Herdísarvík

Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg skrifar um “Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi” á seinni hluta 19. aldar í Sunnudagsblað Alþýðublaðsins árið 1939:

Einar Þorsteinnson“Ég, Einar Þorsteinsson, er fæddur 8. desember 1870 í Móakoti hjá Hjalla í Ölfusi. Faðir minn var Þorsteinn Teitsson, sonur Teits Helgasonar hafnsögumanns á Eyrarbakka, er bjó í Einarshöfn. Móðir mín var Guðlaug Hannesdóttir frá Hjalla. Faðir hennar, Hannes Guðmundsson, var lengi bóndi á Hjalla og víðar í Ölfusi. Er ég var 6 ára að aldri var ég tekinn til uppfósturs af Ólafi Jóhannessyni og Ragnhildi Ísleifsdóttur, sem þá bjuggu á Mosastöðum í Kaldaðanesshverfi. Þegar ég var 16 ára, fluttu fósturforeldrar mínir að, Hreiðurborg í Kaldaðarnesshverfi — og bjuggu þar frá því.
Veturinn 1887 var farið að tala um, að ég færi eitthvað á vertíðinni, til að læra sjóstörf, og ná í einhvern afla. Var þá leitað til föður míns, hvort hann myndi ekki geta komið mér fyrir á sama skipi og hann réri á, og var talað um hálfdrætti. — Þá voru mikið notuð handfæri í Herdísarvík, en þar réri faðir minn. Þetta gekk vel, ég fékk að vera í skjóli föður míns, sem kallað er. Skyldi ég hafa helming af því sem ég drægi á færi og svo hálfan hlut — þegar fiskað var á línu (lóð).
Svo leið að vertíð. Þá fór ég til föður míns, en hann bjó þá í Hraunshól hjá Hrauni í Ölfusi. Það var áður búið að fara með útgerð mína, skrínu með kæfu og smjöri. Það var væn kind í kæfu og 2—3 fjórðungar af smjöri og hangikjöt. Svo voru skinnklæði, brók og skinnstakkur, og hey í poka á bálkinn, í rúmstæðið — og ekki má gleyma harðfiskinum, sem hafður var líka.
Eins og fyrr segir, fór ég til föður míns, og gengum við svo til Herdísarvíkur, beint út sanda og hraun til Vogsósa. Stönzuðum þar, og svo áfram til Herdísarvíkur. Formaður okkar var Þorkell Jónsson vinnumaður hjá Árna Gíslasyni fyrrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu, sem þá bjó í Krýsuvík. Árni átti skipið og tvö önnur, sem gengu þarna á vertíðinni. Formenn fyrir þeim hétu Einar frá Nýjabæ og Guðmundur, sem kallaður var ráðsmaður. Þessa vertíð voru þarna 6 skip. Árni átti 3. Bjarni Hannesson bjó þá í Herdísarvík, bróðir Guðmundar, sem lengi var í Tungu í Flóa. Hann átti víst 2 skip — eða þeir mágar í félagi, Björn Eyjólfsson og Bjarni. Björn Eyjólfsson var bróðir Sólveigar konu Bjarna. Þau systkini voru börn Eyjólfs frá Þorlákshöfn — Björnssonar frá Þúfu í Ölfusi. En móðir þeirra var Sigríður Jónsdóttir, Geirmundarsonar, þess sem getur um í Kambránssögu. Sjötta skipið var með að mig minnir Sæmundur Ingimundarson frá Stakkarvík, og held ég að Bjarni hafi átt það. Flest af þessum skipum hafði víst smíðað Björn Eyjólfsson. Hann var smiður mikill bæði á járn og tré. Var til þess tekið, hvað hann var mikilvirkur og vandvirkur, alltaf var hann í smiðjunni, þegar landlegur voru á vertíðinni. Meira um Björn segir síðar.
Nú var ég kominn í útver og leið vel. Ekki gaf nú strax á sjó, og hafði ég lítið að gjöra, enn faðir minn var ekki iðjulaus. Hann var alltaf að smíða ýms búsáhöld, fötur, bala, tunnur o.m.fl. Hann var smiður með afbrigðum, smíðar voru hans aðalatvinna — nema um sláttinn var hann oftast við heyvinnu.

Herddísarvík

Herdísarvík – vörin.

Nú byrjuðu róðrar, og man ég vel eftir fyrsta róðrinum. Það var gott sjóveður og verið með færi. Ég hafði aldrei á sjó komið fyrr, en ég kunni áralagið, hafði lært það á Ölfusá. Það var tregur fiskur — og dró ég einn fisk. Ekki var ég sjóveikur, hefi enda aldrei til sjóveiki fundið. Svo lagaðist með dráttinn. ég dró töluvert, þó dálítið misjafnt. Stundum dró ég hlutinn, það er að segja eins og þeir fengu í hlut, stundum minna.
Einu sinni dró ég 40 fiska. Þá fékk skipið 24 í hlut. Voru þá teknir af mér 16 fiskar. Það stóð svoleiðis á skiptum — og hafði ég þá jafnan hlut og hinir. Það kom mikið undir því hvernig stóð á skiptum, hvað formaður tók mikið af mér, stundum tók hann lítið, stundum meir en helming. Svo var farið að fiska með línu, þá fékk ég hálfan hlut. Línan var stutt, 2 bjóð með 6 strengjum, 60. faðma löngum í hvoru bjóði, og ein og hálf alin á milli króka.
Þegar fiskirí var, þá stóð þétt á línunni á löngum kafla, oft á hverju járni. Línan var dregin í austurrúmi og dregin hægt. Þá lét formaður mig vera með færið mitt aftur í skut, og þar dró ég oft töluvert þó ferð væri á skipinu. Náttúrulega var drift á færinu líkt og á seglskipi, sem liggur á fiskiríi, tökum t.d. kútter. Þegar komið var inn á legu, skammt undan lendingunni, var stanzað og farið að seila, og var andæft þar meðan seilað var. Svo var seilunin hnýtt saman og þeim síðan hnýtt í 60 faðma langt kaðaltó, sem kallað var hlaupató. Tóið var undið í hnykil, sem látinn var velta í skutnum, og skyldi bitamaður gæta þess, að ekki stæði við eða tefði fyrir tóinu að rekjast fljótt, og eins að gæta að því að hnykillinn færi ekki upp úr skutnum. Ef brim var, þá var beðið eftir lagi, og kallaði formaður lagið og sagði: — Róið nú vel, piltar! Svo var róið hart upp í fjöru, og stökk hver út við sinn keip og skipinu kippt upp þangað til því var borgið fyrir eða bjargað frá sjó. Síðan voru seilarnar dregnar upp. Svo ef róið var aftur, fóru sumir að beita þessi tvö bjóð, en hinir að bera upp fiskinn, og þurfti stundum að ná úr honum beitu, því að beitt var gotu (hrognum).

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Fiskurinn var borinn upp á byrðarólum. Það var dregið af seilarólinni á byrðarólina, og svo lyfti vanalega annar upp á axlir hins. Var svo hringur af fiski allt í kring, bæði bak og fyrir. Fiskurinn var borinn á skiptavöll og skipt þar í köst, sem kallað var, tveir hlutir saman í kasti. Vanalega skipti formaður. Þarna á skiptavellinum var gert að, hausað og flatt. Fiskurinn svo borinn inn á tún og lagður þar í kös, raðað þétt hverjum við annan. Svo löngu seinna borinn upp fyrir tún og lagður þar á grjótgarða í hrauninu til herzlu. Mest af fiskinum var hert þessa vertíð, eitthvað víst saltað af skipshlutunum. Ekki man ég hvaða verð var á fiski þessa vertíð eða vorið eftir, en 2 eða 3 árum seinna var verðið á harðfiski 160 krónur skippundið (160 kíló).
Allt var hirt, hausar hertir, hrogn söltuð, svil söltuð, sundmagi og kútmagi saltað. Sundmaginn svo verkaður á vorin og lagður inn í verzlanir, en stundum fluttur heim og étinn. Allt hitt raskið notað til heimilis uppi í sveitunum, og töluvert flutt oft heim af harðfiskinum. Það má ekki gleyma að skýra frá því, að alltaf var lesin sjóferðabæn. Og fyrstu vertíðina, sem ég reri í útveri, var lesin föstuhugvekja og lesnir Passíusálmar, ekki sungnir. Það var sama þótt seint væri komið til búðar að kveldi, þá var það ekki vanrækt. Það er nú lítið að segja meira frá þessari vertíð, sem ég var fyrst í Herdísarvík.
Veturinn 1888 fór ég ekkert til sjós, varð að vera heima af því að fóstri minn réðist til Eyrarbakka til aðgerðar á fiski á vertíðinni, svo ég varð að vera heima við skepnuhirðingu, svokallaðar gegningar.
Veturinn 1889 reri ég í Selvogi hjá gömlum manni, sem Guðni Ásmundsson hét. Hann átti heima í Austurnesi í Voginum. Frá þeirri vertíð er lítið að segja. Það fiskaðist lítið vegna ógæfta, því að brimasamt er í Selvogi þegar sunnanátt er, og þessa vertíð hamlaði veðurátta sjógæftum og afla. Þá bjó í Nesi í Selvogi Guðmundur Ólafsson, þá orðinn gamall maður, faðir Þorbjarnar, sem bjó í Nesi eftir föður sinn. Þorbjörn reri í Þorlákshöfn margar vertíðir og var þar formaður. Um hann gerði Brynjólfur frá Minna-Núpi þessa formannsvísu:

Sjóbúð

Sjóbúð í Þorlákshöfn 1910.

Þreytir halur þorskveiði,
Þorbjörn alinn Guðmundi
Nes- frá -sal í Selvogi,
sá er talinn hraustmenni.
Þegar ég reri í Nesi í Selvogi, bjó í Ertu rétt fyrir norðan Nes Húnbjörg Hannesdóttir móðursystir mín. Nikulás sonur hennar var þá formaður með skip, sem þau áttu. Hjá henni var líka annar sonur hennar, sem Símon hét, og þriðja son átti hún, sem Þórður hét og bjó þá í Torfabæ í Selvogi. Þessir fyrverandi bræður voru synir Erlendar Símonarsonar, sem átti heima í Torfabæ, en Húnbjörg og Erlendur voru þá skilin að samvistum. Þarna kynntist ég frændfólki mínu og réði mig hjá Nikulási næstu vertíð. Þá um vorið 1889 flutti Húnbjörg með sonum sínum, Nikulási og Símoni, að Hlíð í Selvogi. Hlíð er uppi við fjallið við norðausturhorn Hlíðarvatns, en er nú komin í eyði fyrir löngu. Þá flutti líka Nikulás skipið út til Herdísarvíkur og reri því þaðan. þangað til það fórst, sem síðar segir.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Svo kemur vertíðin 1890. — Það var oftast kominn þorri þegar ég flutti færur mínar úteftir; reiddi ég á hesti og var eina nótt og tvo daga í ferðinni. Þegar ís var á Ölfusá, mátti fara alveg beina leið að sjá fyrir sunnan Selvogsheiði, sem maður segir sjónhending frá Hreiðurborg, annars varð að fara yfir ána í Óseyrarnesi. Svo fór ég aftur alfarinn föstudaginn síðastan í þorra, og það var farið að róa í fyrstu viku góu, ef gæftir voru.
Nú er að segja frá sjóbúðinni, sem Nikulás byggði. Hún var úr snyddu og grjóti veggir og gaflar, svo timburþak með spón yzt, svo hún lak ekki í rigningum, en hún var mjög köld þegar frost voru, sem oft var á þessum árum. Viðvíkjandi kuldanum í búðinni get ég sagt sögu, sem þykir ótrúleg nú á tímum. Í landlegum þegar var norðanrok og gaddar, rokið svo mikið, að ekki var viðlit að fara á sjó, þá var það eina vertíð að það kom fyrir að við fórum fjórir upp í eitt rúmið og breiddum ofan á okkur upp að mitti teppi og það, sem til var, og sátum svo réttbeinis með loðhúfur á höfði og máske líka vöttu á höndum og spiluðum svo á spil. Svo þegar okkur varð of kalt, fórum við að hita okkur á því að fara í tusk, fyrst inni, svo kannske úti í glímu og tusk, og þegar við vorum búnir að fá í okkur hita, þá var farið að spila aftur. Það var engin búð eins köld og þessi, því hinar voru allar með snyddu- eða torfþökum. Það var ekki verið að hafa ofna í svona húsum í þá daga. Kaffið var hitað á olíuvél og hún hitaði nú heldur lítið. Sumar búðir höfðu smiðjukofa til að hita í rétt við búðina. Í þessari búð var ég í 5 vertíðir. Ekki man ég hvenær það var, sem kaldast var. Það hefir verið á árunum milli 1890—94.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

— Þessa vertíð, sem frostin voru mest, voru aðallega notuð færi við fiskirí, að minnsta kosti í Herdísarvík og Selvogi. Það var mikið fiskirí í Herdísarvík í eina viku, það voru þrí- og fjórhlaðin skipin á dag. Ég man það alveg víst, að Nikulás fékk einn daginn í þeirri viku 120 í hlut í 12 eða 13 staða skipti. Þó voru sumir hærri, mig minnir að Björn Eyjólfsson fengi þann dag 140 til hlutar. Þetta stóð eina viku. Við fengum í þeirri viku um 600 til hlutar, og það varð lítið meira. Mig minnir að við fengjum tæp 7 hundruð hlutar alla vertíðina. — Fiskurinn var mjög feitur, svo að það urðu vandræði með ílát undir lifrina, því að svoleiðis hagaði til, að útgerðarmaður átti að útvega hlutaflamönnum kagga eða tunnu undir lifrina. Það komu kaggar austan úr Ölfusi, og svo var lifur látin í þvottakör, en úr svoleiðis ílátum rann lýsið og fór mikið til spillis. Frostið var svo mikið, að við naumast gátum náð innan úr fiskinum, drifum svo mikið af honum í fönn óflöttum, þangað til seinna. — Þessa miklu fiskiviku var það eitt kvöld, að við vorum að gera að fiski, og ég var að bera í slorskrínu á bakinu eitthvert rask. Það var band í báðum göflum, og var því smeygt á aðra öxlina, en það var dimmt orðið og ósléttur vegur, svo ég datt og rak niður aðra hendina og meiddi mig mikið á þumalfingri, sintognaði og leið illa um nóttina og gat ekki róið morguninn eftir, og þótti mér heldur dauflegt einum í búðinni. Ekki tapaði ég hlutnum, þeir gáfu mér hlut.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Morguninn eftir fór ég með á sjóinn, og var haft til styrktar hendinni, svokallað róðrarbelti, og var ég í andófi, því að ég gat ekki dregið fisk. Veður var gott, hér um bil logn, svo að það var lítið andóf. Fiskur var nógur, svo að þeir fylltu skipið á stuttum tíma. Síðan var róið til lands. Sjór var svo ládauður, að ekki var nokkur hreyfing við land, svokölluð ládeyða. Nú gat ég ekki seilað, svo að ég var látinn halda skipinu meðan seilað var (þegar svona ládeyða var, var ekki seilað úti á legu eins og fyr segir). Í þetta sinn var um stórstraumsfjöru, og voru stórir steinar þar úti, sem ekki sást á, svo að skipið tók niðri og vildi standa, svo að ég fór að færa mig dýpra, en gætti ekki nógu vel að mér, og fór sjór upp fyrir brókina; en það var óþægilegt, því að frost var mikið.
Þegar búið var að seila, hellti ég úr brókinni og fór út aftur í annan róður. Það var sama fiskiríið og frekar fljótt verið að hlaða skipið, en mér varð töluvert kalt svona votum. Þegar komið var til lands aftur, hafði ég orð á því við formanninn, að bezt væri að ég yrði eftir í landi með manninum, sem bar upp fyrri farminn, því að þá hitnaði mér og allt hefði beztu endalok. Og það varð úr, að ég varð eftir og fór að bera upp og lyfti félagi minn á mig byrðunum, en hann lyfti sjálfur á sig, því að hann var heilhentur. Ég fór þrjár ferðir í brókinni, þá var mér farið að hitna og fór svo úr henni, en var í skinnstakknum. Þetta hafði góðan enda, mér varð ekkert meint við, en svona lagað þyrfti ég ekki að bjóða mér nú á dögum. Við vorum margir vel upp aldir á þeim dögum ungu mennninir og klæddir hlýjum íslenzkum ullarfötum, sem við hjálpuðum til að vinna sjálfir, að minnsta kosti margir. Oftast yar ég búinn að sitja í vefstól frá því á jólaföstu og þar til ég fór í útver, og svo var um fleiri, sem ég þekkti. Svo reri ég daglega eftir þetta meðan gæftir héldust, en eins og ég hefi áður sagt, stóð mesta fiskiríið eina viku eða vel það.
Svo er ekki meira markvert að segja af þessari vertíð, það gekk allt sinn vanagang, vertíðarnar voru flestar líkar hver annarri. Það var oftast nóg að gera seinni partinn þegar fisklaust var orðið við að herða og hagræða harðfiskinum.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Um þessar mundir verður vart breytinga í Herdísarvík. Bjarni Hannesson deyr, sem var þaf bóndi- og formaður lengi. Þá bætist við skip frá Hjálmholti í Flóa. Formaður á því var Sveinbjörn Ólafsson frá Hjálmholti, og annað úr Selvogi, formaður Guðmundur Sigurðsson. Auk þessara tveggja voru þar þá formenn: Guðmundur Jónsson, sem kenndur var við Hlíð í Selvogi, ættaður frá Keldum á Rangárvöllum, bjó tæp 40 ár í Nýja-bæ við Krýsuvík. Kona hans er Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík. Búa nú í Hafnarfirði. 4. formaður Jóhann Níelsson, 5. Nikulás Erlendsson, 6. Björn Eyjólfsson, 7. Ingimundur Jónsson.

Herdísarvík

Herdísarvík. Gamli bærinn framar.

Nú er næsta vertíð eftir frostavertíðina. Þá var byrjað með handfæri, og skyldi nú fiska með sama lagi og síðast liðna vertíð, en það brást. Það var verið með færi nokkra daga og fiskaðist lítið sem ekkert. Svo er það einn dag, að allir eru á sjó og ekkert fékkst — 2—3 í hlut. En svo er það rétt fyrir hádegi þenna dag, að eitt skipið tekur sig upp og fer í land, mig minnir það væri Guðmundur Jónsson. Hann fór í land til að reyna að beita línu með slógi og hrognum úr þessum fiskum, sem þeir drógu á færin. Hann rær svo aftur og leggur línuna, en það kom heldur skriður á hina, þegar þeir sáu að fiskur kom á hverju járni þegar hann fór að draga línuna. Það ruku “allir” í land og beittu línu og reru út aftur og fengu hleðslu. Svo stóð hlaðfiski meðan gaf, ég man ekki hvað það voru margir dagar. Nú var fiskurinn lifrarminni og rýrari en vertíðina næstu á undan, en það mun hafa náðst líkt fiskatal, og segir svo ekki meira af þessari vertíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þá ætla ég að segja dálítið frá vertíðinni 1895. Þá var ég með Birni Eyjólfssyni, það var síðasta vertíðin, sem ég reri í Herdísarvík og sú sjöunda. Björn hafði alltaf verið þar hæstur með hlut. Nú var hann orðinn heilsulaus, en það var samt betra að hafa hann með á sjóinn. Einu sinni gat hann ekki farið með okkur á sjó í 3 daga, og var þá einn hásetinn formaður, en þá daga gekk ekki vel að fiska. Svo hresstist Björn aftur og tók við formennsku, en hann kom eftir þetta alltaf ríðandi á hesti til skips heiman frá bænum, en verbúðirnar voru skammt frá þar, sem skipin stóðu. Svo hjálpuðum við honum eða réttara sagt létum hann upp í skipið á þurru áður en við settum á flot, svo stýrði hann og sagði fyrir og réði sjóferðinni. Það fiskaðist töluvert þessa vertíð framan af á vanalegum miðum, og um miðjan marz var frekar gott fiskirí.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Svo kom 16. marz, sá eftirminnilegi dagur. Gott veður um morguninn og enda allan daginn. Allir réru. Svo komu skipin að nokkuð snemma; ég man ekki hvað klukkan var. Björn kom með þeim fyrstu og um sama leyti önnur skip. Það var seilað og lítið staðið við í landi. Björn hafðði það lag, að láta okkur vera til skiptis í landi, að bera upp fiskinn, og þennan dag var komið að mér, og skyldi ég bera upp og annar með mér, og svo gerðu hinir líka; þeir skildu eftir menn í landi. Þegar við rérum í land, var komin töluvert þykk alda í sjóinn. Um sama leyti og þessi 5 skip voru að fara, komu þau tvö, sem eftir voru, og þau fóru ekki út aftur, því það brimaði svo fljótt, að það varð ófært að heita mátti á svipstundu. Þennan dag nauðlentu í Þorlákshöfn um 60 róðrarskip af Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum. Þar var þá hvergi lendandi fyrir brimi. Selvogsskipin lentu við illan leik í Selvognum. Barst þar einu skipi á í lendingunni, og drukknaði einn maður. Það var eina manntjónið, sem af brimi þessu hlauzt, og þótti það sérstakt lán, að það varð ekki meira, eins og á stóð þá.
Formenn á skipunum, sem landi náðu þennan dag, voru Guðmundur Jónsson og Ingimundur Jónsson, en skipin átti Sólveig Eyjólfsdóttir, sem þá bjó ekkja í Herdísarvík. Þegar hin skipin 5, sem úti voru, leituðu lands, var komið stórveltubrim, svo að þau lögðu öll frá, settu upp segl og sigldu til hafs.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Það sáust nokkrar franskar skonnortur úti fyrir, og skipin héldu til þeirra. Tvær voru næstar, og komu skipin fyrst öll að annarri, og Frakkar fóru að taka á móti þeim, en Björn sá, að þarna yrði þröngt fyrir skip og menn, og þó verst fyrir skipin, svona mörg aftan í einu stórskipi, og fór í annað, sem var skammt frá. Þar var þeim vel tekið og skipið sett aftan í skonnortuna.
Skipið, sem Björn komst í hélt sér við á seglum um nóttina og sigldi svo með róðrarskipið austur og inn á leið þar til komið var hér um bil móts við Herdísarvík, þá var brimið lægt, og leiðin fær inn, og Björn lenti heilu og höldnu fyrir hádegi. Skonnortan, sem hafði fjögur skipin, sigldi vestur fyrir Reykjanes og missti tvö skip aftan úr sér undan Grindavík og hin tvö í Reykjanesröst. Skilaði svo af sér öllum mönnunum í Höfnunum, og komu þeir gangandi til Herdísarvíkur eftir nokkra daga. Þetta var mikið tjón fyrir þá, sem áttu skipin, sem töpuðust. Það voru fengin lánuð eða leigð skip austur á Eyrarbakka og flutt til Herdísarvíkur, svo hægt væri að halda áfram róðrum.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Skipin töpuðust ekki öll. Þau, sem slitnuðu aftan úr skonnortunni undan Grindavík, sáust þaðan, þegar birti af degi, og Grindvíkingar sóttu þau, og voru þau óskemmd. Annað var skip Nikulásar Erlendssonar; það keyptu Grindvíkingar. Hitt var skip Guðmundar Sigurðssonar og var flutt til Herdísarvíkur aftur. Hin tvö klofnuðu í Reykjanesröst, Hjálmholtsskipið og Krýsuvíkurskipið, Þorlákshafnar og Selvogs. Nú fóru skipin úr Herdísarvík að róa austur á Forir; en þá var ekki hægt að fara nema einn róður á dag; en þá var línan beht á sjó, ef ekki fékkst nóg í skipið í kastinu. Svona langan veg var ekki hægt að fara, nema gott sjóveður væri. Það var svo langt og erfitt, ef norðaustan vindur var, að komast þangað austur eftir, því að oftast er þarna með suðurströndinni einstreymis vesturfall eða straumur. Við fengum þarna töluverðan afla.
— Alltaf var Birni heldur að versna, en þó var hann formaður okkar vertíðina út. Það var dæmafátt, að svona veikur maður færi á sjó dag eftir dag. Það mátti segja um hann, að þar væri verið að til hinztu stundar. Hann lézt 3. júní um vorið, og mun banamein hans hafa verið krabbamein. Björn Eyjólfsson hafði verið sjósóknari mikill um sína daga. Var lengi formaður í Þorlákshöfn, í Vogum við Faxar flóa, og síðast í Herdísarvík, þar sem hann hvíldist eftir vel unnið starf. Hann var líka skipasmiður og hafði smíðað fjölda róðrarskipa, stór og smá. Svo þegar ekki var trésmíði, þá var hann í smiðju við járnsmíði, og þar mátti sjá röskleg og lagleg handtök, á meðan hann hafði heilsu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Með svona mönnum eins og Birni, höfðu verið margir dugnaðarsjómenn, frá því að hann byrjaði sjómennsku á unglingsárum til þess síðasta. Það hefir verið mikils virði í peningalegu tilliti, sem Björn flutti í land á sinni löngu formannstíð, náttúrlega með hjálp háseta sinna; — en það er ekki sama, hver ræður á sjó.
Ég ætla að greina hér frá atviki, sem sýnir sjósókn Björns nokkrum vertíðum áður en síðast segir frá. Þá réri hann einskipa; hinum þótti ekki fært, og var víst ekki álitlegt. Þá réri ég hjá Nikulási. Björn réri þessa vertíð tvisvar einskipa, og í báðum róðrum fiskaði hann veL Í annað skiptið brimaði meðan hann var úti, og það var mikið brim þegar hann fór. Þegar sást til hans koma, þá skinnklæddu sig allar skipshafnir, sem í landi voru, til þess að taka á móti honum. Þegar hann sá fólkið í fjörunni, hleypti hann upp á hæsta sjó, og skipið var tekið með öllu saman, fiski og mönnum, og drifið upp, svo brimið næði því ekki. Svo var stanzað og farið að tala við karlana, og allir voru glaðir og kátir yfir að allt skyldi fara vel. Við sem í landi vorum, urðum hálfsmeikir um skip og menn í svona miklu brimi.
Það var oft mikið um hval á þessum árum. Man ég þó sérstaklega eftir einni vertíð, sem óvenjulega mikið var af honum. Sáum við þá stundum stórar vöður af hval skammt þar frá, sem við lágum við færin. Þá var það stundum, ef fiskur var tregur, að Björn Eyjólfsson tók sig upp og kippti rétt að hvalagerinu og dró þar nógan fisk.

Herdísarvík

Herdísarvík – kort ÓSÁ.

Ég réri hjá Nikulási, þegar þetta var, en honum var hálfilla við að vera nærri stórfiskavöðum og notaði ekki þessa aðferð, og það gerðu held ég ekki aðrir en Björn.
Ekki var Björn aðgerðarlaus þegar legið var yfir fiski. Færi hans var alltaf úti, og hann dró manna mest á skipi sínu. Einu sinni var talað um, að hann myndi hafa dregið nærri því helminginn af fiski þeim sem á skip kom, en þá fékk hann 20 í hlut. Þetta hefir kannske ekki verið bókstaflega rétt, en það sýndi hvaða álit haft var á dugnaði hans. Einu sinni síðustu vertíðina, sem hann lifði, 1895, var sótt austur í Forir eins og fyrr er ritað. Það var einn laugardagsmorgun norðaustan stormur, og var að sjá sandrok austur á sandi fyrir neðan Selvogsheiði, svo það þýddi ekki að leggja á stað austur í Forir, svo þeir fóru út í leirinn, skammt út fyrir sundið um morguninn, allir nema Björn af því að laugardagur var til að afbleyta línuna. Svo klukkan 10 fyrir hádegi voru þeir komnir aftur. En rétt umsama leyti sást ekkert sandrok austur á sandi, því þá var að lægja vindinn. Rétt í þessum svifum kemur þá félagi okkar inn í búðina og segir að Björn sé að koma ríðandi ofan eftir frá bænum.
Björn hafði þá séð að veður fór batnandi, enda verið að bíða eftir því. Svo var lagt á stað og gekk vel. Við fengum bezta veður og vorum víst 12— 13 tíma í túrnum gg lentum í myrkti um kvöldið. Svo á sunnudaginn fórum við að slægja og fletja fiskinn. Svona túrar þóttu góðir í þá daga. —Við sjómenn í Herdísarvik, sem áttum heima í Ölfusi og Flóa, fórum vanalega heim einu sinni á vertíð, og helzt um bænadagana eða páskana. Það var eina vertíð (þá reri ég hjá Nikulási) að við fórum nokkuð margir á miðvikudaginn fyrir skírdag, því að þá var ekki sjóveður. Það þekktist ekki í þá daga að róið væri á helgum dögum, þó var nú brugðið út af því í þetta sinn, því þegar við komum til Herdísarvíkur um kvöldið á föstudaginn langa, þá voru þeir að gera að fiski, sem ekki fóru heim, þeir höfðu sameinað sig og róið þremur skipum og fiskað töluvert. Við gátum lítið sagt við þessu, þó þótti okkur þetta atvik leiðinlegt, og töluvert undarlegt, af því að þetta var alveg nýtt fyrirbrigði, að róa á helgum degi.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Svo kemur atvik fyrir haustið eftir, sem lyfti undir þjóðtrúna, eða þessa vanalegu trú fólksins í þá daga, og sem máske er til enn. Það sem vildi til haustið eftir var það að tvö af þessum skipum, sem róið var á föstudaginn langa, fuku og brotnuðu. Skipin voru höfð í veggjahárri rétt og bundin niður á hvolfi, tog í þeirri rétt voru hin skipin líka en þau sakaði ekki. Í Herdísarvík er mikið hvassviðri, þegar hann er hánorðan, þá stendur veðrið af fjallinu, og eru þá feikna sviptir, sem allt rifa upp sem ekki er reglulega gengið frá.

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð framundan.

Þegar vetrarvertið var úti, fóru oft margir okkar til Faxaflóa, til að róa þar á vorvertíðinni. Við lögðum af stað 10.—11. maí með pjönkur okkar á bakinu. Fórum upp svokallað Mosaskarð, og svo beina línu yfir Lönguhlíðarfjall, og niður Kerlingarskarð, og fyrir vestan Helgafell, um Vífilstaði til Reykjavíkur. Þetta var 7—8 tíma gangur ef gott færi var en um þetta leyti árs var oft ófærð á fjallinu. — Þá var ekki atvinnuleysi, ég held að orðið atvinnuleysi hafi ekki verið til, og ekki einu sinni í Reykjavík, enda var Reykjavík ekki stór bær þá.
Nú eru vertíðarhugleiðingar mínar frá Herdísarvík að þrotum komnar. Eftir þetta réri ég á Eyrarbakka, og fór svo til austfjarða laust eftir aldamótin, og segir ekki af því í þetta sinn, og víst aldrei, nema þetta: að ég var þá 24 ára að aldri til 55 ára alltaf á sjó mikið til af árinu, á ýmsum förum og fleytum, róðraskipum, kútterum, vélbátum, fiskveiðaskipinu Súlunni samfleytt í 9 mánuði. Og fyrir innan 24 ára aldur á vetrar- og vorvertíðum við róðra á áraskipum eins og fyr er ritað. Þessum fyrnefndu árum var ég 16 úthöld, sumar og haust formaður hjá Konráði Hjálmarssyni í Mjóafirði. Ef ég færi að skrifa um öll þessi ár, allt miðbik ævinar yrði það stór bók, sem sagt heil ævisaga. Ég er ekki fær til þess – og kemur því ekki til mála.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Að lokum ætla ég að gjöra svolítinn útúrdúr og segja frá refaveiðum. Vorið 1894 var ég vormaður í Herdísarvík. Fór ekki þaðan um lokin. Var við fiskverkun og smalamennsku, en svo þurfti líka að veiða refi alveg eins og þorsk, því refir eru slæðir í sauðfé. Það fannst refagreni í Herdisarvíkurlandi um vorið. Þá bjó á Vogsósum Þórður Eyjólfsson, ættaður frá Grímslæk í Ölfusi, síðar kenndur við Vindheima. Hann var refaskytta í Selvogshreppi. Þórður var látinn vita af gneninu, og svo fór hann tilbúinn til að liggja við það. Ábúandi í Herdísarvík átti að láta mann með skyttunni, svo ég var látinn fara með nesti og nýja skó. Grenið var uppi í Lönguhlíðarfjalli í norðaustur af Geitahlíð. Þegar við komum að greninu, sá Þórður fljótt hvar aðaldyrnar voru, sem refahjónin gengu helzt um. Svo fundum við okkur stað í leyni, en sáum þó til dyranna. Þegar við vorum búnir að liggja þarna eins hálfan tíma, kom refurinn út úr greninu og Þórður hleypti af byssunni og rebbi steinlá. Stór og mikill grár refur. Svo lágum við áfram, í tvö dægur, og sáum aldrei læðuna eða heyrðum í henni. Svo fórum við heim, og Þórður fór til Vogsósa, svo kom hann aftur eftir tvo daga. Þá sagði hann að bezt væri að nesta sig vel, því nú bjóst hann við að verða lengi, 5—7 dægur, því að nú skyldi til skarar skriða við grenlæðuna. Við fórum með dýraboga og yrðling, sem Þórður hafði veitt á öðru greni, og skyldi kvelja hann til þess að narra læðuna að. Svo var hann með línu, öngla og hrátt kjöt til að beita fyrir yrðlingana, sem enn voru í greninu. Þegar við vorum búnir að liggja og sitja langan tíma heyrðum við læðuna gagga og orga langt frá. Þórður sagði, að hún hefði ekki að greninu komið síðan refurinn var skotinn, og væri nú júgrið farið að harðna. Hann sagði mér að kvelja yrðlinginn, sem við vorum með, það þótti mér leitt verk. Svo fórum við að veiða yrðlingana, sem inni voru í greninu, og náðum 5, enn ekki sást læðan enn, við heyrðum oft í henni, og heldur var hún að færa sig nær.
Þarna lágum við í fimm dægur í seinna sinnið. Var nú Þórði farin að þykja löng biðin. Lítið var sofið, við reyndum þó að sofna til skiftis. Þegar langt var liðið á fimmta dægur segir Þórður við mig, að ég skuli liggja kyr, og láta lítið bera á mér. Hann kvaðst ætla að ganga í kring og vita hvað hann sjái. Svo ligg ég nokkuð langan tíma, þangað til ég heyri skot, svo ligg ég enn litla stund, þá kemur Þórður með læðuna dauða. Hann hafði þá mætt henni á bak við stóran klett og var þá ekki lengi að miða á hana, og hún lá. Nú var Þórður búinn að vinna grenið, 2 dýr og 5 hvolpa. Svo var haldið heim.”

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 40. tbl. 05.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinnson frá Hreiðuborg, bls. 4-5 og 8.
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 41. tbl. 08.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Viðurkenndar prófgráður hafa jafnan verið metnar til verðleika þegar sótt er um störf.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í ótal nefndum og formaður nokkurra.
Sú “prófgráða”, sem þó hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn “útskrifaður” frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls – HH.

Auk viðurkenninganna fengu hlutaðeigendur laun fyrir vinnuframlag sitt. Jafnan þurfti sérhver að vinna hálfan dag á launum. Vinnuframlag hvers og eins var metið frá degi til dags, allt frá 25 aurum til einnar krónu. Verðbólgan lék Vinnuskólann illa, líkt og aðra slíka vinnustaði. Á síðasta ári Vinnuskólans voru hæstu daglaunin 5. kr.
Eftir hádegismat var farið í gönguferðir um nágrennið, landlagið metið og útskýrt. Ratleikir eða aðrir slíkir voru um helgar. Þá var hópnum gjarnan skipt upp í hópa, sem hver og einn fékk það verkefni að stefna að ákveðnu marki. Oftar en ekki kom til átaka milli hópanna. Sérhver fékk “lífteygju” á upphandlegg – ef hún varð slitin var viðkomandi úr leik.
Kofar voru byggðir í gilinu við Hettulækinn, sundlaug grafin sunnan Bleikhóls og silungsveiðar stundaðar í Kleifarvatni, gengið upp að Arnarvatni á Sveifluhálsi eða inn að Víti í Kálfadölum.
Einhverja daga, virka sem og um helgar, þurfti hver og einn að aðstoða í eldhúsi; skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Þar voru daglaunin best. Boðið var upp á morgunmat (hafragraut og mjólk), hádegismat (bjúgur, fiskibollur o.s.frv.), kvöldmat (sem ég man nú ekki hver var) og kvöldkaffi. Miðdegiskaffið (mjólk á glerflösku og brauðsneið) tókum við jafnan með okkur í gönguferðirnar um nágrennið.
Aukreitis þurfti sérhver að búa um sitt rúm, skúra herbergisgólf og ganga, þvo sinn þvott, hengja upp og strauja hann síðan með rúmfjölunum, sem fólust undir rúmdýnunni.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Í fríum var leikið með tindáta í gólfskotstöðu á grámáluðu steingólfinu, lesið, spilað á mylluleik eða þátt tekin í úthugsuðum íþróttaviðburðum, s.s. fótboltamótum á milli herbergjanna, 1-5. Allan tímann voru foreldranir víðs fjarri.
Að kvöldi dags var kvöldvaka; kvikmyndasýning. Þá var setið með krosslagða fætur í röð á kjallaraganginum og horft á “Síðasta móhikanann” eða einhverja aðra spennandi dásemd. Í framhaldinu var kvöldkaffi; kakó og kex. Áður en gengið var til náða var farið sameiginlega með “faðir vorið”.
Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar og skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum. Má þar t.d. nefna Helga Jónasson, Hauk Helgason, Ólaf Proppe, Hörð Zóphaníesson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson o.fl.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962 er grein um Vinnuskólan í Krýsuvík undir fyrirsögninni “Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar”:

Unglingavinnan

Grein um Vinnuskólann í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962.

“Undir forystu Álþýðuflokksins stofnaði bærinn sumarvinnuskóla í Krýsuvík fyrir 10 árum. Forstöðumaður vinnuskólans er Haukur Helgason, skólastjóri Öldutúnsskólans, og hefur hann unnið þar mjög gott starf ungum borgurum þessa bæjarfélags til heilla. Þar eru drengir bæði látnir vinna og leika sér. Þeir læra ýmis hagnýt vinnubrögð, eru undir góðum aga og er kennt að meta gildi vinnunnar. Þeim er einnig veitt tilsögn í leikjum, svo sem knattspyrnu. Drengirnir eru á aldrinum 8—12 ára. Þá er ótalin sú þjónusta, sem þetta er fyrir heimilin, sú hvíld, sem mæðurnar njóta á meðan synir þeirra eru við holl störf upp í Krýsuvík. Ekki má gleyma því heldur, hve drengirnir hafa miklu betra af því að vera við vinnu og leiki í Krýsuvík, en að vera að leika sér allan liðlangan daginn í göturykinu.
Vinnuskólinn var stofnaður fyrir 10 árum. Hafnarfjörður var fyrsta íslenzka bæjarfélagið, sem hóf rekstur vinnuskóla í þessari mynd, en síðan hafa fleiri bæjarfélög fylgt fordæmi Hafnarfjarðar.
Aðsókn að vinnuskólanum hefur verið mjög góð, og hafa færri drengir komizt en viljað hafa. Fyrir 3 árum voru 80 drengir í vinnuskólanum, en nú síðastliðið sumar 120.
Þess má geta, að í stærsta kaupstað landsins, Reykjavík, þar sem íhaldið hefur haft meirihluta í bæjarstjórn um tugi ára, mun engan vinnuskóla vera að finna hliðstæðan vinnuskólanum í Krýsuvík. En ætti Reykjavík að standa hlutfallslega jafnt Hafnarfirði í þessum málum, þyrfti hún að reka um 1200 barna vinnuskóla. Hamar hefur skiljanlega okki frætt Hafnfirðinga um þetta.
Vegna þess, hve vinnuskóli fyrir drengi hefur reynzt vel, hefur Alþýðuflokkurinn ákveðið, að láta einnig hefja rekstur vinnuskóla fyrir stúlkur nú á næsta kjörtímabili, fái hann umboð frá kjósendum til að stjórna bænum.”

Krýsuvík

Drengir við leik í Vinnuskólanum í Krýsuvík. – HH.

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður vegna ómerkilegra þrætur stjórnmálamanna bæjarins, einkum að hálfu sjálfstæðismanna, og tilkomu nýrrar heilbrigðisreglugerðar af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er Hörður Zóp.

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug….

Sjá meira um Vinnuskólann  HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Knarrarneskirkja

Mánudaginn 21. október 2013 birtist stutt frétt á vf.is:
Vill reisa kirkju að Minna Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Birgir Þórarinsson guðfræðingur og fv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur sent umhverfis-og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga umsókn um byggingarleyfi fyrir kirkju að Minna-Knarrarnesi samkvæmt aðaluppdráttum Óla Jóhanns Ásmundssonar arkitekts.
Umhverfis- og skipulagsnefnd álítur að byggingin samræmist aðalskipulagi en að liggja þurfi fyrir samþykkt deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag og skipulagslög og skipulagsreglugerð svo unnt sé að veita byggingarleyfi.”

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 birtist eftirfarandi stuttfrétt í sama miðli:
Kirkja verður byggð að Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Bæjarráð Voga hefur samþykkt erindi Birgis Þórarinssonar um byggingu 40 fermetra kirkju að Minna-Knarrarnesi. Með bréfi þann 12. febrúar sl. óskar Birgir eftir því að jafnframt að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni.
Loks kemur fram að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.”

Þegar langt var liðið á lokafrágang byggingarinnar var stefnt að vígslu Knarrarneskirkju sunnudaginn, þann 8. ágúst 2021:
“Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Draumur að rætast með kirkjunni.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Altaristöfluna gerði úrkraínski listaðurinn Andrii Kolalenko.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Knarrarneskirkja

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson (t.h.)  við Knarrarneskirkju.

Knarrarneskirkja var vígð framangreindan dag
“Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.

Knarrarneskirkja

Karl Sigurbjörnsson, biskup, annaðist vígslu Knarrarneskirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis í þurrabúðinni Vík þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð á Vatnsleysuströndinni.

Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna, en hefur eflaust fengið góðar ráðleggingar frá eiginkonunni – og allt handverk ber aðkomandi iðnaðar- og handverksmönnum gott vitni um hagleik og alúð.

Knarraneskirkja – Kirkjuvígsla 8. ágúst 2021 – upplýsingabæklingur:

Knarrarneskirkja

Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Til beggja handa má þekkja andlit, bæði úr fortíð og nútíð. Altarið er náttúrlegur steinn úr Flekkuvíkurfjöru.

“Altari Knarrarneskirkju er óhöggvinn fjörusteinn úr Flekkuvíkurfjöru sem hvílir á traustum tréfótum sem Ólafur Sigurjónsson smíðaði.
Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Undir mynd hans eru táknmyndir lands og þjóðar. Á vængnum til beggja handa eru fimm ættliðir. Á hægri vængnum má sjá Þórarinn Einarsson, útvegsbónda í sjóklæðum og feðgana Þórarinn Brynjólfsson, Birgi Þórarinsson og Hjalta, yngsta son Birgis. Á vinstri væng er margrét Þórarinsdóttir fyrrum húsfreyja í Knarrarnesi og við hlið hennar Anna Rut Sverrisdóttir núverandi húsfreyja. Þær klæðast báðar íslenskum búningum með gömlu Skálholtskirkju í bakgrunni. Minnir það á íslenska menningu, kirkjusögu og lífshætti fyrri alda. Náttúran birtist okkur í himninum, norðurljósunum, hálendinu, Snæfellsjökli, ölduróti hafsins, bæjartjörninni með lífríki vatnsins og íslenskum jurtum umhverfis.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – prédikunarstóllinn.

Prédikunarstóllinn gerði Mykhalio Kozyr úkraínskur útskurðarmeistari. Hann er eftirgerð prédikunarstóls sem Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson lét gera 1594. Stóllinn er á Þjóðminjasafni en var áður í kirkjuni á Fagranesi í Skagafirði og þar áður í Hóladómkirkju. Á spjöldum eru myndir málaðar af Andrii Kovalenko sem sýna guðspjallamennina Jóhannes, Mattheus, Lúkas og Pétur postula sem heldur á lyklum himnaríkis.
Á norðurhlið kirkjunnar er útskorin Kristsmynd, endurgerð af róðukrossinum frá Upsum, sem er ein elsta Kristsmynd á Íslandi, frá því á 11. öld. verkið gerði Mykhalio Kozyr útskurðarmeistari.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – heilagur Nikulás, helgimynd eftir listamanninn Andrii Kovalenko.

Á suðurhlið er helgimynd eftir Andrii Kovalenko og sýnir heilugan Nikulás, sem forðum var verndari sjómanna og sæfarenda. Margar kirkjur við strendur landsins voru helgaðar honum til forna. Myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.
Kaleikur og patína er gjöf Karls biskups Sigurbjörnssonar til kirkjunnar. Gripina gerði Ólöf Erla Bjarnadóttir, leirlistakona, í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum árið 2000.”

Heimildir:
-https://www.vf.is/frettir/vill-reisa-kirkju-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/frettir/kirkja-verdur-byggd-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/mannlif/vigsla-knarrarneskirkju-a-vatnleysustrond
-https://www.vf.is/mannlif/knarrarneskirkja-var-vigd-um-helgina
-Bæklingur með vígsluathöfn Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021.
-Birgir Þórarinsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Hluti altarsistöflunnar. Hún endurspeglar íslenska menningu, náttúru og fólk í samspili við trú og kærleika.

Skátar

Í Foringjanum 1968, blaði skáta, er frétt “Frá Hafnarfirði” um skátaskálann við Hvaleyrarvatn, Skátalund, eftir Eirík Jóhannesson:
“Frá St. Georgsgildinu hérna í Hafnarfirði er það helzt að frétta, að við héldum árshátíðina okkar um síðustu helgi, ásamt Hjálparsveitinni eins og undanfarin ár. Það sýnir að góð samvinna og vinátta er þar ríkjandi. Þarna munu vera allt að 150 eldri skátar, sem að nokkru leyti starfa saman að hugðarefnum sínum. 30. apríl sl. héldum við í Gildinu aðalfund, en þá um leið voru teknir fimm nýir félagar inn í Gildið, við hátíðlega athöfn. Að því loknu var spiluð félagsvist af miklu fjöri, en á milli þessara atriða var sungið mikið að vanda.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo sem lög mæla fyrir fór fram stjórnarkjör á fundinum og hlutu þessir kosningu: Gildismeistari: Eiríkur Jóhannesson. Varagildismeistari: Frú Ásthildur Magnúsdóttir. Gjaldkeri: Svavar Jóhannesson. Ritari: Kristinn Sigurðsson og meðstjórnandi: Frú Sigurlaug Jónsdóttir.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson.

Í vor sem leið, strax og vegir urðu færir, var hafizt handa að vinna við skálann við Hvaleyrarvatn. Hann hafði ennþá ekki fengið nafn eða hlotið vígslu, en nú var að því stefnt að slíkt gæti farið fram snemma á þessu sumri.
Í allan fyrravetur og fram á sumar var skálinn mikið notaður af skátum þæði frá Hafnarfirði og nágrenni. Okkur er það mikið gleðiefni að skátar vilja leggja leið sína þangað um helgar, og einnig í sambandi við sveitarútilegur á flötunum þar í kring. Einnig finnst bæði ljósálfa- og ylfingaforingjum hentugt að hafa þar áningarstað í dagsferðum.

Að vetrinum, þegar vatnið er ísi lagt, og snjór þekur jörð, má sjá bæði yngri og eldri skáta iðka þar vetraríþróttir af kappi.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo að ég segi ykkur meira um okkar ágæta skála, þá var hann hátíðlega vígður þriðjudaginn 25. júní, að viðstöddum drjúgum hóp gildisfélaga og velunnurum gildisins, og má þar nefna Axel Kristjánsson forstjóra, og fulltrúa B.Í.S. Franch Michelsen, samstarfsmann okkar. Að lokinni þessari hátíðlegu vígslu, þar sem skálinn fékk nafnið: „Skátalundur”, héldu gildiskonur öllum viðstöddum veglega veizlu, sem var þeim góðu konum til mikils sóma.
Til gamans má geta þess, að fleiri komu en boðnir voru, því meðan notið var góðgjörða, kom fönguleg dilkær með tveimur fallegum lömbum og kíkti inn til okkar, öllum til sannrar ánægju.
Að lokinni þessari ágætu veizlu var farið í leiki, sungið og skemmt sér lengi kvölds, unz haldið var heim í hinu fegursta sumarveðri.
Ég læt hér staðar numið, en ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar allra félaganna í St. Georgsgildi Hafnarfjarðar, að senda ykkur, kæru gildisfélagar út um land, okkar beztu gildiskveðjur ásamt ósk um gott vetrarstarf. – Hafnarfirði, 22/11 ’68 / Eiríkur Jóhannesson.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson í miðið; fæddur 9. september 1900 – dáinn 12. desember 1983.
“Við skátarnir í Hafnarfirði munum hann Eirík. Hann var svo snar þáttur í hafnfirsku skátastarfi, einn af hinum traustu hornsteinum sem félagsbragurinn og félagsandinn í Hraunbúum hvíldi á og mun gera enn um langa framtíð. Ljósálfum og ylfingum var hann uppspretta skátaanda og skyldurækni. Skátunum var hann félagi og vinur, alltaf viðbúinn að vekja gleði og góðvild, hlýja hugsun, söng og líf. Hjálparsveitinni var hann tákn hins trausta og trúa skáta, sem aldrei gleymdi kjarna og lífsviðhorfi skátahreyfingarinnar, — brautryðjandans sem ávallt var reiðubúinn að hjálpa öðrum, miðla öðrum og leggja sig fram um að vera alltaf og ævinlega viðbúinn, að bregðast fljótt og vel við hverjum þeim vanda sem að höndum bæri. Þannig var hann sjálfur bæði hreinn og heilsteyptur í orðum og öllum verkum allt til hinsta dags, vakandi og sívinnandi að öllu sem miðaði að meira manngildi, drengskap og dug.  
Við munum hann Eirík með gítarinn við eldinn, syngjandi skátasöngva, stundum að kenna okkur nýjan skátasöng, sem hann hafði búið til. Við munum góðlátlegu gamansemina hans, glettið blik í auga, hlýja handtakið og orð hans við kulnaðar glæður varðeldsins, til þess sögð að efla skátaandann, hjálpsemina, réttsýnina, tilfinninguna fyrir landi okkar, náttúrufegurð þess, gögnum og gæðum og til þess að vekja lotningu og trú á honum sem öllu ræður og allt þetta hefur skapað. Og við munum hann Eirík á vormótunum í Krýsuvík, á skátamótum hérlendis og erlendis, útdeilandi kakói og góðu skapi, hlédrægur og allt að því feimnislegur,
en þó svo nálægur og hlýr.
Já, þessir dagar, þeir koma í huga [mér enn,
já, þessa daga, þá muna fullorðnir [menn.
Sem skátar og vinir við eigum margt yndilegt minningasafn,” sagði Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi á Akureyri í einum sinna skátasöngva. Þetta á svo víða vel við og kemur í hugann nú þegar við Hraunbúar kveðjum Eirík Jóhannesson hinstu kveðju. Með honum er genginn góður drengur, en eftir lifir minningin um ómetanlegan félaga, vin og mannræktarmann.
Nú eru komin leiðarlok. Eiríkur er farinn heim. 
Með skátakveðju.” – F.h. Skátafélagsins Hraunbúar og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði – Hörður Zóphaníasson.

Heimild:
-Foringinn, 5.-9. tbl. 01.12.1068, Frá Hafnarfirði – Skátaskáli við Hvaleyrarvatn, Eiríkur Jóhannesson, bls. IX.

Hvaleyrarvatn

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson, skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri, og eiginkona hans, Else Sörensen Bárðarson, létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.

Rögnvaldur R. Bárðarson

Rögnvaldur R. Bárðarson.

Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.

Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.

Else Sörensen Bárðarson

Else Sörensen Bárðarson.

Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011 þegar um 30 sjálfboðaliðar mættu kl. 10.00 að morgni og plöntuðu stálpuðum trjám fram til kl. 14.00 um daginni. Að gróðursetningunni lokinni þáðu sjálfboðaliðarnir kaffi og meðlæti í Selinu í Höfðaskógi. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þessvegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Næstu sumur verður haldið áfram að planta út fjölbreyttum trjágróðri í lúpínubreiðurnar í Vatnshlíðinni og skapa þar sælureit. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.

Vatnshlíð

Minningarreiturinn í Vatnshlíð ofan Hvaleyrarvatns.

Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp. Hann tók fjölmargar ljósmyndir á heimaslóðum og gaf út merka ljósmyndabók um Vestfirði sem margir kannast við. Hjálmar fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá afa sínum og ömmu en vildi ekki kalla sig ljósmyndara þar sem hann var sjálfmenntaður í faginu. Hann lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1947 en faðir hans var fyrsti menntaði skipaverkfræðingur landsins. Hjálmar fetaði þar með í fótspor föður síns, en hann eyddi meginhluta starfsævinnar sem skipasmiður á Torfnesi á Ísafirði. Hjálmar varð skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri og gegndi starfinu til ársins 1985. Var hann þekktur um allan heim fyrir störf sín á vettvangi öryggismála sjófarenda og vörnum gegn mengun sjávar og hlaut Alþjóða siglingamálaverðlaunin, auk margra annarra viðurkenninga.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stolt af því að Landgræðslusjóður og stjórn minningarsjóðsins hafi falið félagsmönnum að sinna þessu merka ræktunarstarfi og heiðra þannig minningu hjónanna Hjálmars R. og Else S. Bárðarsonar.

Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – hólmar.

Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnaframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hólmarnir voru rétt mátulega tilbúnir þegar fyrstu farfuglarnir komu til landsins og voru vað- og andfuglar fljótir að átta sig á þessum nýju hólmum. Vatnsstaða hefur verið óvenju há í Hvaleyrarvatni seinni hluta vetrar og setti það aðeins strik í reikninginn en nú er vatnshæðin að ná stöðugleika og það verður spennandi að fylgjast með fuglalífinu í og umhverfis hólmana í sumar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hjálmar og Else arfleiddu m.a. Landgræðslusjóð af hluta eigna sinna og vildu að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“ . Minningarsjóður var stofnaður um hjónin sem mun starfa í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslusjóður heldur einnig utan um Hjálmarssjóð og veitir styrki úr sjóðnum sem eru hugsaðir til að efla landgræðsluskógrækt þar sem lúpína hefur breytt gróðusnauðu landi í ákjósanlegt skógræktarland.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gerði samning við Minningarsjóðinn um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns í landi sem var áður örföka en lúpínan hefur breytt landinu þannig að nú er það alveg kjörið til gróðursetningar og trjáræktar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – Vatnshlíð.

Haustið 2011 var gróðursetning hafin með formlegum hætti í Vatnshlíð og stuttu seinna var hafist handa við að útbúa dvalarflöt þar sem minningarskildi um Hjálmar og Else Bárðarson verður komið fyrir á veglegum steindrangi.

Hjálmar var kunnur áhugamaður um ljósmyndun og lagði sig mjög fram um að ná góðum ljósmyndum af fuglum. Það vill svo vel til að skógræktarsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn er kjörinn vettvangur fyrir fuglaljósmyndara sem hafa margir náð afar merkum ljósmyndum af sjaldgæfum gestum sem og staðbundnum fuglum á svæðinu. Skógræktarfélaginu er umhugað um þessa vængjuðu skógarvini og hefur gert ýmislegt til að laða þá að svæðinu. Skógurinn er dvalarsvæði fjölmargra fugla og stöðugt bætast nýir í hópinn. Má þar til dæmis nefna glókollinn sem er minnsti í hópi nýju landnemanna hér á landi. Glókollahreiður hafa fundist í skógarlundi í Höfðaskógi nokkur ár í röð.

Á skilti í minningarlundinum í Vatnshlíð má lesa eftirfarandi:
Gróðurunnendur

Vatnshlíð

Vatnshlíð – skilti.

“Hjálmar var fæddur og uppalinn á Ísafirði. hann lauk námi í skipaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole í kaupmannahöfn 1947. Að námi loknu starfaði hann á skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi, en hóf svo störf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík 1948. Þar hannaði hann og stóð fyrir smíði fyrsta íslenska stálskipsins, dráttarbátsins Magna. Hjálmar var skipaður skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri til 1985. Hann tók virkan þátt í starfi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og var forseti stofnunarinnar um þriggja ára skeið. Hann var einn af brautryðjendum í alþjóðlegum aðgerðum gegn mengun heimshafanna og kom að mótun reglna um öryggi í siglingum á heimsvísu og öryggismálum sjómanna. Fyrir störf sín að siglingamálum hlaut hann Höfrunginn, alþjóðleg verðlaun IMO, árið 1983. Hjálmar var afkastamikill og vandvirkur áhugaljósmyndari og höfundur tólf bóka í máli og myndum um Ísland og náttúru þess, auk tveggja bóka um íslensk fiskiskip.

Vatnshlíð

Vatnshlíð – minningarreiturinn 2021.

Else var fædd í Svíðþjóð, af dönskum foreldrum. Hún lauk prófi frá verslunarskóla í Danmörku 1940 og vann á skattstofu Kaupmannahafnar þar til þau Hjálmar fluttu til Íslands 1948. Else var góð tungumálamanneskja, söngelsk, listræn og fróð um listasögu, einkum danska málara. Hún var mikill dýravinur og átti stóran þátt í stofnun Kattavinafélags Íslands og Kattholts. Else hafi unun af ferðalögum og þau Hjálmar ferðuðust mikið bæði innanlands og utan.

Hjálmar og Else voru barnlaus en arfleiddu Landgræðslusjóð, landgræðslu ríkisins, Fuglavernd, Sjóminjasafnið Víkina, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Vestfjarða að eigum sínum. Að ósk gefenda er meginhluta arfs Landgræðslusjóðs varið til langræsluskógræktar á landsvæðum vöxnum lúpínu.
Stofnaður var minningarsjóður, í samvinnu við Landgræslu ríksins, en markmið hans er einkum að styrkja rannsóknir er tengjast notkun lúpínu í landgræðslu og skógrækt.”

Heimild:
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Vigdís Finnbogadóttir

Sú klausa er hér fer á eftir stendur í blaðinu Fjallkonan 19. júní 1908:

Víðistaðatún

Víðistaðatún.

“Hafnfirðingar höfðu það til hátíðarbrigðis á afmælisdag Jóns Sigurðssonar að stofna hjá sér ungmennafélag. Hlaut það nafnið Ungmennafélagið 17. júní. Framkvæmdahugur var mikill í félagsmönnum, enda margvísleg mál er ungmennafélög hafa á stefnuskrá sinni. Þar á meðal að klæða landið skógi.

Hafnfirðingar létu sig ekki vanta í hóp þeirra brautryðjenda. Því til sönnunar stendur eftirfarandi í sama blaði 28. apríl 1909:

Ungmennafélagið 17. júní í Hafnarfirði hefur fengið lofun fyrir landi til skógræktar í nánd við bæinn í Víðistöðum. Félagið er tekið til við að vinna við skógarstæðið – girða það. Vinna flestir félagar að því með eigin höndum, karlar og konur í frístundum sínum og miðar verkinu furðuvel áfram. Hugsað er til að rækta þarna tré í næsta mánuði.

Víðistaðatún

Á Víðistaðatúni.

Lengri eru upplýsingar Fjallkonunnar ekki. En staðreynd er að þarna voru á þessu vori gróursettar um eitt þúsund trjáplöntur. Garðhleðsla og undirbúningur var eins og fyrr segir framkvæmdur af félögum. Stofnuðu þeir um þetta nokkurskonar hlutafélag, þannig að fyrir 5 kr. vinnu fengu menn hlutabréf og mun eitthvað af þeim enn vera til hér meðal gamalla 17. júní félaga.
VíðistaðirÁrið 1910 fór Árni Helgason sem nú er verkfræðingur í Chicago til náms í trjárækt upp að Rauðavatni. Hvernig þessum trjágróðri í Víðistöðum reiddi af er mér ekki kunnugt. En mjög dofnaði yfir starfi þessa ungmennafélags eftir 1910 og það leið alveg undir lok 1913. En margir eru þeir Hafnfirðingar sem harma það að þarna skyldi ekki rísa upp almennur skemmtistaður með trjám og blómstrum.”
Í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðvedisins ákvað Bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bjóða forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á Víðistaðatún í þeim tilgangi að planta þar nokkrum trjám, bæði í tilefni afmælisins sem og ekki síst af framangreindri ástæðu. Formaður afmælisnefndar var Ómar Smári Ármannsson, bæjarfulltrúi. Lundurinn hefur síðan verið nefndur “Lýðveldislundur”.
Víðistaðatún

Á skilti við lundinn á Vísistaðatúni má lesa eftirfarandi: “Lýðveldislundur – Plantaður 1. júní 1994 af Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands ásamt hafnfirskum börnum í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins.”

Síðan hefur margt gerst til batnaðar. Bæjaryfirvöld Í Hafnarfirði mættu þó gjarnan sýna eftirfylgni framgreindrar hinni táknrænu athafnar meiri virðingu í verki. Vigdís hafði um langt skeið stuðlað að  ræktun, hvort sem um var að ræða æsku landsins eða gróðurs. Þá viðleytni forseta Íslands þarf að hafa í heiðri til langrar framtíðar…

Heimild:
-https://skoghf.is/skogarstaeeie-i-vieistoeeum/

Vigdísarlundur

Vigdísarlundur á Víðistaðatúni. Steinninn fremst ber skjöld af því tilefni.

Sigurðarsel

Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Örnefni í Þingvallahrauni
Fyrsti kafli
“Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan
af Þingvallavatni.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Hallstígur er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda. Þaðan og inn í Hallvík nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum, og er sá kafli nefndur Hallur, og eiginlega alla leið inn að Klukkustíg, meðan gjábarmarnir eru hærri en hraunið.
Frá Gjábakkastíg sunnan vegarins að Vellankötlu (eða Vatnsviki), er að mestu flatt hraun, sem heitir Gjáendar; það er allt sundur tætt af gjám, fullum af vatni.
Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur að Hábrún, en hallar þaðan vestur að Mosalág og Lágbrún. Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var fje rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Hallviki er Veiðistígur á Hrafnagjá. Veiðin undir Halli frá Fornaseli (sem er grashvammur stór við vatnið, norðan við Arnarfellsenda) tilheyrði Þingvöllum, og heitir pláss það Ólafsdráttur. Það var að mestu ljeð Gjábakkabónda, og galt hann fyrir það veturgamla gimbur á vori hverju, og voru það víst góð skifti fyrir hann.
Eftir Gjábakkastíg liggur alfaravegur frá Biskupstungum og Laugardal, og hann var einnig mikið notaður af Grímsnesingum, áður en brú var sett á Sogið. Vegurinn lá þjett við Vellankötlu, þaðan (Kenndur við Ólaf konung helga; kirkjan á Þingvöllum var helguð honum. M.Þ.) norður hraunið að túngarði í Skógarkoti og þaðan vestur eða út á Þingvelli. Skammt austur frá Vellankötlu er stór grjóthóll, sem heitir Böðvarshóll. Þar hjá er fjárhústóft, sem Þorleifur Ólafsson í Vatnskoti hlóð, en varð aldrei notuð. Norðaustur af honum er Þingvallahellir. Var hann um langt skeið notaður til fjárgeymslu á vetrum frá Þingvöllum; var hann þó að öllu leyti illur til þeirrar notkunar, eins og f lestir hraunhellar eru, einkum ef þeir eru lágir, því að fjeð reitir ullina af hryggnum í berginu, og blautir verða þeir, þegar gólfið er orðið þjett af áburðinum; og alltaf er í þeim bergleki. Sunnan í hallanum upp af Vellankötlu heita Fjárhúsbrekkur, en þar sem brúnin er fullhækkuð við Litlugjá, er hóll einn, sem heitir Litlugjáarhóll.

Nýi-Þingvallahellir

Nýi-Þingvallahellir.

Skammt fyrir vestan Vellankötlu, vestan-við gamla veginn, en norðan-við hinn nýja, eru Tjarnir. Norðaustan við þær eru Ámundahólar, að mestu grasi og skógi vaxnir. Austur af þeim er Nýi-stekkur; hvaðan hann hefir verið notaður, er mjer ókunnugt um, en líklega hefir það verið frá Skógarkoti. Þar norðaustur af er Nýi-Þingvallahellir; fann Pjetur Jónsson, smali á Þingvöllum, hann skömmu fyrir aldamót 1900; var hlaðinn fram af honum forskáli, eins og venja var til, og hann var tekinn í notkun í stað hins gamla, sem áður var getið, en hann var síðan lítið eitt notaður frá Arnarfelli. Suður frá honum er brekka með vörðubroti; heitir Skúti. Þar norður frá, vestan í hallanum, eru Klukkuhólar; þeir eru tveir stórir grjóthólar með lautum og skógi; standa þeir andspænis hvor öðrum, með slakka á milli. Norður frá þeim, einnig vestan í hallanum, er Viðarklettsskógur, með kletti þeim, er skógurinn ber nafn af, norðast og austast sunnan undir svonefndum Höfðum; nær skógur þessi austur á fulla hæð Brúnar og niður að Eyðum, sem eru skógarlausar mosaflesjur. Austur frá Klukkuhólum, uppi á Brúninni, þar sem hún er hæst, er Hábrúnarklettur; er það einnig grjóthóll og ekki stór. Sunnan og vestan í Brún er skógur þjettur og hraunið grösugt, svo að þar sjest valla á stein eða flag, nema þar, sem einstakir stórir grjóthólar eru, þrátt fyrir, að þar var allt af mest áníðslan með fjárbeit og skógarhöggi. Frá Hábrúnarkletti liggur gjá, sem víða er að eins smáholur, suður hjá Litlugjáarhól og niður að Vellankötlu; heitir hún Litlagjá og var hinn mesti háski fjenaði á vetrum, er snjóar voru, og unglömbum á vorin.

Þingvallahellir

Í Þingvallahelli.

Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h. u. b. í austur og vestur, með skógivaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Frá Litlu-Hellishæð hallar suðvestur að Viðarklettsskógi og vestur að Höfðum, sem eru skógi og grasi vaxnar hæðir og lautir, og ná þær norður að Mosalág, norður að Ketilhöfða.
Vestan í hallanum, niður að Mosalág, heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan-undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum. Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.
Austan-frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingi á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Norðaustur-af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll.
Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.

Þingvellir

Skógarkot – örnefni.

Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum. Þau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rjett niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar ketur fremur kallazt berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður-af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sjest fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.

Skógarkot

Skógarkot – heimtröðin.

Norður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sjerstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan-í hann er op stórt og heitir því Gapi. Rjett hjá honum er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður-með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum. Vestur af Prestastíg, sem er á h.u.b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur. Norður af Gapahæðum, fyrir norðan áðurnefnda mosabala, eru lítið áberandi hæðir, sem snúa h. u. b. í austur og vestur. Þær heita Einiberjahæðir. Þar fyrir norðan, og vestan Prestahraun, heitir Höfðaskógur; hallar honum lítið eitt mót suðri. Takmarkast hann að norðan af stórum grjótbala, sem snýr austur og vestur; hann heitir Brúnkolluhöfði, og eru þar takmörk þess virkilega Þingvallahrauns. Þaðan heita Mjóafellshraun alla leið að Skjaldbreið, frá Söðulhólagjá að Mjóufjöllum (-fellum).
Sunnan-á Mjóafellshrauni eru auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur. Það heitir Litla-Hrauntún, og hefur þar líklega bær verið. Vestur frá Brúnkolluhöfða og vestur að Hrauntúnsbæ heita einu nafni Skygnirnar, eru það hæðir, lautir og hólar, grasi og skógi vaxið. Þar, sem hæst er, heita Háskygnirahólar. Góðan kipp þar norður frá er Mjóafellsvarða á grjóthól einum. Þar norður frá er skógi vaxið hraun allt að Ármannsfelli og upp að Syðra-Mjóafelli. Austur úr Ármannsfelli gengur lág öxl með grasbrekku sunnan í, sem heitir Sláttubrekka og er þjett við veginn inn á Hofmannaflöt. Litlu fyrir sunnan Sláttubrekku eru sandflatir, sem ganga niður í hraunið, dálítið vaxnar skógi og eru auðsjáanlega myndaðar af vatnsrensli úr fjallinu. Þær heita Víðivellir. Þar er fyrst getið um, að Glámur sálugi hafi sjest; var þar að reiða hrís á einum hesti, eftir því sem Grettissaga segir.”

Annar kafli

Þingvellir

Þingvellir – Vellankatla.

“Vestan Vellankötlu ganga tangar nokkrir út í vatnið; lengst skaga þar fram Grunnhólar. Fyrir austan þá eru Nautatangar. Grunnhólar eru talsvert hærri en hraunið þar í kring, sem er að mestu lágt og flatt. Upp undan Nautatöngum er Jórunnarvarða; þar varð úti 1884 kona frá Skálabrekku, er Jórunn hjet. Nokkru þar fyrir vestan gengur langur og krókóttur tangi út í vatnið; heitir hann Öfugsnáði, og veit jeg ekkert hvernig á nafninu stendur. Var hann oft notaður til aðrekstrar á vorin frá Skógarkoti. Vestan við hann er löng og hringbogin vík, sem oft er notuð til lendingarstaðar, þegar veiðin er bezt þar framundan. Hún heitir Öfugsnáðavík. Þar úti í vatninu er hólmi, sem heitir Langitangi; verpa þar bæði andir og kríur. Litlu vestar er Vatnskot. Þar voru víst fyrst hús fyrir ær og lömb frá Þingvöllum og síðar var þar það, sem kallað er þurabúðar- eða húsfólk. Það er, að það hafði ekki kýr eða bjó ekki við málnytu; þó mun það hafa haft einhvern sauðfjenað. Þess voru dæmi, að þar bjuggu tvær fjölskyldur.
Vestan við öfugsnáða er Vörðuvík, og vestan við hana Dagmálavík; er hún austan við Vatnskotstún. Þá er sker, sem heitir Murtutangi. Stutt fyrir ofan Vatnskot heita Hryggir; er það hólaröð, sem snýr austur og vestur. Austan-við þá er Þuríðarvarða; stendur hún á smáhól upp af Vörðuvík. Skammt austar og norðar er Fuglstapaþúfa. Þar austur frá, allt að Mel, eru mosaflesjur skóglausar, sem heita Eyður, upp að svonefndum Sauðasteinum, sem eru háir hellubalar með grasbrekkum að sunnan; snúa þeir austur og vestur. Austan við þá og Hellisvörðu var götuslóði frá Skógarkoti að Öfugsnáða, kallaður Veiðigata.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Upp af Grunnhólum, vestan-við Tjarnir, eru stórir hólar með djúpum lautum á milli, sem heita Klifhólar. Skammt norður frá Tjörnum liggur vegurinn yfir bratta klapparhæð; heitir hún Melur. Þaðan gengur lægð til norðausturs, vestan undir Brúnarhallanum. Það heitir Lágbrún; nær hún allt að stórum grjóthól, sem lokar fyrir norðurenda hennar. Á hól þessum er varða, sem heitir Stórastekkjarvarða, og er hún beint niður frá áðurnefndum Nyrðri-Klukkuhól. Þaðan eru óreglulegir hólar og balar til norðvesturs heim undir Gamla-stekk; heita þeir Stekkjarvörðubalar.
Að norðvestan við Lágbrún er ávalur jafn halli að henni, sljettur að ofan, sem heitir Leiti; nær það frá Stekkjarvörðubölum með Lágbrún að Hrútabrekkum, sem eru vestan í löngum grjóthól frá norðri til suðurs, austan vegarins. Leiti nær einnig alla leið heim að Gamla-stekk; hann er norðvestast á Leitinu og var notaður frá Skógarkoti. Stekkurinn er þar, sem líkur eru fyrir, að ölkofrastaðir hafi verið. Þar bjó Ölkofri eða Þórhallur sá, er ölið bruggaði fyrir alþingisgesti og brenndi Goðaskóg. Þar var haldið við litlum túnbletti fram undir 1900, og þar var brunnur fram yfr þann tíma, sem var þrauta-vatnsból frá Skógarkoti; hann þraut ekki, nema þegar þurkar og frost hjeldust vikum samam Ölkofrastaðir eða Gamli-Stekkur eru suðaustan undir hárri hæð, sem heitir nú Stekkjarhæð, og er þar skjól talsvert í norðanveðrum. Vestan í hæðinni er mjög djúpur dalur með bröttum brekkum og klapparbrúnum, sem einnig er kenndur við ölkofra, og vestan við dalinn er Ölkofrahóll.

Hallshellir

Í Hallshelli.

Vestur að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri”. Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.
Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. (Dr. Björn M. Ólsen og dr. Jón Stefánsson rannsökuðu hellinn með
Hall Caine í september 1903, og dr. B.M.Ó. skírði hann. Sjá grein eftir dr. J. St. í Ísafold, XXX., bls. 239. M.Þ.). Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.
Rjett fyrir ofan Hrútabrekkur er brött klöpp í veginum, sem heitir Pelahella. Vestur af henni, austan Veiðigötu, eru smáhólar, sem heita Gráuklettar. Traðirnar í túninu liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali; munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata og Veiðigata.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyf ingarlausar, þar til birta tók. Í túninu suðaustur af bænum er djúp laut, er Möngudalur heitir. Beint austur-af bænum er bali dálítill, sem heitir Harðhaus. Þar var ætíð hafður hrísköstur, sem notaður var til eldsneytis á vetrum. Bærinn stendur sunnan í hæð, sem nefndur var Balinn; uppi á honum voru fjárhús og heyhlöður. Þar, sem hann er hæstur, er sundurklofinn hóll, sem heitir Rjettarhóll. Austan við hann, norðan-við túngarðinn, var fjárrjett, og austanvið túnið tvö lambhús; nú er allt þetta óþarft orðið. Austast í túninu var brunnhola, sem fljótt þraut vatn í; var þá eins og í gamla daga leitað til gamla Ölkofra með drykk, og ef hann þraut, sem sjaldan var, meðan brunnurinn var hirtur og haldið við, varð að sækja vatn á hestum niður í Tjarnir, h.u.b. hálfrar stundar ferð.
Milli túnsins í Skógarkoti, norðan við götu, sem liggur að Ölkofra, er dálítill klapparbali, sem heitir Þverhóll. Austan við túngarðinn eru litlir klapparhólar; þeir heita Brunnklettar. Austur af lambhúsum, fyrir austan túnið, er stór hóll sundurklofinn; sem heitir Skygnir; er þaðan gott til yfirsýnar austur í Brúnarhallann og yfir hraunið þar á milli. Hjeðan hallar hrauninu lítið eitt austur að Höfðum og Mosalágarhæð; er á þessu svæði skógarlítið, og þar eru Eyður þær, sem áður voru nefndar.

Skógarkot

Skógarkot – rétt.

Góðan kipp austur frá Skygni er hæð lítil, sem snýr frá norðri til suðurs, með brekku vestan í, sem heitir Sand-„Gíslahæð”. Í brekkunni er lítið gildrag með sandflagi, og gæti hugsazt, að hæðin hefði nafn af gilinu og rjetta nafnið væri Sandgilshæð; stutt fyrir austan hana eru strýtumyndaðir smáhólar, sem heita Strýtuhólar. Þar fyrir austan tekur við áðurnefndur Magnúsarklettsskógur með Mangúsarkletti h.u.b. í miðju; er það nokkuð hár, sjerstakur hraunklettur; nær skógur þessi í austur að smáhólum, sem heita Músarhólar; eru þeir rjett fyrir norðan .áður-nefndan neðri eða vesturenda á Bruna; norður frá þeim ganga lágir og sljettir mosabalar með gras- og skógarlautum, allt austur að Syðri-Gapahæð.
Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smáhólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svonefndar Brúnir.
Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan við er hin gamla Hrauntúnsgata; á milli Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún.

Þingvellir

Hrauntún – örnefni.

Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteinsvarða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu brún er mishæðalítið, gras- og skógarlautir með smáhólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstubrún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smáhólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er alleinkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Grímsvarða (Manni kemur til hugar hvort hún kunni að vera kennd við Grím litla eða hlaðin í öndverðu af honum. Hann mun hafa búið á Grím(s)stöðum (nú Grímastöðum); sbr. Árb. 1905, bls. 44—46. M.Þ.), sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða.
Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður-fyrir Þrívörður. Vestanvið slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá (Hún mun vera Kolsgjá sú, er Ari fróði getur um í Íslendingabók; sjá Árb. Fornlf. 1880—81, bls. 38, nrn, M.Þ.),.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litlavarða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni. Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Stutt austur af Skygnisvörðu er Hálfavarða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráuklettar, norðan við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður af er áðurnefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfuvörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.
Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll. Þaðan norð-aústur frá eru Brúnir með samnefndri vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suðvestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðausturaf Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.

Sleðaás

Réttin undir Sleðaási.

Frá Sláttubrekku eru ekki örnefni í sjálfu Ármannsfelli á þessu svæði, en Stóragil er upp af Lambagjárhrauni og Litlagil upp af Sandskeiðum, og Kriki þar, sem Sleðaás gengur fram úr fjallinu.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba). Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauní, niðurundan Stóragili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.
Í norðvestur frá Hrauntúni gengur smáhólaröð með skógar og graslautum. Þar er Gráavarða stutt frá túninu; lengra þaðan vestur er Stóra-varða; hún stendur á stórum bala, sem lokar áðurnefndum slakka að norðaustan. Stutt austur frá Stóruvörðu er djúp laut, sem snýr frá austri til vesturs og heitir Langalág. Þar norður af byrja Sandskeið, sem eru sandflög, runnin niður úr Ármannsfelli í leysingum.
Vestan Krika gengur Sleðaás suðvestur úr fjallinu. Kriki er allur þjettum skógi vaxinn og er einn með fegurstu blettum í Ármannsfelli. Við suðurenda Sleðaáss eru gamlar fjárrjettir, hlaðnar úr hraungrjóti 1876. Þær var hætt að nota 1910. Frá þeim liggur Rjettargata heim að Hrauntúni, og kemur vegurinn frá Ármannsfelli saman við hana neðst á Sandskeiðum, liggur þaðan austan Löngu-lágar og vestan Lambagjár heim í traðir í Hrauntúni.”

Þriðji kafli – (Þessi kafli er að miklu leyti saminn eftir upplýsingum frá Símoni Pjeturssyni í Vatnskoti.)
“Við Vatnskotsbæ er vík ein, sem heitir Grýla; er í henni uppsprettuvatn og er hún notuð sem vatnsból frá Vatnskoti. Þá er Naustavík. Þá Vatnsvík, og þar suður af Vatnskotshólmar. Skammt vestur af Vatnsvík er Breiðitangi, og samnefnd vík er inn með honum að vestan. Þá er Grjótnes, með Grjótnesvík að vestan. Þá Garðsendavík, og er þá komið að Lambhaga, en svo heitir tangi, sem skagar langt fram í vatnið suðaustur frá Þingvöllum. Fyrir sunnan Garðsendavík er Olnbogi; Litlu sunnar er Tvítóla eystri; þar suður af er Prestshólmi og vestur af honum er Tvítóla vestri. Þar skammt suður af er Lambhagatá. Nokkru norðar að vestan er allstór vík, sem heitir Óhemja. Tanginn, sem skagar lengst í vestur, heitir Leirutá. Vatnið þar fyrir innan til Þingvalla er kallað Leira. Örnefni eru engin í Lambhaga, nema hólabelti, sem liggur þvert yfir hann þar, sem tanginn byrjar, og heita þeir Lambhagahólar, og á þeim er grjótgarður gamall.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Vestur frá Vatnskoti liggur götuslóði til Þingvalla, sem kallaður var Vatnskotsvegur; lagðist hann af að mestu 1907, er hinn nýi vegur var lagður litlu ofar. Með gamla veginum vestur frá Vatnskoti eru óreglulegir balar, sem nefnast Hrossbeinar. Litlu vestar er Katthóll, einstakur hóll með hundaþúfu. Þá nokkru vestar er Kolgrafarhóll. Þar upp af er Kolgrafarhólshæð, og ber hana hæst milli Vatnskots og Þingvalla. Þar liggja gjásprungur til norðausturs og heita Kolgrafarhólsgjár. Þaðan skammt vestur er Hellugjá. Þá er Háagjá. Þar suðvesturaf er Silfruhæð, allstór bali frammi við vatnið; vestan undir henni er Silfra, gjá, sem svo heitir, sennilega vegna hins silfurtæra vants, sem í henni er, og liggur hún að Fjósaklifi þar, sem gamli vegurinn liggur heim að Þingvöllum. Vestan við Silfru er allstór klapparhóll, mjög sundurrifinn, sem heitir Silfruhóll. Rjett fyrir norðan hann er annar hóll, allmikið sundurtættur, sem heitir Dagmálahóll, og norðan undir honum dalur samnefndur. Norðaustur af hól þessum heitir Stöðull; er það hvammur, nokkuð sljettur; þar var fjárrjett og kvíastæði frá Þingvöllum. Vestan við Dagmálahól er Fjósagjá, full af vatni; er nú komin brú á hana á nýja veginum. Vestan við hana er hóll í Þingvallatúni, sem heitir Svelghóll. Suður af honum er Fjóshóll. Norðvestur af honum er dæld, sem Skeggi heitir; hana fyllti sjera Guðmundur Einarsson upp með grjóti. Þar vestur af er Miðmundatún. Norðast á því er Danski-dalur. Þá eru Biskupshólar, norðan við Þingvallabæ, vestan traðanna; austan þeirra er Klukkuhóll (247). Þar austur af er Kirkjutún að Kattargjá, sem liggur um Skötutjörn. Þar fyrir austan eru Seiglur; um þær liggja Seiglugjár. Norðan við Þingvallatún rennur lind ein úr gjáarsprungu, sem klakhús var byggt yfir um 1880 af sjera Jens Pálssyni; var það eitthvað notað stuttan tíma frá Þingvöllum.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Skammt fyrir austan Þingvallastöðul er Háagjá; yfir hana liggur Gönguvegurinn frá Skógarkoti á svonefndum Steinboga. Litlu suðvestar er stígur, sem heitir Brúnstígur. Þar fyrir austan Háugjá er Hellugjá og Hellugjárbalar, fyrir sunnan Gönguveg. Skammt austur af þeim liggur Gönguvegur um allstóran, lágan bala; hann heitir Svuntubali.
Nokkuð austur-af honum heitir Nónhæð. Suðaustur af henni eru þrír hólar, sera heita Nónhólar, og mun það vera nónsmerki frá Skógarkoti. Nokkru sunnar er varða á hól, sem Digravarða heitir, rjett vestan-við götu, er liggur frá Skógarkoti að Vatnskoti. Suður af Svuntubala er hóll einn með þúfu upp á, sem heitir Nautaþúfa. Suður af henni er allstór bali; þar, sem byrjar að halla suður af honum, er vörðubrot, er Biskupsvarða, heitir, og svæðið umhverfis hana Biskupsvörðuskógur; takmarkast hann að vestan af Kolgrafarhólsgjá, en að austan af Fjárhúshólshrygg; er það klapparbali, sem snýr norður og suður rjett niður að hinum nýja vegi. Suður af honum er allstór hóll, nokkuð sprunginn, sem heitir Fjárhúshóll, og er hann aðalsjónarhæð frá Vatnskoti.
Frá áðurnefndum hryggjum fyrir ofan Vatnskot er örnefnalaust að Vatnsdalshæð. Hjá henni er Vatnsdalur, austan Vatnskotsgötu. Þar norður frá er lítill, klofinn hóll, sem heitir Gjáhóll. Í suðvestur af túninu í Skógarkoti, stutt sunnan við veginn, gengur sljettur klapparbali, og djúp laut í kring að sunnan og vestan. Hann heitir Helluhholt. Þar skammt vestur af er Lýtingsvarða; stendur hún á bala með alldjúpum lautum; heita þeir Lýtingsvörðubalar. Suður af Helluholti er áðurnefndur Gjáhóll. Gönguvegur liggur yfir Helluholt hjá Lýtingsvörðu.

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Skammt fyrir vestan Skógarkot er dálítil hólaþyrping; eru hólarnir vaxnir þjettum skógi og grasi, og hallar bæði suður og vestur af þeim. Þeir heita Skógarhólar. Sunnan við þá er lægð, sem hækkar aftur suður að Nónhólum; er þar skógarlítið pláss, allt vestur að Þingvöllum. Góðan kipp norðaustur frá Skógarhólum eru Krókhólar; einn þeirra, sá norðasti, er alveg sjerstakur, en allir eru þeir stórir og með djúpum lautum. Mitt á milli þeirra og Eyvindarhóls eru Miðhólar norðan í skógarröndinni. Frá Krókhólum að Kolgrafarhól, og vestur að Sandhólum og Leiragjá, eru að mestu skógarlausir mosabalar. Sunnan í Skógarhólum liggur vegurinn út á Þingvelli; skammt vestur frá þeim er Háagjá; hún stefnir eins og allar aðrar gjár í nánd við Þingvelli í norðaustur og suðvestur; er á henni stígur, sem vegurinn liggur yfir. Næsta gjá þar stutt fyrir vestan er Vallagjá, sem vegurinn liggur einnig yfir. Vallagjá er framhald af Flosagjá og Nikulásargjá. Vallastígur heitir þar, sem vegurinn liggur yfir Vallagjá, og er þá komið á Þingvöll. Kippkorn norður frá Vallastíg eru tveir nokkuð stórir hraunhólar, sem Skyrklifshólar heita; þar norður frá eru Sandhólar, sunnan og suðaustan við Leira; þeir eru víst að mestu til orðnir úr foksandi af Leirum. Þeir eru nokkuð vaxnir skógi og víði. Í gegnum þá liggur Háagjá, sem þá heitir Sandhólagjá, að Sandhólastíg, sem er við suðausturhorn á Leirum. Þá heitir hún Leiragjá, að Jónsstíg, sem er stutt vestur frá Stóruvörðu. Leirustígur er á henni norðarlega, við Leira; um hann liggur Leiragata heim að Hrauntúni. Á milli Leirastígs og Jónsstígs hefur hún klofið stóra hæð vestur af Birkihól; hæð sú var nefnd Köst („á Köstunum”). Frá Jónsstíg heitir hún Sleðássgjá og hverfur loks undir Sleðaás.
Norður frá Þingvöllum heitir hallinn á eystra barmi Almannagjár Fagrarbekka allt að Leirum; þar kemur lækur í gegnum gjána, og hefur hann flutt efnið í Leira eins og Öxará í Þingvelli.
Norður frá Leirum, milli gjánna, upp að Bolabás, heitir Sleðáshraun. Það er talsvert stór blettur, dálítið skógi vaxinn, sunnan í móti, eins og með gjánum beggja vegna, en að mestu grjót og mosi. Bolabás er hvammur stór í Ármannsfelli, á milli Sleðaáss að austan og Fjárhússmúla að vestan.
Frá Langa-stíg, sem er upp frá norðurenda Vallanna efri, er dýpsti kafli Almannagjár, við Fögrubrekku, og heitir hún þar Snóka; þar verpir á vorin alls konar illþýði: hrafnar, smyrlar og jafnvel fálkar. 1 botni hennar var stundum heyjað frá Þingvöllum. Fyrir norðan Sóknu rennur Leiralækur; litlu norðar er Tæpistígur á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá; á henni er Leynistígur, þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Ármannsfell vestast í Bolabás.” – Ásgeir Jónasson.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Sigurðarsel - Þingvöllum

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvallavegur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1973 er grein um “Örnefni á Mosfellsheiði” eftir Hjört Björnsson:

Örnefni á Mosfellsheiði
“Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum.
Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum. Þó má þar án efa einhverju við bæta, því að ekki geri jeg ráð fyrir, að jeg þekki þau örnefni öll, enda munu skiptar skoðanir um sum þeirra.

Skálabrekka

Fjárborg ofan Skálabrekku vestan Kárastaða.

Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður” — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari”; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari” þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði.

Árfarið

Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár.

Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þurr á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast Öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn. Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyrr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum.

Mosfellsheiði - kort

Norðaustanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni. Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og þvínæst norðan undir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning.

Mosfellsheiði - kort

Mið-Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „Í Keldunni”, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar.
Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan-undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal. Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita.

Mosfellsheiði

Suðvestanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Vestan-í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa ná aðeins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt. Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð.

Borgarhólar

Í Borgarhólum.

Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðanundir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa.

Heiðarblóm

Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil.
Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar. Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan-við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. Í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar alllangt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vmstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum.

Konungsvegur

Brú á Konungsveginum á Mosfellsheiði.

Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn (Það mun vera þýðing á örnefni, sem nokkrir danskir menn gáfu tjörninni fyrir 20—30 árum). Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður Að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað.

Heiðartjörn

Heiðartjörn – syðst er tjörnin Björg; áhugavert brotasvæði.

Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum eftir því.
Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.” – M.Þ.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni á Mosfellsheiði, bls. 164-167.

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarðan við Gamla Þingvallaveginn.

Gráhelluhraun

Á vef Skógræktarfélags Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um skógrækt í Gráhelluhrauni:

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – fyrsta gróðursetningin vorið 1947.

Fyrsta verk stjórnar eftir að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum.

Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni. Sérstakir hakar voru útbúnir til að koma plöntum niður í hraunið sem reyndist prýðilega lagað til skógræktar eins og reiknað hafði verið með. Almennir félagsmenn og nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar tóku mikinn þátt í ræktunarstarfinu og ekki leið á löngu áður en árangurinn kom í ljós. Sígræn barrtré uxu upp úr gjótum og klettahryggjum hraunsins, birki og víðir tóku við sér og hraunið breytti um svip.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

Skógræktargirðingin var stækkuð um 30 hektara 1949 og næstu árin var umtalsverðu magni af birkiplöntum, skógarfurum, rauðgreni, sitkagreni og lerki plantað út, hátt í 100 þúsund plöntum. Furulús lék rauðgrenið og skógarfururnar illa og eftir kuldavorið 1963 var hafist handa við að fella dauð tré. Á tímabilinu 1965-78 var um 30 þúsund stafafurum, bergfurum og birkitrjám plantað út í hrauninu, en eftir það hefur Gráhelluhraunsskógur nánast verið sjálfbær.

Skógurinn endurnýjar sig sjálfur að miklu leyti og töluvert ber á sjálfsánum furutrjám. Birki- og víðirunnar hafa breitt verulega úr sér og lyng og gamburmosi þekja hraunið ásamt fjölbreyttum lággróðri af margvíslegu tagi. Á hverju ári er plantað út í svæðið til að auka tegundafjölda og viðhalda ræktunarsvæðinu.

Allar girðingar hafa fyrir löngu verið fjarlægðar í Gráhelluhrauni og göngustígur lagður til að auðvelda öllum að njóta þessa gróskumikla og fjölbreytta skógarsvæðis.

Minningarskjöldur 4 brautryðjenda á Gráhelluflöt

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – minningarskjöldur.

Laugardaginn 9. ágúst 2008 var fjögurra brautryðjenda skógræktarstarfs í Hafnarfirði minnst með því að afhjúpa minningarskjöld á hraunkletti í norðanverðu Gráhelluhrauni, skammt frá þeim stað þar sem ræktunarstarf á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófst vorið 1947. Þarna mættu afkomendur þessara manna ásamt fleira fólki til að minnast liðinna tíma.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Þannig vildi til að síðasta dag sumars 1946, nánar tiltekið þann 25. október, mætti 21 Hafnfirðingur til fundar þar sem ákveðið var að stofna Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Mætingin var nokkuð lakari en fundarboðendur reiknuðu með því þá þegar höfðu 100 Hafnfirðingar gerst félagar í Skógræktarfélagi Íslands sem var stofnað á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Skógræktarfélag Íslands hafði sinnt ræktunarstörfum á suðvesturhorni landsins frá stofnun félagsins en vorið 1946 var ákveðið að stofna sérstök félög í Reykjavík og Hafnarfirði í anda þeirra héraðsfélaga sem störfuðu víða um landið.

Markmiðin sem lögð voru til grundvallar stofnun nýja skógræktarfélagsins voru háleit eins og kom fram í lögum þess:

Tilgangur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er að vinna að trjárækt og skógrækt í Hafnarfirði og nágrenni og auka skilning og áhuga Hafnfirðinga á þeim málum.

Tilgangi sínum ætlar félagið að ná með því að veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt og trjárækt, með útbreiðslu ársrits Skógræktarfélags Íslands, fyrirlestrum, myndasýningum og öðrum leiðbeiningum. Félagið ætlar að greiða fyrir útvegun ýmissa frætegunda og trjáplantna handa félagsmönnum.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon.

Á stofnfundinum var ákveðið að allir hafnfirskir ársfélagar og ævifélagar í Skógræktarfélagi Íslands, skyldu teljast félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, frá og með 1. janúar 1947.

Helmingur þeirra sem sátu stofnfundinn voru kosnir í embætti á vegum félagsins. Þar á meðal voru Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði sem tók að sér starf gjaldkera og sinnti því árum saman. Þorvaldur Árnason skattstjóri var meðstjórnandi til að byrja með en tók við formennskunni af Ingvari Gunnarssyni árið 1948 og gegndi embættinu til ársins 1954. Jón Gestur Vigfússon bókari var fyrsti ritari félagsins og tók síðan við formennskunni af Þorvaldi árið 1954 og sinnti því starfi til 1958, þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við formanns embættinu. Hann var formaður til ársins 1965. Þessir fjórir menn lyftu grettistaki og fóru fyrir áhugasömu skógræktarfólki á fyrstu árum félagsins, þegar mest á reyndi að sýna og sanna að skógrækt væri möguleg í upplandi Hafnarfjarðar.

Staðreyndin var sú að ekki höfðu allir bæjarbúar trú á að skógræktaráhuginn ætti eftir að endast lengi. Það blés ekki byrlega til að byrja með og reyndi verulega á þrautsegju og þolgæði þeirra sem stýrðu málum af hálfu Skógræktarfélagsins. Þar munaði miklu um þekkingu og dugnað frumkvöðlanna sem létu ekki deigan síga þó svo að á móti blési. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri átti sæti í stjórn félagsins fyrstu fjögur árin. Hann var kunnur af störfum sínum við uppgræðslu landsins og þekkti betur til en flestir aðrir. Að ráði hans var leitað til bæjaryfirvalda og óskað eftir landi til ræktunar við Hvaleyrarvatn, í svonefndum Vatnsenda neðan við Beitarhúsaháls og Húshöfða. Þegar til átti að taka vorið 1947 var mikil kuldatíð og útlitið við Hvaleyrarvatn allst ekki nógu gott. Gunnlaugur stakk þá upp á því að reynt yrði að fá leyfi til að girða af nokkra hektara nyrst í Gráhelluhrauni, skammt frá Lækjarbotnum. Hann taldi að þar yrði vænlegt að planta út trjám, þrátt fyrir kuldann, og hann hafði rétt fyrir sér.

Jón Magnússon

Jón Magnússon í Skuld.

Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði var hörkudulegur og vanur að taka til hendinni. Jón hafði fengið úthlutað landi í Smalaskálahvammi í Klifsholti árið 1945 sem hann girti og hófst handa við að stinga niður rofabörð og bera á þann gróður sem fyrir var. Hann breytti á nokkrum árum grýttu holti í ræktanlegt land og plantaði út furu, greni, birkitrjám og fleiri tegundum sem hann komst yfir. Jón breytti þessum ofbeitta hvammi í sannkallaðann sælureit á nokkrum áratugum og sýndi fram á að þetta var kjörið land til ræktunar. Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952. Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktað Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn.

Jón í Skuld tók að sér að annast girðingavinnuna í Gráhelluhrauni og fékk til liðs við sig þrjá unga menn sem girtu 7 hektara spildu vorið 1947. Gunnlaugur sandgræðlsustjóri útvegaði girðingaefnið, en á þessum tíma var afar erfitt að fá girðingarefni nema til að girða lönd bænda, enda voru höft á öllum innfluttum vörum.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – skjöldur um fyrstu gróðusetninguna.

Fyrsta gróðursetningaferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Bæjarbúar fjölmenntu og meðal þeirra sem tóku þátt í þessari fyrstu gróðursetningu í hrauninu voru kennarar, prestar, læknar, embættismenn, fiskverkafólk, sjómenn, húsmæður og börn. Flestir voru í sínu fínasta pússi enda um helgidag að ræða. Fjölmargir vildu leggja sitt af mörkum til að klæða landið skógi og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður í hraunið. Þetta var erfitt starf og þurfti að útbúa sérstaka haka til að koma plöntunum niður í hrjóstrugt hraunið.

Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt eins og Gunnlaugur sá fyrir. Fyrirkomulag útplöntunarinnar var með þeim hætti að þarna áttu að vera falleg rjóðrur umkringd trjágróðri sem gæti brotið vindinn og skapað skjólsæla unaðsreiti fyrir íbúa bæjarins og aðra sem vildu njóta þess sem skógurinn hefði upp á að bjóða. Vissulega stórfenglegt markmið og þetta vor var sá grunnur lagður að ræktun sem hefur skilað gjörbreyttri ásýnd þessa hluta bæjarlandsins.

Stjórnarmennirnir Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon og Jón Magnússon voru dugmiklir félagsmenn á upphafsárunum og unnu af miklum krafti að ræktuninni og öflun styrkja frá fyrirtækjum og bæjaryfirvöldum. Þegar Ingvar Gunnarsson ákvað að hætta sem formaður vorið 1949 varð Þorvaldur Árnason sjálfkrafa formaður félagsins. Stjórnarfundir voru haldnir á skrifstofu Þorvaldar á Skattstofunni frá upphafi. Fyrsta verk nýja formannsins var að fá aukið land í Gráhelluhrauni til útplöntunar. Girðingin var stækkuð og náði austur að Hraunsrétt sumarið 1949.

Framkvæmdagleðin var mikil í þessu litla félagi og afar brýnt að halda vel utan um fjármálin. Jón Magnússon í Skuld stóð sig með stakri prýði og var manna duglegastur við að afla nýrra félaga. Á þessum tíma gerði hann út strætisvagna sem gengu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Sú saga gekk um bæinn að það fengi enginn far með strætó nema vera í Skógræktarfélaginu. Jón gerði lítið úr þessari sögu, enda orðum aukin, en honum fannst sagan góð engu að síður.

Jón í Skuld hélt tryggð við félagið alla tíð og sat í stjórn þess í 40 ár. Hann átti mikinn þátt í að félagið gat útbúið eigin græðireiti í Höfðaskógi sem var mikilvægt framfaraskref. Hann var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1986 og var sá fyrsti sem hlaut þann heiður.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Vorið 1954 urðu formannaskipti þegar Jón Gestur Vigfússon tók við af Þorvaldi Árnasyni. Jón Gestur var þekktur ræktunarmaður og hafði stundað landbætur og trjárækt í Sléttuhlíð frá sumrinu 1925. Á aðalfundinum var ákveðið að fjölga í stjórninni úr fimm í sjö manns, því það þurfti að fá fleiri til að sinna starfinu enda stækkaði félagið stöðugt. Árið eftir gat félagið ráðið til sín sumarstarfsmann á launum. Sumarið 1956 voru sumarmennirnir tveir og veitti ekki af enda ætlunin að hefja girðingavinnu við Hvaleyrarvatn árið eftir.

Garðar Þorsteinsson

Séra Garðar Þorsteinsson.

Þegar 32 ha spilda við Hvaleyrarvatn hafði verið girt vorið 1958 hófst gróðursetning með aðstoð félagsmanna Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, sem gróðursettu 7000 plöntur. Almennir félagsmenn gróðursettu annað eins þetta sumar og starfið var blómlegt.

Vorið 1958 óskaði Jón Gestur eftir því að hætta formennskunni og var séra Garðar Þorsteinsson kjörinn í hans stað. Garðar var áhugamaður um trjárækt og hafði m.a. komið sér upp glæsilegum gróðurreit í hvammi ofan við Grænugrófarlæk, sunnan Jófríðarstaða. Þegar hér var komið sögu hætti Jón í Skuld sem gjaldkeri, en Haukur Helgason kennari tók við af honum. Haukur var starfsmaður félagsins sumarið áður og vann við að planta út í Gráhelluhrauni. Hann átti eftir að koma mikið við sögu félagsins næstu árin.

Stóri-Skógarhvammur

Piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógræk í Undirhlíðum undir leiðsögn Hauks Helgasonar.

Séra Garðari fylgdu nýjar áherslur í starfinu. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré. Garðar kom því til leiðar að félagi fékk úthlutað 56 hektara landsvæði við Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu sumur unnu drengirnir í sumarbúðunum í Krýsuvík að útplöntun í Stóra-Skógarhvammi undir stjórn Hauks Helgasonar.

Haukur Helgason

Haukur Helgason.

Árið 1961 fékkst samþykki bæjaryfirvalda fyrir því að endurnýja girðingarnar við Skólalund í Litla-Skógarhvammi í Undirhlíðum. Ræktunarsvæðið var á sama tíma stækkað um 30 hektara með Kúadalagirðingunni, sem náði langleiðina að Kaldárbotnum. Segja má að ræktunarsvæði í umsjón Skógræktarfélagsins hafi vaxið úr 7 hekturum vorið 1947 í 200 hektara vorið 1961, sem var vonum framar.

Séra Garðar var formaður félagsins til vorsins 1965 en þá tók Ólafur Vilhjálmsson við og sinnti því hlutverki lengst allra, eða næstu tvo áratugina.

Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.

Þessir menn stóðu ekki einir, því þeir áttu maka, börn, ættingja og vini sem skiluðu ekki síður miklu og merku starfi til eflingar skógræktar í bæjarlandinu. Fjöldkyldur þeirra stóðu heilshugar að baki þeim og studdu þá til góðra verka. Minningarsteinar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar eru virðingarvottur við allt það merka fólk sem hefur lagt sig fram um að bæta landið með hag komandi kynslóða fyrir brjósti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur – minningarskjöldur.

Guðmundur Kristinn Þórarinsson var mikill ræktunarmaður og einstaklega ósérhlífinn í störfum sínum fyrir félagið á meðan heilsan leyfði. Hann plantaði út mörg þúsund trjám, fyrst í Hvaleyrarvatnsgirðingunni og síðan í Gráhelluhrauni og víðar í lendum Skógræktarfélagsins.
Guðmundur fæddist í Hafnarfirði 1913, tók kennarapróf 1939 og stundaði kennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka áður en hann gerðist kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1956. Hann var ráðinn starfsmaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sumarið 1949 og sama sumar gróðursetti hann rúmlega 7.000 trjáplöntur. Hann lagði ófáar vinnustundir í að græða blásna mela og stinga niður græðlingum og naut auk heldur aðstoðar félaga sinna í góðtemplarareglunni. Hann var manna ötulastur við að leiðbeina unga fólkinu sem kom til starfa fyrir félagið á sumrin og lagði félaginu til jeppabíl sinn endurgjaldslaust um árabil. Guðmundur lét ekki þar við sitja heldur gaf félaginu bifreiðina þjóðhátíðarárið 1974, en árið eftir andaðist þessi mikli öðlingur.

Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og þar er nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum í Gráhelluhrauni rétt hjá furuskóginum sem hann plantaði út.

Heimild:
-https://skoghf.is/grahelluhraun/

Gráhelluhraun

Hraun ofan Hafnarfjarðar – ÓSÁ.

Flensborgarhöfn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta um Hansabæinn Hafnarfjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerkið við Flensborgarhöfn.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar. Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins banna að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.“

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Á koparskilti áföstu minnismerki um fyrstu lúthersku kirkjuna við Flensborgarhöfn má lesa eftirfarandi:
“Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.”

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hvaleyrarlón.

FERLIR gekk með strandlengju Hafnarfjarðar allt frá Hleinum að Hvaleyrarfjöru. Í sögulegu samhengi bar margt fróðlegt fyrir augu, s.s. leifar útgerðarinnar á Langeyri, lifrabræðslunnar við Gönguhól, fyrrum útvörðinn Fiskaklett, slippstöðina neðan Drafnar, Flensborgarhöfnina allt þar til göngustígurinn endaði skyndilega framan við skilti er á stóð “Hvaleyrarlón”.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Ákveðið var þó að halda áfram eftir fjörunni neðan bátaskýlanna þar sem fyrrum fornfálegar “bryggjurnar” voru flestar komnar af fótum fram. Hús var tekið á einum eigandanna, sem var að þvo bílinn sinn í góðviðrinu. Hann sagðist hafa haft þarna bát framar fyrrum, en selt hann fyrir nokkrum árum. Skýlið nýttist hins vegar vel áfram sem afrep fyrir gamlan mann.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Þegar gengið var með innanverðu Hvaleyrarlóninu vakti athygli að gerður hafði verið sjóvarnagarður innan þess að hluta. Spurningin var hvaða tilgangi hann hafi átt að þjóna þá er gerður var, væntanlega með tilfallandi kostnaði?

Sjóvörn hefur einig verið gerð norðan Hvaleyrartanga, allt að Hvaleyrarfjöru vestan hans. Þrátt fyrir framkvæmdirnar var enginn göngustígur gerður með ströndinni, sem reyndar hefði verið í lófa lagið. Gangandi þurfa því að ganga upp á og með utanverðum golfvellinum í verulegri óþökk golfaranna hverju sinni.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Ofan Hvaleyrartanga er “Flókaklöppin” með áhugaverðum áletrunum, fimm skotbyrgi frá seinni heimstyrjöldinni auk annarra minja er minna á þá tíð. Allt umleikis eru minjar Hvaleyrarkotanna sem og höfuðbýlisins. Í dag eru þær allar ómerktar á golfvellinum. Golfararnir, sem rætt var við, höfðu enga meðvitund um nýtingu svæðisins fyrrum. Sorglegt er til þess að vita að ákveðin íþrótt skuli vera orðin svo afgerandi að hún þurrkar út nánast allan áhuga þátttakenda á fortíðinni. Kannski skiptir núvitundin það meira máli en arfleifðin?

Oftar en einu sinni hefur því verið haldið fram að golfvellirnir séu einu staðirnir þar sem hægt er að halda “sjúklingum” innan afmarkaðs svæðis án girðinga. Afstaða til þess verður ekki tekin hér.

Gangan endaði við flakið við leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Hvaleyrarfjara

Hvaleyrarfjara með minjum Fjaðarkletts.