Brandsgjá

„Ísólfsskáli er austasta býli Staðarkirkjusóknar í Grindavík og afskekkt mjög. Jörðin er fremur lítil.
Í sóknarlýsingu séra Geirs Bachmanns 1840 er jörðin talin 16 hundruð, en í Jarðatali Johnsens er hún sögð 4,5 hundrað. Hlunnindi nokkur fylgja jörðinni. Gisli Sigurdsson-221Rekar allmiklir og allskonar og selalátur. Rjúpnaveiðar á fjalli og í hálsum og hér fyrrum allgóð hreindýraveiði kringum Móhálsa. Túnið var bæði lítið og rýrt og varð ekki fóðruð af því kýr, en fjárjörð var Skálinn talinn vera. Útibeit góð í flestum árum og fjörubeit, sem aldrei brást. En það var aldrei heiglum hent að búa á Skálanum. Hefur nú í nær heila öld búið þar sama ættin, eða ættmenn Guðmundar Hannessonar. Verður hér sagður lítill þáttur um örlög eins þeirra, Brands Guðmundsonar, og fjölskyldu hans. Haft er eftir Árna Gíslasyni sýslumanni í Krýsuvík: „Góð jörð Skálinn, þegar ekki er búið á Völlunum“ (þ. e. Vigdísarvöllum).

1899 settust að á Ísólfsskála hjónin Brandur Guðmundsson og kona hans Estíva Benediktsdóttir. Brandur var sonur Guðmundar Hannessonar er lengi bjó þar og á Vigdísarvöllum og miðkonu hans Helgu Einarsdóttur. Estíva var dóttir Benedikts Jóhannessonar, ættaðs úr Húnavatnssýslu, og Kristín ar Guðnadóttur úr Hafnarfirði, af hinni merku Veldingsætt. Estíva hafði áður verið gift Sveini Kristjánssyni söðlasmið af Vatnsleysuströnd, höfðu þau búið þar, en Sveinn drukknað í lendingu 5. 9. 1893. Áttu þau eitt barn, Sesselju, sem fædd var 1889. Börn þeirra Brands og Estívu voru: Margrét f. 20. des. 1898, Sveinn Helgi f. 9. ágúst 1905 og Kjartan f. 5. des. 1908. Þegar þau fluttu að Ísólfsskála komu þau eiginlega sitt úr hvorri áttinni. Brandur hafði þá verið í vinnumennsku í Reykjadal í Ytrihrepp, en Estíva vinnukona í Suðurkoti í Krýsuvíkurhverfi og þar er dóttir þeirra, Margrét, fædd.
Lítill vafi er á því að búið á Skálanum hefur vaxið í höndum þessara dugnaðarhjóna, þar sem hvað eina, er jörðin hafði að bjóða, mun hafa verið sótt af elju og harðfylgi. Hvert haust gekk Brandur til rjúpnaveiða. Fyrir þann afla gat hann dregið í búið allverulega til jólanna. Haustið 1911 hafði hann orðið með betra móti fengsæll, svo að í byrjun jólaföstu hugðist hann fara með rjúpu til sölu til Hafnarfjarðar. Dag nokkurn snemma bjó hann sig til ferðar, lagði reiðing á hest, móskjóttan, er hann átti, stólpagrip, en hnakk á annan, rauðstjörnóttan. Brandi voru vel kunnar leiðir um vestanverðan Reykjanesskaga.
Í þetta sinn lagði hann leið sína inn með Núphlíðarhálsi að norðan, hjá Hraunsseli og um Selvelli, Sogin, Höskuldarvelli hjá Jónsbrennum og Eldborg þvert yfir lönd Hvassahrauns og Óttarsstaða á Suðurveginn við Gvendarbrunn hjá Óttarsstaðarauðamel, og þaðan til Hafnarfjarðar. Ekki fara sögur af viðskiptum, nema hvað Brandur lagði inn rjúpuna og tók vörur út, batt í trúss og bjóst svo til heimferðar.
Brandur Guðmundsson-221Það þótti ekki tiltökumál í þá daga, að menn fengju sér tár á glas þegar farið var í kaupstað. Brandur fékk sér því á glas, til að gleðja sig og vini ef svo bæri undir, að þeir yrðu á leið hans. En meðan Brandur var í Hafnarfirði gerði mikla logndrífu seinni part dags. Brandur lagði því ekki upp fyrr en morguninn eftir. Var þá upp stytt, en hné-djúp lausamjöll yfir allt. Brandur lagði svo af stað og hélt nú suður Hraun og Vatnsleysuströnd. Segja mátti, að færðin væri hin versta.
Upp úr nóni var Brandur kominn suður í Voga. Átti hann vinum að heilsa þar, sem var Benedikt Jónsson í Suðurkoti í Vogum. Þar kom hann og var vísað til baðstofu. Eitthvað hafði Brandur dreypt á glasinu og tók það nú upp og gaf vini sínum út í kaffi. Benedikt mun ekki hafa litizt vel á veðrið, því orð hafði hann á því við Brand, að bezt væri fyrir hann að gista hjá sér og fara ekki upp eftir fyrr en morguninn eftir. Bæði væri hann búinn að fara langa leið í mikilli ófærð og það sem eftir væri leiðarinnar væri þó enn verri vegur, aðeins götuslóði á kafi í fönn. Þar við bættist, að á Skógfellavegi væru margar gjár viðsjárverðar í björtu, hvað þá þegar hagaði til eins og nú, að allar leiðir væru kæfðar í snjó. Brandur sagði sem var, að fé hans væri úti um allt og enginn til að sinna því. Svo hefði hann trausta hesta, sem þekktu leiðina og treysta mætti fullkomlega. Þá væri hann ekki óvanur ferðum og á leiðinni þekkti hann hverja þúfu og hvern hól. Ræddu þeir vinirnir þetta nokkuð, en Brandi varð ekki um þokað í ætlan sinni, að ná heim um kvöldið. Kvaddi hann svo vini sína í Suðurkoti og lagði upp í ferð, sem varð honum sannarlega örlagarík.
Skógfellavegur var um aldir alfaraleið eða þjóðleið milli Voga og Grindavíkur. Var hún talin fjögra til fimm klukkustunda lestaferð í góðu færi. Næst Vogunum er leiðin heldur ógreiðfær og eru þar margar gjár og sumar hættulegar. Fyrst er Hrafnagjá og snýr norðurbarmur hennar mót suðri. Þar suður af er svo Huldugjá, þá Holtsgjá, Litla-Aragjá og Stóra Aragjá og er hún syðst. Þar sem vegurinn liggur hefur verið hlaðið í gjárnar, en víðast hvar er hyldýpi beggja megin við. Þegar komið er yfir Stóru-Aragjá tekur við allgóður kafli allt upp að Litla-Skógfelli. Með Fellinu er leiðin heldur ógreiðfær. Þaðan og að Stóra-Skógfelli er leiðin aftur greiðfær um sléttar klappir, þar sem hesturinn hefur rutt götur í klappirnar. Gleymir enginn þeim götum, sem einu sinni hefur séð þær. Þegar suður kemur um Stóra Skógfell tekur við apalhraun og er vegurinn ruddur þar allt niður í Járngerðarstaðahverfi. Þegar haldið er í Þorkötlustaðahverfi er afleggjari neðan til í hrauninu. En ef farið er til Ísólfsskála er stefnan tekin frá Stóra-Skógfelli á Kastið, múla í Fagradalsfjalli, á leið, er þar liggur og heitir Sandakradalsvegur, allt heim á Skála.
Skogfellavegur - 221Brandur hélt nú upp úr Vogunum kl. langt gengin 6 og fór fyrst nýja veginn. Þegar kom undir Stapann lagði hann á Skógfellaveginn. Mátti segja að þegar kæmi í ljós, að þarna var umbrotafærð. Tók Brandur það ráð að láta þann móskjótta ráða ferðinni. Gekk hann svo i spor hans og teymdi hinn. Gekk nú ferðin hægt en þó hiklaust. Móskjóni þræddi slóðina og að því er virtist skeikaði honum hvergi, þrátt fyrir aðsteðjandi myrkur og umhverfið ein mjallhvít breiða, kennileitalaus óravíðátta án upphafs eða endis. Hvergi var snjórinn grynnri en í hné á hestunum og víða í kvið. Vegalengd sem farin hafði verið á klukkustund, varð nú að tveggja klukkustunda leið. Allt í einu rís upp framan við þá Brand og hestana hæðarhryggur. Móskjóni víkur þá aðeins til hægri. Mun Brandur hafa haldið hestinn vera að fara afvega og víkur honum til vinstri upp hæðarhrygginn. Er upp á hrygginn er komið og farin hefur verið um ein hestslengd gefur fönnin eftir og hesturinn tekur að síga niður. Brandur er ekki höndum seinni að grípa í baggana og kippa þeim upp af klökkunum, en hesturinn sígur meira og meira. Brandur þrífur í reiðinginn og reynir að halda hestinum uppi. Hesturinn brýst um og gerir hvað hann getur til að komast upp, en allt kemur fyrir ekki, hann sígur meira og meira, og loks er hann horfinn niður í jörðina svo að rétt sést móta fyrir höfðinu. Brandur er ekki í minnsta vafa um að hesturinn hefur fallið í gjá, og þetta er einmitt Stóra-Aragjá, syðsta gjáin á leiðinni.
Hvort sem Brandur hefur staðið þarna yfir hestinum… föllnum í gjána, lengur eða skemur, verður honum það fyrir, að hann snýr aftur til Voga að sækja sér hjálp, ef vera mætti, að hægt væri að bjarga hestinum. Leggur hann svo leið sína að Suðurkoti til vinar síns Benedikts. Brá fólkinu við að sjá Brand kominn þarna, en ekki minna er hann segir farir sínar og þær ekki sléttar, að hann hafi misst úrvalsgripinn sinn Móskjóna í Stóru-Aragjá. Bað hann vin sinn að vera sér hjálplegan og útvega menn til að bjarga hestinum upp úr gjánni, eða ef það mætti ekki takast þá að hann yrði aflífaður. Var nú skjótt brugðið við og leitað manna til ferðar. Urðu til þess þrír menn: Eyjólfur Pétursson, Þorsteinn Brynjólfsson og Baldvin Oddsson, sem einn er á lífi þessara manna og man atburð þennan ekki ver en atburð dagsins í gær. Þeir komu saman í Suðurkoti og ráðgerðu ferðina. Brandur hafði haft þann rauðstjörnótta með sér og var hann nú settur í hús.
Nú skal taka til veðurlýsingar öðru sinni. Þegar Brandur lagði í rökkurbyrjun upp frá Suðurkoti gerði níðsluslyddu. Af þessum sökum varð Brandur því nær alvotur. En ekki sakaði meðan frostlaust var. Brandur var því blautur og hrakinn er hann kom aftur að Suðurkoti. Vildu húsráðendur þá endilega, að hann færi ekki lengra heldur tæki sér gistingu. Brandur var enn ósveigjanlegur að halda ferðinni áfram. Kvað nú eina skylduna hafa bætzt við, að hann héldi áfram, að sjá hvernig Móskjóna sínum reiddi af. Og hversu hart sem að honum var lagt fór hann af stað með fyrrtöldum hjálparmönnum. Þeir þræddu nú slóðina suður, en nú hafði enn orðið breyting á veðri. Gerði heiðríkju með froststirðnanda í fyrstu, sem óx mikið er leið að miðnætti og gerði þá hörku frost.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Þegar þeir félagar komu á barm Stóru-Aragjár, var ekki björgulegt um að litast. Móskjóni sokkinn enn dýpra í gjána og enga björg hægt að veita. Varð það úr að hesturinn var skotinn þar sem hann var kominn. Liggja því beinin hans Móskjóna frá Skálanum á botni Stóru-Aragjár. Var því ekki um annað að gera fyrir Vogamenn en halda heim. Ekki vildi Brandur fylgja þeim hvernig sem þeir lögðu að honum. Mátti sjá að Brandur var orðinn allþrekaður og blautur og frostið harðnandi. Konan ein heima með börnin og féð um alla haga. Og þar sem ekki tjóaði Brand að letja, skildi þarna með honum og Vogamönnum. Sagðist Brandur mundi halda að Stóra-Skógfelli og þaðan taka stefnu í Sandakradal undir Fagradalsfjalli.
Í Suðurkoti var enn ljós er þeir komu þangað Vogamenn. Í vökulokin hafði annar Grindvíkingur komið að Suðurkoti, Magnús Þorláksson, frá Móum í Þorkötlustaðahverfi. Er hann heyrði um ferðir Brands og ásigkomulag allt var honum ljóst, að hann væri hjálparþurfi. Bjóst hann því til ferðar. Magnús hélt sporunum allt suður um Stóru-Aragjá. Sá hann glöggt leið Brands og hélt áfram. Þegar hann kom að svo nefndum Hálfnaðarhól er Brandur þar. Verður þeim báðum bráðlega ljóst, að Brandur er kalinn á fótum, eru fæturnir tilfinningarlausir allt að ökklum. Kom það á daginn, að Brandur hafði ekki verið sem bezt búinn í fæturna, í einum sokkum og með íslenzka skinnskó. Mun þeim félögum ekki hafa virzt annað mögulegt en reyna að halda ferðinni áfram. Gekk Magnús fyrir en Brandur í spor hans. En seint gekk ferðin, því víða voru kafhlaup. Magnús fylgdi Brandi að Hrafnahlíðum bak Sigluhálsa. Þá hafði Brandur sagt, að hann kæmist nú heim. Bað Brandur Magnús að koma við á Hrauni og fá Guðmund bróður sinn að koma og huga að fénu, en fara svo að Þorkötlustöðum og fá Hjálmar bróður sinn til að senda menn til héraðslæknisins Þorgríms Thoroddsens í Keflavík og fá ráðleggingar hjá honum um meðferð á kalinu. Magnús gerir nú þetta. Svo sögðu þau hjónin Guðmundur og Agnes á Skálanum, að það hafði verið undir fótaferðatíma sem Magnús guðaði á gluggann hjá þeim þennan morgun og sagði þeim tíðindin. Guðmundur brá þegar við og fór að Skálanum. Þetta haust hafði Guðmundur gert sér skíði úr valborðum. Brá hann þeim undir fætur sér og hélt að Skálanum. Var Brandur þá kominn í rúmið. Guðmundur fór þegar að huga að fénu, austur á Töngum, Selatöngum, og upp undir Hlíð. Hafði féð hnappað sig og var ekkert hægt fyrir það að gera eins og á stóð. Segist Guðmundur aldrei hefði komizt þessa leið hefði hann ekki haft skíðin. Hjálmar sendi þegar tvo harðfríska unga menn til Keflavíkur, þá Júlíus son sinn og Gísla Hafliðason frá Hrauni. Fóru þeir til Keflavíkur og til baka aftur samdægurs, og segist Júlíus sjaldan hafa þurft að leggja harðara að sér en í þetta skipti. Daginn eftir fór hann austur á Skála. Honum sagðist svo frá á síðastliðnu sumri, er hann var inntur eftir: Þegar ég kom að Skálanum og inn í baðstofu sat Brandur á rúmstokknum, með sængur utan um sig, en báðar fæturnar í vatni. Þá var það siður að þýða kal með köldu vatni og helzt kældu með snjó eða klaka. Ég segi það eins og það er mér lá við yfirliði. Eg gekk út, þoldi ekki að horfa upp á þetta. Á Þorláksmessudag, var Brandur fluttur til Keflavíkur og þar var hann undir læknishendi fram á fyrsta sumardag 1912. Kom þá heim örkumla maður. Allar tærnar af báðum fótum og helmingur ristanna. Skein í hælbein annars fótar bert.
Estiva - 221Þegar allar aðstæður eru athugaðar er ekkert undarlegt þó Brandur legði kapp á að komast heim. Á Skálanum er fjörubeit mikil og góð en flæðihætta um alla fjöru, heiman frá bæ um Ragnagjögur og Göngukvennabása allt austur á Selatanga. Konan með drengina tvo heima,, en þá var Margrét vestur í Járngerðarstaðahverfi í skóla. Er Margrét kom í skólann um morguninn, sá hún að eitthvað var á seyði. En hvað og hvort það snerti hana, vissi hún ekki, fyrr en skólastjórinn kallaði hana á eintal og sagði henni hvernig komið væri og nú yrði hún að fara úr skólanum til mömmu sinnar og vera henni til aðstoðar. Snemma leggjast þungar byrðar á veikar herðar og grannar. Og hvert var nú hlutverk Estívu, konunnar, með börnin 12, 6 og 3 ára? Jú, auk húsmóðursstarfanna voru gegningar fjárins. Fara upp hverja nótt og ganga á fjörur, fara út í sker hvernig sem viðraði og reka upp. Skiljandi börnin ein eftir í bænum. Hvað mundi verða um þau ef eitthvað kæmi fyrir hana á leiðinni? Enda stóð hún oft hikandi við dyrastafinn og horfði út í svarta nóttina, að fara eða fara ekki. Sama spurningin nótt eftir nótt. Barátta, hörku barátta, hverja stund, hverja nótt, hvern dag og sigur, en hver er hamingjusamur þó sigur vinnist eftir þvílíka baráttu? Þau Brandur og Estíva bjuggu á Skálanum til fardaga vorið 1912. Fluttust þá í þurrabúð að Hópi og bjuggu þar til vors 1915, að þau fluttust til Hafnarfjarðar. Þar skildu þau samvistir.
Enginn skyldi halda að sjálfsbjargarviðleitni þessa fólks væri buguð, þó allmikið blési á móti. Brandur stundaði sjó eftir sem áður og reri á opnum skipum frá Grindavík og enn var hann með beztu ræðurum, sem þar flutu. Reri hann víða um land, á Austfjörðum og Langanesi. Hann var á kútterum bæði frá Hafnarfirði og víðar og hann var með á því skipi, sem seinast sleytti kili við klappir í Dritvík, auk þess stundaði hann alla verkamannavinnu sem til féll hér í Hafnarfirði: uppi á reitum og niðri í skipum við Hafskipabryggjuna. Og Estiva átti eftir að standa við fiskþvott í mörg ár hér í Hafnarfirði eftir þetta og ganga til hverskonar starfa.
Milli þessa fólks var aldrei einu orði minnzt á þessa hrakninga. En þessi örlagasnjór mun þó hafa lagzt þungt á alla. En þau urðu afdrif hans, að hlýindi gerði rétt á eftir og leysti snjóinn allan upp. Því hefi ég gerzt langorður um þetta, að ég þekkti þetta fólk. Það var lengi hér meðal okkar Hafnfirðinga. Ungur heyrði ég frá þessu sagt og það festist mér í minni. Þegar ég svo frétti að ekki hafði verið eitt orð um þetta skrifað, þá langaði mig að safna því saman sem sannast væri um þetta og var svo lánsamur. að hitta fyrir langminnugt fólk og trútt í frásögn, sem gat frætt mig um viðburði þessa.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Gísli Sigurðsson, jól 1967, bls. 7, 9 og 10.

Brandsgjá

Brandsgjá.

Gerði

Starfsmannafélag álversins í Straumsvík ákvað að halda góðan vorfagnað í sumarbyrjun. Að sjálfsögðu varð Gerði, starfsmannahús fyrirtækisins, fyrir valinu sem vettvangur blótsins. Leitað var til FERLIRs um upphitunina – því hvað er lystugra en góð gönguferð fyrir lambalundirnar. Gengið var um nágrennið og rifað upp ýmislegt það er tengdist minjum, íbúum, sögu og náttúru þess. Enda af fjölmörgu var að taka. Svæðið sem slíkt er heilstætt búsetuminjasvæði, eitt hið ákjósanlegasta á gjörvöllu höfuðborgarsvæðinu – og jafnframt það nærtækasta.

Gengið af stað

Gerði og Péturskot voru hjáleigur frá Þorbjarnastöðum. Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti Gerði skömmu fyrir aldarmótin 1900.  Bárujárnshúsið í Gerði (starfsmannafélagshúsið) stendur nú þar sem bærinn var.  Um var að ræða þrætu[sumar]bústað. Eigandinn lenti í þeirri aðstöðu að fá, án þess að fá nokkru um það ráðið, heilt álver ofan í náttúrudýrðina. Álfélagið gerði samkomulag við eigandann og fékk bústaðinn í því ástandi sem hann var og færði starfsmannafélaginu til endurbóta. Þá var þar einungis norðvesturhorn núverandi húss, en síðar var bætt við það litlu húsi við suðausturhlutann. Starfsmannafélag Álfélagsins endurgerði húsið af fórnfýsi um 1990 og bætti þá við forstofu og salerni að austanverðu. Útihúsin, hlaðin, eru vestan við bæjarhúsið. Péturskot var einnig fyrst byggt skömmu fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra.
Norðurtakmörk Þorbjarnastaða er, samkvæmt máldaga Hvaleyrarkirkju frá 15. öld, norðurbrún Nýjahrauns milli fjalls og fjöru. Af þessari landareign á hver jörð sitt umgirta tún, en utantúns á Þorbjarnarstaðir 3/4 en Stóri-Lambhagi 1/4.“ Þetta er skráð eftir örnefnalýsingu frá árinu 1978 og m.a. byggt á bréfi dags. í Hafnarfirði 1890 og lýsingum fólks, sem fætt er og/eða uppalið í Hraunum.
Þorbjarnarstaðir eru jörð í Hraununum svonefndu. Þeir tilheyrðu áður Álftaneshreppi, en eru nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.
Byrjað var á því að fylgja kirkjugötunni upp á Alfaraleið og síðan elta áhugaverða minjastaði beggja vegna leiðarinnar, s.s. fiskagildrur, skotskjól, brunna, ker, stekkiog fjárskól. Við tóftir Þorbjarnastaða var staldrað og reynt að gera viðstöddum í hugarlund hvernig bærinn hefur litið út þegar allt var þar í blóma; bæjarhúsin, traðirnar, brunngatan og réttargatan, heiti dalanna, hólanna og hæðanna. Mikið hafði breyst á tæplega 70 árum.
Gangan heldur áfram„Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt. Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu. Frá bænum lágu traðir austur túnið og skiptu því í tvennt. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út í gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið. Frá norðurhlið bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið. Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.“
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Mosinn var sóttur út í Kapelluhraun (sjá síðar), sem er í annarri átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti.
Í suðurtúninu var lægð, sem nefnd var Dalurinn syðri. Kringum hann lá Flötin syðri, allt upp að traðargarðinum syðri. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.
og áfram...Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði. Er þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhúshliðið. Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.) Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar. Í skrá Gísla segir, að þær séu út frá Mosaskarði. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni.

Norðan Balanna var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Í tjörnum þessum lifir dvergbleikja, allsérstök tegund. Stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Gerðistjörn

Gerðistjörn.

Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir  eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur. Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur Rauðhólar.

og áfram...

Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur. Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur Rauðhólar.
Suðvestan Þorbjarnarstaðatúns er Miðmundahæð, eyktamark frá Þorbjarnarstöðum. Þar er stór varða.
Búskapur lagðist af á Hraunabæjunum um 1930, en síðast var búið á Þorbjarnastöðum árið 1939. Þá höfðu bæði Gerði og Péturskot lagst af. Sverrir, kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði, byggði síðan sumarbústað á tóftunum.
Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.
Gengið var um Draugadali, Slunkaríkið skoðað sem og Kristrúnarborgin (Óttarstaðaborgin). Mæting í grillið við Gerði varð á matréttarslaginu.
Frábært veður. Gangan (með leiðsögn) tók 2 klst og 2 mín.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta ÓSÁ.

 

Herdísarvík

Ólafur Þorvaldsson ritaði m.a. um gestakomur í Herdísarvík, „Gestir af hafi“, í Sjómannablaðið Víking árið 1953:
olafur thorvaldsson„Á þeim árum, sem ég bjó í Herdisarvík, vorum við hjónin oft spurð að því, hvort ekki væri ákaflega leiðinlegt að búa þar, hvort ekki væri þar voðalega afskekkt og einangrað, hvort nokkum tíma sæist þar maður. Tveimur fyrri spurningunum svöruðum við, einkum þó ég, á þá leið, að ekki væri leiðinlegt að búa í Herdisarvík, heldur þvert á móti skemmtilegt, þótt nokkuð mætti teljast þar afskekkt og þótt ekki væri hægt að segja, að hún lægi nú lengur í þeirri þjóðbraut, sem áður á árum, þegar menn úr austursveitum og sýslum fóru sínar skreiðar- og lestaferðir út með sjó, svo og meðan vermenn úr þessum sömu sýslum gengu þar um til vers og úr veri, en hvort tveggja þetta mun hafa lagzt niður um svipað leyti, og mun það hafa verið á tveim fyrstu tugum þessarar aldar. Þriðju spurningunni munum við oftast hafa svarað á þá leið, að fleiri gesti bæri að garði í Herdísarvík heldur en við hefðum þorað að gera okkur vonir um í upphafi, enda þótt ég vissi áður nokkuð um, að ekki var alltaf mannlaust þar.
Það er eitt og annað í sambandi við gesti okkar í Herdísarvík, sem æðimargir urðu í þessi sex ár, sem við bjuggum þar, sem ég ætla að rifja upp fyrir sjálfum mér, þar eð flestra gesta okkar þar minnist ég enn með ánægju. Heldur mun ég fara fljótt yfir sögu hvað snertir hina almennu gestakomu, þ.e. þeirra gesta, sem vænta mátti hvenær sem var, þekktra gesta eða óþekktra, sem ýmist dvöldu næturlangt eða allt að viku, og annarra, granna eða langferðamanna, sem með garði fóru, en litu í bæinn, okkur til mikillar ánægju og sjálfum þeim til hvíldar og hressingar.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Svo sem að framan getur, þá var á þessum árum (1928—33) tími skreiðarferða og vermanna liðinn, og var því aldrei þessara manna von. Samt sem áður voru ekki allir hættir að ferðast þessa leið. Þegar kom fram á vorið og sumarið og hagar voru komnir fyrir hesta, fór að lifna yfir umferðinni. Framan af sumri voru það einkum menn utan frá sjó, Grindavík og Suðurnesjum, sem komu til fjárleita og fóru þá oft allt til Selvogs. Oft voru menn þessir nokkrir saman og voru marga daga í þessum ferðum. Alltaf komu þeir við í Herdísarvík og gistu stundum. Um hásumarið komu oft stórir eða smáir hópar fólks. Einkum var þetta fólk frá Hafnarfirði og Reykjavík. Allt var þetta fólk á hestum, því enginn var þá bílvegur kominn um þær slóðir. Oft gistu hópar þessir, og var stundum þröngt á því þingi, þar eð húsakosturinn var ekki mikill, fimm rúm i tvískiptri baðstofu auk gestarúms í frammistofu. Helzt var fólk þetta á ferð um helgar, og var þá flest að fara hringinn, svo sem nú er sagt, þegar farið er um Krýsuvík til Selvogs og Ölfuss, en lengri tíma tók það þá heldur en nú.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Fyrir kom það, að menn kæmu gangandi, einn eða fleiri saman. Ýmist komu menn þessir beint yfir fjallið frá Hafnarfirði, og lá þá leiðin langt austan Kleifarvatns, — eða þeir komu um Krýsuvík. Sumir þessara manna voru vinir okkar og þá í skyndiheimsókn, aðrir okkur lítt eða ekkert þekktir, svo sem bóksölumenn, trúboðar o. fl. Eitt sumarið kom til okkar Árni Óla blaðamaður og gisti hjá okkur. Var hann þá að ganga hringinn og mun hafa verið að safna efni í bókina „Landið er fagurt og frítt“. Höfðum við mikla ánægju af heimsókn hans. Eitt sumarið dvaldist próf. Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur, ásamt þýzkum stúdent, um vikutíma hjá okkur. Voru þeir með fjóra hesta og nokkurn farangur. Mest voru þeir við rannsóknir hrauna og eldgíga uppi á fjalli og komu venjulega ekki heim fyrr en á kvöldin. Þágu þeir þá stundum kvöldmat í bænum. Svona mætti lengi telja gestina. Ég skil nú við sumargestina, en minnist lítillega aðal haustgestanna.

Herdísarvík

Vinnufólk í Herdísarvík.

Á hausti hverju var nokkur gestakoma, einkum var það kringum réttir og oft nokkuð þar fram yfir. Til Selvogs- og Ölfusrétta sóttu menn úr Garðahreppi og Hafnarfirði. Þeir, sem af Suðurnesjum komu, fóru um í Herdísarvik og stöku sinnum Hafnfirðingar. Þótti þeim betri reiðvegur um Krýsuvík heldur en fara austur yfir fjall um Kerlingarskarð. Urðu þeir að nátta sig í Selvogi og ríða svo upp í réttir að morgni, vildu þá eins vel gista í Herdísarvík, enda voru þetta þá oftast gamlir kunningjar okkar og þóttust slá tvær flugur í einu höggi með því að gista hjá okkur. Það var stundum þröngt þessar nætur í bænum í Herdísarvík; gekk heimafólk flest úr rúmum og lá þá í flatsængum í framgöngum. Oft urðu þrír að hafast við í einu rúmi eða ætluðu að gera það, en stundum var einum sparkað út úr hreiðrinu, og vaknaði sá þá stundum liggjandi á gólfinu. Allt fór þetta fram í mesta bróðerni, og var oft glatt á hjalla. Stundum var spilað lengi nætur. Venjulega voru það sömu mennirnir haust eftir haust, sem þessar útréttir sóttu, og voru þvi okkur vel kunnir og velkomnir gestir, sem og allir, sem komu. Þessir menn þekktu vel húsakost okkar, en gerðu sér allt að góðu, sem fyrir þá var gert.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Um og eftir síðustu réttir var stundum fallinn það mikill snjór á Kerlingarskarð og fjallið þar austur af, að bændur úr Selvogi, sem áttu órekinn sauðarekstur og mylkar ær til slátrunar, treystust ekki að reka féð þá leið og urðu í þess stað að reka um Herdísarvík og Krýsuvík, þar eð sú leið gat verið snjólaus með öllu, þótt dyngja væri komin á fjallið. Þegar svona bar undir, fór það eftir því, hve snemmbúnir þeir urðu heiman að, hvort þeir heldur náttuðu sig í Herdísarvík eða Krýsuvík. Þessir sauðarekstrar voru æðifjármargir, þar eð allir bændur úr Selvogi áttu þar sauði og annað síðheimt förgunarfé og Selvogsbændur sauðamargir í þá daga. Margir menn fylgdu þessum rekstrum, og var þá sungið og kveðið fram eftir vökunni, þegar þeir gistu í Herdísarvík, og svo kann víðar að hafa verið.

Herdíarvíkurgata

Herdísarvíkurgata.

Ég hef hér að framan nokkuð dvalið við vor- og sumargesti, sem til Herdísarvíkur komu og gátu komið hvenær sem vera vildi. Líka hef ég minnzt á haustgestina, sem margir voru nokkuð tíma- og árvissir, — en það komu fleiri gestir en þeir framan töldu. Við komu þessara gesta mun ég einnig nokkuð dvelja í þessum minningum, svo hugstæðir eru mér margir þeirra. Ekki komu gestir þessir daglega, og aldrei þurfti að vonast eftir þeim i níu til tíu mánuði af árinu. Hvorki komu þeir ríðandi né gangandi. Þeir komu af sjó. Gestir þessir voru Færeyingar.
Þegar kom fram um mánaðamótin febrúar —marz, fórum við að huga að gestakomu á ný.
Ekki þurfti að horfa til austurs né vesturs eftir gestum þeim, sem nú var helzt að vænta. Þeir komu allir af hafi. Þetta voru færeysku fiskimennirnir, sem sóttu á Íslandsmið á skútum sínum. Flestar lögðu þessar skútur úr heimahöfn í febrúar og fyrst í marz. Allar voru þær með handfæri einvörðungu. Flestar munu skútur þessar hafa verið um 150, sem hingað sóttu. Eftir að skúturnar voru komnar vestur með landinu, sást oft heiman frá Herdísarvík, eftir að dimmt var orðið, svo að segja ljós við ljós fyrir allri víkinni.
Herdisarvik 1930Hvaða erindi áttu svo öll þessi erlendu skip til þessarar afskekktu víkur? Vil ég nú skýra það nokkuð. Flest skipanna komu þangað til þess að afla sér vatns eða íss, annars eða hvors tveggja. Mörg voru þau búin að vera svo vikum skipti í sjó og þessar nauðsynjar ýmist að mestu þrotnar eða svo á þær gengið, að viðbótar var talin þörf. — Herdísarvík var eini staðurinn frá Vestmannaeyjum allt vestur fyrir Reykjanes, þar sem mögulegt var fyrir skip að afla sér þessara nauðsynja. Ég held, að Færeyingar hafi litið á Herdísarvíkina sem nokkurs konar Færeyingahöfn fyrir suðvesturlandinu, og þannig heyrði ég orð falla milli tveggja skipstjóra. Svo mikils virði var þeim að geta fengið þarna ótakmarkað vatn — og venjulega ís eða snjó eftir þörfum — móts við það að þurfa að öðrum kosti að sækja þetta — helzt annaðhvort til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur og þurfa þar að borga það með peningum.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Svo sem fyrr er sagt, var erindi flestra skipanna það, að fá neyzluvatn, ís eða snjáur, eða eins og sumir sögðu kava, sbr. kava-rok, skafbyl, sem við segjum. Ísinn og snjóinn notuðu þeir að sjálfsögðu í frosthólf skipsins til varðveizlu beitu. Ekki voru öll skipin, sem upp á vikina komu, í framangreindum erindum. Það var á þeim tíma, sem hér um ræðir, ófrávíkjanleg regla Færeyinga að fiska ekki á sunnudögum eða öðrum helgidögum. Þá daga slöguðu skipin fram og aftur eða héldu sér við á vélinni um miðin, þar til aftur var farið að fiska. Þegar Færeyingarnir voru á fiski út af Herdísarvík eða vestur með Krýsuvíkurbergi, sem varað gat svo vikum skipti, komu mörg þessara skipa upp á Víkina og lögðust þar fyrir akkeri og voru þar til sunnudagskvölds. Þetta var þó því aðeins, að stillur væru eða vindur stæði af landi.

Herdísarvíkurgötur

Herdísarvíkurgötur.

Svo sem fyrr segir, þá var erindi flestra skipanna að fá vatn eða ís, og oft sama skipið hvort tveggja. Væri ekki ís á tjörninni, þá tóku þeir snjó, væri hann fyrir hendi. Þegar fram á vertíðina kom og snjór horfinn neðanfjalls, leyndist hann stundum í djúpum kerum í hrauninu. Af þessum stöðum vissi ég, og Færeyingarnir vissu, að ég vissi. Þegar allur snjór var uppurinn neðan fjalls, voru oft skaflar efst í fjallinu. Þá klungruðust þeir eftir honum þangað og báru hann á bakinu og höfðinu til sjávar. Var þetta löng leið og erfið mönnum i sjóstökkum og fullháum vaðstígvélum, en hér var mikið í húfi, beitan lá undir skemmdum, og henni varð að bjarga. Ég sagði áðan, að þeir hefðu borið á bakinu og höfðinu, og vil ég skýra þetta nánar. Þegar komið var i pokann það, sem þeir gátu mest farið með, var bundið fyrir op hans. Síðan var kaðli brugðið um pokann nálægt miðju og bundið að; þó var ekki nær bundið en svo, að maðurinn gat brugðið kaðlinum fram um enni sér, þegar pokinn var kominn á bak hans. Þannig báru þeir oft langa leið og vonda án þess að hafa hendur á bandinu, létu bara hausinn hafa það. Ég lét stundum í ljós undrun yfir, hve sterkir þeir voru í hausnum og þó einkum hálsinum. „Já, svona berum við torfið, blessaður“, var svarið, sem ég fékk, og mun ég víkja lítillega að þessu síðar.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Þegar þykkur ís var á tjörninni, brutu þeir hann upp með járnum eða öxum og roguðust svo með jakann í fanginu, á bakinu eða á milli sín ofan í bátinn, sem alltaf varð að halda á floti, vegna þess að oftast var einhver lá í Bótinni. Stundum tók hvert skip ís í 2—3 báta, einkum þau stærri, sem stórar ísgeymslur höfðu. Einhverju sinni — það mun hafa verið komið fram í apríl og allan snjó löngu tekið upp neðanfjalls — var barið á stafnglugga baðstofunnar og það allharkalega; þeir hafa víst haldið, að fast væri sofið. Þegar ég leit út, sá ég að hópur manna stóð fyrir utan, voru sumir með stór vasaljós í höndum, en aðrir báru ljósker. Ég bjóst við, að hér væru komnir strandmenn, en svo var nú ekki. Einn hefur strax orð fyrir og segir: „Veiztu nokkurs staðar af snjáur, blessaður?“ Ég klæddist í skyndi og gekk út. Þarna var kominn skipstjóri með sína vakt af kútter „Harry“, einu hinna gömlu Reykjavíkurskipa. Skip þetta hafði fengið síld senda að heiman til Vestmannaeyja daginn áður, og þar sem þeir gátu þá ekki fengið ís í Vestmannaeyjum, lá síldin undir skemmdum. Hann sagðist þá hafa sett til öll segl og vélina á fulla ferð og stefnt vestur til Herdísarvíkur í von um, að þar væri snjó að fá. Ég sagði skipstjóranum, að allur snjór væri þorrinn ofanjarðar, en snjór mundi vera í djúpum kerum uppi við fjall, en óvíst, hvort ég hitti á þau nú í myrkrinu, og þótt svo yrði, þá þyrfti að síga ofan í kerin og hala snjóinn upp. Ekki setti skipstjóri neitt af þessu fyrir sig, enda mun mörgum Færeyingnum hafa boðizt brattara sig heldur en hér gat orðið um að gera.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Var svo lagt af stað og stefnt til fjalls. Lestuðu menn sig um hraunið, og vildi sumum verða hnotgjarnt í myrkrinu, enda heldur stirt búnir til gangs. Ljósin báru þeir, sem á eftir gengu, því að ég treysti mér betur til að finna kerin í myrkri heldur en við ljós, því að það gerði dimmra út frá sér. Kerin fundum við, og ofan var sigið með ljós. „Já, já, nógur snjóur, gamli“, var kallað upp af þeim, sem fyrstur fór niður. Þarna var tekinn snjór í tvo báta.
Þegar Færeyingar tóku vatn eða ís fyrsta sinni, vildu flestir skipstjórarnir borga eða buðu borgun fyrir. Ég sagði öllum það sama, að ég seldi hvorki vatn né ís og væri þeim heimil taka þessara nauðsynja hvenær sem væri. Þeir vildu borga samt, þótt ég vildi ekki við peningum taka, — og gerðu það líka.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

Það var föst venja okkar hjóna að ná sem flestum heim og gera þeim eitthvað gott. Urðu þeir venjulega að skiptast á um að koma heim, þar eð bátar máttu ekki mannlausir vera, væri verið að taka vatn eða ís. Flestum þótti skyr mjög gott, svo var það mjólk eða kaffi, eftir því sem þeir æsktu. Oft var fata með mjólk í send út á skip til þeirra, sem ekki gátu í land komið. Fyrir þessa smáaðhlynningu — svo og vatnið og ísinn — virtust allir mjög þakklátir. Oft höfðu þeir með í land í fyrstu ferðinni ýmislegt, sem þeir vissu, að hvert heimili hafði not fyrir. Bar þar mest á kexi. Voru það heldur smáar kökur, ýmist sætt eða ósætt. Voru sumir skipstjórar þar svo stórtækir, að fyrir kom, að þeir komu með eða sendu í land óuppteknar kextunnur eða kassa, sem í var frá 25—40 kg. Náðu þessar kexbirgðir stundum saman hjá okkur. Þess utan komu þeir með kaffi, sykur, smjörlíki, kartöflur, fiskilínur, blýlóð og öngla. Þeim þótti lína sú, sem ég notaði i handfæri, — en það var 4 lbs lína, — of sver, og sagði einn skipstjóri, sem sá hana, við mig: „Þetta er ófiskilegt, gamli; ég skal senda þér betri línu“, — og var það 2 lbs lína. Salt mátti ég fá hjá þeim, meira en ég hafði not fyrir. Oft komu þeir í land með nýjan fisk, svo og stóra slatta af nýjum þorskhausum, sem ég svo herti. Eitt er ótalið enn, sem sízt var við neglur skorið, en það var reyktóbak. Ekki var tóbak þeirra að sama skapi gott, en vel var ég farinn að sætta mig við það. Þetta tóbak reyktu þeir jafnt og tuggðu.“

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 15. árg. 1953, bls. 295-302 og 317-318.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Silfurgjá

Utan við Vatnsstæðið á Járngerðarstöðum í Grindavík er gjá; Silfurgjá. Hún var jafnan nefnd Silfra af heimamönnum. Um þessa gjá, sem er ein af nokkrum, s.s. Stamphólsgjá, Bjarnagjá og Hrafnagjá, á þessu svæði, hefur spunnist eftirfarandi þjóðsaga:

Silfra norðvestan Vatnsstæðisins

„Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.“

Silfra á loftmynd - norðvestan Vatnsstæðisins

Hér er um tvenns konar sagnakenndan fróðleik að ræða; annars vegar er vatnsfyllta gjáin Silfra enn vel sýnileg norðvestan við Vatnsstæðið á Járngerðarstöðum og hins vegar hefur gjá sú er Gjáhús voru jafnan kennd við, austan Vatnsstæðisins, verið fyllt upp „svo nú eru þar grónar brekkur“. Gjá sú, sem hér um ræðir, var fyrrum skammt vestan við Garðshorn, sem nú stendur við Kirkjustíg í Grindavík, þ.e. suðvestan við gömlu kirkjuna, sem endurreist var frá Stað og síðar varð að leikskóla. Gamlir, en síungir Grindvíkingar (ennlifandi) muna gjá þessa. Hún var tiltölulega stutt og afgirt, enda bæði hyldjúp og með háum bergveggjum. Kolsvart, en tært, vatnið, endurpeglaði sérhvert andlit er niður í hana leit. Innfæddir stóðu jafnan í þeirri trú að þarna væri Silfra. Gjáin var hættuleg, en nálægð kirkjunnar endurspeglaðist í girðingunni umhverfis. Eftir stífa austanátt mátti  gjarnan finna rauðan fimmhundruðkarl eða jafnvel fjólubláan þúsundkarl fastan í henni. Það þóttu börnunum stórir „karlar“ í á daga, löngu fyrir daga kvótakónganna.
Börnin voru jafnan vöruð við Silfru. Sagt var að ef þau færu of nærri gjánni gæti Gjárskrímslið, sem byggi þar undirniðri, náð til þeirra. Líklega var þetta bara sagt til að fæla þau frá gjánni – enda full ástæða til. Þar bar, sem félli í gjánna, átti ekki afturkvæmt.
Skömmu eftir 1960 var „Silfra“ fyllt af möl. Fljólega greri yfir og gras óx á hvyrfli hennar. Gjárhúsgjárinnar skammt sunnar biðu sömu örlög. Brunnar við gömlu húsin voru og fyllti upp – og hurfu. Þetta var gert til að koma í veg fyrir hugsanleg slys á börnum – skiljanlega.
Silfurgjá sú sem er norðvestan við Vatnsstæðið á Járngerðarstöðum er hluti af stærra sprungusvæði. Hrafnagjá og Bjarnagjá suðvestan við Gerðavallabrunna, jafnvel Grænabergsgjá allnokkru vestar, eru hluti af sama sprungusvæðinu. Þarna eru skýr flekaskil Atlantshafshryggjarins er skilja Ameríkufleka jarðskorpunnar frá Evrópuflekanum. Vestanverð Grindavík er á austanverðum flekaskilunum. Íbúarnir fyrrum vissu af þessu. Þeir byggðu sé lítil hús og þá jafnan á öðrum hvorum sprungubarminum. Núverandi íbúar byggja sér stærri hús, jafnvel beggja vegna gjá. Þeir mega eiga von á að jafnvel sitt hvor hjónarúmshlutinn endi með tíð og tíma á Bjarnagjá og Hrafnagjá suðvestan Gerðisvallabrunnasitthvorum heimsálfaflekanum. Þá er og líklegt að uppfylltar gjárnar rísi upp einn slæman veðurdag við óhagstæð skilyrði og krefjist þess, sem þeim bar m.v. hinar þjóðsögulegu forsendur. Allir geta þó andað léttar; það er ekki víst að það gerist í dag eða á morgun – það getur alveg eins gerst í næstu viku.
Í dag er Silfra (Silfurgjá) skammt suðsuðvestan við götuna Norðurvör. Um hana, líkt og aðrar gjár við Grindavík, flæðir ferskvatn. Gjáin er vinsæll köfunarstaður froskafara, en sjá hængur er á að ferskvatnsstraumurinn í gjánni vill ógjarnan sleppa þeim sem hann ásælist. Enn þann dag í dag eru álög þjóðsögunnar því virk áhrínisorð – þótt á annan veg megi virðast. Áður var varnaðurinn falinn í silfurkistu og varnaði til handa þeim er hana ásældist. Í dag er varnaðurinn fólginn í því að ásælast ekki silfurtært vatn Silfurgjárinnar – því þá mun illa fara. Grindvíkingar og nærsveitingunar – GÆTIÐ VARÚÐAR þar sem Silfra er annars vegar, þá mun ykkur farnast vel!

Heimildir m.a.:
-Rauðskinna I, bls. 41
-Óbirt „Grindavíkursaga“

Silfra

Silfurgjá.

 

Selatangar

„Ekki er ein báran stök úti fyrir Selatöngum frekar en Landeyjasandi. Boðarnir skálma í í lest upp að klettaströndinni, svartri og úfinni, sem virðist allt annað en árennilegur lendingar staður, jafnvel í tiltölulega hóglátu sjóveðri. Hvað skyldi þá í sunnlenzkum veðraham og foráttubrimi, þegar úthafsaldan brotnar þarna á töngunum af fullum krafti og þunga.
Enda segir einhvers staðar í Selatangar-221gömlum fræðum, að í Selatöngum sé „brimhöfn mikil.“ Þarna var þó um langt skeið allmikil verstöð og sóttur sjór á árabátum fram undir síðustu aldamót eða nánar tiltekið til 1880 eða þar um bil. Verbúðalíf og sjósókn í Selatöngum hefur fráleitt verið neitt sældarbrauð, maður þarf ekki annað en koma á staðinn, ganga þar dálítið um og virða fyrir sér búðartóttirnar, lendinguna og skerjaklasann úti fyrir ströndinni, til að sannfærast um það.

En áður en lengra er farið út í lýsingu á verbúðalífi og sjósókn í Selatöngum, skulum við virða lítillega fyrir okkur umhverfið, landssvæðið á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og gera okkur grein fyrir því í stórum dráttum. Það er að vísu ekki sérlega margbrotið, þótt bæjarleiðin sé nokkuð löng. Þetta svæði er landareign tveggja jarða, Krýsuvíkur og Ísólfsskála, og hefur Krýsuvík verið miklu stærri jörð en Ísólfsskáli, landareign hennar nær langt austur fyrir Eldborg eða að svokölluðum Sýslusteini, en þar er allt í senn: landamerki, hreppamörk og sýslumörk. Sömuleiðia langt til norðurs, hverasvæðið sunnan undir Sveifluhálsi, sem allir þekkja, tilheyrði t.d. Krýsuvík.

Dagon-221

Landareign Ísólfsskála nær hins vegar frá Nípum á Festarfjalli og austur að Selatöngum, en þar eru landamerki þessara tveggja jarða. Var þá miðað við hraunstand uppi í kampinum á Selatöngum, sem hét því undarlega nafni Dágon, en má nú heita alveg úr sögunni. Verulegur hluti af þessu landi, svæðinu milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, er samfelld hraunbreiða. Aðallega er um tvö hraun að ræða, misjafnlega gömul og ekki runnin frá sömu eldstöðvum. Annars vegar hraunið austur frá Ísólfsskála, sem ekkert heildarheiti virðist hafa, a.m.k. á kortum. Það nær á móts við Selatanga og er augsýnilega eldra en hraunið þar fyrir austan. Hins vegar hraunið í Krýsuvíkurlandi, yngra hraunið, en það heitir einu nafni Ögmundarhraun og er talið hafa runnið á 13. eða 14. öld. Dálítið ofan við veginn, sem liggur milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, þar sem heita Almenningar, getur að líta nokkra ósköp sakleysislega gjallhóla, eins konar rauðukúlur, sem fara ljómandi vel í landslaginu og gleðja gestsaugað. Þessar meinleysislegu kúlur eða hólar eru eldvörpin, sem Ögmundarhraun hefur komið úr á smum tíma. Traðirnar, sem hraunið hefur myndað um leið og það rann, eru skýrar og greinilegar, og mokstursjötnarnir hafa látið bæði traðirnar og hólana í friði hingað til, svo er fyrir að þakka. Ég held, að við ættum að biðja guð og Náttúruverndarráð að sjá til þess, að þeim yrði einnig þyrmt í framtíðinni, jarðfræðin og sagan mæla eindregið með því, hvor á sinn hátt, þó að við sleppum öllum fagurfræðilegum vangaveltum.
husholmi-221Þetta hefur verið mikið gos, gígarnir sem eru um 100 að tölu, eru á sprungusvæði milli Núphlíðarháls og Sveifluháls. Þaðan hefur ógurlegt hraunflóð runnið niður á jafnsléttuna, breiðzt síðan út til beggja handa og lagt undir sig svo að segja hvern blett og skika lands allt í sjó fram. Þetta er yfirleitt apalhraun, úfið og tröllslegt, einkum víða meðfram ströndinni, og hroðalega ógreiðfært yfirferðar.
Það eru litlar sem engar heimildir til um hvernig umhorfs var á þessu svæði áður en Ögmundarhraun rann. Þó er vitað með vissu, að þarna var a.m.k. einn bær, Krýsuvík, sem stóð niður við sjóinn, líklega upp undan samnefndri vík, sem hraunið hefur að nokkru leyti afmáð og fyllt og er nú kölluð Hælsvík. Í Krýsuvík var kirkja.
Gosið hefur efalaust skotið fólkinu í Krýsuvík illilega skelk í bringu og ekki að ástæðulausu. Ekki hefur verið nema um 5 km vegalengd frá eldstöðvunum heim að bænum í Krýsuvík og landinu hallar þangað, þótt lítið sé að vísu eftir að kemur niður á láglendið. Enda fór líka svo, að Krýsuvík lenti í hraunflóðinu, færði hraunið sum húsin í kaf, en staðnæmdist annars staðar við húsveggina. Sér ennþá greinilega fyrir húsarústunum austast í hrauninu, þar sem nú heitir Húshólmi og Óbrennishólmi, m.a. sést þar fyrir aflöngu tóttarbroti, sem talið er að gæti verið rúst kirkjunnar.
obrennisholmi-221Til er örstutt saga af þessum atburðum, upphafi gossins og hvernig smalamaður á að hafa bjargað sér og fénu undan hraunflóðinu. Sagan er skráð í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og læt ég hana fylgja hér með, þó að hún hafi sjálfsagt farið margra á milli og kannski brenglazt eitthvað á langri leið í meðförunum, en hún er á þessa leið: „Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvísl ar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.“
ogmundarstigur-221Eins og kemur fram í þessari skemmtilegu munnmælasögu var bærinn byggður á nýjum stað eftir gosið, þar sem hann stóð til skamms tíma eða þangað til Krýsuvík fór í eyði, sömuleiðis kirkjan.
Leiðin úr Krýsuvík til Grindavíkur og í Selatanga var heldur ógreiðfær eftir gosið, ekki sízt með hesta. í kvæði frá 15. öld er þess getið, að karl einn fór yfir Ögmundarhraun og missti kapal sinn í hraungjá, hann varð fastur og gekk af einn hófurinn, en karl hét á hinn helga kross í Kaldaðarnesi, serkjagötu, nema hvað berserkurinn í þessari sögu heitir Ögmundur, og af því á nafnið á hrauninu að vera dregið.
En víkjum nú aftur að Selatöngum og verbúðalífinu og sjósókninni þar. Selatangar eru í Krýsuvíkurlandi, vestast í Ögmundarhrauni og veiðistöðin þar talin á vegum ábúandans í Krýsuvík. Sjálfsagt hafa þó ýmsir aðrir en Krýsvíkingar róið þaðan, hvern ig svo sem samningum um það hefur verið háttað. T.d. er getið um, að þaðan hafi gengið biskupsskip frá Skálholti. Líkur eru til, að þaðan hafi verið róið þegar snemma á öldum, þótt af því fari ekki miklar sögur.
Í gömlum sóknarlýsingum er þess getið, að árið 1780 hafi róið þaðan 1 áttæringur, 1 sexæringur og 2 feræringar, og réru á þeim 13 heimamenn úr Krýsuvík og 16 austanmenn. Var veiði þeirra samanlagt 4580 fiskar.
selatangar-222En oft hafa þó útróðramennirnir í Selatöngum sjálfsagt verið fleiri. Til þess bendir m.a. sjómannavísa úr Selatöngum, sem sá merki fræðasafnari, sr. Jón Thorarensen, birti í Rauðskinnu á sínum tíma, en hann hefur leit að uppi og haldið til haga ýmsum fróðleik um verstöðina í Selatöngum. Vísunni fylgir sú saga, að ungur strákur hafi krækt sér í skipsrúm í Selatöngum með því að taka að sér að koma fyrir öllum nöfnum sjómannanna í einni vísu eða þulu. Mér telst svo til, að nöfn 82 sjómanna komi fyrir í vísunni, og þar af eru hvorki meira né minna en 23 Jónar, og má mikið vera ef þar hefur ekki einhvern tíma verið ruglazt á mönnum.
Mikið er af gömlum búðartóttum í Selatöngum. Það eru vistarverur þeirra sem þarna höfðust við, þakið er að vísu af þeim og hurðirnar týndar og tröllum gefnar, en að öðru leyti eru þær hinar stæðilegustu, enda vel hlaðnar. En heldur virðast þetta hafa verið kaldranalegar og þröngar vistarverur, veggirnir úr hraungrjóti, einungis grjótbálkar til að liggja á, gólfpláss ekki teljandi og upphitun að sjálfsögðu engin. Og öðrum þægindum hefur ekki heldur verið til að dreifa. Sums staðar var hlaðið fyrir op á hellum eða hraunskútum og plássið notað til ýmissa þarfa, svo sem smíða eða mölunar og kallað samkvæmt því: Mölunarkór, Sögunarkór o.s.frv.
Þá er þarna á töngunum mikið af görðum og fiskbyrgjum, þar sem fiskur var hertur eða verkaður á annan hátt. Talsverður trjáreki selatangar-223er þarna og notuðu vermenn rekaviðinn óspart til smíða í landlegum, sem munu hafa verið nokkuð algengar, vegna þess hvað brimasamt er við lendingarstaðinn. En fjaran og trjárekinn er líka mikið dundursefni flestum þeim sem nú heimsækja staðinn. Þarna rekst maður stundum á allt upp í tíu fimmtán álna tré, að maður nú ekki tali um rótarhnyðjurnar, sem margur kannski fær ágirnd á, kippir upp af götu sinni, og hefur heim með sér, enda missir víst enginn æruna fyrir slíkt nú orðið.
En það er fleira skoðunarvert þarna en hin gömlu mannvirki útróðrarmannanna og trjárekinn í fjörunni. Hraunið vestan við tangana er t.d. gríðarlega tröllslegt og stórbrotið meðdjúpum grasi grónum kvosum og skvompum og hraunhryggjum á milli. Það heitir Katlahraun.
Þar er býsna gaman að eyða tímanum stund úr degi. Enn er reyndar margt ósagt um Selatanga, sem vert hefði verið að drepa á, t d. reimleikana og verbúðadrauginn Tanga-Tómas, en rúmið leyfir ekki lengra mál.“

Heimild:
-Morgunblaðið, Gestur Guðfinnsson, 16.  maí 1970, bls. 8-9.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnarfjörður

Í Fjarðarpóstinum 29. maí 2008 birtist eftirfarandi fróðleikur um aðdraganda kaupstaðaréttinda Hafnarfjarðar.  Reyndar fylgdi dagskrá um væntanlega afmælishátíð, en þar var ýmsu sleppt, sem ákveðið hafði verið – og varð.

Hafnarfjörður 1860

„Árið 1786 var gefin út tilskipun um kaupstaði á Íslandi, réttu eftir afnám einokunarverslunar. Sex íslenskum verslunarstöðum var veitt kaupstaðarréttindi og var Hafnarfjörður ekki þar á meðal þó verslun þar hafi þrifist og blómstrað um aldir. Var þessi tilskipun talin sýna hversu ókunnug danska stjórnin var um íslenska staðhætti enda voru tveir staðanna sviptir kaupstaðaréttindum 1807, Vestmannaeyjar og Grundarfjörður. Nálægð Hafnarfjarðar við Reykjavík, sem Skúlu Magnússon og félagar völdu sem höfuðstað fram yfir Hafnarfjörð, var nú til trafala.
Landrými var talið of lítið og erfitt og í bréfi Þórðar Jónassonar sýslumanns til stiftamtmanns árið 1851 taldi sýslumaður enga von til þess að Hafnarfjörður öðlist kaupstaðaréttindi en bréfið var ritað að ósk stiftamtmanns vegna fyrirspurnar frá danska innanríkisráðuneytinu sem vildi kanna hvort Hafnarfjörður gæti verið meirháttar verslunarstaður í framtíðinni þar sem skip frá útlöndum gætu komið til  og landað. Um álit Skúla og Þórðar segir í Sögu Hafnarfjarðar eftir Sigurð Skúlason: „Það er ekki alls kostar geðfelld tilhugsun, að Hafnarfjörður, sá verzlunarstaðurm sem öldum saman hafði verið ágætastur og frægastur á öllu Íslandim skyldi verða út undan vegna hlutdrægni og þröngsýni einstakra manna, er nokkuð tók að rofa til á sviði íslenskra atvinnumála.“

Hafnarfjörður 1890

Hafnarfjörður var frá alda öðli í Álftaneshreppi en 23. júní 1876 ögðu 49 íbúar í Hafnarfirði beiðni fyrir hreppssnefnd Álftaneshrepps um að Hafnarfjörður fengi kaupstaðaréttindi. Hreppsnefndin tók vel í málið og var málið undirbúið af 14 manna hópi. Þann 22. febrúar 1878 var samþykkt að hreppnum skyldi skipt í Bessastaðahrepp og Garahrepp og var hreppsnefndin hlynnt því að skipta honum í þrennt, að Hafnarfjörður yrði skilinn frá Garðahreppi en taldi ekki unnt að gera þá breytingu þá. Fundur um kaupstaðaréttindi Hafnarfjarðar var haldinn í Templarahúsinu 7. apríl 1890 og í kjölfar hans var sýslumanni ritað bréf og óskað eftir því að hann boðaði til almenns fundar um málið.

Hafnarfjörður 1906

Sýslumaður vék sér undan beiðninni og vísaði á síra Þórarinn Böðavarsson um fundarboðun og var sá fundur haldinn 14. júní 1890 og undirbúningsnefnd kosin sem hóf strax vinnu. Á fundi 27. febrúar 1891 var meirihluti fundarmanna andvígur aðskilnaði við Garðahrepp!
Féll málið niður um nokkurn tíma en eftir uppgang í byrjun nýrra aldar ákvað hreppsnefnd Garðahrepps á fundi 1. mars 1903 að fara þess á leir við löggjafarvaldið að Hafnarfjörður fengi kaupstaðaréttindi. Frumvap til laga var lagt fyrir efri deld Alþingis 1903. Felldi þingið frumvarpið við aðra umræðu. Á ný var frumvarp lagt fram 1905 og kom það til umræðu í neðri deild. Efti 2. umræður í efri deild var frumvarpinu vísað til sveitarstjórnarnefndar og var frumvarpið fellt þar með nafnakalli. Aftur var frumvarpið lagt fram 1907. Loksins var frumvarpið samþykkt og lög um bæjarstjórn í Hafnarfirði voru staðfest af konungi 22. nóvember 1907 með gildistöku 1. júní 1908 og öðlaðist Hafnarfjörður þá loks kaupstaðaréttindi.“

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar – Sigurður Skúlason 1933 (Fjarðarpósturinn 30. maí 2008).Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Hafnarfjörður

Frá smábátahöfninni í Hafnarfirði. Sama sjónarhorn og að ofan.

Komið hefur verið fyrir þjónustu- og salernishúsi við Seltún í Krýsuvík.
Það mun hafa verið HúsinGrindvíkingurinn Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfiskseturs Íslands og fulltrúi Grindavíkur í Reykjanesfólksvangsnefnd, sem af einskærri atorkusemi stuðlaði manna helst að uppsetningu húsanna.
FERLIR var við Seltúnið þegar komið var með þau á tveimur pallbílum frá Grindavík í dag kl. 10:35, laugardaginn 29. maí, en formleg opnun hefur verið ákveðin þriðjudaginn 15. júní n.k.
Hafnarfjarðarbær og Óskar Sævarsson, fyrir hönd stjórnar Reykjanesfólk-vangs, hafa gert samkomulag um reksturinn. Reykjanesfólkvangur tók að sér Húsin -2að koma upp þessari bættri aðstöðu fyrir ferðamenn við Seltún. Annað húsanna er 40 fermetra skáli og hitt er salernishús þar sem verða fjögur salerni. Áður voru hús þessi staðsett á „Reykjavegi“ gönguleið frá Reykjanestá til Þingvalla og hugsuð sem aðstaða fyrir göngufólk. Húsin voru smíðuð með tilliti til þess að falla vel að náttúrulegu umhverfi. Fólkvangurinn mun næstu þrjú sumur samkvæmt samkomulaginu sjá um rekstur á mannvirkjunum og þjónustu við gesti staðarins. Starfsmaður Reykjanesfólksvangs mun m.a. hafa aðstöðu þarna.

SeltúnFerðamálastofa styrkti flutninginn og standsetningu húsanna. Hafnarfjarðarbær greiðir síðan á samningstímanum ákveðna upphæð á ári til Reykjanesfólkvangs sem sér um allan rekstur á umræddum húsum og nýtir þau til umbóta fyrir ferðamenn á Seltúnssvæðinu með áherslu á hreinlætis- og salernisaðstöðu. Reykjanesfólkvangur sér um viðhald á húsunum og ber kostnað vegna skemmda. Framlag Hafnarfjarðarbæjar byggir m.a. á núverandi rekstarkostnaði vegna þurrsalerna sem fram að þessu hafa verið flutt til svæðisins á hverju sumri. Skemmdarvargar hafa leikið þau grátt, en vonir standa til að allir leggi sig fram við að umgangast þessa stórbættu aðstöðu með vinsemd og virðingu. Seltúnið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Næsta verkefni verður væntanlega að ganga frá í kringum húsin, fjölgera stíga um svæðið og lagfæra merkingar, sbr. Seltúnsselið og námutóftirnar.
Á meðfylgjandi myndum má m.a. sjá þegar húsin voru flutt á vettvang.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

 

Einar Benediktsson

Gjafabréf Einars Benediktssonar vegna Herdísarvíkur.

Skjal, sem stimplað var í fjármálaráðuneytinu 19. ágúst 1939, kveður á um gjöf Einars Einar Ben-gjafarbrefBenediktssonar, skálds, á Herdísarvíkurlandi til handa Háskóla Íslands. Húsið í Herdísarvíkur er þar undan skilið, skv. skjalinu:
„Jeg undirritaður Einar Benediktsson prófessor gef hjermeð Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík í Selvogshreppi í Árnessýslu ásamt öllum gögnum og gæðum, þar með húsum, öðrum en íbúðarhúsi, sem ríkið þegar á, ennfremur húsgögnum, sem í íbúðarhúsinu eru og bókasafni mínu sem þar er geymt.
Gjöfin er gefin í minningu um föður minn Benedikt sýslumann Sveinsson. Gjöfin er bundin því skilyrði, að núverandi ábúandi jarðarinnar frú Hlín Johnson hafi afgjaldalausa ábúð á jörðinni meðan hún lifir eða esvo lengi sem hún óskar, en hún skal þó greiða skatta og skyldur af jörðinni.
Gjafarbrjef þetta er gefið út í tveimur samhljóða frumritum.
Herdísarvík 28. september 1935“
Vottar: Bjarni Jónsson – Guðni Gestsson.
Undirritun: Einar Benediktsson

Undir bréfið er skrifað eftirfarandi og vottað hreppsstjóra, Þórarni Snorrasyni: „Jeg undirritaður hreppsstjóri Selvogshrepps Þórarinn Snorrason vottar hjer með að Einar Benediktsson prófessor Herdísarvík hefur í dag ritað nafn sitt undir þetta skjal með fullu ráði og frjálsum vilja í viðurvist míns og tveggja vitundarvotta. Til staðfestu er nafn mitt. P.t. Herdísarvík 28/9 1935 – Þórarinn Snorrason“.

Heimild:
-Stimplað gjafabréf EB.

Herdísarvík

Herdísarvík.

 

Kálffell

Í Nýja tímanum árið 1953 segir frá því er „Guðmundur Í. heimtaði beitiland Vatnsleystrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn„, eins og segir í fyrirsögninni:

„Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleysustrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn. Heiðin frá Grindavíkurvegi allt inn hjá Keili á að vera bannsvæði fyrir Íslendinga.

VogaheiðiGuðmundur Í. Guðmundsson, varnarmálanefndarmaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og þingmaður Alþýðuflokksins, fer nú hamförum við að afhenda bandaríska hernum lönd Suðurnesjamanna.
Í júní í fyrra skýrði Nýi tíminn frá því að bandaríski herinn hefði gert kröfu til að fá til sinna umráða Reykjanesið frá Keflavíkurflugvelli allt suður til Grindavíkur, og síðan að fyrirhúgað væri að herinn teygði umráðasvæði sitt lengra inn eftir nesinu. Svæðið milli Grindavíkur og flugvallarins hefur bandaríski herinn haít til umráða síðan í fyrrasumar og það er nú einnig komið á daginn að umráðasvæði hersins sé teygt inn eftir skaganum.
Síðasta afrek Guðmundar Í. Guðmundssonar við að leggja lönd Suðurnesjamanna undir bandaríska herinn er það að afhenda hernum beitiland Vatnsleysustrandarbúa frá Grindavíkurvegi að vestan allt austur hjá Keili. Að norðan eru takmörkin skammt ofan við Vatnsleysustrandarbyggðina, að sunnan lína frá Skógfellinu austur með Fagradalsfjalli til Keilis.
Eins og skýrt er frá annarsstaðar í blaðinu er bandarískiherinn nýbúinn að afmarka bannsvæði á landi Vogamanna og hefur m.a. tekið skógræktarsvæði Suðurnesjamanna undir skotæfingar sínar.
En það var ekki aðeins að bandaríski herinn tæki skógræktarsvæðið heldur raðaði hann bannmerkjum sínum allt frá Stapanum og skammt fyrir ofan byggðina inn móts við vitann í Ásláksstaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni. Til suðurs frá Stapanum var bannmerkjunum raðað fast við Grindavíkurveginn allt suður hjá Arnarsetri.

Guðmundur Í. í landvinningahug
VogaheiðiAð liðnum uppstigningardegi skrapp fréttam. Nýja tímans á fund Suðurnesjamanna til að kynna sér landvinninga Guðmundar Í. Guðmundssonar og bandaríska hersins. Jú, Vatnsleysustrandarbúar sáu það frá húsum sínum að komin voru merki nokkuð fyrir ofan sem bönnuðu þeim að stíga fæti sínum ofan við vissa línu.
Fyrir um það bil mánuði lét Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður og alþingismaður einn starfsmann embættis síns spyrja Vatnsleysustrandarbúa um landamerki og hreppamörk. Hvers vegna var Guðmundi Í. allt í einu orðið svona annt um landamerki? Jú, elsku Kaninn þurfti að fá meira land undir skotæfingar. Og Guðmundur Í. var þjónustusamlegast reiðubúinn að heimta meira land af Suðurnesjamönnum handa bandaríska hernum. Það var hersir.s að skipa — Suðurnesjamanna að hlýða.
Forsvarsmönnum Vatnsleysustrandarbúa var tjáð að land það sem bandaríski herinn hefði nú litið girndarauga væri í línu frá Litla-Skógfelli (sem er á leiðinni til Grindavíkur) til Keilis og frá suðausturenda Stapans einnig til Keilis. Var Vatnsleysustrandarbúum boðið að tilnefna fulltrúa sinn við landaafsal þetta og skyldi hann sitja í gerðardómi til að meta leigu fyrir landið.

Vilja ekki afsala landi
VogaheiðiÞegar landeigendur á Vatnsleysuströndinni ræddu þetta mál kom strax fram það sjónarmið að neita þessari landakröfu. Völdu þeir sem málsvara sinn mann af Vatnsleysuströndinni, sem nú er búsettur í Rvík. Hann neitaði hinsvegar að eiga þátt að landaafsali þessu og setjast í slíkan gerðardóm.
Til að byrja með var Vatnsleysustrandarbúum tjáð að elsku Kaninn þurfi land þetta ekki nema haust og vor, 6 vikna tíma á vorin, jafnlengi á haustin. Þyrftu bændur að smala búsmala sínum brott, — og reka hann hvert?!

Herinn setur upp bannmerki
Fyrir fáum dögum kom svo bandaríski herinn á vettvang og raðaði upp bannmerkjum sem á var letrað: ?
Bannmerki þessi setti hann upp frá útvarpsstöðinni sinni alræmdu á Stapanum og fast með Grindavíkurveginum suður móts við Arnarsetur, skammt frá í Stóra-Skógfelli, en línan þaðan til Keilis liggur fast við norðurhlíð Fagradalsfjallsins.

Beitilandið tekið

Vogaheiði

Sprengja í Vogaheiði.

Samskonar merki setti herinn upp fast við Keflavíkurveginn fyrir ofan gamla herspítalagrunninn austast á Stapanum. En frá austurenda Stapans var merkjalínan ekki í stefnu á Keili, eins og upphaflega hafði verið látið í veðri vaka, heldur þvert á móti inn ströndina í átt til Hafnarfjarðar, skammt fyrir ofan Vatnsleysustrandarbyggðina — innsta merkið. sem frá veginum sást ofan við Ásláksstaðahverfi. Hvað langt inn eftir ströndinni að fyrirhugað er að herinn teygi sig hefur enn ekki verið uppskátt látið.

Skrýtinn feluleikur

Vogaheiði

Landhelgisgæslan og Varnarliðið í sprengjuleit (VF 12. október 2004).

Þegar fréttamaður Nýja tímans leit þarna suður eftir í fyrradag voru öll bannmerkin þar sem þau höfðu upphaflega verið sett af herraþjóðinni, og eru meðfylgjandi myndir sýnishorn af þeim. Síðan skrapp fróttamaðurinn til Grindavíkur, en þegar hann kom til baka eftir skamma viðdvöl í Grindavík höfðu merkin, er áður stóðu fast við veginn til Grindavíkur, verið færð nokkurn spöl austur í hraunið.

Vogaheiði

Sprengja úr Vogaheiði.

Aðeins eitt merki stóð enn uppi, var það rétt við veginn austan við Seltjörnina, þ.e. í lægðinni milíi hraunsins og Stapans. En um sama leyti komu þar Bandarikjamenn í bíl, hljóp einn þeirra út úr bílnum, réðist á merkið og fleygði því niður fór svo inn í bílinn aftur!
— Hin merkin höfðu verið flutt þangað sem þau voru ekki eins áberandi frá veginum! Þar á ekki að slaka til.
Merkin sem áður voru uppi á Stapanum höfðu einnig verið felld, en þótt merkin við Grindavíkurveginn hefðu verið færð, þá var bannmerkjalínan inn ströndina ófærð með öllu. Þar virtist ekki ætlunin að hopa hið minnsta. Guðmundur Í. Guðmundsson Bandaríkjafógeti virðist ekki geta hugsað sér að færa það bannsvæði hóti fjær byggðinni.

Verða þeir hraktir brott?

Vogaheiði

Yfir átta hundruð sprengjur hafa fundist við leit á fyrrverandi skotæfingasvæði bandaríska hersins á Vogaheiði á Reykjanesi í sumar og fyrrasumar (Mbl. 10.08.2004).

Vatnsleysustrandarbúar tóku sauðfé aftur á sl. hausti. Auk þess eiga þeir hross og kýr.
Landið sem Guðmundur Í. og bandaríski herinn hafa nú gert að bannsvæði fyrir þá er beitilandið fyrir búsmalann. Auðvitað tekur enginn mark á því að herinn noti ekki landið nema nokkrar vikur haust og vor. En segjum að svo væri. Hvar eiga bændurnir að geyma búsmala sinn á meðan herinn rótar upp beitilandinu með byssum sínum?
Hver vill eiga búfé sitt á skotæfingasvæði hers? Og hver vill smala skotæfingasvæði (þótt herinn heiti því að skjóta ekki rétt á meðan)?
Allt fram á þennan dag hafa verið að finnast ósprungnar sprengjur frá skotæfingum er fram fóru á stríðsárunum, og oft hafa hlotizt af þeim slys. Á sú saga nú að endurtaka sig? Með því að taka beitiland Vatnsleysustrandarbúa undir skotæfingar hersins, gera það að bannsvæði fyrir bændunum sem þarna búa er ekki annað sýnilegt en ætlunin sé að hrekja þá á brott af jörðum sínum; — en um þetta verður meira rætt síðar.“

Heimild:
-Nýi tíminn, 19. tbl. 21.05.1953, Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleystrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn, bls. 2 og 11.

Vogaheiði

Frétt í Nýja Tímanum 21.05.1953.

Húshólmi

„Nokkuð hefur verið skrifað um Húshólma og þær hamfarir sem þar dundu yfir þegar Ögmundarhraun brann, sem sá er þetta ritar telur að hafi gerst um miðja 16. öld samkvæmt þeim upplýsingum sem finna má í sögu þjóðarinnar og þá ekki síst í ferðabókum Eggerts og Bjarna og fleiri góðra manna frá nefndu tímabili. Ennfremur má benda á bráðsnjalla grein eftir dr. fil. Sveinbjörn Rafnsson. Finnst mér og eðlilegt að birta hér onjrétta grein eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi, ekki síst vegna þess að hún er það elsta sem skráð hefur verið um þær hamfarir náttúrunnar, sem þá gengu yfir nefnt landsvæði, og elsta lýsing á þeim skemmdúm, sem þá urðu í Krýsuvíkurlandi vegna þeirra hamfara.
husholmi-221Árið 1903 sendi Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi frá sér ítarlega greinargerð á vegum Fornleifafélagsins, þar á meðal fyrstu lýsingu á viðhorfum til Húshólma eftir þær miklu hamfarir er þar riðu yfir við eldgos. Hann segir: „Krýsuvík hefir til forna staðið niður undir sjó fyrir vestari endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir á það. Engum hefði dottið í hug að kenna bæinn við vík, ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann er nú. En þar sem hann stóð fyrst hefir þetta átt við og svo hefir nafnið haldist, er hann var fluttur. Hraunfióð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. Þá er hraunflóðið er komið ofan fyrir hálsana, breiðir þaðsig um allt undirlendið vestur að ísólfsskála, sem nú er austasti bær í Grindavík. Er þar hvergi auður blettur nema aðeins tveir hólmar austan til í hrauninu. Heitir hinn vestri Óbrennishólmi. Hann er kippkorn frá sjó, austan til niður undan múla þeim í hálsunum, sem Núphlíð heitir. Eystri hólminn heitir Húshólmi. Hann er niðri við sjó skammt fyrir vestan bergið. Er hraunkvíslin fyrir austan hann tiltölulega mjó. En runnið hefir hún fram í sjó fyrir austan hann, og það hefir aðalflóðið einnig gjört fyrir vestan hann, hafa svo runnið saman í fjörunni fyrir framan hann, og sést sjávarkamburinn innanvið hraunið á nokkrum parti neðst í hólmanum.
obrennisholmi-221Að ofanverðu er hólminn hærri. Þar virðist hafa verið hæð, sem hraunið hefir flotið fram á og klofnað um. Svo lækkar hann allt í einu, en breikkar þó um leið austur á við, en að vestan gengur hraunið þar heldur inn í hann. Þar undan hraunjaðrinum kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið hiðúr frá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stefhir í suðaustur. Hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skammt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðar taldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata; er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði. Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á fjórar aðskildar girðingar, er allar hverfa að meira eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefir tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra hrauni byrgðar. Vestur úr útsuðurhorni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, hvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 faðma löng og 2 faðmá breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 faðma frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hennar, nálægt jafnstór henni og hggur frá norðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunið. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 faðma, svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utan með þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir, að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 föðmum norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er husholmi-222bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og eru dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið  allt að kalla. Miðtóftin nál. 2 faðma löng og 1 faðma víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nál. 2 faðma en nál. 5 faðmar á lengd. Hún er merkileg að því| að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 álnar breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyrir veggjunum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin. Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kringum þessa rúst, og ekki verður komist að henni nema á hrauni.

Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rústin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan hafi verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma, hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi veríð tún þessara bæja, heldur annarra afbýla, sem þá eru hrauni hulin. Og hver veit, hve mörg býli kynnu að vera horfin þar.
Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflangur hringur, vel 5 faðmar í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og breiður garður þvert upp eftir. husholmi-223Slitinn er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu. Á einum stað hverfur hann t.d. undir hraunsnef, en kemur undan því aftur hinum megin. Efst hverfur hann undir hraunsnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður miUi Krýsuvíkur og næstu jarðar fyrir vestan. Er það ekki vafamál, að á því mikla undirlendi, sem þar er hrauni þakið, hafa bæir verið, ef til vill eigi allfáir; Með hlíðinni vestanundir Krýsuvíkurhálsum hefir að öllum líkindum verið fögur bæjarröð. Austast er hlíðin hæst og myndar múla með klettabelti að ofan. Er þar upp af fjallshryggur, sem heitir Núphlíð. Er líklegt að bær hafi verið undir múlanum og heitið Núpur og hlíðin fyrir ofan Núpshhð, en síðan verið fellt úr, til að gera orðið mýkra í framburði. Og hver veit nema bærinn hafi heitið Núpshlíð (= Gnúpshlíð), og hafi Gnúpur Molda-Gnúpsson búið þar. Grindavík gat nefnilega ekki með réttu heitið vík, nema hún væri tahn frá Reykjanesi austur að Selatöngum að minnsta kosti. En þá hefði landnám Gnúps getað náð austur undir Núpshlíð. Um þetta veit enginn neitt, og er ekki til neins að fara lengra út í það.“ – Ólafur Einarsson

Heimild:
-Dagblaðið – Vísir, Ólafur E. Einarsson, 4. september 1989, bls. 41.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.