Ísólfsskáli

Í tilefni af 30 ára kaupstaðarafmæli Grindavíkur var áhugasömum bæjarbúum boðið í göngu- og fræðsluferð að Selatöngum. Tilgangurinn var auk þess að kynna nýútkominn bækling Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga.
Um 90 manns þáðu boðið. Í stutFiskbyrgitu máli var ferðin mjög vel heppnuð.
Gengið var um Selatanga, skoðaður brunnurinn, búðirnar, verkunarhúsin, þurrkbyrgin, garðarnir og smiðjan, kíkt á Dágon, litið í Ketilinn í Katlahrauni og skoðaðar refagildrur. Loks gekk bróðurparturinn af hópnum vestur eftir Vestari Tangagötunni (Ísólfsskálagötu) yfir að Skála þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti.
Gangan þangað tók 41 mínútu.
Þátttakendur voru bæði jákvæðir og áhugasamir, sýndu göngudug, nutu sólarinnar og hreina loftsins, virtu fyrir sér minjarnar og nutu sögunnar uns ýmist var gengið eða ekið að Ísólfsskála þar sem þáð var kaffi og meðlæti, sem fyrr sagði.
Frábært veður með frábæru fólki. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Selatangar

Bæklingur Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga.

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
Gengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (árið sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.

Gíslhellir

Fyrirhleðsla Gíslhellis.

Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918.

Gíslhellir

Op Gíslhellis.

A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.
Frábært veður.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar. Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar, en eflaust hafa þær tekið breytingum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík.

Á Töngunum

Á Selatöngum.

Á Selatöngum má enn sjá tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum fleiri, verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiskinum, þurrkbyrgi, þurrkgarða, þurrkreiti, brunn, smiðju, skúta með fyrirhleðslum, hesthúsi, Nótarhelli (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði „Ketillinn“ í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna (hlaðið skömmu eftir aldarmótin 1900).
Gengið var einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minntist þess að reki hafi verið reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást förin eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur. Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns.

Selatangar

Á Selatöngum.

Jón sýndi m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn, Nótahellinn, refagildrurnar, brunninn, smiðjuna, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna, Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar), skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að horfa á og meta aðstæður með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon.
Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbróður hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna til skjóls.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

Stefánsvarða

Gengið var frá Stefánsvörðu á Stefánsvörðuhólum áleiðis niður að Borgarkoti vestan Keilisness. Skammt norðan vörðunnar var komið að tvískiptum gömlum stekk, Borgarkotsstekk, í graslægð. Á bökkunum sáust leifar af gömlum garði. Norðaustan við stekkinn eru gróin svæði, en nokkuð uppblásin. Gengið var norðnorðvestur í átt að Helgahúsi ofan við Breiðufit (Réttartanga). Á leiðinni var gengið þvert á gamla stógripagirðingu. Enn má sjá steinaröðina liggja þar til austurs og vesturs. Í hvern steinn eru klöppuð tvö göt; annað ofan á og hinn á hliðina. Í götin voru reknir trétappar og á tappana strengd bönd. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Skammt austan þess, norður undir grasi grónum klapparhól, var fallegt vatnsstæði, Vatnssteinar (Vaðssteinar). Í því var vatn. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól. Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Borgarkot

Refagildra við Borgarkot.

Norðar er Borgarkot. Það mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau,að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík. Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot. Þarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar. Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir. Minnkaveiðimenn munu hafa rutt honum að mestu um koll, en þó sést enn móta vel fyrir honum á kambinum. Neðan tóttanna er Borgarkotsvörin, en ofan við hana lá dauður háhyrningur – nægt kjöt í margar grillveislur.

Borgarkot

Vatnssteinar – vatnsstæði við Borgarkot.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn ruddu síðar um koll.
Ofan við Borgarkotstúnið er varða á hól. Beint upp af henni, sunnan girðingar, sem þar er, er hlaðin refagildra.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á þetta svæði því bæði gleymdust skriffæri til uppdráttagerðar og gps-tækið til að staðsetja vatnsstæðin sem og refagildruna. Samt sem áður var gerður bráðabirgðauppdráttur af svæðinu með aðstoð bíllykils og pappaspjalds. Þarna er greinlega um að ræða stórlega vanmetið svæði. Miklar minjar eru við Borgarkot og einnig allt í kring.
Veður var frábært – hiti, sól og þægilegur andvari. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Brunntorfur

Gengið var að Þorbjarnarstaðaborginni í Kapelluhrauni, austast í Almenningum.

Þorbjarnarstaðaborg

Í Þorbjarnarstaðaborginni.

Þegar komið var að borginni léku sólstafir um hana þannig að hún líktist fremur musteri en fjárborg. Börn hjónanna Þorkels Árnasonar og Ingveldar Jónsdóttur á Þorbjarnarstöðum í Hraunum hlóðu borgina skömmu fyrir aldarmótin 1900. Í útliti minnir borgin á merki Skjás eins því í miðjum hringnum er hlaðinn beinn veggur. Sennilega hafa börnin ætlað að topphlaða borgina líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi (Þorkell Árnason var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi), en hætt við það af einhverri ástæðu.
Gengið var upp í Almenninga og síðan austur með hraunkantinum inn í Brunntorfur með kvöldsólina í bakið. Mörg falleg furu-, leki- og grenitré hafa verið gróðursett við hraunröndina og marka skörp skil á milli nýrra og eldra hrauns. Eitt trjánna er þó sérstæðast, en það er lágt og “feitt” rauðgreni, sem breiðir úr sér í jarðfalli og fyllir svo til alveg út í það.
Komið var að fallegum trjálundi með hávöxnum grenitrjám. Hljómfagur fuglasöngur og sumarangan. Ef Eden hefði verið á Íslandi þá væri hann þarna – mosahraunið á aðra höndina og kjarrivaxnar brekkur á hinar með öllum sínum litatilbrigðum. Í svona landslagi eru ávextirnir aukaatriði, en þeir voru nú samt þarna sbr. meðfylgjandi mynd. Lundurinn myndar algert skjól og útsýnið þaðan gerist vart fegurra, a.m.k. ekki í augum listmálara.
Á leiðinni fylgdust nokkrir “hraunkarlar” með ferðalöngunum árvökulum augum.
Veðrið var frábært – sól og lygna nákvæmlega klukkustundina á meðan gengið var.

Þorbjarnastaðarborg

Þorbjarnastaðarborg.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldá til austurs, yfir hlaðna vatnsstokkinn frá fyrstu tímum vatnsveitunnar skömmu eftir þarsíðustu aldarmót (1916), framhjá opi Níutíumetrahellisins og áfram ofan barms Helgadalsgjár að fallegum reglulega lögðum klettum mitt á milli Búrfellsgjáar og Helgadals.

helgafellshellar-221

Í Rauðshelli.

Frá þeim sést gamla Selvogsgatan mjög vel þar sem hún liggur vestan Smyrlabúðar og á ská til suðurs yfir Mosana að Helgadal. Þar liggur hún niður með austasta Kaldárhnúknum og síðan áfram á ská upp gróna hlíðina í suðaustanverðum dalnum. Þar liggur gatan svo til alveg við forna tótt, sem þar er uppi í hlíðinni. Önnur gata hefur myndast síðar austan dalsins, en hún liggur austur fyrir Helgadalshæðir og áfram áleiðis upp í Valaból og Mygludali. Frá klettunum var líka stórkostlegt útsýni að Búrfelli, sem glitraði í kvöldsólinni.
Fyrir neðan klettana er hlaðinn stekkur, greinilega mjög gamall. Hann er ekki til, þ.e. hans hefur hvergi verið getið. Skammt sunnan við stekkinn er op Rauðshellis og skammt austar op Hundraðametrahellisins. Ekki var farið inn í hellana að þessu sinni, enda veðrið utan þeirra frábært.
Á meðan áð var í hlíðinni ofan við hellana kom þar að hópur fólks, greinilega mikið útivistarfólk í grænum, gulum, bláum og rauðum rándýrum úlpum, vatnsþolnum göngubuxum, gönguskóm af dýrustu gerð og göngustöfum í stíl við fatnaðinn. Það hlaut þó hafa fengið tilboð í bakpokana því þeir voru allir eins. Fólkið virtist hvorki hafa áhuga á hinum fornu tóttum í Helgadal né hellunum skammt frá. Kannski vissi það ekki af hvorutveggja. Það hafði elt göngustíginn.
“Heyrðu!”, sagði sá sem fremstur gekk við einn í hópnum. “Veist´u hvað þetta fjall heitir?”, og benti á Helgafell.
“Gott kvöld”, svaraði sá, sem ávarpaður var. Honum var litið niður á gallabuxurnar og strigaskóna sína. Og íslenska lopapeysan hans virtist alveg út úr kortinu þessa stundina. “Þetta fjall…”, svaraði hann, leit upp og horfði á manninn. “Þetta litla fjall getur nú ekki heitið mikið”. FERLIRsþátttakandinn leit á einn félaga sinn og brosti. Hann hafði greinilega heyrt þennan einhvers staðar áður.

Raudshellir-221

Í Rauðshelli

“Veit eitthvert ykkar hvað þetta fjall heitir?”, spurði þá maðurinn og snéri sér að öðrum FERLIRsþátttakendum.
“Nei, við vorum að koma”, svaraði ein í hópnum. “Ég er úr Reykjavík, sjáðu til. Ég veit bara að þetta er ekki Hekla”, bætti hún við. “Hvaðan eruð þið?”, spurði hún síðan.
“Við erum úr Hafnarfirði”, svaraði einn úr hinum hópnum.
“Hafið þið búið það lengi”, var þá spurt.
“Þessi hjón hafa búið það í þrettán ár”, svarað

i foringinn og benti á par í stíl, “en við hin höfum bara búið þar í ellefu ár”, bætti hann við. “Við ákváðum nýlega að byrja að hreyfa okkur svolítið og höfum gengið um svæðið þarna”. Hann benti á Kaldársel. “Og svo höfum við gengið upp gjá einhvers staðar þarna”, sagði hann og benti í áttina að Búrfellsgjá. Aðrir snéru sér eftir því sem maðurinn benti.
Búnaður fólksins var greinilega góður, en nöfnin á landslaginu yrði því bara byrði.
“Hvert eruð þið að fara?”, spurði FERLIRsþátttakandinn.
“Þangað”, svaraði maðurinn og benti í átt að Valahnúkum.
“Í Músarhelli?”
“Eru mýs þarna”, spurði þá ein í hópnum. Angistin skein úr augum hennar.
“Eða ætlið þið kannski að skoða tröllin”?, spurði annar.
Fólkið leit hvert á annað. “Eigum við ekki bara að fara til baka”, spurði sá yngsti í hópnum og leit á foringjann.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

“Hafið þið reynt að skoða landakort”?, spurði þá einn FERLIRsþátttakandi og vildi greinilega reyna að gera gott úr öllu saman. Óþarfi að hræða byrjendur. “Það, sko, er alltaf betra að vita hvar maður er staddur”, bætti hann við og brosti.
Hin litu hvert á annað. Síðast sást til ofurútbúna fólksins þar sem það beygði vestur með vatnsverndargirðingunni, stystu og öruggustu leið að bílunum. Þau hafa sennilega ætlað að ná sér í landakort.
“Það mun líklega enginn trúa okkur ef við segjumst hafa séð álfa í þessari ferð”, varð einum að orði.
FERLIRsþáttakendur gengu hins vegar áleiðis að Valahnúkum, komu við í Valabóli og gengu síðan upp skarðið að Tröllunum, háum grannskornum berggangi þvert í gegnum hnúkana. Tröllafjölskyldan tók sig einstaklega vel út sem hún stóð þarna hnarrreist. Hrafnshreiður er í hæsta Hnúknum. Krunkið í krumma bergmálaði í kyrrðinni. Helgafell baðaði sig í kvöldsólinni.
“Það þarf eiginlega að merkja þetta betur”, varð einum að orði. “Hér er ekkert skilti sem segir hvað fellið heitir”. Brúnsvört lopapeysan hans féll vel inn í landslagið.
Gengið var eftir vegarslóða niður að Kaldárbotnum og að upphafsstað.
Gangan tók rúmlega klukkustund. Veður var frábært – eins og áður hefur komið fram.

Helgafell

Helgafell – séð frá Valahnúkum.

Flekkuvíkursel
Flekkuvíkursel

Bræður.

Gengið var frá Hafnhólum við Reykjanesbrautina með stefnu í Flekkuvíkursel. Tekið var mið af vörðunum Bræður, sem sjást vel frá brautinni. Nafngiftin hefur verið óljós fram að þessu. Skammt norðan við vörðurnar er hlaðið byrgi á hól. Byrgið er greinilega hlaðið með það fyrir augum að veita skjól úr suðri. Skýringin á því kom í ljós síðar.
Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkurseli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjánlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins. Í selinu má vel greina 8 tóttir. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóttir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920). Tvær varir voru t.a.m. í Flekkuvík; Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör. Flekkuvíkursel var reyndar fyrrum í landi Kálfatjarnar svo annað selið gæti líka hafa verið nýtt frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna, s.s. Naustakoti, Móakoti, Fjósakoti, Hátúni, Hliði, Goðhóli, Bakka, Bjargi, Króki eða Borgarkoti [B.S. ritgerð Oddgeirs Arnarssonar 1998].

Flekkuvíkursel

Í Flekkuvíkurseli.

Skýringin á vörðunum tveimur, „Bræðrum“, gæti mögulega verið sú að þarna hafi verið tvö sel frá sitthvorum Flekkuvíkurbænum eða öðrum bæjum. (Ekki verri en en hver önnur). Nyrðri rústirnar gætu einnig hafa verið sel frá Vatnsleysu því landamerki Vatnsleysu og Flekkuvíkur eru í vörðu á Nyrðri Selásnum [S.G.]. Úr því verður þessu verður þó sennilega aldrei skorið með vissu.
Talsvert norðan við selið er klapparhóll. Á honum virðast vera þrjár fallnar vörður, en þegar betur er að gáð er líklegt að þarna hafi áður verið hlaðnar refagildrur. Hrúgurnar eru þannig í laginu. Svo virðist sem reynt hafi verið að lagfæra eina þeirra. „Gildrur“ þessar eru í beinni sjónlínu á byrgið, sem komið var að á leið í Flekkuvíkursel. Þarna hjá gætu hafa verið greni áður fyrr, sem bæði hefur verið reynt að vinna með gildrum, sem virðast hafa verið nokkuð algengar á Reykjanesi, og skotvopnum. Þegar gengið var frá hólnum að byrginu var t.d. komið að nýdýrgrafinni, rúmgóðri og djúpri, holu í móanum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 1 og ½ klst. Tækifærið var notað og Flekkuvíkurselið rissað upp.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Hraunsnes

Gengið var um fisbyrgin og minjarnar á Selatanga, skoðaðar sjóbúðirnar, Brunnurinn, Smiðjan, Skjólin, Dágon o.fl. Minnt var á Tanga-Tómas og rifjuð upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda. Síðan var gengið að refagildrunum ofan við Nótahelli, um Ketilinn í Katlahrauni og yfir í fjárbyrgi Vígdísarvallamanna (Ísólfsskálamanna).

Selatangar

Verkhús á Selatöngum.

Frá því var gengið í fjórðungssveig yfir að Vestari lestargötunni (Rekagötunni) frá Selatöngum yfir að Ísólfsskála. Erling Einarsson (Skálaafkomandi, sem var með í för) sagðist hafa heyrt að gatan hefði verið nefnd Selatangagata frá Ísólfsskála, en Ísólfsskálagata frá Selatöngum. Gatan er vörðuð þegar komið er upp úr Katlinum. Framundan er greinileg klofin varða. Síðan sést móta fyrir götunni uns komið er að Mölvík. Þá hverfur hún að mestu í sandi, en ef sýnilegum litlum vörðum er fylgt neðan við hraunkantinn kemur gatan fljótlega aftur í ljós. Hún heldur síðan áfram inn á hraunið og áfram áleiðis að Skála. En við hraunkantinn var beygt til vinstri að þessu sinni, niður í Hraunsnes. Þar eru fallegar bergmyndanir, klettadrangar og vatnsstorknir hraunveggir. Gengið var eftir ruddri götu til vesturs. Áður en komið var að enda hennar í vestanverðum hraunkantinum var enn beygt til vinstri, að hinum miklu þurrkgörðum og – byrgjum ofan við Gvendarklappir. Þar var fiskur verkaður vel fram á 20. öldina.
Kaffi og meðlæti var þegið á Ísólfsskála að lokinni göngu.
Því miður gekk skipulagið ekki alveg upp að þessu sinni. Áætlað hafði verið, auk landgöngunnar, hvalaganga og afturganga, en sú fyrrnefnda fór framhjá í kafi, þrátt fyrir þrotlausar æfingar, og sú síðarnefnda sofnaði í einu byrgjanna í góða veðrinu þannig að þátttakendur urðu ekki varir við hana að þessu sinni.
Veður var með ágætum – þægileg gjóla og sól.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Fagridalur

Orðrómurinn átti við rök að styðjast – það eru tóftir í Fagradal eftir allt saman.

Fagridalur

Tóft í Fagradal.

Haldið var á skyrtunni inn Fagradal, yfir ás vestan hans og síðan niður í dalinn þar sem var vel gróinn botninn var grandskoðaður. Gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur liggur þvert yfir ofanverðan botninn, skammt neðan við neðstu hraunbrúnina er fyllir ofan- og vestanverðan dalinn og síðan upp með henni austanverðri og upp úr dalnum austan við Vatnshlíðarhornið.
Dalurinn er það gróinn að ótrúlegt væri ef hann hefði ekki verið nýttur fyrr á öldum. Misgamlar og umfangsmiklar skriður hafa hlaupið niður brattar hlíðarnar, en gróðurtorfurnar standa að mestu óraskaðar þrátt fyrir mikla landeyðingu framan við dalinn og í dölunum í kring, s.s. í Breiðdal, Slysadal og Leirdal. Stórt vatn er framan við Fagradalsmúla, en það þornar í þurrkatíð á sumrum. Annað stórt vatn er sunnan við Leirdalshnúk, en norðan við það, sunnan undir hnúknum, vottar fyrir fornri tótt, sennilega garði. Ekkert vatn var í Breiðdalnum svo vel mátti sjá gróðurtorfurnar í honum innan um leirflögin. Í norðanverðum Breiðdalnum eru hleðslur sem virðast hafa verið hlaðnir garðar, en eru nú að mestu jarðlægir. Hvorugir staðirnir hafa verið skráðir sem slíkir og tóftirnar því enn á fárra vitorði.
Gömlu þjóðleiðinni var fylgt yfir Fagradalinn. Í stað þess að fylgja jeppaslóða um dalinn var gömlu leiðinni fylgt norður með honum austanverðum. Löngu liðinn hrútur liggur utan leiðar, sbr. meðfylgjandi mynd. Framundan virtist vera tóft á hól. Þegar betur var að gáð kom í ljós að tóftirnar gætu verið tvær. Í raun er þetta eðlilegasti staðurinn til að byggja t.d. sel ef dalurinn hefur verið nýttur til slíkra nota. Meðfærilegt grjót hafði greinilega verið fært úr nálægri skriðu. Mótar fyrir húsi, eða húsum á hólnum. Þrátt fyrir leit var ekki önnur mannvirki að sjá þarna lálægt. Vatnið er þó í seilingarfjarlægð. Ofan við það er vel gróið. Stígnum var fylgt áfram austur með hlíðinni ofan vatnsins uns sást niður í Tvíbollahraun. Þaðan er gott útsýni yfir í Breiðdal, Leirdal og allt að Helgafelli. Þrátt fyrir landeyðinguna, sem nú er orðin, var þarna fagurt yfir að líta.
Gengið var niður að vatninu og síðan áfram niður í Breiðdal, vestur með Breiðdalshöfða og að upphafsstað.
Gangan tók u.þ.b. 1 og ½ klst. Veður var frábært – bjart, hiti og lygna.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

 

Skipsstígur

Gengið var suður Skipsstíg frá hitaveituveginum út að Eldvörpum, litið á flóraða uppgerða kaflann norðan Lágafells (sennilega atvinnubótavinna og undanfari Grindarvíkuvegarins um Gíghæð, sem lagður var á árunum 1914-1918) og komið við í Dýrfinnuhelli. Segir sagan að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín eftir komu Tyrkjans 1627 og hafst þar við um tíma (TÞ).

Skipsstígur

Vagnvegshluti Skipsstígs.

Þaðan var beygt inn á Baðsvelli og skoðuð Baðsvallaselin í hraunkantinum og norðan skógræktarinnar á miðjum völlunum, sem og í skóginum. Því miður hafði verið plantað í sumar tóftirnar og eru þær nú að hverfa í skógarbotninn.
Síðan var lagt á brattan og gengið upp um norðanvert Þorbjarnarfell. Þar uppi eru stríðsminjar í syðri dyngjunni. Gengið var áfram upp með henni, í Þjófagjá og síðan haldið niður einstigið, sem þar er. Þegar komið var í Þjófahelli í gjánni fannst bæði hákarl og gamalt Brennivín á kút. Eftir að því hafði verið gerð góð skil var haldið niður með Lágafelli. Útsýni af Þorbjarnarfelli frá gjánni er stórkostlegt í slíku veðri, sem þarna var. Baðsvallaselstígunum var fylgt að Skipsstíg. Frá þeim hluta Skipsstígs var gengið áfram yfir að þeim hluta sem liggur fram hjá Títublaðavörðu að Járngerðarstöðum. Þau álög hvíla á vörðunni að henni verði að halda við, annars….
Stígnum var síðan fylgt áleiðis að Járngerðarstöðum, en staðnæmst var við Silfru. Frá Silfru var síðan gengið að næsta húsi í Grindavík og þar þegnar veitingar; páskaöl, brauð og annað meðlæti.
Veður var frábært – lygna og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 og ½ klst.

Baðsvellir

Minjar á Baðsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.