Nýjasel

Ætlunin var að kíkja á Nýjasel í Grafningi, sunnan Mælifells.

Nýjasel - Mælifell fjær

Gengið var frá Nesjavöllum til austurs yfir Stangarháls um Bletti ofan við Hagavíkurvelli. Upp úr dalnum var haldið áfram austur yfir Hvíthlíð og niður í dalverpi suðvestan Mælifells. Á þessari leið var yfir tvær langhlíðar að fara. Ofanverð Hvíthlíð er sléttur melur á móbergshrygg. Dalurinn austan hennar hefur einhvern tímann verið vel gróinn en er nú örfoka að mestu. Milli hans og Þverár með stefnu á Stapafell eru tveir lægri móbergshryggir. Milli þeirra er grannur gróinn dalur, opinn til suðurs. Undir eystri hryggnum er Nýjasel.
Selstaða Ölfusvetninga mun skv. lýsingum hafa verið sett þarna á 19. öld. Í lýsingum segir jafnframt um Nýjasel: “Sunnan frá Mælifelli gengur rani að ánni. Vestan í þessum rana, við Seltanga, eru tættur Nýjasels. Hér er talið hafa verið síðast haft í seli í Grafningi, árið 1849. Síðasta selstúlkan var Anna Þórðardóttir, síðar húsfreyja að Villingavatni (1850-1888). Nýjasel er móti norðvestri við smátjörn á mýrarbletti sem er alveg við selið. Selið var meira en klukkutíma gangur að því frá Ölfusvatni. Var fénu beitt í Laka. Er þetta eina selið sem er vitað með vissu, hvenær var síðast notað, en það var 1849. …“
NýjasselFramangreind lýsing á staðsetningunni er nokkuð ónákvæm. Í rauninni ganga tveir ranar sunnan úr Mælifelli. Sá eystri nær þó lengra til suðurs, svo til alveg að ánni. Milli þeirra er fyrrnefnd langlægð. Í henni eru mýrartjarnir, austan þeirra er selið. Tóftin er þrískipt; tvö stærri rými og það þriðja minna og til hliðar að sunnanverðu. Dyr snúa mót vestri, með útsýni að Skolla sunnarlega á Hvíthlíð.
Ef ekki hefði verið vegna heimilda um að Nýjasel væri yngra en Gamlasel
undir Selhól, miklu mun nær Ölfusvatni, mætti ætla að það væri eldra af útlitinu að dæma. Selið er líkara eldri gerð selja, miðgerðinni, en þeim nýrri. Það er orðið reglulegra en óreglulegustu útgáfur seljanna, en samt með hefðbundinni þrískiptingu með eldhúsið til hliðar. Þá gefur staðsetning selsins til kynna að það gæti verið eldra en Gamlasel því tilhneiging var að færa selstöðurnar nær bæjunum á síðasta tímaskeiði þeirra. Ekki var þá lengur þörf á að sækja svo langt í sel, þ.e. nýta úthagana, og sýna fram á með tilvist þess hvar landamerkin lágu (a.m.k.). Ekki er með öllu útilokað að hér sé ekki um svonefnt Nýjasel að ræða. Sel, sem lagðist af um miðja 19. öld, ætti að vera öllu greinilegra og með öðru lagi.
LakiÁ skilti við Nýjasel segir m.a.: “Hér var sel frá Ölfusvatni og nefndist Nýjasel. Það var aflagt um miðja 19. öld. Síðasta selstúlkan í Nýjaseli var Anna Þórðardóttir, fædd 1819. Gróðurfar umhverfis selið var með öðru móti en nú er, til dæmis átti bær í Ölfusi skógarítak á þessum slóðum fyrr á öldum. Uppblástur hefur aukist jafnt og þétt allt til vorra tíma. Algengt er að seltóftir séu þrískiptar líkt og hér í Nýjaseli og var þá um að ræða svefnhús, eldhús og mjólkurbúr þar sem mjólkin var unnin.”
Jafnframt segir: “Allajafna þótti seltíminn skemmtileg tilbreyting. Þess eru dæmi að selin hafi verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og líktust þau oft litlum bæjum. Stundum flutti húsbóndinn sjálfur þangað um tíma en annars sinnti vinnufólk þeim störfum sem til féllu og snerust aðallega um smölun, mjaltir og vinnslu mjólkurinnar. Selskapur var algengur á Íslandi allt frá fyrstu öldum byggðar en lagðist að mestu af á 18. öld. Á þessum tíma og raunar fram á þessa öld (20. öld) tíðkaðist að færa lömb frá ám og reka þau á afrétt. Yfirleitt voru lömbin orðin um 6 vikna gömul þegar þeim var stíað frá. Eftir það voru ærnar mjólkaðar en þegar hart var í ári bar við að byrjað væri að mjólka þær meðan lömbin gengu enn undir. Ær voru mjólkaðar í kvíum heima við bæi, á stekkjum eða stöðlum, eða við sel. Á flestum bæjum lögðust fráfærur af fyrir 1930 en dæmi eru um þær allt fram til 1951.
Skófmyndun á HvíthlíðSelin voru oft alllangt frá bæjum og tilgangurinn með þeim var einkum að nýta sumarbeit allt til heiða og dala og hlífa þar með heimatúnum fyrir ágangi búfjár. Algengt var að kýr og jafnvel hross væru rekin á sel með kvíánum. Þá var gróðurinn upp til fjalla oft kjarnmeiri og ærnar mjólkuðu betur en ella. Mjólkin sem kom úr ánum fyrst fyrir burð nefndist broddur og úr henni var gerður stinnur búðingur, klíkt og enn tíðkast með kúamjólk. Þetta var afar næringarrík fæða og kærkomin að voru, einkum á fátækum og barnmörgum heimilum. Annars voru að mestu sömu afurðir af sauðamjólkinnni og nú tíðkast úr kúamjólk, til dæmis ostur, skyr, rjómi, undanrenna og smjör. Smjörið var gjarnan geymt í skinnbelgjum af kindum og oftast etið súrt, enda lítið salt að fá og smjör almennt ekki saltað fyrr en á 19. öld. Súrt smjör gat haldist óskemmt í meira en 20. ár. Til forna var ríkidæmi manna meðal annars mælt í smjöreign; þannig átti Loftur ríki Guttormsson fjögur tonn af smjöri þegar hann lést 1432.”
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Nýjasel

Nýjasel.

 

Jón Thorarensen

Í greinasafni MBL.is má finna eftirfarandi minningarskrif Valdimars Briem að Jóni Thorarensen gegnum:

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

„Jón Thorarnesen var fæddur 31. október 1902 og dó 23. febrúar 1986. Hann ólst upp í Kotvogi í Höfnum. Þegar sr. Jón var fimm ára, var hann tekinn í fóstur af mikilhæfum merkishjónum í Kotvogi: Katli útgerðarmanni og bónda Ketilssyni og Hildi Thorarensen, sem var föðursystir sr. Jóns. Hjá þeim fékk hann gott uppeldi, eins og ætla má. Var honum unnað af þeim hjónum og öllu heimilisfólki. Kotvogsheimilið var menningarheimili í gömlum stíl og umsvif mikil við útgerð og verulegan landbúnað. Heimilisfólkið kunni firnin öll af gömlum ættarsögum frá Útnesjum, þjóðsögum og ævintýrum. Allt var krökkt af dularfullum vættum, sumum góðum, öðrum illum. Sjódraugar voru á sveimi, álfar ávallt nálægir og höfðu tíð samskipti við mennska menn, áttu jafnvel ástarævintýri með þeim. Álagablettir voru, þar sem ekki mátti hrófla við. Ef því var ekki hlýtt, hlaust af því illt gengi. Menn voru draumspakir og forvitrir og vissu margt um óorðna hluti, hvort heldur þeir voru til góðs eða ills.

Jón Thorarensen

Útnesjamenn – Jón Thorarensen.

Sr. Jón Thorarensen fæddist í Stórholti í Saurbæ vestur 31. október 1902. Foreldrar hans voru Bjarni Jón bóndi og seinna bæjarfógetaskrifari í Reykjavík, Jónssonar prests í Stórholti, er var sonur Bjarna amtmanns og skálds á Möðruvöllum í Hörgárdal, og kona hans, Elín Jónsdóttir. Hjónunum í Kotvogi duldist ekki, að fóstursonurinn var góðum gáfum gæddur, bókhneigður og vel fallinn til mennta. Um fermingaraldur hóf hann nám í Flensborgarskóla og lauk þar burtfararprófi 1918. Þaðan lá leiðin í menntaskólann og tók sr. Jón stúdentspróf árið 1924. Hann settist í guðfræðideild Háskólans haustið 1925 og lauk embættisprófi vorið 1929. Prestvígður var hann til Hruna í Árnesþingi 18. maí 1930. Ungur að árum fór hann að safna þjóðsögum og viða að sér fræðslu um þjóðhætti. Þá er sr. Jón kunnur fyrir skáldsögur sínar. Fyrsta skáldsaga hans, Útnesjamenn, kom út 1949 og vakti mikla athygli. Næst kom Marína 1960. Hafa báðar þessar sögur verið endurprentaðar og seinni útgáfurnar því nær útseldar. Enn átti sr. Jón eftir að skrifa skáldsöguna Svalheimamenn 1977 og loks bókina Litla skinnið, með blönduðu efni.

Jón Thorarensen

Sjósókn – Jón Thorarensen.

Sr. Jón var allra manna fróðastur um sjósókn í gamla daga og varðveitti í ritum sínum fjölda orða úr fornu sjómannamáli, sem er tungunni mikils virði. Um þetta efni gaf hann út tvær bækur gagnmerkar. Hin fyrri er Sjómennska og sjávarstörf 1932 og hin síðari Sjósókn 1945. Þá tók hann saman sagnabálkinn Rauðskinnu, sem fjallar um mannlíf og sagnir úr Höfnum og nágrenni.
Jón var velmetinn rithöfundur og heiðursfélagi í Félagi íslenskra rithöfunda frá 1982. En tæplega var hann metinn að verðleikum. Ritverk hans munu lifa lengur en mörg þau sem hærra hefur verið hossað á síðustu áratugum. Á efstu árum sínum tók sr. Jón að mála myndir, enda maður listrænn. Hann málaði einkum landslagsmyndir og bera þær vott næmum smekk hans og góðu handbragði. Sæmdir hlaut hann af opinberri hálfu, m.a. Fálkaorðuna. Heiðursborgari Hafnahrepps var hann.
Að ytra útliti var sr. Jón maður fríður sýnum. Röskur meðalmaður á hæð og þrekinn. Vörpulegur á velli, virðulegur og prúðmannlegur í framkomu og kurteis. Það var tekið eftir honum á götu. Þó að hann væri alþýðlegur í viðmóti, duldist ekki, að honum fylgdi höfðingjabragur, enda stórmenni í ættum hans.

Jón Thorarensen

Ingibjörg og Jón.

Síst má gleyma því að á bak við sr. Jón stóð góð og mikilhæf kona, frú Ingibjörg Ólafsdóttir. Þau gengu í hjónaband nokkrum dögum eftir að hann var vígður til Hruna. Minnisstæð eru þau sr. Jón og frú Ingibjörg er þau stóðu við altari Dómkirkjunnar að lokinni vígslu hans. Glæsileg, ung kona. Sambúð þerra var alla tíð ástúðleg og var frú Ingibjörg sr. Jóni oft hollur ráðgjafi. Hún stóð stöðug og virk í starfi prestskonunnar, sem er ábyrgðarfullt og þýðingarmikið. Frú Ingibjörg var formaður Kvenfélags Nessóknar áratugum saman og átti sinn mikla þátt í því að Neskirkja komst upp, þar sem áður hafði engin kirkja fyrirfundist. Fyrir félagsstörf var frú Ingibjörg sæmd Fálkaorðunni. Þeim varð þriggja barna auðið. Þau eru: Hildur, Elín og Ólafur.“ – (Vald. Briem)

Heimild:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/34/

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur í Höfnum.

Gunnuhver

Djúpborun er framtíðin í háhitarannsóknum, a.m.k. sú nánasta. Hér er um merkilegt þróunarverkefni að ræða, en hafa ber í huga að enginn árangur hefur orðið í orkurannsóknum hér á landi síðustu áratugina nema vegna tilrauna, vonbrigða og sigra á að því er virtist – óyfirstíganlegum vandamálum. Ef ekki hafi verið vegna mistaka, fórna, tilheyrandi kostnaðar og óþrjótandi þolinmæði, færi lítið fyrir núverandi háhitavirkjunum á Suðurnesjum.
Hér á eftir er stuttur útdráttur úr erindi sem flutt var á Orkuþingi 2001. Erindið var flutt af Guðmundi Ómari Friðleifssyni, Orkustofnun, en fleiri komu að gerð þess.
Kynnt var hugmynd um að bora 4 til 5 km djúpa rannsóknarholur í háhitasvæði landsins. Markmiðið er að finna yfirkrítískan jarðhitavökva djúpt í rótum háhitasvæðanna, rannsaka hann og kanna nýtingarmöguleika hans. Vitað er að yfirkrítískan jarðhita er að finna á þessum stöðum en ekki er vitað hvort hann er í vinnanlegu magni. Hreint vatn sýður við 100°C við yfirborð jarðar en með auknu dýpi og þar með auknum þrýstingi sýður það við stöðugt hærra þar til komið er að krítískum mörkum við tæplega 375°C og rúmlega 222 bara þrýsting. Við hærra hitastig og þrýsting er vatnið í einum fasa, einskonar gasfasa, og hvorki sýður né þéttist við hita- eða þrýstingsbreytingar ofan krítísku markanna. Neðan krítískra marka skilst vatn hins vegar í tvo fasa við suðu, þ.e. vatn og gufu.
Ljóst er að orkuinnihald vökva í þessu ástandi er firnahátt, en óljóst er hvort tekst að nýta það með hagkvæmum hætti. Til að átta sig á því hvert orkuinnihaldið er hefur verið nefnt að því megi helst jafna við orku í jafnþyngd af dýnamíti. Grundvallarspurningin er hvort vinna megi margfalt meiri orku úr háhitasvæðum en unnt er með hefðbundinni tækni. Með djúpvinnslu má væntanlega auka líftíma jarðhitakerfanna, draga úr umhverfisáhrifum, auka nýtni vinnslunnar umtalsvert og jafnvel vinna verðmæt steinefni og málma úr djúpvökvanum. Áhersla verður lögð á heildstæða vinnslu auðlindanna sem þýðir að fléttað verður saman framleiðslu á raforku, framleiðslu á varmaorku fyrir iðnað, lífrænni og ólífrænni efnavinnslu og skipulagðri fræðslu og ferðamennsku. Verkefnið er ekki einvörðungu áhugavert fyrir Ísland, heldur einnig í alþjóðlegu tilliti þar sem líklega má yfirfæra reynsluna héðan á háhitasvæði vítt og breytt um heiminn bæði á landi og á hafsbotni.
Talið hefur verið að Ísland henti vel til slíkra rannsókna þar sem landið er staðsett á miðju rekbelti jarðskorpuplatna á úthafshrygg. Hér er bæði hægt að skoða háhitakerfi sem flytja varmaorku til yfirborðs með missöltu sjávarættuðu vatni eins og á Reykjanesi og með tiltölulega fersku úrkomuvatni eins og á Hengilssvæðinu og á Kröflusvæðinu.
Til þessa hafa Hitaveita Suðurnesja hf., Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur staðið að þessu verkefni með ráðgjöf frá Rannsóknasviði Orkustofnunar. Leitað hefur verið eftir alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir aðrar en nýtingarrannsóknir og hefur miðað vel í þeim efnum. Ef áætlanir um verkefnið ganga eftir má búast við að ýmsum undirbúningi, svo sem hagkvæmniathugunum og umhverfismati, verði lokið á næstu tveimur árum þannig að boranir geti hafist árið 2004.
Á ársfundi Orkustofnunar 2003, sem haldinn var 20. mars, kom fram að margfalda mætti nýtingu úr háhitasvæðum Íslands með djúpborunum. Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðfræðingur, fjallaði um efnið:
“Undanfarin tvö ár hafa þrjár stærstu orkuveitur landsins, Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, staðið að forathugun á því hvort orkuöflun úr háþrýstum 5 km djúpum borholum, 400-600°C heitum, geti verið álitlegur virkjanakostur. Athugunin hefur tekið til jarðvísindalegra og verkfræðilegra þátta. Ein grundvallarspurningin hefur snúist um það hvort yfirleitt sé hægt að bora holu sem þolir svo háann hita og þrýsting. Önnur spurning hefur snúist um það hvernig
skynsamlegast gæti verið að meðhöndla borholuvökvann meðan á prófunum stendur.
Þriðja spurningin hefur svo snúist um það að velja bestu borholustæðin fyrir fyrstu djúpu holurnar. Vegna mikils kostnaðar við djúpar borholur þarf að kappkosta að
fyrstu borholurnar heppnist vel og svari því hvort háhitavökvi í yfirkrítísku ástandi sé hagkvæmur og hugsanlega betri virkjunarkostur en sá hefðbundni. Þar skiptir höfuðmáli að virkjun yfirkrítísks vökva standist samkeppni við aðra virkjunarkosti. Kostnaður við borun fyrstu 5 km djúpu borholunnar og tilrauna á henni verður þó óhjákvæmilega hærri en kostnaður við borun vinnsluholna síðar meir. Forhönnunarskýrslunni var skilað til orkuveitnanna í byrjun febrúar 2003.

Aðdragandi
Forsögu málsins má rekja til greinar sem birtist á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu í Japan árið 2000. Þar var kynnt hugmynd um borun 4-5 km djúprar borholu eftir jarðhitavatni í svokölluðum yfirmarksham (eða yfirkrítískum ham) og verkefnið kallað Iceland Deep Drilling Project (IDDP). Reykjanes, Nesjavellir og Krafla voru nefnd til sögunnar sem hugsanleg borsvæði. Boðið var upp á alþjóðlegt samstarf um málið.
Hugmyndin hlaut góðar viðtökur enda eru Íslendingar ekki einir um að renna hýru auga til eiginleika vatns í yfirkrítískum ham. Orkufyrirtækin, ásamt Orkustofnun, höfðu í byrjun sama árs sett á fót samstarfsnefndina Djúprýni (DeepVision) sem stýrir verkefninu. Í byrjun árs 2001 ákváðu orkufyrirtækin síðan að ráðast í hagkvæmniathugunina og verja til þess um 30 Mkr, sem síðar var aukið um 15 m.kr. Sérfræðingar frá veitufyrirtækjunum sjálfum, Rannsóknasviði Orkustofnunar, verkfræðistofunni VGK hf., Raunvísindastofnun Háskólans og Jarðborunum hf. hafa starfað að athuguninni. Um mitt ár 2001 var jaframt komið á fót ráðgjafahóp íslenskra og erlendra
sérfræðinga (SAGA-hópurinn), eftir að styrkur hafði fengist frá International Continental Scientific Drilling Program (ICDP). Ísland gerðist aðili að ICDP sama ár og kostar Rannsóknarráð Íslands aðildina. Með tilstyrk ICDP hafa þrír fjölþjóðlegir
vinnufundir verið haldnir hér á landi, með alls um 160 þátttakendum. Fyrsti fundurinn var haldinn í júní 2001 og markaði sá fundur upphaf alþjóðlegs samstarfs um íslenska
djúpborunarverkefnið (IDDP). Haldinn var sérstakur bortæknifundur á Nesjavöllum í mars 2002, og jarðvísindafundur um hálfu ári síðar eftir að viðbótarstyrkur hafði fengist frá ICDP. Samtals nema styrkir frá ICDP um 10 m.kr. Á þeim fundi kynntu
fjölmargir erlendir sérfræðingar rannsóknartillögur og lýstu áhuga sínum til þátttöku í djúpborunarverkefninu. Þátttaka erlendu sérfræðinganna og SAGA hópsins, og þátttaka innlendu ráðgjafanna á umræddum vinnufundum, hefur að mestu leyti verið orkufyrirtækjunum að kostnaðarlausu. Metinn heildarkostnaður fram til þessa er vel yfir 100 milljónir Ikr, þar af hefur um helmingur farið í hagkvæmniathugunina.
Iðnaðarráðuneytið hefur sýnt verkefninu áhuga og velvild.

Framtíðarsýn
Djúpborunin er hafin á Reykjanesi. Einn til tveir áratugir gætu hins vegar liðið áður en endanlegt svar fæst við því hvort hagkvæmt sé að nýta háhitann í yfirkrítísku ástandi. Reynist svarið jákvætt er ljóst að nýtanlegur orkuforði þjóðar-
innar myndi stóraukast og ávinningur fyrir þjóðarbúið gæti orðið umtalsverður. Áleitin spurning er hvort margfalda megi nýtingu úr vinnslusvæðunum, t.d. 3-5 sinnum? Í dag er verið að vinna um 100 MWe úr hverju svæði. Ekki er vitað hvað háhitasvæðin geta staðið undir mikilli vinnslu og því verður ekki svarað í bráð. Með djúpborunarverkefninu er horft til hugsanlegs orkugjafa framtíðar. Ein vel heppnuð borhola gæti þó í einni svipan fleytt okkur ártugi fram á við í orkuvinnslutækni við nýtingu háhitasvæða. Vel heppnuð tilraun hér myndi að sama skapi gagnast alþjóða samfélaginu við nýtingu háhitasvæða vítt og breitt um heiminn.

Bortækni og kostnaður
Ósk um að tekin verði samfelldur borkjarni frá 2,4 til 5 km í IDDP borholunni, í tveimur áföngum, hefur komið fram á öllum alþjóðlegu fundunum í tengslum við IDDP. Með borkjörnum er unnt að afla ganga sem varpa skýru ljósi á það hvernig
varmaskipti milli hitagjafa og jarðhitavatns eiga sér stað í náttúrunni, og tengja þær vinnslutæknirannsóknum á jarðhitavökvanum. Borkjarnataka hleypir hins vegar upp
borkostnaði umfram venjulega hjólakrónuborun. Í ljós hefur komið að kostnaður með venjulegri boraðferð í 5 km dýpi er um 3 sinnum hærri en borun venjulegrar 2 km háhitaholu. Þá tvo kosti þarf að bera saman við ávinning af djúpum holum. Kjarnataka hleypir hins vegar kostnaði upp eins og fyrr segir, og því er ekki óeðlilegt að margir hagsmunaaðilar sameinist um tilraun af þessu tagi. Þekkingaraukinn verður allra en holan gagnast þeim best er svæðið virkjar. Borun holu með kjarnatöku frá 2,4 km í 3,5 km og síðan áfram, eftir rýmingu og fóðringu, frá 3,5 km niður í 5 km dýpi tekur um 8 mánuði. Borun venjulegrar háhitaholu niður í 5 km dýpi myndi hins vegar taka um 5 mánuði. Borun venjulegrar holur niður í 2-2,5 km tekur um 2 mánuði. Áætlaður kostnaður við holu með tvöfaldri kjarnatöku er 13-14 milljónir dollara, en venjulegrar vinnsluholu í 5 km um 8-9 milljón dollara. Kostnaður við venjulega háhitaholu í 2,5
km dýpi er um 3 milljónir dollara.

Ávinningur
Í forhönnunarskýrslunni er lagt mat á hugsanlegan ávinning orkuvinnslu úr yfirkrítískum vökva, og er þar reiknað með að nota þurfi varmaskipta. Niðurstaðan bendir til að ávinningur geti orðið allt að tífaldur við hagstæð skilyrði. Raforkuframleiðsla úr háhitaholum á Íslandi er að meðaltali um 4-5 MWe á holu. Ein djúp hola gæti þannig jafnast á við allt að 10 meðalholur, svo dæmi sé tekið. Slíkan ávinning þarf að bera saman við þrefaldan borkostnað.

Óvissa ríkir um áhrif efnasamsetningar á vinnslueiginleika vökvans. Vitað er að uppleysanleiki steinefna eykst með hækkandi hita og þrýstingi og því er hugsanlegt að yfirkrítískur vökvi geti reynst efnaríkur og erfiður í vinnslu? Flestir eru þó sammála um það að íslensku ferskvatnskerfin séu líklegri til að hafa hagstæðri vinnslueiginleika en önnur háhitakerfi, sem flest eru sölt og sum hver margfalt saltari en sjór. Skilyrði á Íslandi til að kanna vinnslueiginleika náttúrlegs jarðhita í yfirkrítísku ástandi eru því óvenju hagstæð. Þökk sé mikilli úrkomu og vel lekum jarðhitakerfum í rekbeltunum. Að auki finnast hér bæði ísölt og sölt háhitakerfi á Reykjanesskaga, sem kjörin eru til djúpborana og ýmiskonar vinnslutilrauna. Hagstæð skilyrði ættu að vera Íslendingum frekari hvatning til dáða.
Djúpborunarverkefnið hefur í för með sér margvíslegan óbeinan ávinning. Stærsti óbeini ávinningurinn felst í því að komast að hvort dýptarbilið milli 2 og 4 km dýpis sé vinnsluhæft til hefðbundinnar orkuframleiðslu. Hingað til hafa háhitasvæðin
einungis verið nýtt niður á um 2 km dýpi og ekki er vitað hversu mikill orkuforði er í berginu á næstu 2 km þar fyrir neðan. Líklegt er að svæðin séu nýtanleg með hefðbundnum hætti niður á 3–4 km dýpi. IDDP borholur verða fóðraðar af niður á 3,5-4 km dýpi. Ef vitað væri um góða vatnsæð utan við steyptu fóðringuna, þá er bortæknilega auðvelt að skábora út úr fóðringunni og einfaldlega sækja vatnsæðina.
Loks mætti nota IDDP holu til niðurdælingatilrauna. Tiltölulega köldu vatni yrði þá dælt niður í heitt berg neðan 4 km dýpis í þeim tilgangi að brjóta það upp og auka við lekt og vatnsforða í viðkomandi svæði. Varminn yrði síðan nýttur í grynnri háhitaholum þar ofan við. Mikilvægt er að orkuframleiðendur átti sig á ávinningi af þessu tagi þegar fjárhagslegt áhættumat er lagt á IDDP djúpborun. Góðar líkur eru á að verulegur hluti fjárfestingar í djúpum borholum myndi nýtast viðkomandi
orkuveitu, hvernig sem á málið er litið.

Vinnslutækni
Í því skyni að forðast vandamál vegna hugsanlegra útfellinga eða tæringarhættu meðan á IDDP vinnslutilraunum stendur, hefur verið hönnuð sérstök pípulögn eða tilraunarör niður í holuna, um 3,5 km langt. Rörið á að vera hægt að taka upp úr holunni eftir þörfum og í því eiga að vera hita og þrýstiskynjarar og útfellingaplötur af ýmsu tagi, sem skoða má nákvæmlega meðan á tilraununum stendur. Eftir upptekt má setja rörið niður aftur, eða nýtt í stað þess gamla og þannig koll af kolli þar til tilraunum lýkur. Að tilraunum loknum á fóðraði hluti borholunnar að vera jafngóður og í upphafi og tilbúinn til vinnslu. Að líkindum myndum menn kjósa að rýma vinnsluhluta holunar út áður en holan færi í vinnslu, en vinnslunni yrði síðan hagað í samræmi við niðurstöðu tilraunarinnar. Vökvinn sem til stendur að vinna er
einfaldlega yfirhituð háþrýst gufa sem ætti að vera skraufþurr, ef gufan blandast ekki við kaldara vatnskerfi ofar í holunni, eða kólnar ekki of mikið á leiðinni upp á yfirborð. Holan er fóðruð mjög djúpt til að koma í veg fyrir slíka blöndun. Áætlað er að vinnslutilraun taki nokkra mánuði og kosti um 5-6 milljón dollara.

Staðsetning borholna
Að mörgu hefur þurft að hyggja varðandi staðsetningu á IDDP borholum. Fjögur til fimm álitleg svæði fyrir borteiga hafa þó verið valin á virkjanasvæðunum á Nesjavöllum, í Kröflu og á Reykjanesi. Þeim var forgangsraðað í sömu röð.
Mikilvægt er að fyrsta holan sé boruð þar sem líklegast er að holan skili tilætluðum árangri og þar sem auðveldast er talið að fást við jarðhitavökvann. Uppstreymissvæðin rétt austan við Kýrdalssprunguna á Nesjavöllum, í Hveragili í Kröflu, og í miðju
Reykjaneskerfinu, eru öll álitin vænleg til árangurs. Orkuveiturnar þurfa að heimila borun á eigin svæðum áður en lengra er haldið. Yfirstandandi virkjunaráform orkufyrirtækjanna kunna að hafa áhrif á þá ákvörðun, svo og umhverfimál og fleira.
Hár borkostnaður varð til þess að nýr valkostur um djúpboranir var talsvert ræddur á ráðstefnunni í október og skoðaður nánar í framhaldi af því. Hann var um borun einskonar æfingaholu (pilot hole), þar sem einhver gömul hola yrði einfaldlega dýpkuð með kjarnabor. Hola KJ-18 í Kröflu var m.a. nefnd til sögunnar, en hún er ófóðruð niður í 2,2 km dýpi. Byrjað yrði á því að fóðra holuna niður í botn og kjarnabora síðan niður í allt að 4 km dýpi. Borun æfingaholu hefur marga góða kosti í för með sér og veitir
mjög mikilvægar upplýsingar, en kemur þó ekki í staðinn fyrir “fullvaxna” djúpborunarholu.

Á ráðstefnu Orkustofnunar þann 17. apríl árið 2004 flutti iðnðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, erindi um nýja möguleika til orkuöflunar. Hún sagði m.a.: “Öll umræða um orkumál í heiminum í dag snýst eins og kunnugt er um sjálfbæra orkuvinnslu og nýtingu og krafa er um að allar þjóðir kanni möguleika sína á endurnýjanlegri orku.
Um þessar mundir höfum við horfst í augu við mikla hækkun á olíu á heimsmarkaði, sem margir sérfræðingar telja að geti orðið varanleg um lengri tíma. Við Íslendingar búum góðu heilli svo vel að hafa aðlagað okkur að þessum aðstæðum fyrir 20-30 árum þegar sérstakt átak var gert hér á landi við að draga úr olíunotkun landsmanna með því að auka hlut hitaveitna og raforku þar sem því var við komið. Árangurinn er alþekktur, húshitun landsmanna með þessum orkugjöfum er um 99% og raforkuframleiðsla okkar byggist alfarið á þeim. Segja má að allar innfluttar olíuvörur fari til samgangna og skipaflota landsmanna og við eigum ekki möguleika á að draga úr notkun þeirra nema með aukinni tækniþróun við að nýta endurnýjanlega orku til samgöngutækja og skipaflotans.
Enn sem komið er eru nýir endurnýjanlegir orkugjafar erlendis ósamkeppnisfærir við hefðbundna orkugjafa, t.d. jarðgas og kjarnorku. Einna mest hefur þróunin orðið í virkjun vindorku í Vestur-Evrópu, aðallega í Þýskalandi og Danmörku. Verð frá þessum orkuverum er þó enn ríflega tvöfalt hærra en við þekkjum til hér á landi, en það fer hægt lækkandi.
Rannsóknir á nýjum orkugjöfum hér á landi eru eðlilega skemur á veg komnar en víða erlendis. Skýringin er vitaskuld sú að við höfum einbeitt okkur að rannsóknum jarðhita og vatnsafli, sem við eigum góðu heilli enn gnægð af. Hugmyndir manna um lífræna orkuframleiðslu í Evrópu hafa ekki staðist á undanförnum árum, en þar hafa hins vegar önnur lönd eins og Brasilía verið í farabroddi við að framleiða ethanol sem eldsneyti á bifreiðar. Íslenska lífmassafélagið hefur undirbúið á síðustu árum nýtingu ethanols sem orkugjafa hér á landi, sem verður forvitnilegt að fylgjast frekar með. Rannsóknir hafa einnig verið gerðar hér á landi á því hvort unnt væri að framleiða etanol eða metanol með rafgreindu vetni sem blandað væri saman við kolefnissambönd frá Járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði, en það virðist enn sem komið er of dýr kostur til eldsneytisframleiðslu miðað við hefðbundið olíueldsneyti.
Á sviði jarðhitaleitar og vinnslu fleygir tækninni fram eins og á flestum öðrum sviðum. Okkur hefur í síauknum mæli tekist á farsælana hátt að virkja jarðhitann til hitunar og raforkuframleiðslu. Sífellt færri svæði landsins teljast nú vera „köld“ svæði þar sem ekki hefur tekist að finna heitt vatn. Leit á slíkum svæðum er hins vegar mun dýrari en hefðbundin jarðhitaleit á heitari svæðum og þarf að öðru jöfnu að leggja í langtum meiri kostnað við þær rannsóknarboranir. Þó svo að vel hafi tekist til um það átaksverkefni um jarðhitaleit á köldum svæðum, sem staðið hefur yfir frá árinu 1998, hefur skort fjárhagslegan grundvöll fyrir því að skipulega væri unnt að standa að rannsóknum á þessu sviði.
Nefna má nokkra aðra nýja möguleika til orkuöflunar. Í annan stað vil ég nefna djúpborunarverkefnið, ekki er hægt annað en að minnast á það þegar rætt er um nýja möguleika til orkuöflunar hér á landi til framtíðar. Hér er um að ræða rannsóknarverkefni á alþjóðamælikvarða sem kosta mun hundruð milljóna í upphafi og milljarða er yfir lýkur. Djúpborun er tilraunaverkefni að því markmiði að nýta háhitasvæði okkar mun betur en hingað til hefur verið gert og bora tilraunaholu niður að rótum jarðhitauppsprettunnar á 4-5 þús. metra dýpi. Líkur benda til að með djúpborun verði unnt að margfalda orkugetu ákveðinna háhitavæða sem ligga nærri Atlantshafshryggnum. Þetta er hins vegar langtíma rannsóknarverkefni sem erlendir aðilar munu vinna að í samstarfi orkufyrirtækja og stjórnvalda hér á landi, enda geta slíkar rannsóknir skipt sköpum varðandi möguleika á orkuvinnslu á næstu áratugum.
Í þriðja lagi vil ég nefna orkunýtni. Bæði orkusparnaður og orkunýtni eru lykilorð í umræðu um orkumál meðal almennings erlendis vegna þess hve orkuverð þar er hátt. Hér hugsum við lítið um þetta enda er ekki lögð nein rækt við það af seljendum orkunnar að spara hana. Við höfum hafið og munum enn auka framleiðslu raforku með jarðvarmavirkjunum sem aðeins nýta 11-12% af orkunni, en 85-90% af virkjaðri orku er kastað út í umhverfið. Bætt nýting orkunnar er því eitt form af orkuöflun..
Eins og ég hef rætt um er efni þessa fundar hvergi nærri tæmt með þeirri dagskrá er fyrir liggur. Okkar bíða því fleiri fundir sem fjalla munu um nýja orkuöflunarmöguleika. Ég vonast til þess að fundurinn verði til þess að við höldum áfram að hugsa og horfa fram á veginn til nýrra tækifæra í orkusamfélagi framtíðarinnar.”

Seltún

Hverasvæðið við Seltún í Krýsuvík er einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn hér á landi – og ekki af ástæðulausu.
Óvíða á landinu er litadýrðin meiri á háhitasvæðum en einmitt þarna; margir hverir, Til Seltúnsbæði leir- og gufuhverir. Upplýsingaskilti er (árið 2009) við bílastæðið, en það er lítið meira en lýti á einstakri náttúrperlu. Upplýsingarnar segja í rauninni ekkert um hverasvæðið og nágrenni þess, myndun jarðhitans, tilurð hans og birtingarform. Með hóflegri gagnrýni má þó segja að upplýsingamiðlun á Seltúnssvæðinu sé stórlega vanrækt. Á staðnum kemur fram að hverasvæðið er á einum háhitasveimi af fimm á Reykjanesskaganum (but who cares). Margvísleg brennisteinssambönd eru í hverunum og gufunni, en allt hjálpast það að því að gera jarðveginn ófrjóan. Töluverð brennisteinsútfelling er frá hverunum á svæðinu, en þrýstingsmyndunun hefur gefið því einstaka litadýrð (og það er það sem skiptir máli, þ.e. það sem stendur auganu næst).
LeifarJarðhitarannsóknir fóru fram á Seltúnssvæðinu á fimmta ártatug síðustu aldar. Í Sögu Hafnarfjarðar kemur fram að „enginn vafli leikur á því að langverðmætustu hlunnindin í Krýsuvík er hitinn, sem þar er í jörðu. Á árunum 1935 og 1936 athugaði svissneskur prófessor, sem hét Sonder, stóra gufuhverinn [Austurengjahver/Stórahver] í Krýsuvík, og reyndist hann vera 116° heitur á yfirborðinu. Prófessorinn taldi, að í hvernum væri ekki yfirborðsvatn, heldur gufa úr iðrum jarðar, þannig að unnt ætti að vera að auka vatnsmagnið og hitastigið með borunum. Hann lagði til, að hitastigið yrði aukið upp í 150-160°heita gufu og vatnið í Kleifarvatni hitað upp með henni og það síðan leitt þaðan 13-140° heitt til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ekki varð úr þessum framkvæmdum.

Í Seltúni

Nú beindust augu ráðamanna Hafnarfjarðar að þeim möguleika að hagnýta jarðhitann í Krýsuvík til raforkuframleiðlsu. Tilraunaboranir í því skyni hófust árið 1941 og í árslok 1951 lauk þessum þætti í sögu Krýsuvíkur án þess að bera tilætlaðan árangur. Eftir standa borholustæðin, utan eins, sem sprakk í loft upp.
Fimmtudaginn 25. október 1999 varð mikil gufusprenging á hverasvæðinu við Seltún. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Leifar

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til rannsóknarholunnar sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Gufan úr rannsóknarholunni var talin nægja til 3 MW raforkuframleiðslu en raforkuvinnslan varð aldrei að veruleika. Holan hefur blásið líkt og hver upp í gegnum steypta pallinn í kringum holuna síðustu 20 árin. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.

Á Seltúnssvæðinu

Barth (1950) segir að einn hveranna þar hafi gosið 3-4 metra háum gosum af leirkenndu vatni árið 1936. Hann segir flesta hverina vera súra með pH gildi um 4.  Þó séu þar einhverjir basískir hverir sem streyma út í lækinn sem rennur út í Kleifarvatn.
Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum sem fyrr sagði, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Austurengjahver er talin hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum. Aðrir þekktir hverir við Seltún er Pínir og Svunta. Pínir var öflugur gufuhver þar til fyrir nokkrum árum síðan að hann breyttist í hitaskellu. Hann var hægra megin þar sem fyrst er gengið inn á hverasvæðið frá bílastæðinu. Svunta er ofar í gilinu, skammt norðan við tréhringpall.

Leifar

J. Wright, einn leiðangursmanna í Íslandsleiðangri Stanleys árið 1789, segir þetta um hverina í Krýsuvík: „Við komum að hverunum kl. 7. Í fimm eða sex þeirra var dökkblár grautur mismunandi þykkur, og spýttu þeir honum upp í verulega hæð. Hinn stærsti þeirra er ein hin ljótasta og ægilegasta sjón, sem maður fær augum litið. Þetta er stór, ef til vill botnlaus ketill meira en 30 feta langur og 20 feta breiður, bókstaflega barmafullur af sjóðandi brennisteini, sem kastast upp í 10-12 feta hæð við suðuna. Auk þess hávaða, sem suðan veldur, heyrðist annað hljóð, sem virtist koma neðan úr jörðinni, líkast þungum fossnið. Það eykur á óhugnað þessa staðar, að geysilegir hvítir gufumekkir streyma sífellt fram og líkt og veltast yfir klettana sem liggja að baki og allir eru tættir í sundur. Eins og við hverina, sem við skoðuðum í gær, er hér gnótt af hreinum, kristölluðum brennisteini.“

Seltúnshverasvæðið

Trépallar og -stígar hafa verið lagðir um Seltúnshverasvæði fyrir ferðamenn. Þar sem svæðið er í raun miklu mun stærra en gefið er í skyn þyrfti að lengja stígana, bæði upp fyrir hæðirnar, inn fyrir Seltúnshöfða og niður með hverasvæðinu norðan við Hnakk þar sem hægt væri að tengja það Svuntuhverasvæðinu. Með því yrði ferðamönnum sköpuð ný sýn á hverasvæðið í heild sinni og nýting þess sem slík myndi margfaldast því fallegasti og tilkomumesti hluti þess er einmitt norðan við Hnakk (nú utan seilingar). (Sjá meira um ofanvert Seltúnssvæðið HÉR).
Sjá einnig efni um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík HÉR. Og fleiri myndir af Seltúnssvæðinu HÉR.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Barth, Tom. F. W., 1950: Volcanic Geology: Hot Springs and Geysers of Iceland. Washington, Carnegie Institution of Washington, 174 bls.
-Björn Hróarsson og Sigurður Sveinn Jónsson, 1991: Hverir á Íslandi. Reykjavík, Mál og menning, 160 bls.
-Íslandsleiðangur Stanleys 1789: Ferðabók, 1979. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Örn og Örlygur, 352 bls.
-Vefur orkustofnunar: www.os.is/krysuvik/
-Saga Hafnarfjarðar II, bls. 35 -54

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.

Krosssel

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er, auk selja frá Reykjum og Vorsabæ, getið um selstöður frá Völlum og Krossi, hvorutveggja hjáleigur frá Reykjum.
MulagataÍ Jarðabókinni segir um selstöðu frá Völlum: „Selstaða er í betra lagi til fjalls í Reykjalandi, en hefur í nokkur ár ei brúkast“.
Um selstöðuna frá Krossi segir: „Selstaða hefur brúkuð verið í heimajarðarinnar landi, er enn nú til gagnleg, þó ei hafi í nokkur ár brúkast“.
Örnefni eru til upp undir fjalli, Múlanum, beint upp af bæjunum,s.s.
Kross-stekkatún, Kross-stekkur, Vallaá, Vallagil og Stekkhóll (Stekkjahóll / Stekkshóll). Um og neðan undir hólunum, sem eru þrír, lá Múlagatan og sést hún enn greinilega. Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði
á Hérðasskjalasafni Árnesinga. „Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.“

Stekkholl-1

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili, á Kross-stekkatúni, eru aflangar þústir er gætu verið leifar mannvirkja. Líklegt má telja að annað hvort báðar eða önnur hafi að geyma leifar fornrar selstöðu frá Völlum. Ekki vottar fyrir veggjum eða öðru í þústunum. Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Kross-stekkjatún, sem fyrr sagði. „Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.“
Þegar framangreindar tóftir voru skoðaðar má krosssel-2telja líklegast að þarna hafi Krossselstaðan verið. „Stekkurinn“ hefur í raun verið síðasta selshúsið í selstöðunni, þ.e. skjól fyrir selsmatseljuna, og „garðlagið“ aftan hennar hefur greinilega verið stekkur, sem tóftin dregur nú nafn sitt af. Um er að æða óvenjulegt sel á Reykjanesskaganum að því leyti að einungis er um eitt viðverurými að ræða en ekki þrjú eins og venja er. Skýringin getur auðveldlega verið sú að svo stutt er heim til bæjar, einugis um stundarfjórðungs gangur, að óþarfi hafi verið að byggja fullgilt sel á staðnum, enda er selstaðan bæði með afbrigðum skjólsæl fyrir rigningaráttinni þar sem hún kúrir undir klettunum og gnægt vatn hefur verið að fá úr læknum. Á meðfylgjandi mynd, sem tekin er ofan af klettunum má vel sjá stekkkinn og litla tóftina við enda hans vinstra megin. Mun líklegra er að þarna hafi verið selstaða frá Krossi, enda gefur örnefnið „Kross-stekkur“ tilefni til að ætla að svo hafi verið, þrátt fyrir að hún liggi við Vallaá (reyndar austan við hana).

Vallasel-2

Vallsel – uppdráttur ÓSÁ.

Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3m x 5,7m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.“ Þarna hefur líklega verið stekkur fyrrum frá eldri seltóftunum á Kross-stekkatúni, sem fyrr er getið.
Skammt vestar er Stekkhóll. Á honum eru leifar stekks undir brotabergskletti (allir klettar í hólunum eru sambland af móbergi og brotabergi). Af ummerkjum að dæma gæti efri hluti hans hafa þjónað sama hlutverki og tóftin í Krossseli, þ.e. verið skjól fyrir selsmatsseljuna. Ástæðulaust hefur verið að að byggja þarna fullgilt sel því vegalengdin frá því heim að bæ er sú sama og frá Krossseli. Líklegt má telja að selsmatsseljan hafi ekki hafst við í selstöðunni nema yfir dagmálstímann, en smalinn haft aðstöðu þar um náttmál. Vatn er stutt að sækja í Vallaána. Miðað við heilleika Krosssselsins má ætla að selstaðan hafi ekki lagst af fyrr en um aldamótin 1900 og þá hafa áður verið samnýtt með Völlum um nokkurn tíma.
Gengið var um svæðið til að gaumgæfa hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Í leiðinni voru skoðaðar minjar Reykjahjáleigunnar vestar undir Reykjafellinu. Hún fór í eyði skömmu fyrir miðja síðustu öld, enda ber hún þess öll merki.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.


Heimild:
-Kristinn Magnússon – Rammaáætlun, fornleifaskráning 2008.
-Þórður Ögmundur Jóhannsson. Reykjatorfa. Örnefnaskrá. Örnefnastofnun.

Krosssel

Krosssel.

Saurbær

Ofan við Saurbæ á Kjalarnesi eru tóftir undir holti. Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: „Efstu ásarnir upp af bæ heita Fjárhúsásar. Svo eru klettaásar og sund á milli þeirra. Næstur suður af Skarðásum í sömu hæðarröð, í miðjum ásum er Réttarás. Utan hans nokkuð í líkri hæð Saurbær 3 heitir Torfás, og þar aðeins utar er Móás, en hann stefnir ekki alveg eins. Enn sunnar en heldur ofar er einn ás, Fjárhúsás….“. Ari minnist ekki á Saurbæjarréttina í sinni skrá.

Saurbæjarrétt

Saurbæjarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingunni (Ö.S.1) segir: „„Næstur suður af Skarðsásum í sömu hæðarröð, í miðjum ásum er Réttarás.“
Þegar tóftirnar undir Réttarási eru skoðaðar kemur í ljós grjóthlaðin þvíhólfa rétt, gróin að hluta. Garðarnir eru greinilegir í annars háu grasi.
Undir Réttarási eru rústir Saurbæjarréttar.

Saurbær

Hestaréttarásrétt – loftmynd.

Í aths. O[dds] J[ónssonar] við Saurbæ segir hann, sem viðbót við fyrri skráningar: „Hestaréttarás er einn af Ásum, endaásinn næst Skarði [Tíðarskarði]. Norðaustan undir ásnum er einföld grjóthlaðin rétt.“
Þegar Hestaréttarás var skoðaður kom í ljós grjóthlaðin einföld ferhyrnd rétt norðaustan undir Ásnum.

Heimildir
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Saurbæ. (Ö.S.1).
-Athugasemdir O.J. við örnefnalýsingu Saurbæjar.

Saurbær

Saurbæjarrétt.

Vorsabæjarsel

Þegar FERLIR var á göngu um Gufudal ofan við Hveragerði sást á landakorti örnefnið Selgil fremst í austanverðum dalnum.

Reykjasel

Reykjasel/Gufudalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki var vitað um selstöðu þarna; hennar hefur hvorki verið getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningum af svæðinu. Að fenginni reynslu þar sem nánast má heita tryggt að leifar selstöðu kunni að finna þar slíkra örnefna er getið var ákveðið að skoða gilið og nágrenni þess. Selgilslækur rennur ofan úr gilinu, en skammt norðan þess rennur annar lækur, bergvatnslækur, ofan úr hlíðum Selfjalls. Selfjall þetta er einnig nefnt svo vegna selstöðu austan þess.
Frá Gufudal er fjallið nefnt Reykjafell (-fjall).
Við leit komu í ljós leifar af stekk skammt upp með norðanverðum Selgilslæk. Hann hefur verið hlaðinn úr smágrjóti úr lækjarfarveginum og er nú nánast jarðlægur öðrum en fráum augum fornleifaleitenda. Norðan við hann er augsýnilega gömul stutt gata upp á gróinn bakka. Uppi á bakkanum, á grasi grónum stalli, eru leifar selstöðunnar, hér nefnd Gufudalssel (Reykjasel). Um er að ræða nokkuð stóra tóft, tæplega 7 metra langa (660 cm) og um 480 cm breiða. Op er mót vestri. Vestan hennar eru tvær aðskyldar hringlaga tóftir og er sú syðri öllu greinilegri. Frá selstöðunni er ágætt útsýni yfir neðanvarðan framdalinn. Tært vatn er í læknum og hið ágætasta skjól undir grónum brekkunum, sem halla frá selinu upp með hlíðum Selfjalls (Reykjafells). Sauðalækur (Sauðaá) rennur um Gufudal.
Af ummerkjum að dæma ber selstað þessi merki um að hafa verið Reykjasel-2tiltölulega nálægt bæ. Stóra tóftin hefur að öllum líkindum verið baðstofa og hinar tvær aðskilið búr og aðskilið eldhús. Það er svolítið óvenjulegt af selstöðum á Reykjanesskaganum að dæma, en hún ber með sér að geta verið frá seinni hluta 18. aldar.
Af loftmynd að dæma virtust tóftir vera vestast við Varmá (Hengladalaá), við Nóngil undir Kvíum, sunnan Djúpagils. FERLIR hefur áður getið um forna reiðleið upp frá því um Kvíarnar, bratta hlíð, áleiðis upp á austanverða Hellisheiði þar sem hún liggur síðan til norðvesturs um gróninga að Fremstadal og síðan inn á Götu milli hrauna að Hellisskarði.

Vorsabæjarsel

Vorsabæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi gata sést vel skáhallt í brattri hlíðinni. Ætlunin er að fylgja þessari götu fljótlega frá þeim stað er hún fer yfir vað á Hengladalaánni, upp Nóngil og á ská upp hlíðina Kvíahlíðina fyrrnefndu ofan Djúpadals.
Við skoðun á Nóngili kom í ljós leifar selstöðu; þrjú rými og stekkur til hliðar (austar). Um er að ræða dæmigerða selstöðu af eldri gerð, þ.e. óreglulega þyrpingu rýma; baðstofu, búrs og eldhúss með sér inngangi. Selstaðan, sem virðist gleymd, gæti hafa verið frá því á 17. eða 18. öld.
Björn Pálsson, fyrrum héraðsskjalavörður Árnesinga, sem er manna fróðastur um sögu og minjar á þessu svæði, sagðist aðspurður halda að selstaðan við Hengladalaánna hefði verið frá Völlum og selstaðan við Selgilið í framanverðum Gufudal hefði sennilega verið frá Reykjum af landamerkjum að dæma því Reykir hafi átt land austan við Sauðalækinn.
Með framangreindum selstöðum hefur FERLIR staðsett 265 selstöður á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Líklegt má telja, að fenginni reynslu, að fleiri slíkar eigi eftir að opinberast í náinni framtíð (sjá t.d. HÉR).
Líklegt má telja að meiri fróðleikur um framangreindar selstöður og nálægar minjar muni koma til umfjöllunar hér í framtíðinni. Minjarnar voru færðar inn á sérstaka hnitaskrá. Í henni eru varslaðar allar minjar sem FERLIR hefur staðsett á Reykjanesskaganum síðustu áratugina.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er getið um sel frá Reykjum; „Selstaða er nýtanleg í heimalandi, og kokkast allur matur þar á hveri, en ei á eldi„. Skammt ofan við selstöðuna eru hverir. Þá er getið um sel frá Vorsabæ; „Selstöðu á jörðin í landi því, sem eignað var áður Litlu-Reykjum, en lagðist til Ossabæjar, þá þeir lögðust í eyði, vide Stóru-Reyki supra, og í annað mál beit fyrir búsmala norður yfir á, í Árstaðafjall, sem að eignað er Stóru-Reykjum„. Fjallið ofan við selstöðuna heitir Ástaðafjall og áin umrædda er Hengladalaáin. Lýsingin á staðsetningu á selstöðu Vorsabæjar passar við staðhætti á umræddum stað.
Auk framangreind er getið um selstöður frá Krossi og Völlum, sem lýst verður síðar.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ölfus

Reykjasel.

 

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.

Gíslhellir

Gíslhellir – fyrirhleðsla.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
GíslhellirGengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.
Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918. A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.

Hraunkarl

Vogsósar

Á Vogsósum í Selvogi er merkilegur steinn í túninu.
Þótt steinninn láti ekki mikið yfir sér, er reyndar Eggert-551nánast jarðlægur og lækist jafnan fyrir slátturvélum, hefur Þórarinn Snorrason, bóndi gætt hans vandlega. Segja má að steinn þessi hafi verið minnisvarði um séra Eggert Sigfússon, síðasta prestsins á Vogsósum. Séra Eggert Sigfússon fæddist 22. júní 1840 og lést 12. október 1908, einmitt við þennan stein í túninu. Mun prestur hafa verið að koma úr messu í Krýsuvík þegar hann veiktist á leiðinni heim og dó þarna við steininn.
Í Tímanum 1988 er fjallað um séra Eggert. Fyrirsögnin er „Lómar og skúmar“, en Eggert „þótti  undarlegasti maður landsins um sína daga“. Í Vogsósum skildu menn ekki þankagang þessa óvenjulega manns, sem álasaði mönnum fyrir að hugsa ekki um annað en „gemlinga
og grút.“
„En það er gömul saga að snillingseðlið getur tekið á sig margvíslegar myndir og í stað þess að vera hampað sem afbragðsmönnum samtíðarinnar, kunna menn að lenda á einhvern hátt utan vegar og verða fyrst og fremst taldir til furðufugla. Þau urðu örlög þess manns sem hér mun greint frá – hins sérkennilega prests, Eggerts Sigfússonar í Vogsósum í Selvogi. Hann þótti með afbrigðum kynlegur, en þegar við lesum sumar þeirra sagna sem af honum gengu, læðist að okkur sá grunur að það sem haldið var flónska og sérviska, hafi verið á einhvern hátt afbragðslegs eðlis, að þarna hafi verið á ferðinni spekingur, sem samtímamönnum tókst aðeins ekki að botna í.
Á Eyrarbakka var Eggert fæddur hinn 22. júní 1840. Faðir hans, Sigfús „snikkafi“ Guðmundsson, var hagleiksmaður hinn mesti og alkunnur kirkjusmiður, greindur vel og vandaðasti maður í öllu dagfari.
Hann veitti snemma athygli gáfum og námslöngun sonarins og ákvað Fornagata-601að senda hann til mennta. Gekk Eggert inn í Latínuskólann nýja í Reykjavík 15 ára gamall og lauk prófi á tilskildum tíma og stúdentsprófi frá Prestaskólanum tveimur árum seinna.
Ekki lét hann þó vígjast að sinni, heldur fékkst við barnakennslu á ýmsum stöðum næstu sex árin, bæði norðanlands og sunnan. En þá hugsaði hann sér til næðisamara lífs og óskaði vígslu af Pétri biskupi Péturssyni og hana hlaut hann 29. ágúst 1869. Fyrst gerðist hann prestur hjá Húnvetningum að Hofi á Skagaströnd og gegndi þar í þrjú ár. Þá flutti hann að Klausturhólum í Grímsnesi og urðu þjónustuárin tólf á þeim stað. Loks árið 1884 tók hann svo við Selvogi og Krýsuvík, er í þá daga var sérstakt prestakall, og hafðist þar við til dauðadags. Bjó hann í Vogsósum í Selvogi og hefur ætíð verið kenndur við þann stað.
Þessum skrýtna presti var svo lýst að hann hefði verið með hæstu mönnum vexti, en ákaflega grannur og krangalegur. Höfuðið var mjög lítið og augun þar eftir smá, en sakleysislega skær og tindrandi. Bar og öllum saman um sem þekktu hann að hann hefði verið hrekklaus eins og dúfa og aldrei gert flugu mein. En hafði fastar skoðanir á ýmum málum og þá ekki síst sumum af kennisetningum kirkjunnar, en þær hafði hann að engu þegar honum bauð svo við að horfa og hann taldi annað skynsamlegra. „Þegar ég skíri barn, gef saman hjón eða jarða framliðna, dettur mér ekki annað í hug en að sleppa öllum bölvuðum bjánaskap úr handbókinni.

Eggert-602

Eða hvað er það annað en bjánaskapur, þetta, sem ætlast er til að lesið sé yfir brúðinni: „Með sótt skaltu börn þín fæða.“ Þarf að segja nokkurri heilvita konu það að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Og til hvers er þá að hryggja hana með því að minna hana á þetta á mesta hátíðisdegi ævinnar? Þér megið kalla þetta hvað sem þér viljið, en ég kalla það bjánaskap. Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni að það sé getið í synd eða dauðum manni að hann eigi að verða að mold? En svona eru margar fyrirskipanir kirkjunnar og ég ansa þeim ekki.“
Þar sem Eggert sté ekki á bak hestum varð hann að fara allra sinna ferða um sóknir sínar fótgangandi, hvernig sem viðraði. Voru þá oft lækir á vegi hans illir yfirferðar, en hann hafði mikla óbeit á því að vökna. Lagði hann nú höfuðið í bleyti og dó ekki ráðalaus. Lét hann gera sér stóran skinnsokk, klofháan, en þó einungis á annan fótinn. Hafði honum reiknast svo til að einn skinnsokkur mundi nægja, eins og lækjum var háttað við vanalegar aðstæður í prestakallinu. Sté hann út í lækina með þeim fætinum er sokkurinn var á og teygði síðan hinn fótinn upp á bakkann hinum megin. Náði hann með tímanum slíkri leikni í þessari íþrótt að orð var á gert. Skildi hann skinnsokkinn aldrei eftir, þyrfti hann að bregða sér að heiman.
Vogsos-65Eftir að séra Eggert gerðist prestur í Vogsósum hófst mótlæti hans að marki. Hann var þar kominn meðal manna sem höfðu lítinn skilning á hinu sérstæða gáfnafari hans. En þetta mótlæti var skki síst runnið af þvf hve hann var hárnæmur á eðlisfar sóknarbarna sinna og hvers konar óheilindi, tilgerð og hroki var eitur í hans beinum. Þá menn er hann taldi sérstaklega búna slíkum eiginleikum nefndi hann aldrei annað en skúma, en þá aðra sem voru hjartahreinir og lítillátir kallaði hann lóma. Þessum tveimur manntegundum hélt hann vandlega aðgreindum og beitti tegundarheitum þeirra umsvifalaust í allra áheyrn og hvort sem mönnum þótt betur eða verr. Þetta hispursleysi aflaði honum lítilla vinsælda meðal skúmanna, en hann kippti sér ekki upp við það. „Mér er alveg sama hvað um mig er sagt lífs og liðinn,“ varð honum að orði. Ef ég gæti þess að stíga ekki á hestbak, þá dey ég ekki af því að detta af baki.

Vogsos-66

Þannig verð ég heldur ekki með réttu sakfelldur, ef ég gæti þess að gefa engan höggstað á mér með breytni minni.“
Fjölmörg bréf eru til með hendi séra Eggerts, sem sýna hve fyrirlitning hans á skúmunum stóð föstum rótum. Í einu bréfanna er þessi klausa: „Ég kom beint úr Þorlákshöfn í dag um sólarlag að Strönd. Sigurður var heima. Selvogshreppstjórinn var þar staddur og sagði mér að Þ… væri búinn að bera Gr… út í annað skipti. Hér er dæmi þess á hve háu stigi réttlætiskennd skúmanna stendur. Hvar sem maður er eða fer í veröldinni, þá held ég að naumast sjái í heiðan himininn fyrir þessum bölvuðum skúmum! Ég vildi óska að allar veraldarinnar manneskjur væru orðnar að lómum. Þá þyrfti maður ekki að eiga við annað eins „jastur“ og þetta. Takk fyrir síðast.“
Selvogur-559Í öðru bréfi til Jóns kaupmanns Árnasonar í Þorlákshöfn kemst séra Eggert svo að orði: „Hér kom skúmur og tilkynnti mér sem hreppsnefndarmanni að hann ætti barn í vonum. Þetta kalla ég þunnar trakteringar og þess vegna bið ég þig að láta mig hafa á meðfylgjandi 8 potta kút, svo ég geti hresst mig á þessum skúmalegu vandræðum!“
Eggert sá líka kvenfólk á meðal skúmanna og ein þeirra var frúin í Hlíð, en af henni er þessi frásögn í bréfi frá Eggert til sálmaskáldsins sr. Valdemars Briem: „Frúin í Hlíð!
Það er nú frú í lagi. Kötturinn í Vogsósum skrapp upp að Hlíð um daginn að fá sér kött, en veistu hvað frúin gerði? Hún tók köttinn og drekkti honum í Hlíðarvatni. Tarna er ljóta „frúin“.
Selvogur-558Svo alvarlega tók klerkurinn í Vogsósum þessa skiptingu á mönnum að hann skráði þá vandlega er á prestssetrið komu sem lóma eða skúma, sbr. eftirfarandi skrá, sem varðveist hefur: „Skúmar“ aðkomir að Vogsósum anno 1887: Janúar 25. febrúar 92, mars 4, apríl 6, maí 43, júní 62… .=232 Júlí 75, ágúst 5, sept. 91, október 65, nóvember 14, desember 1… =257. SKÚMAR ALLS: =489 „Lómar“ aðkomnir að Vogsósum anno 1887: Janúar 1, febrúar 1, mars 0, apríl 1, maí 0, júní 0 … =3 Júlí 3, ágúst 3, september 5, október 2, nóvember 0, desember 0… =13. LÓMAR ALLS: =16.
Greinilega hefur flokkur skúmanna því verið heldur betur öflugri að áliti Eggert en hinna blessuðu lóma.
Ekki er lengra frá dauða séra Eggerts en svo að enn í dag er nær efalaust til – að vísu mjög aldrað – Selvogur-560fólk sem man hann sem börn, en hann lést 1908. Hér hefur mest verið gert úr því sem sérkennilegast þótti við hann en minna drepið á ágæta eiginleika hans. Hann tók sannleika og einlægni fram yfir allt annað og predikari var hann ágætur, enda þótt ræður hans stæðu sjaldnast lengur en sjö til fimm mínútur. Þá var hjálpsemi hans við bágstadda við brugðið og vandaðri mann og skilríkari getur ekki. Svik fundust ekki í hans munni. Á sama hátt virti hann sér til fánýtis og trafala hverja þá fjármuni sem tóku til annars en brýnustu nauðþurftar og byðu fátækir menn honum greiðslu fyrir unnin embættisverk, hafnaði hann henni jafnan jafnan með einu viðkvæði: „Þú mátt ekki missa þetta. Ég á nóg.“
Á efri árum hans gekk sá spádómur um sóknir hans að heimsendir væri í nánd. Höfðu margir af því þungar áhyggjur og þar á meðal var ungur drengur sem bar sig illa. Reyndi prestur að hughreysta hann og mælti: „Nei, barnið gott, almættið hefur ekki neinn heimsendi í huga og þú þarft ekki að óttast hann í bráð. En komi heimsendir seinna, verða það mennirnir sem hrinda honum af stað.“ Hvort spegluðu þessi orð klerksins lífsreynslu hans eða sá hann svo miklu lengra en þeir menn sem festu sér ummælin í minni, vegna þess hve fjarstæðukennd þau þá virtust – fyrir rúmum 80 árum.
Það var hinn 12. október 1908 í gráu og hráslagalegu haustveðri að Vogsósapresturinn var að koma frá messu í Krýsuvík – gangandi að vanda. Hann var kominn að túngarði í Vogsósum, þegar vinnumaður á bænum sá hvar hann greip sér um hjartastað og féll niður. Hann kom að honum örendum, þar sem hann lá á grúfu í sölnuðu grasinu [við lítinn stein] og hélt dauðahaldi um lítinn böggul, sem vinnumaðurinn vissi að geymdi snjáða prestshempu hans. Þar með var lokið ævi síðasta prestsins sem sat í Vogsósum – og vafalaust hins undarlegasta þeirra allra um leið.“

Heimild:
-Tíminn, 14. maí 1988, bls. 11-13.

Vogsósar

Vogsósar.

Fornigarður

Í ritinu „Árnesingur VII“ árið 2006 er grein um Fornagarð í Selvogi eftir Bjarna F. Einarsson, „Garður er grannna sættir“. Tilvísun þessi er sótt í Jónsbók.
Fornigardur-559Greinin er tilefni rannsóknar, sem Bjarni gerði á garðinum árið 8. – 18. júlí 2003. Þrátt fyrir að véfengja megi niðurstöðu rannsóknarinnar í nokkrum megindráttum kemur í greininni fram ýmiss fróðleikur um þennan merka garð.
Ljóst var að nýr Suðurstrandarvegur myndi rjúfa „Forngarð“? skammt frá nýrri heimreið að Vogsósum. Hann var því rannsakaður þar sem vegurinn átti að fara í gegnum garðinn.
Bjarni segir „Fornagarð“ liggja á milli Vogsósa og Strandar í Selvogi.

Guðnabær

Guðnabær.

Nákvæmar er að segja að umræddur vörslugarður liggi milli Hlíðarvatns í landi Vogsósa austur fyrir Nes (að Snjóthúsi/Snjóhúsi) í Selvogi líkt og segir í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1902. Snjóthús var þar sem nú er Nesviti (Selvogsviti). Að vísu eru hlutar vörslugarðsins misgamlir og garðinum hefur augsýnilega verið breytt í gegnum tíðina, m.a. til að verjast sandfoki, en megingarðurinn hefur varla náð í upphafi á milli síðarnefndu staðanna, enda ber hann þess öll ummerki.

Fornigarður

Fornigarður sunnan Vogsósa.

Hinn eldri garður er nú hrofinn að hluta, enda var talsvert grjót tekið úr honum á milli Strandar og Torfabæjar og Þorkelsgerðis og Guðnabæjar þegar vegagerð fór fram á þjóðveginum á Strandarhæð um miðja síðustu öld (Þórarinn Snorrason og Þórður Bjarnason). Bjarni getur reyndar í umfjöllun sinni um breytt hlutverk garðsins á mismunandi tímum, bæði vegna umhverfisins sem og tengingu við fleiri en eitt lögbýli í sveitinni.
„Fornagarðs er trúlega fysrt getið í miðaldaheimildum og því býsna merkilegur, Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss (Fornleifaskrá 1990).
Markmiðið með rannsókninni var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og kanna byggingu hans..
Garðar hafa verið hlaðnir um allt land frá upphafi byggðar í landinu.
Gerð þeirra og hlutverk hefur verið með ýmsum hætti en eitt eiga þeir allir sameiginlegt og það er að allir eru þeir gerðir úr jarðefnum, þ.e.a.s. grjóti, torfi, mold og öðrum jarðvegi…“.
Vogsos-37Í Grágás og Jónsbók eru ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæðin átti að ná meðalmanni í öxl. Garða skyldi hlaða í fyrsta lagi á vorönn þegar mánuður var af sumri.
Árið 1776 kom tilskipun er fól m.a. í sér að girða skyldi tún með torf- eða grjótgarði verði því við komið.
Fornigardur-552„Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju áruð 1275. Þar segir m.a.: „Sex vætter æ huert land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida með slijku sem rekur“ (Íslenskt fornbréfasafn 1893, bls. 124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns (1769-1859) til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818. Í lýsingu Jóns segir svo um garðinn: „Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa misfóst verid/ með læstu Hlídi að Lógbýli hvóriu;; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í selvogi og Deidi þar 1576…
Fornigardur-552Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidgaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, í Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, að sógn Manna“ (Frásögum um fornaldaleifar 1817-1823 (1983) bls. 228).

Fornigarður

Fornigarður.

Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar er hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um þessi vísa:
Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit
“ (Sýslu og sóknarlýsingar, Árnessýsla, bls. 226-227).
Vogsos-29Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar,  virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá fyrir Vogsósa, ártal vantar).
Brynjúlfur Jónsson nefnir garðinn ekki þessu nafni í grein sinni um athuganir sínar í Gullbrungusýslu. Hann kallar hann einungis aðalgarðinn (Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903, bls. 51-52). Kannski festist nafnið við garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt með þjóðsagnablæ.
Vogsos-30Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi þar verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingu séra Jóns Vestmanns hér að ofan…
Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örfoka, sandorpið og lítt gróið. Víða sér í bera hraunhelluna. Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðina þar hjá.
Einkennandi fyrir landslagið á svæðinu eru misháir hólar, lægðir og lautir með einstaka grónum þúfum þar sem kyrkingslegur gróður leynist á stöku stað. Landið er afar þurrt og djúpt virðist vera á grunnvatn. Eina ferskvatnið sem Vogsos-51finnst í nágrenninu er Hlíðarvatn og ósinn sem úr því rennur til sjávar.
Rannsóknin á Fornagarði fólst í að grafa tveggja metra breiðan skurð þvert á garðinn. Fyrir rannsókn stóð aðeins einföld, u.þ.b. 0.45 metra há og u.þ.b. 0.40 metra breið grjóthleðsla upp úr sandinum þars em vegurinn átti að fara yfir. Þessi hleðsla var áberandi illa hlaðin og engar líkur á því að hún væri hluti af fornum hleðslum sem gætu verið allt að 700 ára.
Einungis nánasta umhverfi garðsins var kannað. Engin mannvistarlög fundust, en nokkur gjóskulög sáust undir garðinum sem ástæða þótti til að kanna frekar. Var jarðfræðingur fenginn til að kanna gjóskuna sérstaklega og reyna að fá á hreint hvort grunur um að undir garðinum Vogsos-32mætti sjá H1 gjóskulagið (Hekla 1104) væri réttur.
Heildarhæð garðsins eftir uppgröft var 1.66 metrar. Þar af var 1.1. metrar vel hlaðinn eða hugsanlega úr upprunalega garðinum. Vantaði trúlega eitthvað á hæðina eins og hún hefur verið þegar garðurinn var og hét. Mesta breidd hans neðst var 0.96 metrar. Garðurinn mjókakði upp og var hann tæplega helmingi breiðari niðri en uppi við efri brún eldri hlutans.
Vogsos-33Gulhvítt gjóskulag, sem lá „in situ“ (á upprunalegum stað) undir garðinum reyndist að öllum líkindum vera gjóska úr Heklu frá árinu 1104 (Bryndís G. Róbertsdóttir, Skýrsla um fornleifarannsóknir sumarið 2003; Bjarni F. Einarsson).
Jarðvegssiðin undir garðinum bentu einnig til þess að uppblástur á staðnum hafi hafist einhvern tímann um 1120, eða fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226.
Vogsos-34Munnmæli og sagnir herma að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við Ósinn. Nú stendur bærin hins vegar við útfall Óssins hjá Hlíðarvatni. Í upphafi hét bærinn Vogur eða Vágr (Landnámabók) og svo virðist hann heita árið 1275 þar sem Fornagarðs er fyrst getið [??]. Í máldaga Strandarkirkju árið 1367 er nafnið hins vegar Vogshús og aftur í máldaga sömu kirkju upp úr 1570 (Íslenskt fornbréfasafn III, bls. 212). Nú á dögum heitir bærinn Vogsósar. Hugsanlega eru Vogsos-35þessar nafnabreytingar eitthvað tengdar flutningi bæjarins þótt telja megi að breytingin hafi ekki orðið fyrr en eftir að bærinn var fluttur. Breytingin hefur þá væntanlega orðið eitthvern tímann á árabilinu 1275-1367.
Fornigarður gæti hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (Vágs) og þann nýja eftir flutninginn og þannig umlukið bæði gömlu túnin og þau nýju. Túnin lifðu gamla bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði verið fluttur. Garðurinn er býsna langt frá bæjarstæðunum og afar umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag. Meginhlutverk hans hefur vafalaust verið að vernda tún Vogsósa fyrir ágangi sandsins.

Vogsósar

Vogsósar.

Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í selvogi eru mögulegar ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinnn var gleymdur og Vogsóasr fluttir á núverndi stað. Bogadreginn garðurinn [yfir að Strönd] er líkur þeim túngörðum sem þekktir eru frá fyrstu öldum byggðar í landinu og bendir helst til þess að hafa legið utan um eitt býli.

Fornigarður

Fornigarður.

Þannig voru t.d. túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær eða fjær býlunum. Þegar viðbæturnar við Fornagarð voru komnar á það stig að þær tengdust öðrum túngörðum annarra býla við Selvoginn má tala um að um alla byggðina hafi verið einn garður.
Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir Heklugosið 1104 og fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226, hugsanlega einhvern tímann á bilinu 1120-1226.
Vogsos-37Um 1104, eða nokkru fyrr, verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún fyrir þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um gömlu og nýju tún Vogsósa hvort sem það hefur verið gert fyrir flutninginn á bænum eða á eftir.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. [Þórarinn á Vogsósum, f: 1931, nefnir garðinn jafnan Gamlagarð]. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við í seinni tíð með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað til verksins enda ekki þörf á því.
Vogsos-37Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þótt eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans.
Trúlega voru garðhleðslur eitt af stærstu verkum sem samfélag manna tók sér fyrir hendur á þjóðveldistímanum og lengi síðan. Um þær giltu strangar reglur sem kváðu á um skyldur manna og viðurlög ef þeim var ekki hlýtt. engar framkvæmdir voru jafn  viðamiklar, nema ef vera skyldi stærri kirkjubyggingar. Líkja má garðhleðslum þjóðveldistímans við vegagerð nútímans. Umfangið var líklega svipað og kostnaðurinn sömuleiðis“.
Þegar framangreind rannsókn á „Fornagarði“ er skoðuð vaknar a.m.k ein spurning; beindist rannsóknin virkilega að hinum eiginlega Fornagarði eða var bara

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

um einhvern annan og yngri garð að ræða?
Þegar uppdrátturinn hér að framan er skoðaður má sjá að um nokkur garðlög er um að ræða á svæðinu millum Strandar og Vogsósa. Augljóst er að garðurinn liggur til norðurs austan Strandar þar sem austurgarðurinn frá Snjóthúsi/-um kemur að honum þvert ofan við gömlu byggðina í Selvogi (sjá meðfylgjandi uppdrátt ÓSÁ).
Í rannsókninni er gengið út frá því að Fornigarður liggi á milli Strandar og Vogsósa, en var það svo? Þegar garðlögin þarna á millum voru gengin daglangt komum í ljós miklar efasemdir um að svo kunni að hafa verið í upphafi.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Stórhól sameinast tveir garðar (hnit:6350460-2141926); innri garður og ytri garður. Sá ytri er greinilega veigaminni (sá er kemur við sögu rannsóknarinnar). Sjá má þessa greinileg ummerki á klapparhæðum og holtum þar sem jafnan er einungis um eina steinaröð að ræða. Þessi garður liggur hins vegar alla leið yfir að Vogsósum og lá, þrátt fyrir strokleðrun (túnasléttun) ofan fjárhúsanna á Vogsósum II, alla leið niður að Imbukofahól og endar í Hlíðarvatni skammt neðar. Athyglisverðar minjar eru austan við þennan vörslugarð skammt ofan túnmörkin á Vogsósum; tvær fornar, nú grónar, fjárborgir með gerði umleikis. Annarri fjárborginni, þeirri syðri, hefur greinilega síðar verið umbreytt í stekk, en þó má enn sjá grjótleifar hinnar eldri fjárborgar umleikis.
Hinn grjótgarðurinn er augsýnilega veigameiri, bæði að breidd og hæð. Telja verður hann eldri en hinn efri af tveimur ástæðum; hann er nær hinni fyrstu byggð og meira er í hann lagt. Tilgangurinn fyrir tilurð hans virðist hafa verið annar en þess efri, þ.e. að halda búfé innan hans eða utan. Efri garðurinn virðist hins vegar einungis hafa verið varnargarður, bæði vegna breytinga á búsetu (bærinn Vágr er fluttur upp að ósum Hlíðarvatns móts við Nauthólma (Vaðhóll)) og breyttri þörf á að varsla svæðið fyrir búfé (kindum og kúm). Nýlegri álagshleðslan ofan á fornan garðinn hefur að öllum líkindum orðið til vegna varnaraðgerða sandfokinu á 13. öld og síðar.
Vogsos-39Þegar svæðið var skoðað af nákvæmni kom a.m.k. þrennt áður upplýst í ljós; 1. leifar af garði, sem hefur verið sértaklega mikill umleikis, eru til vestan við „upplýstan“ vörslufornagarð er framangreind rannsókn beindist af, 2) fornleifar, sem eru ofan við tún Vogsósa II, virðast hvergi skráðar (tvær grónar fjárborgir þar sem annarri (þeirri syðri) hefur á einhverjum tíma verið breytt í stekk), og 3) hvergi er getið leifa beitarhúsa (sauðahúsa) á ósamótum affalls Hlíðarvatns frá því um aldamótin 1900. Að sögn Þórarins Snorrasonar (f. 1931) bónda á Vogsósum hlóð afi hans þessi tilteknu hús skammt ofan þar sem nú heitir Baðstofuhella. Að sögn Þórarins er Baðstofuhellan hæsti beri klapparhóllinn undan strandlandinu austan ósa affallsins.
Þar hafði hann Vogsosar-37oftlega setið í sprungu í hólnum daglangt og dundað sér við að skjóta fugl. Hins vegar væri augljóst, þegar hugmyndir eru uppi um að landnámsbýlið Vágr hafi verið þar, að það gæti vel verið sennilegt því á hans stuttu æfi einungis hafi sjórinn þá og þegar brotið mikið land af strandlengjunni frá því sem áður var.
Lágur hóll er skammt austan fyrrnefndra beitarhúsatófta, nánast niður á ströndinni. Í honum virðast vera mannvistarleifar.
Hvað sem allri umfjöllun um Fornagarð líður virðast (ekki síst að teknu tilliti til sambærilegra garða annars staðar, t.d. í Húshólma og Óbrinnishólma (þar sem einungis er í fornleifaskráningu getið um „fjárborg“, en hvorki topphlaðnar leifar húss né forna garða) vera miklar líkur til þess að vestari garðurinn sé eldri en sá er grafið var í títtnefndri rannsókn.

Vogsos-40

Rannsóknin, sem slík, stendur vissulega undir sér með tilheyrandi óþarfa kostnaði fyrir Vegagerðina og með samþykki Fornleifa-verndar ríkisins (þar sem enginn hjá stofnunni virðist nokkru sinni hafa litið nauðsynlega rannsókn gangnrýnum augum).
Niðurstaðan skiptir hins vegar mestu máli; framangreind rannsókn var nauðsynleg vegna gildandi laga og krafna þar af lútandi og var í rauninni mikilvæg að teknu tilliti til aðstæðna þar sem kanna þurfti þá fornleif er vegagerðinni var ætlað að spilla. Ef einhver þekking og dugur (fjármagn og vilji) væri fyrir hendi hjá Fornleifavernd ríkisins myndi stofnunin láta framkvæma fornleifarannsókn á hinum eiginlega Fornagarði, þ.e. garðinum er nær frá Snjóthúsi að Stórhól, vestan fyrrnefnds vörslugarðs og sunnan núverandi Suðurstrandarvegar. Ef af verður mun það verða tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Sjá meira um Fornagarð/Gamlagarð/Langagarð HÉR.

Heimild:
-Bjarni F. Einarsson, „Garður er grannasættir“, Árnesingur VII 2006, bls.205-230.

Fornigarður

Fornigarður við Nes.