Flugmynd

Haldið var í flug yfir Reykjanesið. Stefnan var tekin yfir öll helstu minja-, sögu- og náttúrusvæði skagans.

Hraunssel

Hraunssel – flugmynd.

Flugmaðurinn reyndist þrautþjálfaður, Ólafur Örn Ólafsson, hafði þekkingu á svæðinu og átti auðvelt með að finna hin helstu svæði.
M.a. var flogið yfir Bessastaðanesið, Þorbjarnastaði í Hraunum, Óttarstaði og Straum, Straumssel, Gapið í Almenningum, Kleifarvatn, Austurengjahver, Grænavatn, Krýsuvíkurheiði, Krýsuvíkurbjarg, Húshólma, Óbrennishólma, Selatanga, Katlahraun, Ísólfsskála, Festarfjall, Hraun, Þórkötlustðahverfið, Þórkötlustaðanesið, Grindavík, Stóru-Bót, Húsatóftir, Sundvörðuhraun, Eldvörp, Háleyjabungu, Skálafell, Valahnúk, Karlinn, Reykjanestána, Gömlu-Hafnir, Junkaragerði, Merkines, Ósabotna, Pattersonflugvöll, Stapann og Vatnsleysuströndina á leið inn til lendingar.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Ofan frá var mun auðveldara að átta sig á aðstæðum, legu garða, nálægra minja, stíga og gamalla gatna.
Stefnt er að öðru yfirlitsflugi fljótlega og skoða þá m.a. austanvert svæðið, s.s. Selvogsheiðina, Brennisteinsfjöll og Heiðina há.
Veður var frábært. Flugið tók 1 klst og 10 mín.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Arnesarhellir

Í Huld, safni alþýðlegra fræða íslenskra, er m.a. fjallað um Arnes Pálsson útilegumann. Þar er frásögnin „eptir handriti séra Jóns Yngvaldssonar á Húsavík (± 1876) rituðu eftir sögn séra Arnórs Jónssonar í Vatnsfirði (± 1853), en Arnes sagði honum sjálfur kringum 1790. Í handritinu er líst ástæðu fyrir útilegu Arnesar eftir að hann varð uppvís að þjófnaði, Uppdrátturinn frá 1880(„ei fæ jeg sagt hvílíkum“ var haft eftir sýslumanni), leitinni að honum á Akrafjalli og vist hans með Fjalla-Eyvindi. Að lokum segir: „Tvö seinustu árin, sem Arnes lá úti, hafðist hann optast við í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni, unz ellibilun knúði hann að gefa sig alveg á vald byggðamanna kringum 1790 og var þá að nafninu settur í tugthúsið, en af því þá var verið að frumbyggja dómkirkju í Reykjavík, en Arnes var þjóðhagi, var hann hafður þar við smíðar og dó fjörgamall í Engey 7. september 1805 eins og segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar II, bls. 247.“
Uppdráttur er til af Elliðaánum, teiknaður af Sigurði Guðmundssyni málara 1880 eftir mælingum H. Guðmundssonar. Þessi uppdráttur er upphaflega frá árinu 1869 og gerður út af deilu, sem reis vegna veiðiréttinda í ánum og laxakistum. Á þennan uppdrátt eru m.a. teiknaðar gamlar götur, sem lágu nánast í beinu framhaldi af því, sem nú er Bústaðavegurinn, fyrst yfir vestari álinn á Ártúnsvaði. Þaðan fyrir sunnan Ártún og í Reiðskarð, en það er fyrir austan Ártún og liggur þar nú stígur upp.
Ekki er vitað hvenær farið var að búa í Ártúni, en þess er getið í máldögum árið 1379 og er þá talið í eigu Neskirkju.
Í Arnesarhelli við HraunsholtÁrið 1906 keypti Reykjavíkurbær bæina Árbæ, Breiðholt, Selás og Ártún í sambandi við áætlanir um að taka neysluvatn úr
Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík. Bauð bærinn Þorbirni og Jónu að setjast að í Ártúni. Þar voru fyrir mjög hrörleg hús og hófust þau strax handa við byggingu núverandi húsa. Íbúðarhúsið að Ártúni svipar mjög til húsa sem byggð voru austur um sveitir eftir jarðskjálftann mikla árið 1896. Þau eru nú flest horfin af sjónarsviðinu. Allt þar til Elliðaárnar voru brúaðar árið 1883 lá þjóðleiðin til og frá Reykjavík um tún Ártúns. Í Ártúni var ferðamönnum seldur viðurgerningur og var það vinsæll áningastaður.
Í Landnámabók er nefndur Elliðaárós, eins og nafnið sé eintala, (ekki *Elliðaáaós), en á síðari tímum er alltaf talað um Elliðaár, t.d. í Skarðsárannál frá um 1640 (við árið 1582) (Annálar I:168), Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (II. b.) (eða Hellisár í sumum heimildum, t.d. sóknarlýsingu, Gullbringu- og Kjósarsýsla, 148).

Ártún í dag

Elliðaárnar renna að nokkru í tveimur kvíslum, og á fyrsta korti sem gert var af þeim frá 1880, er hvor kvísl um sig neðantil merkt Elliðaá þar sem þjóðvegurinn úr Reykjavík lá yfir þær. (Elliða-ár frá upptökum og að árósum 1880. Birt í Elliðaárdalur. Land og saga, bls. 66-67). Bærinn Árland neðra er nefndur í heimildum í lok 14. aldar, hefur líklega upphaflega aðeins heitið Á hin neðri, síðar Ártún, og Árbær Á hin efri (Árland efra) (Ólafur Lárusson, Byggð og saga, 192-197). Í Landnámu er nafnið talið dregið af skipinu Elliða sem Ketilbjörn gamli Ketilsson á Mosfelli átti (Ísl. fornrit I:384). Mannsnafnið Elliði er nefnt í nafnatali frá 17. öld. Alltaf er talað um Elliðavatn, ekki *Elliðaárvatn, svo að bærinn Elliðavatn hefur e.t.v. heitið Elliði upphaflega og þá verið kenndur við eitthvað í náttúrunni sem líktist skipi.
Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing;), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða.
Samkvæmt framanskráðu má ætla að svæðið næst Ártúni hafi verið raskað verulega á síðustu aldafjórðungum, en í handritinu framangreinda segir: „…í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni“. Þar sem því svæði hefur lítið verið raskað, nema næst Elliðaáavirkjuninni, er til vinnandi að reyna að finna þennan tilgreinda „Arnesarhelli“.
Annar hellir, kenndur við Arnes, er við Hraunsholt í Garðabæ.

Heimild:
-Huld – safn alþýðlegra fræða íslenskra, 1890-1898, I, bls. 37.
-Örnefnastofnun Íslands.

Arnesarhellir

Arnesarhellir.

Fjárhöfðar

Jörðin Úlfljótsvatn hefur verið fornleifaskráð. Yfir 90 fornleifar fundust á 68 stöðum á jörðinni. Var þó ekki öll landareign jarðarinnar fullkönnuð. Bjarni F. Einarsson, doktor í fornleifafræðum hjá Fornleifafræðistofunni vann að fornleifaskráningunni vegna deiliskipulags í landi Úlfljótsvatns. Meðal fornleifanna er rúst fjárborgar við Borgarhóla (Borgin) sem eru NV af Hrútey, ca. miðja vegu vestan við vatnið. Aldur rústarinnar er talið vera tímabilið 1550-1900. Ástand rústarinnar er talið ágætt. Varðveislugildi og minjagildi telur fornleifafræðingurinn vera talsvert.

Úfljóstvatn

Úlfljóstvatn – kort.

Norðan við Borgarvíkina eru Fjárhöfðarnir, ágætur útsýnisstaður yfir vatnið og suður yfir Sogið. Ekki síst er þar útsýni yfir Hrúteyna og sundið milli lands og eyjar. Tengist sundið þjóðsögu um skrímsli eða orm í vatninu og er undur yfir að líta t.d. í frostum að vetrarlagi vegna sérkennilegra strauma og fyrirbæra í vatninu. Til gamans má geta þess að samkvæmt þjóðsögunni er hið svikula eðli íssins á vatninu af völdum ormsins, hann brýtur upp ísinn þegar hann er á ferð. Að Fjárhöfðum er skammt að fara frá fjárborginni og nálægum beitarhúsatóftum við Hagavík sem eðlilegt er að tengja gönguleið með vatninu.
Fjárborgin og beitarhúsatóftirnar eru norðan við Höfðana (undir Borgarhöfða) milli Borgarvíkur og Hagavíkur. Hér er um að ræða minjar um aflagða búskaparhætti og nýtingu landsins og hljóta að teljast varðveisluverðar. Auk þess tengist staðurinn fyrrnefndri þjóðsögu (Þjóðsagnasafn Guðna Jónssonar) sem gefa honum enn meira gildi.

Úlfljóstvatn

Úlfljóstvatn- minjar.

Upp úr Hagavíkinni er auðveld og falleg gönguleið yfir að Þingvallavatni, eða upp á Björgin við sunnanvert Þingvallavatn, yfir að Sogi og Skinnhúfuhelli. Op hans snýr að Þingvallavatni. Skátar hafa jafnan fengið það verkefni að fara í Skinnhúfuhelli og reyna að rekja sagnfræðilega tengingu hans.
Til að komast í Skinnhúfuhelli þarf að fara um einstigi og hefur sumum fundist betra að snúa við en taka áhættuna að komast hvorki í hellinn né annað eftirleiðis. Um er að ræða þjóðsagnakenndan dvalarstað, sem óþarfi er að niðursetja hér til lengri framtíðar.
Í maí árið 1946 fann Jón Ögmundsson bóndi á Kaldárhöfða kuml, sem er gamall haugur, í Torfnesi. Torfnes er hólmi rétt sunnan við þann stað þar sem Sogið rennur út í Úlfljótsvatn. Af gerð forngripanna sem fundust í kumlinu má fullyrða að það sé síðan snemma á 10. Öld. Þarna voru fullorðinn maður og ungur drengur, 6-8 ára, grafnir.
BorginEnginn fornmaður sem hefur enn verið grafinn upp hér á landi, hefur verið eins ríkmannlega búinn og þessi. Í kumlinu fundust t.d. leðurbelti með bronssilgju, sverð úr silfri og bronsi, tvenn spjót, 6 örvar, bardagaöxi fatapjötlur úr fínu vaðmáli, hönk af silfurvír, fjórir tinnumolar, krókstjaki, tveir skildir, hnífur og svo mætti lengi telja. Af manninum varðveittust lítilfjörlegar beinaleifar og tvær mjólkurtennur fundust úr drengnum. Í kumlinu hafði einnig verið um 3 metra langur bátur og 80 sentimetra breiður.
Ýmsar kynjaverur virðast hafa haldið sig í og við Úlfljótsvatn. Í Suðra II er eftirfarandi lýsingu að finna:
„Í nóvember árið 1929 sást skrímsli eða vatnakind í Fjósavík sunnan við bæinn á Úlfljótsvatni. Hringsólaði skrímslið í víkinni. Voru þrjú horn eða uggar upp úr bakinu og um 2 metrar á milli þeirra. Var það að hringsóla þarna part úr degi. Hugðust menn fá meiri vitneskju um hvaða skepna þetta væri. Fóru þá tveir menn á báti með net og hugðust leggja það fyrir og króa það inni. Annar maðurinn var unglingur og var hálfhræddur og fór að henda í það. Kom þá styggð að dýrinu, svo það stakk sér niður og hvarf þar með sjónum.“
HruteyEngin skýring hefur fengist á þessu fyrirbæri.
Undir Dráttarhlíð voru geymsluskemmur Skálholtsstóls og aðrar við Þingvallavatn skammt frá upptökum Sogsins. Þarna voru búvörur og skreið flutt yfir. Mikið sog var þarna og flutningur þessi því ekki með öllu hættulaus. Eitt sinn barst í Sogið hluti af líkfylgd og líkið að auki.
Á 17. júní árið 1959 gerðist sá atburður við Efrafall að Þingvallavatn reis óvenju hátt í miklu roki þannig að stífla brast og mikið vatn streymdi í gegnum jarðgöng sem verið var að vinna við og hálfbyggt stöðvarhús. Miklar skemmdir urðu þarna og hreinasta mildi að þetta var á Þjóðhátíðardaginn og enginn við vinnu. Annars hefði eitthvað farið meira en líkfylgdin forðum, enda fjöldi manns starfandi bæði í göngum og stöðvarhúsinu virka daga. Fleiri vikur tók að týna saman spýtnabrak niður með öllu Soginu.

Heimild m.a.:
-http://ulfljotsvatn.blog.is/blog/ulfljotsvatn/guestbook/
-http://www.or.is/
-http://www.847.is/index0.php?pistill_id=31&valmynd=3&vo=12

Skinnhúfuhellir

Loftskúti

Á korti mátti sjá götu dregna upp frá Hvassahrauni áleiðis upp í Skógarnef. Gatan endar, skv. kortinu, á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, nokkuð ofan við Lónakotssel. Á þessu korti eru merkin svolítið vestar en á nýrri kortum.
Veturinn að víkja fyrir vorinuÆtlunin var að reyna að skoða hvort þarna marki fyrir leið, og ef svo er, hvert hún liggur og í hvaða tilgangi. Ekki er ólíklegt að um „skógargötu“ hafi verið að ræða, líkt og nöfnur hennar frá Óttarsstöðum og Straumi.
Reyndar hafði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum) sagt að Skógarnefsskútinn væri „neðan við Nefið og á mörkum“. Þarna gætu leynst, við nánari leit, áhugaverðar minjar!
Þá var  ætlunin að koma við í Hvassahraunsseli og fylgja selsstígnum áleiðis að Hvassahrauni.
Gengið var upp með Virkishólum, Virkið barið augum og götu síðan fylgt upp hraunið til austurs. Stefnan á henni var ofan við Grændali og nokkuð norðan við Hálfnunarhæðir. Legan var áfram upp tiltölulega slétta hraungróninga millum Hvassahraunssel og Lónakotssel, svo til beint á áberandi vörðu á klapparhæð. Við götuna mátti víða sjá litlar mosagrónar vörður, jafnvel einungis einn stóran stein á öðrum jarðföstum eða tvo slíka.
KindÁ leiðinni voru rifjaðar upp örnefnalýsingar af göngusvæðinu.
Ari Gíslason skráði: „Upp af bænum, fast ofan við veginn [neðan núverandi Reykjanesbrautar], eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Svo taka við þar ofar Smalaskáli og Smalaskálahæðir. Á Smalaskála er varða sem blasir mjög vel við af Hjallhólum. Svo er þar austar, upp af Skyggni er fyrr getur, tveir hólar nefndir Virkishólar og milli þeirra er gömul fjárborg sem heitir Virki. Þar upp af er svo hólaklasi sem heitir Brennhólar. Beint upp af Öskjuholti í líkri fjarlægð og Smalaskáli heitir svo Öskjuholtsbruni.
Upp og suður af Öskjuholtsbruna er Jónsvarða, stendur þar á flatri klöpp [áberandi stök varða]. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum er fyrr getur. Milli Smalaskála og Brennihóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi. Upp af Brennihólum efst eru Hálfnaðarhæðir, þar hefur verið hálfnað upp í Hvassahraunssel, stórar hæðir tvær. Þar upp og austur af eru Selsskrínshæðir og austur af þeim er Viðunarhóll, þar var skógur. Þessi hóll er austur af Skugga.

Skúti undir vörðu á mörkum Hvassahrauns

Þá er í suðaustur af Selskrínshæðum Hvassahraunssel en það er milli Mosanna fyrrnefndu og Krossstapa en Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast. Krossstaparnir eru í suðaustur frá Skugga.
Upp af Hvassahraunsseli eru Selhæðir, þar austur og upp af er Snjódalaás, allstór ás með stóru keri í sem heitir Snjódalir. Þá beint upp og austur er Skógarnef, þar voru gren, það er hæð upp til fjalls, lyngi og skógi vaxin og nær upp að Búðavatnsstæði, þar er oftast vatn. Upp af því er Markaklettur þar mætast lönd Óttarsstaða og Krýsuvíkur.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar Guðmundar Sigurðssonar má sjá eftirfarandi: „Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi. Suður af þessu svæði er Smalaskáli og Smalaskálahæð. Þar á er varða, Smalaskálavarða. Hún sést vel af Hjallhólum. Í suðaustur frá Skyggni eru þrír miklir klapparhólar, sem heita Virkishólar. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann. Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af  Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.
Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Rúmgott skjól syðst í Skorási, skammt sunnan markaStígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það [það er í litlu, grónu jarðfalli, einu af þremur, sem þar eru, skammt austan við rana er liggur niður frá Selásnum].
Sunnan við Rjúpnadalahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta [erfitt er að finna opið því gróið hefur fyrir það, en inni má sjá allmiklar fyrirhleðslur], Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til. Þar suður af eru Höfðar, allgott beitiland. Efst í Höfðunum er Sauðhóll og Sauðhólsskúti eða Sauðhólsbyrgi. Suður af Öskjuholti er svo Jónsvarða og stendur á hraunklöpp.“ Þá segir ennfremur: „Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.“
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Í Hvassahraunsseli

Eftir viðkomu í eiginlegri „Dauðagildru“, þ.e. litlu, en djúpu jarðfalli utan í klapparhæð (ef einhver hæð ætti að fá „Dauða“nafnbótina þá er það þessi staður) milli seljanna þar sem sjá mátti beinagrindur þriggja kinda, lá gatan upp með syðsta hluta mikillar klapparhæðar, þeirri sömu og Skorás er nyrsti hluti af. Undir honum er Lónakotssel. Þarna á hæðinni eru tvær háar vörður, auk selsvörðunnar. Þá eru þrjár minni í réttri röð, í beinni línu á mörkum jarðanna. Stærri vörðurnar tvær höfðu greinilega aðra þýðingu, enda sjást þær mjög langt að þegar komið er upp frá Hvassahrauni, einkum sú syðri. Þegar að var gætt kom ljós önnur lítil varða skammt suðaustan við syðri vörðuna, á brún á stóru, grónu og ílöngu jarðfalli. Við norðvesturenda þess, undir stóru vörðunni, er hið ágætasta fjárskjól. Ekki var að sjá manngerðar hleðslur framan við munnann, en þar er gróinn lyngbakki. 

Gatan, sem rakin var upp að sunnanverðum Skorás

Líklegt má telja að þarna hafi verið fjárskjól og/eða nátthagi og þá sennilega frá Hvassahraunsseli. Örskammt sunnar er stór og rúmgóður skúti með mold í botni – hið besta fjárskjól. Snjór huldi framanverðan innganginn, en aðrekstur að munnanum hefur verið mjög góður þar sem hann er í krika utan við fyrrnefnt jarðfall.
Nyrðri stóra varðan, skammt sunnan við Skorásvörðuna, er einmitt ofan við fjárskjól og nátthaga frá Lónakotsseli.
Haldið var yfir að Hvassahraunsseli, en selsvarðan norðaustan þess sést greinilega þar sem hún stendur við gjásprungu á klapparhæð, Selásnum.
Blankalogn, sól og friður var þarna í selinu þennan vordag. Tóftirnar í selstöðunum tveimur höfðu komið vel undan sjónum og böðuðu veggi sína í sólinni. Tíbráin lá yfir þeim í jarðvarmanum. Við skoðun á hugsanlegri götu upp úr selinu kom í ljós að ein slík liggur upp frá því sunnan við Selásinn áleiðis upp í Mosa. Sennilega hefur gatan, sem liggur framhjá Bögguklettum inn í gegnum Skógarnefið og áfram inn á Óttarsstaðaselsstíg, haft þvergötu sunnan við Skógarnefið er lá niður í Hvassahraunssel ogáfram til bæjar.
Selsstígurinn sést glögglega þar sem hann liggur vestur úr selinu, að Hálfnaðarhæð. Þegar komið er yfir línuveginn verður erfiðara að fylgja stígnum því tveir slíkir koma til greina; annars vegar um Smalaskála og hins vegar sunnan Grændala niður með Virkishólum.
Stök varða er á milli leitanna. Stendur hún á lágri hæð í krika hærri klapparhæðar. Erfitt er að sjá til hvers hún hefur verið hlaðinn, nema ef vera skyldi að greni gæti hafa verið þar í hæðinni. A.m.k. tók hundtík, sem var með í för, viðbragð, brá sér undir eini er slútti yfir skúta og virtist bæði óróleg og leitandi.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Virkið

Hækingdalssel

Leit var gerð að Hækingsdalsseli (hinu síðara). Áður hafði verið gerð leit að selstöðu frá bænum á svonefndum Selflötum (Selsvöllum) undir Geitahlíð. Tekið var hús á Guðbrandi Hannessyni (f: 1936), bónda og fyrrum oddvita í Kjósarhreppi.
Stekkur við SauðhúsÍ Jarðabókinni 1703 er getið um selstöðuna frá Hækingsdal og jafnframt að hún hafi verið í landi þar sem áður var Sauðhús: „Hjer [í Hækingsdal] segja menn til forna hafi bænhús verið; aflagt og í auðn komið fyrir allra manna minni, sem nú lifa. Eigandi að hluta er Gísli Illugason að Kirkjuvogi í Höfnum“. Einnig: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi góða, þar sem heita Selsvellir á Geitahlíð.“
Þá segir í Jarðabókinni 1703: „Sauðhús hefur til forna í Hækingsdalslandi kallað verið þar sem stundum hefur í manna minni selstaða brúkast, og halda menn bygt ból hafi í gamalli tíð verið, og hafa til líkinda þar um girðinga og tófta leifar; ekkert vita menn til þess annað og kann ei aftur að byggjast, því túnstæði alt er komið í mosa, mó og mýri, og mjög brotið af á þeirri, sem þar rennur, kölluð Selá“.

Uppdráttur

Guðbrandur er sá núlifandi manna er gerst þekkir til örnefna, staðhátta og minja í Kjósinni. Hann var líka fljótur að reikna dæmið til fullnustu. Sagði hann að fram með hlíðinni ofan við bæinn væri nefnd Selá. Vestan við hana væru tóftir á a.m.k. tveimur stöðum; annars vegar selstaðan og hins vegar stór tóft er jafnan væri nefnd Borgin. Í örnefnalýsingu er getið um Fjárborgir. Bauðst hann til að fylgja FERLIR þangað.
Þegar komið var að Selá var gengið upp með henni að vestanverðu svo sem fyrr var nefnt. Þar er stór klettur við ána. Utan í hann suðaustanverðan er hlaðið gerði, tvískipt. Frá gerðinu liggur hlaðinn veggur til vesturs uns hann beygir að stórum hól.
Skammt undan veggnum Borginmiðsvæðis er kaldavermsl. Var augljóst að langgarðurinn hafði verið hlaðinn til að auðvelda fjárhirði að reka féð inn í stekkinn. Enda sagðist Guðbrandur oft á yngri árum hafa setið yfir fé á þessum stað og þá notað aðhaldið við klettinn.
Skammt suðvestan við hólinn er aflangur þúfnamyndaður hóll, jafnan nefndur Borgin. Þegar komið var upp á hólinn var augljós hringlaga gróin hleðsla í honum vestanverðum. Austan við hann var ferningslaga þúfnamyndun er skar sig úr landinu umleikis.
Svo var að sjá sem grjót hafi verið tekið úr veggjum tóftanna, sem þarna voru, og sett í fjárborg. Hún er greinilega nýrri en aðrar tóftir á svæðinu. Það má því ætla að þarna hafi kotið Sauðhús verið fyrrum með þrjár Hækingsdalsréttin yngriburstir mót suðsuðvestri.
Við bæinn hefur verið garður. Eftir að kortið fór í eyði var þarna selstaða frá Hækingsdal s.s. segir í Jarðabókinni. Selstaðan er of nálægt bænum til þess að hús hafi þurft fyrir selsmatsseljuna. Því hefur efniviðurinn verið notaður til að byggja fjárborgina. Þar gætu hafa verið geymdir sauðir meðan selstaðan sjálf við Selána var notuð fyrir fráfærur.
Selstaðan við Sauðhús er augljós (sú 255. sem FERLIR skoðar á Reykjanesskagnum). Túnstæðið hefur verið lítið og aðallega í mýrum neðanvert. Það er því ekki rétt sem í Jarðabókinni stendur að túnstæðið væri brotið af ánni. Garðarnir (garðurinn) hefur verið þarna um 1700 og þá þegar selstaðan verið notuð sem slík. Kottætturnar eru því mun eldri, enda bera þær þess merki.
Hækingsdalsréttin eldriÞá var haldið að Hækingsdalsrétt, fallega og heillega hlaðinni heimarétt. Hún hefur verið fast utan við gamla túngarðinn, sem er heillega hlaðinn frá fjalli til lágar. Guðbrandur sagði að þangað hafi heimafé jafnan verið smalað til rúninga. Réttin hefði verið notuð til langs tíma. Gamla réttin, sem enn sést móta fyrir nokkru austar og ofan við bæinn, hefði ekki verið notuð eftir að faðir hans settist að í Hækingsdal árið 1921. Hann hefði hætt að færa frá 1929 og var síðasti bóndinn í Kjós, sem það gerði. Ástæða er til að varðveita þetta mannvirki, enda bæði heillegt og fallegt; dæmigert mannvirki er tilheyrt gæti fyrri búskaparháttum hér á landi. Enda minnti Guðbrandur á að þegar faðir hans hafi hafið búskap í Hækingsdal hefði að öllu leyti verið unnið með „gamla laginu“, þ.e. tún og engi voru slegin með orfi og ljá og allt sótt á hestum, mór þurrkaður undir Hulshrygg og heimfluttur sem fyrrum.

Ketilsskora

Gamla Hækingsdalsrétt er í hlíðinni ofan við gamla bæinn (ofan túna). Núverandi íbúðarhús stendur þar sem gamli bærinn stóð. Neðan undir hennar er lind, sem neysluvatn var tekið úr fyrrum. Það var leitt í steinhlöðnum stokk niður að bænum. Annar sambærilegur steinstokkur var úr annarri lind skammt austar. Þegar túnið var sléttað ofan og vestan við bæinn fór stokkurinn undir það. Nú, að vorlagi, mátti sjá hvernig stokkurinn liggur undir túninu, norðavestan við íbúðarhúsið. Réttin gamla er ferhyrnd. Inngangur er að suðvestan, austan við stóran stein í hleðslunni. Guðbrandur sagði að fyrrum, þegar hann var enn barn, hafi hann gjarnan verið sendur þangað til leikja því ágætt útsýni var þangað frá bænum og auðvelt að fylgjast með börnunum. Skjól hafi verið gott í réttinni, en þegar nýja íbúðarhúsið var byggt hefði grjót verið tekið úr henni í grunninn.
Á leiðinni upp í Möngutóftir (selstaða) í landi Fremraháls var farið upp með Grenhlíð, Grindagili og Geitarhlíð í Dagmálafelli/Brattafelli. Austan gilsins er Ketilsskora. Guðbrandur sagði svo frá: „Þarna er Ketilsskora, ókleif. Neðan hennar eru Stórusteinar eins og sjá má. Við þá var áningarstaður fyrrum á Kjósarskarðsleiðinni. Skömmu fyrir fyrsta manntal hér á landi (um 1700) bjó Ketill nokkur í Hækingsdal. Honum varð á að barna vinnukonuna. Hjúin voru handsömuð, dæmd og til stóð að flytja þau á Þingvöll til refsinga lögum samkvæmt. Á leiðinni var áð við Stórusteina. Þar slapp Ketill frá fylgdarmönnum sínum, tók strikið upp hlíðina, áfram upp Ketilsskoru og hvarf sjónum þeirra. Í manntalinu er hann sagður ábúandi í Hækingsdal, en týndur. Fréttist af honum á Vestfjörðum þar sem hann mun hafa náð á skip til útlanda. Ekki fer spurnum af vinnukonunni, sem væntanlega hefur átt að dæmast til aftöku í Drekkingarhyl“.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Guðbrandur Hannesson, bóndi í Hækingsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Hækingsdal.

Hækingsdalur

Hækingsdalur.

 

Arnarfell

Gengið var um Litlahraun sunnan undir Eldborgum sunnan við Geitahlíð. Í hrauninu eru m.a. minjar fjárbúskapar, s.s. yfirsetustaða, rétt, fjárskjól og rúst. Auk minjanna hefur þess sérstaklega verið getið að örn hafi verpt í hrauninu og lengur ofan við Herdísarvík. Tvö önnur forn arnarsetur eru í grennd; arnarhreiður á Arnarfelli að vestan og þekktur staður norð-austan við Hlíðarvatn að austan. Þá er arnarhreiður á Arnarþúfu í Ögmundarhrauni.

Örn

Örn.

Á göngunni var m.a. rifjuð upp umsögn Náttúrfræðistofnunar Íslands um Suðurstrandarveg frá 12. desember 2003. Í henni koma m.a. fram athugasemdir og ábendingar um mat á umhverfisárhifum.
Í umsögninni er m.a. fjallað um arnarvörp á Reykjanesi.
“Vegurinn mun að mestu leyti liggja um óbyggt svæði sem ekki hefur verið raskað með mannvirkjum. Hér er um að ræða afar viðamikla framkvæmd sem óhjákvæmlega mun setja mikið mark á umhverfi sitt. Á svæðinu, sem vegurinn fer yfir, eru m.a. tíu eða tólf hraun frá nútíma. Mikilvægt, er því í ljósi þeirra náttúrverndarhagsmuna sem í húfi eru, að vanda vel til verksins.

Arnarþúfa

Arnarþúfa á Arnarhól í Ögmundarhrauni.

Þremur af níu fornum arnarsetrum á sunnaverðum Reykjanesskaga er ógnað með framkvæmdinni; þegar hefur fjórum að auki verið raskað annarsstaðar á skaganum. Forsendur sem lagðar eru upp varðandi „ferðamannaveg“ falla um sjálfar sig ef vegurinn verður ekki felldur betur að landi og náttúruminjum en ráð er fyrir gert. Tillagan gerir ráð fyrir vegi milli tveggja óbrinnishólma í Ögmundarhrauni; Húshólma og Óbrennishólma. Hún sker þessa sérstöku landslagsheild í sundur, auk þess sem hætt er við að aukin umferð í Húshólma valdi spjöllum ef ekkert er að gert til að undirbúa aukinn ágang. Húsatóttir þar eru sennilega meðal merkilegustu fornminja á Reykjanesi. Athuga þarf betur hvar nýr vegur á að liggja yfir hrauntraðir sunnan við Eldborgir undir Geitahlíðum til að vernda þær sjaldséðu jarðminjar. Slíkar jarðminjar eru ekki algengar í Evrópu og eru sennilega ekki til utan Íslands og Ítalíu. Þótt hrauntraðir séu til á mörgum stöðum á landinu eru þær flestar fjær vegi en hér.

Örn

Örn.

Fram kemur í skýrslunni að tvö forn arnarsetur eru í grennd við fyrirhugaðan veg; óþekktur staður í Ögmundarhrauni og þekktur staður í Litla-Hrauni skammt sunnan Eldborga. Vegurinn mun liggja aðeins 275 m frá síðarnefnda setrinu. Þess má geta að viðmið varðandi umferð í grennd við arnarsetur er 500 m. Auk þess munu framkvæmdir hafa áhrif á þriðja arnarsetrið á þessum slóðum, norð-austan við Hlíðarvatn. Þar er gert ráð fyrir umfangsmiklum námagreftri í gamalli námu beint fyrir neðan fornan arnvarvarpstað.

Arnarfell

Arnarhreiður á Arnarfelli í Krýsuvík.

Ernir urpu á umræddum stöðum fram undir aldamótin 1900 (í Ögmundarhrauni og við Krýsuvík) og við Hlíðarvatn fram undir 1910. Þá var þeim útrýmt í þessum landshluta og hafa þeir ekki orpið á Reykjanesskaga síðan. Á Reykjanesskaga eru þekkt níu forn arnarsetur en meirihluta þeirra hefur verið raskað með framkvæmdum, einkum vegagerð og námavinnslu. Hér má nefna Arnarklett við Njarðvík, Gálga hjá Stafnesi, Stampa við Reykjanes og Arnarsetur við Grindavík. Þá má nefna Arnarfell í Krýsuvík og Arnargnýpu á Sveifluhálsi. Lagning Suðurstandarvegar og efnistaka í tengslum við þá framkvæmd gæti í einu vetfangi raskað þremur arnarsetrum til viðbótar. Það eru því eindregin tilmæli Náttúrufræðistofnunar Íslands að þeim verði þyrmt við röskun; einkum setrunum í Litla-Hrauni og við Hlíðarvatn.

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Arnarstofninn hefur smám saman verið að rétta úr kútnum á undanförunum árum og því má búast við að þeir setjist að í öðrum landshlutum er fram líða stundir. Í fyrra (2002) urpu ernir t.d. í fyrsta sinn í meira en 100 ár á Norðurlandi og þá á gömlu þekktu arnarsetri. Reynslan sýnir að ernir taka sér fyrst og fremst bólfestu á fornum varpsetrum. Það er því mikilvægt að tryggja vernd slíkra staða. Þess má geta að undanfarið ár hefur örn haldið til í Selvogi og m.a. sést í grennd við gamla setrið við Hlíðarvatn. Það er því einungis tímaspursmál hvenær ernir setjast aftur að á þessum slóðum, svo fremi þeir fái frið til þess.”

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Örn

Örn.

Möngutóftir

Leitað var staðfestingar á selstöðu frá Fremra-Hálsi í Kjós. Til leiðsagnar var fenginn Guðbrandur Hannesson (f: 1936), bóndi í Hækingsdal og fyrrum oddvita í Kjósarhreppi. Maðurinn sá er jafnframt kunnugastur um örnefni, sagnir og minjar í hreppnum.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um selstöðu frá Fremra-Hálsi (Fremrehals) í Kjósarhreppi: „Selstöðu á jörðin í heimalandi“. Svo er að sjá á umfjölluninni að jörðin hafi verið notadrjúg og búsældarleg því jarðardýrleikinn er sagður vera xxii, en „túnin stórlega fordjörfuð af skriðum og engjar öngvar“.

Möngutóft

Möngutóft.

Sauðafell var þá hjáleiga frá Fremra-Hálsi, „bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið. Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremra-Hálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru nú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. Þar er nú selstaða frá Hálsi.“
Maungutóftir eru sagðar hafa verið hjáleiga frá Fremra-Hálsi, „bygt í fyrstu manna minni, og varaði bygð um ein 4 eður 5 ár“
Hulsstaðir var önnur hjáleiga; sagðir „enn nú fornt eyðiból og liggur í Hálslandi, veit enginn nær eyðilagst hafi. Þar er túnstæði alt í hrjóstur og mosa komið, og því ómugulegt aftur að byggja“.
Guðbrandur benti FERLIR á Hulsháls eða Hulshrygg. Taldi hann líklegt að hjáleigan Hulsstaðir hafi verið öðru hvoru megin við hrygginn þótt hann hafi ekki séð tóftir þar. Leit að Hulsstöðum bíður betri tíma.

Heimild m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Guðbrandur Hannesson, bóndi í Hækingsdal.
-Örnefnaýsingg fyrir Neðir-Háls í Kjós.

Fremra-Háls

Fremra-Háls – stekkur.

 

Eldgos

Á nýlegri ferð FERLIRs um hraunin vestan Grindavíkur kom í ljós gata frá Stað upp í gegnum Lynghólshraun og óbrennishólma Lambahrauns áleiðis í Eldvörp. Þá er ljóst að gatan frá Stað upp á Prestastíginn ofan við Hrafnagjá hefur legið sunnar en áætlað hefur verið. Gatan er vörðuð að hluta og kemur inn á Prestastíginn áleiðis niður að Húsatóftum ofan við Sauðakróka.
Svæðið-5Ætlunin var að fara á ný inn í óbrennishólmann í Lambahrauni og fylgja götu upp frá honum í gegnum Eldvarpahraunið áleiðis upp í sunnanverð Eldvörp og síðan fyrrnefndri götu inn á Prestastíginn til baka áleiðis niður að Stað.
Lambahraunið er >4000 ára og <6000 ára. Sandfellshæðin er ~11500-13500 ára.

Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll. Frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.
Sunnan Rauðhóls eru nokkur hraun; Klofningshraun, Berghraun (Eldvarpahraun) og Lynghólshraun sem bera samheitið Rauðhólshraun.

Eldvorp

Austan við Rauðhól tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226.
Eldvorp-2Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Málfríður Ómarsdóttir hefur m.a. gert ritgerð (2007) um Eldvarpasvæðið. Þar segir m.a.: „Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Elstu og minnstu dyngjurnar eru úr ólivín pikríti sem runnið er á miklu dýpi og nær yfir 80-200 km. Stærri og yngri dyngjurnar eru úr ólivín þóleíti og eru þær allt að 6-7 km3 hver. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Í EldvorpumGuðmundsson, 2001).
Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004).
GöturnarVið Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Gata-10Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga.
Í Eldvorpum - 10Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið Í Eldvorpum - 12á gosið.
Stærsta dyngja innan Reykjanes-eldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500-13500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni.
HrafnagjáÞegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum. Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld.
Hrafnagjá sunnanverðEldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis. Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
Varða ofan StaðarFlest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám.
Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Ögmundarhraun vestan Krýsuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krýsuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983).
Refagildra ofan við StaðÍ Krýsuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879. Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvarkerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar. Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
SkollafingurStampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin: Útbreiðsla og aldur hrauna sem runnu eftir landnám á Reykjanesskaga. Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón Jónsson, 1983).
Samkvæmt Jóni Jónssyni (1983) þá hefur gosið á Reykjanesskaga allt að 12-13 sinnum frá því að landnám hófst en eins og áður segir þá hefur oftast gosið í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).“
Ganga um framangreint svæði staðfesti að um fjárgötur var að ræða. Varðaða leiðin ofan við Stað er og verður enn ráðgáta, a.m.k. um sinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.
-Málfríður Ómarsdóttir, Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, apríl 2007.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Mosfell

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ árið 2006 er m.a. fjallað um jarðirnar Mosfell og Minna-Mosfell: „Saga Mosfells er fyrst getið í Landnámu og oftlega í Egilssögu en einnig í fleiri fornritum svo sem Gunnlaugssögu.
Mosfell-222Um 1200 er Mosfells getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar (Dipl. Isl. XII, bls. 9).
Elsta heimild um Minna-Mosfell eru Fógetareikningar frá árunum 1547-1552. Þá er jörðin komin í eigu konungs og er í reikningunum nefnd
„Mijndemosse-feldt“ (sbr. Dipl. Isl. XII).
Um miðja 15. öld er Mosfell komið í eigu Skarðverja. Greinir frá því í skiptabréfi, eftir Björn ríka Þorleifsson, frá 1467, að Mosfell komi í hlut ekkju hans, Ólafar Loftsdóttur, að Skarði á Skarðsströnd (Dipl. Isl. V, bls. 503). Ekki var Mosfell lengi í eigu Ólafar, því í kaupbréfi frá 1470 segir, að Ólöf Loftsdóttir fái Sigurði Jónssyni Mosfell í skiptum fyrir Hraungerði í Flóa (Dipl. Isl. V, bls. 503).
Á 16. öld kemst Mosfell undir Skálholt er Ögmundur biskup Pálsson kaupir jörðina.
Mosfell-223Við siðaskiptin er Mosfell, ásamt fleiri kirkjujörðum, tekið undir konung. Til vitnisburðar um það eru Fógetareikningar 1547-1552 (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1703 er Minna-Mosfell enn konungsjörð. Ábúandi er einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 323-324).
Árið 1704 er Mosfell „Beneficium og kirkjustaður“. Ábúandi er staðarhaldarinn, séra Þórður Konráðsson (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 324).
Jörðin er komin í bændaeigu árið 1847 og er einn leiguliði ábúandi. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Mosfells getið sem kirkjujarðar. Ábúandinn er prestur. Mosfell er enn í ábúð (1980) og er kallað Mosfell I í Jarðaskrá Landnáms ríkisins. Eigandi er ríkissjóður (J. Johnsen). Egilssaga getur um kirkju á Mosfelli og er það staðfest í áðurnefndri kirknaskrá Páls biskups. Svo virðist sem kirkja hafi verið lögð niður á Mosfelli einhvern tíma fyrir miðja 14. öld. Næsta kirkja á Mosfelli er reist á fyrri hluta 16. aldar og er kirkja að Mosfelli til ársins 1888, en er þá flutt að Lágafelli. Kirkjan, sem nú stendur að Mosfelli var vígð árið 1965 (sjá nánar um kirkju að Mosfelli nr. 2).
Silfur Egils Magnús Grímsson skrifar talsvert um líklega felustaði. Segir hann á einum stað: „En þegar skammt er komið suðr fyrir Köldukvísl á Víðinn, á að geta 100 faðma, verða þar fyrir jarðholur miklar, einar þrjár eða fjórar. Eru þær víðar um sig og djúpar, með leireðju í botninum. Eru þær jafnan fullar af vatni, og sést lítill munr á því, þó þerrar gángi“. Ætlar Magnús, að þar séu komnar jarðholur þær er nefndar eru í Egilssögu. Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra.

Mosfell-225

En ekki hefir söguritarinn vitað af því að segja. … Neðan undir hólbrekkunni á Mosfelli, sem fyr er getið, er dý eitt fullt af grjóti, eigi stórt um sig, en furðulega djúpt. Þar halda sumir að fé Egils sé niðri í“. Ekki telur Magnús þetta vera líklegan stað. Telur hann líklegast að Egill hafi fólgið silfur sitt
í einhverjum pyttinum á Víðinum, fyrir sunnan ána Köldukvísl. Þó segir hann þetta ekki verða sagt með vissu. „Sagan segir og, að þángað [í jarðholunum] sé opt sénn haugeldr, og styðr það þessa ætlun, jafnvel þó eg ímynda mér slíka elda af öðrum rótum runna en fé, og því harðla marklitla í þessu efni. En slíkar sjónir sýna opt trú manna, og hygg eg, að menn hafi snemma orðið á sömu ætlan um þetta og eg er, af því líkurnar hafa þótt svo sterkar til hennar.

Mosfell-226

Einn manna hefi eg talað við, sem enn er lifandi, sem þykist hafa séð slíka elda, nálægt því svæði sem hér um ræðir, fyrir hérumbil 15 eðr 16 árum“. Endar Magnús vangaveltur sínar um hvar silfur Egils sé að finna með því að ítreka að pyttirnir, nálægt hinum forna vegi yfir Víðinn, séu líklegastir (Magnús Grímsson, bls. 266-270).
Eina sögu kveðst Magnús hafa heyrt um að silfur Egils hafi fundist: Einn góðan veðurdag var bóndinn í Þverárkoti á leið til kirkju að Mosfelli. Þegar hann kom að Kýrgili veik hann sér lítillega upp með því „að gegna nauðsynjum sínum“. Þarna átti bóndi að hafa fundið peninga en leyndi fundi sínum vel. Er sagt að hann hafi orðið ríkur á fáum árum. Silfrinu átti bóndi að hafa skipt hjá Jóni Ólafssyni ríka í Síðumúla (Magnús Grímsson, bls. 271). Í athgr. 5 í sömu heimild stendur að árið 1722 hafi fundist enskir peningar nálægt Mosfelli. Höfðu þeir skolast fram í vatnagangi.

Mosfell-227

Frásögnin um peningana er í ritgerð eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík um íslenskar sögur. Segir Magnús, að sér þyki líklegast „að Grunnavíkr-Jón hafi eitthvað orðið áskynja um peningafund Þverárkotsbóndans, og haldið að gilið mundi hafa spýtt fram fénu.“ Ekki telur Magnús miklar líkur á, að saga þessi sé sönn. Bóndi hefði eins getað efnast í Þverárkoti án þess að hafa fundið peningana (Magnús Grímsson, bls. 276).
Aðrar upplýsingar: Seljabrekka var kölluð Jónssel upphaflega. Nafninu var breytt í Seljabrekku á árunum 1932-1938. Jónssel er nýbýli, frá 1922-1932, úr landi Mosfells. Eigandi 1979 var ríkissjóður. Leiguliði Guðmundur Þorláksson (Fasteignabækur, Jarðaskrár).“
Í framangreindu samhengi vekja tvær tóftir á bökkum Kýrgils sérstaka athygli. Ekki er óraunhæft að ætla að í gólfi annarrar þeirra hafi nefndur Egill grafið silfursjóðinn umrædda: „Um 680 m NA Minna-Mosfells og um 1,2 km norðan Lundar. Við ofanvert Kýrgil á nyrðri bakka þess. Um 200 m eftir að Kýrgil beygir til vesturs er grasi gróin brekka eða laut á norðurbrún gilsins. Þarna er gilið fremur grunnt. Sunnan gilsins sér á mela, að hluta til mosagróna (Ágúst Ó. Georgsson). Tóft þessi liggur í því sem næst N-S og er hún um 5 m á lengd og 4 á breidd að utan máli. Er hún gróin og fremur gamalleg að sjá. Suðurhluti tóftarinnar er skýrastur. Þar eru veggirnir um 40 cm háir. Norðausturhornið er næstum af, í sömu hæð og graslendið umhverfis. Samt má greina útlínur nokkurn veginn. Inngangur hefur verið í suðurgafli tóftarinnar. Ekki er gott að segja til um hlutverk rústar þessarar. Þetta gæti e.t.v. hafa verið lítil rétt eða kró fyrir lömb. – Rústin er án efa frá fráfærutímabilinu. Umhverfið er mjög grasi gróið, gott til beitar og skjólsælt. Tóftin er of lítil til að vera stekkur eða kvíar. Stendur hún á sléttum bala á norðurbrún Kýrgils. 

Mosfell-228

Fast að baki er brekka. Stekkjarúst er um 50 m austar, á brún gilsins. Er sennilegt að tóft þessi hafi verið notuð sem lambabyrgi eða kró. Guðmundur Skarphéðinsson, bóndi á Minna-Mosfelli vísaði á rúst þessa 23/7 1980 (Ágúst Ó. Georgsson).“
Um hina tóftina segir: „Á norðurbarmi Kýrgils um 150 m austar en það beygir til vesturs. Um 550 m NA Minna-Mosfells. Grasi gróin, slétt að mestu, flöt eða kvos á norðurbrún Kýrgils. Svæði þetta er skjólsælt og grasmikið. Neðan og sunnan þess taka við melar, meira og minna gróðurlausir (Ágúst Ó. Georgsson). Tóftin, sem sennilega hefur verið stekkur er ca. 3 x 5 m að utanmáli. Veggirnir eru um 70 cm háir alls staðar, nema suðurveggurinn, sem bara undirstöðusteinar eru eftir af.

Mosfell-229

Snýr stekkurinn í S-N, eða því sem næst. Er hann alveg á blábrún gilsins, sem hallar bratt í suður. Þessi brún gilsins (norðurbrún) er öll grasi vaxin en klettar eru að sunnanverðu. Inngangur í stekkinn er á eystri langhlið, eilítið norðan við hana miðja. Er tóft þessi gerð úr torfi og grjóti. Frá suðausturhorni stekksins og meðfram gilbrúninni er um 5 m langur hlaðinn grjótgarður. Að norðaustanverðu eru leifar annars grjótgarðs, sem hefur náð frá barði, þar ofan við, og að innganginum. Hin náttúrulegu skilyrði eru þarna ákjósanleg: Barðið, gilið og hinir tveir grjótgarðar hafa stýrt fénu rétta leið, þ.e. inn í stekkinn (Ágúst Ó. Georgsson). Guðmundur Skarphéðinsson segir að faðir sinn hafi skoðað þennan stað árið 1937 og voru þar þá rústir einar. Töldu þeir feðgar að um stekk hafi verið að ræða.“
Ofan tóftanna, efst á norðaustanverðu Mosfelli er Gatklettur sá er jafnan er nefndur þegar selstaðan fyrrum frá Minna-Mosfelli ber á góma. Þarna á millum, yfir ásinn, liggur forn gata, bæði norður og norðvestur fyrir Mosfell og áleiðis að Svínaskarði.

Heimild:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner, Guðmundur Ólafsson, Ágúst Ó. Georgsson, Kristinn Magnússon og Bjarni F. Einarsson. Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2006.

Heimildaskrá:
-Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbók 1604-65.
-Dipl. Isl.: Diplomatarium Islandicum. Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf, gjörninga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland og íslenzka menn. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857 og áfr.
-Egils saga Skalla-Grímssonar. Sigurður Nordal gaf út. Hið íslenska fornritafélag. Reykjavík 1933.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin út af hinu íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.
-Jarðaskrár 1958-1979. Landnám ríkisins hefur tekið saman eftir forðagæsluskýrslum og skýrslum hreppstjóra um jarðir í ábúð og eyði. Óprentuð. Skráin er einungis til hjá Landnámi ríkisins.
-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu 1890.
-Magnús Grímsson. „Athugasemdir við Egilssögu Skallagrímssonar“. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu.

Munnlegar heimildir:
-Guðmundur Skarphéðinsson bóndi á Minna-Mosfelli.

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.