Keilir

Eftirfarandi er frásögn Sesselju Guðmundsdóttur í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 af umhverfi Keilis; einkennisfjalls Reykjanesskagans:
Afstapahraun-901“Umhverfis Keili eru fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar getum við líka séð fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Við beygjum af Reykjanesbrautinni rétt sunnan Kúagerðis við skilti sem vísar á Keili. Vegurinn (ca 9 km) liggur upp í gegnum úfið Afstapahraunið sem rann á 14. öld og þekur um 22 ferkm. Eftir að hafa ekið nokkra kílómetra sjáum við fjóra Rauðhóla á hægri hönd og norðaustan undir þeim stærsta er gömul selstaða frá Vatnsleysu.
Graenadyngja-901Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd. Þegar upp úr hrauninu kemur blasir við eitt og annað fallegt, svo sem Keilir (378 m) með sínar mjúku línur á aðra hönd en hvöss Trölladyngjan (375 m) á hina. Frá okkar sjónarhorni felur sig svo Grænadyngja (402 m) að baki systur sinnar. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina. Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Vigdísarvelli og mörgu öðru skoðunarverðu.
Hoskuldarvellir-901Við leggjum bílnum við norðvesturhorn vallanna, reimum skóna þétt og höldum nokkurn spöl upp með Oddafellinu að vestanverðu. Fyrr en varir komum við að stíg yfir Afstapahraunið sem heitir Höskuldarvallastígur (7–800 m). Eftir að úfnu hrauninu sleppir tekur við heiðarland allt að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Þegar upp er komið leitum við að „lognblettinum“ sem, svo til undantekningarlaust, má finna á þessum litla kolli þó svo eitthvað blási um og upp hlíðarnar. Þar má þröngt sitja á sléttum mel og nú er lag að Sog-901draga upp nestisboxin og brúsana. Af tindi Keilis sjáum við Reykjanesskagann breiða úr sér suður, austur og vestur úr. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær okkur liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Gufustrókarnir úr Svartsengisorkuverinu og Reykjaneshverunum stíga til lofts og utar rís Eldey úr hafi. Nær okkur, í sömu átt, er gamla dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysustrandar-byggð stendur á. Svo fylgjum við sjóndeildarhringnum áfram réttsælis og lítum flatt Miðnesið, síðan Faxaflóann og fallegan Snæfellsjökulinn og loks allan fjallgarðinn til norðurs og austurs, meira að segja Baulu (934 m) í Borgarfirði ef vel er að gáð. Þarna fyrir fótum okkar liggur svo Straumsvíkin og Reykjavíkin, og, og, …Við skrifum nöfnin okkar í gestabókina áður en við höldum niður af toppnum. Á fjallinu hefur verið gestabók síðan árið 1976 og sem dæmi um gestaganginn voru 116 nöfn skráð í bókina á einni viku nú í byrjun sumars.
Selsvellir-901Frá Keilisrótum þrömmum við svo um Þórustaðastíg fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Viðnorðurenda fellsins er hár og stórbrotinn hraunkantur sem gaman er að skoða á leið okkar austur og suður með fellinu. Þegar við komum á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla, en þeir liggja suður af Höskuldarvöllum eins og fyrr segir, förum við yfir hraunhaft sem mótað er af umferð hesta og manna. Stóri, fallegi, gígurinn heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Við hættum nú að fylgja Þórustaðastígnum sem liggur þarna þvert yfir á Selsvallafjall en göngum heldur suður að Selsvallaseli. Rústirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra eir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um Selsvellir-906500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli.
Við höldum nú til baka að Moshóli en í leiðinni lítum við aðeins á eldgamlar tóftir upp við fjallsræturnar, þær liggja fast norðan við syðri lækinn sem rennur um Selsvellina. Frá Moshóli göngum við svo yfir okkuð greiðfært hraun norður að Hvernum eina sem nú er nánast útdauður. Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, „…sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.“ Frá Hvernum eina stikum við svo yfir hraunið og upp í gígskreytta fjallshlíðina fyrir ofan nýju hitaveituborholuna og fylgjum Sogalæknum upp að Sogaseli sem liggur Hverinneini-901fast norðan við lækinn. Selrústirnar eru inni í mjög fallegum, stórum, gömlum gíg sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd og jafnvel úr Krýsuvík selstöðu og þar sjást margar kofatóftir og kví undir vestari hamraveggnum.
Frá Sogaselsgígnum fylgjum við svo læknum áfram inn í Sogin sem eru djúp gil sem aðgreina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til. Mikil litadýrð er í Sogunum og jarðhiti hefur verið mikil þar fyrrum og sést eima af enn. Frá Sogum gætum við svo gengið upp á Grænudyngju og litið ofan af henni yfir Móhálsadal, Djúpavatn og Sveifluháls en við kjósum heldur lægri veg og förum milli trolladyngja-901Dyngna um Söðul sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Þarna til vinstri handar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.“ Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. Nú göngum við á Eldborgarhrauninu um slóð sem liggur austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við höldum vestur með fellinu að norðurenda þess og þar göngum við skyndilega inn í ævintýralegt umhverfi, fyrst verða fyrir dökkir klettar og síðan göng beint inn í fjallið. Þetta er hin stórbrotna Lambafellsgjá og dulúð fellsins hvetur okkur til þess að ganga inn í risastórt anddyrið. Það er vel ratljóst inn í fellinu því langt fyrir ofan okkar þröngvar dagsljósið sér niður bólstrabergsveggina sem eru 20–25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1–3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en lambagja-901svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl) sem leiðir okkur upp úr „álfheimum“ og á lítinn grasblett sem gott er að hvílast á. Á meðan við maulum úr nestisboxunum skoðum við umhverfið frá þessum notalega stað á fellinu miðju.Þarna norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi „gatnakerfis“ um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krísuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli sem við ókum hjá á leiðinni hingað upp eftir. Endur fyrir löngu hefðum við getað séð hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Við ljúkum þessum skemmtilega hring um Keilis- og Dyngjusvæðið með því að ganga götuna til baka að Eldborginni sem vissulega man sinn fífil fegurri.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Umhverfis Keili, Sesselja Guðmundsdóttir, 11. ágúst 2001, bls. 10.

Keilir

Keilir.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um “Garða á Álftanesi” í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

“Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.
Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunshoitslækjar og Hvassahrauns. Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar. Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum. Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju.
Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg. Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna. En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.
Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk. Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.
Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson. Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.
Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.
2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis. Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Þorgautsdys

Í uppgraftarskýrslu um “Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi”, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Útdráttur

Dysjar hinn adæmdu

Forsíða “Dysja hinna dæmdu II”.

Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu “Dysjar hinna dæmdu”. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.

Forsaga rannsóknar
“Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.

Þorgautsdys

Þorgautsdys – loftmynd.

Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“
Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Þorgautsdys
Í grein sinni “Nokkrar Kópavogsminjar”, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).
Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.
Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.”

Niðurstaða
Þorgautsdys
“Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma. Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Mathiesen. Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni (mynd 3). Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.”
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að skilja hingað til].

Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

 

 

 

 

 

 

 

Lækjarbotnar

Í rannsókn á “Dysjum hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum”, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Rannsókn

Hallberuhellir

Forsíða rannsóknarinnar um Hallberulelli.

Þann 7. ágúst 2019 fór fram rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnalandi. Í hellinum er talið að Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haldið til um tíma en þau voru tekin af lífi á Öxarárþingi árið 1677 fyrir útileguþjófnað og hórdómsbrot. Rannsóknin á hellinum er þáttur í verkefninu Dysjar hinna dæmdu sem miðar að því að afla upplýsinga um einstaklinga sem teknir voru af lífi á Íslandi á árunum 1550 til 1830, bæði með tilliti til brota þeirra og dóma en einnig til bakgrunns þeirra, samfélagsstöðu og búsetu. Tilgangur rannsóknarinnar á Hallberuhelli er að varpa ljósi á aðstæður og lifnaðarhætti einstaklinga sem lifðu á flakki hér á landi og hlutu síðar dauðarefsingu fyrir þjófnað og fleiri brot. Rannsóknin á hellinum fólst fyrst og fremst í úttekt á innréttingu hans og voru gólf og veggir hans því ljósmyndaðir og teiknaðir en auk þess var gerður prufuskurður í gólf hellisins og þaðan tekin sýni.

Forsaga rannsóknar
Hallberuhellir
“Á Íslandi fóru fram um 240 aftökur á tæplega þremur öldum, frá siðaskiptum, þegar rétturinn til refsinga færðist úr höndum kirkjunnar til veraldlegra valdhafa, til ársins 1830 þegar síðustu dauðadómunum var framfylgt hér á landi. Dauðadómar féllu fyrst og fremst fyrir morð, galdra, þjófnað, dulsmál og blóðskömm. Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefnið Dysjar hinna dæmdu en markmið þess er að varpa ljósi á dauðadæmda einstaklinga á íslenskri árnýöld með tilliti til brota þeirra og dómsmeðferðar sem og félagslegs bakgrunns þeirra, kyns, aldurs, stöðu, fjölskyldurhags og búsetu. Rannsóknarverkefni þetta hefur leitt í ljós að dauðadómar á Íslandi féllu oftar fyrir þjófnað en nokkra aðra tegund brota og fleiri en 70 þjófar voru teknir af lífi á árunum 1584–1758. Svo virðist sem að flestir þessara þjófa hafi verið heimilislausir einstaklingar sem lifðu á flakki og stálu sér til viðurværis. Rannsóknin á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, þar sem talið er að útilegufólkið Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haft aðsetur á síðari hluta 17. aldar, er liður í áðurgreindu verkefni en tilgangur hennar er að kanna aðstæður og lífshætti flakkara og dæmdra afbrotamanna.
Margrétar Símonardóttur og Eyvindar Jónssonar er getið í fjölmörgum rituðum heimildum og eru mál þeirra gjarnan kölluð Eyvindarmál hin fyrri til þess að greina þau frá málum Fjalla-Eyvindar og Höllu sem lögðust út tæpri öld síðar (Ólafur Briem 1983, bls. 28).
HallberuhellirÍ annálum kemur fram að Margrét og Eyvindur, sem var þá þegar giftur annari konu, hafi tekið saman og hlaupið úr Ölfusi. Fyrst um sinn munu þau hafa haldið til vestur undir Snæfellsjökli (Fitjaannáll, bls. 427; Hestsannáll, bls. 512). Síðar földu þau sig í helli sunnan við Örfiriseyjarsel sem Árni Magnússon nefnir Hraunhelli en hefur á síðari árum verið kenndur við Hallberu Jónsdóttur sem bjó á Lækjarbotnum á síðari hluta 19. aldar (Árni Magnússon, bls. 60; ferlir.is). Þann 20. október 1677, þegar Margrét og Eyvindur höfðu legið úti í meira en tvö ár, voru þau handtekin við Hallberuhelli og þýfi þeirra, sem samanstóð af nautakjöti og öðrum hlutum, gert upptækt (Alþingisbækur VII, bls. 403 – 405).
Á Bakkárholtsþingi þá um haustið voru Margrét og Eyvindur dæmd sek um hórdómsbrot með barneign, burthlaup úr héraði sem og foröktun sakramentis og heilagrar aflausnar. Í þetta sinn sluppu þau við dauðadóm en áttu að hljóta þrjár húðlátsrefsingar hvort um sig. Í dómsskjalinu kemur þó fram að sýslumaðurinn, Jón Vigfússon, mætti milda dóm Margrétar ef honum sýndist „vegna hennar nú sýnilegra vesalburða.“ Degi síðar var fyrsta refsingin lögð á þau. Eftir að hafa tekið út allar refsingarnar voru fangarnir svo sendir til Kjalarnessýslu þar sem þjófnaðarmál þeirra var tekið fyrir en samkvæmt lögum átti að dæma í slíkum málum í þeirri sýslu sem þjófnaðurinn fór fram (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/1-2-1).
Á Kópavogsþingi voru Margrét og Eyvindur dæmd til líkamlegrar refsingar fyrir þjófnað en eftir að hafa staðið hana og meðtekið sakrament í Skálholtsdómkirkju voru þau aðskilin og tók eiginkona Eyvindar, Ingiríður, hann aftur til hjónabands. Refsingin dugði þó skammt því „þessar vandræðapersónur“ tóku fljótt upp útilegusamvistir á ný og fundust saman í rekkju í hreysi undir bjargskúta við Ölfusvatn með þýfi sitt. Voru þau fangelsuð á heimili valdsmannsins Stórólfshvoli og svo færð í járnum á Öxarárþing þar sem þau voru dæmd til dauða fyrir ítrekuð hórdómsbrot og útileguþjófnað. Þann 3. júlí 1678 var dauðadómnum framfylgt og eftir að hafa meðtekið kristilegar fortölur „til sannrar viðurkenningar, huggunar og trúarstyrkingar í herrans Kristí blessaðri forþénustu” var Eyvindur Jónsson hálshöggvinn en Margréti Símonardóttur drekkt – allt samkvæmt fyrirmælum Stóradóms (Alþingisbækur VII, bls. 403–405).
HallberuhellirEkki er vitað hversu lengi nákvæmlega Margrét og Eyvindur dvöldu í Hallberuhelli, þar sem þau voru handtekin, þann 20. október 1677. Hallberuhellir virðist þrátt fyrir allt ekki alslæmur felustaður; á þessum tíma var enginn bær nálægt hellinum en hann lá þó sennilega ekki algjörlega úr alfaraleið því rétt vestan við hann er talið að Örfirisey hafi átt sel átti til ársins 1799. Hugsanlega nýttu Margrét og Eyvindur sér þetta og stálu fé seljanna til viðurværis.
Sem áður segir rak Örfirisey sel á Lækjarbotnum til ársins 1799. Árið 1868 fékk Þorsteinn Þorsteinsson svo nýbýlaleyfi fyrir landinu og lét Hallberu Jónsdóttur, sem Hallberuhellir er kenndur við, helming jarðarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar gaf Guðmundur H. Sigurðsson, sem þá var bóndi að Lækjarbotnum, Skátasambandi Reykjavíkur land á jörðinni. Síðan þá hefur verið starfræktur skátaskáli á Lækjarbotnum (ferlir.is; gardbuar.com).
Fornleifarannsókn hefur ekki áður farið fram í Hallberuhelli en í rannsókn á seljum í Reykjavík, þar sem fjallað er um Örfiriseyjarsel, er hellirinn merktur á kort og hann er því ekki óþekktur. Hellirinn hefur auk þess verið nefndur í ferðahandbókum, t.a.m. í Árbók Ferðafélag Íslands (Egill J. Stardal 1985).”

Niðurstöður

Lækjarbotnar

Hellisopið.

“Sagnir af útilegumönnum eru gjarnar sveipaðar dulúðlegum og þjóðsagnakenndum blæ. Mál Fjalla-Eyvindar og Höllu er sennilega eitt besta dæmi þess. Sem áður segir var útilega og flakk þó raunveruleiki fjölda einstaklinga á íslenskri árnýöld og Eyvindarmálin tvö eru engan veginn einstök. Því er ekki ólíklegt að mannvistarleifar eftir útileguþjófa finnist í hellum þótt sjaldan sé minnst á það í hellarannsóknum.
Hallberuhellir er hraunhellir og er hvelfing hans því náttúrusmíð. Þó eru hlutar hellisins greinilega manngerðir; við hellismunnann hefur grjóti verið hlaðið og set hafa verið útbúin upp við norðurvegginn þar sem hægt er að tylla sér og horfa út um hellismunnann. Þó er eftitt að ákvarða hvenær innréttingarnar voru gerðar í hellinum og ekki hægt að fullyrða að þær séu frá tíma Margrétar og Eyvindar. Raunar fannst ekkert í hellinum sem beint var hægt að rekja til dvalar Margrétar og Eyvindar enda voru þar hvorki gripir né jarðlög sem unnt var að aldursgreina. Áhugavert væri þó að framkvæma skordýra- og/eða frjókornagreiningar á jarðvegssýnunum sem tekin voru og í framhaldinu og m.a. nýta þær til kolefnisaldursgreininga.”
[FERLIRsfélögum er þrátt fyrir allt framangreint ómögulegt að skilja hvers vegna umræddur hellir hefur fengið nafngiftina “Hallberuhellir” í  framangreindri rannsókn!?]. Með fullri virðinu fyrir nefndri Margréti, ætti skjólið það arna, fremur að draga nafn sitt af þeirri “mætri” manneskju. Öll höfum við þurft að takast á við misjafnar aðstæður um lífsins skeið; stundum tekst vel til, sundum ekki. Ef ekki tekst vel til, er og hefur alltaf verið til fólk hér á landi, og jafnvel utan þess, sem er tilbúið að dæma, hvernig til tókst – að þeirra mati…

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, Reykjavík 2019.

Lækjarbotnar

Hellirinn í Lækjarbotnum.

 

Aftaka

Í áfangaskýrslu um “Dysjar hinna dæmdu” frá árinu 2018, segir m.a.:

Inngangur

Dysjar hinna dæmdu

Forsíða áfangaskýrslunnar um “dysjar hinna dæmdu”.

“Skömmu eftir siðaskiptin færðist réttur til refsinga frá kirkju til veraldlegra valdhafa. Var þá farið í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr að beita líkamlegum refsingum fyrir hvers kyns afbrot. Nýjum lagabálki, Stóradómi, var einnig bætt við gildandi lög en dæmt var eftir honum í siðferðisbrotamálum. Fólk var einkum tekið af lífi fyrir fimm flokka brota. Það var fyrir blóðskömm, dulsmál, morð, þjófnað og galdra en einnig fyrir iðkun kaþólskrar trúar. Fyrsta dómsúrskurði um dauðarefsingu var raunar ekki fullnægt hérlendis fyrr en seint á 16. öld. Árið 1551 voru aftur á móti fimm karlmenn teknir af lífi án dóms og laga í trúarbragðastríði því sem ríkti vegna siðaskiptanna. Frá 1582 urðu aftökur síðan nær árlegur viðburður og allt til ársins 1792 en þá fækkaði þeim verulega aftur. Síðasta aftakan fór svo fram árið 1830 eftir 25 ára langt hlé en dauðarefsingar voru ekki afnumdar úr íslenskum lögum fyrr en árið 1928.

Markmið rannsóknarinnar
Markmiðið með rannsókninni sem hér er sagt frá er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1551–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráð en einnig verður bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þess verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta, og tilraun gerð til þess að greina bakgrunn líflátinna og um leið ástæður brotanna. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð.
Dysjar hinna fordæmdu
Rannsóknin mun byggja á kenningum um efnismenningu og undirsáta (e. subaltern) en einnig póst-marxisma og femínisma. Hugmyndafræðileg mótun stétta og stéttskiptingar, kynbundið misrétti og möguleikar undirsáta til að hafa áhrif á ríkjandi viðmið verða þannig í forgrunni (sjá t.d. Spivak 1988; Therborn 1999; 2013; Young 2003). Gert er ráð fyrir að rannsóknin standi yfir í að minnsta kosti fimm ár en hún hófst í maí árið 2018. Vinnan þetta fyrsta ár fólst að miklu leyti í að taka saman heimildir um dauðarefsingar á Íslandi og að gera gagnagrunn yfir þá einstaklinga sem teknir voru af lífi. Nær gagnagrunnurinn yfir öll þau mál sem getið er um í Annálum Íslands 1400–1800 auk örfárra annarra mála sem fundust fyrir tilviljun meðan á vinnslu hans stóð. Listinn yfir þær aftökur sem hér fóru fram er vafalaust ekki tæmandi, því eftir er að fara markvisst yfir héraðsdómsbækur og þjóðsögur, auk þess sem Alþingisbækurnar voru aðeins lesnar að hluta. Við gerð gagnagrunnsins var fyrst og fremst litið til dauðadóma sem var framfylgt. Dæmi þess að dauðadómar væru mildaðir af konungi eru mörg, sér í lagi frá síðari hluta 18. aldar og nær listinn ekki yfir slík mál. Hins vegar voru dauðadæmdir einstaklingar sem létust áður en aftaka þeirra fór fram skráðir enda má ætla að dauðadómum þessara einstaklinga hefði verið framfylgt hefðu þeir lifað. Þá eru talin með tilvik þar sem ekki er vitað hvort dauðadómi var fylgt eftir eða ekki. Farnar voru vettvangsferðir til fjarkannana eða uppgraftar á samtals átta aftökustaði sumarið 2018 og verður sagt nánar frá þeim hér á eftir. Eins voru stakir beinafundir kannaðir en fara þarf betur yfir þá staði þar sem óútskýrð mannabein hafa fundist. Loks var farið yfir þá uppgrefti sem hafa verið gerðir á dysjum dauðadæmdra.

Um líflátsdóma og aftökur á Íslandi
Dysjar hinna dæmdu
Elstu ákvæði um dauðarefsingar er að finna í Járnsíðu frá 1281 og litlu síðar í Jónsbók en heimildir um aftökur fyrir siðaskipti eru þó fáar. Og enda þótt ákvæði um dauðarefsingar hafi verið til í íslenskum lögum allt frá 13. öld og þeim framfylgt að vissu marki, mörkuðu siðaskiptin – líkt og fyrr getur – upphaf hrinu dauðarefsinga sem lauk seint á 18. öld (sjá til dæmis: Gils Guðmundsson 1953; Ármann Snævarr 1955; Magnús Már Lárusson 1966; Páll Sigurðsson 1964; 1971; 1984; 1992; 2000; Sigurlaugur Brynleifsson 1976; Már Jónsson 1993; 2000; Inga Huld Hákonardóttir 1995; Davíð Þór Björgvinsson 1984; 1989; Ólína Þorvarðardóttir 2000). Þetta staðfestir rannsóknin sem hér er sagt frá.
Við siðaskiptin var iðkun kaþólskrar trúar bönnuð og fólki refsað fyrir slík brot. Stærsta breytingin varð hins vegar þegar Danakonungur fyrirskipaði með bréfi rituðu árið 1554 að sýslumenn skyldu taka við afgreiðslu dóma vegna hvers kyns afbrota í stað kirkjuvaldsins. Um leið var kristniréttur Árna biskups frá 1275 afnuminn (DI XIV, bls. 271–276; Már Jónsson 1993, bls. 90–93). Eftir það var dæmt til dauða hérlendis fyrir alla þá fimm flokka brota sem nefndir eru hér að framan. Það er raunar ekki fyrr en Stóridómur var innleiddur í landslög árið 1564 að dæmt var til dauða fyrir ýmis siðferðisbrot, eins og til dæmis blóðskömm en það var samræði var haft í náinni frændsemi og fyrir þriðja hórdómsbrot. Átti að drekkja konum en hálshöggva menn fyrir slík brot (DI XIV, bls. 271-276). Stóridómur tók reyndar ekki á hinum svokölluðu dulsmálum, þ.e. þegar leynt var farið með fæðingu barns og því fargað. Hins vegar var getið um dauðarefsingu fyrir slík brot í dönskum lögum og var lengi vel dæmt eftir þeim hérlendis þó aðferðir við aftökur væru frekar í takt við ákvæði Stóradóms (Már Jónsson, 2000). Karlar voru því nærri alltaf hálshöggnir og konum oftast drekkt þótt að í sumum tilfellum hafi þær einnig verið höggnar á háls; Ingibjörg Jónsdóttir var til að mynda hálshöggvin fyrir dulsmál árið 1792. Þá gætti áhrifa siðaskiptanna ekki síst í galdramálum þegar kom að dauðadómum. Ýmis konar hvítagaldur sem kaþólska kirkjan hafði réttlætt töldu siðskiptamenn hættulegan og þeir sem fundnir voru sekir um kukl og meðferð galdrastafa voru brenndir á báli (Sigurlaugur Brynleifsson, 1976).
Af samantektinni, sem hér hefur verið gerð yfir dauðadóma, sést glögglega að karlar sem dæmdir voru fyrir morð voru nær alltaf hálshöggnir og sumir pyntaðir að auki. Fyrir dauða sinn árið 1596 var svo dæmi sé tekið Axlar-Björn limmarinn með sleggjum og árið 1752 var Kjöseyrar-Jón klipinn fjórum sinnum með glóandi töngum áður en hægri hönd hans og loks höfuð var höggvið af og sett á stöng öðrum til viðvörunar. Eitt dæmi er þess að manni væri drekkt fyrir morð. Hann hét Ögmundur Þorkelsson og hafði sjálfur drekkt syni sínum. Ýmsum aðferðum var beitt við aftöku á konum sem dæmdar voru fyrir morð en líkt og í tilfelli Ögmundar virðist stundum gilda nokkurs konar „auga-fyrir-auga” lögmál. Guðrún Þorsteinsdóttir var til að mynda brennd á báli árið 1608 fyrir að hafa brennt barn í grautarkatli norður í Þingeyjarþingi og árið 1706 var Kristínu Björnsdóttur drekkt en hún hafði sjálf drekkt 6 vetra gamalli dóttur sinni.
Að aftöku lokinni var fólk oftast dysjað á aftökustað, ýmist í gjótum eða í grunnum gröfum sem huldar voru grjóti. Svo virðist þó sem að þeir sem voru hengdir hafi verið látnir hanga í gálganum þar til reipin slitnuðu. Það kemur fram í þjóðsögum en laus bein hafa einnig fundist ofanjarðar við gálgakletta eða gálgagil (sjá t.d. Íslenskar þjóðsögur 1945, bls. 232). Eins voru höfuð þeirra sem voru hálshöggnir alla jafna sett á stöng við dysina og látin vera þar þangað til þau féllu sjálf til jarðar. Í einu tilviki er vitað til þess að höfuð tveggja líflátinna í sama máli hafi verið grafin á aftökustað skömmu eftir aftökuna en talið er að sveitungar þeirra hafi gert það þar sem þeim ofbauð meðferðin á líkunum. Um var að ræða síðustu aftöku á Íslandi (Sigrún Huld Þorgrímsdóttir 2005). Þá eru að minnsta kosti tvö dæmi um að líflátnir hafi fengið greftrun í kirkjugarði eða við kirkjugarð – án helgiathafnar. Það voru þær Katrín Þorvarðsdóttir sem tekin var af lífi 1703 og Ingibjörg Sölvadóttir 1758 (Vallannáll, bls. 350; Ölfusvatnsannáll, bls. 46; Már Jónsson 2000, bls. 254).
Fimm dysjar dauðadæmdra hafa verið grafnar upp en auk þess hafa mannabein fundist á stöku aftökustað, einkum þá þar sem fólk var hengt. Hefur sumum þeirra verið skilað til Þjóðminjasafns en ekki öllum.

Gagnagrunnur yfir dauðadóma
Dysjar hinna dæmdu
Þegar gagnagrunnurinn lá fyrir sumarið 2018 var gerð samantekt um aldur og kyn dauðadæmdra, hvar þeir bjuggu og hver staða þeirra var. Þá var kannað í hvaða sýslum var dæmt og hvar aftökustaðirnir voru innan þeirra. Loks var tíðni brota af hverri gerð skoðuð og skoðað hvort samhengi var á milli þeirra og aðstæðna í samfélaginu. Ekki vannst tími þetta fyrsta ár rannsóknarinnar til að skoða bakgrunn böðla á Íslandi eða kanna afdrif barna og annarra afkomenda dauðadæmdra. Það verður gert síðar.
Samantektin á aftökum nær yfir 235 einstaklinga; 69 konur og 166 karla. Aðeins tókst að áætla aldur 112 einstaklinga sem dæmdir voru til dauða en af þeim var sá yngsti 14 ára og sá elsti 80 ára. Algengasta aldursbilið var 35–39.
Oftast féllu dauðadómar fyrir þjófnað, af þeim fimm gerðum brota sem dæmt var til dauða fyrir (morð, blóðskömm, dulsmál og galdra, auk þjófnaðar). Athygli vekur líka að aftökur fyrir þjófnað fóru eingöngu fram á 174 ára tímabili, frá 1584 til 1758, á meðan tekið var af lífi fyrir flest önnur brot allt tímabilið frá 1551–1830. Aftökur vegna galdra skera sig einnig úr fyrir þetta en þær fóru fram á enn styttra tímabili, frá 1625–1685, enda yfirleitt talað um galdrafár í því sambandi.
Hlutföll kynja í þessum tveimur flokkum er sömuleiðis áberandi ójöfn. Alls voru 75 einstaklingar hengdir fyrir stuld og af þeim voru tvær konur. Aðeins ein kona þó var í hópi þeirra 22 einstaklinga sem brenndir voru fyrir galdra. Karlmenn voru raunar einnig í meirihluta í morðmálum; 27 karlar hlutu dauðarefsingu fyrir morð en sex konur. Dauðadæmdar konur eru hins vegar áberandi fleiri en karlar í flokkum siðferðisbrota. Í annálum er getið um 34 konur sem teknar voru af lífi fyrir dulsmál en sex þeirra voru líka dæmdar fyrir blóðskömm. Ellefu karlar voru hálshöggnir fyrir dulsmál og voru sex þar af um leið dæmdir fyrir blóðskömm.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Kynjaskipting þeirra sem einungis hlutu dauðarefsingu fyrir blóðskömm er raunar nokkuð jöfn; 26 konur misstu lífið fyrir slík brot en 23 karlar.
Algengasti aftökustaðurinn voru Þingvellir en að minnsta kosti 72 einstaklingar voru teknir af lífi þar nær allt tímabilið sem hér um ræðir. Undantekningin er flokkur þjófa en þeir voru nær eingöngu teknir af lífi á á Alþingi tímabilið 1678 til 1703 og aðeins einn eftir það, árið 1726. Einnig var algengt af aftökur færu fram á Kópavogsþingstað og í nágrenni við hann, í Elliðaá, á Bessastöðum og í Garðahrauni sunnan Bessastaða. Í Gullbringusýslu allri voru 22 teknir af lífi fyrir alla flokka brota. Dæmi um aðra algenga aftökustaði er Laugarbrekkuþing á Snæfellnesi þar sem ekki færri en fimm voru teknir af lífi og Gálgagil í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Reyndar fóru fram aftökur víðast hvar um landið. Að Norður-Þingeyjarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Skaftafellssýslum frátöldum voru skráðar aftökur í öllum sýslum.
Athygli vekur að tíðni aftaka milli ára var mjög breytileg og á vissum tímabilum má greina bylgjur í aftökum og því væri áhugavert er að skoða þessar bylgjur út frá sögulegu og félagslegu samhengi. Á það ekki aðeins við um galdra og þjófnað en augljós er fylgni milli fjölda aftaka fyrir þjófnað og verðurfars en ljóst er að þjófar voru oftast nær heimilislausir einstaklingar sem stálu sér til matar. Hannes Finnsson skrifaði um hallæri: „Á árunum 1627–1641 gekk Hvítivetur harðast að, féll þá margt fólk, svo og í bólunni 1635.“ Engin hallæri voru næstu 30 árin en undir lok 17. aldar geisuðu langvarandi stórharðindi og mannfækkun. Um árin 1697–1701 skrifar hann: „Hallæri, svo og rán og þjófnaður gekk fram úr máta, en breytir til hins betra 1702.” Á fyrri hluta 18. aldar tilféllu engin hallæri en árið 1751 byrjuðu mikil harðindi sem náðu hámarki 1757. Á þessum tímabilum eru aftökur á þjófum áberandi margar og mannfækkun sömuleiðis Þeir Íslendingar sem teknir voru af lífi komu alls staðar af á landinu. Hægt var að finna búsetustað flestra þeirra við aftöku, nema síst þegar þjófar áttu í hlut enda voru margir þeirra heimilislausir flakkarar.

Lokaorð

Þingvellir

Gálgaklettur á Þingvöllum. Árni Björnsson lýsir aðstæðum.

Samantektin sem hér er sagt frá sýnir að hérlendis var samtals nærri 240 dauðadómum framfylgt fyrir alls fimm flokka brota frá 1550 til 1830 er síðasta aftakan fór fram í landinu. Raunar fóru flestar aftökurnar fram á um tveggja alda tímabili sem stóð frá 1582–1792. Áberandi margir eru dauðadómar fyrir þjófnað en allt í allt voru 75 þjófar teknir af lífi á Íslandi og aðeins á 174 árum, sá fyrsti árið 1584 en síðasti árið 1758.
Það voru vissulega vonbrigði fyrir leitarfólk að finna engar dysjar á þeim þremur stöðum þar sem grafið var. En leit verður haldið áfram og aðrar dysjar sem þó sáust ofan jarðar á öðrum stöðum verða skoðaðar nánar síðar.”
[Þrátt fyrir allt framangreint í þessari annars “ágætu” rannsókn má þó með engu móti sjá að í gagnagrunninum framangreinda sé getið hinna fjölmörgu kumla á vestanverðum Reykjanesskaganum, hvorki í Höfnum, Garði, á Vatnsleysuströnd, við Álftanes né í Kjós, en á þeim nánast öllum hafa áður bæði farið fram opinberar rannsóknir og uppgreftir.]

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – áfangaskýrsla 2018, Reykjavík 2018.
-https://notendur.hi.is/sjk/DYS_2018.pdf
-https://ferlir.is/kuml-i-gardi/

Þingvellir

Gengið um aftökustaði Þingvalla með Árna Björnssyni 2008.

 

Gvendarsel

Í “Byggðasögu Grafnings og Grímsness” eftir Sigurð Kristinn Hermundarson segir m.a. eftirfarandi um Guðmund Bjarnason, svonefndan Krýsuvíkur-Guðmund:

Gljúfur

Gljúfur

“Guðmundur hét maður Bjarnason, er bjó á Gljúfri í Ölfusi, en var síðar nefndur Krýsuvíkur-Guðmundur  (Krýsuvíkur-Gvendur). Hann var bæði stór vexti og sterkur, hagur til smíða og starfsmaður mikill. Gæfur var hann í byggðalagi, óáleitinn við aðra menn og kom sér í hvívetna vel við alla. Hann var fremur fátækur og var eins og margir aðrir, að hann þurfti að hafa sig allan við að vinna fyrir sér og hyski sínu. Þá var títt, að menn fóru til afrétta að afla sér fjallagrasa, færu á grasafjall, sem kallað var. Voru það helst skæðagrös, sem sóst var eftir, eða þá klóungur; hann var smávaxnari og þótti ekki eins góð vara, en var þó notaður til grautargerðar og annars fleira.
Sumar það, sem nú var sagt frá, nálægt sláttulokum, fór Guðmundur að heiman í grasaferð og unglingspiltur með honum. Þeir voru báðir ríðandi og höfðu auk þess einn hest með reiðingi, er þeir ætluðu að bera klyfjar á. Fylgdarmaður Guðmundar var lítilsigldur og veikbyggður, einfaldur og áræðalítill, en trúr og vinnuþarfur húsbónda sínum í öllu, sem hann mátti við koma. En til harðræðna var hann ekki vel fallinn.
Þeir Guðmundur riðu nú að heiman snemma morguns, og var veður hið besta. Fara þeir sem leið liggur og ætla vestur í Hverahlíð. En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsaslyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít. Fylgdarmaður Guðmundar vildi þá snúa aftur, sagði, að ferða þeirra myndi ekki verða til neins gagns, ef þannig færi að veðri. Guðmundur kvað veður ef til vill batna, þegar fram á daginn kæmi, og héldu þeir því áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerði þá sólskin og logn og hið besta veður.
Í framhaldinu sagði frá viðureign Guðmundar og Fjalla-Margrétar, útilegukerlingar í Henglinum, þegar hún ásældist nestið hans, sem endaði með því að Guðmundur beit í sundur á henni barkann. Bein Margrétar fann Sogns-Gísli síðar umorpið grjóti í Svínahrauni – að talið er.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Guðmundur Bjarnason var ættaður af Fellsströnd í Dalasýslu og fæddur þar um 1765. Á yngri árum sínum var hann um eitthvert skeið í Helgafellssveit, því að þar gerðist saga sú, er hér fer á eftir, er sýnir að snemma var Guðmundur kjarkmikill og áræðinn. Þar í sveitinni hafðist við grimmur útileguköttur, sem reif sig inn í hús og hjalla og skemmdi og sleit það, sem hann náði til. Vildu menn gjarna losna við ávætti þessa, en fáir treystust til þess að ganga í berhögg við köttinn, svo grimmur og villtur sem hann var orðinn. Einu sinni var þess vart, að hann hafðist við í fjjárhúsi einu. Fóru einhverjir þá til og lokuðu dyrunum og byrgðu glugga alla vandlega, en enginn þorði að fara inn til högnans. Guðmundur lét þá sauma margfalda ullarflóka um höfuð sér og fór í þykk og sterk föt. Hann tók sér í hönd smíðatöng eina mikla og réðst síðan inn í húsið. Högninn sat þá innst í húsinu fyrir miðju gaflhlaði og horfði til dyra. En jafnskjótt og Guðmundur kom inn úr dyrunum, hljóp kötturinn í einu bogakasti og upp á höfuð Guðmundar og læsti að honum með klóm og kjafti af mikilli grimmd. Guðmundur tók þá til smíðatangarinnar og brá munna hennar um háls högnans og lagði fast að. Varð það hans bani. Svo hafði Guðmundur sagt frá síðar, að hann fynndi til klónna á kettinum í gegnum alla ullarflókanna, sem voru þó vel þykkir.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Ekki er nú kunnugt, hvenær Guðmundur fluttist suður á land, en á Gljúfri í Ölfusi býr hann á árabilinu 1805-1815 og þó sennilega ekki allt það tímabil. Á þeim árum varð viðureign hans við Margréti, sem fyrr er sagt frá. Árið 1816 býr hann á Miðfelli í Þingvallasveit, en farinn er hann þaðan 1820. Mun hann þá hafa flust að Ási fyrir sunnan Hafnarfjörð, en þar bjó hann í fáein ár. Um það, sem Guðmundur hafðist að, er hann fór frá Ási, er til glögg og gagnorð frásögn síra Jóns Westmann prest í Selvogsþingum, og er hún á þessa leið: “Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan helli [Gvendarhelli í Klofningi í Krýsuvíkurhrauni, sbr. þjóðsöguna], en þar eð honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með tveim rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð að honum þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til étur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellisins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum, sem verið mun hafa allt að tveimur hundruðum eftir ágiskun manna, flutti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár að baki.”

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Eftir dvöl sína í Krýsuvíkurhverfi fluttist Guðmundur inn á Hraunabæi í Garðasókn, en eftir það var hann venjulega kallaður Krýsuvíkur-Guðmundur, og undir því nafni hefur hann gengið síðan. Á elliárum sínum var hann einhvern tíma í Straumi eða Straumsseli. Var hann þá orðinn allhrumur og staulaðist á milli bæja sér til skemmtunar, þegar gott var veður. Hafði hann jafnan prik í hendi og fór mjög hægt. Mannýg kýr, hvít að lit, var þar á næsta bæ. Lagði hún stundum í fullorðna menn og þótti allhvimleið. Einu sinni, þegar Guðmundur fór næja á milli, kom hvíta kýrin að honum að óvörum. Velti hún honum brátt um, og fékk hann ekki rönd við reist, náði þó taki á eyra hennar og gat rekið prik sitt upp í aðra nös kýrinnar. Hljóp hún á burt, en Guðmundur skreið heim. Um kvöldið fannst kýrin með prikið í nösinni. Eftir það fara engar sögur af Guðmundi. Síðast átti hann heima í Lambhaga í Hraunum, og þar dó hann 3. maí 1948, kominn á níræðisaldur.
Tvo sonu átti Guðmundur Bjarnason, er ég heyrði nefnda, og hét hvortveggi Guðmundur. Var annar faðir Guðmundar Tjörva, sem margir kannast við, en hinn átti þrjá sonu; Halldór bónda í Mjósundi í Flóa, er var á lífi fram yfir 1880, og Ólafa tvo. Ólafur eldri bjó á Gamlahliði á Álftanesi. Hann var skurðhagur og skar meðal annars út mörg nafnspjöld á skip fyrir ýmsa menn, og þótti prýðisvel gert. Hann skar t.d. nafnspjald á teinæringinn á Hliði, sem fórst veturinn 1884. Hann hét “Sigurvaldi”. Það skip var aðeins tveggja ára gamalt, og var eigandi þess Þórður Þórðarson á Hliði, sjálfur formaður á því, er það fórst. Ólafur yngri var húsmaður á Hliði. Síðustu ár ævi sinnar var hann húsmaður í Haukshúsum, og þar andaðist hann, að mig minnir 1883. Þóra hét koma hans. Hún var dóttir Einars skans; var hann svo nefndur að því að hann bjó í Bessastaðaskansi. Þau Ólafur og Þóra áttu fjögur börn og voru mjög fátæk.
Ólafur þessi yngri sagði mér söguna um Helgafellsköttinn og hvítu kúna í Straumi. Hann sagði mér líka söguna um viðureign Guðmundar, afa síns, við Margréti.”

(Byggt á handriti Þórðar Sigurðssonar á Tannastöðum – Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur III, 1942)

Í Blöndu, 6. bindi 1936-1939, er fjallað um nefndan Krýsuvíkur-Guðmund. Frásögnunum ber að vísu ekki að öllu leyti saman:

Búrfellsgjá

Athvarf Guðmundar í Búrfellsgjá. Hústóft fremst.

Krýsuvíkur Guðmundur – eftir Friðrik Bjarnason, kennara.
“Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hvenær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1827. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni. Einnig bjó hann í Garðshorni nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og hakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. (Um Guðmund sbr. einnig Lýsingu Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestmann (Landnám Ingólfs III, 99—100).

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, a nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verið til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. — Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ við Krýsuvík, og voru þeir Guðmundur því nágrannar lengi síðan.
Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, öll að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lagu á túninu og sagði: „Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.”

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Það er enn sagt af Guðmundi, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla.
Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sög er af Guðmundi. Kona nokkur [Fjalla-Margrét] hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún; var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerling, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð þa hennar bani. Aðrir segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldunum.”

Sjá meira um Blöndufrásögnina HÉR.

Heimildir:
-Grafningur og Grímsnes – Byggðasaga, Sigurður Kristinn Hermundarson, 2014, bls. 38-39.
-Blanda, Krýsuvíkur-Guðmundur, Friðrik Bjarnason, 6. bindi 1936-1939, bls. 187-189.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

 

Hvaleyri

 Í “Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005” segir m.a. um sögu Hvaleyrar:

“Hér er stiklað á stóru í sögu Hvaleyrar.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Heimildir um nafnið Hvaleyri er að finna allt frá Hauksbók Landnámu frá því að Hrafna-Flóki fann hval á eyri einni og kallaði það Hvaleyri. Í Landnámu er síðan sagt frá að bróðursonur Ingólfs hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi (ÍF I, Bls. 39, 394).
Í Jarðtei[k]nabók er Teitur sagður búa á Hvaleyri 1300-1325 (Biskupasögur. 1. Bls. 286).
Árið 1395 er Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr. (DI III. Bls. 597).

Hvaleyrartjörn

Hvaleyrartjörnin fyrrum.

Þá segir í heimildum frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja (DI IV. Bls. 751).
Í Jarðabók frá 1703 segir að á Hvaleyri sé hálfkirkja og embættað þrisvar á ári (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170. Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Sögu Hafnarfjarðar frá 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið, en eigi er kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftrarkirkja, því enn sést fyrir kirkjugarði í tún heimajarðarinnar á Hvaleyri (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 23, Reykjavík).
Jarðabókin frá 1703 segir m.a. að jörðin sé í konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri á 20. öld.

Þá er þess getið að Hvaleyrarkot sé aftur byggt eftir að ahfa verið í eyði svo lengi sem menn muna. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem segir frá búsetu, búháttum, landgæðum og hjáleigum. Þar segir m.a.:
Hvaleyri er kirkjustaður með annexíu til Garða á Álftanesi þar er ei nema hálfkirkja og embættar þrisvar á ári. Jarðadýrleiki er óviss því jörðin tíundast engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn er Ormur Jónsson. Landskuld er eitt hundruð. Greiðist með sex vættum fiska í kaupstað síðan forpachtningin hófst en áður heim til Bessastaða. Áður til forna hefur landskuldin verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Við til húsabótar hafa ábúendur lagt uppbótarlaust yfir sextíu ár. Leigukúgildi eru þrjú. Leigur greiðist í smjöri heim til Bessastaða. Kúgildin uppyngir ábúandinn uppbótarlaust yfir sextíu ár. Kvaðir eru um mannslán um vertíð, að auki tveir hríshesatr heim til bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír eftir þörfum, en í tíð Heidmanns voru þeir sjö um árið að meðtöldum skylduhestum. Hér að auki tveir dagslættir árleg aheim til Bessastaða og fæðir bóndinn verkamennina sjálfur að auki skipsferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum þarf á að halda vetur eða sumar og er hægt að áætla hve margar þær geta verið. Fæðir bóndinn þann mann ávallt sjálfur, hvort sem ferðin er löng eða stutt.
Kvikfénaður eru þrjár kýr, einn kálfur, fjórar ær, þrír sauðir veturgamlir, fjögur lömb, einn hestur, eitt hross með fyli. Fóðrast geta fjórar kýr. Heimilismenn sex. Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Hrísrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt, að öðru leyti hefur hún hrísrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolagerðar. LLyngrif og stunga í lakasta mála nærri ónýt. Fjörugrastekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara nægileg til beitu líður ágang af öðrum jörðum.
Heimræði er árið um kring og lending góð og ganga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hér oft undir kongsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridts Hansson Siefing var á Bessastöðum. Heidemanns vegna hefur það ekki verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Inntökuskip hafa hér stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu.
Túnin spillast af sandágangi. Engjar eru engar. Vatnsból er ekki gott, og þrýtur bæði vetur og sumar.
Hjá kvöðunum var gleymt að skrifa að á umliðnu hausti sendi umboðsmaðurinn Páll Beyer að Hvaleyri lamb í fóður, tók ábúandinn við því á launa, sama gjörði veturinn á undan umboðsmaðurinn sem þá var Jens Jurgensson, og hefur ábúandinn heldur ekki fengið fyrir það laun. Hafa þessar kvaðir aldrei áður verið, að auki var 1701 og nú í sumar heyhestur heimtur fyrir fálkaféð. Þetta hefur ekki fyrr eða síðar gert verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Hvaleyrarkot er gömul hjáleiga byggð eftir að hafa verið í eyði svo langt sem menn muna sem eru lifandi, og nú aftur komin í eyði fyrir þremur árum. Landskuld var meðan þar var búið 60 álnir og greiddist í fiski til heimabóndans, að auki eitt kúgildi og greiddust leigur í smjöri heim til bóndans. Gæti byggst aftur ef einhver þyrði að vera upp á sjávaraflann kominn, nú hefur heimabóndinn grasnytina þar sem með fylgdi (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170, Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a. að Hvaleyri sé í Álftaneshreppi og jarðanúmer 168. Hvaleyri sé í bændaeign, dýrleiki sé 20 hundruð, landskuld sé 0.100, kúgildi séu 2, og eigandinn sé einn. Í skýringum segi rum Hvaleyri að í Jarðabók frá 1803 séu nefndar fjórar byggðar hjáleigur, Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir (J. Johnson, Jarðatal á Íslandi. Bls. 91, Kaupmannahöfn).
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og má það vera ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 kaupir Bjarni Sívertssen jörðina af konungi, og síðan kaupir Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna riddara Sívertssens. Jón Illugason seldi síðan jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Eftir lát Jóns tók ekkja hans , Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri, hún gaf síðan Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar 1868. Sigríður giftist síðan Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var síðan seld síra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu síðan heimajörðina Hvaleyri til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1881 (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 36-37 og 42-45. Reykjavík).
Elstu heimildir um náttúrfar á Hvaleyri eru frá árinu 1365, en þá er sagt af sandfjúki og sjávargangi á tún á Hvaleyri (Gísli Sigurðsson. Hvaleyri, Hafnarfjörður, Gullbringusýsla. Örnefnastofnun Íslands).

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tímalandnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málarisem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninuThy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmunds-son, barnabarn ÁrsælsGrímssonar fyrstastarfsmanns Keilis.Taliðer að myndin sé máluð íkringum 1950.

Frá árinu 1703 er sagt frá að hún hafi spillst af sandgangi, og engjar séu engar.
Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á það. Mikill lausamosi var í túninu. Túnið hélt áfram að skemmast og árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefir eingöngu verið landskemmdum að kenna.
Á árunum 1754-1757 býr enginn á Hvaleyri, og má það vera ástæða þess að bæjarhús og tún spillast.
Á syðsta hluta Hvaleyrarholts mun hafa verið skógarítak Gufuneskirkju.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005. [Skráningin er að vísu mjög ófullkominn og erfitt að átta sig á staðháttum við lestur hennar.]

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

 

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Faxi

Í Faxa 1977 fjallar Svavar Árnason um Grindavík undir yfirskriftinni “Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið”.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

“Alþingi veitti Grindavík kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974. Grindavíkurkaupstaður er því með alira yngstu kaupstöðum landsins. Saga hans er að vonum ærið stutt og naumast annálsverð enn sem komið er, en Grindavíkurhreppur, sem er eðliiegur undanfari kaupstaðarins, á sér aftur á móti langa og að ýmsu leyti merka sögu, sem rekja má allt til landnámsaldar. Þess er þó enginn kostur að rekja þá sögu í stuttu máli, aðeins skal lauslega minnst á minnisverða atburði og þá ekki síður þá atburði, sem minni eftirtekt hafa vakið í gegnum tíðina.
Um það hvernig Grindavík byggðist segir svo frá í Landnámabók: „Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
banaorð.
Blástu meir.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígfar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar. Þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórðu leggjaldi.

Hraustir menn og vígreifir víkingar

Grindavík

Grindavík og nágrenni.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímkaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sáu ófreskir menn, að landvættir fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Af þessari lýsingu er bersýnilegt, að þeir sem námu land í Grindavík voru hraustir menn og vígreifir víkingar, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna svo sem kviðlingur Vémundar ber vott um. Það er víst að Landnámsmennirnir hafa frá upphafi byggðar í Grindavík stundað jöfnum höndum landbúnað og fiskveiðar og farnast vel, enda til þess notið fulltingis landvættanna eftir því sem sagan segir.
Landafræðin kenndi okkur að Grindavík væri lítið og afskekkt sjávarþorp á sunnanverðum Reykjanesskaganum, umkringt hraunum og langt frá öðrum byggðum. Landkostir rýrir en stutt á fangsæl fiskimið. Úthafsaldan, ferleg og há, komin um óravegu sunnan úr höfum, brotnar hér við ströndina með háreisti og gný. Af því leiðir að Grindavík hefur ávallt verið talin brimveiðistöð.

Skipströnd og björgunarafrek

Skipsskaðar

Skipsskaðar við Grindavík.

Strandlengjan fyrir landi Grindavíkur nær frá Valahnúk á Reykjanesi, eða nánar tiltekið frá miðri Valahnúkamöl og austur að Seljabót, en þar tekur við Selvogur í Árnessýslu.
Á þessari strönd hefur mörg harmsagan gerst. Guðstéinn Einarsson hreppstjóri hefur í ágætri grein í bókinni Frá Suðurnesjum, skráð örnefnin og um leið fléttað inn í frásögnina viðburðaríkum atburðum af skipsströndum og björgunarafrekum, sem unnin hafa verið á þessari strandlengju, sem hann telur vera um 70 til 80 km. langa.
Fjallahringur upp til landsins umlykur Grindavík og gefur henni hlýlegt svipmót. Fjöllin eru fremur lág, en Þorbjörn er þeirra nálægastur byggðinni og nýtur mestrar virðingar innfæddra Grindvíkinga, þótt hann sé ekki nema 243 metrar á hæð. Þar skammt frá er- Hagafell” með Gálgaklettum og síðan kemur Svartsengi, sem nú er þekkt vegna háhitans, sem er á því svæði, og nú er virkjaður af Hitaveitu Suðurnesja í þágu íbúa á Suðurnesjum.

Útilegumenn hengdir í Gálgaklettum

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þar sem fjallið Þorbjörn rís upp úr hraunflákanum í allri sinni tign með klofinn toppin og myndar gjá, sem heitir Þjófagjá, þar eiga útilegumenn endur fyrir löngu að hafa átt skjól. Þjóðsagan segir að þeir hafi um síðir verið handsamaðir og færðir til hengingar í Gálgaklettum.
Lengra austur eftir Sakganum koma svo Húsafell í grennd við býlið að Hrauni, þá Fiskidalsfjall, Fagradalsfjall og Festi eða Festarfjall. Festi er fyrir botni Hraunsvíkur. Þar þykir skemmtilegt útivistarsvæði undir fjallinu á Hraunssandi við sjó fram. Ekki er þó þessi staður með öllu hættulaus vegna grjóthruns úr fjallinu og engan veginn er hættulaust að fara þar í sjóinn vegna strauma, sem liggja fram með ströndinni, og hafa gert færustu sundmönnum örðugt að ná landi aftur.
Býlið Hraun er austan við Þorkötlustaðahverfið, en austasti bærinn er ísólfsskáli og er yfir Hálsa að fara þangað. Austan við Ísólfsskála eru fjöllin Slaga og Skála-Mælifell og enn austar er svo Krýsuvíkur-Mælifell, en austast er Geitahlíð með Æsubúðir efst á tindi. Skammt austan við Ísólfsskála eru Selatangar. Þaðan var útræði frá Skálholti á fyrri tíð, og enn má sjá þar ummerki og tóftabrot, er minna á frumstæðan aðbúnað sjómanna í verbúðum þeirra tíma.

Járngerður og Þorkatla

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Grindavík hefur frá fornu fari verið skipt í þrjú hverfi, þ.e. Staðarhverfi vestast, þá kemur Járngerðarstaðahverfi og austast Þorkötlustaðahverfi, en auk hverfanna þriggja voru svo einstaka bæir svo sem Hóp — þar sem nú er höfnin — lífæð byggðarinnar —, Hraun og Ísólfsskáli og áður fyrr byggðarhverfi í Krýsuvík. — Í Krýsuvík er risinn myndarlegur skóli, sem sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi, SASÍR, hafa barist fyrir að koma á fót, en kennsla er rétt óhafin.
Það er athyglisvert við nöfn hverfanna, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi, að svo virðist sem “rauðsokkur” þeirra tíma hafi látið mikið til sín taka í Grindavík. Ekki greinir þó sagan frá jafnréttisbaráttu kvennanna þar, en víst má telja að konur þessar, Járngerður og Þorkatla, hafi verið hnir mestu skörungar og stórbrotnar að allri gerð. Þær sátu báðar jarðirnar, sem einnig bera þeirra nöfn. Báðar munu þær hafa átt útvegsbændur og framsækna fiskimenn, en gifta þeirra fylgdist ekki að. Járngerður missti bónda sinn í sjóinn á Járngerðarstaðasundi. Segja munnmæli að þá hafi Járngerður orðið myrk í skapi, og kveðið svo á, að 20 skip skuli farast á Járngerðarstaðasundi. Telja fróðir menn að þeirri tölu sé náð. Af Þorkötlu er aftur það að segja, að hún hafi látið svo ummælt, að aldrei skyldi skip farast á Þorkötlustaðasundi, ef rétt væri farið og fomann brysti ekki dáð og dug, og þykir það hafa farið eftir.

Oft var teflt á tæpasta vað
Grindavík
Landnámsmennirnir komu til Íslands á opnum skipum. Molda-Gnúpur og synir hans stunduðu sjóinn á opnum skipum að sjálfsögðu, og Grindvíkingar hafa löngum háð sína hörðu lífsbaráttu á opnum skipum — fyrst og fremst áraskipum — fram yfir árið 1926 og þar næst á opnum vélbátum, „trillum,” allt þar til að hafnarskilyrði sköpuðust í Hópinu fyrir stærri skip og báta, svo að sambærilegt er orðið við hvaða verstöð sem er á landinu.
Þeir einir, sem muna tímana tvenna og þær stórkostlegu breytingar, sem hafa orðið á aðstöðu allri til sjósóknar og fiskveiða í Grindavík síðustu 50 árin, hljóta að undrast það nú, að það skuli hafa verið mögulegt að stunda róðra á þessum litlu fleytum og bjóða þeim það sem þeim var boðið og ekki síður eftir að „trillurnar” komu til sögunnar. Þeir sóttu sjóinn fast, og tefldu oft á tæpasa vað. Lendingin var oft erfið og áhættusöm þegar komið var upp að Járngerðarstaðasundi og þurfti að liggja til laga eins og það var kallað. Þeir sem í landi voru, og fylgdust með þegar lagið var tekið, biðu í ofvæni og eftirvæntingu úrslitanna um það, hvort mætti sín meira, mannlegur máttur ræðaranna, eða hrammur holskeflunnar. Oftast tókst þetta vel, og formennirnir lærðu að finna rétta lagið — nákvæmlega rétta augnablikið — þegar lagt var á sundið í tvísýnu. Oft skall hurð nærri hælum og slysin urðu ekki umflúin, eins og hún Járngerður, og svo ótal margir fleiri hafa orðið að horfa upp á og þola. —

Áfram nú í Herrans hafni
Grindavík
En nú er allt orðið gjörbreytt til hins betra. Hætturnar leynast að vísu alls staðar, bæði á sjó og landi. Bátastærðin, öryggistækin og höfnin, allt ber það vott um þá stórkostlegu byltingu, sem átt hefur sér stað í þróun og vexti staðarins. —
Þegar þróunin verður skyndilega ör, vill það stundum gleymast að halda til haga ýmsum fróðleik varðandi atvinnusöguna og líf fólksins á viðkomandi stað. Hvert tímabil á sína sögu.
Ef við hugsum til þess að fram til ársins 1926 er svo til eingöngu róið á árabátum, þá er líklegt að ýmsir siðir og venjur, áhöld og tæki, sem þá voru notuð, séu nú lítt þekkt eða með öllu ókunn þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp í landinu.
Við skulum leiða hugann að því að formaðurinn á áraskipinu fer árla dags á fætur, gáir til veðurs, því að þá er engin veðurþjónusta, fer síðar um kotin og kallar, þ.e. ræsir skipshöfnina. Hún bregður skjótt við og innan tíðar eru allir komnir til skips í nausti, hver maður skinnklæddur og kominn að sínum keip. Það fyrsta sem þeir gera, er að þeir taka ofan og signa sig. Þá er losað um skorður og formaðurinn segir: Áfram nú í herrans nafni. —
Samtaka ganga nú allir til verks og setja skipið á hlunnum fram í vörina, og þegar skipið flýtur, hoppa allir léttilega upp í, og setjast undir árar, en formaðurinn kemur fyrir stýri. —
Á vetrarvertíð voru skipin flest tíróin, kölluð teinæringar.
Þegar ýtt hefur verið úr vörinni er fyrst róið yfir Lónið á Járngerðarstaðavíkinni og fram á snúning, en það er hættulegasti staöurinn þegar brim er. Þegar snúningi er náð, er stefnan tekin út Víkina, en þá taka allir ofan, og halda þó róðrinum áfram, en um leið sameinast skipshöfnin í Ijóðlátri sjóferðabæn. Þegar bænin er á enda setja menn upp sjóhattinn á ný. Þannig hefst sjóferðin.

Og forða því frá öllu grandi
GrindavíkEf til vill er verið með línu, þá er hún lögð þegar komið er fram á mið, eða þá að verið er að vitja um netin.
Yfirleitt er hraði í öllum verkum og kostur þótt það að vera fljótur á sjó, því að á skammri stund skipast veður í lofti. — Glöggir formenn gerðu sér Hjótt grein fyrir því, hvort farið væri að brima eða ekki. Þeir sáu það á öldunni og það engu síður þótt í logni væri.
Þegar komið var að landi og sjóferðin var á enda var það venjan að tveir fremstu ræöararnir lögðu upp árarnar áður en komið var í vörina.
Þeir voru kallaðir framámenn og tóku sér í hönd „kolluband” og settust framan á kinnungin og höfðu það Þýðingarmikla og vandasama starf með höndum að taka skrið af skipinu þegar þeir sjálfir höfðu fengið fótfestu, og halda því á floti á meðan bskurinn var seilaður þ.e. dreginn UPP á snæri, sem kallað var seilaról, því að engin var þá bryggjan til að landa við. Seilaról var þannig gerð, að á öðrum endanum var tréspjald en á hinum endanum var lykkja. Lykkjan var þrædd í auga á seilarnál, sem venjulegast var tiltelgd úr hvalbeini.
Með seilarnálinni var svo fiskurinn seilaður upp á seilarólina og þegar allir höfðu lokið við það, voru seilarólarnar sameinaðar og bundnar við streng eða tóg, sem fesi var við klettanöf í fjöruborðinu. Á meðan þessu fór fram hafði formaðurinn nóg að gera við að halda skipinu í horfi í vörinni með sérstökum krókstjaka, sem til þess var ætlaður. Þannig unnu þeir saman formaðurinn og framámennirnir, að því að halda skipinu í réttu horfi og forða því frá öllu grandi. Var það oft erfitt verk og vandasamt, ef sogadráttur var í vörinni og mikil lá.

Hvort viltu heldur, sporð eða haus?

Grindavík

Þegar skipið hafði verið sett í naust var næsta verkefnið að bera aflann upp á bakinu, um annað var ekki að ræða. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðri birðaról, einnig úr snæri, en miklu styttri en seilarólin. Hver maður bar það sem hann vildi í einu og var stundum keppni um það hve marga fiska var hægt að bera í einni ferð. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðan skiptavöll og þar skipti formaðurinn aflanum í köst. Það var reyndar kallað að skipta í fjöru.
Í kastinu voru 2 hlutir. Síðan var dregið um köstin og þar sem 2 menn voru um kastið skiptu þeir á milli sín, og gerðu út um skiptin með því að annar sneri frá, en hinn spurði t.d. hvort viltu heldur sporð eða haus, lófa eða laska, skaft eða blað, hæl eða tá og sitt hvað fleira mátti nota til að gera út um skiptin. — Síðan gerði hver að sínum aflahlut.
Hér áður fyrr var talið að vetrarvertíð byrjaði 2. febrúar ár hvert og lokadagurinn var óumdeilanlega 11. maí. Í vitund fólksins var lokadagurinn mikill hátíðisdagur, sérstaklega ef vertíðin hafði verið gjöful og stórskaðalaus.
Á tímum áraskipanna var það mjög algengt, að ungir og frískir bændasynir austan úr sveitum og víðar að, fóru í verið út í Vík þ.e. Grindavík, og dæmin voru þess, að þeir komu ár eftir ár, sömu mennirnir og voru hjá sama formanninum og á heimilum þeirra og annara, sem að útgerðinni stóðu. Þessir menn voru á þeim tíma kallaðir útgerðarmenn þ.e. þeir voru gerðir út. Með þessum mönnum og heimamönnum var náið samstarf, sem leiddi oft til traustrar vináttu og samhjálpar í erfiðri lífsbaráttu. Og trúlega munu þeir menn enn finnast, sem eiga hugljúfar minningar um samveruna í verinu og kveðjustundirnar á lokadaginn 11. maí.”

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.08.1977, Grindavík – Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið, Svavar Árnason, bls. 2-4.

Grindavík

Grindavík 1963.

Krýsuvíkurkirkja

Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Er hún því samkvæmt heimildum ein elsta bændakirkja landsins, en bændakirkja er kirkja, sem taldist eign bónda, þ.e. bóndi eða einhver einstaklingur átti a.m.k. helming jarðarinnar, sem kirkjan stóð á, og fékk tekjur kirkjunnar, en annaðist viðhald hennar og rekstur. Hann var jafnframt eigandi jarða kirkjunnar og fasteignaréttinda hennar og bar ábyrgð á þeim og mátti ekki selja undan henni, en gat selt allar eignirnar í einu lagi og fylgdi kaupahluti jarðarinnar og ábyrgð á kirkjunni kaupinu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810.

Áður höfðu þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu til Íslands frá Noregi árið 1000 að boða kristna trú höfðu þeir með sér efnivið og fyrirmæli frá Ólafi konungi Tryggvasyni um að reisa skyldi kirkju á fyrsta stað sem að þeir „skytu bryggjum á land“, en í Kristnisögu kemur fram að þeir hafi haft viðkomu í Dyrhólaey á leið sinni. Kirkjan var reist á Hörgaeyri í Vestmannaeyjum, þar sem voru hörgar ( hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur ), voru þar blót stunduð áður. Kirkjan var svonefnd stafkirkja, og var tileinkuð heilögum Klementi, verndardýrlingi sæfara og sjósóknara. Hörgaeyri er sandbanki sunnan í Heimakletti í Vestmannaeyjum sem stendur út frá Stóru-löngu.

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Fyrir Kristintökuna árið 1000, hafði Þorvarður Spak-Böðvarsson sem bjó á Ási í Hjaltadal seint á 10. öld gerðst kristinn, og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), þá er Þorvaldur Koðránsson frá Giljá og Friðrekur biskup komu “til Íslands er landið hafði verið byggt tíu tigu vetra og sjö vetur” þ.e. 981.
Þeir félagar voru fyrsta veturinn í Húnavatnsþingi en héldu síðan til Skagafjarðar.
Kristni saga greinir frá því að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi reist guðshúsið árið 984. “En kirkja sú var ger sextán vetrum áðr kristni var í lög tekin á Íslandi…”. Í Þorvaldar þætti er þess getið að þremur vetrum eftir útkomu þeirra hafi Þorvarður Spak-Böðvarsson byggt kirkju sína í Ási og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann 1151. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275, þá var kirkjan helguð Maríu mey.
Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kirkjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirkja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.

Málverkið hér að ofan sýnir nýja bæjarstæði Krýsurvíkurbæjarins 1801 við rætur Bæjarfells, sett inn í umhverfið eins og það er í dag. Krýsurvíkurbærinn var fluttur ofar í landið við rætur Bæjarfells norðvestur af Arnarfelli, eftir eldgosið 1151, þegar Ögmundarhraun rann, var hann reistur á svokölluðum Bæjarhól undir Bæjarfelli, má sjá fjallgarðinn vestan Kleifavatns t.d Sveifluháls og Miðdegishnjúk. Talið er að fyrstu kirkju landsins sé að finna í Húshólma þar sem Gamla-Krýsuvík var. Það mun hafa verið fyrir landnám norrænna manna.

Krýsuvík

Krýsuvík undir Bæjarfelli – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið við rætur Bæjafells norðvestur af Arnarfelli , og síðar var Krýsuvíkurkirkja formlega aflögð með bréfi 27. sept. 1563, þar sem Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, leggur niður sóknarkirkju í Krýsuvík 1563, en síðan er hún endurbyggð árið 1857 af Beinteini Stefánssyni smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar og hún friðuð, en þá hafði hún verið í mjög lélegu ástandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir brunann.

Krýsurvíkurkirkja var reist úr rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið. Var Krýsurvíkurkirkja þá útkirkja frá Selvogi, og voru um 70 manns í sókninni, síðar var kirkjan aftur gerð upp og endurbyggð 1964, en það var svo hin 31. maí 1964 að Krýsuvíkurkirkja er vígð af biskupi landsins, en hann hefst síðan aftur 1986 við endurbyggingu Krýsurvíkurkirkju, þar sem hún er færð sem næst í upprunalegt horf.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-1870, Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Krýsuvíkurkirkja var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929. Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810.

Hin 31. maí 1964 var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins eftir að hafa verið gerð upp og endurbyggð, viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Mynd sýnir útlit Krýsurvíkurkirkju fyrir brunan, en hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, ásamt Altaristöflu kirkjunar sem var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara; „himingulur bogi upprisunnar“, er talið að bruninn í Krýsuvíkurkirkju hafi verið óviljaverk, mögulega hafi gestur skilið eftir logandi kerti í kirkjunni. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju tvisvar á ári. Kirkjan var í Hafnarfjarðarprestakalli.

Nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja var komin á grunn 10 október 2020. Helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar, en formleg vígsla fer fram síða af biskupi Ísland.

Eins og flestum er kunnugt brann Krýsuvíkurkirkja til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Syndaraflausn Héraðsdóms Reykjavíkur fólst í að dæmda rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að kirkjunni og brenna hana til grunna.

Krýsuvíkurkirkja

Altari Krýsurvíkurkirkju sem brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Málverkið er eftir Svein Björnsson listmálara; himingulur bogi upprisunnar.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.
Ný kirkja var smíðuð af nemendum og kennurum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, og lauk smíði hennar í sumar.
Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð. Hafnarfjarðarkirkja mun þá eiga og reka hana eftir það en Vinafélag Krýsuvíkurkirkju verður þá lagt niður.

Hafnarfjarðarkaupstaður gaf Krýsuvíkurkirkju 7.097 m² lóð.
Nú er kirkjan komin til Krýsuvíkur og verður hífð á sinn stað í Krýsuvík, við rætur Bæjarfells á morgun. Síðar verður hún vígð og afhent Hafnarfjarðarkirkjumun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja eftir brunann. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Ögmundarhraun stendur milli Latsfjalls og Krýsurvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsurvíkurberg er hraunbreiða á Reykjanesskaga sem rann árið 1151, sem komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, eða Krýsurvíkureldum og á upptök sín í norðurhluta gígaraða austan í Núpshlíðarhálsi. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit. Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Í Húshólma eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum í hrauninu skammt vestan við Húshólma eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því, en samkvæmt munnmælasögum stóð Krýsurvíkurkirkja í kirkjulág og stóð löngu eftir að hraunflóð eyddi bænum. Leifar kirkjunnar sjást enn.

Kröflueldar, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann honum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Sjá meira HÉR.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2022.

 

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Flekaskil

Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) “gangi” á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.

Möttull

Jörðin – að innan.

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk.

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð.

Flekaskil

Mismunandi flekaskil.

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar.

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla.

Jörðin er mjög spennandi viðfangsefni fyrir alla aldurshópa. Það er margt sem hægt er að skoða og rannsaka nánar hvort sem það er sólkerfið sem tilheyrir jörðinni, samspili lífvera og jarðarinnar eða uppbyggingu jarðarinnar.

Landrekskenningin – Alfred Wegener

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Árið 1912 kynnti þýskur veðurfræðingur Alfred Wegener fyrstur kenningu um landrek. Þremur árum síðar eða 1915 var Landrekskenning Wegeners sett fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa. Hann hélt því fram að öll meginlönd gætu flust úr stað með því að fljóta. Wegener taldi að meginlöndin hafi verið ein heild, þ.e. Pangea (al-álfa) sem hafi brotnað upp og brotin flust úr stað. Hann taldi með þessu að hann gæti útskýrt ásæðuna fyrir því af hverju löndin pössuðu vel saman. Um 1930 töldu jarðeðlisfræðingar að það væri ekki til nægilega stór kraftur sem gæti flutt heimsálfurnar úr stað og tókst þeim þar með að afsanna þann hluta kenningar Wegeners. En árið 1964 var landrekskenningin endurvakin og var þá nefnd botnskriðskenning og var þá gerð athugun á gerð hafsbotnsins. Í ljós kom að á hafsbotni leyndust langir fjallgarðar sem risu í um 2000-4000 m yfir hafsbotninn. Árið 1968 kom fram flekakenningin, en samkvæmt henni skiptist jarðskorpan í jarðfleka sem eru á reiki um yfirborð jarðar og eru flekarnir knúnir af hita frá möttlinum. Á úthafshryggjum á hafsbotni jarðarinnar rekur þessa fleka í sundur og til þess að það myndist ekki gap í jarðskorpunni fyllir bergkvika bilið og myndar á ný úthafsskorpu.

Innri gerð jarðar

Möttull

Jörðin – að innan.

Jörðin er flóknara fyrirbæri en við höfum gert okkur grein fyrir og verður stikklað á stóru um jörðina. Hún er þriðja reikistjarnan frá sólu en fimmta stærsta reikistjarna sólkerfisins. Þykkur lofthjúpur umlykur jörðina sem er að mestu úr nitri og súrefni. Á jörðinni hafa miljónir lífvera viðveru, hvort sem það eru plöntur eða dýr. Jörðin snýst um möndul sinn heilan hring á sólarhring en hún snýst einnig umhverfis sólu, sem tekur hana heilt ár. Jörðinni er skipt upp í nokkur lög, þ.e.a.s. innri kjarna, ytri kjarna, möttul og jarðskorpu. Innan möttulsins er 100 km þykkt lag sem kallast deighvel en ofan á deighvelinu flýtur u.þ.b 100 km þykkir jarðflekar. Ysta lag jarðflekanna hefur tvær misþykkar jarðskorpur, meginlandsskorpu og hafsbotnsskorpu. Jarðskorpan er að stærstum hluta byggð upp af 8 frumefnum eða u.þ.b. 98,5%, súrefni (45,6%), kísil (27,7%), áli (8,1%), járni (5,0%) ásamt kalsíum, natríum, kalíum og magnesíum en þau finnast í minna magni.

Jarðflekar

Flekaskil

Jarðflekar.

Jarðflekarnir sem eru um 100 km á þykkt innihalda jarðskorpuna ásamt efsta hluta möttulsins. Yfirborð jarðarinnar skiptist upp í 6 stóra jarðskorpufleka ásamt nokkra minni. Stærstu flekar jarðarinnar eru Evrasíufleki, Ameríkufleki, Afríkufleki, Kyrrahafsfleki, Suðurskautsfleki og Indlands-Ástralíufleki. Á mörkum þessara jarðskorpufleka birtast innri öfl, til dæmis með eldgosum og jarðskjálftum. Samkvæmt tilraun sem var gerð á árunum 1955-1965 kom fram að flestir jarðskjálftar ásamt mestallri eldvirkni jarðar var á mjóum beltum, þ.e. flekamörkum. Í berginu við mjóu beltin eða flekamörkin byggist upp spenna þegar flekamörkin hnikast til og jörðin losar sig við þennan varma hvort sem það er á meginlandi eða á hafsbotni. Flekamörkin skiptist í þrjá flokka, flekaskil, flekamót og sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti.

Flekaskil

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Flekaskil koma fram þar sem flekarnir gliðna í sundur, eldvirkni er í sprungunum og bergkvika kemur upp um sprungurnar, sem hafa myndast á skilunum. Þegar bergkvikan storknar kemur hún sem viðbót beggja vegna við flekana. Á hafsbotni myndast miðhafshryggir, til dæmis Atlantshafshryggurinn, og þar sem flekarnir gliðna í sundur þá myndast djúpir sigdalir. Á Íslandi má finna marga staði þar sem hægt er að sjá og jafnvel skoða flekaskil sem eru á þurru landi.

Flekaskil og gosbelti á Íslandi

Flekaskil

Flekaskil – Jarðfræðikort ÍSOR – http://jardfraedikort.is/?coordinate=64.96%2C-18.62&zoom=2

Á Íslandi eru flekaskil mjög aðgengileg og liggja þau þvert yfir landið frá Reykjanestá norður í Öxarfjörð. Einn vinsælasti staður til þess að sjá flekaskil á þurru landi eru Þingvellir en einnig er hægt að sjá flekaskil vel á Reykjanesi. Á Þingvöllum hefur sigdalur myndast á milli Almannagjár og Hrafnagjár og hefur dalurinn sigið um 40 m á síðustu 9000 árum. Ísland hefur fleiri sérkenni sem má rekja til flekaskilanna, til dæmis mikið af sprungum og gjám, mikinn jarðvarma til dæmis í Kröflu, Öskju og Hengli, eldgos í löngum sprungum en væga jarðskjálfta sem skipta tugum á hverjum sólarhring sem við finnum ekki fyrir.

Flekamót

Flekamót

Flekamót.

Við flekamót mætast tveir flekar, þar sem annar lútir fyrir hinum og sveigir undir hann og „eyðist“. Djúpálir myndast þegar hafsbotn eyðist en hafsbotninn sveigir u.þ.b. í 45° niður á við og fer undir hafsbotninn eða meginlandið sem kemur á móti honum. Mikilir jarðskjálftar verða á flekamótum á hafsbotni ásamt hættulegum eldgosum. Þrjár tegundir flekamóta eru til, hafsbotn mætir hafsbotni, hafsbotn mætir meginlandi og meginland mætir meginlandi.

Hafsbotn mætir hafsbotni; þar myndast djúpálar og hafsbotninn sem hefur svegt 45° niður á við eyðist upp þegar komið er niður í möttulinn og samlagast honum að hluta til. Mikil eldvirkni er á þessum svæðum og eyjabogar myndast, sem er röð eldfjallaeyja. Kúileyjar í Norður-Kyrrahafi eru dæmi um eyjaboga.
Hafsbotn mætir meginlandi; hafsbotninn lútir fyrir meginlandinu og treðst undir meginlandinu í djúpál. Á svæðum þar sem hafsbotn mætir meginlandi er einnig mikil eldvirkni og fellingafjöll með eldfjöllum myndast.
Meginland mætir meginlandi; hvorugur flekanna sveigir undir hinn, heldur myndast óregluleg hrúga, fellingafjöll, þar sem begið leggst í fellingar. Þegar fellingafjöllin myndast er lítil sem engin eldvirkni en harðir jarðskálftar eru á þessum svæðum. Himalayafjöllin í Asíu þar sem Indland rekur til norðurs er dæmi um flekamót þar sem meginland mætir meginlandi.

Sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti

Flekaskil

Jarðflekar.

Engin eyðing eða myndun bergs á sér stað við sniðgeng flekamörk. Tveir flekar nuddast saman á hliðunum og við það koma frekar harðir jarðskjálftar. Aðaleinkenni miðhafshryggjanna er hryggjarstykkin sem myndast við sniðgengu flekamörkin, en flekamörkin búta miðhafshryggina niður og við það kemur hliðrun víða fram á miðhafshryggjunum. San Andreas sprungan í Bandaríkjunum er dæmi um sýnileg sniðgeng flekamörk en þau koma fram á fleiri stöðum á meinglöndunum.

Heimildir:
-https://natkop.kopavogur.is/syningar/jardfraedi/landrek-flekaskil/
-https://is.wikibooks.org/wiki/Jar%C3%B0flekar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3811

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.