og mjókkar upp á við.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Yfirleitt var látið nægja að hlaða háa veggi í fjárborgir en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Í sumum tilvikum mætast hleðslurnar í toppinn. Algengast er að fjárborgir séu hringlaga en það er þó ekki algilt. Aðeins einn inngangur er á hverri fjárborg.

Fjárborgir eru algengastar á Suðurlandi og er vitað um að minnsta kosti 142 á Reykjanesskaga. Margar hafa varðveist vel sýnilegar en aðrar eru ógreinilegri. Sums staðar eru einungis undirstöðurnar eftir en þegar hætt var að nota fjárborgirnar var grjótið úr þeim stundum nýtt í önnur mannvirki.

Pétursborg

Pétursborg ofan Voga.

Byggingarlag fjárborganna gæti verið fornt á Íslandi og gefa örnefni og fornleifarannsóknir mögulega vísbendingar um það. Ritheimildir greina þó ekki frá fjárborgum fyrr en á 18. öld.
Fjárborgir eru merkur vitnisburður um sauðfjárrækt sem lengst af skipaði stóran sess hér á landi. Það skipti máli að féð sem gekk úti kæmist í skjól og hafa fjárborgirnar verið mikilvægar til að forða því að það félli í vondum vetrarveðrum.
Fjárborgirnar sóma sér vel í íslensku landslagi og er látlaus tign yfir þeim þar sem þær standa í hrauni og móum sem minnisvarðar um horfna búskaparhætti. Þær hafa tvímælalaust mikið minjagildi enda eru margar þeirra friðlýstar.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Heródes

Af um 128 letursteinum og letursteinastöðum sem hafa verið rannsakaðir á suðvesturhorni Íslands eru langflestir varðveittir á vettvangi undir berum himni.

Básendar

Básendar – letursteinn.

Áletranirnar á steinunum eru af ýmsu tagi en algengast er þó að finna ártöl og upphafsstafi, fangamörk eða nöfn. Stundum fylgja þeim einnig vísur eða aðrar stuttorðar upplýsingar, jafnvel myndir. Steinarnir eru fjölbreytilegir og má skipta þeim í nokkra flokka. Sumir tengjast höfnum og verslunarstöðum en aðrir hafa verið notaðir í tengslum við siglingar og fiskveiðar. Einn flokkur letursteina eru ýmis konar minningarmörk og legsteinar. Þá hafa steinar verið áletraðir til að merkja mannvirki og leiðir og landamerkjasteinar eru algengir. Áletranir alþýðufólks eru af ýmsu tagi og meðal þeirra eru líka áletranir frá hermönnum sem telja má til herminja. Loks eru sumir steinar alveg sér á báti.

Suðurnesjabær

Þórshöfn – letursteinn.

Yfirleitt er letrið höggvið í steinana fremur en rist enda hafa þau sem þannig merktu klappir og grjót ætlað að skilja eftir eitthvað varanlegt.
Skoðaðir voru letursteinar frá síðustu tæplega 500 árum þannig að ljóst er að þessi hefð nær langt aftur. Væntanlega hefur þetta tíðkast hér á landi í einhverju formi frá upphafi byggðar en eldri áletranir hafa veðrast af steinunum í tímans rás. Ártöl eru mjög oft gefin upp og virðist yfirleitt mega treysta þeim þannig að marga letursteina er auðvelt að tímasetja.
Letursteinarnir eru ýmist jarðfastir eða lausir og hafa flestir mikið minjagildi og sumir eru í hættu vegna ágangs náttúruafla. Örfáum hefur því miður verið bjargað á söfn í stað þess að varðveita þá við menningarstaði þar sem saga þeirra á uppruna sinn.

Flekkuleiði

Rúnasteinn á Flekkuleiði.

Kópavogskirkja

Kópavogur dregur nafn af voginum sunnan Kársness og samnefndu býli sem stóð norðan Þinghóls þar sem var annar af tveimur þingstöðum í heimalandi Kópavogsbæjar. Ekki er vitað til að þar hafi verið Þinghóllþinghald á þjóðveldisöld en þar fór erfðahyllingin fram 1662. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um. Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704.

Digranesbærinn

Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.
Upphaf byggðar í Kópavogi var í landi jarðanna Kópavogs og Digraness sem voru í eigu ríkisins uns búskap var hætt. Í sveitarstjórnarkosningum sumarið 1946 náðu íbúar Kópavogs meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps og öll stjórnsýsla fluttist til Kópavogs.
KópavogurDigranes er sennilega elsta bújörð í Kópavogi. Búskapur hófst á jörðinni á árunum 1300 og 1313 en lagðist af árið 1936. Digranes var stór jörð en hefur sjálfsagt ekki verið eftirsóknarverð, eins og gæðum hennar er lýst í úttektarbók 
Jarðabókarnefndar frá október 1703. Konungur var skráður eigandi jarðarinnar og landsskuld hennar var 90 álnir sem ábúandinn greiddi með fiski í kaupstað, leigukúgildi í smjöri eða fiski til Bessastaða. Árið 1950 var búið að úthluta 10 löndum undir nýbýli og 146 smábýlalöndum úr landi Digraness. Smábýlalöndin voru fyrst og fremst ætluð sem ræktunarlönd en ekki til fastrar búsetu. Á þessu varð þó fljótlega breyting og lönd þjóðjarða urðu fyrsti vísir þéttbýlismyndunar í Kópavogi.

Kópavogur

Kópavogur – bæjarmerki.

Íbúar Seltjarnarness knúðu á að eigum Seltjarnarneshrepps yrði skipt upp. Skipting sveitarfélagsins fór fram um áramótin 1947-48 og efnt var til kosninga í hinum nýja Kópavogshreppi í janúar 1948. Sama ár var reytum  Seltjarnarneshrepps skipt. Jarðirnar Kópavogur, Digranes, Hvammkot (Fífuhvammur), Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar) voru lagðar undir Kópavogshrepp.
Fyrri hluta árs 1955 var Kópavogshreppur gerður að kaupstað með sérstökum lögum á Alþingi. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammsland árið 1980 af ríkinu en þar og á Nónhæð, í Digraneshlíðum og Kópavogsdal hefur hin síðari ár verið aðalbyggingarsvæði Kópavogs.
Kópavogur hefur vaxið afar hratt á stuttum tíma – þróast frá því að vera nokkur hús án nokkurrar þjónustu í að verða næststærsta sveitarfélag landsins með alla þjónustu.

 

Kópavogskirkja

Kópavogskirkja.

Árið 1945 voru íbúar í Kópavogi 521 að tölu. 11. maí 1955, þegar Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi, voru íbúar 3.783. 1. desember árið 2000 voru íbúar Kópavogs 23.578.
Merki bæjarins er sótt til fyrstu kirkjunnar á staðnum, Kópavogskirkju.
Kópavogskirkja var teiknuð af Herði Bjarnasyni, húsameistara ríkisins. Hún var vígð árið 1962, fögur bygging og sérstæð, þar sem hún stendur hátt í Borgarholtinu í miðjum bænum. Steindir gluggar í kirkjunni eru eftir Gerði Helgadóttur myndhöggvara.

Kópavogskirkja

Kópavogskirkja.

Um þjóðsögur og sagnir, sem eiga rætur í Kópavogi, hefur lítið verið ritað. Það var því mjög þarft verk sem þær Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir tóku sér fyrir hendur er þær söfnuðu þjóðsögum og sögnum úr Kópavogi og gáfu síðan út í samnefndri bók árið 1995.
Örfáar þjóðsögur úr Kópavogi hafa áður komist á prent . Í bókinni „Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi“ eru sögur um álfabyggðir og huldufólk, draugasögur, sögur um álagabletti og „reynslusögur“, en það eru sögur fólks af atburðum úr eigin lífi eða annarra.

Heimild:
-www.ismennt.is

Kópavogur

Kópavogur.

Hlemmur

Í Morgunblaðinu 1981 skrifar Gunnar M. Magnússon „Hundrað ára minningu Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará„:

„Séra Björn Halldórsson, hinn kunni klerkur og sálmaskáld, bjó í Laufási við Eyjafjörð. Hann var fæddur 1823. Kona hans var Sigríður Einarsdóttir frá Saltvík á Tjörnesi, fædd 1819. Þeirra börn voru Vilhjálmur, fæddur 1846, Svava, fædd 1854, og Þórhallur, fæddur 1855.

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur ólst að mestu upp hjá afa sínum, séra Halldóri Bjarnasyni, prófasti á Sauðanesi.
Sextán ára að aldri hóf hann smíðanám hjá Tryggva Gunnarssyni, timburmeistara á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Að námi loknu, tók hann upp tvíþætt störf: stundaði smíðar á veturna, en hóf ræktunarstörf að vorinu og stjórnaði búi foreldra sinna að sumrinu. Þótti þá þegar sýnt, að hinn ungi prestssonur væri afbragð annarra manna, þrekmikill, kappsamur til hvers konar starfa, logandi af fjöri, opinn fyrir framförum, góðgjarn og óádeilinn og lagði hverju góðu máli lið.
Rúmlega tvítugur að aldri sigldi Vilhjálmur til Danmerkur, dvaldist árlangt í Kaupmannahöfn og lagði stund á málaraiðn. Þegar heim kom, tók hann að stunda þess iðn til jafns við fyrri störf og málaði nokkrar kirkjur á Norðurlandi, ein þeirra var Grímseyjarkirkja.
Árið 1872 gekk Vilhjálmur að eiga Sigríði Þorláksdóttur prests á Skútustöðum Jónssonar. Hún var fædd 1853. Nokkru síðar keypti séra Björn jörðina Kaupang í Eyjafirði og ungu hjónin fluttust þangað. Vilhjálmur hætti nú að mestu störfum út á við, en einbeitti atorku sinni að búi sínu og heimili. Hann tók að byggja uþp á jörðinni, smíðaði allstórt timburhús og vönduð peningshús, stækkaði tún og hóf töðufall til muna.

Rauðará

Rauðará um 1900 – hús Shiederbergs.

Vilhjálmur var fjörmaður og lagði oft saman nótt með degi, einkum við vorverk og heyannir. Á þeim árum sló hann dagsláttuna á rúmum sex klukkustundum, og þótti ekki heiglum hent að leika það eftir honum. Hann komst brátt í röð fremstu og gildustu bænda við Eyjafjörð og hlotnaðist sú viðurkenning að fá verðlaun úr heiðurssjóði Kristjáns konungs IX.
En mitt í þessum blóma skeði sá atburður að hjónin í Kaupangi seldu eigur sínar og fluttust úr héraðinu. Í stað þess að berast með straumnum til Vesturheims, héldu þau með fjórum börnum sínum suður að Kollafirði og settust þar að á Rauðará, örreytiskoti austan Reykjavíkur. Börn þeirra voru Þóra, Halldór, Laufey og Þorlákur.

Rauðará

Rauðará um 1950. Holdveikraspítalinn á Laugarnesi fjær.

Rauðará var fornt býli, en hvorki stórt né nytjagott. Reykjavík varð snemma stórbýli og bendir allt til þess, að á 10. öld hafi hún verið eitt af stærstu höfuðbólum landsins.
Í lýsingu Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í jarðabók frá árinu 1703 segir að á Rauðará hafi verið fimm kýr, ein kvíga veturgömul, sex ær, fimm sauðir veturgamlir, tvö lömb og eitt hross. Engjar voru engar, en torfrista, stunga og móskurður nægjanlegur í heimalandi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara lítil mjög. Skelfiskafjara næstum engin. Murukjarna, bjöllur og þess konar má finna, ef vill. Heimræði er árið um kring, en langræði mikið. Kvaðir eru þó ýmsar og á þessari litlu og kostarýru jörð: Mannslán um vertíð, dagslættir tveir til Viðeyjar. Hríshestar tveir heim til Bessastaða. Hestlán einn dag til að flytja Viðeyjar-eldiviðartorf af þerrivelli til skips. Skipaferðir, þegar Bessastaðamenn kalla. Heyhestur einn til fálkanna, síðan þeir sigldu í Hólminn. Og þó var ekki allt upptalið.

Rauðará

Rauðará í fjarlægð.

Það var vorið 1893 að Vilhjálmur Bjarnarson keypti þessa jörð af Schierbeck landlækni fyrir 4500 krónur. Vilhjálmur var þá 47 ára að aldri og Sigríður, kona hans, stóð á fertugu.
Jörðinni fylgdi landsvæði, um 30 dagsláttur alls, en mestur hluti þess var óræktaður, nema túnið, sem í bestu nýtingu gaf af sér eitt hundrað hesta eða tæplega það. Kringum túnskikann voru mýradrög og fúafen, en annars staðar blásinn melur eða klapparholt.

Rauðará

Rauðará – Árið 1891 reisti Hans J. G. Schierbeck landlæknir steinhlaðið hús á jörðinni. Árið 1908 reif Vilhjálmur Bjarnarson niður gamla íbúðarhúsið og reisti nýtt í þess stað.“ – Húsaskrá Borgarsögusafns. Sjá má gamla bæinn á Rauðará v.m.

Lítið steinhús var á Rauðará, þegar Vilhjálmur og Sigríður settust þar að. Bakvið það var gamall bær og fornfálegur.
Goshóll var norðan við túnið, þar var grásteinsnáma. Þar sat löngum Magnús steinsmiður og klauf grjót í legsteina. Fyrir neðan Goshól var Gvendarbrunnur. Þar var grjótruðningur, er líktist dys. Ágætt drykkjarvatn spratt þar upp. Mótak átti Rauðará austur í mýri, þar sem nú er Nóatún.
Rauðará
Af hlaðinu á Rauðará sá stök og smá býli í átt til bæjarins. Leiðin ofan úr sveitum til Reykjavíkur lá talsvert sunnar, en annar vegur frá bænum lá með sjónum inn að Rauðará og Laugarnesi. Þessi stígur fyrir ofan fjöruna var kallaður ástarbrautin. Þar var fáförult „inn á Hlemm“. En Hlemmur var brúin á Rauðarárlæknum, þar sem hann fellur til sjávar. Þessi lækur átti upptök sín í dýjadrögum inn við Kringlumýri. Þar seytluðu vætlurnar í vesturátt. Og í drögunum norðan Öskjuhlíðar sameinuðust þær öðrum vætlum og mynduðu svolítinn læk, þegar dró niður í Norðurmýrina. Þaðan hallaði svo til fjarðarins. Þar heitir nú Hlemmtorg.

Reykjavík 1902

Kort útbúið af landmælingadeild danska herforingjaráðsins árið 1902.

Greinarhöfundur hefur áður skrifað um Rauðarárævintýrið. Verður hér birt orðrétt lýsing úr þeim skrifum: „Bóndinn á Rauðará varð þess brátt áskynja, að hér þurfti víða höndum til að taka. Hann var kominn í nýtt landnám, stóð í þýfðu túni, sem teygði skækla út í óræktina, og þegar til kom, var jörðin ekki nema smáskák, miðað við það land, sem hann hafði áður fórnað kröftum sínum. Hann greip torfristuljáinn hverju sinni, er tóm gafst til, og tók að slétta þúfurnar í túninu. Linnti hann ekki, fyrr en túnið var orðið slétt til allra átta, svo langt sem það náði. Þá tók hann að færa túnið út, eftir því sem föng voru á, vakti upp grjót og sléttaði yfir, en hlóð vallarfarið úr hnullungunum. Hann sótti mold langar leiðir í hjólbörum og myndaði jarðveg, þar sem þunnt var á klöppunum. Og forarfen ræsti hann fram og fyllti upp. Hann sýndi að hann var jarðræktarmaður, svo að þess voru fá dæmi, vann sem ungur væri og var sífellt með ný verkefni á prjónunum. Þannig stækkaði túnið ár frá ári, en jafnframt fann hann nauðsyn þess að fá meira olnbogarúm. Þar í kring var landinu skipt í stykki, sem ýmsir embættismenn í Reykjavík áttu. Þar austur af Rauðará var Hagastykki, síðan Jónsjenssonarstykki, og enn austar var jarðarskikinn Fúlatjörn.

Einar Benediktsson

Schierbeck landlæknir átti Rauðará, svo sem fyrr er sagt frá, Jón Jensson yfirdómari átti vitanlega Jónsjenssonarstykkið, og Halldór Danielsson átti Fúlutjörn.
Svo komu aðrir menningarfrömuðir og menntamenn til að fala þessi stykki. Þannig var það til dæmis með lögfræðinginn Einar Benediktsson skáld. Hann langaði til að eignast Fúlutjörn og bað bæjarfógetann að selja sér skikann. Þetta ætlaði bæjarfógetinn að gera. Þegar samningarnir um þetta voru tilbúnir, svo að ekki var eftir annað en að skrifa undir, segir Einar: – Þetta er eiginlega afleitt nafn, það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.
Halldór Danielsson þykktist við af þessari athugasemd, og mælti: – Jæja, þá skulum við láta það vera að/skrifa undir. Og þar við sat.
Þetta atvik varð til þess, að Halldór bæjarfógeti bauð Vilhjálmi á Rauðará Fúlutjörn til kaups. Vilhjálmur hugsaði sig ekki lengi um og festi samstundis kaup á jarðarpartinum.
Börnum Vilhjálms fór líkt og Einari Benediktssyni. Þeim þótti nafnið óviðfeldið og tóku að kalla þennan nýja landauka Lækjarbakka. En Vilhjálmur var á öðru máli.
– Mér þykir nú eins vænt um að kalla það Fúlutjörn, sagði hann, – því að einmitt fyrir nafnið fékk ég landið.

Rauðará
Bóndinn á Rauðará lét ekki þar við sitja með jarðarkaupin. Allmikið erfðafestuland festi hann sér til viðbótar og fékk sér það mælt út hjá bæjarstjórn. Þar að auki keypti hann slægnaland upp við Elliðavatn, og færði nýræktina út jafnt og þétt.“
Vilhjálmur bóndi átti því láni að fagna, að öll fjölskylda hans var honum samhent við búskapinn. Þó ber einkum að nefna Þorlák, son hans. Hann hafði frá unga aldri fyrir norðan verið þátttakandi í búskapnum á Kaldbak og var rúmlega tvítugur að aldri, þegar fjölskyldan fluttist að Rauðará. Upp úr aldamótunum voru börnin komin á manndómsár og héldu sínar leiðir út í lífið. Þóra, sem var elst barnanna, fluttist norður og giftist Stefáni Jónssyni á Munkaþverá í Eyjafirði, Halldór fór utan og lærði búfræði, varð síðar skólastjóri á Hvanneyri. Hann var kvæntur Svövu Þórhallsdóttur, frændkonu sinni, Laufey giftist Guðmundi Finnbogasyni, landsbókaverði, og Þorlákur kvæntist eftir lát föður síns, árið 1919, og gekk að eiga Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Árnessýslu.

Rauðará

Rauðará – Ljósmyndin er af námunni fyrir norðan Sjómannaskólan árið 1944, þar var Grjótnám Reykjavíkur.
Hús á þessum stað tilheyrði líklega Grjótnámi Reykjavíkur, í húsaskrá er hús skráð við Suðurlandsbraut/Laugarveg. Það var byggt 1926 og hefur verið rifið fyrir 1956. Var þar sem nú er Skipholt 33.
Náman í Rauðaárholti varð síðar eign bæjarins og árið 1923 voru um 60 manns í atvinnubótavinnu í grjótnáminu. Sama ár var keypt ný grjótmulningsvél á vegum bæjarins (Grjótnám Reykjavíkur) og var hún staðsett í námunni. Námunni var síðan lokað árið 1945 og voru þá vélarnar fluttar í nýja námu við Elliðaárvog.

Þorlákur var hinn efnilegasti maður, skýr og greinagóður, hneigður til rannsókna og áhugasamur við ræktunar- og önnur búnaðarmál. Hann vann með föður sínum að öllum framkvæmdum og tók snemma að skrifa hjá sér athuganir um líf húsdýranna og draga þar af lærdóma um búnaðinn. Hann leitaðist við að finna á hvern hátt væri hagkvæmast að nytja bústofninn. Birti hann skýrslur um þetta í Búnaðarritinu.
Upp úr aldamótunum sendi Vilhjálmur Þorlák son sinn í landbúnaðarskóla í Danmörku.
Þegar Þorlákur kom heim að námi loknu, tók hann við bústjórn á Rauðará. Haft var eftir Vilhjálmi, að sá námskostnaður hefði komið inn á einu ári. – Kýrnar bættu því meira við sig, sem betur var kunnað með þær að fara, sagði hann. Búskapur þeirra feðga á Rauðará hafði snemma vakið athygli. Áður var litið á Rauðará sem kot, en innan fárra ára var þarna risið stórbýli. Rauðarármjólkin varð fræg sem mesta kostamjólk, auk þess tóku Rauðarárkýrnar að setja mjólkurmet, hvert af öðru. Búgarðurinn, sem þarna hafði risið, varð einnig stolt Reykjavíkur.
RauðaráBæjarbúar áttu nú kost á meiri og betri mjólk en áður tíðkaðist, og litið var með virðingu til mannsins, sem þarna hafði sáð og uppskorið. Hann fékk nú öðru sinni opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, að þessu sinni verðlaun úr Ræktunarsjóði.
Árið 1908 var lokið við að reisa mikið og vandað íveruhús á Rauðará. Þaðan mátti líta yfir fagurgræna túnbreiðuna til allra átta, — 35 dagsláttur, sem ræktaðar höfðu verið til viðbótar við gamla túnið, mest sáð sléttur og einnig matjurtagarðar. Heyskapur á heimatúni hafði sexfaldast á fyrsta áratugnum, var nú 5—600 hestar, kýrnar voru orðnar tuttugu eða rúmlega það, hestar fimm og allmargt sauðfjár.
Vilhjálmur Bjarnarson lést árið 1912, 66 ára að aldri, en Sigríður, kona hans, andaðist 1933, áttræð að aldri.
Á leiði þeirra hjóna voru settir bautasteinar úr Rauðarárlandi.
Þorlákur V. BjarnarÞorlákur hafði nú alla búsforustu í sínum höndum. Tvö systkini hans voru farin af heimilinu, en Laufey var enn heima. Auk þess var á heimilinu Theódór, hálfbróðir hans og Anna Nordal. Bjó Þorlákur með móður sinni, þar til hann kvæntist árið 1919 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Sandvíkurhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Þorkelsdóttir og Sigurður Þorsteinsson bóndi, síðar fasteignasali í Reykjavík. Systkini Sigrúnar voru Árni fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell vélstjóri, Sigurður Ingi, lengi sveitarstjóri á Selfossi og Steinunn, búsett í Reykjavík.
Sigrún var glæsileg stúlka. Hún var fædd 1896, og þegar hún tók við búsforráðum á Rauðará reyndist hún mikil húsfreyja á alla lund. Þau bjuggu með myndarbrag og héldu uppi heiðri Óðalsins. En í þeirra tíð tók borgin mjög að sækja að Rauðará. Byggðin færðist hröðum skrefum inn og austur, og þar kom, að Reykjavík tók að heimta skika jarðarinnar undir götur og hús. Og mitt í þessari ásókn féll Þorlákur í valinn, langt fyrir aldur fram, árið 1932, fimmtíu og eins árs að aldri.
Sigrún S. BjarnarÞau Sigrún og Þorlákur eignuðust fjögur börn. Elstur var Vilhjálmur, sem fluttist vestur um haf og gerðist umsjónarmaður Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann er kvæntur Dóru Eiríksson, vesturíslenskri konu. Annað barn þeirra Sigrúnar og Þorláks var Ingibjörg, er giftist Jóni K. Hafstein tannlækni. Hún lést 1959.
Þriðji í röðinni er Þorsteinn, sem er kvæntur Elfu Thoroddsen, og yngst barnanna er Sigríður Aðalbjörg, gift Sigurði H. Egilssyni stórkaupmanni.
Sigrún hélt uppi búskapnum af dugnaði og kom börnum sínum til mennta.
„En borgin hélt áfram hinni miskunnarlausu sókn að Rauðará.
Að lokum var jörðin umkringd, og um stund stóð húsið eins og einmana vin í eyðimörk.“ Fólkið varð að flýja. Sigrún fluttist að Laugabrekku, sem er nokkru austar við Suðurlandsbraut. Þar bjó hún með Þorsteini syni sínum til ársins 1966, er þau létu af búskap og fluttust vestur á Kvisthaga. Sigrún lést 10. ágúst 1979.
Þorlákur Bjarnar var fæddur 10. desember 1881. Og í dag minnumst við hundrað ára afmælisdags þessa íðilmennis.
Og borgin þrengdi sér nær og nær, þrýsti loks að hjartarótunum, skóf burtu hina glæsilegu viðreisn aldamótaáranna, nagaði hverja rót, eins og hungrað dýr.
Hula tímans og skurn borgarinnar liggur nú yfir gömlu Rauðará.“

Rauðará.
Í Óðni 1909 er einnig fjallað um Vilhjálm og Sigríði:  „Vorið 1893 kaupir Vilhjálmur Rauðará við Reykjavík af Schierbeck landlækni, fyrir 4500 kr. Í kaupinu var lítið steinhús til íbúðar. Erfðafestulandið var fast að því 30 dagsláttur, en minstur hluti ræktaður og heyfengur ekki 100 hestar.
Nú hefur Vilhjálmur 20 kýr á Rauðará, eða fleiri, og hesta. Allmikið erfðafestuland hefur hann keypt til viðbótar og fengið mælt sjer hjá bæjarstjórn. Slægnaland á hann og uppi á Elliðavatni. Heyskapur heima er orðinn 5—600 hestar. Hann mun hafa sljettað hjer syðra einar 35 dagsláttur; mest er það sáðsljettur hin síðari ár. Nytina í sumar bætti hann við 3 dagsláttum. Nú er Þorlákur sonur hans fyrir búinu. Hann gekk fyrir 8 árum síðan á landbúnaðarskóla í Danmörku, og segir Vilhjálmur, að sá námskostnaður hafi komið inn á einu ári. Kýrnar bættu það við sig, er betur var kunnað með að fara. Þorlákur hefur um allmörg ár sett í Búnaðarritið fóður- og mjólkurskýrslur frá Rauðará, og sýna þær að kýrnar hafa gert gott gagn. Alt er það af aflafje á Rauðará, að Vilhjálmur hefur reisl hið mikla og vandaða íveruhús sitt, sem myndin er af hjer í blaðinu. Það var reist sumarið 1908. Öll eru húsin virt 28,000 kr. Alt er það dropinn úr kúnum. Nú mun það rjett samhljóða dómur og reynsla þeirra hjer í bæ, sem stundað hafa kúarækt með nýju og nýju fólki hvert árið, að vart hafi svarað kostnaði, og er það ljóst dæmi þess, hvaða munur er á því að kunna með að fara og ekki.
Rauðará
Búnaðarmálaritgerð á Vilhjálmur í 18. ári Búnaðarritsins: »Nýir siðir með nýjum tímum«, og þótti greinin bæði viturleg og stórhuga.
Sá, sem þetta ritar, spurði Vilhjálm, hverju hann þakkaði það, að honum hefur búnast svo vel um dagana. Hann hugsaði sig dálítið um, og sagði ekki annað en það: »Jeg hef tímt að bera á«.
Vilhjáhnur ljek sjer að því í Kaupangi á yngri árum að slá dagsláttuna í túni á 6 klukkustundum, svo var kappið og fjörið.
Heldur leiddi Vilhjálmur hjá sjer almenn mál. En margir leituðu ráða og liðs hjá honum. Og varla var annar bóndi vinsælli í Eyjafirði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Þóra, er gift Stefáni bónda Jónssyni á Munka-Þverá í Eyjafirði. Laufey er kennari í Reykjavík. Elstur sona hans er Halldór skólastjóri á Hvanneyri.“

Rauðará

Rauðará – Myndin sýnisr bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, árið 1924, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk; „Hlemmur“.

Í Heimsmynd 1990 segir frá „Stórbóndanum á Rauðará og syninum á Hvanneyri„: „Þá er komið að bróður Þórhalls Bjarnarsonar biskup og afkomendum hans sem ekki hafa verið taldir upp til þessa. Hann var Vilhjálmur Bjarnarson (1845-1912) bóndi á Rauðará í Reykjavík. Vilhjálmur lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og koma þar til enn ein tengsl Laufásfjölskyldunnar við þann merka mann. Hann sigldi til Kaupmannahafnar og lærði þar einnig málun og málaði nokkrar kirkjur nyrðra eftir að hann kom heim. Sumarið 1872 kvæntist Vilhjálmur Sigríði, dóttur Þorláks prests á Skútustöðum Jónssonar, en hann var einn hinna þekktu Reykjahlíðarsystkina sem Reykjahlíðarætt er talin frá. Fimm árum síðar reistu þau bú í Kaupangi í Eyjafirði og fékk hann þá verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir.
Vilhjálmur keypti Rauðará í útjaðri Reykjavíkur árið 1893 og gerði það að stórbýli á íslenskan mælikvarða, rétt eins og Þórhallur biskup, bróðir hans, Laufás. Hin glæstu hús á Rauðará stóðu þar sem nú er Frímúrarahöll við Borgartún, rétt við endann á Rauðarárstíg.
Rauðará
Vilhjálmur og Sigríður áttu fjögur börn en auk þeirra átti Vilhjálmur eitt utan hjónabands. Elstur var fyrrnefndur Halldór Vilhjálmsson (1875-1936) skólastjóri á Hvanneyri. Hann var búnaðarfræðingur frá Landbúnaðarskólanum í Kaupmannahöfn, en skólastjóri og jafnframt stórbóndi á Hvanneyri 1907 til dauðadags. Halldór gerði miklar kröfur til sín og nemenda sinna en kjörorð hans var: „Hollur er heimafenginn baggi“. Þess vegna voru nægtir matar í búrunum á Hvanneyri. Sagt var um skólastjórann að hann ætti viðkvæma lund undir harðri skel. Kona hans var Svava Þórhallsdóttir, frænka hans, eins og áður sagði.“

Í bókinni „Strand Jamestown“ segir Halldór Svavarsson frá því að „timbrið úr Jamestown hafi einnig verið notað í brýr, en mismikill metnaður var í smíði þeirra eins og gengur. Þannig voru plankar lagðir yfir Rauðará, svo að brúin líktist í raun eins konar hlemmi. Upp frá því var sú brú kölluð Hlemmurinn. Það heiti festist í hugum Reykvíkinga og er það nú eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, samanber Hlemmtorg“.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 273. tbl. 12.12.1981, Hundrað ára minning Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará eftir Gunnar M Magnúss, bls. 50-51.
-Óðinn, 4. tbl. 01.07.1909, Vilhjálmur Bjarnason, bls. 25-26.
-Heimsmynd, 4. tbl. 01.05.1990, Stórbóndinn á Rauðará og sonurinn á Hvanneyri, bls. 95-96.
-Hamar, jólablað des. 2021 – Hús í Hafnarfirði byggð úr timbri strandaðs skips – Halldór Svavarsson (Strand Jamestown), bls. 6.
Rauðará

Víkursel

Í „Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar“ árið 2024 segir m.a. um Víkursel (Öskjuhlíðarsel):

Víkursel

Víkursel – loftmynd frá 1946.

„Neðarlega í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar er tóft sem talin er hafa verið Víkursel. Um 70 m norðaustur af Háskólanum í Reykjavík og um 20 m austur af gangstígnum Bæjarleið, sem liggur norður-suður með vestanverðri Öskjuhlíð. Norðaustan við tóftina er lækjarfarvegur. Suðaustan við er rás sem sést vel á gömlum loftmyndum, sennilega eftir herinn, sem hefur raskað suðurgafli.

Víkursel

Víkursel?

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru í Öskjuhlíð að sunnan- og vestanverðu. Í lýsingu Reykjavíkur og Seltjarnarness segir: „En Seljamýri var kennd við sel frá Hlíðarhúsum, sem var undir Öskjuhlíð.“ Hlíðarhús var hjáleiga frá Vík en var orðin sjálfstæð jörð um 1600.
Síðasta selráðskonan í Öskjuhlíð var Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar úr Hlíðarhúsum, og segir í örnefnalýsingu frá selinu sem faðir hennar sagði að stæði í Reykjavíkurlandi: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð.“

Víkursel

Víkursel.

Lýsing: Jarðlæg sporöskjulaga tóft. Inngangur er ekki greinilegur, gæti hafa verið á suðausturgafli sem hefur raskast vegna rásar sem liggur um 15 m suður af henni. Veggjahæð 20 𝑥𝑥 50 cm. Tóftin er mikið skemmd af trjágróðri og liggur undir skemmdum vegna hans. Stórt grenitré vex í henni miðri og annað við suðurgafl hennar. Lítið gróin, sviðin af barri.“

Áður hefur verið fjallað um Víkursel hér á vefsíðunni (sjá leit). Þær lýsingar passa ekki alveg, hvorki við framangreinda lýsingu né staðsetningu nefndra selsminja! Hins vegar mætti vel skoða þær með hliðsjón af nálægum minjum sem og niðurstöðum annarra fornleifafræðinga varðandi „Víkurselið“ í gegnum tíðina.

Sjá meira um Víkursel HÉR.

Heimild:
-Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_2645.pdf

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð (FERLIR).

Járngerðarstaðir

Gengið var að Járngerðardysinni í Járngerðarstaðahverfi ofan við Járngerðarstaðabót og gamla sjávargatan rakin áleiðis niður að Fornuvör, þá leið er Tyrkirnir rötuðu 1627 heim að Járngerðarstaðabænum og hnepptu á annan tug heimamanna í þrældóm.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Skammt frá Fornuvör er Stokkavör. Vestan Fornuvarar eru Flúðirnar, þriggja stranda, og enn vestar er Litlabót. Þá tekur Hellan við ofan við Stórubót. Þar fremst á grasodda er Engelskalág og virki Jóhanns breiða (Joen Breen) þar sem 15 Englendingar voru drepnir á einni nóttu 1532 í atlögu hirðstjórans á Bessastöðum ásamt Þjóðverjum og landsmönnum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum, auk heimamanna í Grindavík. Þetta gerðist þann 11. júní kl. 02:00. Auk þeirra, sem drepnir voru, fórust nokkir Englendingar á flótta undan ströndinni. Með þessum atburði lauk “ensku öldinni” hér á landi.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns.

Breski togarinn Trocadero frá Grimbsby strandaði utan við Stórubót 6. september 1936. Öllum 14 skipverjunum var bjargað. Ýtarleg umfjöllun um strandið er í árbók SVFÍ 1936 með mörgum myndum sem Einar í Krosshúsum tók meðan á björguninni stóð. Á fjöru má sjá ketilinn úr togarnum í bótinni beint fyrir neðan Rásina.
Gengið var yfir Rásina frá Gerðisvallabrunnum, yfir Gerðisvelli og eftir Gerðinu þar sem Junkarar munu hafa hafst við. Garðurinn sést enn nokkuð vel. Getið er um Junkara á þessum stað í einni þjóðsögu og munnmælum. Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Skyggnisréttin á Skyggni var næsti áfangastaðurinn, en síðan var gengið yfir á Stekkhól og litið á stekkinn vestan undir hólnum, en hann er nú orðinn að mestu jarðlægur. Þá var haldið yfir að Hrafnagjá. Gjánni var fylgt til austurs, gengið um Hraunstekkina, framhjá Skjöldunni, fátækrahverfi þess tíma, og yfir í Einisdal. Einisdalur er falleg, stór, hraunlaut með vatni í botninn.
Þá var haldið að Stóruflöt skammt norðar, handan þjóðvegarins út á Reykjanes, en þar áttu skv. munnmælum að vera hlaðnar refagildrur. Það reyndist rétt. Þarna var a.m.k. að sjá eina refagildru og sporöskjulaga mosavaxna torráðna hleðslu. Loks var gengið til baka að upphafsstað, en að því búnu var boðið upp á bakkelsi í boði innbúa.

Skyggnir

Skyggnisrétt á Gerðavöllum.

Varða

Þekking á örnefnum var mjög mikilvæg fyrrum – af skiljanlegum ástæðum. Sérhver bóndi þurfti t.d. að þekkja vel staðhætti á jörð sinni til að geta vísað vinnufólkinu leið að tilteknum nauðsynlegum verkefnum, allt árið um kring. Þá gátu nafnkennd landamerki ekki verið látin sitja óbætt hjá garði.

Ásfjall

Ásfjall – Dagmálavarðan – stríðsminjar.

Skráðar örnefnalýsingar dugmikils fólks hafa löngum verið varðveittar og þar með hefur tilvist þeirra náð að festa í sessi, bæði þrátt fyrir og með nýbúendum einstakra jarða.
Í Hafnarfirði hafa, í gegnum tíðina, ýmst ágætisfólk verið duglegt að skrá örnefni bæjarins og nágrennis. Má þarf t.d. nefna, Magnús Jónsson, Stefán Júlíusson, Gísla Sigurðsson, fyrrum lögregluþjón og síðar forstöðumaður Byggðasafns Hafnarfjarðar. Hin mikla skráningararfleifð Gísla er nú að finna, reyndar í lokuðu rými, í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Örnefni og gönguleiðir

Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd…

Sesselja G. Guðmundsdóttir er einn þessara mikilvægu skrásetjara hvað Vatnsleysuströndina varðar, líkt og sjá má í bók hennar „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„. Ekki hefur hún einungis skráð svæðið heldur og gengið að öllum örnefnunum og lýst þeim af nákvæmni. Aðra markvissa skrásetjara á Reykjanesskaganum, þ.m.t. Vatnsleysuströnd og nágrenni, má nefna Ara Gíslason og Gísla Sigurðsson. Þá eru ótaldir öll þau er hafa annað að öðrum ólöstuðum, hvort sem þeir/þau hafa fæðst eða flust á einstakar jarðir, og nýtt tíma sinn til að skrá þekkt örnefni þeirra. Má þar t.d. nefna, óháð tíma, á vestanverðum Skaganum Sigurð Eiríksson í Norðurkoti, Leó í Höfnum, Jón Thoroddsen, Sigurð Sívertssen, bræðurna á Stóra Hólmi, Ragnar Guðleifsson og Sturlaug Björnsson, Lofts Jónssonar í Grindavík, auk Ólafs Þórarinssonar, Konráðs og Kristófers Bjarnasona í Selvogi svo fárra einna merkismanna sé getið. Einnig má nefna Ásgeir Jónsson er skráði Þingvallasvæðið og Hjört Björnsson fyrir lýsingar hans á Mosfellsheili.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.

Á austanverðum Skaganum verður fyrst og fremst vísað til einstakra presta, s.s. á Mosfelli og Reynivöllum með vísan til skráðra „Íslendingasagna“. Þorvaldur Thoroddsen hefur auk margra annarra skrásetjara dregið fram ýmis örnefni í sýslunni í ritum sínum.
Örnefni spila jafnan mikilvægan þátt í skráningu fornleifa. Gífurlegt magn handrita hefur í gegnum tíðina verið varðveitt markvisst hjá Örnefnastofnun í gegnum tíðina þar sem Jónína og Svavar sinntu sínum daglegu störfum af áhuga og mikilli fórnfýsi. Þegar áhugafólk þurfti til þeirra að leita voru viðbrögðin jafnan; „Gjörðu svo vel, hvað get ég gert fyrir þig?“ Slík ánægjuleg móttökuorð innan geirans hafa ekki heyrst síðan Örnefnastofnun var lögð undir hina „mætu“ Árnastofnun.

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

Örnefni og skráningar virðast, því miður, nú til dags, ekki alltaf fara saman þegar kemur að framangreindu. Að meginefni er a.m.k. um tvennt að sakast; annars vegar takmörkuðum skráningarmöguleikum og hins vegar hinni ágætu aðgengilegu fyrrum Örnefnastofnun við Neshaga með sínu takmarkaða húsnæði, fullnýttu skúfurými og hinum duglega mannskap, og hins vegar umfangið áður en hún var sameinuð í skrifstofu í Árnastofnun og í framhaldinu send upp í skrifstofuhróf við Laugarveg þar sem áhugsasamir þurftu að liggja löngum á dyrabjöllu inngöngudyranna til að nálgast upplýsingarnar, yfirleitt án árangurs. Hið vinsamlega viðmót starfsfólksins fyrrum virðist hafa verið látið víkja fyrir stofnanamennskunni.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum.

Af framangreindu að dæma hefur heldur dregið, bæði úr áhuga og örnefnaþekkingunni meðal landsmanna í seinni tíð. Landmælingar Íslands (lmi) hafa reynt að gefa út „örnefnakort“, sem bæði er þó að mörgu leyti villandi og í sumum tilvikum beinlínis röng. Í fjölmiðlanútímanum gæti fáfræði, meðal sumra, jafnvel talist kostur; því færri sem vita, því betra! Dæmi um slíkt er nýlegt manndrápsmál við Hraunhóla ofan Hafnarfjarðar er fjölmiðlafólkið kenndi við Krýsuvík. Að vísu eru Hraunhólarnir innan lands Krýsuvíkur, en reyndar á ystu norðurmörkum landareiganarinnar, víðs fjarri nafngiftinni.
Spurningin er þó hvort æskilegt sé að örnefnin munu hverfa með öllu út úr landslagsvitundinni er fram líða stundir, til ills eða góðs? Kannski þarf nútímamaðurinn ekkert á fyrrum örnefnum lengur á að halda? Snjallsíminn muni duga honum til allra þarfa? Hafa ber þó í huga að með hvarfi örnefnanna hverfur bæði hluti fornleifanna sem og sögunar.
Jafnan er sagt að fortíðin sé grundvöllur nútíðar vorrar þegar huga þarf að möguleikum framtíðar. Hafa ber í huga að á framangreindum rökum hefur Ísland verið byggt upp frá upphafi til vorra tíma.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Fornleifaskráningar bæja og sveitarfélaga hafa jafnan verið sagðar byggðar af „fagfólki“. Staðreyndin er hins vegar sú að einstök nátengd einkarekin „fagfélög“ hafa ráðið til sín nema í fornleifafræði við HÍ til sumarstarfa til að skrá fyrir sínar skuldbindingar einstök svæði. Nemarnir hafa jafnan til hliðsjónar tilfallandi örnefnalýsingar og byggja jafnan skráningar sínar á öðrum fyrirliggjandi gögnum. Til eru þó dæmi um að þeir hafi látið hjá að ómaka sig á vettvang einstakra minja og lýst þeim með fáfróðu orðaskrúði.

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ frá árinu 2007 er m.a. fjallað um „Arfinn“ þann er felst í örnefnunum:

Arfurinn
„Örnefni eru dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og ýmsa aðra hætti þeirra sem byggðu landið frá upphafi og til okkar tíma. Við sem erfðum landið höfum skyldur við þá sem næstir koma, meðal annars þær að vernda örnefnin og þá um leið söguna sem í þeim býr.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Örnefnafræði er grein af málfræði og er aðaltilgangur hennar að skýra nöfn, þ.e. leita uppruna þeirra. Örnefnaskýringar geta síðan varpað ljósi á hina ýmsu þjóðlífsþætti fyrri tíma. Sögnin „að örnefna“ er til og menn örnefna hóla og hæðir enn í dag þó svo að sögnin sem slík sé lítið notuð. Til gamans má geta þess að austur í Landsveit, á Dómadalsleið, er til örnefnið Boney M (nafn á popphljómsveit frá árunum um 1980). Tildrög þessa örnefnis var að fýrir nokkrum árum hitti maður ár sveitinni hörundsdökkt par þarna á bílaleigubíl og síðan þá er sandaldan kölluð Boney M! – Ekki beint þjóðlegt örnefni.

Sel

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.

Flest nöfnin í hreppslandinu hafa augljósa tilvísun og þá til landslagsins — náttúrunnar — og eru því svokölluð náttúrunöfn. Mörg þeirra draga þó nöfn af bæjum, mönnum eða bústörfum.
Í örnefnum felast oft skýrar myndir, svo sem í nöfnum eins og Hrafnabjörg og Einbúi. Hvaða hugmynd skyldi fólk fá þegar minnst er á Sóleyjakrika? Að öllum líkindum mynd af einhverju fallegu eins og t.d. sóleyjabreiðum og veðursæld. Kúadalur og Geldingahóll segja til um búskaparhætti en Ólafsgjá opnar sýn inn í slysfarir og dauða.
Þau eru nokkuð mörg örnefnin í þessari kennnileitalausu sveit sem gefa fyrirheit um eitthvað tilkomumikið en standa svo lítt eða ekki undir nafni við nánari athugun. Djúpidalur er aðeins grunn uppblásin dæld í heiðinni, Fögrubrekkur eru lágt klapparholt með grasrindum og Háhólar greinast tæplega frá öðrum hólum í grenndinni. Þessar nafngiftir eru þó ofur eðlilegar enda komnar frá fólki sem hafði sjaldan eða aldrei séð „raunverulega“ dali, háa hóla né grösug og víðáttumikil beitilönd í svipmiklum sveitum.
Sum örnefnin eru illræð eða óræð og slík nöfn vekja hvað mestan áhuga. Hvað merkja t.d. nöfnin Sprengilendi og Margur brestur? Af hverju í ósköpunum heitir varða Leifur Þórður? Áhugamaður um fræðin reynir til hins ýtrasta að finna lausn gátunnar. Stundum fæst líkleg niðurstaða en í annan tíma verður gátan torræðari því lengur sem vöngum er velt.
Við ættum vissulega að leggja okkur fram um að vernda örnefnin handa komandi kynslóðum svo þær megi hafa gagn og gaman af.“

Guðni Gíslason

Fjarðarfréttir – Guðni Gíslason, ritstjóri.

Hvernig væri framtíðin án þekkingu nútíðar og vitneskju fortíðar?

Ók fyrir skömmu með ritstjóra Fjarðarfrétta um Reykjanesbrautina, Grindavíkurveginn og Suðurstrandarveginn. Ókum m.a. í gegnum Grindavík, upp Siglubergshálsinn, austur fyrir Ísólfsskála, litum [G]núpshlíð augum sem og Lat og Stóru-Eldborg. Á leiðinni báru fjölmörg örnefni á góma, s.s. Krýsuvíkurheiði, Drumbur, Drumbdalastígur, Borgarhóll, Einbúi, Gullskjól, Svartaklettur, Ögmundarstígur sem og fjöll og tindar á Sveifluhálsi.

Ritstjórinn sat þegjandi um stund, aldrei þessu vant.
Loks, eftir að hafa horft um stund á umhverfið af athygli með hliðsjón af tilfallandi skýringum, virtist hann skyndilega vakna af dái: „Vá, spyr þú mig; hversu margir landsmenn skyldu hafa áhuga og jafnvel þekkja örnefnin er fram líða stundir. Þú gætir mögulega verið sá síðasti?“…

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, bls. 11-13, 2. útgáfa 2007.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt í Vogum.

Snorri

Hópur vaskra manna frá FERLIR og HERFÍ fór í hellinn Snorra, en hann fannst nýlega í Hvannahrauni. Tekinn var með 6 metra langur stigi, ljós og annar nauðsynlegur hellaskoðunarbúnaður, þ.á.m. hellamælingatæki er myndar og mælir slík fyrirbæri. Niðardimm þoka var á fjöllum, en með aðstoð jarðfræðikorts Jóns Jónssonar fannst jarðfallið.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Skriðið var niður í kjallara þann er áður hafði uppgötvast, stiginn dreginn niður á eftir og hann reistur upp við vegginn þar niðri. Klifrað var upp í rásina efst á veggnum, en einungis einn maður hafði farið þar upp áður með aðstoð stigans. Rásin liggur inn í meginrásina stóru, sem komið er að í jarðfallinu, og á bak við hraunið er lokar henni til norðurs. Þetta var heilleg rás á köflum og margt að sjá.
Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja. Það sem gerir Snorra mjög sérstakan er kjallarinn, sem liggur neðan við meginrásin, en frá kjallaranum þurfti þennan 8 m stiga til að komast upp í göng sem liggja upp í aðalrásina. Það dylst engum sem komið hefur í kjallarann og horft upp þá nær tíu metra sem þarf til að komast upp í meginrásina að þar hefur verið mjög tignarlegur hraunfoss þegar hraun flæddi um rásina.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins. Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hann lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.
Rétt er að geta þess, svona til upprifjunar, að FERLIR hafði mikið leita að opinu á Snorra. Nafni hans, Snorri Þórarinsson á Vogsósum, hafði bent á mikið jarðfall þarna í hrauninu, en þegar farið var að leita eftir lýsingu hans, rann allt hraunið saman í eitt.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Mjög erfitt er að leita hraunið, enda hver hæðin upp af annarri. Það var ekki fyrr en hraunið var gengið fram og til baka að skyndilega var staðið á brún þessa stóra jarðfalls. Þegar rásirnar niðri í jarðfallinu voru skoðaðar kom í ljós að þær lokuðust til beggja enda. Geysistór hraunrás er í jarðfallinu, fallega formuð. Þegar farið var að rýna í grjótið á botni jarðfallsins virtist myrkur undir. Eftir að nokkrir stórir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós kjallari undir meginrásinni. Kjallarinn reyndist hraunhvelfing í stærra lagi. Upp undir veggnum kom hraunfoss út úr honum og þar virtist vera gat. Eftir að aðstæður höfðu verið kannaðar síðar með aðstoð stiga, kom framangrein rás í ljós. Hún er ein hin fallegasta, en jafnframt ein sú óaðgengilegasta í hraunhelli hér á landi.
Frábært veður.

Snorri

Inngangur Snorra.

Þórkötlustaðir

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2006 er m.a. frásögn Benónýs Benediktssonar, fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Grindavíkur, um „Sjóferð úr Þórkötlustaðanesi í nóvember 1938„. Þar segir m.a.: „Haustið 1936 höfðu bræðurnir á Þórkötlustöðum, þeir Benedikt og Guðmundur, látið byggja fyrir sig bát. Báturinn var smíðaður í Staðarhverfi af Kristjáni frá Reynistað. Hann var skírður Svanur og bar einkennistafina GK428.

Benóný Benediktsson

Ógæftir höfðu verið miklar þetta haust. Ég vaknaði stundum á nóttunni þegar Guðmundur var að ganga stigann á Þórkötlustöðum. Þá var hann að líta á veðurútlit. Svo var það nótt eina undir lok nóvembermánaðar að Guðmundur ákvað að róa og það þrátt fyrir að veðurútlit væri tvísýnt. Hann kallaði saman mannskapinn með því að ganga á milli húsa og banka á glugga, bankað var á móti til að gefa til kynna að viðkomandi væri vaknaður.
Fundinn var til biti til að hafa með á sjóinn og að því loknu hófst skipsgangan sem var kortersgangur frá Þórkötlustöðum í Þórkötlustaðanes. Gangan gat verið torfær í svarta myrkri því það var bara fjósluktin til að lýsa sér með. Þegar komið var í Nesið fór Guðmundur í ískofann og rétti mönnum bjóðin.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Ískofinn var hlaðinn úr torfi og grjóti og reft yfir með timbri og járni og torf látið á þakið. Að innan var búinn til kassi sem var klæddur að utan með timbri en með sléttu járni að innan og timburlok yfir. Haft var ca, 15-320 sm millibil milli trés og járns. Reynt var að fá snjó í kofana í fyrstu snjóum á haustin og var oft mikið kapphlaup að vera fyrstur til að ná sér í bíl því bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma. Til að fá frost í kassann var blandað saman salti og snjó og var það sett í rýmið sem myndaðist milli trés og járns. Þetta þurfti að endurtaka með 2-3 daga bili svo að frost héldist í kælinum.

Þórkötlustaðir

Þegar bjóðin höfðu verið handlöguð upp úr ískofunum var þeim lyft upp á herðar á mönnum og þau borin niður á bryggju. Næsta verk var að setja niður bátinn, sem var í nausti. Oft var þetta erfitt verk. Þegar báturinn var kominn niður í vör þurfti að sæta lagi til að ýta á flot og þurftu þá menn að vera fljótir að koma sér um borð. Því næst var frið að bryggjunni og bjóðin tekin um borð.
Ekki var róið langt enda veðurútlit ekki gott og því var línan lögð um hálftíma siglingu frá Þórkötlustaðanesi. Heldur hafði vindur aukist á lagningunni og var orðið allhvasst þegar búið var að leggja línuna og var því ekki látið liggja lengi. Byrjað var að draga þó að enn væri svarta myrkur.

Bryggjan

Þegar heimsiglingin hófst var komið suðaustan rok og aðgæsluveður og var því siglt til lands á hægustu ferð [vél var í bátnum]. Í þessum bátum voru yfirleitt fornvélar og þurfti að passa vel að ekki kæmist raki að þeim.
Heimsiglingin gekk vel og var Svanurinn kominn að landi um hádegisbil. Afli í þessum róðri var aðeins nokkrir fiskar enda var mjög stutt lega á línunni.
Þegar að landi var komið þurfti fyrst að fara að bryggjunni til að losa fisk og bjóð. Oft var mikil lá við bryggjuna og þurfti þá að hafa mann til að halda í afturhaldið svo hægt væri að slaka á því þegar að álög komu. Þegar löndun var lokið þurfti að fara út á lónið og taka lag í vörina. Ekki voru þ
á fastir hlunnar og vélspilið kom síðar til sögunnar.“
Benóný er fæddur 1928. Hann var því tíu ára þegar umrædd sjóferð átti sér stað. Er frásögnin ágætt dæmi um minni og frásagnalist Þórkötlustaðabúa, sem of oft hefur verið vanmetin í gegnum tíðina.

Heimild:
-Benóný Benediktsson – Sjómannadagsblað Grindavíkur – 50 ára afmælisrit –  2006.

Bátar í nausti