Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um “Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi“. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi“Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha. Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir. Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.
Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.
Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krísuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvfkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra. Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávum 50 metra. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli. Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. larðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð, þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Járnbraut

Í Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998 mátti lesa; “Draumurinn um eimreið austur í sveitir” eftir Pálma Eyjólfsson.

“Á árunum eftir aldamótin var farið að tala um sjálfrennireiðar eða mótorvagna, en stóri draumurinn var járnbraut oq tvær eimreiðir til að draqa 20 opna 6 smálesta vagna, en þar að auki yrðu 10 lokaðir vagnar og 5 ferðamannavagnar. Dr. Valtýr Guðmundsson vildi veita ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar oq umræðurnar á þingi 1894 urðu svo miklar, að þær fylltu 345 dálka í þingtíðindum.

Eimreið
Á aukaþingi sem haldið var í ágústmánuði árið 1894 var lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem nefndist: „Frumvarp til laga um löggildingu félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m.fl.” Flutningsmenn voru þeir séra Jens Pálsson, sóknarprestur á Útskálum, alþingismaður Dalamanna og Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans og þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. En það var einmitt á þessu sama ári 1894 sem fyrsta vélknúna millilandaskipið komst í eigu Íslendinga; Ásgeirsverslun á Ísafirði átti það. Potturinn og pannan í stóra málinu, sem kom á borð alþingismanna á þessu sumarþingi var Sigtryggur Jónasson, umboðsmaður Winnipeg. Sigtryggur var þá á fimmtugsaldri. Hann hafði verið skrifari Péturs Havsteens, amtmanns, og húskennari. Þegar Sigtryggur hafði starfað í átta ár hjá Pétri var amtmanni vikið úr embætti. Sigtryggur flutti þá vestur um haf og varð meðal fyrstu landnámsmanna í Kanada. Hann efnaðist á viðarhöggi við járnbrautarfélög og var duglegur að bjarga sér og hneykslaðist á framtaksleysi heimaþjóðarinnar. Hann reisti sér myndarlegt býli og nefndi það Möðruvelli eins og höfuðból amtmanns við Eyjafjörð. Hér er stuðst við bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, sem út kom árið 1971. Og hvert átti svo að verða hlutverk þessa mikla félags? Það var rakið í mörgum greinum frumvarpsins og verður hér aðeins drepið á það, sem varðar Suðurlandið.

Eimreið
„Félagið hefur fullt leyfi og vald til að ákveða legustað fyrir einsporðar eða tvísporðar stál- eða járnbrautar, sem liggi: a) frá Reykjavík suður og austur gegnum Kjósar- og Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Í frumvarpinu var einnig greint frá öðrum sýslum, sem njóta eiga samgöngubóta með járnbrautum, allt norður í Eyjafjörð. Þetta fyrirhugaða félag átti að eiga öll hús við enda; stöðvar á járnbrautunum svo og gistihús. Á járnbrautarstöðvunum átti að selja mat, tóbak, vín og ölföng. Hvað er nú stóriðjan á Íslandi í dag á móti því, sem framkvæma átti eftir frumvarpinu, sem lagt var á borð alþingismanna þjóðarinnar í lok nítjándu aldarinnar?

Vort ferðalag gengur svo grátlega seint
EimreiðinÍ tímariti dr. Valtýs Guðmundssonar, Eimreiðinni, var og farið að skrifa um bifreiðar, sem menn nefndu sjálfhreyfivagna, sjálfrennireiðar, eða mótorvagna þegar árið 1905. Þorsteinn Erlingsson orti “Brautina”, sem ávarpskvæði Eimreiðarinnar. Í ljóðinu eru þessi erindi: En ef við nú reyndum að brjótast það beint, þó brekkurnar verði ekki hærri? Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, og gaufið og krókana höfum við reynt og framtíðarlandið er fjarri.

Hvatningarljóðið er tuttugu erindi. Sautjánda erindið er svohljóðandi: Og þó að ég komist ei hálfa leið heim, og hvað sem á veginum bíður, þá held ég nú samt á inn hrjóstuga geim og heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður. Það þarf átta milljónir króna á næstu tíu árum til að koma atvinnuvegum Íslands til góða og til að bæta samgöngur og verslun landsins.

Eimreið
Stærsti pósturinn í þessari nýsköpun var járnbrautin því með „telgrafþræði” var áætlun 6 milljónir króna. Þannig skrifaði áðurnefndur Sigtryggur í ársbyrjun árið 1889. Þetta var nefnt „Stóra málið”. Fimm árum síðar efndi Sigtryggur til fundar í Góðtemplarahúsinu gamla, sunnan við alþingishúsið, þar sem alþingismenn geyma nú farartæki sín. Enn er gripið í bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, og þar segir svo: „Til þess er ætlast, að hinni fyrirhuguðu járnbraut austur í Árnessýslu fylgi 20 opnir vagnar, er taki sex smálestir hver og 10 lokaðir vagnar, jafnstórir. Enn fremur eiga þar að vera sex ferðamannavagnar, III. flokks handa 32 farþegum hver, en tveir I. flokks handa 18 hver og tveir farþegavagnar. Til dráttar eru áætlaðar tvær eimreiðar. Getur hver eimreið dregið 20 vagna með 25 enskra mílna hraða á klukkustundinni, þar sem hallalaust er eða því nær 10 vagna upp halla 1:25.” Of langt mál er að greina frá umræðum og blaðaskrifum um járnbrautarmálið.

Einn af stóru fundunum í Þjórsártúni
Eimreið
Það var hinn 30. júlí árið 1905 sem einn af þessum stóru fundum var haldinn í Þjórsártúni. Bogi Th. Melsteð var fyrirlesarinn eins og ræðumenn voru þá kallaðir. Hann nefndi erindi sitt „Verslun Íslendinga og samvinnufélagsskapur”. Svona eins og í framhjáhlaupi segir hann í erindi sínu: „Ég heyri, menn nefna járbraut hingað úr Reykjavík. Ég minntist á járnbraut í bæklingi mínum. Framtíðarmálum, fyrir fjórtán árum en vil nú leiða athygli manna að sporbraut fyrir „elektriska” vagna. Slík braut er talin þrisvar sinnum ódýrari en járnbraut þótt báðar séu reknar með gufu. Tveir „elektriskir” „sporvagnar geta flutt 150 manns í einu eða áburð af 150 hestum. Þeir geta hæglega farið á dag fram og aftur jafnlanga leið og héðan til Reykjavíkur. Orkuna til að knýja vagnana mætti fá rétt hjá fundarstaðnum úr Búðafossi í Þjórsá.”

Ræðumaðurinn var nánast á heimaslóðum því hann var frá Klausturhólum í Grímsnesi. Bogi var einn af frumkvöðlum samvinnufélagsskapar og sláturhúsa. Þó að hann hafi á sínum tíma verið þekktastur fyrir sagnfræðirit sitt, hafði hann áhuga á samgöngum með járnbrautum, síma og hitaveitu. En ekki tókst málafylgjumanninum að hrífa þingheim með sér í járnbrautarmálinu. Daufu eyrun voru of mörg. Um aldamótin var talað um járnbrautarferðir frá Reykjavík austur að Þjórsá og var þá höfð í huga samvinna við breska aðila. Dr. Valtýr Guðmundsson var kosinn á þing í Vestmannaeyjum í júnímánuði 1894, en þá um sumarið var aukaþing. Var hann þá helsti forystumaður þess að veita fyrirhuguðu ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar á íslandi og til að halda uppi beinum gufuskipaferðum milli Reykjavíkur og Englands, ásamt strandferðum umhverfis landið. Innan sjö ára skyldi félagið hafa lagt mjóspora járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá.

Eimreið

Um 1925. Eimreiðin Minör. Við hlið hennar standa eimreiðarstjórarnir f.v. Guðmundur Guðmundsson og Páll Ásmundsson

Aðalforgöngumaður málsins var áðurnefndur Sigtryggur Jónasson, sem staddur var í Reykjavík um þingtímann og taldi sig hafa 900 þúsund króna loforð frá væntanlegum félagsmönnum, ef alþingi samþykkti það tillag úr landssjóði, sem farið var fram á. Þetta var mesta nýmæli um verklegar framkvæmdir, sem nokkurn tíma hafði komið fyrir alþingi. Umræðurnar á þingi fylltu 345 dálka í þingtíðindum 1894. Um járnbrautina var mest deilt, en flestir voru samþykkir gufuskipaferðum enda voru þær miklu betri eftir frumvarpi dr. Valtýs, en þær sem Sameinaða gufuskipafélagið hélt uppi. Frumvarpið um járnbrauta- og siglingafélagið var samþykkt í neðri deild, en til efri deildar kom það svo seint, að ekki var tími til að ljúka málinu og féll það þar með úr sögunni.

Heimsborgarhljóð stundvísinnar

Eimreið

Eimreiðin Minör – nú minnisvarði við Reykjavíkurhöfn.

Það var hinn 17. apríl árið 1913 að fyrsta og eina járnbrautin á Íslandi var tekin í notkun. Járnbrautarteinar lágu frá Öskjuhlíðinni í Reykjavík, sem þá var enn óbyggð, og niður að Reykjavíkurhöfn, sem nú er hin eldri Reykjavíkurhöfn. Grjótflutningarnir voru miklir í þetta stóra mannvirki. Sagt er frá því í blöðum að hinn 10. nóvember 1913 hafi farþegar verið fluttir í fyrsta og eina skipið með járnbrautarlest. Verktakar við Reykjavíkurhöfn breyttu vöruflutningavögnum til að geta flutt blaðamenn og fleiri frá höfninni upp í Öskjuhlíð þar sem grjótnáman var þá. Það mun hafa komið fyrir að Reykvíkingar fengju sér sunnudagsskemmtiferð með Pioneer-eimreiðinni upp í Skólavörðuholt og Öskjuhlíð. Meðan á hafnargerðinni stóð var járnbrautin talsvert notuð til vöruflutninga. Olíubirgðastöð var þá komin í Örfirisey og þangað flutti járnbrautin olíu á tunnum, en á þeim árum var steinolía enn mikið notuð í Reykjavík. Saltað kindakjöt í tunnum, sem þá var góð útflutningsvara, var flutt frá húsi Sláturfélags Suðurlands við Skúlagötu, en skammt þaðan var hið virta fyrirtæki, Völundur og þangað flutti járnbrautin timbur frá skipshlið. Þá var og steypumöl í Landspítalann flutt með járnbrautinni.

Margir muna enn í dag eftir þungum slögum frá eimreiðinni, járnbrautarteinum og hinum reglubundna hvini. Eimreiðarstgórinn flautaði svo undir tók þegar farið var yfir Hverfisgötuna og Laugaveginn, vestan við gömlu gasstöðina og á þeim slóðum þar sem lögreglustöðin var síðar reist. Einnig var flautað hátt og hressilega þegar farið var yfir Hafharfjarðarveginn gamla. Heimsborgarhljóðin glumdu yfir höfuðborginni, hljóð stundvísinnar, sem einkennir járnbrautarferðir út í hinum stóra heimi. Hafnarsmiðjur, rauðmáluð lágreist hús með svörtu þaki, voru á þeim slóðum þar sem síðar kom Miklatorg, austan við Landspítalann. Hafnarsmiðjan var birgðastöð og skýli yfir eimreiðarnar. Ekki var hægt að snúa eimreiðunum við eða breyta stefnu þeirra að Öskjuhhíðinni þannig að þær drógu ýmist farmvagnana eða ýttu þeim á undan sér. Þann 9. mars árið 1913 varpaði gufuskipið Edvard Grieg akkeram þar sem síðar varð hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en þetta skip kom með verkfæri til hafnargerðarinnar og N.P. Kirk yfirverkfræðing. Hálfum mánuði síðar höfðu hundrað manns hafið vinnu við að leggja járnbrautarteina úr Öskjuhlíðinni yfir Melana og vestur á Granda og var því verki lokið um miðjan apríl. Síðan var önnur braut lögð úr Öskjuhlíð yfir Skólavörðuholt og Arnarhólstún og niður á Batterí, á þeim slóðum, sem Seðlabankinn er í dag. Með áðurnefhdu skipi kom ein eimreið, nefnd Minör, og sama sumar kom svo önnur eimreið, nefnd Pioneer. Í árbók Verkfræðingafélags Íslands árið 1914 skrifar Jón Þorláksson, landverkfræðingur, síðar forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, grein sem hann nefndi: „Áætlunarferðir með eimreið austur í sveitir”. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir aðalatriðum úr áætlun um þessa járnbraut, sem minnst er á í riti þessu á öðrum stað: Lega brautarinnar er ráðgerð frá Reykjavík um Þingvelli og Selfoss til Þjórsár, að lengd alls 112 km. Einnig er gert ráð fyrir hliðarálmu frá Selfossi til Eyrarbakka, að lengd 11 km. Hæð yfir sjávarmál mest 275 m. á þessari leið. Gerð brautarinnar: Breidd undirbyggingar er áætluð 4 m. og fylgt þeirri reglu, að gera brautina allstaðar upphækkaða, en hvergi niðurgrafna, til þess að koma í veg fyrir hindranir af snjóalögum.” Þar lét Guðjón í Laxnesi, sem þá var vegaverkstjóri mæla snjóþykktina árin 1912-1918 og aftur 1924-1926, af þessum snjómælingum var ályktað að járnbrautarlest gæti komist yfir Mosfellsheiði alla daga ársins. Guðjón var eins og kunnugt er faðir Halldórs nóbelsskálds.

Eimreið

Eimreiðin við gerð hafnargarða Reykjavíkurhafnar.

Stöðvar eru áætlaðar í Reykjavík, við Selfoss og við Þjórsá og auk þess 16 smástöðvar, sem mjög litlu sé til kostað. Fullkomin rannsókn á brautarstæðinu liggur ekki fyrir ennþá, segir í greininni, heldur aðeins bráðabirgðarannsókn, sem þó er byggð á hallamælingum á mestum hluta leiðarinnar. Eftir áætluninni er jarðrask 7.400 tenm. á hverjum km. aðallínunnar.

Eimreið

Eimreiðin í Vatnsmýri.

Kostnaður til bráðabirgða er áætlaður þannig: Aðalbrautin 112 km, krónur 3,5 milljónir. Álma niður á Eyrarbakka 11 km, kr. 300 þúsund. I þessum kostnaði er borgun fyrir landspjöll ekki meðtalin. Fólksfjöldi á brautarsvæðinu er nú sem stendur full 25.000 manns. Þórarinn Kristjánsson, byggingaverkfræðingur vann á skrifstofu landverkfræðings árið 1912, þá nýútskrifaður frá Kaupmannahöfn, og mældi hann fyrir járnbrautarstæðinu frá Reykjavík um Þingvöll að Selfossi. Þórarinn varð síðar hafnarstjóri í Reykjavík. Árið 1920 skrifar svo Jón Ísleifsson verkfræðingur í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands og bendir á aðrar leiðir, sem hann nefnir Reykjanesleiðir. Þær leiðir áttu að liggja frá Reykjavík inn að Elliðaám suður í Hafnarfjörð um Vífilsstaði.

Fyrir sunnan Hafnarfjörð á móts við Hvaleyri áttu leiðirnar að skiptast og átti önnur að stefna í hásuður, milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, um Vigdísarvelli og ofan á Krýsuvíkurbjarg vestanvert. Þaðan meðfram sjó yfir Vogsós og Ölfusárós að Eyrarbakka. Frá Eyrarbakka átti leiðin að liggja upp Flóa að Ölfursárbrú og þaðan að Þjórsárbrú. Hin leiðin átti að liggja frá Hvaleyri í vestur, meðfram sjó suður í Voga og beygja þar til hásuðurs meðfram Sandakravegi, yfir Dalahraun niður að Hraunsvík hjá Ísólfsskála, og þaðan meðfram sjó að Krýsuvíkurbjargi, þar átti þessi vestri Reykjanesleið að mæta hinni fyrrnefndu leið. Eystri-Reykjanesleiðin var talin 126 km löng, en hin vestri 146 km. Þessar leiðir áttu að komu öllum íbúum Reykjanesskagans að notum og vera snjóléttar. Við Reykjanesleiðina voru þá 2872, íbúar en við Þingvallaleiðina 827 íbúar.

“Járnbrautarmálið og samgöngumál suðurlandsundirlendisins”

Eimreið

Eimreiðin í Öskjuhlíð.

Þannig hljóðaði yfirskriftin á tveimur erindum, sem Geir G. Zoéga, vegamálastjóri flutti í mars og aprfl árið 1924. Fyrra erindið byrjar þannig: „Járnbrautarmálið er óefað langstærsta samgöngumálið, sem hjá oss hefur verið á dagskrá. Öllum hlýtur að vera það ljóst, að Suðurlandsundirlendið verður að fá samgöngubót, er veitir því greiða og örugga leið til Reykjavíkur jafnt vetur sem sumar ef þess á að vera nokkur von, að fé það allt, sem þar hefur verið lagt í ræktun beri tilætlaðan ávöxt. Þessi samgöngubót hlýtur að verða annað tveggja járnbraut eða fullkominn akvegur til bifreiðaflutninga.”

Eimreið

Eimreiðin Pioneer og gufuvaltarinn Bríet við Árbæjarsafn.

Í greinargerð vegamálastjóra kemur fram að Stóra málið hafði um árabil legið í þagnargildi, en á alþingi 1921 voru samþykkt lög sem heimiluðu landstjórninni að láta framkvæma fullnaðarrannsóknir járnbrautarstæðis frá Reykjavík og austur um Suðurlandsundirlendi. Snéri landstjórnin sér til stjórnar norsku ríkisbrautanna með beiðni um að fá vel hæfan starfsmann þeirra til rannsókna. Var málinu vel tekið og bent á Sv. Möller, járnbrautarverkfræðing. Í janúarmánuði árið 1924 sendir þessi „baneinspektör” landsstjórninni langa og nákvæma skýrslu með áætlun um stofnkostnað upp á kr. 6.925.000 og er þá miðað við að verkamannakaup sé kr. 1.00-1.10 á klst. Með Sverre Möller vann Valgeir Björnsson verkfræðingur, sem þá starfaði á skrifstofu vegamálastjóra, við mælingarnar og áætlunargerðina. Valgeir varð síðar bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri í Reykjavík.

Um járnbrautarstöð í Reykjavík segir norski verkfræðingurinn: „Þar sem hér er aðalstöð og endastöð verður að áætla tiltölulega mikil húsakynni, enda eru stöðvarhúsin, vöruskáli, eimreiðarskáli og smiðja áætluð að kosti um 200 þúsund krónur. Stöðvarstæðið austan við Tjörnina neðst í Laufástúni, neðan við Fjólugötuna, þótti áhugavert en dýrt. Lítum á legu járnbrautarinnar: Járnbrautarstöðin er staðsett austan við Tjörnina og liggur leiðin þaðan til suðurs, en því næst í suðaustur yfir Vatnsmýri, vestan við Eskihlíð yfir Hafnarfjarðarveginn í Fossvogi.

Eimreið
Á þessari leið er hallinn lítill og bugður vel greiðar. Öll leiðin norðan í Fossvogi er mjög hagkvæm, mestur halli 12% vestan við Bústaði, en þar er stuttur láréttur kafli, þar sem stétt verði sett síðar. Því næst er brautin lögð norðan í Breiðholtshálsi að efri Veiðimannahúsum og er þar farið yfir Elliðaárnar. Þá er beygt suður fyrir hálsinn milli Elliðaáanna og Rauðavatns, því næst farið yfir Hólmsá nálægt Baldurshaga, síðan með fram Rauðhólum um túnið á Hólmi og er þar ráðgerð fyrsta stöðin.”

Önnur áætlun var og gerð um stöð í Arnarhólstúni austan við Ingólfsstræti, niður undir sjó en það stöðvarsvæði er af ýmsum ástæðum ekki eins heppilegt, sérstaklega kostar miklu meira að jafna svæðið og enn meira tiltölulega, þegar kemur að því að stækka stöðina. Jafnvel þó stöðin verði sett svo austarlega, að gatan með fram sjónum (meðfram Nýborg og Völundi) verði tekin af, mun kosta 165. þúsund krónum meira að jafna þetta stöðvarsvæði og gera nothæft en stöðvarsvæðið austan við Tjörnina, og enn meiri verður munurinn er kemur að því að færa úr kvíarnar. Leiðin frá hafnarstöðinni inn að Elliðaám er heldur ekki eins heppileg og frá Tjarnarstöðinni.”

Nokkru síðar í skýrslu norska járnbrautarverkfræðingsins er þess getið að Hólmsstöð liggi haganlega með tilliti til Þingvallaumferðar. Eimreiðin verður að staðnæmast hér, segir í skýrslunni, og bæta vatni á ketilinn. Við Kolviðarhólsstöð áttu eimreiðarnar að mætast og enn þarf þar að bæta vatni á ketilinn. Vatnsveitan að Kolviðarhóli er nokkuð dýr eftir áætluninni og eru nefndar 50 þúsund krónur. Kolviðarhóll var á þessum árum þýðingarmikill og vinsæll áfangastaður og rausnargarður. Eftir þessari áætlun átti Ölfusárbrúarstöð að vera fyrst um sinn endastöð austanfjalls. Þar þarf að vera eimreiðarskáli, segir í skýrslunni, – fjölskyldubústaður stöðvarstjóra og herbergi fyrir annað starfsfólk. Verkfræðingurinn telur að 40 km. hraði á klukkustund sé vel fullnægjandi á ekki lengri leið. Í Þrengslunum er brautin hæst yfir sjávarmál, 283 metrar.

Framhaldsskýrsla um járnbrautarmálið var lögð fyrir alþingi 1926. Við þá endurskoðun lækkaði stofnkostnaður verulega. Eftir nýju skýrslunni átti að byggja Reykjavíkurstöðina á svonefnt „Skell” tún austan við Hringbraut, en sunnan við Laugaveg. Þótti sá staður hagkvæmari en neðst í Laufástúninu fyrir neðan Fjólugötu. Í hinni nýju áætlun var gert ráð fyrir sérstöku spori frá Reykjavíkurstöðinni eins og hún er nefnd og niður að höfn og mætti koma fyrir stétt þar, til dæmis við Ingólfsstræti, og nota sem endastöð lesta, ef aðalstöðin þætti vera nokkuð langt frá miðbænum. Í þessari endurskoðuðu áætlun var gert ráð fyrir að Ölfusárstöðin, sem fyrirhuguð var undir brekkunni vestan árinnar gegnt Selfossi, yrði austan Ölfusár og gerir nú járnbrautarverkfræðingurinn ráð fyrir eimreiðarbrú, sem kosta myndi 200 þúsund krónur. Verkfræðingarnir telja að mótorvagnar geti sparað talsverða upphæð með því að nota slík farartæki að einhverju leyti, en segja að sér hafi ekki tekist að gera áætlun þar um. Telur skýrsluhöfundur, að aðalókostur mótorvagna sé, að dráttarafl þeirra upp brekkur sé frekar lítið. Þá kemur greinargerð um rafmagn til rekstrar brautarinnar, en það telur skýrsluhöfundur ekki koma til greina nema að það fáist á mjög vægu verði, enda sé raforkuveitan meðfram brautinni mjög kostnaðarsöm.

Eimreið

Eimreiðin við gerð varnagarða Reykjavíkurhafnar.

Reynsla Norðmanna benti þó í þá átt, að litlar horfur væru á, að rafvirkjun með svo lítilli umferð mundi gerleg. Rekstrarkostnaður bifreiðanna er áætlaður meiri en járnbrautar og munar þar mestu um eldneytiseyðsluna, sem óhætt er að telja að minnsta kosti tvöfalt meiri. Annar liður sem um munar er gúmmí. Þegar hér er komið í skýrslunni er hætt að tala um mótorvagna eins og algengt var í upphafi bílaaldar. Árið 1918 var mikill mjólkurskortur í Reykjavík. Blöðin fjölluðu um mjólkurskortinn og Guðmundur Björnsson landlæknir og alþingismaður, sem hafði setið í bæjarstjórn Reykjavíkur, taldi að mjólkurskorturinn stafaði af því að hér vantaði járnbrautir. Hermann Jónasson búfræðikandidat, sem verið hafði ritstjóri Búnaðarritsins, taldi og að veigamesta lausnin á mjólkurskortinum væri að flytja hey austan úr sveitum að sumarlagi með járnbraut til Reykjavíkur. Geir G. Zoéga varð vegamálastjóri árið 1917 og 1922 varð hann ráðunautur ríkistjórna í málum er snertu notkun bifreiða og í járnbrauta. Í skýrslu hans, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands í febrúarmánuði árið 1926, má lesa: „Hvernig sem á málið er litið verður rekstrarafkoma bifreiðanna miklu lakari en Járnbrautarinnar. En mest gætir þó hins, að þær jafnast alls eigi á við járnbraut um að fullnægja þörfum vaxandi umferðar. Nú verður að gera ráð fyrir því, að ræktun Suðurlandsundirlendisins vaxi til muna jafnvel í náinni framtíð”. Í samanburði á járnbrautinni og bifreiðunum er talið að járnbrautin verði tvær og hálfa klukkustund milli Reykjavíkur og Ölfusár en fólksbifreið yrði þrjár og hálfa klukkustund á leiðinni. Endastöð brautarinnar var eins og það er orðað, fyrst um sinn áætluð við Ölfusá. „Jafnframt verður til frekari tryggingar að banna reglubundnar bifreiðarferðir til almennra vöru- og fólksflutninga á þeirri leið. Flutningsgjöldin fyrir vörur með járnbrautinni eru að vísu áætluð svo lág (20 kr. fyrir 1000 kg. milli Reykjavíkur og Ölfusár, sem nú kostar minnst 60 kr.)” Eftir áætluninni átti fargjald með járnbrautinni að kosta kr. 6.50, en kostaði 10 krónur með bílum árið 1926. Hér hefur verið stiklað á fóru og aðeins gripið ofaní skýrslur Geirs Zoéga, vegamálastjóra frá árunum 1924 og 1926.

Eimreið

Pioneer við Árbæjarsafn.

En víkjum nú sögunni austur í Rangárvallasýslu: Það var á útmánuðum árið 1922, að sýslunefndarmenn í Rangárvallasýslu voru búnir að koma sér fyrir í kringum stóra fundarborðið á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, að oddviti sýslunefhdarinnar, Björgvin Vigfússon, las nefndarmönnum bréf frá stjórnarráði Íslands þar sem það tjáir sig bresta heimild til að veita kaupgjaldsrétt á landsspildu þeirri úr Kálfholtslandi í Asahreppi sem sýslunefndin hefur tekið á leigu í 100 ár. Jafnframt tjáir stjórnarráð Íslands sýslunefndinni í Rangárvallasýslu, að það finni ekki næga ástæðu til að útvega heimild til sölunnar með sérstökum lögum. Kálfholt var prestssetursjörð um hundrað ára skeið. Þetta er víðlend kirkjujörð, með land að Þjórsá. Þjórsártún og Lækjartún, sem áður hét Kálfholtshjáleiga, eru byggð úr Kálfholtslandi. Árið 1926 bjó í Kálfholtshjáleigu Jón Jónsson, og kona hans Rósa Runólfsdóttir síðar búandi að Herríðarhóli í sömu sveit. 1. mars árið 1926 skrifar Jón sýslunefndinni í Rangárvallasýslu bréf og óskar eftir meðmælum með því, að hann fái keypta jörðina Kálfholtshjáleigu sem var eign Kirkjujarðasjóðs eins og fjölmargar jarðir í Rangárþingi eru. Eftir sýslufundinn sendi sýslumaður Jóni bónda svarbréf þar sem í meginmáli er skráð: „Meirihluti sýslunefndarinnar telur varhugaverða sölu á Kálfholtshjáleigu, vegna væntanlegrar vatnsvirkjunar Urriðafoss og járnbrautarlagningar austur yfir Þjórsá.” Urriðafoss er skammt fyrir neðan Þjórsárbrú. Það var mikið talað og skrifað um járnbrautarmálið á öðrum og þriðja áratug þessar aldar. Hinn 20. mars 1919 sótti fossafélagið Títan um sérleyfi til virkjunar Þjórsár allrar. Hafði norskur verkfræðingur, G. Sætersmoen, athugað rennsli hennar um tveggja ára skeið á árunum 1915-1917. Títanfélagið dró umsókn sína síðar til baka. Ekkert skeði svo í virkjunarmálunum við Þjórsá fyrr en en Búrfellsstöðin var byggð eftir lögum um Landsvirkjun árið 1964.

Eimreið

Eimreiðin Pioneer á Árbæjarsafni.

Enn er málið vakið upp á Alþingi eftir að hljótt hafði verið um það í áratugi. Árið 1980 er borin fram tillaga til þingsályktunar um rafknúna járnbraut. Flutningsmenn eru: Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Jóhann Einvarðsson. Upphaf tillögurnar er þannig: “Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda, sem upp hafa komið um rafknúna járnbraut til notkunar á mestu þéttbýlisstöð; um Suðvesturlands og austur yfir fjall.” Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er rætt um orkukreppu, gjaldeyrissparnað með meiru. Svo og telja flutningsmenn að járnbraut auki öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. Flutningsmenn tillögunar telja eðlilegt að gaumgæfilega verði athugað hvort ekki sé hagkvæmt að koma upp rafknúnum farartækjum og rafknúinni járnbraut um þau svæði sunnanog suðvesturlands þar sem flutningar eru mestir.

Í þingskjölum kemur fram, að Þórarinn Sigurjónsson bóndi og alþingismaður í Laugardælum hefur leitað til Hinriks Guðmundssonar, verkfræðings, sem svo aftur leitaði til ráðgjafaverka í járnbrautarmálum í Þýskalandi. Einnig leitar verkfræðingurinn til Almennu verkfræðistofunnar hf. í Reykjavík. Bæði þessi fyrirtæki lýsa sig fús til að vinna saman að þessu verkefni. Þýska fyrirtækið telur að athugun muni taka 6 mánuði og kosta um 450 þús. D.M., um 18,1 milljón krónur. Þórarinn Sigurjónsson segir m.a. í þingræðu 27. janúar 1981: „Með flutningi þessarar tillögu viljum við flutningsmenn fá úr því skorið, hvort ekki sé tímabært að koma upp rafknúinni járnbraut um þéttbýlustu svæði landsins til vöruflutninga og e.t.v. mannflutninga. Meðal annara þjóða er járnbraut talin ódýrasta og afkastamesta flutningatæki á landi sem hægt er að fá, þar sem hún hentar. Og með það í huga, að stöðugt hækkar verð á erlendum orkugjöfum. „Við eigum að nota okkar innlendu orkugjafa og spara þannig erlendan gjaldeyri,” sagði Þórarinn í þingræðu, þegar hann lagði áherslu á að rækileg athugun færi fram á hagkvæmni á rekstri járnbrautar um Suðurland og Suðurnes.

Eimreið

Eimreið í Öskjuhlíðinni.

Í um það bil heila öld hafa umræður um járnbrautarlagnir á Íslandi skotið upp kollinum annað kastið þó með hléum allt til Alþingishátíðarársins 1930, en það ár eru 800 bílar í eigu Reykvíkinga og þörfin á betri vegum á allri landsbyggðinni orðin brýn, en hægt miðaði með hestvögnum á vegum sem ruddir voru með hökum og skóflum. Draumurinn um eimreiðina rættist ekki þó að erlendu sérfræðingarnir, sem hingað komu og athuguðu aðstæður sæju engin vandkvæði á því að leggja járnbraut fyrir eimreið austur í sveit. Í dag eigum við raforkuna og virkjunarmöguleikana, en fátt bendir til þess að innlend orka eigi eftir að knýja hraðlestir um Suðurlandsundirlendið í á nýrri öld.

Ný verkmenning við vegagerð hófst hér á landi með tilkomu þungavinnuvéla í seinni heimsstyrjöldinni og bifreiðar og flugvélar hafa í áratugi sannað ágæti sitt sem góð og örugg samgöngutæki.”

Sjá meira um fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar HÉR.

Heimildir:
-Vaskir menn. Þorsteinn Thorarensen, útg. 1971.
-Tímarit verkfræðingafélagsins 1920, 1924 og 1926.
-Alþingistíðindi: 1980 og 1981.
-Sýslufundargerðir Rangárvallasýslu.
-Eimreiðin. Dr. Valtýr Guðmundsson.
-Járnbrautin í Reykjavík: Árbæjarsafn 1982.
-Íslenskir búfræðikandidatar, Guðm. Jónsson, skólastj.
-Þyrnar: Þorsteinn Erlingsson.
-Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, Draumurinn um eimreið austur í sveitir, Pálmi Eyjólfsson, bls. 4-6.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Selatangar

Í Morgunblaðiðinu 1967 er grein, sem segir frá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, Eyjólfi J. Eyfells og Jóhannesi Kolbeinssyni af ferð þeirra á Seltanga.

Selatangar

“Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi. Magnús er þaulkunnugur á þessum slóðum. Það eru þeir reyndar einnig félagar mínir í bílnum, Eyjólfur J. Eyfells listmálari og Jóhannes Kolbeinsson smiður, sá vinsæli leiðsögumaður Ferðafélagsins.
Við höfðum áður komið saman að Selatöngum. Það var í fyrravor. Þá var bjart yfir sjó og landi og sæmilegt veður, en hann hryggjaði við ströndina.
Þegar við komum að Selatöngum rýndum við í búðartóttirnar og horfðum yfir sundið. Á meðan dró hann saman í vestrinu. „Hann er fljótur að drífa í”, sagði Jóhannes, og átti við að hann værl fljótur að hvessa. Jóhannes og Eyjólfur eru gamlir sjómenn.
Það má stundum heyra á tungutaki þeirra.
Þegar við ókum heim úr þessari ferð, fórum við fram hjá Hrauni og ákváðum þá að skreppa aftur suður eftir og taka Magnús með.
Nú vorum við aftur á leið að Selatöngum til að uppfylla gamalt loforð, sem við höfðum gefið sjálfum okkur.
SelatangarÍ upphafi ferðar spurði ég Jóhannes um Selatanga.
„Það er bezt að þú spyrjir Magnús á Hrauni um þá”, sagði Jóhannes”. „Ég gæti ímyndað mér að hann kunni skil á sögu þeirra.
Á Seiatöngum var verstöð frá því á 14. öld”, bætti hann þó við. „Þá rann Ögmundarhraun og eyðilagði lendinguna í gömlu Krýsuvík, sem nú heitir Húshólmi og er nokkru fyrir austan Selatanga. Þar má enn sjá gróðurbletti og bæjartóttir”.
Úti var nepjukaldi og það hafði snjóað. Eyjólfur, sem sat í framsætinu, pírði augun og sagði:
„Hann er daufur yfir Reykjanesfjallgarði”.
„Ætli snjói í Grindavík”, spurði ég.
„Ónei”, svöruðu þeir einum rómi.
„Kannski hefði ég átt að koma með koníakspela til að ylja ykkur”, spurði ég.
„Nei”, sagði Eyjólfur, „ég drekk ekki koníak nema í heitu.
Selatangar„Hann vill ekkert kuldaskólp”, sagði Jóhannes. Eyjólfur sagði: „Þegar Helgi lóðs kom eitt sinn fullur heim — hafið þið heyrt það — þá segir konan „Æ”, segir hún, „farðu nú að hátta, Helgi minn, og biddu guð fyrir þér”.
„Ha”, segir karlinn, „guð?
Nei. ég vil engan guð”. „Hann vill ekki einu sinni guð”, segir þá konan”.
Þar með var koníakið úr sögunni.
Jóhannes skimaði í allar áttir eins og gömlum sjómanni sómdi.
„Hann verður líklega hægur í dag”, sagði hann. „Hægur útsynningur, en kular í élinu.
Gæti orðið svolítið brim”.
„Þó það nú væri, þetta opna haf, sagði Eyjólfur.
„En hvað um Selatanga”, skaut ég inn í.
„Þar var útræði fram um 1880″, sagði Jóhannes. „Þá þótti staðurinn útúr og farið að brydda á nýjum tíma í Grindavík og víðar”.
„Ætli þar hafi orðið mikil slys?” spurði ég.
„Óljósar sagnir eru um slys”, sagði Jóhannes. „En ekki áreiðanlegar”.
„Hefurðu séð nokkuð þar, sem bendir til slysa”, spurði ég Eyjólf.
„Nei, ég heyrði bara délítinn söng úr einni tóttinni, þegar við vorum þar í fyrravor.
Já, reyndar hef ég alltaf heyrt söng úr einni tóttinni, þegar ég hef komið að búðunum. Þeir hafa sungið mikið í gamla daga.
En ég heyrði engan söng, þegar við Jóhannes fórum þangað í vor. Þá var eitthvað bölvað rifrildi í einni tóttinni”.
„Já, þú varst að tala um það”, sagði Jóhanrnes. „Ekki heyrði ég það”.
„Nei, þú heyrðir það ekki”, sagði Eyjólfur. „Ég heyrði það aðeins fyrst þegar við komum að tóttarbrotunum, en svo var eins og það dæi út. Ég kom fyrir mörgum árum í herbergi í húsinu Nýlendugötu 19. Húsráðendur, sem voru kunningjar mínir og vissu að ég só stundum ýmislegt, sögðu: „Sérðu ekki eitthvað?”
„Ojú, ekki get ég neitað því.
Selatangar
Ég sé einhvern slæðing”, segi ég. „Það er gömul kerling úti í horni, hún er að bogra yfir einhverju og öll í keng”.
Ég lýsti henni fyrir fólkinu, sem sagði að lýsingin stæði heima. „Þetta er hún Guðrún gamla í Stafnesi, hún átti heima hér og hafði prjónavélina sína í horninu því arna”. Það hefur orðið eitthvað eftir af henni þarna”.
„Orðið eftir”, endurtók ég.
„Já, tilveran er undarleg.
Hún skilar öllu. Þetta voru eftirstöðvar af Guðninu. Hún var þarna auðvitað ekki sjálf. Ég skynjaði engan persónuleika í mynd bennar. Hér sitjum við og tölum saman, og það geymist. En einhvern þeirra sér eða heyrir einhver til okkar. Þá verðum við kannski komnir langleiðina inn á astralplanið.”
Við hlustuðum á Eyjólf, þögðum. Nú talaði sá, sem hafði sjón og heyrn til tveggja heima. Bílstjórinn dró jafnvel úr ferðinni, og var farinn að leggja við hlustirnar. Eyjólfur átti leikinn.
„Það hefur verið mikill söngur í gamla Kleppsbænum”,
sagði hann. „Þegar ég kom fyrst að bænum, var hann yfirgefinn, en uppistandandi.
Þá heyrði ég sálmasöng. Þeir hafa líklega samvizkusamlega lasið húslestrana sína og sungið sálma, gæti ég trúað, kannski ekki veitt af”.
Það varð þögn.
“Hefurðu séð nokkuð”, gaukaði ég að Jóhannesi.
„Nei, ekkert”.
„Jú, hann hefur séð margt”, sagði Eyjólfur. „Hann hefur séð margt fallegt. Hann befur séð há ög tignarleg fjöll í öllum veðrum. Hann hefur hortft yfir öræfin og þekkir ótal örnefni. Hamn hefur séð það sem er etftirsóknarverðast, landið okkar í allri sinni dýrð”.
„Já”, sagði Jóhannes, „það hef ég. En maður þarf ekki að vera skyggn til þess”. „Þú varst að lýsa fyrir mér dularfullri reynslu, þegar við fórum suður eftir í fyrravor”, fullyrti ég.
„Ekki man ég það”.
Ögmundadys
„Þú varðst var við eitthvað í skálanum á Jökulhálsi” sagði Eyjólfur.
„Það var óvera”, sagði Jóhannes. „Ég sá eitthvað, en aðrir sáu það ekki síður. Það var atfarsterk fylgja. Maður, sem var dáinn fyrir 16 árum.
Hann hefur líklega verið að fylgjast með þessu ferðalagi okkar”.
„Kannski hann hafi ekki verið þarna sjálfur, ætli það hafi ekki bara verið hugur hans, sem fylgdist svona sterklega með ykkur”, sagði Eyjólfur.
„Jú, ætli það hafi ekki verið”, sagði Jóhannes. „Og hugur hans hefur þá umbreytzt í persónu hans”.
„Sá sem sézt annars staðar en hann er”, sagði Eyjólfur, „birtist venjulega í réttri mynd sinni. Við skiljuan svo lítið brot af tilverunni, skynjum aðeins yfirborð hennar og misskiljum flest. Við erum, þrátt fyrir góðan þroska á veraldarvísu, mjög ófullkomin”.
Jóhannes stóðst ekki freistinguna, en sagði: „Ég er fæddur og uppalinn að Úlfljótsvatni. Einhverju sinni um haust, eða um líkt leyti og nú — já, það var áreiðanlega í byrjun nóvember — var ég bak við hesthúsið að leysa hey handa beljunum. Það var kvöld og svartarnyrkur. Þá beyri ég að hundarnir gelta. Traðirnar lágu hein að hesthúsinu. Það hafði verið frost, en klökknaði þennan dag og holklakinn farinn að slakna.
Ég heyri að einhver ríður traðirnar heim að besthúsinu, stansar og fer af baki. Ég heyri hringlið í beizlisstöngunum, þegar taumarnir eru teknir fram af hestinum. Einhver gengur að dyrunum, ég legg víð hlustirnar —, maðurinn staðnæmist og kastar af sér vatni. Svo heyrist ekki meir og hundarnir hætta að gelta. Ég geng að hesthúsdyrunum og huga að því, hver geti verið þanna á ferð, en sé engan. Það var meiri ákoman”.
Þetta er nú meiri guðfræðin, hugsaði ég. Svo spurði ég Eyjólf:
„Er ekki sjaldgæft að menn séu að kasta af sér vatni hinu megin?”
Hann hristi sitt silfurgráa höfuð.
„Þú misskilur þetta allt”, sagði hann. „Það sem Jóhannes varð vitni að var ekki annað en gamalt bergmál. Hann upplifir af einhverjum ástæðum, að einhverjum hefur orðið mál fyrir mörgum öldum. Annað er það nú ekki. Ekkert í tilverunni er svo ómerkilegt að það týnist í glatkistuna. En hvernig eigum við, þessir líka maurar í mannsmynd, að skilja að það er ekkert til sem heitir fortíð, nútíð eða framtíð. Það er hægt að sýna kvikmynd eins oft og hver vill, þannig er einnig hægt að upplifa svipmynd þess sem var. Líf okkar geymist á dularfullan hátt”.
Ég sneri mér að Jóhannesi og spurði um dvöl hans á Úlfljótsvatni?
„Faðir minn var bóndi þar í 26 ár”, sagði hann. „Hann dó 25. marz sl. 94 ára gamall.
Hann hét Kolbeinn Guðmundsson. Hann lá ekki rúmfastur nema 3 vikur. Annað hvort voru menn í gamla daga ódrepandi eða ekki”, sagði Jóhannes og brosti.
„Heldurðu að Jóhannes eigi eftir að verða 94 ára”, spurði ég Eyjólf.
„Nei-i”, svaraði Eyjólfur dræmt.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

„Heldurðu að hann eigi eftir að verða jafngamall og þú?”
„Það efast ég um:”
„Hvað ertu gamall”.
„Karlinn er orðinn 81 árs”.
„En ég, verð ég 94 ára?”
„Nei, þú verður ekki eins gamall og ég”, sagði hann ákveðið. Ég fór að reikna.
„En verð ég ekki sjötugur?” sárbændi ég hann.
„Maður skyldi ekki forsvara neitt”, sagði hann.
Ég sá að ekki dugði að freista Eyjólfs, svo að ég sneri mér að Jóhannesi.
„Þú manst auðvitað vel eftir Tómasi Guðmundssyni hinum megin við Sogið”, sagði ég.
Jóhannes hrökk við. Hann hefur líklega einnig verið að reikna, hugsaði ég. „Tómasi”, sagði hann, „jú—ojú, en við þekktumst ekki mikið. Hann var eldri en ég. Það bar við að ég kom heim til hans. Hann var ákaflega feiminn við ókunnuga og faldi sig, ef einhver kom. Ég vissi ekki þá, að hann ætti eftir að varpa svo miklum ljóma á Sogið og sveitina; að hann ætti eftir að verða stórskáld”.
Og Jóhannes varð hugsi.
„Tómas var talfár”, sagði hann. „Foreldrar hans voru gott fólk og höfðingjar. Ég fylgdist með því sem unglingur, þegar hann birti ljóð eftir sig i Heimilisblaði Jóns Helgasonar, þá var hann innan við fermingu. Hann orti um æskustöðvarnar, og þar eru Sundin blá”.

Selatangar

Selatangar – tóft.

„Heldurðu að hann eigi við þau — sundin við Sogið”, spurði Eyjólfur undrandi.
„Já, það hefði ég haldið”, svaraði Jóhannes viss í sinni sök. „Hvergi eru blárri sund en við Brúarey í Sogi. Þau blasa við æskuslóðum skáldsins”.
Nú vorum við komnir að kapellunni, hraunhleðslu norðan við húsaþyrpinguna, þar sem álfélagið hefur reist timburþorp til bráðabrigða.
„Hraunið heitir eftir kapellunni”, sagði Jóhannes og benti.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

„Þeir grófu einhvern tíma í þetta og fundu líkneski, ég held frá kalþólskri tíð. Hér hefur verið eins konar sæluhús í miðju hrauninu, enda hraunið hættulegt yfirferðar ekki sízt fyrir hesta. Ósjaldan kom fyrir að þeir fótbrotnuðu og stundum hröktust ferðamenn út að ströndinni.
„Það var önnur kapella í hrauninu”, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur farið forgörðum”, sagði Jóhannes.
Eitt sinn komum við Gísli Jónsson bílasmiður að henni og sá ég þá munkinn, en það var ekkert merkilegt. Hitt var merkilegt að Gísli sá hann líka.
„Þetta er furðulegt”, sagði hann, „Þetta hef ég aldrei séð áður. Hann taldi slíkt hégóma og hirti ekki um framhaldslífið. Hann sagðist ekki trúa því, að hægt væri að skyggnast inn í fortíðina og ekki beldur, að unnt væri að sjá framliðið fólk.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Seinna vorum við í veiðiferð saman austur á Baugsstöðum, það var um vor. Við sváfum í dálitilum heystabba, sem var eftir í hlöðunni. Um morgunin var Gísli eitthvað fálátur. Ég innti hann eftir því, hvort honum liði illa. „Í nótt sá ég draug í fyrsta skipti”, sagði hamn. „Hvernig atvikaðist það”, spurði ég. „Jú, ég vaknaði við það, að einhver gekk yfir stabbann og svo áfram í lausu lofti. Þá varð mér ekki um sel”.
Mér er nær að halda að Gísli hafi verið látinn sjá þetta til þess að lina hann í vantrúnni, enda var hann ekki eins stífur á meiningunni upp frá því.”
„Var munkurinn draugur”, spurði ég eins og barn.
„Nei, ég sagði Gísla sem var, að munkurinn væri bara gömul spegilmynd, eftirstöðvar frá liðnum tíma. Þannig skiljum við eftir mynd okkar einhversstaðar í tíma og rúmi, og kannski rekast einhverjir á hana, þegar við erum farnir. Ég fór einhvern tíma á fund hjá Hafsteini, þá kom Gísli upp að vanganum á mér og segir: „Heyrðu, Eyjólfur, heldurðu ekki að þú farir að koma?”
„Ég. Ó, ég veit ekki”, svaraði ég.
Hann var alinn upp í Hróarsholti í Flóa. Þar hefur hann alltaf verið með okkur Jóhannesi nema í sumar, þá varð ég hans í fyrsta skipti ekki var. Þó fannst mér eins og hann hugsaði til okkar. En það var allt og sumt. Hróarsholt er með fallegri bæjarstæðum. Sagt er, að þaðan hafi sézt nítján kirkjur.”

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

„Nú eru nokkrar þeirra úr sögunni”, minnti Jóhannes hann á. Og eitthvað þurftu þeir að bera saman bækur sínar um kirkjufjöldann.
Og nú vorum við komnir á Grindavíkurveginn.
„Þarna er Þorbjörn”, sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga”.
„Þá er nú Esjan tilkomumeiri”, sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík”, hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes”.
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Ég reri frá Nesi — það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðasund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum”.
„Hvenær rerir þú frá Grindavík Eyjólfur?”
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Ég reri úr Þórkötlustaðahverfinu”.
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð”, sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því”, sagði Eyjólfur.
„Við sýndum ekki af okkur nein þrekvirki”, sagði Jóhannes. „Engin karlmennska eins og þegar Gunnlaugur sýslumaður á Barðaströnd stóð undir mæniás fjóssins og kom í veg fyrir að þekjan hryndi yfir beljuna: „Allþungt þetta hér”, sagði hann. Það var ekki verið að fjasa út af smámunum í þá daga”.
Eyjólfur sagði: „Ég þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk.
Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu”.
„Þau eru bæði dáin”, sagði Jóhannes.

Einland

Í Einlandi.

„Já, þau Gísli eru bæði farin”, sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla”.
Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður”.
„Hann var eftirminnilegur karl”, sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður.
Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já — segðu já — segðu bara já”.
Og hún álpaðist til að segja já.
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka”, sagði Jóhannes: „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi.
Ég held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með”.
Við vorum komnir að Hrauni.
Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir”, sagði ég.
„Komnir, hverjir?”

Selatngar

Selatangar – fiskbyrgi.

“Ég er með tvo gamla sjómenn úr Grindavik, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson”.
„Jæja”, sagði Magnús.
„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með”.
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig.
Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu”.
„Nú, finnurðu til”, spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til”.
„Þetta eru skemmtilegir karlar”, sagði ég.
„Ha, já er það”, sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum.
Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna.
Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman.
Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.

Grindavík

Grindavík – Magnús á Hrauni í vörinni.

Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Ég var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur”, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá”, sagði Magnús.
„Já, um fermingu”, sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax”, sagði Magnús og hló.
Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús”, sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur”, fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við höfum farið í rjúpu saman”.
„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka, sagði ég.
„Ojá”, sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?”
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur”.
„Ha? Hann giftist aldrei”.
„Hvað segirðu?”
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband”.
Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér:
„En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei”.
“Ha”.

Selatangar

Selatangar – minjar.

„Ég sagði að þau hefðu bæði sagt nei”.
„Nú, og hver voru þau”, spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir”.
„Var sú gifting ekki ólögleg?”
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af”.
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Ég benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig”, sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur”.
Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil”, spurði Eyjólfur hugsi.
„Já”, sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?”
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi var baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa”.
„Það hefur þá ekki verið Hákon”, sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín”.
„Það hafa verið þau”, sagði Magnús.

Selatangar

Selatangar – minjar.

„Er Einland uppistandandi?” spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?”
„Við erum skyldir”, sagði Eyjólfur.
„Jæja”, sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn.
Hann er að skinna Einlandið upp”, bætti hann við.
„Já, einmitt”, sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar skammt þar fyrir austan. Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað, og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn, sem „þótti gott að smakka það”, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt”. Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka”. Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari”, sagði Magnús, „— áður en hann varð bráðkvaddur”.
„Já, og myndarmaður”, sagði Eyjólfur.

Selatangar

Seltangar – sjóbúðir.

„Og aðsækinn við sjó”, bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn”.
„Förum fyrst niður að Selatöngum”.
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum”, spurði Magnús.
„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar”.
„Hvað ætli þetta hafi verið?” spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem uðru fyrir barðinu á draugnum”, skaut Jóhannes inn í samtalið.
„Fólk var með margvíslegar skýringar”, sagði Eyjólfur.
„Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn”.
„Það flýðu allir úr einni verbúðinni”, sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
Við lituðumst um.
„Hvar er Magnús?”
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna”, sagði Jóhannes. „Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana”.
„Honum er ekki fiskað saman”, sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl”.

Selatangar

Seltangar – sjóbúðir.

Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum.
Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin. Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60. Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar á lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér i hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði, að hellarnir væru reyndar tveir og hefði annar verið kallaður sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn mölunarkór, þar var malað korn.
Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein.
Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vega lengdin fré Krýsuvík á Selatanga er um 6—7 km. og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þó leið kvöldið og morgnar. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir”, sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum”, sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.
„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera”, sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar”, sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum.
„Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa”, sagði Magnús.
Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum”, sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingum, Það er ekki milkil ló við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi.
Og nú er Dákon horfinn.”
„Það er talvert brim núna”, sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.
„Ætli ekki það, þetta er svaði”, sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að biða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur”, og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú”, sögðu þeir.

Selatangar

Selatangar.

„Hann var kallaður Tanga Tómas,” sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur? ” spurði ég.
„Nei”, sagði Eyjólfur, „séð hann — nei, nei.”
„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann”, sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir. Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn, en geymdur var í verbúðinni, aflagður þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið.
Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.”
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund”, sagði Jóhannes. „Hann, átti eftir að eignast 18 börn.”
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ”, sagði Magnús.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúðartóft frá 1917.

„Já”, sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum”.
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl”, sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.”
Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.”
„Hvers vegna”, spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann — hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.”
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norð-vestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar”, sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp á Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma”.
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann”, bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.”
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.
„Þá var alltaf andæft á árunum”, sagði Magnús til að uppfræða mig. „Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram”, var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt; Betur á bak. Þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.”
Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Ég var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör. Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Ég sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Ég hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Ég mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum”. Merkisrit. Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífeilt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en ekkert bundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Ég sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann.

Grindavík

Magnús á Hrauni í vör.

Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að öllu leyti. Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom délítið hlé á stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi. Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til.
Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn”, sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja”, sagði Eyjólfur.
“Ég var oft holdivotur”, sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan”, sagði Eyjólfur.
“Ojú, maður var oft þvalur. Þetta var helvítis vosbúð”, sagði Magnús.
Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.
Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „Róiegir drengir, ekki liggur mér á” sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.”
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarabakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið”, og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið” — og rétt í sömu svifum: „Takið brimróður inn”, og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana”, bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundusm líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafliða föður þínum. „Ó, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda”, sagði hann . . .

Selatangar

Selatangar – Katlahraun.

„Þetta hefur þú heyrt”, sagði Magnús og glaðnaði við.
Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu vm Berg í Kálfhaga og sögðu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjó Guðmundi é Háeyri, en aðköllin ósköpin.”
„Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur”, sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi til að fá í soðið fyrir heimili sirtt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítís kúfinn á hausnum”.

Hraun

Hraun.

Og nú blasir við Hraun.
Þarna á ströndinni hafa orðið Skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz. 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði snemma í janúar 1940 í Vondu fjóru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magnús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.” – M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 264, árg. 19.11.1967, Var munnkurinn draugur?, bls. 1-5.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Eldgos

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi, sbr. nýjasta eldgosið í Geldingadal í Fagradalsfjalli.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” . Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 . Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs .
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér.  Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900.

Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta.

Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar.

Þegar Krýsuvíkureldar loguðu var aðalgosið árið 1151. Í því gosi opnaðist 25 km löng gossprunga, og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan er það Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður við sjávarbakkann.
Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg.

Hér á eftir má sjá nokkrar umfjallanir um afmörkuð hraun:

Svínahraun — Kristnitökuhraunið
Kristnitökuhraun
Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið
ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan . Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (. Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og [Húsfells] er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir
landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur.
Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Breiðdalur

Breiðdalur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Gráfeldur á Draugahlíðum

Gráfeldur

Gráfeldsgígur í Draugahlíðum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 . Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun

Tvíbolli

Tvíbollar.

Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins . Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C'4 ár, en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli
Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur
Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – loftmynd.

Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á
sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við
þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið . Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið
fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því.
Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.
Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár.

Eldborg við Trölladyngju

Eldborg

Eldborg við Trölladyngju.

Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann.
Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Í jarðfræði Reykjanesskaga (eftir Jón Jónsson 1978,) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að
grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

Nöfn á hraunum á Reykjanesskaga.
1. Rjúpnadyngjuhraun
2. Húsfellsbruni
3. Tvíbollahraun (Hellnahraun eldra)
4. Grindaskarðahraun (Hellnahraun yngra)
5. Þríhnúkahraun
6. Þjófakrikahraun (Eyrahraun)
7. Kristjánsdalahraun
8. Hellur
9. Markrakahraun (Hellnahraun yngra)
10. Dauðadalahraun (Hellnahraun eldra)
11. Skúlatúnshraun (Hellnahraun eldra)
12. Búrfellshraun
13. Flatahraun (Búrfellshraun)
14. Selgjárhraun (Búrfellshraun)
15. Svínahraun
16. Urriðakotshraun (Búrfellshraun)
17. Vífilsstaðahraun (Búrfellshraun)
18. Stórakrókshraun (Búrfellshraun)
19. Garðahraun (Búrfellshraun)
20. Gálgahraun (Búrfellshraun)
21. Klettahraun (Klettar)
22. Mosar (Eldborgarhraun)
23. Smyrlabúðahraun (Búrfellshraun)
24. Gjárnar (Búrfellshraun)
25. Norðurgjár (Búrfellshraun)
26. Seljahraun
27. Gráhelluhraun (Búrfellshraun)
28. Lækjarbotnahraun (Búrfellshraun)
29. Stekkjahraun (Búrfellshraun)
30. Sjávarhraun
31. Hörðuvallahraun (Búrfellshraun)
32. Hafnarfjarðarhraun (Búrfellshraun)
33. Helgafellshraun (Stórabollahraun)
34. Kaldárhraun (Búrfellshraun)
35. Brunahryggur
36. Óbrinnishólabruni
37. Arnarklettabruni
38. Stórhöfðahraun (Hellnahraun yngra)
39. Kornstangarhraun
40. Selhraun (Eldra Afstapahraun)
41. Hellisdalshraun
42. Hellnahraun
43. Leynidalahraun
44. Hvaleyrarhraun (Hellnahraun eldra)
45. Hraunhólshraun
46. Nýjahraun
47. Háibruni
48. Bruni (Kapelluhraun/Nýjahraun)
49. Hrauntungur (Hrútagjárdyngjuhraun)
50. Brenna
51. Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn)
52. Snókalönd (Hrútagjárdyngjuhraun)
53. Hrútadyngjuhraun
54. Almenningur (Hrútagjárdyngjuhraun)
55. Hólahraun
56. Sauðabrekkuhraun (Sauðabrekkugígar)
57. Fjallgrenshraun (Sauðabrekkugígar)
58. Brundtorfuhraun (Brunntorfuhraun)
59. Hafurbjarnarholtshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
60. Stórhólshraun
61. Eyjólfsbalahraun
62. Bringur (Hvammahraun)
63. Einihólshraun
64. Merarhólahraun
65. Rauðhólshraun (Kapelluhraun)
66. Tóhólahraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
67. Þúfuhólshraun
68. Sléttahraun (Búrfellshraun)
69. Laufhólshraun (Hrútargjárdyngjuhraun)
71. Meitlahraun (Eldborgarhraun)
72. Bekkjahraun (Hrútargjárdynguhraun)
73. Brenniselshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
74. Katlar (Hrútagjárdyngjuhraun)
75. Draughólshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
76. Flár (Hrútagjárdyngjuhraun)
77. Rauðamelshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
78. Ögmundarhraun
79. Katlahraun (Moshólshraun)
80. Leggjabrjótshraun (Höfðagígahraun)
81. Beinavörðuhraun (Sunhnúkahraun)
82. Illahraun
83. Bræðrahraun og Blettahraun (Eldvarparhraun)
84. Eldvarparhraun
85. Stampahraun
86. Eldvörp
87. Þríhnúkahraun
88. Hellisheiðarhraun
89. Eldborgarhraun
90. Eldborgahraun
91. Hnúkahraun
92. Dauðadalahraun (Hnúkahraun)
93. Kistufellshraun
94. Draugahlíðahraun
95. Heiðin há
96. Leitarhraun
97. Þurárhraun
98. Astapahraun
99. Kálffellshraun

Heimild:
-https://redlion.blog.is/blog/redlion/

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga – Geldingadalur mars 2021.

Írafell

Í Alþýðublaðinu, helgarblaði, segir m.a. um Kjós; “Talir þú gott, þá lýgur þú“.

“Kjósin lætur ekki mikið yfir sér, þegar maður virðir hana fyrir sér af þjóðvegjnum. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér. Og þetta er falleg sveit og búsældarleg, þótt hér verði hvorki tíunduð fegurð hennar né gæði.

Írafell

Írafell.

Lengi vel vissi ég ekki annað um þessa sveit eða íbúa hennar en ýmsar sögur af Írafells-Móra, einum atkvæðamesta draug Íslandssögunnar, sem kenndur var við Írafell í Kjós. Írafells-Móri var vakinn upp af galdramanni nyrðra og sendur Kort Þorvarðarsyni, gildum bónda, sem lengi bjó á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar 1821.
Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði þeim öllum. Biðlarnir þóttust sárt leiknir og keyptu af galdramanninum að senda Kort og konu hans sendingu. Valdi hann til þess drenghnokka, sem orðið hafði úti milli bæja. Vakti galdramaðurinn hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins. Móri sveikst ekki um þetta. Gerði hann þeim hjónum og afkomendum þeirra margar skráveifur, drap fyrir þeim fénað, skemmdi mat og sótti að fólki í svefni og vöku. Skammta varð honum fullan mat ekki síður en hverjum öðrum heimilismanni á Möðruvöllum og á Írafelli, eftir að hann fluttist þangað með Magnúsi Kortssyni. Sömuleiðis þurfti að ætla honum rúmflet til að liggja í, bæði af bæ og á.
Hér er ekki ætlunin að rekja frekar lífshlaup Írafells-Móra, sem þó var ærið sögulegt og viðburðaríkt. Hins vegar hefði kannski einhver gaman af að kynnast lítillega Kjósverjum þeirrar tíðar, samtíðarfólki Írafells-Móra, eins og það kom sálusorgara þess á Reynivöllum fyrir sjónir, og hvernig hann lýsir því, daglegu lífi þess og áhugaefnum, atvinnuháttum og menningu.

Reynivellir

Reynivellir.

Um þessar mundir, eða nánar tiltekið 30. apríl 1839, sendi nefnd manna í umboði Hins íslenzka bókmenntafélags í Kaupmannahöfn boðsbréf heim til Íslands „sérílagi öllum prestum og próföstum á landinu” með þar til heyrandi spurningum um náttúru og byggð landsins, menningu og atvinnuhætti.
Séra Sigurður Sigurðsson á Reynivöllum í Kjós fékk þetta bréf eins og aðrir kirkjunnar menn í landinu. Svaraði hann spurningum nefndarinnar vel og skilmerkilega. Um Kjósverja hefur hann m.a. þetta að segja: „Flestir bændur í Kjósinni hafa sauðfá fátt, en fer mikið fleiri að tiltölu, sem þeir ala margir á útheyi, arðlitlar, fram eftir vetri. Tún sín rækta þeir sæmilega; láta margrf kýr liggja inni á sumrum. Til eru þeir, sem brúka færikvíar, og margir beitarhús á vetrum. Þeir stunda heyafla vel og fara lestir í útver tll fiskifanga vetur, vor og haust, þegar afli er. Fiskur er meiri partur þeirra höndlunarvara, þar landvara svo lítil til. Kálgarða rækta þeir margir, er ekki kartöflur eður önnur jarðepli. Sölva- og rótatekju hafa þeir ekki og lítið af fjallagrösum, sem ekki fást í Kjósarfjöllum. Nokkrir fara samt eftir þeim austi: á fjöll, í Skjaldbreið, langan veg. Sumir veiða rjúpur á vetrum. Þeir lifa margir látæklega á kornvöru, fiski og mjólk. Þeir vinna ullu á vetrum til fatnaðar, en ekki til útgjalda, því ull er víða lítil. Karlmenn spinna sumir hamp á vetrum í þorskanet og til veiðarfæra. Sumir elta skinn og sauma skinnföt, nokkrir vefa vaðmál og hafa á hendi útiverk við fé og hross. Kvenfólk fæst við ullarvinnu, þó minna en víða er siður í Norðurlandi. Þegar vetrarvertíð byrjar, fara karlmenn flestir í ver, en kvenfólk tekur þá við útiverkum. Þeir smíða ekki til gróða, hvorki tré eður járn; margir eru þeir vel búhagir og smíða húsgögn sín af tré og járni. Trjáreki er hér enginn, ekki heldur skógarviður til húsabygginga. Ekki iðka menn skotfimi, —
fáeinir að sönnu skjóta refa við gren og slysa rjúpur, — ekki glímur, ekki skíða- eður skautaferðir, — ekki sund, — vaða heldur —; enginn þeirra þekkir nótnasöng, ekki heldur kunna þeir á hljóðfæri. Þeir skrifa fáeinir, og þó lítið, og eru ekki gefnir mjög fyrir bókmenntir, svo ekki hafa þeir þetta til skemmtunar. Ég nefni ekki fleira. Sumir lesa dálítið í alþekktum fornsögum, en vita lítið í veraldarsögunni. Ekki skilja þeir danska tungu. Enginn hefir hér vit á lækningum eður þekkir lækrringajurtir; engin er hér yfirheyrð yfirsetukona. Ekki tíðkast hér í sveit nokkrir sérlegir sjúkdómar, nema þeir, sem almennt ganga yfir landið, landfarsóttir, og ekki mjög sóttnæmt, enda þekkja menn hér lítið til uppruna sjúkdóma eður vita að ráða bót á þeim. Bráðdauði eður fjárpest sú, sem víða gengur um landið, hefur nú upp í nokkur ár undanfarið stungið sér niður á einstöku stað, einkum fyrri part vetrar, og drepið fénað. Dýralæknir vor í Reykjavík hefir enn ekkert ráð við henni gefið til hlítar.

Reynivellir

Reynivellir.

Um trúrækni manna og trúarbragðaþekkingu talar maður með varygð, helzt um einn söfnuð út af fyrir sig. Er lítið mun því hafa miðað síðan um aldamótin síðast.”
Þann 1. marz 1840 sezt svo séra Sigurður á Reynivöllum við skrifborð sitt, eftir að hafa svarað samvizkusamlega öllum spurningum þeim, sem til hans var beint, og ritar nefndarmönnum eftirfarandi bréf til frekari skýringar og áréttingar:
-Háttvirtu herrar! Meðtekið hefi ég á síðastl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á. áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði lasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, sízt í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fávizka, aldurdómur og ókunnugleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálun gefið en þessa.
Nú, þó seinna sé en ég vildi, legg ég í þetta umslag útmálun um Reynivallasókn, hvar í lýst mun vera öllum örnefnum, er ég vissi eður heyrt hefi, að hér séu, sömuleiðis sveitarinnar ástandi og afstöðu yfir höfuð. Spursmálunum hefi ég svarað [á] þann veg, ekki hverju út af fyrir sig eftir röðinni, heldur í söguformi, þó með tiliti því, að þeim yrði öllum svarað nokkurn veginn. Um siðferðið og trúrækni í þeirri sveit, hvar maður býr, og á að skipta við aðra, mundi bezt að vera nokkuð fáorður, ekki óþægilega. Nógu margir skrifa eður varpa á það efun yfir höfuð. Síðari tíð sýnir ávöxtinn, hver hann verður. Hertugans sannyrði mættu mér í minni vera: Talir þú illt um þá, verður þú barinn, talir þú gott, þá lýgur þú. Yfir höfuð ætti landkort að gjörast eftir sveitanna útmálun; þó eru fáir færir fyrir þeirri útmálun, sem þyrfti. Forlátið, háttvirtu herrar, þessa ófullkomnu tilreynslu mína.
Reynivöllum, þann 1. marz 1840, – S. Sigurðsson.”

Írafell er næstum því inni á gafli í Kjósinni, svo að notuð sé samlíking, sem á upprunalega annars staðar heima en í landslaginu. Jörðin og sveitin öll hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan á dögum séra Sigurðar á Reynivöllum og Írafells-Móra er ekki lengur skammtað í askinn sinn eins og hverjum öðrum heimilismanni eða ætlað rúmflet til að liggja í, enda lætur hann nú ekki á sér kræla.
En þeir, sem aka um Kjósina á góðviðrisdegi ættu þó að renna augum til bæjarins undir fellinu, sem uppvakningurinn var kenndur við, og hafa jafnframt í huga sóknarlýsingu sálusorgarans á Reynivöllum til skilningsauka á Írafells-Móra og samtíð hans. Kjósin er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér.” —6G

Heimild:
-Alþýðublaðið, helgarblað; “Talir þú gott, þá lýgur þú”, 25.05.1969, bls. 9-10.

Meðalfellsvatn

Við Meðalfellsvatn í Kjós.

Sæfinnur

Raunasaga Sæfinns með sextán skó hefur þegar verið skráð.
Sæfinnur Hannesson, þekktastur undir nafninu Sæfinnur með sextán skó, var einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Hann var hinn ókrýndi konungur þeirrar stéttar þótt ekki hafi það verið glæsimennsSæfinnurka, sem hóf nafn hans upp úr hópi hinna nafnlausu og nafngetnu vatnsbera því hann þótti [einfaldlega] óglæsilegastur þeirra allra.
Sæfinnur var, sem fyrr sagði, einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Einleikar hans, geðprýði, ráðvendni, kurteisi og gott hjartalag, lyftu honum í minningunni á hærra stig en nokkrum öðrum úr hans stétt. Saga hans er þó átakanleg raunasaga, þótt samtíð hans hefði engan skilning á því. Það var ekki fyrr en hann hvarf af sjónarsviðinu og brunnurinn í Aðalstræti hafði verið byrgður, að augu manna opnuðust fyrir þeim mannlega harmleik sem saga hans geymir.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Sæfinnur fæddist að Björk í Flóa hinn 1. júní 1826, fyrsta barn hjónanna Guðlaugar Sæfinnsdóttur og Hannesar Guðmundssonar. Hann ólst upp í föðurhúsum til 18 ára aldurs. Samkvæmt lýsingu og frásögnum manna, sem mundu Sæfinn ungan, þótti hann bera af öðrum mönnum um gjörvuleik og líkamsfegurð. Hann var og talinn vel greindur og afburðamaður til allra verka. En það voru ekki einu kostir hans því geðgóður var hann og prúður í allri framgöngu, reglumaður og neytti hvorki áfengis né tóbaks og því hélt hann alla ævi. Hann hafði alist upp við lítil efni og einsett sér að brjótast upp úr fátæktinni og byrjaði því ungur að temja sér sparsemi og nýtni. Ekki var hann þó öfundsjúkur eða ágjarn á eigur annarra, heldur var frómlyndi hans og ráðvendni viðbrugðið.

Margar meyjar hafa eflaust litið þennan unga og efnilega mann hýru auga. Fjöllyndi átti hann þó ekki til, en var tilfinninganæmur og bar heitt hjarta í brjósti. Svo fór að hann felldi ástarhug til ungrar og glæsilegrar stúlku og hún játaði fyrir honum að hún elskaði hann líka og bundust þau ævilöngum trúnaðarheitum. Framtíðin virtist því brosa við björt og fögur og Sæfinnur lagði nú alla stund á að búa svo í haginn, að þau gætu stofnað eigið heimili. Ekki er vitað hversu lengi þessi sæli draumur um fullkomna hamingju stóð, en Sæfinnur fékk að reyna, “að svo er friður kvinna, þeirra er flátt hyggja, sem í byr óðum beiti stjórnlausu”.

Aðalstræti 1836

Aðalstræti 1836. Þangað sótti fólk vatn í Ingólfsbrunn.

Ekki er vitað hverjar orsakir lágu til þess að unnustan sleit tryggð við hann, en með þeirri harmastund urðu alger þáttaskil í lífi hans. Um þetta segir svo frá í frásögn Árna Óla í ritverkinu Reykjavík fyrri tíma:

“Hann tók sér þetta svo nærri, að hann varð ekki mönnum sinnandi. Myrkur grúfði yfir sál hans og lamaði hið innra líf. Og þegar hann vaknaði að lokum af þessari martröð, þá var hann orðinn annar maður. Hinn hrausti og gjörvulegi æskumaður var horfinn, en í hans stað kominn annar Sæfinnur, gamall um aldur fram og andlega bilaður. Hann var að vísu ekki geðveikur í hinni venjulegu merkingu þess orðs, en hann hafði glatað hinni heilbrigðu skynsemi og lifði nú og hrærðist í öðrum heimi en samtíðarmenn hans. Hann gat ekki trúað því, að hann hefði misst stúlkuna sína. Hann var alltaf viss um, að hún myndi koma aftur til sín og þá yrði allt gott aftur. Og þess vegna hélt hann áfram að safna til þess að geta tekið vel á móti henni og gert henni yndislegt heimili. En allt var það ímyndun ein og sjálfsblekking, sjúkleg sjálfsblekking. Að öðru leyti hafði hann ekki tapað gáfum sínum.”

Sæfinnur
Margt var af einkennilegu fólki í Reykjavík á ofanverðri nítjándu öld en þótti þó kasta tólfunum er Sæfinnur bættist í hópinn. Í fyrstu vildu götustrákar gera sér dælt við hann, erta hann og stríða eins og öðrum fáráðlingum í bænum, en gáfust fljótt upp á því. Sæfinnur skipti aldrei skapi og tók öllum hrekkjum og strákapörum með mesta rólyndi og jafnaðargeði, en hélt sínum háttum eins og ekkert hefði í skorist.

Sá var ljóður á ráði Sæfinns að hann vildi allt gera til að eignast peninga og notfærðu menn sér það til að henda gaman af honum. Sæfinni græddist með þessum hætti nokkuð fé og byrjaði einnig að draga björg í bú með öðrum hætti. Hann tíndi upp af götunum öll bréfsnifsi sem hann fann og druslur, glerbrot og flöskur. Og einatt mátti sjá hann niðri í fjöru þar sem hann rótaði í drasli og hirti, hvort heldur voru slitin föt eða skóræflar, skeljar, flöskur og jafnvel þara bar hann heim til sín. Þessari söfnun hélt hann alla ævi. En til hvers var hann að safna? Hjálmar Sigurðsson segir svo frá í blaðinu Íslandi 1898:

“Enn þráir hann bjarteygu, ljóshærðu meyna, og enn vonast hann eftir að hún muni koma á hverju andartaki og dveljast hjá sér það sem eftir er og aldrei framar við sig skilja. Hann hefur hvorki látið kemba né skera hár sitt frá því er hann sá hana síðast og hvorki kambar né eggverkfæri eiga að fá að snerta það fyrr en hún kemur með gullkambinn og gullskærin, því hún ein á hvert hár á höfði hans. Heima í höll sinni á hann stóra hrúgu af alls konar gersemum. Þar eru bjarnarfeldir og bjórskinn, safali og silkidúkar, pell og purpuri, gull og gimsteinar og alls konar kjörgripir og fágæti, sem nöfnum tjáir að nefna. Þessu hefur hann safnað saman um mörg ár, og sí og æ bætt við einhverju nýju á degi hverjum. Þetta má enginn hreyfa, enginn skoða, þangað til hún kemur, drottning hans, sem hann hefur vonast eftir á hverjum degi nú um mörg ár, því handa henni einni hefur hann safnað, utan á hana eina ætlar hann að hlaða öllum þessum gersemum.”….

Þessi var draumheimur sá, er Sæfinnur lifði og hrærðist í.

Sæfinnur

Reykjavík um 1900.

Með hverju árinu sem leið gerðist Sæfinnur ótrúlegri ásýndum. Enginn slíkur tötradúði hefur sézt hér í bæ fyrr né síðar. Maður, sem þekkti hann, lýsti honum þannig:

“Hann hefur síðan hött á höfði. Hárið hangir í flókaberði dökkjarpt niður um herðar, og skeggið niður á bringu, allt í eintómum flygsum. Hann er í þremur eða fjórum vestum, jafn mörgum brókum, jökkum, frökkum eða úlpum, með fyrnin öll af skóm á fótunum, sem allt er margslitið, marggötótt og margstagað og hanga tuskurnar alls staðar út úr flíkum þessum. Um mjóaleggina eru buxurnar margvafðar að fótunum með samanhnýttum snærisspottum.”

Sæfinnur

Vatnsberarnir Gvendur Vísir og Álfrún.

Sæfinnur bjó lengst af í svonefndu Glasgow-húsi og eftir að Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður að vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta, sem fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja allt draslið niður í sjó. Er menn höfðu verið að um stund datt spesía út úr tusku og er betur var að gáð kom í ljós að silfur og gull var víðs vegar um ruslabinginn. Mörg ár eftir þetta voru strákar að finna peninga í fjörunni á þeim stað er rusli Sæfinns var fleygt.

Þegar Sæfinnur kom heim að loknum vatnsburði þennan dag þótti honum að vonum köld aðkoman. Hann horfði nokkra stund á hervirkið og gekk svo þegjandi burt. Er sagt að hann hafi komið við í Fischersbúð raunamæddur mjög og haft á orði að einkennilegt réttlæti ríkti hér á landi, að eignir manna skyldu ekki vera friðhelgar. Meira sagði hann ekki, en fór niður í fjöru og fór að tína saman það, er hann náði af drasli sínu.

Í frásögn Árna Óla segir svo frá þessum atburði: “En þótt Sæfinnur segði fátt, var þetta annað stóra áfallið, er hann varð fyrir í lífinu. Áður hafði hann talið sig ríkan, en nú fannst honum hann vera orðinn öreigi. Heimurinn var verri en hann hafði haldið. Menn, sem hann hafði aldrei sagt eitt styggðaryrði við, né gert á hluta þeirra, höfðu ráðist inn í helgidóm hans, allsnægtabúrið, og hagað sér eins og og verstu ræningjar, sópað öllu burt og fleygt því í sjóinn. Hann talaði ekki um þetta við neinn, því að geðprýðin var hin sama og endranær. En eitthvað brast í sál hans – héðan af gat han ekki tekið eins vel á móti stúlkunni sinni og hann hafði ætlað. Og hann varð hrörlegri og rolulegri með hverjum deginum sem leið.”
Sæfinnur náði sér aldrei eftir þetta, heilsunni hnignaði smám saman og lést hann 5. febrúar 1896 tæplega sjötugur að aldri.

Neðst við Vesturgötuna á horni Aðalstrætis og Vesturgötu og upp að Garðastræti og einnig inn í Suðurgötu bjó um aldamótin 1900 fólk sem sumt hvert gekk nokkuð utan alfaraleiðar. Var eftirtektarvert fyrir ýmissa hluta sakir. Framkomu, klæðaburð og öðru sem daglegu líferni horfir. Oft átti þetta fólk við einhverskonar veikindi að stríða sem almenningur bar takmarkað skynbragð á. Þetta fólk vakti athygli. Stundum fundu rithöfundar og listamenn í því fyrirmyndir til verka sinna.

Þegar Halldór Laxnes skrifaði Brekkukotsannál mun hann hafa horft til fólks sem bjó þar sem nú er neðsti hluti Suðurgötu og tengdist einnig neðsta hluta Vesturgötunnar. Magnús í Melkoti er talin fyrirmynd að Birni í Brekkukoti en kona hans var ömmusystir Halldórs. Melkots er ekki getið í heimildum frá 1703 en finna má fyrstu heimildir um það á síðari hluta 18. aldar. Melkot var rifið árið 1915 og mun hafa verið búið þar í um 200 ár.

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur.

Að minnsta kosti ein önnur persóna í Brekkukotsannál mun eiga upptök sín neðst í gamla Vesturbænum á svæðinu á milli Hlíðarhúsa og Aðalstrætis. Í Dúkskoti var til húsa eldri maður hjá Jóni hafnsögumanni sem þar bjó. Að sögn hávaxinn en nokkuð lotinn í herðum með sítt grátt hár og gisið kragaskegg. Útlit hans vakti athygli því hann var jafnan klæddur hálfsíðum klæðisfrakka en ekki vaðmálsflík eins og algengast var með gylltum hnöppum. Var nokkuð keikur í göngulagi og ljóst að hann fann talsvert til sín. Þessi roskni maður kallaði sig jafnan Hogesen en hét Kristján Hákonarson. Hann kvaðst hafa fengið Hogesensnafnið og frakkann hjá útendum skipstjóra vegna starfs síns sem hafnsögumaður við að koma skipi hans heilu í höfn. Kristján mun jafnan hafa verið drjúgur yfir þessu afreki þótt óvíst megi telja að hann hafði unnið til þess á nokkurn hátt. Fremur var talið að erlendir menn hefði gefið honum frakkann og uppnefnd hann á dönsku til að draga dár að honum. Fullvíst er talið að Kristján sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Kaftein Hogesen í Brekkukotsannál. Í skáldlegum meðförum Laxness hafði Hogesen hlotið nokkra upphefð. Hann hafði verið leiðsögumaður danskra sjómælingamanna á Breiðafirði stað þangað sem hann hafði trúlega aldrei komið. Í Brekkukotsannál er einnig sagt frá því að Hogesen hafi farið á hverjum nýársdegi upp í Næpu á fund landshöfðingja til að fara með bænaskrá fyrir Íslands hönd og þiggja staup af brennivíni. Landshöfðingi á þá að hafa sagt við hann að hann væri nú eini íslenski sjóherinn.

Fleiri kynlegir kvistir bjuggu á þessum slóðum. Einn þeirra var Eiríkur Ólafsson oftast kallaður Eiríkur frá Brúnum. Hann bjó að Brúnum undir Eyjafjöllum í 23 ár en fór þá til Kaupmannahafnar. Eiríkur fór síðan til Utah í Bandaríkjunum árið 1881 og dvaldi þar í átta ár. Gerðist mormóni en gekk síðan af trúnni. Kom heim og dvaldist í Reykjavík til aldamótaársins 1900 er hann lést. Eiríkur er fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í bókinni Paradísarheimt. Þórbergur Þórðarson fjallaði einnig um ævi Eiríks í kaflanum Bókfell aldanna. Eiríkur hafði einu sinni verið íbúi í Bergshúsi. Bergshús var aðeins ofar í reykvísku byggðinni. Það stóð þar sem Bergstaðastræti og Skólavörðustígur mætast. Alexíus Árnason lögregluþjónn reisti húsið í kringum 1865 en það var lengst kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld. Þar var Þórbergur leigjandi um tíma og mun hafa kynnst Eiríki.

Ástarsorgin mikla
SæfinnurSæfinnur með sextán skó var þekktastur vatnsberanna, en bugaður af ástarsorg.
Fyrir daga vatnsveitu í Reykjavík var hópur sem nefndist vatnsberar. Þeir höfðu þann starfa að sækja vatn í svokallaða vatnspósta sem settir höfðu verið upp við brunna. Einn þeirra var nefndur Ingólfsbrunnur við Aðalstræti. Ingólfsbrunnur var á milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9 og var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið. Í liði vatnsberanna var margt sérkennilegt fólk karlar og konur. Sumt af þessu fólki var bæði vanheilt og þroskaskert og hafði ýmsa kæki, sem gerði það öðruvísi en aðra. Flestir vatnsberarnir voru nefndir styttum nöfnum og án föðurnafns, en höfðu í þess stað auknefni eða kenningarnöfn. Sæfinnur Hannesson eða Sæfinnur með sextán skó var einn þeirra þekktastur. Sæfinnur fæddist að Björk í Flóa hinn 1. júní 1826 og var fyrsta barn hjónanna Guðlaugar Sæfinnsdóttur og Hannesar Guðmundssonar. Hann ólst upp í föðurhúsum til 18 ára aldurs. Sæfinnur var sagður hafa verið venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit ef til vill enginn. Sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum. Sæfinnur gat ekki horfst í augu við staðreyndir og beið þess allt sitt líf að hún kæmi til baka. Hann fór til Reykjavíkur. Stundaði vatnsburð og safnaði að sér nokkru drasli. Viðurnefnið fékk hann af því að hann klæddist oft flíkun utan yfir aðrar flíkur og skó utan yfir skó. Sæfinnur bjó í útihúsi við Glasgow-verslunina þangað sem hann dró að ýmsa muni. Hann vildi vera viðbúinn ef ástin hans kæmi til baka og búa henni heimili. Þegar Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður af vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta. Halldór fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja bústang hans niður í sjó. Hann brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent í nærliggjandi fjöru 10. júlí 1890. Eftir það sást til hans í fjörunni við að reyna að tína saman leifar af dóti sínu enn með hugann við að unnustan myndi koma til hans. Sæfinnur lést árið 1896.

Loff Malakoff

Þórður Árnason

Þórður malakoff.

Þórður Árnason var einn af þeim kynlegu kvistum sem héldu til á mörkum Mið- og Vesturbæjarins. Hann var jafnan auðkenndur með heitinu Almala. Margar sögur gengu manna á meðal um afreksverk hans á blómaskeiði ævinnar. Hann var nokkuð ölkær og tíður gestur í þeirri veitingastofu gömlu húsanna við Aðalstræti sem almenningur kallaði Svínastíu. Hugmyndir um vínbann á Íslandi mun eiga rætur til drykkjusiða landans á þessari alræmdu krá. Árið 1904 ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að Læknaskólinn fengi að nota lík fátæklinga í bænum til krufninga í kennslu. Vandræði urðu þó fljótt að fá lík til krufningar. Fólk vildi ekki leyfa læknavísindunum að krukka í ástvini sína látna. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Dag nokkurn fréttist af Þórði dauðum í verslun í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann. En þá reis hann upp. Hafði bara verið brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólsen síðar rektor Menntaskólans kvæðið Loff Malakoff. Þórður dó 1897 og var krufinn í líkhúsinu. Fyrsta erindi kvæðis Björns er á þessa leið.

Þótt deyi aðrir dánumenn,
loff- Malakoff,
hann Þórður gamli þraukar enn.

Loff Malakoff – mala,
lifir enn hann Malakoff
þótt læknar vilji flensa’ í

Malakoff, koff, koff
Þá lifir Malakoff,
þá lifir Malakoff.

Kvæðið varð eins konar dægurlagavísa. Auknefni Þórðar breyttist í munni manna. Hann síðan nefndur: Þórður Malakoff. Kvæðið er með sama lagi og danska skopvísan: „Malabrock er död i Krigen”. Mun Malabrock þessi hafa verið pólskur eða rússneskur herforingi. Sagan segir að læknanemar hafi verið hátt á aðra viku að fást við skrokkinn af Þórði. Vínföng munu hafa verið borin upp í Líkhús og læknanemar héldu ræður yfir líkamspörtunum á allt að sjö tungumálum. Ingólfur Gíslason læknir segir í minningum sínum. „Við Jónas Kristjánsson kistulögðum svo leifar Þórðar Malakoff og vonum að hann rísi upp heill á himnum þótt hann væri nokkuð laus í böndunum er við sáum hann síðast.“

Þórður Árnason

Þórður Árnason.

Fólk af erlendum uppruna er ekki nýlunda hér á landi. Við Hlíðarhúsastíginn sem er neðsti hluti Vesturgötu var eitt af allra hrörlegustu kotunum í Vesturbænum og hét Helluland. Í þessu hreysi átti heima kona sem var kölluð Rómanía. Ekki er vitað til að hún hafi átt eiginmann eða börn. Hún var sögð nokkuð gild, lág vexti, dálítið lotin í herðum og með mikið hrafnsvart hár sem hélt litnum þrátt fyrir aldurinn. Augun voru móbrún og tinnuhvöss, og eins og gneistaði af þeim ef hún skipti skapi. Andlitið var kringluleitt og smáhrukkótt. Andlitslitur hennar var gulbrúnn. Hún gat tæpast verið af norrænu bergi brotin. Hún þótti skaphörð og óvægin í orðum og athöfnum. Margir trúðu því að Rómanía væri göldrótt og að bölbænir hennar yrðu að áhrínsorðum. Á þessum tíma kom önnur kona við og við í bæinn. Hún var kölluð Manga dauðablóð. Hún mun hafa verið á fimmtugsaldri með tinnusvart hár og skolbrúnt andlit. Ónorræn að útliti. Manga var í meðallagi á vöxt, beinvaxin og bar höfuðið hátt. Hún var skartgjörn. Hafði mikið dálæti á skærum litum, og notaði því marglitan höfuðklút, grænt slifsi og rauða svuntu. Hún mun hafa átt einhverja kunningja í bænum, sem hún heimsótti, því að aldrei sníkti hún í húsum eða á götum úti. Af lýsingum á þessum konum má draga þá ályktun að þær hafi verið af ættum rómafólks sem stundum hefur verið kallað sígaunar hér á landi. Rómanir hafa verið flökkuþjóð. Trúlega hafa menn af ættum rómana komið hingað til lands – hugsanlega með frönskum fiskiskipum og náð að kasta sæði í fróan veg á meðan skipin lágu við festu.

Í næstvestasta Hlíðarhúsabænum sem var kallaður Sund bjuggu saman Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling. Vísis nafnið fékk Guðmundur vegna þess að hann var um tíma aðstoðarmaður hjá Skotfélagi Reykjavíkur. Hann þótti seinlátur og lítt vinnugefinn. Álfrún var grannholda og fremur lág vexti, kvik á fæti og hin mesta áhugamanneskja í starfi sínu. Hún stundaði vatnsburð frá Prentsmiðjupóstinum til margra heimila í Miðbænum og Grjótaþorpinu. Hún naut stundum aðstoðar Guðmundar þegar annasamt var. Gekk oftast á undan honum og leit oft við til þess að hvetja hann áfram. Hún kunni illa seinagangi hans. Ekki er vitað hvert sambúðarform þeirra var en ekki voru það eintóm ástarorð sem hún talaði til Guðmundar. Þau dugðu þó illa því að maðurinn var hinn mesti letingi.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld og Gvendur dúllari.

Símon Dalaskáld svaraði yfirleitt fyrir sig þegar á hann var deilt. Hann freistaðist meira að segja til að svara eigin andlátsfregn.
Ýmsir fleiri sérlundaðir einstaklingar áttu sér dvalarstað í Rekjavík um lengri eða skemmri tíma. Einn þeirra var Símon Bjarnason. Hann tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali. Hann var fæddur 1844 í Blönduhlíð og lifði til 1916. Símon var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum. Hann giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt. Hann fékkst um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum. Hann fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var ekki umrenningur eða betlari. Miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Hann hafði ekki fastan gistingarstað í Reykjavík en átti þó víða innhlaup hjá fornum kunningjum, eftir því sem honum sjálfum sagðist frá. Margar sögur eru til af Símoni. Ein er sú að eitt sinn mun hann hafa komið að morgni dags í Landsprentsmiðjuna við Aðalstræti þræl timbraður. Hann sagðist hafa skotist inn í hlöðuna hjá blessuninni honum séra Þórhalli í Laufási. Oft minntist hann á góðan viðurgerning við sig á Laufásheimilinu. Þennan morgunn þótti prentsmiðjumönnum Símon vera með einkennilegan trefil um hálsinn og spurðu hann hvar hann hefði fengið hann. Sagðist hann hafa gripið hann einhvers staðar þar sem hann hefði komið um kvöldið því að sér hefði verið orðið kalt. Rakti hann svo þetta af hálsinum og kom þá í ljós að það voru kvenbuxur úr rauðu flúneli. Kveðskapur Símonar fór fyrir brjóstið á sumum. “Landhreinsun mikil má það teljast í bókmenntum vorum, ef að það er sönn fregn, er oss hefir munnlega borizt, að ið alræmda leirskáld Símon Bjarnarson, er kallaði sig sjálfur „Dala-skáld,“ sé látinn.“ Á þessum orðum hóf Jón Ólafsson ritstjóri dánarfregn sem hann birti í blaði sínu Skuld þann 1. nóvember 1877. Þess má geta að Símon var um þrítugt og snarlifandi þegar þessu orð voru rituð. Ritháttur sem þessi varð ekki til með samfélagsmiðlum nútímans.

Svo tóku vistheimilin við
Hér er aðeins minnst á fáa af því sérkennilega fólki sem tengdist horninu á mótum Aðalstrætis og Vesturgötu með einhverju móti. Þetta sýnir að sumt fólk hefur alltaf haft tilhneigingu af ýmsum ástæðum til þess að fara utan alfaraleiðar. Þegar byggðin tók á sig meira borgarform þótti ýmum nauðsynlegt að fjarlægja þetta fólk úr húsaskrífum og af götum. Þá hófst saga vistheimilanna sem enn þann dag í dag eru að berast fregnir af hvernig farið var með fólk. Ef til vill leið því ekkert verr frjálsu á ráfi um götur bæjarins.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/

Reykjavík

Reykjavík fyrrum.

Huldufólkssögur

Í “Huldufólkssögum – úrvali úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar”, segir m.a. um “Marbendil,

Mjer er í minni stundin,
þá marbendill hló;
blíð var baugahrundin,
[er bóndinn kom af sjó];
kysti hún laufalundinn,
lymskan undir bjó.
Sinn saklausan hundinn
sverðabaldur sló.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar – fornleifar.

Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt, sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar, og svo er það nefnt í Landnámu. Snemma bjó bóndi einn í Vogum, er sótti mjög sjó, enda er þar enn í dag eitthvert besta útræði á Suðurlandi. Einhvern dag reri bóndi, sem oftar, og er ekki í það sinn neitt sjerlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt, að hann kom í drátt þungan, og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar manns-líki, og innbyrti það. Það fann bóndi, að maður þessi var með lífi, og spurði hann, hvernig á honum stæði; en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði, hvað hann hefði verið að gera, þegar hann hefði ágoggast. Marbendill svaraði : »Jeg var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mjer nú niður aftur«. Bóndi kvað þess engan kost að sinni, »og skaltu með mjer vera«. Ekki töluðust þeir fleira við; enda varðist marbendill viðtals.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins Voga (Kvígurvoga). Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Þegar bónda þótti tími til, fór hann til lands og hafði marbendil með sjer, og segir ekki af ferðum þeirra, fyr en bóndi hafði búið um skip sitt, að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann.
Bóndi brást illa við því, og sló hundinn. Þá hló marbendill hið fyrsta sinn. Hjelt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið, og rasaði þar um þúfu eina, og blótaði henni; þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hjelt svo heim að bænum; kom þá kona hans út í móti honum, og fagnaði bónda blíðlega, og tók bóndinn vel blíðskap hennar. Þá hló marbendill hið þriðja sinn. Bóndi sagði þá við marbendil: »Nú hefir þú hlegið þrisvar sinnum, og er mjet forvitni á að vita, af hverju þú hlóst«. »Ekki geri jeg þess nokkurn kost«, sagði marbendill, »nemi þú lofir að flytja mig aftur á sama mið og þú dróst mig á«. Bóndi hjet honum því. Marbendill sagði: »Þá hló jeg fyrst, er þú slóst hund(inn) þinn, er kom og fagnaði þjer af einlægni. En þá hló jeg hið annað sinn, er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni; því þúfa sú er fjeþúfa, full af gullpeningum. Og enn hló jeg hið þriðja sinn, er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar; því hún er þjer fláráð og ótrú; muntu nú efna öll orð þín við mig, og flytja mig á mið það, er þú dróst mig á«. Bóndi mælti: »Tvo af þeim hlutum, er þú sagðir mjer, má jeg að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, trygð hundsins og trúleik konu minnar; en gera skal jeg raun á sannsögli þinni, hvort fje er fólgið í þúfunni, og ef svo reynist, er meiri von, að hitt sje satt hvorttveggja, enda mun jeg þá efna loforð mitt«.

Vogar

Vogar.

Bóndi fór síðan til, og gróf upp þúfuna, og fann þar fje mikið, eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar, og flutti marbendil á sama mið, sem hann hafði dregið hann á; en áður en bóndi ljet hann fyrir borð síga, mælti marbendill: »Vel hefir þú nú gert, bóndi, er þú skilar mjer móður minni heim aftur, og skal jeg að vísu endurgjalda það, ef þú kant til að gæta og nýta þjer. Vertu nú heill og sæll, bóndi«. Síðan ljet bóndi hann niður síga, og er marbendiil nú úr sögunni.
Það bar til litlu eftir þetta, að bónda var sagt, að 7 kýr sægráar að lit væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt, og þreif spýtukorn í hönd sjer, gekk svo þangað, sem kýrnar voru; en þær rásuðu mjög og voru óværar. —
Eftir því tók hann, að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja, að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því, er hann hafði í hendi sjer, framan á granirnar á einni kúnni, og gat náð henni síðan. En hinna misti hann, og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja, að kýr þessar hefði marbendill sent sjer í þakkar skyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefir verið hinn mesti dánumannsgripur, sem á Ísland hefir komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn, sem víða hefir dreifst um land, og er alt grátt að lit, og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja, að hann varð mesti auðnumaður alla æfi. Hann lengdi og nafn bygðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.

Heimild:
-Huldufólkssögur – úrval úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar, Ísafoldarprentsmiðja 1920, bls. 162-165.

https://ferlir.is/tudra/https://ferlir.is/arnarfellslabbi/

Keilir

Eftirfarandi er frásögn Sesselju Guðmundsdóttur í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 af umhverfi Keilis; einkennisfjalls Reykjanesskagans:
Afstapahraun-901“Umhverfis Keili eru fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar getum við líka séð fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Við beygjum af Reykjanesbrautinni rétt sunnan Kúagerðis við skilti sem vísar á Keili. Vegurinn (ca 9 km) liggur upp í gegnum úfið Afstapahraunið sem rann á 14. öld og þekur um 22 ferkm. Eftir að hafa ekið nokkra kílómetra sjáum við fjóra Rauðhóla á hægri hönd og norðaustan undir þeim stærsta er gömul selstaða frá Vatnsleysu.
Graenadyngja-901Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd. Þegar upp úr hrauninu kemur blasir við eitt og annað fallegt, svo sem Keilir (378 m) með sínar mjúku línur á aðra hönd en hvöss Trölladyngjan (375 m) á hina. Frá okkar sjónarhorni felur sig svo Grænadyngja (402 m) að baki systur sinnar. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina. Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Vigdísarvelli og mörgu öðru skoðunarverðu.
Hoskuldarvellir-901Við leggjum bílnum við norðvesturhorn vallanna, reimum skóna þétt og höldum nokkurn spöl upp með Oddafellinu að vestanverðu. Fyrr en varir komum við að stíg yfir Afstapahraunið sem heitir Höskuldarvallastígur (7–800 m). Eftir að úfnu hrauninu sleppir tekur við heiðarland allt að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Þegar upp er komið leitum við að „lognblettinum“ sem, svo til undantekningarlaust, má finna á þessum litla kolli þó svo eitthvað blási um og upp hlíðarnar. Þar má þröngt sitja á sléttum mel og nú er lag að Sog-901draga upp nestisboxin og brúsana. Af tindi Keilis sjáum við Reykjanesskagann breiða úr sér suður, austur og vestur úr. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær okkur liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Gufustrókarnir úr Svartsengisorkuverinu og Reykjaneshverunum stíga til lofts og utar rís Eldey úr hafi. Nær okkur, í sömu átt, er gamla dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysustrandar-byggð stendur á. Svo fylgjum við sjóndeildarhringnum áfram réttsælis og lítum flatt Miðnesið, síðan Faxaflóann og fallegan Snæfellsjökulinn og loks allan fjallgarðinn til norðurs og austurs, meira að segja Baulu (934 m) í Borgarfirði ef vel er að gáð. Þarna fyrir fótum okkar liggur svo Straumsvíkin og Reykjavíkin, og, og, …Við skrifum nöfnin okkar í gestabókina áður en við höldum niður af toppnum. Á fjallinu hefur verið gestabók síðan árið 1976 og sem dæmi um gestaganginn voru 116 nöfn skráð í bókina á einni viku nú í byrjun sumars.
Selsvellir-901Frá Keilisrótum þrömmum við svo um Þórustaðastíg fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Viðnorðurenda fellsins er hár og stórbrotinn hraunkantur sem gaman er að skoða á leið okkar austur og suður með fellinu. Þegar við komum á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla, en þeir liggja suður af Höskuldarvöllum eins og fyrr segir, förum við yfir hraunhaft sem mótað er af umferð hesta og manna. Stóri, fallegi, gígurinn heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Við hættum nú að fylgja Þórustaðastígnum sem liggur þarna þvert yfir á Selsvallafjall en göngum heldur suður að Selsvallaseli. Rústirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra eir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um Selsvellir-906500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli.
Við höldum nú til baka að Moshóli en í leiðinni lítum við aðeins á eldgamlar tóftir upp við fjallsræturnar, þær liggja fast norðan við syðri lækinn sem rennur um Selsvellina. Frá Moshóli göngum við svo yfir okkuð greiðfært hraun norður að Hvernum eina sem nú er nánast útdauður. Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, „…sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.“ Frá Hvernum eina stikum við svo yfir hraunið og upp í gígskreytta fjallshlíðina fyrir ofan nýju hitaveituborholuna og fylgjum Sogalæknum upp að Sogaseli sem liggur Hverinneini-901fast norðan við lækinn. Selrústirnar eru inni í mjög fallegum, stórum, gömlum gíg sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd og jafnvel úr Krýsuvík selstöðu og þar sjást margar kofatóftir og kví undir vestari hamraveggnum.
Frá Sogaselsgígnum fylgjum við svo læknum áfram inn í Sogin sem eru djúp gil sem aðgreina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til. Mikil litadýrð er í Sogunum og jarðhiti hefur verið mikil þar fyrrum og sést eima af enn. Frá Sogum gætum við svo gengið upp á Grænudyngju og litið ofan af henni yfir Móhálsadal, Djúpavatn og Sveifluháls en við kjósum heldur lægri veg og förum milli trolladyngja-901Dyngna um Söðul sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Þarna til vinstri handar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.“ Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. Nú göngum við á Eldborgarhrauninu um slóð sem liggur austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við höldum vestur með fellinu að norðurenda þess og þar göngum við skyndilega inn í ævintýralegt umhverfi, fyrst verða fyrir dökkir klettar og síðan göng beint inn í fjallið. Þetta er hin stórbrotna Lambafellsgjá og dulúð fellsins hvetur okkur til þess að ganga inn í risastórt anddyrið. Það er vel ratljóst inn í fellinu því langt fyrir ofan okkar þröngvar dagsljósið sér niður bólstrabergsveggina sem eru 20–25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1–3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en lambagja-901svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl) sem leiðir okkur upp úr „álfheimum“ og á lítinn grasblett sem gott er að hvílast á. Á meðan við maulum úr nestisboxunum skoðum við umhverfið frá þessum notalega stað á fellinu miðju.Þarna norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi „gatnakerfis“ um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krísuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli sem við ókum hjá á leiðinni hingað upp eftir. Endur fyrir löngu hefðum við getað séð hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Við ljúkum þessum skemmtilega hring um Keilis- og Dyngjusvæðið með því að ganga götuna til baka að Eldborginni sem vissulega man sinn fífil fegurri.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Umhverfis Keili, Sesselja Guðmundsdóttir, 11. ágúst 2001, bls. 10.

Keilir

Keilir.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um “Garða á Álftanesi” í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

“Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.
Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunshoitslækjar og Hvassahrauns. Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar. Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum. Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju.
Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg. Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna. En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.
Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk. Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.
Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson. Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.
Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.
2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis. Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Þorgautsdys

Í uppgraftarskýrslu um “Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi”, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Útdráttur

Dysjar hinn adæmdu

Forsíða “Dysja hinna dæmdu II”.

Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu “Dysjar hinna dæmdu”. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.

Forsaga rannsóknar
“Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.

Þorgautsdys

Þorgautsdys – loftmynd.

Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“
Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Þorgautsdys
Í grein sinni “Nokkrar Kópavogsminjar”, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).
Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.
Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.”

Niðurstaða
Þorgautsdys
“Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma. Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Mathiesen. Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni (mynd 3). Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.”
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að skilja hingað til].

Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.