Skagagarður

Var genginn með Jóni Ólafssyni, fyrrverandi og margfróðum skólastjóra í Gerðaskóla í Garði. Fylgdi hann hópnum frá Kirkjubóli, um Garðskaga að Vatnagörðum. Lýsti hann staðháttum við Kirkjuból er Kristján skifari var brenndur þar inni 1551 eftir að áður hafði verið kveðið á um að “jörðin og öxin” geymdu best þá Jón Arason biskup og syni, Björn og Ara.
Dóttir Jóns fékk flokk manna tikirkjubol-21l að sækja að Kristjáni og mönnum hans eftir að fréttist af ferðum þeirra á Romshvalanesi. Höfðust þeir þá við að Kirkjubóli. Bónda var gefinn kostur á að ganga úr, sem og hann þáði, áður en eldur var borinn að bænum. Voru innimenn síðan handteknir er þeir reyndu útgöngu, hver á fætur öðrum. Þolinmæði aðsóknarmanna var lítil. Drápu þeir einhverja þar sem nú heitir Draughóll (á mörkum Garðs og Sandgerðis). Þar eru gamlar heimildir (Fornbréfasafnið) um leturstein því tengdu. FERLIR hefur leitað steinsins, en Draughól hefur verið raskað verulega frá því sem var. Varnarherinn hafðist þar að um á stríðsárunum hinum síðari og eru ummerki eftir hann á svæðinu. Við Draughól er letursteinn með áletrun, er gæti verið sá er nefndur var, en sá hefur sömu áletrun og Sveinbjörn Rafnsson lýsir þar árið 1817. Steinninn var myndaður, líkt og aðrar sýnilegar minjar á Reykjanesi.

Árnarétt

Árnarétt.

Gengið var um Hafurbjarnastaði, rættið ábúanda og litið á staðsetingu fornmannagrafreitsins, sem þar er. Í kumli þar fannst m.a. kona með keltneska skartgripi. Staðfestir það þá kenningu að sumar konur landnámsmanna hafa verið af keltneskum uppruna, en segir lítið um keltneskt landnám hér á landi (a.m.k. ekki enn sem komið er).
Jón lýsti m.a. Skagagarðinum mikla og tilgangi hans, einu elsta og mesta mannvirki hér á landi. Þegra komið var að Garðskaga opnaði Ásgeir Hjálmarsson á Garðskaga Byggðasafnið fyrir FERIRsfólkinu og gekk með því um safnið, sagði frá munum og mönnum og framtíðaráformum safnsins. Þá var komið við í enn einni fjárborginni á Reykjanesi, Útskálaborg, gengið um Helgustaði og yfir síkin að Vatnagörðum, sem er eina ófallna kotið frá tímum Milljónafélagsins.
Í bakaleiðinni var gengið yfir heiðina þar sem afvelta hrútur nauð góðs af ferðinni.
Veðrið var í einu orði sagt frábært. Gangan tók 3 klst og 11 mínútur.

Draughóll

Áletrun á steini við Draughól.

Hvassahraun
Girðingu austan Hvassahrauns var fylgt til norðurs frá Skyggni. Skammt undan hólnum er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos.
Girðingin, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. FjárskólGrjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um. Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður.
Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum. Ofan hans eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra. Handan Markakletts var komið að nokkrum fallegum spegilsléttum tjörnum inn á milli Kindinhárra kletta. Við eina tjörnina var, að því er virtist, elliær sækind. Tókst að taka ljósmynd af kindinni með því að læðast að henni og koma að óvörum. Vel mátti sjá sauðasvipinn á henni ef vel var að gáð. Þegar hún varð mannaferða var stökk hún áleiðis til sjávar og hvarf sjónum.
Skammt austar eru háir klettar, Réttarklettar. Gróið er í kringum þá. Umhverfis eru hlaðnir garðar og mótar fyrir tótt norðan við klettana. Hlaðinn stekkur er utan í garði austan þeirra. Ekkert nafn virðist vera á þessu svæði því það virðist ekki vera til á kortum. Heimild er til um kot fyrrum á þessu vsæði, Svínakot. Í örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir m.a. um þetta svæði: „Úr Söndugrjóti lá landamerkjalínan í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er enga áletrun að finna. Frá norðurtúngarðshliði lá Sjávargatan vestur með sjónum.
Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar.  Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“  Sjá meira HÉR.
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Ef fé hefur verið haldið þarna mátti draga þá ályktun að þar hlyti að vera einhver fjárskjól auk þessa vestan á nesinu. Þegar vel var skyggnst mátti greina hleðslu á hól í suðri. Stígur virtist liggja í þá áttina. Honum var fylgt og var þá komið að miklum hleðslum fyrir skúta, fjárhelli. Skútinn var í hárri hraunkvos og var vel gróið í kring. Ekki var að sjá merki mannaferða í eða við skútann, sem er vel hár og rúmgóður.
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Tækifærið var notað og mannvistarsvæðið rissað upp.
Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Borgarkot

Gengið var frá Stefánsvörðu, um Borgarkotsstekk, að hlaðinni refagildru ofan við Borgarkotstúnið. Þaðan var gengið að Hermannavörðunni, fallinni og raskaðri á hól við austurlandamerki Borgarkots, stórgripagirðingunni gömlu er liggur við hann áleiðis upp frá ströndinni og síðan þaðan til veturs í átt að Kálfatjörn. Henni var fylgt niður að Þjófabyrgi og síðan vestur með ströndinni að Borgarkotstóttunum. Láfjöróttur sjórinn var spegilsléttur. Krían var mætt á svæðið og fór mikinn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á tóttum Borgarkots bættust þrjár tóttir við þær fjórar, sem áður höfðu verið skoðaðar. Ljóst er að þarna hafa verið mun meiri umsvif en álitið hefur verið. Sjórinn hefur brotið smám saman af ströndinni, en túnið hefur náð mun lengra fram á klappirnar líkt og annars staðar með ströndinni. Framan við þær er myndarleg vör, sem líkast til hefur verið notuð fyrr á öldum, en kotið fór í eyði á 18. öld þegar bóndinn var ranglega sakaður um að hafa skorið sauð Flekkuvíkurbónda á aðfangadag. Síðar mun hafa komið í ljós að sauðurinn var prestsins á Kálfatjörn. Vont að þurfa að missa allt sitt fyrir sauðsmisskilning. Lokið var við uppdráttargjörð af svæðinu.
Borgarkot var um tíma nýtt frá Viðeyjarklaustri (sjá fyrri umfjöllun um Borgarkotssvæðið). Klaustrið átti margar jarðir með norðanverðum skaganum, umhverfis Reykjavík og á sunnanverðu vesturlandi (sjá meðfylgjandi kort).
Vatnssteinar (Vaðsteinar) voru litnir augum, en á milli þeirra er fallegt vatnsstæði. Vestan þess er hlaðið gerði eða rétt. Vestan hennar má sjá hleðslur er að öllum líkindum tengjast refaveiðum. Ein hrúgan ber þess ummerki að hafa verið refagildra. Sjá má hlaðinn „ganginn“ í henni ef vel er að gáð.

Borgarkot

Jarðeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga.

Að þessari gaumgæfingu lokinni var strikið tekið suður heiðina í leit að svonefndum Bakkastekk. Hann fannst eftir stutta leit, greinilega mjög forn. Hann er á hraunhól allnokkuð suðsuðaustur af Bakka. Búið var að umbreyta austurhluta hans og hlaða úr honum refagildru. Þarna virðist því víða hafa verið átt við refaveiðar. FERLIR hefur skoðað 23 hlaðnar refagildrur á Reykjanesi en ótaldar eru tvær mjög gamlar gildrur skammt ofan við gildruna ofan Borgarkots, gildra ofan við Húsatóftir, sem og tvær gildrur í Hraunsleyni ofan við Hraun og jafnvel gildra á Stóruflöt við Grindavík. Gildrurnar þarna virðast allar hafa sömu lögun og líklega gerðar af sama manninum. „Fellan“ virðist hafa verið hentugur steinn, en ekki slétt þunn hella, eins og t.d. í gildrunum á Selatöngum, við Húsfell, í Básum og undir Sundvörðuhrauni. Sumar heimildir segja gildruveiðar þessar vera komnar frá landnámsmönnum, en aðrir vilja meina þær yngri. Þær virðast þó að mestu hverfa eftir að byssur urðu almenningseign hér á landi. Þó er ekki óraunhæft að álíta að menn hafi haldið við einstaka refagildrum, einkum þeim sem voru á reglulegri leið þeirra, s.s. í beitarhús eða á rekagöngum.
Tiltölulega auðvelt væri að endurgera refagildrur líka þeim, sem fyrr voru notaðar, svo heillegar eru þær sem eftir standa.
Veður var frábært – sól og blíðviðri.
Gerður var uppdráttur af svæðunu (sjá mynd).
Frábært veður.

Borgarkot

Refagildra ofan Borgarkots.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Við selstóftir á Selsvöllum.

Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.
Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.
Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli. Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu. Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Tóft við Selsvelli.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin. Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli. Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Veður var frábært – logn, 16 °C hiti og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 klst.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Óbrennishólmi
Gengið var inn í Ögmundarhraun frá Lat áleiðis í Óbrennishólma. Gata liggur niður með vestanverðum Lat og beygir til austurs sunnan hans. Stígnum var fylgt yfir úfið hraun, en þegar því sleppti lá gata til hægri niður í hraunið. Eftir að hafa fylgt henni spölkorn var komið að skúta með fallegri dyralaga hleðslu. Um er að ræða rúmgóðan skúta, sem lengi var notaður sem sæluhús á ferðalögum fólks að og frá Grindavík á leið þess með ströndinni. Loftop er á skútanum og hleðslur umhverfis það. Hurðarhellan er enn til hliðar við dyrnar.

Gengið var áfram austur stíginn að Óbrennishólma. Hann skiptist sumstaðar í tvennt, en ráð er að fylgja ávallt efri stígnum – nær hraunkantinum – því hann er greiðfærari. Annars er stígurinn auðgenginn. Þar sem stígurinn liggur alveg við hraunkantinn má sjá, ef vel er gáð, stíg liggja inn á kantinn. Best er að fylgja honum og er þá komið á gróið svæði eftir að hafa farið yfir stutt hraunhaft. Í stað þess að fylgja hraunkantinum þarna til austurs var gengið upp á tiltölulega slétt mosahraun í norðaustur. Framundan sést úfnara hraun, en upp með því að vestanverðu liggur góð gata upp úr hólmanum til norðurs, í átt að Latsfjalli. Þessari götu var fylgt spölkorn upp fyrir úfna hraunið, en þar kemur stígur inn á götuna úr suðaustri. Gatan heldur áfram upp hraunið, en ákveðið var að fylgja stígnum áleiðis niður í hólmann. Stígurinn er breiður á kafla og greinilega mikið farinn. Hann kemur ofan í hólmann vestan og ofan við hæsta hólinn þar sem stóra fjárborgin trjónir upp á. Í stað þess að fara þarna inn í hólmann var gengið til austurs ofan við gróna svæðið í hólmanum. Komið var að görðunum utan í hraunkantinum úr vestri, en þeir eru í grónum rana norðaustan í hólmanum. Hraunið, sem rann um 1151, hefur runnið þarna að hlöðnum görðum og sjást þeir vel í kantinum. Þessir garðar, að vestanverðu í lænunni, hafa legið í boga upp hæð, en auk þeirra má sjá annan garð liggja niður með lænunni að austanverðu. Hraunkantinum var fylgt áfram til austurs og var þá gengið yfir hraunhaft og inn í gróið svæði ofan þess. Þar sem gengið var inn á svæði sást móta fyrir garði. Á austanverðu svæðinu er hlaðin hringlaga fjárborg, sbr. meðfylgjandi mynd. FERLIRsfélagar hafa komið þarna tvisvar áður, en ekki fyrr rekið augun í borg þessa. Þetta er, skv. exelskránni, 81. fjárborgin, sem skoðuð hefur verið á Reykjanesi.
Gengið var til suðurs í Óbrennishólma með austanverðum hraunbakka, að gróinni fjárborg eða hústótt skammt frá bakkanum. Sunnan hennar, í hraunkrika, alveg undir hraunkantinum, er hlaðið gerði. Í vestri, á breiðum hól sunnan í Hólmanum, er stór fjárborg. Hún er greinilega mjög gömul og hefur verið allmyndarleg á sínum tíma. Vestan hólsins, í kvos, má sjá móta fyrir fornum garði þar sem hann liggur til norðurs. Hann hverfur í landrofi skammt ofar, en ef línunni er fylgt áfram til norðurs, yfir hæð og niður á nokkuð slétt svæði, sést móta fyrir garðnum utan í grónu hrauni.
Götunni neðan við Óbrennishólma var síðan fylgt til baka að Lat. Skoða þarf stígana ofan við hólmann betur síðar.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 1 ½ klst.

Óbrennishólmi

Sængurkonuhellir.

Norðurkot
Gengið var um Kálfatjarnarsvæðið í fylgd staðþekkjaranna Sesselju Guðmundsdóttur og Sigrúnar Frjóns, en koma átti eftir í ljós að ekki var til sá blettur á landssvæðinu, sem þær ekki þekktu eða höfðu skoðað.

Litlibær

Litlibær – brunnur.

Byrjað var á því að ganga veginn niður að Liltabæ, Bjargi, Bakka og Gamla-Bakka austan Kálfatjarnar. Tekið var hús á Geir á Litlabæ, sem bauð þátttakendum til sólstofu. Þaðan var ágætt útsýni vestir að Bakka, norðvestur að Bjargi og norður að Gamla-Bjargi, eða öllu heldur tóttum þess bæjar, sem nú eru á sjávarkambinum. Eftir stutta dvöl var Geir kvaddur með fyrirheitum um að bera fljótt að garði aftur. Gengið var að tóttum Gamla-Bakka, en þar má vel sjá hleðslur garðs og tóttir bæjarins, sem sjórinn er nú smám saman að brjóta niður. Undir bakkanum mátti t.d. sjá gamlar ryðgaða hurðarlamir og bein úr haug.

Gengið var vestur tún Kálfatjarnar, að Móakoti. Í kringum tóttir kotsins eru allmiklar garðhleðslur og hlaðinn brunnur með steyptu loki vestan þeirra. Sjá mátti tóttir Fjósakots sunnar í túninu. Gengið var áfram að hól þeim, sem Hólkot stót eitt sinn á. Suðvestan undir hólnum er Víti, vatnsstæði, sem sjaldan þverr. Nú var það reyndar að mestu þurrt. Nafninu Víti var einhvern tímann komið á Hólkot með vísu er fjallaði um áfengi og munu menn hafa villst á vitum. Haldið var áfram til vesturs sunnan Kálfatjarnarinnar, að sjóbúð, sem þar er heilleg á hól, áfram til vesturs yfir Síkið og Rásina að hlaðinni bátarétt. Við enda heillegasta garðsins eru leifar gamla bátaspilsins, en Sigrún benti síðar á hvar afgangur þess var niður kominn. Litið vará hlaðin fjárhús á sjávarkampinum, ofan við Kálfatjarnarvörðina, en neðan þeirra hafði fjósið eitt sinn verið og skammt vestar Kálfatjarnabyrgið. Sjórinn hefur nú hirt hvorutveggja. Vestar er Hausaréttin gamla. Enn sér móta fyrir henni. Neðan hennar fannst Kálfatjarnarártalssteininn (A° 1674) fyrir nokkrum misserum síðan eftir að sjórinn hafði velgst með hann um 30 metra leið frá þeim stað, sem hann hafði síðast sést fyrir nokkrum áratugum síðan.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Gengið var til suðvesturs að sundvörðu á hól og fjárhústótt skammt vestar. Norðvestan hennar er Norðurkotsbyrgið og Tíðargerðisbyrgið norðan þess, alveg fram á sjávarkampinum.
KálfatjörnGoðhólstóttirnar voru skoðaðar, en hún er enn allheilleg. Norðaustan þeirra eru tveir hlaðnir garðar, gamlir matjurtargarðar. Gengið var yfir garða og þá komið að fallegum hringlaga hlöðnum brunni. Þar er Norðurkotsbrunnurinn, smart gerður, eins og Vala Matt myndi sagt hafa. Komið var að Tíðargerði. Gengið var að Norðurkoti, en þar mun fyrrum hafa verið barnaskóli. Inni er margt forvitnilegt að sjá.
Til baka var gengið yfir að Hliði, um garðana þar, að hlaðinni brú á kirkjugötu, sem í er ártalssteinn (A°1790) og að Landabrunni ofan Landa, fallegu vatnsstæði. Loks var komið við í Hestaréttinni. Þegar litið var yfir golfvöllinn á Kálfatjörn mátti sjá nokkra sjónumhrygga golfara leita kúlna. Eina (það einasta eina), sem þeir einblíndu á, voru litlar holur í sléttu grasinu – og allar eins.
Til ferðardrýginda var kíkt í gömlu hlöðuna á Kálfatjörn og þátttakendum sýnt þar fornt lóð er bar merki Kristjáns kóngs fimmta, sbr. meðfylgjandi mynd. Því mun hafa verið bjargar undan sjónumhryggum fyrr á árum. Skemmtileg leiðsögn um sagnaríkt og merkilegt svæði.
Veður var frábært – köflótt sól með vistvænum vindi. Gangan tók um 2 klst. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Skreið

Það var við hæfi að fara í sérstaka „Hjallaferð“ á föstudaginn langa. Föstur í kaþólskum sið voru helstu forsendurnar fyrir skreiðavinnslu og fiskútflutningi Íslendinga í gegnum aldirnar. Um langan tíma var hertur fiskur svo til eina útflutningsvaran. Á þeim tíma var fiskur þurrkaður á grjóti, hlöðnum grjótgörðum og byrgjum, auk þess sem sérstök verkhús voru á sumum stöðum. Verin gengdu þýðingarmiklu hlutverki við veiðar og verkun skreiðar. Í sumum þeirra, einkum á Snæfellsnesi, voru sérstakir hjallar (rekaviður milli hlaðinna stólpa). Á Reykjanesi eru nú einungis eftir fiskhjallar (trönur) á fáum stöðum, s.s. við Hafnarfjörð, Grindavík og Garð.

Skreið

Skreið í trönum.

Haldið var í hjallana við Hafnarfjörð, gengið þar um og sagan rifjuð upp í tilefni dagsins. Í hjöllunum hanga nú þorskur, ufsi, ýsa, lýsa og langa, en áður fyrr var þar nær einvörðungu þorskur og hausar. Hausarnir nú virtust af öllum hugsanlegum fiskskepnum. Sumir hafa líklega hangið þarna lengi, aðrir voru nýkomnir.
Skreið er framleiðsluheiti yfir þurrkaðan, afhausaðan fisk. Þurrkunin er gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks. Íslendingar hafa þurrkað fisk í aldaraðir en í nútímanum má segja að hér á landi sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar þ.e. harðfiskur, öll önnur skreið er framleidd til útflutnings. Helstu markaðir fyrir skreið eru Ítalía og Nigería, auk nokkurra ríkja á vesturströnd Afríku.
Skreið hefur lengst af verið útiþurrkuð þar sem tveir fiskar eru spyrtir saman og hengdir upp í þar til gerðum fiskhjöllum og sól og vindur látin um þurrkunina. Nú getur þurrkun fisksins verið hvort heldur sem er, inniþurrkun – og er þá jarðhiti gjarnan nýttur til verkunarinnar.
Þessi hausaverkun getur verið mismunandi og helst hún gjarnan í hendur með því í hverskonar verkun bolur fiskins fer; haus m/klumbu, haus án klumbu og haus með hrygg.
Á miðöldum steig skreið mjög í verði á erlendum markaði. Þá reið mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Annmarkar Þurrkbyrgi á Selatöngumvoru á því, sérstaklega vegna rakans í sjávarloftinu. Eyjamenn tóku t.d. þá upp á að herða fisk á syllum í móbergshömrum, t.d. fiskhellum svokölluðum. En meira rými þurfti til. Eyjabúar fundu þá upp gerð fiskigarða. Hver jarðarvöllur (tvær jarðir) eignaðist afmarkað svæði, sem girt var hlöðnum grjótgarði til varnar sauðfé t.d., sem þá gekk í hundraðatali um alla Heimaey. Inni í gerðinu voru síðan hlaðnir reitir úr hraungrýti með bili á milli, svo að ekki þurfti að ganga á reitunum sjálfum (þurrkreitunum) meðan fiskurinn var breiddur til herzlu. En fleira var innan gerðisins en herzlureitirnir. Þarna var byggð kró úr hraungrýti, – hringmynduð kró, sem mjókkaði upp í toppinn svo að loka mátti henni með dálítilli steinhellu. Að baki krónni var reitur, kallaður kassareitur.
Annars staðar á landinu voru hlaðnir langir grjótgarðar og hlaðin grjótbyrgi, s.s. nálægt Grindavík og á Snæfellsnesi.
Oftast var fiskurinn hertur flattur, tekinn úr honum hryggurinn.
Þegar fiskurinn var fluttur í gerðið, ýmist borinn á baki eða reiddur á hesti. var hann settur í kös á kasarreitinn. Þar var hann látinn liggja, þar til byrjaði að slá í hann. Þá var hann breiddur á herzlureitina. Lágnaður fyrir herzlu þótti fiskurinn bragðbetri og mýkri. Eiga Norðmenn að hafa fundið upp þessa verkunarferð á miðöldum.
Hálfharður var fiskurinn síðan settur inn í króna. Þar blés hann og fullharðnaði án þess að regn kæmist að honum. Loftstraumur lék um króna, þar sem hún var hlaðin upp úr hraungrýti með einföldum veggjum. Fyrir krónni var rimlahurð. Dyrnar voru lágar, svo að ganga varð hálfboginn um þær eða skríða nánast. Yfir dyragættinni var hvalbein, t.d. rifbein úr hval. Í krónni geymdist skreiðin vel. Þaðan var hún flutt á verzlunarskipið, þegar hún var seld til útflutnings, og þangað sóttu menn skreið til heimilisnota. Á Reyjanesi voru notuð steinhlaðin byrgi í sama tilgangi.
Fiskbyrgi í Strýthólahrauni við GrindavíkLíkan af vestmannaeyskum fiskigörðum gjörði Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ. Það er gjört eftir frásögn Jóns Jónssonar frá Brautarholti, síðast sjúkrahússráðsmaður þar í bæ. Hann var fæddur 1869 og mundi gerð síðasta fiskigarðsins, sem var rifinn um 1880, eða um svipað leyti og verstöðin á Selatöngum lagðist af.
Harðfiskur hefur fylgt landsmönnum allt frá upphafi byggðar og lengi framan af skipaði hann stóran sess í fæðunni, einkum til sveita þar sem ekki var mikið framboð af fersku sjávarmeti. Í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson sagnfræðing er fróðlegur kafli um skreið og harðfisk. Þar segir að víða sé minnst á skreið í Íslendingasögum og má þar nefna skreiðarhlaðann á Fróðá í Eyrbyggju. Í Íslandslýsingu Odds biskups Einarssonar frá lokum 16. aldar segir að næst á eftir mjólkurvörum og kjöti sé venjulegur fiskur stór hluti af fæðu Íslendinga. „Er hann þá fyrst hertur…
Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við að vinna saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.
Sýningin er forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. Hún er liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Í kringum Grindavík eru víða gamlir þurrkgarðar og byrgi, s.s. við Húsatóftir, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni, við Ísólfsskála og á Selatöngum. Í Herdísarvík má einnig enn sjá garða og leifar byrgja, en vegagerð hefur þegar skemmt hluta þeirra.
Um miðja átjándu öld voru fáeinir tugir báta gerðir út frá Reykjavík, mest tveggja manna för, og voru veiðarfærin nær eingöngu handfæri. Fiskurinn var að mestu leyti verkaður í skreið. Eftir 1800 stækkuðu fleyturnar og fjögurra og sex manna för urðu uppistaða bátaflotans.
Í holtunum í kringum miðbæ Reykjavíkur og út frá honum meðfram sjónum mynduðust þyrpingar torfbæja þar sem tómthúsmennirnir bjuggu. Þeir höfðu lífsframfæri sitt af því að róa til fiskjar og af daglaunavinnu sem til féll. Upphaflega voru þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna og höfðu ekki skepnur kallaðir tómthúsmenn, húsin þeirra voru talin tóm. Víða á Suðurnesjum var þetta fólk nefnt þurrabúðafólk. Fékk það að reisa hús (skjól) á jörðum formanna eða annarra góðviljaðra, sem síðan þróuðust í smábýli eða bæi. Dæmi um slík hús eru t.d. í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík – reyndar endurnýjuð síðan þá var.
Um 1820 var saltfiskur orðinn aðalútflutningsvaran frá Reykjavík og hafði það örvandi áhrif á þéttbýlismyndunina þar sem saltfiskverkun var frek á vinnuafl gagnstætt skreiðarverkun. (Sjá meira undir Skreið I).

Sjá einnig MYNDIR.
Sólstafir yfir Grindavík

Mýrarrauði

Hvernig er mýrarrauði unninn?
Fyrst; er nógu mikið járn í íslenskum mýrarrauða til vinna það með raunhæfum hætti? Er magn járns með breytilegu vatnsmagni (Fe2O3 * H2O) í íslenskum mýrarrauða nægilega mikið til að vinna það úr rauðanum eins og landnámsmenn Íslands gerðu fram eftir öldum með þeirri aðferð sem talið er að þeir hafi notað, rauðablæstri? Er þessi aðferð raunhæf til að vinna járn?

Mýrarrauði

Mýrarrauði.

Engin ástæða er til að ætla að íslenskur mýrarauði sé verri nú en hann var fyrr á öldum, þannig að útaf fyrir sig mætti vinna járn að hætti forfeðranna ef einhver nennti því. Þó gæti rauðablástur aldrei orðið annað en tómstundagaman því að járn er einn þeirra málma sem finnst í þekktum auðugum námum sem sér ekki fyrir endann á.
Raunar var rauðablástur stundaður með fornum aðferðum í Noregi allt fram á 18. öld, og hét sá Ole Evenstad í Austurdal sem stórtækastur var. Hann og menn hans gerðu allt að fimm bræðslur á dag í frumstæðum ofni þar sem hráefnið var mýrarauði og viðarkol, og náðu um 30 pundum (ca. 15 kg) af járni í hverri bræðslu.
Kristján Eldjárn taldi að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi hin forna iðja, rauðablástur, verið sjálfsögð á hverjum bæ eins og hver önnur störf bóndans. Hins vegar vegar eru litlar menjar um rauðablástur eftir miðja 13. öld og kann hvort tveggja að valda, skógleysi og minnkandi uppgrip af rauða. Ekki hefur þörfin þó minnkað, heldur er sennilegt að margir bændur sem bjuggu við rýra járntekju eða skógleysi hafi þurft að kaupa járn af öðrum sem framleiddu umfram þarfir. Gjallhaugur að Eiðum svarar til þess að þar hafi verið framleidd 500-1500 tonn af járni. Fræðimenn telja að Íslendingar hafi sjálfir framleitt allt sitt járn þangað til farið var að flytja inn svonefnt ásmundarjárn um miðja 15. öld.
Rauðablástur fer þannig fram, að þurrkuðum mýrarauða er blandað saman við viðarkol sem unnin eru með því að brenna viði í kolagröf þannig að loft komist ekki að. Síðan er kveikt í blöndunni í ofni. Við brunann afoxast járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlar niður í botn ofnsins og er síðan „hleypt undan“. Eftir verða efnasambönd (steindir) sem ekki bráðnuðu, og nefnast sori eða gjall. Jafna efnahvarfanna er sýnd hér neðanmáls. Af henni sést að öllu máli skiptir hlutfallið milli járnoxíðs og kísils í hráefninu — í jöfnunni er það 2:1, en sé það 1:1 gengur ekkert járn af. Sorinn hér er fayalít (Fe2SiO4).
Á áttunda áratugnum voru greind á Raunvísindastofnun Háskólans nokkur sýni af mýrarauða og gjalli (sora) til að reikna út hugsanlegan afrakstur rauðablástursins. Í íslenskum mýrum er mikið um steinefni, öskulög og áfok, sem inniheldur yfir 50% af SiO2, og vafalítið hefur þessi staðreynd spillt fyrir rauðablæstri hér á landi þótt allt sé þetta nokkuð bundið landshlutum og áfokið hafi að minnsta kosti stóraukist í kjölfar landnámsins.
Eftirfarandi samantekt, sem finna má á vefslóðinni IDAN.is, er til frekari glöggvunar á vinnslu mýrarrauða hér á landi:

Járn

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Vinnsla á járni úr jörðu hefur verið þróaðasta náttúrunám á Íslandi á miðöldum. Járnið var unnið úr mýrarauða en sú aðferð var algeng í Noregi fyrir landnám Íslands og líklegt að aðferðin hafi flust með norskum landnámsmönnum hingað til lands. Aðferðin, sem notuð var við járngerðina, var kölluð rauðablástur og byggðist á því að bræða járnið úr mýrarauða yfir viðarkolaglóð í þar til gerðum ofni.
Á þjóðveldisöld er líklegt að mestallt járn, sem notað var til framleiðslu á ýmsum nytjahlutum, hafi verið unnið hér á landi og má því til stuðnings benda á að engar heimildir eru til um innflutning á smíðajárni á þeim tíma.
Járngerð á Íslandi, rauðablástur, lagðist af um 1500 þegar vinnsla járngrýtis hófst á Norðurlöndum. Í kjölfar þess hófst innflutningur á svokölluðu ásmundarjárn en þó er líklegt að vinnsla járns úr mýrarauða hafi tíðkast eitthvað eftir 1500 þar sem slík þekking leggst ekki af á einni nóttu.
Fyrsti Íslendingurinn, sem ber starfsheitið járnsmiður í ritaðri heimild, er landnámsmaðurinn Ljótólfur og má því segja að hann sé fyrsti járniðnaðarmaðurinn sem sögur fara af.

Járngerð

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Hugsanlegt er að finna verksummerki um járngerð víða á landinu. Helsta vísbendingin er gjall af tiltekinni gerð. Þegar rauðinn (járnið) var bræddur urðu eftir úrgangsefni, sem runnu saman í hellu eða klump og storknuðu. Yfirborð þessara gjallstykkja var götótt, dökkt og gljáandi, líklega 6 – 10 sm að þykkt og ummáli. Þau líkjast hraunsteini en eru mun þyngri og mótaðri en steinninn. Stykkin gætu innihaldið lífrænar leifar eins og kol og jarðveg.
Eftirfarandi má einnig hafa í huga þegar hugsanlegir járngerðarstaðir eru skoðaðir. Orðið gjall er dregið af lýsingarorðinu að gjalla eða hljóma. Þegar slegið er í gjallstykki heyrist málmhljóð. Til járngerðar þurfti rauða úr mýrum og við til kolagerðar en viðurinn var oftast af skornum skammti þegar leið á miðaldir. Kolin voru þannig gerð að grafnar voru djúpar holur og fylltar grönnum viðarstofnum. Síðan var kveikt í og hulið með torfi. Þessar holur hafa líklega verið all djúpar, samanber ákvæði í Grágás þar sem sekt er við því að fylla ekki kolagrafir svo að fé falli ekki í þær.
Undirritaður fann nýlega stað á Reykjanesi er gæti hafa verið notaður til kolagerðar. Nafnið bendir a.m.k. til þess, þ.e. Kolhóll. Í honum er stór skál, sem grafa þyrfti í. Ef þetta reynist rétt er um að ræða fyrstu kolagröfina, sem finnst á svæðinu.

Mýrarauði

Mýrarrauði

Mýrarrauði.

Mýrarauði er eins konar jarðefnisklumpar eða agnir sem finna má í mýrum hér á landi. Mýrarauði gat verið á stærð við sandkorn og allt að 50 kg klumpi.
Mýrarauði er líkt járnryði að ytra útliti, mógulur eða mórauður á litinn. Rauðinn er gjallkenndur viðkomu og oft gljúpur og holóttur. Mýrarauði myndast þegar vatn tekur í sig járn úr bergi og hið járnblandaða vatn (mýrarlá) verður fyrir áhrifum jurtagróðurs.
Mýrarauða er helst að finna í mýrum neðst í fjallshlíðum. Margir dalir og dalverpi á Íslandi eru þannig frá náttúrunnar hendi að mýrarnar þar geta náð töluvert upp í fjallshlíð. Finna má köggla af mýrarauða þar sem mýrar hafa þornað og land blásið upp.

Ofnar

Mýrarrauði

Mýrarrauði – ofn (ÓSÁ).

Lítið er vitað um ofninn sem notaður var við rauðablástur. Engar áreiðanlegar heimildir eru til um útlit hans eða gerð né hvernig hann var hannaður. Meðfylgjandi uppdráttur er gerði ÓSÁ eftir rissi Ragnars Edvardssonar, kennara í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Tilgátan er byggð á samskonar ofnum, sem enn eru í notkun meðal frumstæðra þjóða og vitað er að voru til meðal víkinga. Hugmyndin er einföld, möguleg í framkvæmd hér á landi og líkleg til að geta skilað árangri. Ætlunin er jafnvel að gera tilraunir með ofninn n.k. sumar.
Samkvæmt nýjustu fræðiathugunum og opinberum kenningum er hins vegar talið að ofnar hafi ekki verið gerðir úr varanlegu efni. Þeir hafi verið tunnulaga, oftast úr torfi og jafnvel timbri og með gati neðst til að hægt væri að blása í gegnum það lofti að kolunum.
Á sínum tíma var talið að rauðablástursofn hefði fundist á Belgsá í Fnjóskadal en sá ofn var grafinn í jörðu og klæddur grjóti en engar áreiðanlegar heimildir styðja þetta. Bent hefur verið á að þetta gæti ekki verið rauðablástursofn þar sem ekki væri hægt að blása lofti að kolunum um gat neðst á ofninum eins og norski bóndinn gerði en aðrir töldu að lofti hefði verið blásið beint ofan í ofninn.
Ofnar til járnsmíða þróuðust og breyttust í tímans rás en byggðust þó á þeirri hugmynd að blásið var lofti með smiðjubelg eða físibelg að kolum í ofninum til að framkalla nægan hita til að vinna járnið. Slíkir ofnar voru oftast hlaðnir með sléttum hellusteini efst eða járnplötum og áfastur físibelgur á einni hlið.

Rauðablástur

Mýrarrauði

Mýrarrauðlitaður lækjarfarvegur.

Rauðablástur kallast það þegar mýrarauði er bræddur yfir viðarkolaeldi þannig að út fellur nothæft járn sem síðan er hamrað og unnið með. Lítið er vitað um nákvæma aðferð við rauðablástur eins og hann tíðkaðist á Íslandi, og virðist sú þekking glötuð. Á 18. öld vann norskur bóndi, Ole Evenstad, járn úr mýrarauða á þann hátt sem ætla má að líkist að einhverju leyti þeirri aðferð sem notuð var til forna hér á landi.

Aðferð:
1. Rauðinn var tekinn og mulinn í smátt.
2. Viður var brenndur í ofni þar til hann var orðinn að glóandi viðarkolum.
3. Viðarkolunum var þrýst niður og muldum rauða stráð yfir glóðina. Þrír skammtar fóru í hverja brennslu eða sem samsvarar 24 lítrum.
4. Þegar rauðinn var orðinn glóandi var blásið lofti að kolunum inn um gat neðst á ofninum.
5. Um leið og kolin brunnu sigu þau niður en mest fyrir miðju þar sem hitinn var mestur.
6. Rauðaglóðinni var nú skarað að miðju og blásið áfram um gatið neðst á ofninum þar til rauðaglóðin rann saman í klump í miðjunni.
7. Járnið var nú tekið úr ofninum og hamrað til.

Aðferðin byggist á því að bræðslumark járns er hærra en steinefnanna sem mynda gjallið. Þess vegna sígur gjallið niður á botn ofnsins meðan járnið rennur saman í klump ofan á gjallinu. Fundist hafa járnklumpar sem líta þannig út að járnið hefur verið látið síga saman í miðjum ofni á sama hátt og norski bóndinn lýsir.

Í Landnámabók er skýrt frá því að Björn nokkur hafi numið land í Borgarfirði. „Hann blés fyrstur mann rauð á Íslandi, ok var hann af því kallaður Rauða-Björn.“ Fræðimenn hafa dregið þessa fullyrðingu Landnámabókar í efa með þeim rökum að þessi frásögn hafi ekki verið til annars en að skýra viðurnefni Bjarna. Rauðablástur var vel þekktur frá Noregi og hafði verið stundaður þar löngu fyrir landnám Íslands og því hefur vinnsla járns úr mýrarauða ekki verið annað en sjálfsagt framhald af ýmissi verkmenningu sem fluttist hingað frá Noregi.

ÓSÁ tók saman 19.11.’03

Brennisteinsfjöll

Ætlunin var að finna Lýðveldishellir þann er Þröstur Jónsson lýsir í Surti og á að vera austan við Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Dagurinn var 17. maí.
Ekið var upp frá Sýslusteini á hæðirnar vestan við Vörðufall. Þaðan var gengið til austurs með norðanverðum grasigrónum hraunkanti með aflíðandi sandfjallshrygg á vinstri hönd. Til suðurs mátti sjá í Sandfjöllin, en Vörðufellið framundan.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gönguleiðin.

Gengið var eftir greinilega fjölförnum rollustíg inn yfir hraunið í átt að fellinu. Róleg rjúpa stóð á steini og fylgdist með. Við norðausturhornið á Vörðufellinu sást ofan í rás, en hún virtist ekki ná mjög langt. Frá honum lá djúp og löng hrauntröð til vesturs. Haldið var yfir öxlina sunnan hennar og birtist þá breiður og myndarlegur eldgígur í suðaustri. Myndarlegur eldgígur var norðvestan við Vörðufell og annar norðaustan við það. Gengið var upp á brúnin og blasti þá djúpur og myndarlegur eldgígur við. Frá syðri brún þessa stóra eldgígs far hið fallegast útsýni niður á Herdísarvíkurfjöllin, Hlíðarvatn, Selvog og austur með Suðurströndinni. Eldborg trjónaði efst á hryggnum skammt norðaustar. Sjá mátti á toppinn á Kistufelli í norðaustri.
Gengið var til austurs sunnan Eldborgarinnar, upp hraunhrygg og komið niður hann að austanverðu. Framundan, metrum sunnan við Eldborgina, var komið í slétt dökkleitt hraun er hallaði undan hlíðinni til suðurs. Í stefnu um 500 m austan af borginni var komið að litlu jarðfalli. Op lá niður úr því til suðurs. Eftir að inn var komið tók við mannhæðahá falleg rás. Bekkir voru beggja vegna í mjaðmahæð. Öll rásin, sem var heil, var öll glansandi. Separ voru í lofti. Eftir nokkra tugi metra beygði hún og var gengið í hring um stóra súlu. Rásin lá lengra niður, en sá hluti var ekki skoðaður að þessu sinni. Einn gluggi var á rásinni.

Kistuhellar

Í Kistuhelli.

Efra opið var aðgengilegra. Niður í það sáust glansandi bekkirnir mjög vel. Gengið var upp eftir henni um ca. 20 metra, en þar þrengist rásin, en hægt var að sjá upp í gíg. Þegar hann var skoðaður ofan frá sást vel hvernig þunnfljótandi rauðleitt hraunið hefur smurt rásina og leitað þarna upp úr henni. Rásin hafði fallið niður ofan opsins. Hægt var að ganga hana upp um ca. 20 metra. Hún var einnig mannhæðahá, en þrengdist svolítið áður en hægt var að komast upp úr henni þar fyrir ofan. Enn ofar var gígop og lá rásin upp úr henni. Þegar gengið var upp hraunið í stefnu rásarinnar fannst enn eitt opið. Frá því lá rásin til suðurs á móti honum. Hellarásirnar voru nefndar Kistuhellar, enda í Kistuhrauni.
Gengið var um slétta hraunið, rásinni fylgt ofanjarðar til norðurs og leitað að öðrum opum á leiðinni, en engin fundust. Skv. lýsingu Þrastar getur þarna varla verið um Lýðveldishellinn að ræða því í greininni er hann sagður vera í stóru jarðfalli og miklu, en á mjög svipuðum slóðum. Rétt er því, þangað til annað kemur í ljós, að nefna hellinn “Þjóðhátíðardagshellir Norðmanna” því þjóðhátíðardagur þeirra er 17 maí. Þarna var um fallegan helli að ræða.

Þjóðhátíðarhellir Norðmanna

Í Þjóðhátíðarhelli Norðmanna.

Gengið var til bak upp að Eldborginni og síðan frá henni til vesturs. Þá var komið að fallegum eldgíg. Gengið var upp á brún annars og sást þá ofan í stóran og umfangsmikinn eldgíg, nokkuð sléttan í botninn með moshól nokkurn veginn í miðju. Haldið var niður brúnina að vestanverðu og var þá komið í sléttbotna hraunrás. Síðan var nokkuð slétt hraunið fetað vestur með norðanverðu Vörðufelli með viðkomu í fallegri gígaröð. Tvær rjúpur sátu á hraunhrygg skammt norðar. Gengið var niður frá henni eftir stíg til vestnorðvesturs niður í slétt hraunið, þvert yfir djúpu rásina og að grashlíðunum, sem gengið hafi verið upp með í upphafi ferðar. Meðfram þeim var gengið aftur að bílunum.
Skv. gps-tækinu var gengið um 15 km leið. Gangan tók u.þ.b. 6 klst. Veður var ágætt – skyggð sól, en bjart.
(Lýðveldishellir fannst í næstur FERLIRsferð á svæðið, skammt norðaustan við Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna).

Lýðveldishellir

Í Lýðveldishelli.

Maístjarnan
Það var vel við hæfi að kíkja í Maístjörnuna í byrjun maímánuðar. Gengið var…… (má ekki segja því um er að ræða einn af fegurstu, en jafnframt viðkvæmustu hraunhellum landsins). Fyrst var þó komið við í Húshelli til að afhræða þátttakendur. Í HúshelliHúshellir er bæði víður og hár hellir með a.m.k. tveimur breiðum hliðarrásum og því tilfallinn til að draga hugsanlegan skrekk úr fólki áður en haldið er inn í þrengri hella á svæðinu. Á miðju gólfi hellisins er hlaðið stórt byrgi. Í annarri hliðarrásinni eru bein, sem ekki hafa verið aldursgreind, en ekki er talið ólíklegt að þar geti verið um bein úr hreindýri að ræða. Til eru gamlar sagnir um útilegumenn á Selsvöllum, “sem færðu sig norður með fjöllunum” þegar að þeim var sótt. FERLIR hefur fundið álitlegt skjól við Selsvelli, sem gæti hafa verið fyrra athvarf útilegumannanna, en ekki er óhugsandi að þeir hafi hafst um tíma við í Húshelli eða allt þar til þeir voru handteknir og færðir yfirvaldinu á Bessastöðum. A.m.k. eru miklar heillegar mannvistarleifar í hellinum. Skjólið í hellinum gæti einnig hafa verið athvarf hreindýra- og/eða rjúpnaveiðimanna fyrrum.

Þá var haldið í Maístjörnuna. Hellirinn er tvískiptur og óaðgengilegur á millum. Að þessu sinni var skriðið inn um “augað” í vestari rásinni. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir.

Maístjarnan.

Augað í Maístjörnunni.

Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”. Þar hafði verið útbúið kertasett veisluborð í tilefni 500. FERLIRsgöngunnar – lifrapylsa og hákarl. Þjóðlegra gerist það nú varla undir yfirborði jarðar. Hvernig verður dagamunurinn í tilefni af 600?
Til baka var gengið um tröllvaxið landslag. Þegar gengið var framhjá einum hraunhólnum virtist sem raulað væri inni í honum. Lagt var við hlustir og þegar betur var að gáð heyrði fleiri en einn að kveðið var lágri, en dimmri röddu: “Hóhó og hananú, Halldor ei falli. Híhí og snusnu, Solrun af stalli”. Þetta var endurtekið aftur og aftur. Hvort eða hvað þetta kann að boða verður bara að koma í ljós. (Ferðin var farin viku fyrir alþingiskosningarnar 2002).

Í göngunni fannst enn ein hlaðin refagildra, sú 24. sem vitað er um á Reykjanesi.
Gangan tók um tvær klukkustundir. Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Maístjarnan

Maístjarnan – uppdráttur ÓSÁ.