Slaga

Í Morgunblaðinu 1991 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur m.a. um Fagradalsfjall og Slögu ofan Ísólfsskála.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

“Næstkomandi sunnudag verður farinn þriðji áfangi raðgöngu Ferðafélagsins um gosbeltið suðvestanlands. Brottför verður frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin, kl. 10.30 og 13. Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan.
Hvor leiðin sem farin er verður gengið þvert yfir gígaröðina, sem Slaga er, þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.

Fagradalsfjall

Gígurinn í Fagradalsdfjalli.

Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga. Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið.
Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.” – Höfundur er jarðfræðingur.

Heimild:
-Morgunblaðið, 98. tbl. 03.05.1991, Slaga, Jón Jónsson, bls. 25.

Slaga

Slaga.

Hækingsdalur

Örnefnið “Barnahús” er til í íslenskum örnefnaskrám fyrrum. Fyrirbærið er áhugavert fyrir margra; ekki síst fyrir barna sakir.
Í Rauðasandshreppi er í örnefnalýsingu örnefnið skráð; “Barnahúslækur. Hann er frammi í Vík, rennur þar í Ána og kemur úr Hreiðurblagili. Þar höfðu krakkar byggt sér grjóthús”.


Í Örnefnalýsingu fyrir Hækingsdal segir: “Fyrir heiman Illugastakksnef og neðan Móa eru Tjarnir, en fyrir utan Illugastakksnef er Flóðamýri. Þegar Kinnarlækur kemur niður úr túni, breytir hann um nafn og heitir Flóðamýrarlækur. Engjarnar fyrir ofan hann næst túni eru Forir. Þar upp af er nokkuð gróinn grjótbali, er heitir Stekkjarbali. Þar var síðast hafður stekkur. Móðir Hannesar mundi eftir honum í bernsku sinni. Fyrir utan Forir eru Enni, þau eru tvö, sitt hvoru megin við Barnhús. Brattar brekkur og grasgefnar. Upp af þeim er Kýrgilsbali. Vestan við hann er Fjólubolli, sem er töluvert breiður og djúpur. Þar vex mikið af fjólu eða blágresi. Fyrir utan Enni er Lágamýri. Upp af henni er klapparhæð, er heitir Barnhús. Enga skýringu kann Hannes á því nafni. Þar var kofi.”


Í Örnefnalýsingu fyrir Flekkudal, Grjóteyri og Sand í Kjós segir; “Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu við rætur Sandsfjalls upp í Markagil í Markastein nyrst á Sandsfjalli. Þaðan liggja mörkin suður Sandsfjall um Esjuflóa í Esjuhorn, þaðan sem vötnum hallar í Hátind á Esju syðst upp af Norðurgröf á Kjalarnesi.

Í “Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I” segir m.a.: “”Merkin byrja við landsuðurhorn Meðalfellsvatns, í Flekkudalsós, upp úr honum í Barnhús, sem svo er kallað.
Frá því beint upp gilið, upp á Sandfellsbrún…,” segir í örnefnaskrá Flekkudals. “Landamerki beggja jarðanna að norðanverðu liggja að Meðalfellsvatni. Að austan um Flekkudalsós, Stokkinn (efsta hluta óssins) um Kelduna suður í Barnhúsvörðu …” segir í örnefnaskrá Gjóteyrar og Flekkudals. “Barnhús: Hans getur sér þess til að nafnið sé af því dregið, að börn hafi þar verið geymd meðan fólk var á engjum. Langt var á engjar á Sandi og matur færður. Þar voru tóftir. Þess má geta, að í Hækingsdal er einnig til Barnhús, haft um klapparhæð, en á henni voru tóftir. Ekki kunni heimildamaður þar skýringar á nafninu, en framangreind skýring hefur ekki verið borin undir hann.” segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá Sands. Skv. lýsingum ætti Barnhús að hafa verið við enda keldunnar, sem er á merkjum milli Grjóteyrar og Sands, í fjallsrótum eða hugsanlega eitthvað ofar. Þetta er um 1,8 km VNV af bæjarhól. Mýri nær að fjallsrótum en svo tekur við brött en ágætlega gróin fjallshlíð. Girt er á merkjum hátt upp í fjall. Alls engar rústir eða vörðuleifar fundust á merkjum. Sennilegast er að Barnhús hafi verið alveg í fjallsrótum og þá vikið þegar keldan var grafin í skurð.”
Örnefnið, er þrátt fyrir allt, einstaklega áhugavert.

Heimildir:
-Örnefnastofnun, Vestur-Barðastrandasýsla Breiðavík, Rauðasandshreppur, Breiðavík, Trausti Ólafsson frá Breiðavík skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hækingsdal.
-Örnefnalýsing á Flekkudal og Grjóteyri.
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Þorláksstaðir, Blönduholt, Þúfa, Þúfukot, Eyri, Eyrar-Uppkot, EyrarÚtkot, Útskálahamar, Kiðafell, Möðruvellir, Írafell, Bær, Meðalfell,
Meðalfellskot, Eyjar, Eyjahóll, Flekkudalur neðri, Sandur, Neðri-Háls, Hvammur og Hvammsvík. Reykjavík 2008.

Flekkudalur

Flekkudalur.

Ingólfsfjall

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Arnarbæli

Arnarbæli í Ölfusi.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Arnarbæli

Arnarbæli.

Hverfið, sem Arnarbæli í Ölfusi er hluti af, fékk nafnið Arnarbælishverfi. Arnarbælisforir eru mýrlendi á þessu frjósama landsvæði. Mikill vatnsagi gerði bændum erfitt fyrir og tilraunir voru gerðar til að ræsa vatnið fram. Geldneyti frá Arnarbæli voru gjarnan látin ganga á Hellisheiði á sumrin áður en afurðirnar voru seldar til Reykjavíkur. Margir áttu stundum fótum fjör að launa á leiðinni yfir heiðina undan galsafengnum eða jafnvel mannýgum nautum fyrrum.

Einhver mesti höfðingi Sturlungaaldar, Þorvarður Þórarinsson af Svínfellingaætt, fluttist austan af landi að Arnarbæli 1289. Hann bjó þar til dauðadags í 7 ár. Margir álíta, að hann hafi notað þennan tíma til að rita Njálssögu.

Arnarbæli

Arnarbæliskirkja stóð fyrrum í steinsins stað.

Arnarbæliskirkja stóð til ársins 1909 og þar var löngum prestssetur. Þetta ár var Reykjakirkja líka lögð niður og báðar sóknirnar lagðar til Kotstrandar. Margir merkisprestar sátu staðinn, s.s. Jón Daðason, sem flutti frá Djúpi 1641 og bjó þar til dauðadags 1676. Hann kenndi séra Eiríki Magnússyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Vogsósum, vísindi í 9 ár. Séra Jón varð að verjast mörgum sendingum frá fyrrum sóknarbörnum fyrir vestan, sem bekktust við hann, líkt og séra Snorra í Húsafelli.

Arnarbæli

Arnarbæli eftir jarðskjálftann 1896.

Annálar 20. apríl 1706 segja frá jarðskjálfta, sem olli hruni margra bæja á Suðurlandi. Arnarbælisbærinn hrundi til grunna og presturinn, Hannes Erlingsson komst út um sprunginn vegg eða þak hálfnakinn með ungabarn. Teinæringur, sem prestur gerði út frá Þorlákshöfn, fórst um svipað leyti með 11 manna áhöfn, kvæntum hjáleigubændum úr Arnarbælishverfi. Bæjarhúsin hrundu aftur til grunna í jarðskjálftunum 6. september 1896.

Forn og stór rúst á Þingholti í Arnarbælislandi er friðuð.

Kålund skrifar m.a. um Arnarbæli, skipslátur í Ölfusá og bæinn Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).

Arnarbæli

Arnarbæli og nágrenni.

“Arnarbæli er nefnt í Harðar sögu Grímkelssonar (17), og er leið þangað með öllu ófær nema með kunnugum fylgdarmanni, og er vel fallin til að veita hugmynd um sérkenni í Ölfusi, flatt land sem flæðir yfir, blautar engjar, lækjar- og ármynni eða kvíslar úr Ölfusá ólga yfir flæðiland; er land þetta frábært til heyskapar.
Norðar sést hengill og Reykjafjöll, giljótt og mosavaxin, og lengst í norðaustri fjallaþyrping, og áfast henni er Ingólfsfjall, mikið og virðulegt, sést hvartvetna úr Ölfusi og virðist vera stakt. Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannahaugur að lögun og einnig stærð og því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul – Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir við texta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; en í Íslendingabók segir aðeins: “er þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá, er hann lagði sína eigu síðan”.

Ingólfsfjall

Inghóll á Ingólfsfjalli (-felli).

Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð. (Brynjólfur Sveinsson, hinn frægi biskup (1639-74) reið samkvæmt “Descr. Ölves” upp á fjallið til að skoða hauginn. Þá var hann mældur og reyndist vera 200 faðmar að ummáli sbr. Ferðarbók E.Ó. 859.- Samkvæmt fornminjaskýrslu (1821) á sögn að vera tengd Ingólfi og Inghól lík sögunni um Egil á Mosfelli í Mosfellssveit og Ketilbjörn á Mosfelli í Grímsnesi; skömmu fyrir dauða sinn á hann að hafa látið tvo þræla sína og ambátt fela fé sitt í Inghól og síðan hafi hann drepið þau á stöðum í fjallinu, sem heita eftir þeim (Ímuskarð, Kagagil og Kaldbakur).

Kögunarhóll

Kögunarhóll 1897 – Collingwood.

Efri helmingi fjallsins hallar jafnt niður, og síðan koma brattar hlíðar niður á jafnlendið, aðeins að sunnan teygir sig fram lágur rani. Fram af honum er keilu- og toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.

Fell

Tóftir Fells.

Í Harðar sögu Grímkelssonar segir (2), að maður að nafni Sigurður múli hafi fóstrað dóttur Grímkels goða, sem bjó fyrir sunnan Þingvallavatn. Sigurður á að hafa búið á bænum Felli (undir Felli). Síðar segir, að Hörður sonur Grímkels hafi látið flytja alla vöru sína undir Fwell til Sigurðar í múla, þá er faðir hans hafi látið hann fá, en hann ætlaði utan á Eyrum (austan við minni Ölfusár). Í skinnbókarbroti sem talið er vera af eldri gerð Harðar sögu, er bær Sigurðar múla nefndur Fjall (hann bjó undir Fjalli). Þessi bær Fell eða Fjall er vafalaust eyðibærinn Fjall; sést móta fyrir tóftum hans og túni skammt fyrir sunnan Ingólfsfjall. Jarðabók Á.M. og P.V. (1706) nefnir Fjall, sem áður fyrr hafi verið mikil jörð, og samkvæmt munnmælum á að hafa verið fyrrum þar kirkja. Við upphaf fyrri aldar höfðu verið byggðar fjórar harðir af hinni upphaflegu, en Fjall yngra lagst í eyði, einnig önnur af þessum fjórum (Fossnes), svo að nú séu aðeins tvær eftir af þessum fjórum (Laugarbakki eða -bakkar og Hellir).

Fell

Tóft við Fell.

Ekki er líklegt, að neitt af útrennsli Ölfusár hafi borið nafnið Arnarbælisós, því bærinn Arnarbæli stendur allmiklu ofar (1/2-1 mílu). Aftur á móti má hugsa sér, að því að varla hefur verið við mynni Ölfusár nokkurt lægi fyrir skip í fornöld, að lendingarstaðurinn hafi ef til vill nafn af þeim stað, sem skipin lögðu inn eða voru bundin. Þetta fær ef til vill stuning af frásögn Landnámu (390) um landnámsmanninn Álf egska. Hann fór til ‘islands og lenti skipi sínu í ósi þeim (mynni) sem hefur fengið nafn af honum og heitir Álfsós; hann nam allt land fyrir uatn Varmá og bjó að Gnúpum. Hér er Ölfusá ekki nefnd, en þótt hann hafi orðið að sigla inn um mynni árinnar til að komast í Álfsós og upp í neðri hluta Varmár, sem nefnist Þorleifslækur. Á sama hátt mætti álíta að Arnarbælisós hafi verið ármynni nálægt Arnarbæli, þar sem hafskipin venjulega lögðu inn og leituðu hafnar, sem var ekki að fá í mynni Ölfusár vegna breiddar ármynnisins, og ef til vill af fleiri ástæðum. Slíkt ármynni hefur einmitt verið þarna, því að varmá féll fyrrum í Ölfusá skammt fyrir austan Arnarbæli, en fyrir um 200 árum braut hún sér farveg í Álfsós og þar með í Þorleifslæk. Enn lifa sagnir sem benda til, að hafskip hafi lagst hjá Arnarbæli, og má nefna nokkur nöfn því til stuðnings, þannig var í túninu fyrir vestan pretsetrið hjáleiga, sem nefndist Búlkhús, þar sem sagt er, að skip hafi verið affermd.”

Heimildir:
-https://www.olfus.is/is/mannlif/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/arnarbaeli
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 56-59.

Arnarbæli

Arnarbæli og Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).

Steðji

Í Tímanum 1976 eru sögð  “Nokkur orð um Kjósarsýslu – Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?”.

“Sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu eru við Botnsá i Hvalfirði, en Kjós nefnist sveitin frá Hvalfjarðarbotni til Kiðafellsár. Kjós þýðir í raun kvos eða dæld, enda kemur það vel heim og saman við landslag þar í sveit.

Kjós

Ferð okkar um landnám Ingólfs hefst við Botnsá í Hvalfirði, og þar eru, eins og fyrr segir, sýslumörk Borgarfjarðarsýslu og Kjósarsýslu. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, 160 m djúpt. Er sagt, að vatnið heiti eftir hval, sem teymdur var í það upp eftir Botnsá. Í Botnsá er fossinn Glymur, hæsti foss á Íslandi, rúmir 200 m að hæð.
Þegar yfir Botnsá er komið, sveigir vegurinn út með Múlafjalli, bröttu og hömrum girt í sjó fram, og er vegastæðið tæpt á kafla. Botnsvogur heitir vogurinn, sem við sjáum á hægri hönd.
Við ökum út með Múlafelli og yfir Brynjudalsá, sem fellur um lítið dalverpi, Brynjudal, og til sjávar í Brynjudalsvogi. Ofan við brúna á Brynjudalsá var foss, sem sprengdur hefur verið, og við hann er Maríuhellir.
Skammt norðan Laxár komum við að vegamótum Kjósarskarðsvegar, en hann liggur á milli Kjósar og Þingvallavegar, u.þ.b. 22 km langur. Við Kjósarskarðsveg eru meðal annarra bæirnir Reynivellir, sem er kirkjustaður og prestssetur, og Vindáshlíð, þar sem eru sumarbúðir KFUK. Írafell heitir innsti bær í Kjós, og við þann bæ er kenndur Írafells-Móri, frægur draugur í eina tíð.
Kjós
Við ökum yfir Laxá og höldum fram hjá Félagsgarði. Áður en við vitum af komum við að vegamótum Meðalfellsvegar, sem liggur upp með Meðalfelli að sunnan. Áin Bugða fellur úr Meðalfellsvatni, og rennur í Laxá, ekki langt frá bænum Ásgarði, Bærinn að Meðalfelli er á vinstri hönd, ef haldið er eftir Meðalfellsvegi.
Ef við höldum fram hjá vegamótum Meðalfellsvegar, komum við brátt að þriðju vegamótunum, að þessu sinni að vegamótum Eyrarfjallsvegar. Tilvalið er að bregða út af vananum og taka nú beygjuna til vinstri í stað þess að halda beint áfram. Þá höldum við fyrst um grasi gróið undirlendi fram hjá búsældarlegum býlum, yfir Skorá og síðan eftir berangurslegum ruðningsöldum, allt til þess er við komum að mótum Eilífsdals, en Í þeim dal stendur samnefndur bær. Undirlendi er töluvert á þessum slóðum.
Eilífsdalur er tilkomumikill og hrífandi í senn hið innra, girtur hamrafjöllum á þrjá vegu, Þórnýjartindi að austan, Skálatind að vestan, en Eilífstindi fyrir botni dalsins.
Við höldum fram hjá bænum Eilífsdal, og þegar Miðdalur, Tindastaðir og Mórastaðir eru að baki, komum við til Kiðafells, landnámsjarðar Svartkels hins katneska. Ef við hefðum ekki beygt til vinstri og ekið eftir Eyrarfjallsvegi, hefði leið okkar legið áfram eftir þjóðbrautinni, eins og vaninn er að fara, þegar haldið er til Reykjavíkur. Leiðin liggur þá út með Eyrarfjalli og framhjá bænum Eyri. Til hægri sjáum við Hvalfjarðareyrina, langa og flata, en þaðan liggur sæsímastrengurinn yfir í Katanes á Hvalfjarðarströnd. Á sínum tíma var rætt um að gera þaðan bílferjustað yfir Hvalfjörð, og var nokkur undirbúningur hafinn að því, en ekkert varð meira úr framkvæmdum.

Írafell

Írafell.

Við höldum fram hjá bænum Kiðafelli, förum yfir Kiðafellsá og sjáum brátt niður að Hjarðarnesi.
Nú erum við komin á Kjalarnesið, en svo heitir nesið milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Vegurinn liggur um Tíðaskarð, sem svo er nefnt, og brátt opnast okkur mikilfengleg sýn suður um Seltjarnarnes og Faxaflóa.
Þjóðvegurinn liggur fram hjá heimavistarskólanum á Klébergi, og litlu sunnar er félagsheimilið Fólkvangur. Gegnt Fólkvangi er bærinn Vallá, en þaðan var Benedikt Magnússon, sá er stofnsetti steypustöðina B.M. Vallá. Hofsvík heitir víkin fram undan Fólkvangi.
Kollafjörður
Brátt komum við á steyptabraut og ökum eftir henni framhjá Mógilsá, þar sem Skógrækt ríkisins hefur reist rannsóknarstöð skógræktar fyrir þjóðargjöf Norðmanna. Þar er kalknáma, sem um skeið var unnin, og einnig fannst þar vottur gulls, en því miður ekki nógu mikið. Kalkið, sem unnið var við Mógilsá, var flutt til Reykjavíkur og brennt þar. Heitir Kalkofnsvegur, þar sem brennslan fór fram.
Mógilsá
Bærinn Kollafjörður stendur skammt frá Mógilsá og þar hefur ríkið sett upp fiskeldisstöð. Í Kollafirði bjó Kolbeinn Högnason, alþýðuskáld, landskunnur fyrir snjallar lausavísur og ferskeytlur. Fjörðurinn allur milli Seltjarnarness og Kjalarness heitir Kollafjörður, og á honum eru eyjarnar, Viðey, Engey, Akurey, Þerney og Lundey.
Við höldum fram hjá byggingum kaupfélags Kjalarnesþings, og til hægri blasir við okkur Leiruvogurinn.
Brátt sér heim að Hulduhólum, íbúðarhúsi Sverris Haraldssonar, listmálara , en í túninu framan við hús sitt hefur listamaðurinn komið nokkrum verka sinna fyrir. Lágafell er á vinstri hönd, en þar er kirkja og fagurt íbúðarhús, sem Thor Jensen reisti. Effersöeættin færeyska á rætur sínar að rekja til Lágafells. Þaðan var og ættaður Oddgeir Stephensen, sem meðal annars gegndi starfi forstöðumanns íslenzku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Hlíðartún nefnist lítið þorp í Lágafellslandi. Þar er vistheimili fyrir vangefin börn. Leið okkar liggur nú með Úlfarsfelli á vinstri hönd, en til hægri sjáum við heim að Blikastöðum, miklu stórbýli í Mosfellssveit.”

Heimild:
-Tíminn; Nokkur orð um Kjósarsýslu, Hvað ætlar þú að sjá af landinu þínu?, 222 tbl. 03.10.1976, bls. 16-17.
Kjós

Draugatjörn

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Kålund á efri árum.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: “Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs. Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi. Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.

Búasteinn

Búasteinn.

Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er “sæluhús” (“sæluhús” eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum. Almenn sögn segir, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu. Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkur hundruð fet uppi er stór tenginslaga steinn; þetta er Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu (38 o.áfr.), þar sem Búi, þegar hann kom niður úr Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, “svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga”, og varði sig þar. Sjá má við nánari athugun, að steinninn hefur ekki teningslögun nema að framan, að aftanverðu hallar honum nokkurn veginn jafn niður eftir fjallinu, sem hann er í, og er raunar aðeins einn, en hinn stærsti af mörgum framstandandi hraunklettum, sem eru í röð frá efstu fjallabrekku og niður í rætur, en öll brekkan er annars þakon möl og mylsnu. Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.”

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Keflavíkurberg

Í Faxa, 8. tbl. 01.10.1967, fjallar Ragnar Guðleifsson um “Örnefni á Hólmsbergi”.

Í janúarblaði á síðastliðnu ári birtist mynd af Keflavíkurhöfn og Vatnsnesi, þar sem á voru merkt örnefni, er ég þá hafði vitneskju um.

Hólmsberg

Hólmsberg – örnefni.

Við merkingu þessara örnefna studdist ég við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar, fyrrv. fiskimatsmanns, að Túngötu 9 í Keflavík.
Hér verður nú sagt frá nokkrum örnefnum á strandlengjunni frá Keflavíkurhöfn og út í Leiru eða á Hólmsberginu, sem við venjulega nefnum Bergið, og eins og áður er hér stuðzt við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar.
Myndin hér að ofan er eins og hin fyrri tekin úr lofti og sýnir Hólmsbergið. Hún er tekin úr mikilli hæð og er því vel skýr. Hér eru aðeins fá örnefni merkt, en þau kunna að leynast fleiri, ef vel væri leitað. Því er hér óskað, að viti einhver um fleiri örnefni á stöðum, sem hér eru merktir, þá væru þær upplýsingar vel þegnar.
1. Hellunef. Vestan eða utan við Brennunípu er nokkuð hátt berg. En er því sleppir taka við sléttar klappir, er halla í sjó fram. Þarna myndast klettanef fram í sjóinn er nefnist Hellunef. Þetta svæði, sléttuklappirnar og klettanefið er stundum kallað Hellumið. Á þessu svæði eru nú landamerki jarðarinnar Keflavík.
2. Kaggabás. Þegar sléttu klöppunum sleppir tekur við lágt berg, sem liggur að þröngum bás inn í bergið, sem heitir Kaggabás.

Helguvík

Helguvík. Sturlaugur Björnsson – letur; HHP

3. Helguvík heitir allstór vík fyrir utan Kaggabás. Bergið frá Kaggabás að víkinni er lágt en þverhníft í sjó fram. Munnmæli herma, að Helguvík dragi nafn sitt af konu, er þar bjó með sonum sínum tveim endur fyrir löngu. Einhverju sinni, er þeir bræður voru á sjó og óveður skall á, svo tvísýnt þótti, að þeir næðu landi í Helguvík, átti Helga móðir þeirra að hafa mælt svo um, að frá þeirra byggð, er synir hennar næðu landi, skyldi upp frá því aldrei farast skip, er næði opinni vík. Bræðurnir náðu síðan landi, heilir á húfi, í Keflavík. Þessa sögu sagði mér amma mín, Valdís Erlendsdóttir, er ég var drengur.
Helguvík er öll girt háu bergi, sem hækkar til norðurs. Bergið nær þó ekki í sjó fram fyrir botni víkurinnar. Þar er því malarfjara nokkur, einkum nyrzt í víkinni, en víða er fjaran með stórgrýtisurð. Þó má ganga meðfram víkinni þar til bergið sveigir til norðausturs.
4. Helguvíkurnef heitir austasti tanginn sunnan við Helguvík.

Stakksnípa

Stakksnípa og Stakkur.

5. Stakksnípa heitir bergið, er liggur að Helguvík að utan og norðan. Bergið er hátt og þverhnípt í sjó fram. Þar er fuglalíf mikið, einkum lundi og mávur.
Stakkur6. Stakkur heitir kletturinn fyrir framan t;takksnípu. Milli Stakks og Stakksnípu Seitir Stakkssund. Þar koma klettar upp úr um háfjöru, sem nærri mynda brú yfir sundið.
Stakkur á sína sögu, sem margir kannast við. Þjóðsagan segir að endur fyrir löngu hafi sjómenn af Suðurnesjum farið til eggja út í Geirfuglasker. Þegar snögglega brimaði, urðu þeir að yfirgefa skerið, en þá varð einn skipverjanna eftir. Eigi var hægt að komast í skerið aftur það sumarið vegna brims, og var nú skipverjinn löngu talinn af. Maðurinn var frá Melabergi. Nú leið þar til sumarið eftir, að farið var út í Geirfuglasker, sem venja var, til eggja. Þegar þeir komu upp á skerið sjá þeir, sér til undrunar, mann á gangi og þekkja þar manninn, er þeir höfðu skilið eftir vorið áður. Óljóst sagði hann þeim frá veru sinni í skerinu, þó sagði hann, að eigi hefði væst um sig þar. — Nú leið þar til síðla sumars, sunnudag einn, er messað var á Hvalsnesi. Við messu var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Þegar prestur kemur úr kirkju og sér vögguna og barnið, spyr hann hvort nokkur viti deili hér á. Einkum spurði hann Melabergsmanninn ítarlega, en hann brást þurrlega við og kvaðst ekkert um vögguna né barnið vita. En í því bili sem maðurinn neitaði, birtist þar kona fríð sínum og fönguleg, en svipmikil. Þreif hún ábreiðuna af vöggunni og snaraði henni inn í kirkjuna með þeim ummælum, að eigi skyldi kirkjan gjalda. Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir reiðulega: „En þú skalt verða að hinu versta illhveli í sjó.” Greip hún síðan vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, sem þótti hin mesta gersemi.
VatnssteinnEn frá Melabergsmanninum er það að segja, að honum brá svo við orð konunnar, að hann tók á rás frá kirkjunni og heim til sín. Þaðan æddi hann sem vitstola maður norður á Hólmsberg, sem er fyrir vestan Keflavík. Þegar hann kemur fram á bergbrúnina staldrar hann þar við. Verður hann þá allt í einu svo stór og þrútinn, að bergið springur undir fótum hans og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum, sem síðan heitir Stakkur. Stakkst maðurinn fram af berginu í sjóinn og varð samstundis að feiknastórum hvalfiski með rauðan haus, því maðurinn hafði haft rauða húfu á höfði. Rauðhöfði var nú versta illhveli og grandaði mörgum mönnum og skipum í Faxaflóa. Að lokum tókst prestinum í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd að ráða niðurlögum hans, var prestur þó orðinn gamall og blindur. Tókst presti að koma hvalnum upp Botnsá í vatn það er áin rennur úr og heitir síðan Hvalvatn. Þar sprakk Rauðhöfði. Síðan vitnaðist, að um veturinn, er maðurinn dvaldi í skerinu, hafi hann verið með álfum í góðu yfirlæti. Þar hafi hann kynnzt konunni, sem birtist við kirkjuna. Hafi hann átt með henni barnið og lofað að láta skíra það, ef hún kæmi því til kirkju, ella mundi hann gjalda þess grimmilega.
Þetta var sagan um Rauðhöfða. — En nú höldum við áfram út Bergið.
7. Stakksvík heitir lítið vik inn í bergið utan við Stakksnípu. Þar er ekkert undirlendi, en fyrir botni víkurinnar er stórgrýtisurð, sem kölluð er Urðin. Þarna er oft fjörugt fuglalíf. Þarna verpir Lundinn.

Hellisnípuviti

Hellisnípuviti.

8. Hellisnípa er hátt þverhnípt berg í sjó fram utan við Stakksvík. Hún dregur nafn af helli, sem gengur inn í bergið framanvert. Á Hellisnípu er viti, sem reistur var fyrir nokkrum árum. Við vitann eru landamörk Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps.
9. Selvík heitir vikið vestan við Hellisnípu. Þar er ekkert undirlendi.
10. Ritunípa heitir þverhnípt berg, nokkuð hátt, er skagar fram þríhyrningslagað norðan við Selvík.

Bergvík

Bergvík.

11. Bergvík heitir lítil vík vestan við Ritunípu. Vestan við víkina var innsti bærinn í Leiru og bar nafn af víkinni.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

12. Berghólar heitir holtið og klettabeltin upp af Bergvíkinni. Eigi langt frá sjó er þar klettahöfði með sléttum klöppum að ofan, sem kallaður er Borg. Við þennan höfða eru fiskimiðin Borgarslóð kennd.
En Borgarslóð heita fiskimiðin í Leirnum þegar komið er þar sem Borgin kemur fram undan Ritunípu. Það eru norðurmiðin, en djúpmiðin eru Grindavíkurfjöllin, við bæina í Njarðvíkum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Annað fiskimið er út af Stakk, nefnist það Rif. Þriðja miðið er beint út af Hellisnípu (í N— A), heitir það Legur. Ef farið er nógu djúpt inn í Leirinn, er hægt að láta öll þessi mið, Rif, Legur og Borgarslóð, renna saman í eitt.

Á myndinni er merkt Keflavíkurborg, rétt suðvestan við Garðveginn, upp af Grófinni. Keflavíkurborg er landamerkjavarða, er markar vesturhorn Keflavíkurjarðarinnar. – Ragnar Guðleifsson.

Heimild:
-Faxi, 8. tbl. 01.10.1967, Örnefni á Hólmsbergi, Ragnar Guðleifsson, bls. 1-2.
Faxi

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um “Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið“.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

“Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á”.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.”

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt. Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni. Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun? Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Þurárhraun

Þurárhraun – afurð Hellisheiðarhrauns.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.” Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann: „Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.” Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
KristnitökuhraunNiðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.”
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Geldingadalur

Í tveimur örnefnalýsingum fyrir Hraun í Grindavík má m.a. sjá örnefnið “Geldingadalir“. Fyrri lýsingin er höfð eftir heimildarmönnunum Gísla Hafliðasyni, bónda á Hrauni, og Guðmundi Guðmundssyni, bóndi á Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði:

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Merardalir nær.

“Norður frá Langahrygg og Borgarfjalli er hækkandi allmikið fjall, hið stærsta að flatarmáli á þessum slóðum. Á því og í sambandi við það er þegar komið nokkuð af nöfnum, og verður nú tekið meira af því. Sunnan undir Meradölum, sem fyrr var getið og norðan Langahryggs, er Stórihrútur. Sunnan hans er Langihryggur hæstur, og þar austur af, á norðurenda Einihlíða, er Litlihrútur. Lægð þar norðar heitir Einihlíðarsandur. Langihryggur nær að Stóra-Leirdal, en Einihlíðar ná að Litla-Leirdal Litlihrútur er grjótmóaþúfa. Einihlíðarnar eru talsvert grónar. Eins og fyrr segir, er vinkillinn vestur af Borgarfjalli nefndur Nátthagakriki. Þar upp af í fjallinu er grasflöt, sem heitir Selskál. Sunnan undir henni á sléttunni er nokkuð stór melhóll, sem heitir Einbúi og fyrr er getið. Þar upp af er Mátthagaskarð. Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt. Norður af þeim er hnúkur, hæsta hæðin á fjallinu, og heitir þar Langhóll. Vestasti hluti fjallsins er nefndur Kast. Þar norður með hlíðinni, allhátt, eru grasgeirar nefndir Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir, heldur brekkur og kvosir.”
Framangreind dys Ísólfs var hraunhóll í miðjum vestasta dalnum, en hún er nú horfin undir hraun.

Síðari lýsingin er skráð af Lofti Jónssyni í Grindavík:

Fagradalsfjall

Merardalafjall og Merardalir. Stóri-Hrútur t.h.

“Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.”

Rétt er að geta þess, að gefnu tilefni, þótt örnefnið “Geldingadalir” hafi verið skráð er þar um að ræða þrjár samliggjandi dalkvosir í Fagradalsfjalli, milli Langhóls og Langahryggs. Eldgos það, sem flestir virðast hafa áhuga á um þessar mundir, er einungis ofan við eina kvosina og því er ekki úr hæfi að nefna hana Geldingadal. Réttnefni á nýja hrauninu, til heiðurs dys Ísólfs af Skála, sem nú er endanlega horfin undir það, væri því “Geldingadalshraun” eða “Geldingahraun”.

Sjá ýmsar MYNDIR af eldgosinu í Geldingadal.

HÉR má sjá eitt streymið af mörgum af eldgosinu….

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Jón valgeir Guðmundsson

Eftirfarandi umfjöllun um Jón á Skála, Jón Valgeir Guðmundsson, birtist á vefsíðu Grindavíkur árið 2020. Viðtalið við hann hafði áður birst í Járngerði.

Ég væri til í að lifa aftur allt það líf sem ég hef nú þegar lifað

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson 18 ára.

Jón á Skála, eða Jón Valgeir Guðmundsson, er elsti núlifandi Grindvíkingurinn og verður 98 ára í sumar. Ritstjóri Járngerðar hitti hann snemma í janúar og tók við hann viðtal sem við endurbirtum núna á heimasíðunni en það birtist áður í Járngerði.

Jón tekur á móti blaðamanni í notalegri íbúð í nýrri viðbyggingu við Víðihlíð rétt eftir áramótin. Jólaljósin eru enn tendruð og fallegur rauður jóladúkur þekur eldhúsborðið þar sem við fáum okkur sæti. Við byrjum á því að ræða flutninginn í Víðihlíð sem Jón er alsæll með, svo ánægður að hann hefur þegar nefnt kotið Sælustaði. Hann lýsir dvölinni í Víðihlíð sem „himnaríki á jörðu“.

Jón Valgeir fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krísuvíkur

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krísuvík. Hann átti bæði Krísuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í Skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Strandaði á síldarveiðum

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

„Árið 1938 fór ég á síld á Ægi frá Sandgerði og fékk 850 krónur fyrir sumarið, þá var róið út á árum. Við köstuðum þar á torfu við Skjálfanda. Við náðum að fylla Ægi og héldum í land á Siglufirði. Um nóttina, meðan við erum á siglingu, gerist það að það heyrist skruðningur, svo heyrði ég voða læti í vélinni og svo kom dauðaþögn. Það var svarta þoka, sást ekki út úr augunum, sjórinn var spegilsléttur. Við höfðum fengið í skrúfuna og báturinn strandað. Um nóttina erum við allir komnir upp á dekk. Klukkan hálf sex um morguninn var komin fjara og þá gátum við náð úr skrúfunni og svo biðum við bara eftir því að það félli að aftur. Svo líður og bíður og ekkert gerist en báturinn stóð milli tveggja kletta. Klukkan 14:00 daginn eftir losnar báturinn og í því kemur Muninn, bátur frá sömu útgerð og Ægir, sem er þá þegar búinn að landa síldinni sem hann var með og skipstjórinn kallaði: „Hvernig fórstu að því að stranda í svona góðu veðri?“ Okkur gekk í kjölfarið vel að veiða, eltum bara múkkann og fylltum báða bátana.

Dreymdi fyrir sjávarháska við Færeyjabanka

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón segir að lífið hafi alltaf gengið vel hjá honum, „alla tíð, það hefur alltaf verið bjart í kringum mig. Ég er berdreyminn, á sjó og landi, og mig dreymir oft fyrir vandræðum. Ég hef verið heppinn, sloppið úr háska vegna aðvarana sem ég fékk í draumi.“
Jón heldur áfram að rifja upp atvik þar sem hann dreymdi fyrir sjávarháska. „Árið 1959 gerðist ég útgerðarmaður og keypti bát. Við fengum leyfi til að byggja bát í Þýskalandi. Við fórum að sækja bátinn, fórum tveir úr Grindavík, ég og Guðmundur Helgason, en nokkrir voru komnir út. Báturinn átti að leggja af stað heim þremur dögum fyrir jól. Þegar við erum að sigla Eystrasaltið þá dreymir mig að tvær konur ætli að drepa mig. Ég var hálf vankaður þegar ég vakna enda leiðinlegur draumur, svo ég segi við skipsfélaga mína að mig hafi dreymt ljótan draum í nótt og ég túlkaði drauminn á þann veg að litlu myndi muna að við færumst með skipinu. Þegar við erum komnir á Færeyjabankann, þá er hífandi rok og suðaustan 12 vindstig. Ég var skráður annar vélstjóri, en ég var uppi um 10 um morguninn. Þá sé ég þennan voða sjó koma á eftir bátnum, alveg himinháar öldur. Ég stoppa strax vélina til að taka ferðina af bátnum. Þá kemur siglingamaðurinn, Jón Pétursson, og segir: „Hvern djöfulinn, af hverju erum við að hægja á?“ Og ég segi við hann: „Hvað, sérðu ekki hvað er að ske?“

„Þessi 75 tommu trébátur, sem við vorum á, hann stakkst bara á nefið. Ef ég hefði ekki slegið af þá hefði honum bara hvolft. Og þetta hefur fylgt mér alla tíð, bæði á sjó og landi, ég fæ þessar aðvaranir. Mig dreymdi oft fyrir afla og eins þegar ekkert fékkst. Ef það var von á afla þá var báturinn á kafi í draumnum, en ef ekkert fékkst þá var hann bundinn við bryggju í draumnum. Svona hefur þetta verið allt mitt líf, alltaf eitthvað verið til að bjarga mér. Mig dreymdi þó ekki fyrir strandinu á Ægi og það er vegna þess að þá var rennisléttur sjórinn og gott veður.“

„Þú verður ekki gamall maður“

JJón valgeir Guðmundsson

Jón valgeir Guðmundsson.

„Einu sinni dreymdi mig að ég var úti í Hælsvík, ég var á trillu sem var nánast sokkin, sást ekkert í hana nema lestarborðið. Þetta var á sunnudegi og við förum út að Hælsvík og þar er ekkert að hafa. Síðan klukkan ellefu um kvöldið vænkaðist staðan og við fengum fullt af fiski. Drógum fullan bát eða um tvö tonn.“ Jón segir að þegar þeir hafi komið í land á mánudagsmorgni, hafi Þórarinn Pétursson, sem sá um reksturinn í Þórkötlustaðavinnslunni, komið til hans og sagt að nú ætti að skipa út 6000 kössum af fiski. „Hann sagði við mig að ég yrði nú ekki upp á marga fiskana ef ég ætlaði að vinna svona, „þá verður þú nú ekki gamall maður,“ en ég svaraði því til að það besta sem maður gerði væri að vera vinnandi. Svo fór að hann dó því miður úr krabbameini um sextugt og hér er ég, lifandi enn þá!
Berserksgangur í Kvennó
Gamli tíminn er rifjaður upp og skemmtanir sem oft voru haldnar í Kvennó berast í tal, hvernig nýi tíminn mætir þeim gamla þegar kemur að slíku. Jón rifjar þá upp skemmtun í Kvennó sem haldin var á laugardegi fyrir páska, fyrir töluvert mörgum árum. Félagsheimilið Festi var a.m.k. ekki risið. „Yfirleitt var dansað á neðri hæðinni í Kvennó, setið var á bekkjum og konum boðið upp í dans. Þó var hópur sem hélt sig á efri hæðinni, oftast karlmenn sem sátu og drukku.“ Jóni var minnisstætt atvik þegar Kalli í Karlsskála var búinn að fá sér aðeins of mikið, losaði borðfætur undan borði og gekk svo berserksgang og lamdi alla þá sem fyrir voru. Jón sagði að svo mikil hafi lætin verið að hann hafi hlaupið eins og byssubrandur niður, út og heim. Hann hafi eftir þetta ekki verið mjög spenntur fyrir að sækja skemmtanir sem þessar. Menn hefðu orðið svo lemstraðir í átökunum að þeir gátu ekki róið eftir páskastoppið, „en það hefur aldrei verið stuggað við mér og ég ekki við neinum,“ bætir Jón við.

Mikilvægt að vera heilbrigður á líkama og sál

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli.

Talið berst að langlífi en nokkur systkina Jóns hafa lifað nokkuð lengi. „Það besta við að vera langlífur er að hafa nóg að gera og nóg að starfa. Og vera heilbrigður á líkama og sál. Það að trúa á almættið skiptir miklu máli. Það styrkir mann svo að vita af því að það er einhver sem lætur mann vita af vandræðum. Þetta hefur fylgt mér alla daga. Ég reri nú einn um nokkurt skeið en aldrei hef ég óttast neitt eða verið hræddur um að nokkuð komi fyrir mig. Þetta er alveg æðislegt að fá að lifa svona lengi og fá að vera svona heilbrigður. Ég væri til í að lifa allt það líf, sem ég hef nú þegar lifað, aftur. Það hefur ekkert komið fyrir mig og ég hef verið látinn vita ef hættur eru framundan. Draumarnir hafa alltaf fylgt mér,“ segir Jón að lokum.

Jón dó ári seinna, líkt og allra núlifandi má vænta.

Heimild:
-https://grindavik.is/v/22455

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Jón Valgeir Guðmundsson

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998 er fjallað um “Samgöngur hið forna”,  og er þar sérstaklega getið Ögmundarhrauns.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

“Forn gata um Ögmundarhraun. Þarna voru miklar samgöngur fyrr á öldum og hafa skeifur hestanna klappað götu í hraunhelluna.
Fyrr á öldum voru miklar samgöngur milli Suðurlandsins og verstöðvanna á Suðurnesjum. Þar voru vermenn á ferð og eins þurfti að koma varningi milli landshlutanna.
Sveitamenn að austan seldu sínar afurðir íbúum lítt búsældarlegra Útnesja og keyptu í staðinn skreið og annað sjávarfang. En erfiðir farartálmar voru á leiðinni, bæði á sunnanverðu nesinu og eins að norðanverðu, þar sem úfin hraun bönnuðu allar hestaferðir milli Útnesja og Innnesja. Ornefni eins og Hvassahraun vísa til landslagsins milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar.
Hraunin neðan Krýsuvíkur voru ekki síður torfarin, þannig að leiðirnar út á Reykjanes voru nánast lokaðar og alls ekki hestfærar og troðningar tæpast bjóðandi skólítilli þjóð. Hraunin á Reykjanesi eru bæði gömul og ný. Talið er að Kapelluhraun, þar sem álverið stendur, og Ogmundarhraun vestan Krýsuvíkur, hafi runnið úr miklu gosi skömmu eftir árið 1000. Undir þeim eru önnur og eldri hraun.
Um Ögmundarhraun liggur gömul gata, sem á sér svipaðan uppruna og vegurinn um Berserkjahraun vestra, og glöggt er sagt frá í Eyrbyggju hvernig sú samgöngubót var framkvæmd, og frægt er orðið fyrir löngu.
Í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum er sagt frá hverjir stóðu að vegaframkvæmdunum við Krýsuvík forðum daga, en vert er að gefa því gaum, að þar starfaði leysingi að, en þrælahald lagðist af á Íslandi á 11. öld. Er því vegurinn yfir hraunið þarna orðinn ærið gamall.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

En hér fer á eftir lýsingin á vegagerðinni: Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum.
Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei til að stand á móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, Ætlaði hann hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Í Dagblaðinu 1982 er spurt hversu gamalt Ögmundarhraunið sé? Þar segir m.a.: “Jón [Jónsson] hefur prófað lífrænar leifar í hrauninu með geislakolsaðferð og fær úr ártalið 1040. Staðfestir það niðurstöðu sem Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hafði áður komizt að, en vildi láta prófa betur.
Sveinbjörn [Rafnsson] kannar hins vegar gömul skjöl Með afar læsilegri röksemdafærslu færir hann líkur að því að Ögmundarhraun hafi runnið rétt fyrir 1563 og eyðilagt Krýsuvíkurkirkju. Má því segja að þarna skakki 500 árum á niðurstöðum raunvísinda og hugvísinda.

Geislakolsprófanir og kvennafarssögur

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson.

Listaskáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson liggur þarna mitt á milli því hann stakk upp á árinu 1340 eða þá 1390.
Þeir sem efast um að jarðfræðingarnir hafi rétt fyrir sér benda á að geislakolsprófanir gefa oft hærri aldur á Íslandi en annars staðar. Hafa menn gizkað á eldgos eða jafnvel sólblettir valdi vissum ruglingi í kolefninu. En þessi skekkja á þó ekki að vera meira en 100 ár og Jón er búinn að draga frá fyrir henni þegar hann velur ártalið 1040.
Þeir sem gagnrýna niðurstöðu Sveinbjörns segja hins vegar að ótrúlegt sé að eldgos hafi orðið á Reykjanesi um 1560, því á það er hvergi minnzt í ritum. Verður Sveinbjörn því að treysta á að viðkomandi heimildir hafi eyðzt, brunnið eða farizt í hafi, ef ekki endað í harðindum. Hann byggir allmikið á því að Krýsuvíkurkirkja er formlega aflögð 1563 og skömmu seinna kemst undarleg saga á kreik. Sumsé að Skálholtsbiskup hafi lagt kirkjuna niður til að hefna sín á manni sem þar átti hagsmuna að gæta og vildi ekki gefa dóttur sína vildarmanni biskups. Þykir Sveinbirni sú skýring vafasöm. Raunar tilfærir hann í grein sinni aðra kvennamálasögu sem tengist hrauninu. Samkvæmt henni hafði Ögmundur nokkur lagt veg um þetta illfæra náttúrufyrirbrigði. Átti hann að fá bóndadóttur að launum, en faðir hennar sá sig um hönd og myrti Ögmund áður en af brúðkaupinu yrði. Þannig fékk hraunið nafn sitt. Telur Sveinbjörn þetta þjóðsögu og ekki ýkja gamla.”

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón Valgeir Guðmundsson fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krísuvíkur

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krýsuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Jón fylgdi FERLIRsfélögum um Ögmundarstíg og Selatanga í maí 2004. Sjá má frásögn af ferðinni HÉR.

Út frá framangreindu má álykta að framangreind saga af meintum ágreiningi biskups og Krýsuvíkurbónda og aflögn Krýsuvíkurkirkju hafi ekki stafað af persónulegum ástæðum, heldur hagkvæmum. Lýsing Jóns Vestmanns styður það. Ögmundarhraun rann, skv. áreiðanlegustu heimildum, um 1150.

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli. Lyngfell og Festarfjall fjær.

Þjóðsagan um Ögmund er að öllum líkindum yngri en vegagerðin. Vegagerðin virðist hafa verið framkvæmd á 16. öld. Þjóðsagan er því líklega frá á 17. öld. Kirkjusóknin var á þeim tíma færð til Selvogssóknar, og síðar til Grindavíkursóknar, líkt og lesa má í heimildum. Slík tilfærsla sóknar var ekkert einsdæmi á þeim tilgreindu tímum, þótt ekki sé hægt að útiloka afskipti klerkaveldisins í einstökum persónulegum málum þess tíma.

Heimild:
-Dagur, Íslendingaþættir, 24.01.1998, Samgöngur hið forna, Ögmundarhraun, bls. 1.
-Dagblaðið-Vísir, 160. tbl. 17.07.1982, Hvursu gamalt er Ögmundarhraun?, bls. 15.
-https://grindavik.is/v/22455
-https://ferlir.is/isolfsskali-selatangar-med-joni-gudmundssyni/

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.