Álfakirkja
Gengið var að Óttarsstaðafjárborginni (Kristrúnarborg). Borgin er mjög heilleg. Hún var hlaðin af Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum ásamt vinnumanni hennar, Guðmundi Sveinssyni, árið 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Skammt austan við hana er Smalaskálahæðir. Í þeim rauðamölshóll í djúpri hraunkvos (Smalaskálakeri). Á hólnum stóð eitt sinn listaverk eftirmyndlistamanninn Hrein Friðfinsson er hann nefndi Slunkaríki, en er nú niðurnítt.
Gengið var upp að Brennuseli, en á leiðinni var leitað að öðru kolaseli, sem fannst fyrir u.þ.b. tveimur árum, en týndist aftur. Það fannst skammt norðan við Brennisel. Það virðist vera mun eldra. Brenniselið er með fallegri fyrirhleðslu og tótt í gróinni kvos. Birki grær yfir hana að sumarglagi svo erfitt getur reynst að koma auga á hana á þeim árstíma. Austan hennar er hlaðið fjárskjól og varða ofan þess. Þarna mun hafa verið reft yfir stóru hleðsluna fyrrum og hún verið notuð sem fjárskjól sbr. örnefnaskrá Óttarsstaða.
Álfakirkjan var talinn einn helgasti staður álfanna í Hraunum. Hraunmenn voru ekki neitt smeykir við að nýta fjárskútann undir klettinum því það var trú mann að álfarnir héldu verndarhendi yfir sauðfénu.
Haldið var upp í nyrsta krossstapan (hinir eru ofan við Lónakotssel), Álfakirkjuna, einn helgasta stað álfanna í Hraunum, og hún skoðuð. Norðan og undir henni er hlaðið fjárskjól. Þá var haldið til suðurs upp í Lónakotssel. Í selinu eru þrjú hús, þrír stekkir og fjárskjól í hraunkvos. Fjárskjólið er niður og utan í hraunkvosinni vestan við selið. Í henni er einnig einn stekkjanna eða gömul rétt. Norðaustan seljanna er stekkur og annar sunnan þeirra. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Brennisel

Brennisel.

Þá var haldið yfir að Óttarsstaðaseli. Suðvestan þess er Þúfhólsskjól, hlaðið fjárskjól. Vestan selsins er annað hlaðið fjárskjól, Óttarsstaðarselsskúti nyrðri. Sunnan við selið í Tóhólatagli er Tóhólaskúti, fjárskjól með fyrirhleðslu. Selið sjálft er einungis eitt hús, sem er óvenjulegt miðað við önnur sel á Reykjanesskaganum. Í flestum seljanna er húsin þrískipt; viðverurými og geymsla og síðan utanáliggjandi eldhús með sérinngangi.
Sunnan selsins er þrískiptur stekkur og lítil rétt. Enn sunnar er Óttarstaðarselsskúti syðri, hlaðið fjárskjól. Norðnorðaustan hans er hlaðinn nátthagi. Norðan selsins er Meitlahellir eða Meitlaskúti, svo til alveg við Óttarsstaðaselsstíginn (Skógargötuna). Stígnum var fylgt til norðurs. Á leiðinni var komið við í Sveinsskúta, hlaðið fyrir fjárskjól, og Bekkjarskúta, einnig hlöðnu fjárskjóli í hraunkvos. Komið var niður á Alfararleið og henni fylgt til vesturs uns hringnum var lokað.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun lokar fyrir afrennsli vatns að vestanverðu. Vatnssveiflur eru jafnan að mestu háðar veðurfari.
BeitarhusSkógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem hlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað.
Hús Skógræktarfélags Hafnarjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.
Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið. Í Húshöfða má t.d. sjá tótt af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tótt í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðastöðum, en var síðast nótað árið 1922 frá Ási. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarsel.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóttir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóttir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látrna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.
Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli. Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, upp á klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni og eldri skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fók að koma auga á þær, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum.
Þessi ganga tekur u.þ.b. klukkustund.

Hvaleyrarsel

Tóftir Hvaleyrarsels.

Hvassahraun
Gengið var frá Hvassahrauni. Veður var ekki bara ágætt – það var frábært, logn, hiti og sól. Gengið var eftir stíg, sem liggur til suðurs sunnan Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur áfram til suðurs skammt austan við Brugghellinn. Í botni hellisins, beint undir opinu, er ferköntuð upphækkun, sbr. meðfylgjandi mynd. Í botninum var vatn, u.þ.b. fet á dýpt. Gólfið er flórað að hluta svo ganga megi þurrum fótum í hluta hellisns, sem er í rauninni stór rúmgóð hvelfing, um sex metrar á dýpt.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Stígnum var fylgt áfram suður Rjúpnadalshraun og áfram til suðurs í jarði Flatahrauns. Stígurinn gerðist greinilegri eftir því sem ofar dró. Haldið var yfir línuveginn vestan Öskjuholts, áfram upp í Bælin og alveg upp í Höfða. Við efsta hólinn, Sauðhól, var snúið við, en frá honum sést vel til suðurs upp í tiltölulega slétt og víðfeðmt hraunið. Suðvestan í hólnum er Sauðhólsbyrgið. Veðrið var svo gott þarna að því miður gleymdist að taka GPS-punkt á byrgið.

Nú var snúið til norðurs með sólina á bakborða. Fallegt útsýni var niður að Öskjuholti og áfram upp að Brennhólum. Þegar komið var að Öskjuholti úr þessari átt blasti Öskjuholtsbyrgið við sunnan undir holtinu. Opið er tiltölulega lítið þar sem það er þarna í lyngi vöxnum bakkanum. Það er hlaðið, en fyrir innan er mjög rúmgott fjárskjól, enda greinilega mikið notað. Holtið sjálft er klofið eftir endilöngu með mikilli gjá. Annar klapparhóll, en minni, er austan við holtið.

Hvassahraun

Öskjuholtsskúti.

Gengið var til norðurs, upp að Smalaskála. Þar eru vel grónar lægðir og mörg náttúrleg skjól. Efst á Smalaskála er Smalaskálavarða. Gott útsýni er frá henni niður að Hvassahrauni. Í suðsuðaustri sést í háa vörðu á hæð, Jónsvörðu. Húner nokkurs konar „vendivarða“ þegar farið er upp í Hvassahraunssel. Í henni er steinn, sem bendir til austurs, en frá henni er enga vörðu að sjá. Ef hins vegar er gengið frá henni til austurs kemur Hvassahraunsselsvarðan fljótlega í ljós. Norðvestan við hana er selið undir holti.
Sunnan við Smalaskála er náttúrlegt skjól undir hæð, mjög góður hellisskúti með tiltölulega litlu opi. Vel gróið er í kring. Ef smalaskáli ætti að vera í Smalskála þá væri þetta staðurinn. Skammt norðnorðvestan við það er lítið, en djúpt, jarðfall. Í því lá dauð rolla, enn í reifum.
Vestan í Smalaskála er lítið gat, en fyrir innan er rúmgóður skúti, sem greinilega hefur verið notaður sem fjárskjól. Allt í kring er vel gróið. Skammt norðan við hrygginn, sem fjárskjólið er í, er gat, u.þ.b. 5 metrar á dýpt. Ummálið er ca. 2×2 metrar. Við það er lítil varða.
Á smáhól norðan við Smalaskála er grönn og nokkuð há varða. Leitað var í kringum vörðuna, en ekkert markvert fannst. Útsýni er frá henni að Virkishólum og er varðan sennilega greinilegust þar. Hins vegar ber þessa vörðu í Smalaskálavörðuna þegar komið er neðan að austan Bláberjahryggjar. Við hana er gata. Götunni var fylgt til norðurs og var þá komið inn á nokkuð áberandi götu, sem kom að austan ofan við Virkishóla. Gengið var eftir götunni til vesturs. Sást hún vel í kvöldsólinni þangað til hún fór undir nýju Reykjabrautina gegnt gatnamótunum að Hvassahrauni.
Frábært veður.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Gvendarhellir

Lagt var stað frá Eldborgarréttinni. Þegar komið var að henni kom álft í lágflugi og settist hjá þátttakendum. Hún var svo gæf að hægt var að klappa henni á kollinn. Hún kvartaði sáran og var hin spakasta. Fjölfóður maður í hópnum skyldi strax að álftin var að kvarta yfir fyrirhuguðu vegastæði Suðurstrandarvegi. Það er því alveg ljóst að sá sem hefur álft, en ekki bara krummafót, sér til stuðnings í því máli getur ekki annað en verið ánægður.

Gvendarhellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

Gengið var niður um Litlahraun og skoðuð tóttin, sem þar er, hlaðinn nátthagi og fjárskjól utan í hraunhól. Þaðan var haldið niður að Bergsendum og þrædd gatan neðan við gamla bergið uns vent var á bakborða og strikið tekið á Krýsuvíkurhelli. Hann var skoðaður beggja vegna, en nú er ljóst að hærgi hlutinn heldur áfram niður á við. í endanum er op, en gróft hraun allt í kring. Opið liggur þarna niður á við og eitthvert áfram. Ókannað. Í hægri hellinum eru separ í loftum og fallegur, grófur, brúnleitur hraunfoss. Svo virðist sem þar séu síðustu leifar hraunsstraumsins, sem rann um rásina.
Farið var í jarðfallið ofan við hellinn og opnað þar inn úr. Einn skreið inn fyrir og kíkti. Ákveðið var að segja ekkert meira um þennan hluta að svo komnu máli.

Þá var haldið upp um Klofninga og komið við í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og hann vandlega skoðaður. Ákveðið var að fara niður um efsta hluta Bálkahellis og síðan áfram niður í neðsta hlutann. Loks var haldið upp fjárskjólshraunið og komið að dysjum Herdísar og Krýsu áður en hringnum var lokað. Við skoðun á dysjunum kom í ljós að dys smalans, sem átti að vera horfin undir skriðu, er þarna skammt frá.
Frábært veður.

Litlahraun

Minjar í Litlahrauni – uppdráttur ÓSÁ.

Þorsteinshellir

Lýsing á Þorsteinshelli og Dimmu (Dimmi) var sú að hellarnir ættu að vera norðaustan við Hólmsborgina (Sauðaborgina) í Hrossabeinahæð sunnan Hólmshlíðar og austan Gráhryggjar. Þeir, sem einhvern tíma hafa komið á svæði, vita að þar er eitt hraunhaf svo langt sem augað eygir. Þrjár fyrri ferðir á svæðið hafa reynst árangurslausar. Því var ákveðið að nota að þessu sinni léttvopnaða og fótfráa sérsveit FERLIRs. Sveitin getur farið hratt yfir og ef eitthvað markvert er að finna þá finnur hún það, það er a.m.k. reynslan.

Dimmir

Við opið á Dimmi.

Þegar búið var að leita af sér allan grun á Hrossabeinshæðum, var haldið inn á Gráhrygg. Farið var hratt yfir, en þegar komið var í austanverðan hrygginn skammt norðvestan við Selfjall var ákveðið að umkringja líklegt svæði og grandskoða það. Eftir stutta leit fannst Þorsteinshellir og síðan Dimmir í kjölfarið. Við skoðunina fannst einnig annar hellir, sem bíður betri tíma.
Hlaðið er (sjá mynd) við op Þorsteinshellis. Þrep er niður og síðan tekur við heil hraunrás, u.þ.b. 8-10 metra löng. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem skjól fyrir þann eða þá, sem setið hafa yfir ánum. Krikinn, sem þótti svo líklegur, hefur þá að öllum líkindum verið notaður sem nátthagi. Sennilegt er að aðstaða þessi hafi m.a. verið notuð frá seljunum í Lækjarbotnum (Örfiriseyjaseli og Reykjavikurseli) og frá Hólmi.
Skammt norðan við Þorsteinshellir fannst opið á Dimmi (sjá mynd). Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur, heil hraunrás, en tiltölulega lág.
Frábært veður.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Skúlatún

Gengið var að Skúlatúni frá Bláfjallavegi. Þangað er innan um tíu mínútna gangur. Stígur liggur úr suðri að suðurhorni hólsins, en Skúlatún er stór gróin hæð umlukin helluhrauni. Sléttur stígurinn liggur með austurhlið hólsins og áfram áleiðis að Helgafelli. Annar eldri stígur liggur til norðvesturs frá hólnum. Hann er mjög þúfóttur og ómögulegt að greina hvort þarna hafa verið mannvirki eða ekki.

Skúlatún

Skúlatún.

Hins vegar segir Brynjúlfur Jónsson, þjóðminjavörður, að hann hafi greint marka fyrir heimtröð við suðvesturhorn hólsins og stíg við hann norðanverðan. Þrátt fyrir að ekki sæust mannvirki í hólnum í ferð hans þarna skömmu eftir aldarmótin 1900 taldi hann lítinn vafa vera á því að í honum kynnu að leynast leifar einhverra mannvirkja frá fornri tíð. Hvar sem stungið var í hólinn var alls staðar mold undir. Hann er mjög miðsvæðis þegar horft er til tótta í Helgadal annars vegar og hugsanlegra tótta í Fagradal eða nágrenni hins vegar. Þess má geta að í ferð FERLIRs um suðaustanverðan Leirdalshnúk á sínum tíma fundust minjar við vatnsstæði sem þar eru utan í höfðanum.
Gengið var í rúman hring um hólinn og leitað hugsanlegra fjárskjóla eða hella. Við þá göngu fannst fremur lítið gat á stórum hraunhól. Dýpið var u.þ.b. ein og hálf mannhæð, en fyrir vana menn ætti leiðin að vera nokkuð greið niður. Greinilegt er að opið er komið til vegna uppstreymis, en ekki hruns, eins og önnur göt í hrauninu. Leiðin niður var tvílagskipt. Niðri var um vatn, um fet á dýpt. Þegar vatnið draup úr loftinu mátti heyra bergmál þar niðri. Hlaðið var lítil varða við opið svo kíkja megi niður í það við tækifæri þannig hægt verði að gaumgæfa hvað þar er að finna. Opið er í um fimm mínútna gang frá veginum, en alls ekki auðfundið.
Frábært veður.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Helgadalur

Gengið var að Helgadal, framhjá opi Níutíumetrahellis, niður skástigu gömlu Selvogsgötunnar, framhjá opi Vatnshellis og áfram upp að sögðum gömlum tóttum í austurhlíð Helgadals. Sjá má hvar gamla Selvogsgatan hefur beygt að vatninu í Dalnum og síðan haldið áfram á ská upp eftir hlíðinni, sunnan við tóttirnar. Svo virðist sem þarna gætu hafa verið nokkur hús. Sjá má móta fyrir stíg niður að vatninu, hugsanlega garði sunnan við tóttirnar og tótt niður við vatnið.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gamall skáti sagði að Skátafélag Hafnarfjarðar (Hraunbúar) hafi á sínum tíma ætlað að byggja skála í Helgadal þar sem skemmtileg skátamót voru haldin um tíma. Rótað hefði verið og grafið fyrir uppistöðum, en síðan hafi verið horfið frá skálabyggingunni. Hvar það var nákvæmlega í dalnum er ekki alveg ljóst á þessari stundu.
Tóttarsvæðið í Helgadal sést vel, en erfitt er að greina einstaka tættur. Vatnsverndargirðingin liggur fast við þær. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1907 (áhíf 1908) kemur fram að þær hafi ekki verið vel greinanlegar þá, fyrir tæpri öld síðan, en hann lýsir þeim á þessum stað, sbr. meðfylgjandi mynd. Í þeirri frásögn lýsir hann og heimtröð og garðlagi við Skúlatún sunnan við Helgafell.
Fróðlegt væri að láta einhvern tíma grafa í tóttirnar til að fá úr því skorið hvað þarna hafi verið og hversu gamalt það er.
Gangan tók u.þ.b. 45 mínútur í ágætu veðri.

Helgadalur

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.

Hrauntungustígur

Gengið var eftir Hrauntungustíg frá Krýsuvíkurvegi að malargryfjunum, sem eru á sunnan vegarins, á milli hans og Hrauntungu. Eini sýnilegi hluti stígsins, sem ekki hefur enn verið eyðilagður, er um 300 metra langur. Hann sést greinilega í tiltölulega sléttu hrauninu og síðan upp hraunbakka við gryfjurnar. Efst á bakkanum er varða, en við hana hefur stígurinn verið tekinn í sundur. Hann sést síðan handan við gryfjurnar þar sem hann kemur inn í Hrauntunguna. Tungan er stór gróin tóa inni í nýrra mosahrauni. Þegar stígnum er fylgt inn í gegnum tunguna má sjá vörðu upp á hraunhól á vinstri hönd. Handan við hólinn er jarðfall. Í jarðfallinu er stór birkihrísla. Við norðurjaðar þess er stór fyrirhleðsla með opi á. Innan við opið er smalaskjól (Hrauntunguskjól). Þegar komið er út úr Hrauntungunni að vestanverðu er stutt upp í Kolbeinshæðaskjólin og þaðan upp í Straumssel.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells.

Þá var Stórhöfðastíg fylgt í gegnum Dyngnahraun við Stórhöfðahraun. Eins og við Hrauntungustíginn hefur Stórhöfðastígurinn af skammsýni verið hreinsaður upp að hluta þar sem eru stórar malargryfjur. Ef gryfjurnar hefðu verið örlítið norðar hefði stígurinn sloppið. Við norðausturjaðar þeirra er stór hraunklettur. Stígurinn liggur niður með klettinum og liðast síðan um hraunið í átt að suðurhorni Stórhöfða. Stígurinn hefur einhvern tímann verið ruddur hluta leiðarinnar og þannig gerður akfær inn í hraunið. Ruðningurinn endar við háan flatan hraunstand. Frá honum til norðurs sést gamli Stórhöfðastígurinn vel þar sem liggur að línuvegi, sem liggur þvert á hann. Þegar komið er yfir línuveginn liggur stígurinn um nokkuð slétt helluhraun alveg að höfðanum. Á leiðinni eru nokkur lítil jarðföll og stór hraunskúti, en engir hellar. Stórhöfðastígurinn á þessum kafla er nú einungis heill á u.þ.b. 500 metra kafla. Sunnan við Krýsuvíkurveginn liggur hann upp og suður í hraunið með stefnu í vörðu á hraunhól. Stígurinn er óljós á nokkrum kafla í grónu hrauninu, en þegar komið er ofar í það verður hann aftur greinilegur. Hann er varðaður á hluta leiðarinnar, en þar sem hann liggur í áttina og ofan við Fjallið eina er stígurinn vel greinilegur. Hann liggur síðan upp með Húshelli, framhjá Hellinum eina (Steinbogahelli) og áfram suður með vestanverðri Hrútargjárdyngju og upp á Ketilsstíg.
Frábært veður.

Kolbeinshæðaskjól

Kolbeinsstaðaskjól.

Hetta

Gengið var upp á Sveifluháls eftir Ketilsstíg frá Seltúni, framhjá Arnarvatni með Arnargnípu á hægri hönd og að Ketilsstígsvörðu ofan við Ketilinn á vestanverðum hálsinum. Þaðan var þokkalegt útsýni yfir Móhálsadalinn, yfir að Hrútafelli, Fíflvallafjalli og Mávahlíðum. Vindurinn reyndist steindauður – stafalogn – svo hlíðarnar spegluðust í vatninu.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Þá var stefnan tekin til suðurs eftir svonefndri Sveiflugötu (-stíg), en hann mun hafa leið frá Ketilsstíg, suður með vestanverðu Arnarvatni og upp fyrir Hettu, þar sem Hettuvegur liggur frá Vigdísarvöllum yfir hálsinn til Krýsuvíkurbæjanna. Vel mótar fyrir Hettuveginum í hæðunum norðan Bleikingsdals, en síðan verður hann jarðlægur eftir að hækka tekur. Á þessu svæði eru sandásar, leirhlíðar og jarðskrið svo eðlilegt er að þar sjáist stígurinn ekki. Hins vegar sést hann enn vel á kafla neðst og á einum stað hátt í suðvestanverðri Hettu þar sem hann gengur inn á Sveifluna.
Í fjallsás þar sem sést til sjávar, drangar girða og lind í lautu streymir, breyttist einn þátttakenda í hempuklæddan boðbera vorsins og flutti ljóðið „Fylgd“ eftir Guðmund Böðvarsson þar sem minnt er á hver eigi landið og hver tilheyri landinu. Átti vel við í upphafi sumars.
Gengið var niður af Sveifluhálsi að austanverðu skammt sunnan við Sveifluna og staðnæmst við Krýsu, margflókna styttu í líki listaverks, utan í hálsinum. Þaðan var gengið niður að Gestsstöðum, hinum forna bæ Krýsuvíkur. Loks var stefnan tekin á tóttir bæjarins Fells sunnan Grænavatns og gengið að Engjahver (Austurengjahver), sem skartaði sinni miklu litadýrð sem aldrei fyrr.
Til baka var gengið vestur yfir Vesturengjar sunnan Litla-Lambafells og hringnum lokað á Seltúni.
Gangan tók 3 og ½ klst í logni og stillu.

Hetta

Hetta.

Snorri

„MEGAflott“ varð fulltrúa Hellarannsóknarfélags Íslands að orði eftir að hafa skoðað skoðað Snorra. Meira um það á eftir.

Snorri

Björn Hróarsson við Snorra.

Stefnan var tekin á Slóðaketil og Snorra. Rúmlega fimm metra langur stigi var með í för. Lögreglunni í Reykjavík er þökkuð afnotin því án stigans hefði hrikaleiki undirheimana ekki verið uppgötvaður að þessu sinni.
Til þess að komast niður í Slóðaketil þurfti á öllum fimm metrunum að halda. Í hraunbólu er ketill. Rás liggur upp úr honum á efri hæðinnim þrengist, en víttkar aftur uns hún lokast alveg. Mjó rás, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, liggur niður í sléttbotna rás, sem enn er ókönnuð. Þar þarf einhvern mjósleginn til að skríða aftur á bak niður og skoða rásina. Aldrei að vita hvað þar kannn að leynast. Niður í katlinum liggur rás niður á við og beygir til hægri. Þar lokast hún. Í heildina er kannaður hluti Slóðaketils u.þ.b. 30 metrar.

Þegar komið var að Snorra blasir við geysistórt jarðfall. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hruninn skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra uns hún lokast alveg. Snorri fannst eftir ábendingu frá Snorra Þórarinssyni frá Vogsósum, en hann hafði einhverju sinni átt leið þarna um í smalamennsku og þá gengið fram á jarðfallið. Síðan gerði FERLIR þrjár tilraunir til að finna jarðfallið og fannst það að lokum í svartaþoku með aðstoð GPS-tækis, sem notað hafði verið til að skanna svæðið þvers og kruss.

Snorri

Snorri – þrívíddarmynd.

Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann með því að færa til stóra steina. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í nálægt sex metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en nú sást að allur veggur kjallarans er þannig. Stiginn var dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Fulltrúi HERFÍs klifraði upp – og hvarf. Hann kom ekki aftur fyrr en eftir rúmlega hálfa klukkustund. MEGAflott sagði hann bara þegar hann var spurður hvernig þetta væri þarna uppi – og brosti sínu breiðasta. FERLIRsfélagar héldu við stigann á meðan, en ef vel á að vera þarf þarna nálægt átta metra langan stiga til að komast bæði upp og niður með góðu móti. Einn félaginn stalst reyndar til að klifra upp og kíkja inn fyrir. Þessi rás liggur inn fyrir stóra jarðfallið í meginrásinni. Þá tekur við u.þ.b. 5 metra hár og 10 metra breiður sléttbotna hellir, um 300 metra langur. Í honum eru dropasteinar og annað er prýtt getur fallegan hraunhelli. HERFÍsfulltrúinn gaf hellinum einkunina 8 af 10 mögulegum. Það segir jú sína sögu.
Þarna bættist enn ein perlan í safn HERFÍs, ekki langt frá fyrirhuguðu vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar. FERLIRsfélagar er ánægðir með að hafa fengið að taka þátt í uppljóstran þessara gersema Íslands. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með fulltrúum HERFÍs og skoða, mynda og mæla hellinn. Aldrei er að vita hvað þá kann að finnast.
Snorri er sem sagt ekki fullkannaður. Hellirinn er bæði vandfundinn og aðkoman torfarin – þrátt fyrir stærðina.

Veður var frábært – logn og sól.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.