Straumssel

Hraunin
Hraunajarðirnar, millum Hvaleyrar og Hvassahrauns, hafa, líkt og aðrar jarðir á Reykjanesskaganum, haft fé í seli að sumarlagi svo lengi sem sögur herma. Jarðirnar byggðust upp allnokkru eftir landnám og þar hefur að öllum líkindum verið kotbúskapur til að byrja með þar sem ábúendur lifðu aðallega á sjávarútvegi og fáeinum kindum og sauðum. Kýr hafa þar heyrt til undantekninga í fyrstu, en eftir því sem kotin urðu að bæjum jukust umsvifin. Engin kúasel eru þekkt á Hraunasvæðinu, en örnefni tengd tengd kúabúskap eru kunn, s.s. Kúarétt vestan Straums – í landi Óttarsstaða. Þar var nátthagi fyrir kýr og augljóslega stöðull ef tekið er mið af grjóthlöðnum mannvirkjum.
Sennilega er fyrst haft í seli frá Straumi á 14. öld og þá í Fornaseli. Forn selstígur, markaður í hraunhelluna á kafla, liggur upp frá bænum, upp með túngarði Þorbjarnarstaða og áfram upp gróin hraunin austan Almennings, að Fornaseli. Stígurinn er varðaður alla leiðina með litlum mosagrónum vörðum. Ábúendur á Þorbjarnarstöðum hafa síðar notað stíginn upp að þeirra selstöðu í Gjáseli, jafnvel samtímis um einhvern tíma. Straumsselsstígurinn liggur hins vegar upp frá Straumi skammt vestan Þorbjarnarstaða, um hraunið vestan Draughólshrauns og kemur að Straumsseli að norðvestan. Hann er varðaður með litlum vörðum, en gatan hverfur á köflum í mosagróningum. Báðum framangreindum stígum verður betur lýst hér á eftir.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BFE.

Fornasel – prufuholur
Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings; “Fornasel – Prufuholugröftur í seljarústir suður af Straumsvík” frá árinu 2001, segir m.a.: “Selsins er hvergi getið í rituðum heimildum og er aðeins nefnt í Örnefnaskrá. Um nafngiftina er ekkert vitað en hún hlýtur að vísa í fornt sel eða að annað sel hafi tekið við þessu (Nýjasel?) og nýtt nafn fest á hið gamla!”.
Ekki er minnst á Fornasel í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum. Hins vegar er getið um Fornasel í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar við sama bæ. Þá er og sagt frá Fornaseli í örnefnalýsingu Gísla fyrir Þorbjarnarstaði, en þar er það staðsett þar sem heitir Gjásel, sem var sel frá þeim bæ. Í Jarðabókinni 1703 er Gjásel tiltekin sem selstaða frá Þorbjarnarstöðum.
Þegar selstaðan í Straumsseli er skoðuð er ljóst að hún hefur ekki verið þar um langa tíð. Bæði eru húsatóftir í selinu augljósleg yngri en í Fornaseli og auk þess hafa þær ekki verið endurbyggðar margsinnis eins og t.d. sjá má í Óttarsstaðaseli (hár og umfangsmikill tóftahóll). Húsin í Fornaseli líkjast eldri tegundum húsa í seljum á þessu landssvæði; stök sundurlaus hús, sem hvert um sig þjónaði ákveðnum hlutverki, s.s. baðstofa, búr og eldhús, en húsin í Straumsseli líkjast hins vegar nýrri tegunum húsa; sambyggð með reglulegum hætti þar sem baðstofa og búr eru sambyggð og eldhúsið hliðstætt.

Fornasel

Vatnsstæði í Fornaseli.

Vatnsból í Fornaseli hefur þótt að jafnaði gott, en er opið og hefur eflaust þornað upp á þurrviðrasömum sumrum.
Í Óttarsstaðasseli er vatnsbólið líkt því í Fornaseli, en húsin hafa verið endurbyggð aftur og aftur, enda endast slíkir bústaðir, sem einungis hafa verið ætlaðir sem skjól í skamman tíma að sumarlagi og lítt verið vandað til, ekki nema takmarkað. Ef grafið yrði í tóftahólinn í Óttarsstaðaseli munu að öllum líkindum koma í ljós eldri stakkennd rými neðst. Þau nýjustu eru lík þeim, sem sjá má í Straumsseli.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í niðurstöðum rannsóknar Bjarna í Fornaseli segir: “Allt bendir til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Hús 1 og 2 hafa verið byggð ofan í dálítilli sprungu í hrauninu og með tíð og tíma hefur sprunga þessi fyllst af áfoki, mannvistarlögum og mold og selið hækkað hægt og bítandi við hverja endurbyggingu sem átt hefur sér stað. Slíkar endurbyggingar virðast allavega hafa verið þrjár. Þessi mikla jarðvegsmyndun sem átt hefur sér stað bendir frekar en ekki til þess að selstaðan eigi sér langa sögu frekar en að áfok sé mikið á staðnum. Kannski er sú saga lengri en C-14 niðurstaðan gefur tilefni til að ætla.
Hús 1 og 2 virðast bæði vera mannabústaðir. Hús 3 gæti verið það, en hólfið sem var kannað í því var ekki mannabústaður heldur trúlega búr. Varla hafa öll húsin verið í notkun samtímis, eða að þau hafi haft breytilega notkun. Þegar eitt þeirra var nýtt sem mannabústaður, var annað eða önnur nýtt sem búr, eldhús eða annað. Hús 1 minnir mest á húsin frá Færeyjum og gæti því gerðþróunarlega séð verið það elsta. Öll eru húsin hlaðin úr hraungrjóti og hellum.

Hraunin

Hraunin – selstígar.

Staðsetning selsins, og annarra selja á svæðinu, er all óvenjuleg fyrir þær sakir að þar er ekki rennandi vatn og selin kúra ekki utan í fjalshlíð eins og alvanalegt er. Vatnsleysið er vandamál á svæðinu öllu og það var leyst með rigningarvatni í vatsbólinu. En að selið skuli ekki vera í Undirhlíðum, er undarlegt, en skýringin gæti verið að þar er ekki rennandi vatn og jarðvegur of gljúpur til að hægt sé að safna því með góðu móti. Eins gætu eignarhald verið skýringin (ekki kannað nú). Þessi staðreynd virðist gilda fyrir öll sel á svæðinu svo sem Straumssel, Óttarsstaðasel, Lónakotssel og Hvassahraunssel.”
Bjarni telur að Fornasel gæti hafa verið eldra en frá því um 1600 og er það að öllum líkindum rétt hjá honum. Einnig gæti selstaðan hafa verið nýtt eitthvað áfram þrátt fyrir að hún hafi verið færð upp í Straumsel. Hins vegar er staðsetning selsins, sem og annarra selja á svæðinu, alls ekki óvenjuleg. Sel á Reykjanesskaganum, sem eru vel á annað hundrað talsins, “kúra” sjaldnast undir fjallshlíðum heldur yfirleitt undir hraunhólum, -hæðum eða gjám.

Brunntorfur

Fornasel – fjárskjól.

Oft eru þau við vötn og læki, einkum á austanverðu svæðinu, en jafnoft við vatnsstæði, bæði náttúruleg og handgerð. Á vestanverðu svæðinu voru t.d. selin á Selsvöllum vestan undir Núpshlíðarhálsi og Sogasel í Sogaselsgíg sunnan Trölladyngju við læki.
Skammt sunnan við Fornasel er hlaðið fjárskjól í litlu jarðfalli. Skjólið er ekki ólíkt því og finn má í kringum Straumssel. Vestan við Gjásel er fjárskjól (Gránuskjól) með fyrirhleðslum framan við. Sunnan og vestan við Óttarsstaðasel eru einnig fjárskjól (Rauðhólsskjól og Þúfhólsskjól).
Hraunajarðirnar áttu ekki land í Undirhlíðum.

Örnefnin við Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaborg

Borgin – Óttarsstaðaborg.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: “Nú er að fara upp fyrir þjóðveginn. Þar er ofan við gamla veginn hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker. Smalaskálahæðir heitir hæðin hér í kring. Þar aðeins ofar er lægð, og ofan hennar taka við aðrar hraunhæðir, Löngubrekkuhæðir, og meðfram þeim eru Löngubrekkur. Meðfram þeim lá vegur hér áður fyrr. Austur af Smalaskálahæðum er svo Rauðimelur sá, sem nú er að mestu fluttur burt og kominn í vegi. Vestur af Löngubrekkuhæðum er gömul fjárborg glögg, sem heitir Borg, og þar vestar og niður að vegi er hóll, Sauðaskjól.

Brennisel

Brennisel í Brenniselshæðum – brúkað til kolagerðar frá Óttarsstöðum.

Nú er á honum hár rafmagnsstaur. Norðvestur frá Sauðaskjóli eru Högnabrekkur í Lónakotslandi.
Ofan við Borgina eru svonefndir Litluskútar, og þar ofar liggur þar þvert yfir svonefndur Breiðiás, hraunbreiða, sér hæð, er með keri ofan í. Vestur af Litluskútum er í Lónakotslandi Skjöldubali. Upp af Löngubrekkum, í norðaustur af Breiðás, er Litliás rétt ofan við gamla veginn. Þar austur af honum heita Brenniselshæðir (62), og austan við Löngubrekkur er svo Gvendarbrunnshæð í Straumi.
Austur af Lónakotsseli eru tveir klettar, nefndir Valklettar, og þar austur af er sérkennilegur hóll með helli undir, sem heitir Steinkirkja. Upp af Brenniselshæðum heitir Bekkur og í hrauninu þar hjá Bekkjarhellir. Upp af þessu er svo Óttarsstaðasel, og þar austur af heita Tóhólar. Á þeim er Tóhólavarða.

Skorás

Skorás – selsvarða.

Upp af Lónakotsseli tekur við einn ásinn, sem heitir Skorás. Þar upp og vestur er svo Bjarnarás, og efstur er Snjódalaás. Upp af Bekkjum (svo), milli þeirra og Óttarsstaðasels, er Sveinshellir; vont er að finna hann – varða við hann á flata hrauninu. Þar var hægt að hafa á þriðja hundrað fjár. Neðan Bekkja, ofan við Gvendarbrunnahæð (svo), er Seljahraun.
Nokkuð langt upp af Tóhólum heita Merarhólar. Þetta eru allháir hólar. Neðan við þá er Rauðhóll. Þetta er mikill hóll upp af Tóhólum. Niður af honum er Rauðhólstagl. Þar er fjárhellir.”

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaðasel segir m.a.: “Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.
Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn . Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker. Framan við hellinn óx fyrrum mikil birkihrísla. Hana kól í frostunum 1918, en rafturinn er þarna enn. Töluvert vestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás. Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.

Skógargata

Gerði við Skógargötu.

Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur stígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið. Varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

Óttarsstaðasel

Meitilsskúti.

Sunnanverðu við götuna eru klettar, sem nefnast Meitlar, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Í þeim stærri er stór fjárskúti, sem kallaður er Meitilshellir eða Meitilsskúti. Austur frá Meitlum eru Stórhæðir í Straumslandi. Skammt sunnan við Meitla er komið í laut nokkuð langa og blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Suðaustur frá selinu taka við klapparhæðir á stóru svæði, nefndar Bjarnarklettar. Þar er grasi gróið jarðfall, sem nefnt er Bjarnarklettaker. Þar fennti oft fé. Þar suður af eru kölluð Klungur í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, nafnið haft eftir Sveini í Eyðikoti. Gústaf þekkir ekki þetta nafn, en telur óhætt að treysta Sveini. Landamerkjalínan liggur suður og upp úr Mjósundavörðu, yfir hraunflatneskju, sem nefnd er Flatahraun. Þar vestarlega er smájarðfall, grasi gróið. Eru þar tvö op nær samliggjandi. Ekkert vatn er þarna nema í frostum. Upp frá hraunbreiðu þessari eru brekkur, sem nefnast Bringur). Neðst í þeim er lítill klapparhóll, sprunginn, nefndur Steinhúsið. Efst í Bringum er Markaklettur (nefndur Klofaklettur í landamerkjalýsingu). Á hann eru klappaðir stafirnir Ótta., Str. Landamörkin liggja þar um og upp í Eyjólfshól. Á honum er varða, sem kallast Eyjólfshólsvarða, en kringum hólinn eru mosahæðir, sem nefnast Mosar. Línan liggur áfram suður í Markastein.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðasel – Þúfhólsskjól.

Vestur frá Óttarsstaðaseli er Þúfhóll í Þúfhólshrauni. Vestan í því er Þúfhólsskjól, allgott skjól. Framan við það er kolagröf svo ætla má að skjólið hafi verið notað til geymslu kola.
Suðvestur frá selinu blasa við miklar hæðir, sem nefnast Tóhólar. Á hæsta hólnum er varða, sem kölluð er Tóhólavarða. Vestur frá hólunum gengur Tóhólatagl og niðri í því er Tóhólaskjól við Tóhólaskúta. Suðvestur frá Tóhólavörðu er stór klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Rauðhóll. Smáskúti er vestan í honum. Kringum hólinn er Rauðhólshraun. Suður frá Rauðhól eru litlir hólar, Merarhólar, á stóru svæði. Vestur af þeim eru lægðir og efst í þeim stakur hóll, Einirhóll. Er þá komið mjög nálægt mörkunum við Hvassahraun.”

Örnefnin við Straumssel

Draughólshraun

Draughólshraun.


Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Straumssel segir m.a.: “Ofan við Grenigjár tekur svo við hraunssvæði sem heitir Draughólshraun og efst af því er svo stór hóll sem heitir Draughóll. Vestan við Draughólshraun að Óttarstaðamerkjum er skógur og kvistur sem heitir Mjósund, ofan við þetta strax upp af hrauninu heitir Straumssel, milli Draughóls og Straumsels eru höfðar sem heita Straumsselshöfðar og þar niður af með hraunjaðrinum á Draughólshrauni niður að Grenigjá heitir Katlar. Neðan við þá eru Tobbuklettar.”

Tobburétt

Tobburétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straumssel segir m.a.: “Suðsuðaustur frá Mjósundum blasir við hóll í hrauninu, nefnist Draughóll. Kringum hann er úfið hraun og nefnist það Draughólshraun. Af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða. Í skrá G.S. segir, að þarna hafi einnig verið Tobbuklettsrétt. Nafnið þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar. Vestur frá Tobbuklettum eru klettar miklir og margsprungnir. Óvíst er um heiti þeirra, en vestan þeirra eru Grenigjár. En suður frá Tobbuklettum liggur landamerkjalínan um Flárnar eða Flárnar nyrðri eða Neðri-Flár allt upp í Jónshöfða og síðan um Flárnar syðri eða Efri-Flár. Straumsselsstígurinn hefur legið vestan landamerkjalínunnar spotta og spotta. Annars liggur hann að miklu leyti austan línu í landi Þorbjarnarstaða.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Þegar Flánum sleppir, tekur við mikil brekka og hraunið, úfið mjög. Þar taka við svonefndir Katlar, djúpir hraunbollar og hraunhryggir. Ofar taka svo við Straumsselshöfðar. Sunnarlega í höfðunum er Höfðavatnsstæði uppi á hól. Þar er á sumrum drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra. Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann. Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús er hér innan garðs, og hér er Selsgarðurinn, matjurtagarður. Austur frá Selinu var Selsbrunnurinn eða Straumsselsvatnsstæði, sem er ker, og þrýtur þar aldrei vatn. Suður og upp frá selinu er Straumsselshæð. Þar á er Straumsselshæðarvarða og sunnan í hæðina er Straumsselshæðarskjól.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Úr Jónshöfða liggur landamerkjalínan um Katlana og höfðann og um svokallaðar Stórhæðir, og þaðan liggur línan í Hafurbjarnarholt. Þar uppi er svo Hafurbjarnarholtsvarðan. Síðan liggur línan í Steininn, stóran og mikið sprunginn. Síðan í Nyrzta-Höfða og um Nyrzta-Slakka og svo í Mið-Höfða og Miðhöfðaslakka og síðan í Fremsta-Höfða. Þar á eru þrjár vörður, sem Gísli Sigurðsson nefnir Lýritti, en það nafn þekkja ekki heimildarmenn sr. Bjarna. Suður í garði frá Selinu liggur Straumshellnastígur suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels, og þaðan liggur stígurinn í Straumshellana syðri. Hér eru allgóð fjárskjól, og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Suðvestur og upp er allmikil hæð, sem ekki ber sérstakt nafn, en þar er þúfa mikil, sem nefnist Gamlaþúfa. Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.”

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Óttarsstaðasel og Straumssel eru dæmigerðar selstöður á Reykjanesskaganum.

Búseta í Straumsseli
Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af í framhaldinu. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Sum selin voru ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Má þar t.d. nefna Kaldársel. Þegar Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli og húsaði selið vel um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853.

Straumssel

Straumssel.

Þegar Guðmundur gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Bærinn Guðmundur lét reisa í Straumsseli stóðu fram undir aldamótin 1900 eða aðeins lengur en þá mun hann hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar og vel greinilegar ásamt hlöðnum görðum umhverfis Seltúnið. Rými bæjarins eru þrjú, auk hlaðins garðs að norðvestanverðu. Brunnurinn er þar norðaustanvið.

Straumsselsstígur.

Straumselsstígur.

Selstígar í Hraunum
Í seinni tíma lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshraun, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Straumi, hafi verið forn gata þaðan. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af. Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.
Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.

Straumssel

Straumsselshæðarvarða.

Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.
Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.

Straumssel

Straumssel – Höfðavatnsstæðið.

Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan sem áður sagði. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumssel

Straumssel – bærinn og garðar umleikis.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Innan selsgarðsins um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta fyrir utan auðvitað vöruflutninga. Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi frekar verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Straumssel

Straumsselið.

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.
Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].
Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.

Verklag í seli

Selsmatselja

Selsmatsselja í seli.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.
Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.

Mosfellsbær

Í stekknum.

Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.
Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Færukví

Færukví – smalinn fremst; Daniel Bruun.

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Rauðhólssel

Rauðhólssel. Frá selinu þurfti oft að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Draugagangi var kennt um.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til sex vikur. Sumsstaðar á Reykjanesskaganum þurfti stundum að stytta viðveruna í seljunum vegna vatnsskorts. Erfitt gat verið fyrir bændur að viðurkenna undanhaldið. Þá var oftar en ekki reimleikum, ásókn útilegumanna eða huldufólks kennt um.
Oft var glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Ef á vantaði í hópinn við mjaltir var smálinn látinn “eta skömmina”, þ.e. hann fékk ekki mat þanni daginn. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði en áður þekktist. Samt sem áður, þegar fyrrum smalar voru spurðir um fyrrum ævi sína, sögðu þeir jafnan að vinna þeirra í seljunum hafi verið besti tíminn. Þá höfðu þeir ákveðið og tiltekið hlutverk, báru ábyrgð og nutu útivistarinnar frjálsir úti í náttúrunni.

Seljabúskapur

selhús

Hús í seli.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.

Mosfellssel

Mosfellssel – tilgáta.

Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóri, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.
Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.

selhús

Selshús – teikning ÓSÁ.

Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilget var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók han svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.
Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan, ekki síst vegna breyttra atvinnuhátta og þéttbýlismyndunar, neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugum aldarinnar.
Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.

Vatnaborg

Vatnaborg – fjárborg ofan Vatnsleysustrandar.

Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.
Á Reykjanesskagnum þekktist ekki að byggð væru sérstök hús yfir fé fyrr en í upphafi 21. aldar. Fram að þeim tíma var notast að mestu við fjárskjól og fjárborgir.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum og Baðsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér. Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel og aðrar minjar (ÓSÁ).

Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.
Áður hefur verið minnst á skrif Geirs Bachmanns í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 þar sem hann segir bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.

Hraunssel

Hraunssel.

Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn. En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli. Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið ofan Brunntorfa, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus. Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur. Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins. Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.

Fornasel

Fornasel ofan Vatnsleysustrandar – uppdráttur ÓSÁ.

Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel. Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.

Merkinessel

Merkinessel.

Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar. Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu.
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.
Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, sem fyrr sagði, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldamótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar. Þórkötlustaðir hafði um tíma selstöðu sunnan Vigdísavalla í skiptum fyrir útræði frá Þórkötlustaðanesi. Um tíma hafði Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn, einnig í skiptum fyrir útræði á Ströndinni. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma. Skammt frá Kaldárseli, í Helgadal, eru tóftir selstöðu. Skammt norðaustan hennar eru mannvistarleifar selstöðunnar, s.s. hleðslur fyrir og í hraunrás og hlaðinn stekkur.

Sogasel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – Rauðhólsskjól.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna gerði við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimildir frá miðöldum og jJarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.

Kringlumýri

Kringlumýri á Sveifluhálsi.

Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapar á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703

Nessel

Nessel; dæmigert sel á Reykjanesskaga – uppdráttur ÓSÁ.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá frásagnir um sel og selstöður, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesskaganum; í fyrrum landnámi Ingólfs. Þau og þær eru yfir fjögur hundruð talsins. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun millum Garðabæjar og Hafnarfjarðar og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreindar selaðstöður á a.m.k. fimm stöðum, sem ekki hefur verið skráðar hingað til (við Selöldu, í Húshólma, við Hraunsnes vestan við Lónakot og Kringlumýri í Sveifluhálsi og norðan Krossfjalla).

Hafnarsel II - Breiðabólstaðasel II

Hafnarsel II – Breiðabólstaðasel II – vatnsstæði.

Í Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 er getið 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldarmótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur.

Við nýlegan uppgröft Ragnheiðar Traustadóttir í Urriðakoti við Urriðakotsvatn í Garðabæ kom í ljós að þar hafði um tíma verið kúasel, enda kjörlendi til slíks og selstígurinn frá Hofstöðum stuttur.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.
Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í

Selalda

Selalda; Krýsuvíkursel og Eyri.

Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Fjarlægð selja frá Hraunabæjum
Á Reykjanesskaganum voru selstöðurnar að jafnaði innan við 6 km frá bæjum. Í Hraununum voru fjarlægðirnar eftirfarandi:
Straumur – Fornasel: 5.0 km
Straumur – Straumssel: 3.5
Óttarsstaðir – Óttarsstaðasel: 4.0
Þorbjarnarstaðir – Gjásel: 3.5 km
Lónakot – Lónakotssel: 3.5 km

Niðurlag

Fjárskjól

Fjárskjól Straumsbænda í Fornaseli.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Þrátt fyrir framansagt misjafnlega gáfulegt um selstöður og sel á Reykjanesskaganum er eitt alveg heiðskýrt; haft var í seli á Skaganum um árhundraða skeið, enda bera öll áþreifanlegu ummerkin þess glögg vitni…

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Gísli Sigurðsson.
-Fornasel – Prufuholugröftur í seljarústir suður af Straumsvík, Bjarni F. Einarsson, 2001.
-Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson.
-Andvari, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884 – Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48.
-Lýsing Grindavíkursóknar 1840-41 – Geir Bachmann.
-Lýsing Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842.
-Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983.
-Egon Hitzler, “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, gefin út í Noregi árið 1979.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir, grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Ægir

Í Ægi 1986 er fjallað um “Skipasmíðar í Hafnarfirði – Iðngrein á gömlum merg drepin í dróma“. Hér verður tekinn út sá kafli er fjallar um fyrstu skipasmíðastöðina í Hafnarfirði, Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar og Skipasmíðastöðina Dröfn neðan Jófríðarstaða.

Dröfn

Naust við Hafnarfjörð nálægt Skipasmíðastöð Nyborgs og Drafnar.

“Fyrsta skipasmíðastöð sem sögur fara af hér á landi var reist árið 1805 af Bjarna Sívertssen riddara í Hafnarfirði. Eftir hans dag leið heil öld þar til stofnað var til smíða á þiljuðum bátum í Hafnarfirði á ný. Þá stofnaði Júlíus Nýborg og fleiri Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar sem starfaði í þrjá áratugi. Upp úr 1940 voru tvær nýjar skipasmíðastöðvar stofnaðar í Firðinum. Skipasmíðastöðin Dröfn og Bátalón, og eru báðar starfræktar enn í dag. Þá eru starfandi minni fyrirtæki sem lagt hafa fyrir sig smíðar á minni bátum úr tré og trefjaplasti.
Skipasmíðar liggja niðri hér á landi um þessar mundir. Fiskiskipastóll landsmanna þykir nógu stór og ekki er gefin fyrirgreiðsla í opinberum sjóðum til smíði nýrra fiskiskipa. Kvótakerfi og veiðitakmarkanir útiloka að nýir aðilar geti hafið útgerð með því að láta smíða sér skip. Skipastóllinn gengur sífellt úr sér þrátt fyrir mikla endurnýjun á eldri skipum, sem oft eru það miklar að spurning er hvort ekki væri nær að byggja ný og hagkvæmari skip.

Dröfn

Skip á kambi, alls átta. Fjögur þeirra smá, hin nokkuð stærri. Eitt skúta. Sjór og tangi í bakgrunni, byggð á honum lengst t.h. Fiskiskip á legunni, vélbátar og skútur, ennfremur togari. (Kartöflu)beð í forgrunni og tveir staurar. Tekið þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú.
Skip lengst t.v. er sennilega skúta með hjálparvél.
Myndin birtist í bókinni Saga Hafnarfjarðar I (Hafnarf. 1983), bls. 397. Þar sögð vera tekin um 1920. Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar sbr. tilv. rit. Að sögn heimildarmanna er “Arthur-Fanny” lengst t.v. Telja þeir myndina frá um 1921-1922. Garðakirkja er rétt vinstra megin við fjórða skip (á kambi) frá hægri. Júlíus Nyborg hafði skipasmíðastöð hér á þessum árum. (Sbr. Sögu Hafnarfjarðar I, (Hafnarf. 1983), bls. 397 o.áfr.).

Allt stefnir í það að vertíðarflotinn verði innan fárra ára endurnýjaður að miklu leyti. Hvort íslenskur skipasmíðaiðnaður verður þá í stakk búinn til að sinna því verki er vafamál eftir þá stöðvun sem verið hefur á skipasmíðum síðan 1981. Verkþekkingu verður að halda við og hlúa að tækniþróun, svo útlitið er ekki bjart fyrir íslenska skipasmíði, er þessi mál hnýtast í sífellt harðari hnút sem erfitt verður að leysa nema méð því að höggva. Þá gæti svo farið, eins og áður hefur gerst hjá okkur, að meginhluti smíðanna verði keyptur erlendis frá.
Minni bátum sem ekki eru jafn bundnir kvótakerfi hefur fjölgað mjög upp á síðkastið. Þar ber mikið á plastbátum, sem framleiddir eru innanlands. Þessi nýi markaður skipabygginga þarf ekki að kvarta undan verkefnaleysi.
Hér á eftir verður litið til sögu skipasmíða í Hafnarfirði allt frá því Bjarni Sívertsen lét fyrst byggja þar þilskip og til þeirra verkefna sem hafnfirskir skipasmiðir fást nú við.

Fyrsta skipasmíðastöðin

Dröfn

Dráttarbraut sunnan dráttarbrautar Drafnar.

Íslendingar hafa á öllum öldum smíðað sér fleytur og átt fjölmarga haga skipasmiði. Sú verkkunnátta féll aldrei niður, þrátt fyrir miklar þrengingar á efnahag þjóðarinnar á síðari öldum. Og einstaka höfðingi eða ofurhugi réðst í það að láta smíða stærri skip en yfirleitt voru notuð til fiskveiða. Meðal þeirra sem smíðuðu duggur voru Páll Björnsson í Selárdal um 1760 og Eyvindur Jónsson frá Upsaströnd í Eyjafirði árið 1715. Árið 1803 lét Bjarni Sívertsen kaupmaður í Hafnarfirði smíða þilskip. Yfirsmiður þess var Ólafur Árnason sem bjó á Hvaleyri. Hann mun hafa smíðað heil hundrað fiskiskipa fyrir sveitunga sína í Firðinum og á Álftanesi um sína daga. Árið 1804 festi Bjarni kaup á jörðinni Jófríðarstöðum fyrirbotni Hafnarfjarðar og lét þar árið eftir reisa skipasmíðastoð, þá fyrstu hér á landi. Stöðin mun hafa verið nærri þeim stað sem slippur Skipasmíðastöðvarinnar Drafnar er nú.
Fátt er vitað um skipasmíðastöðina, en þó þykjast menn hafa fundið fót fyrir því í gömlum skjölum að í það minnsta þrjú skip hafi þar verið smíðuð. Þá er og frá því sagt að póstskipið frá Kaupmannahöfn hafi eitt sinn verið tekið upp í stöðina til viðgerðar, er því hafði hlekkst á í siglingu til landsins.
Heil öld leið þar til Hafnfirðingar tóku að smíða þiljuð skip á ný.

Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar

Dröfn

Morgunstjarnan.

Árið 1918 kom ungur Hafnfirðingur Júlíus Nyborg heim frá þriggja ára námi í skipasmíðum í Danmörku. Skömmu seinna opnaði hann Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar ásamt Ólafi V. Daníelssyni og Lofti Loftssyni.
Á þessum árum létu Íslendingar smíða mikið af dekkbátum 10-20 tonna í Danmörku, en einnig voru menn farnir að smíða þiljaða vélbáta hér heima. Fyrstu tvö árin starfaði Júlíus að viðgerðum og setti upp lausan sleða sunnan í firðinum til að draga skipin upp.
Hafnarfjörður
Tveir útgerðarmenn úr Vestannaeyjum sömdu við Júlíus árið 1919 um að smíða 12 tonna þilbát fyrir sig. Báturinn var fullgerður árið eftir og nefndist Sigurður. Þetta var fyrsta nýsmíði Skipasmíðastöðvarinnar. Næstu áratugina varð hlé á skipasmíði, en Júlíus sneri sér fyrst og fremst að viðhaldi báta og togara í Hafnarfirði og Reykjavík. Það var þá sem Júlíus tók að járnklæða efsta plankann á toghlerum, en áður þurfyi oftast að skipta um plankann eftir hverja veiðirferð.
Dröfn
Það var ekki fyrr en árið 1940 að Skipasmíðastöðin tók að smíða báta á ný. Bátafélag Hafnarfjarðar h.f. lét þá smíða hjá stöðinni tvo báta, Ásbjörgu og Auðbjörgu 26 rúmlestir að stærð. Á þeim tíma hófu stjórnvöld að styrkja menn til að smíða nýja báta, en hagur allrar útgerðar var bágborinn öll kreppuárin. Ekki voru þó smíðaðir fleiri þiljubátar næstu tvö ár, heldur sneri stöðin sér að smíði nótabáta.
Árin 1942-44 voru þrír bátar smíðaðir hjá stöðinni; Guðmundur Þórðarson 52 tonn, Skálafell 53 tonn og Morgunstjarnan 43 tonn. Og áfram hélt smíðin. Guðbjörg og Hafbjörg 58 rúmlesta vélbátar, runnu af stokkunum árið 1946 og loks var Smári afhentur þrem árum seinna. Hann var 65 rúmlestir að stærð og síðasta skipið sem Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar lagði kjölinn að. Áður en fyrirtæki hætti starfsemi höfðu þaðan lokið námi í skipasmíðum fimm menn, og þannig lagt grunninn að áframhaldandi skipasmíðum í Firðinum.

Skipasmíðastöðin Dröfn

Dröfn

tur í smíðum í Skipasmíðastöðinni Dröfn.

Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð fyrsta vetrardag 1941 til að koma upp dráttarbraut fyrir smíði skipa í Hafnarfirði. Stofnendur voru tólf, flestir húsasmiðir eða skipasmiðir og höfðu margir þeirra unnið áður hjá Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar. Kjölurinn að fyrsta bátnum sem Dröfn smíðaði var lagður í apríl 1942. Var það 29 rúmlesta vélbátur sem seldur var til Keflavíkur.
Dráttarbrautin var byggð upp á árunum 1944-1946, en stækkuð síðar og getur hún nú tekið upp skip allt að 400 þungatonn, en um 300 þungatonn út á garða. Alls er hægt að taka upp 9 skip í stöðina. Frá árinu 1946 hefur fyrirtækið byggt yfir sig trésmiðju, skrifstofu- og verslunarhús. Þá var reist stórt smíðahús þar sem hægt er að taka allt að 78 rúmlesta skip inn. Var það tekið í notkun árið 1970.
Allt frá upphafi hefur Dröfn tekið að sér viðgerðir og viðhald fyrir fjöldan allan af skipum og bátum á hverju ári, auk nýsmíðinnar sem oft hefur gengið í bylgjum. Fyrstu fimm árin voru sex skip smíðuð í Dröfn. Þar á meðal var Edda, 184 rúmlestir, sem smíðuð var fyrir Einar Þorgilsson og Co. Edda er eitt af stærstu tréskipum sem smíðuð hafa verið hér á landi.
Dröfn
Eftir 1944 drógust skipasmíðar saman og stofnuðu þá eigendur Drafnar Byggingafélagið Þór h.f. sem starfað hefur að húsbyggingum um langt árabil. Jafnframt var sett upp mjög fullkomið trésmíðaverkstæði í Dröfn, sem smíðað hefur innréttingar bæði í hús og skip.
Nýjasta nýsmíði stöðvarinnar var afhent árið 1976 og voru þá nýsmíðar, stórar og smáar orðnar 36 að tölu. Tvö síðustu verkefnin voru 38 rúmlesta stálbátar sem smíðaðir voru inni í stöðinni. Var ætlunin að halda áfram slíkri raðsmíði, en um þetta leyti var farið að skrúfa fyrir nýsmíði fiskibáta. Hefur ekki verið skrúfað frá opinberum fjármagnsjóðum í slík verkefni enn sem komið er. Síðan hefur Skipasmíðastöðin Dröfn nær eingöngu sinnt viðgerðum og breytingum á tré- og stálskipum. Þó afhenti stöðin skip árið 1979 en skrokkur þess hafði verið smíðaður annars staðar. Þá er einn starfsmaður Drafnar nú að smíða lO tonna bát.
Starfssemi fyrirtækisins má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er það dráttarbrautin og verkstæði henni tengd. Þar starfa á bilinu 25-30 menn að jafnaði. í öðru lagi er það trésmíðaverkstæði sem aðallega vinnur að innréttingum og annarri sérsmíði. Þar starfa 9 menn. Loks rekur Dröfn allstóra byggingavöruverslun og lager í tengslum við stöðina. Alls starfa því um 45 manns hjá fyrirtækinu. Auk eigin verkstæða í trésmíði og járnsmíði vinna undirverktakar að viðgerðum skipa í Dröfn. Það eru vélsmiðjur og rafverktakar, aðallega úr Hafnarfirði.
Dröfn
Undanfarin ár hafa verkefni stöðvarinnar verið næg við ýmiskonar viðgerðir og endurbætur flotans. Á þessu ári hefur staða útgerðarinnar batnað mjög og kemur það greinilega fram í stærri verkefnum. Þannig er nú tekið til við endurbætur sem beðið hefur verið með nokkur síðustu ár. Meirihluti verkefna eru tilboðsverk og hefur hlutfall þeirra aukist að undanförnu með aukinni samkeppni skipasmíðastöðva. Verkefnin eru af öllum stærðum: Vélaskipti, endurnýjun á lestum, skipt um stýrishús, skrokkviðgerðir, málningarvinna og skverun. Nú þegar skipasmíðar liggja í láginni, eru mikilsháttar endurbætur á eldri skipum að verða æ algengari. Ástandið í sjávarútveginum með kvótakerfinu og smíðastoppi heldur líka uppi óhóflegu verði á skipunum og ýtir þannig undir að lappað sé upp á þau, í stað þess að lagt sé í nýsmíði.

Dröfn

Dröfn – spilskúrinn má muna fífil sinn fagurri.

En áður en langt um líður hlýtur að koma að því að kerfið bresti og þá má búast við því að hlaupið verði upp til handa og fóta og keypt skip vítt um öll lönd, misjafnlega hentug til veiða hér við land, en víða munu fást ódýr skip, þar sem fiskveiðar eru á undanhaldi.

Dröfn

Skipasmíðastöðin Dröfn brennur.

Önnur afleiðing þessa alls er sú að mikill hörgull er orðinn á járniðnaðarmönnum, svo að um landið allt vantar sennilega mörg hundruð fagmenn á sviði málmiðnaðar. Endurnýjun stéttarinnar hefur lítil sem engin verið að undanförnu. Þegar svo byggja á upp skipasmíðarnar á ný, eftir margra ára biðtíma, þá verða smíðastöðvarnar ekki í stakk búnar til þess nema að litlu leyti. Mönnum þykir örðugt að sjá leið sem leysir þennan hnút.”

Skipasmíðastöðin Dröfn brann til kaldra kola mánudaginn 1. maí 2023.

Heimild:
-Ægir, 10. tbl. 01.10.1986, Skipasmíðar í Hafnarfirði – Iðngrein á gömlum drepin í dróma, bls. 605-610.

Dröfn

Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð árið 1941 en árið 1944 var hafin bygging dráttarbrautarinnar sem tekin var í notkun 1946. Áður hafði helsta skipasmíði í Hafnarfirði verið í Skipasmíðastöð Haraldar Nyborg neðan við þar sem ráðhús bæjarins er núna. Hins vegar mun Bjarni riddari Sivertsen hafa haft sína merku skipasmíðastöð á þessum slóðum, í landi Ófriðarstaða, í upphafi 19. aldar.
Dröfn hf. var lýst gjaldþrota 1995 en síðar eignaðist Vélsmiðja Orms og Víglundar dráttarbrautina en hún hefur ekki verið notum um langt árabil. Vélsmiðja O&V rekur nú skipaþurrkvíar norðvestar á hafnarsvæðinu.

Keilir

Gestur Guðfinnsson fjallar um “Kynnisferð á Keili” í Alþýðublaðinu árið 1958″

“Keilir er ekki hátt fjall. Skýjakljúfar New-Yorkborgar myndu bera höfuð og herðar yfir hann ef þeir væru settir niður við hliðina á honum, og meira en það. Flest fjöll í nágrenni Reykjavíkur eru hærri og stærri en hann, samt vita fleiri deili á Keili en öðrum fjöllum, sem sjást af bæjarhlaði Reykvíkinga, hann skipar sitt rúm á Reykjanesskaganum með mikilli prýði, og hræddur er ég um, að margur myndi sakna vinar í stað, ef hann væri horfinn af sjónarsviðinu.

Keilir

Keilir.

Ég hef stundum gert mér það til gamans á ferðalögum suður með sjó að fara óvirðingarorðum um hann, sagt eitthvað á há leið, að svona smáþúst væri tæplega hægt að kalla fjall, þetta væri hálfgerð hundabúfa, sem ekki væri nafn gefandi. Æfinlega hefur einhver ferðafélaganna risið upp til varnar Keili, stundum Suðurnesjamaður, stundum ættingi einhvers Suðurnesjamanns, Jafnvel í þriðja eða fjórða lið, eða þá Reykvíkingur, og mótmælt kröftuglega slíkum svívirðingum, eins og hverju öðru guðlasti, ég veit ekki, hvort sumir fyrirgefa mér ævilangt. Hann virðist eiga mikinn og traustan flokk forsvarsmanna og aðdáenda. Og furðulega margir þykjast eiga Keili.

Keilir

Keilir.

Fjallið mitt, segja þeir, og það er auðheyrt á röddinni, að annað eins fjall muni vandfundið á jarðkringlunni. Ekki veit ég, hvað stjórnarskráin kann að segja um allan þennan eignarrétt. kannski má véfengja hann, kannski er hann líka öllum öðrum eignarrétti æðri og meiri.
En þó að Keilir sé þannig mikils metinn og dáður og eigi ítök í mörgum og margir eigi ítök í honum, þá eru þeir næsta fáir, sem gera sér það ómak að heimsækja þetta fyrirfjall Reykjanesskagans. Þó ber það við. Ekki alls fyrir löngu stefndi Jóhannes Kolbeinsson, hinn vinsæli og vel þekkti fararstjóri Ferðafélags Íslands, þangað liði sínu, tveim tylftum kvenna og karla, í virðingar- og kynningarskyni. Sú heimsókn var mikill sómi fyrir fjallið. Þetta var fríður flokkur og glæsilegur, svo sem vera bar og slíkt fjall á skilið.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það var mikið blíðskapar veður þennan dag, logn og sólskin um allar jarðir, sjórinn sléttur og blár bátur á miði. Snæfellsiökull skein í allri sinni dýrð handan við flóann. Meðfram Reykjanesveginum gægðist græn vornálin upp úr hvítum þúfnakollunum. Ekki segir af reisunni fyrr en komið var suður undir Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Venjan hefur verið að ganga að Keili frá Kúagerði, sem er í vesturjaðri Afstapahrauns. Það er líklega tveggja tíma gangur. Nú hefur verið rudd akbraut af veginum norðan Vatnsleysu alla leið upp á Höskuldarvelli, og styttir það gönguna til muna. Þegar að þessum afleggjara kom, var hann lokaður með digurri járnkeðju, læstri. Sankti-Pétur geymir lykilinn að hinu gullna hliði himnaríkis og hleypir engum óverðugum inn í það dýrðarland, og Pétur er samvizkusemin sjálf.

Keilir

Keilir.

Margar sögur eru sagðar af dyravörzlu Péturs, en aldrei hefur heyrzt, að hann hafi neitað fjallamanni um inngöngu. Bóndinn á Vatnsleysu geymir hins vegar lykilinn að hinum nýja vegi, sem liggur um Afstapahraun á Höskuldarvelli, leiðinni að hinu dýrlega fjalli, Keili. Mér er ekki kunnugt, hvort sömu reglur gilda þarna og hjá Pétri, nema Jóhannes talaði við bóndann og fékk lykilinn, enda var þetta allt réttlátt fólk.
Höskuldarvellir liggja norðvestan undir Trölladyngju. Þar er allmikið gróðurlendi og sauðland gott. Hiti er þarna í jörðu, og leggur víða gufu upp úr hraununum í kring, en heimildir munu vera til um gos á þessum slóð um á 14. öld. Af Höskuldarvöllum er stutt og létt ganga að Keili. Liggur leiðin fyrst yfir lágan hæðarhrygg, Oddsfell, en síðan um mosagróið apalhraun að fjallinu.

Keilir

Á leið á Keili.

Keilir er eins og nafnið bendir til, keilulaga fjall, hæðin er aðeins 379 m. yfir sjávarmál, en varla mikið meira en 250 m., ef miðað er við hraunin í kring. Það er því engin sérstök þrekraun að ganga á fjallið, til þess þarf ekki meiri karlmennsku en guð hefur gefið venjulegu fólki, enda komust allir á tindinn, þó að sumir ættu að vísu dálítið erfitt með pundin sín. Keilir er móbergsfjall með grágrýtishúfu á kollinum, sem hefur eflaust verið honum mikil vörn og hlífiskjöldur gegn eyðingaröflum vatns og veðra. Reykvíkingar þekkja hann bezt í bláma fiarlægðarinnar eða hvítum vetrarlit. Stundum slær á hann rauðleitum bjarma að kvöldlagi. Þá er hann fegurstur. Ásýnd Keilis er eirrauð sem egypzkur píramíði, segir hið góðkunna Suðurnesjaskáld, Kristinn Pétursson, einhversstaðar. Þegar komið er að fjallinu og dýrðarljómi fjarlægðarinnar horfinn, ber aftur á móti mest á gráum og móbrúnum lit, skriður og klettar eru einkenni höfðingjans, gróður fyrirfinnst ekki svo teljandi sé, það verður varla slitið upp strá til að tyggja.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Af Keili blasir við allur fjallahringurinn umhverfis Faxaflóa. Að þessu sinni var umgjörðin um flóann óvenjulega hvít á að líta og glampandi björt í sólskininu. Hins vegar var næsta umhverfi Keilis, Reykjanesskaginn sjálfur, dálítið harðneskjulegur og dökkur á brún og brá að vanda: gömul eldvörp, dyngjur, og storknuð hraun. Þó má víða sjá gras og gróðurvinjar og mosinn breiðir sig yfir úfin hraunin, mjúkur og þykkur. Í norðaustri, upp af Kaldárbotnum, rís Helgafell og Valahnúkur, þar sem Farfuglar eiga sitt Valaból.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þangað er líklega um fjögra tíma gangur frá Keili. Um það bil miðja vegu milli Keilis og Helgafells er lítið, sérstakt fell, Fjallið eina. Nafnið býr yfir einkennilegum töfrum. Ætli eitthvert gott fyrirtæki í bænum þurfi ekki bráðum á því að halda. Það er sem sé mikið í tízku að klína allskonar örnefnum og fjallaheitum á veitingahús og verzlunarfyrirtæki, jafnvel smá búðarholur og sjoppur eru látnar heita í höfuðið á sögufrægustu stöðum landsins, minna má ekki gagn gera. Þetta er eins og að hafa þjóðsönginn fyrir rokktexta á hlöðuballi. Fjallið eina hefur ennþá sloppið við sæmdina.

Sogasel

Í Sogaseli.

Að lokinni nokkurri viðdvöl á tindi Keilis var haldið að Sogaseli, eyðibýli eða seli, ekki alllangt frá vesturjaðri Trölladyngiu, og etinn dagverður. Það er eitthvert sérkennilegasta bæjarstæði eða bólstaður, sem ég hef séð. Húsin hafa staðið á flötum, grasigrónum gígbotni. Gígurinn er á að gizka eitt til tvö hundruð metrar í þvermáL, hringlagaður, girtur þverhníptum hamravegg á þrjá vegu úr grábrúnu og eldrauðu bergi. Þetta hlýtur að vera sérstaklega skjólsæll og veðursæll staður. Allmiklar húsarústir eru þarna á gígflötinni. Kunnugir þekkja sjálfsagt sögu þessa staðar, en ekki kann ég skil á henni, líklegt má þó teljast, að þarna hafi verið hafður nautpeningur í seli, fremur en að um sjálfstætt býli eða búskap hafi verið að ræða. Einhver skaut fram þeirri spurningu, hvort öruggt væri, að þarna gæti ekki gosið aftur, en enginn hafði bréf upp á það. Búskapurinn í Sogaseli minnir á fuglinn hans Jóns úr Vör, sem gerði sér hreiður í fallbyssukjaftinum. Ekki er mér kunnugt hvenær staðurinn fór í eyði. Líklega hefði slík gestakoma sem þessi þótt tíðindum sæta í Sogaseli á þeim tíma, sem fólk hafði aðsetur þar.
Þegar staðið var upp frá dagverði í Sogaseli, var förinni haldið áfram í litskrúðugri halarófu suður Sogin áleiðis til Krýsuvíkur. Sólin skein á vinalegar hlíðar Grænudyngju, Að baki reis Keilir, einn og sérstæður, og bar við bláa heiðríkju vesturloftsins. Framundan blöstu við hálsar og hraunflákar.
Bráðum mundi leið okkar liggja framhjá Djúpvatni, þar sem nykurinn býr.” – Gestur Guðfinnsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 106. tbl. 13.05.1958, Kynnisför á Keili, Gestur Guðfinsson, bls. 7.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Selsvellir

Á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi eru fjölmargar selsminjar Grindvíkinga í gegnum tíðina. Þarlendir og Vogamenn greindi á um eignarhaldið, en klerkar Grindvíkinga virðast haft betur á meðan var.

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Selstöður Grindvíkinga voru á seinni öldum undir Selsvallafjalli. Enn í dag má sjá þar leifar húsa og stekkja. Selsvallalækurinn, sem skapaði vellina í gegnum aldirnar, líður enn sprækur niður með tóftunum.
Svo virðist sem Grindavíkurbændur hafi horfið frá Selsvöllunum um tíma og komið sér upp öðrum selstöðum víðs vegar annars staðar. Þannig hafa Þórkötlustaðabændur t.d. fengið selstöðu í Krýsuvíkurlandi sunnan Bæjarfells í skiptum fyrir útræði. Þarna varð heimafell Vigdísarvalla, síðar hjáleiga frá Krýsuvík.

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Járngerðarstaðabændur unnu sér nýja selstöðu á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og Hóp kom sér upp selstöðu á ystu mörkum heimalandsins undir Selhálsi. Ísólfsskáli hafði heimasel í Borgarhrauni sunnan Einbúa og Hraun kom sér síðar upp selstöðu undir Núpshlíðarhálsi, sunnan Selsvalla. Líklegt má telja að það hafi verið um sama leiti og Grindavíkurbændur sóttu á ný inn á Vellina með selsbúskapinn, en að þessu sinni við hraunkantinn vestan við hina gömlu selstöðu. Virðast þeir hafa leitt Selsvallalækinn inn að hinum nýju selstöðum. Bendir það til að þá hafi kýr verið hafðar í seljunum þeim. Selin þarna eru miklu mun stærri og verklegri en þau eldri austar. Ekki er óraunhæft að ætla að bændur hinna þriggja hverfa, er Grindvíkingar byggðu upp á þeim tíma, hafi komið sér saman um selsöðurnar á vestanverðum Selsvöllunum á þeim tíma.
Selstígurinn frá og að Selsvöllum liggur frá Sandfelli inn á Vellina.
Hraunselið hefur jafnan verið orðað við landaeign Ísólfsskála, en virðist hafa verið látið í frið í góðri sátt með þeim nágrönnum.
Í dag eru selsminjarnar á Selsvöllum einar þær merkustu hér á landi. Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.

Selhóll

Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir reyndu að ráða gátuna í skrifum þeirra um aldur Eldra- og Yngra Hellnahrauns í ritinu Jökli árið 1991:

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

“Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatarmál hraunanna er 36,5 km2 og rúmmálið er áœtlað um 0,22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið á einhverju tímabilanna 1026-1045 (12%), 1052-1065 (35%), 1089-1125 (35%) og 1138-1153 (18%).
Traðarfjöll
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bœði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngra hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið ísömu goshrinu og hraun sem Jón Jónsson (1978a) hefurnefnt Breiðdalshraun.
Vegið meðaltalfjögurra geislakolsgreininga á sýnum undan Yngra Hellnahrauni, Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni (tvö sýni) gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árabilinu 894-923 eða, sem er mun líklegra, á árunum 938-983.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga Íslands. Í fyrri grein okkar um Krýsuvíkurelda er hraunið einnig nefnt Flatahraun). Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Hellnahraun

Mannvirki í Óbrinnishólahrauni. Sjá má í Eldra-Hellnahraun fjær.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Obrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra og Eldra Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Fagridalur

Gengið upp úr Fagradal um Breiðdalshraun.

Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra Hellnahraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Geislakolsgreiningar hafa verið gerðar á hraunum sem talin eru mynduð í sama gosi eða goshrinu og Yngra Hellnahraun. Greiningar á Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni eru ættaðar frá Jóni Jónssyni (1977, 1978a), en okkar sýni, sem tekið var undan Tvíbollahrauni á sama stað og sýni Jóns, er kennt við Helgafell. Sýnin frá Helgafelli og Rauðhól voru meðhöndluð til geislakolsmælingar á Raunvísindastofnun Háskólans, en sjálf mælingin fór fram á tandemhraðli Árósaháskóla. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.”

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 61-74.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.

Gljúfrasteinn

Við Gljúfrastein í austanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes á vinnustofu sinni að Gljúfrasteini.

“Gljúfrasteinn var byggður í Laxneslandi og arkitekt hússins var Ágúst Pálsson. Húsið reis á hálfu ári. Auður Laxnes segir þannig frá í ævisögu sinni, “Á Gljúfratseini”: “Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1945, kom ég mér vel fyrir í sólkskininu á svölum Landspítalans, og vélritaði samning um byggingu Gljúfrasteins, og dagana á eftir var hafist handa. Fyrstu merki þess að framkvæmdir væru hafnar, var sími festur uppá steini hér úti á hól, og breiddur yfir hann segldúkur á kvöldin. Þá var fátt um byggingarefni, og þurfti að hringja í ýmsar áttir og tína það saman héðam og þaðan af landinu.”
Um jólin 1945 fluttu Halldór og Auður að Gljúfrasteini og varð heimili þeirra strax einstaklega hlýlegt og prýtt mörgum fallegum listaverkum. Hér var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness um hálfrar aldar skeið og húsið skipar sérstakan virðingarsess í augum íslensku þjóðarinnar.”

Gljúfrasteinn opnaði sem safn 2004 og er húsinu haldið óbreyttu frá því sem var. Boðið er upp á hljóðleiðsögn um húsið á ýmsum tungumálum.

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes og Auður með Nóbelsverðlaunaskjalið 1955.

Fagradalsfjall

Í ritvélarituðu verki Jóns Jónssonar, jarðfræðings, útgefnu af Orkustofnun  árið 1978, er gagnmerkt “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga og skýringar við þau”. Kortin, sem þar birtust, eru handunnin og einkar nákvæm – á þess tíma mælikvarða. Arfveri Orkustofnunar mætti gjarnan gefa út hin fjölmörgu nákvæmari jarðfræðiuppdráttarkort Jóns af Reykjanesskaganum, umfram það sem sjá má í framangreindu ritverki. Skrifari er minnugur þess að hafa villst í dimmri þoku ofan Geitahlíðar í leit að hraunhellum, en hafði í vasanum ljósprentað jarðfræðikort Jóns af svæðinu er gerði honum kleift að feta sig með merktum hraunjaðri úr þokunni niður í Sláttudal.
Hér verður lýst athugun jarðfræðingsins á nokkrum hraungosum í Fagradalsfjalli og nágrenni, allt frá forsögulegum tíma til aðdraganda núverandi hraungoss í fjallinu, sem ætti reyndar ekki að hafa komið á óvart.

Hraun í og við Fagradalsfjall

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Borgarhraun nefnist hraunfláki sá, er nær ofan frá suðurhlíðum Fagradalsfjalls að norðan og þekur allt svæðið milli Bleikhóls að vestan og Borgarfjalls að austan. Það hefur fallið í sjó fram vestan við Ísólfsskála og þar fram af hömrum, en ekki sér nú í það neðan við þá hamra. Hraun þetta er víða stórbrotið og á nokkrum stöðum í því eru gjár, sem tilheyra megin sprungukerfinu. Allt bendir til að hraunið sé nokkuð gamalt. Engir gígir sjást í þessu hrauni og er því ekki fyllilega ljóst hvar upptök þess eru.
Gígur allstór er sunnan í Fagradalsfjalli og líklegast að hraunið séð þaðan komið, þó ekki verið það fullyrt, því engar hrauntraðir tengja það við eldstöðina. Hins vegar er ljóst að þarna hefur gosið við fjallsrætur og ná gígmyndanirnar, gjall og hraunkleprar, upp á fjallsbrún. Hraunið er plagioklasdílótt og einstaka ólinvíndíl má og sjá í því. Hraunið nær yfir 3.22 km2 og mun því vera um 0.06 km3.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ.

Uppi á Fagradalsfjalli sunnanverðu hefur gosið (H-46). Það er stutt gígaröð á sprungum, sem stefna nærri beint norður-suður. Gígirnir eru litlir og að mestu úr hraunkleprum. Hraunið er þunnt. Það þekur dálítið svæði suðvestan á fjallinu og hefur fossað vestur af því niður í dalinn austan við kast og niður með því að norðan, þar er sprunga gegnum það og stefnir sú eins og sprungurnar á Fagradalsfjalli og raunar í austanverðu Dalahrauni líka. Hraunið hverfur svo undir Dalahraun, er niður á sléttuna kemur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ. Dyngjan Þráinsskjöldur miðsvæðis.

Hraun (H-47) hefur komið úr sprungu samhliða Sundhnúkagígunum og því úr austasta hluta gígaraðar, sem nær nokkuð upp í vesturhlíð Þráinsskjaldar. Hraunið er afar gjallkennt og þunnt. Það hefur runnið norður á við og hverfur brátt undir yngri hraun. Gírgirnir eru lítt áberandi og mörk hraunsins fremur ógreinileg.

(H-48) er efsta hraunið í Fagradal og þekur dalbotninn að heita má. Undir því er annað eldra hraun, sem kemur fram í farvegi miðja vegu í dalnum. Það er picrithraun og vafalaust komið frá dyngju og hef ég sökum þess kennt það við dalinn, eins og áður er sagt. Gígir eru efst í dalnum milli Fagradalsfjalls og Þráinsskjaldarhrauna, en þau mynda raunar norðurbrún dalsins og er harla dularfullt hvers vegna þau hafa ekki runnið alveg upp að fjallinu á þessum stað, heldur mynda allhá og skarpa brún norðan hans. Ætla verður að hraunið sé komið úr gígunum efst í dalnum, en ekki er sambandið greinilegt. Hraunið hverfur í dalnum undir framburð úr læknum, sem í vorleysingum fellur þarna niður og svo undir yngri hraun.

(H-49) og (H-50) eru bæði ofan við Fagradal og lítið af þeim sýnlegt nema gígirnir, sem eru mikið veðraðir og fornlegir. Samtals ná þessi hraun ekki yfir nema um 0.7 km2 og eru varla nema 0.0004 km3.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsdfjalli.

Norðan á Fagradals-Vatnsfelli eru eldvörp allstór (H-51). Hraun frá þeim þekur suðurhluta fjallsins og hefur fallið vestur af því. Uppi á fjallinu og utan í því er það örþunnt nema rétt við gígina. Smágígur er vestan í fjallinu neðarlega í hlíð. Hraun þetta hverfur undir Þráinsskjaldarhraun og er því eldra en það. Aðalgígirnir eru þrí í röð með stefnu norðaustur-suðvestur og er sá nyrsti þeirra opinn móti norðri. Virðist líklegt að þaðan hafi aðal hraunrennslið verið, en eins og áður er sagt er ekki vitað um stærð þess hrauns, sem þar átti upptök.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

(H-52) er gjallgígaröð, sem liggur um þvert sundið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hún er að mestu fær í kafi af hraunum frá Þráinsskildi og frá lítilli dyngju þar suður af.

(H-53) er örlítil og fornleg hraunspýja norðaustan í Fagradasfjalli ofan við Meradali. Hraunið er sums staðar svo þunnt að utan í brekkunni hangir það ekki lengur saman og mjög hefur veðrunin unnið á því.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

(H-54) er hraun, sem hefur runnið niður í dalinn vestan við Höfða og er án efa komið af svæðinu milli Sandfells og Vesturháls. Það hefur fallið vestur sundið milli Höfða og Sandfells, en er það að heita má hulið yngra hrauni. Það sést svo ekki fyrr en í dalnum sunnanverðum, þar sem það kemur fram undan ygra hrauni. Loks fellur það í þrem smáum hraunfossum fram af fjallinu suður af Méltunnuklifi og austan við Skála-Mælifell. Það hverfur strax undir yngri hraun, er niður á sléttuna kemur. Eldstöðin, sem þetta hraun er úr, sést nú ekki, en hún er án efa á sömu slóðum og gígaröðin, sem yngsta hraunið í dalnum er komið frá, en verlegur aldursmunur virðist era á þessum hraunum.

Höfði

Höfðahrauntröð.

Höfðahraun kemur úr Höfðagígunum, sem eru stutt gígaröð austan í móbergs-bólstrabergs hrygg, sem nefndur er Höfði, hraunið þar austur af milli Höfða og Núpshlíðarháls. Þessa leið hafa hraun runnið, sem þekja allt svæðið með sjó fram frá mynni þessa dals all vestur að Ísólfsskála. greinilegt er, að á allstóru svæði hefur þetta hraun runnið í sjó út, t.d. á svæðinu milli Ræningjagjögurs og Veiðibjöllunefns og má telja víst að hraunið hafi þarna bætt allverulegri sneið við landið. Skammt eitt austan við Ísólfsskála má sjá fornan malarkamb uppi í hrauninu og skammt þar frá votta fyrir gervigígum. Þessi hraunfláki allur er án nokkurs efa kominn af svæðinu vestan við Núpshlíðarháls, en að hvað miklu leyti það er í Höfðagígum komið, gígunum við þjóðveginn fremst í dalnum, sem nefndir eru Moshólar, eða öðrum eldstöðvum, sem nú eru huldar yngri hraunum, skal að svo komnu máli ekki fullyrt um. Moshólar eru fremst í dalnum og liggur þjóðvegurinn milli þeirra. Hrauntraðir allstórar liggja frá syðsta gígnum ái átt til sjávar. Svo virðist sem Höfðahraun hafi klofnað á þessum gígum og sé því eitthvað yngra en þeir. Hins vegar er hugsanlegt að gosið því nær samtímsis á báðum þessum stöðum.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif – misgengi.

Misgengi það, er liggur um Höfða vestanverðan og myndar stallinn Méltunnuklif, brýtur hraunið þar suður af og er sigið austan megin. Bendir þetta til að hraunflákinn sé allgamall.”

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 149-153.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Latur

Í Tímanum 1996 er grein um “Frumbyggja í Kópavogi og yngri kynslóðir sem eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir”. Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir segja frá:

“Rótarýklúbburinn í Kópavogi hefur gefið út bókina Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi, sem Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir söfnuðu af elju meöal eldri Kópavogsbúa. Einnig fengu þær að láni spólur frá Stofnun Árna Magnússonar með viðtölum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við eldri Kópavogsbúa, sem tekin voru upp árið 1967. Bókin er unnin upp úr lokaritgerb Önnu og Ingu úr Kennaraháskóla Íslands og eru sögurnar býsna
fjölbreyttar. Þar má finna sögur af hinum fræga Jóa á hjólinu, draugum, karlinum sem býr orðið einn í Álfhólnum, Jóni í Digranesi, Kársnesorminum og huldufólki, svo eitthvað sé nefnt. Hér á síðunni birtist ein huldufólkssagan. Hún segir frá huldukonunni á peysufötunum sem safnararnir höfðu eftir Kristni Hallssyni.

Huldukonan á peysufötunum

Latur

Latur.

Á fyrri hluta þessarar aldar var byggð ekki mikil í Kópavogi. Mátti þó sjá bústaði, sem fólk hafði reist sér til sumardvalar, og einnig var farið að bera á því að bústaðir þessir væru nýttir sem íbúðarhúsnæði árið um kring. Í Digraneslandi stóðu nokkrir þessara bústaða neðst í sunnanverðri Digraneshlíð þar sem Digraneslækur rennur.
Þá bjó í Reykjavík ungur drengur ásamt fjölskyldu sinni og hét Kristinn Hallsson. Drengurinn þótti söngvinn með eindæmum og síðar varð hann landsfrægur söngvari. Foreldrar Kristins áttu sumarbústað niðri við Digraneslækinn og dvöldu þar jafnan sumarlangt með börnum sínum.
Áslaug Ágústsdóttir hét móðursystir Kristins, hávaxin kona og grönn. Hafði hún þann sið að heimsækja fjöskylduna og kom þá ætíð fótgangandi eftir Fossvogsdalnum og yfir Digraneshálsinn sem leið lá að sumarbústaðnum. Brá hún aldrei af þeirri leið.
Dag nokkurn um miðsumar var von á Áslaugu til Kópavogs. Börnin voru þá úti við leiki. Láta þau fljótlega af þeirri iðju og halda af stað til móts við Áslaugu. Fara þau hægt yfir og tína upp í sig ber á leiðinni upp hæðina. Uppi á hæðinni var mikill steinn, sem eldri menn sögðu vera álagastein. Mun þetta hafa verið steinninn Latur, sá sami og Jón bóndi í Digranesi var vanur að sitja á þegar hann var kenndur og syngja, sem frægt var á hans tíma. Var steinninn á gönguleið Áslaugar.

Latur

Latur.

Barnahópurinn var nú staddur skammt frá honum og var Kristinn Hallsson í broddi fylkingar eins og venjulega. Sjá börnin öll hvar kona ein birtist skammt undan steininum. Var hún í peysufötum líkum þeim sem Áslaug klæddist jafnan. Há var hún og grannvaxin líkt og Áslaug og taldi Kristinn að móðursystir sín væri þar á ferð, enda ekki von á öðrum mannaferðum. Þegar ekki er lengra en tíu fet á milli konunnar og barnanna, sér Kristinn að þetta er ekki Áslaug eins og þau áttu von á. Þá fyrst er sem konan verði þess vör að börnin veiti henni athygli. Nemur hún snögglega staðar, setur upp undrunarsvip og síðan hræðslusvip. Snýr hún snögglega á braut og tekur til fótanna upp hlíðina og hverfur sjónum skammt frá steininum. Fylgja börnin konunni eftir uns þau koma upp á hálsinn þar sem útsýni er allgott yfir Fossvoginn. Ekki var þar sálu að sjá svo langt sem augað eygði. Fátt var um felustaði og var engu líkara en að jörðin hefði gleypt konuna. Leituðu þau þá allt í kringum steininn, en án árangurs.
Gengu nú börnin heim á leið og sögðu fólki frá atburðinum og konunni í peysufötunum. Flestir urðu undrandi yfir þessum tíðindum, en margir hinna eldri létu sér fátt um finnast. Sögðu þeir að þarna á Digraneshálsinum hefði verið á ferð huldukona. Mun henni hafa brugðið er hún varð þess vör að börnin sáu hana. Í það sinnið hefur hún gleymt að setja upp huliðshjálminn, eins óg kallað var.”

Heimild:
-Tíminn, 131. tbl. 13.07.1996, Frumbyggjar í Kópavogi og yngri kynslóðir eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir, Anna hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir, bls. 6.

Digranes

Digranes – gamla bæjarstæðið t.h.

Torfdalur

Stefnan var tekin á Torfdal ofan við bæinn Helgadal í Mosfellssveit (Mosfellsdal). Dalurinn er fremur stuttur. Um hann rennur Torfdalslækur, vatnslítill nema í leysingum. Neðarlega myndar hann fossagil, Stórutorfugil. Ætlunin var að staðsetja Selhól, sem getið er í örnefnalýsingu svog mögulegar selminjar af draganda nafngiftar hólsins.

Torfdalur

Torfdalur – kort.

Að sögn bóndans í Helgadag, Ásgeirs Péturssonar, eftir að hafa ráðfært sig við húsfreyjuna, er hafði sótt örnefnalýsingu jarðarinnar sér til halds og trausts, mun Selhóll skaga út úr norðvesturhorni Grímarsfells, “augljós er upp væri komið”. Að sögn lægju “gamlar götur upp frá bænum áleiðis að Selhól, sem þó virtist ekki greinanlegt í dag”.
Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Helgadal (bls. 317); “Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa”. Þá segir: “Vatnsskortur er margoft um vetur að stórmeini.”

Torfdalur

Torfdalur – Varða á Selhól.

Skv. Jarðabókinni á Helgadalur að hafi selstöðu í Stardal ásamt allmörgum öðrum. Selfarir voru hins vegar einungis að sumarlægi. Ef aðstæður eru skoðaðar má telja að vatnsskortur hafi aldrei háð Helgadalsábúendum því þrjár ár renna við bæjarstæðið. Lýsingin virðist því eitthvað hafa skolast til hvað þetta varðar.
Þá má telja af líkindum að Helgadalssel hafi mögulega verið þar sem nefnt hefur verið Varmársel. Í Jarðabókinni er nefnilega ekki getið um selstöðu frá Varmá í landi Stardals og reyndar er alls ekki getið þar um selstöðu frá jörðinni, enda ólíklegra út frá landfræðilegum aðstæðum.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Í örnefnalýsingu Helgadals um göngusvæðið segir m.a.: “Jörð í Mosfellsveit, næst austan Æsustaða. Upplýsingar gáfu Hjalti og Ólafur Þórðarsynir, Æsustöðum, einnig frá föður þeirra.
“Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur.”
Í athugasemdum um lýsinguna segir m.a.: “Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983. Þær eru ýmist ritaðar inn á ljósrit af skránni eða færðar sem svör á spurningalista.
“Stóridalur er í Þormóðsdalslandi. Grímarsfell, ekki Grímansfell.

Torfdalur

Torfdalur ofanverður.

Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”
Gata var rakin frá Helgadal upp eftir Torfdal, skammt neðan Hádegisvörðu og allt upp þangað er gil skiptu að Grímarsfelli. Sjóskaflar þökktu svæðið svo erfitt var um staðfestingu minjatilvistar þar.
Þegar horft var yfir Stórutorfu mátti telja líklegast að selminjar myndu vera undir lágum melhól norðan torfunnar. Á honum er vörðubrot. Önnur mannanna verk var ekki að sjá í Torfdal (utan framreisluskurðar undir Torfdalshrygg).
Ástæða er til að skoða Torfdalinn nánar þegar vorar.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Sumarið eftir var aftur gengið um Torfdalinn ofan Helgafells. Rifjuð var upp örnefnalýsing þeirra Hjalta og Ólafs: “Sunnan Helgadalsbæjar er hæð, sem nær vestur að Æsustaðafjalli. Á henni, beint suður af Helgadalsbæ er Hádegisvarða. Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. (Um það rennur Norðurreykjaá.) Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur. Austan við Stórutorfu og Stand, sunnar í fellinu, ofarlega, er dæld, sem heitir Stóridalur. Þar neðar og vestur af er urð mikil sem heitir Skollurð, er hún í Þormóðsdalslandi, og enn austar skerst djúpt gil sunnar í fellið er heitir Vondagil (mun nefnt Illagil á korti). Á háfellinu, upp af Torfdal, er kollóttur móbergshóll er heitir Kollhóll; er hann á há-Suðurfellinu vestanverðu. Enn vestar er Nóngilslækur, á merkjum Helgadals og Æsustaða. Má telja, að Suðurá byrji þegar Torfdalslækur og Nóngilslækur koma saman.
Í suðausturkrika dalsins, í Helgadalstúni og upp af því, er Bæjargil, enn vestar Torfdalsgil og Nóngil, sem er á mörkum Helgadals og Suður-Reykja. Nóngil er forn eyktamörk frá Helgadal. Í Torfdalsgili er Torfdalsfoss og í Nóngili Nóngilsfoss.”

Í athugasemdum Guðjóns Sigurðar við Örnefnalýsinguna segir m.a.: “Niður af Hádegisvörðu (á Hádegishæð) er djúpur hvammur sem nefnist Bolabás . Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”

Torfdalur

Torfdalsfoss.

Í króknum þar sem Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast eru brattar grasbrekkur sem nefnast Stóratorfa, en „…norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur“ (Ólafur Þórðarson). Ekki er vitað hvort sel var við Selhól og ekki heldur hvenær síðast var haft í seli í Helgadal. Hvorki Sigurði Helgasyni, fyrrverandi bónda í Helgadal, né öðrum er kunnugt um rústir við Selhól eða sel í Torfdal.

Líklegt má telja, ekki síst vegna þess hversu stutt er frá bæ að Selhól, að þar hafi um tíma verið heimasel. Í heimaseljum voru venjulega einungis eitt mannvirki; stekkur eða afdrep, allt eftir tilgangi selstöðunnar. Þegar framangreindri götu frá bæ var fylgt upp með Stórutorfugili austan Norðurreykjaár, upp með Hádegisvörðu og upp á Stórutorfu suðaustan Selhóls (á Selhól er varða, sem vandað hefur verið til) má sjá á einu barðinu móta fyrir mannvistarleifum. Líkast til er þar um að ræða fornan stekk eða annað mannvirki, að mestu gerður úr torfi, en þó má einnig sjá þar grjót. Minjarnar er skammt austan við ána ofan við flæður, sem í henni eru. Selstöður voru nytjastaðir, hvort sem var fyrir fé, nautgripi, fuglatekju, kolagerð, hrístöku, torfristu, mótekju eða annað þ.h. Af nafni dalsins má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi, líkt og svo margir nafnar hans á landinu, nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór (“elditorf”). Þess vegna má ætla að ekki hafi verið lagt í mikil mannvirki í dalnum því stutt er heim til bæjar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum. Örnefnalýsing Helgadals, skráð 1968 sem endurbót á lýsingu Ara Gíslasonar og aftur endurbætt 22. sept. 1983.
-Athugasemdir við lýsinguna: Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983.
-Ásgeir Pétursson, bóndi í Helgadal.
-Jarðabók ÁM 1703.

Torfdalur

Helgadalur framundan – Hádegisvarða.

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli “Hversins 1919” er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni “Payzone” þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.