Hóp

Í „Íslandssögu handa börnum„, eftir Jónas Jónsson frá árinu 1915, segir m.a. frá hofum og goðum:
Hofin — Svo nefndust guðahús Ásatrúarmanna. Sum voru aðalhof, sem heilar sveitir áttu sókn að; það voru miklar byggingar. Önnur voru heimilishof, er einstakir menn bygðu á bæjum sínum og höfðu til eigin afnota. Þau voru náttúrlega miklu minni en aðalhofin. Venjulega voru hofin bygð úr grjóti og torfi, með torfþaki, en þiljuð að innan eins og góð bæjarhús. Hverju hofi var skift í tvent: aðalhofið og goðastúkuna. Milli þeirra var þykkur veggur úr grjóti og torfi, og engar dyr á. Líklega hefir þéssi skilveggur ekki náð alveg upp að þaki, og mátt sjá yfir hann milli hofhlutanna. (Eyrbyggja 4-6. Fljótsdæla 110-112),
godatoft-321Goðastúkan — Hún var hið allrahelgasta í hofinu, og lítil i samanburði við aðalhofið. Framan við skilvegginn var dálítill stallur; á honum stóðu goðamyndirnar. Í miðju var það goðið, sem mest var virt, og hin út frá til beggja hliða. Á miðju gólfi var stallur, eins og altari, stundum einn stór steinn, en líklega oftar hlaðinn steinstöpull og hella lögð ofan á. Á stallinum lá helgur hringur, sem eiðar voru unnir við. Þann hring mátti goðinn bera á armlegg sér við hátíðleg tækifæri. Ennfremur stóð á stallinum dálítill bolli úr steini eða málmi. Hann hét hlautbolli. Í bollann var látið nokkuð af blóði fórnardýranna, en mestum hluta þess var helt niður utanhofs.
Goðin — Fornmenn gerðu myndir af guðunum, til að geta betur skilið eðli þeirra og átt skifti við þá. Goðamyndirnar voru gerðar úr tré, oftast á stærð við menska menn. Goðin voru klædd í góð föt, og prýdd með ýmsu skrauti úr gulli og silfri. Goðunum var sýnd hin mesta lotning, eins og þau væru sjálfir guðirnir. Enginn mátti ganga um goðastúkuna nema hofpresturinn, goðinn, eða vildarmenn hans, sem hann leyfði að koma þangað með sér. (Vatnsd. 43).
Veislusalurinn – Aðalhofið var veglegt hús, oft stærra en meðalkirkja, Nýlega hefir verið grafið í gamlar hofrústir á Hofstððum við Mývatn. Það hafði verið 36 m. á lengd og um 7 m. á breidd. Hofin þurftu að vera svona stór, af því að sóknarmenn komu þar saman nokkrum sinnum á ári við einskonar guðsþjónustu. Þá sátu gestirnir að veislu í aðalhofinu, eða veislusalnum. Hann var mjög svipaður stofu á höfðinglegu heimili: Útveggir þiljaðir, og stundum tjaldaðir að innan, pallar meðfram veggjunum, öndvegissúlur við sæti goðans, fastir bekkir til beggja handa; borð sett upp á pallskörina og þar framreiddur ágætur veislukostur. Á gólfinu miðju brunnu langeldar.“

Heimild:
-Íslandssaga handa börnum, Jónas Jónsson 1915, bls. 45-46.

Hof

Hof á Kjalarnesi og nágrenni – loftmynd.

Botnsdalur

Innst í Hvalfirði er Botnsvogur og inn af honum gengur Botnsdalur. Hann er stuttur, gróðursæll og skjólgóður. Tvö býli eru í dalnum, Litli-Botn og Stóri-Botn. Fyrir botni dalsins gnæfir Hvalfellið (852 m) en eftir honum liðast Botnsáin, tær og sakleysisleg og fellur í voginn. Hún kemur úr Hvalvatni, sem er austan við Hvalfell.
 BotnsdalurEndur fyrir löngu, er ísaldarjökullinn þakti landið og skriðjöklar hans surfu berggrunninn, myndaðist Hvalfjörðurinn og dalir þeir, sem að honum liggja. Á þeim tímum var eldvirkni landsins ekki minni en nú og mynduðust þá og mótuðust mörg þeirra fjalla, sem við þekkjum svo vel. Jökullinn hafði sorfið Botnsdalurinn lengri en hann er nú, en svo hófst eldgos undir jöklinum. Fjall hlóðst upp í miðjum dal og þegar jökullinn hvarf stóð það eftir. Bak við það var djúp dæld, sem síðar fylltist af vatni.
Fjallið heitir Hvalfell, vatnið Hvalvatn og úr því rennur Botnsá. Hún fellur vestur með Hvalvatni að norðanverðu og beygir svo til suðurs. Þar hefur hún grafið djúpt gljúfur í gljúp jarðlögin í hlíðar dalsins. Þessi gljúfur eru ein hin mestu og hrikalegustu í landinu. Þau eru stutt og dýpst, þar sem áin fellur fram af dalbrúninni í einum fossi. Hann heitir Glymur og er um 200 m hár. Glymsbrekkur eru með stefnu á vesturhorn Hvalfellsins. Fyrrum var fjölfarin leið um þessar slóðir úr Botnsdal yfir í Skorradal, en hún lagðist af með breyttum samgöngutækjum.

Skinnhúfuhellir

Beinkambur með hinu forna lagi, okar 2 með þynnum 2 á milli og standa eirnaglar 2 í gegn: okarnir eru 5,9 og 6,1 cm. að l. og 7-10 mm. að br. Br. kambsins er 3,5 cm. Þynnurnar eru báðar saman 4,5 cm. að lengd: er önnur endaþynna, nær ótent. Rákir 2 eru til prýðis eptir okunum langsetis. Virðist óslitinn og er vafasamt, hvort verið hafi nokkru sinni að gagni eða orðið fullgjör: er mjög óvandaður. Mun vera gamall, en alls ófúinn: líkur kömbum frá miðöldunum. Fanst í litlum helli norðan í Hvalfelli, sunnan við Hvalvatn: mun það vera Skinnhúfuhellir ( sbr. Árm.s, og Árb. 1881, 41). Eru bein mörg í hellinum og í hrúgu í brekku fyrir framan hann. Hefir hér að líkindum verið útilegumannabæli í fyrndinni.

Þótt Hvalvatnið sé ekki stórt að flatarmáli, geymir það mikinn vatnsforða því mesta dýpi þess er 160 m. Leiðin umhverfis Hvalvatn liggur með vatnsborðinu, er auðveld yfirferðar. Tveir litlir hellar eru á þeirri leið. Sá minni er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Norðaustan úr miðju Hvalfelli gengur klettahöfði fram að vatninu.Â Í honum er lítill og lélegur hellisskúti. Þar eru sýnilegar minjar um mannvistir því hlaðinn hefur verið grjótbálkur í hellinum og eitthvað hefur fundist af dýrabeinum á gólfinu. Hellirinn nefnist Arnesarhellir og er kenndur við Arnes Pálsson sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og var alræmdur þjófur. Er talið að hann hafi dvalið þar veturlangt í felum.
Hvalinn, sem öll þessi örnefni eru kennd við, er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í suttu máli er hún á þá leið að maður í álögum varð að hval og lá hann úti fyrir Hvalfirði, grandaði bátum og drekkti skipshöfnunum. Synir prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd drukknuðu af völdum hvalsins. Presturinn vissi lengra en nef hans náði. Með töfrabrögðum gat hann seitt hvalinn inn fjörðinn, upp Botnsá, upp gljúfrin miklu og inn í vatn. Þar sprakk skepnan. Fannst beinagrind hvalsins þar síðar. Við þennan hval er fjörðurinn, fellið og vatnið kennt.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Hin gamla þjóðleið frá Botnsdal í Hvalfirði til þingvalla er nefnd eftir Leggjabrjóti, illfærum urðarhálsi, sem liggur þvert á leið og var fyrrum hinn versti farartálmi. En eldra nafn á leiðinni var Botnsheiði. Leiðin er nú vörðuð að mestum hluta og ætti það að vera til styrktar í þoku og dimmviðri, Vegalengd er 12-13 km og
ca. 5-6 klst ganga ef farið er í rólegheitum.
 BotnsdalurBotnsdalurinn er stuttur, kjarrivaxinn dalur upp af Botnsvogi. Ísaldarjökullinn myndaði dalinn, svo og Hvalfjörð og alla þá dali og skorninga, sem að honum liggja. Í Landnámabók segir svo:
„Maður hét Ávangur írskur að kyni. Hann byggði fyrst í Botni. þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip og hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamar“ .
Klettahöfði við veginn, innst í voginum að sunnanverðu ber þetta nafn nú. Tveir bæir voru í dalnum Neðri eða Litlibotn og Efri eða Stóribotn. Á Neðrabotni bjó Geir fóstbróðir Harðar Grímkelssonar, sem frá eftir í Harðarsögu. þar bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn? Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur, Halldóru og Sveinbjörn sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna.

Litli-Botn

Litli-Botn – Howell 1900.

Annað skáld Jón Magnússon ólst einnig upp á Litlabotni. Upphaflega var Botnsdalur mun lengri, en síðla á ísöld, fyrir u.þ.b. 0.8 milljón arum, var gos undir jökli í miðjum dal og myndaðist þá Hvalfellið, sem rís fyrir enda dalsins (848 m y.s.). Í þessu gosi lokaðist fyrir dalbotninn og í kvosinni myndaðist Hvalvatn.
Í Stóra-Botni var vinsæll áningarstaður ferðamanna, meðan þjóðleiðin lá um Leggjabrjót til Þingvalla. Þar fæddist og ólst upp Jón Helgason rithöfundur og blaðamaður. Botnsá fellur fyrir neðan túnið og þar er göngubrú á henni. Þaðan liggur gamla gatan skáhallt upp brekkurnar í áttina að Botnssúlum.

Botnsdalur

Botnsdalur og nágrenni – kort.

Búskap var hætt á jörðinni laust eftir 1970. Hóf þá eigandi jarðarinnar ræktun barrtrjáa, sem blasa við augum í hlíðinni sunnan ár.
Hvalskarðsá kemur úr Hvalskarði, sem er á milli Hvalfells og Botnssúlna og fellur í Botnsá. Farvegur árinnar myndar smá fossa á leið sinni ofan hlíðina. Á einum eða tveimur stöðum í gilinu seytlar fram volgt vatn, gott til fótabaða.
Hvalvatn - Skinnhúfuhöfði t.h.Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og sést þaðan niður í Botnsdal. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld. Selstaða var í Botnsdal.
Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.

Hvalvatn

Hvalvatn – Hvalfell fjær.

Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Mirkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós.
Skógrækt hófst í landi Stórabotns á vegum eiganda jarðarinnar kringum 1965 og var plantað á þrem árum á annað hundrað þúsund trjáplöntum af ýmsum tegundum. Skógrækt ríkisins sá um framkvæmdina. Þá varð hlé á plöntun þar til árið 1980 er aftur var hafist handa og var á næstu árum plantað um 30 þúsund plöntum á vegum eigenda jarðarinnar. Öll hlíðin sunnan árinnar er í landi Stórabotns. Búskapur lagðist niður í Stórabotni 1982.

Heimildir m.a.:
-http://www.fi.is
-http://www.kjos.is
-MBL, 9. ágúst 1981.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.

Þingvellir

Í frétt á mbl.is þann 4. nóv. 2009 mátti lesa eftirfarandi frétt af manni er „Fann fjársjóð frá járnöld“ (á Norðurlöndunum er járnöldin talin ná frá 5. öld f.Kr. til upphafs víkingaaldar um miðja 8. öld e.Kr. (mismunandi þó eftir landssvæðum og óafmörkuð tímaskil):
Bronsaldargripir„Skoti sem ákvað að prófa málmleitartæki, fann í sinni fyrstu tilraun með tækið, fjársjóð frá járnöld. Umræddur fjársjóður, samanstendur af fjórum hálsmenum úr gulli og er sagður vera milljón punda virði, ríflega 200 milljóna íslenskra króna. Hálsmenin eru talin vera frá um fyrstu til þriðju öld fyrir Krist og eru merkasti fundur frá járnöld í Skotlandi.
David Booth sem fann fjársjóðinn í september segist í viðtalið við BBC í Skotlandi, hafa orðið agndofa við fundinn. „Ég gerði mér grein fyrir að þetta væru verðmætir og sjaldgæfir hlutir og þetta var það fyrsta sem ég hafði nokkurn tíma fundið, þannig að þetta var alveg ótrúlegt. Ég bara lagði bílnum, náði í málmleitartækið, valdi í hvaða átt ég vildi fara og um sjö skrefum seinna fann ég þetta. Þetta var það fyrsta sem ég fann.“
Booth segist hafa gert sér grein fyrir að hann hefði fundið gamla skartgripi, hann hefði bara ekki áttað sig á hversu gamlir þeir væru.
Skartgripirnir hafa nú verið afhjúpaðir í Þjóðminjasafni Skotlands í Edinborg. Samkvæmt skoskum lögum getur konungdæmið eitt gert kröfu til fornleifafunda í Skotlandi. Finnandi verður að tilkynna um slíkan fund til yfirvalda og á ekkert tilkall til fundarins. Verið er að meta fjársjóðinn og getur Booth átt von á fundarlaunum, jafnháum matinu.“
Í íslenskum Þjóðminjalögum, 2001 nr. 107 31. maí, segir í 16. Sverðgr.: „Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar“. Ákvæðið lýsir ákveðinni þröngsýni og því þarf að sjálfsögðu að breyta sbr. framangreinda frétt.
Taka skal fram til fróðleiks að steinöld var forveri bronsaldar, sem var forveri járnaldar. Steinöldin skiptist í fornsteinöld (~1.4 milljón – 10.000 ár síðan), miðsteinöld (~22.000 – 5.000 ár síðan) og nýsteinöld (~8.500 – 3.000 ár síðan).
Járnöld gekk síðan í garð um miðja 8. öld, en þó hafa fundist hér á landi gripir úr bronsi, s.s. bagall er fannst á Þingvöllum 1957 (sjá mynd hér að ofan) og er til sýnis á Þjóðminjasafninu. Bagallinn, sem er með áberandi einkennum Úrness- og Hringaríkisstíls, er talinn vera frá því á 11. öld.
(Þess ber að geta að einn FERLIRsfélaganna stundar um þessar mundir nám í „Fornleifafræði Norðurlanda“ við Háskóla Íslands.)

Heimild m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970 – Kristján Eldjárn – Bagall frá Þingvöllum, bls. 5-28.

Málmleitartæki

Málmleitartæki.

 

Hraun

Haakon Shetelig skrifaði í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 um „Íslenskar dysjar“ og fornleifar frá víkingaöld:
„Eftir frásögn Ara fróða var landið numið á árunum sextíu frá 870—930. Verða færð ýms rök að því, að tímatalið er ábyggilegt um þetta að öllu verulegu leyti, að fyrstu landnámin áttu sér stað á árunum 870—80, en að útflutningurinn varð mestur frá því um 900, og að árið 930, er kjörinn var hinn fyrsti lögsögumaður, er hið eðlilega lokaár landnámsaldarinnar. Íslendingar voru þá og nokkuð eftir það Ásatrúar, og fylgdu hinum fornu, heiðnu greftrunarsiðum, unz kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Heiðnar dysjaleifar á Íslandi geta því ekki, nema að eins sem undantekningar, verið eldri en frá því um 900 og alls ekki neinar verið neitt að ráði yngri en frá því um 1000.
thorkotlusdys-221Norskir fornfræðingar veittu því snemma athygli, að svo var þessu farið, og að nokkur stuðningur gæti orðið að því við niðurskipun norskra funda frá víkingaöldinni eftir aldri þeirra, og þetta atriði heldur ennþá fullu gildi sínu að sínu leyti, þótt vjer höfum nú á annan hátt öðlazt möguleika til nákvæmari tímatalsákvarðana um hinar ýmsu gerðir forngripa frá víkingaöldinni í Noregi. En fornleifafundirnir á Íslandi eru samt sem áður alveg sjerstaklega athyglisverðir frá almennu norrænu sjónarmiði sjeð einnig. Það er óvenjusjaldgæft, að vjer höfum tækifæri til að athuga ákveðinn flokk fornleifafunda með svo vissum tímatakmörkunum og jafnframt innan jafn fastákveðinna landamæra. Forngripirnir sjálfir og sömuleiðis það samband, sem þeir eru í við aðrar fornleifar í fundunum, geta veitt hjer mjög merkilegan fróðleik (það er ekki til neitt fornfræðilegt heildar yfirlit yfir fornleifafundi frá víkingaöld á Íslandi. Ingvald Undset gerði í bók sinni, Norske Oldsager i fremmede Museer, bls. 53, skrá yfir íslenzkar fornminjar í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (1878). Kr. Kálund gerði fullkomna skrá yfir dysjar og dysjaminjar i ritgerð sinni, Islands Fortidslævninger, í Aarb. f. n. Oldkh., 1882, og er sú skrá góður grundvöllur. Við það bættust svo einkum rannsóknir Daniels Bruuns 1898, sbr. Geografisk Tidsskrift XV, Kh. 1900, og framhald í Geogr. Tidsskr. XVII, Kh. 1904, og loks ritgerðin Dalvik-Fundet í Aarb. f. n. Oldkh. 1910. — Kálund skýrir svo frá, að 30—40 dysjafundir frá heiðni á Íslandi hafi verið kunnir 1882. Nú munu þeir varla vera fleiri en 100).
gislagata-221-dysAð sjálfsögðu eru til fjöldamargar dysjar frá heiðni á Íslandi, miklu fleiri en ætla mætti, er litið er yfir það safn af fornleifum, sem nú verður sjeð í safninu í Reykjavík. Þess skal getið hjer, að reglubundnar rannsóknir með uppgrefti hafa þa að eins verið framkvæmdar, er ástæður voru til, og mjög hógværlega farið í þær, og hins er einnig að minnast, að jarðræktin á Íslandi er ekki innifalin í því, að brjóta land og plægja akur, störf, sem í Noregi verða mjög drjúgum til þess að leiða í dagsins ljós fornleifar úr dysjum frá löngu liðnum tímum. Á Íslandi finnast fornminjar helzt við heimaverk af hendingu, þegar grafið er fyrir undirstöðum nýrra húsa. Annars finnast hinar fornu dysjar þar venjulega fyrir eins konar fyrirbrigði í náttúrunni, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland; það er þannig, að grassvörðurinn rifnar upp í roki og síðan blæs jarðvegurinn neðanundir smám saman burt með vindinum; beinaleifar og fornminjar koma þá fram til sýnis á yfirborðinu á eðlilegan hátt. Mjer hefir skilizt, að með reglubundnum rannsóknum mætti áreiðanlega gera ráð fyrir því, að auka mætti allmikið á tölu kunnra, íslenzkra dysjafunda frá víkingaöldinni og fylla enn betur yfirlitið yfir þær dysjaminjar og þær dysjar frá heiðni, sem til eru. Þetta síðast nefnda, um dysjarnar, er ekki hvað minnst áríðandi fyrir fornfræðilegar rannsóknir landsins, þar eð því fer vafalaust f jarri, að í öllum gröfum eða dysjum hafi verið fólgnar fornminjar með hinum framliðnu.
hraunsdys-221Greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa yfirleitt verið óbrotnir, og dysjar, sem hafi verið verulega auðugar að fornminjum, hafa verið fásjeðar í samanburði við það, sem hefir átt sjer stað í Noregi. Sá var siður á íslandi, hinn sami og vestanfjalls í Noregi, að menn voru dysjaðir heima við bæina, innan landamæra ættmenna sinna, en ekki í grafreitum, sameiginlegum fyrir stóran söfnuð.
Að ytra útliti eru dysjarnar frá heiðni ætíð óálitlegar. Grafirnar eru luktar litlum grjóthrúgum og grasþökum, og eru nefndar dysjar á Íslandi, en oft eru slíkar dysjar að eins lágar, steinlagðar hvirfingar, sem eru naumast hærri en svæðið umhverfis; eða grafirnar geta verið blátt áfram grafnar niður í jarðveginn undir flötu yfirborði Sams konar fyrirkomulag með öllum mögulegum tilbreytingum er einnig alþekkt í Noregi, en það, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland, er, að þar sjást engin minningarmörk, sem mikið ber á, engir stórir haugar, svo sem vjer getum að líta hvarvetna um land allt í Noregi frá víkingaöldinni, — suma furðulega mikla. Íslendingar hafa í því tilliti verið alveg lausir við allan metnað, og má segja, að hin einfalda, hógværlega gerð á dysjunum sje einkennandi þáttur í þessu nýja þjóðfjelagi þeirra allan fyrsta hlutann af lýðveldistímabilinu.
egilsdys-221Jafn tilbreytingarlaus var greftrunin sjálf. Líkin voru ætíð jörðuð óbrennd, svo sem einnig átti sjer stað, með mjög fáum undantekningum, í norrænu víkingabyggðunum á brezku eyjunum. Er hjer þannig enn um verulega frábrugðinn sið að ræða frá því, sem venja var til í Noregi; þar hölluðust menn mjög víða að líkbrennum alla tíð meðan heiðnir jarðarfararsiðir voru yfirleitt hafðir um hönd. Þeir, sem fengizt hafa við rannsóknir í fornfræði Íslands, hafa jafnan bent á þetta, hversu frábrugðnir greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa verið, og hafa menn helzt viljað leita ástæðunnar í því, hve erfitt hafi verið að afla brenniviðar á Íslandi. Ekki er sú ályktun alveg sannfærandi. Í þann tíð var trjágróður allmiklu meiri á landinu en á síðustu tímum. Vjer sjáum t. a. m., að rauðablástur var stundaður mjög mikið, en til þeirrar iðju þarf mikinn við. Það er því ekki líklegt, að Íslendingar hafi látið af líkbrennum, vegna þess, að þeir hafi viljað fara sparsamlega með skógarviðinn, hefði þessi siður, að brenna líkin, stuðzt við viðurkennda, siðferðislega kröfu, sem menn væru skyldugir að gegna fyrir hina framliðnu. öllu heldur verður að dæma um greftrunarsiðina á Íslandi með tilliti til þess, hversu til var hagað í þeim efnum í víkingabyggðunum á Skotlandi og Írlandi; þar var greftrun án líkbrennslu svo að kalla undantekningarlaus, svo sem þegar hefir verið tekið fram. Á Íslandi var því fylgt þeim sið í þessu, sem þegar var kominn á fyrir löngu í nýlendunum vestan hafs, og það sennilega helzt fyrir áhrif frá kristninni, og fluttist þaðan með vestrænum landnámsmönnum, svo sem eðlilegt má þykja.
Gröfin sjálf er hin einfaldasta að gerð, hvort heldur hún hefir verið gerð að öllu leyti neðan jarðar eða lukt með dys ofan jarðar, og oft sett umhverfis hana röð af steinum, en ekki haft neitt verulegt grafarhólf. Ekki verður bent á það, að fylgt hafi verið neinni fastri reglu um það, hversu grafir manna skyldu snúa eftir áttum. Líkið er oft þannig í gröfinni, að rjett hefir verið úr því; en þess kvað einnig vera ábyggileg dæmi á Íslandi, að líkin hafi verið jörðuð sitjandi. Skipsgrafir eru undantekningar; þótt þær þekkist.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, bls. 5-6.

Þórkötludys

Þórkötlusdys.

Bjarnastaðir

Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
„Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt ledurblaka-221við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Lönguhlíðahorn

Við fyrstu sýn virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum. Setur hann óneitanlega mikinn svip á Grámosi /Gamburmosilandið. Grámosinn (gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberja-lyng, sortulyng og beitilyng.
Grámosi eða gambur-mosi hefur hlotið tegundarheitið hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Þetta er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum. Við úthafsloftslag á snjóléttum svæðum verður hann einráður á allmörgum áratugum, og myndar samfelldar, mjúkar mosaþembur á 100 ára gömlum hraunum og eldri. Á snjóþyngri svæðum með landrænna loftslagi nær hann ekki að kveða niður keppinauta sína, sem þá verða stundum ráðandi í gróðurfari, einkum hraunbreyskja. Mosinn hverfur smám saman af yfiráðasvæðum sínum og skilur þá eftir jafrðveg fyrir aðrar plöntur. Þannig má sjá mosann enn hafa yfirráð í nýrri hraununum, en annar gróður hefur tekið yfir í þeim eldri.
Við öflun eldsneytis hér áður fyrr voru allir möguleikar gjörnýttir. Var safnað mosa, þangi, þönglum og þara til Grámosieldsneytis? Einnig sprekum, mor og smáreka. Kalviður og skógviður í skógi var notaður til eldsneytis ef um það var að ræða. Grámosinn var rifinn upp í hraununum og einkum notaður til eldiviðardrýginda?
Mosinn þekur víða hraunbreiður eins og lagt hafi verið yfir þær þykkt, mjúkt teppi. Í raun eru þetta óteljandi, smáar plöntur sem vaxa þétt hver upp að annarri. Mosar eru ólíkir öllum hinum plöntunum sem hér hafa verið upptaldar. Stundum er sagt að mosaplöntur séu „frumstæðar“ vegna þess að mosar uxu á jörðinni langt á undan blómplöntunum. Mosar mynda ekki blóm eða fræ en þeir fjölga sér og dreifa með örsmáum gróum. Mosar hafa ekki rætur, en sumir þó s.k. rætlinga, og aðeins agnarsmá laufblöð. Mosar eru til af fjölmörgum tegundum og eru oft, ásamt fléttunum, fyrstu lífverurnar sem ná að vaxa á grjóti eða hraunum og mynda þannig jarðveg fyrir aðrar plöntur.
Mosinn breytir litum. Þannig verður hann grænn í vætutíð, en grár í þurrkum.

Heimildir m.a.:
www.floraislands.is
www.natmus.is
www.nams.is
www.umhverfissvid.is

Grámosi

Básendar

Í Lesbók Morgunblaðsins árið a978 má lesa eftirfarandi um „Básendaför“ eftir sr. Gísli Brynjólfsson:
„Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur=rostungur) náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjölgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.
Basendar 1978Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. —
Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt“ varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.
basendar brunnur 221Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði að undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó kki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.
Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.
basendar 229Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum“. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum.
Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar.
basendar-230Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.“
Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið“. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja. Lýsing V.G.
basendar-231Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn, fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. — Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum. Lýsing M.Þ.
Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.“ — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stólsvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.
basendar-234Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vinnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.
Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.
Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga“ mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúðvíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki“ og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.
Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja. Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker:
Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för,
en betri samt en björg að sækja í Básenda vör.
Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað. Og allir kannast við kvæði Gríms; „Bátsenda þundarinn“ um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó“.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks:
Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt
en — skörungur var hann í gerð
og yfir rummungum reiddi hann hátt
réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 9 júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Kúadalur

Kúadalsstígur er líklega stystur stíga hér á landi, þ.e. ef farið er eftir örnefnalýsingum.
Í Kuadalur-2örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir Urriðavatnskot segir m.a.: „Suðsuðvestur af neðri enda Selgjár er holt vestan við Urriðakotshraun. Nefnist það Syðsta-Tjarnholt. Syðst á holtinu er stór klettur með grasþúfu uppi á. Hann nefnist Markasteinn og er á mörkum Urriðakots, Garðakirkjulands og Setbergs. Norður af Syðsta-Tjarnholti er Mið-Tjarnholt og Litla-Tjarnholt norðvestur af Mið-Tjarnholti. Tjarnholtin eru öll suðvestan hraunsins. Vestur af Litla-Tjarnholti er stór steinn og er annar steinn uppi á honum. Var það kallað Byrgi. Norðaustur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið. Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, Sprunguhóll. Vestur af Byrginu er grýttur hóll, Grjóthóll. Dalurinn niður af Grjóthól, en suðaustur af Urriðakotshálsi, sem áður var nefndur, heitir Urriðakotsdalur. Suðvestan hans er Hádegisholt, sem fyrr var nefnt.“
GrasteinsstigurLíklega nær Kúadalsstígur bæði í Kúadal um Urriðavatnskotsdali og upp úr honum inn á Urriðavatnskots-hraun. Þar sem hann liggur upp á hraunið og yfir hraunhaft inn á Flatahraun er einungis um einnar mínútu gönguleið að ræða. Hraunið er víðast hvar mjög úfið, en þarna er það bæði mjög slétt og því greiðfært. Þegar komið er inn á Flatahraun sameinast Kúadalsstígur Grásteinsstíg.
Í öðrum örnefnalýsingum er getið um „“Kúadali“ og „Kúadalastíg“. Þarf það ekki að koma á óvart því auðelt er að áætla Kúadalinn fleiri en einn ef tekið er mið af landslaginu umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing SP fyrir Urriðakot.

Urriðakot

Urriðakot.

 

Hraun

Eftirfarandi grein birtist í Þjóðviljanum árið 1964 og segir frá „Refagildru á Látrum við Bjargtanga„. Frásögnin er áhugaverð, ekki síst vegna lýsingar höfundar (sem er óþekktur) á grjótgildrunni sjálfri.

Grjótgildra„Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi f jarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
Refur„. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hann. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
refagildra - teikning 5016) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.“
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar. heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það. — Þegar þið athugið myndina getið þið nokkuð séð stærð gildrunnar með samanburði við filmupakkann sem er á hellunni framan við innganginn.“

Heimild:
Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Húsatóftir

Eftirfarandi um sögu refaveiða er úr riti Landverndar 1980. Höfundur er Páll Hersteinsson:

Ref-1

Refagildra við Húsatóftir.

Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum. Það er því ekki að undra, að þeir skyldu veiða tófur hér frá upphafi. Refskinn voru líka löggiltur gjaldmiðill og talin jafnvirði lambagæra á þjóðveldistímanum og lengur. Einnig ber snemma á því, að refurinn hafi verið álitinn skaðvaldur. Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir. Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári, ellegar greiða 2 álnir í mat fyrir fardaga. Það kallaðist dýratollur. Fjórar álnir skyldu greiðast í sekt ef ekki væri staðið í skilum, og átti helminginn hreppstjórinn, sem sótti skuldina, en hinn helmingurinn, ásamt dýratollinum, lagðist til að greiða kostnað við refaveiðar framvegis.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur. Sennilega hefur verið talsverður misbrestur á að bændur stunduðu refaveiðar sem til var ætlast samkvæmt lögum. A.m.k. hefur verið talið nauðsynlegt að minna bændur á þetta við uppsögn leiðarþinga, eins og fram kemur í Formálabók Jóns lögmanns Jónssonar frá árabilinu 1570-1581: ,,Item minni eg bændur á, að þeir sig vel til temji að fara að dýraveiðum, eftir því, sem lögréttumenn hafa áður samþykkt“.
DyrabogarBændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurunum sjálfum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra eftir konunglegri tilskipun frá árinu áður. Í meginatriðum er þar fylgt fyrrnefndum alþingissamþykktum, en hér eru samt nákvæm fyrirmæli um hvernig farið skuli að við refaveiðar, um laun tófufangara og um sektir, sé ekki farið eftir fyrirmælum.
Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á fyrrnefndum reglugerðum. Mikilvægast var, að dýratollur féll ekki lengur niður þótt bændur veiddu refi, en öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði. Þá var tollurinn hækkaður þannig að hann miðaðist við höfðatölu veturgamalla sauðkinda og eldri í ábyrgð hvers bónda. Að lokum var skýrt tekið fram, að hvorki andlegir nér veraldlegir embættismenn skyldu vera undanskildir dýratollinum.
Reglugerðir þessari stóðu óbreyttar að mestu næstu 50 árin. Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.

Ref

Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum. Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu. Árið 1949 verður sú breyting samkvæmt lögum, að allur kostnaður við eyðingu refa skiptist jafnt á milli sveitarsjóðs, sýslusjóðs og ríkissjóðs. Loks verður sú lagabreyting árið 1957, að refaeyðingarkostnaður fellur að 2/3 á ríkissjóð, 1/6 á sýslusjóð og 1/6 á sveitarsjóð.
Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Hvorug aðferðin var samt líkleg til árangurs til fækkunar refa. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar. Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót, en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum. Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransuaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita. Sumum fannst lítið gagn að kransaugunum, enda voru þau ekki mikið notuð fyrr en leið undir miðja 19. öld. Sennilega stendur sú aukning í sambandi við þá uppgvötun, að þau voru mun áhrifameiri ef mulið flöskugler var sett saman við þau til að særa meltingarveginn og auka þannig upptöku eitursins inn í líkamann.

Refs

Á 18. eða 19. öld voru einnig notaðar svokallaðir refaknettir. Það voru kjöt- eða mörbitar, sem inn í voru látin nálabrot eða þar til gerð agnjárn. Það voru tveir litlir pinnar, annar með gati í miðju og hinum smokkað þar í gegn svo að úr þeim myndast kross. Pinninn með gatinu í var um þumlungur á lengd, en hinn nokkuð styttri. Þessir pinnar festust í meltingarvegi dýrsins og drógu það til dauða.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar. Enn í dag er nokkuð algengt, að hundar drepi refi, þótt ekki séu þeir sérstaklega þjálfaðir til þess.

Grjótgildra-2

Refagildra ofan Staðarbergs.

Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekkert bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur. Kenninng Jóns hlaut talsvert fylgi og hefur haft fram á þennan dag. Að mínum dómi á hún fullan rétt á sér, þótt seint verði hún sönnuð. Víst er, að fá hrædýr nálgast dauðyfli, sem borin hafa verið út af mönnum. Af slíkri varkárni sem íslenski refurinn, þrátt fyrir 16 ára eitrunarbann.

Refagildra

Refagildra í Slokahrauni oafn við Hraun. Sigurður Gíslason sýnir Sesselju Guðmundsdóttir fjögurra dyra gildru.

Það er augljóst, að menn hafa talið, að hægt væri að fækka refum svo með eyðingarherferðum, að skaði af þeirra völdum yrði óverulegur. En slíkar herferðir hafa verið stundaðar af misjafnri kostagæfni eftir landshlutum. Til dæmis var dýratollur ekki alltaf innheimtur alls staðar, sennilega vegna þess að hann var þung byrði og árangur af melrakkaveiðum talinn lítill. Þess er getið að á ofanverðri 18. öld hafi verið lítil brögð um refatoll í Barðastrandarsýslu og að svo muni hafa verið víðar vestanlands.
Þar sem dýratollur var greiddur á annað borð var kvartað undan honum. Á árunum 1832-34 neita Sléttungar að samþykkja reglugerð um refaveiðar og dýratoll og bera því við, að ómögulegt sé að vinna greni til fulls á Melrakkasléttu. Það var því ekki von, að refum fækkaði. En jafnvel þótt lögum og reglugerðum hefði verið framfylgt er ólíklegt, að náðst hefði sá árangur, sem menn vonuðust eftir. Það sést í ljósi þess, að aðeins með því gífurlega átaki, sem gert hefur verið undanfarin 20 ár og með því móti, að ríkissjóður taki á sig megnið af kostnaðinum hefur refum tekið að fækka. Slíkt átak hefði verið óhugsandi án þess.“
Á Reykjanesskaga eru þekktar um 100 grjótgildrur til refaveiða.

Refagildra

Refagildra í Skollahrauni austan Ísólfsskála.

Skrifað hefur verið um refaveiðar og -gildrur í gegnum tíðina. Arnheiður Sigurðardóttir skrifar t.d. um „Nokkra málshætti úr málsháttasöfnum dr. Hallgríms Schevings:

Húsatóftir

Refagildra ofan Húsatófta.

„Í riti séra Björns Halldórssonar, Atla, er svohljóðandi kafli um refagildrur:… „allra minst kostar þig at gera þer Toougilldru, vidiijka og þu getr sied uppaa bruuninni her fyrir ofan Bæinn, enn huun er giord eptir Forskript nockurs gamalls Prests, sem gaf mer hana, og med þvij saa umbuuningr er nu flestum okendr her i grend vil eg segia þer hana“. B.H. Atli, bls. 152.
Síðan kemur nákvæm lýsing af gerð gildrunnar, og sést af því, að hún hefur í aðalatriðum líkzt húskofa. Orðalag kaflans, sem hér fer á undan, sýnir, að það hefur verið forn venja, orðin litt þekkt á 18. öld, að hafa refagildrur yfirbyggðar eða eins konar byrgi.
Sú hugsun, sem upphaflega hefur falizt í málshættinum, virðist mér þessi: gildran er í augum refsins hið sama og gistihúsið ferðamanninum, þ. e. hæli, sem hann kemur að á förnum vegi, þar sem skjól og ríkuleg máltíð biður hans.
Bl. hefur málsháttinn og þýðir hann þannig: „Saksen er for Ræven som Gildeshus“.“

Kristján Helgason, frá Dunkárbakka, skrifar um refagildrur í Lesbók Morgunbalaðsins árið 1961 undir yfirskriftinni „Refagildrur eða tófuhreiður“:
„Hér segir frá einkennilegri aðferð til þess að ginna grenlægjur og veiða hvolpana: Hér skal sagt frá refagildru eða gothreiðri, sem ég hefi allmikla reynslu af.

Refagildra

Dæmigerð refagildra – ÓSÁ.

Í nágrenni gamalla urðargrenja útbýr maður gren, með einum útgangi, og í það er látið hræ af tófu. Upp úr greninu innst, þar sem tófunni er ætlað að hreiðra um sig, er gerður strompur eða gluggi og honum síðan lokað með seigum jarðvegshaus og nokkuð þung hella lögð ofan á. Tófur leggja gjarnan í slíkt greni þegar á næsta vori. Áríðandi er að vitja um grenið á hæfilegum tíma. Þá er hægt að taka yrðlingana fyrirhafnarlaust upp um opið, og er það eitthvað annað en ná yrðlingunum úr urðargrenjum. Og þessu fylgir einnig sá kostur, að hægt er að vinna grenin áður en tófan er byrjuð að leggjast á lambfé.
Einu sinni þegar ég ætlaði að taka yrðlinga, greip ég í bakið á grenlægjunni, sem lá á þeim. Þá varð mér ljóst, að auðvelt er að hafa þarna þann útbúnað, að grenlægjan náist með yrðlingunum. Í eitt slíkt gren, sem ég bjó til á þennan hátt, hefir tófan gotið 9 sinnum og allir yrðlingar náðst.
Þótt ég telji það hafa mikla þýðingu að ganga vel frá þessum grenjum og hafa munnann vel falinn, þá tel ég samt að tófuhræið eigi mestan hátt í að hæna grenlægjur að þeim. -Kristján Helgason, frá Dunkárbakka.“

Í skrifum GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“,  í Vestfirska fréttablaðinu árið 1994 segir m.a.:
„Strax og kom yfir ána gat að líta litlar hleðslur á hverju holti. Minntu þessar hleðslur á hrundar vörður og hugði ég svo vera. Þegar svo þessar hleðslur voru skoðaðar nánar kom í ljós að þarna var um ótölulegan fjölda refagildra að ræða. Hleðslan er þannig uppbyggð, að í miðjunni er holrúm sem er nægjanlega stórt fyrir heimskautarefinn, sem er sama tegund og tófan á Íslandi, að komast inn í. Opið er inn í holrúmið og þar er agn, oft lítill kjöt- eða spikbiti. Agnið er fest við stein og þegar refurinn togar í það hrynur öll hleðslan yfir dýrið og drepur það. Er þetta mjög hugvitslega hlaðið. Svona refagildra er einnig rétt hjá Hvallátrum, eða undir Brunnanúp, rétt norðan við Bjargtanga á Íslandi. Virðist því þessi gerð af refagildrum einnig hafa verið notuð til forna á Íslandi. Eina veðrið sem við höfðum af ref var það að á nokkrum stöðum sást refaskítur og var hann auðþekktur því hann er eins á Íslandi og Grænlandi.“

Refagildra

Refagildra á Selatöngum.

Erik Knatterud segir lesendum Mbl frá lífinu á hjara veraldar, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“ árið 1965. Þar getur hann um refagildrur:
„Dýralífið hér er fátæklegt miðað við það, sem var á dögum Hollendinga hér. Nú eru hér aðeins nokkrir heimskautsrefir og mávar, en allmikið er þó af hinum síðasttöldu. Einstaka sinnum má þó sjá hval eða sel, en ísbirnir sjást hér mjög sjaldan. En um alla eyna getur að líta gamlar refagildrur, rústir veiðikofa, og hvalbein á víð og dreif kringum Fuijama norðurslóða, hinar gömlu stöðvar Hollendinga hér. Frá því um 1600 og fram eftir öldum var nóg af hvölum, selum, rostungum og ísbjörnum meðfram ströndum Jan Mayens. Nú er stunduð áhugamannafornleifafræði í hinum gömlu bústöðum Hollendinga. Er það einkum í Rostungavík, sem fornleifar hafa fundizt, og hefur þeim verið komið fyrir í gömlum varðskúr
frá stríðsárunum.“
Sjá MYNDIR af refagildrum á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Úr riti Landverndar, nr. 7 (1980) – VILLT SPENDÝR : Saga refaveiða, höfundur: Páll Hersteinsson, bls. 70-73.
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1957), Arnheiður Sigurðardóttir; Nokkrir málshættir úr málsháttasöfnum dr. Hallgíms Scheving, bls. 113-114.
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (23.04.1961), Kristján Helgason frá Dunkárbakka, Refagildrur eða tófuhreiður, bls. 236.
-Vestfirska fréttablaðið – 33. tölublað (31.08.1994), GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“, bls. 7.
-Morgunblaðið – 246. tölublað (28.10.1965), Erik Knatterud, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“, bls. 17.

Hraun

Refagildra.