Kálffell
Veður var eins og samið hafði verið um – 10 stiga hiti og rakavænn andvari af suðri.

Nýjasel

Nýjasel.

Fyrst var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla og það skoðað. Kvengöngufólkið þótti eldhúsið tilkomumikið, enda í stærra lagi miðað við önnur svipuð, sem skoðuð hafa verið – 90×120 cm.
Þá var haldið eftir Skógfellavegi að Brandsgjá og skoðuð gjáin þar sem Brandur missti niður tvo hesta á leið sinni að Ísólfsskála. Brandur var þá að koma úr Vogum og hafði fengið sér í staupinu áður en lagt var af stað. Við brúna yfir gjána er fallega hlaðin varða.
Áfram var genginn Skógfellavegur uns beygt var út af honum til suðurs og gengið niður Mosadalagjá og haldið að Kálffelli. Skoðaðar voru hleðslur í og við fellið, litið á fjárhellinn og síðan farið ofan í Oddshelli, sem nefndur er eftir Oddi frá Grænuborg austan Voga. Oddur hélt til í hellinum og þar var hann er Ólafur Þorleifsson ætlaði að heimsækja hann á aðfangadag um aldarmótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 40 árum síðar, sitjandi á syllu.

Kálffell

Oddshellir.

FERLIRsfólkið átti góða stund í Oddshelli. Kveikt var á jólakerti, snætt var hangikjöt og því rennt niður með Malti og Appelsíni. Þá var boðið upp konfekt og því skolað niður með úrvals koníaki. Sesselja Guðmundsdóttir, sem var með í ferð og þekkir hverja þúfu á þessu svæði. Færði hún FERLIR að gjöf bók sína, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem nú er uppseld og var henni við þetta tækifæri afhent FERLIRshúfa, sem hún hafði áunnið sér fyrir þátttöku sína í FERLIRsferðum.
Þegar út var komið var ákveðið að ganga nokkra hringi um einiberjarunna, sem þar er – svona í tilefni hátíðarinnar, sem í hönd fór.
Frá Oddshelli var haldið í Nýja-Vogasel og það skoðað. Um er að ræða nokkur hús, stekk og kví. Eitt húsanna hefur verið nokkuð stór með nokkrum vistarverum. Þaðan var haldið niður í Gamla-Vogasel og það skoðað.
Þá var haldið til baka og má segja að dagsbirtan og góða veðrið hafi verið nýtt til hins ýtrasta.

Kálffell

Kálffell.

Geitafellsrétt.

Gengin var óhefðbundin leið frá Þrengslavegi að Strandarhæð. Leiðin er greiðfær og auðveld yfirferðar. Hallar undan, einkum seinni hlutann.

Selvogsheiði

Gengið um Selvogsheiði.

Byrjað var á því að ganga að Sandfelli og áfram yfir slétt mosahraunið að Geitafelli, með því að austan og sunnanverðu uns komið var að Seljavöllum. Þaðan var haldið suðvestur með Réttargjá að gömlu hlöðnu Geitafellsréttinni. Geitafellsréttin var frádráttarrétt Ölfus- og Selvogsbúa. Réttin hefur ekki verið notuð lengi, en stendur þarna heilleg og löngum einmana undir gjáarveggnum. Umhverfið er allt hið fegursta og skjólgott undir gjáarveggnum. Skömmu áður en komið var að réttinni mátti sjá gamlar hleðslur utan í hraunhól. Í Auglýsingu í Ísafold 22.09.1875, bls. 143-144 er m.a. minnst á Geitafellsréttina: „Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdæminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprætingar fjárklaðans í suðrhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjareigendr þá.. sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er úr þessu lögsagnarumdæmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfénu, fyrren það er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. þ. m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s. m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar í stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar.“

Strandarhæð

Við Gapa.

Gengið var með Merarbrekkum að slysavarnarskýlinu undir Heiðinni há og kíkt á Kjallarahelli, sem er skammt ofan við það. Ekki var gengið á Svörtubjörg og komið við Eiríksvörðu að þessu sinni (hlaðin árið 1710), en þess í stað var haldið í átt að Staðarsel (Strandarseli), fráfæruseli við efri rætur þeirra. Leiðin lá framhjá hlöðnu Selvogsréttinni norðan við Hnúkana með viðkomu í Hellholti og Hellholtshellir skoðaður, Hafri, Hruni svo og nokkrir aðrir. Áður höfðu ferðalangar áð í Selvogsréttinni þar sem gangnamenn fyrrum höfðu verið svo vinsamlegir að skilja eftir svolítið af kjarngóðum hákarli, reyktum rauðmaga og brennivíni fyrir ferðalúna vegfarendur.
Þá var haldið niður að Eimubóli (Eimustekkur er í Eimuhelli) og Vindásseli, gengið yfir Vörðufell og skoðuð hlaðna Vörðufellsréttin (hætt að nota 1924) og Markavarðan með krossmarkinu (landamerkjavarða), auk litlu smalavarðanna, sem tengjast þjóðsögunni um endurheimtur.
Á þessu svæði eru miklar og merkilegar mannvistaleifar, ekki síst í hellum og skútum. Hafa þær væntanlega tengst seljabúskapnum í heiðinni, sem hefur skilið eftir sig miklar og merkilegar minjar. Þarna er fjölmargt að skoða þótt ekki virðist það vera við fyrstu sýn, a.m.k. ekki séð neðan frá þjóðveginum.
Á leiðinni að Strandarhelli var komið við í Ólafarseli, sem liggur undir hraunkrikanum syðst í Vörðufellshrauni. Skammt austar liggur gömul þjóðleið. Loks var skoðað í Strandarhelli, Bjargarhelli og í Gaphelli (Gapstekk).
Gangan tók u.þ.b. 8 klst. Veður var frábært og björt júlínóttin gaf ferðinni skemmtilegt yfirbragð.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Vatn

Farið var með heimildarmanni að Kaldadý, sem vera átti upp af og til hliðar við hús nr. 53a við Suðurgötu. Kaldadý er merkileg fyrir það að hafa verið fyrsta neysluvatnsveita Hafnfirðinga. Hún var „virkjuð“ um 1904 og þá af einkaaðilum undir heitinu Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið lét grafa brunninn og lögðu frá honum pípur vestur eftir bænum. Hér mun hafa verið um að ræða ein fyrstu vatnsveitu á landinu, sem í ár verður aldargömul. Vatnsveita Hafnarfjarðar keypti síðan holuna er byrjað var að reyna að leiða vatn úr Kaldárbotnum og sækja vatnið í Lækjarbotna.

Eyrarhraunsbrunnur

Eyrarhraunsbrunnur.

Til langs tíma mátti sjá leifar Kaldadýar. Steypt var ferningslaga þró umhverfis hana og bárujárnsplata sett yfir. Loks var holan fyllt upp til að minnka líkur á að einhver færi sér að voða í holunni. Nú stendur bílskúrinn að Suðurgötu 53a yfir Kaldadý. Tekinn var GPS-punktur.
Fólk sótti vatn í brunnholur og jafnvel í Lækinn. Það þótti hins vegar ekki gott vatn – mórautt. Einn góður brunnur var skammt frá Selvogsgötu, sem kallaður var Góðhola. Nú er búið að steypa hús á henni.
Haldið var út að Eyrarhrauni á Mölum. Hafnarfjarðarbær er nýbúinn að kaupa húsið, sem var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, og verður það rifið næstu daga. Umhverfis eru miklir grjótgarðar. Framan við húsið er Eyrarhraunsvarðan. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engeljón Sigurjónsson er byggði húsið upphaflega. Varðan, sem stendur á hraunhól, var hlaðin af Engeljóni, en hefur nú verið klædd steinsteypu.
Genginn var brunnstígurinn að brunninum í hraunhvilft norðan við bæinn. Hann var fallega hlaðinn – um þriggja metra djúpur. Fyllt var upp í hann með grjóti svo enginn færi sér þar að voða. Mosagróið er yfir grjótið. Auðvelt væri að fjarlægja það og opinbera brunninn. Tekinn var GPS-punktur og mynd af brunnstæðinu.
Í kringum Eyrarhraun eru fallega hlaðnir garðar. Þar er og nafnlaus skúti, sem reyndist ungum uppalingum notadrjúgur fyrrum.
Nefndir voru nálægir fiskreitir, s.s. Allians reiturinn þar sem nú er nýbygging Hrafnistu (var mokað burt á einum degi fyrir skömmu). Á bakkanum voru hlaðnir garðar og eftir þeim gengu vagnar á teinum. Hefur líklega verið fögur sjón á þeim tíma.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.

Maríhellar
Kíkt var á Maríhellana í Heiðmörk. Reynar er miðhlutinn gömul fjárskjól og skiptu Urriðakot og Vífilstaðir honum með sér. Hétu þeir þá Urriðakotshellir og Vífilstaðahellir. Í sumum heimildum er talað um Vífilstaðahelli í nyrsta hellinum og Urriðakotshelli í miðhlutanum. Á seinni tímum hefur syðsti hlutinn verið nefndur Draugahellir, en tiltölulega nýlega hafa hellarnir fengið samnefnið Maríuhellar.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Miðhlutinn er oft notaður af fólki til dægrastyttinga, einkum þegar vel viðrar. Landamerki bæjanna eru á urðarhól skammt ofan við hellana.
Syðsti hellirinn er með þröngu opi, en þegar niður er komið er um rúmgóðan helli að ræða. Sver hraunsúla er í honum, sem hægt er að umhverfis og einnig afhellir.
Nyrsti hellirinn er aðgengilegur. Hann er í stóru jarðfalli, en þegar inn er komið tekur við nokkuð rúmgóð og löng hraunrás með mold í gólfi.
Allt um kring vaka steinrunnin tröll yfir munnunum.
Maríuhellar eru ágætt dæmi um hversu illa hægt er að leika hella ef of margir hafa aðgang að þeim. Þeir hafa greinilega liðið fyrir nálægðina. Ef einhvern tímann hefur verið falleg hraunmyndun í einhverjum þeirra þá eru hún horfin núna. Sama gildir og um aðra hella í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Auðvelt er að eyðileggja nokkurra þúsund ára steinmyndanir á skömmum tíma. Jafnan hendir fólk miklu drasli af sér í hellana, en þeir hafa þó verið hreinsaðir af og til. Þegar þetta er ritað var umgengnin með besta móti.
Mikilvægt er að fólk, sem vill sækja hella heim, fari varlega og gæti þess að skemma ekki verðmæti, sem í þeim eru. Það á reyndar við um allt annað – allstaðar – alltaf.
Frábært veður.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Geirfugl
FERLIRsfélagar voru á leið í Sandgerði og áttu stutt eftir ófarið þegar maður má segja hljóp í veg fyrir bíl þeirra. Maðurinn baðaði út öllum öngum og virtist hrópa: „Hann er ekki dauður. Hann er ekki dauður“. Allir önduðu léttar.
Maðurinn benti áleiðis niður í fjöru. Stigið var út og maðurinn eltur. Þar staðnæmdist hann og benti á eitthvað sem virtist fugl. „Sjáið“, sagði hann og benti af enn meiri ákveðni. Myndavél var brugðið á loft og smellt af, en við það virtist fuglinn taka viðbragð og hvarf sjónum áhorfenda. Skv. síðustu rannsóknum eru fuglar taldir heyra 200 sinnum betur en menn. Mun það m.a. hjálpa þeim að rata langar leiðir. Eldey er hins vegar ekki svo langt frá Sandgerði.

Geirfugl

Geirfuglinn í Sandgerðisfjöru.

„Nei“, það getur ekki verið, sagði hver ofan í annan. Síðasti geirfuglinn var drepinn í júní árið 1844 í Eldey. Síðan hefur hvorki sést slíkur fugl hér við land né annars staðar. Nema kannski sá uppstoppaði, sem keyptur var dýrum dómi (9.000 sterlingspund) til landsins frá Englandi árið 1971.
Geirfuglinn var um 75 cm á hæð á meðan hann var og lifði. Þessi var stór, a.m.k. 75 cm. Hann átti að vera frændi álkunnar. Þessi var mjög álkulegur á að líta.
Ákveðið var að koma við í Fræðasetrinu og bera málið undir Reyni Sveinsson, sem fylgist vel með öllu.
Reynir sagðist aðspurður ekki alveg getað neitað því að hafa heyrt menn, sem höfðu það eftir öðrum, einkum upp á síðkastið, að þeir hefðu talið sig hafa séð geirfugl við Sandgerði, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð neinn slíkan. Nú myndi hann hins vegar gefa því mun betri gaum en áður því gaman væri að berja fuglinn augum ef hann væri þarna einhver staðar.
Og hver segir að eitthvað sé alveg útdautt þótt það hafi ekki sést um langan tíma. Ekki er alveg útilokað að einhver heppinn, sem á leið um fjörur Sandgerðis á næstunni berji eitthvað augum, sem ekki hefur sést um alllangt skeið. Og óþarfi er að drepa hann til að gera hann aðgengilegri.

Geirfugl

Geirfugl – teikning.

Annars er hin opinbera saga geirfuglsins eftirfarandi:
Geirfuglinn (Pinguinus impennis) var ákaflega algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars undan ströndum Íslands, Færeyja og Grænlands, á nyrstu eyjum Bretlandseyja og við Noreg og Kanada. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl, en ekki er þó alveg ljóst hve stór stofninn var hér við land.
Upp úr 1800 fór heldur betur að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Aðallega voru það sjómenn sem veiddu hann á löngum veiðiferðum sínum á þessum slóðum enda var geirfuglinn stór og kjötmikill og auðveldur viðureignar enda ófleygur. Geirfuglinn var einnig veiddur vegna fjaðranna sem voru notaðar í fatnað.
Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni Alcae eða svartfuglaætt. Ýmsar aðrar tegundir í þessari ætt eru algengar hér á landi í fuglabjörgum allt í kringum landið eins og álka (Alca torda), langvía (Uria aalga), stuttnefja (Uria lomvia) og lundi (Fratercula arctica).
Ofveiði er sem fyrr segir meginástæða þess að geirfuglinn dó út en síðustu tveir fuglarnir voru veiddir í Eldey þann 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn, Sigurður Ísleifsson, Ketill Ketilsson og Jón Brandsson, voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danska náttúrugripasafnarann Carl Siemsen. Þeir Jón Brandsson og Sigurður Ísleifsson fundu fljótt sinn fuglinn hvor og drápu en Ketill kom til baka tómhentur enda voru þá síðustu tveir geirfuglarnir fallnir í valinn og þar með lokið sögu þessara mörgæsa norðurhafanna. Sorgarsagan um örlög geirfuglsins staðfestir það að stjórnlausar veiðar geta þurrkað út tegundir á mjög skömmum tíma.

En nú virðist ekki öll von úti ef marka má nýlegar sagnir úr Sandgerði.

Geirfugl

Geirfugl á Reykjanesi.

 

Þórshöfn

Gengið var að Hunangshellunni er tengist þjóðsögunni um finngálknið (Rauðskinna) og viðureign mannanna við það. Á hellunni, sem er orðin nokkuð gróin, er vörðubrot. Ekki langt frá því lá alllangt etinn fugl (ekki ólíklegt að það geti verið eftir finngálknið forðum).
Hafnagötunni gömlu var fylgt spölkorn til norðurs, en stefnan síðan tekin óhikað til norðvesturs, yfir móana, framhjá nokkrum vörðum og að áberandi vörðu ofan Djúpavogs. Ef spara á langan útidúr er nauðsynlegt að taka mið af henni því annars þarf að krækja fyrir nefndan Djúpavog, sem er alllangur.

Hunangshella

Hunangshella.

Við Djúpavog eru tóftir, brunnur, gerði o.fl., líkt og út á Selshellunni skammt sunnar. Einnig er tóft efst á austurbakkanum á móts við miðjan voginn. Gengið var upp eftir voginum og gömlu götunni fylgt, Ósabotnagötunni (Kaupstaðaleiðinni). Stafnesselið hefur skv. heimildum verið sagt týnt, en FERLIR gekk samt sem áður hiklaust fram á það. Tóftirnar eru á grónu barði á efstu hæð, líkt og títt var um selstöður fyrrum.
Kaupstaðaleiðin er falleg vagngata á melhálsi upp af Djúpavogi, en gamla þjóðleiðin liggur sunnar, að Gamla-Kirkjuvogi. Enn önnur leið, greinilega minn farin, liggur frá Djúpavogstóftunum og rétt ofan við strönina að Gamla-Kirkjuvogi. Þar á leiðinni er slétt flöt og gerði. Liggur veggur þess út í sjó, en land mun hafa sigið þarna verulega á umliðnum öldum (nokkra millimetra á ári skv. mælingum).
Gamli-Kirkjuvogur er sagður vera mjög gamall, forveri bæjanna handan Ósa. Sumir segja það þar hafi verið landnámsjörð. Sjá má þar tóftir, garða, gerði o.fl. og virðast þær allar mjög komnar við aldur. Mörg dæmi eru um að leiðsögumenn hafi farið um þetta svæði og kynnt Djúpavogsminjarnar sem Gamla-Kirkjuvog. Um hefur verið að ræða útræði og ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst gamla býlinu með einhverjum hætti.

 Ósar

Steinhjartað í Ósum.


Gengið var yfir að Þórsmörk, en Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld. Á leiðinni þangað var gengið fram á merkilegt náttúrfyrirbæri. Í einni klöppinni var rauðleit hola og var líkt og hún gréti. Fyrirbærið var nefnt steinhjarta. Vatnið í henni gæti verið allra meina bót. Við Þórshöfn er m.a. letrað á klappir, m.a. HP (Hallgrímur Pétursson?). Þar fyrir utan kom timburflutningaskipið Jamestown upp áður fyrr, mannlaust, en fullhlaðið timbri. Segja má að flest merkilegri hús á Reykjanesskaganum og jafnvel víðar hafi verið byggð úr því timbri. (Sjá meira HÉR). Sum standa enn.
Gengið var yfir melholtin vestan Þórshafnar, framhjá Básendum og yfir að Stafnesi með viðkomu í Gálgum.
Rösk ganga með milliliðalausa sjávaranganinnöndun svo til alla leiðina. Gangan tók 3 klst og 2 mín. Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Selvogur
Gengið var um Selvog í sól og blíðu. Kristófer kirkjuvörður kom þar að akandi á sínum öndvegis jeppa með kerru við annan mann. Báðir bullsveitir. Vel lá á Fera og var hann að vonum glaður á sjá hópinn, sem að mestu var skipaður „orginal“ Hafnarbúum.

Selvogur

Selvogs-Jói með grafstein úr Neskirkjugarði.

Kristófer var spurður almæltra tíðinda og við hvað hann hafi verið að dunda í Voginum. „Ég var að gera kirkjugarð“, svaraði hann. Kristófer sagði að hann teldi að steinninn sem FERLIR fann eftir leit (sjá sögnina af legsteinunum þremur og hvarfi eins þeirra) s.l. sumar væri ekki sá sem hann hefði fundið um árið þegar framkvæmdirnar voru við útihúsin. Þennan stein hefði hann ekki séð áður. Steininn sem hann fann á sínum tíma og týndi aftur hefði verið rúmlega lófastór og þess vegna hafi hann talið að sá hefði verið á leiði barns er hafi líklega dáið í „svartadauða“.
Farið var að bátsflakinu (Vörður) austan við Nessvita (Selvogsvita) og vitinn síðan skoðaður sem og og gamla vitastæðið á klöppunum.
Þegar komið var að Nesi sást að á sléttri flöt rétt vestan við rústirnar af hlöðunni hafði verið afgirt svæði með staurum og vírneti, nokkra metrar á hvorn veg. Garðurinn hafði verið borinn fínni möl og hlaðnir fjörusteinar í kring. Í suðvesturhorninu á garðinum lá á mölinni steinn með krossmarki. Þarna var kominn steininn sem FERLIR fann s.l. sumar (sjá mynd) og er hann eini legsteinninn sem þar er sýnilegur í dag. Enn vantar litla legsteininn, sem Kristófer fann um árið, en týndist aftur. Hinir tveir, er fundust, eru á minjasafninu á Selfossi.
Gengið var í 2 klst og 17 mín.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Eldvörp

Gengið var um norðurhluta Eldvarpa. Þessi hluti er allstórbrotinn, fallegir gígar og hyldjúpir svelgir. Teknir voru GPS-punktar á fjórum þeirra, en ekki reyndist unnt að komast niður í tvo til viðbótar vegna þess hver djúpir þeir voru. Í einum þeirra (sjá myndina) er falleg rás, en band þarf til að komast niður.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Sá fyrsti var 15 metra langur. Á honum voru þrjú op og reyndist hægt að komast niður í hann um nyrsta opið. Annar var um 15 metrar, bogadreginn. Þriðji var litskrúðug hola niður á við er endaði í sal. Litskrúðugir kleprar voru í lofti. Fjórði var með inngang í fallegu gígopi.
Svæðið er eins og ostur. Ekki er að sjá að margir hafi stigið þar niður fæti. Þunnt hraunið brotnar auðveldlega undan fótum og hætta er á að stíga niður úr mosaþakinni skelinni. Landið er stórbrotið og býður upp á óvænta sýn við hvern gíg, hæð eða bugðu.
Í einum gíganna er víð rás. Hún lokaðist að hluta, en með lagni var hægt að komast úr henni inn í ókleifan gíg. Rásin var nefnd Tvígígahellir.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Gengið var yfir slétt mosahraun, eftir gamalli götu, sem farið er að gróa yfir og inn í stóra og breiða hrauntröð austan við gíg milli Lágafells og Þórðarfells. Tröðin virðist enda í krika eftir 90° beygju, en mjó tröð er þaðan inn í tröð nær gígnum, hærri og fallegri. Í tröðinni er m.a. stórt fallegt skjól. Gengið var um gíginn og upp á hann að norðanverðu. Milli hans og Þórðarfells var op, sem leitað var að eftir lýsingu BH. Gekk vel að finna það. Innan þess reyndist vera um 90 metra langur hellir, um 10-15 metra breiður á köflum, en ganga varð hálfboginn um hann að mestu. Sandur var í botni.
Á bakaleiðinni var gengið inn á gamla götu austan Árnastígs og kom hún inn á hann norðan Eldvarpa. Við gatnamótin er varða.
Árnastígurinn var síðan genginn að upphafsstað.
Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: “ Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.“
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti. Gangan tók 4 klst og 11 mínútur.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Þorlákshöfn

Þegar ekið var að Þorlákshöfn tóku íbúar vel á móti FERLIRsþátttakendum. Fornbílum hafði verið stillt upp við bæjarmörkin, öllum boðið þar í sæti og síðan ekið sem leið lá austur að Ölfusárósum – endamörkum FERLIRssvæðisins á Reykjanesskaganum.

Latur

FERLIRsfélagar á Lat.

Brimaldan lamdi sendna ströndina, en þó ljúfmannlega að þessu sinni. Eftir að góða innöndun sjávarangansins var ekið í inn í bæinn þar sem fjölmennur flokkur fólks á óráðnum aldri beið göngufólksins.
Sagnir herma, að þarna hafi áður staðið bærinn Elliðahöfn, en bóndinn hafi eitt sinn heitið á Þorlák biskup að breyta nafni jarðarinnar þegar hann og áhöfn hans lentu í sjávarháska. Eftir undraverða björgun breytti hann hafninu í Þorlákshöfn. Kirkja heilags Þorláks stóð þar í katólskum sið og þar var öldum saman kunn verstöð.
Undir leiðsögn heimamanna var gengið austur með þorpinu (sem reyndar er orðið að myndarlegum thorlakshofn-39bæ) þar sem gömlu Þorlákshafnarhúsin voru, en var rutt um koll illu heilli vegna hafnarframkvæmda og nýmóðins fiskverkunarhúsa, sem fæstum þykja ásýnileg. Raktar voru sögu og sagnir tengdar hafnarsvæðinu. Gengið var til baka mót vestri hafnarmegin, að – Hraunverbúðunum hinum gömlu. Sést þar móta fyrir tóftum og Þorlákshafnarbrunninum. Gengið var að Ingimundarbyrgi – hól með minjum – og hið mörgum eftirminnilega tún barið augum. Á þeim bletti unnu lítt undirbúnir Þorlákshafnarbúar frækilegan sigur á KR-ingum á sjötta áratugnum. KR-ingunum var vorkunn því þeir höfðu ekki áður spilað á velli alsettum hæðum og hólum og þar sem hallaði undan í allar áttir. Áttavilltir töpuðu þeir leiknum, eins og áður sagði, og þóttust bara sleppa vel frá þeirri raun.
thorlakshofn-39Gengið var að hákarlabyrgi skammt vestar. Þar bar vel í veiði því enn mátti finna þar lykt og leifar af hákarli og brennivíni frá kaupmanninum í Þorlákshöfn – gamalt orðið – en sumum fannst það bara betra þannig.
Haldið var niður fjöruklappir og að Lat. Deilt hefur löngum verið um hvort Latur væri horfinn eður ei. Átti hann að vera stórt bjarg upp á rönd (gömul ljósmynd) í fjörukambinum. FERLIRsþátttakendum fannst ástæðulaust að draga úr þeim skemmtilegu deilum, enda þótt Latur sé nú vel merktur, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hafði hann fallið yfir sig til að auðvelda fjöldamyndatökur.
Gengið var vestur Hafnarberg, framhjá fyrrum sorplosunarstað
Hafnarbúa og síðan áfram vestur Háaberg að Hlein. Þyrsklingsnef bar fyrir sjónir á göngunni – gat í bergið. Segir sagan að menn er réru fyrsta sinni hafi þeir, er komið var á móts við nefið, að sýna hvers kyns þeir væru – með brókarniðurgangi.
Hlein er klettagjá þar sem smáfuglar verpa, auk þess sem gjáin var áður kjörinn staður fyrir ungt fólk er stinga vildi saman nefnjum. Eldra yngra fólkið í ferðinni kunni eflaust sögur af veru sinni á Hlein, en vildi ekki opinbera það – a.m.k. ekki að þessu sinni. Þess í stað var rifjuð upp saga af franskri skútu, sem strandaði þar utan við og „stríð“ um strandgóssið hlaust af milli Frakka og Hafnarbúa. Hafnarbúar komust um borð í skútuna undir berginu þegar Frakkar sendu menn úr öðrum nálægum skútum til að reyna að komast aftur upp í hana, en heimamenn hrundu þeirri „árás“, enda þá þegar búnir að slá eign sinni á „rekann“.
thorlakshofn-40Í sagnastundinni var borið fram kaffi og mikið af meðlæti á dúkaðar klappir – allsnægtir af öllu. Örlæti Þorlákshafnabúa og gestrisni verður seint lýst af verðleikum. Reyndar var tekin mynd við Hlein, en á henni sést einungis matur.
Sögð var sagan af því er kvennabósi einn barnaði stúlku í Hlein. Hafði það þann eftirmála að barnið fæddist í Nesi í Selvogi og er eftirminnileg vísa tengt atburðinum. Hún verðu ekki rakin hér, enda verið gert annars staðar. FERLIR endurtekur yfirleitt ekki skráðar heimildir – eltir þær hins vegar einungis uppi og reynir að sannreyna.
Í ferðunum rifjast oft margt upp meðal fróðra. Í þessari ferð var m.a. rifjað upp að kjölfestathorlakshofn-41n (ca. 10 steinar) af danska herskipinu Giöteborg, er standaði á Hraunskeiði árið 1718, væri svo til við dyrnar á Egilsbraut 9 í Þorlákshöfn (þar sem aldnir verða ungir), án þess svo sem að fólkið þar tæki sérstaklega eftir því. Giötheborg var stærsta herskip danska flotans á þeim tíma. Fylgdi það dönskum kaupskipum hingað til lands þeim til varnar. Um 190 manna áhöfn lét úr höfn í þeim guðveiginsbæ Hafnarfirði 15. nóv. þetta árið, en ferðin endaði sem fyrr sagði á Hraunskeiði utan við Þorlákshöfn. Eftir það rak skipið á land. Um 170 mönnum af herskipinu var bjargað og er það talin mesta mannbjörg í sjóskaða á Íslandi fyrr og síðar. Skipverjum var komið á ýmsa bæi um nágrannasveitir. Árið eftir (1719) voru skipverjar sendir utan, en um það leyti urðu ýmsar heimasætur á bæjum þeim, sem skipverjar höfðu dvalið, miklu mun léttari. Hefur danskt blóð jafnan einkennt margan sveitamanninninn þar síðan. A.m.k. hefur Gammel dansk oftlega verið þar í hávegum hafður – þegar hann hefur fengist.
Ljóst er að Þorlákshafnarbúar er miklir höfðingjar heim að sækja.
Veðrið stórkostlegt – lygnt og bjart. Elstu menn (og konur reyndar líka þótt þær sú nú meira inni við) höfðu á orði að slíkt dásemdisveður hafi varla komið áður á svæðinu og þykir það þó með þeim veðursælli á gjörvöllu landinu.
Stórkostlegur dagur með stórkostlegu fólki.
Sjá meira um Þorlákshöfn HÉR.

Þorlákshöfn

Gengið um Þorlákshöfn og nágrenni.

 

Hólmsborg

Þrátt fyrir dimmviðri lék sólin við Reykjanesbrautina. Ákveðið hafði verið að fara í skoðunarferð um borginar sex sem og nokkra aðra staði við brautina. Byrjað var á því að skoða Vatnaborgina sunnan brautarinnar skammt vestan Kúagerðis. Borgin er á grashól örskammt frá veginum og sést vel. Norðan borgarinnar er hið fallegasta vatnsstæði. Borgin ber þó fremur nafn sitt af bænum Vatnsleysu en vatnsstæðinu, enda í Vatnsleysulandi.

Skjolgardur

Stóri skjólgarður.

Næst var staðnæmst við Stóra-Skjólgarð sunnan við Innri-Njarðvík, sunnan Reykjanesbrautar. Um er að erð ræða mikinn hlaðinn skjólgarð á hól skammt frá brautinni. Hann hefur veitt fé skjól fyrir vondum veðrum úr öllum áttum. „Garðinn hlóð Helgi Jónsson sterki, er var húsmaður Þorkels lögrm. Jónssonar, föður Jóns Thorkilli. – Skv. frás. Guðm. A. Finnbogasonar.“ Skv. því hefur garðurinn verið hlaðinn um 1650. Skipsstígurinn á milli Narðvíkur og Grindavíkur, liggur skammt vestan við hólinn. Þá var haldið að Róasaseli vestan Rósaselsvatna og það skoðað. Selið er greinilega mjög gamalt. Við þar er hlaðinn stekkur, fremur lítill. Litið var á borg skammt vestan þjóðvegarins að Garði. Borgin er á litlum hól og er fremur lítið af fjárborg að vera. Hún er greinilega mjög gömul, enda engar sagnir til um tilvist hennar. Hún er hvergi til á kortum, hvorki gömlum né nýjum. Staldrað var við Keflavíkurborgina, sem er á holti ofan við Grófina. Um er að ræða mjög gamla hlaðna fjárborg. Inn í hana hefur einhvern tímann verið hlaðinn garður og er líklegt að fé hafi verið gefið í borginni. Eins og flestir vita voru ekki til fjárhús á þeim tíma, heldur komu hlaðnar borgir og fjárhellar (fjárskjól/fjárbyrgi) í þeirra stað. Sérstök hús fyrir fé komu löngu síðar( á 20. öldinni).

Árnaborg

Árnaborg.

Haldið var að Hólmsborginni á Hólmsbergi (Berghólum). Um er að ræða mjög fallega fjárborg, að mestu hlaðna úr torfi og grjóti. Út frá henni til suðurs er garður, en inni í henni miðri er stallur. Hafa ber í huga að fornum fjárborgum var breytt í tímans rás, allt eftir þörfum hverju sinni. Þannig urðu sumar borgir að stekkjum, sbr. Þórustaðaborgin, og til eru dæmi um að borgir hafi þróast í réttir, sbr. Auðnaborgin. Sunnan Hólmsborgar er gerði eða rétt, en austan hvorutveggja liggur gamla þjóðleiðin á milli Keflavíkur og Útskála. Loks var haldið að Árnarétt við viðkomu við Hríshólavöru, einni fallegustu fjárborginni á Reykjanesi. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt. Álaborgin syðri er ofan Bæjarskerja. Hún er einnig forn rétt og stendur enn að mestu heil. Í bakaleiðinni var skoðuð gömul fjárborg sunnan vegarins að Leifsstöð. Rétt mótar fyrir hringnum innan um leifar hernaðarmannvirka Bretans. Gaman að sjá hvernir hin gamla arfleið hefur lifað hernaðarbröltið vegna þess hversu ómeðvituð þau hafa verið þeim er þar komu að.
Góður dagur. Og hið skemmtilega var að flestir í hópnum, sem ekið hafa margoft þessa leið, höfðu aldrei tekið eftir þessum merku mannvirkjum – sem eru einungis nokkra metra frá einni fjölförnustu þjóðleið nútímans.

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.